Menningar-Bakki * Viðhalda og efla þjóðlega menningararfleið til sjávar og sveita*
-------- Alþýðuhúsið á Eyrarbakka - Vinir alþýðunnar - Á undan sinni framtíð --- "Stærra í hugum okkar en við sjálfir gerum okkur grein fyrir" ---

21.11.2020 06:51

Merkir Íslendingar - Guttormur J. Guttormsson

 

                   (1878 - 1966)

 

 

Merkir Íslendingar - Guttormur J. Guttormsson

 

 

Guttormur J. Guttormsson fæddist 21. nóvember 1878 á Víðivöllum á Nýja-Íslandi við Winnipegvatn í Kanada.

Foreldrar hans, Jón Guttormsson og Pálína Ketilsdóttir, fluttu til Vesturheims þremur árum áður, þegar Öskjugos var nýhafið. Þau voru bæði úr Múlasýslu, Pálína frá Mjóanesi í Vallnahreppi í S-Múl. og Jón frá Arnheiðarstöðum í Valþjófsstaðarsókn í N-Múl. Bæði létust þau þegar Guttormur var á barnsaldri og hann þurfti að bjarga sér sjálfur. Hann fór víða og vann ýmis störf, en árið 1911 keypti hann jörð foreldra sína og bjó þar upp frá því.

 

Guttormur var bókhneigður og vel lesinn þrátt fyrir litla skólagöngu. Hann hneigðist snemma til ritstarfa og birtust kvæði hans fyrst í íslenskum vikublöðum í Kanada og fyrsta bók hans, Jón Austfirðingur, kom út í Kanada árið 1909. Viðfangsefni ljóða hans eru oft Ísland, en ekki síður erfiðleikar frumbyggjanna í Kanada, og vísaði hann þar oft í reynslu foreldranna og síðar sína eigin, sem bónda sem vann hörðum höndum allt sitt líf.

 

Kvæðasafn, heildarútgáfa ljóða Guttorms, kom út á Íslandi árið 1947. Hann er yfirleitt talinn eitt af bestu skáldum VesturÍslendinga á 20. öld, ásamt Stephan G. Stephanssyni og Káin, og eftir hann liggja bæði kvæði og leikrit.

 

Guttormur lést árið 1966.


Morgunblaðið laugardagurinn 21. nóvember 2020


 


Skráð af Menningar-Bakki.

16.11.2020 06:41

Merkir Íslendingar - Jónas Hallgrímsson

 

 
 

 

Jónas Hallgrímsson (1807 - 1845).

 

 

Merkir Íslendingar - Jónas Hallgrímsson

 

 

Í dag, 16. nóvember 2020, á degi ís­lenskr­ar tungu, eru 213 ár frá fæðingu Jónas­ar Hall­gríms­son­ar. Hann fædd­ist á Hrauni í Öxna­dal þann 16. nóvember 1807.

 

Jónas var son­ur Hall­gríms Þor­steins­son­ar, aðstoðarprests séra Jóns Þor­láks­son­ar, skálds á Bæg­isá, og Rann­veig­ar Jóns­dótt­ur af Hvassa­fell­sætt. Er Jón­as var átta ára drukknaði faðir hans.
 

Jón­as lauk stúd­ents­prófi frá Bessastaðaskóla 1829, sigldi til Kaup­manna­hafn­ar 1832, hóf laga­nám en söðlaði fljót­lega um, hóf nám í nátt­úru­fræði og lauk próf­um í nátt­úru­fræði (steina­fræði og jarðfræði) við Hafn­ar­há­skóla 1838.
 

Jón­as stofnaði árs­ritið Fjölni árið 1835, ásamt Brynj­ólfi Pét­urs­syni, Kon­ráð Gísla­syni og Tóm­asi Sæ­munds­syni. Mark­mið Fjöln­is var að blása í þjóðfrels­is­glóð hníp­inn­ar þjóðar, minna hana á sínu fornu frægð og upp­lýsa hana um það besta í skáld­skap og vís­ind­um álf­unn­ar. Ljóð Jónas­ar, Íslands far­sæld­ar frón, sem er grísk­ur fimmliðahátt­ur, birt­ist í fyrsta ár­gangi Fjöln­is sem nokk­urs kon­ar stefnu­skrá hans.
 

