Menningar-Bakki * Viðhalda og efla þjóðlega menningararfleið til sjávar og sveita*
-------- Alþýðuhúsið á Eyrarbakka - Vinir alþýðunnar - Á undan sinni framtíð --- "Stærra í hugum okkar en við sjálfir gerum okkur grein fyrir" ---

11.12.2020 16:37

- Úr myndasafninu -

 

 

 

 

 

  - Úr myndasafninu -
 

 


Landhelgisgæslan á Bryggjuhátíð á Stokkseyri.

 

 

.
.
.
.


Skráð af Menningar-Bakki.

11.12.2020 14:02

Merkir Íslendingar - Jón Guðmundsson

 

 

 


Jón Guðmundsson (1807- 1875).
 

 

Merkir Íslendingar - Jón Guðmundsson

 

 

Jón Guðmundsson fæddist í Melshúsum í Reykjavík 10. desember 1807, sonur Guðmundar Bernharðssonar og Ingunnar Guðmundsdóttur.

 

Eiginkona Jóns var Hólmfríður, systir Þuríðar, langömmu Vigdísar Finnbogadóttur, og Önnu, móður Matthíasar Johannessen skálds.
 

Jón lærði fyrst hjá séra Þorvaldi Böðvarssyni, prófasti og skáldi í Holti í Önundarfirði og Holti undir Eyjafjöllum er síðar varð tengdafaðir hans. Hann fór í Bessastaðaskóla 1824 en missti tvö ár úr skóla vegna veikinda og var haltur síðan. Hann lauk stúdentsprófi 1832.
 

Jón var skrifari hjá landfógeta og settur til að gegna embætti hans um hríð 1836, var umboðsmaður Kirkjubæjarklaustursjarða 1837-47 og bjó þar, var settur sýslumaður í Skaftafellssýslu 1849 en fór utan til laganáms 1850 og lauk því ári síðar.
 

Jón hafði verið fulltrúi Íslands á stjórnlagaþingi Dana 1848-49. Hann var fulltrúi á Þjóðfundinum í Reykjavík 1851 og var þar í forystu, ásamt Jóni Sigurðssyni, þar sem barist var fyrir landsréttindum Íslendinga. Hann fór utan það ár, ásamt nafna sínum, í erindum Þjóðfundarins, en í banni stiftamtmanns. Við það missti hann sýslumannsembættið og von um frekari embættisveitingar.
 

Jón var ásamt nafna sínum, Jóni Sigurðssyni, einn helsti leiðtogi sjálfstæðisbaráttunnar um og eftir þjóðfundinn 1851.
 

Hann eignaðist blaðið Þjóðólf í Reykjavík 1852 og ritstýrði því til 1874 en blaðið kallaði hann „blað lýðsins og þjóðernisflokksins – oppositionsblað“. Hann var alþm. Skaftfellinga 1845-58, Vestur-Skaftfellinga 1858-69 og kosinn alþm. Vestmannaeyja 1874 og bæjarfulltrúi í Reykjavík 1856-68. Þá var hann málflutningsmaður við landsyfirréttinn frá 1858 til æviloka.
 

Einar Laxness ritaði ævisögu Jóns Guðmundssonar, útg. af Sögufélagi og Ísafold 1960, og annaðist útgáfu bréfa Jóns ritstjóra til Jóns forseta 1845-1855.
 

Jón lést 31. maí 1875.


Skráð af Menningar-Bakki.

11.12.2020 06:56

Merkir Íslendingar - Fríða Á. Sigurðardóttir

 


Fríða Á Sigurðardóttir (1940 - 2010).
 

 

 

Merkir Íslendingar – Fríða Á. Sigurðardóttir

 

 

Fríða Áslaug Sigurðardóttir fæddist á Hesteyri í Sléttuhreppi í N-Ísafjarðarsýslu 11. desember 1940.

 

Foreldrar hennar voru Sigurður Sigurðsson, bóndi í Hælavík og síðar símstöðvarstjóri á Hesteyri, og kona hans, Stefanía Halldóra Guðnadóttir húsfreyja. Fríða átti 12 systkini, meðal annarra Jakobínu Sigurðardóttur rithöfund.

 

Fríða var gift Gunnari Ásgeirssyni og eru synir þeirra Ásgeir og Björn Sigurður. Hún lauk cand.mag.-prófi í íslensku frá Háskóla Íslands 1979. Hún starfaði sem bókavörður á Háskólabókasafni og Ameríska bókasafninu frá 1964 til 1970, var deildarfulltrúi við heimspekideild Háskóla Íslands frá 1971 til 1973 og stundakennari við Háskóla Íslands og Kennaraháskóla Íslands frá 1973 til 1975.

