![]() |
Matthías Ólafsson (1857 - 1942). |
Matthías Ólafsson alþingismaður fæddist í Haukadal í Dýrafirði 25. júní 1857.
Foreldrar hans voru Ólafur Jónsson, f. 11.6. 1819, d. 31.12. 1899, bóndi þar og k.h. Ingibjörg Jónsdóttir, f. 16.5. 1823, d. 24.6. 1911, húsfreyja.
Langfeðgar Ólafs höfðu búið tvær aldir eða lengur í Haukadal mann fram af manni, en Ingibjörg var afkomandi Jóns Arnórssonar, sýslumanns í Arnardal við Ísafjarðardjúp, af svonefndri Arnardalsætt. Meðal systkina Matthíasar var Jóhannes Ólafsson alþingismaður.
Eiginkona Matthíasar var Marsibil Ólafsdóttir, f. 4.9. 1869, d. 24.7. 1964 húsmóðir. Foreldrar hennar voru Ólafur Pétursson, skipstjóri á Þingeyri, og k.h. Þórdís Ólafsdóttir. Matthías og Marsibil eignuðust 15 börn.
Matthías tók gagnfræðapróf frá Möðruvöllum 1882, var við verslunarstörf í Haukadal 1882-1889 og á Flateyri 1889-1890. Hann stofnaði með öðrum í Haukadal fyrsta barnaskóla í Vestur-Ísafjarðarsýslu 1885 og kenndi sjálfur við hann til 1889 þegar skólinn var lagður niður og skólahald fluttist á Þingeyri. Þá keypti hann skólahúsið og rak þar verslun til 1897 þegar hann seldi hana, gerðist verslunarstjóri þar 1897-1908 og keypti svo verslunina á ný. Matthías seldi hana síðan aftur þegar hann fluttist til Reykjavíkur 1914 og gerðist erindreki Fiskifélags Íslands. Hann ferðaðist í markaðsleit á vegum Fiskifélags og ríkisstjórnar um Bandaríkin, Ítalíu og Spán 1917-1920. Þegar það starf var lagt niður varð Matthías gjaldkeri Landsverslunar 1920-1928 og forstöðumaður vöruskömmtunarskrifstofu ríkisstjórnarinnar 1920-1921. Síðan var hann starfsmaður hjá Olíuverslun Íslands 1928-1935.
Matthías var alþingismaður V-Ísfirðinga 1911-1919.
Þegar Matthías hætti störfum flutti hann ásamt konu sinni í Borgarnes til Hlífar, dóttur þeirra.
Matthías lést 8. febrúar 1942 á Landspítalanum.
![]() |
Skráð af Menningar-Bakki.
![]() |
Guðni Jónsson (1901 - 1974). |
Guðni fæddist 22. júlí 1901 á Gamla-Hrauni á Eyrarbakka, einn 17 barna Jóns Guðmundssonar, f. 17.9. 1856, d. 8.9. 1941 í Vestmannaeyjum, bónda og formanns þar, og síðari konu hans, Ingibjargar Gíslínu Jónsdóttur frá Miðhúsum í Sandvíkurhr., Árn., f. 1.9. 1867, d. 2.4. 1937 í Vestmannaeyjum.
Faðir hans veiktist og fór Guðni tveggja vikna gamall með móður sinni að Leirubakka í Landsveit. Foreldrum hans tókst að setja saman bú að nýju, en Guðni dvaldi áfram á Leirubakka og ólst þar upp.
Guðni varð stúdent frá MR 1924 og mag. art. í íslenskum fræðum frá Háskóla Íslands 1930. Hann var um tíma við nám í Kaupmannahöfn 1928 og aftur 1937.
