![]() |
Gunnlaugur Finnsson (1928 - 2010). |
Gunnlaugur Finnsson fæddist á Hvilft í Önundarfirði 11. maí 1928.
Foreldrar hans voru Finnur Finnsson, bóndi þar, og kona hans, Guðlaug Sveinsdóttir húsfreyja. Gunnlaugur stundaði nám við Menntaskólann á Akureyri og brautskráðist þaðan með stúdentsprófi árið 1949. Hann var bóndi á Hvilft frá árinu 1950 fram til 2007. Samhliða bústörfum kenndi hann lengstum við Héraðsskólann á Núpi og síðar við barna- og unglingaskóla á Flateyri þar til hann var kjörinn á þing. Árið 1980 varð hann kaupfélagsstjóri á Flateyri og gegndi því starfi í átta ár.
Gunnlaugur Finnsson tók virkan þátt í félagsmálum sveitar sinnar og héraðs. Hann sat um aldarfjórðung í hreppsnefnd Flateyrarhrepps og var oddviti tvö kjörtímabil. Þá var hann formaður Fjórðungssambands Vestfjarða í fjögur ár á þessum tíma. Drjúgum tíma af starfsævi sinni varði Gunnlaugur í þágu þjóðkirkjunnar, sat á kirkjuþingi og í kirkjuráði hálfan þriðja áratug og var jafnframt um tíma í stjórn Hjálparstofnunar kirkjunnar. Auk þeirra starfa sem nú hafa verið talin átti hann sæti í ýmsum opinberum og stjórnskipuðum nefndum.
Í alþingiskosningunum 1974 var Gunnlaugur í framboði í 2. sæti á lista Framsóknarflokksins í Vestfjarðakjördæmi og hlaut kosningu. Sat hann á þingi til 1978. Í kosningunum 1978 var hann á ný í framboði en náði ekki kjöri í þeim sviptingum sem þá voru í íslenskum stjórnmálum. Hann tók þó sæti sem varamaður á útmánuðum 1979 og sat samtals á sex þingum. Á Alþingi var hann formaður félagsmálanefndar neðri deildar og lét sér einkum annt um mennta-, atvinnu-, samgöngu- og byggðamál.
Gunnlaugur Finnsson var gegnheill samvinnu- og félagshyggjumaður. Hann var sannfærður um að bæði einstaklingum og samfélagi vegnaði best þegar menn ynnu af einlægni saman að sameiginlegu markmiði. Þannig vann hann hin fjölmörgu störf sem hann sinnti fyrir byggðarlag sitt, samvinnuhreyfinguna, kirkjuna og fyrir þjóðina sem alþingismaður.
Gunnlaugur Finnsson, bóndi á Hvilft í Önundarfirði og fyrrverandi alþingismaður, lést 13. janúar 2010
Af vef Alþingis.
![]() |
Gunnlaugur Finnsson heldur ræðu í Íþróttahúsinu á Flateyri í 70 ára
afmælisfagnaði Flateyrarhrepps í júní 1992. Ljósm.: Björn Ingi Bjarnason.
Skráð af Menningar-Bakki
Bikarmeistarar á Eyrarbakkavelli
Kvennalið bikarmeistara Ungmennafélags Selfoss í knattspyrnu var við æfingar
á Eyrarbakkavelli í gær, laugardaginn 9. maí 2020.
Velkomnar og gangi ykkur vel í sumar.
.
.
.
.
Skráð af Menningar-Bakki.
Sigurður B. Haraldsson (1930 - 2002).
Merkir Íslendingar - Sigurður B. Haraldsson
Sigurður Bjarni Haraldsson fæddist á Syðra-Rauðamel í Hnappadalssýslu 9. maí 1930.
Foreldrar hans voru Úlfhildur Hannesdóttir, f. 1897, d. 1982, og Haraldur Lífgjarnsson, f. 1896, d. 1959, en Sigurður ólst upp hjá móðursystur sinni, Helgu Hannesdóttur, og eiginmanni hennar, Sigurði Haraldssyni, í Reykjavík.
