Menningar-Bakki * Viðhalda og efla þjóðlega menningararfleið til sjávar og sveita*
-------- Alþýðuhúsið á Eyrarbakka - Vinir alþýðunnar - Á undan sinni framtíð --- "Stærra í hugum okkar en við sjálfir gerum okkur grein fyrir" ---

26.08.2019 17:23

Formannavísa af Eyrarbakka

 

 

 

 

Formannavísa af Eyrarbakka

 

 

   -Sjómannadagsblaðið árið 1983-


 Skráð ag Menningar-Bakki. 

25.08.2019 09:39

Merkir Íslendingar - Sigurður Jónsson

 

Sigurður Jónsson á Arnarvatni (1878 - 1949).

 

 

Merkir Íslendingar - Sigurður Jónsson

 

á Arnarvatni

 

 

Sigurður Jónsson, skáld og bóndi á Arnarvatni í Mývatnssveit, fæddist 25. ágúst 1878.

Hann var sonur hins ágæta alþýðuskálds, Jóns Hinrikssonar, bónda á Helluvaði í Mývatnssveit, af ætt Jón harðabónda í Mörk í Laxárdal, ættföður Harðabóndaættar, og Sigríðar Jónsdóttur frá Arnarvatni. 

 

Sigurður var hálfbróðir Jóns, alþm. í Múla, föður Árna, alþm. og ritstjóra frá Múla, föður Jóns Múla Árnasonar, tónskálds, djassara og útvarpsmanns, og Jónasar Árnasonar, alþm. og rithöfundar.

 

Hálfsystir Sigurðar var Sigríður, langamma Sveins Skorra Höskuldssonar prófessors og íslenskufræðings.Fyrri kona (1903 - 1916) Sigurðar var Málfríður Sigurðardóttir á Arnarvatni sem dó ung frá sex börnum þeirra hjóna.

 

Seinni kona (1918) Sigurðar á Arnarvatni var Sólveig Hólmfríður, af Reykjahlíðarætt og Skútustaðaætt, dóttir Péturs, alþm. og ráðherra, sem var bróðir Kristjáns háyfirdómara sem varð þriðji ráðherra Íslands. Pétur var sonur Jóns Sigurðssonar, alþingisforseta á Gautlöndum.

 

Meðal barna Sigurðar og Sólveigar Hólmfríðar, sem voru fimm, er Málfríður, bókavörður og fyrrv. alþm.

 

Sigurður lauk gagnfræðaprófi frá Möðruvallaskóla 1899, hóf búskap á Arnarvatni 1902 og var þar bóndi allan sinn starfsferil.

 

Sigurður sendi frá sér ljóðabækurnar:

Upp til fjalla, 1937,

og

Blessuð sértu sveitin mín, 1945.

 

Seinni bókin heitir eftir þekktasta ljóði Sigurðar sem er óður til sveitar hans. Ljóðið varð mjög vinsælt á sínum tíma og mikið sungið um árabil við fallegt lag séra Bjarna Þorsteinssonar á Siglufirði. Það hefur oft verið nefnt þjóðsöngur íslenskra sveita og jafnvel komið til álita í umræðum manna á meðal sem þjóðsöngur. Lagið og ljóðið hafa haldið vel sínum vinsældum sem hafa fremur aukist í seinni tíð fremur en dalað. Það heyrist t.a.m. oft sungið við útfarir.

 

Vinur og sveitungi Sigurðar var Jón Stefánsson (Þorgils gjallandi) og orti Sigurður um hann ágætt erfiljóð.

 

Sjálfur lést Sigurður 24. febrúar 1949. 


Sjá enn frekar á þessari slóð:

Æviminning Sigurðar á Arnarvatni eftir Jón Sigurðsson í Ystafelli, Samvinnan, 6. tbl., 43. árg.,1949, bls. 6

 

 


 

 Blessuð sértu sveitin mín


Fjalladrottning, móðir mín! 
mér svo kær og hjartabundin, 
sæll ég bý við brjóstin þín, 
blessuð aldna fóstra mín. 
Hér á andinn óðul sín
öll, sem verða á jörðu fundin. 
Fjalladrottning, móðir mín, 
mér svo kær og hjartabundin. 

