Menningar-Bakki * Viðhalda og efla þjóðlega menningararfleið til sjávar og sveita*
-------- Alþýðuhúsið á Eyrarbakka - Vinir alþýðunnar - Á undan sinni framtíð --- "Stærra í hugum okkar en við sjálfir gerum okkur grein fyrir" ---

28.07.2021 06:24

Ragnheiður Þórarinsdóttir - Fædd 7. apríl 1956 - Dáin 18. júlí 2021 - Minning

 

 
 
    Ragnheiður Þórarinsdóttir.
 

 

Ragnheiður Þórarinsdóttir - Fædd 7. apríl 1956

 

- Dáin 18. júlí 2021 - Minning

 

 

Ragn­heiður Þór­ar­ins­dótt­ir fædd­ist í Reykja­vík 7. apríl 1956. Hún lést á Land­spít­al­an­um 18. júlí 2021.

 

For­eldr­ar henn­ar voru Mar­grét Sæ­munds­dótt­ir sauma­kona og Ólaf­ur H. Torfa­son vega­verk­stjóri. Systkini henn­ar sam­mæðra eru Krist­ín Þor­björg, f. 1959, d. 2016, Ólína Mar­grét, f. 1961, og Torfi Jó­hann, f. 1965. Ragn­heiður gift­ist 4. des­em­ber 1976 eft­ir­lif­andi eig­in­manni sín­um, Þór­arni Th. Ólafs­syni stýri­manni, f. 1954. Börn þeirra eru a) Ágústa Mar­grét, f. 1976. Henn­ar maður er Andrew Brydon og börn þeirra eru Iso­bel Sól­ey, f. 2010, og Óskar Thor, f. 2015. b) Krist­ín Theó­dóra, f. 1980, börn henn­ar eru Em­il­ía Ólöf, f. 2007, og Þór­ar­inn Smári, f. 2014, unnusti Krist­ín­ar er Eg­ill Harðar­son. c) Ólöf Hall­dóra, f. 1980, barn henn­ar er Ronja Krist­ín, f. 2009, sam­býl­ismaður Ólaf­ar er Ein­ar Storo.

 

Skóla­ganga Ragn­heiðar var í Álfta­mýr­ar­skóla og Ármúla­skóla og eft­ir gagn­fræðapróf lá leiðin á vinnu­markaðinn í ýmis störf.

 

Ragn­heiður og Þór­ar­inn hófu bú­skap á Eyr­ar­bakka í des­em­ber 1975 og bjuggu þar æ síðan. Eft­ir að börn­in komust á leik­skóla starfaði Ragn­heiður í fisk­vinnslu fyrstu 10 árin en síðan vann hún á Sól­völl­um, dval­ar­heim­ili aldraðra á Eyr­ar­bakka, og síðan um 10 ára skeið á hjúkr­un­ar­heim­il­inu Kumb­ara­vogi þar til starf­semi lauk.

Árið 2006 fór hún í sjúkra­liðanám og lauk því á tveim­ur árum og starfaði síðan sem slík.

Ragn­heiður starfaði tals­vert að fé­lags­mál­um. Gekk í slysa­varna­deild­ina Björg á Eyr­ar­bakka fljót­lega eft­ir að hún hóf bú­skap og síðan inn­an fárra ára í Kven­fé­lag Eyr­ar­bakka og starfaði þar alla tíð, var í stjórn í mörg ár og formaður þess nokk­ur ár. Hún vígðist inn í Odd­fellow-regl­una árið 2011 í Re­bekku­stúk­una nr. 9 Þóru á Sel­fossi. Hún var í hópi systra sem hyggj­ast stofna nýja stúku nú á haust­mánuðum.

Ragn­heiður veikt­ist skyndi­lega í lok apríl sl. Hún varð fljótt mjög veik og fékkst ekk­ert við ráðið. Hún lést sunnu­dag­inn 18. júlí á blóðmeina­deild Land­spít­al­ans.

 

Útför henn­ar fer fram frá Sel­foss­kirkju í dag, miðvikudaginn 28. júlí 2021, klukk­an 14.

Jarðsett verður í Eyr­ar­bakka­kirkju­g­arði.

 

Slóð á streymi má finna á:

www.mbl.is/?andlat/

 

Streymt verður frá at­höfn­inni á:

htt­ps://?sel­foss­kirkja.is/

 

_______________________________________________________________


MinningarorðOkk­ur set­ur hljóð. Nú hef­ur mynd­ast skarð í hóp­inn okk­ar góða. Ragn­heiður er far­in allt of fljótt. Eft­ir margra ára vináttu og gæðastund­ir standa eft­ir minn­ing­ar sem hvert og eitt okk­ar á í hug og hjarta. Minn­ing­ar um fundi og ferðir, af­mæli og fögnuði, helg­ar­ferðir og sam­veru.

 

Það var ekki komið að tóm­um kof­un­um þegar veisl­ur sem Ragn­heiður kom að voru ann­ars veg­ar, þar lék allt í hönd­um henn­ar. Ragn­heiður hafði sterk­ar skoðanir og lét þær óspart í ljós og stund­um þannig að ekki líkaði öll­um. Ragn­heiður var gjaf­mild og einnig fag­ur­keri og hafði næmt auga fyr­ir um­hverfi og list­um.

