Menningar-Bakki * Viðhalda og efla þjóðlega menningararfleið til sjávar og sveita*
-------- Alþýðuhúsið á Eyrarbakka - Vinir alþýðunnar - Á undan sinni framtíð --- "Stærra í hugum okkar en við sjálfir gerum okkur grein fyrir" ---

16.03.2018 20:11

Gvendardagur - 16. mars 1976 - á Flateyri

 


Gyllir ÍS 261 við bryggju á Flateyri nokkrum árum efir að hann kom þangað fyrsta

sinni á Gvendardegi þann 16. mars 1976..
Ljósm.: Björn Ingi Bjarnason.

 

Gvendardagur - 16. mars 1976 - á Flateyri

 

Á síðasta fjórðungi 20. aldar var á Flateyri horft til Gvendardags sem mikils happadags í Önundarfirði eftir að skuttogarinn Gyllir ÍS 261 kom í fyrsta sinn til Flateyrar á Gvendardegi 16. mars 1976.

Það var Útgerðarfélag Flateyrar hf. sem átti Gylli en það félag var dótturfélag Hjálms hf. á Flateyri sem var stofnaður þann 22. september 1968.

 

Gyllir heitir nú Stefnir ÍS- 28 og er gerður út frá Ísafirði og er 42 ára í dag - 16. mars 2018.

 

Nafnið Hjálmur var samþykkt á stofnfundi Hjálms hf. eftir tillögu Eysteins G. Gíslasonar fyrrum kennara á Flateyri. Í greinargerð með tillögu sinni benti Eysteinn á að “Hjálmur” væri vörn mikilvægasta líkamshlutarins og fyrirtæki sem þetta væri slíkt hið sama fyrir byggðarlag eins og Flateyri og Önundarfjörð. Fyrir væru nöfn félaga á Flateyri í sama dúr svo sem “Verkalýðsfélagið Skjöldur” og “Kvenfélagið Brynja.” Þessi tillaga var samþykkt með lófaklappi þó ágæt tillaga að öðru nafn hafi legið fyrir stofnfundinum í upphafi frá fundarboðendum.Skráð af Menningar-Staður

16.03.2018 06:41

16. mars - Gvendardagur

 

 

 

Hólar í Hjaltadal í byrjun átjándu aldar.
16. mars - Gvendardagur

 

 

Gvendardagur er í dag 16. mars. Þá lést Guðmundur góði Arason Hólabiskup árið 1237.

 

Guðmundar- eða Gvendardagur varð messudagur í Hólabiskupsdæmi ári 1315 þegar bein hans voru tekin upp. 
 


Mikil helgi var á Guðmundi meðan katólska entist þótt hann væri aldrei lýstur helgur maður opinberlega, og eimdi lengi eftir af dýrkun hans, einkum á norðanverðum Vestfjörðum þar sem heimildir eru um nokkurt tilhald á messudegi Guðmundar allt fram á 20. öld. Sunnanlands var gert ráð fyrir veðrabrigðum til hins verra þennan dag eða Geirþrúðardag daginn eftir, og jafnvel talið ills viti ef það brást. 

 


Hólar í Hjaltadal.
Skráð af Menningar-Staður

15.03.2018 18:58

Sveinn Ásgeir Jónsson er 30 ára

 

 

Sveinn Ásgeir Jónsson.

 

Sveinn Ásgeir Jónsson er 30 ára í dag

15. mars 2018

 

Sveinn Ásgeir Jónsson ólst upp á Stokks­eyri og var trommuleikari í hljómsveitinni NilFisk. Hann er nú bú­sett­ur á Sel­fossi. Sveinn Ásgeir er nú starfsmaður hjá Rækt­un­ar­sam­bandi Flóa og Skeiða.

 

Maki: Ellý Hrund Guðmunds­dótt­ir, f. 1990, starfsmaður við leik­skóla og nemi í tann­tækni.

