Menningar-Bakki * Viðhalda og efla þjóðlega menningararfleið til sjávar og sveita*
-------- Alþýðuhúsið á Eyrarbakka - Vinir alþýðunnar - Á undan sinni framtíð --- "Stærra í hugum okkar en við sjálfir gerum okkur grein fyrir" ---

06.09.2019 18:13

Vel í sveit sett

 

 

 

Vel í sveit sett

 

Kristín Þórðardóttir,

 

sýslumaður á Suðurlandi – 40 ára

 

 

Kristín Þórðardóttir er fædd 6. september 1979 í Reykjavík en sleit barnsskónum á Eyrarbakka, þar sem foreldrar hennar ráku verslun og síðar útgerð. „Áhugi á hestum blundaði alltaf í föður mínum frá hans fyrra lífi í Vestmannaeyjum og stunduðum við feðgin saman hestamennsku af kappi, fyrst á Eyrarbakka, en þegar áhuginn tók öll völd festi fjölskyldan kaup á jörð í Hvolhreppi hinum forna og hóf hrossarækt í smáum stíl sem kennd er við bæinn Lynghaga.“

 

Kristín stundaði nám við elsta starfandi barnaskóla á landinu, Barnaskólann á Eyrarbakka, og hélt að því loknu til Reykjavíkur og lagði stund á nám við Menntaskólann í Reykjavík. Hún lauk embættisprófi í lögfræði frá Háskóla Íslands 24.6. 2006.

 

Með námi stundaði Kristín hestamennsku og vann hefðbundin sumarstörf á Hvolsvelli, við kjötvinnslu SS og í Húsasmiðjunni, en sneri sér síðar að störfum tengdum lögfræðinni. Árið 2005 varð hún fulltrúi í afleysingum við embætti Sýslumanns á Hvolsvelli og þá varð ekki aftur snúið.

Kristín starfaði í sveitarstjórn Rangárþings eystra frá árinu 2010 þar til hún varð settur sýslumaður á Suðurlandi 1.5. 2017. Kristín var skipuð sýslumaður á Suðurlandi þann 1.8. 2018. „Það var lærdómsríkur tími að starfa í sveitarstjórn og mér var sýnt traust með kjöri mínu, en það fór auðvitað ekki saman að halda áfram þar og vera sýslumaður. Hins vegar hefur reynslan úr sveitarstjórn komið að góðum notum enda er sýslumanni nauðsynlegt að vera í góðum tengslum við stjórnendur sveitarfélaga í umdæminu.“ Kristín gegnir nú formennsku í Sýslumannaráði, sem er samstarfsnefnd sýslumanna og dómsmálaráðuneytisins. Auk þess er hún settur sýslumaður í Vestmannaeyjum. 

 

Helstu áhugamál Kristínar eru hestamennska, tónlist og menning í hinum víðasta skilningi. „Við mæðgurnar erum ennþá með hrossarækt í Lynghaga, en við fáum eitt til tvö folöld á ári svo við erum ekki stórtækar í þessu. Ég spila á píanó, lauk námi á fjórða stigi og gríp í hljóðfærið af og til, en framfarir hafa heldur látið á sér standa.“ Eitt er það áhugamál sem hefur yfirtekið frítíma fjölskyldunnar undanfarin ár og það er fótbolti. Drengirnir Þórður Kalman og Hjalti Kiljan æfa með Knattspyrnufélagi Rangæinga (KFR) og sækja öll mót og leiki sem völ er á. „Í sumar var að auki haldið á Unglingalandsmót á Höfn í Hornafirði og er stefnan að sækja þær frábæru samkomur áfram.“

 

Fjölskylda

 

Sambýlismaður Kristínar er Friðrik Erlingsson, f. 4.3. 1962, rithöfundur og skáld. Foreldrar hans voru Katrín Guðjónsdóttir, f. 27.3. 1935, d. 2.3. 1996, gítarkennari og ballettdansari í Reykjavík, og Erlingur Gíslason, f. 13.3. 1933, d. 8.3. 2016, leikari í Reykjavík. Þau skildu.