 

Frá 1978 starfaði Fríða alfarið við ritstörf. Fyrsta bók Fríðu, smásagnasafnið Þetta er ekkert alvarlegt, kom út árið 1980. Hún sendi síðan frá sér tvö önnur smásagnasöfn, Við gluggann (1984) og Sumarblús (2000).

 

Þriðja skáldsaga Fríðu, Meðan nóttin líður (1990), hlaut Íslensku bókmenntaverðlaunin 1991 og Bókmenntaverðlaun Norðurlandaráðs 1992. Í umsögn dómnefndar Norðurlandaráðs segir: „Fríða lýsir í ljóðrænum texta þessarar bókar þörf okkar fyrir sögu og frásögn um leið og bókin lýsir hve erfitt það er að komast að eingildum sannleika um líf og list.“ Meðan nóttin líður hefur verið þýdd á Norðurlandamál og ensku.

 

Skáldsaga Fríðu, Í luktum heimi, var tilnefnd til Íslensku bókmenntaverðlaunanna 1994. Aðrar skáldsögur Fríðu eru Sólin og skugginn (1981), Eins og hafið (1986), Maríuglugginn (1998) og síðasta verk hennar, Í húsi Júlíu, sem kom út í október 2006. Einnig ritaði Fríða greinar um bókmenntir í blöðum og tímaritum og sendi frá sér ritgerð um leikrit Jökuls Jakobssonar auk þýðinga á erlendum ritum.

 

Fríða Á. Sigurðardóttir lést í Reykjavík 7. maí 2010.
 Skráð af Menningar-Bakki.

09.12.2020 17:34

Merkir Íslendingar - Þröstur Sigtryggsson

 Þröstur Sigtryggsson (1929 - 2017).

 

 

Merkir Íslendingar - Þröstur Sigtryggsson

 

 

Þröst­ur Sig­tryggs­son skip­herra lést 9. des­em­ber 2017. Hann var fædd­ur 7. júlí 1929. 

Son­ur hjón­anna Hjaltlínu Mar­grét­ar Guðjóns­dótt­ur, kenn­ara og hús­freyju frá Brekku á Ingj­aldssandi, og séra Sig­tryggs Guðlaugs­son­ar, prests og skóla­stjóra á Núpi í Dýraf­irði. Bróðir Þrast­ar var Hlyn­ur Sig­tryggs­son veður­stofu­stjóri.
 

Þröst­ur ákvað snemma að gera sjó­mennsku að ævi­starfi. Hann tók inn­töku­próf í 2. bekk far­manna í Stýri­manna­skól­an­um haustið 1952 og út­skrifaðist frá Stýri­manna­skól­an­um 1954 og lauk prófi í varðskipa­deild í sama skóla 1954. Hann réðst þá sem stýri­maður hjá Land­helg­is­gæsl­unni og varð skip­herra 1960 og starfaði þar uns hann lét af störf­um árið 1990, og hafði þá tekið þátt í þrem­ur þorska­stríðum.
 

Þröst­ur kenndi vet­urna 1990-1992 við grunn­skól­ann á Þing­eyri og stundaði sjó­sókn þaðan. Þá var hann skóla­stjóri barna­skól­ans á Núpi 1981 til 1983 og kenndi einnig við héraðsskól­ann þar.
 

Þröst­ur var mik­ill áhugamaður um golf á þess­um árum og stofnaði golf­fé­lagið Glámu á Þing­eyri og stóð að og hannaði 9 holu golf­völl þar vestra. Æsku­slóðirn­ar voru hon­um hug­leikn­ar og gerði hann æsku­heim­ili sitt, Hlíð í Dýraf­irði, að menn­ing­ar­minja­safni. Átti hann hug­mynd að rit­un sögu Núps­skóla. Sú hug­mynd varð að veru­leika og kom bók­in sem Aðal­steinn Ei­ríks­son ritaði út í sum­ar þegar 110 ár voru frá stofn­un skól­ans. Minn­inga­bók Þrast­ar, Spaug­sami spör­fugl­inn, kom út 1987. Þröst­ur var sæmd­ur ridd­ara­krossi fálka­orðunn­ar 17. júní 1976.
 

