Menningar-Bakki * Viðhalda og efla þjóðlega menningararfleið til sjávar og sveita*
-------- Alþýðuhúsið á Eyrarbakka - Vinir alþýðunnar - Á undan sinni framtíð --- "Stærra í hugum okkar en við sjálfir gerum okkur grein fyrir" ---

09.02.2020 13:31

Eins og að mála í snjóinn með pensli

 

Sjá má myndbandið hér:
https://vimeo.com/388520984?fbclid=IwAR2RRsdQefS7W8hln39DIWapGfSMVY7zMiHoplWMBXzkIaR0ewpF99DqVpk

 

 

Eins og að mála

 

í snjóinn með pensli

 

 

Víðir Björnsson á Eyrarbakka og Rúnar Pétur Hjörleifsson hafa gefið út snjóbrettamyndina Volcano Lines sem hefur verið tekið vel í snjóbrettaheiminum. Í henni fer íslensk náttúra með aðalhlutverkið ásamt snjóbrettatilþrifum Rúnars Péturs.

 

Síðastliðinn sunnudag, 2. febrúar 2020, kom út snjóbrettamyndin Vol­cano Lines en hún er samstarfsverkefni ljósmyndarans Víðis Björnssonar og snjóbrettakappans Rúnars Péturs Hjörleifssonar. Myndin hefur nú þegar vakið nokkra athygli innan snjóbrettaheimsins.

„Viðtökurnar við þessari mynd hafa farið fram úr öllum vonum og nú þegar er búið að fjalla um hana nánast úti um allan heim. Stærstu snjóbrettasíðurnar hafa verið að deila þessu og við gætum ekki verið glaðari með það,“ segir Víðir.

 

Líkaði stíllinn

Rúnar Pétur hafði samband við Víði í gegnum samskiptamiðilinn Insta­gram árið 2018.

„Ég var mikið að skjóta myndir af íslenskri náttúru og landslagi á þeim tíma. Rúnari líkaði stíllinn minn og hvernig mín sýn á náttúruna birtist á samskiptamiðlinum. Okkur langaði að reyna að blanda þessu tvennu saman, náttúrunni og snjóbrettaíþróttinni,“ segir Víðir.

Víðir hefur alltaf haft áhuga á ljósmyndun en pabbi hans er ljósmyndari.

„Ég er þakklátur fyrir að hafa fengið myndaugað frá honum. Það var samt ekki fyrr en árið 2014 sem ég virkilega sökkti mér í þetta. Fyrir það upplifði ég eins ég væri að eyða lífi mínu í starf sem ég hafði engan áhuga á, svo var maður bara í Play­station á kvöldin. Loks fékk ég nóg af því að vera á nokkurs konar sjálfstýringu, að gera eitthvað sem gaf mér enga gleði. Þannig að ég sagði upp vinnunni og skipti út Play­station-tölvunni fyrir myndavél. Í kjölfarið eyddi ég öllum mínum tíma í að mynda og áttaði mig fljótt á að þetta væri það sem ég vildi gera í lífinu,“ segir Víðir.

 

Var smá efins

Hann segir þá Rúnar eiga það sameiginlegt að vera ævintýragjarnir og miklir náttúruelskendur.

„Mig langaði að finna leið til að tengja þessa hluti saman í gegnum vinnu. Síðustu ár hef ég sogast mikið inn í heim jaðarsports á Íslandi og áttaði mig á því að þarna væri grundvöllur fyrir því að vera úti í íslenskri náttúru á meðan þú ert að vinna.“

Fyrstu tökurnar gengu svo vel að þeir ákváðu um leið að þeir myndu fara í frekara samstarf.

