Menningar-Bakki * Viðhalda og efla þjóðlega menningararfleið til sjávar og sveita*
-------- Alþýðuhúsið á Eyrarbakka - Vinir alþýðunnar - Á undan sinni framtíð --- "Stærra í hugum okkar en við sjálfir gerum okkur grein fyrir" ---

12.08.2020 20:33

Ragnheiður Ásta Pétursdóttir - Minning

 

 

 

 

Ragnheiður Ásta Pétursdóttir - Minning

 

 

Ragn­heiður Ásta Pét­urs­dótt­ir fædd­ist í Reykja­vík 28. maí 1941. Hún lést að heim­ili sínu, Keldulandi 19 í Reykja­vík, 1. ág­úst 2020.

 

For­eldr­ar Ragn­heiðar Ástu voru Birna Jóns­dótt­ir, f. 1919, d. 2003, og Pét­ur Pét­urs­son frá Eyrarbakka, f. 1918, d. 2007. Birna og Pét­ur bjuggu við Ljós­valla­götu í Reykja­vík þegar Ragn­heiður Ásta fædd­ist en flutt­ust fljót­lega í Meðal­holt 5 þar sem hún bjó öll sín bernsku­ár. Á heim­il­inu var einnig Guðrún Ei­ríks­dótt­ir, f. 1878, sem Ragn­heiður kallaði alltaf Gunnu ömmu. Hún lést 1968.

 

Fyrri maður Ragn­heiðar Ástu var Gunn­ar Eyþórs­son, f. 1941, d. 2001. Þau skildu.

 

Börn þeirra eru:

Pét­ur f. 1960, d. 2018. Kona hans er Anna Mar­grét Ólafs­dótt­ir og börn þeirra Ragn­heiður Ásta, Anna Lísa og Pét­ur Axel.

Eyþór f. 1961. Kona hans er Ell­en Kristjáns­dótt­ir og börn þeirra Sig­ríður, Elísa­bet, Elín og Eyþór Ingi.

Birna f. 1965. Maður henn­ar er Árni Daní­el Júlí­us­son. Son­ur þeirra er Pét­ur Xia­ofeng og börn Árna Daní­el Ari Júlí­us sem er lát­inn og María.

 

Ragn­heiður Ásta gift­ist Jóni Múla Árna­syni 9.1. 1974. Jón Múli var fædd­ur árið 1921 og lést árið 2002.

Dótt­ir þeirra er:

Sól­veig Anna, f. 1975. Maður henn­ar er Magnús Sveinn Helga­son og börn þeirra Jón Múli og Guðný Mar­grét. Áður átti Jón Múli dæt­urn­ar Hólm­fríði, f. 1947, Ragn­heiði Gyðu, f. 1957, og Oddrúnu Völu, f. 1962. Son­ur Hólm­fríðar er Jón Múli og dótt­ir Ragn­heiðar Gyðu er Guðrún Val­gerður.

 

Lang­ömmu­börn Ragn­heiðar Ástu eru ell­efu.

 

Ragn­heiður Ásta gekk í Aust­ur­bæj­ar­skól­ann, síðan Lind­ar­götu­skóla og tók lands­próf frá Gagn­fræðaskól­an­um í Von­ar­stræti. Hún lauk stúd­ents­prófi úr mála­deild Mennta­skól­ans í Reykja­vík árið 1961 og hóf þá um haustið nám í sögu og dönsku við Há­skóla Íslands en átti þá þegar tvo syni og hætti námi til að sinna upp­eldi þeirra. Hún var í lýðhá­skóla í Dan­mörku árið 1963. Árið 1962 hóf hún störf sem þulur við Rík­is­út­varpið þar sem hún starfaði til árs­ins 2006 eða um 44 ára skeið. Auk þul­ar­starfa sinnti hún dag­skrár­gerð fyr­ir Rík­is­út­varpið, einkum um tónlist. Ragn­heiður var mjög hag­mælt. Hún orti dæg­ur­laga­texta og fjölda skemmti­legra vísna um og fyr­ir börn sín og fjöl­skyldu.

 

Ragn­heiður Ásta var alla tíð rót­tæk og tók virk­an þátt í kjara­bar­áttu op­in­berra starfs­manna. Hún var formaður Starfs­manna­fé­lags Rík­is­út­varps­ins í nokk­ur ár og átti um tíma sæti í stjórn BSRB. Hún lét sig bar­áttu fyr­ir efna­hags­legu rétt­læti og mann­rétt­ind­um miklu varða.

