Menningar-Bakki * Viðhalda og efla þjóðlega menningararfleið til sjávar og sveita*
-------- Alþýðuhúsið á Eyrarbakka - Vinir alþýðunnar - Á undan sinni framtíð --- "Stærra í hugum okkar en við sjálfir gerum okkur grein fyrir" ---

18.01.2020 13:16

Arnaldur ráðinn í Eyrarbakkaprestakall

 


Séra Arnaldur Bárðarson.
 

 

Arnaldur ráðinn í Eyrarbakkaprestakall

 

 

Umsóknarfrestur um Eyrarbakkaprestakall í Suðurprófastsdæmi rann út 18. desember og sótti einn um, sr. Arnaldur Bárðarson. Auglýst var eftir sóknarpresti til þjónustu við prestakallið frá og með 1. febrúar 2020.

 

Kjörnefnd kaus sr. Arnald til starfans og hefur biskup Íslands, sr. Agnes M. Sigurðardóttir, staðfest ráðningu hans.

 

Í samræmi við þær breytingar sem nú hafa orðið á starfsmannamálum þjóðkirkjunnar er sr. Arnaldur ráðinn ótímabundið í starfið með hefðbundnum uppsagnarfresti.

 

Í Eyrarbakkaprestakalli eru þrjár sóknir, Eyrarbakka-, Stokkseyrar- og Gaulverjabæjarsókn og kirkja er í hverri sókn. Íbúafjöldi í prestakallinu eru 1.443. Prestakallið er í tveimur sveitarfélögum og nær yfir þann hluta Árborgar sem næst er sjó og syðsta hluta Flóahrepps. Einn sóknarprestur starfar í prestakallinu, en umtalsvert samstarf er við presta Selfossprestakalls.

 

Arnaldur Bárðarson er fæddur 2. júní 1966 á Akureyri og ólst þar upp. Hann var við nám í Menntaskólanum á Akureyri 1982-1985 og lauk stúdentspróf frá Fjölbrautaskólanum við Ármúla 1989. Kandídatsprófi í guðræði lauk hann frá Háskóla Íslands 1995. Stundaði nám í uppeldis- og kennslufræðum við Háskólann á Akureyri 1996 og lauk meistarapróf í menntunarfræðum frá Háskólanum á Akureyri 2012. Sr. Arnaldur stundaði framhaldsnám í kennimannlegri guðfræði við norska háskóla á meistarastigi um árs skeið. Þá hefur hann leyfisbréf sem grunn- og framhaldsskólakennari.

 

Sr. Arnaldur var fræðslufulltrúi kirkjunnar á Norðurlandi frá hausti 1992 til febrúar 1996. Hann stundaði kennslu við Gagnfræðaskóla Akureyrar, Grunnskólann á Raufarhöfn, Stórutjarnaskóla, Hlíðarskóla á Akureyri, Framhaldsskólann á Laugum og Hadsel Videregående skole.

 

Sr. Arnaldur var sóknarprestur í Raufarhafnarprestakalli frá í febrúar 1996 og vígður 25. febrúar s.á. Sóknarprestur í Ljósavatnsprestakalli frá júní 1997 til vors 2003. Prestur við Glerárkirkju á Akureyri frá 2003 til ársloka 2009. Sóknarprestur í norsku kirkjunni frá ársbyrjun 2010 til aprílloka 2017. Var við hótelrekstur í Hafnarfirði frá 2017 til 2019. Hefur verið afleysingarprestur í Breiðabólstaðar-, Bústaðar-, Þorlákshafnar- og Eyrarbakkaprestaköllum.

 

Eiginkona sr. Arnalds er sr. Ingibjörg Jóhannsdóttir áður prestur í norsku kirkjunni og menntunarfræðingur. Þau eiga fimm syni.
 Skráð af Menningar-Bakki

15.01.2020 20:43

Merkir Íslendingar - Guðmundur Ingi Kristjánsson

 

 

Guðmundur Ingi Kristjánsson (1907 - 2002).

 

 

Merkir Íslendingar - Guðmundur Ingi Kristjánsson

Guðmundur Ingi fæddist á Kirkjubóli í Bjarnardal í Önundarfirði 15. janúar 1907. Foreldrar hans voru Kristján Guðjón Guðmundsson, bóndi á Kirkjubóli, og k.h., Bessabe Halldórsdóttir.

