Menningar-Bakki * Viðhalda og efla þjóðlega menningararfleið til sjávar og sveita*
-------- Alþýðuhúsið á Eyrarbakka - Vinir alþýðunnar - Á undan sinni framtíð --- "Stærra í hugum okkar en við sjálfir gerum okkur grein fyrir" ---

29.07.2019 11:03

40 ár frá afhjúpun minnisvarða að Kollabúðum

 

 

Blaðið Ísfirðingur þann 10. ágúst 1979 og grein á forsíðu um afhjúpun

minnisvarðans um Kollabúðafundina.

 

 

40 ár

 

frá afhjúpun minnisvarða að Kollabúðum

 

Í dag eru 40 ár frá afhjúpun minnisvarðans um Kollabúðafundina á Kollabúðaeyrum í Þorskafirði þann 29. júlí 1979.


-Ísfirðingur- blað Framsóknarmanna í Vestfjarðakjördæmi greindi svo frá  þann 10. ágúst 1979.Fjórðungssamband Vestfirðinga minntist þess sunnudaginn 29. júlí s.l. með afhjúpun minnisvarða á Kollabúðaeyrum við botn Þorskafjarðar, að 130 ár eru liðin frá því að komið var saman á þeim stað til fyrsta fundar af 20, sem haldnir voru á árunum 1849 til 1868, og kallaðir voru Kollabúðafundir. Tilgangur þessara funda var að samræma hugmyndir, óskir og vilja dreifðra manna, stilla saman krafta þeirra til átaka og framkvæmda öllum til góðs, en það er eitt af megin verkefnum Fjórðungssambands Vestfirðinga í dag, en það var stofnað fyrir 30 árum, eða réttum 100 árum síðar en fyrsti Kollabúðafundurinn var haldinn.

 

Ákveðið var á Fjórðungsþingi Vestfirðinga 1977 að láta gera minnisvarða þann, sem nú var afhjúpaður. Á stjórnarfundi Fjórðungssambandsins var þrem mönnum falið að hafa framkvæmdina á hendi, þeim Ólafi Þ. Þórðarsyni, Halldóri Kristjánssyni og Ólafi E. Ólafssyni. Skilaði nefndin störfum við afhjúpun minnismerkisins. Þar flutti Ólafur Þ. Þórðarson ávarp, Ólafur E. Ólafsson afhjúpaði minnisvarðann og Halldór Kristjánsson flutti hátíðarræðu. Ólafur Kristjánsson, formaður stjórnar Fjórðungssambandsins þakkaði listamanninum, nefndarmönnum og öðrum, sem að verkinu höfðu unnið, og bauð öllum viðstöddum til kaffidrykkju í Bjarkalundi í boði Fjórðungssambandsins. Fjölmenni var við athöfnina, sem var í senn látlaus og virðuleg.

 

Steinþór Sigurðsson, listamaður, er höfundur minnisvarðans, sem er ferstrend, steinsteypt súla á steinsteyptri undirstöðu. Á hverja hlið súlunnar er festur skjöldur og sverð úr málmsteypu.

 

Það er vitað um aðdraganda Kollabúðafundanna, að til þeirra var stofnað með vitund og vilja Jóns Sigurðssonar, forseta, en hann kom til fundar við kjósendur sína fyrir þing 1845 og 1847, en hafði þá dvalið á annan áratug í öðru landi, en skrifast á við nokkra áhrifamenn á Vestfjörðum um fundahald.

 

Það voru 80 menn, sem sóttu fyrsta Kollabúðafundinn 18. og 19. júní 1849. Þeir voru komnir úr öllum sýslum Vestfjarða, sumir tvær dagleiðir. Á fundinum voru gerðar 7 samþykktir og þar voru kosnir tveir menn til að fara á sameiginlegan fund Dalamanna, Snæfellinga og Mýramanna í Þórsnesi til að kynna þar samþykktir Kollabúðafundarins. Á fundinum í Þórsnesi voru samþykktar allar 7 ályktanir Kollabúðafundarins og tvær að auki. Á fyrsta Kollabúðafundinum voru einnig valdir tveir menn til að mæta fyrir hönd Vestfirðinga á Þingvallafundi um sumarið, sem taka skildi við, meta og samræma það, sem héraðsfundir höfðu ályktað.

 

Á Kollabúðafundum voru einkum settar fram kröfur um aukið frjálsræði til handa landsmönnum úr hendi Danakonungs og íhlutun um landsstjórn. Þá var og um það fjallað og reynt að gera sér ljóst og ákveða hvernig nota skyldi frelsi og sjálfstjórn. Meðal þeirra mála sem rædd voru, á fundum á Kollabúðum, auk stjórnarskrármáls, voru landhelgismál - mótmæli gegn því að Þingeyri yrði frönsk verstöð, þjóðræknismál - að embættismenn notuðu íslenzku í bréfum og bókum embætta sinna, verslunarmál - að leyfar einokunarinnar væru afnumdar svo sem varð 1855, atvinnumál ýmiskonar og skólamál.

 

Til fyrsta Kollabúðafundarins má t.d. rekja sögu sjómannafræðslunnar á Íslandi, en sjómannaskóli tók til starfa á Ísafirði haustið 1852 undir stjórn Torfa Halldórssonar. Kollabúðafundirnir voru í senn árangur af og ýttu mjög undir félagslega vakningu meðal Vestfirðinga og þjóðarinnar í heild.-Ísfirðingur- blað Framsóknarmanna í Vestfjarðakjördæmi þann 10. ágúst 1979.


Ritstjórar: Halldór Kristjánsson og Jón Á. Jóhansson, ábyrgðarmaður. Afgreiðslumaður, Guðmundur Sveinsson.Björn Ingi Bjarnason á Eyrarbakka sett fram til birtingar nú 29. júlí 2019.

