Menningar-Bakki * Viðhalda og efla þjóðlega menningararfleið til sjávar og sveita*
-------- Alþýðuhúsið á Eyrarbakka - Vinir alþýðunnar - Á undan sinni framtíð --- "Stærra í hugum okkar en við sjálfir gerum okkur grein fyrir" ---

06.12.2020 08:23

Gróa Björnsdóttir - fædd 27. des. 1926 - dáin 10. nóv. 2020 - Minning

 

 
Gróa Guðmunda Björnsdóttir (1926 - 2020)
 
 

 

Gróa Björnsdóttir - Fædd 27. desember 1926

 

- Dáin 10. nóvembver 2020 - Minning

 

 

Gróa Guðmunda Björnsdóttir, fiskverkandi og húsmóðir, fæddist í Neðrihúsum í Hestþorpi, Önundarfirði, 27. desember 1926. Hún lést 10. nóvember 2020 á hjúkrunarheimilinu Sólvöllum á Eyrarbaka úr Covid-19.
 

Foreldrar Gróu: Guðmundína Jónsdóttir, f. 10. október 1893, d. 1. júní 1982, og Guðbjartur Björn Hjálmarsson, f. 31. júlí 1900, d. 21. ágúst 1974.

 

Systkin sammæðra Gróu: Stúlka, f. 29. júlí 1913, d. 23. september 1913, Jón Vilhjálmur á Hólmavík, f. 6. júlí 1915, d. 4. maí 1983, og Guðmunda Kristjana Petrína á Ísafirði, f. 1. janúar 1917, d. 22. nóvember 1985, öll Sigurðarbörn.

 

Samfeðra Gróu: Guðbjörg Jóhanna á Ísafirði, f. 19. október 1956, og Hjálmar Steinþór á Ísafirði, f. 14. október 1959, d. 22. júní 2003.

 

Afi og amma í móðurætt: Gróa Jóhannesdóttir, f. 20. ágúst 1859, d. 19. desember 1947, og Jón Guðmundsson, f. 4. desember 1836, d. 26. júní 1917.

 

Afi og amma í föðurætt: Guðbjörg Björnsdóttir, f. 13. maí 1869, d. 3. nóvember 1950, og Hjálmar Guðmundsson, f. 18. maí 1866, d. 26. maí 1931. 

 

Eiginmaður Gróu var Haraldur Jónsson frá Görðum í Önundarfirði, skipstjóri og fiskverkandi, f. 30. september 1924, d. 20. október 1988.

 

Börn Gróu og Haraldar:

 

1) Guðmundur Björn,

f. 25. desember 1953, d. 28. maí 1995. Sambýliskona Gróa Kristín Helgadóttir, f. 2. janúar 1952.

 

2) Guðbjörg Kristín,

f. 3. júlí 1955, d. 2. ágúst 2020. Eiginmaður Hjálmar Sigurðsson, f. 3. maí 1945. Börn: 1. Sigurður Jóhann, f. 7. júlí 1979, unnusta Tiffany Gedalanga, f. 2. apríl 1978. Dóttir: Ísabella Líf, f. 1. október 2019. 2. Haraldur, f. 28. nóvember 1980. 3. Ragnheiður Karítas, f. 8. maí 1987, unnusti Hilmar Guðlaugsson, f. 28. júlí 1980.

 

3) Jóna Guðrún,

f. 22. nóvember 1956. Eiginmaður Björn Ingi Bjarnason, f. 7. júlí 1953. Börn: 1. Júlía Bjarney, f. 29. mars 1979. Eiginmaður Þórir Ingvarsson, f. 6. febrúar 1982. 2. Inga Rún, f. 19. september 1980. Eiginmaður Bragi Ólafsson, f. 12. febrúar 1981. Börn: Ólafur, f. 12. janúar 2009, Björn Ingi, f. 25. september 2011, Lilja, f. 18. desember 2013. 3. Víðir, f. 6. júní 1988. Sambýliskona Embla Rún Gunnarsdóttir, f. 31. maí 1993.