Vorið 1954 kvænt­ist Þröst­ur Guðrúnu Páls­dótt­ur sjúkra­liða (f. 1933, d. 2013).

Börn þeirra eru;

Mar­grét Hrönn, Bjarn­heiður Dröfn og Sig­trygg­ur Hjalti. Fyr­ir átti Þröst­ur dótt­ur­ina Kol­brúnu Sig­ríði. 

Eft­ir lát eig­in­konu sinn­ar eignaðist Þröst­ur góðan fé­laga og vin, Hall­fríði Skúla­dótt­ur.


 


Hlíð rétt við Núp í Dýrafirði. Heimili séra Sygtryggs og Hjaltlínu. Ljósm.: BIB
 

Skráð af Menningar-Bakki.

08.12.2020 13:34

Merkir Íslendingar- Ragnheiður Guðmundsdóttir

 

 

Ragnheiður Guðmundsdóttir (1925 -2014)

 

 

Merkir Íslendingar- Ragnheiður Guðmundsdóttir

 

 

Ragnheiður Guðmundsdóttir, Heiða, fæddist í Innri-Hjarðardal í Önundarfirði hinn 8. desember 1925. 

 

Hún var dóttir hjónanna Sigríðar Hagalínsdóttur og Guðmundar Gilssonar og var áttunda í röð tíu barna þeirra.

 

Systkinin frá Innri-Hjarðardal eru:


Gils, f. 1914, Ingibjörg, f. 1916, Helga Guðrún, f. 1918, Þórunn, f. 1920, Hagalín, f. 1921, Kristján, f. 1923, Magnús, f. 1924, Ragnheiður, f.1925, Páll, f. 1927, og Bjarni Oddur, f. 1930.

 

Ragnheiður ólst upp í foreldrahúsum í Hjarðardal ásamt systkinum sínum og tók þátt í þeim störfum sem þar voru unnin sín bernsku- og æskuár.

 

Veturinn 1944-1945 stundaði hún nám í Héraðsskólanum á Laugarvatni og á Húsmæðraskólanum á Laugalandi í Eyjafirði veturinn 1947-1948.

 

Ragnheiður giftist Einari Guðna Tómassyni frá Auðsholti, þá í Biskupstungum, hinn 8. desember 1950. Þau byggðu sér hús í Auðsholti og bjuggu þar fyrst félagsbúi með Tómasi bróður Einars og konu hans Helgu Þórðardóttur og síðan með syni sínum og tengdadóttur, Guðmundi Gils og Jarþrúði Jónsdóttur. Heiða gekk til allra starfa í sveitinni bæði úti og inni.

 

Um áratuga skeið tóku Heiða og Einar börn í sumardvöl og skiptir fjöldi þeirra tugum.

 

Heiða og Einar eignuðust fimm börn en misstu einn son á öðru ári.

 

Börn þeirra eru:

1) Sigríður Ása, f. 1951, sambýlismaður Gunnar Gunnarsson. Börn hennar eru: a) Einar Jón Kjartansson, maki Valdileia Martins de Oliveira, hans börn eru Atli Jakob og Anna Luiza, b) Soffía Guðrún Kjartansdóttir, maki Sigurgeir Guðmundsson, börn þeirra eru Konráð Elí, Marteinn Hugi og Ástríður Erna, c) Davíð Ernir Harðarson, d) Snorri Harðarson.

2) Guðmundur Gils, f. 1954, maki Jarþrúður Jónsdóttir. Börn þeirra eru: a) Guðrún Ragnheiður, maki Víglundur Sverrisson, börn: Jana Eir, Emil Tumi og Fura Lív, b) Guðni Reynir, c) Auður Ösp.

3) Unnsteinn, f. 1958, hans dóttir er Kristín.

4)Vilhjálmur Borgar fæddur 1960 látinn 1961.

5)Vilborg fædd 1962, maki Magnús Karlsson. Börn þeirra eru Einar og Sigríður.
 

 

Ragnheiður Guðmundsdóttir lést 28. febrúar 2014.Skráð af aMenningar-Bakki.

07.12.2020 17:35

MERKIR ÍSLENDINGAR - JÓN SIGURÐSSON

 


Jón Sigurðsson (1811 - 1879)

 

 

MERKIR ÍSLENDINGAR – JÓN SIGURÐSSON

 

 

Jón Sigurðsson var fæddur á Hrafnseyri við Arnarfjörð 17. júní 1811, dáinn 7. desember 1879.
 