Jón­as var, ásamt Bjarna Thor­ar­en­sen, boðberi nýrr­ar gull­ald­ar í ís­lenskri ljóðagerð, varð helsta skáld ís­lenskra stúd­enta í Höfn, hef­ur sl. 150 ár verið tal­inn ást­sæl­asta skáld þjóðar­inn­ar og jafn­framt eitt fremsta skáld Evr­ópu á sinni tíð.
 

Jónas­ar smíðaði fjölda nýyrða, m.a. aðdrátt­ar­afl, fjaður­magnaður, hita­belti, ljósvaki, sjón­ar­horn, sól­myrkvi, spor­baug­ur og vetr­ar­braut. Hann fékk rík­is­styrk til rann­sókna á nátt­úrufari Íslands, vann að því verki 1839-1842 og setti fram merk drög að kenn­ingu um land­mynd Íslands. Hann fór í rann­sókna­ferðir um landið, lenti í hrakn­ing­um síðsum­ars 1839, hafði næst­um orðið úti, fékk slæma brjóst­himnu­bólgu, lá rúm­fast­ur í Reykja­vík næsta vet­ur, en hélt til Kaup­manna­hafn­ar 1842 og var bú­sett­ur í Dan­mörku þrjú síðustu ævi­ár­in.


 

Jón­as fót­brotnaði illa er hann féll í stiga og lést á Friðriks­spít­ala í Kaup­manna­höfn 26. maí 1845.


 

 

Framan við íbúð Jónasar Hallgrímssonar í Kaupmannahöfn.

 
Skráð af Menningar-Bakki.

15.11.2020 11:25

Merkir Íslendingar - Þuríður Einarsdóttir

 Þuríður Ein­ars­dótt­ir (1777 - 1863)

 

 

Merkir Íslendingar - Þuríður Einarsdóttir

 

 

Þuríður Ein­ars­dótt­ir, oft­ast nefnd Þuríður formaður, fædd­ist árið 1777 á Stétt­um í Hrauns­hverfi á Eyr­ar­bakka. For­eldr­ar henn­ar voru Ein­ar Ei­ríks­son, bóndi þar, og k.h. Helga Bjarna­dótt­ir.

 

Þuríður bjó í for­eldra­hús­um þar til hún varð 25 ára göm­ul. Hún byrjaði að róa á vor­vertíð hjá föður sin­um 11 ára göm­ul og gerðist full­gild­ur há­seti á vetr­ar­vertíð hjá Jóni í Mó­hús­um, þá rúm­lega tví­tug að aldri. Hún fékk leyfi frá sýslu­manni til að klæðast karl­manns­föt­um og klædd­ist ekki kven­manns­föt­um eft­ir það.

 

Síðan bjó hún í Stokks­eyr­ar­hverfi, lengst af á Götu og var formaður þar, fyrst á vor- og haust­vertíð, síðan á vetr­ar­vertíðum. Hún flutti á Eyr­ar­bakka 1830 og bjó þar til æviloka að und­an­skild­um ár­un­um 1840-1847 þegar hún dvald­ist við versl­un­ar­störf í Hafnar­f­irði. Fyrsta ára­tug­inn sem hún bjó á Eyr­ar­bakka var hún formaður í Þor­láks­höfn á vetr­ar­vertíðum og stýrði át­tær­ingi og aflaði vel. Hún var lengst af sjálfr­ar sín, ým­ist við smá­búhok­ur eða sem hús­kona á Skúms­stöðum þar til sein­ustu 8-9 árin sem hún lifði, er hún varð að þiggja sveit­ar­styrk.

