Menningar-Staður
Félagsheimilið Staður á Eyrarbakka

27.08.2016 19:22

Merkir Íslendingar- Finnur Magnússon

 

 


Finnur Magnússon (1781 - 1847)

 

Merkir Íslendingar- Finnur Magnússon

 

Finnur Magnússon fæddist 27. ágúst 1781 í Skálholti. Faðir Finns var Magnús Ólafsson lögmaður úr Svefneyjum og föðurbróðir Finns var Eggert Ólafsson náttúrufræðingur og skáld. Móðir Finns var Ragnheiður dóttir Finns Jónssonar biskups.

Finnur var í fóstri hjá Hannesi biskupi Finnssyni móðurbróður sínum og nam hjá honum skólavísindi og fór síðan til náms í Kaupmannahöfn. 

Finnur sneri til Íslands þegar faðir hans lést og árið 1806 var hann settur málafærslumaður við landsyfirréttinn í Reykjavík og var í því starfi þangað til Jörundur hundadagakonungur svipti hann embætti. Finnur fór þá til Kaupmannahafnar en þegar Jörundur var hrakinn frá völdum tók hann aftur við embætti sínu.

Árið 1812 fór hann aftur til Kaupmannahafnar.

 

Finnur varð prófessor og forstöðumaður leyndarskjalasafnsins í Kaupmannahöfn. Hann var etatsráð en það er tignarheiti án embættis. Finnur gegndi oft stöðu forseta eða varaforseta Kh. deildar Hins ísl. bókmenntafélags, hann var varaforseti Fornfræðafélagsins og fulltrúi Íslands á stéttaþingum. Hann var í miklu áliti meðal samtíðarmanna sinna og segir Benedikt Gröndal hann hafa verið frægan um öll lönd og hafa ekið með Alexander Humboldt og Jakob Grimm þegar þeir komu til Kaupmannahafnar.
 

Finnur rannsakaði það sem hann taldi rúnir í Runamo í Blekinge í Svíþjóð. Honum hugkvæmdist að lesa þær afturábak gegnum spegil og gat þannig lesið vísu. Hann skrifaði 750 blaðsíðna rit um rúnirnar í Runamo, en fékk mikla gagnrýni fyrir það verk og varð honum til aðhlátursefnis. Jarðvísindamenn telja að risturnar í Runamo séu jökulrákir.
 

Finnur kvæntist 6. nóvember 1821 Nikolínu Barböru Frydensberg, dóttur landfógeta en þau skildu 1836. Gröndal segir að Finni „létu betur vísindalegar rannsóknir og bókagrufl heldur en það praktíska líf“.
 

Finnur lést á aðfangadag 1847.

 

Morgunblaðið 27. ágúst 2016.

 

 

 

Skálholt, vatnslitamynd John Cleveley yngri frá 1772.

Meðal mynda frá ferðum hans með Joseph Banks um Ísland.

 Skráð af Menningar-Staður

27.08.2016 11:06

Sumarlokin í Laugabúð á Eyrarbakka

 

 

 

Sumarlokin í Laugabúð á Eyrarbakka

 


Jæja, gott fólk.


Þá fer nú að styttast í þessu sumrinu og þá förum við að huga að verslunarvertíðarlokum þetta sumarið. Þessi helgin, sem gengin er í garð, er síðasta opnunarhelgin í Laugabúð í sumar. Við verðum með eitthvað opið í haust þegar þannig liggur á okkur, en það verður allt óvænt.


Við vorum að fá þetta líka fína nafnspjald Laugabúðar beint úr prentsmiðjunni. Efri myndin er af Guðlaugi Pálssyni kaupmanni fyrir framan verslunina. Myndina tók Haraldur Blöndal ljósmyndari upp úr 1920. Neðri myndina tók Sigurður Bogi Sævarsson, blaðamaður og ljósmyndari, fyrir nokkrum árum af núverandi kaupmanni fyrir framan Laugabúð. Þökkum ljósmyndurunum fyrir lánið.


Hlökkum til að sjá ykkur og rétt að geta þess að við erum að taka upp nýjar vörur í dag.


Kveðja,


kaupmaðurinn og lagerstjórinn.


