![]() |
Bókakaffið við Austurveg á Selfossi. |
Haustupplestur í Bókakaffinu á Selfossi
Í dag, laugardaginn 14. september 2019, standa Bókakaffið við Austurveg á Selfossi og Bókabæirnir fyrir óreglulegum upplestri í Bókakaffinu.
Sigurður Ingólfsson kynnir nýútkomna bók sína Í orðamó.
Svikaskáldin Þóra Hjörleifsdóttir, Sunna Dís Másdóttir og Melkorka Ólafsdóttir lesa ljóð eins og þeim einum er lagið.
Vilborg Davíðsdóttir, höfundur þríleiksins um Auði djúpúðgu les úr verkum sínum, gömlum og nýjum.
Dagskráin hefst kl. 17:00.
Kaffi á könnunni og aðgangur ókeypis uns út á götu flæðir.
Skráð af Menningar-Bakki.
![]() |
Birgitta Spur, ekkja myndhöggvarans Sigurjóns Ólafssonar, opnar í dag yfirgripsmikla yfirlitssýningu á verkum listamannsins í Listasafninu í Tønder í Danmörku.
Sýningunni, sem nefnist -Mangfoldige former - eða -Fjölbreytt form-, er ætlað að gefa yfirlit yfir langan og fjölbreyttan feril listamannsins sem vann í ýmsum stílum og ólíkum formum.
„Sigurjón hefur árum saman verið sniðgenginn listamaður í dönsku samhengi. Þessu vill Listasafnið í Tønder ráða bót á með sýningunni og útgáfu bókar samhliða,“ segir í tilkynningu frá Listasafninu í Tønder. Þar kemur fram að safnið líti á það sem ábyrgð sína að beina kastljósinu að mikilvægri norrænni list.
„Sigurjón var norrænn listamaður sem deildi lífi sínu milli Íslands og Danmerkur. Verk hans eru greinilega innblásin af listaumhverfinu og þeirri listrænu þróun sem átti sér stað í báðum löndum,“ segir í tilkynningu og rifjað upp að þrátt fyrir að Sigurjón hafi verið áberandi í dönsku listalífi hafi hann fallið í gleymskunnar dá í Danmörku þegar hann flutti alfarið heim til Íslands eftir seinna stríð.
„Með sýningunni er ætlunin að endurheimta réttmætan sess Sigurjóns í dönsku listasögunni,“ segir í tilkynningu og bent á að Sigurjón hafi átt mikilvægan sess í íslensku listasögunni enda „leiddu hæfileikar hans til þess að hann var beðinn að þjóna þjóð, sem nýverið hafði endurheimt sjálfstæði sitt, og skapa fjölda opinberra verka“.
Bent er á að stofnun Listasafn Sigurjóns Ólafssonar í árslok 1984 sem opnað var almenningi 1988 hafi átt mikilvægan þátt í að halda orðspori listamannsins á lofti í íslenskri listasögu.
Sýningin stendur til 1. mars 2020.
Sjá þessa slóð:
https://msj.dk/sigurjon-olafsson-mangfoldige-former/
Morgunblaðið laugardagurinn 14. sepetmber 2019.
![]() |
Eyrbekkingurinn Sigurjón Ólafsson ( 1908 - 1982). |
Skráð af Menninga-Bakki.
![]() |
Félagsstarf veturinn 2019 - 2020
Félag eldri borgara á Eyrarbakka
Skráð af Menningar-Bakki
![]() |
Freymóður Jóhannsson (1895 - 1973). |
Freymóður Jóhannsson, málarameistari, listmálari og tónskáld, fæddist 12. september 1895, enda notaði hann höfundarnafnið -Tólfti september- á lög sín.
Freymóður fæddist í Stærra-Árskógi, sonur Jóhanns T. Þorvaldssonar og Hallfríðar Jóhannsdóttur.
