Menningar-Bakki * Viðhalda og efla þjóðlega menningararfleið til sjávar og sveita*
-------- Alþýðuhúsið á Eyrarbakka - Vinir alþýðunnar - Á undan sinni framtíð --- "Stærra í hugum okkar en við sjálfir gerum okkur grein fyrir" ---

10.08.2019 07:39

Listasafn Árnesinga - Sýningarstjóraspjall og leiðsögn með Kristínu G. Guðnadóttur

 

 

Listasafn Árnesinga í Hveragerði.

 

 

Listasafn Árnesinga -

 

Sýningarstjóraspjall og leiðsögn með Kristínu G. Guðnadóttur

 

 

Sunnudaginn 11. ágúst 2019 kl. 15:00 mun Kristín G. Guðnadóttir listfræðingur og sýningarstjóri sýningarinnar ganga með gestum um hana og ræða um þau verk sem þar eru og gjöf Eyrbekkingsins Ragnars Jónssonar í Smára sem lagði grunninn að Listasafni ASÍ.

 

Á sýningunni má sjá mörg öndvegisverk íslenskrar listasögu þar á meðal Fjallamjólk Kjarvals ásamt verkum eftir frumkvöðlana Ásgrím Jónsson, Þórarinn B. Þorláksson, Jón Stefánsson og síðari kynslóð listamanna eins og Gunnlaug Scheving, Jón Engilberts, Júlíönu Sveinsdóttur, Nínu Tryggvadóttur, Svavar Guðnason, Þorvald Skúlason og fleiri listamenn sem eru meðal þekktustu myndlistarmanna þjóðarinnar frá öndverðri síðustu öld.

 

Sýningin er samstarfsverkefni safnanna, Listasafns ASÍ og Listasafns Árnesinga og til sýnis eru 52 málverk af alls 147 verkum sem Ragnar gaf Listasafni ASÍ. Samtímis sýningunni gaf Listasafns ASÍ út veglega bók með sama nafni um stofngjöf Ragnars.

 

Kristín G. Guðnadóttir er mikilsvirtur fræðimaður um íslenska myndlist og hefur verið sýningarstjóri fjölmargra listsýninga og var safnstjóri Listasafns ASÍ á árunum 1997 - 2016. Hún er höfundur viðamikilla bóka um Kjarval annars vegar og Svavar Gunason hinsvegar auk fleiri bóka og greina um íslenska myndlist. í bókinni Gjöfin til Íslenzkrar alþýðu ritar Kristín um velgjörðarmanninn Ragnar í Smára og listaverkasafnið hans. Ritstjóri bókarinnar er Elísabet Gunnarsdóttir núverandi safnstjóri Listasafns ASÍ.

 

Sem fyrr eru allir velkomnir á sýninguna og aðgangur að safninu er ókeypis, líka á spjall og leiðsögn Kristínar. Sýningin mun standa til 15. september.

 

Kristin G Gudnadottir

Kristín G. Guðnadóttir listfræðingur.

 


Skráð af Menningar-Bakki

09.08.2019 12:05

Merkir Íslendingar - Magnús Guðmundsson

 

 

Magnús Guðmundsson (1916 - 2014).

 

 

Merkir Íslendingar - Magnús Guðmundsson 

 

 

Árni Magnús Guðmundsson, flugstjóri og flugeftirlitsmaður, fæddist 9. ágúst 1916 á Ísafirði.

Foreldrar hans voru Guðmundur Árnason, sjómaður og verkamaður á Ísafirði, f. 20.10. 1883, d. 13.12. 1986, og k.h., Una Magnúsdóttir, verkakona og húsmóðir.
 

 

Foreldrar Guðmundar voru Árni Sigurðsson, sjómaður á Hafursstöðum á Skagaströnd, og k.h., Steinunn Guðmundsdóttir, og foreldrar Unu voru Magnús Kristjánsson, sjómaður á Ísafirði, og k.h., Margrét Gunnlaugsdóttir.
 

 

Magnús lauk sveinsprófi í rafvirkjun frá Iðnskóla Akureyrar 1938 og atvinnuflugmannsprófi frá Flugskóla Konna Jóhannessonar í Winnipeg í Manitoba í Kanada 1943. Hann öðlaðist bandarísk flugstjóraréttindi að loknu námskeiði hjá Pan American í New York í Bandaríkjunum 1952.
 

 

Magnús starfaði sem rafvirki árin 1938-1942. Hann var flugstjóri hjá Flugfélagi Íslands hf. 1945-1947 og hjá Loftleiðum hf. 1947-1973. Þá starfaði hann sem flugstjóri hjá Flugleiðum hf. frá 1973, þar til hann lét af störfum sökum aldurs 1979. Hann hafði flugskírteini númer 9.
 

 

Magnús rak flugskólann Cumulus ásamt Smára Karlssyni og Jóhannesi Snorrasyni 1948-1950. Hann var flugstjóri á Douglas Skymaster DC-4-vélinni Geysi, sem týndist á Bárðarbungu í september 1950. Sex dagar liðu áður en björgunarsveit komst á staðinn til að bjarga áhöfninni sem komst öll lífs af. Magnús starfaði sem flugeftirlitsmaður hjá Flugmálastjórn 1979-1986.
 

