![]() |
Hinrik Bjarnason fæddist 8. júlí 1934 í Ranakoti á Stokkseyri.
„Ég er afsprengi fólks sem vann sjálfsþurftarbúskap til lands og sjávar, það voru ekki miklir peningar í umferð en það leið enginn skort. Þetta voru vinnusamir og hamingjuríkir dagar bæði í mýrinni og fjörunni. Ég ólst upp í Ranakoti fram yfir fermingu og fór þá til borgarinnar að borgarvæða mig og var í þeim uppeldismálum sjálfur. Svo er annarra að meta hvernig til hefur tekist.“
Hinrik lauk kennaraprófi frá KÍ 1954, var í leikskóla Lárusar Pálssonar 1952-54, stundaði nám í félags- og uppeldisfræðum í Danmörku og Svíþjóð 1958-59 og var Fulbright-styrkþegi í Bandaríkjunum 1959-60, sótti námskeið í gerð og upptökustjórn sjónvarpsþátta hjá sænska sjónvarpinu 1968 og hefur sótt fjölda námskeiða í uppeldis- og kennslufræði, tómstunda- og æskulýðsstarfi, kvikmyndagerð og sjónvarpsstörfum.
Hinrik var starfsmaður á Keflavíkurflugvelli 1953-56, skólastjóri á Vistheimilinu í Breiðuvík 1956-58, kennari við Breiðagerðisskóla 1960-63 og Réttarholtsskóla 1963-71, framkvæmdastjóri Æskulýðsráðs Reykjavíkur 1971-79, stundaði þáttagerð við Sjónvarpið 1966-75, var frumkvöðull að gerð barnaefnis fyrir Sjónvarpið og fyrsti umsjónarmaður Stundarinnar okkar.
Hann starfaði hjá Nordvision við gerð samnorrænna barna- og unglingaþátta 1969 og 1970, var deildar- og dagskrárstjóri lista- og skemmtideildar Sjónvarps 1979-85 og markaðsdeildar Sjónvarps frá 1985-2000, er hann fór á eftirlaun. „Það vildi þannig til að þegar ég var kennari þá var ég með börn í framsögn og leiklist og vegna þeirrar athygli sem það vakti var mér boðið að taka það að mér að sjá um barnaefni í sjónvarpinu,“ segir Hinrik aðspurður. „Það var mjög áhugavert og mikill aflvaki í mínu lífi. Ég vann frá haustinu 1966 við að undirbúa opnun sjónvarpsins og fram á nýja öld, því þegar ég fór á eftirlaun 2000 var ég í eitt ár að vinna sérverkefni fyrir Markús Örn Antonsson sjónvarpsstjóra.“
Hinrik sat í stjórn Bandalags íslenskra listamanna 1972-76, í framkvæmdanefnd alþjóðaárs barnsins 1979, í stjórn kvikmyndasjóðs í nokkur ár frá 1979, auk þess sem hann hefur gegnt ýmsum trúnaðarstörfum í stéttarfélögum kennara, borgarstarfsmanna og fyrir Félag kvikmyndagerðarmanna. Þá hefur hann starfað ötullega innan Rotaryhreyfingarinnar á Íslandi, var m.a. íslenskur ritstjóri Rotary Norden 2006-2009, og sat í stjórn Félags eldri borgara í Reykjavík og nágrenni um árabil.
„Ég lít á mig sem frekar félagslynda persónu og átti mjög ánægjulegt starf sem stjórnarmaður í Félagi eldri borgara og mjög ánægjuleg samskipti við menn og málefni innan Rotaryhreyfingarinnar bæði hérlendis og erlendis. Nú á ég fyrirmyndarsamskipti við fólkið þar sem ég bý í nágrenni Ríkisútvarpsins í Hvassaleiti en þar er skemmtilegur félagsskapur. Svo fer ég í heimsókn á RÚV öðru hverju, en dóttir mín vinnur þar og sonur minn vann þar lengi. Ég fylgist enn með hvað er í sjónvarpinu og er haldinn af fréttasýki. Sem betur fer fer síðan töluverður tími í að fylgjast með fjölskyldunni. Ég hef alveg nóg að gera og eftir að hafa afgreitt erfið veikindi fyrir 40 árum er ég við mjög góða heilsu og reyni að nýta mér það eins og ég get. Yfirleitt eru dagarnir frekar stuttir, ég bíð allajafna ekki eftir því að tíminn líði.“
Hinrik og kona hans voru lengi áhugasamir safnarar gamalla gripa; 31. maí 2006 færðu þau Sjóminjasafninu í Reykjavík safn sitt að gjöf, alls rúmlega 700 muni. „Þetta eru munir sem við söfnuðum frá okkar upphafsstöðum en konan mín er úr Blöndudal. Við vildum koma mununum á góðan stað og erum mjög ánægð með þetta ráðslag.“
Hinrik kvæntist 23.3. 1963 Kolfinnu Bjarnadóttur kennara, f. 30.5. 1937, d. 18.7. 2016. Hún var dóttir hjónanna Bjarna Jónassonar, bónda og fræðimanns í Blöndudalshólum, og Önnu Sigurjónsdóttur, bónda og húsfreyju.
