Menningar-Bakki * Viðhalda og efla þjóðlega menningararfleið til sjávar og sveita*
-------- Alþýðuhúsið á Eyrarbakka - Vinir alþýðunnar - Á undan sinni framtíð --- "Stærra í hugum okkar en við sjálfir gerum okkur grein fyrir" ---

03.10.2019 17:22

Mikilvæg gjöf Guðjóns Samúelssonar

 


Háskóli Íslands er eitt af glæsihúsunum sem Guðjón Samúelsson teiknaði.
 

 

 

Mikilvæg gjöf Guðjóns Samúelssonar

 

 

Arki­tekta­fé­lagi Íslands barst ný­verið 1,5 millj­óna króna höf­und­ar­rétt­ar­greiðsla frá Mynd­stefi fyr­ir verk Eyrbekkingsins Guðjóns Samú­els­son­ar, húsa­meist­ara rík­is­ins.

 

„Þessi pen­ing­ur er veru­leg upp­hæð fyr­ir fé­lagið og mun það verja þessu fjár­magni á sem skyn­sam­leg­asta máta fé­lags­mönn­um og al­menn­ingi til góðs,“ seg­ir Gerður Jóns­dótt­ir, fram­kvæmda­stjóri fé­lags­ins, í til­kynn­ingu til fjöl­miðla.

 

Þar kem­ur fram að þegar Guðjón féll frá árið 1950 hafi hann verið ókvænt­ur og barn­laus. Hann lét eft­ir sig erfðaskrá þar sem fram kem­ur að „það sem verður af­gangs af eign­um hans skuli renna til Arki­tekta­fé­lags Íslands og skal pen­ing­um varið í að út­breiða þekk­ingu á húsa­gerðarlist sér­stak­lega í ís­lensk­um anda“.

 

Í til­kynn­ing­unni kem­ur jafn­framt fram að 25. apríl 2020 verði 70 ár liðin frá and­láti Guðjóns, en skv. 43. gr. höf­und­ar­lag­anna helst höf­und­ar­rétt­ur í 70 ár. „Það þýðir að ára­mót­in 2020-2021 fell­ur höf­und­ar­rétt­ur á verk­um Guðjóns niður.“Morgunblaðið 2. október 2019.Skráð af Menningar-Bakki.

02.10.2019 18:18

Merkir Íslendingar - HALLDÓR KRISTJÁNSSON

 

 

Halldór Kristjánsson (1910 - 2000).

 

 

Merkir Íslendingar - HALLDÓR KRISTJÁNSSON

 

 

Halldór Kristjánsson fæddist á Kirkjubóli í Bjarnardal í Önundarfirði þann 2. október 1910. Foreldrar hans voru Kristján Guðjón Guðmundsson bóndi og Bessabe Halldórsdóttir.


 

Halldór lauk héraðsskólaprófi árið 1930 frá unglingaskóla á Núpi í Dýrafirði. Hann ólst upp á Kirkjubóli og gerðist þar bóndi.

Halldór starfaði sem blaðamaður við Tímann á árunum 1945-1952 en bjó þó áfram á Kirkjubóli.


 

Á árunum 1938-1945 var Halldór formaður Félags ungra framsóknarmanna í Vestur-Ísafjarðarsýslu og sat hann í miðstjórn Framsóknarflokksins frá árinu 1956.


 

Halldór átti sæti í stjórnarskrárnefnd 1945-1951 og í úthlutunarnefnd listamannalauna árið 1961. Hann gerðist yfirskoðunarmaður ríkisreikninga árið 1971. Hann var skipaður í Hrafnseyrarnefnd árið 1973. Halldór var varaþingmaður Framsóknarflokksins á Vestfjörðum og tók nokkrum sinnum sæti á Alþingi á árunum 1964-1974.


 

Halldór var ötull talsmaður gegn áfengi og öðrum vímuefnum. Hann var félagi í Góðtemplarareglunni og gegndi ýmsum trúnaðarstörfum á hennar vegum.


 

Árið 1973 settist Halldór að í Reykjavík ásamt konu sinni, Rebekku Eiríksdóttur. Þau hjónin ólu upp þrjú fósturbörn, Ósk Elínu Jóhannesdóttur, Sigríði Eyrúnu Guðjónsdóttur og Sævar Björn Gunnarsson.

 

 

Halldór lést 26. ágúst árið 2000 og Rebekka lést 28. janúar 1995.

 

 
Kirkjuból í Bjarnardal, Önundarfirði. Ljósm.: Björn Ingi Bjarnason.
 Skráð af Menningar-Bakki.