 

4) Gunnhildur Halla,

f. 29. mars 1958, d. 19. ágúst 2011. Dóttir: Kristrún Una Thoroddsen, f. 22. janúar 1987. Faðir Guðmundur Kristinn Thoroddsen, f. 26. nóvember 1962. Eiginmaður Kristján Hafliðason, f. 16. nóvember 1984. Börn: Tristan Berg Arason, f. 6. desember 2008, Alexander, f. 3. júní 2012, Gunnhildur Björk, f. 5. október 2015.

 

5) Gróa Guðmunda,

f. 25. ágúst 1961. Eiginmaður Pétur Björnsson, f. 13. nóvember 1964. Börn: 1. Georg Rúnar Ragnarsson, f. 2. febrúar 1982. Eiginkona Kamma Dögg Gísladóttir, f. 26. mars 1986. Börn: Hrafntinna, f. 31. desember 2013, Eva Móey, f. 16. september 2019. 2. Sif Magnúsdóttir, f. 30. ágúst 1986, d. 25 ágúst 2004. 3. Helgi Magnússon, f. 30. ágúst 1986. 4. Margrét Alda Magnúsdóttir, f. 5. mars 1990. Sambýlismaður Andri Þór Árnason, f. 8. maí 1980. Dóttir hans Bríet Eva, f. 14. mars 2011. 5. Bergljót Ásta Pétursdóttir, f. 27. september 2001. Sambýliskona Hugrún Pálsdóttir, f. 20. maí 1997.

 

6) Hinrik Rúnar,

f. 19. ágúst 1966, d. 9. apríl 2016. Eiginkona Elínbjörg Katrín Þorvarðardóttir, f. 19. september 1970. Börn: 1. Gróa, f. 17. ágúst 2002. 2. Elín, f. 17. mars 2008. 3. Þorvarður, f. 6. febrúar 2009.


Útför Gróu fór fram í kyrrþey að hennar ósk í Víðistaðakirkju í Hafnarfirði 17. nóvember 2020 og var jarðsett í Flateyrarkirkjugarði 19. nóvember 2020.

 

________________________________________________________________


 

Gróa ólst upp á Mosvöllum í Önundarfirði hjá ömmu sinni og afa, Guðbjörgu og Hjálmari. Hún var í barnaskóla í sveit Önundarfjarðar eins og háttur var þess tíma. Búið á öllum bæjum og mörg börn í sveitinni. Samgangur mikill og mynduðust sterk vináttubönd sem héldu ævilangt.
 


Gróa fór veturinn 1944-45 í Héraðsskólann á Laugarvatni. Fleiri úr Önundarfirði fóru að Laugarvatni þann vetur og rifjaði hún oft upp þessa tíma og ræktaði vel vináttutengslin við skólafélagana. Þá fór Gróa í Húsmæðraskólann á Laugalandi í Eyjafirði veturinn 1948-49 og var sá vetur einnig mjög kær henni í minningunni. Þar lærði hún vel til verka en auk þess bjó hún að því sem amma hennar hafði kennt henni auk þeirrar næmni sem henni var gefin í vöggugjöf.

 

Gróa og Haraldur bjuggu allan sinn búskap á Grundarstíg 1 á Flateyri ásamt því að búa á Görðum öll sumur í tvo áratugi. Þar voru þau með útgerðaraðstöðu og fiskvinnslu. Veiddu og verkuðu grásleppu og rauðmaga, harðfisk og hákarl. Allt unnið af miklum myndarskap.

 

Gróa var húsmóðir á stóru heimili þar sem mjög gestkvæmt var, bæði á Grundarstígnum og Görðum, enda fátt skemmtilegra í þeirra tilveru en að taka á móti gestum af þjóðlegri reisn.

 

Gróa var virk í félagsstörfum. Hún var gjaldkeri slysavarnadeildarinnar Sæljóss á Flateyri um árabil og öll árin í stjórn með sínum góðu vinkonum Júlíönu Jónsdóttur og Kristínu Guðmundsdóttur.

