![]() |
Að tillögu menntamálaráðherra ákvað ríkisstjórn Íslands, haustið 1995, að 16. nóvember ár hvert, sem er fæðingardagur Jónasar Hallgrímssonar, yrði dagur íslenskrar tungu. Í framhaldi af því hefur menntamála- og menningarmálaráðuneytið árlega beitt sér fyrir sérstöku átaki í þágu íslensks máls og helgað þennan dag rækt við það. Með því móti beinist athygli þjóðarinnar að stöðu tungunnar, gildi hennar fyrir þjóðarvitund og alla menningu.
Dagur íslenskrar tungu var fyrst haldinn hátíðlegur árið 1996. Fjölmargir aðilar lögðu hönd á plóg og efndu til viðburða af þessu tilefni. Má þar nefna fjölmiðla, skóla, stofnanir og félög. Mennta- og menningarmálaráðuneytið hélt hátíðarsamkomu og veitti þar í fyrsta sinn Verðlaun Jónasar Hallgrímssonar og sérstakar viðurkenningar fyrir störf í þágu íslenskunnar. Dagur íslenskrar tungu hefur verið haldinn hátíðlegur með svipuðu sniði og sífellt fleiri aðilar taka virkan þátt í honum með ýmsu móti.
Dagur íslenskrar tungu er opinber fánadagur.
Hinn 16. nóvember skal draga fána á stöng á húsum opinberra stofnana, sem eru í umsjá valdsmanna eða sérstakra forstöðumanna ríkisins, sbr. 2. gr. forsetaúrskurðar um fánadaga og fánatíma nr. 5/1991 . Einnig fer vel á því að aðrir dragi íslenska fánann að húni á degi íslenskrar tungu.
![]() |
||
-Himnakoss Jónasar- 16. nóv. 2019
|
Skráð af Menningar-Bakki.
![]() |
Opinn fundur verður á laugardaginn 16. nóvember 2019 í húsnæði Samfylkingarinnar Eyrarvegi 5, Selfossi. kl. 11:00.
Þau Ágúst Ólafur Ágústsson og Oddný G. Harðardóttir ætla að fara yfir umræðuna um fjárlögin sem fer fram í þessari viku, en auk þess verður tækifæri til að spjalla um hvað er að frétta af samgöngumálum, lækkun veiðigjalda til útgerðarinnar og heilbrigðismál.
Tilvalið tækifæri til að ræða stöðuna í stjórnmálunum!
Samfylkingin.
Skráð af Menningar-Bakki.
![]() |
Vilbergur Magni Óskarsson,
kennari og fagstjóri skipstjórnar – 60 ára
Lærifaðir skipstjóranna
Vilbergur Magni Óskarsson er fæddur 14. nóvember 1959 á Selfossi, en ólst upp á Eyrarbakka. „Áður en ég varð 10 ára var ég farinn að aðstoða kartöflubónda við að taka upp á haustin. Í þorpinu voru nokkrir kartöflubændur og ég held að flest börnin í þorpinu hafi á þessum árum unnið við að taka upp kartöflur á haustin fram að skólabyrjun. Held reyndar að skólinn hafi ekki getað byrjað fyrr en búið var að taka upp. En annars eyddi maður flestum stundum í fjörunni á þessum tíma og kom yfirleitt votur heim.“
Magni vann í skólafríum, í grunn- og gagnfræðaskóla, í fiskvinnslu hjá Fiskiveri og í frystihúsinu, aðallega í saltfiski, en á sumrin hjá hreppnum. Hann fór fyrst á sjóinn 16 ára sem háseti í afleysingar á Valafell, sem frystihúsið átti, síðan sem kokkur á bátnum Aski og þaðan yfir á stærri bát sem hét Sólborg og var þar um veturinn 1976-1977 á netaveiðum. „Eftir humarvertíð á báti sem hét Álaborg, sumarið 1977, sótti ég um starf hjá Eimskip og var ráðinn háseti um borð í Brúarfossi, sem var í Ameríkusiglingum. Sem var mikið ævintýri fyrir 17 ára strák.
