Menningar-Bakki * Viðhalda og efla þjóðlega menningararfleið til sjávar og sveita*
-------- Alþýðuhúsið á Eyrarbakka - Vinir alþýðunnar - Á undan sinni framtíð --- "Stærra í hugum okkar en við sjálfir gerum okkur grein fyrir" ---

16.07.2019 21:22

Eyrarbakki - söguleg byggð

 

 

 

Eyrarbakki – söguleg byggð

 

 

Eyrarbakki hefur sérstöðu meðal þéttbýlisstaða á Suðurlandi. Í þorpinu er varðveitt einstök, samfelld byggð húsa, sem reist voru á árunum 1880 til 1920, eða frá blómatíma Eyrarbakka sem höfuðstaðar Suðurlands. Eyrarbakki var miðstöð verslunar og viðskipta og hin forna Einarshöfn á Eyrarbakka var aðalhöfn Suðurlands nánast frá upphafi byggðar á Íslandi og fram undir síðari heimsstyrjöld.

 

Mörg þeirra húsa, sem reist voru kringum aldamótin 1900, eru enn uppistandandi og setja sterkan svip á götumyndina á Eyrarbakka. Af u.þ.b. 260 húsum í þorpinu eru 78 byggð 1919 eða fyrr, eða tæpur þriðjungur húsa. Samkvæmt lögum um menningarminjar nr. 80/2012 eru öll hús sem eru 100 ára eða eldri friðuð. Aðeins eitt hús er friðlýst – Húsið sem reist var árið 1765 og er eitt elsta varðveitta timburhús á Íslandi. Húsið er sannkölluð þjóðargersemi.

 

Fjögur þessara húsa eru í eigu opinberra aðila – Húsið, Eyrarbakkakirkja, elsti hluti barnaskólans og elsti hluti fangelsisins á Litla-Hrauni. Önnur friðuð hús eru í eigu einstaklinga. Á undanförnum 40 árum hefur verið lyft grettistaki í varðveislu gömlu byggðarinnar á Eyrarbakka og flest friðuðu húsanna hafa fengið gott viðhald og endurbætur í anda húsverndar. Þannig hefur þessum mikilvæga menningararfi verið bjargað og varðveisla hans tryggð áfram.

 

Eigendur hafa margir hverjir fengið styrki úr húsafriðunarsjóði. Sjóðurinn var stofnaður með lögum árið 1975, en hlutverk er hans er „að stuðla að varðveislu og viðhaldi friðlýstra og friðaðra húsa og mannvirkja og veitir sjóðurinn styrki til viðhalds og endurbóta á friðlýstum og friðuðum húsum og mannvirkjum.“

 

Fyrsti styrkurinn úr húsafriðunarsjóði til endurbóta á húsi á Eyrarbakka var veittur árið 1979 og á þeim 40 árum sem liðin eru hafa 48 hús hlotið styrki úr sjóðnum, sum oftar en einu sinni. Alls hafa 135 styrkir verið veittir til verkefna á Eyrarbakka. Á verðlagi hvers árs er heildarfjárhæð styrkja 68,3 m.kr. en framreiknað m.v. byggingarvísitölu um 123 m.kr. Ljóst er að kostnaður húseigenda er margföld framangreind fjárhæð, en fjöldi styrkja sýnir hve hátt gamla byggðin á Eyrarbakka er metin með tilliti til húsverndar og varðveislu menningarminja. Rétt er geta þess að löngum hefur húsafriðunarsjóður verið fjárvana og framlög hins opinbera til sjóðsins í engu samræmi við þann mikla kostnað, sem fylgir varðveislu og viðhaldi friðlýstra og friðaðra húsa. Styrkir eru því í langflestum tilvikum aðeins lítið brot af framkvæmdakostnaði, og flestir aðeins táknræn viðurkenning.

 

Ferðamenn, bæði innlendir og erlendir, sem um Eyrarbakka fara ljúka allir lofsorði á hve vel hefur tekist til við að varðveita og viðhalda hinni gömlu byggð, þótt auðvitað hafi í tímans rás verið höggvin skörð í heildarmyndina með ýmsum hætti.