 

Systir Kristjáns var Guðrún, amma Gests Ólafssonar skipulagsfræðings og langamma Þórunnar Valdimarsdóttur, rithöfundar og sagnfræðings. Kristján var sonur Guðmundar Pálssonar, bónda á Kirkjubóli, bróður Hákonar, langafa Sigurjóns Péturssonar heitins, sem var forseti borgarstjórnar.


 

Systir Bessabe var Friðrikka, amma Einars Odds Kristjánssonar alþm. f. 1942 - d. 2007.


 

Systkini Guðmundar Inga voru Ólafur, skólastjóri í Hafnarfirði, faðir Kristjáns Bersa skólameistara og afi Ólafs Harðarsonar stjórnmálafræðings, Jóhanna á Kirkjubóli, og Halldór, rithöfundur og alþm.


 

Eiginkona Guðmundar Inga var Þuríður Gísladóttir frá Mýrum í Dýrafirði og stjúpsonur hans Sigurleifur Ágústsson. Þuríður var fædd þann 6. júlí 1925 og hún lést síðast liðið haust þann 30. október 2016.

 


Guðmundur Ingi ólst upp á Kirkjubóli, var þar heimilisfastur alla tíð og bóndi þar frá 1944. Hann stundaði nám við eldri deild Alþýðuskólans á Laugum og eldri deild Samvinnuskólans í Reykjavík. Guðmundur Ingi var kennari í Mosvallahreppi af og til um langt árabil og auk þess skólastjóri heimavistarskólans í Holti 1955-74.


 

Guðmundur Ingi sat í stjórn ungmennafélagsins Bifröst, Héraðssambands ungmennafélaga Vestfjarða, stjórn Kaupfélags Önfirðinga, Búnaðarfélags Mosvallahrepps, var formaður Búnaðarsambands Vestfjarða, oddviti Mosvallahrepps um langt árabil og sýslunefndarmaður, sat í skólanefnd hreppsins og Héraðsskólans á Núpi og var þrisvar í framboði til Alþingis fyrir Framsóknarflokkinn.


 

Ljóðabækur Guðmundar Inga eru:

Sólstafir 1938,
Sólbráð 1945,
Sóldögg 1958,
Sólborgir 1963
og Sólfar 1981.

Síðan heildarljóðasafn Sóldagar 1993 og 2007 með viðauka.Hann var sæmdur riddarakrossi 1984 og var heiðursborgari Mosvallahrepps og Ísafjarðarbæjar.


 

Guðmundur Ingi lést 30. ágúst 2002.

 

 
Kirkjból í Bjarnardal, Önundarfirði.
 

 Ljósm.: BIB Skráð af Menningar-Bakki.

 

13.01.2020 19:52

Merkir Íslendingar - Hannibal Valdimarsson

 

 

Hannibal Valdimarsson (1903 - 1991).

 

 

Merkir Íslendingar - Hannibal Valdimarsson

 

 

Hannibal fæddist í Fremri-Arnardal í Skutulsfirði 13. janúar 1903. Foreldrar hans voru Valdimar Jónsson, bóndi þar, og k.h. Elín Hannibalsdóttir.

 

Bróðir Hannibals var Finnbogi Rútur, alþm. og bankastjóri.

 

Eiginkona Hannibals var Sólveig Ólafsdóttir og urðu synir þeirra landsþekktir, þeir Arnór heimspekiprófessor, Ólafur, rithöfundur og fyrrv. vþm., og Jón Baldvin, fyrrv. alþm. ráðherra, formaður Alþýðuflokksins og sendiherra.

 

Hannibal stundaði sjósókn og verkamannavinnu á unglingsárum og lauk prófi frá kennaraskólanum í Jonstrup 1927. Hann var skólastjóri í Súðavík 1929-31, stundaði skrifstofustörf hjá Samvinnufélagi Ísfirðinga, kenndi 1931-38 og var skólastjóri Gagnfræðaskólans á Ísafirði 1938-54. Hann hóf afskipti af verkalýðsbaráttu um 1930, var formaður Verkalýðsfélags Álftfirðinga í tvö ár og Verkalýðsfélagsins Baldurs á Ísafirði 1932-39, forseti Alþýðusambands Vestfjarða 1934-54 og forseti ASÍ 1954-71, bæjarfulltrúi á Ísafirði 1933-49, alþm. 1946-73 og ráðherra í tveimur vinstristjórnum, Hermanns Jónassonar 1956-58 og Ólafs Jóhannessonar 1971-73.