Þegar Ragn­heiður varð sex­tug hélt hún veg­lega af­mæl­is­veislu. Þar hyllt­um við hana með glensi og af­mæl­is­söng og setj­um hér eitt er­indi úr söngn­um en það lýs­ir henni vel.

 

Hún stund­um er sett­leg og stund­um er hvat­vís,

og enda­laust gef­ur hún líf­inu lit.

Hún kann sko að vera til, alltaf svo huggó.

Já, Ragn­heiður okk­ar hún er bara skvís.

Með ein­dæm­um gest­ris­in alltaf hún er.

Með kræs­ing­ar ljúf­ar á borðum hjá sér.

 

Elsku Þór­ar­inn vin­ur okk­ar, dæt­ur og fjöl­skyld­an öll, við vott­um ykk­ur inni­lega samúð. Blessuð sé minn­ing Ragn­heiðar um ókom­in ár.

 

Auður og Rún­ar, Guðbjört (Gúd­dý) og Jón Ómar, Haf­dís og Jó­hann­es (Jói), Hug­borg (Hugga) og Sig­ur­mund­ur (Diddi), Ingi­björg (Inga) og Páll (Palli), Ragn­heiður (Ragga) og Birg­ir (Biggi).

______________________________________________


Ég man þegar ég sá Ragn­heiði fyrst, þá var hún ný­flutt á Eyr­ar­bakka með hon­um Þór­arni Th. Ólafs­syni. Þau bjuggu fyrst á Tjörn á Eyr­ar­bakka, á meðan þau voru að byggja sér framtíðar­hús­næði. Ragn­heiður var glæsi­leg kona með rautt hár og kvik­ar hreyf­ing­ar. Hlát­ur henn­ar heyrðist vel þar sem hún var, hún var dug­leg og ósér­hlíf­in og sagði hisp­urs­laust það sem henni fannst.

 

Hún var nær­gæt­in við þá sem minna máttu sín og sýndi þeim hlýju. Hún var mik­il hús­móðir, heim­il­is­störf léku í hönd­um henn­ar og hún var mik­ill fag­ur­keri. Ragn­heiður byrjaði í Kven­fé­lagi Eyr­ar­bakka fljót­lega eft­ir að hún flutti á Bakk­ann og tók að sér mörg ábyrgðar­störf inn­an Kven­fé­lags­ins. Hún var formaður kaffi­nefnd­ar, var í stjórn Kven­fé­lags­ins og seinna formaður þess í nokk­ur ár. Hún átti sér áhuga­mál fyr­ir hönd Kven­fé­lags­ins fyr­ir utan hefðbund­in störf henn­ar inn­an þess; það var að Kven­fé­lag Eyr­ar­bakka ætti sér sinn eig­in fána. Þessu mark­miði sínu fyr­ir hönd Kven­fé­lags­ins náði hún og gætti þess vel að fán­inn væri hafður við merkisat­b­urði Kven­fé­lags­ins og einnig þegar kven­fé­lags­kona var til graf­ar bor­in.

 

Und­ir­rituð var með Ragn­heiði í einni af bas­ar­nefnd­um Kven­fé­lags­ins og kynnt­ist henni þar, jafn­framt því að þekkja hana sem sam­borg­ara.

 

Með þess­ari kveðju lang­ar mig, fyr­ir hönd Kven­fé­lags Eyr­ar­bakka, að þakka Ragn­heiði fyr­ir henn­ar fram­lag til Kven­fé­lags Eyr­ar­bakka og til sam­fé­lags­ins alls.

 

Krist­ín Ei­ríks­dótt­ir,

formaður Kven­fé­lags Eyr­ar­bakka.

 

_______________________________________


Morgunblaðið 28. júlí 2021 þar sem einnig eru fleiri minningargreinar.Skráð af Menningar-Bakki.


 

27.07.2021 19:53

Eldra fólk á Suðurlandi hefur stofnað aðgerðarhóp

 

 

 

 

Eldra fólk á Suðurlandi

 

hefur stofnað aðgerðarhóp

 

 

  • Eldra fólk vill hafa áhrif á eigið líf – líka á Suðurlandi!

 

  • Nýstofnaður aðgerðarhópur eldra fólks á Suðurlandi hefur sent
  • frá sér eftirfarandi grein:

 

Stjórnmálamenn hafa mikinn áhuga á kjörum eldra fólks -fyrir kosningar. Þeir vita að sextíu ára og eldri eru 75 þúsund og öll með atkvæðisrétt! Þess vegna er okkur eldri lofað gulli og grænum skógum fyrir kosningar -í von um atkvæði. Áhugi stjórnmálamannanna dvínar strax að kosningum loknum.

 

Á landsfundi Landsambands eldri borgara (LEB) í maí s.l. voru samþykkt „Áhersluatriði eldra fólks í komandi alþingiskosningum“ Stefna í fimm liðum sem fjallar um kjaramál, starfslok, heilbrigðisþjónustu, búsetuúrræði og einföldun laga um málefni eldra fólks (Nánar á www.leb.is. Nú er verkefnið á næstunni að kynna áhersluatriðin fyrir væntanlegum alþingismönnum.