 

Árið 2015 samþykkti Alþingi lög um verndarsvæði í byggð. Markmið laganna er „að stuðla að vernd og varðveislu byggðar sem hefur sögulegt gildi og gilda lögin um byggð innan þéttbýlis og byggðarkjarna utan þéttbýlis sem ástæða er til að varðveita vegna svipmóts, menningarsögu eða listræns gildis.“ Það er sá ráðherra sem fer með málefni menningarminja sem tekur ákvörðun um vernd byggðar, skv. lögunum, að fenginni tillögu sveitarstjórnar eða Minjastofnunar Íslands.

 

Í leiðbeiningabæklingi Minjastofnunar Íslands segir m.a.: „Menningarsöguleg byggð hefur mikið gildi fyrir sveitarfélag og íbúa þess. Reynsla í nágrannalöndum sýnir að verndarsvæði í borgum og bæjum stuðla að því að auka vitund um þau verðmæti sem falin eru í eldri byggð, sögulegum byggingum og umhverfi þeirra. Markmið þess að gera byggð að verndarsvæði er að vernda menningarsöguleg og listræn verðmæti, bæta umhverfið og auka aðdráttarafl hverfa og bæjarhluta. Sögulegt umhverfi hefur mikið félagslegt og efnahagslegt gildi fyrir sveitarfélög og eykur lífsgæði íbúanna. Verndarsvæði í byggð verður iðulega eftirsóttur áfangastaður ferðamanna og þar skapast ný atvinnutækifæri.“

 

Á fundi bæjarráðs Sveitarfélagsins Árborgar í mars 2016 var að frumkvæði tveggja einstaklinga á Eyrarbakka ákveðið að fela framkvæmdastjóra sveitarfélagsins að vinna að því, að stór hluti þéttbýlisins á Eyrarbakka yrði afmarkaður sem sérstakt verndarsvæði, samkvæmt lögum um verndarsvæði í byggð nr. 87/2015.

 

Fjallað verður um verkefnið Eyrarbakki – verndarsvæði í byggð í næstu viku.

 

Magnús Karel Hannesson, íbúi á Eyrarbakka.

 

 Magnús Karel Hannesson.
 

 

Dagskráin 10. júlí 2019.Skráð af Menningar-Bakki.

16.07.2019 06:40

Merkir Íslendingar - Hafliði Magnússon

 

 

Hafliði Magnússon (1935 - 2011) við fossinn Dynjanda í Arnarfirði

sumarið 2009. Ljósm.: Björn Ingi Bjarnason.

 

 

Merkir Íslendingar - Hafliði Magnússon

 

 

Hafliði Þórður Magnússon, listamaður frá Bíldudal, var fæddur þann 16. júlí 1935 og í dag eru því 84 ár frá fæðingun hans. Hafliði lést þann 25. júní 2011  á heimili sínu á Selfossi.
 

 

Hafliði var fæddur í Hergilsey á Breiðafirði. Hann fluttist þaðan 6 ára í Arnarfjörð þar sem fjölskyldan bjó á ýmsum stöðum en lengst af bjó hann á Bíldudal. Hann bjó einnig um tíma í Reykjavík.


 

Hafliði starfaði m.a. sem sjómaður og þá mest á síðutogurum, við fiskvinnslu og einnig kenndi hann sjóvinnu. Þá vann hann við uppbyggingu Mjólkárvirkjunar og endurgerð fæðingarbæjar Jóns Sigurðssonar á Hrafnseyri við Arnarfjörð.


 

Frá árinu 1998 bjó Hafliði síðan á Selfossi ásamt sambýliskonu sinni Evu Þórarinsdóttur frá Suðureyri við Súgandafjörð. Á Selfossi vann hann ýmis störf, síðast hjá SG við trésmíðar þar sem hann lauk hefðbundinni starfsævi árið 2002.


 

En Hafliði Magnússon var fyrst og fremst rithöfundur, ljóðskáld, söngleikjahöfundur og málari. Þá lagði hann mikla rækt við sagnaþætti af ýmsum toga og flest í því tengdist Bíldudal og Arnarfirði. Hann var svo sannarlega margþættur listamaður og þeim störfum helgaði hann sig alfarið eftir að hann hætti störfum hjá SG.

 

 


Hafliði Magnússon á Hrafnseyri við Arnarfjörð.

Ljósm.: Björn Ingi Bjarnason.Skráð af Menningar-Bakki.

