Menningar-Bakki * Viðhalda og efla þjóðlega menningararfleið til sjávar og sveita*
-------- Alþýðuhúsið á Eyrarbakka - Vinir alþýðunnar - Á undan sinni framtíð --- "Stærra í hugum okkar en við sjálfir gerum okkur grein fyrir" ---

29.07.2018 08:13

29. júlí 2018 - þjóðhátíðardagur Færeyja

 

 

 

29. júlí 2018 - þjóðhátíðardagur Færeyja

 

 

Þjóðhátíðardagar Norðurlandanna:

 

Álandseyjar 

9. júní   Fyrsta þing Álandseyinga kemur saman 1923.

 

Danmörk            

16. apríl eða 5. júní     16. apríl er afmælisdagur Margrétar II. (f. 1940), en yfirleitt er litið á 5. júní sem þjóðhátíðardag, þá var stjórnarskráin staðfest árið 1849.

 

Finnland             

6. desember      Finnar lýsa yfir sjálfstæði 1917. 

 

Færeyjar            

29. júlí   Ólafsvaka.

 

Grænland          

21. júní  Lengsti dagur ársins.

 

Ísland   

17. júní Fæðingardagur Jóns Sigurðssonar 1811 og lýðveldið stofnað 1944.

 

Noregur             

17. maí  Noregur fullvalda ríki í konungssambandi við Svía 1814, og stjórnarskráin frá Eiðsvelli gekk í gildi.

 

Svíþjóð

6. júní   Gústaf I. kjörinn konungur og Svíþjóð lýst sjálfstætt þjóðríki 1523

 

 

Þjóðfáni Færeyinga við Fánasetur Suðurlands á Eyrarbakka.

 

 

 

Skráð af Menningar-Staður.

28.07.2018 11:13

Sólþurrkun við Stað á Eyrarbakka

 

 

F.v.: Haukur Jónsson, Jóhann Jóhannsson og Ragnar Emilsson.
Ljósm og flattning Björn Ingi Bjarnason.

 

 

Sólþurrkun við Stað á Eyrarbakka

 

28. júlí 2015

 

Þorskur veiddur af Mána ÁR 70 frá Eyrarbakka.

Verkaður af Vinum alþýðunnar á Menningar-Stað.


 

 

F.v.: Jóhann Jóhannsson, Ragnar Emilsson og Haukur Jónsson.
Ljósm og flattning Björn Ingi Bjarnason.

 


Skráð af Menningar-Staður.

28.07.2018 09:17

28. JÚLÍ 1662 - Íslendingar samþykktu erfðaeinveldi Danakonungs

 

 

Minningarsteinn í Kópavogi.

 

 

28. JÚLÍ 1662

 

- Íslendingar samþykktu erfðaeinveldi Danakonungs

 

 

Kópavogsfundurinn var haldinn á Kópavogsþingi þann 28. júlí árið 1662.

 

Markmiðið með honum var að fá Íslendinga til að samþykkja erfðaeinveldi Danakonungs.

 

Henrik Bjelke, aðmíráll og fulltrúi konungs, kom til Íslands á fund í Kópavogi til þess að fá íslenska höfðingja til að undirrita erfðahyllinguna.

 

Aðdragandinn var sá að Friðrik III vildi koma á erfðaeinveldi að evrópskri fyrirmynd þar sem konungsvaldið gengi sjálfkrafa í arf, í stað þess að fulltrúar þjóða sem tilheyrðu Danaveldi samþykktu hann.

 

Ýmsum sögum fer af undirritun samningsins og eru sumar á þann veg að Bjelke hafi með hótunum neytt Íslendinga til að samþykkja samninginn. Því er meðal annars haldið fram að Árni Oddsson lögmaður hafi ritað undir samninginn tárvotum augum og að Brynjólfi Sveinssyni biskup hafi verið það afar óljúft líka.

 

Hvernig sem að því var staðið var samningurinn samþykktur og afleiðingarnar voru þær að lög sem konungur setti hlutu sjálfkrafa gildi án sérstaks samþykkis Alþingis Íslendinga.

 

Gilti erfðaeinveldið allt til ársins 1874 þegar Íslendingar fengu stjórnarskrá.


Fréttablaðið.

 

 

Skráð af Menningar-Staður.

28.07.2018 09:03

Merkir Íslendingar - Guðmundur Hermannsson

 

Guðmundur Hermannsson (1925 - 2003).

