Menningar-Bakki * Viðhalda og efla þjóðlega menningararfleið til sjávar og sveita*
-------- Alþýðuhúsið á Eyrarbakka - Vinir alþýðunnar - Á undan sinni framtíð --- "Stærra í hugum okkar en við sjálfir gerum okkur grein fyrir" ---

01.02.2021 06:51

Merkir Íslendingar - Steingrímur Hermannsson

 


Steingrímur Hermannssom (1928 - 2010).
 

 

Merkir Íslendingar - Steingrímur Hermannsson

 

 

Steingrímur fæddist í Reykjavík þann 22. júní 1928, sonur Hermanns Jónassonar, alþingismanns og ráðherra og eiginkonu hans, Vigdísar Oddnýjar Steingrímsdóttur.

Steingrímur Hermannsson ólst upp í Ráðherrabústaðnum við Tjarnargötu 32 í Reykjavík sem sonur forætisráðherra, Hermanns Jónassonar.

 

Steingrímur lauk stúdentsprófi frá MR 1948 og prófi í rafmarksverkfræði frá tækniháskólanum í Chicago árið 1951. Þá lauk hann  M.Sc.-próf frá California Institute of Technology í Pasadena árið 1952.
 

Eftir nám starfaði Steingrímur sem verkfræðingur hjá Rafmagnsveitu Reykjavíkur 1952—1953 og hjá Áburðarverksmiðjunni  1953—1954. Hann starfaði einnig sem  verkfræðingur við Southern California Edison Company í Los Angeles 1955—1956. Hann var framkvæmdastjóri Rannsóknaráðs ríkisins 1957—1978.
 

Steingrímur var kjörinn á Alþingi 1971 fyrir Framsóknarflokkinn og sat þar til ársins 1994, fyrst fyrir Vestfjarðakjördæmi en frá 1987 fyrir Reykjaneskjördæmi. Hann var dóms- og kirkjumála- og landbúnaðarráðherra frá 1978 til 1979 og sjávarútvegs- og samgönguráðherra frá 1980 til 1983 þegar hann var skipaður forsætisráðherra. Hann tók árið 1987 við embætti utanríkisráðherra en var árið eftir forsætisráðherra á ný til 1991.
 

Steingrímur var formaður Framsóknarflokksins á árunum 1979 til 1994 og gegndi að auki fjölda trúnaðarstarfa og embætta. 
 

Steingrímur  var seðlabankastjóri frá 1994 til 1998.
 

Steingrímur var tvíkvæntur.
Fyrri kona hans var Sara Jane Donovan og þau eignuðust þrjú börn: Jón Bryan, Ellen Herdísi og S. Neil.

Seinni kona Steingríms var Guðlaug Edda Guðmundsdóttir. Þau eignuðust þrjú börn:  Hermann Ölvir,  Hlíf og Guðmund.Steingrímur Hermannsson lést þann 1. febrúar 2010.
 

 

Hér má sjá Steingrím Hermannsson og fleiri frambjóðendur í Vestfjarðakjördæmi á framboðsfundi á Þingeyri árið 1979.
 

Sjá  þessa slóð: https://www.youtube.com/watch?v=lI1gCMxbLHo

 


.
.


Björn Ingi Bjarnason og Steingrímur Hermannsson, f.v. forsætisráðherra,

á tröppum Ráðherrabústaðarins við Tjarnargötu 32 í Reykjavík þar sem

Steingrímur ólst upp. Húsið stóð áður á Sólbakka við Flateyri

sem íbúðarhús hvalfangarans Hans Ellefsen.Skráð af Menningar-Bakki.

31.01.2021 10:32

Siggeir Ingólfsson Eyrbekkingur ársins 2014

 

 

 

 

Siggeir Ingólfsson Eyrbekkingur ársins 2014

 

 

Á Bakkblótinu –þorrablóti Eyrbekkinga- sem haldið var

 

laugardaginn 31. janúar 2015 í Félagsheimilinu Stað á Eyrarbakka, 

 

var Siggeir Ingólfsson útnefndur sem Eyrbekkingur ársins 2014.

 

 

Skráð af Menningar-Bakki.

31.01.2021 08:16

Merkir Íslendingar - Örn Snorrason

 

 

Örn Snorrason (1912 - 1985).