 

Hannibal fór á þing fyrir Alþýðuflokkinn 1946, var formaður flokksins 1952-54, klauf flokkinn 1956 og gekk til kosningasamstarfs við Sósíalista sem forsvarsmaður Málfundafélags jafnaðarmanna undir nafni Alþýðubandalags og var formaður þess 1956-68, skildi þá við Alþýðubandalagið og stofnaði Samtök frjálslyndra og vinstrimanna 1969 og var formaður þeirra er þau unnu stórsigur í þingkosningum 1971 og felldu Viðreisnarstjórnina.

 

Samtök Hannibals tóku þá þátt í nýrri vinstristjórn sem Hannibal rakst illa í enda bendir ýmislegt til að hann hefði fremur kosið að framlengja Viðreisnarstjórn með Alþýðuflokki og Sjálfstæðisflokki en að mynda nýja vinstristjórn. Hann lauk síðan stjórnmálaferlinum í gamla góða Alþýðuflokknum sem hann hafði ungur gefið hjarta sitt.

 

Hannibal lést 1. september 1991.
 Skráð af Menningar-Bakki.

12.01.2020 21:48

BIBarinn grúskar í myndasafnini

 

 

 

 

BIBarinn grúskar í myndasafnini

 

sem telur í tugþúsundum

 


Hér er verið í Menningarsalnum í Menningarverstöðinni Hólmaröst á Stokkseyri.

 

Árið er 2005 og framundan eru jólatónleikar Karlakórs Selfoss og Jórukórsins á Selfossi.

 

Búið að stilla upp sætum fyrir um 300 tónleikagesti og Karlakórinn tekur æfingu.

 

Þessar myndir hafa ekki verið birtar áður.

 

.

.
Skráð af Menningar-Bakki.

12.01.2020 08:39

Leiðsögn: Úrklippubækur Pike Wards

 

 

Inga Lára Baldvinsdóttir.

 

 

Leiðsögn: Úrklippubækur Pike Wards

 

 

Í dag, sunnudaginn 12. janúar 2020  kl. 14:00  leiðir Inga Lára Baldvinsdóttir, sviðsstjóri Ljósmyndasafns Íslands gesti um sýninguna: Með Ísland í farteskinu. Ljósmyndir, úrklippur og munir úr fórum Pike Ward. 

 

Myndasalur - Þjóðminjasafnið Suðurgötu í Reykjavík

 

Englendingurinn Pike Ward var kunnur maður á Íslandi um aldamótin 1900. Hann gerði út frá Hafnarfirði en ferðaðist einnig um landið og keypti fisk til útflutnings. Hann kenndi Íslendingum að nýta minni fisk og staðgreiddi með peningum sem var nýlunda hér á landi. Ward var áhugaljósmyndari og tók myndir af daglegu lífi og frá fáförnum slóðum áður en Íslendingar hófu að taka myndir af áhugamennsku.

 

12. janúar er síðasti sýningardagur á úrvali ljósmynda frá Ward sem varðveittar eru í Devon Archives í Exeter. Inga Lára mun segja frá tilurð sýningarinnar, frá myndasafni Ward og benda á áhugaverðar myndir sem eru á henni. 

 

Aðgöngumiði í safnið gildir. Ókeypis fyrir handhafa árskorts.

 

Árskort kostar 2.000 kr. og gildir á allar sýningar og viðburði á Þjóðminjasafninu við Suðurgötu og í Safnahúsinu við Hverfisgötu.
Skráð af Menningar-Bakki.

11.01.2020 10:50

Málstofa og leiðsagnir

 

 

 

 

Málstofa og leiðsagnir 

 

 

Arkitektafélag Íslands og Hafnarborg standa fyrir málstofu um  Eyrbekkinginn Guðjón Samúelsson  arkitekt í Hafnarborg, menningarmiðstöð Hafnarfjarðar, í dag, laugardaginn 11. janúar 2020, frá kl. 11 til 13. Fjallað verður um Guðjón, verk hans skoðuð og metin af fimm þátttakendum sem kynnst hafa byggingarlist hans í störfum sínum á ýmsum sviðum, að því er segir í tilkynningu. Í Hafnarborg hefur staðið yfir sýning á verkum Guðjóns sem lýkur á morgun. 