 

Börn Kristínar og Friðriks eru Þórður Kalman Friðriksson, f. 30.10. 2008, og Hjalti Kiljan Friðriksson, f. 5.10. 2012. Stjúpsonur Kristínar og sonur Friðriks er Patrekur Kári Friðriksson, f. 13.6. 2006.

Hálfsystkini Kristínar eru Guðrún Hulda Ólafsdóttir, f. 19.9. 1971, fasteignasali og lögmaður, sammæðra, og systur Kristínar samfeðra eru Jóna Sigurbjörg Þórðardóttir, f. 16.1. 1947, búsett í Reykjavík; Ásdís Þórðardóttir, f. 2.1. 1948, d. 7.7. 1991, flugfreyja, síðar lögg. fasteignasali í Garðabæ; Ingibjörg Þórðardóttir, f. 19.3. 1955, lögg. fasteignasali í Reykjavík; og Þuríður Þórðardóttir, f. 9.5. 1963, hóteleigandi í Austurríki og á Akureyri.

 

Foreldrar Kristínar: Þórður S. Þórðarson, f. 19.3. 1925, d. 24.9. 1994, útgerðarmaður og rakarameistari í Vestmannaeyjum, og Ingibjörg Jóhannesdóttir, f. 5.10. 1947, fyrrverandi kennari, útgerðarmaður og bóndi. Þau gengu í hjúskap á aðfangadag 1979. Ingibjörg er búsett á Hvolsvelli.

 

 


 

Morgunblaðið föstudagurinn 6. september 2019.Skráð af Menningar-Bakki.

 

 

 

05.09.2019 06:45

Merkir Íslendingar - Kristján Kristjánsson

 

 

KK - Kristján Kristjánsson (1925 - 2008).

 

 

Merkir Íslendingar - Kristján Kristjánsson

 

 

Kristján Kristjánsson fæddist 5. september 1925 í Syðstakoti í Miðneshreppi, Gull.

Foreldrar hans voru Sigrún Elínborg Guðjónsdóttir saumakona, f. 7.10. 1904, d. 10.2. 1971, og Kristján Karl Kristjánsson prentari, f. 14.11. 1902, d. 25.5. 1977. Vegna veikinda móður sinnar ólst Kristján upp til fermingaraldurs hjá móðurforeldrum sínum, Guðjóni Þorkelssyni og Þorbjörgu Benónýsdóttur í Syðstakoti.


 

Kristján lauk eins árs námi frá Verzlunarskóla Íslands en eftir það lá leiðin til Bandaríkjanna. Hann stundaði nám í saxófón- og klarínettleik árin 1946-47 við Juilliard School of Music í New York. Þegar heim kom stofnaði hann KK-sextettinn sem hann stjórnaði af mikilli röggsemi allt til ársloka 1961 en þá lagði hann saxófóninn á hilluna.


 

Þrátt fyrir að hljómsveitin leystist upp í kjölfarið hafði Kristjáni tekist að setja mark sitt á íslenska tónlistarsögu, m.a. með því að bera hingað til lands nýja strauma frá Bandaríkjunum. Kristján lagði mikinn metnað í allt sem viðkom hljómsveitinni. Á þeim tíma tíðkaðist það ekki að hljómsveitir æfðu áður en spilað var opinberlega en Kristján krafðist þess að vel væri æft, meðlimir væru í hljómsveitarbúningum og lögin væru vel útsett. Kristján átti einnig stóran þátt í því að fólk fór að taka starf hljómlistarmanna alvarlega.


 

Árið 1965 stofnaði hann ásamt eiginkonu sinni Verðlistann við Laugalæk. Árið 1980 stofnaði hann svo Litlu fluguna sem var sérverslun með fluguhnýtingarefni þar sem hann gat samtvinnað tvö af sínum helstu áhugamálum, laxveiðar og fluguhnýtingar.


 

Kristján kvæntist 1949 Erlu Wigelund, f. 31.12. 1928. Foreldrar hennar: Peter Wigelund skipasmiður, f. í Þórshöfn, og k.h. Vilborg Dagbjartsdóttir húsfreyja.

Börn Kristjáns og Erlu:

Þorbjörg, Pétur söngvari (d. 2004), Sigrún Júlía og Elísabet.


 

Kristján lést 2. júní 2008.

 

 

KK sextettinn árið 1948.