„Ég verð að viðurkenna að ég var smá efins með að hoppa í flugvél til Egilsstaða til þess að hitta einhvern snjóbrettastrák sem ég hafði aldrei hitt áður, en áður en ég vissi af var ég kominn upp í vélina. Þegar ég lendi þar kemur Rúnar og við förum beint í Neskaupstað í mat til mömmu hans. Eftir klukkutíma með Rúnari og fjölskyldu hans áttaði ég mig á hvað hann er yndisleg manneskja. Þarna var ég mættur heim til fjölskyldu hans og mér leið strax eins og ég væri partur af henni. Við mynduðum saman í nokkra daga og það gekk eins og í sögu. Þetta var hreinlega of gaman. Þegar við fórum að renna yfir efnið áttuðum við okkur á því hvað það var gott. Þetta var svo óendanlega mikið af flottu efni að við urðum að gera eitthvað úr þessu, slíkt efni hefur líka ekkert að gera í einhverri möppu í tölvunni þinni þar sem þú einn sérð það,“ segir Víðir.

 

Skírðu hitarann Júdas

Víðir segir Rúnar Pétur hafa komið með nafnið á myndinni.

„Hann á nafnið alveg skuldlaust. Volcano Lines hljómaði vel og nafnið er viðeigandi. Snjólínurnar niður fjöllin minntu oft á eldgos, það var eins og snjórinn væri að leka niður fjallið eins og brennandi hraun. Svo líta líka fjöllin mörg út eins og eldfjöll og ég er ekki frá því að eitthvað af þeim sé það. Hugmyndin á bak við myndina var að fanga fallega íslenska náttúru og landslag í bland við þennan gullfallega snjóbrettastíl sem Rúnar er með. Það er oft eins og Rúnar sé að mála í snjóinn með pensli á leiðinni niður.“

Víðir segir tökurnar hafa gengið vel þótt tæknin hafi stundum verið að stríða þeim.

„Bíllinn bilaði áður en við náðum að skjóta nokkurn skapaðan hlut. Það var mikið um hrakföll.

Hitarinn í húsbílnum hans Rúnars tók oft upp á því að bila, þess vegna skírðum við hann Júdas.“

 

Alltaf á brimbretti

Sjálfur var Víðir mikið á snjóbretti sem unglingur, en lét sportið vera í mörg ár eftir það.

„Ég var aðeins farinn að dusta rykið af brettinu áður en Rúnar hafði samband við mig. Ég verð að viðurkenna, sem gamall sjóbretta­strákur að það kitlaði mikið að stökkva í þetta verkefni með Rúnari. Það er Rúnari að þakka að í dag er ég orðinn bara nokkuð seigur á snjóbrettinu aftur,“ segir Víðir og brosir.

Undanfarin þrjú ár hefur brimbrettaíþróttin átt hug Víðis allan.

„Þetta sport gjörsamlega eyðilagði líf mitt á sama tíma og það bjargaði því. Þetta er skemmtilegasta og erfiðasta sport sem er þarna úti að mínu mati. Ég var farinn að hafna mjög skemmtilegum verkefnum þegar það var góð ölduspá. Ég hef alltaf verið háður sjónum, hann er svo magnað fyrirbæri. Ég er alinn upp á Eyrarbakka og á Flateyri á sumrin þannig að sjórinn hefur alltaf fylgt mér. Vinur minn sagði við mig: „Af hverju ertu að synda í öldunum? Af hverju prófarðu ekki bara að fara á brimbretti?“ og þar með varð ekki aftur snúið,“ segir hann

Víðir og Rúnar eru komnir langt á leið með næstu mynd.

„Ég var að koma úr ferð í Ölpunum hjá Rúnari, þar sem hann býr í húsbílnum sínum. Þar tókum við nokkur skot og plönuðum næstu verkefni. Okkur langar að gera eina mynd á hverju ári sem er alltaf skotin hérlendis. Við erum einnig með nokkur önnur verkefni í pípunum sem koma betur í ljós síðar.“
 


Fréttablaðið

Steingerður Sonja Þórisdóttir

Miðvikudagur 5. febrúar 2020Sjá má myndbandið hér:

https://www.facebook.com/vidirb/videos/10162846464205363/

UzpfSTUyMzE3NTM2MjozMDYwNjExMjk0OTk0MTQ6MTA6MDoxNT

gzMDQ5NTk5OjMxNDcwMTg3ODQ3MjUxODcz/

 

 

 

Skráð af Menningar-Bakki.