 

Gróa var gullfalleg kona, bros- og hláturmild. Hún átti gott með að sjá broslegu hliðarnar á lífinu og var ánægjulegt og kærleiksríkt að verða henni samferða í gegnum lífið. Hún bjó yfir þeirri gjöf að geta hlustað af skilningi og dýpt, dómharka var víðs fjarri hennar huga.


Hún bjó á Flateyri til 1. september 2013 að hún flutti í íbúð eldriborgara á Hlíf I á Ísafirði. Gróa flutti á hjúkrunarheimilið Sólvelli á Eyrarbakka 29. júlí 2020. 

 

Gróa kunni ógrynni ljóða og þau Guðmundur Ingi Kristjánsson skáld á Kirkjubóli náðu vel saman í andanum. Orti hann mörg ljóð til vinkonu sinnar og vaknaði eitt þeirra vordag í kaffispjalli á Mosvöllum er Guðbjörg fóstursystir hennar leit upp í hlíðina og sagði: Þegar hlíðin fer að gróa, Gróa.
 


Gróa var jarðsett í Flateyrarkirkjugarði 19. nóvember 2020. Þann dag voru nákvæmlega 70 ár frá því að Guðmundur Ingi færði Gróu ljóðið, sem hljóðar svo:

 

Þegar hlíðin fer að gróa, Gróa,

gróa lífsins blóm.

Æskan finnur út um holt og móa

enn sinn helgidóm.

Gleymmérei er blá í lautarbarði,

brönugrös um hól.

Varablóm í hlýjum húsagarði

hlær við morgunsól.

 

Sjáðu, hvernig hlíðarlindin létta

leikur tær og hrein

meðan grænir burknar byrja að spretta

bak við urðarstein.

Undan vetri lambagrasið lifir

ljóst við holtið autt.

Blóðberg sérðu breiðast grjótið yfir

brúnt og hjartarautt.

 

Sjáðu, hvernig holtasóley breiðir

hvítu blöðin út

meðan döggvot dúnurt hugann seiðir

dul og niðurlút.

Sjáðu, hvernig fjólan ung og feimin

fer í bláan kjól

meðan ein á bungu, björt og dreymin

brosir melasól.

 

Sjáðu, hvernig dropi á mosadýi

dýra speglar mynd.

Það er eins og ævintýri stígi

upp úr hverri lind.

Vorið opnar út um holt og móa

enn sinn leyndardóm.

Þegar hlíðin fer að gróa, Gróa,

gróa lífsins blóm.

 

 
 

 

 
 
 


Hvíl í friði elsku mamma og tengdamamma.

 


Jóna Guðrún Haraldsdóttir
Björn Ingi Bjarnason

Skráð af Menningar-Bakki.

 

05.12.2020 08:38

Merkir Íslendingar - Rögnvaldur Ólafsson

 


Rögnvaldur Ólafsson (1874 - 1917).
 

 

 

Merkir Íslendingar – Rögnvaldur Ólafsson

 

 

Rögnvaldur Ólafsson arkitekt fæddist í Ytri-Húsum í Dýrafirði 5. desember 1874. Hann var sonur Ólafs Zakaríassonar, bónda þar, og Veróníku Jónsdóttur húsfreyju.

 

Rögnvaldur byrjaði nám nokkuð seint og lauk stúdentsprófi frá Menntaskólanum í Reykjavík árið 1900, 25 ára gamall. Hann fór til Kaupmannahafnar til að stunda nám í húsagerðarlist í Det Tekniske Selskabs Skole 1901-1904. Hann lauk ekki námi vegna veikinda og sneri heim með berkla sem hann háði baráttu við æ síðan og áttu eftir að draga hann til dauða aðeins 42 ára að aldri.

 

Rögnvaldur var ráðunautur ríkisstjórnarinnar um húsagerð frá 1904 og til æviloka 1917 og er almennt talinn fyrsti íslenski húsameistarinn. Hann beitti sér fyrir aukinni steinhúsagerð en var einnig annt um að gömlum og vel byggðum byggingum yrði ekki spillt með með illa ígrunduðum viðbótum eða þær rifnar niður að óþörfu.