 

Merkir Íslendingar - Guðmundur Hermannsson

 

Guðmund­ur Her­manns­son fædd­ist á Ísaf­irði 28.7. 1925. For­eldr­ar hans voru Her­mann K. Á. Guðmunds­son, sjó­maður og síðar verkamaður á Ísaf­irði, og k.h., Guðmunda K.S. Kristjáns­dótt­ir, verka­kona og hús­freyja.

 

Eig­in­kona Guðmund­ar var Her­borg Jún­íus­dótt­ir sem lést 2011 og eignuðust þau fjóra syni: Arn­ar, Grét­ar Jún­íus, Her­mann og Rún­ar.

 

Guðmund­ur stundaði nám við Gagn­fræðaskól­ann á Ísaf­irði, lauk próf­um frá Lög­reglu­skól­an­um í Reykja­vík 1954, stundaði nám hjá Scot­land Yard á Englandi 1954, lauk próf­um frá Metro Polit­an Police Dri­ving School í London, frá Bureau of Narcotic and Dan­gerous Drugs í Washingt­on DC í Banda­ríkj­un­um og fór náms- og kynn­is­för til lög­regl­unn­ar í Svíþjóð 1982.

 

Guðmund­ur hóf störf hjá Lög­regl­unni í Reykja­vík 1953, gegndi ýms­um stjórn­un­ar­störf­um þar, skipu­lagði t.d. slys­a­rann­sókn­ar­deild og var for­stöðumaður henn­ar, varð varðstjóri yfir varðsveit al­mennr­ar lög­gæslu 1961, var skipaður aðal­varðstjóri 1963, aðstoðar­yf­ir­lög­regluþjónn 1966 og skipaður yf­ir­lög­regluþjónn 1978, varð þá yfir rann­sókn­ar­deild og síðan yfir al­mennri lög­gæslu og um­ferðardeild frá 1988. Þá kenndi hann við Lög­reglu­skóla rík­is­ins í þrjá ára­tugi. Guðmund­ur lét af störf­um fyr­ir ald­urs sak­ir 1990.

 

Guðmund­ur var fjöl­hæf­ur íþróttamaður. Hann keppti í knatt­spyrnu og síðar í frjáls­um íþrótt­um en hann var marg­fald­ur Íslands­meist­ari og met­hafi í kúlu­varpi. Hann keppti margsinn­is í kúlu­varpi fyr­ir Íslands hönd, varð í 16. sæti á Ólymp­íu­leik­un­um í Mexí­kó árið 1968 og var kjör­inn Íþróttamaður árs­ins af íþróttaf­rétta­mönn­um árið 1967.

 

Guðmund­ur var sæmd­ur ýms­um heiðurs­merkj­um vegna lög­reglu­starfa og íþrótta­afreka. Hann var mjög list­feng­ur, lagði stund á skraut­rit­un og eft­ir hann ligg­ur fjöldi ol­íu­mál­verka og ljóða.

 

Guðmund­ur lést 15. júní 2003.
 Morgunblaðið.Skráð af Menningar-Staður

26.07.2018 17:47

F.v. sóknarprestur í Eyrarbakkaprestakalli - nú biskup í Skálholti - skrifar

 

.

Biskupshjónin í Skálholti

Kristján Björnsson og Guðrún Helga Bjarnadóttir

.

 

 

 

F.v. sóknarprestur í Eyrarbakkaprestakalli

 

- nú biskup í Skálholti - skrifar

 

 

Kæru sóknarbörn og vinir á Eyrarbakka, Stokkseyri og í Gaulverjabæ!

 

Eftir biskupsvígsluna mína í Skálholti sl. sunnudag, 22. júlí, varð ég að segja embættinu mínu lausu sem sóknarprestur í Eyrarbakkaprestakalli.

 

Í staðinn fyrir mig var sr. Arnaldur Bárðarson settur sóknarprestur í fullu starfi frá sama tíma. Hann er settur tímabundið þangað til búið verður að kjósa nýjan prest og fá hann til starfa. Sími Arnaldar er 766 8344 og netfangið er hnykar@gmail.com  

 

Hann er þegar tekinn við og var á Bryggjuhátíðinni á Stokkseyri. Hann verður með fermingarbörnin á námskeiðinu í Selfosskirkju í ágúst og svo byrja messurnar og sunnudagaskóli.

 

Ég þakka fyrir frábær ár í þjónustunni á Ströndinni bæði í gleði og sorg en umfram allt hef ég eignast góða vini í ykkur.