 

 

Stjórn Fjórðungsambands Vestfirðinga á þessum tíma. F.v.: Gunnar Pétursson,

rafvirki, Patreksfirði, Guðmundur H. Ingólfsson, bæjargjaldkeri, Ísafirði,

Jóhann T. Bjarnason, framkvæmdastjóri Fjórðungssambands Vestfirðinga, Ísafirði,

Ólafur Kristjánsson, skólastjóri, Bolungarvík, Valdimar  Gíslason,

bifreiðastjóri, Bolungarvík og Karl Loftsson, oddviti, Hólmavík.

 

F.v.:

 

Framkvæmdanefndin um minnisvarða Kollabúðafundanna og listamaðurinn.

F.v.: Steinþór Sigurðsson, listamaður, Ólafur Þ. Þórðarson, Suðureyri,

Ólafur E. Ólafsson, Króksfjarðarnesi og

Halldór Kristjánsson, Kirkjubóli Bjarnardal í Önundarfirði. 

 

 
Hrútavinir af Suðurlandi við minnisvarðann að Kollabúðum sumarið 2009.
 

F.v.: Hlynur Gylfason, Ásmundur Sigurðsson, Gunnar Marel Friðþjófsson

Einar Loftur HögnasonJóhann Páll HelgasonBjarkar Snorrason, Hafliði Magnússon, 

Einar Valur Oddsson og Friðrik Sigurjónsson.  Ljósm.: Björn Ingi Bjarnason.Skráð af Menningar-Bakki.

 
 
 
 

29.07.2019 08:01

29. júlí 2019 - þjóðhátíðardagur Færeyja

 

 

 

 

29. júlí 2019 - þjóðhátíðardagur Færeyja

 

 

Þjóðhátíðardagar Norðurlandanna:

 

Álandseyjar 

9. júní   Fyrsta þing Álandseyinga kemur saman 1923.

 

Danmörk            

16. apríl eða 5. júní     16. apríl er afmælisdagur Margrétar II. (f. 1940), en yfirleitt er litið á 5. júní sem þjóðhátíðardag, þá var stjórnarskráin staðfest árið 1849.

 

Finnland             

6. desember      Finnar lýsa yfir sjálfstæði 1917. 

 

Færeyjar            

29. júlí   Ólafsvaka.

 

Grænland          

21. júní  Lengsti dagur ársins.

 

Ísland   

17. júní Fæðingardagur Jóns Sigurðssonar 1811 og lýðveldið stofnað 1944.

 

Noregur             

17. maí  Noregur fullvalda ríki í konungssambandi við Svía 1814, og stjórnarskráin frá Eiðsvelli gekk í gildi.

 

Svíþjóð

6. júní   Gústaf I. kjörinn konungur og Svíþjóð lýst sjálfstætt þjóðríki 1523Skráð af Menningar-Bakki.

28.07.2019 07:57

Merkir Íslendingar - Hjörtur Hjálmarsson

 

 

Hjörtur Hjálmarsson (1905 - 1993).

 

 

Merkir Íslendingar - Hjörtur Hjálmarsson

 

 

Hjörtur Hjálmarssonvar fæddur 28. júní 1905 á Þorljótsstöðum í Vesturdal í Skagafirði. Foreldrar hans voru Hjálmar Þorláksson og kona hans, Kristín Þorsteinsdóttir. Þau skildu þegar Hjörtur var ungur að aldri og fluti hann með móður sinni og eldri systur, Steinunni og manni hennar, Þórarni Árnasyni, vestur að Miðhúsum í Reykhólasveit.


 

Hjörtur lauk gagnfræðaprófi frá Flensborgarskólanum í Hafnarfirði 1922. Eftir það var hann kennari í Reykhólasveit en fór svo í kennaranám og lauk því 1926. Þá varð hann aftur kennari í Reykhólasveit en árið 1931 flutti Hjörtur til Flateyrar og gerðist kennari við Barnaskólann, fyrst sem almennur kennari en síðan skólastjóri frá 1959. Gegndi hann því starfi til ársins 1970 er sonur hans, Emil Ragnar, tók við af honum.


 

Hjörtur kvæntist 15. desember 1934 Rögnu Sveinsdóttur, dóttur Sveins Gunnlaugssonar sem var skólastjóri á Flateyri á undan Hirti. Þeir tengdafeðgar byggðu sér hús saman og þar fæddust synir þeirra Hjartar og Rögnu, Emil og Grétar Snær. Ragna andaðist 1980.

 

Hjörtur gegndi margvíslegum trúnaðarstörfum á Flateyri, var m.a. oddviti, hreppstjóri, sýslunefndarmaður og sparisjóðsstjóri. Hann var varaþingmaður Alþýðuflokksins á Vestfjörðum 1959-62 og tók tvívegis sæti á Alþingi. Hjörtur var gerður að heiðursborgara Flateyrarhrepps árið 1975

og var einn af fjórum heiðursborgurunum hreppsins en hinir þrír voru;

Finnur Finnsson, Ásgeir Torfason og Sveinn Gunnlaugsson. 


 

Hjörtur Hjálmarsson var ágætlega hagorður og nýtti þá gáfu vel til skemmtunar græskulaust. Af stökum hans er sennilega vísan um týndan og fundinn frægust:
 

Týndur fannst, en fundinn hvarf,

Að fundnum týndur leita þarf,

en týndist þá og fundinn fer

að finna þann sem týndur er.


 

Síðustu árin dvaldi Hjörtur á elliheimilinu Barmahlíð á Reykhólum og lést þar 19. nóvember 1993.

