Menningar-Bakki * Viðhalda og efla þjóðlega menningararfleið til sjávar og sveita*
-------- Alþýðuhúsið á Eyrarbakka - Vinir alþýðunnar - Á undan sinni framtíð --- "Stærra í hugum okkar en við sjálfir gerum okkur grein fyrir" ---

26.07.2019 06:44

Merkir Íslendingar - Trausti Friðbertsson

 

 

Trausti Friðbertsson (1917 - 2002).

 

 

Merkir Íslendingar - Trausti Friðbertsson

 

 

Trausti Friðbertsson fæddist á Suðureyri við Súgandafjörð 26. júlí 1917. 

Trausti kvæntist 13. júní 1942 Ragnheiði Láru Sigurðardóttur, f. í Reykjavík 13. júlí 1921, dóttir hjónanna Lovísu Árnadóttur og Sigurðar E. Ingimundarsonar. Ragnheiður lést 29. desember 1984.


 

Trausti vann á uppvaxtarárum sínum þau störf er til féllu í þeirra tíma íslensku sjávarþorpi, bæði til sjós og lands. Hann lauk prófi frá Samvinnuskólanum árið 1940 og hóf fljótlega eftir það að starfa við verslun og annan rekstur sem varð síðan hans lífsstarf. Fyrstu búskaparár sín bjuggu þau Ragnheiður á Suðureyri en fluttu síðan til Ísafjarðar. Hann hóf störf við verslun J.S. Edwald og Shell-umboðið á Ísafirði árið 1945 og starfaði þar til ársins 1948 er hann var ráðinn kaupfélagsstjóri við Kaupfélag Önfirðinga á Flateyri.


 

Trausti var kaupfélagsstjóri á Flateyri í nær 28 ár eða þar til hann lét af störfum vorið 1976. Ásamt með starfi kaupfélagsstjóra gegndi Trausti starfi framkvæmdastjóra Hjallaness hf., sem var útgerðarfélag að stórum hluta í eigu Kaupfélags Önfirðinga, frá og með árinu 1960. Þá féll einnig undir hans stjórn rekstur fiskverkunar, sláturhúss o.fl. sem þá var á vegum Kaupfélags Önfirðinga.


 

Árið 1976 fluttust þau Ragnheiður búferlum til Reykjavíkur þar sem þau bjuggu á Kleppsvegi 16. Eftir flutninginn suður tók Trausti við starfi skrifstofustjóra hjá Gúmmívinnustofunni hf. þar sem hann starfaði allt til vorsins 1995 er hann lét af störfum tæplega 78 ára gamall.


 

Á Flateyri tók hann þátt í félagsmálum og sinnti nefndastörfum á vegum sveitarfélagsins. Hann sinnti einnig félagsstörfum innan Sambands ísl. samvinnufélaga og vann að ýmsu er laut að framförum og úrbótum innan samtaka fiskframleiðenda og útvegsmanna á Vestfjörðum.


 

Árið 1990 festi hann kaup á íbúð í nýbyggingu fyrir eldri borgara í Hraunbæ 103 þar sem hann bjó síðan. Trausti sat í stjórn húsfélagsins í Hraunbæ 103 og annaðist fjárreiður þess til hinsta dags.


 

Börn Trausta og Ragnheiðar:

1) drengur er fæddist andvana árið 1942; 
2) Gylfi, f. 19. nóv. 1943,

3) Sunneva, f. 2. feb. 1947, 
4) Ragnar Magnús, f. 25. des. 1948,
5) Friðbert, f. 4. okt. 1954.

 

 

 Trausti Friðbertsson lést á Landspítalanum  3. apríl 2002.
 Skráð af Menningar-Bakki.

24.07.2019 07:03

Vinna hafin við frágang og malbikun göngustíga í Árborg

 

 

Við Hraunteig á Eyrarbakka fyrir framkvæmdir. Ljósm.: Björn Ingi Bjarnason.