 

Mig langar að halda kveðjumessu 19. ágúst 2018 og læt ykkur vita þegar nær dregur.

 

Kær kveðja,

Kristján Björnsson.


 


Séra Arnaldur Bárðarson.Skráð af Menningar-Staður

 

 

25.07.2018 20:06

Íbúakosning um miðbæjarskipulag Selfoss

 

.

.

 

Áfram Árborg, Framsókn og óháðir, Miðflokkurinn og Samfylkingin

stofnuðu til meirihlutasamstarfs í bæjarstjórn Sveitarfélagins Árborgar

að afloknum sveitarstjórnarkosningunum þann 26. maí 2018.

 

 

Íbúakosning

 

um miðbæjarskipulag Selfoss

 

 

Áfram Árborg, Framsókn og óháðir, Miðflokkurinn og Samfylkingin stofnuðu til meirihlutasamstarfs í bæjarstjórn Sveitarfélagins Árborgar að afloknum sveitarstjórnarkosningunum þann 26. maí sl. Meginstef málefnasamnings framboðanna er lýðræðisleg og gagnsæ stjórnsýsla.

 

Seinagangur og ósk um baksamninga


Í mars 2015 samþykkti Bæjarráð Árborgar vilyrði til sex mánaða fyrir úthlutun 16.000 m2 svæðis í miðbæ Selfoss til handa Sigtúns þróunarfélags ehf., sem skuldbatt sig til þess að sjá um og kosta gerð deiliskipulags fyrir svæðið í heild sinni og leggja fyrir sveitarfélagið til umfjöllunar og afgreiðslu. Eftir nær þriggja ára undirbúning, vinnslu og umfjöllun var deiliskipulag miðbæjar á Selfossi síðan samþykkt í bæjarstjórn þann 21. febrúar 2018. Fjöldi athugasemda bárust vegna deiliskipulagsins og þeirrar aðalskipulagsbreytingar sem nauðsynleg var til að deiliskipulagið gæti öðlast gildi. Í framhaldinu óskaði svo þriðjungur íbúa sveitarfélagsins, eftir því að fá að kjósa um hvort skipulag miðbæjarins á Selfossi byggðri á hugmyndum Sigtúns þróunarfélags ehf., öðlaðist lögformlegt gildi. D-listi Sjálfstæðisflokksins lagði þá nauðbeygður fram þá tillögu fyrir 46. fund bæjarstjórnar þann 14. maí sl. að fá Þjóðskrá Íslands til að undirbúa rafræna íbúakosningu fyrir sveitarfélagið.

 

Á bæjarráðsfundi þann 5. júlí sl. óskar svo minnihluti D-lista Sjálfstæðisflokksins óvænt eftir því að gerður yrði baksamningur við Sigtún þróunarfélag ehf., sem yrði auglýstur í B-deild stjórnartíðinda með deiliskipulagstillögunni og þar með skuldbinda sveitarfélagið fyrirfram áður en íbúar fengju að segja sitt álit á skipulaginu. Því var að sjálfsögðu hafnað þar sem að gildistaka samnings sveitarfélagsins og Sigtúns þróunarfélags, sem samþykktur var af fimm fulltrúum D-listans þann 13. júlí 2017, öðlast ekki gildi fyrr en skipulagsferlinu er lokið og skipulagið hefur endanlega öðlast gildi.

 

Meirihluti bæjarstjórnar vill flýta því að fá niðurstöðu


Nú liggur fyrir að Þjóðskrá Íslands nær ekki að undirbúa og vinna fyrir sveitarfélagið gögn nægjanlega fljótt svo unnt sé að láta kosninguna fara fram með rafrænum hætti eins og áður hafði verið ákveðið í bæjarstjórn.

 

Á grundvelli málefnasamnings meirihluta bæjarstjórnar, X. kafla sveitarstjórnarlaga nr.138/2011 um samráð við íbúa og til þess að tryggja að íbúar sveitarfélagsins fái að segja sína skoðun á miðbæjarskipulagi Sigtúns þróunarfélags ehf., hefur meirihluti Á-, B-, M- og S-lista því ákveðið að kosningin verði með hefðbundnu fyrirkomulagi í kjördeildum þann 18. ágúst nk. til að fá lýðræðislega niðurstöðu í málið sem allra fyrst. Með því að kjósa þennan dag, gefst rúmur tími til að auglýsa og kynna íbúakosninguna eins og lög gera ráð fyrir. Þá næst einnig að uppfylla tímaramma um auglýsingu í B-deild stjórnartíðinda verði skipulagið samþykkt í íbúakosningunni.

