Menningar-Staður
Félagsheimilið Staður á Eyrarbakka

18.12.2016 10:14

Henry Heimlich er allur

 

 

Henry Heimlich.

 

Henry Heimlich er allur
 

Henry Heimlich, læknirinn sem hið vel þekkta lífgjafartak kafnandi fólks er kennt við, er látinn, 96 ára að aldri.

 

Heimlich-aðferðin, einnig kölluð kviðpressa, mun halda nafni hans á lofti um ókomna tíð, en hún hefur bjargað óteljandi mannslífum frá því hann þróaði hana og kynnti árið 1974. Sagan segir að hugmyndin hafi kviknað þegar Heimlich, skurðlæknir sem sérhæfði sig brjóstholsaðgerðum, varð vitni að því að manneskju lá við köfnun þegar matarbiti stóð í henni á veitingastað.

 

Þegar aðferðinni er beitt stendur sá sem það gerir aftan við þann sem á í vandræðum með aðskotahlut í hálsi, tekur utan um kvið hans, kreppir annan hnefann og heldur utan um hnefann með hinni hendinni. Síðan þrýstir hann hnefanum kröfuglega inn og upp, allt að fimm sinnum, uns aðskotahluturinn skýst upp úr kokinu ef allt gengur eins og það á að ganga.

Fjöld

i nafntogaðra einstaklinga hefur átt Heimlich líf sitt að launa í gegnum tíðina, þeirra á meðal leikkonurnar Marlene Dietrich og Elisabeth Taylor, og Ronald Reagan, fyrrum Bandaríkjaforseti. Aðeins eru nokkrir mánuðir síðan Heimlich beitti þessu bjargráði sjálfur á konu sem dvelur á sama öldrunarheimili og hann var á, í Cincinatti í Ohio. Heimlich var á hjúkrunarheimilinu þegar hann lést. Dánarorsökin er hjartaáfall.


Ragnar Helgi Pétursson frá Stokkseyri, fangavörður á Litla-Hrauni, beitti Heimlich-aðferðinni til lífsbjörgunar fyrir nokkrum árum þegar fangavörður á varðstofu í Húsi-3 var í andnauð. 

 


Ragnar Helgi Pétursson.
Skráð af Menningar-Staður
 

17.12.2016 15:30

100 ára afmæli Framsóknarflokksins

 

 

100 ára afmæli Framsóknarflokksins

 

Í tilefni af 100 ára afmæli Framsóknarflokksins bjóða Framsóknarfélögin á Suðurlandi til afmælishátíðar á morgun sunnudaginn 18. desember 2016 kl. 14 í Hótel Selfoss.

 

Sigurður Ingi Jóhannsson, formaður flokksins og forsætisráðherra, flytur ávarp. Sigrún Magnúsdóttir umhverfisráðherra og Guðni Ágústsson fyrrverandi ráðherra og formaður flokksins fara yfir söguna á léttum nótum.

 

Kaffiveitingar og söngatriði frá Karlakór Selfoss.
 

Allir eru velkomnir.
 Skráð af Menningar-Staður

17.12.2016 15:21

Lóur heimsækja Húsið

 

 

 

Lóur heimsækja Húsið

 

Á morgun, sunnudaginn þann 18. des. 2016 kl. 15 heimsækja Lóur, sönghópur skipaður sex sunnlenskum söngkonum, jólasýninguna í Húsinu á Eyrarbakka og syngja nokkur jólalög.

Sönghópinn skipa Halla Dröfn Jónsdóttir, Elín Gunnlaugsdóttir, Halla Marínósdóttir, Kolbrún Hulda Tryggvadóttir, Halldóra Steindórsdóttir og Elísabet Hermundardóttir, allar af svæðinu Selfoss-Hveragerði-Stokkseyri og menntaðar í tónlist.

Þær eru búnar að setja saman smá jólalagaprógram sem þær hafa verið að æfa, svona christmas carols - stemmning.


Gömul jólatré úr safneign prýða sýninguna með elsta jólatré landsins í öndvegi. Skautar og sleðar fá einnig rými á jólasýningunni þetta árið og minna okkur á hve gaman er að leika sér í frosti og snjó. 


Jólasýning Byggðasafns Árnesinga í Húsinu á Eyrarbakka verður opin kl. 13-17 á sunnudag.