14.07.2019 14:26

Hjón stýrðu Litla-Hrauni

 

Mynd frá Björn Ingi Bjarnason.

F.v.: Vigfús Dan Sigurðsson, Jóhann Páll Helgason og Harpa Rut Heiðarsdóttir.

 

 

Hjón stýrðu Litla-Hrauni
 Í fyrsta sinn í 90 ára sögu Litla-Hrauns gerðist það í gær, laugardaginn 13. júlí 2019, að að hjón voru aðstoðar-varðstjórar á sömu vaktinni.

 

Þetta voru Harpa Rut Heiðarsdóttir, sem var aðstoðar-varðstjóri í Húsi- 3 og Vgfús Dan Sigurðsson, sem var aðstoðar-varðstjóri í Húsi-4.

 

Varðstjóri var Jóhann Páll Helgason.

 

Þau voru öll færð til myndar og flutt var hátíðarljóð:


Nú húsum ráða hjóna-par
á Hrauni aldrei áður.
Fagmennska á fullu þar
og feriltoppur dáður.Mynd frá Björn Ingi Bjarnason.

Vigfús Dan Sigurðsson og Harpa Rut Heiðarsdóttir.
Skráð af Menningar-Bakki.

 

 

13.07.2019 20:28

Merkir Íslendingar - Karvel Pálmason

 

 

 

Karvel Pálmason (1936 - 2011)

 

 

Merkir Íslendingar - Karvel Pálmason

 

 

Karvel Pálma­son (Karvel Stein­dór Ingimar) fædd­ist í Bol­ung­ar­vík 13. júlí 1936.

For­eldr­ar hans voru Pálmi Árni Karvels­son sjó­maður þar í bæ og Jón­ína Eggertína Jó­els­dótt­ir ráðskona.

 

Karvel stundaði fjöl­breytt störf í Bol­ung­ar­vík á ár­un­um 1950-1971.

 

Hann var kjör­inn á Alþingi árið 1971 fyr­ir Frjáls­lynda vinstri­menn í Vestfjarðakjördæmi ásamt Hannibal Valdimarssyni. Karvel sat á þingi til árs­ins 1991. Hann var formaður þing­flokks Sam­taka frjáls­lyndra og vinstri manna á ár­un­um 1974-1978.

 

Karvel var formaður Verka­lýðs- og sjó­manna­fé­lags Bol­ung­ar­vík­ur um ára­bil, vara­for­seti Alþýðusam­bands Vest­fjarða, sat í miðstjórn Alþýðusam­bands Íslands og var um tíma vara­formaður Verka­manna­sam­bands Íslands. Karvel sat í hrepps­nefnd Hóls­hrepps á ár­un­um 1962-1970, í Rann­sókn­aráði rík­is­ins árin 1971-1978 og í stjórn Fiski­mála­sjóðs frá 1972-1989. Hann átti sæti í stjórn Byggðastofn­un­ar á ár­un­um 1991-1995 og sat í flugráði um tíma.

 

Eft­ir­lif­andi eig­in­kona Karvels er Martha Krist­ín Svein­björns­dótt­ir. Þau eignuðust fjög­ur börn.

 

Karvel lést 23. fe­brú­ar 2011.

 

 

Morgunblaðið laugardagurinn 13. júlí 2019.


Mynd frá Björn Ingi Bjarnason.

 

Karvel Pálmason syngur hér með Hljómsveitinni ÆFINGU

í Vagninum á Flateyri á sjómannadeginum árið 1991.

Ljósm.: Björn Ingi Bjarnason.

 

 

Skráð af Menningar-Bakki.

13.07.2019 06:46

Merkir Íslendingar - Hákon Bjarnason

 

 

Hákon Bjarnason (1907 - 1989).

 

 

Merkir Íslendingar - Hákon Bjarnason

 

 

Hákon fæddist í Reykjavík 13. júlí  1907, sonur dr. Ágústs H. Bjarnason, heimspekings, prófessors og háskólarektors, og k.h. Sigríðar Jónsdóttur, kennari við Kvennaskólann.
 

Ágúst var sonur Hákonar Bjarnasonar, kaupmanns á Bíldudal, og k.h., Jóhönnu Kristínar Þorleifsdóttur, en Sigríður var dóttir Jóns Ólafssonar, ritstjóra og alþingismanns, og Helgu Eiríksdóttur húsfreyju. Hálfbróðir Jóns, samfeðra, var Páll Ólafsson skáld.
 