 

Frummælendur á málstofunni verða arkitektarnir Guðni Valberg, Sigurður Einarsson, Sigríður Magnúsdóttir, Sigríður Björk Jónsdóttir, byggingarlistsagnfræðingur og skipulagsfræðingur, og Pétur H. Ármannsson, arkitekt og annar sýningarstjóri sýningarinnar. Fundarstjóri verður Ágústa Kristófersdóttir, forstöðumaður Hafnarborgar og hinn sýningarstjóri sýningarinnar. Í lok málstofunnar verða umræður milli frummælenda.

Guðjón Samúelsson er án efa einn áhrifamesti arkitekt landsins og eru verk hans fyrir löngu orðin kennileiti um landið allt. Guðjón lék einnig lykilhlutverk í skipulagi höfuðborgarinnar og þar af leiðandi nútímavæðingu hennar.

Hinn 20. apríl næstkomandi verða liðin 100 ár frá því að Guðjón Samúelsson tók við starfi húsameistara ríkisins. Réttu ári fyrr lauk hann háskólanámi í arkitektúr, fyrstur Íslendinga,“ segir í tilkynningu frá Hafnarborg og að í tilefni síðustu sýningarhelgarinnar verði einnig boðið upp á leiðsagnir um sýninguna með sýningarstjórum. Hún fer fram í dag, 11. janúar og á morgun 12. janúar kl. 14. 


Morgunblaðið laugardagurinn 11. janúar 2020. 


Hrútavinir og forsætisráðherra í Hafnarborg á síðustu helgi.

F.v.: Ægir E. Hafberg, Hannes Sigurðsson, Böðvar Gíslason, Árni Benediktsson,

Katrín Jakobsdóttir, forsætisráðherra

og Ágústa Kristófersdóttir, forstöðumaður Hafnarborgar.
.
 


Hrútavinir af Suðurlandi í Hafnarborg við eitt af frægustu húsum Guðjóns Samúelssonar

 - Háskóla Íslands - 
F.v.: Björn Ingi Bjarnason, Böðvar Gíslason, Ægir E. Hafberg, Árni Benediktsson,

Hannes Sigurðsson og Vigdís Karlsdóttir.

 

 


Skráð af Menningar-Bakki.

 

11.01.2020 09:36

Kiljan heyrði lagið raulað

 

 

 

 

 

 

Kiljan heyrði lagið raulað

 

 

Á geisladiskinum Náttsöngur flytja Hlín Pétursdóttir Behrens sópran og Ögmundur Þór Jóhannesson gítarleikari íslenska tónlist, bæði uppáhaldslög og óþekktar perlur.

 

 

Við erum með íslenskt efni og við pössum okkur á að hafa ekki bara tónlist sem enginn hefur heyrt áður. Þar eru þekkt uppáhaldslög innan um en í útsetningum fyrir rödd og gítar sem við unnum í sameiningu,“ segir söngkonan Hlín Pétursdóttir Behrens söngkona um efni nýs disks sem væntanlegur er. Hann nefnist Náttsöngur, þar syngur hún og Ögmundur Þór Jóhannesson spilar á gítar. Saman kalla þau sig Duo Fjara og eftir tónleikaferð um Ísland síðasta sumar tóku við upptökur í nýju og fullkomnu hljóðveri, Studio Silo á Stöðvarfirði.

 

Sem dæmi um efni á diskinum nefnir Hlín tvær útgáfur af Sofðu unga ástin mín sem hafa sjaldan heyrst og líka minna þekkt lag við Maístjörnuna en það sem allir þekkja eftir Jón Ásgeirsson. „Halldór Kiljan Laxness heyrði einhvern raula lagið fyrir munni sér, Atli Heimir skrifaði það upp og Hildigunnur Rúnarsdóttir útsetti. Svo verð ég að geta þess að haldin var keppni árið 2018 um nýtt lag í tilefni fullveldis Íslendinga. Sigurlagið er á diskinum, það er eftir Jóhann G. Jóhannsson. Einnig eru tvö önnur sem bárust í keppnina sem mér finnst dásamleg. Annað fékk sérstaka viðurkenningu.“

 

Ætlað er að diskurinn komi út í lok febrúar, útgáfutónleikar verði á Stöðvarfirði seinni partinn í mars og litlu síðar í Reykjavík. Eftirvinnsla disksins er í fullum gangi, að sögn Hlínar, sem tekur fram að hópfjármögnun standi til 16. janúar. „Með skráningu á Karolinafund má festa kaup á stafrænu niðurhali af diskinum, kaupa einn eða fleiri geisladiska og miða á útgáfutónleikana.“

 

gun@frettabladid.is - laugardagurinn 11. janúar 2020

 


Hlín Pétursdóttir Behrens með Hrútavinum á Stokkseyri fyrir nokkrum árum.