Af Facebook-siðu Laugabúðar.Skráða f Menningar-Staður

27.08.2016 10:43

100 ára afmæli ASÍ - Árbæjarsafn

 

 

 

100 ára afmæli ASÍ - Árbæjarsafn

Afmælisboð ASÍ á Árbæjarsafni

laugardaginn 28. ágúst 2016 kl. 13 -16 – frítt inn

 

Alþýðusamband Íslands fagnar 100 ára afmæli í ár og einn liður í að minnast þeirra tímamóta er afmælisboð ASÍ í Árbæjarsafni þann 28. ágúst nk. Alþýðusambandið býður upp á fjölbreytta dagskrá í safninu sem bregður birtu á aðstæður og aðbúnað íslensks verkafólks á síðustu öld. Boðið verður upp á leiðsagnir, ratleik, þvottaburð, kassabílaakstur auk þess sem börnin fá stutta ferð á hestbaki. Þorskur verður þurrkaður á túni, Lummur bakaðar í Hábæ, prentari, skósmiður og gullsmiður taka á móti gestum á verkstæðum sínum og Lúðrasveit verkalýðsins gleður gesti með spilamennsku sinni.

 

Leiðsagnir:

 

Kl. 13 – Baráttan um brauðið

Henný Hinz, hagfræðingur ASÍ og fimm barna móðir
Skoðuð verða áhrif þeirrar lífskjarabyltingar sem barátta verkalýðshreyfingarinnar hefur skilað undanfarna öld á neysluhætti almennings. Hagstærðir fortíðar settar í samhengi við nútímann.

 

Kl. 14 – Hjáverk kvenna

Maríanna Traustadóttir, mannfræðingur og jafnréttisfulltrúi ASÍ: 
Varpað verður ljósi á frumkvæði og hugmyndarauðgi kvenna við atvinnusköpun á síðustu öld. Með tekjuöflun sinni náðu þær að skapa betri aðstæður fyrir sig og sína.

 

Kl. 15 - Húsnæðismál

Halldór Grönvold, vinnumarkaðsfræðingur og áhugamaður um verkalýðssögu:
Varpað verður ljósi á húsnæðisvanda verkafólks síðustu hundrað ár. Birtingarmyndir, þróunina og baráttu verkalýðshreyfingarinnar fyrir mannsæmandi húsnæði á viðráðanlegu verði.


Aðgangur er ókeypis.

Af www.asi.is


Skráð af Menningar-Staður


 

27.08.2016 10:08

Menningarráð Hrútavinafélagsins fundar

 

 

F.v.: Kristján Runólfsson og Jóhann Páll Helgason.

Þarna voru lesin ljóð,
líka ort af krafti,
alltaf logar óðarglóð,
í ólmum vísnarafti.

 

Menningarráð Hrútavinafélagsins fundar

 

Menningarráð Hrútavinafélagsins Örvars á Suðurlandi fundaði í gær, föstudaginn 26. ágúst 2016, í Bókakaffinu við Austurveg á Selfossi.

 

Mættir voru:


Kristján Runólfsson, Hveragerði
Jóhann Páll Helgason, Selfossi
Bjarni Harðarsonn, Selfossi
Björn Ingi Bjarnason, Eyrarbakka

 

Aðal mál dagsins var að sjálfsögðu „Ólympíuleikar Íslands í pólitík“ sem eru næstu vikur fram að alþingiskosningum sem verða hinn 29. október 2016.

Hrútavinir hafa komið fjölda mætra manna á Alþingi og verður varla breyting á nú.

Tekið var undir áskoranir fjölda marktækra Sunnlendinga um að Árnesingurinn Sigurjón Halldór Birgisson, aðstoðar-varðstjóri á Litla-Hrauni gefi kost á sér og taki slaginn fyrir Viðreisn.

 

Þetta var fært til vísu:

 

Sigurjón skal setja‘ á þing
segja Hrútavinir.
Þessu viljum koma´ í kring
í krafti ekki linir.

 

.
F.v.: Kristján Runólfsson, Bjarni Harðarson og Jóhann Páll Helgason.
.

.

F.v.: Kristján Runólfsson og Jóhann Páll Helgason.

.

 

F.v.: Jóhann Páll Helgason, Björn Ingi Bjarnason, Bjarni Harðarson og Kristján Runólfsson.


Skráð af Menningar-Staður

26.08.2016 10:09

Ingileif Guðjónsdóttir - Fædd 16. maí 1952 - Dáin 18. ágúst 2016 - Minning

 

 

Ingileif Guðjónsdóttir.