Hákon var tvíkvæntur. Fyrri kona hans var Guðrún Magnúsdóttir og eignuðust þau eina dóttur, Ingu deildarstjóra. Þau slitu samvistum.
 

Síðari kona hans var Guðrún Bjarnason og eignuðust þau fjögur börn: Laufeyju kennara; Ágúst grasafræðing; Björgu flugfreyju og Jón Hákon, skógtæknifræðing og skrúðgarðyrkjumeistara.
 

Hákon lauk stúdentsprófi frá MR 1926, prófi í skógrækt frá Landbúnaðarháskólanum í Kaupmannahöfn 1932, og stundaði framhaldsnám í Englandi og í Stokkhólmi.
 

Að námi loknu varð hann framkvæmdastjórn Skógræktarfélags Íslands og var skipaður skógræktarstjóri ríkisins 1935.

Enginn einn maður hefur unnið íslenskri skógrækt jafn mikið og Hákon. Hann gegndi æðstu embættum er lúta að skógrækt hér á landi allan sinn starfsferil til 1977. Skógræktarhugsjónin átti oft undir högg að sækja og harða andstæðinga hér á landi, ekki síst meðal málsvara hefðbundins landbúnaðar. Þá kom oftast til kasta Hákonar að verja hugsjón sína. Hann var fyrsti hámenntaði skógræktarsinninn, vissi og benti á að Ísland væri í barrskógabeltinu og fann plöntur í Kanada og Alaska, s.s. ösp, lúpínu og sitkagreni sem hafa þrifist mjög vel við íslenskar aðstæður.
 

Hákon var skapmikill og stjórnsamur baráttumaður. En það var fyrst og fremst þekking hans og vísindaleg vinnubrögð sem urðu til þess að hugsjón hans varð á endanum ofan á.
 

Hákon lést 16. apríl 1989.
 Skráð af Menningar-Bakki.

12.07.2019 18:19

Sólvellir fá framkvæmdastyrk

 

 
 

Sólvellir á Eyrarbakka.  Ljósm.: Björn Ingi Bjarnason.

 

 

Sólvellir fá framkvæmdastyrk

 

 

Sólvellir, heimili aldraðra á Eyrarbakka fékk samtals rúmar 3,4 milljónir króna til tveggja verkefna þegar úthlutað var úr Framkvæmdasjóði aldraðra í vikunni.

 

Sólvellir fá rúmar þrjár milljónir til þess að breyta þremur rýmum í tvö rými með salerni og rúmar 400 þúsund krónur til þess að endurbæta neyðar- og leiðarlýsingu í húsinu.

 

Alls úthlutaði heilbrigðisráðherra 400 milljónum króna úr Framkvæmdasjóði aldraðra í þetta sinn og var úthlutunin í samræmi við tillögu stjórnar sjóðsins.

 

Rúmar 307,7 milljónir króna fara í verkefni á höfuðborgarsvæðinu og fer stærsta fjárhæðin, rúmar 179,9 milljónir króna, til viðbyggingar eldhúss Hrafnistu og endurnýjun búnaðar þar, en þar verður framleiddur matur fyrir íbúa allra Hrafnistuheimilanna. 

 

Tæpar 70 milljónir króna fara í framkvæmdir sem snúa að því að færa aðbúnað íbúa á hjúkrunarheimilum í nútímalegt horf með breytingu á fjölbýlum í einbýli með snyrtingu. Skráð af Menningar-Bakki.

11.07.2019 17:25

Þjónustusamningur um Samkomuhúsið Stað undirritaður

 F.v.: Elín Birna Bjarnfinnsdóttir, Gísli Halldór Halldórsson og  Ingólfur Hjálmarsson.

 

 

 Þjónustusamningur

 

um Samkomuhúsið Stað undirritaður

 

 

Í gær, miðvikudaginn 10. júlí 2019, var samstarf Sveitarfélagsins Árborgar og Elínar Birnu Bjarnfinnsdóttur og Ingólf Hjálmarsson um rekstur á íþrótta- og samkomuhúsinu Stað á Eyrarbakka formlega skjalfest við undirritun í Samkomuhúsinu Stað.