 

02.10.2019 17:11

Sigurður Sigurðarson dýralæknir - 80 ára

 

 

Á dans­leik.

Ólöf Erla Hall­dórs­dótt­ir og Sig­urður Sig­urðar­son.

 

 

Sigurður Sigurðarson dýralæknir – 80 ára

 

Leitar að miltisbruna um allt land

 

 

Sig­urður Sig­urðar­son fædd­ist 2. októ­ber 1939 á Sig­urðar­stöðum í Bárðar­dal og ólst þar upp til þriggja ára ald­urs. Hann átti heima að Keld­um á Rangár­völl­um til sjö ára ald­urs, síðan á Sela­læk í sömu sveit en flutti þaðan á tí­unda ári að Hemlu í Vest­ur-Land­eyj­um og átti þar heima fram yfir tví­tugt.

 

Sig­urður gekk í Skóga­skóla, lauk stúd­ents­prófi frá MA 1961, dýra­lækn­is­prófi frá Nor­ges Veter­inær­högskole í Ósló 1967, M.Sc.-prófi í meina­fræði búfjár við Dýra­lækna­skól­ann í London 1970, og sér­fræðiprófi í sjúk­dóm­um sauðfjár og naut­gripa í Ósló 1995. Þá var hann við fram­halds­nám og fór í náms- og fyr­ir­lestra­ferðir í dýra­lækn­is­fræðum á Suður-Græn­landi og í ýms­um fleiri lönd­um.

 

Sig­urður var rann­sókn­ar­maður hjá Sauðfjár­veiki­vörn­um sumr­in 1963-67, gegndi embætti héraðsdýra­lækn­is hér á landi og í Drammen í Nor­egi meðfram námi, kenndi við Bænda­skól­ann á Hvann­eyri 1968 og 1975-2000, sinnti rann­sókn­um við Til­rauna­stöðina á Keld­um 1968, var sér­fræðing­ur sauðfjár­sjúk­dóm­a­nefnd­ar 1969-73 og fram­kvæmda­stjóri henn­ar 1976-78, sér­fræðing­ur hjá embætti yf­ir­dýra­lækn­is frá 1973, var sett­ur yf­ir­dýra­lækn­ir 1987, var for­stöðumaður rann­sókn­ar­deild­ar Sauðfjár­veiki­varna á Keld­um 1969 og 1970-93 og síðan hjá yf­ir­dýra­lækni, sér­fræðing­ur í sauðfjár- og naut­gripa­sjúk­dóm­um á Keld­um frá 1995 og var feng­inn út að til vinna bar­áttu gegn gin- og klaufa­veiki í Englandi og Wales 2001. „Það vantaði dýra­lækna með reynslu af sjúk­dóm­um í jórt­ur­dýr­um.“ Sig­urður var einnig í Finn­mörku í Nor­egi til að kynna sér sjúk­dóma í hrein­dýr­um 2003-2004. „Mig grunaði að riðuveiki gæti fund­ist í hrein­dýr­um og það reynd­ist vera rétt síðar.“ Sig­urður hef­ur verið sér­fræðing­ur við Mat­væla­stofn­un­ina á Sel­fossi frá 2006.

 

Sig­urður sat í dýra­vernd­ar­nefnd, í Til­raun­aráði land­búnaðar­ins, í fóður­nefnd, í stjórn fé­lags til vernd­ar ís­lenska fínull­ar­fénu frá Skriðuk­laustri, hef­ur beitt sér gegn inn­flutn­ingi fóst­ur­vísa úr norsk­um kúm og fyr­ir varðveislu ís­lenska kúa­kyns­ins. Hann er virk­ur fé­lagi í Kvæðamanna­fé­lag­inu Iðunni og Kvæðamanna­fé­lag­inu Árgala á Sel­fossi og kom að stofn­un Kvæðamanna­fé­lags­ins Snorra í Reyk­holti.

 

„Ég hef aldrei hætt að vinna. Ég hef verið að leita að og staðsetja milt­is­bruna um allt land í 14 ár ásamt Ólöfu Erlu konu minni og fljót­lega er von á skýrslu frá okk­ur.

 

Á næst­unni eru að koma út tveir hljómdisk­ar með 60 söng­lög­um eft­ir mig og þar af eru 40 með textum eft­ir mig. Elsta lagið á diskn­um er 58 ára og yngsta lagið er samið á þessu ári. Ég er svo hepp­inn að vera með 28 úr­vals ein­söngv­ara á plöt­unni og þrjá kóra sem flytja lög­in. Betri er eng­inn hef­ur verið Guðmund­ur Ei­ríks­son, söng­stjóri Hörpu­kórs­ins, sem hef­ur aðstoðað marg­háttað við út­gáf­una, og Karl Þór Þor­valds­son sá um upp­töku flestra lag­anna og marg­ir þeirra komu að því líka.