 

02.02.2020 07:35

2. febrúar - Kyndilmessa

 

 

 

 

 

 

2. febrúar - Kyndilmessa

 

 

HREINSUNARHÁTÍÐ Maríu meyjar er í dag 40 dögum eftir fæðingu Krists og þá er mikil ljósadýrð við katólska guðsþjónustu og dagurinn því kenndur við kerti eða kyndla og íslenska nafnið  -Kyndilmessa-  þaðan upprunnið segir í Sögu Daganna.

 

Þar segir ennfremur að veðrabrigði þyki oft verða um þetta leyti á meginlandi Evrópu.

 

Haft er eftir bónda austur á Skeiðum eftir miðja 20. öld þegar hann sá sólina setjast á kyndilmessu: "Hún ætlar að setjast í heiði, bölvuð."

 

Á sólskin þennan dag að vita á snjóa síðar og hefur sú speki verið umort á íslensku eftir erlendum vísubrotum eða spakmælum og fer hér á eftir:

 

Ef í heiði sólin sést,

á sjálfa kyndilmessu

snjóa vænta máttu mest

maður upp frá þessu.


Skráð af Menningar-Bakki.

02.02.2020 07:14

30 ár liðin frá Þjóðarsáttinni

 


F.v.: Ásmundur Stefánsson, Haukur Halldórsson og Einar Oddur Kristjánsson. 

 

 

 

30 ár liðin frá Þjóðarsáttinni

 

 

30 ár eru um þessar mundir liðin frá gerð Þjóðarsáttarinnar svokölluðu, en þá sameinuðust vinnuveitendur, verkalýðsfélög og stjórnvöld um að ná tökum á verðbólgu og tryggja efnahagslegan stöðugleika.

 

Þegar þarna var komið sögu hafði verðbólgan mælst tvöfalt og allt að þrefalt meiri en hún hefur verið nú síðustu ár. Þjóðarsáttin byggði á gagnkvæmu trausti og voru kjarasamningar í kjölfarið gerði til langs tíma, eða allt upp í fjögur ár.

 

Langborð þurfti þann 2. febrúar árið 1990 þegar þjóðarsáttarsamningarnir var undirritaðir, svo margir voru þar til að skrifa undir fyrir hönd sinna skjólstæðinga. Þarna voru Ásmundur Stefánsson forseti ASÍ, Haukur Halldórsson, formaður stéttarsambands bænda, Einar Oddur Kristjánsson, formaður Vinnuveitendasambands Íslands, Guðmundur J. Guðmundsson, formaður Dagsbrúnar, Ögmundur Jónasson, formaður BSRB og fleiri. 

 

„Markmiðið sem við setjum okkur sameiginlega eru skynsamleg og okkur afskaplega mikilvæg. Og það sem meira er við ætlum í sameiningu að standa við þau,“ sagði Þórarinn V. Þórarinsson, framkvæmdastjóri Vinnuveitendasambands Íslands. „Meginárangurinn verður að komast niður á það að lifa hér við verðbólgu sem er svipuð því sem gerist í nágrannalöndunum. Að verðlagið hætti að hækka dag frá degi, gengið að falla frá mánuði til mánaðar, vextirnir upp og ofan og þannig að það verði hægt að skipuleggja og vinna markvisst í uppbyggingu í atvinnurekstrinum.“

 

„Við erum að taka áhættu með því að gera samninga af því tagi sem við gerum. En það er kannski líka til nokkuð mikils að vinna ef okkur tekst að ná þeim árangri að það stórlækki verðbólga, jafnframt því sem kaupmátturinn er traustur, þá er árangurinn mikils virði. Og við höfum undirritað það með þessum samningi að við ætlum okkar að vinna að því að sú lína sem er lögð með þessum samningi sé sú lína sem ráði. Að okkar félög fylgi hennar og aðrir geri það líka,“ sagði Ásmundur Stefánsson, forseti ASÍ, eftir undirritun samninganna. 

