![]() |
Sigríður Ingibjörg Jensdóttir fæddist í Hnífsdal 29. apríl 1950 og ólst þar upp á Ísafjarðarvegi 4. Eftir grunnskóla fór hún í Héraðsskólann á Núpi í Dýrafirði og svo einn vetur í Verslunarskóla Íslands. Eftir það gekk hún í Húsmæðraskólann Ósk á Ísafirði og útskrifaðist hún þaðan vorið 1969.
Sama ár eignaðist hún sitt fyrsta barn og ekki varð úr frekara námi en hugurinn hafði stefnt á hjúkrunarnám. Sigríður giftist Bárði Guðmundssyni 27.12. 1970. Hann stundaði nám við Tækniskóla Íslands frá 1969-1974 og þann tíma starfaði Sigríður við ýmis störf en lengst af sem dagmóðir, einkum þó á veturna, en fór flest sumur til Ísafjarðar og vann í fiski í hraðfrystihúsinu í Hnífsdal. Árið 1978 flytja þau hjón í Hveragerði og á Selfoss 1982 og hafa búið þar síðan. Árið 1981 hóf Sigríður störf sem læknaritari ásamt fleiri störfum hjá SÁÁ að Sogni í Ölfusi og var þar í sjö ár.
Árið 1986 ákvað Kvennalistinn á Selfossi að bjóða fram lista í bæjarstjórnarkosningum og var Sigríður þar í efsta sæti og fékk Kvennalistinn einn mann kjörinn. Sigríður var svo kjörin forseti bæjarstjórnar fyrsta árið hennar í bæjarstjórn og svo formaður bæjarráðs árið eftir og var hún í þessum embættum sitt hvert árið þau 12 ár sem hún var í bæjarstjórn. Hún kom að því að stofna Héraðsnefnd Árnesinga árið 1988 og var kjörin oddviti og formaður héraðsráðs á fyrsta fundi Héraðsnefndarinnar og gegndi þeim embættum þar til hún hætti sem bæjarfulltrúi fyrir kosningarnar 1998.
Sigríður tók þátt í hinum ýmsu nefndum og ráðum og var meðal annars í fulltrúaráði Brunabótafélags Íslands, eini kvenmaðurinn þá. Árið 1989 var hún fengin til að koma til starfa hjá Brunabótafélagi Íslands sem þá var búið að ákveða að sameinaðist Samvinnutryggingum Íslands og til varð Vátryggingafélag Íslands, hún starfaði þar svo í rúm 28 ár eða þar til í október 2017 þegar hún var 67 ára og varð að hætta vegna aldurs. Sigríður var í hópi fólks sem stofnaði Klúbbinn Strók á Suðurlandi sem ætlaður er fyrir fólk sem á eða hefur átt við geðræn vandamál að stríða og var hún fyrsti formaður hans og gegndi því starfi í fjölda ára. Erfiðasta verkefnið sem hún segist hafa tekist á við er að elsti sonur þeirra hjóna, sem var bráðvel gefinn og gekk vel í námi og íþróttum, ánetjaðist fíkniefnum og sú barátta tók á alla fjölskylduna, ömmu hans og afa og alla í kringum þau. Hann lést svo í bruna ásamt vinkonu sinni í október 2018.
„Áhugamál mín eru númer eitt fjölskyldan. Líkamsrækt á og hefur átt stóran sess hjá mér undanfarin ár. Ég og vinkona mín, Þórunn Þórhallsdóttir, tókum okkur til í september 1993 og fórum út í göngu kl. 6 að morgni þrisvar í viku og höfum gert það síðan með fáum undantekningum fram til þessa skrýtna ástands sem er þessa dagana. Þá hef ég stundað jóga í 15 ár og hefur eiginmaður minn komið með undanfarin ár bæði í gönguna og jóga.
