Menningar-Bakki * Viðhalda og efla þjóðlega menningararfleið til sjávar og sveita*
-------- Alþýðuhúsið á Eyrarbakka - Vinir alþýðunnar - Á undan sinni framtíð --- "Stærra í hugum okkar en við sjálfir gerum okkur grein fyrir" ---

27.02.2021 07:35

Merkir Íslendingar - Sveinn Björnsson

 


Sveinn Björnsson (1881 - 1952)

 

 

Merkir Íslendingar - Sveinn Björnsson

 

 

Sveinn fæddist í Kaupmannahöfn 27. febrúar 1881 en ólst upp í Ísafoldarhúsinu við Austurstræti sem nú er í Aðalstræti. Þar starfrækti faðir hans Ísafoldarprentsmiðju og ritstýrði Ísafold og þar var Morgunblaðið fyrst til húsa, en Ólafur, bróðir Sveins, var ásamt Vilhjálmi Finsen, stofnandi þess árið 1913.

 

Sveinn var sonur Björns Jónssonar, ritstjóra, alþm. og ráðherra, og k.h., Elísabetar G. Sveinsdóttur húsfreyju, systur Hallgríms biskups, og Sigríðar, móður Haraldar Níelssonar guðfræðiprófessors.


Eiginkona Sveins var af dönskum ættum, Georgia Björnsson, f. Hansen,  foreldrar: Hans Henrik Emil Hansen og kona hans Anna Catherine Hansen.

Sveinn og Georgia eignuðust sex börn: 

Björn (1909), Anna Catherine Aagot (1911), Henrik (1914), Sveinn (1916), Ólafur (1919), Elísabet (1922).
 

Sveinn lauk stúdentsprófi aldamótaárið 1900 og hélt síðan til Kaupmannahafnar til að stunda laganám. Því lauk hann vorið 1907 og varð sama ár yfirréttarmálaflutningsmaður og 1920 varð hann hæstaréttarlögmaður. Á árunum 1907-20 rak Sveinn málflutningsskrifstofu í Reykjavík. Hann var settur málaflutningsmaður við landsyfirréttinn 1919.

 

Í bæjarstjórn Reykjavíkur 1912–1920, forseti bæjarstjórnar 1918–1920. Einn af stofnendum Eimskipafélags Íslands 1914 og formaður þess 1914–1920 og 1924–1926.

Stofnandi Brunabótafélags Íslands og forstjóri þess frá stofnun 1916–1920. Einn af stofnendum Sjóvátryggingarfélags Íslands haustið 1918, formaður þess 1918–1920 og 1924–1926.

Einn af stofnendum Rauða kross Íslands 10. desember 1924 og fyrsti formaður hans til 1926. Einn af stofnendum Málflutningsmannafélags Íslands 1911 og formaður þess 1918–1920. Skipaður 1910 í peningamálanefnd. Var á vegum ríkisstjórnarinnar í nefnd til vörukaupa í Bandaríkjunum í júlí–október 1914. Kosinn í velferðarnefnd 1914 og 1915 og 1925 í milliþinganefnd í bankamálum. Fulltrúi Íslands á ráðstefnu í Genúa 1922, á alþjóðaráðstefnu í Haag 1930 um lögskipan (codification) á þjóðarétti, á ráðstefnu í Genf 1930–1931 til athugunar á stofnun Evrópubandalags, á fjármálaráðstefnu í London 1933, á ráðstefnu í London 1937 til að ákveða reglur um möskvastærð og fiskstærð með tilliti til veiða. Formaður viðskiptasamninganefnda er gert hafa tolla- og verslunarsamninga við Norðurlöndin, Bretland, Þýskaland og Miðjarðarhafslöndin.

 

Sveinn var  alþingismaður fyrir Sjálfstæðisflokkinn eldri 1914-15 og síðan fyrir Heimastjórnarflokkinn 1919-20, og gegndi starfi sendiherra Íslands í Danmörku 1920-24 og 1926-41.
 

Árið 1941 var Sveinn kjörinn af Alþingi ríkisstjóri Íslands og þann 17. júní 1944 var hann kjörinn af Alþingi fyrsti forseti Íslands á Lögbergi á Þingvöllum. Hann var tvisvar endurkjörinn án atkvæðagreiðslu. Sveinn hafði m.a. umtalsverð áhrif sem forseti á mótun varnarmála og nýrrar utanríkisstefnu hér á landi með samskiptum sínum við Bandaríkjaforseta.
 

Sveinn er eini forsetinn sem skipað hefur utanþingsstjórn en það gerði hann sem ríkisstjóri, árið 1942, í óþökk ýmissa alþingismanna, ekki síst sjálfstæðismanna. Sveinn skráði endurminningar sem gefnar voru út 1957. Þá skrifaði Gylfi Gröndal bókina Sveinn Björnsson – ævisaga.
 