Á Brúarfossi var ég fram í maí 1978 er ég lenti í slysi um borð og sigldi ekki meira það sumarið og settist á skólabekk í Stýrimannaskólanum þá um haustið. Á milli bekkja í Stýrimannaskólanum var ég stýrimaður á humarvertíð á Jóhanni Þorkelssyni frá Eyrarbakka. Eftir að ég lauk farmannaprófi 1981 var ég háseti á togaranum Bjarna Herjólfssyni fram á haust en fór þá sem stýrimaður á flutningaskipið Ísnes og var þar til áramóta 1981-82, er ég fór í Varðskipadeild Stýrimannaskólans.“ Magni lauk farmannaprófi frá Stýrimannaskólanum 1981, varðskipadeild 1982 og útgerðartækni frá Tækniskóla Íslands 1983.
„Eftir að námi lauk starfaði ég um tvö ár sem skrifstofustjóri hjá innflutningsfyrirtæki, en fór aftur á sjóinn sem stýrimaður á Drífu ÁR frá Eyrarbakka og tók við þeim báti sem skipstjóri á vertíðinni 1986 og var þar fram á haust er báturinn var leigður vestur á firði. Haustið 1986 sótti ég um starf hjá Landhelgisgæslunni, en ég hafði hug á að prófa það og vera í nokkra mánuði. Þar var ég stýrimaður og skipstjóri til ársins 2004. Fékk þar þjálfun sem spil- og sigmaður á þyrlu Gæslunnar, TF-SIF, og starfaði í flugdeildinni, ásamt því að fara á varðskipin sem stýrimaður nokkra túra á ári til 1992 er ég tók við sem yfirstýrimaður á Ægi og fór minn fyrsta túr sem skipherra þar haustið 1994. Frá þeim tíma var ég á stjórnstöð og í flugdeild og leysti af nokkra mánuði á hverju ári sem skipherra á einhverju skipanna, Óðni, Ægi og Tý. Á þessum tíma tók ég þátt í mörgum eftirminnilegum björgunum bæði á fólki og skipum og einnig flotkví sem er í Hafnarfjarðarhöfn. Eftirminnilegt er fyrsta björgunin sem ég tók þátt í eftir að ég lauk þjálfun sem sigmaður, en þá björguðum við flugmanni af væng flugvélar hans sem nauðlent hafði í sjónum og var að sökkva.“
Magni var sendur á vegum LHG í stjórnunarnám í danska sjóliðsforingjaskólann í Kaupmannahöfn veturinn 1999-2000. Hann átti í nokkur ár sæti á vegum LHG í nefnd sem skipulagði fjölþjóðlegar björgunaræfingar á Norður-Atlantshafi, sem voru á vegum Nato. Einnig var hann um tíma tengiliður LHG við varnarliðið á Keflavíkurflugvelli.
„Haustið 2003 var mér boðið starf við kennslu í Stýrimannaskóla Namibíu á vegum Þróunarsamvinnustofnunar Íslands og var þá í launalausu leyfi frá LHG í eitt ár. Ég fór einn út til Namibíu í byrjun janúar 2004 en fjölskyldan kom til mín í júní og var hjá mér í þrjá mánuði. Notuðum við tækifærið og ferðuðumst talsvert um Namibíu og Suður-Afríku.“
Þegar heim var komið var Magni ráðinn sem sviðstjóri skipstjórnarsviðs Menntafélagsins, sem hafði tekið við rekstri Stýrimannaskólans í Reykjavík og Vélskóla Íslands. Magni fór í kennsluréttindanám í Kennaraháskóla Íslands til þess að öðlast kennsluréttindi á framhaldsskólastigi og lauk því 2006. Við sameiningu Stýrimannaskólans og Vélskólans árið 2006 og Iðnskólans í Reykjavík árið 2008 í Tækniskólann urðu til nokkuð sjálfstæðir fagskólar. Þar á meðal var Skipstjórnarskólinn sem Magni var ráðinn skólastjóri yfir.