Freymóður lauk gagnfræðaprófi á Akureyri, stundaði málaranám hjá Ástu málara, framhaldsnám í Kaupmannahöfn, nám við Teknisk Selskabs Skole og í Kunstakademiet, listmálaranám á Ítalíu og í Danmörku og nám í leiktjaldagerð við Konunglega leikhúsið i Kaupmannahöfn. Hann var málarameistari á Akureyri, listmálari í Óðinsvéum 1936-39 og vann síðan við Hagstofuna í Reykjavík.
Málverk Freymóðs voru yfirleitt landslagsmyndir í súper-realískum stíl enda var honum meinilla við aðrar stefnur, einkum abstraktverk. Sem fyrsti sérmenntaði leiktjaldamálari Leikfélags Reykjavíkur vann hann mjög raunsæjar útimyndir á sviði. Margir lofuðu Freymóð fyrir vikið, en aðrir gagnrýndu hann fyrir glansmyndir sem drægju athygli frá leiknum. Deilur um leiktjöld LR hörðnuðu síðan er Lárus Ingólfsson kom heim frá leiktjaldanámi með nýjar hugmyndir árið 1933.
Freymóður var bindindismaður (límonaðidrengur) og frumkvöðull að hinum frægu dægurlagakeppnum SKT sem haldnar voru í Gúttó og Austurbæjarbíói á sjötta áratugnum.
Freymóður samdi texta og melódísk og grípandi dægurlög sem sum hver urðu afar vinsæl. Meðal þekktustu laga hans eru Frostrósir; Draumur fangans; Litla stúlkan við hliðið og Litli tónlistarmaðurinn.
Freymóður og Kristján Albertsson gagnrýndu harkalega sænsku kynlífsfræðslumyndina Táknmál ástarinnar, sem sýnd var í Hafnarbíói um 1970. 68-kynslóðin kunni ekki að meta þessa siðvendni og hafði skoðanir þessara öldnu menningarforkólfa í flimtingum. En þeir voru hins vegar ýmsu vanir á langri og stormasamri ævi.
Freymóður lést 6. mars 1973.
Draumur fangans eftir Freymóð Jóhannsson - http://www.youtube.com/watch?v=z899zGn_R1c
Litli tónlistarmaðurin eftir FreymóðJóhannsson - http://www.youtube.com/watch?v=R-zi21ibN0g
Skráð af Menningar-Bakki.
![]() |
|
Stokks-Eyrarbakkastígurinn
Síðdegis fimmtudaginn þann 5. september 2019 var lokið við að leggja malbik á göngustíginn milli Stokkseyrar og Eyrarbakka.
Fyrir nokkrum árum var malbikað frá Stokkseyri að Hraunsá en nú var malbikað frá Hraunsá alla leið til Eyrarbakka og tók sú lagning tvo daga.
Gríðarleg umferð gangandi og hjólandi hefur verið um stíginn þessa daga síðan malbikað var alla leiðina.
Allir sem um stíginn fara lofa þessa glæsilegu framkvæmd sem þráð hefur verið um árabil.
Bestu þakkir til allra sem hlut eiga að þessu góða máli og vísa með:
Nú þorpin okkar hönd í hönd
hjóla, ganga saman.
Tengjast frekar bræðra-bönd
bara verður gaman.
![]() |
Stokks-Eyrarbakkastígurinn heitir reyndar -Fjörustígur- Ljósm.: Elín Birna.
Skráð af Menningar-Bakki.
![]() |
Ingileif Jónsdóttir í Steinskoti á Eyrarbakka að steikja pönnukökur.
Ljósmyndari: Jóhann Þór Sigurbergsson.
Sýningaropnun sýningarinnar Bækur og bakkelsi var í Húsinu á Eyrarbakka laugardaginn 7. september 2019
Sýningin er unnin af Héraðsskjalasafni Árnesinga og er útgangspunktur hennar handskrifaðar uppskriftabækur sem varðveittar eru á skjalasafninu.
Uppskriftirnar í bókunum segja ótal margt um tíðaranda, tísku, aðgang að hráefni, nýtni og hagsýni. Á sýningunni er saga baksturs jafnframt rakin auk þess sem húsmæðrafræðsla á Suðurlandi verður skoðuð.