 

 
 Skráð af Menningar-Bakki.

27.07.2019 10:47

Sölvi ÁR 150 í Stykkishólm

 

 

 

 

Sölvi ÁR 150 í Stykkishólm

 

 

Siggeir Ingólfsson

 

og Sölvi ÁR 150 leggja á dögunum í langferð um landveg frá Eyrarbakka í Stykkishólm.


 

.

.

Skráð af Menningar-Bakki.

27.07.2019 08:10

Dagarnir hefjast á sundspretti

 

 

 

Dagarnir hefjast á sundspretti

 

Helga Þorbergsdóttir, hjúkrunarstjóri,

sjúkraflutningamaður og skógarbóndi – 60 ára í gær

 

Helga Þorbergsdóttir er fædd 26. júlí 1959 á Landspítalanum. Hún flaug vikugömul með Birni Pálssyni flugstjóra á Katalínuflugbáti til Ísafjarðar og síðan um Óshlíð heim til Bolungarvíkur. Ólst þar upp við opið haf, í faðmi vestfirskra fjalla og stórfjölskyldu, þar til fjölskyldan flutti í Kópavog þegar Helga var á þrettánda ári. Bernskuárin fyrir vestan einkenndust af frjálsræði, athafnasemi og gleði. Bolungarvík var sjávarþorp með öflugt atvinnulíf sem byggði á útgerð og fiskvinnslu og börnin urðu snemma virkir þátttakendur í samfélaginu. Það voru viðbrigði að flytja úr vestfirsku sjávarplássi í fjölmennið í Kópavogi en Helga undi sér þar vel og þroskaferill unglingsáranna var litaður af virkni og vináttu.

 

Helga lauk prófi í hjúkrunarfræðum frá Hjúkrunarskóla Íslands árið 1981 og fór í sérskipulagt nám í sömu fræðum í HÍ 1995. Hún lauk námi í heilsuhagfræði við endurmenntunardeild Háskóla Íslands 1991 og námi í starfstengdri heilbrigðis- og lífsiðfræði á meistarastigi við HÍ 2003-2007. Þá hefur hún sótt námskeið og námsstefnur tengd hjúkrun, stjórnun, opinberri stjórnsýslu og siðfræði.

 

Helga hefur kennararéttindi í skyndihjálp og EMTAgráðu í sjúkraflutningum. Helga hóf starfsferil sinn sem hjúkrunarfræðingur á gjörgæsludeild Landakots. Síðan lá leiðin norður yfir heiðar og starfaði Helga þar á geðdeild Fjórðungssjúkrahússins á Akureyri.

 

Árið 1985 réðu Helga og Sigurgeir eiginmaður hennar sig til starfa á Heilsugæslustöðina í Vík í Mýrdal og hefur þar verið þeirra helsti starfs- og lífsvettvangur síðan. Auk þess að gegna starfi hjúkrunarstjóra í Vík er Helga sjúkraflutningamaður við Heilbrigðisstofnun Suðurlands, þá er hún ásamt Sigurgeiri skógarbóndi í Helludal í Bláskógabyggð. 

 

Helga hefur í gegnum tíðina tekið virkan þátt í fjölbreyttum samfélagsstörfum. Hún hefur setið í mörgum nefndum Mýrdalshrepps,  meðal annars gegnt formennsku í félags- og barnaverndarnefnd, setið í atvinnumálanefnd, byggingarnefnd dvalar-og hjúkrunarheimilis, Héraðsnefnd V-Skaftafellssýslu og Almannavarnanefnd Mýrdalshrepps. Hún var í hreppsnefnd Mýrdalshrepps á árunum 1994-2002, varaoddviti fyrra kjörtímabilið og oddviti það síðara. Helga sat um árabil í stjórn Fjölbrautaskóla Suðurlands, Svæðisráði um málefni fatlaðra á Suðurlandi, og hefur setið í ráðgefandi nefndum á vegum ráðuneytis og landlæknis. Helga sat í stjórn heilbrigðisnefndar Sjálfstæðisflokksins, var í miðstjórn flokksins og var varaþingmaður í Suðurkjördæmi 2003- 2007. Helga hefur um árabil verið varamaður í vísindasiðanefnd og hún situr í stjórn Háskólafélags Suðurlands og hefur verið ritari frá stofnun þess félags sem hefur það að markmiði að „auka búsetugæði og styrkja efnahag á Suðurlandi með uppbyggingu þekkingarsamfélags.“

 

 Um helstu áhugamál segir Helga að til að starfa í áratugi í heilbrigðisþjónustu í einmenningshéraði, stöðugt með bakvaktasímann í vasanum, þurfi mikinn áhuga á þeim viðfangsefnum sem sinna þarf. Eins og sjá má á ferlinum beinist áhugi Helgu að samfélagsmálum í víðum skilningi.

 

Flestir dagar ársins hefjast á sundspretti og hún hefur mikið yndi af göngum og útiveru. Eitt af mörgu góðu sem Sigurgeir hefur fært henni er að hennar sögn áhugi á skógrækt, yndisstundir við þá iðju eru „magnaðar“. „Samhent stækkandi fjölskylda og samvera með fólkinu mínu er það besta sem ég veit,“ segir Helga.

 

Fjölskylda

 

 Eiginmaður Helgu er sem segir Sigurgeir Már Jensson, læknir og skógarbóndi, f. 7. október 1953. Hann er sonur hjónanna Jens Jónssonar málarameistara, f. 29. september 1927, d. 10. júlí 2012, og Margrétar Óskarsdóttur matráðs, f. 26. maí 1933, d. 2. febrúar 2015. Þau bjuggu í Reykjavík.