 

Ég hef verið heilsu­hraust­ur en fékk gátta­flökt sem læknaðist ekki með vél­um svo ég ákvað að reyna að gleðja a.m.k. einn á dag með gam­an­sög­um, og þá læknaðist þetta, en starf mitt hef­ur orðið til þess að ég þekki fólk um allt land.“ Hól­ar hafa gefið út bæk­urn­ar Sig­urður dýra­lækn­ir I og II og Sig­urðar sög­ur dýra­lækn­is. Sig­urður fagn­ar af­mæl­inu á bökk­um Dónár.Sigurður er mjög virkur félagi í Hrútavinafélaginu Örvari á Suðurlandi og þegar hann varð 75 ára var hann á hringferð um Ísland með Hrútavinafélaginu. 

 

Fjöl­skylda

Sam­býl­is­kona Sig­urðar er Ólöf Erla Hall­dórs­dótt­ir, f. 11.10. 1940, frá Búr­felli í Gríms­nesi, fyrr­ver­andi banka­starfsmaður. Eig­in­kona Sig­urðar var Hall­dóra Ein­ars­dótt­ir, f. 21.3. 1942, d. 26.9. 2000, handíðakona og hönnuður. „Lífs­ham­ingja mín hef­ur fal­ist í því að ég hef verið ein­stak­lega kven­hepp­inn.“

 

Börn Sig­urðar og Hall­dóru eru:
1) Sig­urður Sig­urðar­son f. 1.6. 1969, tamn­ingamaður, reiðkenn­ari og hross­a­rækt­ar­bóndi á Foss­hól­um í Holt­um, gift­ur Sig­ríði Arn­dísi Þórðardótt­ur tal­meina­fræðingi, f. 3.12. 1977, börn þeirra eru Vil­borg María, f. 1999, Sig­urður Matth­ías, f. 2004, og Dag­ur, f. 2008. Börn Sig­urðar með fv. sam­býl­is­konu, Anítu Páls­dótt­ur, eru Ró­bert, f. 1992, og Rakel Dóra, f. 1998;

2) Ragn­hild­ur Sig­urðardótt­ir, f. 21.6. 1970, grunn­skóla­kenn­ari og golf­kenn­ari á Íslandi og Spáni, bú­sett í Mos­fells­bæ ásamt sam­býl­is­manni sín­um, Jóni Andra Finns­syni smið, f. 11.3. 1973, börn henn­ar með fv. sam­býl­is­manni, Þor­varði Friðbjörns­syni, eru Hild­ur Krist­ín, f. 1992 og Lilja, f. 1994. Dæt­ur Jóns Andra eru Al­ex­andra, f. 1995, og Sara Sif, f. 2001;

3) Ein­ar Sverr­ir Sig­urðar­son, f. 3.9. 1973, bif­véla­virkja­meist­ari og rek­ur Bif­reiðaverk­stæði Reykja­vík­ur, gift­ur Stein­gerði Ingvars­dótt­ur, líf­fræðingi og fjár­mála­stjóra, f. 15.1. 1974. Börn þeirra eru Daní­el Freyr, f. 1994, Elísa­bet Líf, f. 1999, Ingvar Sverr­ir, f. 2005, og Hall­dór Sverr­ir, f. 2013;

4) Sölvi Sig­urðar­son, f. 12.1. 1978, reiðkenn­ari og tamn­ingamaður, ný­flutt­ur heim frá Dan­mörku. Sam­býl­is­kona Sölva var Álf­hild­ur Leifs­dótt­ir og börn þeirra eru Hall­dóra, f. 2006, Sindri, f. 2007, og Katla, f. 2013.

Bróðir Sig­urðar er Skúli Jón Sig­urðar­son, f. 20.2. 1938, fyrrv. fram­kvæmda­stjóri hjá Flug­mála­stjórn og fyrrv. formaður Rann­sókn­ar­nefnd­ar flug­slysa, kvænt­ur Sjöfn Friðriks­dótt­ur kenn­ara.

For­eldr­ar Sig­urðar voru hjón­in Sig­urður Jóns­son, f. 8.1. 1909, d. 24.10. 1939, bóndi og smiður á Sig­urðar­stöðum i Bárðar­dal, og Krist­ín Skúla­dótt­ir, f. 30.3. 1905, d. 13.6. 1995, far­kenn­ari í Land­eyj­um og Flóa og síðast í Hemlu. Síðari maður Krist­ín­ar var Ágúst Andrés­son, bóndi í Hemlu.