Heitt verður á könnunni og aðgangur ókeypis.


Húsið á Eyrarbakka
 

 
Skráð af Menningar-Staður

17.12.2016 09:09

Skötuveisla og matarmenning

 


Hjörtur Þórarinsson.

 

Skötuveisla og matarmenning

 

Matarmenning Íslendinga og geymsla matvæla hefur þróast í árhundruð. Matvæli hafa ávallt verið vandmeðfarin. Geymsla matvæla hefur verið þolpróf formæðra okkar. Mörg húsráð hafa glatast en sum þeirra eru enn að sanna kosti sína. Geymsla fiskjar var eitt af úrlausnarverkefnum forfeðra okkar. Þurrkun og hersla hefur verið mikið notuð, en kæsing dugði við einstakar tegundir. Kæsingin hentaði best skötunni. Þessi þjóðarréttur hefur náð vaxandi vinsældum. Mikla sérstöðu hefur hann haft á Vestfjörðum en útbreiðsla og vinsældir skötunnar hefur vaxið jafnt og þétt um allt land. Íslendingar erlendis fá senda skötu til sín til hátíðarverðar á Þorláksmessu.

 

Tenging skötunnar við Þorláksmessu mun vera komin úr katólskum sið. Á síðasta degi jólaföstunnar átti síst af öllu að borða kjöt. Í „Sögu daganna” eftir Árna Björnsson segir frá hvernig vísa úr Vopnafirði lýsir Þorláksmessumat langt utan skötusvæðisins.

 

Á Þorláksdag í matinn minn 
morkinn fékk ég hákarlinn
harðan fiskinn hálfbarinn 
og hákarlsgrútarbræðinginn.

 

Skötu- og saltfisksveisla


En nú skulum við snúa okkur að nútímanum. Því Kiwanisklúbburinn Búrfell hefur síðustu ellefu árin verið með Skötu- og saltfisksveislu rétt fyrir jólin. Veislan hefur verið haldin til fjáröflunar fyrir klúbbinn Strók á Suðurlandi. Fiskbúð Suðurlands hefur verið aðal styrktaraðili þessarar veislu með klúbbnum síðastliðin ellefu ár. Þeim fer fjölgandi sem eru sólgnir í skötuna okkar og vilja styðja þetta málefni. 

 

Í dag Laugardaginn 17. desember 2016 verður veislan kl. 11:50–13:30 í Eldhúsinu  við Tryggvagötu á Selfossi og kostar 2.900 kr.

 

Allir eru hjartanlega velkomnir meðan matarbirgðir endast

 

Glaðir í salinn sestir
sólgnir í skötuna flestir.
Með fnykilm af fiski 
og flotið á diski
sanna það saddir gestir.

 

Hjörtur Þórarinsson


Skráð af Menningar-Staður

17.12.2016 08:48

Opið hús í Konubókastofu á Eyrarbakka um helgina

 

 

Bjarni Harðarson og Anna í Túni.

 

Opið hús í Konubókastofu á Eyrarbakka um helgina
 

17. og 18. desember 2016

 

Konubókastofa hóf starfsemi sína fyrir rúmlega þremum og hálfu ári síðan. Á þessum tíma hefur sýnt sig að þörf er á stað sem þessum þar sem hægt er að fræðast um íslenska kvenrithöfunda og verkin þeirra. Titlarnir eru að nálgast 2500 og nánast allt efni hefur verið gefið af einstaklingum, höfundum, útgáfum og bókasöfnum.

Í sumar ákvað bæjarstjórn Árborgar að leyfa Konubókastofu að nota tvö herbergi í húsinu Blátúni í stað eins. Við fengum herbergið afhent þann 1. október og höfum verið að mála og gera herbergið undirbúið fyrir okkar starfsemi. Við fengum líka að opna á milli herbergjanna tveggja þannig að núna er komið mjög gott pláss og miklu auðveldara að taka á móti gestum. Við fáum líka að nota gang og eldhús með almenningsbókasafninu sem er á annarri hæð.

Vegna alls þessa var ákveðið að setja upp sýningu á plássinu sem við höfum. Þar verða ýmsar upplýsingar um höfunda og verkin þeirra. Upplýsingarnar verða bæði á ensku og íslensku þar sem erlendum gestum er að fjölga. Uppbyggingasjóður Suðurlands veitti Konubókastofu styrk upp á 500.000 krónur í þetta allt saman.