Börn Hinriks og Kolfinnu eru:
1) Bjarni, f. 6.9. 1963, myndasöguhöfundur og þýðandi, sambýliskona hans er Susan Diol leikkona, en sonur hans og Dönu Fisarova Jónsson er Breki vinnusálfræðingur, f. 12.1. 1994; 2) Anna, f. 9.6. 1965, fjölmiðlafræðingur og yfirþýðandi við RÚV, sonur hennar er Hinrik Kolmar Önnuson, f. 23.7. 2011.
Systkini Hinriks:
Valgerður, f. 7.8. 1936, húsmóðir í Reykjavík; Kristín Sigrún, f. 26.5. 1938, húsmóðir í Reykjavík; Sigurður, f. 10.11. 1940, fyrrv. tannlæknir í Reykjavík; Guðjón, f. 10.11. 1940, d. 12.9. 2011, húsvörður í Reykjavík.
Foreldrar Hinriks voru hjónin Bjarni Sigurðsson, f. 6.8. 1893, d. 16.11. 1954, bóndi og formaður í Ranakoti, og Þuríður Guðjónsdóttir, f. 19.4. 1900, d. 10.4. 1963, húsfreyja.
![]() |
Morgunblaðið - mánudagurinn 8. júlí 2019. Skráð af Menningar-Bakki. |
![]() |
Nú þegar rúmt ár er liðið frá síðustu sveitarstjórnarkosningum finnst okkur rétt að staldra við og fara í nokkrum orðum yfir þau verkefni sem bæjarstjórn hefur verið að fást við. Svf. Árborg hefur verið í miklum vexti að undanförnu og ekkert sem bendir til annars enn að sú þróun haldi áfram. Fjölgun íbúa er umtalsvert yfir landsmeðaltali og er það ánægjuefni og um leið áskorun á bæjaryfirvöld að taka vel á móti nýjum íbúum og huga vel að þeim sem fyrir eru .Fljótlega eftir kosningar síðasta vor var ákveðið að fá hagfræðinginn Harald Líndal Haraldsson til að gera úttekt á stjórnsýslu, rekstri og fjármálum sveitarfélagsins. Lokaskýrsla Haraldar var kynnt bæjarfulltrúum og starfsmönnum sveitarfélagsins um áramót. Í framhaldi af því var farið í að innleiða nýtt skipurit fyrir sveitarfélagið og starfsmönnum falið að hefja vinnu í samræmi við þær ábendingar sem komu fram í skýrslunni. Við innleiðingu nýja skipuritsins urðu ákveðnar breytingar á starfsmannamálum, tilfærslur á störfum og ný störf urðu til. Einstaka stjórnendur ákváðu á þeim tímapunkti, að segja störfum sínum lausum og hverfa til annarra starfa og þökkum við þeim góð og óeigingjörn störf fyrir sveitarfélagið undanfarin ár um leið og við bjóðum nýtt starfsfólk velkomið til starfa.
Við þessar breytingar á skipuritinu var m.a bætt við nýrri fagnefnd hjá sveitarfélaginu, sem er Umhverfisnefnd. Umhverfismálin eru sífellt að verða stærri þáttur í lífi okkar og daglegum störfum. Á þessu ári var byrjað á að safna lífrænu sorpi í sveitarfélaginu og þriðja tunnan innleidd. Það þarf ekki að efast um það, hvað það skiptir miklu máli að allir taki með jákvæðum hætti þátt í aukinni flokkun úrgangs. Ljóst er að urðunarkostnaður fer sífellt hækkandi og þar með sorphirðugjöldin okkar íbúana sem eiga að endurspegla kostnaðinn við sorphirðuna. Einnig hefur áhugi aukist að undanförnu á að skoða möguleika með að koma upp grenndarstöðvum,með það að markmiði að auðvelda íbúum að flokka enn meira og losa sig við ákveðna sorpflokka þegar þeim hentar best. Opnunartími gámasvæðisins við Víkurheiði hefur verið lengdur og reynslan af því, sem af er verið góð, og ánægja meðal íbúa og fyrirtækja með aukið þjónustustig. Hreinsunarátak um allt Suðurland er á fullri ferð í samstarfi við Heilbrigðiseftirlit Suðurlands, tilgangurinn er að hreinsa til á lóðum og lendum þar sem mikil ruslasöfnun hefur átt sér stað m.a vegna númerslausra bíla,ónýtra kerra og öðru drasli, sem ekki er til annars en skemma fallega ásýnd og vellíðan íbúa sveitarfélagsins. Nú fer að styttast í endanlega niðurstöðu í hönnun miðbæjargarðsins á Selfossi og verður sú vinna kynnt fyrir íbúum á næstunni.
