Menningar-Bakki * Viðhalda og efla þjóðlega menningararfleið til sjávar og sveita*
-------- Alþýðuhúsið á Eyrarbakka - Vinir alþýðunnar - Á undan sinni framtíð --- "Stærra í hugum okkar en við sjálfir gerum okkur grein fyrir" ---

25.08.2019 09:39

Merkir Íslendingar - Sigurður Jónsson

 

Sigurður Jónsson á Arnarvatni (1878 - 1949).

 

 

Merkir Íslendingar - Sigurður Jónsson

 

á Arnarvatni

 

 

Sigurður Jónsson, skáld og bóndi á Arnarvatni í Mývatnssveit, fæddist 25. ágúst 1878.

Hann var sonur hins ágæta alþýðuskálds, Jóns Hinrikssonar, bónda á Helluvaði í Mývatnssveit, af ætt Jón harðabónda í Mörk í Laxárdal, ættföður Harðabóndaættar, og Sigríðar Jónsdóttur frá Arnarvatni. 

 

Sigurður var hálfbróðir Jóns, alþm. í Múla, föður Árna, alþm. og ritstjóra frá Múla, föður Jóns Múla Árnasonar, tónskálds, djassara og útvarpsmanns, og Jónasar Árnasonar, alþm. og rithöfundar.

 

Hálfsystir Sigurðar var Sigríður, langamma Sveins Skorra Höskuldssonar prófessors og íslenskufræðings.Fyrri kona (1903 - 1916) Sigurðar var Málfríður Sigurðardóttir á Arnarvatni sem dó ung frá sex börnum þeirra hjóna.

 

Seinni kona (1918) Sigurðar á Arnarvatni var Sólveig Hólmfríður, af Reykjahlíðarætt og Skútustaðaætt, dóttir Péturs, alþm. og ráðherra, sem var bróðir Kristjáns háyfirdómara sem varð þriðji ráðherra Íslands. Pétur var sonur Jóns Sigurðssonar, alþingisforseta á Gautlöndum.

 

Meðal barna Sigurðar og Sólveigar Hólmfríðar, sem voru fimm, er Málfríður, bókavörður og fyrrv. alþm.

 

Sigurður lauk gagnfræðaprófi frá Möðruvallaskóla 1899, hóf búskap á Arnarvatni 1902 og var þar bóndi allan sinn starfsferil.

 

Sigurður sendi frá sér ljóðabækurnar:

Upp til fjalla, 1937,

og

Blessuð sértu sveitin mín, 1945.

 

Seinni bókin heitir eftir þekktasta ljóði Sigurðar sem er óður til sveitar hans. Ljóðið varð mjög vinsælt á sínum tíma og mikið sungið um árabil við fallegt lag séra Bjarna Þorsteinssonar á Siglufirði. Það hefur oft verið nefnt þjóðsöngur íslenskra sveita og jafnvel komið til álita í umræðum manna á meðal sem þjóðsöngur. Lagið og ljóðið hafa haldið vel sínum vinsældum sem hafa fremur aukist í seinni tíð fremur en dalað. Það heyrist t.a.m. oft sungið við útfarir.

 

Vinur og sveitungi Sigurðar var Jón Stefánsson (Þorgils gjallandi) og orti Sigurður um hann ágætt erfiljóð.

 

Sjálfur lést Sigurður 24. febrúar 1949. 


Sjá enn frekar á þessari slóð:

Æviminning Sigurðar á Arnarvatni eftir Jón Sigurðsson í Ystafelli, Samvinnan, 6. tbl., 43. árg.,1949, bls. 6

 

 


 

 Blessuð sértu sveitin mín


Fjalladrottning, móðir mín! 
mér svo kær og hjartabundin, 
sæll ég bý við brjóstin þín, 
blessuð aldna fóstra mín. 
Hér á andinn óðul sín
öll, sem verða á jörðu fundin. 
Fjalladrottning, móðir mín, 
mér svo kær og hjartabundin. 

Blessuð sértu, sveitin mín, 
sumar, vetur, ár og daga. 
Engið, fjöllin, áin þín, 
yndislega sveitin mín, 
heilla mig og heim til sín
huga minn úr fjarlægð draga. 
Blessuð sértu, sveitin mín, 
sumar, vetur, ár og daga. 

Allt, sem mest ég unni og ann, 
er í þínum faðmi bundið. 
Allt það, sem ég fegurst fann, 
fyrir berst og heitast ann, 
allt, sem gert fékk úr mér mann
og til starfa kröftum hrundið, 
allt, sem mest ég unni og ann, 
er í þínum faðmi bundið. 

Fagra, dýra móðir mín, 
minnar vöggu griðastaður, 
þegar lífsins dagur dvín, 
dýra, kæra fóstra mín, 
búðu um mig við brjóstin þín. 
Bý ég þar um eilífð glaður. 
Fagra, dýra móðir mín, 
minnar vöggu griðastaður.

 

 

Sigurður Jónsson
á ArnarvatniSkráð af Menninga-Bakki.