Verið er að hanna bækling með upplýsingum um starfsemina bæði á ensku og íslensku. Einnig er verið að endurhanna og bæta heimasíðuna og undirbúa hana fyrir það að vera á fleiri tungumálum auk annars. Á heimasíðunni www.konubokastofa.is er hægt að sjá hvaða efni er til hjá okkur og þá um leið hvað vantar í safnið.

Sjónvarpsmenn frá þættinum Að sunnan á N4 komu í heimsókn í haust og tóku viðtal við mig um safnið. Sá þáttur var síðan sýndur 19. nóvember. Sjá má þáttinn á heimasíðu N4.

Vorönnin mun fara í að klára að setja upp sýninguna og undirbúa starfsemina fyrir gestakomu sumarið 2017. Þá verður vonandi opið á hverjum degi. Á sumardaginn fyrsta 20. apríl 2017 verður dagskrá þar sem fram munu koma kvenhöfundar sem skrifa glæpasögur. Helstu rithöfundarnir okkar á því sviði hafa boðað komu sína og stefnt er á að hafa þarna fjölbreytta og skemmtilega dagskrá. Nánar um það síðar.

 

Helgina 17. og 18. desember klukkan 14–16 verður opið hús hjá okkur og þá er hægt að sjá hvernig plássið er orðið. Sýningin verður örugglega ekki alveg komin upp en það verður kynning á henni.

 

Með þessum orðum vil ég bjóða ykkur velkomin þann 17. og 18. desember og um leið vil ég óska ykkur alls hins besta.
 

Anna í Túni

 

Skráð af Menningar-Staður
 

16.12.2016 20:10

Framsókn 100 ára - Besta kosningakaffið 2006

 

 

Kaffikonur Framsóknar í Árborg 2006.

 

Framsókn 100 ára – Besta kosningakaffið 2006

 

Í tilefni af 100 ára afmæli Framsóknarflokksins í dag, 16. desember 2016, er rifjuð hér upp tilkynningu frá árinu 2006 þegar Hrútavinafélagið Örvar valdi kosningakaffi  Framsóknarmanna í Árborg það besta hjá framboðunum fyrir kosningarnar í Árborg vorið 2006.Fréttatilkynningin hljóðaði svo:

Hrútavinafélagið Örvar á Suðurlandi (Hrútavinir Group) láta sér fátt óviðkomandi í mannlegri tilveru og eru glöggir á að koma auga á hinar jákvæðu hliðar mannlífs og menningararfleiðar eins og dæmin sanna.

Hrútavinir hafa komið víða við á síðustu vikum og spá töluvert í væntanlegar sveitarstjórnarkosningar á landinu og þá sérstaklaeg í Árborg og nær byggðum.

Hrútavinir hafa sótt heim allar kosningaskrifstofur framboðana í Sveitarfélaginu Árborg og þegið góðar kaffiveitingar og um leið vegið og metið kaffigæðin og önnur lykilatriði kaffimála.

 

Hrútavinir Group gjöra hér með kunnugt:

“Besta framboðskaffið í Árborg”

er kaffi Framsóknarmanna á skrifstofu þeirra við Eyraveg á Selfossi."

 

Greinargerð:

Kaffi allra framboðana í Árborg eru góð en Framsóknarkaffið tryggði sér glæsilegan sigur með því að út í kaffið var boðið upp á sérlega góðan heimagerðan rjóma sem gerði gott kaffi enn betra. Rjóminn er úr Geirakoti í Flóanum frá heiðurshjónunum Maríu Hauksdóttur og Ólafi Kristjánssyni.

 

Tilkynnist þetta hér með.

 
Skráð af Menningar-Staður

16.12.2016 17:05

Sonja Huld Ólafsdóttir - Fædd 20. október 1943 - Dáin 7. desember 2016 - Minning

 

 

Sonja Huld Ólafsdóttir.

 

 

Sonja Huld Ólafsdóttir - Fædd  20. október 1943

- Dáin 7. desember 2016 - Minning

 

Sonja Huld Ólafsdóttir fæddist 20. október 1943 að Skinnum í Þykkvabæ. Hún lést á líknardeild Landspítalans 7. desember 2016.

