Menningar-Bakki * Viðhalda og efla þjóðlega menningararfleið til sjávar og sveita*
-------- Alþýðuhúsið á Eyrarbakka - Vinir alþýðunnar - Á undan sinni framtíð --- "Stærra í hugum okkar en við sjálfir gerum okkur grein fyrir" ---

17.08.2019 07:52

Merkir Íslendingar - Jón Árnason

 

 

 Jón Árnason (1819 - 1888). 

 

 

Merkir Íslendingar - Jón Árnason

 

 

Jón Árna­son fædd­ist 17. ágúst 1819 á Hofi á Skaga­strönd, son­ur séra Árna Ill­uga­son­ar, f. 1754, d. 1825, og 3. k.h., Stein­unn­ar Ólafs­dótt­ur, f. 1789, d. 1864.

 

Jón lauk stúd­ents­prófi frá Bessastaðaskóla. Hann var bóka­vörður 1848-1887, fyrst á Stifts­bóka­safn­inu en þegar safnið fékk titil­inn Lands­bóka­safn Íslands árið 1881 varð hann fyrsti Lands­bóka­vörður Íslands. Hann var einnig fyrsti for­stöðumaður Forn­gripa­safns Íslands, síðar Þjóðminja­safnið, þegar það var stofnað árið 1863. Lengi vel sá hann einn um bæði söfn­in.

 

Jón varð fyr­ir áhrif­um frá Grimms­bræðrum og fór að safna þjóðsög­um og æv­in­týr­um í sam­starfi við Magnús Gríms­son. Þeir gáfu út Íslenzk æf­in­týri árið 1852. Sú út­gáfa hlaut dræm­ar viðtök­ur. Þeir tóku aft­ur upp söfn­un sagna vegna hvatn­ing­ar frá Konrad Maurer. Magnús dó 1860 en Jón hélt söfn­un­inni áfram. Á ár­un­um 1862 til 1864 kom svo út stór­virki hans, Íslenzk­ar þjóðsög­ur og æf­in­týri í tveim­ur bind­um og var það prentað í Leipzig með liðsinni Maurers.

 

Kona Jóns var Katrín Þor­valds­dótt­ir Sívertsen. Þau áttu einn son sem dó ung­ur.

 

Jón Árna­son lést 4. september 1888.

 


Morgunblaðið laugardagurinn 17. ágúst 2019.
 

 


Skráð af Menningar-Bakki.

16.08.2019 21:50

-Gamla myndin-

 

 

 

 

    -Gamla myndin-
 

 

Hrútavina - Sviðið á Stokkseyrarbryggju.


Mynd frá sumrinu 2009.
 Hrútavinafélagið Örvar á Suðurlandi 20 ára (1999 - 2019)

 

 

Eins og alþjóð Hrútavina veit er Bryggju-Sviðið á Stokkseyri eitt af fjölmörgum "menningarundrum" Hrútavinafélagsins Örvars á Suðurlandi.Hrútavinafélagið Örvar er félags- og menningarlegt samafl Vestfirðinga og Sunnlendinga og þess gjörva hönd hefur víða komið að málum frá stofnun félagsins árið 1999. 

Skráð af Menningar-Bakki.

16.08.2019 06:57

Mekir Íslendingar - Marsellíus S. G. Bernharðsson

 

 

 

Mekir Íslendingar - Marsellíus S. G. Bernharðsson

 

 

Marsellíus S. G. Bernharðsson skipasmíðameistari á Ísafirði var fæddur 16. ágúst 1897 að Kirkjubóli í Valþjófsdal í Önundarfirði. Hann lést þann 2. febrúar 1977 á Ísafirði.Hann flutti með fjölskyldu sinni að Hrauni á Ingjaldssandi, Önundarfirði þegar hann var 8 ára, en flutti á Ísafjörð innan við tvítugt og bjó þar upp frá því.
 