Frá vinstri: Kristján Kristjánsson, Gunnar Ormslev, Savar Gests,

Guðmundur Vilbergsson trompetleikari frá Flateyri,

Steinþór Steingrímsson og Hallur Símonarson.

Skráð af Menningar-Bakki.

04.09.2019 06:38

4. september 1845 - Jón forseti og Ingibjörg gefin saman

 

 

Jón Sigurðsson og Ingibjörg Einarsdóttir.

 

 

  - 4. september 1845 -

 

Jón forseti og Ingibjörg gefin saman

 

 

Jón Sigurðsson frá Hrafnseyri við Arnarfjörð, 34 ára skjalavörður (síðar nefndur forseti), og Ingibjörg Einarsdóttir, 40 ára, voru gefin saman í hjónaband þann 4. september 1845, en þau höfðu verið í festum í tólf ár. 

 

 

Þau stofnuðu  heimili í Kaupmannahöfn. Hjónin bjuggu á þremur stöðum í Kaupmannahöfn, áður en þau fluttu í stóra og glæsilega íbúð við Øster Voldgade (Jónshús) árið 1852 en þar bjuggu þau síðan til æviloka og héldu uppi mikilli risnu. Haustið 1859 tóku þau til sín fósturson, Sigurð Jónsson 8 ára, systurson Jóns vestan af fjörðum, og ólu hann upp sem sinn eigin son en sjálf voru þau barnlaus.Jón og Ingibjörg létust bæði í desember 1879.

 


  Jónshús í Kaupmannahöfn.

 Skráð af Menningar-Bakki.

03.09.2019 20:54

3. SEPTEMBER 1988 - Brú yfir Ölfusárósa er opnuð formlega

 

 

 

 

- 3. SEPTEMBER 1988 -

 

Brú yfir Ölfusárósa er opnuð formlega

 

 

Óseyrarbrú var formlega tekin í notkun þennan mánaðardag árið 1988. Mikill fjöldi fólks var samankominn við eystri brúarsporðinn til að fagna mannvirkinu og þeim samgöngubótum sem það fól í sér. Sem dæmi um þær má nefna að brúin stytti leiðina milli Þorlákshafnar og Eyrarbakka úr 45 kílómetrum í 15.

 

Samgöngur yfir ána á þessum stað höfðu legið niðri frá því ferjustaður var aflagður við Óseyrarnes um hundrað árum fyrr, með tilkomu Ölfusárbrúar við Selfoss.

 

Þorsteinn Pálsson, forsætisráðherra og fyrsti þingmaður Árnesinga, flutti ávarp og eftir opnunina bauð Matthías Á. Mathiesen samgönguráðherra viðstöddum í hóf á Hótel Selfossi. 


 

 
Skráð af Menningar-Bakki.

02.09.2019 13:57

Opin íbúafundur um kynningarmál á Eyrarbakka og Stokkseyri

 

 

 

 

 Opin íbúafundur

um kynningarmál á Eyrarbakka og Stokkseyri

 

 

Sveitarfélagið Árborg boðar til íbúafunda á Stokkseyri og Eyrarbakka miðvikudaginn 4. september nk. kl. 19:00 (BES Stokkseyri) og kl.20:30 ( Stað , Eyrarbakka) til að ræða hugmyndir að kynningarherferð á Sveitarfélaginu Árborg.

 

Samþykkt var af bæjarstjórn Árborgar fyrr í sumar að framleitt yrði kynningarefni til að sýna þá þjónustu og þau tækifæri sem eru í boði í samfélaginu.

 

Með þessum íbúafundum vill sveitarfélagið leita til íbúa um hugmyndir að kynningarefni og eru allir áhugasamir hvattir til að mæta.

 

 • Hvað fyllir þig stolti úr samfélaginu?
 • Hvaða sögu ætti að segja af svæðinu?
 • Hvaða áhugaverðu staðir ættu að koma fram?

 

Fundirnir fara fram á eftirfarandi tímum mið. 4. sept. nk. og eru allir velkomnir

 • Barnaskólanum á Stokkseyri kl. 19:00   
 • Félagsheimilinu Stað á Eyrarbakka kl. 20:30

     Skráð af Menningar-Bakki.


