Menningar-Bakki * Viðhalda og efla þjóðlega menningararfleið til sjávar og sveita*
-------- Alþýðuhúsið á Eyrarbakka - Vinir alþýðunnar - Á undan sinni framtíð --- "Stærra í hugum okkar en við sjálfir gerum okkur grein fyrir" ---

07.08.2019 07:32

7. ágúst 2019 - Skrúður 110 ára

 

 

Skrúður í Dýrafirði.

 

 

7. ágúst 2019 - Skrúður 110 ára

 

 

 

1909 

 

 

Matjurta- og skrautgarðurinn á Núpi við Dýrafjörð var formlega stofnaður og honum gefið nafnið Skrúður. Upphafsmaðurinn, séra Sigtryggur Guðlaugsson á Núpi, valdi þennan dag vegna þess að þá voru 150 ár frá því að Björn Halldórsson í Sauðlauksdal setti niður kartöflur hér á landi, fyrstur Íslendinga.

____________________________________________________________________
 

Séra Sigtryggur Guðlaugsson prófastur að Núpi réðst í gerð matjurta- og skrúðgarðsins í tengslum við ungmennaskólann að Núpi. Garðinn átti að nýta í kennslu í jurtafræði og garðrækt, jafnframt því að venja nemendur á neyslu garðávaxta og sýna hvaða jurtir geti þrifist í íslenskum jarðvegi. í Skrúði hefur verið reistur minnisvarði um þau hjónin séra Sigtrygg og Hjaltlínu Guðjónsdóttur sem voru langt á undan sinni samtíð.


Í meira en 70 ár var garðinum vel við haldið en upp úr 1980 var honum lítið sinnt og hnignaði honum þá mjög. Árið 1992 var síðan stofnuð nefnd sem átti að stuðla að viðreisn Skrúðs og tryggja framtíð hans sem minnismerki um starf brautryðjenda í garðyrkju á Íslandi. Að loknum miklum endurbótum var Skrúður vígður á ný árið 1996.
 

Skrúður nær yfir 2500 fermetra svæði. Þar eru hundruð trjáplantna og jurta, en flóran hefur þó nokkuð breyst frá dögum séra Sigtryggs. Matjurtir hafa vikið fyrir fjölærum blómjurtum og runnum.

 

 

.

 Hjónin séra Sigtryggur Guðlaugsson og Hjaltlína Guðjónsdóttir.

 

 

Skráð af Menningar-Bakki.

06.08.2019 22:08

Félagsheimilið er að mörgu leyti hjartað í þorpinu

 

 

Félagsheimilið Staður á Eyrarbakka.

 

 

Félagsheimilið

 

er að mörgu leyti hjartað í þorpinu

 

 

Margir þekkja gildi þess að hafa gott félagsheimili í nágrenninu en Félagsheimilið Staður á Eyrarbakka skipar stóran sess í þorpinu við ströndina. Húsið sjálft á sér drjúga sögu sem bíður betri tíma. Þau Elín Birna Bjarnfinnsdóttir og Ingólfur Hjálmarsson hafa tekið við umsjá hússins úr hendi Siggeirs Ingólfssonar, sem séð hefur um staðinn fyrir Sveitarfélagið Árborg undanfarin ár. Dagskráin leit við í snarpheitt kaffi og spjall við þau Ingólf og Elínu um húsið, starfsemina og staðinn.

 

Ákváðu að snúa bökum saman


„Þegar það kom upp að Siggeir ákvað að láta af starfinu hafði ég áhyggjur af því að hluti af starfinu myndi deyja út. Hér koma til dæmis nokkrir karlar úr þorpinu í morgunkaffi til að spjalla og skrafa. Það hugnaðist mér ekki og þá fór ég að láta það hvissast út að ég hefði áhuga á því að taka við keflinu. Það kom þá upp úr dúrnum að Elín hafði líka hug til þess sama. Hún kom svo með þá hugmynd að sækja um þetta saman. Mér leist strax vel á það. Við ákváðum því að fara í samstarf í stað þess að slást um þetta og það er heillaspor finnst mér,“ segir Ingólfur kíminn.

 

Hefur heilmikið gildi fyrir samfélagið


Ýmis starfsemi er í húsnæðinu en krakkar úr Barnaskólanum á Eyrarbakka fara m.a. í íþróttir í íþróttasalnum. Þá eru haldnar veislur, þorrablót, 17. júní skemmtanir og svo mætti lengi telja. „Þetta hús kemur við sögu hjá flestum sem búa í þorpinu á hvaða aldri sem þeir eru. Hér eru eldri borgarar með boccia sem dæmi og þá hafa verið haldin böll hér langt fram á nótt. Svo kemur yngsta kynslóðin í íþróttir hér á veturna. Þetta er samkomuhúsið á staðnum og er að mörgu leyti hjartað í þorpinu,“ segja þau aðspurð um mikilvægi þess að hafa hús sem þetta í samfélaginu.

 

Margar hugmyndir og góður grunnur


Aðspurð um hvort áherslu breytingar á rekstrinum séu framundan segir Ingólfur rétt að fara varlega í allar slíkar yfirlýsingar en ýmsar hugmyndir séu þó uppi. Það er að heyra á þeim Elínu og Ingólfi að væntingar til aukinna umsvifa hússins, samfélaginu til góða, séu framarlega á listanum. „Eins og við komum inn á áður koma hérna karlar sem hittast til skrafs og ráðgerða alla morgna. Það er gulls ígildi að hafa svona samastað fyrir þorpið. Ef hægt væri að útvíkka þetta og bjóða ferðamönnum upp á slíka þjónustu hér er líklegt að það skili sér til samfélagsins með þeim hætti að þeir lengi stoppin hér í bænum og heimsæki jafnvel eitthvað annað í leiðinni,“ segja þau að lokum.

