Menningar-Bakki * Viðhalda og efla þjóðlega menningararfleið til sjávar og sveita*
-------- Alþýðuhúsið á Eyrarbakka - Vinir alþýðunnar - Á undan sinni framtíð --- "Stærra í hugum okkar en við sjálfir gerum okkur grein fyrir" ---

26.09.2019 20:04

Það blundar í mér húsmóðir

 

 
 
 
 
 
 

Sunnlendingur vikunnar:

 

Það blundar í mér húsmóðir

 

 

Næstkomandi laugardag 28. september 2019, verður kvikmyndahátíðin BRIM haldin á Eyrarbakka. 

Kvikmyndirnar á hátíðinni eiga það allar sameiginlegt að fjalla um plastmengun og áhrif plasts á fólk og náttúruna. Guðmundur Ármann Pétursson fékk hugmyndina að hátíðinni í kollinn og losnaði ekki almennilega við hana, þannig að hann hrinti hátíðinni í framkvæmd.

 

Fullt nafn: Guðmundur Ármann Pétursson.
 

Fæðingardagur, ár og staður:  9. maí 1969 í Reykjavík.
 

Fjölskylduhagir: Er í sambúð með Birnu Ásbjörnsdóttur. Börnin eru Auðbjörg Helga, Embla Líf og Nói Sær.
 

Menntun: Rekstrarfræðingur, biodynamískur landbúnaður og umhverfisfræðingur.
 

Atvinna: Nýsköpun og verkefnavinna.
 

Besta bók sem þú hefur lesið: Ég geri mér far um að lesa reglulega bækur sem eru í mótsögn við skoðanir mínar. Þær bækur enda oft með því að verða mjög eftirminnilegar.   En svo á ég mína uppáhalds höfunda frekar en uppáhalds bækur.
 

Uppáhalds sjónvarpsþáttur: Ég er með “soft spot” fyrir bresku krúnunni. Þættirnir The Crown á Netflix eru frábærir og ég er að bíða eftir næstu þáttaröð.
 

Hvaða bíómynd getur þú horft á aftur og aftur: Ég get horft aftur og aftur á góða grínmynd. Kostulegur aulahúmor er alveg dásamlegur, t.d. Bleiki PardusinnPure Luck, breskur húmor eins og Johnny English og fleiri góðar.
 

Te eða kaffi: Kaffi, þannig byrjar einfaldlega dagurinn.
 

Uppáhalds árstími: Ég elska árstíðir, að finna hvert tímabil ársins og að upplifa breytinguna, upphafið og endalokin.
 

Besta líkamsræktin: Eitt sinn var það skokk en með hækkandi aldri hefur það þróast meira í göngutúra…
 

Hvaða rétt ertu bestur að elda: Konan mín er algjörlega frábær kokkur, þannig að ég stíg ávallt til hliðar ef nokkur kostur. Ég á þó góða spretti á grillinu og gef það ekki eftir.
 

Við hvað ertu hræddur: Ég er enginn sérstakur áhugamaður um mýs, en hef þó róast nokkuð gagnvart þeim með árunum.
 

Klukkan hvað ferðu á fætur: Á fætur kl. 7.
 

Hvað gerir þú til að slaka á: Fara í göngutúr, lesa góða bók, hlusta á hafið og að vera úti í náttúrunni.
 

Hvað finnst þér vanmetið: Ástin, ég held að það sé ekkert mikilvægara en að elska. Lífið, fólkið, dýrin, náttúruna og það sem er þessa heims. Ef við elskum þá tökum við réttar ákvarðanir.
 

En ofmetið: Arðsemi.
 

Hvaða lag kemur þér alltaf í stuð: Ég hef alltaf verið veikur fyrir Springsteen og hans lögum, svo kemur Cohen mér alltaf í gott skap. Klassík tónlist, s.s. Pavarotti og aðrir góðir tenórar á góðum styrk gera daginn betri, Mozart og Vivaldi færa mig á dásamlegan stað…
 

Besta lyktin: Lyktin af vorinu, þegar allt er að opnast og fæðast á ný.
 

Bað eða sturta: Oftar er það sturtan, en baðið er betra.
 

Leiðinlegasta húsverkið: Það blundar í mér húsmóðir, ég hef lúmskt gaman af húsverkum.
 

Besta ráð sem þér hefur verið gefið: Að sjá samhengi hlutanna í náttúrunni.
 

Nátthrafn eða morgunhani: Ég er að reyna að laga þetta, sem gengur ekki vel. En mér finnst svakalega gott að vinna á kvöldin.
 

Fallegasti staður sem þú hefur komið á: Elskulegur Eyrarbakki á sér fáa líka.
 

Hvað fer mest í taugarnar á þér: Hroki og óheiðaleiki, því það er ávallt val.
 

Neyðarlegasta atvik sem þú hefur lent í: Þegar ég var á nærbuxum einum fata á klósettinu á Broadway um árið á meðan farið var með fötin mín út, þannig að félagi minn sem ekki hafði komist inn út af reglum um klæðaburð fór í fötin mín til að sleppa inn. Á meðan beið ég á klósettinu í nærbuxum og skóm einum fata á meðan tíminn leið (sem mér fannst endalaus). Hræddist það mjög að það stefndi í mjög neyðarlega uppákomu, en þetta rétt slapp!
 

Hvað ætlaðir þú að verða þegar þú yrðir stór: Bakari, kokkur, bóndi og bisness-maður.
 

Fyndnasta manneskja þú veist um: Sonur minn, hann getur fengið mig til að gráta af hlátri. Ég held reyndar að hann geti það með hvern sem er.
 

Ef þú fengir að vera einhver annar í einn dag hver þá: Ég myndi vilja vera Donald Trump. Myndi nota tækifærið og segja af mér embætti. Ég held að fátt sé mikilvægara í dag en að koma honum frá.
 

Hvaða samfélagsmiðil notar þú mest: Facebook og Instagram nýti ég, reyndar meira en ég ætla mér, en er sem er.
 

Ef þú værir alvaldur í einn dag: Þá myndi ég gefa það út að öll „kerfi“ eigi að hugsa og þróa upp á nýtt og óbundið af því sem er í dag. Menntakerfi, heilbrigðiskerfi, stjórnmálakerfi, skattakerfi, fjármálakerfi o.fl. Kerfin okkar þarf að þróa upp á nýtt, þau batna ekki með plástrum.
 

Eitthvað sem fæstir vita um þig: Að ég æfði og keppti í amerísku wrestling þegar ég bjó í USA og var bara asskoti góður.
 

Mesta afrek í lífinu: Að hafa náð í konuna mína. Hún er grundvöllur þess besta sem ég hef afrekað.
 

Ef þú mættir ferðast fram eða aftur í tímann, hvert myndir þú þá fara: Ég er óskaplega sáttur í nútíðinni, en ég myndi nú samt nýta tækifærið til að svala forvitni minni. Ég hef alltaf verið forvitinn um Ísland fyrir landnám. Tíma papa og annara sem dvöldu á Íslandi áður en land byggðist. Það væri geggjað að geta kíkt yfir landið og séð hverjir voru hér og við hvað þeir voru að fást.


Lífsmottó: Komdu fram við aðra eins og þú vilt að sé komið fram við þig.


Hvað ætlar þú að gera um næstu helgi: BRIM kvikmyndahátíð verður haldin á Eyrarbakka á laugardag. Þar verð ég og vona að sem flestir komi og taki þátt í þeirri dagskrá sem verður í boði og frítt á alla viðburði.Af www.sunnlenska.is

 Skra´ð af Menningar-Bakki.