 

„Við afstýrum lífskjarahruni sem blasir við í dag,“svaraði Guðmundur J. Guðmundsson, formaður Dagsbrúnar, aðspurður um ávinninginn af samningunum. „Ef einhver hópur fer að vaða upp í hækkunum fyrir ofan almennt verkafólk, þá er þetta búið. Menn þurfa að átta sig á því að það verður að byggjast á gagnkvæmu jafnræði á milli hópa. Það þýðir ekki að keyra áfram einhverjir sérhópar upp yfir aðra. Þá er þetta hrunið og það hrynur yfir þá hina sömu.“

 Skráð af Menningar-Bakki.

 

 

01.02.2020 21:33

1. febrúrar 1904 - Hannes Hafstein - fyrsti ráðherra Íslands

 Hannes Hafstein (1861 - 1922).

 

 

             1. febrúrar 1904

 

– Hannes Hafstein - fyrsti ráðherra Íslands

 

 

Ráðherraembættinu, sem varð til með heimastjórninni, fylgdu meiri völd og ábyrgð en nokkurri stöðu á Íslandi öldum saman. Í sérmálum Íslands tók ráðherrann við því valdi sem danska stjórnin hafði áður. Hann var að vísu háðari vilja Alþingis en danski Íslandsráðherrann hafði verið. Hins vegar var staða hans til þess fallin að gefa honum forystuhlutverk á þingi. Svo var það nýtt ábyrgðarhlutverk, og ekki vandaminnsti þáttur ráðherrastarfsins, að halda á málstað Íslands gagnvart Danmörku.
 

Heimastjórnarflokkurinn hafði unnið þingmeirihluta í kosningum 1903 og gerði því tilkall til ráðherraembættisins, en lét konungi eftir að ákveða hvaða flokksmanni það yrði falið. Það var því í raun ráðherra Íslandsmála í dönsku stjórninni sem þurfti að ganga úr skugga um hvaða heimastjórnarmaður væri best til þess fallinn að Hannes Hafstein Þingsetninghalda trúnaði starfhæfs meirihluta á þingi og fara með hin vandasömu samskipti við konung og ríkisstjórn Dana. Fyrir valinu varð Hannes Hafstein, sýslumaður og bæjarfógeti á Ísafirði. Hann var af yngri kynslóð stjórnmálamanna, hafði aðeins setið á tveimur þingum, en naut þó mikils trausts í flokki sínum. Honum hafði verið falið, þegar stjórnarskipti urðu í Danmörku 1901, að fara og túlka sjónarmið meirihluta Alþingis fyrir hinum nýju valdhöfum. Sendiförin gaf honum tækifæri til að sanna, bæði fyrir Dönum og Íslendingum, hæfileika sína til að gegna hinum diplómatíska þætti ráðherrastarfsins.

 

Hannes Hafstein var fæddur 4. desember 1861, sonur amtmannshjónanna á Möðruvöllum, en var barn að aldri þegar faðir hans missti embættið og ólst því ekki upp sem höfðingjasonur, en ættingjar studdu hann til mennta. Hannes vakti athygli í menntaskóla fyrir námsgáfur og forystuhæfileika, og var þá þegar byrjaður að yrkja.

Á námsárum sínum við Kaupmannahafnarháskóla varð hann þjóðfrægur sem ungskáld: skáld lífsgleði, ásta og karlmannlegrar bjartsýni. Hannes kom heim sem lögfræðingur, stofnaði heimili og gerðist embættismaður, fyrst í Reykjavík en síðan bæjarfógeti og sýslumaður á Ísafirði.

 

Sem sýslumaður Ísfirðinga varð hann frægur af mannskæðri svaðilför á hendur erlendum landhelgisbrjót á Dýrafirði. Hannes Hafstein var fyrst kjörinn á þing 1901fyrir Ísafjarðarsýslu og var síðan stjórnmálamaður í fremstu röð meðan honum entist líf og heilsa.

 

Hannes var fyrsti ráðherra Íslands 1904-1909 og öðru sinni 1912-1914.
 

Eins og allir stjórnmálamenn var hann umdeildur, en eignaðist marga einlæga aðdáendur. Hans er einnig minnst fyrir skáldskap sinn og fyrir fágæta glæsimennsku í sjón og framkomu.