 

 Vinna hafin við

 

frágang og malbikun göngustíga í Árborg

 

 

Sveitarfélagið Árborg hefur samið við Gröfuþjónustu Steins ehf. um frágang og malbikun á göngustígum í Árborg og er verktakinn þegar byrjaður á verkinu.  Í samstarfi við Vegagerðina er um að ræða malbikun á göngustíg milli Eyrarbakka og Stokkseyrar og malbikun fyrsta áfanga á stíg meðfram Eyrarbakkavegi (Suðurhólar – Víkurheiði (gámasvæðisvegur).  Vegagerðin greiðir helming á móti sveitarfélaginu í þessum hluta framkvæmdanna.

 

Því til viðbótar er verið að ganga frá tveimur stígum sem alfarið eru á höndum sveitarfélagsins. 

Í fyrsta lagi er um að ræða malbikun á Hraunteigsstíg á Eyrarbakka, sem liggur frá Barnaskólanum á Eyrarbakka og að Litla-Hrauni,

en auk þess jarðvegsskipti á stíg mill Fosslands og Selfossbæja, frá Þóristúni.

 

Malbikun á að ljúka fyrir 15. september og verkinu öllu fyrir 15. október 2019.
 


Af www.arborg.is

 

 


Við upphaf framkvæmda við Hraunteig þann 18. júlí 2019.
 
 Skráð af Menningar-Bakki. 

24.07.2019 06:42

Eyrarbakki - verndarsvæði í byggð

 

 
 

 

Eyrarbakki – verndarsvæði í byggð

 

 

Á fyrri hluta ársins 2016 ákvað bæjarstjórn Sveitarfélagsins Árborgar að vinna að því að stór hluti þéttbýlisins á Eyrarbakka yrði afmarkaður sem sérstakt verndarsvæði, samkvæmt lögum um verndarsvæði í byggð nr. 87/2015.

 

Í stýrihóp fyrir verkefnið Eyrarbakki – verndarsvæði í byggð voru skipuð Ásta Stefánsdóttir bæjarstjóri, Bárður Guðmundsson, skipulags- og byggingarfulltrúi, og Svanhildur Gunnlaugsdóttir og Oddur Hermannsson, landslagsarkitektar hjá Landform ehf. – allt valinkunnir íbúar á Selfossi og valdir vegna starfa sinna til að stýra verkefninu. Veittur var styrkur til verkefnisins úr húsafriðunarsjóði að fjárhæð 8,6 m.kr. en kostnaður var áætlaður um 15 m.kr.

 

Haustið 2017 voru haldnir tveir íbúafundir á Eyrarbakka til þess að kynna stöðu verkefnisins – annar að kvöldi til og hinn stuttu síðar um miðjan dag í miðri viku. Töluverð vinna hefur verið lögð í verkefnið og sveitarfélagið borið af því kostnað. Styrkurinn úr húsfriðunarsjóði hefur þó ekki verið sóttur.

 

Nú þremur árum seinna er verkefninu enn ekki lokið. Af því tilefni tók hverfisráð Eyrarbakka málið til umfjöllunar á fundi sínum í júní sl. Þar var upplýst að helstu ástæður þess að dregist hefur að ljúka verkefninu er umfang þess, en áætlað er að verndarsvæðið nái frá Einarshafnarhverfi í vestri að Háeyrarvallahverfi í austurhluta Eyrarbakka. Meta þarf varðveislugildi margra húsa á þessu svæði og fornleifaskráning er yfirgripsmikil að mati sérfræðinga vegna fjölda minja á Eyrarbakka.

 

Hverfisráðið ályktaði á fundi sínum um verkefnið og skoraði á bæjarstjórn Sveitarfélagsins Árborgar að sjá til þess að því verði lokið sem fyrst. Ályktun hverfisráðsins er svohljóðandi í heild sinni:

„Hverfisráð Eyrarbakka hefur fjallað um verkefnið „Eyrarbakki – verndarsvæði í byggð“ og leggur áherslu á mikilvægi verkefnisins fyrir vernd og varðveislu þeirrar götumyndar sem tekist hefur að varðveita á Eyrarbakka frá síðari hluta 19. aldar og fyrri hluta 20. aldar. Ekki þarf að eyða mörgum orðum að því, hve mikla þýðingu byggðin á Eyrarbakka getur haft í markaðssetningu sveitarfélagsins sem áfangastaðar ferðamanna. Þekkt er erlendis frá, að friðuð hverfi og verndarsvæði geta verið mikið aðdráttarafl fyrir ferðamenn.