 

Á Suðurlandi eru starfandi 13 félög eldri borgara með um 2.200 félaga. (55 félög alls á landinu með um 30.000 félagsmenn). Fulltrúar frá meirihluta félaganna hafa hist á tveim fundum til að ræða samstarf um aðgerðir í aðdraganda alþingiskosninga.

 

 

Einkum voru tvær leiðir ræddar:

 

Að bjóða frambjóðendum í Suðurkjördæmi á fund með félagsmönnum í félögum eldri borgara á Suðurlandi. Þar væri væntanlegum þingmönnum gerð grein fyrir áhersluatriðunum og þeim jafnframt gefinn kostur á að gera grein fyrir sínum áherslum í málefnum eldra fólks.

 

Hin leiðin var að eldra fólk mæti á félags- og framboðsfundi flokkanna og komi áhersluatriðunum á framfæri við frambjóðendur.

 

Ákveðið var að fara þessa seinni leið og fimm manna aðgerðahópi falið að annast undirbúning og skipulag aðgerða.

 

Hópinn skipa:


Þór Ísfeld Vilhjálmsson, Vestmannaeyjum, sími 897 9615,

Þorgrímur Óli Sigurðsson, Selfossi, sími 698 3100,

Margrét Guðmundsdóttir, Mýrdal sími 860 2810,

Elín Siggeirsdóttir, Biskupstungum, sími 891 8531 

og Jón Ragnar Björnsson, Rangárvallasýslu, formaður, sími 6990055.

 

Þeir sem vilja taka þátt í þessum aðgerðum eru beðnir að hafa samband við eitthvert okkar í hópnum. Við verðum með áhersluatriðin fimm á blaði sem hægt er að afhenda frambjóðendum og öðrum, sem áhuga hafa. Einnig blað með nánari útlistun á áhersluatriðunum fyrir þá sem kynna áhersluatriðin.

 

Reynslan sýnir að stjórnvöld eru treg til að liðsinna okkur. Þau hafa líka kvartað yfir því að erfitt sé að vita hvað við viljum. Kannski höfum við ekki verið nægilega samstíga í kröfugerðum en nú hefur myndast skýr og afgerandi samstaða meðal félagsmanna um allt land. LEB hefur kynnt stjórnmálaflokkunum áhersluatriðin og með því að hafa nú skipulega samband við „grasrótina“ á stjórnmálafundum, má vænta þess að dropinn holi steininn og réttlætið sigri.

 

 

Skráð af Menningar-Bakki.

 

 

27.07.2021 08:01

Merkir Íslendingar - Sigríður J. Ragnar

 

 

 

Sigríður J. Ragnar (1922 - 1993)

 

 

Merkir Íslendingar – Sigríður J. Ragnar

 

 

Sigríður J. Ragnar var fædd á Gautlöndum í Mývatnssveit þann  26. júlí 1922.

Dóttir hjónanna Jóns Gauta Péturssonar bónda þar og konu hans, Önnu Jakobsdóttur frá Narfastöðum.

Sigríður átti þrjú systkini:  Ásgerður kennari;  Böðvar, bóndi á Gautlöndum; Ragnhildur skrifstofumaður.

 

Sigríður giftist 1945 Ragnari H. Ragnar, f. 28.9.1898, d. 24.12.1987. Foreldrar hans voru Hjálmar Jónsson frá Skútustöðum við Mývatn, bóndi á Ljótsstöðum í Laxárdal, og kona hans, Áslaug Torfadóttir frá Ólafsdal.

 

Börn Sigríðar og Ragnars:

Anna Áslaug, f. 7.11.1946, píanóleikari;

Sigríður, f. 31.10.1949, f.v skólastjóri Tónlistarskólans á Ísafirði;

Hjálmar Helgi, f. 23.9.1952, tónskáld.

 

Eftir gagnfræðapróf frá Menntaskólanum á Akureyri hóf hún nám við Kennaraskólann í Reykjavík haustið 1944. Þá um veturinn kynntist hún Ragnari Hjálmarssyni Ragnar sem hér var staddur sem hermaður í Bandaríkjaher. Þau giftust sumarið 1945 og fluttu til Norður-Dakóta í Bandaríkjunum þar sem þau störfuðu við tónmennt til ársins 1948. Þá bauðst Ragnari staða við nýstofnaðan Tónlistarskóla Ísafjarðar. Þau störfuðu við skólann til dauðadags og sköpuðu nánast úr engu einn öflugasta og þekktasta tónlistarskóla landsins.

 

Auk þess að vera framarlega í menningarmálum staðarins fengu þau fjölda listamanna til að heimsækja Ísafjörð og var heimili þeirra, sem Sigríður stjórnaði af einstökum dugnaði, allt í senn; skóli fyrir á annað hundrað börn, miðstöð menningarmála og heimili listamanna sem bæinn heimsóttu.

 

Sigríður var helsti frumkvöðull að stofnun vestfirskra náttúruverndarsamtaka og í stjórn þeirra.

 

Hún vann einnig ötullega að stofnun Kvennalistans á Ísafirði. Þá sat hún í Menningarráði Ísafjarðar í fjölda ára auk annarra trúnaðarstarfa.