Hann var kennari við Gagnfræðaskóla Reykvíkinga 1928-1945 og skólastjóri við sama skóla 1945-1957. Prófessor í sögu Íslands við Háskóla Íslands var hann 1958-1967, þar til hann lét af störfum vegna veikinda. Hann var forseti heimspekideildar HÍ 1959-1961. Hann varð doktor frá Háskóla Íslands 1953, en doktorsritgerð hans, Bólstaðir og bændur í Stokkseyrarhreppi, varð brautryðjandaverk í íslenskri staðháttasögu.
Guðni tók mikinn þátt í félagsstörfum, var forseti Sögufélagsins 1960-65, formaður Ættfræðifélagsins 1946-67 og sat í stjórn Hins ísl. þjóðvinafélags 1943-56. Hann var höfundur fjölmargra sagnfræðirita og stofnaði til stórútgáfu íslenskra fornrita 1946 og sá hann sjálfur um útgáfu 32 binda af þeim. Meðal ættfræðirita hans er Bergsætt.
Fyrri kona Guðna var Jónína Pálsdóttir, f. 4.4. 1906, d. 2.10. 1936, húsfreyja í Reykjavík.
Börn þeirra:
Gerður, Jón, Bjarni, Þóra og Margrét.
Seinni kona hans var Sigríður Hjördís Einarsdóttir, f. 28.8. 1910, d. 18.7. 1979, húsfreyja í Reykjavík.
Börn þeirra:
Einar, Bergur, Jónína Margrét og Elín.
Tveir sona Guðna, Jón og Bjarni, urðu einnig prófessorar við Háskóla Íslands.
Guðni Jónsson lést 4. mars 1974.
Skráð af menningar-Bakki.
![]() |
Eiríkur J. Eiríksson (1911 - 1987). |
Eiríkur Júlíus Eiríksson, prestur, skólastjóri og þjóðgarðsvörður á Þingvöllum, fæddist 22. júlí 1911 að Ekru í Vestmannaeyjum en fluttist fárra vikna gamall á Eyrarbakka.
Faðir hans var Eiríkur Magnússon, trésmiður frá Ölfusi. Hann fluttist til Kaliforníu í Bandaríkjunum, um það leyti sem Eiríkur fæddist, og sneri aldrei aftur. Eiríkur ólst upp hjá einstæðri móður sinni, Hildi Guðmundsdóttur frá Iðu í Biskupstungum, og móðurforeldrum sínum, Guðmundi Guðmundssyni og Jónínu Jónsdóttur.
Eiríkur var í barnaskóla á Eyrarbakka og fór svo í MR og varð stúdent þaðan 1932. Hann tók kennarapróf 1934 og guðfræðipróf frá HÍ 1935. Hann fór svo í framhaldsnám til Basel í Sviss.
Eiríkur varð kennari á Núpi í Dýrafirði 1935, tók sér árshlé meðan hann kynnti sér skólamál á Norðurlöndunum 1936-1937, fór svo aftur að kenna á Núpi og varð skólastjóri þar 1942 til ársins 1960. Á sama tíma var hann sóknarprestur á Núpi.
Árið 1960 varð hann prestur og þjóðgarðsvörður á Þingvöllum og gegndi þeim stöðum til ársins 1981. Hann hætti þó ekki að sinna skólamálum því hann hafði mikil afskipti af Ljósafossskóla og var m.a. prófdómari þar og sat í skólanefnd.
Eiríkur var einn af forustumönnum ungmennafélagshreyfingarinnar. Hann sat í stjórn UMFÍ frá 1936 og var formaður UMFÍ í um 30 ár. Landsmótin voru honum mikið hjartans mál og átti hann þátt í því að endurvekja þau með Landsmótinu í Haukadal 1940. Hann var ritstjóri Skinfaxa, málgagns UMFÍ, um árabil, skrifaði margar greinar í blöð og tímarit og var mikill ræðuskörungur.
Kona Eiríks var Kristín Jónsdóttir, f. 5. október 1917, d. 17. febrúar 1999. Foreldrar hennar voru Jón Ólafsson, bóndi á Gemlufalli í Dýrafirði og kona hans, Ágústa Guðmundsdóttir.