Blessuð sértu, sveitin mín, 
sumar, vetur, ár og daga. 
Engið, fjöllin, áin þín, 
yndislega sveitin mín, 
heilla mig og heim til sín
huga minn úr fjarlægð draga. 
Blessuð sértu, sveitin mín, 
sumar, vetur, ár og daga. 

Allt, sem mest ég unni og ann, 
er í þínum faðmi bundið. 
Allt það, sem ég fegurst fann, 
fyrir berst og heitast ann, 
allt, sem gert fékk úr mér mann
og til starfa kröftum hrundið, 
allt, sem mest ég unni og ann, 
er í þínum faðmi bundið. 

Fagra, dýra móðir mín, 
minnar vöggu griðastaður, 
þegar lífsins dagur dvín, 
dýra, kæra fóstra mín, 
búðu um mig við brjóstin þín. 
Bý ég þar um eilífð glaður. 
Fagra, dýra móðir mín, 
minnar vöggu griðastaður.

 

 

Sigurður Jónsson
á ArnarvatniSkráð af Menninga-Bakki.

 

24.08.2019 09:03

Það var allt skemmtilegt við rófnaræktina

 

 

Gummi á Sandi á Eyrarbakka.

Áhugaljósmyndarinn Vigdís Sigurðardóttir fylgdi Guðmundi Sæmundssyni eftir á heilu

ræktunarári frá sáningu að vori fram að uppskeru og söluferlinu að hausti og vetri.

Myndirnar og glefsur úr viðtölum við Gumma, auk gripa sem tengjast rófurækt eru

nú til sýnis í borðstofu Hússins á Eyrarbakka. 

 

 

Gummi naut alltaf mikillar aðstoðar hjá fjölskyldu sinni og skólastráka

á Eyrarbakka þegar rófurnar voru teknar upp á haustin.

Rófur hafa verið á matarborðum Íslendinga í 200 ár.

 

 

Það var allt skemmtilegt við rófnaræktina

 

 

„Ég var nú hálf hikandi fyrst og vildi helst ekki láta mynda mig en svo sé ég ekki eftir því, þetta var mjög gaman og kemur vel út á sýningunni í Húsinu, ég er alveg hissa hvað margir eru búnir að skoða myndirnar af gamla karlinum,“ segir Gummi á Sandi eins og hann er alltaf kallaður og skellihlær, aðspurður um viðtökurnar við ljósmyndasýningunni „Rófu­bóndinn“ í Húsinu á Eyrar­bakka. 

 

Vigdís Sigurðardóttir áhuga­ljósmyndari fylgdi Gumma eftir í eitt ár. Guðmundur Sæmundsson, eins og hann heitir fullu nafni, er fæddur á Eyrarbakka en uppalinn á Hrauni í Ölfusi en fluttist þaðan rúmlega tvítugur á Eyrarbakka. Eiginkona  hans er Þórey Straum og eiga þau samtals fimm börn.

 

Meðaluppskeran 60 tonn á ári

 

Gummi þótti mjög góður rófubóndi og náði miklum árangri í ræktun á rófum enda vakinn og sofinn yfir rófunum sínum. Hann þurfti að hætta í vor vegna veikinda. „Meðaluppskeran í öll þessi ár var um 60 tonn á ári en mesta uppskeran var árið 1996 en þá fékk ég 130 tonn upp úr görðunum. Ég notaði alltaf mjög gott fræ, eða Kálfafellsfræið, sem var fyrst framleitt á Kálfafelli í Öræfum og svo hefur Hannes Jóhannsson í Stóru-Sandvík í Árborg tekið við ræktun fræsins með miklum sóma. Það kallast í dag „Sandvíkurrófufræ“. Það var allt skemmtilegt við rófnaræktina, að fylgjast með vextinum og sjá hvað uppskeran yrði mikil að hausti og hvernig verð maður fengi,“ segir Gummi.

 

Strákarnir biluðu ekki

 

Það var mikil törn á hverju hausti hjá Gumma að ná rófunum upp úr görðunum en þá naut hann aðstoðar stálpaðra skólastráka á Eyrarbakka og fjölskyldu sinnar. „Það var frábært að hafa skólastrákana, sem héldu alltaf tryggð við mig. Við tókum allt upp með höndum, ég notaði aldrei vélar, þær gátu bilað en skóla­strákarnir biluðu aldrei,“ segir Guðmundur og skellir upp úr.