 

Þuríður bjó um tveggja ára skeið með manni að nafni Er­lend­ur Þor­varðar­son í Eystri-Mó­hús­um. Þau eignuðust stúlku sem hét Þór­dís en hún lést fimm ára göm­ul. Löngu síðar, eða árið 1820, gift­ist hún vinnu­manni sín­um, Jóni Eg­ils­syni, sem þá var 21 árs, en þeirra hjóna­band stóð ekki lengi.

 

Þuríður varð fræg fyr­ir að koma upp um Kambs­ránið, en það var rán sem framið var á bæn­um Kambi í Flóa 1827. Ræn­ing­arn­ir skildu eft­ir sig verks­um­merki m.a. skó, járn­flein og vett­ling. Hún taldi sig þekkja hand­bragðið á skón­um og að för á járn­flein­in­um pössuðu við steðja í eigu Jóns Geir­munds­son­ar á Stétt­um í Hraun­gerðis­hreppi, sem var einn ráns­mann­anna.

 

Þuríður formaður lést í Ein­ars­höfn 13. nóvember 1863.
 Skráð af Menningar-Bakki.

14.11.2020 12:51

Prestaköll sameinuð í Flóanum

 


Eyrarbakkakirkja. Ljósm.: Ingvar Magnússon.
 

 

 

Prestaköll sameinuð í Flóanum

 

 

• 8.180 sálir • Flói, Selfoss og strönd

 

Nú á dög­un­um tók gildi sú breyt­ing að Sel­foss- og Eyr­ar­bakka­presta­köll í Suður­pófast­dæmi voru sam­einuð, skv. því sem Kirkjuþing samþykkti á dög­un­um. Alls sjö kirkj­ur og jafn marg­ar sókn­ir eru inn­an hins nýja prestakalls, það er Hraun­gerðis-, Laug­ar­dæla-, Sel­foss-, Vill­inga­holts-, Eyr­ar­bakka-, Stokks­eyr­ar- og Gaul­verja­bæj­ar­sókn. Sókn­ir þess­ar ná yfir lág­lendið milli Ölfusár og Þjórsár og alls eru sókn­ar­börn­in 8.180 tals­ins.

 

Prest­ar hins nýja prestakalls verða áfram þeir sömu og þjónuðu áður á svæðinu. Sr. Guðbjörg Arn­ar­dótt­ir er sókn­ar­prest­ur hins nýja prestakalls og fer með ákveðið for­ystu­hlut­verk því sam­kvæmt. Prest­ar eru þeir sr. Gunn­ar Jó­hann­es­son og sr. Arn­ald­ur Bárðar­son.

 

Í til­kynn­ingu seg­ir að mark­miðið með þess­ari breyt­ingu fyrst og fremst að efla og auðga þjón­ustu kirkj­unn­ar á hverj­um stað og greiða fyr­ir sam­starfi og sam­vinnu presta.

 

„Með til­komu hins nýja prestakalls fáum við prest­arn­ir nú tæki­færi til að starfa nán­ar sam­an og skipu­leggja starf okk­ar og þjón­ustu á breiðari grunni. Það telj­um við afar já­kvætt og hlökk­um við mikið til að vinna sam­an að því, ásamt öðru sam­starfs­fólki okk­ar inn­an kirkj­unn­ar, að efla þjón­ustu kirkj­unn­ar okk­ar og auka breidd henn­ar og fjöl­breytni,“ seg­ir í til­kynn­ingu. Þar er og þeirri ósk lýst að aðstæður í sam­fé­lag­inu kom­ist í eðli­legt horf fljót­lega svo aft­ur megi bjóða upp á fjöl­breytt helgi­hald og safnaðarstarf.sbs@mbl.is

Morgunblaðið laugardagurinn 14. nóvember 2020.

 

 
Skráð af Menningar-Bakki.