„Í störfum mínum þar stóð ég m.a. fyrir nokkrum breytingum á náminu og þar á meðal að koma á dreifnámi með staðlotufyrirkomulagi þar sem nemendum, til dæmis þeim sem starfa á sjó, gafst kostur á að stunda skipstjórnarnám og ná sér í skipstjórnarréttindi án þess að þurfa að taka sér frí í nokkur ár til þess að setjast á skólabekk. Ég steig til hliðar sem skólastjóri þegar Véltækniskólinn og Skipstjórnarskólinn voru sameinaðir undir einn skólastjóra og tók að mér fagstjórn skipstjórnar ásamt kennslu.“
Magni hefur átt sæti í sendinefnd á vegum Íslands sem farið hefur á fundi hjá Alþjóðasiglingamálastofnuninni (IMO) í London, þegar til umræðu hafa verið menntunar- og öryggismál sjómanna. Magni hefur setið í starfsgreinaráði sjávarútvegs og siglingagreina frá 2005 og verið formaður ráðsins frá 2010. Hann er sérfróður meðdómsmaður í Héraðsdómi. Hann sat í samninganefnd Stýrimannafélags Íslands, fyrir hönd stýrimanna hjá Landhelgisgæslu Íslands, 1988-1998, var formaður Starfsmannafélags Landhelgisgæslunnar 1989-1990 og stjórnarmaður 1992-1995 og hefur verið stjórnarmaður í Hollvinasamtökum varðskipsins Óðins frá 2010.
Áhugamál Magna eru bátar og skip, fluguveiði og ferðalög, fjölskyldan og sumarbústaður fjölskyldunnar.
Eiginkona Magna er Brynja Björgvinsdóttir, f. 19.5. 1962, lyfjafræðingur. Foreldrar hennar: Hjónin Björgvin Guðmundsson, f. 15.11. 1932, d. 30.8. 1992, vélstjóri og harðfiskverkandi á Stokkseyri, og Kristín Jósteinsdóttir, f. 21.12. 1932, húsmóðir, nú búsett í Kópavogi.
Börn Magna og Brynju eru:
1) Óskar Örn Vilbergsson, f. 5.7. 1983, viðskiptafræðingur og húsasmíðameistari og starfar sjálfstætt við bókhaldsþjónustu og rekstrarráðgjöf. Maki: Elísabet Ómarsdóttir leikskólaliði. Börn: Emilía Rún, f. 2010, Alexander Magni, f. 2015, og Anna Kristín Óskarsdóttir, f. 2016, búsett á Eyrarbakka;
2) Björgvin Vilbergsson, f. 12.1. 1990, verkfræðingur og stýrimaður og starfar hjá Marel. Maki: Shelby Morgan sérkennari, búsett í Hafnarfirði;
3) Kristín Vilbergsdóttir, f. 16.11. 1991, nemi í HÍ, búsett í Hafnarfirði;
4) Ásta Þórunn Vilbergsdóttir, f. 20.1. 2000, nemi í HR, búsett í Hafnarfirði.
Systkini Magna eru:
Lillian V. Óskarsdóttir, f. 14.8. 1952, bús. í Kópavogi;
Ragnheiður Óskarsdóttir, f. 1.4. 1955, skrifstofumaður, bús. á Eyrarbakka;
Sigríður Óskarsdóttir, f. 8.4. 1957, starfar hjá KPMG, bús. á Eyrarbakka;
Eyrún Óskarsdóttir, f. 20.3. 1964, listfræðingur og grunnskólakennari, bús. í Reykjavík;
Edda Óskarsdóttir, f. 27.1. 1967, dr. í sérkennslufræðum, lektor við HÍ, bús í Reykjavík;
Hallgrímur Óskarsson, f. 19.12. 1970, fasteignasali, bús. á Selfossi;
Barði Páll Óskarsson, f. 3.6. 1970, d. 13.7. 1991.