 

Bæjarstjóri Sveitarfélagsins Árborgar, Gísli Halldór Halldórsson, skrifaði undir þriggja ára þjónustusamning við þau Elínu Birnu og Ingólf um daglega umsjón húsnæðisins. Þjónustusamningurinn felur í sér þrif, minniháttar viðhald, upplýsingamiðstöð fyrir ferðamenn yfir sumarmánuðina og móttöku pantana vegna útleigu.

 

Í dag nýtist húsnæðið meðal annars undir íþróttakennslu, æfingar á vegum Ungmennafélags Eyrarbakka auk viðburða í tengslum við sveitarfélagið og annarra viðburða tengdum útleigu.

 

Sveitarfélagið óskar Elínu Birnu og Ingólfi alls hins besta og hefur það þegar sýnt sig að samstarfið verður farsælt.

 

Af heimasíðu Árborgar.
 Skráð af Menningar-Bakki

 

 

 

11.07.2019 06:36

SKÖTUMESSAN 2019 í Suðurnesjabæ.

 

 

 

 

SKÖTUMESSAN 2019 í Suðurnesjabæ

 

 

VERÐUR HALDIN Í MIÐGARÐI GERÐASKÓLA Í GARÐI

 

 


Miðvikudaginn 17. júlí 2019 verður Skötumessan enn og aftur haldinn í Garðinum. Borðhald hefst kl. 19.00 og að venju er boðið uppá glæsilegt hlaðborð af skötu, saltfiski, plokkfiski og meðlæti og rómuð skemmtidagskrá að venju flutt af fólki sem leggur okkur lið.

 


Skólamatur sér um matinn eins og áður og skemmidagskráin samanstendur af hefðbundnum atriðum. Dói og Baldvin sjá um harmonikkuleik á meðan fólkið er að koma sér fyrir og síðan rekur hver dagskrárliðurinn sig af öðrum. Geimsteinar Suðurnesja Davíð Már Guðmundsson og Óskar Ívarsson taka nokkur lög eins og Olsenbræðurnir Erlingur og Svavar Helgasynir áður en Sigríður Á Andersen fv. ráðherra frá Móakoti í Garði flytur ræðu kvöldsins. Það er von á góðu frá þeim kvenskörungi. Þá afhendum við styrkina sem við öll erum þátttakendur í og, að lokum verða stuttir tónleikar þar sem Halldór Gunnar Fjallabróðir og Sverrir Bergman stórsöngvari skemmta Skötumessugestum. Þeir félagar harðneituðu að fá greiðslu fyrir að koma fram og leggja þannig stuðning sinn við gott málefnið.

 

Vilt þú verða einn af þeim.


Árlega mæta rúmlega 400 manns á Skötumessuna og borða til blessunar eins og dómkirkjupresturinn orðaði það svo skemmtilega við mig. Við leggjum öll saman í þetta verkefni og erum líka öll viðstödd þegar styrkirnir eru greiddir út í lok kvöldsins. Ég spyr því þig lesandi góður. Vilt þú ekki verða einn af þeim sem leggja fötluðum og þeim sem eru hjálpar þurfi lið. Vinnufélagar og kaffifélagar víða á Suðurnesjum, nú er tækifæri til þess og við erum öll í sama liðinu og finnum hvað þetta kvöld getur skiptir miklu máli fyrir þá sem við styðjum.


Verð aðgöngumiða er 5,000- kr. Það hjálpar til að greiða aðganginn inn á reikning Skötumessunnar fyrir fram eins og okkar fólk er vant en reiknisnúmerið er; 
0142-05-70506, kt. 580711-0650.


Nú er Skötumessan í fyrsta skipti haldinn í sameiginlegu sveitarfélagi og því sérstakt tækifæri fyrir íbúa að gera Skötumessuna að sinni árlegu bæjarskemmtun, mæta vel og styðja við verkefni í heimabyggð í Suðurnesjabæ. 


Hlökkum til að sjá ykkur sem flest í Gerðaskóla miðvikudaginn 17. júlí, mæta tímanlega og finna sér sæti og hlusta á harmonikkutóna frá Dóa og Baldvin fyrir kvöldverðinn.


Skötumessan er áhugafélag um velferð fatlaðra.