Hann kynntist þar Albertu Albertsdóttur, sem var ung ekkja með 3 börn. Þau gengu í hjónaband á Sjónarhæð þann 3. júní1927. Fyrstu 15 árin bjuggu þau að Aðalstræti 15, en reistu sér svo íbúðarhúsið að Austurvegi 7, sem þau fluttu í 16. september 1943. Þá höfðu þau eignast 10 börn, en missst tvö börn. Fjölskyldan sem flutti úr Miðkaupstað í Hæstakaupstað samanstóð þá af þeim hjónum og 11 börnum.  


 
Hann hóf skipasmíðar sínar fyrir utan heimili þeirra í Miðkaupstað, en flutti stöðina sína niður í Neðstakaupstað í lok 4.áratugarins. Á 7. áratugnum hóf M. Bernharðsson hf smíði stálskipa í Naustinu, neðar á Suðurtanganum, þar var einnig reist dráttarbraut og stálskemma sem hefur alltaf verið nefnd Hveragerði á meðal fjölskyldunnar. Það heiti tengist bróður hans Finni Guðna sem vann hjá bróður sínum, aðstoðaði við húsbygginguna á Austuveginum og bjó þar til dauðadags. Síðustu árin átti Finnur við veikindi að stríða og fór á Náttúrulækningastofnunina í Hveragerði, þar sem hann dvaldi um tíma. Honum líkaði dvölin vel og dásamaði staðinn.Afi vann langa starfsævi, hann dó á 80. aldursári.


 

 


 

Af Facebook-siðu Áslaugar Helgudóttur
á Ísafirði.


 Skráð af Menningar-Bakki.

15.08.2019 12:53

15. ágúst 1936 - bygging Háskóla Íslands hefst

 

 

 

-Eyrbekkingurinn- 

Guðjón Samúielsson teiknaði Háskóla Íslands.

 

 

 -15. ágúst 1936 -

 

bygging Háskóla Íslands hefst

 

 

Framkvæmdir hefjast við byggingu Háskóla Íslands þann 15. ágúst 1936 með því að tíu atvinnulausir stúdentar byrja að grafa fyrir grunninum.

 

Háskólabyggingin var formlega tekin í notkun 17. júní 1940.
 

 


Skráð af Menningar-Bakki.

15.08.2019 10:37

Ann ljóðum, leiklist og útivist

 

 

 

  Ann ljóðum, leiklist og útivist 

 

Einar Guðni Njálsson, fyrrverandi bæjarstjóri – 75 ára

 

 

Einar Guðni Njálsson fæddist í Dvergasteini á Húsavík 15. ágúst 1944. Hann fluttist þriggja ára gamall í nýtt hús fjölskyldunnar að Hringbraut 11, nú Laugarbrekku 12 á Húsavík, og ólst þar upp. „Mikið frjálsræði var til leikja fyrir okkur krakkana á Beinabakkanum og Hringbrautinni. Þar var allt undir, túnin, fjaran og Snásurnar, Höfðinn, Háhöfðinn og Laugardalurinn,“ segir Einar.

 

Einar gekk í Barnaskóla Húsavík og tók landspróf frá Gagnfræðaskóla Húsavíkur. Hann stundaði nám í Samvinnuskólanum að Bifröst og lauk þaðan prófi 1963 og varð dúx í sínum árgangi. Hann starfaði hjá Hovedstadens Brugsforening í Kaupmannahöfn hálft árið 1964 og stundaði jafnframt nám í Dupontskólanum í auglýsingateiknun og útstillingum. Hann sótti nám í Bankamannaskólanum 1965.

 

Fyrstu störf Einars voru við að stokka og beita línu og sveitastörf á sumrin. „Ég var fjögur sumur í sveit í Skógum í Reykjahverfi hjá frændfólki mínu, Gunnlaugi Sveinbjörnssyni og Guðnýju Árnadóttur. Mér leið vel í Skógum og fékk að taka þátt í öllum verkum eftir minni getu og lærði heilmargt sem hefur komið sér vel síðar á ævinni.“ 

 

Einar vann sem unglingur við síldarsöltun og saltfiskverkun, var verslunarmaður hjá Kaupfélagi Þingeyinga 1961-1963 og hóf störf hjá Samvinnubankanum í Reykjavík 1. september 1964 og var útibússtjóri bankans á Húsavík 1969-1990. Hann var bæjarstjóri á Húsavík 1990-1998, bæjarstjóri í Grindavík 1998-2002 og bæjarstjóri í Árborg 2002-2006. Hann var verkefnisstjóri og síðan sérfræðingur í félags- og tryggingamálaráðuneytinu frá 2006, síðar velferðarráðuneytinu 2011- 2016 er hann lét af störfum vegna aldurs.