 

Þeir sem vilja kynna sér þjónustuna betur geta litiði inn á Facebooksíðuna: Samkomuhúsið Staður.

 

Dagskráin 31. júlí 2019.

 


Skráð af Menningar-Bakki

01.08.2019 07:16

Mennti almenning í málaralist

 

 

 

 

Mennti almenning í málaralist

 

 

 -Öll 147 listaverkin í einstakri stofngjöf Ragnars í Smára

 

til Listasafns ASÍ komin út í veglegri bók

 

 -Stór hluti verkanna sýndur í sumar í Listasafni Árnesinga

 

 -Listin „andlegur næringarkraftur“ 

 

 

Í Listasafni Árnesinga í Hveragerði hefur verið opnuð sýning á völdum verkum úr hinni merku stofngjöf Ragnars Jónssonar í Smára til Listasafns ASÍ árið 1961 og eru á henni lykilverk eftir margra af þekktustu myndlistarmönnum þjóðarinnar á síðustu öld. Sýningin ber heitið Gjöfin til íslenzkrar alþýðu og það er einnig heiti afar veglegrar bókar sem komin er út þar sem fjallað er um öll verkin 147 sem tilheyrðu gjöf Ragnars í Smára og þau sýnd í fallegri hönnun og prentun. 

 

Kristín G. Guðnadóttir listfræðingur er sýningarstjóri og einnig höfundur megintexta bókarinnar en þetta er í fyrsta skipti sem myndir af hinni kunnu stofngjöf koma út í heild. Listasafn ASÍ gefur bókina út og ritstýrði Elísabet Gunnarsdóttir safnstjóri útgáfunni. Fyrsta sending frá prentsmiðjunni seldist strax upp og er sú næsta á leið til landsins.

 

Fyrir almenning að njóta

 

„Safnið rekur ekki eigin sýningarsal um þessar mundir og við það myndast svigrúm til að gefa út bækur að nýju,“ segir Elísabet. Rætt hafði verið um að gefa út bók um sögu safnsins á sextíu ára afmæli þess að tveimur árum liðnum, en svo var ákveðið að ráðast strax í þessa útgáfu þegar samvinna hófst við Listasafn Árnesinga um sumarsýningu safnsins þar sem sýndur er stór hluti stofngjafarinnar.

 

„Það stóð alltaf til að gefa út veglega sýningarskrá en hún óx að vöxtum og varð að þessari fallegu bók með öllum 147 verkunum sem Ragnar gaf,“ segir hún og bætir við að verkin hafi nær öll verið mynduð að nýju fyrir útgáfuna, ártöl einstakra verka endurskoðuð og umtalsverð vinna lögð í að þýða heiti myndanna og allan texta bókarinnar á ensku.

 

„Ragnar gaf fyrst 120 verk en bætti svo talsvert fleirum við því hann lagði metnað í að safnið gæfi góða mynd af íslenskri myndlistarsögu. Og hann vildi að almenningur fengi að njóta þessara verka. Útgáfa bókarinnar er ein leið til að koma verkunum á framfæri við fólkið í landinu.“

 

Hún segir ekki nógu mikið um útgáfu á vönduðum og sögulegum listaverkabókum hér á landi. „En Kristín hefur komið að ritun margra, eins og bókanna um Kjarval og Svavar Guðnason, hún er afar vandaður fagmaður og þekkir stofngjöfina manna best.“ 

 

Kristín ritar vandaðan og upplýsandi inngang um Ragnar og stofngjöfina og þá bendir Elísabet á að stutt umfjöllun sé um valin verk í bókinni, texti sem er lýsandi fyrir tíðarandann, hvað listamennirnir voru að hugsa og hvernig þeir tjáðu sig um verk sín og annarra. Við þekktasta verkið í safngjöfinni, Fjallamjólk Jóhannesar Kjarvals, segir til að mynda: „Þegar Ragnar Jónsson var spurður um það hvaða mynd honum þætti mest gersemi í stofngjöf Listasafns ASÍ svaraði hann: „Ég er ekki í neinum vafa um það, að þar er mesta snilldarverkið Þingvallamyndin hans Kjarvals, sem hann kallar Fjallamjólk. Þar er samanþjöppuð í einum punkti hin mikla snilld málarans og allt það dásamlega rómantíska ofstæki, sem enginn á til nema Kjarval.“ 

 

Bókin er fallega hönnuð af Arnari Fells Gunnarssyni og Arnari Inga Viðarssyni, sem sækja meðal annars innblástur í hönnun listaverkabókanna sem Listasafn ASÍ gaf út á árum áður en fella verkið jafnframt að samtímalegum straumum.

 

Stofnun safnsins stórtíðindi

 

Í grein Kristínar G. Guðnadóttur „Til að mennta almenning í málaralist“ segir að listaverkagjöf Ragnars til Alþýðusambands Íslands hafi verið stórfengleg. Í bréfi hans til sambandsins segir: „Myndir þessar hef ég ákveðið að gefa samtökum íslenskra erfiðismanna – fyrir þeirra hönd Alþýðusambandi Íslands – í minningu Erlends Guðmundssonar, Unuhúsi. … Ég hef í meira en þrjá áratugi safnað listaverkum eftir íslenzka málara og ég ákvað fyrir tveimur áratugum, að Helgafell skyldi koma á fót vísi að alþýðulistasafni […] til að mennta almenning í málaralist […] Myndirnar munu vera um 120, rúm 100 málverk, sum mjög stór, eftir flesta helztu málara okkar. Mun ég síðar bæta við myndum eftir nokkra málara, þannig að safnið megi  vera yfirlit um ísl. nútímalist.“

 

Kristín segir að í ljósi þess að á þessum tíma voru einungis starfrækt tvö listasöfn á Íslandi hafi stofnun nýs listasafns verið stórtíðindi í íslensku menningarlífi.


