Menningar-Bakki * Viðhalda og efla þjóðlega menningararfleið til sjávar og sveita*
-------- Alþýðuhúsið á Eyrarbakka - Vinir alþýðunnar - Á undan sinni framtíð --- "Stærra í hugum okkar en við sjálfir gerum okkur grein fyrir" ---

09.09.2019 20:39

Stokks-Eyrarbakkastígurinn

 


Stokks-Eyrarbakkastígurinn austast á Eyrarbakka.   Ljósm.: Ingvar Magnússon.
 

 

Stokks-Eyrarbakkastígurinn

 

 

Síðdegis fimmtudaginn þann 5. september 2019 var lokið við að leggja malbik á göngustíginn milli Stokkseyrar og Eyrarbakka.Fyrir nokkrum árum var malbikað frá Stokkseyri að Hraunsá en nú var malbikað frá Hraunsá alla leið til Eyrarbakka og tók sú lagning tvo daga.Gríðarleg umferð gangandi og hjólandi hefur verið um stíginn þessa daga síðan malbikað var alla leiðina.Allir sem um stíginn fara lofa þessa glæsilegu framkvæmd sem þráð hefur verið um árabil.Bestu þakkir til allra sem hlut eiga að þessu góða máli og vísa með:
 


Nú þorpin okkar hönd í hönd
hjóla, ganga saman.
Tengjast frekar bræðra-bönd
bara verður gaman. 

 

Stokks-Eyrarbakkastígurinn heitir reyndar -Fjörustígur- Ljósm.: Elín Birna.
 Skráð af Menningar-Bakki.

09.09.2019 06:48

Bækur og bakkelsi

 

 

Ingileif Jónsdóttir í Steinskoti á Eyrarbakka að steikja pönnukökur.

Ljósmyndari: Jóhann Þór Sigurbergsson.

 

 

Bækur og bakkelsi

 

 

Sýningaropnun sýningarinnar  Bækur og bakkelsi  var í Húsinu á Eyrarbakka laugardaginn 7. september 2019

 

 Sýningin er unnin af Héraðsskjalasafni Árnesinga og er útgangspunktur hennar handskrifaðar uppskriftabækur sem varðveittar eru á skjalasafninu.

 

Uppskriftirnar í bókunum segja ótal margt um tíðaranda, tísku, aðgang að hráefni, nýtni og hagsýni. Á sýningunni er saga baksturs jafnframt rakin auk þess sem húsmæðrafræðsla á Suðurlandi verður skoðuð. 

 

Uppskriftirnar voru valdar með það að leiðarljósi að kynna gesti fyrir gömlum aðferðum gegn matarsóun enda málefnið tíðrætt í fjölmiðlum þessa dagana.

 

Vert er að geta þess að á sýningunni mun liggja frammi auð stílabók þar sem gestum og gangandi gefst tækifæri til þess að skrifa sínar eigin uppskriftir. Sú bók mun í framhaldinu verða varðveitt á Héraðsskjalasafni Árnesinga og verða þar heimild til framtíðar um bakstursvenjur ársins 2019.

 

Sýningin -Bækur og bakkelsi- mun standa uppi út september á opnunartíma Byggðasafnsins kl. 11-18 alla daga.


 

 

Skráð af Menningar-Bakki.

07.09.2019 07:08

Merkir Íslendingar - Árelíus Níelsson

 

 

Árelíus Níelsson (1910 - 1992).

 

 

Merkir Íslendingar - Árelíus Níelsson

 

 

Árel­íus Ní­els­son fædd­ist í Flat­ey á Breiðafirði 7. sept­em­ber 1910. For­eldr­ar hans voru Ní­els Árna­son og Ein­ara Ingi­leif Jens­ína Pét­urs­dótt­ir, en Árel­íus ólst upp hjá fóst­ur­for­eldr­um sín­um í Kvíg­ind­is­firði í Múla­sveit.

 

Árel­íus tók kenn­ara­próf árið 1932, stúd­ents­próf árið 1937 og loka­próf í guðfræði árið 1940. Ung­ur stundaði hann kennslu­störf en var sett­ur sókn­ar­prest­ur í Hálsprestakalli og þjónaði þar sum­arið1940. Þá losnaði Staðarprestakall í heima­byggð hans og varð hann prest­ur þar í þrjú ár, síðan á Eyr­ar­bakka og Stokks­eyri í níu ár, og þegar nýtt prestakall í Reykja­vík var stofnað 1952, Lang­holtsprestakall, sótti hann um það og fékk. Þar var hann allt í öllu við mót­un Lang­holts­safnaðar, inn­blás­inn af ung­menna­fé­lags­anda ekki síður en trú­ar­leg­um.