 

Þrátt fyrir erfiðan sjúkdóm er Rögnvaldur án efa einn merkasti íslenski arkitektinn. Hann teiknaði mörg af glæsilegustu timburhúsunum sem reist voru í Reykjavík á fyrsta áratug aldarinnar, t.d. nokkur við Tjarnargötuna. Þar með er taldar breytingar á Ráðherrabústaðurinn sem fluttur var frá Sólbakka í Önundarfirði.

 

Þá teiknaði Rögnvaldur turninn á Bernhöftstorfunni við Amtmannsstíg 1 og Húsavíkurkirkju, sem er krosskirkja byggð úr norskum viði. Tvær aðrar kirkjur teiknaði hann sem eru í sama stíl og Húsavíkurkirkja, en minni. Önnur er í Hjarðarholti í Dölum og hin er á Breiðabólstað í Fljótshlíð.

 

Auk þess er Rögnvaldur höfundur að ýmsum svipmestu fyrstu steinhúsunum, s.s. Pósthúsinu í Pósthússtræti, Vífilsstaðaspítala og skólahúsum á Hvanneyri og á Hólum. Mörg húsa Rögnvalds eru snilldarleg, íslensk útfærsla á sveitserstíl og ný-klassík. En það sem einkum einkennir persónulegan stíl hans er afar næm tilfinning fyrir hlutföllum og vandaðar útfærslur.

 

Rögnvaldur lést 14. febrúar 1917 á berklahælinu Vífilsstöðum sem hann hafði sjálfur teiknað.


 

,

,

Ráðherrabústaðurinn við Tjarnargötu í Reykjavík.


Framhliðin er komin í stíl íslensks burstabæjar

en bakhliðin er enn í stíl norsks sveitaseturs.

,

 


Skráð af Menningar-Bakki.

05.12.2020 08:27

Merkir Íslendingar - Björn Halldórsson

 

 


Sauðlauksdalur við Patreksfjörð. Ljósm.: Mats Wibe Lund.

 

 

Merkir Íslendingar - Björn Halldórsson

 

 

Björn Halldórsson fæddist 5. desember 1724, sonur Sigríðar Jónsdóttur og Halldórs Einarssonar, prests á Stað í Steingrímsfirði.

 

Eftir dauða föður síns var hann 14 ára sendur í vist í Skálholtsskóla hjá Jóni Árnasyni biskupi. Hann var góður nemandi og vel að sér í klassískum fræðum.

 

Árið 1756 varð hann prófastur í Sauðlauksdal. Hann kvæntist Rannveigu Ólafsdóttur og þau bjuggu í Sauðlauksdal í 30 ár. Björn var frumkvöðull í jarðyrkju á Íslandi. Hann byggði stóran garð og skyldaði sóknarmenn í þegnskylduvinnu í garðinum, sem þeir á móti nefndu garðinn Ranglát. Björn ræktaði jurtir, kál, næpur og kartöflur.

 

Eftir Björn liggjur fjöldi rita á dönsku í anda upplýsingastefnunnar. Hann gaf m.a. út skýrslu um jarðyrkjuna í Sauðlauksdal. Frægust er bókin Atli (1780) þar sem ungi bóndinn Atli á samræðu við reyndan bónda sem miðlar þekkingu sinni og er eins og leiðarvísir um góða búskaparhætti. Að skipun konungs var bókinni dreift endurgjaldslaust til íslenskra bænda og hún þótti hin besta skemmtun. Stærsta ritverkið er þó Lexicon Islandico-LatinoDanicum, íslensk orðabók með latneskum þýðingum, sem hann vann að í 15 ár. Hún kom út 1814 með viðbótum annarra fræðimanna.

 

Eftir 30 ár í Sauðlauksdal var heilsu Björns tekið að hraka og hjónin fluttust í Setberg í Eyrarsveit þar sem hann lést 24. ágúst 1794, þá 69 ára gamall.
 Morgunblaðið laugardagurinn 5. desember 2020.
 Skráð af menningar-Bakki.