 

Sveinn Björnsson lést 25. janúar 1952.

 

 

 

 

.

 


 


Skráð af Menningar-Bakki.

26.02.2021 15:09

Merkir Íslendingar - Sverrir Hermannsson

 


Sverrir Hermannsson (1930 - 2018)

 

 

Merkir Íslendingar - Sverrir Hermannsson
 Sverrir Hermannsson fæddist að Svalbarði í Ögurvík, Ögurhreppi, Ísafjarðardjúpi þann 26. febrúar 1930.

Hann og ólst þar upp í stórum hópi systkina til 14 ára aldurs er fjölskyldan flutti til Ísafjarðar.

 

Foreldrar Sverris voru Hermann Hermannsson, f. 17.5. 1893, d. 26.11. 1981, útvegsbóndi í Ögurvík, og Salóme Rannveig Gunnarsdóttir, f. 24.4. 1895, d. 20.11. 1977, húsfreyja á Svalbarði í Ögurvík.

 

Sverrir gekk í Gagnfræðaskóla Ísafjarðar þar sem Hannibal Valdimarsson var skólastjóri. Hann stundaði nám til stúdentsprófs við Menntaskóann á Akureyri og lauk síðan prófi í viðskiptafræði við Háskóla Íslands 1955.

 

Eiginkona Sverris var Greta Lind Kristjánsdóttir, f. 25. júlí 1932, d. 20. nóvember 2009, húsfreyja.

Foreldrar hennar: Kristján Tryggvason, klæðskeri og kaupmaður á Ísafirði, og Margrét Finnbjörnsdóttir.

 

Börn Sverris og Gretu:

 Hulda Bryndís (1953), Kristján (1956), Margrét Kristjana (1958), Ragnhildur (1960), Ásthildur Lind (1964). Fósturdóttir: Gréta Lind (1973).

 

Sverrir var fulltrúi hjá VSÍ 1955-56, skrifstofustjóri hjá Verslunarmannafélagi Reykjavíkur 1956-60, formaður og framkvæmdastjóri Landssambands íslenskra verslunarmanna 1957-72, fulltrúi hjá dagblaðinu Vísi 1960-62 og fasteignasali 1962-71. Auk þess sinnti hann útgerð með bræðrum sínum.
 

Sverrir var vþm. 1963-71, alþm. Austurlandskjördæmis fyrir Sjálfstæðisflokkinn 1971-88, forseti neðri deildar 1979-83 og alþm. Reykjavíkur fyrir Frjálslynda flokkinn 1999-2003.
 

Sverrir var forstjóri Framkvæmdastofnunar ríkisins 1975-83, iðnaðarráðherra 1983-85, menntamálaráðherra 1985-87 og bankastjóri Landsbanka Íslands 1988-98.
 

Sverrir var formaður Vöku, félags lýðræðissinnaðra stúdenta 1954-55, sat í Stúdentaráði HÍ 1954-55, formaður Stúdentafélags Reykjavíkur 1957-58 og sat í stjórn SUS 1953-57. Hann sat í stjórn útgerðarfélaganna Eldborgar hf., Ögra hf. og Vigra hf., í stjórn Kirkjusands hf. og var stjórnarformaður útgerðarfélagsins Ögurvíkur hf. 1970-88.

Sverrir sat í Rannsóknarráði ríkisins 1971-74, var fulltrúi í Norðurlandaráði 1975-83 og 1987-88 og sat í milliþinganefndum og öðrum stjórnskipuðum nefndum um ýmis málefni, sat í stjórn Sjóminjasafnsins 1979-83 og var formaður Frjálslynda flokksins 1998-2003.
 

Sverri var veitt gullugla MA 1986, gullstjarna Stúdentafélags Reykjavíkur og gullstjarna LÍV og VR. Bókin Skýrt og skorinort. Minningabrot Sverris Hermannssonar, skráð af Indriða G. Þorsteinssyni, kom út 1989 og bókin Sverrir – Skuldaskil. Ævisaga Sverris Hermannssonar, skráð af Pálma Jónassyni, kom út 2003.
 

 

Helstu áhugamál Sverris voru stangveiði, skotveiði, lestur góðra bóka, stjórnmál og barnabörnin.

 

Sverrir Hermannsson lést þann 12. mars 2018.

 


Skráð af Menningar-Bakki.

 

 

25.02.2021 09:41

--- Úr myndasafninu ---

 

 

 

-Úr myndasafninu-

 

 

                        Sjálfumgleðistund


  F.v.: Þórður Sigurðsson og Siggeir Ingólfsson
Skráð af Menningar-Bakki.