Ragnar Jónsson ólst upp á Eyrarbakka en flutti sextán ára til Reykjavíkur, lauk verslunarprófi og hóf störf hjá smjörlíkisgerðinni Smára sem hann varð fljótlega hluthafi í.

Honum vegnaði vel í viðskiptum en varð einnig upptendraður af menningaráhuga; hann kynntist mörgum merkum listamönnum og listunnendum á borð við Erlend Guðmundsson í Unuhúsi. Kristín skrifar: „Ragnar varð fljótt mikill menningarpostuli í orðsins fyllstu merkingu og brann fyrir þá hugsjón að veita sem flestum aðgang að fögrum listum. Upptendraður af jafnt myndlist, tónlist og bókmenntum vildi hann deila með sem flestum þeirri stórkostlegu gleði sem hann fann á vettvangi listarinnar; jafnt sem stórvirkur bókaútgefandi og eigandi bókaútgáfu Helgafells, listaverkasafnari, útgefandi eftirprentana af listaverkum, útgefandi listaverkabóka, og frumkvöðull að ritun íslenskrar listasögu.“ Kristín segir að listin hafi verið Ragnari lífsnauðsyn og vitnar í orð hans: „Dýrið, sem fæðist, leitar uppi samkvæmt eðlislögmáli spena eða brjóst, þar sem næringu er að finna. Listin er mér sams konar veruleiki – andlegur næringarkraftur, sem viðheldur heilsu minni og lífi.“ Ragnar byrjaði að safna málverkum um 1930 og, að sögn Kristínar, sagði hann „að kjarni safnsins væru verk „eftir fimm þekktustu listmálarana“, sem að hans mati voru þeir Ásgrímur Jónsson, Jóhannes S. Kjarval, Jón Stefánsson, Gunnlaugur Scheving og Þorvaldur Skúlason.“ 

 

Skerpa á sérstöðunni

 

Þegar spurt er hvort unnið sé að því að koma aftur upp sýningarsal í nafni Listasafns ASÍ segir Elísabet svo vera. Nú sé aðeins millibilsástand eftir að húsnæðið við Freyjugötu var selt. „Þegar ég tók við starfi safnstjóra lagði ég fram tillögu um að við gæfum okkur fimm ár til að móta sýningarstefnuna og finna nýtt húsnæði við hæfi. Tillagan var samþykkt. Þar horfum við meðal annars til hugmynda Ragnars í Smára um safnhús sem setur mannlífið í fyrsta sæti og þangað til það er orðið að veruleika höldum við áfram að kalla eftir tillögum frá listamönnum og setja upp sýningar á völdum stöðum víðsvegar um landið.

 

Við viljum skerpa á sérstöðu þessa safns meðal íslenskra safna. Færa það nær fólkinu. Það er ólíklegt að við finnum húsnæði á viðráðanlegu verði í Reykjavík, og þar eru líka mörg söfn fyrir, en hugmyndin er að koma safninu upp húsnæði í fallegu náttúrulegu umhverfi og vera þar með sýningarsal en líka opnar geymslur þar sem öll verkin eru ávallt sýnileg.“

 

Listaverkaeign Listasafns ASÍ er nú yfir fjögur þúsund verk og eru um tvö hundruð og fimmtíu þeirra í útláni á hverjum tíma, meðal annars í sölum Alþingis og í ráðuneytum.

 

„Nú má sjá úrval margra bestu verkanna í stofngjöf Ragnars í Listasafni Árnesinga og ég vil hvetja fólk til að koma við og skoða,“ segir Elísabet.

 

 

Morgunblaðið 1. júlí 2019.
 
Skráð af Menningar-Bakki.

 

31.07.2019 10:21

Byggðasafn Árnesinga kaupir Búðarstíg 22

 

 

Búðarstígur 22 árið 1986 þegar Alpan var nýbyrjað að nýta húsin.

Myndina tók Sigurður Jónsson en hún er varðveitt í Héraðsskjalasafn Árnesinga.

 

 

  Byggðasafn Árnesinga

 

kaupir Búðarstíg 22 á Eyrarbakka

 

 

Framundan eru breytingar til betri vegar  á húsnæðismálum Byggðasafns Árnesinga. Mjög brýnt hefur verið að stækka eða bæta við varðveisluaðstöðu safnsins þar sem núverandi aðstaða er sprungin. Stórir gripir hafa um árabil verið geymdir í Mundakotsgeymslu á Eyrarbakka sem er algjörlega óviðunnandi geymsluaðstaða og ennfremur bíður stór safngripaeign frá sveitarfélaginu Ölfusi þess að komast í viðunnandi húsnæði. Í apríl keypti Byggðasafn Árnesinga Búðarstíg 22 á Eyrarbakka, hið svokallaða Alpan-hús, undir starfsemina og var núverandi þjónustuhús að Hafnarbrú 3 tekið upp í. Kaupin áttu sér stað í kjölfar aukafundar Héraðsnefndar Árnesinga, eiganda safnsins,  sem snemma árs samþykkti að fara þessa leið til að leysa úr húsnæðisvandanum. Starfsemin færist úr 560 fermetrum í Hafnarbrúnni og Mundakotsskemmu í 1700 fermetra í Búðarstíg 22. Verða geymslur safnsins því allar á einum stað. Í Búðarstíg 22 verða einnig skrifstofur safnsins, verulega bætt þjónustuaðstaða fyrir almenning ásamt rými sem gefur möguleika til fyrirlestrahalds o.fl. Ætlunin að  leigja Þjóðminjasafni Íslands ríflega 400 fermetra undir ýmsa muni sína. Flutningur safnsins úr Hafnarbrú 3  og Mundakotsskemmu í Búðarstíg 22 mun fara fram í nokkrum áföngum og er stefnt að því að flutningum verði lokið árið 2022.