 

 
Morgunblaðið miðvikudagurinn 2. október 2019.


Skráð af Menningar-Bakki.

 

30.09.2019 07:02

Lokið við hjólastíg á Eyrum

 

 

 

 

Lokið við hjólastíg á Eyrum 

 

Langþráðum áfanga náð fyrir hjólreiða- og göngufólk 

 

 

Hjólastígur með fjörunni milli Stokkseyrar og Eyrarbakka hefur verið á dagskrá bæjaryfirvalda frá því um aldamótin, eða fljótlega eftir sameiningu sveitarfélaga í vestanverðum Flóa. En góðir hlutir gerast hægt.

 

Fyrsta skóflustungan að stígnum var tekin 7. september árið 2012 af Ástu Stefánsdóttur, þáverandi bæjarstjóra. Og nú sjö árum síðar er stígurinn tilbúinn, lokið var við að malbika hann í lok ágúst.

 

Nokkur heilabrot voru um staðsetningu stígsins. Hann liggur meðfram sjóvarnargarðinum frá Stokkseyri og að brú á Hraunsá, sem var smíðuð fyrir stíginn. Síðan beygir hann inn í land og sneiðir framhjá landi Gamla-Hrauns.

 

Liggur hann um skemmtilegt votlendi þar sem skiptast á mýrar, dælir og flóð, svo og tún. Stígurinn endar á Litla-Hraunsflötum sunnan við Litla-Hraun og tengist þar gatnakerfi Eyrarbakka.

 

Efnt var til samkeppni um nafn á stíginn og varð Fjörustígur hlutskarpastur. Stígurinn hefur talsvert verið notaður, þó að hann væri ekki tilbúinn. Nú sjá hjólreiðamenn og göngufólk á Eyrum sæng sína upp reidda.

 

Unnið er að gerð stígs milli Selfoss og Eyra og verða þá allir þéttbýlisstaðir Sveitarfélagsins Árborgar tengdir með malbikuðum stígum. Enda er flatneskjan í Flóanum kjörin til hjólreiða.


Morgunblaðið - Jóhann Óli HIlmarsson.

 Skráð af Mernningar-Bakki

29.09.2019 09:11

10 hlutir sem breytast í líkamanum ef þú ferð daglega út að ganga

 


Fjörustígurinn  -StokksEyrarbakkastígurinn-  Ljósm.: Ingvar Magnússon.

 

 

10 hlutir sem breytast í líkamanum

 

  - ef þú ferð daglega út að ganga  -

 

 

Það gæti komið mörgum á óvart hvaða breytingar líkaminn gengur í gegnum ef þú ferð út og gengur á hverjum degi. Stóra spurningin er samt þessi, áttu auka korter eða hálftíma á dag til að fara út að ganga?

 

Já, ég er viss um það. Það þarf að setja sjálfa/n sig í fyrsta sæti og hreyfa sig daglega. Að fara út að ganga er ofsalega gott fyrir líkamann og mælt er með allavega hálftíma góðri göngu – kraftganga er best. Þetta er ódýrasta hreyfing sem í boði er og þú andar að þér fersku lofti og getur notið þess að vera ein/n.

 

Gott fyrir heilann

Gerðar hafa verið rannsóknir á því hvað ganga gerir fyrir heilann. Samkvæmt þessum rannsóknum þá eykur ganga endofínið í líkamanum og dregur þannig úr stressi. Að fara út að ganga gerir heilanum það gott að það getur dregið úr áhættunni á Alzheimer til muna.

 

Sjónin

Það hljómar kannski einkennilega, en að fara og ganga daglega er mjög gott fyrir sjónina. Að ganga eykur þrýsting á augu og getur þannig dregið úr gláku.

 

Hjartað

Að ganga eða hlaupa er gott fyrir hjartað. Þú getur dregið úr áhættu á hjartaáfalli og öðrum sjúkdómum tengdum hjartanu. Að ganga dregur einnig úr kólesterólinu og eykur blóðstreymi í líkamanum.

 

Lungun

Að ganga er afar gott fyrir lungun. Þau fyllast af súrefni sem nýtist líkamanum afar vel og eykur á virkni lungnanna.

 

Brisið

Komið hefur fram í rannsóknum að fólk sem gengur sér til heilsubótar er með betra jafnvægi á glúkósa í líkamanum. Þetta þýðir að þú getur hreinlega gengið og komið þannig í veg fyrir sykursýki.

 

Meltingin

Það þarf að passa upp á magaheilsuna. Gerir þú það þá ert að sporna við ristilkrabba og öðrum vandamálum eins og hægðatregðu.