   

02.09.2019 06:49

Merkir Íslendingar - Lúðvík Kristjánsson

 


Lúðvík Kristjánsson (1911 - 2000).

 

 

Merkir Íslendingar - Lúðvík Kristjánsson

 

 

Lúðvík Kristjánsson fæddist 2. september 1911 í Stykkishólmi. 

Foreldrar hans voru Kristján Bjarni Árnason sjómaður, f. 4.9. 1886, d. 3.7. 1921, og k.h. Súsanna Einarsdóttir Þorkelssonar skrifstofustjóra Alþingis, f. 4.12. 1890, d. 26.8. 1961. Eiginkona Lúðvíks var Helga Proppé, f. 17.5. 1910, d. 1.4. 1989, dóttir Jóns Proppé og k.h. Guðrúnar Bjarnadóttur. Börn Lúðvíks og Helgu eru Véný kennari og Vésteinn rithöfundur.


 

Lúðvík ólst upp í Stykkishólmi, en fór suður til náms og lauk gagnfræðaprófi frá Flensborgarskóla 1929 og kennaraprófi frá Kennaraskóla Íslands 1932. Lúðvík var kennari í Fróðárhreppi 1929-30, við Miðbæjarbarnaskólann í Reykjavík 1934-1944 og á vélstjóranámskeiðum Fiskifélags Íslands 1937-1954. Hann var ritstjóri Ægis, tímarits Fiskifélags Íslands 1937-1954, Fálkans 1939 og Sjómannadagsblaðsins 1941 og 1943.


 

Eftir 1954 sneri Lúðvík sér alfarið að rannsóknum og ritstörfum en þá höfðu þegar komið út eftir hann bækurnar; Við fjörð og vík (1948), Bíldudalsminning Ásthildar og Péturs Thorsteinssonar (1951) og fyrsta bindi Vestlendinga (1953). Þar næst komu annað og þriðja bindi Vestlendinga (1955 og 1960), Úr bæ í borg (1957), Á slóðum Jóns Sigurðssonar (1961) og Úr heimsborg í Grjótaþorp I-II (1962-63).


 

Frá 1964 helguðu Lúðvík og Helga sig efnisöflun og samningu Íslenskra sjávarhátta sem út komu í fimm bindum 1980-86. Afmælisrit Lúðvíks, Vestræna, kom út árið 1981 en það hefur að geyma ritgerðir eftir hann. Árið 1991 kom út bókin Jón Sigurðsson og Geirungar en þar fyrir utan liggur eftir Lúðvík fjöldi blaðagreina og ritgerða í tímaritum.


 

Lúðvík hlaut ýmsar viðurkenningar fyrir rannsóknir sínar og var m.a. gerður heiðursdoktor við Háskóla Íslands 1981 og hlaut silfurverðlaun Hins konunglega norska vísindafélags 1984.


 

Lúðvík Kristjánsson lést 1. febrúar 2000.Skráð af Menningar-Bakki.

30.08.2019 20:56

-GJÖFIN TIL ÍSLENZKRAR ALÞÝÐU- SÝNINGARSPJALL MEÐ SAFNSTJÓRA LISTASAFNS ASÍ

 

 

 

 

-GJÖFIN TIL ÍSLENZKRAR ALÞÝÐU -

 

SÝNINGARSPJALL MEÐ SAFNSTJÓRA LISTASAFNS ASÍ 

Í Listasafni Árnesinga stendur nú sýningin -GJÖFIN TIL ÍSLENZKRAR ALÞÝÐU – stofngjöf Ragnars í Smára til Listasafns ASÍ, sem er samstarfsverkefni þessara tveggja safna.

 

Sunnudaginn 1. september 2019 kl. 15:00 mun Elísabet Gunnarsdóttir safnstjóri Listasafns ASÍ ganga um sýninguna með gestum og ræða  um gjöf Eyrbekkingsins Ragnars Jónssonar í Smára sem lagði grunninn að Listasafni ASÍ.

 

Elísabet er ritstjóri veglegs bókverks um gjöf Ragnars í Smára sem Listasafn ASÍ kom út sama dag og sýningin var opnuð og ber sama heiti GJÖFIN TIL ÍSLENZKRAR ALÞÝÐU.