 

Þeim hjónum var sýndur margháttaður og verðskuldaður sómi fyrir störf þeirra að menningar- og félagsmálum. Ragnar var kjörinn heiðursborgari Ísafjarðarkaupstaðar og var heiðursfélagi Tónlistarkennarafélags Íslands. Hann var sæmdur riddarakrossi og stórriddarakrossi hinnar íslensku fálkaorðu og Sigríður J. Ragnar hlaut riddarakross fálkaorðunnar.Sigríður J. Ragnar lést þann 11. mars 1993.

 


Hjónin Sigríður J. Ragnar og Ragnar H. Ragnar.
 


Skráð af Menningar-Bakki.

 

26.07.2021 18:46

Nýir rekstraraðilar teknir við versluninni Bakkanum á Eyrarbakka

 

 

Nú þarf að drífa sig í að smakka pylsurnar hjá Söndru og Júlla. Mynd: Elín Birna.

 

Nýir rekstraraðilar teknir við

 

versluninni Bakkanum á Eyrarbakka

 

Eggert Valur Guðmundsson og Eygló Har hafa selt rekstur verslunarinnar Bakkans til hjónanna Söndru Sævarsdóttur og Júlíusar Emilssonar á Eyrarbakka. Í samtali við Eggert Val kemur fram að hann hafi haft í nógu að snúast undanfarin ár og nú sé komið að því að hægja aðeins ferðina. „Við höfum rekið þetta í ein átta ár samhliða pólitíkinni og starfi mínu fyrir Íslandspóst. Við höfum verið að velta þessu fyrir okkur í dágóðan tíma. Þá fannst mér mikilvægt að finna rétta aðilann til þess að taka við keflinu.“ Það er á Eggerti að heyra að honum þyki mikilvægt að verslunarstarfsemi haldi áfram niðri á bakkanum. „Ég er þess fullviss að rekstur dagvöruverslunar er björt á Eyrarbakka og hún er komin í góðar hendur til framtíðar. Það er nauðsynlegt að hér sé rekin verslun með því helsta. Eins og allir vita eiga minni byggðakjarnar undir högg að sækja með skerðingu á þjónustu. Það er mikið í húfi og þarf að standa vörð um það. Ég hef fulla trú á því að Sandra og Júlíus komi til með að gera þetta með sóma og tryggja verslun hér til framtíðar.“

 

Viðskiptavinirnir og spjallið standa upp úr

 

Margs er að minnast frá löngum tíma, en Eggert segir að helst séu það viðskiptavinir og góð kynni við fólk sem kemur í verslunina. „Það er auðvitað fólkið sem stendur upp úr á þessum tíma. Allir viðskiptavinirnir. Það leggja margir leið sína hingað til að spjalla og það hefur verið gefandi að fá að njóta þess,“ segir Eggert.

 

Engar dramatískar breytingar framundan

 

Í samtali við Söndru kom fram að þeim hjónum hlakki til að þjónusta Eyrbekkinga áfram eins og verið hefur. „Við erum bara spennt fyrir þessu verkefni. Það eru engar dramatískar breytingar fram undan, en pylsupotturinn er kominn af stað svo hér er hægt að stoppa og fá sér pylsu og svo stendur til að lengja aðeins opnunartímann,“ segir Sandra brosandi. Aðspurð um frekari breytingar segir Sandra að það komi til með að gerast hægt og rólega. Þá eru dæturnar spenntar en þær munu hjálpa til við að standa vaktina þegar þarf.

 

 

 

Sandra búin að koma sér fyrir innan við búðarborðið. Mynd: Elín Birna.


Dagskráin - fréttablað á Suðurlandi.

 


Skráð af Menningar-Bakki

 

26.07.2021 08:23

Merkir Íslendingar - Trausti Friðbertsson

 


Trausti Friðbertsson (1917 - 2002).
 

 

 

Merkir Íslendingar - Trausti Friðbertsson

 

 

Trausti Friðbertsson fæddist á Suðureyri við Súgandafjörð þann 26. júlí 1917.

 

Foreldrar Trausta: Friðbert Friðbertsson, f. 12.8.1888, d. 31.7.1938, skólastjóri á Suðureyri, og Pálína Ólavía Sveinbjörnsdóttir, f. 16.12. 1879, d. 1960, húsmóðir.

Systkini Trausta: Ásdís, f. 24.5.. 1919 og Hörður, f. 7.3. 1922.

 

Trausti kvæntist 13. júní 1942 Ragnheiði Láru Sigurðardóttur, f. í Reykjavík 13. júlí 1921, dóttir hjónanna Lovísu Árnadóttur og Sigurðar E. Ingimundarsonar. Ragnheiður lést þann 29. desember 1984.

 

Börn Trausta og Ragnheiðar:

1) drengur er fæddist andvana árið 1942;

2) Gylfi, f. 19. nóv. 1943,

3) Sunneva, f. 2. feb. 1947,

4) Ragnar Magnús, f. 25. des. 1948,

5) Friðbert, f. 4. okt. 1954.