 

Eft­ir Árel­íus ligg­ur fjöldi fræðirita og kennslu­bóka. Má þar nefna Les­bók handa fram­halds­skól­um, Sögu barna­skól­ans á Eyr­ar­bakka og Leiðarljós við kristi­legt upp­eldi.

 

Eig­in­kona Árelíus­ar var Ingi­björg Þórðardótt­ir, f. 1918, d. 1978. Þau áttu fimm börn en eitt þeirra dó ungt. Þá áttu þau einn upp­eld­is­son.

 

Árel­íus lést 7. fe­brú­ar 1992.
 Morgunblaðið laugardagurinn 7. september 2019.

 

 

Eyrarbakkakirkja. Maður í predikunarstól. Full kirkja af fólki. Árelíus Níelsson prestur.

100 ára afmæli Barnaskólans á Eyrarbakka 1952.

Skráð af Menningar-Bakki.

07.09.2019 06:48

Opnir íbúafundur um kynningarmál á Eyrarbakka og Stokkseyri

 

 

 

 

Opnir íbúafundur

 

um kynningarmál á Eyrarbakka og Stokkseyri

 

 

Opnir íbúafundur um kynningarmál á Eyrarbakka og Stokkseyri.


Sveitarfélagið Árborg boðaði til íbúafunda á Stokkseyri og Eyrarbakka miðvikudaginn 4. september 2019.

Klukkan. 19:00 (BES Stokkseyri) og klukkan.20:30 ( Stað , Eyrarbakka) til að ræða hugmyndir að kynningarherferð á Sveitarfélaginu Árborg.


Samþykkt var af bæjarstjórn Árborgar fyrr í sumar að framleitt yrði kynningarefni til að sýna þá þjónustu og þau tækifæri sem eru í boði í samfélaginu.


Með þessum íbúafundum vill sveitarfélagið leita til íbúa um hugmyndir að kynningarefni og voru allir áhugasamir hvattir til að mæta.

 


Hvað fyllir þig stolti úr samfélaginu?


Hvaða sögu ætti að segja af svæðinu?


Hvaða áhugaverðu staðir ættu að koma fram?

 

 

Björn Ingi Bjarnason færði fundinn að Stað á Eyrarbakka til myndar.

 

.

.

.

.

.

.

.

.

.

.

.

.

Skráð af Menningar-Bakki.

06.09.2019 18:13

Vel í sveit sett

 

 

 

Vel í sveit sett

 

Kristín Þórðardóttir,

 

sýslumaður á Suðurlandi – 40 ára

 

 

Kristín Þórðardóttir er fædd 6. september 1979 í Reykjavík en sleit barnsskónum á Eyrarbakka, þar sem foreldrar hennar ráku verslun og síðar útgerð. „Áhugi á hestum blundaði alltaf í föður mínum frá hans fyrra lífi í Vestmannaeyjum og stunduðum við feðgin saman hestamennsku af kappi, fyrst á Eyrarbakka, en þegar áhuginn tók öll völd festi fjölskyldan kaup á jörð í Hvolhreppi hinum forna og hóf hrossarækt í smáum stíl sem kennd er við bæinn Lynghaga.“

 

Kristín stundaði nám við elsta starfandi barnaskóla á landinu, Barnaskólann á Eyrarbakka, og hélt að því loknu til Reykjavíkur og lagði stund á nám við Menntaskólann í Reykjavík. Hún lauk embættisprófi í lögfræði frá Háskóla Íslands 24.6. 2006.

 

Með námi stundaði Kristín hestamennsku og vann hefðbundin sumarstörf á Hvolsvelli, við kjötvinnslu SS og í Húsasmiðjunni, en sneri sér síðar að störfum tengdum lögfræðinni. Árið 2005 varð hún fulltrúi í afleysingum við embætti Sýslumanns á Hvolsvelli og þá varð ekki aftur snúið.