 

Son­ur: Pat­rek­ur Logi Sveins­son, f. 2014.

 

For­eldr­ar: Jón Björn Ásgeirs­son, f. 1957, og Þór­unn Jóns­dótt­ir, f. 1963.


Morgunblaðið

 


Hljómsveitin NilFisk í Kaupmannahöfn.
F.v.: Víðir Björnsson, Jóhann Vignir Vilbergsson,

Sveinn Ásgeir Jónsson og Sigurjón Dan Vilhjálmsson.

Ljósm.: Inga Rún Björnsdóttir

.
 


Hljómsveitin NilFisk á Draugabarnum á Stokkseyri.
F.v.: Sigurjón Dan Vilhjálmsson, Víðir Björnsson, Sveinn Ásgeir Jónsson

og Jóhann Vignir Vilbergsson.

Ljósm.: Björn Ingi Bjarnason.

.


Hljómsveitin NilFisk í Kaupmannahöfn.
F.v.: Sveinn Ásgeir Jónsson, Sigurjón Dan VIlhjálmsson, Víðir Björnsson

og Jóhann Vignir Vilbergsson.

Ljósm.: Inga Rún Björnsdóttir.
 


 Skráð af Menningar-Staður

15.03.2018 06:56

Merkir Íslendingar - Ágúst M. Sigurðsson

 

 

Ágúst M. Sigurðsson (1936 - 2010).

 

Merkir Íslendingar - Ágúst M. Sigurðsson

 

Ágúst fæddist á Akureyri 15. mars 1938, sonur Sigurðar Stefánssonar, prófasts og síðar vígslubiskus á Möðruvöllum í Hörgárdal, og Maríu Júlíönu Kristjönu Ágústsdóttur cand.phil.
 

Sigurður var sonur Stefáns Hannessonar, bónda á Þrándarstöðum í Kjós, og Guðrúnar Matthíasdóttur, húsfreyju og veitingakonu í Reykjavík, en María var dóttir Ágústs Jósefssonar, bæjarfulltrúa og heilbrigðisfulltrúa í Reykjavík, sem skrifaði fróðlegar endurminningar um mannlíf í Reykjavík, og Pauline Charlotte Andreasdóttur, f. Sæby.
 

Eftirlifandi eiginkona Ágústar er Guðrún Lára Ásgeirsdóttir, kennari og prestsfrú, dóttir Kirstínar Láru Sigurbjörnsdóttur, kennara í Ási í Reykjavík og Ásgeirs Einarssonar, héraðsdýralæknis í Gullbringu- og Kjósarsýslu.

 

Börn Guðrúnar Láru og Ágústs eru Lárus Sigurbjörn, umferðarverkfræðingur á Sjálandi, og María, héraðsprestur í Reykjavíkurprófastsdæmi vestra.
 

Ágúst lauk stúdentsprófi frá MA 1959, embættisprófi í guðfræði frá HÍ 1965, stundaði framhaldsnám í Den nske Folkekirke við Árósarháskóla, lauk þaðan prófum og fór fjölda námsferða til Danmerkur, Noregs, Þýskalands og Ísraels.
 

Ágúst var símstöðvarstjóri á Möðruvöllum 1964-66, aðstoðarmaður föður síns þar og sóknarprestur frá 1965, sóknarprestur í Vallanesi á Völlum frá 1966, í Ólafsvík frá 1970, á Mælifelli í Skagafirði frá 1972 og talsímavörður þar, sendiráðsprestur í Kaupmannahöfn frá 1983 og umsjónarmaður Húss Jóns Sigurðssonar, sóknarprestur á Prestbakka í Hrútafirði frá 1989 og prófastur Húnavatnsprófastsdæmis frá 1999 og til 2000.
 

Ágúst kenndi við fjölda skóla, var afkastamikill rithöfundur og margfróður fræðimaður, formaður Tónlistarfélags Skagafjarðar og Sálarrannsóknafélags Skagafjarðar og sat í sýslunefnd Skagafjarðarsýslu, auk annarra trúnaðarstarfa.
 