 

 

Merkir Íslendingar - Örn Snorrason

 

 

Örn Snorrason, kennari og rithöfundur, fæddist á Dalvík þann 31. janúar 1912.

Foreldrar hans voru Snorri Sigfússon, skólastjóri á Flateyri árin 1912 – 1929,  og síðar námsstjóri Norðurlands með búsetu á Akureyri og k.h., Guðrún Jóhannesdóttir húsfreyja.

 

Snorri var sonur Sigfúsar Jónssonar, bónda á Brekku og Grund í Svarfaðardal og k.h., Önnu Sigríðar Björnsdóttur húsfreyju. Guðrún var dóttir Jóhannesar Jónssonar Reykjalín, bónda á Þönglabakka og Kussungsstöðum í Þorgeirsfirði, og k.h., Guðrúnar Sigríðar Hallgrímsdóttur húsfreyju.

Snorri Sigfússon skrifaði æviminningar í þremur bindum -Ferðin frá Breku- og eru Flateyrarárin í öðru bindinu.

Örn var elstur sjö systkina sem öll eru látin. Hann flutti til Flateyrar á fyrsta ári, er faðir hans varð skólastjóri þar og síðan með fjölskyldunni til Akureyrar árið 1930, þá nemandi í MA.

 

Örn kvæntist árið 1945 Ragnheiði Hjaltadóttur frá Húsavík f. 1. janúar 1920, sem hann missti 1963 frá tveimur börnum þeirra, Hjalta þá 17 ára og Guðrúnu 10 ára.

 

Örn lauk stúdentsprófi frá MA 1933, las guðfræði við HÍ í tvö ár og lauk cand.phil.-prófi þaðan 1934, lauk kennaraprófi frá Kennaraskóla Íslands 1936 og sótti kennaranámskeið í Askov.

 

Örn var lengst af kennari við Barnaskólann á Akureyri, á árunum 1937 til 1960, kennari við Gagnfræðaskóla Akureyrar 1960-66, Barnaskólann á Hellu á Rangárvöllum í eitt ár og loks við Álftamýrarskóla í Reykjavík 1967-70. Þá var hann prófarkalesari á Vísi og síðar á DV 1970-84. Hann kenndi einnig við MA og var prófdómari þar um árbil.

 

Örn orti töluvert á sínum yngri árum, oft hnyttin tækifæriskvæði, en sum kvæða hans eru enn sungin í Menntaskólanum á Akureyri. Hann notaði þá oftast dulnefnið Aquila sem merkir örn á latínu.

 

Örn sendi frá sér Nokkrar réttritunarreglur, Íslandssöguvísur og ýmsar barna- og drengjabækur. Auk þess birtust eftir hann smásögur, greinar og ljóð í blöðum og tímaritum. Þá var hann afkastamikill þýðandi, þýddi fjölda barnabóka og m.a. bækurnar um Paddington.

Gamantregi er úrval skáldskapar Arnar, gamanmál og tregablandin ljóð og frásagnir, sett saman 1932-1969.

 

Örn var félagi í Kantötukór Akureyrar og í Karlakórnum Geysi á Akureyri og fór utan með utanfararkór Sambands íslenskra karlakóra 1946.

 

Örn Snorrason lést þann 1. október 1985 í Reykjavík.
 


Strákurinn og húmoristinn

 

Sveinbjörn Finnsson (1911 - 1993) frá Hvilft í Önundarfirði, æskuvinur að vestan og samstúdent, skrifar m.a. í minningargrein í Morgunblaðið, 10. október 1985:

„Strákapör hans í æsku voru með ólíkindum margbreytileg. Lipurðin var einstök, sama hvort hann fór jakahlaup að vetri og sást þá ekki fyrir um dýpi eða klifraði á húsþökum, settist á skorsteina og hálfsvældi út heimilisfólk, strákaskaranum sem á horfði en minna þorði, til óblandinnar ánægju. Allt var honum fyrirgefið, enda hvers manns hugljúfi, hjálpsamur og góðfús. Ennþá lifa af honum sagnir vestra.“ Fyrir hönd eftirlifandi samstúdenta Arnar þakkaði Sveinbjörn „... samfylgd hans, sem var konungur kátínu og gleði í okkar hópi.“