Hverfisráðið telur mikilvægt að bæjarstjórn Sveitarfélagsins Árborgar sýni í verki hver stefna hennar er í málefnum Eyrarbakka og gömlu byggðarinnar þar, ekki síst í ljósi þess að nú eru að hefjast framkvæmdir við nýjan miðbæ á Selfossi, sem munu kosta mikla fjármuni, og á að verða einhvers konar eftirlíking af gamalli byggð. Götumyndin á Eyrarbakka er einstök og mikilvægt að hún verði vernduð sem ein heild, þótt vernd einstakra bygginga skipti einnig máli. Ekki er síður mikilsvert að gætt sé vel að því, hvort og hvernig byggt verður á auðum lóðum innan væntanlegs verndarsvæðis.

 

Bæjarstjórnin hefur einstakt tækifæri í höndunum til þess að staðfesta menningarsögulegt gildi gömlu byggðarinnar á Eyrarbakka fyrir Sveitarfélagið Árborg, og reyndar landið í heild, og stuðla þannig að frekari þróun og uppbyggingu á þjónustu við ferðamenn í sveitarfélaginu.

 

Ljóst er að verkefnið um verndarsvæði í byggð hefur þegar aukið styrkveitingar úr húsafriðunarsjóði til einstaklinga sem eiga húseignir á Eyrarbakka, og eru friðaðar eða þykja varðveisluverðar. Mikilvægt er að verkefninu verði lokið, svo sú þróun haldi áfram.

 

Hverfisráð Eyrarbakka hvetur bæjarstjórn til þess að gera gangskör að því að verkefninu „Eyrarbakki – Verndarsvæði í byggð“ verði lokið sem allra fyrst og tillaga þar að lútandi verði send Minjastofnun Íslands til afgreiðslu í kjölfarið.“

 

Bæjarráð Sveitarfélagsins Árborgar hefur fjallað um ályktun hverfisráðsins og tekur undir með því í bókun sinni um mikilvægi þess að verkefninu um verndarsvæði í byggð á Eyrarbakka verði lokið. Jafnframt segir í bókun bæjarráðs: „Bæjarráð tekur undir með hverfisráðinu að bæjaryfirvöld hafa einstakt tækifæri í höndunum til að staðfesta menningarsögulegt gildi gömlu byggðarinnar á Eyrarbakka.“

 

Vonir eru því bundnar við það, að á næstunni verði þessu mikilvæga verkefni lokið, og tillaga um verndarsvæði í byggð á Eyrarbakka verði send mennta- og menningarmálaráðherra fyrr en síðar til staðfestingar. Eigendur friðaðra og varðveisluverðra húsa á Eyrarbakka, sem af miklum metnaði hafa lagt sitt af mörkum til varðveislu á menningararfinum, eiga það inni hjá sveitarfélaginu.

 

Það er sveitarfélaginu jafnframt til framdráttar, að hinni sögulegu byggð á Eyrarbakka verði lyft á þann stall sem henni sæmir.

 

 

Magnús Karel Hannesson,
íbúi á Eyrarbakka og formaður hverfisráðs

 

 
Magnús Karel Hannesson.
 
Dagskráin - héraðsfréttablað á Suðurlandi - 17. júlí 2019.Skráð af Menningar-Bakki.