Foreldrar:
Sigurður Jónsson (fæddur 2. janúar 1777, dáinn 31. október 1855) prestur þar og kona hans Þórdís Jónsdóttir prestsdóttir frá Holti í Önundarfirði (fædd 1772, dáin 28. ágúst 1862) húsmóðir.

 

Bróðir Jens Sigurðssonar þjóðfundarmanns.

 

Maki (4. september 1845): Ingibjörg Einarsdóttir (fædd 9. október 1804, dáin 16. desember 1879) húsmóðir.

Foreldrar hennar: Einar Jónsson og kona hans Ingveldur Jafetsdóttir. Systir Ólafs Johnsens þjóðfundarmanns.

 

Stúdent 1829 úr heimaskóla hjá séra Gunnlaugi Oddssyni. Lagði stund á málfræði og sögu, síðar stjórnfræði og hagfræði við Hafnarháskóla en lauk ekki prófi. Við verslunarstörf í Reykjavík 1829–1830. Skrifari hjá Steingrími biskupi Jónssyni í Laugarnesi 1830–1833. Varð 1835 styrkþegi Árnasafns, skrifari í stjórnarnefnd þess frá 1848 til æviloka. Vann samtímis hjá Bókmenntafélaginu, Vísindafélagi Dana (Det kgl. danske Videnskabernes Selskab), Fornfræðafélaginu (Det kgl. nordiske Oldskriftselskab), var skjalavörður þess félags 1845–1849, er staðan var lögð niður, naut síðan biðlauna um hríð og styrks úr sjóði J. L. Smidts, uns hann fékk fastan styrk úr ríkissjóði Dana til þess að gefa út fornbréfasafn.

 

Stofnaði Ný félagsrit og gaf út 1841–1873.

 

Forseti Kaupmannahafnardeildar Bókmenntafélagsins frá 1851 til æviloka, hlaut af því forsetanafnið. Forseti Þjóðvinafélagsins frá stofnun þess 1871 til æviloka. Átti sæti í fornritanefnd Fornfræðafélagsins frá 1847 til æviloka, skrifari í stjórn þess 1863–1864. Erindreki í fjárkláðamálinu 1859.

 

Var í fjárhagsnefnd Íslendinga og Dana 1861–1862 og í póstmálanefnd 1871. Hafði laun frá Þjóðvinafélaginu 1873–1874, en síðan heiðurslaun frá Alþingi. Átti heima í Kaupmannahöfn alla tíð frá 1833.

 

Alþingismaður Ísfirðinga 1845–1879. Þjóðfundarmaður 1851. Sat ekki þing 1855, 1861, 1863 og sagði af sér fyrir þing 1879.

 

Konungkjörinn fulltrúi Íslands á stjórnlagaþinginu í Danmörku 1848–1849. Forseti Alþingis 1849, 1853, 1857 og 1865–1873, forseti sameinaðs þings 1875–1877, forseti neðri deildar 1875–1877.

 

Samdi rit og greinar um réttarstöðu Íslands og framfaramál. Gaf út íslensk fornrit og fornbréf. — Stærst margra rita um ævi hans er í fimm bindum: Jón Sigurðsson, eftir Pál Eggert Ólason (1929–1933).

 

Ritstjóri:

Ný félagsrit (1841–1873).

Tíðindi frá Alþingi Íslendinga (1845–1847).


 

 

Hrafnseyri við Arnarfjörð.

 

 

 

 

Skráð af Menningar-Bakki.

06.12.2020 08:23

Gróa Björnsdóttir - fædd 27. des. 1926 - dáin 10. nóv. 2020 - Minning

 

 
Gróa Guðmunda Björnsdóttir (1926 - 2020)
 
 

 

Gróa Björnsdóttir - Fædd 27. desember 1926

 

- Dáin 10. nóvembver 2020 - Minning

 

 

Gróa Guðmunda Björnsdóttir, fiskverkandi og húsmóðir, fæddist í Neðrihúsum í Hestþorpi, Önundarfirði, 27. desember 1926. Hún lést 10. nóvember 2020 á hjúkrunarheimilinu Sólvöllum á Eyrarbaka úr Covid-19.
 

Foreldrar Gróu: Guðmundína Jónsdóttir, f. 10. október 1893, d. 1. júní 1982, og Guðbjartur Björn Hjálmarsson, f. 31. júlí 1900, d. 21. ágúst 1974.