Strákapörum púkatímans  á Flateyri  lýsir Örn Snorrason í bókunum, -Þegar við Kalli vorum strákar- og -Enn um okkur Kalla-

Anna Snorradóttir (1920 - 2009) skrifaði um bróður sinn látinn, Morgunblaðið 10. október 1985,:

„Örn átti marga strengi í brjósti, stóra hörpu, sem hann lék á bæði í gleði og sorg. Nemendum hans þótti vænt um hann og sýndu honum margvíslegan sóma og tryggð til hinstu stundar. Það var fátt, sem honum þótti vænna um en þessi órofa elskusemi gamalla nemenda. Hann skrifaði sig barnakennara og sagði eitt sinn, að líklega væri hann eini barnakennari landsins, hinir væru allir grunnskólakennarar. Kannski hefir honum þótt nafnið fallegt og vænna um börnin heldur en stofnunina.“
 

 


Örn Snorrason og nemendur hans í Barnaskólanum á Akureyri árið 1944.
.

 

Anna Snorradóttir (1920 - 2009)

skrifaði um bróður sinn látinn, Morgunblaðið 10. október 1985Skráð af Menningar-Bakki.

30.01.2021 08:19

Merkir Íslendingar - Sigfús Einarsson

 

 


Sigfús Einarsson frá Eyrarbakka (1877 - 1939).


Draumalandið - :

https://www.youtube.com/watch?v=azoe-51ZwMA

 

 

Merkir Íslendingar - Sigfús Einarsson

 

 

Sigfús Einarsson tónskáld fæddist á Eyrarbakka 30. janúar 1877. Foreldrar hans voru Einar Jónsson, kaupmaður á Eyrarbakka, og Guðrún Jónsdóttir frá Hafnarfirði.

 

Einar var af Bergsætt eins og frændur hans, þeir organistar, Bjarni, Jón og Ísólfur Pálssynir, synir Ísólfs, dr. Páll, tónskáld og dómorganisti, og Sigurður, organisti í Fríkirkjunni í Reykjavík, og sonur Bjarna, Friðrik, tónskáld og organisti í Hafnarfirði.

Eiginkona Sigfúsar var Valborg Inger Elisabeth Hellemann, dönsk söngkona og píanóleikari, en þau eignuðust tvö börn, Elsu Sigfúss söngkonu, og Einar Sigfússon, tónlistarkennara og fiðluleikara við sinfóníuhljómsveitina í Árósum.

 

Sigfús lauk stúdentsprófi frá Latínuskólanum 1898. Hann lærði söng í Kaupmannahöfn hjá Valdemar Lincke óperusöngvara og hljómfræði hjá August Enna, fékk styrk hjá Alþingi og hóf að kynna sér íslenzk þjóðlög og raddsetja þau.

 

Útsetningar á íslenskum þjóðlögum og hrífandi sönglög við ættjarðarljóð skáldanna voru þá veigamikill þáttur í þjóðfrelsisvakningu þessara ára en þá stemmingu má vel merkja í ýmsum lögum Sigfúsar, s.s. Þú álfu vorrar yngsta land og Rís þú unga Íslands merki.

 

Síðan þekkja allir Íslendingar lagið Draumalandið eftir Sigfús við ljóð Jóns Trausta (Guðmundar Magnússonar) (1873 - 1918).

 

DRAUMALANDIÐ

 

Ó leyf mér þig að leiða
í landsins fjalla heiða
:,:Með sælu sumrin löng:,:

 

Þar angar blómabreiða
við bíðan fuglasöng.
:,:Þar angar blómabreiða:,:
við bíðan fuglasöng.

 

Þar aðeins yndi fann ég.
Þar aðeins við mig kann ég
:,:Þar batt mig tryggaðarband:,:

 

Því þar er allt sem ann ég
Þar er mitt ,,Draumaland"
:,:Því þar er allt sem ann ég:,:
það er mitt ,,Draumaland."

 

 

Sigfús og Valborg giftu sig 1906 og settust þá að í Reykjavík.