Foreldrar:
Hjónin Óskar Magnússon frá Flateyri, f. 19.3. 1931, fv. skólastjóri Barnaskólans á Eyrarbakka; og Ásta Þórunn Vilbergsdóttir frá Eyrarbakka, f. 9.7. 1932, d. 9.2. 2016, húsmóðir og verkakona.
![]() |
Morgunblaðið fimmtudagurinn 14. nóvember 2019
Skráð af Menningar-Bakki.
|
||
Þuríður Einarsdóttir, oftast nefnd Þuríður formaður, fæddist árið 1777 á Stéttum í Hraunshverfi á Eyrarbakka. Foreldrar hennar voru Einar Eiríksson, bóndi þar, og k.h. Helga Bjarnadóttir.
Þuríður bjó í foreldrahúsum þar til hún varð 25 ára gömul. Hún byrjaði að róa á vorvertíð hjá föður sinum 11 ára gömul og gerðist fullgildur háseti á vetrarvertíð hjá Jóni í Móhúsum, þá rúmlega tvítug að aldri. Hún fékk leyfi frá sýslumanni til að klæðast karlmannsfötum og klæddist ekki kvenmannsfötum eftir það.
Síðan bjó hún í Stokkseyrarhverfi, lengst af á Götu og var formaður þar, fyrst á vor- og haustvertíð, síðan á vetrarvertíðum. Hún flutti á Eyrarbakka 1830 og bjó þar til æviloka að undanskildum árunum 1840-1847 þegar hún dvaldist við verslunarstörf í Hafnarfirði. Fyrsta áratuginn sem hún bjó á Eyrarbakka var hún formaður í Þorlákshöfn á vetrarvertíðum og stýrði áttæringi og aflaði vel. Hún var lengst af sjálfrar sín, ýmist við smábúhokur eða sem húskona á Skúmsstöðum þar til seinustu 8-9 árin sem hún lifði, er hún varð að þiggja sveitarstyrk.
Þuríður bjó um tveggja ára skeið með manni að nafni Erlendur Þorvarðarson í Eystri-Móhúsum. Þau eignuðust stúlku sem hét Þórdís en hún lést fimm ára gömul. Löngu síðar, eða árið 1820, giftist hún vinnumanni sínum, Jóni Egilssyni, sem þá var 21 árs, en þeirra hjónaband stóð ekki lengi.
Þuríður varð fræg fyrir að koma upp um Kambsránið, en það var rán sem framið var á bænum Kambi í Flóa 1827. Ræningarnir skildu eftir sig verksummerki m.a. skó, járnflein og vettling. Hún taldi sig þekkja handbragðið á skónum og að för á járnfleininum pössuðu við steðja í eigu Jóns Geirmundssonar á Stéttum í Hraungerðishreppi, sem var einn ránsmannanna.
Þuríður formaður lést í Einarshöfn 13. nóvember 1863.
![]() |
Þuríður Einarsdóttir (1777 - 1860). |
Skráð af Menningar-Bakki.
![]() |
Barnaskólinn á Stokkseyri. Ljósm.: Björn Ingi Bjarnason. |
Hverfaráð Stokkseyrar efnir til opins íbúafundar í dag, þriðjudaginn 12. nóvember 2019 kl. 20:00 í sal Barnaskólans á Stokkseyri.
Á fundinum verða bæjarstjóri Árborgar ásamt bæjarfulltrúum og munu þau sitja fyrir svörum.
Hverfaráðið hvetur alla til að mæta.
Skráð af Menningar-Bakki.