10.11.2020 06:52

Merkir Íslendingar - Matthías Jochumsson

 

 

Matthías Jochumsson (1835 - 1920)

 

 

Merkir Íslendingar - Matthías Jochumsson

 

 

Matthías Jochumsson fæddist 11. nóvember 1835 að Skógum í Þorskafirði.
 Sonur Jochums Magnússonar og Þóru Einarsdóttur. Þóra var systir Guðmundar, pr. á Kvennabrekku, föður Ásthildar, móður Muggs, og föður Theodóru Thoroddsen skáldkonu, ömmu Dags Sigurðarsonar skálds.

 

Foreldrar Matthíasar bjuggu við barnaómegð og gestanauð á harðæristímum og fór því Matthías til vandalausra 11 ára. Hann var til sjós og í vinnumennsku og sinnti verslunarstörfum í Flatey þar sem hann kynntist fólki sem kom honum til mennta. Hann útskrifaðist frá Prestaskólanum þrítugur að aldri.
 

Matthías var prestur á Kjalarnesi en þar missti hann fyrstu og aðra eiginkonu sína með stuttu millibili. Hann sagði þá af sér prestsskap, fór utan og varð síðan ritstjóri Þjóðólfs. Eftir að Matthías kvæntist þriðju konu sinni var hann prestur að Odda á Rangárvöllum í nokkur ár en síðan á Akureyri.
 

Matthías og Steingrímur Thorsteinsson voru helstu skáldmæringar síðrómantísku stefnunnar. Vinátta þeirra var einlæg þótt oft hvessti á milli þeirra. Matthías var skáld mannlífs, örlaga og tilfinninga en Steingrímur skáld hinnar ósnortnu náttúru. Matthías var mælskur, andríkur og tilfinninganæmur en Steingrímur vitsmunalegra og líklega vandvirkara skáld. Matthías var auk þess eitt mesta trúarskáld þjóðarinnar. Hann orti lofsönginn sem síðar varð þjóðsöngur Íslands. Þá samdi hann leikritið Skugga-Svein, sem var klassískt leikhúsverk hér á landi á fyrstu áratugum íslenskrar leiklistar.
 

Að Skógum er minnismerki um Matthías, lágmynd eftir Helga Gíslason og bautasteinn úr Vaðalfjöllum. Að Sigurhæðum á Akureyri er safn helgað minningu hans. Ævisaga hans, eftir Önfirðinginn Þórunni Valdimarsdóttur, Upp á Sigurhæðir, kom út haustið 2006.


 

Matthías lést 18. nóvember 1920.


 

 

Skráð af Menningar-Bakki.

08.11.2020 12:39

Starf í Selfoss- og Eyrarbakkaprestakalli meðan samkomubann er í gildi

 Eyrarbakkakirkja. Ljósm.: Ingvar Magnússon.
 

 

 

Starf í Selfoss- og Eyrarbakkaprestakalli

 

meðan samkomubann er í gildi

 

 

 

Ljóst er að mikil röskun verður á helgihaldi og safnaðarstarfi í kirkjunum okkar meðan að samkomubann er enn í gildi og frá og með 31. október hefur það verið hert frekar.

 

Erftirfarandi skipulag er í samræmi við fyrirmæli frá biskupi Íslands og amk. til 17. nóvember.

 

Það sem fellur niður:

Allt helgihald í prestakallinu fellur niður.

• Allar messur, bæna- og kyrrðarstundir.

• Fjölskyldusamverur í Selfosskirkju.

• Æfingar hjá kirkjukórum prestakallsins falla niður.

• Foreldrasamverur á miðvikudagsmorgnum í Selfosskirkju .

• Æskulýðsfundir á þriðjudagskvöldum í Selfosskirkju.

• Æfingar hjá Barna- og unglingakór í Selfosskirkju.

• 6-9 ára starf og TTT í Selfosskirkju.

• Fermingarfræðsla.

 

Selfosskirkja verður áfram opin á hefðbundum skrifstofutíma. Við minnum á viðtalstíma presta frá 9-12 eða eftir samkomulagi. Hægt er að hafa samband við presta prestakallsins í síma eða með tölvupósti.