 

Saga Búðarstígs 22

 

Byggingin að Búðarstíg 22 er vestarlega á Eyrarbakka, nálægt höfninni og við aðalgötuna á Eyrarbakka. Elstu hlutar byggingarinnar, skrifstofuhlutinn og gamla fiskvinnslan,  eru frá 1970. Húsið byggði útgerð Þorláks helga ÁR 11 til að vinna aflann úr skipinu. Þorlákur helgi hf. var í eigu Sverris Bjarnfinnssonar og Vigfúsar Jónssonar fyrrv. oddvita. Árið 1973 seldu þeir fyrirtækið sem hlaut þá nafnið Einarshöfn hf.  Þá var vinnslusalur stækkaður í norðvestur árið 1973 og árið 1981 var byggð stór steinsteypt skemma austan við vinnslusalinn. Starfsemi Einarshafnar hætti í kjölfar þess að hlutafélagið Alpan var stofnað í mars árið 1984. Lagðist þá fiskvinnslan niður og í staðinn kom álpönnuframleiðsla. Framleiðslan hófst sumarið 1985 og stóð í rúma tvo áratugi.  Framleiðsla Alpan voru álpönnur steyptar úr fljótandi áli og húðaðar. Starfsemin hófst með þeim hætti að keypt var álpönnuverksmiðja í Danmörku og tæki þess flutt í Búðarstíg 22 í nokkrum skrefum. Mikill uppgangur var á fyrirtækinu á 9. áratugnum og var það stærsti aðilinn á Íslandi sem fullvann ál. Um 40 manns unnu hjá Alpan árið 1989. Það ár seldi fyrirtækið 300 þúsund álpönnur og fór framleiðslan á markaði á Íslandi, í Bandaríkjunum og Evrópu. Árið 2005 störfuðu 25 manns hjá Alpan og er þess getið í frétt að íslenska kokkalandsliðið noti eingöngu pönnur og potta frá fyrirtækinu. Framleiðslan það ár var 140 þúsund stk. Síðan fór að fjara undan starfseminni og á tímum óhagstæðs gengis krónunnar reyndist erfitt að  standast samkeppni um verð. Margir starfsmanna voru erlendir á síðustu starfsárum verksmiðjunnar sem að lokum flutt til láglaunalandsins Rúmeníu. Alpan á Eyrarbakka hætti starfsemi um mitt ár 2006. Eftir að álpönnuverksmiðja Alpan fór frá Eyrarbakka keypti Fasteignafélagið Eyrarbakki húsakynnin og lét gera að húsbíla- og tjaldvagnageymslu. Einhver eigendaskipti voru á húsinu næstu árin og voru þar um skeið stundaðar sperrusmíðar fyrir húsbyggingar.  Síðast eignaðist félagið Alpan ehf húsið og það gegndi aftur hlutverki húsbíla- og tjaldvagnageymslu til vorsins 2019 að Byggðasafn Árnesinga keypti það.

 

Fjórir húshlutar

 

Byggingin að Búðarstíg 22 skiptist í fjóra húshluta. Elst er skrifstofurýmið  215 fermetra og er lengst í vestur. Þar er ætlunin að skrifstofur, snyrtingar og fjölnota salur verði í framtíðinni fyrir sýningar, fyrirlestra, fundi og félagsstarf. Til hliðar er upprunalegi vinnslusalurinn sem er 453 fermetra að stærð sem kalla mætti miðrými. Er ætlunin að þar verði obbinn af safnkostinum varðveittur í framtíðinni. Norðvestur af miðrýminu er 168 fermetra  salur,sem kalla má norðurrými, þar sem verður í framtíðinni aðalinngangur í þann sal og miðrýmið. Þar verða einnig geymdir margvíslegir hlutir sem tengjast safnastarfsemi eins og sýningapúlt, gínur, plexígler, gamlar sérsýningar, og annað sem ekki telst til skráðra safngripa. Austast er skemman sem er um 861 fermetri að stærð. Skemmunni verður skipt í tvennt með skilrúmi. Þjóðminjasafni Íslands verður leigður nyrðri hlutinn til 20 ára. Byggðasafn Árnesinga hyggst nýta syðri hlutann undir stóru gripina sína, eins og bíla, báta, vélar og merka baðstofuviði.

 

Aðlögun að nýrri starfsemi

 

Unnið er að viðgerðum á Búðarstíg 22 og er ætlunin að taka austasta hlutann, skemmuna, í notkun næsta vetur. Aðlaga verður allt húsið að þörfum safnsins og verður því verkefni kaflaskipt á nokkur ár. Ljóst er á ástandi hússins alls að skipta þarf um ystu klæðningu á þaki og veggjum í eldri hlutum hússins og aðlaga það að innan í samræmi við kröfur sem Safnaráð gerir til safnhúsa. Forvörður verður til ráðgjafar á öllum stigum verkefnisins. Menn á vegum Gríms Jónssonar verktaka, GJverk,  sjá um framkvæmdir og er núna verið að setja upp nýjar tengingar milli skemmunnar og miðrýmis. Einnig verður í þessum áfanga settur upp brunaheldur milliveggur sem skiptir skemmunni í tvennt, nýjar iðnaðarhurðir verða í húsinu, gólf lagfærð og máluð og sett öryggiskerfi sem er skylda hjá söfnum. Umsjón með framkvæmdum er í höndum byggingarnefndar Búðarstígs 22 sem fundar eftir þörfum.

 

En hvað mun þetta kosta?