 

Vöðvarnir

Þegar manneskja grennist þá rýrna vöðvarnir. Hér er verið að tala um hin frægu 10 þúsund skref á dag. Ef þú ert að grenna þig þá skaltu vinna þig upp í þennan skrefafjölda á dag. Gott er að ganga upp í móti til að auka á vöðvamassa.

 

Liðamót og bein

Ertu stirð/ur og með verki? Hálftíma ganga á dag getur dregið úr þessum verkjum í liðamótum. Einnig dregur gangan úr hættu á meiðslum og beinþynningu. The Arthritis Foundation mælir með því að ganga daglega.

 

Bakverkir

Æfingar sem reyna mikið á líkamann geta slitið bakið illa. En hins vegar að fara út að ganga getur dregið úr bakverkjum vegna þess að blóðflæði í kringum mænu og hrygg eykst töluvert.

 

Hugurinn

Að ganga ein/n frekar en með öðrum eykur góða skapið, lækkar stress og kvíða. Það hefur einnig verið talað um að það dragi úr þunglyndi.

 

Endilega deilið þessari grein fyrir okkur – allir hafa gott af því að lesa hana.

 

Þessi grein er birt í samstarfi við Heilsutorg.is - Sjá fleiri fréttir hér.

 

 

Af www.hringbraut .isSkráð af Menningar-Bakki.

29.09.2019 08:22

29. september 1833 - Jón Sigurðsson hélt til Kaupmannahafnar

 

 

Jón Sigurðsson (1811 - 1879) frá Hrafnseyri við Arnarfjörð.

 

 

29. september 1833 - 

 

Jón Sigurðsson hélt til Kaupmannahafnar

 

 

Jón Sigurðsson, 22 ára stúdent, hélt með skipi frá Hafnarfirði til Kaupmannahafnar þann 29. september 1833, þar sem hann bjó síðan. Skipið hreppti slæmt veður en kom að landi við vestanvert Jótland. Jón komst til Hafnar fyrir jól en fór ekki aftur til Íslands fyrr en tólf árum síðar, þegar endurreist Alþingi tók til starfa.

 

 

          Jón Sigurðsson (1811 - 1879).

 Skráð af Menningar-Bakki.

28.09.2019 07:12

"Orðin miklu stærri hátíð en ég sá fyrir"

 

 

 

 

„Orðin miklu stærri hátíð en ég sá fyrir“

 

 

Í dag, laugardaginn 28. september 2019, fer fram kvikmyndahátíðin BRIM á Eyrarbakka. 

Markmikið hátíðarinnar er að fræða og vekja athygli á einu stærsta og mest aðkallandi umhverfisvandamáli samtímans, plasti.

 

Kvikmyndirnar á hátíðinni eiga það allar sameiginlegt að fjalla um plastmengun og áhrif plasts á fólk og náttúruna.

 

Hugmynd sem lét hann ekki í friði


„Þessi hugmynd kom til mín einn morguninn og ég losnaði ekkert almennilega við hana. Þannig að ég fór að velta þessu fyrir mér og að spá í hvað ef. Þannig fór boltinn af stað og það var ekki til baka farið,“ segir Guðmundur Ármann Pétursson, sem stendur að hátíðinni, í samtali við sunnlenska.is.

 

„Æskuheimilið mitt er á Eyrarbakka og mig langar alltaf að reyna að leggja gott til þess samfélags með beinum og óbeinum hætti. Ég er fluttur aftur heim á Eyrarbakka með fjölskyldunni, þannig að um annan stað gat ekki verið að ræða,“ segir Guðmundur aðspurður afhverju Eyrarbakki hafi orðið fyrir valinu til halda hátíðina.

 

Guðmundur segir að hann hafi aldrei áður haldið kvikmyndahátíð né sótt kvikmyndahátíð. „Þetta er allt nýtt fyrir mér, það að vita ekki hvað á að gera eða má gera og að vera engum bundinn er mikið frelsi. Ég held að það sé einn lykillinn að því að BRIM er öðruvísi.“

 

Vandaðar og áhrifaríkar kvikmyndir


„Það er þrjár frábærar og mjög ólíkar kvikmyndir á BRIM sem allar fjalla um plast og áhrif þess. En þema hátíðarinnar er plast. Þetta eru erlendar myndir sem þykja með þeim bestu á þessu sviði. Fjórða myndin á BRIM er stuttmynd sem nemendur í 9. bekk barnaskólans á Eyrarbakka hafa gert og verður hún sýnd í Sjóminjasafninu,“ segir Guðmundur en hægt er að sjá sýnishorn úr kvikmyndunum á heimasíðu hátíðarinnar.