Þau lifðu fyrst á einkasöngkennslu, en Sigfús kenndi síðan söng við Kennraskólann frá stofnun, 1908, varð dómorganisti og söngkennari Menntaskólans 1913 og kenndi guðfræðistúdentum tón- og sálmasöng 1911-29. Auk þess stjórnaði Sigfús fjölda kóra um árabil og var skipaður söngmálastjóri fyrir Alþingishátíðina 1930. Hann stofnaði Hljómsveit Reykjavíkur, ásamt Jóni Laxdal, 1925 og stjórnaði henni fyrstu tvö árin. Þá endurskoðaði hann kirkjusöngsbók Jónasar Helgasonar og gaf út sína eigin, vann að útgáfu Sálmasöngsbókar og gaf út Íslenzkt sönglagasafn I og II svo fátt eitt sé nefnt.

 

Sigfús lést 10. maí 1939.

 


Sigfús Einarsson.

.

 

 

 

Skráð af Menningar-Bakki.

23.01.2021 11:48

Merkir Íslendingar - Davíð Stefánsson

 

 

Davíð Stefánsson (1895 - 1964)
 

 

Merkir Íslendingar - Davíð Stefánsson

 

 

Davíð Stefánsson fæddist í Fagraskógi á Galmaströnd í Eyjafirði þann 21. janúar árið 1895.

Foreldrar hans voru Stefán Baldvin Stefánsson bóndi og síðar alþingismaður og Ragnheiður Davíðsdóttir frá Hofi í Hörgárdal.

 

Davíð lauk gagnfræðaprófi frá Gagnfræðaskólanum á Akureyri árið 1911. Á árunum 1915–1916 dvaldist hann í Kaupmannahöfn og hófst skáldferill hans þar.

 

Síðar hóf  Davíð nám við Menntaskólann í Reykjavík og lauk þaðan stúdentsprófi árið 1919, en það ár kom fyrsta ljóðabók hans út, hún ber heitið Svartar fjaðrir.

 

 Davíð dvaldist öðru hvoru erlendis, m.a. í nokkra mánuði á Ítalíu árið 1920 og svo í Noregi 1923.

 

Árið 1925 tók Davíð við föstu starfi sem bókavörður á Amtsbókasafninu á Akureyri, hann lét formlega af störfum sem bókavörður árið 1951.Akureyrarbær sýndi skáldinu þann mesta sóma, sem hann getur í té látið, — að kjósa hann heiðursborgara sinn. — Og þann heiður bar Davíð með miklum sóma eins og állan virðingarvott, sem honum var sýndur.

 

Skáld einstaklingshyggju og þjóðerniskenndar Davíð var mörgu leyti skáld nýrómantíkur. Það var áherslan er meir á innra lífs einstaklingsins og tilfinninga hans en á ytra umhverfi hans. Sterkar tilfinningar og miklar andstæður eru einkennandi fyrir nýrómantískan skáldskap hans. Þar má finna bæði mikla gleði og djúpstæðan harm. Þjóðernishyggja, borgarleiði, fegurðar- og frelsisþrá eru áberandi, en einnig birtist þar hetjudýrkun og bölsýni. Davíð yrkir um hinn frjálsa einstakling og greina má sterka einstaklingshyggju og þjóðerniskennd.

 

Síðustu ljóð komu út að honum látnum árið 1966. 

 

Ummæli um skáldið:

 

* „Ef ung kynslóð fer eldi Davíðs um byggðir Íslands á næstu árum þarf þjóðin ekki að óttast um sinn sálarhag.“ Ragnar Jónsson í Smára í formála: ,,Svartar Fjaðrir“, Helgafell 1955.

 

* „Davíð var glæsimenni og rétt er það sem hann segir - að allar vildu meyjarnar eiga hann. En mér er aftur á móti fátt kunnugt um ,,ástina hans´´, því hann fór vel með hana eins og annað, sem honum var trúað fyrir, og flíkaði ekki þeim tilfinningum sem bærðust í brjósti hans.“ Páll Ísólfsson: Í dag skein sól.