 

23.07.2019 06:44

Kominn í blómabrekkuna

 


Séra Baldur Kristjánsson í Strandarkirkju í Selvogi 8. júní 2014.   Ljósm.: BIB

 

 

Kominn í blómabrekkuna

 

Baldur Kristjánsson sóknarprestur – 70 ára

 

 
 

Bald­ur Bene­dikt Ermen­rek­ur Kristjáns­son fædd­ist 22. júlí 1949 í Reykja­vík. „Ég bætti við nöfn­um afa minna í nafn mitt fyr­ir nokkr­um árum, einkum til að halda við Ermen­reksnafn­inu.“ Hann ólst upp í Hlíðunum, var í sveit á sumr­in vest­ur í Saur­bæ á Stóra-Múla og Litla-Múla og tvö sum­ur norður í Hrútaf­irði hjá Ei­ríki og Sig­ríði á Bálka­stöðum.

Bald­ur varð stúd­ent frá Mennta­skól­an­um á Laug­ar­vatni 1970, lauk BA í al­mennri þjóðfé­lags­fræði frá HÍ 1975, cand.theol. frá HÍ 1984, hóf fram­halds­nám í guðfræði og siðfræði við Har­vard Uni­versity 1989 og lauk Th. M. (Theologiae Mag­istri) þaðan 1991. Hann tók leiðsögu­manns­próf frá End­ur­mennt­un HÍ 2006.

 

Starfs­fer­ill­inn

 

Bald­ur var nokk­ur sum­ur í síma­vinnu­flokki Kjart­ans Sveins­son­ar, einkum á Vest­ur­landi, og var í vega­lög­regl­unni tvö sum­ur. Hann vann hjá Þró­un­ar­stofn­un Reykja­vík­ur 1983-1985, í land­búnaðarráðuneyt­inu 1975-1976, var fé­lags­mála- og blaðafull­trúi BSRB 1976-1980 og vann jafn­framt við dag­skrár­gerð hjá Rík­is­út­varp­inu og blaðamaður og dálka­höf­und­ur hjá Tím­an­um og síðar NT 1982-1985. Bald­ur var vígður sem prest­ur 11. júní 1984. Hann var prest­ur Óháða safnaðar­ins 1984-1985, sókn­ar­prest­ur í Bjarn­ar­nesprestakalli með aðset­ur á Höfn 1985-1995, bisk­ups­rit­ari 1995-1997 og sókn­ar­prest­ur í Þor­lák­sprestakalli 1998-2019. Önnur störf: Bald­ur var garðpró­fast­ur á Gamla garði 1973-1975, stunda­kenn­ari við Heppu­skóla 1985-1987 og síðar við Grunn­skól­ann í Þor­láks­höfn, stunda­kenn­ari við guðfræðideild HÍ 1994-1995, rit­stjóri Eystra-Horns á Höfn 1985-1988 og blaðamaður á Sunn­lenska frétta­blaðinu 1999-2003.

 

Af­mæl­is­barnið sat í stjórn Æsku­lýðssam­bands Íslands 1972-1974, var full­trúi stúd­enta í há­skólaráði 1973-1975 og sat í stúd­entaráði sama tíma. Hann var í stjórn knatt­spyrnu­deild­ar Fram 1981-1982, formaður Bridgefé­lags Reykja­vík­ur 1978-1979, var í stjórn Þroska­hjálp­ar 1982-1984, í fram­kvæmda­nefnd um mál­efni fatlaðra 1982-1984, í stjórn Presta­fé­lags Íslands 1990-1996, í skóla­nefnd á Höfn 1994-1995, formaður stjórn­ar Heilsu­gæsl­unn­ar í Þor­láks­höfn 1999-2003. Hann sat í bæj­ar­stjórn sveit­ar­fé­lags­ins Ölfuss 2002-2006, í þjóðmála­nefnd þjóðkirkj­unn­ar 1994-2000 og aft­ur 2009-2012. Var óbreytt­ur fé­lagi í ,,Feit­ir í formi“ í Þor­láks­höfn, for­seti Kiw­anis­klúbbs­ins Ölvers í eitt ár. Hann va kjör­inn til setu á kirkjuþingi 2009 til 2014, full­trúi ís­lensku þjóðkirkj­unn­ar í sam­ráðshópi 12 kirkna í jafn­mörg­um lönd­um um þróun Por­voo-sátt­mál­ans 1997-2000. Hann var til­nefnd­ur af ís­lensk­um stjórn­völd­um í nefnd Evr­ópuráðsins Europe­an Comm­issi­on against Racism and Intoler­ance 1997-2017 og var vara­for­seti nefnd­ar­inn­ar um sex ára skeið. Bald­ur ferðaðist sem slík­ur til 14 Evr­ópu­landa og vann að skýrsl­um um ástand mála m.t.t. lög­gjaf­ar og al­mennra viðhorfa stjórn­valda og al­menn­ings. Á síðari tím­um kannaði nefnd­in einnig stöðu LGTB fólks. Hann vann að skýrslu­gerð fyr­ir önn­ur alþjóðasam­tök og var formaður einn­ar nefnd­ar hér heima í fé­lags­ráðherratíð Árna Magnús­son­ar sem skilaði fram­förum í lög­gjöf fyr­ir aðflutta. Í seinni tíð hef­ur Bald­ur verið rit­ari stjórn­ar Heila­heilla og gert eitt­hvað af því að sækja ráðstefn­ur á þeirra veg­um.