04.12.2020 06:40

Merkir Íslendingar - Hannes Hafstein

 

 

Hannes Hafstein (1861 - 1922).

 

 

Merkir Íslendingar – Hannes Hafstein

 

 

Hannes Þórður Hafstein, skáld og fyrsti íslenski ráðherrann, fæddist á Möðruvöllum í Hörgárdal 4. desember 1861.

 

Hann var sonur J. Péturs Havsteen, amtmanns á Möðruvöllum, og þ.k.h., Kristjönu Gunnarsdóttur. Bróðir Kristjönu var Tryggvi Gunnarsson bankastjóri en móðir þeirra var Jóhanna, dóttir Gunnlaugs, ættföður Briem-ættarinnar. Hannes var því af Briem-ætt eins og forsætisráðherrarnir Jóhann Hafstein, Gunnar Thoroddsen og Davíð Oddsson.

 

Hannes bjó í ástríku hjónabandi með Ragnheiði Melsteð en þau þóttu óvenju glæsileg hjón og eignuðust fjölda barna.

Þau voru:
 Sigurður (1891), Kristjana (1892), Ástríður (1893), Þórunn (1895), Sigríður (1896), Sofía Lára (1899), Elín Jóhanna Guðrún (1900), Ragnheiður (1903), Kristjana (1911), Sigurður Tryggvi (1913). Margir afkomenda Hannesar og Ragnheiðar hafa orðið þjóðkunnir.

 

Hannes var í heimaskóla hjá Eggerti Briem, ömmubróður sínum á Reynistað, og innritaðist tólf ára í Lærða skólann. Hann byrjaði ungur að yrkja og þótti snemma efnilegt skáld, lauk stúdentsprófi 1880 og lögfræðiprófi frá Hafnarháskóla 1886.

 

Fyrstu árin í Kaupmannahöfn drakk Hannes í sig bókmenntir og stofnaði tímaritið Verðandi, ásamt Bertel E.Ó. Þorleifssyni, Gesti Pálssyni og Einari Kvaran og varð persónulegur vinur Georgs Brandes.

 

 Hann varð sýslumaður Dalasýslu 1887, málflutningsmaður við Landsyfirréttinn og landshöfðingjaritari 1889, og sýslumaður Ísafjarðarsýslu 1895. Hann var kjörinn á þing fyrir Ísfirðinga 1900 og síðan fyrir Eyfirðinga.

 

Hannesi var falið að undirbúa heimastjórn á Íslandi og skipaður fyrsti ráðherrann þar 1. febrúar 1904 við upphaf heimastjórnar. Hann missti meirihluta á þingi við sambandslagakosningarnar frægu 1908 og vék eftir samþykkta vantrauststillögu í ársbyrjun 1909. Hann varð aftur ráðherra 1912-1914, og var bankastjóri Íslandsbanka.

 

Hannes Hafstein lést 13. desember 1922.

 

 

 

 Skráð af Menningar-Bakki.

29.11.2020 10:11

Jóladagskrá Byggðasafns Árnesinga 2020

 

 

 

 

Jóladagskrá Byggðasafns Árnesinga 2020

 

 

Bókaupplestur, jólaævintýri, gráglettin jól, jólalög og jólasýning Hússins

 

Það verður nóg um að vera á aðventunni hjá Byggðasafni Árnesinga. Í Húsinu verða skáld, jólaævintýri, ljúfir jólatónar og gömlu jólin. Öllum viðburðum verður streymt á Facebooksíðu Byggðasafns Árnesinga og hér á heimasíðu safnsins.