* „Hann hæfði ungu kynslóðina beint í hjartastað árið 1919, en eftir stríð varð hann það úreltasta af öllu úreltu. Ástarljóð hans voru ekki nógu ,,ábyrg´´, þjóðfélagssýnin ekki nógu ,,meðvituð´´, spekin ,,almælt tíðindi´´. ...eftir hans dag hefur enginn fengist til að vera þjóðskáld. Vitarnir vilja ekki brenna. En ég held að ljóðagerð eins og hann stundaði sé saknaðarefni og að sé jafnvel fyrirmynd að finna í mælsku hans og ástríðu.“ Guðmundur Andri Thorsson rithöfundur í Alþýðublaðinu 21. 1. 1995.

 

Ljóðabækur:

 

 * Svartar fjaðrir, 1919

* Kvæði, 1922

* Kveðjur, 1924

* Ný kvæði, 1929

 * Í byggðum, 1933

* Að norðan, 1936

* Ný kvæðabók, 1947

 * Ljóð frá liðnu sumri, 1956

* Í dögun, 1960

* Síðustu ljóð, 1966 (kom út að Davíð látnum)

 

Leikrit og skáldsögur:

 

* Munkarnir á Möðruvöllum, 1926

* Gullna hliðið,

* Sólon Íslandus I-II, 1941 (Skáldsaga um Sölva Helgason).

* Vopn guðanna, 1944

 * Landið gleymda, (frumsýnt árið 1953 en gefið út 1956). Davíð Stefánsson frá Fagraskógi lést á Akureyri þann 1. mars árið 1964.

 

Hann er jarðaður á Möðruvöllum í Hörgárdal en þar hvíla einnig foreldrar hans og önnur ættmenni.


 

Davíðshús á AkureyriDavíðshús var reist árið 1944 af einu ástsælasta skáldi Íslendinga, Davíð Stefánssyni frá Fagraskógi, sem bjó þar til dánardags. Davíð var sannkallaður fagurkeri og safnari af guðs náð. Húsakynnin bera smekkvísi hans glöggt merki, full af bókum og handritum, listaverkum og persónulegum munum, eins og hann skildi við árið 1964, næstum eins og hans sé að vænta innan skamms.

 

Heimili Davíðs var gert að safni 1965. Akureyrarbær keypti bókasafn hans, erfingjar ánöfnuðu safninu persónulegum munum og innanstokksmunum hússins en efnt var til landssöfnunar til kaupa á Bjarkarstíg 6 sem var afhent bænum til umsjár. Bókasafn hans var eitt merkasta bókasafn landsins í einkaeigu með fágætum prentunum af ýmsum toga og handritum. Í húsinu er einnig að finna listaverk eftir Kjarval, Sölva Helgason, Ásgrím Jónsson, Kristínu Jónsdóttur og Mugg.

  

.
.                     Listaverk Elfars Guðna Þórðarsonar

 

                        -Brennið þið vitar -

 

            í Menningarverstöðinni Hólmaröst á Stokkseyri

 

             Davíð Stefánsson og Páll Ísólfsson prýða verkið
 

.
 

 

 

 

Skráð af Menningar-Bakki.

23.01.2021 09:16

Merkir Íslendingar - Guðmundur J. Guðmundsson

 

Guðmundur J. Guðmundsson (1927 - 1997).

 

Merkir Íslendingar - Guðmundur J. Guðmundsson

 

 

Guðmundur J. Guðmundsson verkalýðsleiðtogi fæddist í Reykjavík 22. janúar 1927. Hann var sonur Guðmundar H. Guðmundssonar, sjómanns í Reykjavík, og Sólveigar Jóhannsdóttur húsfreyju.

 

Eiginkona Guðmundar var Elín Torfadóttir (1927 - 2016), framhaldsskólakennari, og eignuðust þau fjögur börn.

 

Guðmundur var í barnaskóla og tvo vetur í gagnfræðaskóla. Hann var stjórnarmaður og starfsmaður Verkamannafélagsins Dagsbrúnar 1953-96, varaformaður félagsins 1961-82 og formaður þess 1982-96, formaður Verkamannasambands Íslands 1975-92, sat í miðstjórn ASÍ og í stjórn Verkamannabústaða í Reykjavík.

 

Guðmundur var borgarfulltrúi fyrir Alþýðubandalagið 1958-62, sat í hafnarstjórn, í stjórn Innkaupastofnunar og í stjórn framkvæmdanefndar byggingaráætlunar borgarinnar. Þá var hann þingmaður Reykvíkinga fyrir Alþýðubandalagið 1979-87.