 

Menn gefast upp

 

Gummi segir að það sé erfitt að rækta rófur eins og það hefur sýnt  sig, því margir sem  hafa byrjað og ætlað að græða á tá og fingri hafa hætt fljótlega. „Það er svo margt sem getur komið upp á, kálflugan reynist t.d. mörgum mjög erfið og alls lags skorkvikindi, brandyglan er mjög erfið í sandinum, hún étur plönturnar, menn gefast einfaldlega upp.“

 

Sýningin í Húsinu á Eyrarbakka er opin frá kl. 11.00 til 18.00 alla daga til 1. september í haust.Bændablaðið
Magnús Hlynur Hreiðarsson.

 Skráð af Menningar-Bakki.

24.08.2019 07:31

Aðeins af 24. ágúst í sögunni

 

 

 

 

 Aðeins af 24. ágúst í sögunni

 

 

 

Bill Cl­int­on, fyrr­um Banda­ríkja­for­seti, stóðst ekki mátið þegar María Ein­ars­dótt­ir

pylsu­sali kallaði á eft­ir hon­um "heims­ins bestu pyls­ur" og fékk hann sér eina með sinn­epi.

Ljósm.: mbl.is/Þor­vald­ur Örn Krist­munds­son.Skráð af Menningar-Bakki.

 

 

 

19.08.2019 17:49

-Önfirsk menningarstund á Stað-

 

 

Margir mættu á morgunstund í Félagsheimilið Stað á Eyrarbakka í morgun.

Ljósm.: Elín BIrna.

 

 

-Önfirsk menningarstund á Stað-

 

 

Margir mættu á morgunstund í Félagsheimilið Stað á Eyrarbakka í morgun, mánudaginn 19. ágúst 2019.

 

Meðal gesta voru Eyrbekkingarnir; Óskar Magnússon, f.v. skólastjóri á Eyrarbakka og Björn Ingi Bjarnason, forseti Hrútavinafélagsins Örvars á Suðurlandi og fangavörður á Litla-Hrauni.

 

Báðir eru þeir Önfirðingar að uppruna sem þeir rækta ötullega og hlaðnir mannlífs og menningarlegum sagna-vísdómi þaðan. Hvað það hálfa væri nóg að mati sumra innfæddra Flóamanna.

 

Óskar skrapp aðeins frá og sótti myndir og minningartexta vegna atburða á Flateyri árið 1942.

 

Sukku þeir félagar á bólakaf í sín upprunafræði eins og myndirnar sýna sem Elín Birna tók.


 

.

F.v.: Björn Ingi Bjarnason og Óskar Magnússon. Ljósm.: Elín Birna.


 

 

.

.

 

F.v.: Björn Ingi Bjarnason og Óskar Magnússon. Ljósm.: Elín Birna.
 Skráð af Menningar-Bakki.

18.08.2019 11:43

19. ágúst 1871 stofnað -Hið íslenska þjóðvinafélag-

 

 


Mennaskólinn í Reykjavík áður Lærði skólinn.

 

 

         19. ágúst 1871  var stofnað

 

  -Hið íslenska þjóðvinafélag-

 

 

Sautján alþingismenn stofnuðu þann 19. ágúst 1871 -Hið íslenska þjóðvinafélag-  meðal annars í þeim tilgangi að vekja og lífga meðvitund Íslendinga um að þeir væru sjálfstætt þjóðfélag.

 

Fyrsti forseti þess var Jón Sigurðsson.

 

Félagið hefur gefið út almanak árlega síðan 1875.

 Fyrsti stjórnmálaflokkurinn

 

Hið íslenska þjóðvinafélag var fyrsti stjórnmálaflokkur á Íslandi. Það var stofnað í þinglok 1871 af 17 þingmönnum. Að baki var mikið átakaþing í kjölfar setningar stöðulaganna svokölluðu.