Vestfirska forlagið gaf út nokkrar af bókum hans.

 

Ágúst lést 22. ágúst 2010.

 

Morgunblaðið


Skráð af Menningar-Staður

13.03.2018 16:22

Auglýst eftir framboðum til kirkjuþings

 


Kirkjuræknir menn og hér í Skálholtsdómkirkju.
F.v.: Sigurður Sigurðarson og Kristján Runólfsson.
Ljósm.: Björn Ingi Bjarnason.

 

 

Auglýst eftir framboðum til kirkjuþings

 

Á grundvelli 11. gr. starfsreglna um kjör til kirkjuþings, nr. 1075/2017 auglýsir kjörstjórn þjóðkirkjunnar eftir framboðum til kirkjuþings.

 

Á kirkjuþingi eiga sæti 29 þjóðkirkjumenn kjörnir til fjögurra ára í senn. Eru 12 þeirra úr hópi vígðra manna, þ.e. presta og djákna og 17 leikmenn.

 

Kjörgengur til kirkjuþings er:

 

a. hver vígður maður sem á kosningarrétt skv. 3. gr. starfsreglna nr. 1075/2017

 

b. hver leikmaður sem hefur hlotið skírn í nafni heilagrar þrenningar, skráður er í íslensku þjóðkirkjuna, og hefur náð 18 ára aldri.

 

Kjörgengisskilyrði skulu vera uppfyllt 1. apríl 2018.

 

Þeir sem hyggjast bjóða sig fram til kirkjuþings skulu hafa tilkynnt kjörstjórn framboð sitt skriflega eigi síðar en 15. mars 2018. Tilkynningu um framboð skal senda til biskupsstofu, Laugavegi 31, 150 Reykjavík, eða í tölvupósti á netfangið kirkjan@kirkjan.is

 

Kjörstjórn getur óskað eftir að sá sem hyggst bjóða sig fram, framvísi staðfestingu er sýni kjörgengi hans.

 

Ef ekki berast nægilega mörg framboð, sbr. 11. gr. starfsreglan um kjör til kirkjuþings nr. 1075/2017, skal kjörstjórn svo fljótt sem auðið er gera uppstillingarnefnd kirkjunnar viðvart. Skal uppstillingarnefnd tilnefna þá frambjóðendur sem á vantar. Skal sú tilnefning hafa borist kjörstjórn eigi síðar en 31. mars nk., ásamt samþykki hlutaðeigandi.

 

Kosningarnar verða rafrænar og standa frá kl. 12:00 hinn 2. maí 2018 til kl. 12:00 hinn 7. maí s.á. Verða kosningarnar auglýstar sérstaklega síðar.

 

Fyrir hönd kjörstjórnar
Hjördís Stefánsdóttir, formaður

 Skráð af Menningar-Staður

11.03.2018 18:21

Kosning hafin um Skálholtsbiskup

 

Í Skálholti. Ljósm.: Björn Ingi Bjarnason.

 

Kosning hafin um Skálholtsbiskup

 

Kosn­ing til embætt­is vígslu­bisk­ups í Skál­holtsum­dæmi hófst í fyrradag með því að kjör­stjórn þjóðkirkj­unn­ar sendi út at­kvæðaseðla. 939 ein­stak­ling­ar hafa kosn­inga­rétt í kjör­inu, bæði vígðir menn og leik­menn.

 

Kosið er á milli þeirra þriggja sem flest­ar til­nefn­ing­ar fengu, séra Ei­ríks Jó­hanns­son­ar í Há­teigs­kirkju, séra Kristjáns Björns­son­ar á Eyr­ar­bakka og séra Ax­els Árna­son­ar Njarðvík í Eystra-Geld­inga­holti. Til að ná kjöri þarf fram­bjóðandi að fá meiri­hluta greiddra at­kvæða. Ná­ist það ekki verður kosið aft­ur á milli tveggja efstu.