 

Útför Ragn­heiðar Ástu var gerð frá Frí­kirkj­unni í Reykja­vík 12. ág­úst 2020. Vegna tak­mark­ana á sam­komu­haldi er at­höfn­in aðeins opin nán­ustu fjöl­skyldu og vin­um.

 

Henni var streymt á slóðinni:

www.ráp.isSkráð af Menningar-Bakki.

11.08.2020 17:23

MERKIR ÍSLENDINGAR - HALLA EYJÓLFSDÓTTIR

 

 

Halla Eyjólfsdóttir

bjó nær öll sín fullorðinsár á Laugabóli í Ísafirði í Ísafjarðardjúpi.

 

 

MERKIR ÍSLENDINGAR  – HALLA EYJÓLFSDÓTTIR

 

 

Hallfríðar Eyjólfsdóttur, eða Halla á Laugabóli eins og hún er betur þekkt,  fæddist 11. ágúst 1866 í Múla við Gilsfjörð, Austur-Barðastrandarsýslu.

 

Vorið 1886 kvaddi Halla æskustöðvarnar við Gilsfjörðinn tæplega tvítug og hélt norður yfir heiði þar sem hún réðst sem vinnukona að Laugabóli við Ísafjörð innst í Ísafjarðardjúpi. Fáum árum síðar giftist hún Þórði Jónssyni, f. 5.4. 1858, d. 18.10. 1914, syni hjónanna þar Jóns Halldórssonar og Guðrúnar Þórðardóttur. Halla og Þórður eignuðust fjórtán börn en þrjú þeirra misstu þau úr barnaveiki sumarið 1904.

 

Þórður og Halla reistu sér fyrst bú á Kirkjubóli í Laugardal 1892 en fimm árum seinna tóku þau við búi foreldra hans á Laugabóli.

 

Sumarið 1910 var ungur læknir, Sigvaldi Stefánsson, skipaður héraðslæknir í Nauteyrarhéraði. Kom hann vestur þá um sumarið með fjölskyldu sína og settist að á Ármúla, innst í Ísafjarðardjúpi, rétt við Kaldalón. Sigvaldi tók sér síðar nafnið Kaldalóns og varð þjóðþekktur sem tónskáld. Kynni tókust með fjölskyldu Sigvalda og fjölskyldunni á Laugabóli og varð mikil og hlý vinátta þar á milli.

 

Í erindi Hlyns Þór Magnússonar sagnfræðings um Höllu segir:

 

„Óhætt er að segja að samband þeirra Höllu og Sigvalda hafi verið einstakt enda leiddi það til sköpunar sönglaga sem teljast verða perlur í íslenskri tónlist. Bæði voru þau óþekktir listamenn þegar leiðir þeirra lágu saman en bæði voru þjóðþekkt er leiðir skildu. Verk þeirra hafa lifað fram á þennan dag, hjartkær íslensku þjóðinni í tímalausri fegurð sinni. Það hlýtur að hafa verið töfrastund þegar örlögin leiddu saman þessar tvær manneskjur í afskekktri sveit norður á hjara veraldar.“

 

Af sönglögum Sigvalda við ljóð Höllu má nefna Ég lít anda liðna tíð og Svanur minn syngur.

 

Þórður lést árið 1914 eftir erfið veikindi og Halla sá um búið en árið 1921 giftist hún Gunnari Steini Gunnarssyni frá Hvítanesi í Skötufirði. Þau héldu áfram búskap á Laugabóli til 1935 þegar Sigurður, sonur hennar, tók við.

 

Halla lést í Reykjavík árið 1937, liðlega sjötug að aldri.

 

Árið 2008 kom út úrval ljóða Höllu í bók sem nefnist Svanurinn minn syngur. Guðfinna Hreiðarsdóttir sagnfræðingur á Ísafirði gaf út bókina og í henni er einnig æviágrip um þessa merku konu.Skráð af Menningar-Bakki.

07.08.2020 21:04

Úr myndasafninu.....

 

 

 

 

 

 Úr myndasafninu..

 Skráð af Menningar-Bakki.

05.08.2020 17:15

Merkir Íslendingar - Brynjólfur Sveinsson

 


Brynjólfskirkja í Skálholti.
 

 

 

Merkir Íslendingar – Brynjólfur Sveinsson

 

 

Brynjólfur Sveinsson biskup lést þann 5. ágúst 1675, nær sjötugur.