Okkur þykir gaman að ferðast og höfum gert mikið af því og höfum gengið West Highland Way og Great Glen Way í Skotlandi. Ekki má gleyma mínum heilögu stundum á laugardagsmorgnum þegar ég fæ sunnudagskrossgátu Morgunblaðsins, þær stundir er ég búin að eiga í fjölda ára. Í dag, 70 ára, er ég heilbrigð, í jafnvægi og mér líður vel. Ég gæti ekki fengið betri afmælisgjöf.“
Eiginmaður Sigríðar er Bárður Guðmundsson, f. 27.10. 1950, fv. byggingar- og skipulagsfulltrúi Árborgar, en hann hætti störfum 1.4. sl. eftir 35 ára starf. Foreldrar hans voru hjónin Guðmundur Bárðarson, f. 9.2. 2018, d. 27.6. 1977, vélstjóri og ökukennari, og Margrét Ingibjörg Bjarnadóttir, f. 8.8. 1915, d. 3.3. 1963, vefnaðarkennari.
Börn Sigríðar og Bárðar eru:
1) Guðmundur, f. 29.11. 1969, d. 31.10. 2018;
2) Kristjana Hrund, f. 16.11. 1972, enskukennari við Fjölbrautaskóla Suðurlands. Eiginmaður: Guðjón Öfjörð Einarsson. Börn þeirra eru a) Jóhann Bragi, sambýliskona: Rakel Sunna Pétursdóttir; b) Anna Sigríður, sambýlismaður: Marinó Marinósson; c) Bárður Ingi og d) Jenný Arna;
3) Jens Hjörleifur, f. 20.8. 1979, dr. í eðlisfræði, prófessor við Konunglega tækniháskólann í Stokkhólmi. Sambýliskona: Maria-Theresa Rider;
4) Helgi, f. 20.12. 1982, verkfræðingur hjá Verkís. Eiginkona: Anní Gerða Jónsdóttir. Börn þeirra eru Jón Trausti, Ingibjörg Lilja og Sigrún Sara;
5) Hlynur, f. 20.12. 1982, dr. í líffræði og starfar hjá Hafrannsóknastofnun. Eiginkona: Helga Ýr Erlingsdóttir. Börn þeirra eru Kristín Edda, Margrét Una og Örn Kári.
Systkini Sigríðar eru Elísabet, f. 16.9. 1952, Hjörleifur Kristinn, f. 7.8. 1955 og Aðalheiður, f. 20.11. 1964.
Foreldrar Sigríðar: hjónin Kristjana Kristjánsdóttir, f. 11.12. 1929, d. 19.12. 2016, húsmóðir og verkakona í Hnífsdal, og Jens Guðmundur Hjörleifsson, f. 13.11. 1927, fyrrverandi fiskmatsmaður, nú búsettur á Selfossi.
![]() |
Morgunblaðið miðvikudagurinn 29. apríl 2020.
Skráð af Menningar-Bakki.
![]() |
Regína Thorarensen (1917 - 2006). |
Regína Thorarensen fæddist á Stuðlum í Reyðarfirði 29. apríl 1917. Foreldrar hennar: Emil Tómasson, bóndi og búfræðingur, og k.h., Hildur Þuríður Bóasdóttir, húsfreyja.
Emil var sonur Tómasar, bónda á Syðra-Krossanesi í Eyjafirði Jónssonar og Guðrúnar, móður Önnu, ömmu Valdimars Jóhannssonar bókaútgefanda. Guðrún var dóttir Guðmundar, dbrm. í Stóra-Dunhaga í Hörgárdal Halldórssonar, b. á Krossastöðum Jónssonar, bróður Jóns, afa Jóns Magnússonar forsætisráðherra. Systir Halldórs var Guðrún, langamma Stefáns Jóhanns Stefánssonar forsætisráðherra.
Hildur var dóttir Bóasar Bóassonar, bónda á Stuðlum, bróður Bóelar, langömmu Geirs Hallgrímssonar forsætisráðherra. Móðir Bóasar var Guðrún, systir Páls á Sléttu, afa Páls, afa Kjartans Gunnarssonar, fyrrv. framkvæmdastjóra Sjálfstæðisflokksins, og Harðar Einarssonar framkvæmdastjóra.
Eiginmaður Regínu var Karl Ferdinand Thorarensen járnsmíðameistari sem lést 1996. Foreldrar hans voru hjónin Jóhanna Sigrún Guðmundsdóttir húsfreyja og Jakob Jens Jakobsson Thorarensen, bóndi, vitavörður, hákarlaformaður, símstöðvarstjóri, bréfhirðingamaður og úrsmiður.