Af nógu er að taka þegar kemur að framkvæmdum og skipulagsmálum í sveitarfélaginu. Nýlega var ákveðið að fara í að endurskoða aðalskipulag sveitarfélagsins, sem væntanlega mun taka um tvö ár í vinnslu. Það er mjög mikilvægt að það verði unnið í góðu samstarfi við íbúa og hagsmunaaðila. Svf.Árborg á heilmikið land í Flóahreppi sem þarf að taka afstöðu til hvernig verður skipulagt til framtíðar, einnig óbyggt land við ný gatnamót Biskupstungnabrautar, sem verður mun áhugaverðara þegar nýr vegur og brú kemur yfir Ölfusá. Á því landsvæði verður sveitarfélagið að vera með sínar áherslur um uppbyggingu og framtíðarsýn ljósar sem fyrst, ekki síst vegna þess að fjársterkir aðilar hafa sýnt áhuga á framkvæmdum á svæðinu. Byggingaland undir íbúðarhúsnæði fer minnkandi og er allt kapp lagt á að koma hinu svokallaða Björkurstykki af stað sem fyrst, en það hefur tafist vegna ákveðinna skipulagsmála.
Verið er að gera breytingar á deiliskipulagi á Stokkseyri og Eyrarbakka og skipuleggja nýjar byggingalóðir, en aukinn eftirspurn hefur verið eftir byggingarlóðum í þorpunum við ströndina. Einnig eiga einkaaðilar nokkuð af byggingalandi við Selfoss, sem þeir hafa lýst yfir áhuga á að koma af stað sem fyrst, sú uppbygging sem þeir aðilar stefna á verður að sjálfsögðu unnin í samstarfi við bæjaryfirvöld og samfélaginu til góða.
Sl. haust var gengið frá kaupum Héraðsnefndar Árnesinga á svokölluðum Alpanhúsum á Eyrarbakka undir starfsemi Byggðarsafns Árnesinga, og ekki er vafi á því þessi kaup styrkja og styðja við öflugt menningarstarf í Svf. og Árnessýslu allri, til framtíðar.
Langþráðar framkvæmdir við nýtt hjúkrunarheimili á Selfossi eru að fara í gang við HSU en er það samstarfsverkefni ríkisins og sveitarfélagsins.
Í sumar verður lokið við að malbika fjörustíginn, milli Eyrarbakka og Stokkseyrar og einnig byrjað að malbika stíginn, meðfram Eyrarbakkavegi frá Selfossi. Sá göngustígur mun í framtíðinni tengja saman Selfoss, Eyrarbakka og Stokkseyri, sem frábær göngu-og hjólastígur, milli þéttbýliskjarna sveitarfélagsins.
Ljósleiðaravæðing sveitarfélagsins er áberandi þessa dagana en verið er að leggja hann í öll hús á Selfoss, sem ekki voru þegar kominn með hann. Einnig er að hefjast ljósleiðaravæðing í dreifbýli sveitarfélagsins. Mikið hefur verið þrýst á fjarskiptafyrirtækin að hefja sömu vinnu á Eyrarbakka og Stokkseyri og vonir standa til það fari í gang sem allra fyrst.
Mikið að fjölskyldufólki flytur í sveitarfélagið og því hefur þörfin fyrir aukið skólahúsnæði vaxið hratt, hvort heldur er leikskóla eða grunnskóla. Undirbúningur að byggingu grunnskóla í Björkurstykki hefur verið í gangi og heldur áfram af fullum þunga. Þarfagreiningu og hönnunarvinnu er lokið og önnur undirbúningsvinna í gangi. Á meðan skólinn er ekki komin í gagnið hefur þurft að þrengja að nemendum Sunnulækjar og Vallarskóla, en þar hefur verið bætt við útistofum tímabundið. Ástæða er til þess að þakka starfsfólki og foreldrum þolinmæðina á meðan þetta ástand varir. Til að mæta fjölgun í leikskólunum var á síðasta ári boðin út viðbygging við leikskólann Álfheima. Mikil vonbrigði voru hve há tilboð í þá framkvæmd bárust, eða rúmar 500 milljónir, en reikna má með að nýr fullbúinn sex deilda leikskóli kostar c.a 700 milljónir. Var sú ákvörðun tekin að fara ekki í þessa framkvæmd að sinni en ákveðið í framhaldinu að fara í aðstöðusköpun við leikskólann Álfheima. Vegna þessa var tekin ákvörðun um að hefja byggingu nýs sex deilda leikskóla við Engjaland á Selfossi. Sú vinna er hafin og vonast til að hægt verði að taka hann í notkun haustið 2020. Á meðan þarf að bregðast við auknum biðlistum, sem m.a lengdust verulega þegar Reykjavíkurborg tók þá ákvörðun að segja upp öllum vistunarsamningum við foreldra sem ekki eiga lögheimili í Rvk. En nokkur börn með lögheimili í Svf. Árborg hafa sótt leikskóla til Rvk. Til að leysa þennan vanda er verið að undirbúa að setja lausar stofur við leikskóla sveitarfélagsins næsta vetur þar til nýr leikskóli verður tilbúinn. Allt er þetta gert til að leitast við að fjölskyldum líði vel í sveitarfélaginu og þurfi ekki að hafa áhyggjur af velferð barna sinna.
