Menningar-Bakki * Viðhalda og efla þjóðlega menningararfleið til sjávar og sveita*
-------- Alþýðuhúsið á Eyrarbakka - Vinir alþýðunnar - Á undan sinni framtíð --- "Stærra í hugum okkar en við sjálfir gerum okkur grein fyrir" ---

06.09.2019 18:13

Vel í sveit sett

 

 

 

Vel í sveit sett

 

Kristín Þórðardóttir,

 

sýslumaður á Suðurlandi – 40 ára

 

 

Kristín Þórðardóttir er fædd 6. september 1979 í Reykjavík en sleit barnsskónum á Eyrarbakka, þar sem foreldrar hennar ráku verslun og síðar útgerð. „Áhugi á hestum blundaði alltaf í föður mínum frá hans fyrra lífi í Vestmannaeyjum og stunduðum við feðgin saman hestamennsku af kappi, fyrst á Eyrarbakka, en þegar áhuginn tók öll völd festi fjölskyldan kaup á jörð í Hvolhreppi hinum forna og hóf hrossarækt í smáum stíl sem kennd er við bæinn Lynghaga.“

 

Kristín stundaði nám við elsta starfandi barnaskóla á landinu, Barnaskólann á Eyrarbakka, og hélt að því loknu til Reykjavíkur og lagði stund á nám við Menntaskólann í Reykjavík. Hún lauk embættisprófi í lögfræði frá Háskóla Íslands 24.6. 2006.

 

Með námi stundaði Kristín hestamennsku og vann hefðbundin sumarstörf á Hvolsvelli, við kjötvinnslu SS og í Húsasmiðjunni, en sneri sér síðar að störfum tengdum lögfræðinni. Árið 2005 varð hún fulltrúi í afleysingum við embætti Sýslumanns á Hvolsvelli og þá varð ekki aftur snúið.

Kristín starfaði í sveitarstjórn Rangárþings eystra frá árinu 2010 þar til hún varð settur sýslumaður á Suðurlandi 1.5. 2017. Kristín var skipuð sýslumaður á Suðurlandi þann 1.8. 2018. „Það var lærdómsríkur tími að starfa í sveitarstjórn og mér var sýnt traust með kjöri mínu, en það fór auðvitað ekki saman að halda áfram þar og vera sýslumaður. Hins vegar hefur reynslan úr sveitarstjórn komið að góðum notum enda er sýslumanni nauðsynlegt að vera í góðum tengslum við stjórnendur sveitarfélaga í umdæminu.“ Kristín gegnir nú formennsku í Sýslumannaráði, sem er samstarfsnefnd sýslumanna og dómsmálaráðuneytisins. Auk þess er hún settur sýslumaður í Vestmannaeyjum. 

 

Helstu áhugamál Kristínar eru hestamennska, tónlist og menning í hinum víðasta skilningi. „Við mæðgurnar erum ennþá með hrossarækt í Lynghaga, en við fáum eitt til tvö folöld á ári svo við erum ekki stórtækar í þessu. Ég spila á píanó, lauk námi á fjórða stigi og gríp í hljóðfærið af og til, en framfarir hafa heldur látið á sér standa.“ Eitt er það áhugamál sem hefur yfirtekið frítíma fjölskyldunnar undanfarin ár og það er fótbolti. Drengirnir Þórður Kalman og Hjalti Kiljan æfa með Knattspyrnufélagi Rangæinga (KFR) og sækja öll mót og leiki sem völ er á. „Í sumar var að auki haldið á Unglingalandsmót á Höfn í Hornafirði og er stefnan að sækja þær frábæru samkomur áfram.“

 

Fjölskylda

 

Sambýlismaður Kristínar er Friðrik Erlingsson, f. 4.3. 1962, rithöfundur og skáld. Foreldrar hans voru Katrín Guðjónsdóttir, f. 27.3. 1935, d. 2.3. 1996, gítarkennari og ballettdansari í Reykjavík, og Erlingur Gíslason, f. 13.3. 1933, d. 8.3. 2016, leikari í Reykjavík. Þau skildu.

 

Börn Kristínar og Friðriks eru Þórður Kalman Friðriksson, f. 30.10. 2008, og Hjalti Kiljan Friðriksson, f. 5.10. 2012. Stjúpsonur Kristínar og sonur Friðriks er Patrekur Kári Friðriksson, f. 13.6. 2006.

Hálfsystkini Kristínar eru Guðrún Hulda Ólafsdóttir, f. 19.9. 1971, fasteignasali og lögmaður, sammæðra, og systur Kristínar samfeðra eru Jóna Sigurbjörg Þórðardóttir, f. 16.1. 1947, búsett í Reykjavík; Ásdís Þórðardóttir, f. 2.1. 1948, d. 7.7. 1991, flugfreyja, síðar lögg. fasteignasali í Garðabæ; Ingibjörg Þórðardóttir, f. 19.3. 1955, lögg. fasteignasali í Reykjavík; og Þuríður Þórðardóttir, f. 9.5. 1963, hóteleigandi í Austurríki og á Akureyri.

 

Foreldrar Kristínar: Þórður S. Þórðarson, f. 19.3. 1925, d. 24.9. 1994, útgerðarmaður og rakarameistari í Vestmannaeyjum, og Ingibjörg Jóhannesdóttir, f. 5.10. 1947, fyrrverandi kennari, útgerðarmaður og bóndi. Þau gengu í hjúskap á aðfangadag 1979. Ingibjörg er búsett á Hvolsvelli.

 

 


 

Morgunblaðið föstudagurinn 6. september 2019.Skráð af Menningar-Bakki.