 

„Eins og sjá má hef ég haft gam­an af fé­lags­mál­um og verið nokkuð mann­blend­inn. Fyr­ir utan prest­skap­inn hef­ur mest orka farið í störf á veg­um ECRÍ.“ Bald­ur er liðtæk­ur brids­spil­ari og hef­ur oft átt hesta án þess að telja sig hesta­mann.

 

„Nú um leið og ég verð pastor emer­it­us er ég flutt­ur aust­ur á Svína­fell í Öræf­um þar sem fjöl­skyld­an á ágætt hús og stunda þar þjón­ustu við ferðamenn. Ég leigi ferðamönn­um íbúð og skipti á rúm­um, skúra og moppa og geri við kló­sett og spjalla við þá svo eitt­hvað sé nefnt.“

 

Mál­stol eft­ir heila­blæðingu

 

Árið 2013 fékk Bald­ur heila­blæðingu, þ.e. blóðflæði til heil­ans stöðvaðist um stund. „Ég slapp að mestu við lang­tímaskaða nema ég varð málst­irðari en áður og fauk þar leiðsögu­manns­draum­ur­inn út um glugg­ann. Ég hélt þó mínu striki í prest­skap og kann fólki í Þor­láks­höfn bestu þakk­ir fyr­ir stuðning og þol­in­mæði en fyrst í stað vissi það varla hvað prest­ur var að tala um eða lesa svo rammt kvað að mál­stol­inu sem hef­ur mikið lag­ast í tím­ans rás þökk sé gegnd­ar­laus­um æf­ing­um og söng­tím­um svo ekki sé talað um fyr­ir­bæn­um. Eitt það er ég setti mér var að mæta aldrei öðru­vísi á fund en að taka til máls. Var það ærið skraut­legt í fyrstu en hef­ur lag­ast merki­lega mikið. Þá fór ég að lesa upp­hátt skipu­lega fyr­ir gam­alt fólk og ungt.

 

Mál­stol af völd­um heila­blæðinga og heila­áfalla hvers kon­ar er mjög fal­inn sjúk­dóm­ur í heim­in­um. Flest­ir bara þagna og málið er dautt. Það þarf að hvetja fólk til dáða og gera því auðvelt um vik að sækja end­ur­hæf­ingu. Ég var svo hepp­inn að kring­um­stæður mín­ar voru góðar og fólkið um­hverf­is hvetj­andi. Heil­inn lét að öðru leyti eins og ekk­ert hefði skeð.

 

Kunn­ur spír­it­isti sagðist dauður í gegn­um ann­an liggja í blóma­brekku en sjá jörðina í fjarska. Nú er ég í lif­anda lífi kom­inn í blóma­brekk­una. Alla­vega lit­blóm vaxa fyr­ir utan glugg­ann minn og þegar ég teygi út hönd­ina fyll­ist hún af flug­um. Sam­kvæmt þess­ari sýn verður ekki svo ýkja mik­il breyt­ing á þegar ég geispa gol­unni.