 

Börn Helgu eru:

1) Harpa Elín Haraldsdóttir, f. 28. janúar 1980, með BA í mannfræði, MA í alþjóðastjórnmálum, verkefnastjóri hjá Nisum Chile. Maki hennar er Pablo Carcamo verkfræðingur, sonur þeirra er a) León Ingi f. 2015, þau eru búsett í Chile. Faðir Hörpu er Haraldur Ingi Haraldsson, f. 7. nóvember 1955, myndlistarmaður, búsettur á Akureyri.

2) Þorbergur Atli Sigurgeirsson, f. 16. júlí 1983, lífeindafræðingur að ljúka námi í klínískri bíómekaník. Kona hans er Svanlaug Árnadóttir, f. 21. apríl 1981, óperusöngkona á síðasta ári í læknanámi. Þau eru búsett í Danmörku og börn þeirra eru a) Skarphéðinn Árni, f. 2005, b) Brynjólfur Már, f. 2010, c) Ingveldur Líf, f. 2014, og d) Ásgerður Margrét, f. 2017.

3) Margrét Lilja Sigurgeirsdóttir, f. 5. mars 1987, hjúkrunarfræðingur, ráðgjafi hjá Þjónustu- og þekkingarmiðstöð fyrir blinda og sjónskerta. Hennar maður er Jóhann Fannar Guðjónsson, bifvélavirkjameistari og lögmaður, þau eru búsett í Reykjavík. Þeirra börn eru a) Lilja Dögg Jóhannsdóttir, f. 2004, móðir hennar er Hrönn Brandsdóttir, b) Sigurgeir Máni Jóhannsson, f. 2010, c) Þorkell Skorri Jóhannsson, f. 2014, og d) Katrín Björk Jóhannsdóttir, f. 2018.

4) Ingveldur Anna Sigurgeirsdóttir, f. 16. apríl 1992, viðskiptafræðingur í MA-námi, unnusti hennar er Jón Rúnar Sveinbjörnsson vélaverkfræðingur, þau eru búsett í Reykjavík og Kaupmannahöfn.

 

Bræður Helgu eru;

1) drengur, fæddur 13. janúar 1956, dáinn sama dag,

2) Kristján Ásgeir Þorbergsson lögmaður, f. 30. mars 1957, búsettur í Reykjavík,

3) Sigurbjörn Ársæll Þorbergsson lögmaður, f. 28. desember 1964, búsettur í Kópavogi, 4) Þorgils Hlynur Þorbergsson guðfræðingur, f. 1971, búsettur í Reykjavík.

 

Helga er dóttir hjónanna Þorbergs Kristjánssonar, sóknarprests í Bolungarvík og síðar í Kópavogi, f. 4. apríl 1925, d. 28. september 1996, og Elínar Þorgilsdóttur húsmóður, f. 24. janúar 1932, d. 26. apríl 1999.

 

 
 


Morgunblaðið.
 Skráð af Menningar-Bakki

 

26.07.2019 06:44

Merkir Íslendingar - Trausti Friðbertsson

 

 

Trausti Friðbertsson (1917 - 2002).

 

 

Merkir Íslendingar - Trausti Friðbertsson

 

 

Trausti Friðbertsson fæddist á Suðureyri við Súgandafjörð 26. júlí 1917. 

Trausti kvæntist 13. júní 1942 Ragnheiði Láru Sigurðardóttur, f. í Reykjavík 13. júlí 1921, dóttir hjónanna Lovísu Árnadóttur og Sigurðar E. Ingimundarsonar. Ragnheiður lést 29. desember 1984.


 

Trausti vann á uppvaxtarárum sínum þau störf er til féllu í þeirra tíma íslensku sjávarþorpi, bæði til sjós og lands. Hann lauk prófi frá Samvinnuskólanum árið 1940 og hóf fljótlega eftir það að starfa við verslun og annan rekstur sem varð síðan hans lífsstarf. Fyrstu búskaparár sín bjuggu þau Ragnheiður á Suðureyri en fluttu síðan til Ísafjarðar. Hann hóf störf við verslun J.S. Edwald og Shell-umboðið á Ísafirði árið 1945 og starfaði þar til ársins 1948 er hann var ráðinn kaupfélagsstjóri við Kaupfélag Önfirðinga á Flateyri.


 

Trausti var kaupfélagsstjóri á Flateyri í nær 28 ár eða þar til hann lét af störfum vorið 1976. Ásamt með starfi kaupfélagsstjóra gegndi Trausti starfi framkvæmdastjóra Hjallaness hf., sem var útgerðarfélag að stórum hluta í eigu Kaupfélags Önfirðinga, frá og með árinu 1960. Þá féll einnig undir hans stjórn rekstur fiskverkunar, sláturhúss o.fl. sem þá var á vegum Kaupfélags Önfirðinga.


 

Árið 1976 fluttust þau Ragnheiður búferlum til Reykjavíkur þar sem þau bjuggu á Kleppsvegi 16. Eftir flutninginn suður tók Trausti við starfi skrifstofustjóra hjá Gúmmívinnustofunni hf. þar sem hann starfaði allt til vorsins 1995 er hann lét af störfum tæplega 78 ára gamall.


 

Á Flateyri tók hann þátt í félagsmálum og sinnti nefndastörfum á vegum sveitarfélagsins. Hann sinnti einnig félagsstörfum innan Sambands ísl. samvinnufélaga og vann að ýmsu er laut að framförum og úrbótum innan samtaka fiskframleiðenda og útvegsmanna á Vestfjörðum.


 

Árið 1990 festi hann kaup á íbúð í nýbyggingu fyrir eldri borgara í Hraunbæ 103 þar sem hann bjó síðan. Trausti sat í stjórn húsfélagsins í Hraunbæ 103 og annaðist fjárreiður þess til hinsta dags.