 

Einar sinnti margvíslegum nefndar og stjórnarstörfum í tengslum við störf á vegum sveitarfélaga. Hann sat meðal annars í stjórn Kísiliðjunnar hf. 1974-1978, í skólanefnd Húsavíkur 1970-1978, formaður frá 1974. Hann var formaður stjórnar Eyþings – samtaka sveitarfélaga í Eyjafirði og Þingeyjarsýslum 1992- 1997, sat í stjórn Hafnasambands sveitarfélaga 1997-1998 og í Bláfjallanefnd 1998-2002. Hann var formaður stjórnar Saltfiskseturs Íslands í Grindavík 2001-2002, sat í stjórn Lánasjóðs sveitarfélaga 2002- 2006 og var í Húsafriðunarnefnd ríkisins 2000-2009.

 

Einnig kom Einar að ýmsum nefndarstörfum á vegum félags- og tryggingamálaráðuneytisins, síðar velferðarráðuneytis, svo sem vegna yfirfærslu þjónustu við fatlað fólk frá ríki til sveitarfélaga og var formaður í verkefnisstjórn um endurmat á yfirfærslu málaflokksins sem lauk með skýrslu í nóvember 2015.

 

Um árabil starfaði Einar með Leikfélagi Húsavíkur (LH), sat í stjórn félagsins og var formaður um tíma. Hann var formaður Bandalags íslenskra leikfélaga 1979-1988, sat í stjórn Norræna áhugaleikhúsráðsins 1980-1990, varaformaður frá 1981. Einar hefur verið virkur félagi í Frímúrarareglunni síðastliðna fjóra áratugi og gegnt þar embætti.

 

Spurður um áhugamál utan félagsmálanna og fjölskyldunnar segir Einar: „Síðan árið 1984 höfum við hjónin farið flest ár í skíðaferðir í Alpana. Ég hef varið frístundum við veiðiskap bæði með stöng og byssu og gengið á fjöll. Eftir göngu á Hvannadalshnjúk árið 2009 með Árnínu dóttur minni og fleiri vinum hef ég verið félagi í gönguhóp á vegum Ferðafélags Íslands sem nú ber nafnið Léttfeti. Svo hef ég alla tíð haft gaman af ljóðum og lausavísum.“

 

Fjölskylda

 

Einar kvæntist Sigurbjörgu Bjarnadóttur bókasafnstækni 16. nóvember 1968. Sigurbjörg fæddist 1.7. 1947 á Hólmavík. Foreldrar hennar voru hjónin Halldóra Guðmundsdóttir húsmóðir, f. 29.2. 1928, d. 20.12. 2017 og Bjarni Halldórsson vélgæslumaður f. 25.10. 1923, d. 2.6. 1989.

 

Börn Einars og Sigurbjargar eru:

1) Guðný Dóra, sálfræðingur hjá Akureyrarbæ, f. 27.7. 1969, maki: Valdimar Ólafsson vélfræðingur, f. 29.10. 1968. Börn: Sara Agneta, f. 25.9. 2001, og Alexander Máni, f. 28.5. 2004.

2) Árnína Björg, viðskiptafræðingur MS, f. 28.7. 1971. Maki: Sigtryggur Heiðar Dagbjartsson, f. 26.4. 1968, þau skildu. Dóttir þeirra: Sigurbjörg Ýr, f. 14.6. 2001.

3) Kristjana, faraldsfræðingur Ph.D, prófessor við HÍ, f. 15.6. 1977, maki: Anthony S. Gunnell, f. 4.9. 1971, líftæknifræðingur Ph.D. Börn: Lísa Sóley, f. 16.7. 2007, Vala Nicole, f. 26.10. 2009, og Erik Einar, f. 20.11. 2014.