Börn Regínu og Karls: Hilmar Friðrik, Guðbjörg Karólína, Guðrún Emilía og Emil.
Regína og Karl bjuggu í Skerjafirði 1939-42, í Djúpuvík á Ströndum 1942-47, á Gjögri 1947-62, á Eskifirði 1962-81 og á Selfossi 1981-96. Síðan bjó Regína í Hulduhlíð, dvalarheimili aldraðra á Eskifirði.
Regína var fréttaritari Morgunblaðsins 1954-63 og Dagblaðsins frá stofnun þess og síðar DV á Eskifirði, Gjögri og Selfossi. Hún var í hópi þekktari fréttaritara, beinskeyttur og skemmtilegur penni, áhugasöm um almannaheill og félagsmál og lét mikið til sín taka á mannfundum og með skrifum í dagblöð.
Regína lést 22. apríl 2006.
Skráð af Menningar-Bakki.
![]() |
Skúli Halldórsson (1914 - 2004). |
Skúli fæddist á Flateyri við Önundarfjörð 24. apríl 1914. Foreldrar hans voru Halldór G. Skúlason, læknir í Reykjavík, og Unnur Skúladóttir Thoroddsen húsmóðir.
Móðir Halldórs var Margrét Eggertsdóttir, bónda á Fossi í Vesturhópi, bróður Helgu, langömmuBjörgvins Schram, forseta KSÍ, föður Ellerts B. Schram, fyrrv. forseta ÍSÍ og fyrrv. ritstjóra og alþingismanns.
Unnur var systir Guðmundar læknaprófessors, Katrínar, alþm. og yfirlæknis, Kristínar, yfirhjúkrunarkonu og skólastjóra, Bolla borgarverkfræðings og Sigurðar verkfræðings, föður Dags skálds og afa Katrínar Jakobsdóttur menntamálaráðherra.
Unnur var dóttir Skúla Thoroddsen alþm. og Theodóru Thoroddsen skáldkonu. Bróðir Skúla var Þórður, faðir Emils Thoroddsen tónskálds.
Eiginkona Skúla var Steinunn Guðný Magnúsdóttir sem lést 1997, en börn þeirra eru Magnús arkitekt og Unnur fiskifræðingur.
Skúli lauk prófi frá VÍ, prófi í kontrapunkti, tónsmíðum og útsetningu frá Tónlistarskólanum í Reykjavík 1947 og prófi í píanóleik frá sama skóla 1948.
Skúli var skrifstofumaður hjá SVR 1934-44 og skrifstofustjóri þar til 1985. Hann kenndi píanóleik 1948-52, var undirleikari hjá fjölda óperusöngvara og leikara.
Skúli er í hópi þekktustu íslenskra tónskálda síðustu aldar. Hann samdi á annað hundrað sönglög, svo sem Smaladrenginn og Smalastúlkuna, um tuttugu hljómsveitarverk og kammerverk og um tíu píanóverk. Þá komu út eftir hann tólf sönglög við ljóð Jóns Thoroddsen og tíu sönglög við ljóð Theodóru Thoroddsen.
Hann fékk verðlaun frá Ríkisútvarpinu fyrir lagaflokk sinn við ástarljóð Jónasar Hallgrímssonar.
Skúli var í stjórn Tónlistarfélagsins og STEF í tæp 40 ár, var formaður STEF í 20 ár og sat í stjórn BÍL í áratug.
Skúli lést 23. júlí 2004.
![]() |
Skúli Halldórsson og Vigdís Finnbogadótir í
80 ára afmælisfagnaði Skúla sem Önfirðingafélagið
hélt honum til heiðurs í Gamlabíói í Reykjavík 1994.
Skráð af Menningar-Bakki.
![]() |
Fróði ÁR 33
BIBarinn grúskar í myndasafninu - árið er 2005
![]() |
||
, ,
|
Skráð af Menningar-Bakki.
![]() |
|
Hásteinn ÁR 8
BIBarinn grúskar í myndasafninu - árið er 2005
Skráð af Menningar-Bakki.
![]() |
Jón á Hofi ÁR 62
BIBarinn grúskar í myndasafninu - árið er 2005.
Skráð af Menningar-Bakki.