Guðbjörg Arnardóttir s. 865 4444 gudbjorg.arnardottir@kirkjan.is

Gunnar Jóhannesson s. 8929115 gunnar.johannesson@kirkjan.is

Arnaldur Bárðarson s. 7668344 arnaldur.bardarson@kirkjan.is

 

Við bendum ykkur á að finna Selfosskirkju á Facebook og Instragram og aðrar kirkjur prestkallsins þar sem við miðlum uppörvandi og huggunarríkum orðum, bænum og öðru helgihaldi.

 

Aðstæður getur áfram breyst hratt og uppfærum við aðgerðir okkar varðandi helgihald og safnaðarstarf í samræmi við það.

 

Bænir okkar eru hjá hverjum og einum og íslensku samfélagi í heild. Það er gott að leggja allt sem framundan er, hverja stund og sérhvern dag, allar hugsanir, tilfinningar, áhyggjur og kvíða, í Guðs góðu hendur í þeirri trú og vissu að hann er engum nær en þeim sem til hans leitar og að ekkert geti gert okkur viðskila við kærleika hans.

 

Prestar og starfsfólk Selfoss- og Eyrarbakkaprestakalls.

 Skráð af Menningar-Bakki

08.11.2020 11:37

-Úr myndasafninu-

 

 

 

 

  -Úr myndasafninu-

 

             

            Eldriborgarakaffi
 

  
    í Menningarverstöðinnu Hólmaröst á Stokkseyri


 

                               og árið er 2005

 

 

 

Skráð af Menningar-Bakki

06.11.2020 17:26

-Úr myndasafninu-

 

 

 

 

 

  -Úr myndasafninu-

 

 

                   Landhelgisgæslan

 

         á og yfir Stokkseyrarbryggju

Skráð af Menningar-Bakki.

06.11.2020 06:59

Merkir Íslendingar - Ólafur Hannibalsson

 


Ólafur Hannibalsson ( 1935 - 2015).
 

 

Merkir Íslendingar - Ólafur Hannibalsson

 

 

Ólaf­ur Hanni­bals­son fædd­ist á Ísaf­irði 6. nóv­em­ber 1935.

For­eldr­ar hans voru Sól­veig Sig­ríður Ólafs­dótt­ir hús­freyja, f. 1904 á Strand­selj­um í Ögur­sveit, d. 1997, og Hanni­bal Gísli Valdi­mars­son, alþing­ismaður og ráðherra, f. 1903 í Fremri-Arn­ar­dal við Skutuls­fjörð, d. 1991.
 

Ólaf­ur lauk stúd­ents­prófi frá Mennta­skól­an­um á Laug­ar­vatni árið 1956 og stundaði nám við há­skól­ann í Delaware í Banda­ríkj­un­um og við hag­fræðihá­skól­ann í Prag í Tékklandi á ár­un­um 1957 til 1962. Hann starfaði hjá Loft­leiðum í New York, var rit­stjóri Frjálsr­ar þjóðar 1964-1970, með árs­hléi 1968 þegar hann vann að haf­rann­sókn­um. Hann var skrif­stofu­stjóri ASÍ 1971-1977. Ólaf­ur var varaþingmaður Sjálf­stæðis­flokks­ins í Vest­fjarðakjör­dæmi 1995-1999.
 

Um tíu ára skeið til árs­ins 1987 var Ólaf­ur bóndi í Selár­dal og síðan blaðamaður, rit­höf­und­ur og rit­stjóri. Ásamt Jóni Hjalta­syni og Hjalta Ein­ars­syni skrifaði hann 50 ára sögu Sölu­miðstöðvar hraðfrysti­hús­anna, sem út kom 1997. Hann þýddi Sögu þorsks­ins eft­ir Mark Kurlan­sky og skráði ásamt konu sinni Sól­ar­meg­in, end­ur­minn­ing­ar Her­dís­ar Eg­ils­dótt­ur kenn­ara. Síðustu árin vann Ólaf­ur að Djúp­manna­tali, skrá ábú­enda við Ísa­fjarðar­djúp frá 1801 til 2011, og komið er út.
 