Í bókinni eru myndir af öllum verkunum sem tilheyra stofngjöfinni og grein um velgjörðamanninn Ragnar og listaverkagjöf hans eftir Kristínu G. Guðnadóttur listfræðing og sýningarstjóra sýningarinnar.

Bókin er hönnuð af Arnari og Arnari og Sarah M. Brownsberger þýddi allan texta á ensku. Elísabet mun einnig svara spurningum og ræða núverandi starfsemi safnsins sem er mjög virkt þrátt fyrir að hafa ekki yfir eigin sýningarhúsnæði að ráða sem stendur.

 

Safnið hefur staðið að ýmis konar útgáfu s.s. endurprentunum verka úr stofngjöf Ragnars í Smára, átt samstarf við önnur söfn, auglýst eftir tillögum frá starfandi listamönnum sem safnið setur upp sýningar með víðs vegar um landið og nýlega fékk safnið veglegan styrk úr Barnamenningarsjóði fyrir verkefni sem unnin eru í samstarfi við skóla um allt land.  

 

Á sýningunni í Listasafni Árnesinga má sjá 52 málverk af alls 147 sem Ragnar gaf Listasafni ASÍ. Mörg þeirra eru lykilverk íslenskrar listasögu þar á meðal Fjallamjólk Kjarvals ásamt verkum eftir frumkvöðlana;

Ásgrím Jónsson,

Þórarinn B. Þorláksson,

Jón Stefánsson

og síðari kynslóð listamanna eins og;

Gunnlaug Scheving,

Jón Engilberts,

Júlíönu Sveinsdóttur,

Nínu Tryggvadóttur,

Svavar Guðnason,

Þorvald Skúlason

og fleiri, sem eru meðal þekktustu myndlistarmanna þjóðarinnar frá öndverðri síðustu öld.

 

Sem fyrr eru allir velkomnir á sýninguna og sýningarspjallið sunnudaginn 1. september 2019.

 

Aðgangur að safninu er ókeypis og síðasti sýningardagur er 15. september 2019. 

 

 Elísabet Gunnarsdóttir er forstöðumaður Listasafns ASÍ. 

Elísabet hefur áralanga reynslu af listmiðlun og rekstri listastofnana bæði

hér heima og erlendis.  Hún lagði stund á nám í arkitektúr í Skotlandi og

Frakklandi og rak teiknistofuna Kol og salt til margra ára og var jafnfram

virkur þátttakandi í rekstri Gallerís Slunkaríkis á Ísafirði. 

Frá 2003 stýrði hún listastofnun á vegum Norrænu ráðherranefndarinnar

í Noregi og setti síðan á fót og mótaði nýja listastofnun á Fogo Island á

austurströnd Kanada og stýrði henni fyrstu árin.

Þá hefur Elísabet unnið að ýmsum menningarverkefnum og sett á laggirnar

alþjóðlegar gestavinnustofur - ArtsIceland - í samstarfi við

Gallerí Úthverfu/Outvert Art Space á Ísafirði.
Skráð af Menningar-Bakki.

 

 

29.08.2019 18:08

GJÖFIN TIL ÍSLENZKRAR ALÞÝÐU

 

 

 Eitt kunnasta verk Jóhannesar S. Kjarvals, -Fjallamjólk- og er það á sýningunni.

 

 

-GJÖFIN TIL ÍSLENZKRAR ALÞÝÐU-

 

 

„Menn vita ekki að þróun listgreina í landinu er meira og minna einum manni að þakka. Manni sem eitt sinn átti sér draum og nú er að rætast að fullu. Manni sem heitir Ragnar Jónsson og kenndur er við Smjörlíkisgerðina Smára.“ 

 

Svo mælti Kristján Davíðsson um vin sinn og bakhjarl Ragnar Jónsson í viðtali við Ingólf Margeirsson sem birtist í bók Ingólfs um Ragnar árið 1982. Þetta eru orð að sönnu enda markaði Ragnar djúp spor í menningarlífinu á liðinni öld. Hann átti þátt í því að lyfta tónlistarlífinu í Reykjavík upp á annað plan, hann gaf út bækur af miklum móð og svo keypti hann myndir af listamönnum, bæði af sýningum og beint af vinnustofum þeirra. Flest áhugafólk um myndlist þekkir ef til vill til gjafar Ragnars á listaverkum sínum til Alþýðusambands Íslands. Eftir rúmlega þriggja áratuga söfnun gaf Ragnar ASÍ um 120 verk sem skyldu verða grunnur að alþýðusafni sem hefði þann tilgang að mennta íslenska alþýðu í málaralist. 