Sigurður lauk efnaverkfræðiprófi frá Háskólanum í Glasgow árið 1958. Hann starfaði hjá Fiskifélagi Íslands í tvö ár og var framkvæmdastjóri Ferskfiskeftirlitsins í tíu ár. Hann vann að undirbúningi stofnunar Fiskvinnsluskólans, sem tók inn fyrstu nemendur sína árið 1970. Sigurður var skólastjóri þess skóla þar til hann lét af störfum vegna heilsubrests árið 1995.
Sigurður var einn af stofnfélögum Rótarýklúbbs Seltjarnarness og var forseti klúbbsins 1989-1990. Hann tók virkan þátt í byggingu Seltjarnarneskirkju ásamt konu sinni, en hún var fyrsti formaður sóknarnefndar kirkjunnar.
Eiginkona Sigurðar er Kristín Friðbjarnardóttir, f. 9.4. 1929, búsett á Seltjarnarnesi. Synir þeirra eru Friðbjörn og Haraldur Hlynur.
Sigurður lést 13. apríl 2002.
Morgunblaðið laugardagurinn 9. maí 2020.
Skráð af Menningar-Bakki.
Dynjandi í Arnarfirði.
Á myndinni er Hafliði Magnússon frá Bíldudal (1935 - 2011). Ljósm,; BIB
Menntamálaráðuneytið samþykkti þann 6. maí 1981 að friðlýsa Dynjanda
(Fjallfoss) og aðra fossa í Dynjandisá í Arnarfirði.
Skráð af Menningar-Bakki.
Hannes Sigurðsson fæddist laugardaginn 6. maí 1950 í Stóru-Sandvík í Sandvíkurhreppi, hinum forna, nú Árborg. Hann ólst upp í Stóru-Sandvík ásamt systkinum sínum og fjölmörgum frændsystkinum, en þar var á þessum árum fjórbýlt. Þar bjuggu þrír bræður Sigurðar ásamt fjölskyldum sínum. „Þar var því margt um manninn á þessum árum og við bættist talsvert af sumarkrökkum úr þéttbýlinu, því það þurfti margar hendur í heyskap á þessum tíma, rétt áður en vélar yfirtóku nánast alla vinnu við heyskapinn.“
Hannes gekk í barna- og gagnfræðaskóla á Selfossi og þá lá leiðin í Verslunarskóla Íslands. „En sjómennskan heillaði og ég fór fyrst í siglingar, fékk pláss á Lagarfossi og fyrsta landið sem komið var til var Rússland og borgin var Múrmansk. Þar kom ungum Íslendingi margt nýstárlegt fyrir sjónir.“ Hannes var eitt ár í siglingum en eftir þann kafla réði hann sig á fiskibáta. Byrjaði á bát frá Þorlákshöfn en var einnig á bátum frá Eyrarbakka og Stokkseyri. Hann fór síðan í Stýrimannaskólann í Reykjavík haustið 1971 og lauk fiskimannaprófi vorið 1973.