 

Sunnudaginn 29. nóvember, klukkan 16:00. Skáldastund í streymi. Rithöfundar lesa úr nýútkomnum verkum sínum í Húsinu á Eyrarbakka. Vilborg Davíðsdóttir les úr skálsögu sinni Undir Yggdrasil, Pjetur Hafstein Lárusson segir frá ljóðabók sinni Undir mánans fölu sigð og fer með nokkur ljóð, Guðjón Friðriksson les úr riti sínu Samvinna á Suðurlandi I-IV, Eyrún Ingadóttir les úr skáldsögu sinni Konan sem elskaði fossinn, Guðmundur Brynjólfsson les úr verki sínu um Eyjólf sýslumann Síðasta barnið og Guðrún Guðlaugsdóttir les upp úr glæpasögu sinni Hús harmleikja en sögusviðið er Eyrarbakki.

 

Þriðjudaginn 1. desember, klukkan 10:00. Ævintýrið um Augastein. Leikarinn og rithöfundurinn Felix Bergsson rifjar upp jólasögu sína „Ævintýrið um Augastein“. Viðburðinum verður streymt og eru nemendur í leik-og grunnskólum hvattir til að fylgjast með.

 

Alla aðventuna birtir safnið einn upplestur á dag á heimasíðu safnsins en jólasagan er í formi jóladagatals sem gaman er að sameinast um að fylgjast með á aðventunni. 

 

Sunnudaginn 6. desember, klukkan 14:00. Gömul og gráglettin jól. Eva María Jónsdóttir stjórnar fjölskyldustund fyrir unga og aldna í Húsinu þar sem í forgrunni verða hin gráglettnu jól og þræðir úr jólum fortíðar.

 

Sunnudaginn 20. desember klukkan 14:00. Sönghópurinn Lóurnar kemur og syngur undurfögur jólalög.

 

Jólasýning Byggðasafns Árnesinga verður opin frá 14:00 – 17.00 þann 29. nóv. og helgarnar 5.-6. des. og 12.-13. des. Aðgangur ókeypis. Í safnbúð verða kærleikskúla og jólaórói Styrktarfélags lamaðra og fatlaðra til sölu og rennur allur ágóði sölunnar til starfs í þágu fatlaðra barna og ungmenna.  

 

Uppbyggingarsjóður Suðurlands styrkir jóladagskrá Byggðasafns Árnesinga.

 Skráð af Menningar-Bakki.

29.11.2020 08:17

Merkir Íslendingar - Bjarni Guðbjörnsson

 


Bjarni Guðbjörnsson (1912 - 1999)

 

 

Merkir Íslendingar - Bjarni Guðbjörnsson

 

 

Bjarni Guðbjörns­son banka­stjóri fædd­ist í Reykja­vík 29. nóvember 1912.

For­eldr­ar hans voru Guðbjörn Guðbrands­son bók­bands­meist­ari og Jens­ína Jens­dótt­ir.

 

Bjarni kvænt­ist Gunnþór­unni Björns­dótt­ur árið 1941 og þau áttu börn­in Björn Ragn­ar, Þór­dísi og Gunn­ar Þór.

 

Bjarni lauk gagn­fræðaprófi árið 1930 og vann ýmis störf næsta ára­tug­inn. Hann lauk kenn­ara­prófi frá KÍ 1941 og sama ár hóf hann störf hjá Útvegs­bank­an­um í Reykja­vík.

 

Eft­ir starfs­nám í Pri­vat­ban­ken í Kaup­manna­höfn og Skandi­naviska Ban­ken í Stokk­hólmi tók Bjarni við úti­bús­stjóra­stöðu Útvegs­bank­ans á Ísaf­irði 1950. Bjarni var far­sæll úti­bús­stjóri næstu 23 árin, á tíma sem eft­ir­spurn eft­ir láns­fé var miklu meiri en fram­boð og lán voru skömmtuð. Bjarni náði með mik­illi út­sjón­ar­semi að styrkja at­vinnu­líf Ísa­fjarðar á þess­um erfiðu tím­um.