 

Ingileif Guðjónsdóttir - Fædd 16. maí 1952

- Dáin 18. ágúst 2016 - Minning

 

Ingileif Guðjónsdóttir fæddist á Eyrarbakka 16. maí 1952. Hún lést á heimili sínu 18. ágúst 2016.

Foreldrar hennar voru þau Gyðríður Sigurðardóttir, f. 22. september 1929, d. 28. maí 2012, og Guðjón Pálsson, f. 9. maí 1934, d. 4. nóvember 2014. Eftirlifandi systir er Margrét, f. 1956, en látin eru Regína, f. 21. maí 1949, d. 22. september 2014, og drengur sem lést í fæðingu.

Ingileif eða Inga, eins og hún var jafnan kölluð, giftist Ólafi Leifssyni, f. 13. nóvember 1947, frá Vindfelli, Vopnafirði. Foreldrar hans voru Leifur Guðmundsson og Guðrún Sigríður Víglundsdóttir frá Vopnafirði. Óli og Inga giftu sig 19. maí 1973. Þau eiga tvö börn, Sigurð Má, f. 20. desember 1972, og Guðrúnu Sigríði, f. 23. júlí 1972. Unnusti Guðrúnar er Jón Ágústsson, f. 9. júní 1965, og eiga þau eina dóttur Ingileifu Valdísi, f. 16. nóvember 2014. Jón á tvo syni af fyrra hjónabandi þá Þengil Fannar, f. 8. júlí 1996, og Þorgils Mána, f. 1. júlí 2000.

Inga ólst upp á Eyrarbakka, fór ung að vinna við hin ýmsu störf sem til féllu á Bakkanum.

Hún flutti til Reykjavíkur haustið 1971 og hóf búskap með Óla á Hagamelnum. Síðar fluttu þau í Dvergabakkann þar sem þau bjuggu þar til þau festu kaup á íbúðinni í Efstasundi. Inga fékkst við ýmis störf í Reykjavík. Hún vann í búð á Kambsveginum, ullarverksmiðjunni Álafossi og Sælgætisgerðinni Nóa. Hún lærði síðar til sjúkraliða við Sjúkraliðaskóla Íslands og vann við það á Landakoti og svo einnig á Hrafnistu. Lengst af vann hún sem ráðgjafi hjá Húsnæðisstofnun ríkisins og var skrifstofumaður og síðar deildarstjóri hjá Atvinnuleysistryggingasjóði.

Inga var hafsjór af fróðleik, söngelsk og hafði yndi af tónlist. Hún var mikill náttúruunnandi og elskaði að ferðast, bæði innanlands og utan. Hún var mikið í skátastarfi sem barn og unglingur. Saumaskapur, silfursmíði, vinna með steina eða annað handverk átti hug hennar meðan hún enn gat notað hendurnar í slíkt.

Ingileif verður jarðsungin frá Langholtskirkju í dag, 26. ágúst 2016, klukkan 15.

__________________________________________________________________________________

 

Minningarorð Guggu frænku
 

Elskuleg vinkona mín og frænka er fallin frá. Við lofuðum hvor annarri fyrir um sex árum að skrifa lítinn pistil um þá, sem á undan færi yfir móðuna miklu. Þetta var eitthvað sem sagt var í gríni og við grétum úr hlátri þegar við töluðum um þetta. Nú græt ég mína kæru vinkonu og frænku. Okkar loforð var að sú sem færi á undan átti að segja um hina: „hún varð þó ekki leiðinlegt gamalmenni“. Nú finnst mér erfitt að setja þennan brandara okkar í búning, en get ekki skorast undan.

Við urðum ekki vinkonur fyrr en báðar voru fluttar úr foreldrahúsum, báðar á svipuðum stað í lífinu með börn og afborganir af ýmsum toga.

Þá hittumst við og gátum skemmt okkur saman, hlegið saman, talað um erfiðleika og fleira. Alltaf góðar stundir. Fyrir rétt rúmlega 38 árum kynnti Inga frænka mig fyrir manninum mínum. Samt alltaf tími fyrir hvor aðra.

Eitt eftirminnilegasta ferðalag sem við frænka mín og ég fórum í var til Finnlands árið 2010. Helgarferð til Helsinki, svo frábær ferð í alla staði þótt stutt væri. Við vorum dálítið á sama báti, enn og aftur, ekki alltof góðar til langra gönguferða, sem kom svo sem ekki að sök, nóg var um bari til að hvíla lúin bein.