Hvað ætla ég að gera á af­mæl­is­dag­inn? Ég á von á því að ein­hverj­ir ná­grann­ar í Svína­felli líti inn í vöfflukaffi ef dags­ins önn leyf­ir þeim að líta upp. Ann­ars ætla ég að bjóða af­kom­end­um mín­um og þeirra fylgi­fisk­um í mat ein­hvern tím­ann í haust þegar vel stend­ur á.“

 

Fjöl­skylda

 

Eig­in­kona Bald­urs er Svafa Sig­urðardótt­ir, f. 22.1. 1966, dýra­lækn­ir. For­eldr­ar henn­ar voru hjón­in Sig­urður Ingvars­son, eldsmiður í Reykja­vík, f. 12.10. 1909, d. 7.4. 2001, og Guðrún Bjarna­dótt­ir hús­freyja, f. 16.8. 1931, d. 15.11. 1989. Fyrri mak­ar Bald­urs eru Jó­hanna S. Sigþórs­dótt­ir, f. 10.8. 1949, blaðamaður, og Hall­dóra Gunn­ars­dótt­ir, f. 2.6. 1959, verk­efn­is­stjóri hjá Reykja­vík­ur­borg.

 

Barn­s­móðir er Jón­ína Guðrún Garðars­dótt­ir f. 1. okt 1949, kenn­ari í Reykja­vík.

 

Börn Bald­urs:

 

1) Helga Jens­ína (ætt­leidd Svavars­dótt­ir), f. 31.10. 1973, skóla­stjóri í Borg­ar­f­irði. Maki: Hall­grím­ur Sveinn Sveins­son tölv­un­ar­fæðing­ur. Börn: Guðrún Karítas, Sveinn Svavar og Kristján Karl;

2) Kristján, f. 24.5. 1974, lög­fræðing­ur og lög­gilt­ur fast­eigna­sali. Maki: Hrafn­hild­ur Soffía Hrafns­dótt­ir um­hverf­is­skipu­lags­fræðing­ur. Barn þeirra: Agla, f. 29.8. 2017;

3) Mjöll, f. 7.1. 1979, d. 18.3. 1989;

4) Bergþóra, f. 2.2. 1990, hag­fræðing­ur hjá Íslands­banka. Maki Árni Gísla­son sér­fræðing­ur hjá dóms­málaráðuneyt­inu;

5) Rún­ar, f. 8.4. 2002, nemi í FSS;

6) Svan­laug Halla, f. 30.5. 2004, grunn­skóla­nemi.

 

Systkini Bald­urs eru Ólöf, f. 4.11. 1951, líf­einda­fræðing­ur, Bene­dikt Sig­urður, f. 6.1. 1955, bíl­stjóri og leiðsögumaður, og Ársæll, f. 5.10. 1958, lækn­ir, öll bú­sett á höfuðborg­ar­svæðinu.

 

For­eldr­ar Bald­urs voru hjón­in Kristján Bene­dikts­son, kenn­ari og borg­ar­full­trúi, f. 12.1. 1923, d. 1.10. 2015, og Svan­laug Ermen­reks­dótt­ir, kenn­ari og hús­móðir, f. 5.9. 1925, d. 16.3. 2010. Þau bjuggu í Eikju­vogi 4 í Reykja­vík.Morgunblaðið mánudagurinn 22. júlí 2019.

 

.

.

 
Skráð af Menningar-Bakki.

22.07.2019 20:53

Merkir Íslendingar - Bald­ur Vil­helms­son

 Baldur Vilhelmsson (1929 - 2014).

 

 

Merkir Íslendingar - Bald­ur Vil­helms­son

 

 

Bald­ur Vilhelmsson var fædd­ur á Hofsósi 22. júlí 1929, son­ur þeirra Vil­helms Er­lends­son­ar sím­stöðvar­stjóra og Hall­fríðar Pálma­dótt­ur konu hans.