 

Frá Ísaf­irði fór Bjarni suður 1974 og var eitt ár úti­bús­stjóri Útvegs­bank­ans í Kópa­vogi, en tók þá við sem banka­stjóri Útvegs­bank­ans og gegndi því embætti til starfs­loka 1983. Bjarni var virk­ur í fé­lags­mál­um, sat m.a. í bæj­ar­stjórn Ísa­fjarðar í 22 ár og þar í for­sæti í fjög­ur ár, í stjórn fisk­veiðasjóðs og iðnþró­un­ar­sjóðs og var norsk­ur vararæðismaður á Ísaf­irði í 22 ár.

 

Bjarni var alþing­ismaður Vest­f­irðinga fyr­ir Fram­sókn­ar­flokk­inn 1967-1974.

 

Bjarni lést 29. janú­ar 1999.

 


Morgunblaðið laugardaginn 28. nóvember 2020.

 Skráð af Menningar-Bakki.

28.11.2020 15:36

Úr myndasafninu

 

 

 

 

   -Úr myndasafninu-
BIBarinn grúskar í myndasafninu. Hrútavinafélagið Örvar heiðrar

 

á Bryggjuhátíðinni á Stokkseyri sumarið 2006.

 Skráð af Menningar-Bakki

25.11.2020 17:46

Foo Fighters hugsa hlýtt til Íslands á 25 ára afmælinu

 

 

Dave Grohl og hljómsveitin NilFisk. Ljósm.: Guðmundur Karl Sigurdórsson.

 

 

 

     Foo Fighters

 

 

 hugsa hlýtt til Íslands á 25 ára afmælinu

 

 

 

Bandaríska rokksveitin Foo Fighters fagnar 25 ára starfsafmæli í ár. Eins og gefur og skilja hafa hátíðarhöldin ekki alveg gengið upp hjá þeim enda ómögulegt að halda nokkurs konar afmælistónleika í ár eins og til stóð. Þess í stað hittust liðsmenn Foo Fighters á dögunum og rifjuðu upp fyrstu 25 árin og Ísland kom mikið við sögu.

 

Af yfirferð Foo Fighters að dæma er nokkuð ljóst að Ísland er þeim ofarlega í huga en hljómsveitin hefur spilað hér á landi þrisvar sinnum. Fyrsta heimsóknin er þeim sérstaklega minnistæð en hljómsveitin hélt tónleika í Laugardalshöll í ágúst 2003. 

 

Miðað við myndirnar sem þeir renna í gegnum virðist sem svo að Foo Fighters hafi komið til landsins í einkaþotu. Þegar til Íslands var komið nutu þeir þess að eiga frídag þar sem þeir fóru út að borða á Stokkseyri. Í myndbandinu tala þeir um daginn sem sinn uppáhalds frídag í sögu hljómsveitarinnar. Þeir fara í gegnum fjölmargar myndir sem eru teknar á Stokkseyri og nágrenni og ljóst að liðsmenn Foo Fighters og starfslið þeirra skemmtu sér konunglega.

 

Þegar þeir rifjuðu upp fyrstu tónleika sína hér á landi kom hljómsveitin Nilfisk einnig við sögu.

„Þetta er daginn eftir besta frídag allra tíma. Hræðilega þunnir eftir að hafa drukkið þennan skít, brennivín. Munið þið eftir upphitunarhljómsveitinni? Kvöldið áður vorum við allir í einhverju tjaldi að borða humar og alls konar og drekka brennivín. Við heyrðum í hljómsveit æfa sig í hlöðu hinum megin við götuna. Við fórum inn og fundum þrjá unglingsstráka, mig minnir að þeir hétu Nilfisk, að æfa sig og við spiluðum aðeins með þeim. Buðum þeim svo að hita upp fyrir okkur á tónleikunum næsta kvöld,” segir Dave Grohl, söngvari Foo Fighters
 

 


NilFisk í Laugardalshöllinni. Ljósm.: Júlía B. Björnsdóttir.
 Af: www.ruv.is


Skráð af Menningar-Bakki.

 

 

24.11.2020 06:58

Merkir Íslendingar - Þorvarður Kjerúlf Þorsteinsson

 


Þorvarður Kjerúlf Þorsteinsson (1917 - 1983).
 