Eftir þessa ferð töluðum við Inga um að endurtaka svona ferð seinna, en það er svona með áætlanir í lífinu, lífið bara heldur áfram án þess að taka tillit til þinna áætlana. Nú hringi ég ekki oftar til að létta á hjartanu, mun ekki heldur fá símtal frá Ingu minni með sínar hugsanir. Ekkert símtal eða heimsóknir á milli okkar sem enda með hlátri. Mikið skelfing á ég eftir að sakna þín, mín kæra.

Þín frænka

Guðbjörg (Gugga frænka).


Morgunblaðið föstudagurinn 26. ágúst 2016


Skráð af Menningar-Staður

26.08.2016 09:37

Áslaug Guðrún Harðardóttir - Fædd 1. nóvember 1941 - Dáin 18. ágúst 2016 - Minning

 

 

Áslaug Guðrún Harðardóttir.

 

Áslaug Guðrún Harðardóttir - Fædd 1. nóvember 1941

- Dáin 18. ágúst 2016 - Minning

 

Áslaug Guðrún Harðardóttir fæddist Reykjavík 1. nóvember 1941. Hún lést á hjúkrunarheimilinu Sóltúni 18. ágúst 2016.

Foreldrar hennar voru Katla Pálsdóttir, f. 17.12. 1914, d. 18.11. 2000, og Hörður Bjarnason, f. 3.11. 1910, d. 2.9. 1990. Bróðir Áslaugar er Hörður H. Bjarnason, f. 20.2. 1944. Eiginkona hans var Áróra Sigurgeirsdóttir, f. 15.5. 1943, d. 13.11. 2003. Börn þeirra eru Sigríður Ása Harðardóttir, f. 12.2. 1963, Bjarni Einar Harðarson, f. 12.4. 1972, og Katla Guðrún Harðardóttir, f. 29.12. 1976.

Áslaug giftist 30. september 1961 Jóni Hákoni Magnússyni, f. 12.9. 1941, d. 18.7. 2014. Foreldrar hans voru Svava Sveinsdóttir frá Hvilft í Önundarfirði, f. 12.9. 1909, d. 9.12. 1990, og Magnús Guðjón Kristjánsson frá Flateyri, f. 13.7. 1904, d. 2.11. 1993.

Börn Áslaugar og Jóns Hákonar eru Áslaug Svava, f. 20.7. 1975, maki Haukur Marinósson, f. 29.9. 1967, og Hörður Hákon, f. 22.5. 1976.

Áslaug lauk verslunarprófi frá Verslunarskóla Íslands 1959. Fljótlega eftir það flutti hún til Bandaríkjanna þar sem Jón Hákon var í háskólanámi og þau giftu sig þar úti. Þau fluttu aftur heim til Íslands 1965 og vann Áslaug sem einkaritari Alfreðs Elíassonar, forstjóra Loftleiða, til 1975. 1986 stofnuðu þau hjón fyrirtækið Kynning og markaður og þar starfaði hún þar til fyrir um 10 árum.

Útför Áslaugar fer fram frá Fossvogskirkju í dag, 26. ágúst 2016, og hefst klukkan 15.

__________________________________________________________________________________


Minningarorð Eiðs Guðnasonar

 

Það var reyndar ekki óvænt, þegar fregnin barst um andlát góðrar vinkonu, Áslaugar Guðrúnar Harðardóttur, að morgni fimmtudagsins 18. ágúst. Hún hafði átt við vanheilsu að stríða um nokkurt skeið. Síðustu árin, einkanlega síðustu tvö árin, eftir ótímabært fráfall eiginmanns hennar, Jóns Hákonar Magnússonar, voru henni þungbær á marga lund. Undanfarin misseri naut hún góðs atlætis í Sóltúni, þar sem hún hafði gert sér fallegt heimili. Eftir andlát Jóns kom einnig við sögu gamall vinahópur þeirra hjóna, sem studdi við, þegar stuðnings var þörf og þegar á móti blés. Við söknum nú vinar í stað.

Vinátta okkar Eyglóar og þeirra Áslaugar og Jóns átti sér langa sögu. Ekki bara frá sameiginlegum sjónvarpsárum í árdaga íslensks sjónvarps heldur og löngu fyrir þann tíma. Úr skátahreyfingu og blaðamennsku.