 

Stóran hluta af stofngjöf Ragnars má skoða á sýningunni Gjöfin til íslenzkrar alþýðu sem er samstarfsverkefni Listasafns Árnesinga og Listasafns ASÍ, en sýningarstjóri er Kristín G. Guðnadóttir. Þrír salir safnsins (af fjórum) fara undir sýninguna auk þess sem þrjú verk eru í miðlægu aðalrými safnsins. Á sýningunni eru alls 52 verk eftir fimmtán listamenn til sýnis, það elsta frá 1906 en yngstu verkin er frá um 1960.

 

Verkin í hverjum sal fyrir sig fylgja lauslega skilgreindu þema. Þannig eru verkin í fyrsta salnum að mestu leyti landslagsverk, verkin í öðrum salnum mannamyndir og verkin í þriðja salnum eiga það sammerkt að vera tjáningarrík verk „þar sem áherslan er lögð á upplausn formsins og sprengikraft litanna,“ líkt og segir í sýningarskrá. Í aðalrýminu má svo finna tvær blómauppstillingar og stórt olíuverk Kjarvals, Hellisheiði.

 

Uppsetning sýningarinnar er að mestu í takt við verkin, sígild. Málverkunum er raðað eftir miðlínu á hvíta veggi, sem er viðbúið. Á sýningunni má samt sem áður finna áhugaverðar undantekningar á þessari reglu. Útfærslan á mannamyndunum í sal tvö er gott dæmi um slíka undantekningu. Á rauðum endavegg má finna sjálfsmyndir fimm listamanna og á aðliggjandi vegg vinstra megin má finna tvær portrett myndir af listamönnum sem eiga verk á sýningunni, þeim Þorvaldi Skúlasyni og Nínu Tryggvadóttur. Gegnt Nínu og Þorvaldi er svo mynd af Ragnari sjálfum á hvítum vegg, máluð af Jóhannesi Kjarval. Með þessari uppsetningu og litavali tekst sýningarstjóranum vel að hópa listamennina saman, en miðlínu er sleppt og neðri hluti hvers ramma stendur á sameiginlegri línu. Listamennirnir eru þar með allir á sama stalli. Ragnar stendur þannig fyrir utan hópinn auk þess sem mynd hans hangir er látin hanga ögn hærra á veggnum sem undirstrikar hlutverk hans sem velgjörðarmanns. 


 

Það má þó deila um þá ákvörðun að láta Ragnar hanga hærra uppi heldur en listamennina sjálfa. Við lestur á því sem skrifað hefur verið um persónu Ragnars má skilja það sem svo að hann hafi verið yfirlætislaus maður og seint viljað trana sér fram. Því til stuðnings verður hér aftur vísað til spjalls þeirra Ingólfs Margeirssonar og Kristjáns Davíðssonar, en Kristján kemst svo að orði um Ragnar: „[H]ann vill láta verk sín líta út sem sjálfsagaða hluti þar sem nafn hans kemur hvergi fram. Hann vill vera, en ekki sýnast eða sjást.“ Í þessu samhengi má auk þess minnast sögunnar af því þegar afhending stofngjafarinnar fór fram í Listamannaskálanum samhliða opnun sýningar á stórum hluta gjafarinnar. Mikill fjöldi tiginna gesta var viðstaddur, en í hópnum var Ragnar hvergi að finna, heldur færði Tómas Guðmundsson ASÍ verkin formlega fyrir Ragnars hönd. Það má því færa rök fyrir því að Ragnar hefði sjálfur kosið gegn því að vera settur ofar listamönnunum. 