 

Hannes Hafstein lést 13. desember 1922.

 

 

Hannes Hafstein við Stjórnarráðið í Reykjavík. Ljósm.: BIB
Skráð af Menningar-Bakki.

31.01.2020 19:32

Merkir Íslendingar - Sigfús Einarsson

 

 
Sigfús Einarsson (1877 - 1939).
Draumalandið - 
http://www.youtube.com/watch?v=UHqzjNK5524

 

 

Merkir Íslendingar - Sigfús Einarsson

 

 

Sigfús Einarsson tónskáld fæddist á Eyrarbakka 30. janúar 1877. Foreldrar hans voru Einar Jónsson, kaupmaður á Eyrarbakka, og Guðrún Jónsdóttir frá Hafnarfirði.

 

Einar var af Bergsætt eins og frændur hans, þeir organistar, Bjarni, Jón og Ísólfur Pálssynir, synir Ísólfs, dr. Páll, tónskáld og dómorganisti, og Sigurður, organisti í Fríkirkjunni í Reykjavík, og sonur Bjarna, Friðrik, tónskáld og organisti í Hafnarfirði.

 

Eiginkona Sigfúsar var Valborg Inger Elisabeth Hellemann, dönsk söngkona og píanóleikari, en þau eignuðust tvö börn, Elsu Sigfúss söngkonu, og Einar Sigfússon, tónlistarkennara og fiðluleikara við sinfóníuhljómsveitina í Árósum.

 

Sigfús lauk stúdentsprófi frá Latínuskólanum 1898. Hann lærði söng í Kaupmannahöfn hjá Valdemar Lincke óperusöngvara og hljómfræði hjá August Enna, fékk styrk hjá Alþingi og hóf að kynna sér íslenzk þjóðlög og raddsetja þau.

 

Útsetningar á íslenskum þjóðlögum og hrífandi sönglög við ættjarðarljóð skáldanna voru þá veigamikill þáttur í þjóðfrelsisvakningu þessara ára en þá stemmingu má vel merkja í ýmsum lögum Sigfúsar, s.s. Þú álfu vorrar yngsta land og Rís þú unga Íslands merki. Síðan þekkja allir Íslendingar lagið Draumalandið eftir Sigfús.

 

Sigfús og Valborg giftu sig 1906 og settust þá að í Reykjavík. Þau lifðu fyrst á einkasöngkennslu, en Sigfús kenndi síðan söng við Kennraskólann frá stofnun, 1908, varð dómorganisti og söngkennari Menntaskólans 1913 og kenndi guðfræðistúdentum tón- og sálmasöng 1911-29. Auk þess stjórnaði Sigfús fjölda kóra um árabil og var skipaður söngmálastjóri fyrir Alþingishátíðina 1930. Hann stofnaði Hljómsveit Reykjavíkur, ásamt Jóni Laxdal, 1925 og stjórnaði henni fyrstu tvö árin. Þá endurskoðaði hann kirkjusöngsbók Jónasar Helgasonar og gaf út sína eigin, vann að útgáfu Sálmasöngsbókar og gaf út Íslenzkt sönglagasafn I og II svo fátt eitt sé nefnt.

 

Sigfús lést 10. maí 1939.
 Skráð af Menningar-Bakki.

26.01.2020 12:42

Vestfirðingur í Eyrarbakkaprestakall

 

 

Séra Arnaldur Bárðarson í Eyrarbakkakirkju í dag.

 

 

Vestfirðingur í Eyrarbakkaprestakall

 

 

Umsóknarfrestur um Eyrarbakkaprestakall í Suðurprófastsdæmi rann út 18. desember 2019 og sótti einn um, sr. Arnaldur Bárðarson. Auglýst var eftir sóknarpresti til þjónustu við prestakallið frá og með 1. febrúar 2020.


Kjörnefnd kaus sr. Arnald til starfans og hefur biskup Íslands, sr. Agnes M. Sigurðardóttir, staðfest ráðningu hans.


Í samræmi við þær breytingar sem nú hafa orðið á starfsmannamálum þjóðkirkjunnar er sr. Arnaldur ráðinn ótímabundið í starfið með hefðbundnum uppsagnarfresti.