 

Alsystur Einars eru Oddný húsmóðir, f. 28.5. 1943 gift Halldóri Margeirssyni, búsett á Ísafirði, Bjarney Stefanía kennari f. 7.9. 1947, gift Sigurberg Guðjónssyni, búsett í Reykjavík. Hálfsystur samfeðra eru Inga Þórhalla ritari, f. 2.2. 1964, búsett í Reykjavík, og Nína (Árnína Björg) klæðskeri, f. 8.9. 1965, búsett í Reykjavík. Stjúpsystir er Elísa Björg Þorsteinsdóttir listfræðingur, kennari og þýðandi, f. 29.5. 1952, búsett í Reykjavík. Móðir þeirra er seinni kona Njáls, Júlíana Guðmundsdóttir, hjúkrunarfræðingur fædd í Flatey á Skjálfanda 30.8. 1923, d. 7.4. 2019.

 

Foreldrar Einars voru hjónin Njáll Bergþór Bjarnason kennari, f. 9.11. 1913, d. 2.2. 2003 og Árnína Björg Einarsdóttir húsmóðir, f. 29.6. 1918, d. 4.10. 1959.

 

 Morgunblaðið 15. ágúst 2019.

 

 

 

Næst til vinstri er Einar Guðni Njálsson á fundi í bæjarstjórn Árborgar.

Ljósm.: Björn Ingi Bjarnason.

 Skráð af Menningar-Bakki. 

 

 

15.08.2019 07:32

Merkir Íslendingar - Matthías Bjarnason

 

Matthías Bjarnason. Teikning.: Ómar Smári Kristinsson.

 

 


Matthías Bjarnason (1921 - 2014).

 

 

Merkir Íslendingar - Matthías Bjarnason

 

 

Matth­ías Bjarna­son fædd­ist á Ísaf­irði 15. ágúst 1921. For­eldr­ar hans voru Bjarni Bjarna­son sjó­maður, síðar vega­verk­stjóri, og k.h. Auður Jó­hann­es­dótt­ir hús­freyja.


 

Eig­in­kona Matth­ías­ar var Krist­ín Ingi­mund­ar­dótt­ir hús­freyja sem lést 2003 og eru börn þeirra Auður fé­lags­ráðgjafi og Hinrik, ráðgjafi hjá Sjóvá-Al­menn­um. Hin síðari ár átti Matth­ías góða sam­fylgd með Jón­ínu Mar­gréti Pét­urs­dótt­ur, skóla­syst­ur sinni úr VÍ, en hún lést 2012.


 

Matth­ías braut­skráðist úr VÍ 1939. Hann var fram­kvæmda­stjóri Vest­fjarðabáts­ins hf. 1942-43, Djúp­báts­ins hf. 1943-68, fram­kvæmda­stjóri Vél­báta­ábyrgðarfé­lags Ísfirðinga 1960-74, rak versl­un á Ísaf­irði 1944-73, var fram­kvæmda­stjóri út­gerðarfé­lags­ins Kög­urs 1959-66, bæj­ar­full­trúi á Ísaf­irði 1946-70, sat í bæj­ar­ráði og var for­seti bæj­ar­stjórn­ar.


 

Matth­ías var lands­kjör­inn alþing­ismaður Sjálf­stæðis­flokks­ins 1963-67 og á Vest­fjörðum 1967-95, sjáv­ar­út­vegs-, heil­brigðis- og trygg­ingaráðherra 1974-78, heil­brigðis- og trygg­ingaráðherra 1983-85, sam­gönguráðherra 1983-87 og viðskiptaráðherra 1985-87.