 

Eiginkona Magnúsar þann 20. apríl 1946 varð Agnete Simson ljósmyndari, fædd 9. september 1923 á Ísafirði, dáin 23. janúar 2018. Agnete var alin upp á Ísafirði og lærði þar ljósmyndun í iðnskólanum og hjá föður sínum. Um tvítugt flutti hún til Reykjavíkur og fór að vinna á ljósmyndastofu Sigurðar Guðmundssonar. Foreldrar hennar voru Martinus K.P. Simson, ljósmyndari á Ísafirði og fjölleikalistamaður, f. á Jótlandi í Danmörku, og Guðný V. Gísladóttir.

 

Magnús og Agnete eignuðust þrjú börn, Guðnýju, Guðmund og Unu, en fyrir hjónaband átti Magnús soninn Braga.

 

 

Magnús lést 27. apríl 2014.

 


Skráð af Menningar-Bakki.

09.08.2019 06:36

Þetta gerðist - 9. ágúst 1851 - "Vér mótmælum allir"

 

 

Í Alþingishúsinu er málverk Gunnlaugs Blöndal frá Þjóðfundinum.

 

 

Þetta gerðist - 9. ágúst 1851 -

 

"Vér mótmælum allir"

 

 

Þegar fulltrúi konungs sleit Þjóðfundinum þann 9. ágúst 1851, sem staðið hafði í Reykjavík í rúman mánuð, reis Jón Sigurðsson upp og mótmælti því „í nafni konungsins og þjóðarinnar.“ Þá risu þingmenn upp og sögðu flestir í einu hljóði: „Vér mótmælum allir!“ Einni öld síðar var afhjúpuð minningartafla um fundinn í hátíðarsal Menntaskólans í Reykjavík, þar sem fundurinn var haldinn.
 

 Skráð af Menningar-Bakki.

08.08.2019 08:38

Merkir Íslendingar - Sigurgeir Sigurðsson

 

 

Sigurgeir Sigurðsson (1890 - 1953). 

 

 

Merkir Íslendingar - Sigurgeir Sigurðsson

 

 

Sigurgeir Sigurðsson, fæddur þann 3. ágúst árið 1890 í Túnprýði á Eyrarbakka.


 Foreldrar hans voru Sigurður Eiríksson regluboði og Svanhildur Sigurðardóttir hafnsögumanns á Eyrarbakka.
 

 

Sigurgeir var biskup íslensku þjóðkirkjunnar frá 1939 til dauðadags. Hann tók við embætti af Jóni Helgasyni, biskup og rithöfundi. Áður hafði Sigurgeir verið prófastur í Norður-Ísafjarðarprófastsdæmi frá 1927.

 

Sigurgeir  var stúdent frá MR í júní 1913, cand. theol. frá HÍ febrúar 1917 og stundaði nám í Danmörku, Svíþjóð og Englandi síðar.

 

Í biskupsembættinu var Sigurgeir virkur í félags- og trúnaðarstörfum. Hann ferðaðist víða um heim sem fulltrúi íslenskrar prestastéttar, einkum hafði hann sterk tengsl til Vesturheims. Hann var gerður heiðursdoktor hjá Háskólanum í Norður-Dakota í Bandaríkjunum og Wagner-háskóla í New York. Þá var hann heiðursfélagi Þjóðræknisfélags Íslendinga í Vesturheimi.

 

Sigurgeir var sonur Sigurðar Eiríkssonar, regluboða Góðtemplarareglunnar, organleikara og dannebrogsmanns á Eyrarbakka og síðar í Reykjavík, og Svanhildar Sigurðardóttur, húsfreyju á Eyrarbakka og síðar í Reykjavík.


17. nóvember 1917 kvæntist Sigurgeir Guðrúnu Pétursdóttur bónda í Hrólfsskála á Seltjarnarnesi.Þeirra börn voru Pétur biskup, Sigurður deildarstjóri í sparisjóði Út vegsbankans, dáinn 8. nóvember 1986, Svanhildur deildarstjóri í ut anríkisráðuneytinu, og Guðlaug næringarráðgjafi.

 

Sonur Sigurgeirs, Pétur, var biskup yfir Íslandi frá 1981- 1989. Pétur lést 2010.Sigurgeir Sigurðsson lést þann 13. október 1953, aðeins 63 ára gamall.
Skráð af Menningar-Bakki.

07.08.2019 13:43

Margrét Friðriksdóttir - Fædd 9. des. 1920 - Dáin 23. júlí 2019. - Minning

 

 

Margrét Friðriksdóttir (1920 - 2019).

 

 

Margrét Friðriksdóttir - Fædd 9. desember 1920

 

- Dáin 23. júlí 2019. - Minning

 

 

Mar­grét Friðriks­dótt­ir fædd­ist 9. des­em­ber 1920 á Gamla-Hrauni á Eyr­ar­bakka. Hún lést á hjúkr­un­ar­heim­il­inu Ljós­heim­um á Sel­fossi 23. júlí 2019.

 

For­eldr­ar henn­ar voru hjón­in Friðrik Sig­urðsson, bóndi og formaður á Gamla-Hrauni á Eyr­ar­bakka, f. 11.2. 1876 í Hafliðakoti, Hrauns­hverfi, d. 2.4. 1953, og Sesselja Sól­veig Ásmunds­dótt­ir, hús­freyja á Gamla-Hrauni, f. 18.2. 1887 í Ey­vind­artungu, Laug­ar­dals­hreppi, d. 3.9. 1944.