 

Þjóðvinafélagið var flokkur Jóns Sigurðssonar. Stofnun þess hafði átt sér nokkurn aðdraganda, en allt þingið höfðu þingmenn meirihlutans í stjórnskipunarmálinu átt fundi um nauðsyn þess að stofna með sér „reglulegt félag“. Settu þeir nefnd til að semja drög að félagslögum, sem síðan voru lesin upp á fundum, rædd og breytt eftir bendingum fundarmanna. Það var síðan á fundi sem haldinn var kl. 18:00, laugardaginn 19. ágúst 1871, líklega í Alþingissalnum í Lærða skólanum,  sem lög voru samþykkt, félaginu valið heiti og formaður kjörinn, Jón Sigurðsson, forseti alþingis. Hann valdi sér varaformann, Halldór Kr. Friðrikssson alþingismann og yfirkennara við Lærða skólann. Ennfremur voru kosnir 42 fulltrúar fyrir sýslur landsins. Telst 19. ágúst 1871 því stofndagur Hins íslenska þjóðvinafélags.

 

 

Samkvæmt þessum fyrstu félagslögum var tilgangur félagsins „að reynameð sameiginlegum kröftum að halda uppi landsréttindum og þjóðarréttindum Íslendinga, efla samheldni og stuðla til framfara landsins og þjóðarinnar í öllum greinum.“ Ennfremur var yfirlýst markmið félagsins að „vekja og lífga meðvitund Íslendinga um, að þeir séu sjálfstætt þjóðfélag og hafi því samboðin réttindi.“  Ávinna þyrfti þjóðinni frelsi og sjálfsforræði til þess að hún fengi notið sín til allra framkvæmda og framfara. Fyrsta skilyrði væri að fá setta stjórnarskrá er veitti fullt stjórnfrelsi í öllum íslenskum málum: alþingi með löggjafarvaldi og fullu fjárforræði auk landstjórnar í landinu sjálfu með fullri lagalegri ábyrgð fyrir alþingi. Þetta má segja að hafi verið hin pólitíska stefnuyfirlýsing þingmanna og félagsins.

 

Það var jafnframt tilgangur félagsins að auka samheldni og stuðla að framförum, einkum með því að efla bóklega og verklega menntun. Samtök og félagsskapur voru að mati Jóns Sigurðssonar grundvöllur framfara. Bein tengsl væru á milli verklegra framfara og árangurs í stjórnfrelsisbaráttu. Þetta kom vel fram í umburðarbréfi sem Jón ritaði erindreka félagsins, Eggerti Gunnarssyni, bróður Tryggva kaupstjóra, er hann fór um landið sumarið 1872 að hvetja bændur og búalið til þátttöku í Gránufélaginu og Þjóðvinafélagi. Jón hvatti Eggert til að brýna fyrir öllum, hversu náið samband er á milli allra framkvæmda verslunarfélaganna og Þjóðvinafélagsins og hversu þær framkvæmdir hljóti að … „beina oss veg til að vinna landsréttindi vor og þjóðfrelsi.“ 

 

Jón Sigurðsson (1811 - 1879)

 

 
Skráð af Menningar-Bakki.

 

18.08.2019 08:10

Margrét sýnir "Framtíðina" í Stokkur Art Gallery á Stokkseyri

 

 

Margrét Loftsdóttir við verk sín.

 

 

 Margrét sýnir „Framtíðina“

 

   í Stokkur Art Gallery á Stokkseyri

 

 

Stokkur Art Gallery er listamannsrekið gallerí við Hafnargötu 6 á Stokkseyri.

 

Í dag, sunnudaginn 18. ágúst 2019 verður opnuð þar fyrsta einkasýning Margrétar Loftsdóttur. „Framtíðin“ er yfirskrift sýningarinnar, en þar verða útskriftaverk Margrétar úr University of Cumbria ásamt nýjum viðbótum.

 

„Við viljum færa suðurströnd Íslands nýja gátt fyrir nútímalist og aðra þjóðmenningu. Við erum stolt að hefja þessa vegferð með einkasýningu Margrétar Loftsdóttur sem sprengir út málverkið og rammarnir horfnir út á haf,“ segir Stefán Hermannsson listamaður sem rekur galleríið.