Eiríkur lést í Félagsheimilinu Borg í Grímsnesi 11. janúar 1987 og hafði þá nýlokið afmælisræðu yfir vini sínum.
![]() |
Eiríkur J. Eiríksson og Kristín Jónsdóttir. |
Skráð af Menningar-Bakki.
![]() |
Sveinbjörn Finnsson (1911 - 1993). |
Sveinbjörn Finnsson fæddist 21. júlí 1911 á Hvilft í Önundarfirði.
Foreldrar hans voru Finnur Finnsson, bóndi þar, f. 1876, d. 1956, og k.h. Guðlaug Jakobína Sveinsdóttir, húsfreyja. Foreldrar Finns voru Finnur Magnússon, bóndi á Hvilft, og k.h. Sigríður Þórarinsdóttir, og foreldrar Guðlaugar voru Sveinn Rósinkranzson, útvegsbóndi og skipstjóri á Hvilft, og k.h. Sigríður Sveinbjörnsdóttir, húsfreyja.
Sveinbjörn lauk stúdentsprófi frá Menntaskólanum á Akureyri árið 1933 og hagfræðiprófí frá London School of Economics 1939.
Hann var verksmiðjustjóri Síldarverksmiðju ríkisins á Sólbakka í Önundarfirði 1935-1937, fulltrúi í Verðlagsnefnd og Tveggjamannanefnd 1939-1941, skrifstofustjóri Viðskiptanefndar utanríkisviðskipta 1941-1942 og fyrsti verðlagsstjóri á Íslandi 1943-1946.
Hann var frumkvöðull humariðnaðar á Íslandi og byggði upp veiðar, frystiaðferðir og markaði 1950-1954.
Hann var hvatamaður að stofnun Styrktarfélags lamaðra og fatlaðra 1952 og var framkvæmdastjóri þess 1957-1962. Hann átti sæti í fyrstu stjórn Öryrkjabandalagsins.
Sveinbjörn kenndi við Vogaskóla í Reykjavík 1963-1979 og var yfirkennari 1978-1979 og gerðist einn brautryðjenda í starfsfræðslu í skólum landsins.
Sveinbjörn var staðarráðsmaður við Skálholt 1964-1990, en hann var einn af stofnendum Skálholtsfélagsins sem hefur unnið að því að endurreisa Skálholtsstað.
Sveinbjörn var sæmdur Skálholtsorðunni, til minningar um vígslu Skálholtskirkju árið 1963, og gullþjónustupeningi með kórónu af Danadrottningu árið 1973.
Eiginkona Sveinbjörns var Thyra Finnsson, fædd Friis Olsen 30.1. 1917, d. 8.8. 1995, frá Slagelse í Danmörku. Hún var húsfreyja og ritari.
Börn þeirra:
Gunnar, f. 1940, d. 2014, Arndís, f. 1943, Hilmar, f. 1949, og Ólafur William, f. 1951.
Sveinbjörn Finnsson lést 1. apríl 1993.
___________________________________
Í afmælisgrein um Sveinbjörn Finnsson sjötugan þann 21. júlí 1981 skrifaði Ólafur Haukur Árnason m.a. í Morgunblaðinu:
Ekki er á almanna vitorði þáttur Sveinbjörns Finnssonar í sigri okkar í landhelgisdeilunni við Breta þegar fært var út í 12 mílur. Þar munaði heldur betur um verk hans og mun sú saga væntanlega skráð síðar.
Þann dag var einnig í Morgunblaðinu:
Sveinbjörn Finnsson, sæll minn kæri
senda skal þér kveðju hlýja.
Óskandi þér auðnan færi
ennþá marga daga nýja.
Enn þú heldur austurleiðir,
— ekki bregður vana þínum.
Fagurt Skálholt faðminn breiðir,
— fagnar einkavini sínum.
Auðunn Bragi Sveinsson.