Systkini Mar­grét­ar:

Ingi­björg Ásta, f. 1910, d. 1910, Sig­urður, f. 1912, d. 1981, Jó­hann, f. 1913, d. 1942, Friðrik, f. 1915, d. 1977, Davíð, f. 1917, d. 1973, Guðmund­ur Ragn­ar, f. 1918, d. 1920, Guðmund­ur, f. 1922, d. 1998, Guðmunda Ragna, f. 1924, Guðleif, f. 1925, d. 2019, Pét­ur, f. 1928, d. 2010.

 

Árið 1941 gift­ist Mar­grét Bjarna Ólafs­syni, bíl­stjóra frá Þor­valds­eyri á Eyr­ar­bakka, f. 13.8. 1918, d. 30.9. 1981. For­eldr­ar hans voru Jenný Dag­björt Jens­dótt­ir, hús­freyja á Þor­valds­eyri, f. 12.5. 1897, d. 2.12. 1964, og Ólaf­ur Bjarna­son, vega­verk­stjóri á Þor­valds­eyri, f. 13.1. 1893, d. 2.10. 1983. Mar­grét og Bjarni byrjuðu sinn bú­skap á Sól­bakka en byggðu sér síðan íbúð á Eyra­vegi 14 þar sem þau bjuggu alla sína tíð.

 

Börn Mar­grét­ar og Bjarna eru:

Sesselja Sól­veig, Sig­urður, Harpa, Friðrik og Krist­ín Hanna.

Sesselja er gift Jóni Svein­bergs­syni og eiga þau þrjú börn, níu barna­börn og átta barna­barna­börn.

Sig­urður gift­ur Sig­ríði Sveins­dótt­ur og eiga þau tvö börn, fimm barna­börn og tvö barna­barna­börn.

Harpa gift Val Helga­syni, á hún tvö börn og tvo stjúp­syni, 10 barna­börn og tvö barna­barna­börn.

Friðrik gift­ur Guðrúnu Helgu Ívars­dótt­ur og á hann eina dótt­ur og einn stjúp­son.

Krist­ín, eignaðist son, f. 1974, d. 1974.

 

 

Útför Mar­grét­ar fer fram frá Sel­foss­kirkju í dag, 7. ág­úst 2019, klukk­an 14.

_____________________________________________________________________________

 

 

Minningarorð Sigurðar Bjarnasonar.

 

Það er ekki sjálf­gefið að vera kom­inn á átt­ræðis­ald­ur og eiga mömmu í fullu fjöri, en sú hef­ur verið staðreynd­in fram að þessu. Hinn 17. júní síðastliðinn fór­um við Sigga með mömmu í smá bíltúr. Eins og oft áður fór­um við til Þing­valla og feng­um okk­ur síðan kaffi í Gríms­nes­inu og hafði mamma gam­an af að keyra hérna um Suður­landið. Um kvöldið kom ná­granna­kona okk­ar að selja eitt­hvað fyr­ir börn­in sín og sagði ég við hana að ég hefði verið að rúnta með henni mömmu í dag. Dag­inn eft­ir hitti ná­granna­kon­an dótt­ur mína og spurði hvort ég væri far­inn að rugla, það hlyti eig­in­lega að vera þar sem ég, á átt­ræðis­aldri, hefði sagst vera að rúnta með mömmu! En svona er nú lífið, að eiga mömmu sem er að verða 99 ára, mamma veikt­ist viku seinna.

 

Mamma, sem fædd­ist 1920, hafði upp­lifað tím­ana tvenna. Í henn­ar æsku var ekk­ert raf­magn, ekki út­varp, ekki sími, varla bíl­ar og áfram mætti telja. Hún hef­ur upp­lifað all­ar þess­ar nú­tímaþarf­ir okk­ar verða að veru­leika.

 

Minn­ing­arn­ar um mömmu eru marg­ar, ein af þeim fyrstu er frá því ég var lík­lega fimm ára, þá kom það í frétt­um að spáð væri heimsendi. Við mamma rædd­um þetta og kom sam­an um að við mynd­um bara hafa sósu­kjöt í mat­inn um kvöldið en það var ekki alltaf á borðum á þeim tíma og í sér­stöku upp­á­haldi. Áttum við síðan eft­ir að eiga 70 ár sam­an því eng­inn kom heimsend­ir­inn. Önnur minn­ing er þegar ég var í sveit tíu til ell­efu ára að mamma og pabbi komu í heim­sókn, sem ekki var al­gengt. Þegar mamma steig út úr bíln­um og var í þess­ari flottu, nýju, grænu dragt, þá hafði ég aldrei séð flott­ari konu, en á þeim tíma var ekki oft verið að kaupa ný föt.

 

Hún mamma hafði afar gott skap, ég held hún hafi afar sjald­an orðið reið, alla vega ekki við mig. Þannig var það al­veg ein­stakt hvað hún umb­ar mig á unglings­ár­un­um og alltaf var mamma til staðar þegar vanda­mál­in steðjuðu að og passaði hún að pabbi kæm­ist ekki að bernsku­brek­um mín­um, því hann var strang­ari. Árið 1981 dó pabbi mjög snögg­lega og varð það okk­ur öll­um mik­ill harm­ur og var það ótrú­legt hvað hún mamma var sterk og stóð þetta mikla áfall af sér. Fyr­ir nokkr­um árum flutti mamma á hjúkr­un­ar­heim­ilið Ljós­heima því sjón­in var far­in að dapr­ast og var búin að eiga þar góða daga. Það verður tóm­legt að eiga ekki er­indi á Sel­foss að heim­sækja mömmu, en hún var orðin ósköp þreytt á líf­inu und­ir það síðasta, sagði að allt sam­ferðafólkið væri dáið og tími kom­inn til að fara að klára lífið. Það var því vel­kom­in hvíld þegar hún dó 23. júlí í rúm­inu sínu á Foss­heim­um þar sem hún hafði fengið hina bestu umönn­un.