 

Hann hefur verið talinn einna merkastur Skálholtsbiskupa í lútherskum sið.

 

Brynjólfur Sveinsson var fæddur í Holti í Önundarfirði 14. september árið 1605, á krossmessu á hausti.

Foreldrar hans voru þau hjónin Sveinn Símonarson, prestur þar, og Ragnheiður Pálsdóttir.

 

Fyrstu þrjú æviár sín var Brynjólfur að Hóli í Önundarfirði, en það mun hafa tíðkast að fyrirfólk kæmi börnum sínum þannig í fóstur um skeið. Síðan elst hann upp hjá foreldrum sínum og var þar haldið fast að lærdómi í kristnum fræðum. Er sagt, að þegar hann var á 12. aldursári hafi drengurinn verið búinn að lesa gjörvalla Heilaga ritningu yfir fimm sinnum, og það á latínu.

 

Að þessum undirbúningi loknum var honum komið til náms í Skálholti. Þetta var árið 1617. Hann brautskráðist þaðan 18 ára gamall, árið 1623. Á skólaárunum var Brynjólfur heima vestra um sumur og gegndi öllum þeim störfum er til féllu, gekk að slætti og fór í útróðra. Þó var honum stöðugt haldið að bóklestri jafnframt.

 

Árið 1624 sigldi Brynjólfur til háskólanáms í Danmörku, kom heim næsta sumar, vegna drepsóttar sem geisaði ytra, en fór aftur út um haustið. Að 5 ára námi loknu, árið 1629, lét hinn nýbakaði baccalaureus í guðfræði, heimspeki og málfræði í haf og kom upp til Íslands og las grísku í foreldrahúsum í tvö ár.

 

En hann fer utan á ný til háskólanáms, 1631. Fór þar mikið orð af vitsmunum hans og þekkingu. Árið 1632 gerðist hann yfirkennari (konrektor) við dómskólann í Hróarskeldu, og er í því starfi til vors 1638. Í millitíðinni, eða 28. nóvember 1633, hlaut Brynjólfur meistaragráðu í heimspeki við Kaupmannahafnarháskóla.

 

Þá kemur hann aftur til að líta föðurland sitt augum og gera ýmsar ráðstafanir vegna andláts móður sinnar, áður en haldið skal utan til frekari dvalar á meginlandi Evrópu, þegar Gísli Oddsson Skálholtsbiskup veikist og andast, og kennimenn velja Brynjólf sem eftirmann hans. Tregur þáði hann embættið, eftir að hafa reynt að komast undan því, bendandi á að margir aðrir væru sér langtum hæfari til starfans, hlaut vígslu í Frúarkirkjunni í Kaupmannahöfn 15. maí árið 1639, og átti eftir að gegna því til ársins 1674, við góðan orðstír, þótti röggsamur kirkjustjórnandi, framfarasinnaður í veraldlegum efnum og allra manna lærðastur, og bjó auk þess yfir víðsýni og umburðarlyndi. Sem dæmi að nefna tók hann mildilega á galdramálum og orti Maríukvæði í kaþólskum stíl. Þá var hann áhugasamur jafnt um náttúruvísindi og hugvísindi, safnaði fornritum og vildi gefa þau út á prenti.

 

Hinn ungi biskup, 34 ára gamall, fékk Skálholtsstað í hrörlegu ásigkomulagi, en uppbyggði stórmannlega, lét rífa gömlu dómkirkjuna og reisa aðra minni. Sú er jafnan kölluð eftir honum.

 

Mælt er að Brynjólfur hafi tekið að þýða Nýja testamentið „úr grísku á íslenzku, fylgjandi orðameiningu höfuðtextans,“ eins og segir í Biskupasögum Jóns Halldórssonar. „Bað biskupinn herra Þorlák að láta það prenta, þá fullgert væri. Fékk afsvar fyrir þá grein, því horfa mundi til ásteiníngar framar en uppbyggíngar hjá einföldum almúga, ef mismunur væri á útleggíngum þess.“ Hafði Brynjólfur einungis lokið við að þýða Matteusarguðspjall, er hér var komið sögu. Ekkert hefur varðveist af því, að talið er. En þetta mun vera í fyrsta sinn, að Íslendingur þýðir rit úr Nýja testamentinu beint úr frummálinu.