 

Matth­ías var formaður FUS á Ísaf­irði, Sjálf­stæðis­fé­lags Ísfirðinga, Fjórðungs­sam­bands sjálf­stæðismanna á Vest­fjörðum, full­trúaráðs sjálf­stæðis­fé­lag­anna á Ísaf­irði og sat í miðstjórn flokks­ins. Hann var formaður Útgerðarfé­lags­ins Ísfirðings, sat í stjórn Vinnu­veit­enda­fé­lags Vest­fjarða, Vél­báta­ábyrgðarfé­lags Ísfirðinga, Útvegs­manna­fé­lags Ísfirðinga, Útvegs­manna­fé­lags Vest­f­irðinga, LÍÚ, í stjórn Fiski­mála­sjóðs, At­vinnu­jöfn­un­ar­sjóðs, Fram­kvæmda­stofn­un­ar rík­is­ins, Holl­ustu­vernd­ar rík­is­ins, var formaður Byggðastofn­un­ar og rit­stjóri Vest­ur­lands.


 

Ævim­inn­ing­ar hans, Járn­karl­inn, skráðar af Örn­ólfi Árna­syni, komu út 1993. Matth­ías gaf út ritið Ísland frjálst og full­valda ríki, í til­efni 75 ára af­mæl­is full­veld­is­ins, 1993.

 

 

Matth­ías lést 28. febrúar 2014.

 Skráð af Menningar-Bakki.

14.08.2019 08:27

SUNNLENDINGURINN ÓMAR SMÁRI KRISTINSSON BÆJARLISTAMAÐUR ÍSAFJARÐARBÆJAR 2019

 

 

F.v.: Guðmundur Gunnarsson, bæjarstjóri Ísafjarðarbæjar og Ómar Smári Kristinsson

við útnefninguna.  Mynd: Ásgeir Helgi Þrastarson.

 

 

-SUNNLENDINGURINN- 

 

ÓMAR SMÁRI KRISTINSSON

 

BÆJARLISTAMAÐUR ÍSAFJARÐARBÆJAR 2019

 

 

Myndlistarmaðurinn Ómar Smári Kristinsson er bæjarlistamaður Ísafjarðarbæjar 2019 og var útnefningin tilkynnt á einleikjahátíðinni Act Alone á Suðureyri laugardaginn 10. ágúst 2019. Ómar Smári er Sunnlendingur frá Gíslholti í Holtum, Rangárvallasýslu og hefur búið á Ísafirði um árabil.

 

Í rökstuðningi Atvinnu- og menningarmálanefndar segir m.a. :

 

„Ómar Smári Kristinsson er bæjarlistamaður Ísafjarðarbæjar 2019. Hann er myndlistamaður, undanfarin ár hefur list hans aðallega komið okkur fyrir sjónir í teikningum og bókaútgáfu. Ómar Smári stundaði nám í Myndlista- og handíðaskólanum og myndlistarnám í Hannover í Þýskalandi.

 

Árið 2012 teiknaði hann bæjarmynd af Ísafirði, í samstarfi við Eyþór Jóvinsson, þar sem hann tók bæði myndir úr lofti og nærmynd af hverju húsi. Hann setti saman kortið úr 24 teikningum, sem pössuðu síðan saman í eina heild. Kortið varð fljótlega úrelt eftir útgáfu en árlega uppfærir hann kortið m.t.t. nýs litar á húsi, viðbygginga eða annarra breytinga. Ætla má að kortið verði að nokkurs konar sagnfræðilegri myndasögu í gegnum tíðina. Kortunum hefur jafnframt fjölgað og Suðureyri, Þingeyri og Flateyri hafa jafnframt verið teiknuð upp ásamt fjölda annarra þéttbýlisstaða víðar um landið.

 

Ómar Smári kom að heimildarmynd um Bolungarvík, Bolungarvík á 20 mínútum, í samstarfi við Kvikmyndafélagið Glámu og Bolungarvíkurkaupstað. Eftir því sem best er vitað er þar eina teiknimyndin í heiminum sem sýnir þróun eins þéttbýlisstaðar.

 

Hann hefur haldið ýmsar sýningar, tók m.a. þátt í tveimur jólasýningum í Safnahúsinu þar sem hann málaði jólasveina og aðrar kynjaverur jólanna á veggi Listasafns Ísafjarðar. Enn fremur er Ómar Smári að vinna að útgáfu teiknimyndasögu sem unnin er upp úr Gísla sögu Súrssonar ásamt Elfari Loga [Hannessyni] og var sýning á þeirri vinnu á vormánuðum í Listasafni Ísafjarðar.