Kristín starfaði í sveitarstjórn Rangárþings eystra frá árinu 2010 þar til hún varð settur sýslumaður á Suðurlandi 1.5. 2017. Kristín var skipuð sýslumaður á Suðurlandi þann 1.8. 2018. „Það var lærdómsríkur tími að starfa í sveitarstjórn og mér var sýnt traust með kjöri mínu, en það fór auðvitað ekki saman að halda áfram þar og vera sýslumaður. Hins vegar hefur reynslan úr sveitarstjórn komið að góðum notum enda er sýslumanni nauðsynlegt að vera í góðum tengslum við stjórnendur sveitarfélaga í umdæminu.“ Kristín gegnir nú formennsku í Sýslumannaráði, sem er samstarfsnefnd sýslumanna og dómsmálaráðuneytisins. Auk þess er hún settur sýslumaður í Vestmannaeyjum. 

 

Helstu áhugamál Kristínar eru hestamennska, tónlist og menning í hinum víðasta skilningi. „Við mæðgurnar erum ennþá með hrossarækt í Lynghaga, en við fáum eitt til tvö folöld á ári svo við erum ekki stórtækar í þessu. Ég spila á píanó, lauk námi á fjórða stigi og gríp í hljóðfærið af og til, en framfarir hafa heldur látið á sér standa.“ Eitt er það áhugamál sem hefur yfirtekið frítíma fjölskyldunnar undanfarin ár og það er fótbolti. Drengirnir Þórður Kalman og Hjalti Kiljan æfa með Knattspyrnufélagi Rangæinga (KFR) og sækja öll mót og leiki sem völ er á. „Í sumar var að auki haldið á Unglingalandsmót á Höfn í Hornafirði og er stefnan að sækja þær frábæru samkomur áfram.“

 

Fjölskylda

 

Sambýlismaður Kristínar er Friðrik Erlingsson, f. 4.3. 1962, rithöfundur og skáld. Foreldrar hans voru Katrín Guðjónsdóttir, f. 27.3. 1935, d. 2.3. 1996, gítarkennari og ballettdansari í Reykjavík, og Erlingur Gíslason, f. 13.3. 1933, d. 8.3. 2016, leikari í Reykjavík. Þau skildu.

 

Börn Kristínar og Friðriks eru Þórður Kalman Friðriksson, f. 30.10. 2008, og Hjalti Kiljan Friðriksson, f. 5.10. 2012. Stjúpsonur Kristínar og sonur Friðriks er Patrekur Kári Friðriksson, f. 13.6. 2006.

Hálfsystkini Kristínar eru Guðrún Hulda Ólafsdóttir, f. 19.9. 1971, fasteignasali og lögmaður, sammæðra, og systur Kristínar samfeðra eru Jóna Sigurbjörg Þórðardóttir, f. 16.1. 1947, búsett í Reykjavík; Ásdís Þórðardóttir, f. 2.1. 1948, d. 7.7. 1991, flugfreyja, síðar lögg. fasteignasali í Garðabæ; Ingibjörg Þórðardóttir, f. 19.3. 1955, lögg. fasteignasali í Reykjavík; og Þuríður Þórðardóttir, f. 9.5. 1963, hóteleigandi í Austurríki og á Akureyri.

 

Foreldrar Kristínar: Þórður S. Þórðarson, f. 19.3. 1925, d. 24.9. 1994, útgerðarmaður og rakarameistari í Vestmannaeyjum, og Ingibjörg Jóhannesdóttir, f. 5.10. 1947, fyrrverandi kennari, útgerðarmaður og bóndi. Þau gengu í hjúskap á aðfangadag 1979. Ingibjörg er búsett á Hvolsvelli.

 

 


 

Morgunblaðið föstudagurinn 6. september 2019.Skráð af Menningar-Bakki.

 

 

 

05.09.2019 06:45

Merkir Íslendingar - Kristján Kristjánsson

 

 

KK - Kristján Kristjánsson (1925 - 2008).

 

 

Merkir Íslendingar - Kristján Kristjánsson

 

 

Kristján Kristjánsson fæddist 5. september 1925 í Syðstakoti í Miðneshreppi, Gull.

Foreldrar hans voru Sigrún Elínborg Guðjónsdóttir saumakona, f. 7.10. 1904, d. 10.2. 1971, og Kristján Karl Kristjánsson prentari, f. 14.11. 1902, d. 25.5. 1977. Vegna veikinda móður sinnar ólst Kristján upp til fermingaraldurs hjá móðurforeldrum sínum, Guðjóni Þorkelssyni og Þorbjörgu Benónýsdóttur í Syðstakoti.