![]() |
Matthías Jochumsson (1835 - 1920) |
Matthías Jochumsson fæddist 11. nóvember 1835 að Skógum í Þorskafirði, sonur Jochums Magnússonar og Þóru Einarsdóttur. Þóra var systir Guðmundar, pr. á Kvennabrekku, föður Ásthildar, móður Muggs, og föður Theodóru Thoroddsen skáldkonu, ömmu Dags Sigurðarsonar skálds.
Foreldrar Matthíasar bjuggu við barnaómegð og gestanauð á harðæristímum og fór því Matthías til vandalausra 11 ára. Hann var til sjós og í vinnumennsku og sinnti verslunarstörfum í Flatey þar sem hann kynntist fólki sem kom honum til mennta. Hann útskrifaðist frá Prestaskólanum þrítugur að aldri.
Matthías var prestur á Kjalarnesi en þar missti hann fyrstu og aðra eiginkonu sína með stuttu millibili. Hann sagði þá af sér prestsskap, fór utan og varð síðan ritstjóri Þjóðólfs. Eftir að Matthías giftist þriðju konu sinni var hann prestur að Odda á Rangárvöllum í nokkur ár en síðan á Akureyri.
Matthías og Steingrímur Thorsteinsson voru helstu skáldmæringar síðrómantísku stefnunnar. Vinátta þeirra var einlæg þótt oft hvessti á milli þeirra. Matthías var skáld mannlífs, örlaga og tilfinninga en Steingrímur skáld hinnar ósnortnu náttúru. Matthías var mælskur, andríkur og tilfinninganæmur en Steingrímur vitsmunalegra og líklega vandvirkara skáld. Matthías var auk þess eitt mesta trúarskáld þjóðarinnar. Hann orti lofsönginn sem síðar varð þjóðsöngur Íslands. Þá samdi hann leikritið Skugga-Svein, sem var klassískt leikhúsverk hér á landi á fyrstu áratugum íslenskrar leiklistar.
Að Skógum er minnismerki um Matthías, lágmynd eftir Helga Gíslason og bautasteinn úr Vaðalfjöllum.
Að Sigurhæðum á Akureyri er safn helgað minningu hans.
Ævisaga hans, eftir Þórunni Valdimarsdóttur, Upp á Sigurhæðir, kom út haustið 2006.
Matthías lést 18. nóvember 1920.
Skráð af Menningar Bakki.
![]() |
Sjá Bændablaðið 7. nóv. 2019 bls. 34 og 35
https://www.bbl.is/files/pdf/bbl_21.tbl.2019_web.pdf
![]() |
Skráð af Menningar-Bakki |
![]() |
.
![]() |
||||||||||||||
Hrútavinafélagið Örvar er upphafsaðili Bryggjuhátíðar á Stokkseyri árið 2004. Félagið lét síðan árið 2006 byggja glæsilegt -Svið- á bryggjunni sem staðið hefur af sér öll vetrarbrim og er veglegt staðartákn.
- Hrútavinafélagið Örvar á Suðurlandi 20 ára -
Það bar til síðla í september árið 1999 að boð komu frá Bjarkari Snorrasyni, bónda á Tóftum í Stokkseyrarhreppi hinum forna, að til hrútasýningar væri boðað að Tóftum. Þangað skyldu sauðfjárbændur í hreppnum mæta með hrúta sína til mælinga og dóma hvað þeir gerðu allir með sóma. Hrútasýningar hafa í gegn um tíðina verið hinar merkilegustu samkomur bæði út frá faglegum atriðum og ekki síður hin besta skemmtan með ýmsum hætti. Svo hefur vissulega verið á Tóftum og samkomurnar hafist með kjötsúpumáltíð að hætti Bjarkars bónda áður en haldið er til fagstarfa í fjárhúsinu. Vegna þessa hafa hrútasýningar að Tóftum verið fjölmennar um langa tíð.