 

Það sem einkennir list Ómars Smára er nákvæmni og hversu auðvelt er að átta sig á landslagi og afstöðu hluta í verkum hans.  Hann er teiknari með sitt eigið handbragð, sinn eigin stíl. Hann er með húmor og er jafnan glaðbeittur.“

 

 

www.bb.is.
 Skráð af Menningar-Bakki.

 

 

14.08.2019 07:36

Umhverfisverðlaun Árborgar 2019

 


F.v.: Eggert Valur Guðmundsson, formaður bæjarráðs, Pétur Pétursson, slökkviliðsstjóri,

Jóhann Valgeir Helgason formaður Björgunarfélags Árborgar, Örn Óskarsson,

Ásrún Ásgeirsdóttir og Viktor Tómasson. Mynd: ÖG.

 

 

Umhverfisverðlaun Árborgar 2019 

 

 

Eggert Valur Guðmundsson, formaður bæjarráðs, afhenti umhverfisverðlaun Sveitarfélagsins Árborgar í Sigtúnsgarði á Selfossi sl. laugardag, 10. ágúst 2019.. Leitað var eftir tilnefningum frá íbúum og bárust margar tilnefningar.

 

Fallegasti garðurinn


Fallegasti garðurinn var valinn Eyjasel 11 á Stokkseyri, en þar búa Viktor Tómas­son og Ásrún Ásgeirsdóttir. Garðurinn er snyrtilegur og fallegur og kemur dálítið á óvart því hann sést ekki mikið frá götunni og er því smá falinn.

 

Fallegasta fyrirtækið


Fallegasta fyrirtækið var valið Björgunar­mið­stöðin á Selfossi. Hjá þeim er alltaf snyrtilegt og fínt á planinu við húsið. Eins ræður snyrtimennskan ríkjum innanhúss.

 

Umhverfisverðlaun Árborgar


Örn Óskarsson, líffræðingur og fram­halds­skólakennari, fékk afhent umhverfis­verð­laun Sveitarfélagsins Árborgar fyrir ómet­an­legt framlag til umhverfismála til fjölda ára. Örn hefur unnið að umhverfismálum á fjölmörgum sviðum í gegnum tíðina. Þetta var í fyrsta skipti sem einstaklingi eru veitt þessi verðlaun.

 

Fallegasta gatan


Fallegasta gatan var valin Starmói á Sel­fossi. Elsti íbúinn er Ásmundur Daníelsson fæddur 23. ágúst 1939 en hann býr í Star­móa 7 og sá yngsti er Snorri Kristinsson, fæddur 13. desember 2017. Hann býr í Star­móa 12 með foreldrum sínum Ásrúnu Magnúsdóttur og Kristni Högnasyni. Starmói var valinn því hann þótti heilt yfir snyrtileg og falleg gata og hefur yfirleitt alltaf verið það.
Dagskráin 14. ágúst 2019.
 Skráð af Menningar-Bakki.

13.08.2019 21:50

Merkir Íslendingar - Valdimar Ólafsson

 

 

Valdimar Ólafsson (1926 - 2008).

 

 

Merkir Íslendingar - Valdimar Ólafsson

 

 

Valdimar Ólafson, fyrrv. yfirflugumferðarstjóri, fæddist á Mosvöllum I í Önundarfirði 13. ágúst 1926.

Foreldrar hans voru Ólafur B. Hjálmarsson, sjómaður, bóndi á Mosvöllum I, verkstjóri, efnisvörður BP í Rvk., f. 26.8. 1903, d. 30.8. 1986, og Ragnheiður Guðmundsdóttir húsmóðir, f. 25.10. 1902, d. 7.4. 1991.

 

 

Valdimar kvæntist 22.12. 1948 Erlu Þórdísi Jónsdóttur síðar kennara, f. 9.2. 1929, d. 28.2. 1987, dóttur Þórunnar Jónsdóttur kennara og Jóns Alexanderssonar, forstjóra hlustendaþjónustu ríkisútvarpsins. Þau skildu 1965. 

