Menningar-Bakki * Viðhalda og efla þjóðlega menningararfleið til sjávar og sveita*
-------- Alþýðuhúsið á Eyrarbakka - Vinir alþýðunnar - Á undan sinni framtíð --- "Stærra í hugum okkar en við sjálfir gerum okkur grein fyrir" ---

30.09.2019 07:02

Lokið við hjólastíg á Eyrum

 

 

 

 

Lokið við hjólastíg á Eyrum 

 

Langþráðum áfanga náð fyrir hjólreiða- og göngufólk 

 

 

Hjólastígur með fjörunni milli Stokkseyrar og Eyrarbakka hefur verið á dagskrá bæjaryfirvalda frá því um aldamótin, eða fljótlega eftir sameiningu sveitarfélaga í vestanverðum Flóa. En góðir hlutir gerast hægt.

 

Fyrsta skóflustungan að stígnum var tekin 7. september árið 2012 af Ástu Stefánsdóttur, þáverandi bæjarstjóra. Og nú sjö árum síðar er stígurinn tilbúinn, lokið var við að malbika hann í lok ágúst.

 

Nokkur heilabrot voru um staðsetningu stígsins. Hann liggur meðfram sjóvarnargarðinum frá Stokkseyri og að brú á Hraunsá, sem var smíðuð fyrir stíginn. Síðan beygir hann inn í land og sneiðir framhjá landi Gamla-Hrauns.

 

Liggur hann um skemmtilegt votlendi þar sem skiptast á mýrar, dælir og flóð, svo og tún. Stígurinn endar á Litla-Hraunsflötum sunnan við Litla-Hraun og tengist þar gatnakerfi Eyrarbakka.

 

Efnt var til samkeppni um nafn á stíginn og varð Fjörustígur hlutskarpastur. Stígurinn hefur talsvert verið notaður, þó að hann væri ekki tilbúinn. Nú sjá hjólreiðamenn og göngufólk á Eyrum sæng sína upp reidda.

 

Unnið er að gerð stígs milli Selfoss og Eyra og verða þá allir þéttbýlisstaðir Sveitarfélagsins Árborgar tengdir með malbikuðum stígum. Enda er flatneskjan í Flóanum kjörin til hjólreiða.


Morgunblaðið - Jóhann Óli HIlmarsson.

 Skráð af Mernningar-Bakki