![]() |
Hvilft í Önundarfirði. Ljósm.: BIB
Skráð af Menningar-Bakki.
![]() |
teiknaði. Ljósm.: Björn Ingi Bjarnason. |
Þorláksmessa á sumri er 20. júlí. Verndardýrlingur Íslendinga er Þorlákur helgi.
Sumarið 1198 var helgi Þorláks Þórhallssonar samþykkt á Alþingi og bein hans tekin upp og skrínlögð 20. júlí.
Þorláksmessa á vetur er 23. desember, á dánardegi hans.
Þorláksmessa á sumar var til siðaskipta einn helsti hátíðisdagur sunnanlands og þá var haldin mikil samkoma í Skálholti.
Síðustu ár eru einnig til dæmi um skötuveislur þennan dag.
Skráð af Menningar-Bakki.
![]() |
||
. |
Tíu sækja um Breiðabólsstaðarprestakall
Tíu umsækjendur eru um starf sóknarprests í Breiðabólsstaðarprestakalli en umsóknarfrestur rann út á dögunum.
Umsækjendurnir eru:
Sr. Ásta Ingibjörg Pétursdóttir
Bryndís Böðvarsdóttir, mag.theol
Edda Hlíf Hlífarsdóttir, mag.theol
Guðrún Eggerts Þórudóttir, mag.theol
Sr. María Gunnarsdóttir
Matthildur Bjarnadóttir, mag.theol
Sr. Sigríður Kristín Helgadóttir
Snævar Jón Andrésson, mag.theol
Sr. Sveinn Alfreðsson
Sr. Ursula Árnadóttir
Allar gildar umsóknir fara til þriggja manna matsnefndar sem metur hæfni umsækjenda. Matsnefnd velur að jafnaði fjóra hæfustu umsækjendurna og skilar skýrslu þar að lútandi til biskups. Kjörnefnd prestakallsins kýs síðan sóknarprest úr hópi þeirra sem matsnefndin hefur talið hæfasta og biskup ræður svo í starfið.
Miðað er við að viðkomandi geti hafið störf í síðasta lagi þremur mánuðum eftir að niðurstaða um ráðningu liggur fyrir.
Prestur að Breiðabólstað hefur um árabil verið Önfirðingurinn séra Önundur Björnsson.
Skráð af Menningar-Bakki.
![]() |
Ljósm.: Björn Ingi Bjarnason. |
Hafliði Þórður Magnússon, listamaður frá Bíldudal, var fæddur þann 16. júlí 1935 og í dag eru því 85 ár frá fæðingun hans.
Systkini Hafliða:
sammæðra Elísabet Matthildur Árnadóttir, f. 1924. Alsystkini: Sigríður, f. 1927, Óskar, f. 1933, tvíburasystir Hafliða, Guðlaug Ásta, f. 1935, Ásdís Guðrún, f. 1940.
Hafliði eignaðist tvær dætur, Björk og Sóldögg.
Hafliði var fæddur í Hergilsey á Breiðafirði. Hann fluttist þaðan 6 ára í Arnarfjörð þar sem fjölskyldan bjó á ýmsum stöðum en lengst af bjó hann á Bíldudal. Hann bjó einnig um tíma í Reykjavík.
Hafliði starfaði m.a. sem sjómaður og þá mest á síðutogurum, við fiskvinnslu og einnig kenndi hann sjóvinnu. Þá vann hann við uppbyggingu Mjólkárvirkjunar og endurgerð fæðingarbæjar Jóns Sigurðssonar á Hrafnseyri við Arnarfjörð.
Frá árinu 1998 bjó Hafliði síðan á Selfossi ásamt sambýliskonu sinni Evu Þórarinsdóttur frá Suðureyri við Súgandafjörð. Á Selfossi vann hann ýmis störf, síðast hjá SG við trésmíðar þar sem hann lauk hefðbundinni starfsævi árið 2002.