 

Guðmundur þótti herskár verkalýðssinni og liðtækur í verkfallsvörslu og ryskingum í stóru verkföllunum á sjötta áratugnum, enda kallaður Gvendur jaki. Hann var einn helsti málsvari verkalýðshreyfingarinnar á síðasta aldarfjórðungnum, tók þátt í flestum veigamestu kjarasamningum og var í forystu um gerð Þjóðarsáttarsamninganna 1990.

 

Guðmundur var þéttur á velli, breiðleitur, laglegur og svipsterkur, hafði sterka bassarödd, talaði hægt og gat kveðið fast að, hleypt brúnum og haft í hótunum ef mikið lá við. Hann brúkaði mikið neftóbak.

 

Guðmundur var mikill vinur Alberts Guðmundssonar, alþm. og stórkaupmanns, enda báðir bóngóðir málsvarar brjóstvitsins sem báru ekki nema hæfilega virðingu fyrir sérfræðingum og öðrum menntamönnum, fóru sínar eigin leiðir og rákust illa í flokkum sínum.

 

Ómar Valdimarsson skráði tvær viðtalsbækur við Guðmund.

 

Guðmundur lést 12. júní 1997.Skráð af Menningar-Bakki.

23.01.2021 09:05

Merkir Íslendingar - Unnur Stefánsdóttir

 


Unnur Stefánsdóttir (1951 - 2011)
 

 

 

Merkir Íslendingar - Unnur Stefánsdóttir

 

 

Unnur fæddist í Vorsabæ í Gaulverjahreppi 18. janúar 1951 og ólst þar upp við öll almenn sveitastörf, næstyngst í hópi fimm systkina, dóttir Stefáns Jasonarsonar, bónda í Vorsabæ og þekkts félagsmálamanns og fréttaritara, og k.h., Guðfinnu Guðmundsdóttur húsfreyju.

 

Eftirlifandi eiginmaður Unnar er Hákon Sigurgrímsson frá Holti í Stokkseyrarhreppi, fyrrv. framkvæmdastjóri Stéttarsambands bænda og síðar skrifstofustjóri, og eignuðust þau þrjú börn.

 

Unnur lauk húsmæðraskólaprófi, stundaði íþróttanám í Sønderborg í Danmörku, útskrifaðist frá Fósturskóla Íslands, lauk framhaldsnámi í uppeldisfræði og stjórnun og námi í rekstrar- og viðskiptafræði frá Endurmenntun Háskóla Íslands.

 

Unnur sinnti ýmsum uppeldis- og æskulýðsstörfum og hafði frumkvæði að mótun manneldis- og neyslustefnu fyrir Íslendinga sem var samþykkt á Alþingi 1989.

 

Unnur keppti í frjálsum íþróttum með Samhygð og ungmf. Skarphéðni, vann til fjölda verðlauna, átti sæti í FRÍ-landsliðinu og vann gullverðlaun í 800 m hlaupi á EM öldunga í Noregi 1997. Hún var formaður Íþróttaráðs Kópavogs, sat í framkvæmdastjórn Íþrótta- og Ólympíusambands Íslands og gegndi fjölda annarra trúnaðarstarfa innan íþróttahreyfingarinnar. Hún var formaður Landssambands framsóknarkvenna, vþm 1987-99, gjaldkeri Framsóknarflokksins og sat í miðstjórn, landstjórn og framkvæmdastjórn flokksins um árabil.

 

Unnur hóf að þróa nýja leikskólastefnu, Heilsustefnuna, 1995. Hún var skólastjóri á Urðarhóli sem er fyrsti heilsuleikskólinn á Íslandi, var formaður Samtaka heilsuleikskóla sem voru stofnuð 2005 og var framkvæmdastjóri Skóla ehf. sem starfrækti þá fimm leikskóla, en fram til þessa hafa tugir leikskóla fengið viðurkenningu sem heilsuleikskólar.

 

Unnur hafði í hyggju að þróa heilsustefnu fyrir grunnskóla en náði ekki að ljúka því starfi.