Íþrótta- og æskulýðsstarf er hverju samfélagi nauðsynlegt og hægt að fullyrða að það er með miklum blóma í okkar sveitarfélagi. Stór hluti barna-og unglinga stundar einhverskonar íþrótta-og æskulýðsstarf og með því að bjóða uppá frístundastyrki fyrir 5-17 ára, fyrir skipulagt íþrótta-og tómstundastarf, reynir sveitarfélagið að styðja við þessa þátttöku en styrkurinn er á árinu 2019, kr. 35.000,- á hvert barn. Mjög öflugt starf er í þessum málaflokkum í sveitarfélaginu og ánægjuefni að allir eiga að geta fundið eitthvað við sitt hæfi. Íþróttir skipa stóran sess í sveitarfélaginu okkar og má vel sjá það með því að við eigum afreksfólk hvert sem litið er í fjölmörgum íþróttagreinum. Aðkoma sveitarfélagsins að uppbyggingu íþróttamannvirkja er með margvíslegum hætti. Metnaðarfullar hugmyndir um framtíðaruppbyggingu íþróttamannvirkja við Engjaveg hefur verið lögð fram og kynnt og ákveðið að byrja á byggingu fjölnota húss, þar sem fyrsti áfangi verður hálft hús með aðstöðu fyrir knattspyrnu og frjálsar íþróttir. Kraftmikil uppbygging hefur átt sér stað hjá GOS og stefna kylfingar á 18 holu golfvöll við Svarfhól og vegna væntanlegrar brúar er vinna hafin við færslu vallarins og stefnt á að halda áfram með hann upp með Ölfusá. Hestamannafélagið Sleipnir hefur unnið þrekvirki við uppbyggingu á Brávöllum, reiðhöll og keppnisaðstaða með því besta sem gerist á landinu og hefur gjörbreytt aðstöðu og tækifærum barna-og unglinga til að stunda hestamennsku. Verið er að undirbúa vinnu við þarfagreiningu og hönnun á betri íþróttaaðstöðu á Stokkseyri, þar sem mikið uppbyggingarstarf hefur verið unnið á undanförnum árum.
Á dögunum var skrifað undir samning við landlæknisembættið um heilsueflandi samfélag, en helstu markmið Heilsueflandi samfélags, er að styðja samfélög í að skapa umhverfi og aðstæður sem stuðla að heilbrigðari lifnaðarháttum, heilsu og vellíðan allra íbúa. Verður spennandi að sjá hvernig það þróast hjá þeim hópi sem tekið hefur að sér að stýra verkefninu.
Sveitarfélagið Árborg er eitt af þeim sveitarfélögum á Íslandi sem í dag er í hvað mestum vexti og fólksfjölgun langt yfir landsmeðaltal ár eftir ár. Að reka sveitarfélag við þessar aðstæður er mikil áskorun og skemmtileg. Þrátt fyrir auknar tekjur með mikilli fólksfjölgun duga þær tekjur ekki fyrir þeim framkvæmdum sem nauðsynlega þarf að ráðast í til þess að halda uppi öflugu þjónustustigi. Því er mjög mikilvægt að horfa vel í fjármálin og forgangsraða með tilliti til þjónustu við íbúana og grunnþarfir þeirra. Tekjur sveitarfélagsins koma að stærstum hluta frá íbúunum í formi útsvars og fasteignagjalda. Með hækkandi fasteignamati er hægt að auka tekjur sveitarfélagsins verulega með því að leggja ár eftir ár áfram á sömu prósentu fasteignaskatts, vatnsgjalds, fráveitu ofl. Meirihluti bæjarstjórnar tók þá ákvörðun sl. haust að gera það ekki fyrir árið 2019, og milda þessa hækkun með því að lækka álagningarprósentu fasteignagjalda. Mikil vinna er framundan við að greina kostnað sveitarfélagsins til að ná fram enn frekari hagræðingu til að bæta reksturinn svo hægt verði að lækka álögur á íbúa og fyrirtæki.
Sveitarfélag er ekkert annað en íbúar þess, samkv. lögum og stjórnendur sem kosnir eru til að gæta hagsmuna þeirra og reka sveitarfélagið af skynsemi og með ábyrgð að leiðarljósi.
Helgi Sigurður Haraldsson,
forseti bæjarstjórnar Svf. Árborgar.
Eggert Valur Guðmundsson,
formaður bæjarráðs Svf. Árborgar.
![]() |
Dagskráin - héraðsfréttablað á Suðurlandi - 3. júlí 2019
Skráð af Menningar-Bakki.
![]() |
Jakobína Sigurðardóttir (1918 - 1994). |
Jakobína Sigurðardóttir fæddist í Hælavík á Hornströndum 8. júlí 1918.
Foreldrar hennar voru Sigurður Sigurðsson, bóndi í Hælavík, og Halldóra Guðnadóttir húsfreyja.
Jakobína átti alls 12 systkini en meðal þeirra var Fríða Á. Sigurðardóttir rithöfundur.
Jakobína flutti að Garði í Mývatnssveit 1949 og bjó þar til æviloka, ásamt manni sínum, Þorgrími Starra Björgvinssyni, og börnum þeirra, þeim Stefaníu, Sigrúnu Huld, Sigríði Kristínu og Kára. Hún stundaði nám við Ingimarsskólann í Reykjavík og nám utanskóla við KHÍ, en þess utan var hún sjálfmenntuð.
Jakobína sendi m.a. frá sér endurminningabók, skáldsögur, smásögur og ljóð en verk hennar komu út á árunum 1959-2004. Formtilraunir og næm stílvitund einkenna verk hennar. Hún réri ávallt á ný mið með hverju verki og fiskaði ríkulega. Hún var formbyltingarhöfundur.
