![]() |
(1940 - 2020) |
Hallgrímur Sveinsson - Fæddur 28. júní 1940 -
Dáinn 16. febrúar 2020 - Minning
Hallgrímur Sveinsson fæddist í Reykjavík 28. júní 1940.
Hann lést á heimili sínu á Þingeyri 16. febrúar 2020.
Foreldrar hans voru Hanna Kristín Guðlaugsdóttir húsfreyja, f. 25. september 1911 á Snældubeinsstöðum í Reykholtsdal Borgarfirði, d. 1997, og Sveinn Jónsson húsasmiður, f. 24. apríl 1885, frá Sauðtúni í Fljótshlíð, d. 1957. Hallgrímur átti fjögur systkini, Stellu Ragnheiði, f. 27. desember 1935, Jón, f. 20. febrúar 1937, Rósu Björgu, f. 3. apríl 1943, og Pálma, f. 19. ágúst 1947. Jón og Rósa Björg eru látin.
Hallgrímur kvæntist eftirlifandi eiginkonu sinni Guðrúnu Steinþórsdóttur 28. júní 1964. Guðrún fæddist á Brekku í Dýrafirði 1. mars 1938. Foreldrar hennar voru Ragnheiður Stefánsdóttir, f. 27. október 1911 á Ísafirði, d. 1985, og Steinþór Árnason, f. 22. ágúst 1902 í Reykjavík, d. 1941. Guðrún var með fjárbúskap á Brekku í mörg ár. Hallgrímur og Guðrún voru barnlaus.
Hallgrímur lauk kennaraprófi vorið 1961 og kenndi fyrst við heimavistarskólann á Jaðri við Reykjavík. Hann var kennari í Auðkúluhreppi og síðan í barna- og unglingaskólanum á Þingeyri og skólastjóri þar um árabil. Hallgrímur og Guðrún voru bændur og staðarhaldarar á Hrafnseyri við Arnarfjörð, fæðingarstað Jóns Sigurðssonar forseta, í rúm 40 ár frá 1964 til 2005, og sáu um vörslu og umhirðu staðarins fyrir hönd Hrafnseyrarnefndar.
Hallgrímur var virkur í félagsstörfum og sat hann meðal annars í hreppsnefnd Auðkúluhrepps og var oddviti, hreppstjóri og sýslunefndarmaður, sat í stjórn Kaupfélags Dýrfirðinga og sóknarnefnd.
Hallgrímur gaf út hundruð bóka í nafni Vestfirska forlagsins sem hann stofnaði árið 1994. Bækurnar voru langflestar helgaðar vestfirsku efni og stuðluðu að varðveislu mikilvægra heimilda. Hallgrímur var afkastamikill í ritstörfum og skrifaði fjöldann allan af greinum, ýmist einn eða með öðrum.
Útför Hallgríms verður gerð frá Þingeyrarkirkju í dag, laugardaginn 22. febrúar 2020, og hefst athöfnin klukkan 14.
_______________________________________________________________________________
Minningarorð Guðrúnar Steinþórsdóttur
Okkar elskulegi Hallgrímur er fallinn frá, ekki hefði mig grunað að þetta hefði verið okkar síðasta samtal þegar þú hringdir í mig til Noregs síðastliðinn laugardag og sagðir jæja ertu nokkuð á skíðum núna, en laugardaginn áður hringdir þú og þá var ég að tala við þig í skíðabrekkunni.
Höggið er alltaf jafn mikið við óvæntan missi og aldrei er maður viðbúinn þegar ástvinir hverfa yfir móðuna miklu.
Margs er að minnast þegar litið er yfir farinn veg. Minningarnar eru svo margar og eiga eftir að ylja okkur um ókomna tíð, öll góðu samtölin, bíltúrarnir, pistlarnir þínir, vorin í sauðburðinum, æðarvarpið, smalamennskurnar, Forlagið og svo margt, margt annað og svo hafðir þú ótrúlega skemmtilega frásagnargáfu og var oft glatt á hjalla í stofunni á Brekku.
Í 15 ár var ég með ykkur Gullu í sauðburðinum á Brekku, eða fram að búskaparlokum ykkar, og hugsa ég oft til þess tíma er við deildum bæði gleði og sorg.
Ég minnist þess eitt vorið þegar sauðburður var tekinn að róast er við vorum í varpinu, þú, Gulla, ég og Dagbjartur, spegilsléttur sjór og sól og borðuðum við kvöldverðinn í fjöruborðinu, „Þorpari og kók úr sjoppunni“, fuglasöngurinn allt í kring og við höfðum á orði: „Hvað er hægt að hafa það betra?“ Algjörlega ógleymanleg minning.
Við eigum í framtíðinni án efa eftir að sakna þess að sjá ekki andlit þitt í glugganum á skrifstofu Vestfirska forlagsins á Brekku þegar rennt verður í hlað. Eða að sjá kappakstursbílinn eins og Hemmi Gunn vinur þinn kallaði bílinn þinn renna í hlað á hólnum við skógarhúsið og sjá þig koma röltandi með ömmu stafinn.
Eins á ég eftir að sakna símtalanna að heiman sem hófust venjulega á „jæja, þá er það smá skýrsla“ og þá fengum við fréttir af ykkur, bæjarlífinu, sveitinni, sundlauginni og gangagerðinni og svo spurðir þú alltaf hvað hefði verið til borðsins hjá okkur og hvernig Bjarni okkar hefði það.
Við Dagbjartur eigum eftir að sakna góðs vinar sem alltaf var ráðagóður og góður að leita til ef þörf var á.
Ég kveð þig elsku Hallgrímur með trega, mér fannst við eiga svo mikið órætt, því þú varst alveg ótæmandi fróðleikur fyrir okkur hin og það var eiginlega alveg sama hvað maður spurði þig um, þú hafðir alltaf svör. Það var sama hvort það voru ártöl, örnefni, samferðamenn, sagan, þú hafðir alveg ótrúlegt minni. Reyndar sagðir þú stundum „það er bara að fletta þessu upp í Mannlífi og sögu Guðrún mín“, þetta er allt þar. Við Vestfirðingar og fleiri eigum þér mikið að þakka fyrir að hafa sett allan þennan fróðleik forfeðranna og samferðamanna í bókaform og átt þú miklar þakkir skilið.
Við Dagbjartur þökkum fyrir allar góðar samverustundir og megi minningin um góðan dreng lifa í hugum okkar.
Far í friði og guð veri með þér.
Elsku Gulla mín, ég bið góðan guð að styrkja þig og vaka yfir þér.
þegar húmar og hallar degi
heimur hverfur og eilífðin rís
sjáumst aftur á sólfögrum degi
þar sem sælan er ástvinum vís.
(GH)
Guðrún Steinþórsdóttir.
Morgunblaðið, laugardagurinn 22. febrúar 2020.
![]() |
Hér eru þau við húsið að Brekku í Dýrafirði. Myndin er tekin 17. júní 2014 á afmælisdegi Jóns Sigurðsson, forseta. Enginn hefur ræktað betur minningu Jóns Sigurðssonar en Hallgrímur Sveinsson.
|
© 2021 123.is | Nýskrá 123.is síðu | Stjórnkerfi 123.is