 

Unnur lést langt fyrir aldur fram 8. ágúst. 2011.

 


Skráð af Menningar-Bakki.

22.01.2021 20:34

Þorri hefst 22. janúar 2021 - Bóndadagur

 

 

 

 

 Þorri hefst 22. janúar 2021 - Bóndadagur

 

 

Mánuðurinn þorri hefst í 13. viku vetrar, nú 19. til 25. janúar, en 9. til 15. janúar í gamla stíl fyrir 1700. Mánaðarnafnið er kunnugt frá 12. öld en uppruni þess er óviss.Þorri er persónugerður sem vetrarvættur í sögnum frá miðöldum. Þar er einnig getið um þorrablót, en þeim ekki lýst. Vetraröldungurinn Þorri er algengt yrkisefni á 17. – 19. öld og um fagnað eða sérstaka siðvenju við upphaf þorra eru heimildir frá öndverðri 18. öld. Líklegt er að slíkar venjur séu allmiklu eldri.Upphaflega virðist húsfreyja hafa boðið þorra velkomin enda er ljóst að fyrsti dagur þorra hefur verið tileinkaður húsbóndanum. Er hvorttveggja til að honum hafi verið veitt sérstaklega í mat og að hann hafi þá átt að gera vel við sitt fólk. Bóndadagsheitið er þó ekki kunnugt fyrr en í þjóðsögum Jóns Árnasonar frá miðbiki 19. aldar. Þar er einnig minnst á hlaup bónda kringum bæ sinn, en óljóst er hversu almennur slíkur siður hefur verið og hver er uppruni hans. Vera kann að þar sé um að ræða leifar af eldra þorrafagnaði.Á síðarihluta 19. aldar fóru mennta- og embættismenn að tíðka samkomur sem þeir kölluðu “Þorrablót” að fornum hætti, matar- og drykkjarveislur þar sem sungin voru ný og gömul kvæði og drukkin minni Þorra og heiðinna goða. Einkum var Þór tengdur þorranum. Þessar veislur lögðust af eftir aldamótin 1900 í kaupstöðum en þá hafði þorrablótssiðurinn borist í sveitirnar, fyrst á Austurlandi og í Eyjafirði, og hélt þar áfram.Um miðja 20. öld hófu átthagasamtök á höfuðborgarsvæðinu síðan þorrablótin aftur til vegs og virðingar í þéttbýli, og buðu þá “íslenskan” mat sem nú var orðinn sjaldséður í kaupstöðum.Veitingamaður í Naustinu í Reykjavík (Halldór Gröndal sem á ættir til Hvilftar í Önundarfirði) hafði síðan sérstakan þorramat á boðstólum frá þorranum 1958. Síðan hafa þorrablót ýmissa samtaka með íslenskan mat verið fastur liður í skemmtanalífi um allt land.Um 1980 hófust blómagjafir eiginkvenna til eiginmanna undir áhrifum frá konudegi.

 

 

Heimild: Saga daganna eftir Árna Björnsson. 

 

Skráð af Menningar-Bakki.

22.01.2021 16:37

Merkir Íslendingar - Finnbogi Rútur Þorvaldsson

 

 

Finnbogi Rútur Þorvaldsson (1891 - 1973).

 

 

Merkir Íslendingar - Finnbogi Rútur Þorvaldsson

 

 

Finn­bogi Rút­ur Þor­valds­son fædd­ist 22. janú­ar 1891 í Haga á Barðaströnd.

For­eldr­ar hans voru hjón­in Þor­vald­ur Jak­obs­son, f. 1860, d. 1954, prest­ur í Sauðlauks­dal, síðar kenn­ari í Hafnar­f­irði, og Magda­lena Jón­as­dótt­ir, f. 1859, d. 1942, hús­freyja.

 

Finn­bogi varð stúd­ent frá Mennta­skól­an­um í Reykja­vík árið 1912. og lauk prófi í bygg­inga­verk­fræði árið 1923 frá Den polytekn­iske Lær­e­anstalt í Kaup­manna­höfn.

