Menningar-Bakki * Viðhalda og efla þjóðlega menningararfleið til sjávar og sveita*
-------- Alþýðuhúsið á Eyrarbakka - Vinir alþýðunnar - Á undan sinni framtíð --- "Stærra í hugum okkar en við sjálfir gerum okkur grein fyrir" ---

26.03.2020 17:55

Áhugamálin eru félagsmálin

 

 

 

Áhugamálin eru félagsmálin
 


Þórður Grétar Árnason byggingameistari – 70 ára

 

Þórður Grétar Árnason er fæddur 26. mars 1950 í Reykjavík og ólst upp í Reykjavík, Gnúpverjahreppi og á Stokkseyri. Hann var í sveit í tvö sumur, 1963 og 1964, í Miðfirði á bænum Fosskoti. „Þar var húsakosturinn torfbær og voru allir búskaparhætti fornir, allt slegið með orf og ljá. Þá var farið einu sinni á ári í kaupstað til að gera innkaup fyrir árið.“

 

Þórður gekk í grunnskóla Stokkseyrar en var síðan á sjó frá Stokkseyri þegar hann var 15 og 16 ára. Hann hóf nám í húsasmíði hjá Kaupfélagi Árnesinga (KÁ) haustið 1967 og var í Iðnskólanum á Selfossi. Hann fékk sveinsbréf 1970 og meistarabréf 1973.

 

Þórður og Vigdís kona hans hófu búskap á Selfossi 1970 og vann Þórður hjá KÁ þar til hann hóf eigin atvinnurekstur 1975. Hann rak einnig bílasölu og söluturn á árunum 1986 og 1987. Þórður hefur sinnt viðhaldsvinnu fyrir Selfosskaupstað sem síðar varð Sveitarfélagið Árborg í yfir 40 ár ásamt annarri vinnu fyrir fyrirtæki og einstaklinga. „Ég hef byggt nokkur hús á Selfossi og flutti hús sem var byggt 1934 frá Austurvegi í Hrísholt og gerði það síðan upp. Ég byggði einnig þrjú einbýlishús í Ólafsvík og skipti um þak á kirkjunni þar, en mestöll vinnan hefur verið viðhaldsvinna fyrir sveitarfélögin hér á Selfossi.“

 

Þórður var í Leikfélagi Selfoss á árunum 1982 til 1990, gjaldkeri og jafnframt starfandi formaður fyrir Knattspyrnudeild UMF Selfoss 1984 til 1986. Hann var í aðalstjórn UMF Selfoss frá 1986 til 1998, þar af formaður 1996 til 1998. Hann sat í stjórn Héraðssambands Skarphéðins frá 1986 til 1991 og var um tíma framkvæmdastjóri. Hann var í Lionsklúbbi Selfoss um tíma og gekk í Oddfellow-stúkuna Hástein nr. 17 árið 2010 og hefur gegnt ýmsum trúnaðarstörfum þar. Hann hefur setið í sóknarnefnd Selfosskirkju frá 2014.

Þórður er stjórnarmaður í Kirkjuráði Hrútavinafélagsins Örvars en það hefur m.a. það verkefni að heimsækja allar kirkjur á Suðurlandi. „Áhugamál mín eru félagsstörfin fyrst og fremst, ég er ekki í golfi eða neinu slíku.“

 

Fjölskylda

 

Eiginkona Þórðar er Vigdís Hjartardóttir, f. 2.3. 1951, húsmóðir og starfsmaður á leikskóla. Foreldrar hennar: Hjónin Hjörtur Leó Jónsson, f. 26.5. 1918, d. 24.4. 2007, hreppstjóri og garðyrkjubóndi á Eyrarbakka, og Sesselja Ásta Erlendsdóttir, f. 28.9. 1921, d. 2.4. 2017, húsfrú og verkakona á Eyrarbakka.

 

Börn Þórðar og Vigdísar eru:

 

1) Þórdís Erla Þórðardóttir, f. 15.10. 1970, snyrtifræðingur, búsett á Selfossi. Eiginmaður hennar var Guðjón Ægir Sigurjónsson, f. 4.1. 1971, d. 5.1. 2009. Sambýlismaður Þórdísar er Sigurlaugur Birgir Ólafsson, f. 14.10. 1968, prentsmiður og á hann tvær dætur. Börn Þórdísar og Guðjóns eru a) Hjörtur Leó Guðjónsson, f. 9.10. 1994, nemi í HÍ, en sambýliskona hans er Inga Þórs Yngvadóttir, f. 10.11. 1994, nemi í HÍ; og b) Harpa Hlíf Guðjónsdóttir, f. 4.7. 1997, nemi í HÍ;

2) Árni Leó Þórðarson, f. 7.11. 1973, smiður, búsettur í Reykjavík. Dóttir hans er Vigdís Halla Árnadóttir, f. 17.8. 2003, nemi í Tækniskólanum.

 

Systkini Þórðar eru:

Hinrik Ingi Árnason, f. 11.11. 1951, smiður, búsettur í Reykjavík;

Sigurður Þórarinn Árnason, f. 8.11. 1952, búsettur í Hveragerði.

 

Hálfsystkini Þórðar sammæðra eru:

Þórir Steindórsson, f. 10.6. 1955, búsettur í Svíþjóð;

Anna Brynhildur Steindórsdóttir, f. 27.2. 1959, búsett í Reykjavík,

og Steingerður Steindórsdóttir, f. 11.9. 1962, búsett í Reykjavík.

 

Foreldrar Þórðar:
Ágústa Anna Valdimarsdóttir, f. 19.12. 1931, fyrrverandi verkakona, búsett í Reykjavík, og Árni Theodórsson, f. 19.6. 1927, d. 29.7. 2014, verslunarmaður í Reykjavík, þau skildu. Stjúpfaðir Þórðar: Steindór Guðmundsson, f. 29.9. 1921, d. 10.11. 1993, fangavörður.

 

 Morgunblaðið fimmtudagurinn 26. mars 2020

 

Skráð af Menningar-Bakki.