 

Í verki sínu um Brynjólf (1973), í flokknum Menn í öndvegi, segir Þórhallur Guttormsson sagnfræðingur m.a.:

 

Í dagfari öllu var Brynjólfur biskup án alls drambs og yfirlætis eða fordildar í mat og klæðnaði. Barst hann svo lítið á, að þjónustufólk og nemendur veittu honum átölur í leyndum. Því svaraði hann svo, að fyrst guð hefði látið sig fæðast í því landi, þar sem klæði væru gerð af sauðaull, en ekki í landi, þar sem stunduð væri silki- eða bómullarrækt, þá bæri sér að semja sig að háttum síns lands og klæðast ullarfötum. „Vanitas quam minimum optimum“ var orðtak hans. Því minna sem væri af hégómanum, því betra.

 

Brynjólfur kvæntist Margréti Halldórsdóttur lögmanns árið 1640. Þau eignuðust sjö börn, en einungis tvö þeirra komust á legg. Ragnheiði misstu þau árið 1663, einungis 22 ára gamla. Við útför hennar var frumfluttur jarðarfararsálmurinn „Allt eins og blómstrið eina“, sem Hallgrímur Pétursson áður gaf henni. Sonurinn Halldór lést árið 1666, hálfþrítugur að aldri. Margrét andaðist 1670 og Þórður, sonur Ragnheiðar, 1673, á tólfta aldursári.

 

Afkomendurnir lifðu því engir.

 

Brynjólfur, þessi helsti öndvegismaður Íslands á 17. öld, vildi einn allra Skálholtsbiskupa ekki njóta legs innan veggja kirkju, heldur valdi sér hvílustað austan til í garðinum, hjá sínum nánustu, og bað um að áklappaður steinn yrði ekki lagður á gröf sína. Það er í stíl við orðin hér að framan, ívitnuð.

 

Hann andaðist 5. ágúst árið 1675. Í áðurnefndri bók Þórhalls er framhaldinu lýst svo:

 

Tveim dögum áður en jarðarför Brynjólfs fór fram, var hann lagður í kistu sína og Nýja testamentið, Davíðssálmar og Fjórir guðspjallamenn Jóns Arasonar látnir hjá honum. Hafði hann mælt svo fyrir sjálfur. Skorti biskup nú engan búnað til að hefja að nýju fyrra starf, er kæmi yfir landamærin miklu […] 

 

Brynjólfur Sveinsson (1605 - 1675)

 

 

 


Skráð af Menningar-Bakki.

03.08.2020 09:37

Strandarkirkja 3. ágúst 2014

 

.
.
 

 

 

 

    Strandarkirkja

 

 

     3. ágúst 2014 

.

.

.

.

.

.Ljósm.: Björn Ingi Bjarnason.
 

 


Skráð af Menningar-Bakki.

 

02.08.2020 09:51

Alþýðuhúsið 2. ágúst 2014

 

 

 

 

      Alþýðuhúsið

 

     á Eyrarbakka

 

 

     2. ágúst 2014

 

 

 

 

Skráð af Menningar-Bakki.

01.08.2020 13:39

HVATNINGARÁTAKIÐ TIL FYRIRMYNDAR

 

 

 

 

 HVATNINGARÁTAKIÐ

 

    TIL FYRIRMYNDAR

 

 

Til fyrirmyndar er hvatningarátak tileinkað frú Vigdísi Finnbogadóttur og íslensku þjóðinni.

 

Fyrir 40 árum stigu Íslendingar framfaraskref á heimsvísu með því að vera fyrst þjóða til að kjósa konu sem forseta í lýðræðislegum kosningum, frú Vigdísi Finnbogadóttur, það var til fyrirmyndar.

 

Á þessum tímamótum er verðugt að staldra við, huga að því sem vel er gert og þakka þeim sem við teljum vera til fyrirmyndar á einn eða annan hátt.

 

"Skal þó á það minnt að við erum öll samábyrg við rekstur þessa þjóðfélags, hver í sinu starfi, öll siðferðilega bundin af hagsmunum heildarinnar fremur en okkar eigin, sem kunna að vera tengdir líðandi degi. Framtíðin er alltaf á næsta leiti við hvert augnablik sem líður og til hennar verðum við fyrst og síðast að líta með enn gæfuríkara líf fyrir alla í huga."

 

FRÚ VIGDÍS FINNBOGADÓTTIR  

.

 


Skráð af Menningar-Bakki.