 

Vertu sæl, elsku mamma,

þinn son­ur Siggi.

 

Sig­urður Bjarna­son.
 Morgunblaðið miðvikudagurinn 7. ágúst 2019.
 

 


Skráð af Menningar-Bakki.

07.08.2019 07:32

7. ágúst 2019 - Skrúður 110 ára

 

 

Skrúður í Dýrafirði.

 

 

7. ágúst 2019 - Skrúður 110 ára

 

 

 

1909 

 

 

Matjurta- og skrautgarðurinn á Núpi við Dýrafjörð var formlega stofnaður og honum gefið nafnið Skrúður. Upphafsmaðurinn, séra Sigtryggur Guðlaugsson á Núpi, valdi þennan dag vegna þess að þá voru 150 ár frá því að Björn Halldórsson í Sauðlauksdal setti niður kartöflur hér á landi, fyrstur Íslendinga.

____________________________________________________________________
 

Séra Sigtryggur Guðlaugsson prófastur að Núpi réðst í gerð matjurta- og skrúðgarðsins í tengslum við ungmennaskólann að Núpi. Garðinn átti að nýta í kennslu í jurtafræði og garðrækt, jafnframt því að venja nemendur á neyslu garðávaxta og sýna hvaða jurtir geti þrifist í íslenskum jarðvegi. í Skrúði hefur verið reistur minnisvarði um þau hjónin séra Sigtrygg og Hjaltlínu Guðjónsdóttur sem voru langt á undan sinni samtíð.


Í meira en 70 ár var garðinum vel við haldið en upp úr 1980 var honum lítið sinnt og hnignaði honum þá mjög. Árið 1992 var síðan stofnuð nefnd sem átti að stuðla að viðreisn Skrúðs og tryggja framtíð hans sem minnismerki um starf brautryðjenda í garðyrkju á Íslandi. Að loknum miklum endurbótum var Skrúður vígður á ný árið 1996.
 

Skrúður nær yfir 2500 fermetra svæði. Þar eru hundruð trjáplantna og jurta, en flóran hefur þó nokkuð breyst frá dögum séra Sigtryggs. Matjurtir hafa vikið fyrir fjölærum blómjurtum og runnum.

 

 

.

 Hjónin séra Sigtryggur Guðlaugsson og Hjaltlína Guðjónsdóttir.

 

 

Skráð af Menningar-Bakki.

06.08.2019 22:08

Félagsheimilið er að mörgu leyti hjartað í þorpinu

 

 

Félagsheimilið Staður á Eyrarbakka.

 

 

Félagsheimilið

 

er að mörgu leyti hjartað í þorpinu

 

 

Margir þekkja gildi þess að hafa gott félagsheimili í nágrenninu en Félagsheimilið Staður á Eyrarbakka skipar stóran sess í þorpinu við ströndina. Húsið sjálft á sér drjúga sögu sem bíður betri tíma. Þau Elín Birna Bjarnfinnsdóttir og Ingólfur Hjálmarsson hafa tekið við umsjá hússins úr hendi Siggeirs Ingólfssonar, sem séð hefur um staðinn fyrir Sveitarfélagið Árborg undanfarin ár. Dagskráin leit við í snarpheitt kaffi og spjall við þau Ingólf og Elínu um húsið, starfsemina og staðinn.

 

Ákváðu að snúa bökum saman


„Þegar það kom upp að Siggeir ákvað að láta af starfinu hafði ég áhyggjur af því að hluti af starfinu myndi deyja út. Hér koma til dæmis nokkrir karlar úr þorpinu í morgunkaffi til að spjalla og skrafa. Það hugnaðist mér ekki og þá fór ég að láta það hvissast út að ég hefði áhuga á því að taka við keflinu. Það kom þá upp úr dúrnum að Elín hafði líka hug til þess sama. Hún kom svo með þá hugmynd að sækja um þetta saman. Mér leist strax vel á það. Við ákváðum því að fara í samstarf í stað þess að slást um þetta og það er heillaspor finnst mér,“ segir Ingólfur kíminn.

 

Hefur heilmikið gildi fyrir samfélagið


Ýmis starfsemi er í húsnæðinu en krakkar úr Barnaskólanum á Eyrarbakka fara m.a. í íþróttir í íþróttasalnum. Þá eru haldnar veislur, þorrablót, 17. júní skemmtanir og svo mætti lengi telja. „Þetta hús kemur við sögu hjá flestum sem búa í þorpinu á hvaða aldri sem þeir eru. Hér eru eldri borgarar með boccia sem dæmi og þá hafa verið haldin böll hér langt fram á nótt. Svo kemur yngsta kynslóðin í íþróttir hér á veturna. Þetta er samkomuhúsið á staðnum og er að mörgu leyti hjartað í þorpinu,“ segja þau aðspurð um mikilvægi þess að hafa hús sem þetta í samfélaginu.