 

„Það er eitt af því sem er öðruvísi við BRIM, kvikmyndasýningar eru í heimahúsi, Húsinu byggðasafni, í fangelsinu á Litla Hrauni og í gömlu pakkhúsi. Einnig eru í boði fyrirlestrar þar sem sex einstaklingar fjalla um plast í íslenskum raunveruleika og eins og með kvikmyndirnar að þá er fjallað um plastið frá ólíkum sjónarhorni,“ segir Guðmundur.

 

Litla Hraun opnar dyr sínar


Guðmundur segir að allt samfélagið á Eyrarbakka hafi tekið vel í hugmyndina hans. „Það sem gleður mig einna mest með BRIM er hversu allir eru jákvæðir tilbúnir að koma að og taka þátt. Níundi bekkur barnaskólans hefur búið til kvikmynd sem verður sýnd á hátíðinni og þau sýna hana og taka þátt. Litla Hraun opnar sínar dyr og býður fólki í bíó. Byggðasafnið tekur þátt, íbúar leggja sitt til. Rauða Húsið opnar sínar dyr og þar verða fyrirlestrar, þetta gleður mig mikið.“

 

Strandhreinsun sama dag


„Sveitarfélagið átti frumkvæði að því að staðið verður að hreinsun á ströndinni við Eyrarbakka samhliða BRIM, þannig að hægt verður að hefja daginn á því að fá ferskt loft í lungun og leita að plasti í fjörunni frá kl. 11 um morguninn. Íbúar opna dyr sínar og bjóða heim. Það að fá tækifæri til að opna augu fólks fyrir þeirri umhverfisógn sem plast er, er einnig mikilvægt og skiptir máli. Allt þetta skiptir máli,“ segir Guðmundur sem er virkilega ánægður með þessar jákvæðu undirtektir sem hátíðin fær.

„BRIM er orðið miklu stærra en ég sá fyrir, það verða í boði fimmtán viðburðir á Eyrarbakka næsta laugardag, vítt og breitt um þorpið og það er frítt inn á þá alla. Þetta hefur tekið meiri tíma en ég átti von á, en þeim tíma hefur verið val varið og ég sé ekki eftir mínútu,“ segir Guðmundur að lokum.

 

Ókeypis er á alla viðburði og á allar sýningar hátíðarinnar.

 

Heimasíða BRIM kvikmyndahátíðarinna

 

 Skráð af Menningar-Bakki.

28.09.2019 07:05

Strandhreinsun á Eyrarbakka - laugardag 28. sept. 2019

 

 

Eyrarbakki. Ljósm.: sunnlenska.is/Guðmundur Karl

 

 

Strandhreinsun á Eyrarbakka

 

- laugardag 28. sept. 2019

 

 

Sveitarfélagið Árborg stendur að strandhreinsunardeginum í samstarfi við Björgunarsveitina Björg á Eyrarbakka í dag, laugardag 28. september 2019.

 

Verkefnið er unnið í tengslum við verkefnið Plastlaus september og Brim - kvikmyndahátíð sem er ætluð til að fræða og vekja athygli á einu mest aðkallandi umhverfisvandamáli samtímans.

 

Mæting er við Björgunarsveitarhúsið að Búðarstíg 21 á Eyrarbakka klukkan 11:00 og er áætlað að vera við hreinsun til klukkan 13:00.

 

Sama dag mun Tómas Knútsson stofnandi umhverfissamtakanna Blái herinn, halda fyrirlestur um samtökin í Rauða húsinu á Eyrarbakka klukkan 17:00.

 
Skráð af Menningar-Bakki.

27.09.2019 20:41

Merkir Íslendingar - Sigtryggur Guðlaugsson

 


Sigtryggur Guðlaugsson (1862 - 1959).
 

 

Merkir Íslendingar - Sigtryggur Guðlaugsson

 

 

Sigtryggur fæddist á Þröm í Garðsárdal 27. september 1862, sonur Guðlaugs Jóhannessonar, bónda á Þröm, og k.h., Guðnýjar Jónasdóttur.
 

 

Guðlaugur var sonur Jóhannesar Bjarnasonar, bónda í Meðalheimi á Svalbarðsströnd, og k.h., Halldóru Bjarnadóttur, en Guðný var dóttir Jónasar Bjarnasonar, bónda á Veturliðastöðum í Fnjóskadal, og k.h., Sigríðar Jónsdóttur.
 