Fyrsta verk Jakobínu, ævintýrið Sagan af Snæbjörtu Eldsdóttur og Ketilríði Kotungsdóttur kom út 1959 og vakti strax athygli.
Í kjölfarið fylgdi kvæðasafn og síðar smásagnasafnið Púnktur á skökkum stað, 1964. Fyrsta skáldsaga Jakobínu, Dægurvísa, 1965, sló í gegn og var framlag Íslands til Bókmenntaverðlauna Norðurlandaráðs árið 1966. Auk þess var Lifandi vatnið og Snaran framlag Íslendinga til þeirra verðlauna nokkru seinna.
Dægurvísa er hópsaga, ein fárra slíkra í íslenskum bókmenntum. Frásagnarhátturinn í Snörunni, 1968, er ágengur; annarrar persónu frásögn sem er bein ræða sögumanns frá upphafi til enda. Sterk þjóðfélagsádeila endurspeglast í verkinu Lifandi vatnið, 1974. Bókin Í barndómi er einstök í sinni í röð; átakanleg og lýrísk lýsing á uppvexti Jakobínu á Hornströndum, undravert að hún skyldi ná að ljúka verkinu fyrir dauða sinn.
Jakobína lést 29. janúar 1994.
Skráð af Menningar-Bakki.
![]() |
Þröstur Sigtryggsson (1929 - 2017).
Merkir Íslendingar - Þröstur Sigtryggsson
Þröstur Sigtryggsson skipherra fæddist að Núpi í Dýrafirði 7. júlí 1929. Hann lést 9. desember 2017.
Foreldrar hans voru hjónin Hjaltlína Margrét Guðjónsdóttir, kennari og húsfreyja, frá Brekku á Ingjaldssandi, f. 4.7. 1890, d. 30.1. 1981, og séra Sigtryggur Guðlaugsson, prestur og skólastjóri á Núpi, frá Þröm í Garðsárdal, f. 27.9. 1862, d. 3.8. 1959. Bróðir Þrastar var Hlynur veðurstofustjóri, f. 5.11. 1921, d. 14.7. 2005.
Hinn 22.5. 1954 kvæntist Þröstur Guðrúnu Pálsdóttur sjúkraliða, f. 23.9. 1933, d. 25.8. 2013. Foreldrar hennar voru Bjarnheiður Jóna Guðmundsdóttir húsmóðir, f. 7.9. 1910, d. 10.8. 1976, og Páll Þorbjarnarson, skipstjóri og alþingismaður, f. 7.10. 1906, d. 20.2. 1975.
Börn Þrastar og Guðrúnar eru:
1) Margrét Hrönn, maki Sigurður Hauksson. Sonur Margrétar er Þröstur Rúnar Jóhannsson.
2) Bjarnheiður Dröfn, maki Sigurjón Þór Árnason. Börn þeirra eru Sigtryggur Örn Sigurðsson, Rúna Björg, Ellen Dögg og Árni.
3) Sigtryggur Hjalti, maki Guðríður Hallbjörg Guðjónsdóttir, hún lést 1995. Synir Sigtryggs eru Þröstur, Guðjón Örn og Hlynur.
Fyrir átti Þröstur Kolbrúnu Sigríði, maki Magnús Pétursson. Þeirra synir eru Sigurður Hannes, Pétur Örn, Davíð Þór og Friðjón. Langafabörn Þrastar eru 24.
Eftir lát eiginkonu sinnar eignaðist Þröstur góðan félaga og vin, Hallfríði Skúladóttur.
Þröstur ákvað nokkuð snemma að hans ævistarf yrði á sjó. Hann tók inntökupróf upp í annan bekk farmanna í Stýrimannaskólanum haustið 1952 og útskrifaðist frá Stýrimannaskólanum 1954 og lauk prófi í varðskipadeild í sama skóla 1954. Hann réðst þá sem stýrimaður hjá Landhelgisgæslunni og varð fastráðinn skipherra 1960 og starfaði þar til hann lét af störfum árið 1990.
Þröstur kenndi tvo vetur við grunnskólann á Þingeyri. Reri einnig frá Þingeyri á eigin trillu, Palla krata, sumrin 1993 og 1994.
Hann var skólastjóri barnaskólans á Núpi 1981 til 1983 og kenndi einnig við Héraðsskólann á Núpi.
Þröstur var mikill áhugamaður um golf á þessum árum og stofnaði golffélagið Glámu á Þingeyri, ásamt því að teikna merki félagsins. Hann falaðist eftir jörð og fékk þar sem hann hannaði og gerði níu holu golfvöll. Æskuslóðir voru honum hugleiknar og gerði hann æskuheimili sitt, Hlíð í Dýrafirði, að menningarminjasafni. Átti hann hugmynd að ritun sögu Núpsskóla. Sú hugmynd varð að veruleika og kom bókin, sem Aðalsteinn Eiríksson ritaði, út í sumar, á 110 ára afmæli stofnunar skólans.
Minningabrot Þrastar, bókin „Spaugsami spörfuglinn“, komu út 1987. Í tilefni gullbrúðkaups og 75 ára afmælis Þrastar gaf hann út diskinn „Hafblik“ með eigin lögum.