 

 

Merkir Íslendingar - Þorvarður Kjerúlf Þorsteinsson

 

 

Þor­varður Kjer­úlf Þor­steins­son fædd­ist á Eg­ils­stöðum 24. nóvember 1917.

For­eldr­ar hans voru Þor­steinn Jóns­son, kaup­fé­lags­stjóri Kaup­fé­lags Héraðsbúa í Her­mes á Reyðarf­irði, og Sig­ríður Þor­varðardótt­ir Kjer­úlf, hús­freyja í Her­mes.

Þor­steinn var son­ur Jóns Bergs­son­ar, bónda, kaup­manns, pósts- og sím­stöðvar­stjóra og loks kaup­fé­lags­stjóra á Eg­ils­stöðum, og k.h., Mar­grét­ar Pét­urs­dótt­ur hús­freyju.
 

Sig­ríður var dótt­ir Þor­varðar Andrés­son­ar Kjer­úlf, lækn­is og alþing­is­manns á Ormars­stöðum í Fell­um, og s.k.h., Guðríðar Ólafs­dótt­ur Hjaltested hús­freyju. Seinni maður henn­ar og stjúp­faðir Sig­ríðar var Magnús Blön­dal Jóns­son, prest­ur í Valla­nesi.

Þor­varður var bróðir Þor­geirs, lög­reglu­stjóra á Kefla­vík­ur­flug­velli, föður Her­dís­ar fyrr­ver­andi for­setafram­bjóðanda, og bróðir Jóns, föður Ei­ríks Jóns­son­ar fjöl­miðlamanns.
 

Börn hans og Önnu Einarsdóttur, fyrri eiginkonu hans, eru:

Einar - fv. umdæmisverkfræðingur Vegagerðarinnar á Austurlandi.

Sigríður - verslunamaður (rak og átti um árabil verslunina Pipar og salt á Klapparstíg).

Margrét - hjúkrunarfræðingur.

Guðbörg Anna - dýralæknir (Dýralæknastofa Dagfinns)

Þorsteinn - búnaðarráðunautur.

Með Ólafíu Þorvaldsdóttur, fv. sambýliskonu átti hann tvær dætur, þær eru

Dagbjört Þyri - hjúkrunarfræðingur og deildarstjóri

Þórunn - verslunarmaður

Með seinni eiginkonu sinni, Magdalenu Thoroddsen átti hann tvær dætur, þær eru:

Ólína Kjerúlf - þjóðfræðingur, fv. alþingismaður og skólameistari

Halldóra Jóhanna - prófastur í Suðurprófastdæmi.

Þá eignaðist hann ungur að aldri dótturina Dýrfinnu sem skrifuð er Jónsdóttir og búsett á Selfossi.

 

Þor­varður lauk stúd­ents­prófi frá MA 1938, embætt­is­prófi í lög­fræði frá HÍ 1944 og fékk hdl-rétt­indi 1950. Hann hóf störf í at­vinnu- og sam­göngu­málaráðuneyt­inu 1944, varð full­trúi þar 1946 og deild­ar­stjóri 1971 og starf­rækti lög­manns­stofu í Reykja­vík um skeið sam­hliða störf­um í ráðuneyt­inu.

Þor­varður var bæj­ar­fóg­eti og sýslumaður á Ísaf­irði 1973-83 er hann baðst lausn­ar af heilsu­fars­ástæðum.

Um Þor­varð seg­ir Ármann Snæv­arr í minn­ing­ar­grein: „Hann var að eðlis­fari og öllu geðslagi friðsam­ur maður, ró­lynd­ur og æðru­laus, þótt á móti blési, maður með ríka rétt­lætis­kennd, trygg­ur og góður fé­lagi, hrein­lynd­ur og hrein­skipt­inn.“


Þor­varður lést 31. ágúst 1983.
 Skráð af Menningar-Bakki.

21.11.2020 06:56

Dynjandi í Arnarfirði

 

 

 

 

             

          Dynjandi

     
                 í Arnarfirði

 

                      18. nóvember 2020


Skráð af Menningar-Bakki.