 

Kosn­ing­unni lýk­ur 21. mars og verða at­kvæði tal­in fljót­lega eft­ir það. 

 

 

 


Skráð af Menningar-Staður.

11.03.2018 13:14

Þjóðbúningadagur í Safnahúsinu

 


Nokkrar Eyrarbakkakonur í þjóðbúningum á hátíðarstundu.

Ljósm.: Björn Ingi Bjarnason.

 

Þjóðbúningadagur í Safnahúsinu

 

Þjóðbúningadagur verður haldin í Safnahúsinu við Hverfisgötu í Reykjavík  sunnudaginn 11. mars 2018 kl. 14 -16.

 

Almenningur er hvattur til að draga fram þjóðbúninga af öllu tagi, klæðast þeim og koma og sýna sig og sjá aðra. Það er Heimilisiðnaðarfélag Íslands í samvinnu við Þjóðdansafélag Reykjavíkur og Þjóðminjasafn Íslands sem boðar til samkomunar. 

 

Í tilefni af fullveldisafmælinu er boðið upp á dagskrá þar sem Árni Björnsson þjóðháttafræðingur flytur stutt erindi undir yfirskriftinni „Þjóðminnngardagar 1874-1918“ og Þórarinn Már Baldursson kveður frumsamdar rímur.

 

Auk þess stíga félagar í Þjóðdansafélagi Reykjavíkur nokkur spor og draga jafnvel gesti með sér í dansinn.

 

Safnahúsið
Hverfisgata 15,

101 ReykjavíkSkráð af Menningar-Staður

 

11.03.2018 11:23

Vegurinn lagður um Teigsskóg

 

 
 
 

Vegurinn lagður um Teigsskóg

 

 Nýr Vestfjarðavegur verði lagður um Teigsskóg 

• Ódýrari kostur en gangaleiðin en meiri neikvæð umhverfisáhrif 

• Vonast eftir framkvæmdaleyfi í haust


 

Sveit­ar­stjórn Reyk­hóla­hrepps ákvað á fundi sín­um í gær að nýr Vest­fjarðaveg­ur um Gufu­dals­sveit skuli liggja um Teigs­skóg. Fjór­ir sveit­ar­stjórn­ar­menn greiddu at­kvæði með þess­ari leið en einn var á móti.

 

Lengi hef­ur verið deilt um nýj­an veg á þess­um slóðum. Sveit­ar­stjórn­in hef­ur að und­an­förnu skoðað tvo mögu­leika, leið Þ-H sem fer um Teigs­skóg og Vega­gerðin taldi besta, og leið D2 sem Skipu­lags­stofn­un mælti með. Sú síðar­nefnda, með jarðgöng­um und­ir Hjalla­háls, hef­ur minni um­hverf­isáhrif en er mun dýr­ari.

 

„Við viður­kenn­um að það eru meiri nei­kvæð um­hverf­isáhrif af þess­ari leið en hins veg­ar hef­ur hún já­kvæð sam­fé­lags­leg áhrif. Hún bæt­ir sam­göng­ur og eyk­ur um­ferðarör­yggi. Þá er veru­leg­ur mun­ur á kostnaði,“ seg­ir Ingi­björg Birna Erl­ings­dótt­ir, sveit­ar­stjóri Reyk­hóla­hrepps. Ingi­björg seg­ir að lagn­ing veg­ar­ins um Teigs­skóg muni kosta rúma sjö millj­arða króna en hinn kost­ur­inn, ganga­leiðin, myndi kosta rúma 13 millj­arða króna.

 

„Við vit­um líka að það væri bið eft­ir þeim pen­ing­um og bið eft­ir göng­um á biðlista. Það eru ein­hver göng á und­an í röðinni og það yrði eng­in sátt um að setja þessi göng fram fyr­ir þau. Töf vegna þessa hefði mjög nei­kvæð áhrif á sunn­an­verða Vest­f­irði. Okk­ur bar siðferðis­lega að horfa til þess líka.“ Þessi ákvörðun er hluti af vinnu við breyt­ingu á aðal­skipu­lagi hrepps­ins. Sú til­laga verður nú send til Skipu­lags­stofn­un­ar hvar hún fær um­sögn og verður í kjöl­farið aug­lýst.