 

 Í upphafi er þess að geta að Búðarstígur 22 var keyptur á 87,5 milljónir króna eða 51 þúsund krónur hver fermetri og Hafnarbrú 3 var tekinn uppí og seld á 37 milljónir króna. Ljóst er að leggja þarf í margháttaðar viðgerðir  á húsinu og aðlögun að komandi starfsemi en til eru haldgóðar upplýsingar um væntanlegan kostnað. Sótt hefur verið um styrk til Ríkissjóðs í samræmi við Safnalög sem veitir viðurkenndum söfnum heimild til að sækja um styrki til kaupa eða bygginga á safnhúsum. Er því ljóst að farin er hagkvæm leið til að leysa húsnæðisvanda safnsins.  Framlög Héraðsnefndar Árnesinga til Byggðasafns Árnesinga verða væntanlega hækkuð. Einnig má benda á leigutekjur sem safnið mun fá af leigðu húsnæði. Leigutekjur munu koma frá Þjóðminjasafni, mögulega útleigu á sal og spennistöðvar HS-veitna sem er til staðar í húsinu.

 

Húsnæðisvandinn leystur

 

Með tilkomu Búðarstígs 22 verður leyst úr margra ára húsnæðisvanda safnsins en það býr við mikil þrengsli í núverandi geymslum sínum.  Búðarstígur 22 mun gera safninu kleyft að varðveita, rannsaka, forverja og sýna þennan menningararf Árnesinga við bestu skilyrði sem völ er á. Innri aðstaða í safngeymslum og vinnuaðstaða er jafn mikilvæg ytri aðstöðu sem gestir sjá á sýningum. Búðarstígur 22 verður hluti af starfsemi Byggðasafns Árnesinga, verður einskonar hjarta safnsins og mun þjóna fjölbreyttu sýningahaldi í Húsinu, Kirkjubæ, Eggjaskúrnum og Sjóminjasafninu á Eyrarbakka. Staðsetning húsnæðisins er ákjósanleg fyrir safnið.

 

Rík ástæða er til að þakka framsýnum héraðsnefndarmönnum þessa ákvörðun að kaupa Búðarstíg 22 og er ekki nokkur vafi á að menningarstarf héraðsins mun eflast með tilkomu þessarar aðstöðu og varðveisla gripa tryggð til framtíðar.

 

Lýður Pálsson

safnstjóri Byggðasafns Árnesinga

www.byggdasafn.is

 

 

Skráð af Menningar-Bakki

30.07.2019 17:13

Tíu milljónir króna í kynningarherferð fyrir Árborg

 

 
 

Á Selfossi.  Ljósm.: sunnlenska.is/Guðmundur Karl

 

 

Tíu milljónir króna

 

í kynningarherferð fyrir Árborg

 

 

Bæjarráð Árborgar samþykkti á síðasta fundi sínum að sveitarfélagið verji allt að 10 milljónum króna í kynningar- og ímyndarherferð þar sem áhugasöm fyrirtæki á svæðinu munu einnig taka þátt.

 

Í tillögu bæjarráðs segir að megininntak átaksins sé að draga athygli að jákvæðum breytingum sem eru að eiga sér stað á Selfossi og þeim uppbyggjandi áhrifum sem þær munu hafa á næstu árum. Áhersluatriði átaksins verða mannlíf, vöxtur og náttúra.

 

Samhliða verða Eyrarbakki, Stokkseyri og Sandvíkurhreppur kynntir sem áhugaverðir staðir til heimsókna, búsetu og atvinnureksturs.

 

Í tillögunni segir ennfremur að fyrirtæki og framkvæmdaaðilar á Selfossi hafi sýnt mikinn áhuga á að koma að slíkri kynningarherferð, ásamt sveitarfélaginu, með það að markmiði að auðga mannlíf og fjölga hér tækifærum.

 

Efni kynningarátaksins verður tekið upp nú í sumar og mun verða birt í öllum fjölmiðlum í haust og eftir áramót. Sérstök áhersla verður lögð á samfélagsmiðla, en einnig hefðbundna fjölmiðla.
Skráð af Menningar-Bakki.

29.07.2019 11:03

40 ár frá afhjúpun minnisvarða að Kollabúðum

 

 

Blaðið Ísfirðingur þann 10. ágúst 1979 og grein á forsíðu um afhjúpun

minnisvarðans um Kollabúðafundina.

 

 

40 ár

 

frá afhjúpun minnisvarða að Kollabúðum

 

Í dag eru 40 ár frá afhjúpun minnisvarðans um Kollabúðafundina á Kollabúðaeyrum í Þorskafirði þann 29. júlí 1979.


-Ísfirðingur- blað Framsóknarmanna í Vestfjarðakjördæmi greindi svo frá  þann 10. ágúst 1979.Fjórðungssamband Vestfirðinga minntist þess sunnudaginn 29. júlí s.l. með afhjúpun minnisvarða á Kollabúðaeyrum við botn Þorskafjarðar, að 130 ár eru liðin frá því að komið var saman á þeim stað til fyrsta fundar af 20, sem haldnir voru á árunum 1849 til 1868, og kallaðir voru Kollabúðafundir. Tilgangur þessara funda var að samræma hugmyndir, óskir og vilja dreifðra manna, stilla saman krafta þeirra til átaka og framkvæmda öllum til góðs, en það er eitt af megin verkefnum Fjórðungssambands Vestfirðinga í dag, en það var stofnað fyrir 30 árum, eða réttum 100 árum síðar en fyrsti Kollabúðafundurinn var haldinn.

 

Ákveðið var á Fjórðungsþingi Vestfirðinga 1977 að láta gera minnisvarða þann, sem nú var afhjúpaður. Á stjórnarfundi Fjórðungssambandsins var þrem mönnum falið að hafa framkvæmdina á hendi, þeim Ólafi Þ. Þórðarsyni, Halldóri Kristjánssyni og Ólafi E. Ólafssyni. Skilaði nefndin störfum við afhjúpun minnismerkisins. Þar flutti Ólafur Þ. Þórðarson ávarp, Ólafur E. Ólafsson afhjúpaði minnisvarðann og Halldór Kristjánsson flutti hátíðarræðu. Ólafur Kristjánsson, formaður stjórnar Fjórðungssambandsins þakkaði listamanninum, nefndarmönnum og öðrum, sem að verkinu höfðu unnið, og bauð öllum viðstöddum til kaffidrykkju í Bjarkalundi í boði Fjórðungssambandsins. Fjölmenni var við athöfnina, sem var í senn látlaus og virðuleg.