Í Eyrarbakkaprestakalli eru þrjár sóknir, Eyrarbakka-, Stokkseyrar- og Gaulverjabæjarsókn og kirkja er í hverri sókn. Íbúafjöldi í prestakallinu eru 1.443. Prestakallið er í tveimur sveitarfélögum og nær yfir þann hluta Árborgar sem næst er sjó og syðsta hluta Flóahrepps. Einn sóknarprestur starfar í prestakallinu, en umtalsvert samstarf er við presta Selfossprestakalls.


Arnaldur Bárðarson er fæddur 2. júní 1966 á Akureyri og ólst þar upp. Hann var við nám í Menntaskólanum á Akureyri 1982-1985 og lauk stúdentspróf frá Fjölbrautaskólanum við Ármúla 1989. Kandídatsprófi í guðræði lauk hann frá Háskóla Íslands 1995. Stundaði nám í uppeldis- og kennslufræðum við Háskólann á Akureyri 1996 og lauk meistarapróf í menntunarfræðum frá Háskólanum á Akureyri 2012. Sr. Arnaldur stundaði framhaldsnám í kennimannlegri guðfræði við norska háskóla á meistarastigi um árs skeið. Þá hefur hann leyfisbréf sem grunn- og framhaldsskólakennari.


Sr. Arnaldur var fræðslufulltrúi kirkjunnar á Norðurlandi frá hausti 1992 til febrúar 1996. Hann stundaði kennslu við Gagnfræðaskóla Akureyrar, Grunnskólann á Raufarhöfn, Stórutjarnaskóla, Hlíðarskóla á Akureyri, Framhaldsskólann á Laugum og Hadsel Videregående skole.


Sr. Arnaldur var sóknarprestur í Raufarhafnarprestakalli frá í febrúar 1996 og vígður 25. febrúar s.á. Sóknarprestur í Ljósavatnsprestakalli frá júní 1997 til vors 2003. Prestur við Glerárkirkju á Akureyri frá 2003 til ársloka 2009. Sóknarprestur í norsku kirkjunni frá ársbyrjun 2010 til aprílloka 2017. Var við hótelrekstur í Hafnarfirði frá 2017 til 2019. Hefur verið afleysingarprestur í Breiðabólstaðar-, Bústaðar-, Þorlákshafnar- og Eyrarbakkaprestaköllum.


Eiginkona sr. Arnalds er sr. Ingibjörg Jóhannsdóttir áður prestur í norsku kirkjunni og menntunarfræðingur. Þau eiga fimm syni.


Rætur Arnaldar í föðurætt eru á Ísafjörð og í móðurætt á Akureyri.

 


Messa var í Eyrarbakkakirkju í morgun 26. janúar 2020 og Björn Ingi Bjarnason færði til myndar.

 

.

.

.

.

.

.

 

 

 


Skráð af Menningar-Bakki.

 

 

26.01.2020 09:50

Óðinn 60 ára

 


Varðskipið Óðinn við bryggju á Flateyri á sjómannadeginum árið 1996. Ljósm.: BIB

 

 

 

Óðinn 60 ára

 

 

 

 Í dag sunnudaginn 26. janúar 2020 er haldið upp á að 60 ár eru liðin frá komu Óðins til landsins, en hann kom 27. janúar 1960.

 

Hollvinasamtök Óðins bjóða til afmælisveislu um borð við Sjóminjasafnið við Grandagarð í Reykjavík frá kl. 15:00 til 17:00 í dag og verða kaffi og með því á boðstólum.

 

Ýmsu merku fólki hefur verið boðið og eru allir velkomnir sem vilja koma og fagna þessum áfanga með Hollvinum.

 

Svo stendur til að gangsetja vélar hans á morgun, mánudag 27. jnúar 2020, afmælisdaginn og verður Óðinn dreginn út á Ytrihöfn og vélarnar gangsettar. Þetta fer að vísu eftir veðri og aðstæðum.
 Hollvinasamtök Óðins.