![]() |
Listin gengur oft í ættir og svo læra líka börnin það sem fyrir þeim er haft. Þó húsfreyjan Unnur Thoroddsen starfaði ekki í listinni þá spilaði hún mikið á píanó. Þegar auð stund gafst settist hún við klaverið og á sömu stund skondraðist Skúli sonur hennar við fætur mömmu og lagði eyrað við hljóðfærið. Hér erum við sannarlega að tala um músíkeyra. Það hafði okkar vestfirski listamaður en hann heitir Skúli Halldórsson.
Á unga aldri var hann búinn að ákveða að hann ætlaði að verða píanóleikari og varð gott betur en það því hann varð einnig tónskáld. Fæddur og uppalinn á Flateyri og til að styrkja ættarlistakenninguna skal þess strax getið að langafi hans var skáldið Jón Thoroddsen og amma Skúla er þuludrottningin Theó- dóra Thoroddsen. Ekki má svo gleyma Muggi frænda. Seinna átti Skúli eftir að semja músík við verk þessarar einstöku lista- þrenningar.
Engum sögum fer hinsvegar af listagáfum föðursins Halldórs Georgs Stefánssonar er starfaði sem læknir á Flateyri. Hinsvegar fara alltof margar vínsögur af doktornum enda fór það svo að hann var settur úr embætti. Fjölskyldan tók sig upp og flutti á Ísafjörð hvar húsbóndinn fékkst við læknisstörf.
Á Ísafirði var meðal kennara Skúla alþýðulistamaðurinn Jón Hróbjartsson. Hann var eins og allir listamenn í mörgum störfum, var með meiru stjórnandi barnakórs og undirleikari um leið. Þá var nú gott að hafa lítið músíkséní í hópnum eins og hann Skúla sem ósjaldan var settur við orgelið meðan stjórnandinn reyndi að leiða krakkaskarann á réttu tónana.
Fjölskyldan fluttist loks til Reykjavíkur og var Skúli þá ósjaldan hjá Theódóru ömmu í Vonarstræti 12 enda var þar jafnan fjölmenni og mikill erill jafnvel bara eins og á fjörugustu listamannaknæpu. Skúli settist á skólabekk í Ingimarsskóla hvar Þórbergur Þórðarson var meðal kennara hans og þaðan lá leiðin í Verslunarskóla Íslands. Það var einmitt á Verslunarskólaskemmtun í Iðnó 1932 sem Skúli kom fyrst fram opinberlega sem píanóleikari. Hann var þegar byrjaður að semja músík á þessum árum m.a. Jójó-valsinn og voru nóturnar gefnar út sérstaklega og seldust vel. Sumir vilja meina að þar hafi skipt mestu að það var mynd af hinu unga tónskáldi á forsíðunni. Þetta var aðeins upphafið og síðan fylgdu fjölmargar útgáfur laga hans á prenti.
Árið 1941 kom út sönglagahefti Skúla hvar öll lögin voru við ljóð langafa, Jóns Thoroddsens, þar á meðal Smaladrengurinn eitt hans vinsælasta lag. Áform Skúla um að leggja músíkina fyrir sig höfðu hinsvegar ekkert breyst en það er jú alltaf gott að hafa eitthvað með listinni. Þannig var það hjá Skúla sem starfaði lengst af á kontórnum hjá Strætisvögnum Reykjavíkur. Leiðin lá loks í Tónlistarskóla Reykjavíkur hvar hann stúderaði bæði píanóleik og tónsmíðar. Skúli var gífurlega afkastamikið tónskáld ekki síst þar sem hann stundaði aðra vinnu með listinni. Samdi hann vel á annað hundrað tónverka bæði hljómsveitar- og kammerverk sem og fjöldamörg sönglög. Mörg verkanna hafa komið út í nótnaheftum, hljómplötum og geisladiskum.
Eins og áður var getið var hann iðinn við að semja músík við verk eigin ættar. Hann leitaði þó einnig fanga útfyrir ættina og samdi m.a. músík við ljóð Vilhjálms frá Skáholti en þeir voru jafnframt góðir mátar, Einars Benediktssonar, Jóhannesar úr Kötlum og hins vestfirska Steins Steinarrs. Skúli var einnig undirleikari hjá mörgum stórsöngvaranum mætti þar nefna Kristinn Hallsson og Sigurð Ólafsson.