 

Þá verður hægt að gera at­huga­semd­ir við til­lög­una. Skipu­lags­nefnd hrepps­ins tek­ur í kjöl­farið af­stöðu til at­huga­semda. End­an­legt aðal­skipu­lag verður svo samþykkt í sveit­ar­stjórn og tek­ur gildi með staðfest­ingu Skipu­lags­stofn­un­ar.

 

Ingi­björg seg­ir að ef allt gangi að ósk­um verði hægt að gefa út fram­kvæmda­leyfi með haust­inu og hefjast handa. Hún seg­ir að ekki liggi fyr­ir hvernig fjár­mögn­um þessa verk­efn­is verði háttað.

 

„Við höf­um bara orð vega­mála­stjóra og sam­gönguráðherra fyr­ir því að því verði komið í kring. Já, þetta voru orð fyrr­ver­andi sam­gönguráðherra en við fór­um líka og hitt­um nú­ver­andi ráðherra og hann er sam­mála.“Morgunblaðið.
Skráð af Menningar-Staður

11.03.2018 08:31

Að glæða kristni og kirkjulíf

 


Sr. Kristján ásamt Guðrúnu Helgu Bjarnadóttur eiginkonu sinni.

 

 

Að glæða kristni og kirkjulíf

 

Ég hef lengi haft brennandi áhuga á því að efla kirkjuna okkar. Margir af gömlu prestunum töluðu um nauðsyn þess að glæða kristni og kirkjulíf. Við þurfum ekki að efast um kristna trú en við þurfum að hlú alveg sérstaklega vel að kirkjulífinu í hverri sókn. Í kirkjunni þurfum við að vinna saman að því að sækja kirkjuna vel og styðja safnaðarstarf, boðun og helgihald á helgum og hátíðum og þá ekki síst barna- og æskulýðsstarf að ógleymdu gagnmerku starfi kvenfélaga og starfi margra góðra kóra og organista. Kirkjulíf stendur nær okkur en við höldum ef við reiknum líka með sálgæslu og áfallahjálp sem oftast er starfrækt út frá heilbrigðisstofnunum í héraðinu. Oft koma prestar sóknarinnar að því eða prestar og djáknar með sérmenntun á sviði klínískrar sálgæslu. Í öllu því starfi er unnið út frá trúarreynslu og velferð manneskjunnar og ekki er spurt um trúfélagsaðild. Við erum einfaldlega í sameiginlegri vegferð í þessu samfélagi sem mótast af kristinni trú og öðrum þáttum í menningararfi þjóðarinnar. 

Ef kirkjan ætlar að þjóna þessu hlutverki sínu áfram þarf hún að leggja höfuð áherslu á að efla innra starf safnaðanna og þjónustu sína í sóknum landsins og á stofnunum eða í samstarfi við skóla, heilbrigðisstofnanir og félagasamtök. Kirkjan þarf að efla starfsmannastefnu sína, vera til fyrirmyndar í samskiptum fólks, jafnréttismálum og stjórnsýslu. Vekja þarf fólk til umhugsunar um loftlagsmál og umhverfi sitt út frá velferð manneskjunnar og samfélagsins. Félagslegur auður kirkjunnar felst í því fólki sem er viðriðið þjónustu hennar á hverjum stað og í stoðþjónustu kirkjunnar við starfið á vettvangi fólksins. 