Uppskriftirnar voru valdar með það að leiðarljósi að kynna gesti fyrir gömlum aðferðum gegn matarsóun enda málefnið tíðrætt í fjölmiðlum þessa dagana.
Vert er að geta þess að á sýningunni mun liggja frammi auð stílabók þar sem gestum og gangandi gefst tækifæri til þess að skrifa sínar eigin uppskriftir. Sú bók mun í framhaldinu verða varðveitt á Héraðsskjalasafni Árnesinga og verða þar heimild til framtíðar um bakstursvenjur ársins 2019.
Sýningin -Bækur og bakkelsi- mun standa uppi út september á opnunartíma Byggðasafnsins kl. 11-18 alla daga.
![]() |
Skráð af Menningar-Bakki.
![]() |
Árelíus Níelsson (1910 - 1992). |
Merkir Íslendingar - Árelíus Níelsson
Árelíus Níelsson fæddist í Flatey á Breiðafirði 7. september 1910. Foreldrar hans voru Níels Árnason og Einara Ingileif Jensína Pétursdóttir, en Árelíus ólst upp hjá fósturforeldrum sínum í Kvígindisfirði í Múlasveit.
Árelíus tók kennarapróf árið 1932, stúdentspróf árið 1937 og lokapróf í guðfræði árið 1940. Ungur stundaði hann kennslustörf en var settur sóknarprestur í Hálsprestakalli og þjónaði þar sumarið1940. Þá losnaði Staðarprestakall í heimabyggð hans og varð hann prestur þar í þrjú ár, síðan á Eyrarbakka og Stokkseyri í níu ár, og þegar nýtt prestakall í Reykjavík var stofnað 1952, Langholtsprestakall, sótti hann um það og fékk. Þar var hann allt í öllu við mótun Langholtssafnaðar, innblásinn af ungmennafélagsanda ekki síður en trúarlegum.
Eftir Árelíus liggur fjöldi fræðirita og kennslubóka. Má þar nefna Lesbók handa framhaldsskólum, Sögu barnaskólans á Eyrarbakka og Leiðarljós við kristilegt uppeldi.
Eiginkona Árelíusar var Ingibjörg Þórðardóttir, f. 1918, d. 1978. Þau áttu fimm börn en eitt þeirra dó ungt. Þá áttu þau einn uppeldisson.
Árelíus lést 7. febrúar 1992.
Morgunblaðið laugardagurinn 7. september 2019.
![]() |
Eyrarbakkakirkja. Maður í predikunarstól. Full kirkja af fólki. Árelíus Níelsson prestur. 100 ára afmæli Barnaskólans á Eyrarbakka 1952. |
Skráð af Menningar-Bakki.
![]() |
Opnir íbúafundur
um kynningarmál á Eyrarbakka og Stokkseyri
Opnir íbúafundur um kynningarmál á Eyrarbakka og Stokkseyri.
Sveitarfélagið Árborg boðaði til íbúafunda á Stokkseyri og Eyrarbakka miðvikudaginn 4. september 2019.
Klukkan. 19:00 (BES Stokkseyri) og klukkan.20:30 ( Stað , Eyrarbakka) til að ræða hugmyndir að kynningarherferð á Sveitarfélaginu Árborg.
Samþykkt var af bæjarstjórn Árborgar fyrr í sumar að framleitt yrði kynningarefni til að sýna þá þjónustu og þau tækifæri sem eru í boði í samfélaginu.
Með þessum íbúafundum vill sveitarfélagið leita til íbúa um hugmyndir að kynningarefni og voru allir áhugasamir hvattir til að mæta.
Hvað fyllir þig stolti úr samfélaginu?
Hvaða sögu ætti að segja af svæðinu?
Hvaða áhugaverðu staðir ættu að koma fram?
Björn Ingi Bjarnason færði fundinn að Stað á Eyrarbakka til myndar.