 

Steinþór Sigurðsson, listamaður, er höfundur minnisvarðans, sem er ferstrend, steinsteypt súla á steinsteyptri undirstöðu. Á hverja hlið súlunnar er festur skjöldur og sverð úr málmsteypu.

 

Það er vitað um aðdraganda Kollabúðafundanna, að til þeirra var stofnað með vitund og vilja Jóns Sigurðssonar, forseta, en hann kom til fundar við kjósendur sína fyrir þing 1845 og 1847, en hafði þá dvalið á annan áratug í öðru landi, en skrifast á við nokkra áhrifamenn á Vestfjörðum um fundahald.

 

Það voru 80 menn, sem sóttu fyrsta Kollabúðafundinn 18. og 19. júní 1849. Þeir voru komnir úr öllum sýslum Vestfjarða, sumir tvær dagleiðir. Á fundinum voru gerðar 7 samþykktir og þar voru kosnir tveir menn til að fara á sameiginlegan fund Dalamanna, Snæfellinga og Mýramanna í Þórsnesi til að kynna þar samþykktir Kollabúðafundarins. Á fundinum í Þórsnesi voru samþykktar allar 7 ályktanir Kollabúðafundarins og tvær að auki. Á fyrsta Kollabúðafundinum voru einnig valdir tveir menn til að mæta fyrir hönd Vestfirðinga á Þingvallafundi um sumarið, sem taka skildi við, meta og samræma það, sem héraðsfundir höfðu ályktað.

 

Á Kollabúðafundum voru einkum settar fram kröfur um aukið frjálsræði til handa landsmönnum úr hendi Danakonungs og íhlutun um landsstjórn. Þá var og um það fjallað og reynt að gera sér ljóst og ákveða hvernig nota skyldi frelsi og sjálfstjórn. Meðal þeirra mála sem rædd voru, á fundum á Kollabúðum, auk stjórnarskrármáls, voru landhelgismál - mótmæli gegn því að Þingeyri yrði frönsk verstöð, þjóðræknismál - að embættismenn notuðu íslenzku í bréfum og bókum embætta sinna, verslunarmál - að leyfar einokunarinnar væru afnumdar svo sem varð 1855, atvinnumál ýmiskonar og skólamál.

 

Til fyrsta Kollabúðafundarins má t.d. rekja sögu sjómannafræðslunnar á Íslandi, en sjómannaskóli tók til starfa á Ísafirði haustið 1852 undir stjórn Torfa Halldórssonar. Kollabúðafundirnir voru í senn árangur af og ýttu mjög undir félagslega vakningu meðal Vestfirðinga og þjóðarinnar í heild.-Ísfirðingur- blað Framsóknarmanna í Vestfjarðakjördæmi þann 10. ágúst 1979.


Ritstjórar: Halldór Kristjánsson og Jón Á. Jóhansson, ábyrgðarmaður. Afgreiðslumaður, Guðmundur Sveinsson.Björn Ingi Bjarnason á Eyrarbakka sett fram til birtingar nú 29. júlí 2019.

 

 

Stjórn Fjórðungsambands Vestfirðinga á þessum tíma. F.v.: Gunnar Pétursson,

rafvirki, Patreksfirði, Guðmundur H. Ingólfsson, bæjargjaldkeri, Ísafirði,

Jóhann T. Bjarnason, framkvæmdastjóri Fjórðungssambands Vestfirðinga, Ísafirði,

Ólafur Kristjánsson, skólastjóri, Bolungarvík, Valdimar  Gíslason,

bifreiðastjóri, Bolungarvík og Karl Loftsson, oddviti, Hólmavík.

 

F.v.:

 

Framkvæmdanefndin um minnisvarða Kollabúðafundanna og listamaðurinn.

F.v.: Steinþór Sigurðsson, listamaður, Ólafur Þ. Þórðarson, Suðureyri,

Ólafur E. Ólafsson, Króksfjarðarnesi og

Halldór Kristjánsson, Kirkjubóli Bjarnardal í Önundarfirði. 

 

 
Hrútavinir af Suðurlandi við minnisvarðann að Kollabúðum sumarið 2009.
 

F.v.: Hlynur Gylfason, Ásmundur Sigurðsson, Gunnar Marel Friðþjófsson

Einar Loftur HögnasonJóhann Páll HelgasonBjarkar Snorrason, Hafliði Magnússon, 

Einar Valur Oddsson og Friðrik Sigurjónsson.  Ljósm.: Björn Ingi Bjarnason.Skráð af Menningar-Bakki.

 
 
 
 

29.07.2019 08:01

29. júlí 2019 - þjóðhátíðardagur Færeyja

 

 

 

 

29. júlí 2019 - þjóðhátíðardagur Færeyja

 

 

Þjóðhátíðardagar Norðurlandanna:

 

Álandseyjar 

9. júní   Fyrsta þing Álandseyinga kemur saman 1923.

 

Danmörk            

16. apríl eða 5. júní     16. apríl er afmælisdagur Margrétar II. (f. 1940), en yfirleitt er litið á 5. júní sem þjóðhátíðardag, þá var stjórnarskráin staðfest árið 1849.

 

Finnland             

6. desember      Finnar lýsa yfir sjálfstæði 1917. 

 

Færeyjar            

29. júlí   Ólafsvaka.

 

Grænland          

21. júní  Lengsti dagur ársins.

 

Ísland   

17. júní Fæðingardagur Jóns Sigurðssonar 1811 og lýðveldið stofnað 1944.