 

Um sýninguna „Framtíðin“ segir í tilkynningu: „Með því að blanda saman sakleysi barnsins og grófum málarastíl er leitast við að ná fram ákveðinni þversögn í málverkinu. Notast er við gróf efni og skítuga liti ásamt expressionískum aðferðum sem mynda spennu innan málverksins. Hold barnsins er einstakt og viðkvæmt. Holdið er margslungið en samt svo náttúrulegt, það er fyrirbæri sem við þekkjum öll og kallar fram tilfinningar innra með okkur, það getur verið bæði fráhrindandi og aðlaðandi á sama tíma. Verkin eru stór og ögra formi málverksins. Lögun þeirra er óregluleg, rétt eins og líf kornabarnsins getur verið, ýmist úfið og tætt eða slétt og fellt.“

 

Hversu einstök
þessi nýja mannvera.
Lítil viðkvæm sál,
andar, nærist, sefur
enga vitneskju hefur
um hvað veröldin tekur og gefur.

 

Margrét Loftsdóttir (f. 1992) er nýkomin heim úr námi frá Bretlandi. Hún lauk diplóma gráðu frá Málaradeild Myndlistaskóla Reykjavíkur 2018. Í framhaldi að því bætti hún við sig BA gráðu (Fine Art) frá University of Cumbria. Margrét tók þátt í samsýningu í Listamenn Gallerý ásamt öðrum málurum vorið 2018.

 

Stefán Her­manns­son og Arn­fríður Ein­ars­dótt­ir hafa verið bú­sett á Eyr­ar­bakka um skeið og standa að galle­rí­inu. Þau munu auk sýn­inga standa fyr­ir viðburðum á borð við tón­leika og upp­lestra úr bók­um.

 

Frek­ari upp­lýs­ing­ar má finna á stokkur­art­gallery.is.

 

 Skráð af Menningar-Bakki.

17.08.2019 21:12

Selfyssingar bikarmeistarar í fyrsta sinn

 

 

Bikarmeistarar Selfoss. Ljósm.: sunnlenska.is/Guðmundur Karl

 

 

 -Selfyssingar-

 

  bikarmeistarar í fyrsta sinn

 

 

Kvennalið Selfoss tryggði sér í kvöld bikarmeistaratitilinn í knattspyrnu með 2-1 sigri á KR á Laugadalsvelli.

 

KR byrjaði betur í leiknum og komst yfir á 18. mínútu með marki frá Gloria Douglas. Selfyssingar hresstust síðasta korterið í fyrri hálfleik og á 36. mínútu jafnaði Hólmfríður Magnúsdóttir metin með glæsilegu marki eftir frábæran sprett upp völlinn. Örfáum andartökum síðar var Barbára Gísladóttir nálægt því að skora en markvörður KR varði vel. Staðan var 1-1 í leikhléi.

 

Seinni hálfleikurinn var jafn og spennandi en hvorugu liðinu tókst að skora því varð að grípa til framlengingar.

 

Selfyssingar voru sterkari í framlengingunni og á 102. mínútu tryggði Þóra Jónsdóttir Selfossi sigurinn með sínu fyrsta meistaraflokksmarki. Selfoss varðist vel á lokakaflanum þegar KR reyndi að jafna metin og fögnuðurinn var gríðarlegur hjá þeim vínrauðu þegar dómari leiksins flautaði til leiksloka.

 

Þetta er fyrsti stóri titill Selfoss í knattspyrnu og er óhætt að segja að stuðningsmennirnir hafi átt sinn hlut í því að landa þessum titli því að þeir fjölmenntu á leikinn og voru stórkostlegir í stúkunni.Skráð af Menningar-Bakki.

17.08.2019 10:37

Ísdagur Kjörís er í dag - 17. ágúst 2019

 

 

 

 

 -Ísdagur Kjörís- 

 

er í dag - 17. ágúst 2019

 

 

Hinn árlegi Ísdagur Kjörís verður haldinn við verksmiðju Kjöríss í Hveragerði í dag, laugardaginn 17. ágúst 2019, milli kl. 13–16.

 

Dagurinn er haldinn í samstarfi við bæjarhátíðina Blómstrandi daga og því geta gestir einnig notið annarar dagskrár sem í boði er í bænum. Mörg þúsund manns hafa mætt á hátíðina undanfarin ár sem nú er haldin í 13. skipti en mjög vinsælt hefur verið meðal höfuðborgarbúa að bregða sér í ísbíltúr til Hveragerðis á þessum degi.