 

Foreldrar Sonju voru Svava Guðmundsdóttir og Ólafur Guðjónsson. Sonja ólst upp í Skinnum í Þykkvabæ hjá hjónunum Guðrúnu Jónsdóttur og Jóni Jónssyni ásamt dætrum þeirra Pálínu, Bergþóru og Kristjönu og sambýlismanni Pálínu, Sigurjóni. Einnig ólst upp í Skinnum Jón Rúnar Hartmannsson, barnabarn Pálínu og Sigurjóns. Samband Sonju við Bergþóru varð sérstaklega náið og voru þær alla tíð eins og mæðgur.

 

Sonja átti einn bróður, Gunnlaug Ólafsson, sem nú er látinn og uppeldissystur, Báru Sigurjónsdóttur.

 

Sonja hóf sambúð með Gísla Pálssyni, þá tilvonandi eiginmanni sínum, 1962, þau slitu samvistum 1978. Seinni sambýlismaður Sonju er Már Viktor Jónsson en þau slitu samvistum 2004.

 

Síðustu æviárin bjó Sonja á Eyrarbakka og Selfossi. Sonja eignaðist fimm börn.

 

Börn og barnabörn Sonju í aldursröð eru:

1) Martha, gift Hartmanni Kristni. Börn Mörthu eru Lilja og Arna.

2) Þorbjörg, gift Gísla Wiium. Börn Þorbjargar eru: Orri Wiium, Sonja Wiium og Sunna Wiium.

3) Bergþóra, gift Hjalta Bogasyni. Börn Bergþóru eru: Björn, Rúnar Óli, Gísli Steinn, Kolka Rós og Kormákur.

4) Eyrún, gift Guðmundi Ólafssyni. Börn Eyrúnar eru Elísabet Ósk, Þyrí Huld, Jana Hrönn og Már Viktor.

5) Gauti Þór. Börn Gauta Þórs eru: Baltasar Owen, Anna Perla, Sonja Perla.

 

Barnabarnabörn Sonju eru nú 13 talsins.

 

Útför Sonju fer fór frá Hafnarfjarðarkirkju í dag, 16. desember 2016.
 


Morgunblaðið 16. desember 2016
 Skráð af Menningar-Staður
 

16.12.2016 12:23

Stúfur kom að Stað

 


Siggeir Ingólfsson, staðarhaldari að Stað, með restina af

piparkökubrotunum sem runnu ofan í Vini alþýðunnar.

 

Stúfur kom að Stað

 

Jólasveinarnir koma nú hver af öðrum til byggða en Stekkjarstaur kom fyrstur þann 12. desember sl.

Stúfur var sá þriðji og kom hann við í Alþýðuhúisinu á Eyrarbakka í Félagsheimilinu Stað á að morgni miðvikudagsins  þann 14. desember. Meðal þess sem hann var með í poka  sínum voru piparkökubrot  sem hann hengdi á hurðina fyrir Vini alþýðunnar þegar þeir mættu til morgunspjalls.

Vinir alþýðunnar þakka þessa hugulsemi jólasveina og eru þeir ætíð velkomnir í Alþýðuhúsið.

 

.

 Skráð af Menningar-Staður

16.12.2016 08:21

Fagna aldarafmæli Framsóknarflokksins

 

Mynd úr gagnasafni Morgunblaðsins

Alþingi

Framsóknarflokkurinn hefur setið í ríkisstjórn

í um 62 ár í 100 ára sögu flokksins.

 

Fagna aldarafmæli Framsóknarflokksins

 

,,Í samfellt 100 ár hefur Framsóknarflokknum auðnast að laga sig að breyttum tímum og gert það vel án þess að víkja frá grunngildunum. Þess vegna hefur hann getað lifað sem sami flokkurinn í hundrað ár, haldið í grunngildin en engu að síður að þroskast með breyttu þjóðfélagi á hverjum tíma,“ segir Sigurður Ingi Jóhannsson, forsætisráðherra og formaður Framsóknarflokksins, en flokkurinn verður 100 ára í dag, 16. desember.

,,Framsóknarflokkurinn hefur á þessum 100 árum verið mikilsvert afl á vettvangi íslenskra stjórnmála og hefur oft á tíðum notið mikils trausts landsmanna og setið í ríkisstjórn í um 62 ára skeið á þessum 100 árum. Auðvitað skoðum við stöðu okkar í dag í því ljósi,“ segir hann.