 

Systkin sammæðra Gróu: Stúlka, f. 29. júlí 1913, d. 23. september 1913, Jón Vilhjálmur á Hólmavík, f. 6. júlí 1915, d. 4. maí 1983, og Guðmunda Kristjana Petrína á Ísafirði, f. 1. janúar 1917, d. 22. nóvember 1985, öll Sigurðarbörn.

 

Samfeðra Gróu: Guðbjörg Jóhanna á Ísafirði, f. 19. október 1956, og Hjálmar Steinþór á Ísafirði, f. 14. október 1959, d. 22. júní 2003.

 

Afi og amma í móðurætt: Gróa Jóhannesdóttir, f. 20. ágúst 1859, d. 19. desember 1947, og Jón Guðmundsson, f. 4. desember 1836, d. 26. júní 1917.

 

Afi og amma í föðurætt: Guðbjörg Björnsdóttir, f. 13. maí 1869, d. 3. nóvember 1950, og Hjálmar Guðmundsson, f. 18. maí 1866, d. 26. maí 1931. 

 

Eiginmaður Gróu var Haraldur Jónsson frá Görðum í Önundarfirði, skipstjóri og fiskverkandi, f. 30. september 1924, d. 20. október 1988.

 

Börn Gróu og Haraldar:

 

1) Guðmundur Björn,

f. 25. desember 1953, d. 28. maí 1995. Sambýliskona Gróa Kristín Helgadóttir, f. 2. janúar 1952.

 

2) Guðbjörg Kristín,

f. 3. júlí 1955, d. 2. ágúst 2020. Eiginmaður Hjálmar Sigurðsson, f. 3. maí 1945. Börn: 1. Sigurður Jóhann, f. 7. júlí 1979, unnusta Tiffany Gedalanga, f. 2. apríl 1978. Dóttir: Ísabella Líf, f. 1. október 2019. 2. Haraldur, f. 28. nóvember 1980. 3. Ragnheiður Karítas, f. 8. maí 1987, unnusti Hilmar Guðlaugsson, f. 28. júlí 1980.

 

3) Jóna Guðrún,

f. 22. nóvember 1956. Eiginmaður Björn Ingi Bjarnason, f. 7. júlí 1953. Börn: 1. Júlía Bjarney, f. 29. mars 1979. Eiginmaður Þórir Ingvarsson, f. 6. febrúar 1982. 2. Inga Rún, f. 19. september 1980. Eiginmaður Bragi Ólafsson, f. 12. febrúar 1981. Börn: Ólafur, f. 12. janúar 2009, Björn Ingi, f. 25. september 2011, Lilja, f. 18. desember 2013. 3. Víðir, f. 6. júní 1988. Sambýliskona Embla Rún Gunnarsdóttir, f. 31. maí 1993.

 

4) Gunnhildur Halla,

f. 29. mars 1958, d. 19. ágúst 2011. Dóttir: Kristrún Una Thoroddsen, f. 22. janúar 1987. Faðir Guðmundur Kristinn Thoroddsen, f. 26. nóvember 1962. Eiginmaður Kristján Hafliðason, f. 16. nóvember 1984. Börn: Tristan Berg Arason, f. 6. desember 2008, Alexander, f. 3. júní 2012, Gunnhildur Björk, f. 5. október 2015.

 

5) Gróa Guðmunda,

f. 25. ágúst 1961. Eiginmaður Pétur Björnsson, f. 13. nóvember 1964. Börn: 1. Georg Rúnar Ragnarsson, f. 2. febrúar 1982. Eiginkona Kamma Dögg Gísladóttir, f. 26. mars 1986. Börn: Hrafntinna, f. 31. desember 2013, Eva Móey, f. 16. september 2019. 2. Sif Magnúsdóttir, f. 30. ágúst 1986, d. 25 ágúst 2004. 3. Helgi Magnússon, f. 30. ágúst 1986. 4. Margrét Alda Magnúsdóttir, f. 5. mars 1990. Sambýlismaður Andri Þór Árnason, f. 8. maí 1980. Dóttir hans Bríet Eva, f. 14. mars 2011. 5. Bergljót Ásta Pétursdóttir, f. 27. september 2001. Sambýliskona Hugrún Pálsdóttir, f. 20. maí 1997.

 

6) Hinrik Rúnar,

f. 19. ágúst 1966, d. 9. apríl 2016. Eiginkona Elínbjörg Katrín Þorvarðardóttir, f. 19. september 1970. Börn: 1. Gróa, f. 17. ágúst 2002. 2. Elín, f. 17. mars 2008. 3. Þorvarður, f. 6. febrúar 2009.