Ung bundust þau Áslaug og Jón tryggðaböndum. Strax á gagnfræðaskólaárunum, voru þau par, sem eftir var tekið; glæsileg bæði tvö og Áslaug sannkallaður kvennablómi.

Það var mikið í hana spunnið. Hún var forkur dugleg og fjölhæf, átti rætur í heimili þar sem menningin var í hávegum höfð. Á námsárum Jóns í Minnesota lagðist hún á árarnar með vinnu við MacAlester-háskólann, meðan Jón drýgði tekjurnar sem kokkur á skyndibitastað!

Að námi loknu og eftir komuna heim starfaði Áslaug um árabil sem einkaritari Alfreðs Elíassonar, forstjóra Loftleiða. Það var mikið trúnaðarstarf.

Saman stofnuðu þau Jón Hákon svo KOM, Kynningu og markað, almannatengslafyrirtæki, sem var brautryðjandi á því sviði og laðaði til sín hæft starfsfólk og trausta viðskiptavini. Þar sá Áslaug um bókhald og skrifstofuhald um árabil. Stálgreind og minnug var hún og betri en enginn við uppbyggingu fyrirtækisins þar sem fyrstu árin var á brattann að sækja, en eftir því sem árin liðu blómstraði fyrirtækið og Áslaug Guðrún átti vissulega sinn þátt í því.

Að leiðarlokum minnist ég traustrar vináttu og gleðistunda í áratugi. Minnist símtala seinustu árin, sem gerðu okkur báðum gott, held ég. Það var gott að eiga þau að vinum Áslaugu og Jón Hákon. Vinir og góðar minningar gefa lífinu gildi, sem mölur og ryð fá ekki grandað.

 

Áslaug Guðrún Harðardóttir var traustur vinur. Hennar er gott að minnast og hennar er saknað.

Ástvinum hennar og ættingjum votta ég einlæga samúð.

Með okkur lifa góðar minningar.

 

Guð blessi minningu Áslaugar Guðrúnar Harðardóttur.

 

Eiður Svanberg Guðnason.

Morgunblaðið 26. ágúst 2016

___________________________________________

 

 

Í Húsinu á Eyrarbakka fyrir nokkrum árum.

F.v.: Hjónin Áslaug Harðardóttir, látin, og Önfirðingurinn Jón Hákon Magnússon, látinn, og hjónin Þórunn Vilbergsdóttir, látin, og Önfirðingurinn Óskar Magnússon.
Ljósm.: Björn Ingi Bjarnason.


Image result for norðurkot

Norðurkot á Eyrarbakka sem Jón Hákon Magnússon

og Áslaug Harðardóttir áttu og dvöldu þar oft.

Image result for norðurkot


Skráð af Menningar-Staður

24.08.2016 07:07

Ljósa- og tónlistargjörningur á söfnum Árnesinga

 

 

 

Ljósa- og tónlistargjörningur á söfnum Árnesinga

 

 

Mikil ljósadýrð verður á Eyrarbakka, Selfossi og Hveragerði í lok mánaðar.

 

Listahópurinn Tura Ya Moya, undir forystu dönsku listakonunnar Karen Thastum, heimsækir söfn Árnessýslu og sýnir listaverk sem gengur undir grænlenska nafninu Anersaaq eða Andi á íslensku.

Opnunarkvöld Anersaaq – Andanna verður við Húsið á Eyrarbakka fimmtudagskvöldið 25. ágúst 2016 og hefst kl. 21.30 með kynningu og tónlistarviðburði.

Allir eru velkomnir og kvöldopnun verður á safninu.

 

Um er að ræða ljósagjörning utandyra þar sem mynd og hljóð tvinnast saman á magnaðan hátt. Listaverkið er alþjóðlegt og ferðast á milli smárra byggða í Noregi, Íslandi, Grænlandi og Danmörku. Hér á Íslandi heimsækir listahópurinn Byggðasafn Árnesinga á Eyrarbakka 25.–28. ágúst, Héraðsskjalasafn Árnesinga á Selfossi 29. og 30 ágúst og verður á Listasafni Árnesinga í Hveragerði á fram til 9. september. Byggingar safnanna verða baðaðar ljósi að kvöldlagi við tónlistarundirleik.

Vinnusmiðjur verða haldnar samhliða sýningunni og listamenn færa síðan afraksturinn í margmiðlunarbúning. Á þann hátt bætist stöðugt efni við listaverkið sem verður að lokum bræðingur af anda hvers staðar.