Hannes var stýrimaður og skipstjóri á nokkrum bátum í Þorlákshöfn. Hann hóf eigin útgerð haustið 1976 með kaupum á 50 tonna bát frá Hellissandi sem hann var skipstjóri á. Samhliða útgerðinni byggðu hann og Þórhildur kona hans verslunarhús í Þorlákshöfn, þar sem þau ráku matvöruverslun í sjö ár, en síðan var húsið og reksturinn seldur öðrum. Fiskiðjan Ver var sett á laggirnar 1983 og byggt hús að Unubakka 48 í Þorlákshöfn, var þar unninn saltfiskur. „Sú starfsemi vatt upp á sig og var flutt í stærra húsnæði í Þorlákshöfn að Óseyrarbraut 20 þar sem saltfiskframleiðslan er enn í dag.“
Þau hjónin byggðu svo veitingastaðinn Hafið bláa árið 2003 og ráku staðinn til 2009, en hann hefur verið í útleigu síðan. Árið 2006 keypti Hannes Hafnarnes hf. og sameinaði fiskiðjunni VER og úr varð Hafnarnes VER hf. sem hann á og rekur í dag með fjölskyldu sinni. „Útgerðin og fiskvinnslan hafa verið mínar ær og kýr. Í gegnum framleiðsluna hef ég kynnst fjölmörgum, bæði hérlendis og erlendis, einkum saltfiskkaupendum í Portúgal og sæbjúgnakaupendum í Kína.“
Hannes sat í hreppsnefnd Ölfushrepps 1992-1998 og er formaður veiðifélagsins Varmár í Ölfusi. „Ég hef mikinn áhuga á laxveiði, bæði í net og á stöng. Ég veiði fyrst og fremst í Sogi og Ölfusi en svo hef ég líka gaman af því að veiða í Laxá í Kjós.“
Eiginkona Hannesar er Þórhildur Ólafsdóttir, f. 11.4. 1953, búfræðingur og skógræktarbóndi. Þau eru búsett á Hrauni í Ölfusi. Foreldrar hennar voru hjónin Ólafur Þorláksson, f. 18.2. 1913, d. 23.11. 2006, bóndi á Hrauni, og Helga Sigríður Eysteinsdóttir f. 2.7. 1916, d. 9.9. 2009, húsfreyja á Hrauni.
Börn Hannesar og Þórhildar eru:
1) Hildur, f. 17.9. 1978, d. 18.12. 1978;
2) Katrín Ósk, f. 11.7. 1980, fjármálastjóri. Maki: Smári Birnir Smárason, f. 7.3. 1981, framkvæmdastjóri. Dætur þeirra eru Hildur Ósk, f. 4.12. 2007; Hanna Birna, f. 20.9. 2011, og Helga Katrín, f. 27.5. 2014. Þau eru búsett í Þorlákshöfn;
3) Ólafur, f. 23.7. 1985, framkvæmdastjóri, búsettur í Kópavogi.
Systkini Hannesar eru Þórður Sigurðsson f. 16.4. 1949, bifreiðarstjóri, búsettur á Selfossi; Jens Sigurðsson, f. 2.3.1954, iðnfræðingur hjá Selfossveitum; Árún Kristín Sigurðardóttir, f. 10.2. 1957, prófessor í hjúkrunarfræði við Háskólann á Akureyri, og Margrét Sigurðardóttir, f. 4.10. 1958, hjúkrunarfræðingur, búsett í Reykjavík.
Foreldrar Hannesar voru hjónin Sigurður Hannesson, f. 4.4. 1916, d. 11.12. 1981, bóndi í Stóru-Sandvík og Hólmfríður Þórðardóttir, f. 15.6. 1922, d. 6.3. 2003, húsmóðir í Stóru-Sandvík.
Morgunblaðið 6. maí 2020.
Skráð af Menningar-Bakki.
Karl Marx (1818 - 1883).
Karl Heinrich Marx var áhrifamikill þýskur hagfræðingur, heimspekingur, byltingarleiðtogi og stjórnmálaspekingur. Hann er frægastur fyrir greiningu sína á mannkynssögunni í anda þráttarhyggju Hegels sem röð átaka milli stétta. Hann greindi samfélag kapítalismans og taldi meðal annars að reglulegar og sívaxandi efnahagskreppur væru innbyggðar í hagkerfi og myndu á endanum leiða til hruns þar sem stéttlaust samfélag tæki við.
Marx tók virkan þátt í stjórnmálahræringum um og eftir miðja 19. öld. Hann skrifaði Kommúnistaávarpið ásamt Friedrich Engels 1848 og var leiðandi við stofnun Fyrstu alþjóðasamtaka verkalýðsins í London 1864. Höfuðrit hans Auðmagnið (Das Kapital) kom út 1867, en hann vann við rannsóknir meira eða minna til dauðadags 1883.
Útfærslur á jafnaðarstefnunni sem byggja á verkum Marx eru oft kallaðar marxismi. Marxismi hafði gríðarleg áhrif á stjórnmál og vísindi á 19. og 20. öld.
Karl Marx lést þann 14. mars 1883.