Þröstur var sæmdur riddarakrossi hinnar íslensku fálkaorðu 17. júní 1976. Hin síðari ár var hann virkur í starfi eldri borgara í Grafarvogi og var í stjórn menningardeildar í Borgum þegar hann lést.
Útför Þrastar fór fram frá Grafarvogskirkju 19. desember 2017.
Morgunblaðið.
Skráð af Menningar-Bakki.
![]() |
Benedikt Gröndal (1924 - 2010).
Benedikt fæddist á Hvilft í Önundarfirði 7. júlí 1924. Foreldrar hans voru Sigurður Gröndal, rithöfundur, yfirkennari í Reykjavík og hótelsjóri að Valhöll á Þingvöllum og k.h., Mikkelína María Sveinsdóttir húsfreyja.
Sigurður var sonur Benedikts Gröndal, skálds og skólastjóra, af Presta-Högna ætt, og Sigurlaugar Guðmundsdóttur, en Mikkelína María var dóttir Sveins Árnasonar, bónda í Hvilft í Önundarfirði, og Rannveigar Hálfdánardóttur, systur Örnólfs í Skálavík, afa Haraldar J. Hamar ritstjóra.
Meðal sex systkina Benedikts má nefna Halldór Gröndal sóknarprest og Gylfa Gröndal rithöfund.
Kona Benedikts var Heidi Jaeger Gröndal húsfreyja sem lést 2012 og eignuðust þau þrjá syni, Jón, Tómas og Einar.
Benedikt lauk stúdentsprófi frá MR 1943, BA-prófi í sagnfræði frá Harvard-háskóla 1946 en með námi og að því loknu var hann blaðamaður á Alþýðublaðinu, síðan ritstjóri Samvinnunnar 1951-58 og ritstjóri Alþýðublaðsins 1959-69.
Benedikt var landskjörinn þingmaður Borgfirðinga fyrir Alþýðuflokkinn 1956-59, þingmaður Vesturlands 1959-78 og þingmaður Reykvíkinga 1978-82. Hann var formaður Alþýðuflokksins 1974-80 og forsætisráðherra minnhlutastjórnar Alþýðuflokksins 1979-80.
Benedikt var formaður Útvarpsráðs 1957-71, fulltrúi á allsherjarþingum og hafréttarráðstefnu SÞ, var formaður undirbúningsnefndar íslensks sjónvarps, sat í stjórn Seðlabanka Íslands, stjórn Framkvæmdastofnunar og Nýbýlastjórnar, í stjórn þingmannasambands NATO og sat í fjölda nefnda um endurskoðun hinna ýmsu laga. Þegar hann lét af þingmennsku 1982 var hann skipaður sendiherra í Svíþjóð og starfaði hjá utanríkisþjónustunni til 1991.
Benedikt sendi frá sér nokkrar bækur um stjórnmál, utanríkismál og sagnfræði.
Benedikt lést 20. júlí 2010.
Skráð af Menningar-Bakki.
![]() |
Séra Hreinn S. Hákonarson talar á stofnfundi Fangelsisminjasafns Íslands. |
Fangelsisminjasafn Íslands
- stofnfundur 8. maí 2019
Miðvikudaginn 8. maí sl. var haldinn stofnfundur í Húsinu á Eyrarbakka um Fangelsisminjasafn Íslands.
Samþykkt voru lög fyrir félagið og stjórn kosin.
Það eru tímamót þegar Fangelsisminjasafni Íslands er stofnað með formlegum hætti. Vonandi tekst vel til með safnið og því auðnist með styrk góðra manna og síðar meir með fulltingi opinberra aðila að varðveita menningarverðmæti sem lítill gaumur hefur verið gefinn. Fangelsissaga er nefnilega hluti af sögu lands og lýðs.
Um nokkurt skeið hefur munum verið safnað í Fangelsisminjasafn Íslands. Fangaverðir hafa verið mjög áhugasamir um verkið og þó nokkurt magn muna komið í hús. Markmiðið er að Fangelsisminjasafn Íslands verði á Eyrarbakka.
Þeir gripir sem safnað hefur verið eru flestir litlir um sig en engu að síður merkir. Fangelsisminjasafnið kallar nú eftir gripum og öllu því sem tengist minjasögu fangelsa og ætti heima í safninu. Margt leynist víða, það vita allir. Fólk er hvatt til að leggja safninu lið í söfnun á munum og hafa samband. Hver gripur, smár sem stór, er kærkominn.
Stjórn Fangelsisminjasafns Íslands skipa:
Sr. Hreinn S. Hákonarson, formaður, Sigurður Steindórsson og Jón Sigurðsson.
Varastjórn:
Björn Ingi Bjarnason, Eiríkur Már Rúnarsson og Guðmundur G. Hagalín.
Myndasafn frá stofnfundinum á þessari slóð:
http://menningarstadur.123.is/photoalbums/291459/
Nokkrar myndir:
![]() |
Stjórn Fangelsisminjasafns Íslands.
F.v.: Sigurður Steindórsson, séra Hreinn S. Hákonarson, formaður og Jón Sigurðsson.
![]() |
||
. .
|
Skráð af Menningar-Bakki.