En Hafliði Magnússon var fyrst og fremst rithöfundur, ljóðskáld, söngleikjahöfundur og málari. Þá lagði hann mikla rækt við sagnaþætti af ýmsum toga og flest í því tengdist Bíldudal og Arnarfirði. Hann var svo sannarlega margþættur listamaður og þeim störfum helgaði hann sig alfarið eftir að hann hætti störfum hjá SG.
Hafliði lést þann 25. júní 2011 á heimili sínu á Selfossi.
Minningarathöfn um Hafliða Magnússon fór fram í Laugardælakirkju við Selfoss fimmtudaginn 30 júní 2011.
Hafliði Magnússon var jarðsunginn frá Bíldudalskirkju laugardaginn 2. júlí 2011.
Prestur við minningarafhöfnina og útförina var séra Egill Hallgrímsson í Skálholti.
Skráð af Menningar-Bakki.
![]() |
Skáldastígurinn að Litla-Hrauni á Eyrarbakka. Ljósmynd/BIB
Fangelsið að Litla-Hrauni á Eyrarbakka hóf starfsemi þann 8. mars 1929 í húsi sem Eyrbekkingurinn og húsameistari ríkisins Guðjón Samúelsson (1887 – 1950) teiknaði í upphafi sem sjúkrahús. Á síðasta ári var 90 ára afmælis starfseminnar að Litla-Hrauni minnst með ýmsum hætti en þar er nú starfrækt stærsta fangelsi landsins.
Meðal þess sem tengdist 90 ára afmæli Litla-Hrauns á síðasta ári var að Sveitarfélagið Árborg stóð fyrir lagningu veglegrar og öruggrar gangbrautar frá Merkisteini að Litla-Hrauni en fram að því hafði ekki verið gangbraut frá Heiðdalshúsi að Litla-Hrauni. Framkvæmdum lauk þann 8. júní sl. og er nú öryggi Eyrbekkinga á þessari leið til vinnu á Litla-Hrauni eins gott og frekast getur orðið. Sigurður Steindórsson, deilarstjóri á Litla-Hrauni, hefur farið þessa slóð strafsmanna af Eyrarbakka oftast eða daglega í 43 ár.
Hrútavinafélagið Örvar á Suðurlandi, sem er samafl brottfluttra Vestfirðinga og heimamanna á Suðurlandi, hefur barist fyrir framkvæmdinni í áratug og vill á þessari stundu þakka Sveitarfélaginu Árborg hin farsælu framkvæmdalok gangbrautarinnar að Litla-Hrauni. Þess má geta að Tryggvi Ágústsson frá Brúnastöðum í Flóa, staðgengill forstöðumanns á Litla-Hrauni, hefur gefið gangbrautinni nafnið -Skáldastígur-.
Glaðir allir með göngu-braut
geislar fylla vanga.
Sigur er með þrjósku‘ og þraut
þannig málin ganga.
Björn Ingi Bjarnason, forseti
Hrútavinafélagsins Örvars á Suðurlandi
![]() |
||||||||||||||
. .
.
. .
|
![]() |
Karvel Pálmason (1936 - 2011). |
Merkir Íslendingar - Karvel Pálmason
Karvel Pálmason (Karvel Steindór Ingimar) fæddist í Bolungarvík 13. júlí 1936. Foreldrar hans voru Pálmi Árni Karvelsson sjómaður þar í bæ og Jónína Eggertína Jóelsdóttir ráðskona.
Karvel stundaði fjölbreytt störf í Bolungarvík á árunum 1950-1971. Sjómaður 1950–1958 og síðan verkamaður til 1962. Lögregluþjónn 1962–1971 og jafnframt kennari við barna- og unglingaskólann þar.
Hann var kjörinn á Alþingi árið 1971 fyrir Frjálslynda vinstrimenn. Hann sat á þingi til ársins 1991. Hann var formaður þingflokks Samtaka frjálslyndra og vinstri manna á árunum 1974-1978.