 

Trausti vann á uppvaxtarárum sínum þau störf er til féllu í þeirra tíma íslensku sjávarþorpi, bæði til sjós og lands. Hann lauk prófi frá Samvinnuskólanum árið 1940 og hóf fljótlega eftir það að starfa við verslun og annan rekstur sem varð síðan hans lífsstarf. Fyrstu búskaparár sín bjuggu þau Ragnheiður á Suðureyri en fluttu síðan til Ísafjarðar. Hann hóf störf við verslun J.S. Edwald og Shell-umboðið á Ísafirði árið 1945 og starfaði þar til ársins 1948 er hann var ráðinn kaupfélagsstjóri við Kaupfélag Önfirðinga á Flateyri.

 

Trausti var kaupfélagsstjóri á Flateyri í nær 28 ár eða þar til hann lét af störfum vorið 1976. Ásamt með starfi kaupfélagsstjóra gegndi Trausti starfi framkvæmdastjóra Hjallaness hf., sem var útgerðarfélag að stórum hluta í eigu Kaupfélags Önfirðinga, frá og með árinu 1960. Þá féll einnig undir hans stjórn rekstur fiskverkunar, sláturhúss o.fl. sem þá var á vegum Kaupfélags Önfirðinga.

 

Trausti starfaði í Lionsklúbbi Önundarfjarðar og einnig nokkuð að slysavarnamálum.  

 

Árið 1976 fluttust þau Ragnheiður búferlum til Reykjavíkur þar sem þau bjuggu á Kleppsvegi 16. Eftir flutninginn suður tók Trausti við starfi skrifstofustjóra hjá Gúmmívinnustofunni hf. þar sem hann starfaði allt til vorsins 1995 er hann lét af störfum tæplega 78 ára gamall.

 

Á Flateyri tók hann þátt í félagsmálum og sinnti nefndastörfum á vegum sveitarfélagsins. Hann sinnti einnig félagsstörfum innan Sambands ísl. samvinnufélaga og vann að ýmsu er laut að framförum og úrbótum innan samtaka fiskframleiðenda og útvegsmanna á Vestfjörðum.

 

Árið 1990 festi hann kaup á íbúð í nýbyggingu fyrir eldri borgara í Hraunbæ 103 þar sem hann bjó síðan. Trausti sat í stjórn húsfélagsins í Hraunbæ 103 og annaðist fjárreiður þess til hinsta dags.

 

Trausti Friðbertsson lést á Landspítalanum þann 3. apríl 2002.

 

.

.

.

.


Verslunarhús Kaupéfélags Önfirðinga sem tekið var í notkun 1956.
 

.

 

Kaupfélagsstjóratal Kaupfélags Önfirðinga á starfstíma félagsins 1918 - 1989.
 

Trausti Friðbertsson var farsæll kaupfélagsstjóri í 28 ár - frá 1948 - 1976.
 Skráð af Menningar-Bakki.


 

 
 
 
 

25.07.2021 07:52

Merkir Íslendingar - Steindór Hjörleifsson

 

 

Steindór Hjörleifsson (1926 - 2012).

 

 

Merkir Íslendingar - Steindór Hjörleifsson

 

 

Steindór Gísli Hjörleifsson fæddist í Hnífsdal þann 22. júlí 1926. Foreldrar hans voru Hjörleifur Kristinn Steindórsson, frá Leiru í Grunnavíkurhreppi, f. 29. mars 1895, d. 18. febrúar 1957, og Elísabet Þórarinsdóttir, f. á Blámýrum 6. júlí 1902, d. 8. október 1953.

Systkini Steindórs eru; Þorgeir Adolf, f. 14. október 1924, Jens Guðmundur, f. 13. nóvember 1927, Þórarinn Kristinn, f. 16. ágúst 1930, d. 7. janúar 2003, og Elsa Hjördís, f. 6. september 1937.

 

Þann 17. nóvember 1951 kvæntist Steindór Margréti Ólafsdóttur leikkonu. Margrét fæddist í Vestmannaeyjum 12. júní 1931. Hún lést 24. mars 2011. Foreldrar Margrétar voru Ólafur Ragnar Sveinsson og Kristjana Ragnheiður Kristjánsdóttir.

Dóttir Margrétar og Steindórs er Ragnheiður Kristín Steindórsdóttir leikkona, f. 26. júní 1952 í Vestmannaeyjum. Sambýlismaður hennar var Jón Þórisson leikmyndateiknari, f. 19. október 1948, d. 1. janúar 2016 og eiga þau saman börnin Steindór Grétar, f. 1. október 1985, og Margréti Dórotheu, f. 9. maí 1990.

 

Að loknu gagnfræðaprófi 1942 vann Steindór ýmis störf til sjós og lands, m.a. í Landsbanka Íslands 1946-61 og Seðlabanka Íslands 1961-65. Steindór lauk leiklistarnámi frá Leiklistarskóla Lárusar Pálssonar 1949 og nam við leiklistardeild danska útvarpsins 1956-57. Hann var fyrsti dagskrárstjóri lista- og skemmtideildar Sjónvarpsins 1965-68. 

 

Hann var leikari og leikstjóri hjá Leikfélagi Reykjavíkur (LR) frá 1947, sat í stjórn þess og var formaður til fjölda ára. Steindór lék hjá Þjóðleikhúsinu 1950-52 og var fastráðinn hjá LR frá 1968 og til starfsloka 1996. Hann kenndi einnig við Leiklistarskóla LR og lék hjá Ríkisútvarpinu (hljóðvarpi og sjónvarpi) og í kvikmyndum.