 

Aðra undantekningu á miðlínu og hvítum veggjum má finna í sal þrjú. Á dökkgráum vegg sem blasir við gestum þegar þeir ganga inn í salinn hanga tólf abstrakt verk sex listamanna í salon upphengi. Veggurinn brýtur rýmið upp á hrífandi hátt og útfærslan virkar vel. Sýningargestir taka kannski fyrst eftir því í sal þrjú að verk einstakra listamanna eru ekki sérstaklega látin hanga hlið við hlið og strangri tímaröð er ekki heldur fylgt. En það sem mestu máli skiptir er það að uppsetning sýningarinnar er fyrst og fremst rökrétt – þau verk sem valin eru til þess að hanga hlið við hlið virka saman. 

 

Á sýningunni er auðvelt að nálgast upplýsingar um nafn listaverks, höfund og ártal og við hlið margra þeirra má auk þess finna stutta texta. Kjarni þessara texta eru tilvitnanir í listamenn, Ragnar sjálfan eða í bækur Björns Th. Björnssonar um íslenska listasögu og eru textarnir skemmtileg viðbót við sýninguna. Prentun textanna og merkinganna hefði þó mátt vera betri, svo virðist sem prentað hafi verið á hálfglæra miða sem límdir eru beint á vegginn. Fyrir vikið varð textinn ekki jafn læsilegur og sambærilegir textar sem prentaðir eru á hvít spjöld. Þá vantaði töluvert upp á yfirlestur textanna sjálfra og í þeim mátti finna nokkrar villur.

 

Samhliða sýningunni kom út vegleg bók um stofngjöf Ragnars. Í henni má finna myndir af öllum verkunum sem Ragnar færði ASÍ, bæði stofngjöfina frá árinu 1961, sem telur um 120 verk, og svo síðari viðbætur. Í heildina færði Ragnar ASÍ 147 verk. Auk myndanna má finna í bókinni fínan texta sem Kristín G. Guðnadóttir sýningarstjóri tók saman.

 

Það er vafalaust krefjandi verkefni að setja upp sýningu á verkum úr safneign eins manns. Sýningin getur, eðli málsins samkvæmt, ekki gefið sannfærandi mynd af þróun íslenskrar listasögu né verið greinargóð úttekt á tilteknu skeiði þess. Þegar öllu er á botninn hvolft er það smekkur eins manns sem liggur til grundvallar. Sýningarstjóranum vill það til happs að sá maður var Ragnar Jónsson í Smára og sýningunni tekst þar af leiðandi að gera þróun íslenskrar myndlistar skil að einhverju leyti. 

 

Sýningin er athyglisverðari en aðrar áþekkar sýningar einmitt fyrir þær sakir að þetta eru einvörðungu verk úr stofngjöf Ragnars. Mörg verka sýningarinnar eru áhugafólki um myndlist að góðu kunn, en þó líklega flest úr bókum. Sum verkin hafa meira að segja öðlast allt að því rokkstjörnufrægð, besta dæmið um það er Fjallamjólk Kjarvals. Enn önnur verk verðskulda að vera þekktari en raun ber vitni. Ragnar lagði þung lóð á vogarskálarnar í listkynningu með því að færa alþýðufólki sum þessara verka, sem og önnur þekkt íslensk málverk, í formi endurprentana. Það er þó tvennt ólíkt að standa frammi fyrir endurprentun af málverki og málverkinu sjálfu. Það er því fagnaðarefni að sýning sem þessi hafi verið sett upp, sýning sem gefur áhugasömum innlit í merkilega gjöf Ragnars Jónssonar í Smára til íslenskrar alþýðu. 

 

Grétar Þór Sigurðsson 

 

 

Eyrbekkingurinn Ragnar Jónsson.Skráð af Menningar-Bakki.

28.08.2019 21:21

Rófukaffi á lokadegi sýningar

 

 

Gestakaffið hefst kl. 14:00 á sunnudeginum 1. september 2019 

og af því tilefni er frír aðgangur á safnið.

 

 

Rófukaffi á lokadegi sýningar

 

 

Sunnudaginn 1. september 2019, á síðasta degi ljósmyndasýningarinnar „Rófubóndinn“, býður Byggðasafn Árnesinga gestum og gangandi að þiggja rófukaffi í Húsinu á Eyrarbakka.

 

Vigdís Sigurðardóttir áhugaljósmyndari og rófubóndinn Guðmundur Sæmundsson á Sandi á Eyrarbakka verða á staðnum og taka vel á móti gestum. Þórður Þorsteinsson kemur einnig og þenur nikkuna um stund. Gestakaffið hefst kl. 14:00 og af því tilefni er frír aðgangur á safnið.