 

Noregur             

17. maí  Noregur fullvalda ríki í konungssambandi við Svía 1814, og stjórnarskráin frá Eiðsvelli gekk í gildi.

 

Svíþjóð

6. júní   Gústaf I. kjörinn konungur og Svíþjóð lýst sjálfstætt þjóðríki 1523Skráð af Menningar-Bakki.

28.07.2019 07:57

Merkir Íslendingar - Hjörtur Hjálmarsson

 

 

Hjörtur Hjálmarsson (1905 - 1993).

 

 

Merkir Íslendingar - Hjörtur Hjálmarsson

 

 

Hjörtur Hjálmarssonvar fæddur 28. júní 1905 á Þorljótsstöðum í Vesturdal í Skagafirði. Foreldrar hans voru Hjálmar Þorláksson og kona hans, Kristín Þorsteinsdóttir. Þau skildu þegar Hjörtur var ungur að aldri og fluti hann með móður sinni og eldri systur, Steinunni og manni hennar, Þórarni Árnasyni, vestur að Miðhúsum í Reykhólasveit.


 

Hjörtur lauk gagnfræðaprófi frá Flensborgarskólanum í Hafnarfirði 1922. Eftir það var hann kennari í Reykhólasveit en fór svo í kennaranám og lauk því 1926. Þá varð hann aftur kennari í Reykhólasveit en árið 1931 flutti Hjörtur til Flateyrar og gerðist kennari við Barnaskólann, fyrst sem almennur kennari en síðan skólastjóri frá 1959. Gegndi hann því starfi til ársins 1970 er sonur hans, Emil Ragnar, tók við af honum.


 

Hjörtur kvæntist 15. desember 1934 Rögnu Sveinsdóttur, dóttur Sveins Gunnlaugssonar sem var skólastjóri á Flateyri á undan Hirti. Þeir tengdafeðgar byggðu sér hús saman og þar fæddust synir þeirra Hjartar og Rögnu, Emil og Grétar Snær. Ragna andaðist 1980.

 

Hjörtur gegndi margvíslegum trúnaðarstörfum á Flateyri, var m.a. oddviti, hreppstjóri, sýslunefndarmaður og sparisjóðsstjóri. Hann var varaþingmaður Alþýðuflokksins á Vestfjörðum 1959-62 og tók tvívegis sæti á Alþingi. Hjörtur var gerður að heiðursborgara Flateyrarhrepps árið 1975

og var einn af fjórum heiðursborgurunum hreppsins en hinir þrír voru;

Finnur Finnsson, Ásgeir Torfason og Sveinn Gunnlaugsson. 


 

Hjörtur Hjálmarsson var ágætlega hagorður og nýtti þá gáfu vel til skemmtunar græskulaust. Af stökum hans er sennilega vísan um týndan og fundinn frægust:
 

Týndur fannst, en fundinn hvarf,

Að fundnum týndur leita þarf,

en týndist þá og fundinn fer

að finna þann sem týndur er.


 

Síðustu árin dvaldi Hjörtur á elliheimilinu Barmahlíð á Reykhólum og lést þar 19. nóvember 1993.

 

 
 Skráð af Menningar-Bakki.

27.07.2019 10:47

Sölvi ÁR 150 í Stykkishólm

 

 

 

 

Sölvi ÁR 150 í Stykkishólm

 

 

Siggeir Ingólfsson

 

og Sölvi ÁR 150 leggja á dögunum í langferð um landveg frá Eyrarbakka í Stykkishólm.


 

.

.

Skráð af Menningar-Bakki.

27.07.2019 08:10

Dagarnir hefjast á sundspretti

 

 

 

Dagarnir hefjast á sundspretti

 

Helga Þorbergsdóttir, hjúkrunarstjóri,

sjúkraflutningamaður og skógarbóndi – 60 ára í gær

 

Helga Þorbergsdóttir er fædd 26. júlí 1959 á Landspítalanum. Hún flaug vikugömul með Birni Pálssyni flugstjóra á Katalínuflugbáti til Ísafjarðar og síðan um Óshlíð heim til Bolungarvíkur. Ólst þar upp við opið haf, í faðmi vestfirskra fjalla og stórfjölskyldu, þar til fjölskyldan flutti í Kópavog þegar Helga var á þrettánda ári. Bernskuárin fyrir vestan einkenndust af frjálsræði, athafnasemi og gleði. Bolungarvík var sjávarþorp með öflugt atvinnulíf sem byggði á útgerð og fiskvinnslu og börnin urðu snemma virkir þátttakendur í samfélaginu. Það voru viðbrigði að flytja úr vestfirsku sjávarplássi í fjölmennið í Kópavogi en Helga undi sér þar vel og þroskaferill unglingsáranna var litaður af virkni og vináttu.

 

Helga lauk prófi í hjúkrunarfræðum frá Hjúkrunarskóla Íslands árið 1981 og fór í sérskipulagt nám í sömu fræðum í HÍ 1995. Hún lauk námi í heilsuhagfræði við endurmenntunardeild Háskóla Íslands 1991 og námi í starfstengdri heilbrigðis- og lífsiðfræði á meistarastigi við HÍ 2003-2007. Þá hefur hún sótt námskeið og námsstefnur tengd hjúkrun, stjórnun, opinberri stjórnsýslu og siðfræði.

 

Helga hefur kennararéttindi í skyndihjálp og EMTAgráðu í sjúkraflutningum. Helga hóf starfsferil sinn sem hjúkrunarfræðingur á gjörgæsludeild Landakots. Síðan lá leiðin norður yfir heiðar og starfaði Helga þar á geðdeild Fjórðungssjúkrahússins á Akureyri.