Hann var og mjög virkur í félagsstarfi músíkskálda hér á landi árið 1950 settist hann í stjórn bæði Tónskáldafélags Íslands og hins umdeilda STEFS. Stórmúsík skáldið Jón Leifs barðist eins og riddari fyrir hönd sinna kollega og var Skúli hans bandamaður. Enda tók hann við stjórnartaumunum þar á bæ eftir að Jón hélt á önnur svið. Alls starfaði hann í um fjóra ártugi í stjórnum þessara félaga auk þess átti hann sæti í stjórn Bandalagi íslenskra listamanna í áratug.
Þekktasta lag Skúla er án efa valsinn Augun þín sem hann samdi til lífsförunautar síns Steinunnar Guðnýjar Magnúsdóttur. Ástæðan er sú að 16 árum eftir að hann samdi valsinn sló franska lagið Dómínó í gegn um heim allan og þótti Skúla lagið mjög keimlíkt sínu. Hann leitaði til STEFS með málið sem hafði svo aftur samband við samskonar félag þeirra Frakka. Utanaðkomandi aðilar tóku málið fyrir og komust að þeirri niðurstöðu að bæði verkin væru sjálfstæð og því hefði hinn franski ekki nappað laginu frá kollega sínum á Íslandi.
Málið vakti svo mikla athygli hér á landi að úr varð sérstök gamanvísa við hið franska lag, Dómínó, er Brynjólfur Jóhannesson, leikari, flutti með bravúr og söng þá m.a.:
Domino, Domino,
finnst mér afi þinn íslenskur vera.
Um þig stendur styr,
sextán árum fyr
Skúli samdi þig og þó
Þykistu vera frönsk, Dominó?
Rétt er að benda áhugasömum lesendum á hina hressilegu og mjög svo opinskáu ævisögu Skúla, Lífsins dóminio, 1992, sem er einmitt aðalheimild þessa greinakorns.
Elfar Logi Hannesson
BB fréttablað á Vestfjörðum
![]() |
Skráð af Menningar-Bakki |
![]() |
Morgunstund í Shellskálanum
á Stokkseyri fyrir um 15 árum
BIBarinn grúskar í myndasafninu.
![]() |
||
. .
|
![]() |
Jón Ísberg (1924 - 2009). |
Merkir Íslendingar - Jón Ísberg
Jón Ísberg, sýslumaður Húnvetninga, var fæddur á Möðrufelli í Eyjafirði 24. apríl 1924, sonur Árnínu Hólmfríðar Ísberg húsmóður og Guðbrands Ísberg sýslumanns.
Hann lauk stúdentsprófi frá Menntaskólanum á Akureyri árið 1946 og embættisprófi í lögfræði frá Háskóla Íslands 1950. Hann varð fulltrúi sýslumanns Húnavatnssýslu á Blönduósi 1951 og var sýslumaður Húnvetninga árin 1960 til 1994
Jón sat meðal annars í hreppsnefnd áratugum saman og var oddviti í níu ár. Einnig sat hann í byggingarnefndum vegna heilbrigðisstofnana, félagsheimilis, skóla og bókasafns.
Á háskólaárum sínum sat Jón í stjórn Vöku og var formaður Orators, félags laganema, og síðar formaður Sýslumannafélags Íslands. Jón var enn fremur formaður Skógræktarfélags Austur-Húnvetninga, Lionsklúbbs Blönduóss og Veiðifélags Laxár á Ásum, skátaforingi og safnaðarfulltrúi.
Jón var varaþingmaður Norðurlands vestra apríl 1967 (Sjálfstæðisflokkur).
Börn Jóns og konu hans, Þórhildar Guðjónsdóttur héraðsskjalavarðar, eru sex:
Arngrímur héraðsdómari,
Eggert Þór framkvæmdastjóri,
Guðbrandur Magnús prentari,
Guðjón hagfræðingur,
Jón Ólafur sagnfræðingur
og Nína Ósk mannfræðingur.
Jón Ísberg lét þann 24. júní 2009.
Skráð af Menningar-Bakki.
© 2021 123.is | Nýskrá 123.is síðu | Stjórnkerfi 123.is