Fyrri kona Sigtryggs var Ólöf Júlíana Sigtryggsdóttir en hún lést 1902. Seinni kona Sigtryggs var Hjaltlína Margrét Guðjónsdóttir kennari og urðu synir þeirra þjóðþekktir, Hlynur veðurstofustjóri og Þröstur, skipherra í þorskastríðunum á áttunda áratugnum.
 

 

Sigtryggur lauk stúdentsprófi frá Lærða skólanum 1894 og embættisprófi í guðfræði frá Prestaskólanum í Reykjavík 1897. Hann kenndi börnum og unglingum í Eyjafirði og í Hálshreppi 1878-87 sem og á námsárum sínum, var barnakennari í Reykjavík og víðar 1897-1905, stofnaði og stjórnaði Lýðháskóla á Ljósavatni 1903-1905, stofnaði ungmennaskólann á Núpi (síðan nefndur Héraðsskólinn á Núpi) árið 1906 og var skólastjóri hans frá stofnun og til 1929.
 

 

Sigtryggur var settur sóknarprestur í Svalbarðs- og Presthólaprestaköllum 1898, veittur Þóroddsstaður í Köldukinn og Lundarbrekka í Bárðardal, var veitt Dýrafjarðarþing 1904 og var skipaður prófastur Vestur-Ísafjarðarprófastsdæmis 1926.
 

 

Sigtryggur hélt í heiðri hugsjónir ungmennafélaganna um ræktun lýðs og lands. Hann starfaði lengi í góðtemplarareglunni og kom upp, ásamt seinni konu sinni, blóma- ogtrjágarðinum Skrúði á Núpi. Þau hófu að rækta garðinn 1905 en hann var formlega opnaður haustið 1909.
 

 

Sigtryggi var sýndur margvíslegur heiður og Halldór Kristjánsson skrifaði ævisögu hans 1964.
 

 

Sigtryggur lést 3. ágúst 1959. Núpur í Dýrafirði. Ljósm.: Björn Ingi Bjarnason.
 
 Skráð af Menningar-Bakki.

26.09.2019 20:04

Það blundar í mér húsmóðir

 

 
 
 
 
 
 

Sunnlendingur vikunnar:

 

Það blundar í mér húsmóðir

 

 

Næstkomandi laugardag 28. september 2019, verður kvikmyndahátíðin BRIM haldin á Eyrarbakka. 

Kvikmyndirnar á hátíðinni eiga það allar sameiginlegt að fjalla um plastmengun og áhrif plasts á fólk og náttúruna. Guðmundur Ármann Pétursson fékk hugmyndina að hátíðinni í kollinn og losnaði ekki almennilega við hana, þannig að hann hrinti hátíðinni í framkvæmd.

 

Fullt nafn: Guðmundur Ármann Pétursson.
 

Fæðingardagur, ár og staður:  9. maí 1969 í Reykjavík.
 

Fjölskylduhagir: Er í sambúð með Birnu Ásbjörnsdóttur. Börnin eru Auðbjörg Helga, Embla Líf og Nói Sær.
 

Menntun: Rekstrarfræðingur, biodynamískur landbúnaður og umhverfisfræðingur.
 

Atvinna: Nýsköpun og verkefnavinna.
 

Besta bók sem þú hefur lesið: Ég geri mér far um að lesa reglulega bækur sem eru í mótsögn við skoðanir mínar. Þær bækur enda oft með því að verða mjög eftirminnilegar.   En svo á ég mína uppáhalds höfunda frekar en uppáhalds bækur.
 

Uppáhalds sjónvarpsþáttur: Ég er með “soft spot” fyrir bresku krúnunni. Þættirnir The Crown á Netflix eru frábærir og ég er að bíða eftir næstu þáttaröð.
 

Hvaða bíómynd getur þú horft á aftur og aftur: Ég get horft aftur og aftur á góða grínmynd. Kostulegur aulahúmor er alveg dásamlegur, t.d. Bleiki PardusinnPure Luck, breskur húmor eins og Johnny English og fleiri góðar.
 

Te eða kaffi: Kaffi, þannig byrjar einfaldlega dagurinn.
 

Uppáhalds árstími: Ég elska árstíðir, að finna hvert tímabil ársins og að upplifa breytinguna, upphafið og endalokin.
 

Besta líkamsræktin: Eitt sinn var það skokk en með hækkandi aldri hefur það þróast meira í göngutúra…
 

Hvaða rétt ertu bestur að elda: Konan mín er algjörlega frábær kokkur, þannig að ég stíg ávallt til hliðar ef nokkur kostur. Ég á þó góða spretti á grillinu og gef það ekki eftir.
 

Við hvað ertu hræddur: Ég er enginn sérstakur áhugamaður um mýs, en hef þó róast nokkuð gagnvart þeim með árunum.
 