Ólaf­ur lét sig þjóðmál miklu varða, tók virk­an þátt í ýms­um aðgerðum, ritaði ótal grein­ar og hélt út­varps­er­indi um inn­lend og er­lend mál­efni.
 

Eig­in­kona Ólafs er Guðrún Pét­urs­dótt­ir lífeðlis­fræðing­ur, f. 1950. For­eldr­ar henn­ar voru Pét­ur Bene­dikts­s­son, alþing­ismaður og banka­stjóri, og Guðrún Eggerts­dótt­ir Briem. Dæt­ur Ólafs og Guðrún­ar eru Ásdís og Marta. Börn Ólafs með fyrri eig­in­konu sinni, Önnu G. Kristjáns­dótt­ur kenn­ara, f. 1935, eru Hugi, Sól­veig og Krist­ín.
 

Ólaf­ur lést á heim­ili sínu í Þykkvabæ í Reykja­vík 30. júní 2015.
 Skráð af Menningar-Bakki.

05.11.2020 06:42

Merkir Íslendingar - Hlynur Sigtryggsson

 Hlynur Sigtryggsson ( 1921 - 2005).

 

 

Merkir Íslendingar - Hlynur Sigtryggsson

 

 

Hlynur fæddist á Núpi í Dýrafirði 5. nóvember 1921.

Foreldrar hans voru hjónin Hjaltlína Margrét Guðjónsdóttir, kennari og húsfreyja, frá Brekku á Ingjaldssandi, og séra Sigtryggur Guðlaugsson, prestur, og skólastjóri á Núpi, frá Þröm.
 

Systir Sigtryggs var Friðdóra, móðir Finns Sigmundssonar landsbókavarðar, afa Hallgríms Geirssonar, lögmanns og fyrrv. stjórnarformanns Árvakurs.
 

Bróðir Hlyns var Þröstur, fyrrverandi skipherra hjá Landhelgisgæslunni og einn þeirra fræknu skipherra sem stóðu í ströngu í Þorskastríðunum á áttunda áratugnum.
 

Eiginkona Hlyns var Jakobína Guðríður Bjarnadóttir sem lést haustið 1970 en dóttir þeirra er Ragnheiður Ingibjörg sálfræðingur, f. 1952.
 

Hlynur lauk stúdentsprófi frá Menntaskólanum á Akureyri 1942. Hann stundaði síðan nám í veðurfræði við Kaliforníuháskóla (UCLA) og lauk þaðan MA-prófi 1946. Á árunum 1954-55 var hann við nám og rannsóknarstörf við Stokkhólmsháskóla.

 

Hlynur var veðurfræðingur á Veðurstofu Íslands í Reykjavík á árunum 1946-52, en var þá ráðinn deildarstjóri Veðurstofu Íslands á Keflavíkurflugvelli. Hann var skipaður veðurstofustjóri sumarið 1963 og gegndi því til hausts 1989.
 

Um Hlyn sagði tengdasonur hans, Georg A. Bjarnason m.a. í minningargrein: „Hlynur bjó yfir mikilli hugarró og þolinmæði. Hann gat setið tímunum saman og gluggað í bækur og blöð um sín mörgu áhugamál; veðurfræði, eðlisfræði, stærðfræði, stjörnufræði, sögu, tónlist, ljósmyndun, stangveiði og fluguhnýtingar. Hann mundi flest sem hann las og virtist skilja samhengi í veröld vísinda og lista. Hann las stærðfræðisannanir af sama áhuga og aðrir lesa reyfara. Eins og oft er um afburðagáfað fólk hafði hann enga þörf fyrir að upphefja sjálfan sig, og var auðmjúkur og ljúfur í daglegum samskiptum.“
 

Hlynur lést 14. júlí  2005.


 

 

Hlíð að Núpi í Dýrafirði.
Skráð af Menningar-Bakki.