25.02.2021 07:43

Uppbyggingarsjóður Suðurlands

23.02.2021 08:06

Merkir Íslendingar - Dóra Þórhallsdóttir

 


Dóra Þórhallsdóttir (1893 - 1964)

 

 

Merkir Íslendingar - Dóra Þórhallsdóttir

 

 

Frú Dóra Þórhallsdóttir forsetafrú fæddist í Reykjavík 23. febrúar 1893. Foreldrar hennar voru Þórhallur Bjarnarson, prófastur í Reykholti, forstöðumaður Prestaskólans, alþm. og biskup Íslands, og k.h., Valgerður Jónsdóttir húsfreyja.

 

Þórhallur var sonur Björns Halldórssonar, prófasts í Laufási, og k.h., Sigríðar Einarsdóttur, en Valgerður var dóttir Jóns Halldórssonar, hreppstjóra á Bjarnastöðum, og Hólmfríðar Hansdóttur.

 

Systkini Dóru:

Tryggvi forsætisráðherra, kvæntur Önnu Klemenzdóttur, Svava húsfreyja, gift Halldóri Vilhjálmssyni, skólastjóra Bændaskólans á Hvanneyri og Björn, sem lézt árið 1916.

 

Dóra giftist 3.10. 1917 Ásgeiri Ásgeirssyni, guðfræðingi, alþm., forsætisráðherra og öðrum forsta íslenska lýðveldisins 1952-68. Hann var sonur Ásgeirs Eyþórssonar, kaupmanns og bókhaldara, og Jensínu Bjargar Matthíasdóttur. 

Ásgeir var alþingismaður Vestur-Ísfirðinga 1923–1934 (Framsóknarflokkur), 1934–1937 (utan flokka), 1937–1952 (Alþýðuflokkur).

 

Börn Dóru og Ásgeirs:

Þórhallur ráðuneytisstjóri, Vala forsætisráðherrafrú og Björg sendiherrafrú.

 

Frú Dóra ólst upp í Reykjavík, lengst af í Laufási við Laufásveg, á gestkvæmu menningarheimili. Hún var tvítug er hún missti móður sína og tók þá við stjórn heimilisins og stýrði því í fjögur ár. Hún og Ásgeir hófu sinn búskap í Laufási og bjuggu þar til 1932, er hann varð forsætisráðherra. Þá fluttu þau í Ráðherrabústaðinn við Tjarnargötu.

 

Dóra sótti fundi ungmennafélaga á uppvaxtarárum sinum, sat í stjórn Lestrarfélags kvenna, í skólanefnd Kvennaskóla Reykjavíkur og sóknarnefnd Dómkirkjusafnaðarins. Henni var umhugað um kirkjusókn og málefni Þjóðkirkjunnar og lagði gjarnan áherslu á að rækt yrði lögð við söngkennslu í skólum. Hún var auk þess mikil hannyrðakona og lætur eftir sig fjölda fallegra muna.

 

Frú Dóra þótti glæsilegur fulltrúi þjóðar sinnar, virðuleg í fasi og klæddist gjarnan íslenska þjóðbúningnum við hátíðlegar athafnir.

 

Dóra Þórhallsdóttir lést þann 10. september 1964.


 

 
Dóra Þórhallsdóttir og Ásgeir Ásgeirsson.

Skráð af Menningar-Bakki.

21.02.2021 07:27

21. febrúar 2021 "konudagur" góa byrjar

 

May be an image of 1 einstaklingur

 

 

21. febrúar 2021 “konudagur” góa byrjar

 

 

Mánuðurinn góa hefst nú sunnudag frá 18. til 24. febrúar, en 8. til 14. febrúar í gamla stíl fyrir 1700.

 

Nafnið, góa eða gói, er þekkt úr elstu heimildum og afbrigði þess í öðrum norrænum tungum. Gói er persónugerð sem vetrarvættur í gömlum sögnum, dóttir Þorra.

 

Orðið góiblót bendir til mannfagnaðar seint að vetri að fornu en um hann er ekkert vitað með vissu. Ljóst er hinsvegar af heimildum frá öndverðri 18. öld að fagna átti góu á svipaðan hátt og þorra. Skyldi það fremur vera húsbóndinn en húsfreyjan, en víst er að dagurinn var eignaður húsfreyjunni. Heimildir geta um tilhald í mat á síðari öldum en hvergi á við þorrakomu. Kann þar að ráða nokkru að góukoma lendir oftast á langaföstu.

 

Nokkuð var ort um Góu á 17. – 19. öld sem dóttur Þorra eða eiginkonu. Var þá stundum reynt í gamni að skjalla hana til að bæta veður. Svipaður kann að vera tilgangur þess góukomusiðar á norðaustanverðu landinu að Góu var færður rauður ullarlagður.