Börn Valdimars og Erlu eru sjö: 


1) Alexander Einar Valdimarsson, f. 22.12. 1947, 
2) Ragnheiður Valdimarsdóttir, f. 18.6. 1949, 
3) Þórunn Erlu-Valdimarsdóttir, f. 25.8. 1954, 
4) Lilja Valdimarsdóttir, f. 12.11. 1956, 
5) Trausti Valdimarsson, f. 1.11. 1957,  
6) Vala Sigurlaug Valdimarsdóttir, f. 21.1. 1960,
7) Ásdís Valdimarsdóttir, f. 18.7. 1962, 

 

Seinni kona Valdimars er Helga Árnadóttir hjúkrunarkona, f. 16.9. 1937, dóttir Árna Björns Árnasonar, héraðslæknis í Grenivík, og Kristínar Þórdísar Loftsdóttur húsmóður. 

Börn Valdimars og Helgu eru fimm: 


8) Árni Björn Valdimarsson, f. 8.11. 1965, 
9) Ólafur Kristján Valdimarsson, f. 12.8. 1967,  
11) Sindri Valdimarsson, f. 19.4. 1971, 
12) Kristín Þórdís Valdimarsdóttir, f. 19.10. 1975.

 

 

Valdimar hóf störf í Flugmálastjórn sem loftskeytamaður 1946 og sem flugumferðarstjóri 1947-51, var vaktstjóri til 1962, aðstoðarflugumferðarstjóri til 1971 og yfirflugumferðarstjóri til 1991. Kenndi lengi flugnemum bókleg fræði á kvöldnámskeiðum og í Flugskóla Íslands í dagskóla 1991-99. Hann var ritari Flugráðs í sjö ár og leiðsögumaður á sumrin í 15 ár. Hann var meðhjálpari í Fella- og Hólakirkju í 11 ár og yfir 20 ár í sóknarnefnd Fella- og Hólakirkju. Hann hafði ánægju af að syngja og var í Gerðubergskórnum og karlakórnum Kátum körlum. Var áður fáein ár með Pólýfónkórnum og eitt ár með kirkjukór. Félags- og trúnaðarstörf voru honum hugleikin. Var fyrsti formaður Félags íslenskra flugumferðarstjóra (FÍF) 1955-66 og í stjórn BSRB í 10 ár. Formaður Félags flugmálastarfsmanna ríkisins í fjögur ár. Hann ferðaðist mikið og tók þátt í alþjóðlegu samstarfi, sat meðal annars undirbúnings-, stofnfund og ársþing alþjóðasamtaka flugumferðarstjóra IFATCA. Starfaði í áratugi í Oddfellow og Rotary Breiðholt og gegndi þar ritara- og forsetastörfum. Starfaði í fimm ár við gerð Flugorðasafnsins sem kom úr 1993. Samdi kennslubók í flugreglum 1992.Hann ritaði margar greinar í tímarit, dagblöð og sérrit. Einnig tók Valdimar þátt í störfum Almannavarna ríkisins í um 25 ár og í hjálparstarfi kirkjunnar. Var kjörinn heiðursfélagi FÍF 1985 á 30 ára afmæli þess og hlaut gullmerki sem einn af formönnum þess og Paul Harris-orðu Rotary-félagsskaparins.

 

Valdimar Ólafsson lést 2. apríl 2008.
 Skráð af Menningar-Bakki.

12.08.2019 20:32

Gamla og góða fréttin - 15. júlí 2006

 

 

Eftir heiðrunina á Stokkseyrarbryggju þann 14. júlí 2006.
F.v.:

Stefán Muggur Jónsson, Páll Sigurgeirsson, Valdimar Jónsson og Einar Helgason.

Ljósm.: Björn Ingi Bjarnason.

 

 

Gamla og góða fréttin

 

 - 15. júlí 2006 -Af: www.stokkseyri.is
Skráð af Menningar-Bakki.