Útför Gróu fór fram í kyrrþey að hennar ósk í Víðistaðakirkju í Hafnarfirði 17. nóvember 2020 og var jarðsett í Flateyrarkirkjugarði 19. nóvember 2020.

 

________________________________________________________________


 

Gróa ólst upp á Mosvöllum í Önundarfirði hjá ömmu sinni og afa, Guðbjörgu og Hjálmari. Hún var í barnaskóla í sveit Önundarfjarðar eins og háttur var þess tíma. Búið á öllum bæjum og mörg börn í sveitinni. Samgangur mikill og mynduðust sterk vináttubönd sem héldu ævilangt.
 


Gróa fór veturinn 1944-45 í Héraðsskólann á Laugarvatni. Fleiri úr Önundarfirði fóru að Laugarvatni þann vetur og rifjaði hún oft upp þessa tíma og ræktaði vel vináttutengslin við skólafélagana. Þá fór Gróa í Húsmæðraskólann á Laugalandi í Eyjafirði veturinn 1948-49 og var sá vetur einnig mjög kær henni í minningunni. Þar lærði hún vel til verka en auk þess bjó hún að því sem amma hennar hafði kennt henni auk þeirrar næmni sem henni var gefin í vöggugjöf.

 

Gróa og Haraldur bjuggu allan sinn búskap á Grundarstíg 1 á Flateyri ásamt því að búa á Görðum öll sumur í tvo áratugi. Þar voru þau með útgerðaraðstöðu og fiskvinnslu. Veiddu og verkuðu grásleppu og rauðmaga, harðfisk og hákarl. Allt unnið af miklum myndarskap.

 

Gróa var húsmóðir á stóru heimili þar sem mjög gestkvæmt var, bæði á Grundarstígnum og Görðum, enda fátt skemmtilegra í þeirra tilveru en að taka á móti gestum af þjóðlegri reisn.

 

Gróa var virk í félagsstörfum. Hún var gjaldkeri slysavarnadeildarinnar Sæljóss á Flateyri um árabil og öll árin í stjórn með sínum góðu vinkonum Júlíönu Jónsdóttur og Kristínu Guðmundsdóttur.

 

Gróa var gullfalleg kona, bros- og hláturmild. Hún átti gott með að sjá broslegu hliðarnar á lífinu og var ánægjulegt og kærleiksríkt að verða henni samferða í gegnum lífið. Hún bjó yfir þeirri gjöf að geta hlustað af skilningi og dýpt, dómharka var víðs fjarri hennar huga.


Hún bjó á Flateyri til 1. september 2013 að hún flutti í íbúð eldriborgara á Hlíf I á Ísafirði. Gróa flutti á hjúkrunarheimilið Sólvelli á Eyrarbakka 29. júlí 2020. 

 

Gróa kunni ógrynni ljóða og þau Guðmundur Ingi Kristjánsson skáld á Kirkjubóli náðu vel saman í andanum. Orti hann mörg ljóð til vinkonu sinnar og vaknaði eitt þeirra vordag í kaffispjalli á Mosvöllum er Guðbjörg fóstursystir hennar leit upp í hlíðina og sagði: Þegar hlíðin fer að gróa, Gróa.
 


Gróa var jarðsett í Flateyrarkirkjugarði 19. nóvember 2020. Þann dag voru nákvæmlega 70 ár frá því að Guðmundur Ingi færði Gróu ljóðið, sem hljóðar svo:

 

Þegar hlíðin fer að gróa, Gróa,

gróa lífsins blóm.

Æskan finnur út um holt og móa

enn sinn helgidóm.

Gleymmérei er blá í lautarbarði,

brönugrös um hól.

Varablóm í hlýjum húsagarði

hlær við morgunsól.

 

Sjáðu, hvernig hlíðarlindin létta

leikur tær og hrein

meðan grænir burknar byrja að spretta

bak við urðarstein.

Undan vetri lambagrasið lifir

ljóst við holtið autt.

Blóðberg sérðu breiðast grjótið yfir

brúnt og hjartarautt.

 

Sjáðu, hvernig holtasóley breiðir

hvítu blöðin út

meðan döggvot dúnurt hugann seiðir

dul og niðurlút.

Sjáðu, hvernig fjólan ung og feimin

fer í bláan kjól

meðan ein á bungu, björt og dreymin

brosir melasól.