 

Í ár heldur Kjörís upp á 50 ára afmæli og ber ísdagurinn keim af því. Lögð verður sérstök ísleiðsla úr verksmiðju Kjöríss og út á bílaplan. Þar eru dælurnar í stanslausri notkun allan daginn enda mega gestirnir borða eins mikið og þeir geta í sig látið. Í fyrra runnu um tvö og hálft tonn af ís ofan í gesti Ísdagsins. Ásamt hinum hefðbunda ís verður líkt og síðustu ár boðið upp á alls kyns svokölluð ólíkindabrögð sem ísgerðarmenn Kjöríss hafa leikið sér með, líkt og ís úr aspasís, hnetsmjörsís, kampvínsís og lúsmís. Ásamt öðrum gómsætum tegundum eins og súkkulaði veganís, kókosbolluís og fleira.

 

Skemmtidagskrá verður á staðnum fyrir börn og fullorðna. Ingó Veðurguð mætir með gítarinn, Daði Freyr, hin hvergerðska Birna og herra Hnetusmjör skemmta gestum. Einnig mæta BMX brós og Hjalti úrsus með þrautabraut. Kynnir verður Lalli töframaður.

Dagskráin hefst kl. 13 og lýkur kl. 16.Skráð af Menningar-Bakki.

17.08.2019 10:27

Íslandsmeistaramótið í hrútadómum 18. ágúst 2019

 

 

Á síðasta ári sigraði Ragnar Bragason á Heydalsá við Steingrímsfjörð,

í öðru sæti var Elvar Stefánsson í Bolungarvík

og þriðji varð Guðmundur Gunnarsson á Kjarlaksvöllum í Dölum.

Sigurvegarinn í flokki vanra fær verðlaunagripinn Horft til himins til varðveislu í eitt ár.

 

 

Íslandsmeistaramótið

 

í hrútadómum 18. ágúst 2019

 

 

Mikið hefur verið um að vera á Sauðfjársetrinu á Ströndum í sumar, margvíslegar uppákomur og viðburðir.

 

Framundan er svo stærsta samkoma ársins, Íslandsmeistaramótið í hrútadómum, sem verður haldið á morgun sunnudaginn 18. ágúst 2019, og hefst kl. 14:00 í Sævangi við Steingrímsfjörð.

 

Ester Sigfúsdóttir framkvæmdarstjóri Sauðfjársetursins segir að undirbúningur fyrir helgina gangi mjög vel: „Það er alltaf góð þátttaka í hrútadómunum. Keppt er bæði í flokki þaulreyndra hrútadómara og líka í flokki óvanra og hræddraþuklara. Þetta er alltaf mjög skemmtilegt, svo við erum bara glöð og spennt og vonumst eftir góðri mætingu,“ segir Ester hress.

 

Hrútadómarnir sjálfir fara þannig fram að ráðunautur fer fyrir dómnefnd  sem metur fjóra íturvaxna hrúta með nútíma tækjum og tólum og raðar þeim í gæðaröð fyrirfram. Síðan reyna keppendur sig við matið á hrútunum með hendur og hyggjuvit að vopni og reyna að komast að sömu niðurstöðu og dómararnir. Þeir óvönu láta duga að raða hrútunum í sæti frá eitt til fjögur og færa rök fyrir máli sínu. Þeir vönu gefa hins vegar hrútunum stig fyrir einstaka þætti (hryggur og læri skipta þar miklu máli) og fara þá eftir stigakerfi sem bændur gjörþekkja. Veglegir vinningar eru í boði fyrir sigurvegara í báðum flokkum.

 

Að venju verður kjötsúpa á boðstólum og kaffihlaðborð allan liðlangan daginn. Einnig er stórskemmtilegt happdrætti og eru líflömb í vinning. Kostar miðinn 800 kr. og geta þeir sem komast ekki á staðinn keypt sér miða í gegnum Facebook síðu Sauðfjársetursins eða hjá Ester í síma 693-3474.

 

Á síðasta ári sigraði Ragnar Bragason á Heydalsá við Steingrímsfjörð, í öðru sæti var Elvar Stefánsson í Bolungarvík og þriðji varð Guðmundur Gunnarsson á Kjarlaksvöllum í Dölum. Sigurvegarinn í flokki vanra fær verðlaunagripinn Horft til himins til varðveislu í eitt ár.

 

Ester hvetur að lokum alla til að leggja leið sína á Strandir á sunnudaginn og taka þátt í þessum skemmtilega degi.

 


Skráð af Menningar-Bakki.