 

Í höndum íbúa að velja


Nú er það í höndum íbúa sveitarfélagsins að ákveða hvort að unnið verði áfram með hugmyndir Sigtúns þróunarfélags ehf. eða að uppbygging svæðisins verði með öðrum hætti. Hvort þetta tiltekna deiliskipulag verður samþykkt í íbúakosninguni eða ekki, mun núverandi meirihluti leggja sig fram um að uppbygging á miðbæjarreit Selfoss fari í gang sem allra fyrst.

 

Málið hefur að okkar dómi verið allt of lengi í undirbúningi og á vinnslustigi. Einnig virðist það hafa klofið íbúa sveitarfélagsins í tvær fylkingar með eða á móti skipulaginu. Það er því von okkar að með því að fá lýðræðislega niðurstöðu með íbúakosningu þann 18. ágúst nk. náist sátt um framhald eða lok málsins.

 

Arna Ír Gunnarsdóttir, S-lista
Eggert Valur Guðmundsson, S-lista
Helgi Sigurðurður Haraldsson, B-lista
Sigurjón Vídalín Guðmundsson, Á-lista
Tómas Ellert Tómasson, M-lista

 

 

 


Skráð af Menningar-Staður

 

 

 

25.07.2018 07:06

Merkir Íslendingar - Matthías Ólafsson

 

 

Matthías Ólafsson (1857 - 1942).

 

 

Merkir Íslendingar - Matthías Ólafsson

 

Matthías Ólafsson alþingismaður fæddist í Haukadal í Dýrafirði 25. júlí 1857. 

Foreldrar hans voru Ólafur Jónsson, f. 11.6. 1819, d. 31.12. 1899, bóndi þar og k.h. Ingibjörg Jónsdóttir, f. 16.5. 1823, d. 24.6. 1911, húsfreyja.

 

Langfeðgar Ólafs höfðu búið tvær aldir eða lengur í Haukadal mann fram af manni, en Ingibjörg var afkomandi Jóns Arnórssonar, sýslumanns í Arnardal við Ísafjarðardjúp, af svonefndri Arnardalsætt. Meðal systkina Matthíasar var Jóhannes Ólafsson alþingismaður.
 

Eiginkona Matthíasar var Marsibil Ólafsdóttir, f. 4.9. 1869, d. 24.7. 1964 húsmóðir. Foreldrar hennar voru Ólafur Pétursson, skipstjóri á Þingeyri, og k.h. Þórdís Ólafsdóttir. Matthías og Marsibil eignuðust 15 börn.
 

Matthías tók gagnfræðapróf frá Möðruvöllum 1882, var við verslunarstörf í Haukadal 1882-1889 og á Flateyri 1889-1890.

Hann stofnaði með öðrum í Haukadal fyrsta barnaskóla í Vestur-Ísafjarðarsýslu 1885 og kenndi sjálfur við hann til 1889 þegar skólinn var lagður niður og skólahald fluttist á Þingeyri. Þá keypti hann skólahúsið og rak þar verslun til 1897 þegar hann seldi hana, gerðist verslunarstjóri þar 1897-1908 og keypti svo verslunina á ný. Matthías seldi hana síðan aftur þegar hann fluttist til Reykjavíkur 1914 og gerðist erindreki Fiskifélags Íslands. Hann ferðaðist í markaðsleit á vegum Fiskifélags og ríkisstjórnar um Bandaríkin, Ítalíu og Spán 1917-1920. Þegar það starf var lagt niður varð Matthías gjaldkeri Landsverslunar 1920-1928 og forstöðumaður vöruskömmtunarskrifstofu ríkisstjórnarinnar 1920-1921. Síðan var hann starfsmaður hjá Olíuverslun Íslands 1928-1935.

 

Matthías var alþingismaður V-Ísfirðinga 1911-1919.
 

Þegar Matthías hætti störfum flutti hann ásamt konu sinni í Borgarnes til Hlífar, dóttur þeirra.
 

Matthías lést 8. febrúar 1942 á Landspítalanum.

 

 

Skráð af Menningar-Staður.