 

Árið 1985 réðu Helga og Sigurgeir eiginmaður hennar sig til starfa á Heilsugæslustöðina í Vík í Mýrdal og hefur þar verið þeirra helsti starfs- og lífsvettvangur síðan. Auk þess að gegna starfi hjúkrunarstjóra í Vík er Helga sjúkraflutningamaður við Heilbrigðisstofnun Suðurlands, þá er hún ásamt Sigurgeiri skógarbóndi í Helludal í Bláskógabyggð. 

 

Helga hefur í gegnum tíðina tekið virkan þátt í fjölbreyttum samfélagsstörfum. Hún hefur setið í mörgum nefndum Mýrdalshrepps,  meðal annars gegnt formennsku í félags- og barnaverndarnefnd, setið í atvinnumálanefnd, byggingarnefnd dvalar-og hjúkrunarheimilis, Héraðsnefnd V-Skaftafellssýslu og Almannavarnanefnd Mýrdalshrepps. Hún var í hreppsnefnd Mýrdalshrepps á árunum 1994-2002, varaoddviti fyrra kjörtímabilið og oddviti það síðara. Helga sat um árabil í stjórn Fjölbrautaskóla Suðurlands, Svæðisráði um málefni fatlaðra á Suðurlandi, og hefur setið í ráðgefandi nefndum á vegum ráðuneytis og landlæknis. Helga sat í stjórn heilbrigðisnefndar Sjálfstæðisflokksins, var í miðstjórn flokksins og var varaþingmaður í Suðurkjördæmi 2003- 2007. Helga hefur um árabil verið varamaður í vísindasiðanefnd og hún situr í stjórn Háskólafélags Suðurlands og hefur verið ritari frá stofnun þess félags sem hefur það að markmiði að „auka búsetugæði og styrkja efnahag á Suðurlandi með uppbyggingu þekkingarsamfélags.“

 

 Um helstu áhugamál segir Helga að til að starfa í áratugi í heilbrigðisþjónustu í einmenningshéraði, stöðugt með bakvaktasímann í vasanum, þurfi mikinn áhuga á þeim viðfangsefnum sem sinna þarf. Eins og sjá má á ferlinum beinist áhugi Helgu að samfélagsmálum í víðum skilningi.

 

Flestir dagar ársins hefjast á sundspretti og hún hefur mikið yndi af göngum og útiveru. Eitt af mörgu góðu sem Sigurgeir hefur fært henni er að hennar sögn áhugi á skógrækt, yndisstundir við þá iðju eru „magnaðar“. „Samhent stækkandi fjölskylda og samvera með fólkinu mínu er það besta sem ég veit,“ segir Helga.

 

Fjölskylda

 

 Eiginmaður Helgu er sem segir Sigurgeir Már Jensson, læknir og skógarbóndi, f. 7. október 1953. Hann er sonur hjónanna Jens Jónssonar málarameistara, f. 29. september 1927, d. 10. júlí 2012, og Margrétar Óskarsdóttur matráðs, f. 26. maí 1933, d. 2. febrúar 2015. Þau bjuggu í Reykjavík.

 

Börn Helgu eru:

1) Harpa Elín Haraldsdóttir, f. 28. janúar 1980, með BA í mannfræði, MA í alþjóðastjórnmálum, verkefnastjóri hjá Nisum Chile. Maki hennar er Pablo Carcamo verkfræðingur, sonur þeirra er a) León Ingi f. 2015, þau eru búsett í Chile. Faðir Hörpu er Haraldur Ingi Haraldsson, f. 7. nóvember 1955, myndlistarmaður, búsettur á Akureyri.

2) Þorbergur Atli Sigurgeirsson, f. 16. júlí 1983, lífeindafræðingur að ljúka námi í klínískri bíómekaník. Kona hans er Svanlaug Árnadóttir, f. 21. apríl 1981, óperusöngkona á síðasta ári í læknanámi. Þau eru búsett í Danmörku og börn þeirra eru a) Skarphéðinn Árni, f. 2005, b) Brynjólfur Már, f. 2010, c) Ingveldur Líf, f. 2014, og d) Ásgerður Margrét, f. 2017.

3) Margrét Lilja Sigurgeirsdóttir, f. 5. mars 1987, hjúkrunarfræðingur, ráðgjafi hjá Þjónustu- og þekkingarmiðstöð fyrir blinda og sjónskerta. Hennar maður er Jóhann Fannar Guðjónsson, bifvélavirkjameistari og lögmaður, þau eru búsett í Reykjavík. Þeirra börn eru a) Lilja Dögg Jóhannsdóttir, f. 2004, móðir hennar er Hrönn Brandsdóttir, b) Sigurgeir Máni Jóhannsson, f. 2010, c) Þorkell Skorri Jóhannsson, f. 2014, og d) Katrín Björk Jóhannsdóttir, f. 2018.

4) Ingveldur Anna Sigurgeirsdóttir, f. 16. apríl 1992, viðskiptafræðingur í MA-námi, unnusti hennar er Jón Rúnar Sveinbjörnsson vélaverkfræðingur, þau eru búsett í Reykjavík og Kaupmannahöfn.

 

Bræður Helgu eru;

1) drengur, fæddur 13. janúar 1956, dáinn sama dag,

2) Kristján Ásgeir Þorbergsson lögmaður, f. 30. mars 1957, búsettur í Reykjavík,

3) Sigurbjörn Ársæll Þorbergsson lögmaður, f. 28. desember 1964, búsettur í Kópavogi, 4) Þorgils Hlynur Þorbergsson guðfræðingur, f. 1971, búsettur í Reykjavík.

 

Helga er dóttir hjónanna Þorbergs Kristjánssonar, sóknarprests í Bolungarvík og síðar í Kópavogi, f. 4. apríl 1925, d. 28. september 1996, og Elínar Þorgilsdóttur húsmóður, f. 24. janúar 1932, d. 26. apríl 1999.

 

 
 


Morgunblaðið.
 Skráð af Menningar-Bakki