Afdrifarík óvissuferð
Athafna- og félagsmálamaður vestan af fjörðum, Björn Ingi Bjarnason, hafði flutt til Stokkseyrar sumarið 1999 og var svo lánsamur að lenda í slagtogi við sauðfjárbændur í hreppnum. Svo heppilega vildi til að sama dag og hrútasýningin var á Tóftum að til Önfirðingsins komu þrír sveitungar hans úr Hljómsveitinni Æfingu í heimsókn. Þetta voru; Árni Benediktsson, og bræðurnir Ingólfur Björnsson og Siggi Björns. Var strax ákveðið að fara með gestina í óvissuferð á hrútasýninguna. Þoka var yfir öllu og rigningarúði þegar haldið var af stað og gestirnir hlaðnir kvíða yfir því hvað væri í vændum enda höfðu þeir reynt nýbúann á Stokkseyri af ýmsu á fyrri tíð fyrir vestan. Árni býr nú á Selfossi, Ingólfur í Noregi og Siggi Björns í Berlín í Þýskalandi.
Mikil upplifun
Ekki var að sökum að spyrja að þetta kvöld á Tóftum var mikil upplifun og góð skemmtun fyrir gestina að vestan því enginn þeirra hafði farið á hrútasýningu áður. Þarna var fastmælum bundið að að mæta árið eftir að Tóftum á hrútasýninguna og þá með nokkur skemmtiatriði sem og var gert.
Örvar
Hrútavinafélagið Örvar á Suðurlandi var orðið til upp úr þessari óvissuferð að Tóftum haustið 1999. Hrútavinafélagið fagnar því í ár tuttugu ára afmæli og mun það verða gert með ýmsum hætti og ber þar hæst „Listasjóð alþýðu.“. Hrútavinafélagið Örvar hefur komið að og haft frumkvæði til ýmissa mannlífs- og menningarmála á Suðurlandi og víðar. Verður það ekki rakið hér að þessu sinni en aðeins nefnd til Bryggjuhátíð á Stokkseyri sem félagið stóð fyrir með aðilum á staðnum og fleirum að koma í framkvæmd sumarið 2004. Einnig „Samvinnuferðin – landsferð“ með forystusauðinn GORBA frá Brúnastöðum sem Hrútivinafélagið gaf í Forystufjársetrið að Svalbarði í Þistilfirði.
Þjóðlegt
Hrútavinafélagið vinnur í anda þess “að viðhalda og efla þjóðlega menningararfleið til sjávar og sveita og er samafl- brottfluttra Vestfirðinga og heimamanna á Suðurlandi” og sýna verkin vissulega slíkt á margan hátt. Grunnur félagsins liggur í bændamenningunni í Flóanum og vestfirskum sjómönnum og beitustrákum eins og sést á því hvernig félagið varð til.
Félagið hefur fengið góða svörun við starfinu sem sést best á því að samkomur og uppákomur þess eru ætíð mjög vel sóttar. Hrútavinafélaginu er gríðarlega kær einstök viðurkenning sem það fékk nokkru eftir stofnun á samkomu í troðfullu félagsheimilinu Þjórsárveri. Sigurður Sigurðarson f.v. yfirdýralæknir kvaddi sér þar hljóðs og veitti félaginu áratuga heilbrigðisvottorð vegna hins margþætta mannlífs og menningarstarfs Hrútavina. Þetta vottorð er í fullu gildi enn.
Afmæliskveðjur forseti Hrútavinafélagsins Örvars á Suðurlandi.
