![]() |
Halldóra Jóhanna Þorvarðardóttir fæddist 23. nóvember 1959 í Reykjavík og ólst þar upp til 13 ára aldurs. Hún gekk í Hlíðaskóla og var í sveit á hverju sumri frá því hún var sex ára í Efra-Nesi í Stafholtstungum og eitt sumar á Stóru- Borg í Vestur-Húnavatnssýslu.
„Æskuárin liðu áhyggjulaus og þegar sex ára aldri var náð fengum við systur að taka þátt í hestamennsku föður okkar, en hann var með hross á húsi hjá Fáki í Víðidal og lífið gekk töluvert út á það. Árið 1973 flutti ég með foreldrum mínum til Ísafjarðar þar sem við áttum heima næstu 10 árin.“
Halldóra gekk í Gagnfræðaskólann á Ísafirði og fór síðan í Menntaskólann á Ísafirði og útskrifaðist þaðan sem stúdent. Eftir stúdentspróf var hún í nokkra mánuði í Kaupmannahöfn og vann á hóteli þar í borg. Að því loknu settist hún á skólabekk í bændaskólanum á Hvanneyri og útskrifaðist sem búfræðingur. Þaðan lá síðan leiðin upp í Háskóla Íslands þar sem hún stundaði guðfræðinám og útskrifaðist sem cand. theol. árið 1986.
„Á námsárunum var unnið við ýmislegt á sumrin. Ég vann í mörg sumur á sýsluskrifstofunni á Ísafirði og um jól og páska. Eftir að háskólaárin tóku við starfaði ég bæði á geðdeild Landspítalans og Búnaðarbankanum. Eftir guðfræðinámið réðum við hjón okkur í kennslu í Brúarásskóla í Jökulsárhlíð þar sem maðurinn minn var skólastjóri og ég kenndi í tvö ár.“ Árið 1988 vígðist Halldóra sóknarprestur í Fellsmúlaprestakall í Rangárvallasýslu og hefur verið það æ síðan. Árið 1999 var hún skipuð prófastur í Rangárvallaprófastsdæmi og 2010 prófastur í Suðurprófastsdæmi. „Við hjón vorum svo heppin að fá námsleyfi á sama tíma og bjuggum með tveimur yngri sonunum í Lundi í Svíþjóð veturinn 2004-2005 sem var bæði gefandi og lærdómsríkt fyrir alla fjölskylduna.
Ég hef verið gæfumanneskja í lífinu og þakklát fyrir hvern dag og hvert ár sem bætist við í lífi mínu. Helstu áhugamálin eru fjölskyldan og búskapurinn í Fellsmúla, hestamennska, útreiðar og ekki síst hestaferðir að sumarlagi. Við hjón höfum verið svo lánsöm að hafa átt góð reiðhross í gegnum árin og njótum þess bæði að rækta og sinna hestunum okkar og einnig eigum við nokkrar kindur sem við höfum mikla ánægju af. Við erum stofnendur og eigendur Eldhesta ásamt fleirum og það hefur verið mjög ánægjulegt og gefandi að vera þátttakandi í þeirri uppbyggingu sem hefur átt sér stað í fyrirtækinu.“
Eiginmaður Halldóru er Sigurjón Bjarnason, f. 17.9. 1959, skólastjóri Laugalandsskóla. Þau eru búsett í Fellsmúla í Landsveit. Foreldrar Sigurjóns eru Bjarni E. Sigurðsson, f. 27.6. 1935, fyrrverandi kennari, skólastjóri og bóndi á Hvoli í Ölfusi, og Kristín Björg Jónsdóttir, f. 22.11. 1936, húsmóðir og fyrrverandi starfsmaður Pósts og síma.
Börn Halldóru og Sigurjóns eru:
1). Þorvarður Kjerúlf, f. 4.12. 1982, viðskiptastjóri hjá Trackwell í Reykjavík. Maki: Kristín Lena Þorvaldsdóttir, forstöðumaður samskiptamiðstöðvar heyrnarlausra og heyrnarskertra. Börn þeirra eru Óttar Kjerúlf, f. 12.6. 2011, og Kári Kjerúlf, f. 19.12. 2017;
2) Sigurjón Bjarni, f. 30.7. 1988, stundar meistaranám í Den Danske Scenekunstskole í Kaupmannahöfn. Maki: Sara Ragnarsdóttir dansari; 3) Vésteinn, f. 4.1. 1994, verkfræðingur, búsettur í Hollandi. Maki: Marieke Huurenkamp, nemi í Hollandi.
Alsystir Halldóru er Ólína, f. 8.9. 1958, fyrrverandi alþingismaður og skólameistari.
Hálfsystkini Halldóru samfeðra, eru:
Einar, f. 16.3. 1944, verkfræðingur; Sigríður Dýrfinna, f. 9.2. 1947, skólaliði; Sigríður, f. 3.8. 1948, verslunarmaður; Margrét, f. 22.11. 1949, hjúkrunarfræðingur; Guðbjörg Anna, f. 30.3. 1951, dýralæknir; Þórunn, f. 18.8. 1955, verslunarmaður, Þorsteinn, f. 10.8. 1956, búfræðiráðunautur; Dagbjört Þyri, f. 19.3. 1958, hjúkrunarfræðingur.
Foreldrar Halldóru voru hjónin Þorvarður Kjerúlf Þorsteinsson, f. 24.11. 1917, d. 31.8. 1983, sýslumaður og bæjarfógeti á Ísafirði, og Magdalena Ólafsdóttir Thoroddsen, f. 7.2. 1926, d. 3.5. 2018, húsfreyja og blaðamaður.
![]() |
Morgunblaðið laugardagurinn 23. nóvember 2019.
Skráð af Menningar-Bakki.
© 2021 123.is | Nýskrá 123.is síðu | Stjórnkerfi 123.is