Núna er farið aftur af stað með nýja kosningu til vígslubiskups í Skálholti og skulum við vona að það takist betur til með formsatriðin. Ég trúi því að kirkjan vilji gera vel. Við viljum öll gera vel. Eftir að ég hlaut aftur tilnefningu presta og djákna í febrúar býð ég mig fram til starfa í þágu safnaðanna í umdæmi vígslubiskups í Skálholti. Umdæmið nær frá Hafnarprestakallli og suður og vestur um land allt norður til Stranda og vestur til Bolungarvíkur. Vesturlandið og allir Vestfirðir eru hér með og einnig Höfuðborgarsvæðið og Suðvesturhorn landsins. Fólkið sem kýs er fólkið í kjörnefndum prestakallanna á svæðinu, prestar og djáknar og er kosið í póstkosningu 9. – 21. mars.

Það sem heillar mig mest við þetta starf eru þau beinu tengsl sem gert er ráð fyrir að vígslubiskup hafi við hverja sókn. Starfsvettvangur hans er að vera í þessum tengslum og rækta þau í gegnum boðun, helgihald og safnaðarstarf. Ég vil vinna með því fólki sem vinnur að því að glæða kristni og kirkjulíf. Það er vel hægt með því að heimsækja söfnuði og setja sig inní aðstæður á hverjum stað. Það er hægt með góðum tengslum, ráð- gjöf og fræðslu. Það er hægt með því að vinna að endurmenntun og öðru sem getur komið í veg fyrir þreytu eða kulnun í starfi og alltaf má bæta vinnuaðstöðu og skipulag á vinnutíma og viðveru. Það gefur mikinn kraft ef hægt er að auka sjálfboðastarf og styrkja sjálfboðaliðana af því að það er bara meira gaman þar sem fleiri koma saman að verki. Svo þarf að vinna aftur skerðinguna á sóknargjöldum því það er rekstrarfé safnaðanna á sama hátt og gildir um öll trúfélög. 

Ég vil gjarnan fá að vinna að þessu með Guðs hjálp og öllum þeim sem vilja efla kirkjuna innanfrá og styrkja það starf sem nýtur mestrar virðingar hjá þjóðinni. Þess vegna gef ég kost á mér og kem með mína reynslu sem ég lýsi á heimasíðunni KristjánBjörnsson.is og kem fram með dyggum stuðningi konu minnar, Guðrúnar Helgu Bjarnadóttur. Ég vil fá að vinna að þessu öllu út frá Skálholti og með aðsetur þar enda er brýnt að efla þann helga stað með guðsþjónustu, fundum, fræðsludögum og uppbyggilegri samveru, aukinni kynningu og þjónustu við ferðafólk og skólahópa og ekki síst með rækt við kyrrðardaga og tónlistarlíf. Það er von mín að kirkjunni takist vel til.

 

 

Sr. Kristján Björnsson

 www.kristjánbjörnsson.is

 

.
Séra Kristján Björnsson í Eyrarbakkakirkju. Ljósm.: Björn Ingi Bjarnason.
,
Skráð af Menningar-Staður.


 

10.03.2018 19:58

Uppreisnin í Eflingu og undiröldur samfélagsins

 


Styrmir Gunnarsson.

 

Uppreisnin í Eflingu og undiröldur samfélagsins

Það eru haf­in kyn­slóðaskipti í verka­lýðshreyf­ing­unni

 

Bylt­ing­in sem varð við stjórn­ar­kjör í verka­lýðsfé­lag­inu Efl­ingu er staðfest­ing á því, sem ýms­ar vís­bend­ing­ar hafa verið um, að hin hefðbundna verka­lýðsfor­ysta hef­ur misst jarðsam­band. Það er ekki hægt að úti­loka að kjör Sól­veig­ar Önnu Jóns­dótt­ur og meðfram­bjóðenda henn­ar muni hafa keðju­verk­andi áhrif inn­an annarra verka­lýðsfé­laga.

 

Það eru að verða kyn­slóðaskipti í for­ystu verka­lýðsfé­lag­anna.