 

Margar hugmyndir og góður grunnur


Aðspurð um hvort áherslu breytingar á rekstrinum séu framundan segir Ingólfur rétt að fara varlega í allar slíkar yfirlýsingar en ýmsar hugmyndir séu þó uppi. Það er að heyra á þeim Elínu og Ingólfi að væntingar til aukinna umsvifa hússins, samfélaginu til góða, séu framarlega á listanum. „Eins og við komum inn á áður koma hérna karlar sem hittast til skrafs og ráðgerða alla morgna. Það er gulls ígildi að hafa svona samastað fyrir þorpið. Ef hægt væri að útvíkka þetta og bjóða ferðamönnum upp á slíka þjónustu hér er líklegt að það skili sér til samfélagsins með þeim hætti að þeir lengi stoppin hér í bænum og heimsæki jafnvel eitthvað annað í leiðinni,“ segja þau að lokum.

 

Þeir sem vilja kynna sér þjónustuna betur geta litiði inn á Facebooksíðuna: Samkomuhúsið Staður.

 

Dagskráin 31. júlí 2019.

 


Skráð af Menningar-Bakki

01.08.2019 07:16

Mennti almenning í málaralist

 

 

 

 

Mennti almenning í málaralist

 

 

 -Öll 147 listaverkin í einstakri stofngjöf Ragnars í Smára

 

til Listasafns ASÍ komin út í veglegri bók

 

 -Stór hluti verkanna sýndur í sumar í Listasafni Árnesinga

 

 -Listin „andlegur næringarkraftur“ 

 

 

Í Listasafni Árnesinga í Hveragerði hefur verið opnuð sýning á völdum verkum úr hinni merku stofngjöf Ragnars Jónssonar í Smára til Listasafns ASÍ árið 1961 og eru á henni lykilverk eftir margra af þekktustu myndlistarmönnum þjóðarinnar á síðustu öld. Sýningin ber heitið Gjöfin til íslenzkrar alþýðu og það er einnig heiti afar veglegrar bókar sem komin er út þar sem fjallað er um öll verkin 147 sem tilheyrðu gjöf Ragnars í Smára og þau sýnd í fallegri hönnun og prentun. 

 

Kristín G. Guðnadóttir listfræðingur er sýningarstjóri og einnig höfundur megintexta bókarinnar en þetta er í fyrsta skipti sem myndir af hinni kunnu stofngjöf koma út í heild. Listasafn ASÍ gefur bókina út og ritstýrði Elísabet Gunnarsdóttir safnstjóri útgáfunni. Fyrsta sending frá prentsmiðjunni seldist strax upp og er sú næsta á leið til landsins.

 

Fyrir almenning að njóta

 

„Safnið rekur ekki eigin sýningarsal um þessar mundir og við það myndast svigrúm til að gefa út bækur að nýju,“ segir Elísabet. Rætt hafði verið um að gefa út bók um sögu safnsins á sextíu ára afmæli þess að tveimur árum liðnum, en svo var ákveðið að ráðast strax í þessa útgáfu þegar samvinna hófst við Listasafn Árnesinga um sumarsýningu safnsins þar sem sýndur er stór hluti stofngjafarinnar.

 

„Það stóð alltaf til að gefa út veglega sýningarskrá en hún óx að vöxtum og varð að þessari fallegu bók með öllum 147 verkunum sem Ragnar gaf,“ segir hún og bætir við að verkin hafi nær öll verið mynduð að nýju fyrir útgáfuna, ártöl einstakra verka endurskoðuð og umtalsverð vinna lögð í að þýða heiti myndanna og allan texta bókarinnar á ensku.

 

„Ragnar gaf fyrst 120 verk en bætti svo talsvert fleirum við því hann lagði metnað í að safnið gæfi góða mynd af íslenskri myndlistarsögu. Og hann vildi að almenningur fengi að njóta þessara verka. Útgáfa bókarinnar er ein leið til að koma verkunum á framfæri við fólkið í landinu.“

 

Hún segir ekki nógu mikið um útgáfu á vönduðum og sögulegum listaverkabókum hér á landi. „En Kristín hefur komið að ritun margra, eins og bókanna um Kjarval og Svavar Guðnason, hún er afar vandaður fagmaður og þekkir stofngjöfina manna best.“ 

 

Kristín ritar vandaðan og upplýsandi inngang um Ragnar og stofngjöfina og þá bendir Elísabet á að stutt umfjöllun sé um valin verk í bókinni, texti sem er lýsandi fyrir tíðarandann, hvað listamennirnir voru að hugsa og hvernig þeir tjáðu sig um verk sín og annarra. Við þekktasta verkið í safngjöfinni, Fjallamjólk Jóhannesar Kjarvals, segir til að mynda: „Þegar Ragnar Jónsson var spurður um það hvaða mynd honum þætti mest gersemi í stofngjöf Listasafns ASÍ svaraði hann: „Ég er ekki í neinum vafa um það, að þar er mesta snilldarverkið Þingvallamyndin hans Kjarvals, sem hann kallar Fjallamjólk. Þar er samanþjöppuð í einum punkti hin mikla snilld málarans og allt það dásamlega rómantíska ofstæki, sem enginn á til nema Kjarval.“ 

 

Bókin er fallega hönnuð af Arnari Fells Gunnarssyni og Arnari Inga Viðarssyni, sem sækja meðal annars innblástur í hönnun listaverkabókanna sem Listasafn ASÍ gaf út á árum áður en fella verkið jafnframt að samtímalegum straumum.