Karvel var formaður Verkalýðs- og sjómannafélags Bolungarvíkur um árabil, varaforseti Alþýðusambands Vestfjarða, sat í miðstjórn Alþýðusambands Íslands og var um tíma varaformaður Verkamannasambands Íslands.
Karvel sat í hreppsnefnd Hólshrepps á árunum 1962-1970, í Rannsóknaráði ríkisins árin 1971-1978 og í stjórn Fiskimálasjóðs frá 1972- 1989. Hann átti sæti í stjórn Byggðastofnunar á árunum 1991-1995 og sat í flugráði um tíma.
Eftirlifandi eiginkona Karvels er Martha Kristín Sveinbjörnsdóttir f. 27. ágúst 1935. Foreldrar hennar Sveinbjörn Rögnvaldsson og kona hans Kristín Hálfdánardóttir.
Karvel og Martha eignuðust fjögur börn:
Pálmi Árni (1952), Kristín Hálfdánar (1953), Steindór (1958), Jónína (1960).
Karvel Pálmason var vaskur maður, jafnan glaður og reifur, og gamansamur í samskiptum við samstarfsfólk. Hann reyndist dugmikill þingmaður og ræktaði gott samband við kjósendur sína. Mest beitti hann sér í sjávarútvegsmálum, samgöngumálum og byggðamálum, og öðrum þeim málum sem vörðuðu hag þess kjördæmis þar sem hann var kosinn. Hann gekk þegar í upphafi þingmennsku sinnar ódeigur til starfa þótt hann hafi ekki stefnt þangað sem ungur maður eða átt sér á þeim tíma drauma um frama í stjórnmálum. Það varð hans hlutskipti eigi að síður og undir því reis hann með sóma.
Er Karvel var um fimmtugt veiktist hann og gekkst undir mikla skurðaðgerð en náði aldrei fullri heilsu á ný. Er hann lét af þingmennsku 1991 hvarf hann á ný á heimaslóðir sínar í Bolungarvík. Hann sinnti áfram opinberum málum, var m.a. í stjórn Byggðastofnunar í fjögur ár og enn fremur um alllangt skeið í flugráði. Að öðru leyti fékkst hann við smíðar, enda hagleiksmaður í þeim efnum. Naut hann þess að hafa hjá sér í „Kallastofu“ vini sína og samferðarmenn til að ræða um landsins gagn og nauðsynjar og glettast við þá.
Karvel lést 23. febrúar 2011.
![]() |
||||||||||||
. Karvel Pálmason á góðri stund í Vagninum á Flateyri árið 1991. .
.
|
Skráð af Menninagr Bakki
![]() |
Opnunarhátíð Vitaleiðarinnar verður laugardaginn 15. ágúst klukkan 13.00 við Stað á Eyrarbakka. |
Vitaleiðin er ný ferðaleið niður við suðurströndina. Vitaleiðin nær frá Selvogi í Ölfusi að Knarrarósvita í Árborg og er leiðin um 45-49 km löng, eftir því hvort ekið er eftir vegi eða strandlínan sé nýtt.
Opnunarhátíð Vitaleiðarinnar verður laugardaginn 15. ágúst klukkan 13.00 við Stað á Eyrarbakka.
Vitaleiðin er ferðaleið sem beinir athygli að þorpunum og svæðinu við sjóinn. Á Vitaleiðinni heimsækir þú þrjá bæi, hver með sína sérstöðu, Þorlákshöfn, Eyrarbakka og Stokkseyri.
Vitaleiðin dregur fram þá miklu sögu og menningu sem er til staðar á svæðinu sem og fjölda ólíkra upplifunarmöguleika í afþreyingu og náttúru.
Vitaleiðin er um 45-49 km leið, fer eftir ferðamáta og nær frá Selvogi að Knarrarósvita.
![]() |
|
© 2021 123.is | Nýskrá 123.is síðu | Stjórnkerfi 123.is