24.07.2018 19:01

Fánasetur Suðurlands flaggar norskum

 

 

 

 

Fánasetur Suðurlands flaggar norskum

 

 

Fánasetur Suðurlands að Ránargrund á Eyrarbakka flaggar norskum þjóðfána í dag, 

þriðjudaginn 24. júlí 2018.


 

 
Skráð af Menningar-Staður.

24.07.2018 07:04

Birgir Sveinsson - Fæddur 5. apríl 1940 - Dáinn 10. júlí 2018 - Minning

 


Birgir Sveinsson (1940 - 2018).

 

 

 

Birgir Sveinsson - Fæddur 5. apríl 1940 

 

- Dáinn 10. júlí 2018 - Minning

 

 
 

Birg­ir Sveins­son var fædd­ur 5. apríl 1940 á Eyr­ar­bakka. Hann lést á Ljós­heim­um, Sel­fossi 10. júlí 2018.

 

For­eldr­ar hans voru Sveinn Árna­son, fædd­ur 1913, og Svein­björg Krist­ins­dótt­ir, fædd 1922. Hann var upp­al­in á Eyr­ar­bakka, elst­ur systkina sinna, al­systkini hans sam­mæðra eru Guðleif og Sig­ríður, fædd­ar 1944, Sig­ur­björg, fædd 1945, og Júlía, fædd 1949, hálf­systkini hans eru Guðlaug­ur Grét­ar, fædd­ur 1956, Hall­dóra, fædd 1957, og Gísli, fædd­ur 1958.

 

Birg­ir var kvænt­ur Guðnýju Hall­gríms­dótt­ur frá Vestra Íragerði á Stokks­eyri.

Börn Birg­is og Guðnýj­ar eru:

1) Brynj­ar, fædd­ur 1965, eig­in­kona hans er Ólafía Helga Þórðardótt­ir, syn­ir þeirra eru Daní­el Orri og Arn­ór Daði.

2) Jón Guðmund­ur, fædd­ur 1968, eig­in­kona hans er Odd­ný Sig­ríður Gísla­dótt­ir, börn þeirra eru Andrea Ýr, Rakel Eir, Pat­rek­ur Máni og Arn­ar Breki.

3) Auðunn, fædd­ur 1972, eig­in­kona hans er Daðey Ingi­björg Hann­es­dótt­ir, dæt­ur þeirra eru Arna, Ásdís, Þóra og Auður.

4) Guðni, fædd­ur 1973, eig­in­kona hans er Ingigerður Tóm­as­dótt­ir, börn þeirra eru Berg­sveinn Hugi, Björg­vin Már og Ing­unn.

5) Júlía, fædd 1976, eig­inmaður henn­ar Guðmund­ur Hall­dór Magnús­son, dótt­ir þeirra er Sól­borg Vanda, upp­eld­is­son­ur henn­ar er Óskar Hall­dór, sam­býl­is­kona hans er Hall­dóra Magnús­dótt­ir, son­ur þeirra er Guðmund­ur Atli.

Birg­ir og Guðný skildu í kring­um 1986.

 

Birg­ir bjó á Eyr­ar­bakka þar til hann veikt­ist fyr­ir ári síðan. Síðustu mánuði ævi sinn­ar dvaldi hann á Ljós­heim­um, Sel­fossi.

 

Birg­ir vann á ýms­um stöðum um æv­ina. Hann vann í Plastiðjunni á Eyr­ar­bakka, stundaði sjó­mennsku í mörg ár og byrjaði sem há­seti og varð síðar vél­stjóri. Hann var lengi á Birn­in­um, einnnig á Jó­hanni Þorkels­syni. Um tíma átti hann sjálf­ur hraðfiski­bát sem bar nafnið Snar­fari. Hann var vöru­bíl­stjóri til margra ára og vann hann þá m.a. við sjóvarn­argarðinn á Eyr­ar­bakka. Meðfram bíl­stjóra­starf­inu rak hann um tíma sjoppu á Eyr­ar­bakka ásamt þáver­andi eig­in­konu sinni.

 

Útför Birg­is fór fram í kyrrþey frá Eyr­ar­bakka­kirkju að ósk hins látna laug­ar­dag­inn 14. júlí 2018.

__________________________________________________________________________________________________MinningarorðSíðastliðinn laug­ar­dag kvödd­um við pabba, tengdapabba og afa frá Eyr­ar­bakka­kirkju.