 

Börn Trausta og Ragnheiðar:

1) drengur er fæddist andvana árið 1942; 
2) Gylfi, f. 19. nóv. 1943,

3) Sunneva, f. 2. feb. 1947, 
4) Ragnar Magnús, f. 25. des. 1948,
5) Friðbert, f. 4. okt. 1954.

 

 

 Trausti Friðbertsson lést á Landspítalanum  3. apríl 2002.
 Skráð af Menningar-Bakki.

24.07.2019 07:03

Vinna hafin við frágang og malbikun göngustíga í Árborg

 

 

Við Hraunteig á Eyrarbakka fyrir framkvæmdir. Ljósm.: Björn Ingi Bjarnason.

 

 Vinna hafin við

 

frágang og malbikun göngustíga í Árborg

 

 

Sveitarfélagið Árborg hefur samið við Gröfuþjónustu Steins ehf. um frágang og malbikun á göngustígum í Árborg og er verktakinn þegar byrjaður á verkinu.  Í samstarfi við Vegagerðina er um að ræða malbikun á göngustíg milli Eyrarbakka og Stokkseyrar og malbikun fyrsta áfanga á stíg meðfram Eyrarbakkavegi (Suðurhólar – Víkurheiði (gámasvæðisvegur).  Vegagerðin greiðir helming á móti sveitarfélaginu í þessum hluta framkvæmdanna.

 

Því til viðbótar er verið að ganga frá tveimur stígum sem alfarið eru á höndum sveitarfélagsins. 

Í fyrsta lagi er um að ræða malbikun á Hraunteigsstíg á Eyrarbakka, sem liggur frá Barnaskólanum á Eyrarbakka og að Litla-Hrauni,

en auk þess jarðvegsskipti á stíg mill Fosslands og Selfossbæja, frá Þóristúni.

 

Malbikun á að ljúka fyrir 15. september og verkinu öllu fyrir 15. október 2019.
 


Af www.arborg.is

 

 


Við upphaf framkvæmda við Hraunteig þann 18. júlí 2019.
 
 Skráð af Menningar-Bakki. 

24.07.2019 06:42

Eyrarbakki - verndarsvæði í byggð

 

 
 

 

Eyrarbakki – verndarsvæði í byggð

 

 

Á fyrri hluta ársins 2016 ákvað bæjarstjórn Sveitarfélagsins Árborgar að vinna að því að stór hluti þéttbýlisins á Eyrarbakka yrði afmarkaður sem sérstakt verndarsvæði, samkvæmt lögum um verndarsvæði í byggð nr. 87/2015.

 

Í stýrihóp fyrir verkefnið Eyrarbakki – verndarsvæði í byggð voru skipuð Ásta Stefánsdóttir bæjarstjóri, Bárður Guðmundsson, skipulags- og byggingarfulltrúi, og Svanhildur Gunnlaugsdóttir og Oddur Hermannsson, landslagsarkitektar hjá Landform ehf. – allt valinkunnir íbúar á Selfossi og valdir vegna starfa sinna til að stýra verkefninu. Veittur var styrkur til verkefnisins úr húsafriðunarsjóði að fjárhæð 8,6 m.kr. en kostnaður var áætlaður um 15 m.kr.

 

Haustið 2017 voru haldnir tveir íbúafundir á Eyrarbakka til þess að kynna stöðu verkefnisins – annar að kvöldi til og hinn stuttu síðar um miðjan dag í miðri viku. Töluverð vinna hefur verið lögð í verkefnið og sveitarfélagið borið af því kostnað. Styrkurinn úr húsfriðunarsjóði hefur þó ekki verið sóttur.

 

Nú þremur árum seinna er verkefninu enn ekki lokið. Af því tilefni tók hverfisráð Eyrarbakka málið til umfjöllunar á fundi sínum í júní sl. Þar var upplýst að helstu ástæður þess að dregist hefur að ljúka verkefninu er umfang þess, en áætlað er að verndarsvæðið nái frá Einarshafnarhverfi í vestri að Háeyrarvallahverfi í austurhluta Eyrarbakka. Meta þarf varðveislugildi margra húsa á þessu svæði og fornleifaskráning er yfirgripsmikil að mati sérfræðinga vegna fjölda minja á Eyrarbakka.

 

Hverfisráðið ályktaði á fundi sínum um verkefnið og skoraði á bæjarstjórn Sveitarfélagsins Árborgar að sjá til þess að því verði lokið sem fyrst. Ályktun hverfisráðsins er svohljóðandi í heild sinni:

„Hverfisráð Eyrarbakka hefur fjallað um verkefnið „Eyrarbakki – verndarsvæði í byggð“ og leggur áherslu á mikilvægi verkefnisins fyrir vernd og varðveislu þeirrar götumyndar sem tekist hefur að varðveita á Eyrarbakka frá síðari hluta 19. aldar og fyrri hluta 20. aldar. Ekki þarf að eyða mörgum orðum að því, hve mikla þýðingu byggðin á Eyrarbakka getur haft í markaðssetningu sveitarfélagsins sem áfangastaðar ferðamanna. Þekkt er erlendis frá, að friðuð hverfi og verndarsvæði geta verið mikið aðdráttarafl fyrir ferðamenn.