 

Fyrsta vinnusmiðjan verður í safninu á Eyrarbakka föstudaginn 26. ágúst frá kl. 16.00–18.00. Aðstaða Tura ya Moya er gámur sem gegnir hlutverki vinnustofu og sýningarklefa. Gámurinn flakkar á milli landa og staða og er núna staðsetur inní garði Hússins á Eyrarbakka. Í för með Karen verða listamennirnir Udo Erdenreich og Mia Lindenhann en fjölmargir aðrir leggja verkefninu lið. Nánari upplýsingar má sjá á vefsíðu verkefnisins www.anersaaq.com og heimasíðum safnanna.

 

Byggðasafnið hefur hlotið styrki fyrir verkefnið frá Safnaráði, Uppbyggingasjóði Suðurlands og JÁVerk auk þess að fá ómetanlegan stuðning frá Eimskip.  Verkefnið á alþjóðavísu er styrkt m.a. af Kulturkontakt Nord og NAPA.


Af www.dfs.isSkráð af Menningar-Staður

23.08.2016 16:42

Vinir alþýðunnar að Stað á Eyrarbakka 23. ágúst 2016

 

 

 

 

Vinir alþýðunnar að Stað á Eyrarbakka 23. ágúst 2016


 

.

.

Skráð af Menningar-Staður

23.08.2016 16:28

Menningarsamband Hrútavina og Borgundarhólms

 

 
 

Fáni Borgundarhólms að Ránargrund á Eyrarbakka.
 

 

Menningarsamband Hrútavina og Borgundarhólms

 

Margþætt mannlífs- og menningarsamband Hrútavinafélagsins Örvars á Suðurlandi við dönsku eyjuna Borgundarhólm suður af Svíþjóð er mörgum kunn og sér í lagi Hrútavinum enda hefur þetta samband staðið í áratugi.

Í dag, 23. ágúst 2016, var flaggað fána Borgundarhólms ( Bornholm) þessu til staðfestingar á forsetasetri Hrútavinafélagsins að Ránargrund á Eyrarbakka enda margt í gangi í menningarsambandinu.


Skráð af Menningar-Staður

23.08.2016 16:12

Unnur Brá kjörin formaður Vestnorræna ráðsins

 

 

Unnur Brá Konráðsdóttir er þingmaður Suðurkjördæmis.

 

Unnur Brá kjörin formaður Vestnorræna ráðsins

 

Ársfundur Vestnorræna ráðsins kaus Unni Brá Konráðsdóttur, þingmann Sjálfstæðisflokksins og formann Íslandsdeildar Vestnorræna ráðsins, formann ráðsins á ársfundi þess í Qaqortoq á Grænlandi í gær.

 

Vestnorræna ráðið er samstarfsvettvangur Alþingis, Landsþings Grænlands og Lögþings Færeyja. Löndin þrjú skipa sex fulltrúa hvert í Vestnorræna ráðið. Unnur Brá tekur við embættinu af Lars-Emil Johansen, forseta grænlenska Landsþingsins.

Auk Unnar Brár skipa Íslandsdeild ráðsins Páll Jóhann Pálsson, varaformaður, Oddný G. Harðardóttir, Lilja Rafney Magnúsdóttir, Páll Valur Björnsson og Þorsteinn Sæmundsson. Formaður ráðsins er kjörinn til eins árs.

 

Í ræðu sinni til ráðsins lagði Unnur Brá áherslu á mikilvægi þess að Vestnorræna ráðið haldi áfram að vinna að nánara samstarfi vestnorrænu landanna um málefni norðurslóða, þar á meðal á vettvangi Hringborðs norðurslóða og með því að tryggja að umsókn ráðsins um áheyrnaraðild að Norðurskautsráðinu verði samþykkt. Hún fagnaði yfirlýsingu utanríkiráðherra landanna þriggja frá því í gær, 22. ágúst, um að kannaðir verði kostir þess að gera þríhliða fríverslunarsamning milli landanna. Yfirlýsing ráðherranna er í samræmi við ályktun Vestnorræna ráðsins frá árinu 2015 og sagði Unnur Brá það ánægjulegt að málið væri loksins komið í skýran farveg hjá stjórnvöldum landanna þriggja.


Af:  www.sunnlenska.is

 

 

Skráð af Menningar-Staður