 

Þegar kem­ur að kveðju­stund þá ósjálfrátt læt­ur maður hug­ann reika til liðinna daga og hugs­ar um all­ar stund­irn­ar sem við átt­um með Birgi. Þá koma fyrst upp í hug­ann all­ar veiðiferðirn­ar sem voru farn­ar m.a. í Brynju­dalsá, Sogið og ferðirn­ar út á engj­ar á Eyr­ar­bakka. Birg­ir var vanafast­ur og vildi alltaf fara á sömu veiðistaðina og átti það til að standa sem fast­ast þó svo það væri ekki einu sinni nartað í. Birg­ir var mik­ill sæl­keri og frá­bær bak­ari og átti hann alltaf tert­ur og klein­ur í frysti. Ef við kom­um í heim­sókn þá voru þess­ar kræs­ing­ar born­ar fram og alltaf lagað súkkulaði og það varð að vera þeytt­ur rjómi með.

 

Sólþurrkaði salt­fisk­ur­inn hans var líka al­gjört sæl­gæti og nostraði hann við fisk­inn meðan hann var að þurrka hann. Tók þetta allt vorið og var fisk­ur­inn sett­ur út um leið og það kom sól­arglæta en þetta þurfti að gera áður en flug­an kom og það mátti ekki held­ur vera of mik­il sól því þá gat fisk­ur­inn brunnið.

 

Það er ekki hægt að segja að Birg­ir hafi verið dug­leg­ur að fara í boð en þó var það eitt boð sem hann missti aldrei af, það var skötu­veisl­an hjá okk­ur í há­deg­inu á Þor­láks­messu. Hann mætti alltaf fyrst­ur og kom hann þá með sólþurrkaða salt­fisk­inn sinn sem hann var bú­inn að út­vatna fyr­ir þá sem borðuðu ekki sköt­una. Þarna hitti hann öll börn­in sín, tengda­börn og barna­börn. Á aðfanga­dag vildi hann alltaf vera einn og það var al­veg sama hvað við reynd­um til að fá hann í mat til okk­ar, hann vildi hann vera heima hjá sér. Birg­ir var mjög heimakær og vildi frek­ar fá fólk í heim­sókn til sín. Í há­deg­inu á jóla­dag bauð hann börn­um, tengda­börn­um og barna­börn­um í mat þar sem bor­inn var fram ham­borg­ara­hrygg­ur með öllu til­heyr­andi, marg­ar teg­und­ir af ís í eft­ir­rétt og á borðum voru all­ar mögu­leg­ar teg­und­ir af kon­fekti. Við vor­um varla búin að renna niður eft­ir­rétt­in­um, þegar born­ar voru fram tert­ur og brauðrétt­ir. Með þessu hitaði hann súkkulaði og þeytti rjóma með. Þetta varð alltaf að vera eins og mátti helst ekki breyta þeim teg­und­um sem voru born­ar fram.

 

Þegar ég heyrði í pabba þá spurði hann alltaf frétta af afla­brögðum og finnst mér erfitt að hugsa til þess að geta ekki hringt í hann og spjallað um dag­inn og veg­inn. Hann spurði alltaf um alla þegar við heyrðumst og vildi vita hvort all­ir væru ekki við góða heilsu.

 

Birg­ir var ynd­is­leg­ur pabbi, tengdapabbi og afi og minn­ist ég þess að hann skammaði okk­ur systkin­in aldrei held­ur ræddi mál­in og sagði sína skoðun á hlut­un­um.

 

Hafðu þökk fyr­ir allt og allt elsku pabbi, tengdapabbi og afi. Þín verður sárt saknað.

 

Brynj­ar, Lóa, Daní­el Orri og Arn­ór Daði.
 Morgunblaðið 23. júlí 2018.Skráð af Menningar-Staður.

 

 

23.07.2018 17:57

Umhverfisverðlaun Árborgar 2018

 

 

 

Umhverfisverðlaun Árborgar 2018
Sveitarfélagið Árborg óskar eftir ábendingum frá íbúum varðandi fallegasta garðinn, fallegustu götuna og snyrtilegasta fyrirtæki sveitarfélagsins.

 

Verðlaunin verða veitt á Sumar á Selfossi og nánari tímasetning verður tilkynnt síðar.

 

Sveitarfélagið Árborg tekur við ábendingum og tilnefningum frá íbúum til 31. júlí nk. í gegnum netfangið birna@arborg.is eða í gegnum þjónustuverið í síma 480-1900.
 
Skráð af Menningar-Staður.