 

 

30.07.2020 19:32

Merkir Íslendingar - Auður Sveinsdóttir Laxness

 

 
 

Auður Laxness er látin - Vísir

Auður Sveinsdóttir Laxness (1918 - 2012).

 

Merkir Íslendingar - Auður Sveinsdóttir Laxness

 

 

Auður fæddist á Eyrarbakka 30. júlí 1918 og ólst þar upp til sjö ára aldurs.

Foreldrar hennar voru Sveinn Guðmundsson járnsmiður og k.h., Halldóra Kristín Jónsdóttir.

 

Sveinn var sonur Guðmundar, b. á Nýjabæ Gíslasonar, og Margrétar, systur Hafliða, afa Ólafs K. Magnússonar ljósmyndara. Margrét var dóttir Jóns, b. á Álfsstöðum á Skeiðum, bróður Einars, afa Einars Magnússonar, rektors MR. Móðir Margrétar var Margrét Dóróthea, systir Guðmundar í Miðdal, langafa Vigdísar Finnbogadóttur og Errós.

 

Halldóra Kristín var systir Steinunnar Guðrúnar, móður Baldvins Halldórssonar leikara frá Arngerðareyri við Djúp, föður Páls bókmenntagagnrýnanda og Ingu Láru á Eyrarbakka, deildarstjóra Ljósmyndadeildar Þjóðminjasafns Íslands. Halldóra var dóttir Jóns, hreppstjóra á Skálmarnesmúla Þórðarsonar, b. á Þórisstöðum, bróður Þorsteins í Æðey, föður Péturs Thorsteinssonar útgerðarmanns. Móðir Jóns hreppstjóra var Guðrún, systir Jóns, föður Björns ráðherra og ritstjóra, föður Sveins forseta.

 

Auður lauk gagnfræðaprófi og prófum frá Handíða- og myndlistarskólanum 1946. Hún starfaði við röntgendeild Landspítalans í tólf ár, kenndi í Varmárskóla og starfaði við Þjóðminjasafnið í einn vetur.

 

Auður giftist á aðfangadag 1945, Halldóri Kiljan Laxness, rithöfundi og Nóbelsverðlaunahafa. Eftir það aðstoðaði hún eiginmann sinn heima og á ferðalögum, og stundaði húsmóðurstörf á hinu gestkvæma heimili þeirra að Gljúfrasteini. Hún var þar lengst af húsfreyja en flutti að Hlaðhömrum í Mosfellsbæ 2004.

 

Dætur Auðar og Halldórs eru Sigríður, kennari og húsfreyja, og Guðný, kvikmyndagerðarmaður.

 

Auður lést 29.október 2012


24 Best Gljúfrasteinn images | Nobel literature, Iceland island ...
 

Auður Sveinsdóttir Laxness og Halldór Kiljan Laxness,

tengdasonur Eyrarbakka. 

Skráð af Menningar-Bakki.

29.07.2020 07:07

29. júlí 2020 - þjóðhátíðardagur Færeyja

 

 
 
 

 

29. júlí 2020 - þjóðhátíðardagur Færeyja

 

 

Þjóðhátíðardagar Norðurlandanna:

 

Álandseyjar 

9. júní   Fyrsta þing Álandseyinga kemur saman 1923.

 

Danmörk            

16. apríl eða 5. júní     16. apríl er afmælisdagur Margrétar II. (f. 1940), en yfirleitt er litið á 5. júní sem þjóðhátíðardag, þá var stjórnarskráin staðfest árið 1849.

 

Finnland             

6. desember      Finnar lýsa yfir sjálfstæði 1917. 

 

Færeyjar            

29. júlí   Ólafsvaka.

 

Grænland          

21. júní  Lengsti dagur ársins.

 

Ísland   

17. júní Fæðingardagur Jóns Sigurðssonar 1811 og lýðveldið stofnað 1944.

 

Noregur             

17. maí  Noregur fullvalda ríki í konungssambandi við Svía 1814, og stjórnarskráin frá Eiðsvelli gekk í gildi.

 

Svíþjóð

6. júní   Gústaf I. kjörinn konungur og Svíþjóð lýst sjálfstætt þjóðríki 1523
Skráð af Menningar-Bakki.

26.07.2020 10:49

Arnarflug í Önundarfirði þann 21. ágúst 1983.

 

 

 

 

 

           Arnarflug       í Önundarfirði þann 21. ágúst 1983

 

 

 

.
.
Skráð af Menningar-Bakki