![]() |
Jens Sigurðsson (1813 - 1872). |
Jens fæddist á Hrafnseyri við Arnarfjörð 6. júlí 1813. Foreldrar hans voru Sigurður Jónsson, prestur á Hrafnseyri, og k.h., Þórdís Jónsdóttir húsfreyja.
Foreldrar Sigurðar voru Jón Sigurðsson, prestur á Hrafnseyri, og Ingibjörg Ólafsdóttir, lögsagnara á Eyri og ættföður Eyrarættar Jónssonar. Foreldrar Þórdísar voru Jón Ásgeirsson, prestur í Holti í Önundarfirði, og Þorkatla Magnúsdóttir.
Bróðir Jens var Jón Sigurðsson forseti, alþingismaður og skjalavörður. Systir Jens var Margrét, húsfreyja í Steinanesi, móðir Sigurðar Jónssonar, alþingismanns og sýslumanns.
Eiginkona Jens var Ólöf, dóttir Björns Gunnlaugssonar, stjörnufræðings og yfirkennara, og Ragnheiðar Bjarnadóttur og eignuðust þau níu börn. Meðal þeirra voru Sigurður Jensson, prestur og alþingismaður í Flatey; Jón Jensson, dómstjóri og alþingismaður, faðir Bergs Jónssonar alþingismanns, Björn Jensson, tengdafaðir Péturs Halldórssonar, borgarstjóra og alþingismanns, og Þórdís Jensdóttir, tengdamóðir Sigurjóns Jónssonar alþingismanns.
Jens lauk stúdentsprófi á Bessastöðum 1837 og embættisprófi í guðfræði frá Hafnarháskóla 1845.
Jens var barnakennari á Eyrarbakka veturinn 1845-46, kennari við Lærða skólann í Reykjavík 1846-69 og rektor Lærða skólans frá 1869 og til æviloka. Hann var auk þess ritstjóri „Tíðinda frá þjóðfundi Íslendinga“ sem haldinn var á Alþingi, í Lærða skólanum (á sal MR) árið 1851.
Jens var reyndar sjálfur þjóðfundarmaður fyrir Gullbringu- og Kjósarsýslu á þessum fræga þjóðfundi, árið 1851, þegar Jón, bróðir hans, mælti hin frægu orð er Trampe greifi sleit fundinum: „Og ég mótmæli í nafni konungs og þjóðarinnar þessari aðferð, og ég áskil þinginu rétt til þess að klaga til konungs vors yfir lögleysu þeirri, sem hér er höfð í frammi.“
Jens lést 2. nóvember 1872.
![]() |
Hrafnseyri við Arnarfjörð. Ljósm.: Björn Ingi Bjarnason.
![]() |
Skráð af Menningar-Bakki.
![]() |
Kristján Runólfsson (1956 - 2018).
Merkir Íslendingar -
Kristján Þór Línberg Runólfsson
Kristján Þór Línberg Runólfsson fæddist 5. júlí 1956 á Sauðárkróki. Hann lést á Heilbrigðisstofnun Suðurlands 17. október 2018.
Foreldrar hans voru Runólfur Marteins Jónsson, f. 15. desember 1919, d. 4. nóvember 2007, og Halla Kolbrún Línberg Kristjánsdóttir, f. 31. mars 1935, d. 29. október 2014.
Systkini Kristjáns eru:
1) Hólmfríður, f. 12. ágúst 1953, maki Steinn, f. 7. mars 1948, þau eiga tvo syni og fjögur barnabörn.
2) Inga, f. 5. ágúst 1954, maki Einar, f. 12. september 1956, hún á fjórar dætur og sjö barnabörn.
3) Guðrún María, f. 10. apríl 1958, hún á tvö börn og tvö barnabörn.
4) Ásgeir, f. 30. ágúst 1960, maki Belinda, f. 22. febrúar 1969, hann á átta börn og fimm barnabörn.
5) Sigríður, f. 31. desember 1962, maki Halldór, f. 4. júlí 1966, þau eiga tvo syni.
6) Birna, f. 16. febrúar 1964, hún á tvö börn.
7) Björg, f. 25. febrúar 1967, hún á eina dóttur.
8) Róbert, f. 6. janúar 1975, maki Freydís, f. 10. maí 1979, þau eiga þrjár dætur.
Fyrri eiginkona Kristjáns er Jóhanna Sigurðardóttir, þau eiga saman þrjá syni:
a) Jóhann Þór, f. 1. nóvember 1974, maki Olga Líndal, f. 10. nóvember 1975. Hann á þrjú börn: Kára, f. 30. júlí 2000, Freyju, f. 16. janúar 2002, og Ólaf Örn, f. 21. apríl 2009.
b) Gunnar Páll, f. 27. september 1979, maki Laufey, f. 16. janúar 1984. Hann á þrjú börn: Amelíu Nótt, f. 7. janúar 2004, Tinnu Katrínu, f. 16. júlí 2007, og Adam Val, f. 31. október 2010.
c) Sigurður Örn, f. 9. mars 1981.
Þann 15. júlí 2000 kvæntist Kristján Ragnhildi Guðmundsdóttur, f. 30. júlí 1953. Foreldrar Ragnhildar eru Guðmundur Einarsson, f. 19. febrúar 1929, d. 17. desember 2004, og Sigfríð Valdimarsdóttir, f. 27. september 1933.