 

Í sögu­legu sam­hengi eru þetta merki­leg tíðindi en þau eru jafn­framt ein af mörg­um birt­ing­ar­mynd­um þeirra um­brota, sem verið hafa í ís­lenzku sam­fé­lagi frá hruni.

 

Þótt merki­legt kunni að virðast varð hrunið ekki sú þjóðfé­lags­lega hreins­un, sem ætla hefði mátt. Þvert á móti varð ein af af­leiðing­um þess sú að til­tölu­lega fá­menn­ir þjóðfé­lags­hóp­ar virðast hafa tekið hönd­um sam­an, meðvitað eða ómeðvitað, um að nýta sér aðstöðu sjálf­um sér í hag.

 

Þetta finna og sjá al­menn­ir borg­ar­ar mjög skýrt og þess vegna er til staðar djúp­stæð reiði, sem brýzt fram með ýms­um hætti. Sól­veig Anna og henn­ar fólk hittu á eina slíka æð.

 

Af­leiðing­in verður sú, að fram und­an kunna að vera á næstu miss­er­um meiri óróa­tím­ar á vinnu­markaði en verið hafa í ára­tugi.

 

Það þýðir ekki að hefja upp gam­al­kunn­ugt raus um að öfga­hóp­ar í verka­lýðsfé­lög­un­um séu að setja þjóðfé­lagið á hvolf.

 

Grund­völl­ur að því hef­ur verið lagður á Alþingi sjálfu og fyr­ir allra aug­um.

Í bók minni, Upp­reisn­ar­menn frjáls­hyggj­unn­ar – bylt­ing­in, sem aldrei varð, sem út kom fyr­ir síðustu jól, lýsi ég þeim at­höfn­um Alþing­is með eft­ir­far­andi hætti

(bls. 123-124):

„Þeir sem eru inni í valda­hringn­um not­færa sér aðstöðu sína út í yztu æsar. Ný­leg dæmi um það eru launa­ákv­arðanir kjararáðs, sem snúa að fá­menn­um hópi æðstu emb­ætt­is­manna, þing­mönn­um og ráðherr­um, og eldri dæmi eru eft­ir­launa­rétt­indi op­in­berra starfs­manna og þing­manna og ráðherra. Í öll­um til­vik­um er byggt á lög­um, sem Alþingi hef­ur sett. Upp­haf­lega eru drög að lög­un­um sam­in í ráðuneyt­um, þar sem sömu æðstu emb­ætt­is­menn og ráðherr­ar koma við sögu, og þeir setja inn í laga­drög­in for­send­ur sem kjararáð á að byggja á ákv­arðanir um launa­kjör höf­und­anna sjálfra. Þessi lög eru svo samþykkt á Alþingi af þing­mönn­um sem eiga sömu hags­muna að gæta vegna þess að kjararáð ákveður líka launa­kjör þeirra svo og ráðherra. Kjararáð út­skýr­ir svo ákv­arðanir sín­ar með því að því beri að úr­sk­urða á þenn­an veg vegna þess að lög­in gefi fyr­ir­mæli um það. Bjarni Bene­dikts­son, þá fjár­málaráðherra, lýsti fyr­ir­huguðum bón­us­greiðslum til starfs­manna þrota­bús Kaupþings sem „sjálf­töku“ sum­arið 2016. En hvaða orð á að nota yfir það fyr­ir­komu­lag. sem hér er lýst?“

 

Bók­ar­höf­und­ur hafði hins veg­ar ekki hug­mynda­flug til að átta sig á því, að þess­ar launa­hækk­an­ir kjararáðs yrðu svo notaðar sem for­senda fyr­ir því að hækka laun kjararáðsmanna sjálfra eins og nú er komið í ljós! Þær hækk­an­ir eru byggðar á hækk­un launa­vísi­tölu, sem að sjálf­sögðu hef­ur hækkað m.a. vegna um­ræddra ákv­arðana kjararáðs.

 

Þing­menn allra flokka nema Pírata eru eins og kunn­ugt er í þagn­ar­banda­lagi um þessi mál.