 

Eft­ir heim­kom­una varð Finn­bogi aðstoðar­verk­fræðing­ur á teikni­stofu Jóns Þor­láks­son­ar en var síðan verk­fræðing­ur hjá Vita- og hafna­mála­skrif­stof­unni 1925-42. Þar gerði hann áætlan­ir, upp­drætti og hafði um­sjón með hafn­ar­gerð á Akra­nesi, Borg­ar­nesi, Sigluf­irði, Ak­ur­eyri og víðar. Hann var enn frem­ur kenn­ari við Iðnskól­ann í Reykja­vík 1924-49. Síðan var Finn­bogi Rút­ur for­stöðumaður und­ir­bún­ings­kennslu í verk­fræði við Há­skóla Íslands 1940-44 og pró­fess­or við verk­fræðideild Há­skól­ans 1945-61.

 

Finn­bogi var mörg ár for­seti verk­fræðideild­ar og átti sæti í há­skólaráði og var um tíma vara­for­seti þess. Hann lét fé­lags­mál mikið til sín taka og átti sæti í fjöl­mörg­um nefnd­um. Hann var m.a. formaður Verk­fræðinga­fé­lags Íslands, sat í nefnd til und­ir­bún­ings tækni­skóla og var formaður Íslands­deild­ar alþjóðastúd­enta­skipta. Hann var formaður í stjórn sam­eigna Hvals hf. og Ol­íu­stöðvar­inn­ar hf. Finn­bogi Rút­ur var sæmd­ur Fálka­orðunni og gull­merki Verk­fræðinga­fé­lags ís­lands.

 

Eig­in­kona Finn­boga Rúts var Sig­ríður Ei­ríks­dótt­ir, f. 16.6. 1894, d. 23.3. 1986, hjúkr­un­ar­fræðing­ur og formaður Fé­lags ís­lenskra hjúkr­un­ar­kvenna í 36 ár.
Börn þeirra:

Vig­dís Finn­boga­dótt­ir, f. 1930, for­seti Íslands 1980-96, og Þor­vald­ur Finn­boga­son, f. 1931, d. 1952, verk­fræðistúd­ent.

 

Finn­bogi Rút­ur lést 6. janú­ar 1973.

Skráð af Menningar-Bakki.

20.01.2021 21:09

"Séð og jarmað" 10 ára

 

 

 

 

"Séð og jarmað" 10 ára

 

 

"Séð og jarmað" - skal það heita

 

Hrútavinafélagið Örvar gjörir kunnugt !

 

 

Öldungaráðið á Stokkseyri, í umboði Hrútavina, hefur ákveðið að ráðast í blaðaútgáfu.

Um er að ræða mánaðarrit sem fengið hefur nafnið “Séð og jarmað” Ný – Myndrit Hrútavinafélagsins Örvars á Suðurlandi.

 

Í ritinu verða gamlar og nýjar myndasyrpur af lífi og leikjum Hrútavina á líðandi stund og frá fyrri tíð í starfi Hrútavina um víðan völl.

 

Ritstjórar eru; Björn Ingi Bjarnason á Eyrarbakka og Kjartan Már Hjálmarsson á Selfossi

 

Í ritnefnd eru; Stokkseyringarnir Bjarkar Snorrason, Gísli Rúnar Guðmundsson, Grétar Zóphoníasson, Jón Jónsson og Þórður Guðmundsson.

Ljósmyndarar að þessu sinni eru; Björn Ingi Barnason, Guðmundur J. Sigurðsson, Kjartan Már Hjálmarsson og Tinna Jónsdóttir.

 

Fyrsta tölublaðið mun koma út nú á föstudaginn 21. janúar, fyrsta degi Þorra – bóndadeginum.

 

Myndritið er 12 síður að þessu sinni í stóru broti og þar má sjá Stokkseyringa og fleiri Hrútavini í hundraðavís.

 

Útgáfuteiti verður (var)í Shell-Skálanum á Stokkseyri 21. janúar (2011) kl. 09:00 þar sem útgáfan verður kynnt en upplagið er eitt eintak sem verður til lesturs og skoðunar í Shell-Skálanum á Stokkseyri alla daga.

 

Allir hjartanlega velkomnir.


(Frétt frá árinu 2011)

 

.
F.v.: Bjarkar Snorrason, Þórður Guðmundsson og Björn Ingi Bjarnason.
.
 

 

Skráð af Menningar-Bakki.