Heimild: Wikipedia
Skráð af Menningar-Bakki.
Á Ingólfstorgi í Reykjavík þann 1. maí 2020.
F.v.: Björn Ingi Bjarnason, f.v. formaður Verkalýðsfélagsins Skjaldar á Flateyri,
Drífa Snædal, forseti ASÍ, Ragnar Þór Ingólfsson, formaður Verslunarmannafélags
Reykjavíkur og Jóna Guðrún Haraldsdóttir frá Flateyri.
-Hátíðarstund verkalýðsleiðtoga-
-Hátíðarstund verkalýðsleiðtoga- fyrrverandi og núverandi, á Ingólfstorgi í Reykjavík þann 1. maí 2020.
Drífa Snædal, forseti ASÍ, bauð þar stjórn Verkalýðsfélagsins Skjaldar á Flateyri árið 1981 í heimsókn til ASÍ fyrir 1. maí 2021 . Þar skal m.a. minnast 40 ára tímamótasamkomulags aðila á Flateyri um innborgun og ávöxtun orlofsfjár launafólks í peningastofnun í heimabyggð.
Þessi háttur var síðan tekinn upp hjá öllu launafólki landsins og er í farsælli framkvæmd enn í dag.
Forgöngumenn. Myndin var tekin í stofunni heima hjá Ægi sparisjóðsstjóra
þegar skrifað var undir hið merka tímamótasamkomulag fyrir 39 árum
síðan um innborgun og ávöxtun orlofsfjár.
Frá vinstri, Björn Ingi Bjarnason formarður Verkalýðsfélagsins Skjaldar,
Ægir E. Hafberg sparisjóðsstjóri í Sparisjóði Önundarfjarðar
og Einar Oddur Kristjánsson forstjóri Hjálms HF. á Flateyri
langstærsta atvinnurekenda þorpsins.
Stjórn Verkalýðsfélagsins Skjaldar fyrir 39 árum þegar lausn fékkst
í áralöngu baráttumáli um ávöxtun orlofsfjár í heimabyggð.
Aftari röð frá vinstri.: Hendrik Tausen, ritari, Hálfdán Kristjánsson, gjaldkeri
og Sigurður Sigurdórsson, meðstjórnandi.
Fremri röð frá vinstri, Björn Ingi Bjarnason, formaður
og Pétur G. Þorkelsson, varaformaður
Skráð af Menningar-Bakki.
![]() |
Nýtt starf við Lýðskólann
Viltu flytja til Flateyrar? -
Nýtt starf við Lýðskólann
Lýðskólinn á Flateyri auglýsir eftir starfsmanni.
Við bjóðum sveigjanlegan vinnutíma og krefjandi starfsumhverfi sem reynir á félagsfærni og áhuga á fólki. Meðal verkefna er þróun nýrrar alþjóðabrautar skólans og þátttaka í stjórnun og skipulagningu daglegs skólastarfs í samvinnu við aðra starfsmenn skólans. Mögulegt er að kennsla einstakra námskeiða verði hluti starfsins. Á litlum vinnustað göngum við öll störf eins og að aðstoða nemendur, bera stóla, raða í uppþvottavél og semja námsskrá.
Við leitum að dugmiklum einstaklingi sem státar af skipulags- og samskiptahæfni og hefur getu til að hugsa út fyrir boxið. Við viljum ráða ábyrgðarfulla manneskju sem brennur fyrir sköpun og hefur vilja til þess að gera betur og ná lengra. Reynsla af því að vinna með ungu fólki á öllum aldri er kostur. Þekking á skólastarfi og reynsla af skipulagningu og þróun námskeiða er æskileg.
Nánari upplýsingar um starfið veitir Ingibjörg Guðmundsdóttir skólastjóri í síma 699 7535 eða í netfanginu skolastjori@lydflat.is
Umsóknir sendist á skolastjori@lydflat.is fyrir 15. maí. Ráðið verður í starfið frá 1. ágúst.
Skráð af Menningar-Bakki.
© 2021 123.is | Nýskrá 123.is síðu | Stjórnkerfi 123.is