 

Sjáðu, hvernig dropi á mosadýi

dýra speglar mynd.

Það er eins og ævintýri stígi

upp úr hverri lind.

Vorið opnar út um holt og móa

enn sinn leyndardóm.

Þegar hlíðin fer að gróa, Gróa,

gróa lífsins blóm.

 

 
 

 

 
 
 


Hvíl í friði elsku mamma og tengdamamma.

 


Jóna Guðrún Haraldsdóttir
Björn Ingi Bjarnason

Skráð af Menningar-Bakki.

 

05.12.2020 08:38

Merkir Íslendingar - Rögnvaldur Ólafsson

 


Rögnvaldur Ólafsson (1874 - 1917).
 

 

 

Merkir Íslendingar – Rögnvaldur Ólafsson

 

 

Rögnvaldur Ólafsson arkitekt fæddist í Ytri-Húsum í Dýrafirði 5. desember 1874. Hann var sonur Ólafs Zakaríassonar, bónda þar, og Veróníku Jónsdóttur húsfreyju.

 

Rögnvaldur byrjaði nám nokkuð seint og lauk stúdentsprófi frá Menntaskólanum í Reykjavík árið 1900, 25 ára gamall. Hann fór til Kaupmannahafnar til að stunda nám í húsagerðarlist í Det Tekniske Selskabs Skole 1901-1904. Hann lauk ekki námi vegna veikinda og sneri heim með berkla sem hann háði baráttu við æ síðan og áttu eftir að draga hann til dauða aðeins 42 ára að aldri.

 

Rögnvaldur var ráðunautur ríkisstjórnarinnar um húsagerð frá 1904 og til æviloka 1917 og er almennt talinn fyrsti íslenski húsameistarinn. Hann beitti sér fyrir aukinni steinhúsagerð en var einnig annt um að gömlum og vel byggðum byggingum yrði ekki spillt með með illa ígrunduðum viðbótum eða þær rifnar niður að óþörfu.

 

Þrátt fyrir erfiðan sjúkdóm er Rögnvaldur án efa einn merkasti íslenski arkitektinn. Hann teiknaði mörg af glæsilegustu timburhúsunum sem reist voru í Reykjavík á fyrsta áratug aldarinnar, t.d. nokkur við Tjarnargötuna. Þar með er taldar breytingar á Ráðherrabústaðurinn sem fluttur var frá Sólbakka í Önundarfirði.

 

Þá teiknaði Rögnvaldur turninn á Bernhöftstorfunni við Amtmannsstíg 1 og Húsavíkurkirkju, sem er krosskirkja byggð úr norskum viði. Tvær aðrar kirkjur teiknaði hann sem eru í sama stíl og Húsavíkurkirkja, en minni. Önnur er í Hjarðarholti í Dölum og hin er á Breiðabólstað í Fljótshlíð.

 

Auk þess er Rögnvaldur höfundur að ýmsum svipmestu fyrstu steinhúsunum, s.s. Pósthúsinu í Pósthússtræti, Vífilsstaðaspítala og skólahúsum á Hvanneyri og á Hólum. Mörg húsa Rögnvalds eru snilldarleg, íslensk útfærsla á sveitserstíl og ný-klassík. En það sem einkum einkennir persónulegan stíl hans er afar næm tilfinning fyrir hlutföllum og vandaðar útfærslur.

 

Rögnvaldur lést 14. febrúar 1917 á berklahælinu Vífilsstöðum sem hann hafði sjálfur teiknað.


 

,

,

Ráðherrabústaðurinn við Tjarnargötu í Reykjavík.


Framhliðin er komin í stíl íslensks burstabæjar

en bakhliðin er enn í stíl norsks sveitaseturs.

,

 


Skráð af Menningar-Bakki.

05.12.2020 08:27

Merkir Íslendingar - Björn Halldórsson

 

 


Sauðlauksdalur við Patreksfjörð. Ljósm.: Mats Wibe Lund.

 

 

Merkir Íslendingar - Björn Halldórsson

 

 

Björn Halldórsson fæddist 5. desember 1724, sonur Sigríðar Jónsdóttur og Halldórs Einarssonar, prests á Stað í Steingrímsfirði.

 

Eftir dauða föður síns var hann 14 ára sendur í vist í Skálholtsskóla hjá Jóni Árnasyni biskupi. Hann var góður nemandi og vel að sér í klassískum fræðum.