 

varpi) og í kvikmyndum. Fyrsta hlutverk hans á leiksviði var klukkusveinninn í Skálholti hjá LR 1947. Hann tók þátt í öllum þremur opnunarsýningum Þjóðleikhússins 1950 og lék síðan hátt á annað hundrað hlutverka á leiksviði, í kvikmyndum, sjónvarpi og útvarpi. Meðal þeirra eru Toby í Miðlinum, Herlöv í Ævintýri á gönguför, Candy í Músum og mönnum, Leifur Róberts í Delirium Búbónis, Jonni Pope í Kviksandi, Stígur í Hart í bak, Trampe greifi í Þið munið hann Jörund, organistinn í Atómstöðinni, Kristján í Dómínó, Hjálmar Ekdal í Villiöndinni og afi Joad í Þrúgum reiðinnar.

 

Af kvikmyndum má nefna Morðsögu, 79 af stöðinni, Atómstöðina, Stellu í orlofi og Skýjahöllina og í sjónvarpi Út í óvissuna (Running Blind), Gullna hliðið og Flugþrá. Meðal leikstjórnarverkefna eru Hitabylgja, Volpone, Equus, Refirnir og Geggjaða konan í París.

 

Steindóri hlotnuðust margar viðurkenningar. Hann fékk Silfurlampann og Skálholtssveininn leikárið 1961-62, varð heiðursfélagi LR 1987, fékk gullmerki Félags íslenskra leikara 1991, var sæmdur riddarakrossi Hinnar íslensku fálkaorðu 1993, þau hjónin voru útnefnd heiðurslistamenn Garðabæjar 1999 og Steindór var kjörinn fyrsti heiðursfélagi Halaleikhópsins. Síðasta hlutverk hans hjá Leikfélagi Reykjavíkur var í  Horft frá brúnni 1998-99.

 

Steindór Hjörleifsson lést þann 13. september 2012.

 

 Steindór Hjörleifsson og Margrét Ólafsdóttir.
 Skráð af Menningar-Bakki

 

25.07.2021 07:33

Alþýðuhúsið á Eyrarbakka

 

 

 

 

 

 --- Alþýðuhúsið á Eyrarbakka ---


 

                                 að morgni 25. júlí 2016

 

 

 

.

.
Skráð af Menningar-Bakki.

 

 

24.07.2021 07:52

Guðrún Steinþórsdóttir - Fædd 1. mars 1938 - Dáin 14. júlí 2021 - Minning

 


Guðrún Steinþórsdóttir (1938 - 2021).

 

 

Guðrún Steinþórsdóttir - Fædd 1. mars 1938 -

 

 

Dáin 14. júlí 2021 - Minning

 

 

Guðrún Sigríður Steinþórsdóttir fædd­ist á Brekku í Þing­eyr­ar­hreppi í Dýraf­irði þann 1. mars 1938. Hún lést á Tjörn, dval­ar­heim­ili aldraðra á Þing­eyri, 14. júlí 2021.

 

Guðrún var dótt­ir hjón­anna Steinþórs Árna­son­ar frá Brekku, bónda og sjó­manns, f. 22. ág­úst 1902, en hann féll í skotárás á línu­veiðarann Fróða 10. mars 1941, og Ragn­heiðar Stef­áns­dótt­ur hús­freyju, f. 27. októ­ber 1911, d. 28. nóv­em­ber 1985. Systkini Guðrún­ar eru Steinþór Sverr­ir, vél­stjóri á Ísaf­irði, sem lést af slys­för­um 16. októ­ber 2008, f. 9. júlí 1939, Gunn­ar Steinþór, raf­virkja­meist­ari á Ísaf­irði, nú bú­sett­ur í Mos­fells­bæ, f. 25. ág­úst 1941, og Sig­ríður Krist­ín Lýðsdótt­ir, banka­starfsmaður í Reykja­vík, f. 28. nóv­em­ber 1951.

 

Guðrún gift­ist 28. júní 1964 Hall­grími Sveins­syni, f. 28. júní 1940, d. 16. fe­brú­ar 2020, fyrr­ver­andi skóla­stjóra á Þing­eyri, staðar­hald­ara á Hrafns­eyri og bóka­út­gef­anda Vest­firska for­lags­ins. For­eldr­ar hans voru Hanna Krist­ín Guðlaugs­dótt­ir hús­freyja, f. 25. sept­em­ber 1911 á Snældu­beins­stöðum í Reyk­holts­dal, Borg­ar­f­irði, d. 1997, og Sveinn Jóns­son húsa­smiður, f. 24. apríl 1885 frá Sauðtúni í Fljóts­hlíð, d. 1957. Guðrún og Hall­grím­ur voru barn­laus.

 

Guðrún út­skrifaðist úr Hús­mæðraskóla Reykja­vík­ur 1957 og starfaði sem matráðskona m.a. á for­seta­setr­inu á Bessa­stöðum og Héraðsskól­an­um á Núpi.