 

Kristján lauk eins árs námi frá Verzlunarskóla Íslands en eftir það lá leiðin til Bandaríkjanna. Hann stundaði nám í saxófón- og klarínettleik árin 1946-47 við Juilliard School of Music í New York. Þegar heim kom stofnaði hann KK-sextettinn sem hann stjórnaði af mikilli röggsemi allt til ársloka 1961 en þá lagði hann saxófóninn á hilluna.


 

Þrátt fyrir að hljómsveitin leystist upp í kjölfarið hafði Kristjáni tekist að setja mark sitt á íslenska tónlistarsögu, m.a. með því að bera hingað til lands nýja strauma frá Bandaríkjunum. Kristján lagði mikinn metnað í allt sem viðkom hljómsveitinni. Á þeim tíma tíðkaðist það ekki að hljómsveitir æfðu áður en spilað var opinberlega en Kristján krafðist þess að vel væri æft, meðlimir væru í hljómsveitarbúningum og lögin væru vel útsett. Kristján átti einnig stóran þátt í því að fólk fór að taka starf hljómlistarmanna alvarlega.


 

Árið 1965 stofnaði hann ásamt eiginkonu sinni Verðlistann við Laugalæk. Árið 1980 stofnaði hann svo Litlu fluguna sem var sérverslun með fluguhnýtingarefni þar sem hann gat samtvinnað tvö af sínum helstu áhugamálum, laxveiðar og fluguhnýtingar.


 

Kristján kvæntist 1949 Erlu Wigelund, f. 31.12. 1928. Foreldrar hennar: Peter Wigelund skipasmiður, f. í Þórshöfn, og k.h. Vilborg Dagbjartsdóttir húsfreyja.

Börn Kristjáns og Erlu:

Þorbjörg, Pétur söngvari (d. 2004), Sigrún Júlía og Elísabet.


 

Kristján lést 2. júní 2008.

 

 

KK sextettinn árið 1948.

Frá vinstri: Kristján Kristjánsson, Gunnar Ormslev, Savar Gests,

Guðmundur Vilbergsson trompetleikari frá Flateyri,

Steinþór Steingrímsson og Hallur Símonarson.

Skráð af Menningar-Bakki.

04.09.2019 06:38

4. september 1845 - Jón forseti og Ingibjörg gefin saman

 

 

Jón Sigurðsson og Ingibjörg Einarsdóttir.

 

 

  - 4. september 1845 -

 

Jón forseti og Ingibjörg gefin saman

 

 

Jón Sigurðsson frá Hrafnseyri við Arnarfjörð, 34 ára skjalavörður (síðar nefndur forseti), og Ingibjörg Einarsdóttir, 40 ára, voru gefin saman í hjónaband þann 4. september 1845, en þau höfðu verið í festum í tólf ár. 

 

 

Þau stofnuðu  heimili í Kaupmannahöfn. Hjónin bjuggu á þremur stöðum í Kaupmannahöfn, áður en þau fluttu í stóra og glæsilega íbúð við Øster Voldgade (Jónshús) árið 1852 en þar bjuggu þau síðan til æviloka og héldu uppi mikilli risnu. Haustið 1859 tóku þau til sín fósturson, Sigurð Jónsson 8 ára, systurson Jóns vestan af fjörðum, og ólu hann upp sem sinn eigin son en sjálf voru þau barnlaus.Jón og Ingibjörg létust bæði í desember 1879.

 


  Jónshús í Kaupmannahöfn.

 Skráð af Menningar-Bakki.

03.09.2019 20:54

3. SEPTEMBER 1988 - Brú yfir Ölfusárósa er opnuð formlega

 

 

 

 

- 3. SEPTEMBER 1988 -

 

Brú yfir Ölfusárósa er opnuð formlega

 

 

Óseyrarbrú var formlega tekin í notkun þennan mánaðardag árið 1988. Mikill fjöldi fólks var samankominn við eystri brúarsporðinn til að fagna mannvirkinu og þeim samgöngubótum sem það fól í sér. Sem dæmi um þær má nefna að brúin stytti leiðina milli Þorlákshafnar og Eyrarbakka úr 45 kílómetrum í 15.

 

Samgöngur yfir ána á þessum stað höfðu legið niðri frá því ferjustaður var aflagður við Óseyrarnes um hundrað árum fyrr, með tilkomu Ölfusárbrúar við Selfoss.

 

Þorsteinn Pálsson, forsætisráðherra og fyrsti þingmaður Árnesinga, flutti ávarp og eftir opnunina bauð Matthías Á. Mathiesen samgönguráðherra viðstöddum í hóf á Hótel Selfossi. 