Hverfisráðið telur mikilvægt að bæjarstjórn Sveitarfélagsins Árborgar sýni í verki hver stefna hennar er í málefnum Eyrarbakka og gömlu byggðarinnar þar, ekki síst í ljósi þess að nú eru að hefjast framkvæmdir við nýjan miðbæ á Selfossi, sem munu kosta mikla fjármuni, og á að verða einhvers konar eftirlíking af gamalli byggð. Götumyndin á Eyrarbakka er einstök og mikilvægt að hún verði vernduð sem ein heild, þótt vernd einstakra bygginga skipti einnig máli. Ekki er síður mikilsvert að gætt sé vel að því, hvort og hvernig byggt verður á auðum lóðum innan væntanlegs verndarsvæðis.

 

Bæjarstjórnin hefur einstakt tækifæri í höndunum til þess að staðfesta menningarsögulegt gildi gömlu byggðarinnar á Eyrarbakka fyrir Sveitarfélagið Árborg, og reyndar landið í heild, og stuðla þannig að frekari þróun og uppbyggingu á þjónustu við ferðamenn í sveitarfélaginu.

 

Ljóst er að verkefnið um verndarsvæði í byggð hefur þegar aukið styrkveitingar úr húsafriðunarsjóði til einstaklinga sem eiga húseignir á Eyrarbakka, og eru friðaðar eða þykja varðveisluverðar. Mikilvægt er að verkefninu verði lokið, svo sú þróun haldi áfram.

 

Hverfisráð Eyrarbakka hvetur bæjarstjórn til þess að gera gangskör að því að verkefninu „Eyrarbakki – Verndarsvæði í byggð“ verði lokið sem allra fyrst og tillaga þar að lútandi verði send Minjastofnun Íslands til afgreiðslu í kjölfarið.“

 

Bæjarráð Sveitarfélagsins Árborgar hefur fjallað um ályktun hverfisráðsins og tekur undir með því í bókun sinni um mikilvægi þess að verkefninu um verndarsvæði í byggð á Eyrarbakka verði lokið. Jafnframt segir í bókun bæjarráðs: „Bæjarráð tekur undir með hverfisráðinu að bæjaryfirvöld hafa einstakt tækifæri í höndunum til að staðfesta menningarsögulegt gildi gömlu byggðarinnar á Eyrarbakka.“

 

Vonir eru því bundnar við það, að á næstunni verði þessu mikilvæga verkefni lokið, og tillaga um verndarsvæði í byggð á Eyrarbakka verði send mennta- og menningarmálaráðherra fyrr en síðar til staðfestingar. Eigendur friðaðra og varðveisluverðra húsa á Eyrarbakka, sem af miklum metnaði hafa lagt sitt af mörkum til varðveislu á menningararfinum, eiga það inni hjá sveitarfélaginu.

 

Það er sveitarfélaginu jafnframt til framdráttar, að hinni sögulegu byggð á Eyrarbakka verði lyft á þann stall sem henni sæmir.

 

 

Magnús Karel Hannesson,
íbúi á Eyrarbakka og formaður hverfisráðs

 

 
Magnús Karel Hannesson.
 
Dagskráin - héraðsfréttablað á Suðurlandi - 17. júlí 2019.Skráð af Menningar-Bakki.


 

23.07.2019 06:44

Kominn í blómabrekkuna

 


Séra Baldur Kristjánsson í Strandarkirkju í Selvogi 8. júní 2014.   Ljósm.: BIB

 

 

Kominn í blómabrekkuna

 

Baldur Kristjánsson sóknarprestur – 70 ára

 

 
 

Bald­ur Bene­dikt Ermen­rek­ur Kristjáns­son fædd­ist 22. júlí 1949 í Reykja­vík. „Ég bætti við nöfn­um afa minna í nafn mitt fyr­ir nokkr­um árum, einkum til að halda við Ermen­reksnafn­inu.“ Hann ólst upp í Hlíðunum, var í sveit á sumr­in vest­ur í Saur­bæ á Stóra-Múla og Litla-Múla og tvö sum­ur norður í Hrútaf­irði hjá Ei­ríki og Sig­ríði á Bálka­stöðum.

Bald­ur varð stúd­ent frá Mennta­skól­an­um á Laug­ar­vatni 1970, lauk BA í al­mennri þjóðfé­lags­fræði frá HÍ 1975, cand.theol. frá HÍ 1984, hóf fram­halds­nám í guðfræði og siðfræði við Har­vard Uni­versity 1989 og lauk Th. M. (Theologiae Mag­istri) þaðan 1991. Hann tók leiðsögu­manns­próf frá End­ur­mennt­un HÍ 2006.

 

Starfs­fer­ill­inn

 

Bald­ur var nokk­ur sum­ur í síma­vinnu­flokki Kjart­ans Sveins­son­ar, einkum á Vest­ur­landi, og var í vega­lög­regl­unni tvö sum­ur. Hann vann hjá Þró­un­ar­stofn­un Reykja­vík­ur 1983-1985, í land­búnaðarráðuneyt­inu 1975-1976, var fé­lags­mála- og blaðafull­trúi BSRB 1976-1980 og vann jafn­framt við dag­skrár­gerð hjá Rík­is­út­varp­inu og blaðamaður og dálka­höf­und­ur hjá Tím­an­um og síðar NT 1982-1985. Bald­ur var vígður sem prest­ur 11. júní 1984. Hann var prest­ur Óháða safnaðar­ins 1984-1985, sókn­ar­prest­ur í Bjarn­ar­nesprestakalli með aðset­ur á Höfn 1985-1995, bisk­ups­rit­ari 1995-1997 og sókn­ar­prest­ur í Þor­lák­sprestakalli 1998-2019. Önnur störf: Bald­ur var garðpró­fast­ur á Gamla garði 1973-1975, stunda­kenn­ari við Heppu­skóla 1985-1987 og síðar við Grunn­skól­ann í Þor­láks­höfn, stunda­kenn­ari við guðfræðideild HÍ 1994-1995, rit­stjóri Eystra-Horns á Höfn 1985-1988 og blaðamaður á Sunn­lenska frétta­blaðinu 1999-2003.