 

Guðrún og Hall­grím­ur voru bænd­ur og staðar­hald­ar­ar á Hrafns­eyri við Arn­ar­fjörð, fæðing­arstað Jóns Sig­urðsson­ar for­seta, í rúm 40 ár frá 1964 til 2005, og sáu um vörslu og um­hirðu staðar­ins fyr­ir hönd Hrafns­eyr­ar­nefnd­ar. Guðrún var í sókn­ar­nefnd Hrafns­eyr­ar­kirkju. Einnig var hún með fjár­bú­skap á Brekku í Dýraf­irði í mörg ár eft­ir bú­skap­ar­lok á Hrafns­eyri.

 

Útför Guðrún­ar verður gerð frá Þing­eyr­ar­kirkju í dag, 24. júlí 2021, og hefst at­höfn­in klukk­an 14.


_____________________________________________________________________________________________________


 

Minningargreinar í Morgunblaðinu 24. júlí 2021

 

 

Elsku Gulla mín,

 

Minn­ing­arn­ar eru svo ótalmarg­ar. Öll árin á Hrafns­eyri og svo á Brekku, vor­in í sauðburðinum og æðar­varp­inu, heyskap og smala­mennsku, þar sem við deild­um bæði sorg og gleði.

 

Fyr­ir rúmu ári hrundi til­vera þín er þú misst­ir klett­inn í lífi þínu er Hall­grím­ur okk­ar lést mjög skyndi­lega og reynd­ist það þér of­raun en þú varst þá fyr­ir orðin heilsu­veil.

 

Ég er þakk­lát fyr­ir að hafa fengið tæki­færi til að vera með þér og tekið þátt í umönn­un þinni síðastliðna tvo mánuði á hjúkr­un­ar­heim­il­inu Tjörn á Þing­eyri en þar eydd­ir þú síðasta ævikvöld­inu.

 

Þú ferð var­lega yfir vaðið á leiðinni heim og guð fylgi þér Gunna mín, sagðir þú gjarn­an er ég kvaddi þig við vaktlok.

 

Ég bið guð að fylgja þér hjartað mitt og þakka þér fyr­ir allt sem þú hef­ur kennt mér og deilt með mér og fjöl­skyldu minni gegn­um lífið.

 

Þín nafna

 

Guðrún Steinþórs­dótt­ir (yngri).

 

---------------------------------------------

 

Þegar komið er norður yfir Hrafns­eyr­ar­heiði ligg­ur þjóðleiðin ofan við túnið á hinu forna býli Brekku í Brekku­dal í Þing­eyr­ar­hreppi. Þar bjuggu búi á önd­verðri öld­inni sem leið hjón­in Árni Guðmunds­son, stýri­maður frá Ánanaust­um í Reykja­vík, og Guðrún Mar­grét Júlía Steinþórs­dótt­ir, klæðskeri frá Brekku. Þarna var tví­býlt og bjuggu á móti þeim Árna og Guðrúnu hjón­in Soffía Ásgeirs­dótt­ir frá Bol­ung­ar­vík og Andrés Guðmunds­son frá Brekku og voru þau Guðrún og Andrés hálf­systkina­börn.

 

Börn Árna og Guðrún­ar voru fimm: Guðmunda Ágústa, hús­freyja á Þing­eyri, faðir henn­ar var Jón Jó­hanns­son sjó­maður þar; Steinþór, bóndi á Brekku, faðir Guðrún­ar, sem hér er minnst; Gunn­ar skip­stjóri á Brekku; Gyða Ólafía, kjóla­meist­ari og ann­ar eig­andi Par­ís­ar­tísk­unn­ar í Reykja­vík; og yngst var Áslaug hús­freyja í Þor­bergs­húsi á Þing­eyri.

 

11. mars 1941 varð sá hörm­ung­arat­b­urður að þýsk­ur kaf­bát­ur réðst á línu­veiðarann Fróða ÍS 454 frá Þing­eyri um 200 sjó­míl­ur suðaust­ur af Vest­manna­eyj­um. Í skot­hríðinni sem stóð með hlé­um í fulla klukku­stund féllu fimm skip­verj­ar: Steinþór, faðir Guðrún­ar, Gunn­ar skip­stjóri, föður­bróðir henn­ar, Guðmund­ur móður­bróðir henn­ar frá Hól­um í Þing­eyr­ar­hreppi, Gísli, bróðir Andrés­ar á Brekku og Sig­urður V. Jör­unds­son stýri­maður frá Hrís­ey.

 

Dótt­ur­dótt­ir Árna og Guðrún­ar, þá á fjórða ár­inu, minn­ist þess er síra Sig­urður Z. Gísla­son á Þing­eyri gekk heim túnið á Brekku að flytja fólk­inu þessa sorg­ar­fregn.

 

Og árin líða. Guðrún gekk að eiga góðan dreng, Hall­grím, kenn­ara og skóla­stjóra á Þing­eyri, Sveins­son, bónda á Hrafns­eyri og Brekku. Þau hjón voru staðar­hald­ar­ar á Hrafns­eyri í rúm 40 ár og buðu æv­in­lega upp á mynd­ar­legt kirkjukaffi eft­ir embætti hjá hinum ógleym­an­lega síra Stefáni sæla Eggerts­syni, sókn­ar­presti á Þing­eyri. Mat prest­ur Guðrúnu enda mik­ils, en þótti að vísu sá ljóður á ráði henn­ar, að hún skyldi ein­lægt þurfa að bar­dúsa í kokk­hús­inu rétt á meðan hann væri að syngja mess­una.