Ljósm.: BIB

Skráð af Menningar-Bakki.

09.01.2020 20:43

NilFisk á flokksþingi Framsóknar

 

 

F.v.: Víðir Björnsson, Sigurjón Dan Vilhjálmsson, Sveinn Ásgeir Jónsson,

Karl Magnús Bjarnarson og Jóhann Vignir Vilbergsson.

 

 

 NilFisk á flokksþingi Framsóknar
 


         Hljómsveitin NilFisk frá Eyrarbakka og Stokkseyri leikur á

 

         flokksþingi Framsóknarflokksins á Broadway í Reykjavík

   

         fyrir um 15 árum.
 

 

 

BIBarainn grúskar í myndasafninu.


 

.

.

.

.

Skráð af Menningar-Bakki.

09.01.2020 17:20

Merkir Íslendingar - Hjörtur Hjartar

 

 

Hjörtur Hjartar (1917 - 1993).

 

 

Merkir Íslendingar - Hjörtur Hjartar

 

 

Hjörtur Hjartar fæddist 9. janúar 1917 á Þingeyri við Dýrafjörð. Foreldrar hans voru Ólafur R. Hjartar járnsmiður þar, f. 1892, d. 1974, og k.h. Sigríður Egilsdóttir, f. 1893, d. 1980.
 

 

Hjörtur brautskráðist frá Samvinnuskólanum árið 1937 en áður hafði hann stundað verslunarstörf hjá Kaupfélagi Dýrfirðinga á árunum 1931 til 1936. Hann varð kaupfélagsstjóri Kaupfélags Önfirðinga á Flateyri á árunum 1937 til 1945 og kaupfélagsstjóri hjá Kaupfélagi Siglfírðinga á árunum 1945 til 1952, er hann tók við stöðu framkvæmdastjóra Skipadeildar Sambands íslenska samvinnufélaga. Því starfi gegndi hann til ársloka 1976.
 

 

Hjörtur átti sæti í stjórn Samvinnusparisjóðsins og síðar í bankaráði Samvinnubankans frá stofnun árið 1963. Hann sat í stjórn Áburðarverksmiðjunnar hf. og síðar í stjórn Áburðarverksmiðju ríkisins frá árinu 1964. Einnig var hann í stjórn Olíufélagsins hf. frá 1967 og var stjórnarformaður í mörg ár. Hann átti sæti í stjórn Vinnumálasambands Samvinnufélaga og samninganefndum fyrir það um margra ára skeið. Hann sat auk þess í stjórnum fjölmargra fyrirtækja á vegum samvinnuhreyfmgarinnar.
 

 

Hjörtur var í stjórn Framsóknarfélaga í V.-Ísafjarðarsýslu, á Siglufirði og í Reykjavík í allmörg ár. Hann sat auk þess í ýmsum nefndum og ráðum, svo sem í hafnarnefnd á Siglufirði og sat eitt kjörtímabil í stjórn Bæjarútgerðar Reykjavíkur.

 

Greinasafn Hjartar, Á líðandi stund – nokkur rök samvinnumanna, kom út 1984.
 

 

Eiginkona Hjartar var Guðrún Jónsdóttir Hjartar kennari, f. 23.11. 1915, d. 14.12. 2009. Foreldrar hennar voru Jón Jónsson, bóndi og alþingismaður í Stóradal í Austur-Húnavatnssýslu, og k.h. Sveinbjörg Brynjólfsdóttir. Börn Hjartar og Guðrúnar eru Jóna Björg, Sigríður Kristín, Elín og Egill.
 

 

Hjörtur lést 14. janúar 1993.

 Skráð af Menningar-Bakki.

07.01.2020 22:02

Hrútavinir og forsætisráðherra í Hafnarborg

 

 

 

  Hrútavinir af Suður-

 

     landi og forsætis-

 

ráðherra í Hafnarborg

 

 

 
Skráð af Menningar-Bakki.