 

Það er mis­notk­un valds af þessu tagi sem hef­ur skapað jarðveg fyr­ir upp­reisn­ir við stjórn­ar­kjör bæði í VR og Efl­ingu. Í Kast­ljósi RÚV sl. miðviku­dags­kvöld kom fram að þessi tvö fé­lög ásamt verka­lýðsfé­lög­un­um á Akra­nesi og Húsa­vík, sem eiga sér lengri sögu sem and­ófs­fé­lög inn­an verka­lýðshreyf­ing­ar­inn­ar, hafi nú sam­an­lagt yfir 50% full­trúa á ASÍ-þingi.

 

En þrátt fyr­ir þau hrika­legu mis­tök, sem hér hafa verið gerð og Alþingi og æðstu stjórn­völd bera alla ábyrgð á, ekki „talíban­arn­ir“ í verka­lýðsfé­lög­un­um, eins og einn viðmæl­andi minni lýsti upp­reisn­ar­mönn­um á þeim vett­vangi, held­ur lífið áfram og það þarf að bregðast við fyr­ir­sjá­an­leg­um vanda á vinnu­markaði áður en það verður orðið of seint.

 

Í því sam­bandi er hyggi­legt fyr­ir rík­is­stjórn­ina að átta sig á að mesta her­veldi heims, Banda­ríkj­un­um, hef­ur ekki enn tekizt að ráða niður­lög­um talíbana í Af­gan­ist­an. Það gátu Sov­ét­rík­in forðum daga ekki held­ur.

 

Og vegna þess að rík­is­stjórn­in var svo hepp­in að verka­lýðsfé­lög­in ákváðu að skjóta átök­um á vinnu­markaði á frest fram til næstu ára­móta er enn tími til stefnu.

 

Sá tími verður til einskis nema stjórn­mála­menn­irn­ir horf­ist í augu við eig­in mis­tök. Fyrsta skrefið í þá átt gæti verið að verða við ósk­um eins þing­manns Pírata um að efna til umræðna á Alþingi um stöðuna á vinnu­markaðnum. Fram hef­ur komið að Jón Þór Ólafs­son hafi óskað eft­ir slík­um umræðum frá því í des­em­ber.

 

Hætt­an er hins veg­ar sú, að hin unga sveit, sem sit­ur í rík­is­stjórn Íslands og hef­ur ekki af eig­in raun upp­lifað þau hrika­legu átök sem orðið geta á vinnu­markaði og það gíf­ur­lega tjón sem af þeim get­ur leitt fyr­ir sam­fé­lagið allt, skilji ekki hvað um er að ræða.

 

Með ein­hverj­um hætti verður „valda­hring­ur­inn“, sem ég leyfði mér að kalla þenn­an hóp í fyrr­nefndri bók, að gefa eft­ir af sinni „sjálf­töku“. Starfs­hóp­ur rík­is­stjórn­ar og aðila vinnu­markaðar, sem skilaði áliti um miðjan fe­brú­ar og varð ekki sam­mála, nefndi „fryst­ingu“ launa­kjara um­ræddra hópa. Um þá til­lögu hafa eng­ar umræður orðið.

 

Það ætti hins veg­ar að auðvelda þau sam­töl, sem eru fram und­an, að verka­lýðsfor­ingi nýrr­ar kyn­slóðar, Sól­veig Anna Jóns­dótt­ir, sem á sér reynd­ar djúp­ar ræt­ur í stjórn­mála­hreyf­ing­um jafnaðarmanna og sósí­al­ista á síðustu öld – reynd­ar í Sjálf­stæðis­flokkn­um líka(!) – á að baki starf inn­an for­ystu­flokks rík­is­stjórn­ar­inn­ar, VG.

 

Styrm­ir Gunn­ars­son styrm­ir@styrm­ir.is

 

Morgunblaðið laugardagurinn 10. mars 2018.

 


Skráð af Menningar-Staður