 

Þótt Guðrún væri viðbrigðagest­ris­in og ynni góðan beina hverj­um sem að garði bar, hafði enda starfað fyr­ir inn­an stokk hjá Ásgeiri for­seta á Bessa­stöðum, frænda sín­um af Vigurætt, hélt hún samt þeim sið fyrri hús­freyja í land­inu að setj­ast ekki sjálf til borðs, held­ur stóð hún og horfði þögul og al­var­leg í bragði á það sem fram fór.

 

Svo seg­ir í Land­náma­bók, að Gré­löðu hinni írsku, konu Ánar rauðfelds, þess er bú gerði á Eyri við Arn­ar­fjörð, hafi þótt þar hun­angsilm­ur úr grasi. Und­ir það mun Guðrún Steinþórs­dótt­ir hafa tekið heils hug­ar. Hún var fædd­ur bóndi, sem kallað er; þekkti hverja kind og hafði þessa var­færnu hönd sem gríp­ur mjúk­lega um hornið á ánni neðst svo að brotni ekki; natin vöku­kona æðar­varps; verksígjörn með af­brigðum að hverju sem gekk og stór­gjöf­ul.

 

Í mik­illi þökk og bæn er Guðrún Steinþórs­dótt­ir kært kvödd. Guð gefi frið yfir legstað henn­ar og bless­un yfir end­ur­fundi henn­ar við þau, sem á und­an henni eru far­in af þess­um heimi. Guð blessi minn­ingu henn­ar og ást­vin­ina alla.

 

Gunn­ar Björns­son,

pastor emer­it­us.

____________________________________________________________________________Minningarorð Dýrfirðingsins Bjarna Guðmundssonar, 

 

Hvanneyri - á Facebooksíðu hans í dag.


 

.
.

.


Hrafnseyri við Arrnarfjörð.

.

Skráð af Menningar-Bakki.
 

23.07.2021 07:22

Alþýðuhúsið á Eyrarbakka

 

 

 

 

 --- Alþýðuhúsið á Eyrarbakka ---


 

              að morgni 23. júlí 2014

 

 

.

.

Skráð af Menningar-Bakki.

 

22.07.2021 16:30

Merkir Íslendingar - Guðni Jónsson

 


Guðni Jónsson (1901 - 1974).
 

 

Merkir Íslendingar - Guðni Jónsson

 

Guðni Jónsson fæddist 22. júlí 1901 á Gamla-Hrauni á Eyrarbakka, einn 17 barna Jóns Guðmundssonar, f. 17.9. 1856, d. 8.9. 1941 í Vestmannaeyjum, bónda og formanns þar, og síðari konu hans, Ingibjargar Gíslínu Jónsdóttur frá Miðhúsum í Sandvíkurhr., Árn., f. 1.9. 1867, d. 2.4. 1937 í Vestmannaeyjum.
 

Faðir hans veiktist og fór Guðni tveggja vikna gamall með móður sinni að Leirubakka í Landsveit. Foreldrum hans tókst að setja saman bú að nýju, en Guðni dvaldi áfram á Leirubakka og ólst þar upp.
 

Guðni varð stúdent frá MR 1924 og mag. art. í íslenskum fræðum frá Háskóla Íslands 1930. Hann var um tíma við nám í Kaupmannahöfn 1928 og aftur 1937.

Hann var kennari við Gagnfræðaskóla Reykvíkinga 1928-1945 og skólastjóri við sama skóla 1945-1957. Prófessor í sögu Íslands við Háskóla Íslands var hann 1958-1967, þar til hann lét af störfum vegna veikinda. Hann var forseti heimspekideildar HÍ 1959-1961. Hann varð doktor frá Háskóla Íslands 1953, en doktorsritgerð hans, Bólstaðir og bændur í Stokkseyrarhreppi, varð brautryðjandaverk í íslenskri staðháttasögu.

 

Guðni tók mikinn þátt í félagsstörfum, var forseti Sögufélagsins 1960-65, formaður Ættfræðifélagsins 1946-67 og sat í stjórn Hins ísl. þjóðvinafélags 1943-56. Hann var höfundur fjölmargra sagnfræðirita og stofnaði til stórútgáfu íslenskra fornrita 1946 og sá hann sjálfur um útgáfu 32 binda af þeim. Meðal ættfræðirita hans er Bergsætt.
 

Fyrri kona Guðna var Jónína Pálsdóttir, f. 4.4. 1906, d. 2.10. 1936, húsfreyja í Reykjavík.

Börn þeirra:

Gerður, Jón, Bjarni, Þóra og Margrét.

 

Seinni kona hans var Sigríður Hjördís Einarsdóttir, f. 28.8. 1910, d. 18.7. 1979, húsfreyja í Reykjavík.

Börn þeirra:

Einar, Bergur, Jónína Margrét og Elín.

 

Tveir sona Guðna, Jón og Bjarni, urðu einnig prófessorar við Háskóla Íslands.
 

 

Guðni Jónsson lést  þann 4. mars 1974.

 


Skráð af menningar-Bakki.