 

Helstu stuðningsaðilar Skötumessunnar eru;

Fiskmarkaður Suðurnesja, Skólamatur ehf, Icelandair Cargo, Suðurnesjabær og fl.

 Sklráð af Menningar-Bakki.

 

 

10.07.2019 17:28

10. júlí í sögu Þingvalla

 

 
Þingvellir. Ljósm.: Björn Ingi Bjarnason.

 

 

10. júlí í sögu Þingvalla

 

 

10. júlí 1718

Meistari Jón Vídalín biskup flutti þungorða ræðu yfir þingheimi í Þingvallakirkju. Hann sagði m.a.: „Hjá oss er orðið svoddan aflát vondra verka og lasta að menn varla straffa nema smáþjófa.“ 

 

 

10. júlí 1970

Ráðherrabústaðurinn á Þingvöllum brann. Bjarni Benediktsson forsætisráðherra, Sigríður Björnsdóttir kona hans og Benedikt Vilmundarson, dóttursonur þeirra, fórust í brunanum. Tæpu ári síðar var reistur minnisvarði á staðnum. 

 

 

10. júlí 2009

Hótel Valhöll á Þingvöllum eyðilagðist í eldsvoða. „Alveg hrikaleg sjón,“ sagði forsætisráðherra í samtali við Mbl.is. Húsið hafði verið byggt árið 1898 en flutt nær Þingvallavatni 1929 og byggt við það árið eftir.

 

 

Dagar Íslands | Jónas RagnarssonSkráð af Menningar-Bakki.

10.07.2019 06:33

Merkir Íslendingar - Jón Mýrdal

 


Jón Mýrdal ( 1825 - 1899).
 

 

 

Merkir Íslendingar - Jón Mýrdal

 

 

Jón Mýrdal, rithöfundur, fæddist 10. júlí 1825 að Hvammi í Mýrdal.

Foreldrar hans voru Steinunn Ólafsdóttir og Jón Helgason.

 

 Jón hugðist ganga til mennta en varð frá að hverfa vegna fátæktar. Hann fór til Reykjavíkur og nam trésmíði. Fljótlega fluttist hann norður í land og kynntist þar Guðrúnu Rannveigu Jónsdóttur. Þau slitu samvistum eftir eitt ár en eignuðust dótturina Kristínu Salóme.

 

Guðrún Jóhannsdóttir, barnabarn Jóns, segir í minningarorðum um afa sinn er birtust í Morgunblaðinu 27. september 1953 að þau hafi ekki átt skap saman, jafnframt hafi Jón „verið tilfinningaríkur, draumlyndur og nokkuð ölkær. Guðrún amma var stórbrotin kona, sem áleit staðreyndir tryggari fótfestu en hugmyndaflug.“

 

Jón Mýrdal dvaldi í Kaupmannahöfn um skeið, fluttist heim og ferðaðist víða um land og starfaði við smíðar, m.a kirkjubyggingar. Hann var völundur og handbragð hans bar vott um listhneigð og vandvirkni. Penninn var sjaldan langt undan og mörg verkin urðu til á hefilbekknum. Fjöldi verka liggur eftir hann, kvæði og skáldsögur auk nokkurra leikrita.

 


Mannamunur

 

Þekktasta verk hans er  -Mannamunur-  sem kom fyrst út 1872 og hefur verið endurútgefið reglulega síðan. Hann ritaði einnig tvær skáldsögur á dönsku þegar hann bjó í Kaupmannahöfn. Í dvöl sinni þar varð hann fyrir áhrifum ævintýrabókmennta eins og glögglega sést í Mannamuni. Aðalpersónurnar eru málaðar sterkum andstæðum litum og gegna því hlutverki að vera góðar eða vondar. Æskuvinirnir Ólafur og Vigfús keppa um hylli sömu stúlkunnar en bréfaskriftir hafa áhrif á gang mála. Heiti bókarinnar er lýsandi fyrir inntak verksins. Verkið tekur mið af rómönsuhefð, er formúlukennt og ber öll helstu einkenni vinsældabókmennta. Mannamunur hefur þó enn sinn sjarma sem líkja má við galdur sjónvarpsþáttanna Leiðarljóss.

 

 

Jón Mýrdal lést 1899.

 

 


Skráð af Menningar-Bakki