Systkini Ragnhildar eru:
Lilja, f. 13. ágúst 1951, Ásdís, f. 30. september 1951,
Hulda, f. 7. nóvember 1954, d. 16. mars 1999,
Einar, f. 12. september 1956,
Ingi, f. 18. apríl 1960,
Hrefna, f. 9. febrúar 1965,
og Ásta María, f. 17. september 1969.
Börn Ragnhildar eru:
1) Guðmundur Óli, f. 20. október 1973, maki Hrefna, f, 23. júlí 1974. Hann á þrjú börn; Gest Egil, f. 3. júní 1994, Grím Egil, f. 13. maí 2001, og Ragnhildi Jóhönnu, f. 23. maí 2005.
2) Hugrún, f. 18. mars 1976, maki Sigfús, f. 21. september 1976. Hún á þrjú börn; Elís Aron, f. 22. október 2003, Leon Mána, f. 22. júní 2013, og Noel Evan, f. 9. maí 2015.
3) Eiríkur Einar, f. 28. júní 1987, maki Guðrún Vilborg, f. 3. september 1987. Hann á tvö börn; Elmar Elí, f. 6. október 2010, og Victoríu Köru, f. 4. desember 2012.
Kristján ólst upp í Skagafirði á Brúarlandi í Deildardal og eyddi unglingsárum á Eyrarbakka. Meginhluta ævinnar bjó hann á Sauðárkróki en fluttist í Hveragerði árið 2004. Kristján var mikill grúskari, safnaði m.a. ljósmyndum, skjölum og gömlum munum. Hann stofnaði Minjasafn Kristjáns Runólfssonar á Sauðárkróki og rak í fjölda ára. Kristján hafði einnig mikinn áhuga á ættfræði en fyrst og fremst var hann mikill hagyrðingur.
Útför Kristjáns fór fram frá Hveragerðiskirkju, 31. október 2018.
_____________________________________________________________________________________
Minningarorð - Ólöf Erla og Sigurður dýralæknir Selfossi.
Kristján Runólfsson, hagyrðingurinn snjalli og safnarinn iðni, er dáinn eftir stuttan en harðvítugan lokaslag við ofjarl læknavísindanna.
Það er þungt áfall fyrir fjölmarga vini hans að missa hann svo ungan. Þeirra á meðal vorum við í litla Kvæðamannafélaginu Árgala á Selfossi. Við söknum hans sárt.
Hann sótti vel fundi okkar og var lengst í stjórn félagsins. Hann var gleðivaki og áhugasamur um að kynna kvæðamennskuna fyrir öðrum.
Hann kom með gesti á okkar fundi. Elís barnabarn hans drakk í sig áhuga afa síns og hafði fengið brennandi áhuga á kveðskap, en við veru hans í Svíþjóð var sambandið erfiðara. Hann spurði afa sinn fyrst af öllu þegar hann kom í heimsóknir til Íslands: „Er ekki bráðum fundur í Árgala?“ Elís er velkominn á okkar fund þegar hann vill og getur og fundirnir eru eins og áður á öðrum mánudegi hvers mánaðar að vetrinum.
Allir eru velkomnir á okkar fundi.
Kristján var iðinn við að setja ljóðin sín á leirinn og vísur hans og ljóð voru oftast þrungin hlýju, gamansemi og spekiorðum.
Þessar vísur komu á netið fyrir nokkru:
Leikum okkur varlega á lífsins hálu braut,
því létt er gangan oftast breiða veginn.
Syndin leynist víða og sendir okkur þraut
og sumir fara út af báðum megin.
En þeim sem fara mjóa veginn gatan sækist seint
og sigurlaunin oft í fjarska bíða.
Upp á tindinn háa menn varla geta greint
götuna, sem dyggðugt líf skal prýða.
Við blessum minningu Kristjáns og þökkum honum fyrir skemmtilegar samverustundir og yndisleg kynni. Ragnhildi konu hans, ættfólki hans og vinum sendum við hlýjar samúðarkveðjur.
Ólöf Erla og Sigurður
dýralæknir Selfossi.
Morgunblaðið miðvikudagurinn 31. október 2018.
Skráð af Menningar-Bakki.
![]() |
Menntaskólinn í Reykjavík - áður Lærði skólinn. |
Þjóðfundurinn var settur í Lærða skólanum í Reykjavík þann 5. júlí 1851.
Fundurinn stóð í rúman mánuð og var rætt um frumvarp dönsku stjórnarinnar um réttarstöðu Íslands.
Skráð af Menningar-Bakki.
![]() |
Séð úr vefmyndavél á Flateyri og inn Önundarfjörð kl. 19:52 í kvöld- 2. júlí 2019. |
Lögheimili lognsins
- Lögheimili - logni hjá
leggur vind í dvala.
Ögn af blæstri endrum fá
aðeins til að svala.
Lögheimili lognsins er í Önundarfirði eins og sjá má hér berlega á þessari mynd.
Skráð af Menningar-Bakki.
© 2021 123.is | Nýskrá 123.is síðu | Stjórnkerfi 123.is