Þegar Hrútavinafélagið Örvar heiðrar þá er heiðrað bæði alþýða og aðrir. Heiðraðir á 10 ára afmæli Hrútavinafélagsins 2009 voru. F.v.: Kristrún Ósk Kalmannsdóttir, húsmóðir, hagleikskona og umboðsmaður Morgunblaðsins, Margrét S. Frímannsdóttir, forstöðumaður á Litla-Hrauni, f.v. oddviti og alþingismaður, Guðrún Kristmannsdóttir húsmóðir og fiskverkakona í rúma hálfa öld, Ragnhildur Jónsdóttir, húsmóðir og meðhjálpari í Stokkseyrarkirkju, Grétar Zópaníasson, starfsmaður Árborgar og síðasti sveitarstjóri á Stokkseyri, Kristján Friðbergsson f.v. forstöðumaður á Kumbaravogi, Sigríður Kolbrún Guðjónsdóttir, f.v. hjúkrunarforstjóri á Kumbaravogi, Helga Jónasdóttir, húsmóðir og starfskona við Barnaskólann á Stokkseyri í rúm 30 ár, Theódór Guðjónsson f.v. skólastjóri Barnaskólans á Stokkseyri um árabil, og séra Úlfar Guðmundsson f.v. sóknarprestur á Eyrarbakka og Stokkseyri í áratugi.
Þegar Hrútavinafélagið Örvar á Suðurlandi varð 10 ára á árinu 2009 voru heiðraðir 10 af frumkvöðlum og kraftaverkamönnum félagsins. F.v.: Sigurður Sigurðarson f.v. yfirdýralæknir, Selfossi, Kristinn Jóhann Níelsson, tónlistarkennari og meðlimur í Hljómsveitinni GRANÍT í Vík í Mýrdal, Ólafur Helgi Kjartansson, sýslumaður, Selfossi, Siggeir Ingólfsson, yfirstrandvörður Hrútavinafélagsins, Eyrarbakka, Guðni Ágústsson, f.v. alþingismaður og ráðherrra, heiðursforseti Hrútavinafélagsins, Selfossi, Björn Harðarson, bóndí í Holti og formaður Búnaðarfélags Stokkseyrarhrepps, Guðrún Jóna Borgarsdóttir, bóndi að Tóftum, Stokkseyrarhreppi, Sævar Jóelsson, bóndi í Brautartungu, Stokkseyrarhreppi, Bjarkar Snorrason, bóndi að Tóftum (Brattsholti) Stokkseyrarhreppi og guðfaðir Hrútavinafélagsins og Árni Johnsen, f.v. alþingismaður, Vestmannaeyjum.
Samkomuhúsið Gimli á Stokkseyri varð 90 ára á árinu 2011. Hrútavinafélagið stóð fyrir afmælistónleikum þar á Bryggjuhátínni 2011 með Hljómsveitinni GRANÍT frá Vík í Mýrdal og söngkonunni Hlín Pétursdóttur frá Stokkseyri. F.v.: Hróbjartur Vigfússon, Sveinn Pálsson, Auðbert Vigfússon, Guðmundur Pétur Guðgeirsson, Hlín Pétursdóttir, Kristinn J. Níelsson og Bárður Einarsson.
|
Stór stund í sögu Hrútavinafélagsins Örvars var þegar forystusauðurinn Gorbachev
frá Brúnastöðum í Flóa var gefinn Forystufjársetrinu að Svalbarði í Þistilfirði haustið
2014. F.v.: Skúli Ragnarsson, Ytra-Álandi, Björn Ingi Bjarnason, forseti Örvars, Tryggvi
Ágústsson, GORBI milli þeirra bræðra, Guðni Ágústsson, heiðursforseti Örvars,
Daníel Hansen, Svalbarði og Hargrét Hauksdóttir.
![]() |
Þegar Hrútavinir koma saman þá er gaman. Hér er Jón Kr. Ólafsson á Bíldudal 70 ára
þann 22. ágúst 2010 og nokkrir Vestfirðingar með afmælisbarninu á Hvolsvelli.
F.v.: Jón Kr. Ólafsson, Magnús Björnsson, Ólafur Helgi Kjartansson, Hafliði Magnússon
og Pétur Bjarnason.
![]() |
Hrútavinafélagið Örvar hefur gefið út dægurrit -Séð og jarmað- og er það gríðarlega
vinsælt. Það er í stóru broti á burðarmiklum pappír og plastað þykku plasti.