 

Stofnun safnsins stórtíðindi

 

Í grein Kristínar G. Guðnadóttur „Til að mennta almenning í málaralist“ segir að listaverkagjöf Ragnars til Alþýðusambands Íslands hafi verið stórfengleg. Í bréfi hans til sambandsins segir: „Myndir þessar hef ég ákveðið að gefa samtökum íslenskra erfiðismanna – fyrir þeirra hönd Alþýðusambandi Íslands – í minningu Erlends Guðmundssonar, Unuhúsi. … Ég hef í meira en þrjá áratugi safnað listaverkum eftir íslenzka málara og ég ákvað fyrir tveimur áratugum, að Helgafell skyldi koma á fót vísi að alþýðulistasafni […] til að mennta almenning í málaralist […] Myndirnar munu vera um 120, rúm 100 málverk, sum mjög stór, eftir flesta helztu málara okkar. Mun ég síðar bæta við myndum eftir nokkra málara, þannig að safnið megi  vera yfirlit um ísl. nútímalist.“

 

Kristín segir að í ljósi þess að á þessum tíma voru einungis starfrækt tvö listasöfn á Íslandi hafi stofnun nýs listasafns verið stórtíðindi í íslensku menningarlífi.


Ragnar Jónsson ólst upp á Eyrarbakka en flutti sextán ára til Reykjavíkur, lauk verslunarprófi og hóf störf hjá smjörlíkisgerðinni Smára sem hann varð fljótlega hluthafi í.

Honum vegnaði vel í viðskiptum en varð einnig upptendraður af menningaráhuga; hann kynntist mörgum merkum listamönnum og listunnendum á borð við Erlend Guðmundsson í Unuhúsi. Kristín skrifar: „Ragnar varð fljótt mikill menningarpostuli í orðsins fyllstu merkingu og brann fyrir þá hugsjón að veita sem flestum aðgang að fögrum listum. Upptendraður af jafnt myndlist, tónlist og bókmenntum vildi hann deila með sem flestum þeirri stórkostlegu gleði sem hann fann á vettvangi listarinnar; jafnt sem stórvirkur bókaútgefandi og eigandi bókaútgáfu Helgafells, listaverkasafnari, útgefandi eftirprentana af listaverkum, útgefandi listaverkabóka, og frumkvöðull að ritun íslenskrar listasögu.“ Kristín segir að listin hafi verið Ragnari lífsnauðsyn og vitnar í orð hans: „Dýrið, sem fæðist, leitar uppi samkvæmt eðlislögmáli spena eða brjóst, þar sem næringu er að finna. Listin er mér sams konar veruleiki – andlegur næringarkraftur, sem viðheldur heilsu minni og lífi.“ Ragnar byrjaði að safna málverkum um 1930 og, að sögn Kristínar, sagði hann „að kjarni safnsins væru verk „eftir fimm þekktustu listmálarana“, sem að hans mati voru þeir Ásgrímur Jónsson, Jóhannes S. Kjarval, Jón Stefánsson, Gunnlaugur Scheving og Þorvaldur Skúlason.“ 

 

Skerpa á sérstöðunni

 

Þegar spurt er hvort unnið sé að því að koma aftur upp sýningarsal í nafni Listasafns ASÍ segir Elísabet svo vera. Nú sé aðeins millibilsástand eftir að húsnæðið við Freyjugötu var selt. „Þegar ég tók við starfi safnstjóra lagði ég fram tillögu um að við gæfum okkur fimm ár til að móta sýningarstefnuna og finna nýtt húsnæði við hæfi. Tillagan var samþykkt. Þar horfum við meðal annars til hugmynda Ragnars í Smára um safnhús sem setur mannlífið í fyrsta sæti og þangað til það er orðið að veruleika höldum við áfram að kalla eftir tillögum frá listamönnum og setja upp sýningar á völdum stöðum víðsvegar um landið.

 

Við viljum skerpa á sérstöðu þessa safns meðal íslenskra safna. Færa það nær fólkinu. Það er ólíklegt að við finnum húsnæði á viðráðanlegu verði í Reykjavík, og þar eru líka mörg söfn fyrir, en hugmyndin er að koma safninu upp húsnæði í fallegu náttúrulegu umhverfi og vera þar með sýningarsal en líka opnar geymslur þar sem öll verkin eru ávallt sýnileg.“

 

Listaverkaeign Listasafns ASÍ er nú yfir fjögur þúsund verk og eru um tvö hundruð og fimmtíu þeirra í útláni á hverjum tíma, meðal annars í sölum Alþingis og í ráðuneytum.

 

„Nú má sjá úrval margra bestu verkanna í stofngjöf Ragnars í Listasafni Árnesinga og ég vil hvetja fólk til að koma við og skoða,“ segir Elísabet.

 

 

Morgunblaðið 1. júlí 2019.
 
Skráð af Menningar-Bakki.

 

31.07.2019 10:21

Byggðasafn Árnesinga kaupir Búðarstíg 22

 

 

Búðarstígur 22 árið 1986 þegar Alpan var nýbyrjað að nýta húsin.

Myndina tók Sigurður Jónsson en hún er varðveitt í Héraðsskjalasafn Árnesinga.