Klukkan hvað ferðu á fætur: Á fætur kl. 7.
 

Hvað gerir þú til að slaka á: Fara í göngutúr, lesa góða bók, hlusta á hafið og að vera úti í náttúrunni.
 

Hvað finnst þér vanmetið: Ástin, ég held að það sé ekkert mikilvægara en að elska. Lífið, fólkið, dýrin, náttúruna og það sem er þessa heims. Ef við elskum þá tökum við réttar ákvarðanir.
 

En ofmetið: Arðsemi.
 

Hvaða lag kemur þér alltaf í stuð: Ég hef alltaf verið veikur fyrir Springsteen og hans lögum, svo kemur Cohen mér alltaf í gott skap. Klassík tónlist, s.s. Pavarotti og aðrir góðir tenórar á góðum styrk gera daginn betri, Mozart og Vivaldi færa mig á dásamlegan stað…
 

Besta lyktin: Lyktin af vorinu, þegar allt er að opnast og fæðast á ný.
 

Bað eða sturta: Oftar er það sturtan, en baðið er betra.
 

Leiðinlegasta húsverkið: Það blundar í mér húsmóðir, ég hef lúmskt gaman af húsverkum.
 

Besta ráð sem þér hefur verið gefið: Að sjá samhengi hlutanna í náttúrunni.
 

Nátthrafn eða morgunhani: Ég er að reyna að laga þetta, sem gengur ekki vel. En mér finnst svakalega gott að vinna á kvöldin.
 

Fallegasti staður sem þú hefur komið á: Elskulegur Eyrarbakki á sér fáa líka.
 

Hvað fer mest í taugarnar á þér: Hroki og óheiðaleiki, því það er ávallt val.
 

Neyðarlegasta atvik sem þú hefur lent í: Þegar ég var á nærbuxum einum fata á klósettinu á Broadway um árið á meðan farið var með fötin mín út, þannig að félagi minn sem ekki hafði komist inn út af reglum um klæðaburð fór í fötin mín til að sleppa inn. Á meðan beið ég á klósettinu í nærbuxum og skóm einum fata á meðan tíminn leið (sem mér fannst endalaus). Hræddist það mjög að það stefndi í mjög neyðarlega uppákomu, en þetta rétt slapp!
 

Hvað ætlaðir þú að verða þegar þú yrðir stór: Bakari, kokkur, bóndi og bisness-maður.
 

Fyndnasta manneskja þú veist um: Sonur minn, hann getur fengið mig til að gráta af hlátri. Ég held reyndar að hann geti það með hvern sem er.
 

Ef þú fengir að vera einhver annar í einn dag hver þá: Ég myndi vilja vera Donald Trump. Myndi nota tækifærið og segja af mér embætti. Ég held að fátt sé mikilvægara í dag en að koma honum frá.
 

Hvaða samfélagsmiðil notar þú mest: Facebook og Instagram nýti ég, reyndar meira en ég ætla mér, en er sem er.
 

Ef þú værir alvaldur í einn dag: Þá myndi ég gefa það út að öll „kerfi“ eigi að hugsa og þróa upp á nýtt og óbundið af því sem er í dag. Menntakerfi, heilbrigðiskerfi, stjórnmálakerfi, skattakerfi, fjármálakerfi o.fl. Kerfin okkar þarf að þróa upp á nýtt, þau batna ekki með plástrum.
 

Eitthvað sem fæstir vita um þig: Að ég æfði og keppti í amerísku wrestling þegar ég bjó í USA og var bara asskoti góður.
 

Mesta afrek í lífinu: Að hafa náð í konuna mína. Hún er grundvöllur þess besta sem ég hef afrekað.
 

Ef þú mættir ferðast fram eða aftur í tímann, hvert myndir þú þá fara: Ég er óskaplega sáttur í nútíðinni, en ég myndi nú samt nýta tækifærið til að svala forvitni minni. Ég hef alltaf verið forvitinn um Ísland fyrir landnám. Tíma papa og annara sem dvöldu á Íslandi áður en land byggðist. Það væri geggjað að geta kíkt yfir landið og séð hverjir voru hér og við hvað þeir voru að fást.


Lífsmottó: Komdu fram við aðra eins og þú vilt að sé komið fram við þig.


Hvað ætlar þú að gera um næstu helgi: BRIM kvikmyndahátíð verður haldin á Eyrarbakka á laugardag. Þar verð ég og vona að sem flestir komi og taki þátt í þeirri dagskrá sem verður í boði og frítt á alla viðburði.Af www.sunnlenska.is

 Skra´ð af Menningar-Bakki.