Upplagið hverju sinni er eitt eintak og staðsett í Skálanum á Stokkseyri fyrir gesti
og gangandi. Síðan hefur -Séð og jarmað- verið lánað til lestrar víku í senn á: heimili,
fyrirtæki og stofnanir á Suðurlandi. Á myndinni er -Séð og jarmað- að koma í hús til
Guðrúnar Kristmannsdóttur í Brekkholt. Með henni eru; t.v. Jón Jónsson og t.h.
er Þórður Guðmundsson.
![]() |
||||||
Kristján Runólfsson er höfuðskáld Hrútavinafélagsins Örvars. Hér flytur hann ljóð á samkomu hjá Hrútavinafélaginu í maí 2011. Blessuð sé minning hans.
|
![]() |
Ólafur Hannibalsson (1935 - 2015). |
Ólafur Hannibalsson fæddist á Ísafirði 6. nóvember 1935.
Foreldrar hans voru Sólveig Sigríður Ólafsdóttir húsfreyja, f. 1904 á Strandseljum í Ögursveit, d. 1997, og Hannibal Gísli Valdimarsson, alþingismaður og ráðherra, f. 1903 í Fremri-Arnardal við Skutulsfjörð, d. 1991.
Ólafur lauk stúdentsprófi frá Menntaskólanum á Laugarvatni árið 1956 og stundaði nám við háskólann í Delaware í Bandaríkjunum og við hagfræðiháskólann í Prag í Tékklandi á árunum 1957 til 1962. Hann starfaði hjá Loftleiðum í New York, var ritstjóri Frjálsrar þjóðar 1964-1970, með árshléi 1968 þegar hann vann að hafrannsóknum. Hann var skrifstofustjóri ASÍ 1971-1977. Ólafur var varaþingmaður Sjálfstæðisflokksins í Vestfjarðakjördæmi 1995-1999.
Um tíu ára skeið til ársins 1987 var Ólafur bóndi í Selárdal og síðan blaðamaður, rithöfundur og ritstjóri. Ásamt Jóni Hjaltasyni og Hjalta Einarssyni skrifaði hann 50 ára sögu Sölumiðstöðvar hraðfrystihúsanna, sem út kom 1997. Hann þýddi Sögu þorsksins eftir Mark Kurlansky og skráði ásamt konu sinni Sólarmegin, endurminningar Herdísar Egilsdóttur kennara. Síðustu árin vann Ólafur að Djúpmannatali, skrá ábúenda við Ísafjarðardjúp frá 1801 til 2011 og er ritið komið út.
Ólafur lét sig þjóðmál miklu varða, tók virkan þátt í ýmsum aðgerðum, ritaði ótal greinar og hélt útvarpserindi um innlend og erlend málefni.
Eiginkona Ólafs er Guðrún Pétursdóttir lífeðlisfræðingur, f. 1950. Foreldrar hennar voru Pétur Benediktssson, alþingismaður og bankastjóri, og Guðrún Eggertsdóttir Briem. Dætur Ólafs og Guðrúnar eru Ásdís og Marta. Börn Ólafs með fyrri eiginkonu sinni, Önnu G. Kristjánsdóttur kennara, f. 1935, eru Hugi, Sólveig og Kristín.
Skráð af Menningar-Bakki.
![]() |
Sviðaveisla Björns Hilmarssonar og félaga
Sviðaveisla Björns Hilmarssonar og félaga var haldin að Stað á Eyrarbakka í gærkvöldi, 2. nóv. 2019.
Fjölmenni var í sviðaveislunni eins og sjá má á myndum sem Hrútavinafélagið Örvar á Suðurlandi færði til filmu.
Á þessari slóð eru 32 myndir:
http://menningarstadur.123.is/photoalbums/292474/
Nokkrar myndir hér:
![]() |
||||||||||||||||
. .
|
© 2021 123.is | Nýskrá 123.is síðu | Stjórnkerfi 123.is