 

Árið 1756 varð hann prófastur í Sauðlauksdal. Hann kvæntist Rannveigu Ólafsdóttur og þau bjuggu í Sauðlauksdal í 30 ár. Björn var frumkvöðull í jarðyrkju á Íslandi. Hann byggði stóran garð og skyldaði sóknarmenn í þegnskylduvinnu í garðinum, sem þeir á móti nefndu garðinn Ranglát. Björn ræktaði jurtir, kál, næpur og kartöflur.

 

Eftir Björn liggjur fjöldi rita á dönsku í anda upplýsingastefnunnar. Hann gaf m.a. út skýrslu um jarðyrkjuna í Sauðlauksdal. Frægust er bókin Atli (1780) þar sem ungi bóndinn Atli á samræðu við reyndan bónda sem miðlar þekkingu sinni og er eins og leiðarvísir um góða búskaparhætti. Að skipun konungs var bókinni dreift endurgjaldslaust til íslenskra bænda og hún þótti hin besta skemmtun. Stærsta ritverkið er þó Lexicon Islandico-LatinoDanicum, íslensk orðabók með latneskum þýðingum, sem hann vann að í 15 ár. Hún kom út 1814 með viðbótum annarra fræðimanna.

 

Eftir 30 ár í Sauðlauksdal var heilsu Björns tekið að hraka og hjónin fluttust í Setberg í Eyrarsveit þar sem hann lést 24. ágúst 1794, þá 69 ára gamall.
 Morgunblaðið laugardagurinn 5. desember 2020.
 Skráð af menningar-Bakki.

04.12.2020 06:40

Merkir Íslendingar - Hannes Hafstein

 

 

Hannes Hafstein (1861 - 1922).

 

 

Merkir Íslendingar – Hannes Hafstein

 

 

Hannes Þórður Hafstein, skáld og fyrsti íslenski ráðherrann, fæddist á Möðruvöllum í Hörgárdal 4. desember 1861.

 

Hann var sonur J. Péturs Havsteen, amtmanns á Möðruvöllum, og þ.k.h., Kristjönu Gunnarsdóttur. Bróðir Kristjönu var Tryggvi Gunnarsson bankastjóri en móðir þeirra var Jóhanna, dóttir Gunnlaugs, ættföður Briem-ættarinnar. Hannes var því af Briem-ætt eins og forsætisráðherrarnir Jóhann Hafstein, Gunnar Thoroddsen og Davíð Oddsson.

 

Hannes bjó í ástríku hjónabandi með Ragnheiði Melsteð en þau þóttu óvenju glæsileg hjón og eignuðust fjölda barna.

Þau voru:
 Sigurður (1891), Kristjana (1892), Ástríður (1893), Þórunn (1895), Sigríður (1896), Sofía Lára (1899), Elín Jóhanna Guðrún (1900), Ragnheiður (1903), Kristjana (1911), Sigurður Tryggvi (1913). Margir afkomenda Hannesar og Ragnheiðar hafa orðið þjóðkunnir.

 

Hannes var í heimaskóla hjá Eggerti Briem, ömmubróður sínum á Reynistað, og innritaðist tólf ára í Lærða skólann. Hann byrjaði ungur að yrkja og þótti snemma efnilegt skáld, lauk stúdentsprófi 1880 og lögfræðiprófi frá Hafnarháskóla 1886.

 

Fyrstu árin í Kaupmannahöfn drakk Hannes í sig bókmenntir og stofnaði tímaritið Verðandi, ásamt Bertel E.Ó. Þorleifssyni, Gesti Pálssyni og Einari Kvaran og varð persónulegur vinur Georgs Brandes.

 

 Hann varð sýslumaður Dalasýslu 1887, málflutningsmaður við Landsyfirréttinn og landshöfðingjaritari 1889, og sýslumaður Ísafjarðarsýslu 1895. Hann var kjörinn á þing fyrir Ísfirðinga 1900 og síðan fyrir Eyfirðinga.

 

Hannesi var falið að undirbúa heimastjórn á Íslandi og skipaður fyrsti ráðherrann þar 1. febrúar 1904 við upphaf heimastjórnar. Hann missti meirihluta á þingi við sambandslagakosningarnar frægu 1908 og vék eftir samþykkta vantrauststillögu í ársbyrjun 1909. Hann varð aftur ráðherra 1912-1914, og var bankastjóri Íslandsbanka.

 

Hannes Hafstein lést 13. desember 1922.

 

 

 

 Skráð af Menningar-Bakki.