 

Af­mæl­is­barnið sat í stjórn Æsku­lýðssam­bands Íslands 1972-1974, var full­trúi stúd­enta í há­skólaráði 1973-1975 og sat í stúd­entaráði sama tíma. Hann var í stjórn knatt­spyrnu­deild­ar Fram 1981-1982, formaður Bridgefé­lags Reykja­vík­ur 1978-1979, var í stjórn Þroska­hjálp­ar 1982-1984, í fram­kvæmda­nefnd um mál­efni fatlaðra 1982-1984, í stjórn Presta­fé­lags Íslands 1990-1996, í skóla­nefnd á Höfn 1994-1995, formaður stjórn­ar Heilsu­gæsl­unn­ar í Þor­láks­höfn 1999-2003. Hann sat í bæj­ar­stjórn sveit­ar­fé­lags­ins Ölfuss 2002-2006, í þjóðmála­nefnd þjóðkirkj­unn­ar 1994-2000 og aft­ur 2009-2012. Var óbreytt­ur fé­lagi í ,,Feit­ir í formi“ í Þor­láks­höfn, for­seti Kiw­anis­klúbbs­ins Ölvers í eitt ár. Hann va kjör­inn til setu á kirkjuþingi 2009 til 2014, full­trúi ís­lensku þjóðkirkj­unn­ar í sam­ráðshópi 12 kirkna í jafn­mörg­um lönd­um um þróun Por­voo-sátt­mál­ans 1997-2000. Hann var til­nefnd­ur af ís­lensk­um stjórn­völd­um í nefnd Evr­ópuráðsins Europe­an Comm­issi­on against Racism and Intoler­ance 1997-2017 og var vara­for­seti nefnd­ar­inn­ar um sex ára skeið. Bald­ur ferðaðist sem slík­ur til 14 Evr­ópu­landa og vann að skýrsl­um um ástand mála m.t.t. lög­gjaf­ar og al­mennra viðhorfa stjórn­valda og al­menn­ings. Á síðari tím­um kannaði nefnd­in einnig stöðu LGTB fólks. Hann vann að skýrslu­gerð fyr­ir önn­ur alþjóðasam­tök og var formaður einn­ar nefnd­ar hér heima í fé­lags­ráðherratíð Árna Magnús­son­ar sem skilaði fram­förum í lög­gjöf fyr­ir aðflutta. Í seinni tíð hef­ur Bald­ur verið rit­ari stjórn­ar Heila­heilla og gert eitt­hvað af því að sækja ráðstefn­ur á þeirra veg­um.

 

„Eins og sjá má hef ég haft gam­an af fé­lags­mál­um og verið nokkuð mann­blend­inn. Fyr­ir utan prest­skap­inn hef­ur mest orka farið í störf á veg­um ECRÍ.“ Bald­ur er liðtæk­ur brids­spil­ari og hef­ur oft átt hesta án þess að telja sig hesta­mann.

 

„Nú um leið og ég verð pastor emer­it­us er ég flutt­ur aust­ur á Svína­fell í Öræf­um þar sem fjöl­skyld­an á ágætt hús og stunda þar þjón­ustu við ferðamenn. Ég leigi ferðamönn­um íbúð og skipti á rúm­um, skúra og moppa og geri við kló­sett og spjalla við þá svo eitt­hvað sé nefnt.“

 

Mál­stol eft­ir heila­blæðingu

 

Árið 2013 fékk Bald­ur heila­blæðingu, þ.e. blóðflæði til heil­ans stöðvaðist um stund. „Ég slapp að mestu við lang­tímaskaða nema ég varð málst­irðari en áður og fauk þar leiðsögu­manns­draum­ur­inn út um glugg­ann. Ég hélt þó mínu striki í prest­skap og kann fólki í Þor­láks­höfn bestu þakk­ir fyr­ir stuðning og þol­in­mæði en fyrst í stað vissi það varla hvað prest­ur var að tala um eða lesa svo rammt kvað að mál­stol­inu sem hef­ur mikið lag­ast í tím­ans rás þökk sé gegnd­ar­laus­um æf­ing­um og söng­tím­um svo ekki sé talað um fyr­ir­bæn­um. Eitt það er ég setti mér var að mæta aldrei öðru­vísi á fund en að taka til máls. Var það ærið skraut­legt í fyrstu en hef­ur lag­ast merki­lega mikið. Þá fór ég að lesa upp­hátt skipu­lega fyr­ir gam­alt fólk og ungt.

 

Mál­stol af völd­um heila­blæðinga og heila­áfalla hvers kon­ar er mjög fal­inn sjúk­dóm­ur í heim­in­um. Flest­ir bara þagna og málið er dautt. Það þarf að hvetja fólk til dáða og gera því auðvelt um vik að sækja end­ur­hæf­ingu. Ég var svo hepp­inn að kring­um­stæður mín­ar voru góðar og fólkið um­hverf­is hvetj­andi. Heil­inn lét að öðru leyti eins og ekk­ert hefði skeð.

 

Kunn­ur spír­it­isti sagðist dauður í gegn­um ann­an liggja í blóma­brekku en sjá jörðina í fjarska. Nú er ég í lif­anda lífi kom­inn í blóma­brekk­una. Alla­vega lit­blóm vaxa fyr­ir utan glugg­ann minn og þegar ég teygi út hönd­ina fyll­ist hún af flug­um. Sam­kvæmt þess­ari sýn verður ekki svo ýkja mik­il breyt­ing á þegar ég geispa gol­unni.