 

 
Skráð af Menningar-Bakki.

02.09.2019 13:57

Opin íbúafundur um kynningarmál á Eyrarbakka og Stokkseyri

 

 

 

 

 Opin íbúafundur

um kynningarmál á Eyrarbakka og Stokkseyri

 

 

Sveitarfélagið Árborg boðar til íbúafunda á Stokkseyri og Eyrarbakka miðvikudaginn 4. september nk. kl. 19:00 (BES Stokkseyri) og kl.20:30 ( Stað , Eyrarbakka) til að ræða hugmyndir að kynningarherferð á Sveitarfélaginu Árborg.

 

Samþykkt var af bæjarstjórn Árborgar fyrr í sumar að framleitt yrði kynningarefni til að sýna þá þjónustu og þau tækifæri sem eru í boði í samfélaginu.

 

Með þessum íbúafundum vill sveitarfélagið leita til íbúa um hugmyndir að kynningarefni og eru allir áhugasamir hvattir til að mæta.

 

 • Hvað fyllir þig stolti úr samfélaginu?
 • Hvaða sögu ætti að segja af svæðinu?
 • Hvaða áhugaverðu staðir ættu að koma fram?

 

Fundirnir fara fram á eftirfarandi tímum mið. 4. sept. nk. og eru allir velkomnir

 • Barnaskólanum á Stokkseyri kl. 19:00   
 • Félagsheimilinu Stað á Eyrarbakka kl. 20:30

     Skráð af Menningar-Bakki.


   

02.09.2019 06:49

Merkir Íslendingar - Lúðvík Kristjánsson

 


Lúðvík Kristjánsson (1911 - 2000).

 

 

Merkir Íslendingar - Lúðvík Kristjánsson

 

 

Lúðvík Kristjánsson fæddist 2. september 1911 í Stykkishólmi. 

Foreldrar hans voru Kristján Bjarni Árnason sjómaður, f. 4.9. 1886, d. 3.7. 1921, og k.h. Súsanna Einarsdóttir Þorkelssonar skrifstofustjóra Alþingis, f. 4.12. 1890, d. 26.8. 1961. Eiginkona Lúðvíks var Helga Proppé, f. 17.5. 1910, d. 1.4. 1989, dóttir Jóns Proppé og k.h. Guðrúnar Bjarnadóttur. Börn Lúðvíks og Helgu eru Véný kennari og Vésteinn rithöfundur.


 

Lúðvík ólst upp í Stykkishólmi, en fór suður til náms og lauk gagnfræðaprófi frá Flensborgarskóla 1929 og kennaraprófi frá Kennaraskóla Íslands 1932. Lúðvík var kennari í Fróðárhreppi 1929-30, við Miðbæjarbarnaskólann í Reykjavík 1934-1944 og á vélstjóranámskeiðum Fiskifélags Íslands 1937-1954. Hann var ritstjóri Ægis, tímarits Fiskifélags Íslands 1937-1954, Fálkans 1939 og Sjómannadagsblaðsins 1941 og 1943.


 

Eftir 1954 sneri Lúðvík sér alfarið að rannsóknum og ritstörfum en þá höfðu þegar komið út eftir hann bækurnar; Við fjörð og vík (1948), Bíldudalsminning Ásthildar og Péturs Thorsteinssonar (1951) og fyrsta bindi Vestlendinga (1953). Þar næst komu annað og þriðja bindi Vestlendinga (1955 og 1960), Úr bæ í borg (1957), Á slóðum Jóns Sigurðssonar (1961) og Úr heimsborg í Grjótaþorp I-II (1962-63).


 

Frá 1964 helguðu Lúðvík og Helga sig efnisöflun og samningu Íslenskra sjávarhátta sem út komu í fimm bindum 1980-86. Afmælisrit Lúðvíks, Vestræna, kom út árið 1981 en það hefur að geyma ritgerðir eftir hann. Árið 1991 kom út bókin Jón Sigurðsson og Geirungar en þar fyrir utan liggur eftir Lúðvík fjöldi blaðagreina og ritgerða í tímaritum.


 

Lúðvík hlaut ýmsar viðurkenningar fyrir rannsóknir sínar og var m.a. gerður heiðursdoktor við Háskóla Íslands 1981 og hlaut silfurverðlaun Hins konunglega norska vísindafélags 1984.


 

Lúðvík Kristjánsson lést 1. febrúar 2000.Skráð af Menningar-Bakki.