![]() |
||||||||||||
. .
|
![]() |
Vel í sveit sett
Kristín Þórðardóttir,
sýslumaður á Suðurlandi – 40 ára
Kristín Þórðardóttir er fædd 6. september 1979 í Reykjavík en sleit barnsskónum á Eyrarbakka, þar sem foreldrar hennar ráku verslun og síðar útgerð. „Áhugi á hestum blundaði alltaf í föður mínum frá hans fyrra lífi í Vestmannaeyjum og stunduðum við feðgin saman hestamennsku af kappi, fyrst á Eyrarbakka, en þegar áhuginn tók öll völd festi fjölskyldan kaup á jörð í Hvolhreppi hinum forna og hóf hrossarækt í smáum stíl sem kennd er við bæinn Lynghaga.“
Kristín stundaði nám við elsta starfandi barnaskóla á landinu, Barnaskólann á Eyrarbakka, og hélt að því loknu til Reykjavíkur og lagði stund á nám við Menntaskólann í Reykjavík. Hún lauk embættisprófi í lögfræði frá Háskóla Íslands 24.6. 2006.
Með námi stundaði Kristín hestamennsku og vann hefðbundin sumarstörf á Hvolsvelli, við kjötvinnslu SS og í Húsasmiðjunni, en sneri sér síðar að störfum tengdum lögfræðinni. Árið 2005 varð hún fulltrúi í afleysingum við embætti Sýslumanns á Hvolsvelli og þá varð ekki aftur snúið.
Kristín starfaði í sveitarstjórn Rangárþings eystra frá árinu 2010 þar til hún varð settur sýslumaður á Suðurlandi 1.5. 2017. Kristín var skipuð sýslumaður á Suðurlandi þann 1.8. 2018. „Það var lærdómsríkur tími að starfa í sveitarstjórn og mér var sýnt traust með kjöri mínu, en það fór auðvitað ekki saman að halda áfram þar og vera sýslumaður. Hins vegar hefur reynslan úr sveitarstjórn komið að góðum notum enda er sýslumanni nauðsynlegt að vera í góðum tengslum við stjórnendur sveitarfélaga í umdæminu.“ Kristín gegnir nú formennsku í Sýslumannaráði, sem er samstarfsnefnd sýslumanna og dómsmálaráðuneytisins. Auk þess er hún settur sýslumaður í Vestmannaeyjum.
Helstu áhugamál Kristínar eru hestamennska, tónlist og menning í hinum víðasta skilningi. „Við mæðgurnar erum ennþá með hrossarækt í Lynghaga, en við fáum eitt til tvö folöld á ári svo við erum ekki stórtækar í þessu. Ég spila á píanó, lauk námi á fjórða stigi og gríp í hljóðfærið af og til, en framfarir hafa heldur látið á sér standa.“ Eitt er það áhugamál sem hefur yfirtekið frítíma fjölskyldunnar undanfarin ár og það er fótbolti. Drengirnir Þórður Kalman og Hjalti Kiljan æfa með Knattspyrnufélagi Rangæinga (KFR) og sækja öll mót og leiki sem völ er á. „Í sumar var að auki haldið á Unglingalandsmót á Höfn í Hornafirði og er stefnan að sækja þær frábæru samkomur áfram.“
Fjölskylda
Sambýlismaður Kristínar er Friðrik Erlingsson, f. 4.3. 1962, rithöfundur og skáld. Foreldrar hans voru Katrín Guðjónsdóttir, f. 27.3. 1935, d. 2.3. 1996, gítarkennari og ballettdansari í Reykjavík, og Erlingur Gíslason, f. 13.3. 1933, d. 8.3. 2016, leikari í Reykjavík. Þau skildu.
Börn Kristínar og Friðriks eru Þórður Kalman Friðriksson, f. 30.10. 2008, og Hjalti Kiljan Friðriksson, f. 5.10. 2012. Stjúpsonur Kristínar og sonur Friðriks er Patrekur Kári Friðriksson, f. 13.6. 2006.