 

Heitið konudagur er kunnugt frá miðri 19. öld og er nú útbreitt. Sá siður að eiginmenn gefi konum sínum blóm á konudaginn hófst á sjötta áratug 20. aldar.

 

Í almennri þjóðtrú skipti góuveðrið máli. Átti sumarið að verða gott ef góa væri stormasöm og veður vont fyrstu góudaga.

 

Þessi vísa var húsgangur í Önundarfirði fram á 20. öld.

 

Góa kemur með gæðin sín

gefst þá nógur hitinn.

Fáir sakna þorri þín

þú hefur verið skitinn.

 

 

Heimild: Saga daganna eftir Árna Björnsson.

 

Ljósm.:

Víðir Björnsson

.

Í Eyrarbakkafjöru.Skráð af Menningar-Bakki.

20.02.2021 12:20

-- Úr myndasafninu --

 

 

 

 

 -- Úr myndasafninu --

 

 

Sólarkaffi Vestfirðinga að Stað á Eyrarbakka 15. feb. 2015

 

                                          EyrbekkingarSkráð af Menningar-Bakki

19.02.2021 17:34

-- Úr myndasafninu --

 

 
 

 

 

 -- Úr myndasafninu --

 

 

Sólarkaffi Vestfirðinga að Stað á Eyrarbakka 15. feb. 2015.

 


F.v.: Björn Jensen frá Danmörku/Selfossi og Eyrarbakka,

 

Sigurður Sigurdórsson frá Hrunamannahr./Flateyri og Hveragerði

 

og Kristján Runólfsson frá Skagafirði/Eyrarbakka og Hveragerði.
 Skráð af Menningar-Bakki.

19.02.2021 14:22

-- Úr myndasafninu --

 

 

 

 

 

 -- Úr myndasafninu --


 

Sólarkaffi Vestfirðinga að Stað á Eyrarbakka 15. feb. 2015


               Frá A og Ö - Arnfirðingar og Önfirðingar.
 Skráð af Menningar-Bakki

18.02.2021 06:49

Merkir Íslendingar - Auður Auðuns

 


Auður Auðuns (1911 - 1999).

 

 

Merkir Íslendingar - Auður Auðuns

 

 

Auður Auðuns, borgarstjóri, alþm. og ráðherra, fæddist á Ísafirði 18. febrúar 1911. Hún var dóttir Jóns Auðuns Jónssonar, útgerðarmanns og alþm. á Ísafirði, og Margrétar Guðrúnar Jónsdóttur húsfreyju. Bróðir Auðar var Jón Auðuns, dómkirkjuprestur, dómprófastur og forseti Sálarrannsóknarfélagsins um árabil.

 

Auður var Vestfirðingur í báðar ættir, skyld Alþýðuflokksformönnunum Jóni Baldvinssyni og feðgunum Hannibal og Jóni Baldvini.

 

Eiginmaður Auðar var Hermann Jónsson, hæstaréttarlögmaður og fulltrúi tollstjórans í Reykjavík, og eignuðust þau fjögur börn.

 

Auður lauk stúdentsprófi frá MR 1929 og embættisprófi í lögfræði frá Háskóla Íslands 1935. Hún var lögfræðingur Mæðrastyrksnefndar í tuttugu ár, bæjar- og síðar borgarfulltrúi í Reykjavík fyrir Sjálfstæðisflokkinn 1946-70, forseti bæjar- og borgarstjórnar 1954-59 og 1960-70, borgarstjóri, ásamt Geir Hallgrímssyni 1959-60, alþm. 1959-74 og dóms- og kirkjumálaráðherra 1970-71.

 

Þegar Auður var dóms- og kirkjumálaráðherra var kvenréttindabaráttan að vakna af dvala eftir að hafa legið í láginni um langt árabil. Rauðsokkuhreyfingin sá dagsins ljós 1. maí 1970, Kvennaframboð bauð fram í sveitarstjórnarkosningum 1982 og fékk tvo fulltrúa í borgarstjórn Reykjavíkur og í bæjarstjórn Akureyrar og Kvennalistinn var stofnaður 1983.

 

Auður átti fátt sameiginlegt með róttækum kvenréttindakonum þessara ára. Hún var íhaldssöm og borgaraleg í hugsun.

 

Engu síður er nafn hennar skráð skýrum stöfum í sögu íslenskrar kvenréttindabaráttu, því hún varð fyrst íslenskra kvenna til að ljúka emkbættisprófi í lögfræði frá Háskóla Íslands, fyrsta konan sem varð borgarstjóri og fyrsti kvenráðherrann.

 

Auður sat á Allsherjarþingi SÞ 1967 og var formaður sendinefndar Íslands á Kvennaráðstefnu SÞ í Mexíkóborg 1975.

 

Auður Auðuns lést þann 19. október 1999.

 

.

 

 Skráð af Menningar-Bakki.