 

 

  Byggðasafn Árnesinga

 

kaupir Búðarstíg 22 á Eyrarbakka

 

 

Framundan eru breytingar til betri vegar  á húsnæðismálum Byggðasafns Árnesinga. Mjög brýnt hefur verið að stækka eða bæta við varðveisluaðstöðu safnsins þar sem núverandi aðstaða er sprungin. Stórir gripir hafa um árabil verið geymdir í Mundakotsgeymslu á Eyrarbakka sem er algjörlega óviðunnandi geymsluaðstaða og ennfremur bíður stór safngripaeign frá sveitarfélaginu Ölfusi þess að komast í viðunnandi húsnæði. Í apríl keypti Byggðasafn Árnesinga Búðarstíg 22 á Eyrarbakka, hið svokallaða Alpan-hús, undir starfsemina og var núverandi þjónustuhús að Hafnarbrú 3 tekið upp í. Kaupin áttu sér stað í kjölfar aukafundar Héraðsnefndar Árnesinga, eiganda safnsins,  sem snemma árs samþykkti að fara þessa leið til að leysa úr húsnæðisvandanum. Starfsemin færist úr 560 fermetrum í Hafnarbrúnni og Mundakotsskemmu í 1700 fermetra í Búðarstíg 22. Verða geymslur safnsins því allar á einum stað. Í Búðarstíg 22 verða einnig skrifstofur safnsins, verulega bætt þjónustuaðstaða fyrir almenning ásamt rými sem gefur möguleika til fyrirlestrahalds o.fl. Ætlunin að  leigja Þjóðminjasafni Íslands ríflega 400 fermetra undir ýmsa muni sína. Flutningur safnsins úr Hafnarbrú 3  og Mundakotsskemmu í Búðarstíg 22 mun fara fram í nokkrum áföngum og er stefnt að því að flutningum verði lokið árið 2022.

 

Saga Búðarstígs 22

 

Byggingin að Búðarstíg 22 er vestarlega á Eyrarbakka, nálægt höfninni og við aðalgötuna á Eyrarbakka. Elstu hlutar byggingarinnar, skrifstofuhlutinn og gamla fiskvinnslan,  eru frá 1970. Húsið byggði útgerð Þorláks helga ÁR 11 til að vinna aflann úr skipinu. Þorlákur helgi hf. var í eigu Sverris Bjarnfinnssonar og Vigfúsar Jónssonar fyrrv. oddvita. Árið 1973 seldu þeir fyrirtækið sem hlaut þá nafnið Einarshöfn hf.  Þá var vinnslusalur stækkaður í norðvestur árið 1973 og árið 1981 var byggð stór steinsteypt skemma austan við vinnslusalinn. Starfsemi Einarshafnar hætti í kjölfar þess að hlutafélagið Alpan var stofnað í mars árið 1984. Lagðist þá fiskvinnslan niður og í staðinn kom álpönnuframleiðsla. Framleiðslan hófst sumarið 1985 og stóð í rúma tvo áratugi.  Framleiðsla Alpan voru álpönnur steyptar úr fljótandi áli og húðaðar. Starfsemin hófst með þeim hætti að keypt var álpönnuverksmiðja í Danmörku og tæki þess flutt í Búðarstíg 22 í nokkrum skrefum. Mikill uppgangur var á fyrirtækinu á 9. áratugnum og var það stærsti aðilinn á Íslandi sem fullvann ál. Um 40 manns unnu hjá Alpan árið 1989. Það ár seldi fyrirtækið 300 þúsund álpönnur og fór framleiðslan á markaði á Íslandi, í Bandaríkjunum og Evrópu. Árið 2005 störfuðu 25 manns hjá Alpan og er þess getið í frétt að íslenska kokkalandsliðið noti eingöngu pönnur og potta frá fyrirtækinu. Framleiðslan það ár var 140 þúsund stk. Síðan fór að fjara undan starfseminni og á tímum óhagstæðs gengis krónunnar reyndist erfitt að  standast samkeppni um verð. Margir starfsmanna voru erlendir á síðustu starfsárum verksmiðjunnar sem að lokum flutt til láglaunalandsins Rúmeníu. Alpan á Eyrarbakka hætti starfsemi um mitt ár 2006. Eftir að álpönnuverksmiðja Alpan fór frá Eyrarbakka keypti Fasteignafélagið Eyrarbakki húsakynnin og lét gera að húsbíla- og tjaldvagnageymslu. Einhver eigendaskipti voru á húsinu næstu árin og voru þar um skeið stundaðar sperrusmíðar fyrir húsbyggingar.  Síðast eignaðist félagið Alpan ehf húsið og það gegndi aftur hlutverki húsbíla- og tjaldvagnageymslu til vorsins 2019 að Byggðasafn Árnesinga keypti það.

 

Fjórir húshlutar

 

Byggingin að Búðarstíg 22 skiptist í fjóra húshluta. Elst er skrifstofurýmið  215 fermetra og er lengst í vestur. Þar er ætlunin að skrifstofur, snyrtingar og fjölnota salur verði í framtíðinni fyrir sýningar, fyrirlestra, fundi og félagsstarf. Til hliðar er upprunalegi vinnslusalurinn sem er 453 fermetra að stærð sem kalla mætti miðrými. Er ætlunin að þar verði obbinn af safnkostinum varðveittur í framtíðinni. Norðvestur af miðrýminu er 168 fermetra  salur,sem kalla má norðurrými, þar sem verður í framtíðinni aðalinngangur í þann sal og miðrýmið. Þar verða einnig geymdir margvíslegir hlutir sem tengjast safnastarfsemi eins og sýningapúlt, gínur, plexígler, gamlar sérsýningar, og annað sem ekki telst til skráðra safngripa. Austast er skemman sem er um 861 fermetri að stærð. Skemmunni verður skipt í tvennt með skilrúmi. Þjóðminjasafni Íslands verður leigður nyrðri hlutinn til 20 ára. Byggðasafn Árnesinga hyggst nýta syðri hlutann undir stóru gripina sína, eins og bíla, báta, vélar og merka baðstofuviði.