Hálfsystkini Kristínar eru Guðrún Hulda Ólafsdóttir, f. 19.9. 1971, fasteignasali og lögmaður, sammæðra, og systur Kristínar samfeðra eru Jóna Sigurbjörg Þórðardóttir, f. 16.1. 1947, búsett í Reykjavík; Ásdís Þórðardóttir, f. 2.1. 1948, d. 7.7. 1991, flugfreyja, síðar lögg. fasteignasali í Garðabæ; Ingibjörg Þórðardóttir, f. 19.3. 1955, lögg. fasteignasali í Reykjavík; og Þuríður Þórðardóttir, f. 9.5. 1963, hóteleigandi í Austurríki og á Akureyri.
Foreldrar Kristínar: Þórður S. Þórðarson, f. 19.3. 1925, d. 24.9. 1994, útgerðarmaður og rakarameistari í Vestmannaeyjum, og Ingibjörg Jóhannesdóttir, f. 5.10. 1947, fyrrverandi kennari, útgerðarmaður og bóndi. Þau gengu í hjúskap á aðfangadag 1979. Ingibjörg er búsett á Hvolsvelli.
![]() |
Morgunblaðið föstudagurinn 6. september 2019.
Skráð af Menningar-Bakki.
![]() |
KK - Kristján Kristjánsson (1925 - 2008). |
Kristján Kristjánsson fæddist 5. september 1925 í Syðstakoti í Miðneshreppi, Gull.
Foreldrar hans voru Sigrún Elínborg Guðjónsdóttir saumakona, f. 7.10. 1904, d. 10.2. 1971, og Kristján Karl Kristjánsson prentari, f. 14.11. 1902, d. 25.5. 1977. Vegna veikinda móður sinnar ólst Kristján upp til fermingaraldurs hjá móðurforeldrum sínum, Guðjóni Þorkelssyni og Þorbjörgu Benónýsdóttur í Syðstakoti.
Kristján lauk eins árs námi frá Verzlunarskóla Íslands en eftir það lá leiðin til Bandaríkjanna. Hann stundaði nám í saxófón- og klarínettleik árin 1946-47 við Juilliard School of Music í New York. Þegar heim kom stofnaði hann KK-sextettinn sem hann stjórnaði af mikilli röggsemi allt til ársloka 1961 en þá lagði hann saxófóninn á hilluna.
Þrátt fyrir að hljómsveitin leystist upp í kjölfarið hafði Kristjáni tekist að setja mark sitt á íslenska tónlistarsögu, m.a. með því að bera hingað til lands nýja strauma frá Bandaríkjunum. Kristján lagði mikinn metnað í allt sem viðkom hljómsveitinni. Á þeim tíma tíðkaðist það ekki að hljómsveitir æfðu áður en spilað var opinberlega en Kristján krafðist þess að vel væri æft, meðlimir væru í hljómsveitarbúningum og lögin væru vel útsett. Kristján átti einnig stóran þátt í því að fólk fór að taka starf hljómlistarmanna alvarlega.
Árið 1965 stofnaði hann ásamt eiginkonu sinni Verðlistann við Laugalæk. Árið 1980 stofnaði hann svo Litlu fluguna sem var sérverslun með fluguhnýtingarefni þar sem hann gat samtvinnað tvö af sínum helstu áhugamálum, laxveiðar og fluguhnýtingar.
Kristján kvæntist 1949 Erlu Wigelund, f. 31.12. 1928. Foreldrar hennar: Peter Wigelund skipasmiður, f. í Þórshöfn, og k.h. Vilborg Dagbjartsdóttir húsfreyja.
Börn Kristjáns og Erlu:
Þorbjörg, Pétur söngvari (d. 2004), Sigrún Júlía og Elísabet.
Kristján lést 2. júní 2008.
![]() |
KK sextettinn árið 1948. Frá vinstri: Kristján Kristjánsson, Gunnar Ormslev, Savar Gests, Guðmundur Vilbergsson trompetleikari frá Flateyri, Steinþór Steingrímsson og Hallur Símonarson. |
Skráð af Menningar-Bakki.
© 2021 123.is | Nýskrá 123.is síðu | Stjórnkerfi 123.is