Hvað ætla ég að gera á af­mæl­is­dag­inn? Ég á von á því að ein­hverj­ir ná­grann­ar í Svína­felli líti inn í vöfflukaffi ef dags­ins önn leyf­ir þeim að líta upp. Ann­ars ætla ég að bjóða af­kom­end­um mín­um og þeirra fylgi­fisk­um í mat ein­hvern tím­ann í haust þegar vel stend­ur á.“

 

Fjöl­skylda

 

Eig­in­kona Bald­urs er Svafa Sig­urðardótt­ir, f. 22.1. 1966, dýra­lækn­ir. For­eldr­ar henn­ar voru hjón­in Sig­urður Ingvars­son, eldsmiður í Reykja­vík, f. 12.10. 1909, d. 7.4. 2001, og Guðrún Bjarna­dótt­ir hús­freyja, f. 16.8. 1931, d. 15.11. 1989. Fyrri mak­ar Bald­urs eru Jó­hanna S. Sigþórs­dótt­ir, f. 10.8. 1949, blaðamaður, og Hall­dóra Gunn­ars­dótt­ir, f. 2.6. 1959, verk­efn­is­stjóri hjá Reykja­vík­ur­borg.

 

Barn­s­móðir er Jón­ína Guðrún Garðars­dótt­ir f. 1. okt 1949, kenn­ari í Reykja­vík.

 

Börn Bald­urs:

 

1) Helga Jens­ína (ætt­leidd Svavars­dótt­ir), f. 31.10. 1973, skóla­stjóri í Borg­ar­f­irði. Maki: Hall­grím­ur Sveinn Sveins­son tölv­un­ar­fæðing­ur. Börn: Guðrún Karítas, Sveinn Svavar og Kristján Karl;

2) Kristján, f. 24.5. 1974, lög­fræðing­ur og lög­gilt­ur fast­eigna­sali. Maki: Hrafn­hild­ur Soffía Hrafns­dótt­ir um­hverf­is­skipu­lags­fræðing­ur. Barn þeirra: Agla, f. 29.8. 2017;

3) Mjöll, f. 7.1. 1979, d. 18.3. 1989;

4) Bergþóra, f. 2.2. 1990, hag­fræðing­ur hjá Íslands­banka. Maki Árni Gísla­son sér­fræðing­ur hjá dóms­málaráðuneyt­inu;

5) Rún­ar, f. 8.4. 2002, nemi í FSS;

6) Svan­laug Halla, f. 30.5. 2004, grunn­skóla­nemi.

 

Systkini Bald­urs eru Ólöf, f. 4.11. 1951, líf­einda­fræðing­ur, Bene­dikt Sig­urður, f. 6.1. 1955, bíl­stjóri og leiðsögumaður, og Ársæll, f. 5.10. 1958, lækn­ir, öll bú­sett á höfuðborg­ar­svæðinu.

 

For­eldr­ar Bald­urs voru hjón­in Kristján Bene­dikts­son, kenn­ari og borg­ar­full­trúi, f. 12.1. 1923, d. 1.10. 2015, og Svan­laug Ermen­reks­dótt­ir, kenn­ari og hús­móðir, f. 5.9. 1925, d. 16.3. 2010. Þau bjuggu í Eikju­vogi 4 í Reykja­vík.Morgunblaðið mánudagurinn 22. júlí 2019.

 

.

.

 
Skráð af Menningar-Bakki.

22.07.2019 20:53

Merkir Íslendingar - Bald­ur Vil­helms­son

 Baldur Vilhelmsson (1929 - 2014).

 

 

Merkir Íslendingar - Bald­ur Vil­helms­son

 

 

Bald­ur Vilhelmsson var fædd­ur á Hofsósi 22. júlí 1929, son­ur þeirra Vil­helms Er­lends­son­ar sím­stöðvar­stjóra og Hall­fríðar Pálma­dótt­ur konu hans.

 

Bald­ur lauk stúd­ents­prófi frá MA árið 1950. Í fram­haldi af því inn­ritaðist hann til náms við guðfræðideild Há­skóla Íslands og lauk þaðan cand. theol. prófi árið 1956. Sama ár tók hann við embætti sókn­ar­prests í Vatns­firði og gegndi því til starfs­loka árið 1999. Var til sama tíma pró­fast­ur í Ísa­fjarðarpró­fast­dæmi, embætti sem hann gegndi frá 1988.

 

Jafn­hliða prestþjón­ustu og bú­skap sinnti sr. Bald­ur marg­vís­leg­um öðrum störf­um. Var lengi kenn­ari við Héraðsskól­ann að Reykja­nesi og skóla­stjóri um hríð. Sinnti jafn­framt fé­lags- og trúnaðar­störf­um í heima­sveit sinni og í þágu Vest­f­irðinga.

 

Þá skrifaði Bald­ur tals­vert í blöð og tíma­rit og lét að sér kveða á op­in­ber­um vett­vangi.

 

Var frá­sagn­ar­gáfa hans og orðkynngi rómuð.

 

Kona Bald­urs var Ólafía Sal­vars­dótt­ir, sem lést í júlí 2014. 

Þau eignuðust fimm börn;

 Hall­fríði, Ragn­heiði, Þor­vald, Stefán og Guðbrand.

Fyr­ir átti Ólafía dótt­ur­ina Evla­líu Sig­ríði Kristjáns­dótt­ur.


Séra Bald­ur Vil­helms­son, fv. sókn­ar­prest­ur í Vatns­firði við Ísa­fjarðar­djúp, lést 26. nóvember 2014 á hjúkr­un­ar­heim­il­inu Grund í Reykja­vík, 85 ára að aldri. 

 

Baldur Vilhelmsson (1929 - 2014).Skráð af Menningar-Bakki.