 

Myndir frá heilu ræktunarári


Ljósmyndasýningin er afrakstur Vigdísar þar sem hún fylgdi Guðmundi eftir á heilu ræktunarári frá sáningu að vori fram að uppskeru og söluferlinu að hausti og vetri. Myndirnar veita frísklega sýn á vinnuár rófubóndans í samtvinning við glefsur úr viðtölum við Guðmund.  Nokkrir vel valdir gripir sem tengjast rófuræktun skreyta sýninguna.

 

Erlendir ferðamenn áhugasamir um rófuna


Rófubóndinn hefur hlotið verðskuldaða athygli safngesta og hefur sannað að rófur eru ekki horfnar úr menningu Íslendinga.  Fjölmargir erlendir ferðamenn sem hafa heimsótt safnið í sumar hafa verið áhugasamir um rófuna því hún er alls ekki á matarborðum allra.

 

Nú er sem sagt síðasta tækifærið til að koma og sjá sýninguna sem er opin eins og safnið sjálft alla daga kl. 11-18.   

Önnur sýningarhús Byggðasafns Árnesinga eru Sjóminjasafn, Kirkjubær og Eggjaskúr.

 

Verið velkomin.

 

 

Skráð af Menningar-Bakki.

28.08.2019 06:47

Merkir Íslendingar- Finnur Magnússon

 


Finnur Magnússon (1781 - 1847).

 

 

Merkir Íslendingar- Finnur Magnússon

 

 

Finnur Magnússon fæddist 27. ágúst 1781 í Skálholti.

Faðir Finns var Magnús Ólafsson lögmaður úr Svefneyjum og föðurbróðir Finns var Eggert Ólafsson náttúrufræðingur og skáld. Móðir Finns var Ragnheiður dóttir Finns Jónssonar biskups.
 

Finnur var í fóstri hjá Hannesi biskupi Finnssyni móðurbróður sínum og nam hjá honum skólavísindi og fór síðan til náms í Kaupmannahöfn. 

Finnur sneri til Íslands þegar faðir hans lést og árið 1806 var hann settur málafærslumaður við landsyfirréttinn í Reykjavík og var í því starfi þangað til Jörundur hundadagakonungur svipti hann embætti. Finnur fór þá til Kaupmannahafnar en þegar Jörundur var hrakinn frá völdum tók hann aftur við embætti sínu.

Árið 1812 fór hann aftur til Kaupmannahafnar.

 

Finnur varð prófessor og forstöðumaður leyndarskjalasafnsins í Kaupmannahöfn. Hann var etatsráð en það er tignarheiti án embættis. Finnur gegndi oft stöðu forseta eða varaforseta Kh. deildar Hins ísl. bókmenntafélags, hann var varaforseti Fornfræðafélagsins og fulltrúi Íslands á stéttaþingum. Hann var í miklu áliti meðal samtíðarmanna sinna og segir Benedikt Gröndal hann hafa verið frægan um öll lönd og hafa ekið með Alexander Humboldt og Jakob Grimm þegar þeir komu til Kaupmannahafnar.
 

Finnur rannsakaði það sem hann taldi rúnir í Runamo í Blekinge í Svíþjóð. Honum hugkvæmdist að lesa þær afturábak gegnum spegil og gat þannig lesið vísu. Hann skrifaði 750 blaðsíðna rit um rúnirnar í Runamo, en fékk mikla gagnrýni fyrir það verk og varð honum til aðhlátursefnis. Jarðvísindamenn telja að risturnar í Runamo séu jökulrákir.
 

Finnur kvæntist 6. nóvember 1821 Nikolínu Barböru Frydensberg, dóttur landfógeta en þau skildu 1836. Gröndal segir að Finni „létu betur vísindalegar rannsóknir og bókagrufl heldur en það praktíska líf“.
 

Finnur lést á aðfangadag 1847.

 

 

Skálholt, vatnslitamynd John Cleveley yngri frá 1772.

Meðal mynda frá ferðum hans með Joseph Banks um Ísland.

 Skráð af Menningar-Bakki.