 

Aðlögun að nýrri starfsemi

 

Unnið er að viðgerðum á Búðarstíg 22 og er ætlunin að taka austasta hlutann, skemmuna, í notkun næsta vetur. Aðlaga verður allt húsið að þörfum safnsins og verður því verkefni kaflaskipt á nokkur ár. Ljóst er á ástandi hússins alls að skipta þarf um ystu klæðningu á þaki og veggjum í eldri hlutum hússins og aðlaga það að innan í samræmi við kröfur sem Safnaráð gerir til safnhúsa. Forvörður verður til ráðgjafar á öllum stigum verkefnisins. Menn á vegum Gríms Jónssonar verktaka, GJverk,  sjá um framkvæmdir og er núna verið að setja upp nýjar tengingar milli skemmunnar og miðrýmis. Einnig verður í þessum áfanga settur upp brunaheldur milliveggur sem skiptir skemmunni í tvennt, nýjar iðnaðarhurðir verða í húsinu, gólf lagfærð og máluð og sett öryggiskerfi sem er skylda hjá söfnum. Umsjón með framkvæmdum er í höndum byggingarnefndar Búðarstígs 22 sem fundar eftir þörfum.

 

En hvað mun þetta kosta?

 

 Í upphafi er þess að geta að Búðarstígur 22 var keyptur á 87,5 milljónir króna eða 51 þúsund krónur hver fermetri og Hafnarbrú 3 var tekinn uppí og seld á 37 milljónir króna. Ljóst er að leggja þarf í margháttaðar viðgerðir  á húsinu og aðlögun að komandi starfsemi en til eru haldgóðar upplýsingar um væntanlegan kostnað. Sótt hefur verið um styrk til Ríkissjóðs í samræmi við Safnalög sem veitir viðurkenndum söfnum heimild til að sækja um styrki til kaupa eða bygginga á safnhúsum. Er því ljóst að farin er hagkvæm leið til að leysa húsnæðisvanda safnsins.  Framlög Héraðsnefndar Árnesinga til Byggðasafns Árnesinga verða væntanlega hækkuð. Einnig má benda á leigutekjur sem safnið mun fá af leigðu húsnæði. Leigutekjur munu koma frá Þjóðminjasafni, mögulega útleigu á sal og spennistöðvar HS-veitna sem er til staðar í húsinu.

 

Húsnæðisvandinn leystur

 

Með tilkomu Búðarstígs 22 verður leyst úr margra ára húsnæðisvanda safnsins en það býr við mikil þrengsli í núverandi geymslum sínum.  Búðarstígur 22 mun gera safninu kleyft að varðveita, rannsaka, forverja og sýna þennan menningararf Árnesinga við bestu skilyrði sem völ er á. Innri aðstaða í safngeymslum og vinnuaðstaða er jafn mikilvæg ytri aðstöðu sem gestir sjá á sýningum. Búðarstígur 22 verður hluti af starfsemi Byggðasafns Árnesinga, verður einskonar hjarta safnsins og mun þjóna fjölbreyttu sýningahaldi í Húsinu, Kirkjubæ, Eggjaskúrnum og Sjóminjasafninu á Eyrarbakka. Staðsetning húsnæðisins er ákjósanleg fyrir safnið.

 

Rík ástæða er til að þakka framsýnum héraðsnefndarmönnum þessa ákvörðun að kaupa Búðarstíg 22 og er ekki nokkur vafi á að menningarstarf héraðsins mun eflast með tilkomu þessarar aðstöðu og varðveisla gripa tryggð til framtíðar.

 

Lýður Pálsson

safnstjóri Byggðasafns Árnesinga

www.byggdasafn.is

 

 

Skráð af Menningar-Bakki

30.07.2019 17:13

Tíu milljónir króna í kynningarherferð fyrir Árborg

 

 
 

Á Selfossi.  Ljósm.: sunnlenska.is/Guðmundur Karl

 

 

Tíu milljónir króna

 

í kynningarherferð fyrir Árborg

 

 

Bæjarráð Árborgar samþykkti á síðasta fundi sínum að sveitarfélagið verji allt að 10 milljónum króna í kynningar- og ímyndarherferð þar sem áhugasöm fyrirtæki á svæðinu munu einnig taka þátt.

 

Í tillögu bæjarráðs segir að megininntak átaksins sé að draga athygli að jákvæðum breytingum sem eru að eiga sér stað á Selfossi og þeim uppbyggjandi áhrifum sem þær munu hafa á næstu árum. Áhersluatriði átaksins verða mannlíf, vöxtur og náttúra.

 

Samhliða verða Eyrarbakki, Stokkseyri og Sandvíkurhreppur kynntir sem áhugaverðir staðir til heimsókna, búsetu og atvinnureksturs.

 

Í tillögunni segir ennfremur að fyrirtæki og framkvæmdaaðilar á Selfossi hafi sýnt mikinn áhuga á að koma að slíkri kynningarherferð, ásamt sveitarfélaginu, með það að markmiði að auðga mannlíf og fjölga hér tækifærum.

 

Efni kynningarátaksins verður tekið upp nú í sumar og mun verða birt í öllum fjölmiðlum í haust og eftir áramót. Sérstök áhersla verður lögð á samfélagsmiðla, en einnig hefðbundna fjölmiðla.
Skráð af Menningar-Bakki.