 


Önfirðingurinn og Eyrbekkingurinn,
Vilbergur Magni Óskarsson,
skipherra á Óðni á brúarvæng
er skipið leggur að bryggju á Flateyri.

 

Skráð af Menningar-Bakki

26.01.2020 09:36

Eyrarbakkaprestakall 26. janúar 2020

 


Eyrarbakkakirkja. Ljósm.: Ingvar Magnússon.

 

 

 

Eyrarbakkaprestakall 26. janúar 2020

 

 

Í dag, sunnudaginn 26. janúar 2020 eru tvær messur í Eyrarbakkaprestakalli.

 

Í Eyrarbakkakirkju kl. 11:00 og í Gaulverjabæjarkirkju kl. 14:00.

 

Kórar kirknanna á sínum stað og Haukur Arnarr Gíslason organisti og sr. Arnaldur A. Bárðarson prestur.

 

Guðspjallið er um svein Hundraðshöfðingjans sem Jesús læknaði.

 

Verið velkomin.
Skráð af Menningar-Bakki

25.01.2020 10:46

Bakkablót 2020

 

 

 

 

        Bakkablót 2020 Samkomuhúsið Staður     1. febrúar 2020
 

24.01.2020 17:44

Þorri hefst 24. janúar 2020 - Bóndadagur

 

 

 

 

Þorri hefst 24. janúar 2020 - Bóndadagur

 

 

Mánuðurinn þorri hefst í 13. viku vetrar, nú 19. til 25. janúar, en 9. til 15. janúar í gamla stíl fyrir 1700. Mánaðarnafnið er kunnugt frá 12. öld en uppruni þess er óviss.Þorri er persónugerður sem vetrarvættur í sögnum frá miðöldum. Þar er einnig getið um þorrablót, en þeim ekki lýst. Vetraröldungurinn Þorri er algengt yrkisefni á 17. – 19. öld og um fagnað eða sérstaka siðvenju við upphaf þorra eru heimildir frá öndverðri 18. öld. Líklegt er að slíkar venjur séu allmiklu eldri.Upphaflega virðist húsfreyja hafa boðið þorra velkomin enda er ljóst að fyrsti dagur þorra hefur verið tileinkaður húsbóndanum. Er hvorttveggja til að honum hafi verið veitt sérstaklega í mat og að hann hafi þá átt að gera vel við sitt fólk. Bóndadagsheitið er þó ekki kunnugt fyrr en í þjóðsögum Jóns Árnasonar frá miðbiki 19. aldar. Þar er einnig minnst á hlaup bónda kringum bæ sinn, en óljóst er hversu almennur slíkur siður hefur verið og hver er uppruni hans. Vera kann að þar sé um að ræða leifar af eldra þorrafagnaði.Á síðarihluta 19. aldar fóru mennta- og embættismenn að tíðka samkomur sem þeir kölluðu “Þorrablót” að fornum hætti, matar- og drykkjarveislur þar sem sungin voru ný og gömul kvæði og drukkin minni Þorra og heiðinna goða. Einkum var Þór tengdur þorranum. Þessar veislur lögðust af eftir aldamótin 1900 í kaupstöðum en þá hafði þorrablótssiðurinn borist í sveitirnar, fyrst á Austurlandi og í Eyjafirði, og hélt þar áfram.Um miðja 20. öld hófu átthagasamtök á höfuðborgarsvæðinu síðan þorrablótin aftur til vegs og virðingar í þéttbýli, og buðu þá “íslenskan” mat sem nú var orðinn sjaldséður í kaupstöðum.Veitingamaður í Naustinu í Reykjavík (Halldór Gröndal sem á ættir til Hvilftar í Önundarfirði) hafði síðan sérstakan þorramat á boðstólum frá þorranum 1958. Síðan hafa þorrablót ýmissa samtaka með íslenskan mat verið fastur liður í skemmtanalífi um allt land.Um 1980 hófust blómagjafir eiginkvenna til eiginmanna undir áhrifum frá konudegi.

 

 

Heimild: Saga daganna eftir Árna Björnsson. 


 

 

.

 Skráð af Menningar-Bakki.