 

Tíminn í hátíðarútgáfu

Boðað hefur verið til afmælishátíðar í Þjóðleikhúsinu í dag, föstudaginn 16. desember 2016 og hefst hátíðardagskráin kl 18 með ávarpi formanns. Einnig standa framsóknarmenn víða um land að hátíðarsamkomum á morgun og um helgina í tilefni afmælisins. Af þessu tilefni verður einnig gefin út sérstök hátíðarútgáfa af Tímanum á afmælisdaginn.

Sigurður Ingi segir að á þessum tímamótum leggi framsóknarmenn áherslu á umfjöllun um menntamál og settur verður á laggirnar menntamálahópur til að vinna að undirbúningi að stefnumótun flokksins í menntamálum. ,,Það verður líka fjallað um samvinnustefnuna í fortíð, nútíð og framtíð og af því að við erum mikill jafnréttisflokkur og höfum jafnan gengið á undan öðrum, þá verður líka fjallað um áhrif kvenna í flokknum.“

Sigurður Ingi segist líta svo á að staða Framsóknarflokksins sé mjög sterk í dag þrátt fyrir að síðustu kosningar hafi ekki gengið eins vel og framsóknarmenn höfðu vonast eftir.

„Við upplifðum það í kosningunum að stefna okkar á mjög góðan hljómgrunn og menn gerðu sér grein fyrir því betur núna en kannski á síðustu tólf árum fyrir hvað við stöndum. Þar held ég að skipti mestu máli barátta okkar fyrir hag heimila í landinu á síðustu átta árum,“ segir hann.

„Við erum að sjálfsögðu líka atvinnulífsflokkur, velferðarflokkur og landsbyggðarflokkur og erum sprottin upp úr bændasamfélagi og höfum aldrei yfirgefið þau stef. Það er kannski skýringin á því að við verðum allra flokka elst.“

 

,,Fyrstu skrefin inn í nýja framsóknaröld“

Sigurður Ingi segir að Framsóknarflokkurinn muni áfram byggja á þessum grunngildum. Hann segir mikinn heiður að fá að vera formaður flokksins á þessum tímum ,,og taka fyrstu skrefin inn í nýja framsóknaröld“.

Morgunblaðið.


Skráð af Menningar-Staður

15.12.2016 06:55

Glæpir, furður og forneskja á upplestrarkvöldi

 

 

 

Glæpir, furður og forneskja á upplestrarkvöldi

 

Bókakaffið á Selfossi stendur fyrir menningarviðburðum á aðventunni
 


Fjórða og næstsíðasta jólaupplestrarkvöld Bókakaffisins á Selfossi verður fjölbreytt, en þar munu koma við sögu samkvæmt tilkynningu Jón lærði, íslenskir barnaræningar, göfugar kellíngar, draumar franskra skáldkvenna, húsvitjanir í Suðursveit og fréttakonan Sigríður Hagalín les einkennilegar fréttir af áður óþekktum hörmungum landans.

 

Samkoman er á Austurvegi 22 á Selfossi í kvöld, fimmtudagskvöld 15. desember 2016, og húsið opnað kl. 20 en lestur hefst kl. 20.30 og stendur í um klukkutíma.

 

Þeir sem lesa þetta kvöld eru fyrrnefnd Sigríður Hagalín sem sendir frá sér skáldsöguna Eyland, Viðar Hreinsson sagnfræðingur sem skrifað hefur um Jón lærða, Óskar Magnússon sem sendir frá sér glæpasöguna Verjandinn, Sváfnir Sveinbjarnarson sem sendir frá sér minningabókina Á meðan straumarnir sungu, Guðrún Ingólfsdóttir sem les úr handritum kvenna af fyrri tíð og síðast en ekki síst Þór Stefánsson ljóðskáld sem kynnir þýdd ljóð franskra skáldkvenna sem koma út í bók hans Frumdrög að draumi.

 

Allir eru hjartanlega velkomnir meðan húsrúm leyfir.

Lofað er notalegri jólastemningu og hið rómaða kakó hússins verður á sérstöku tilboði í tilefni dagsins.

 

.

 

.

.

 

.

 

 

 

 

Skráð af Menningar-Staður