 

Bald­ur lauk stúd­ents­prófi frá MA árið 1950. Í fram­haldi af því inn­ritaðist hann til náms við guðfræðideild Há­skóla Íslands og lauk þaðan cand. theol. prófi árið 1956. Sama ár tók hann við embætti sókn­ar­prests í Vatns­firði og gegndi því til starfs­loka árið 1999. Var til sama tíma pró­fast­ur í Ísa­fjarðarpró­fast­dæmi, embætti sem hann gegndi frá 1988.

 

Jafn­hliða prestþjón­ustu og bú­skap sinnti sr. Bald­ur marg­vís­leg­um öðrum störf­um. Var lengi kenn­ari við Héraðsskól­ann að Reykja­nesi og skóla­stjóri um hríð. Sinnti jafn­framt fé­lags- og trúnaðar­störf­um í heima­sveit sinni og í þágu Vest­f­irðinga.

 

Þá skrifaði Bald­ur tals­vert í blöð og tíma­rit og lét að sér kveða á op­in­ber­um vett­vangi.

 

Var frá­sagn­ar­gáfa hans og orðkynngi rómuð.

 

Kona Bald­urs var Ólafía Sal­vars­dótt­ir, sem lést í júlí 2014. 

Þau eignuðust fimm börn;

 Hall­fríði, Ragn­heiði, Þor­vald, Stefán og Guðbrand.

Fyr­ir átti Ólafía dótt­ur­ina Evla­líu Sig­ríði Kristjáns­dótt­ur.


Séra Bald­ur Vil­helms­son, fv. sókn­ar­prest­ur í Vatns­firði við Ísa­fjarðar­djúp, lést 26. nóvember 2014 á hjúkr­un­ar­heim­il­inu Grund í Reykja­vík, 85 ára að aldri. 

 

Baldur Vilhelmsson (1929 - 2014).Skráð af Menningar-Bakki.

22.07.2019 06:24

Merkir Íslendingar - Guðni Jónsson

 

 

Guðni Jónsson (1901 - 1974). 

 

 

Merkir Íslendingar - Guðni Jónsson

 

 

Guðni fæddist 22. júlí 1901 á Gamla-Hrauni á Eyrarbakka, einn 17 barna Jóns Guðmundssonar, f. 17.9. 1856, d. 8.9. 1941 í Vestmannaeyjum, bónda og formanns þar, og síðari konu hans, Ingibjargar Gíslínu Jónsdóttur frá Miðhúsum í Sandvíkurhr., Árn., f. 1.9. 1867, d. 2.4. 1937 í Vestmannaeyjum.


 

Faðir hans veiktist og fór Guðni tveggja vikna gamall með móður sinni að Leirubakka í Landsveit. Foreldrum hans tókst að setja saman bú að nýju, en Guðni dvaldi áfram á Leirubakka og ólst þar upp.


 

Guðni varð stúdent frá MR 1924 og mag. art. í íslenskum fræðum frá Háskóla Íslands 1930. Hann var um tíma við nám í Kaupmannahöfn 1928 og aftur 1937. Hann var kennari við Gagnfræðaskóla Reykvíkinga 1928-1945 og skólastjóri við sama skóla 1945-1957. Prófessor í sögu Íslands við Háskóla Íslands var hann 1958-1967, þar til hann lét af störfum vegna veikinda. Hann var forseti heimspekideildar HÍ 1959-1961. Hann varð doktor frá Háskóla Íslands 1953, en doktorsritgerð hans, Bólstaðir og bændur í Stokkseyrarhreppi, varð brautryðjandaverk í íslenskri staðháttasögu.


 

Guðni tók mikinn þátt í félagsstörfum, var forseti Sögufélagsins 1960-65, formaður Ættfræðifélagsins 1946-67 og sat í stjórn Hins ísl. þjóðvinafélags 1943-56. Hann var höfundur fjölmargra sagnfræðirita og stofnaði til stórútgáfu íslenskra fornrita 1946 og sá hann sjálfur um útgáfu 32 binda af þeim.

Meðal ættfræðirita hans er Bergsætt.


 

Fyrri kona Guðna var Jónína Pálsdóttir, f. 4.4. 1906, d. 2.10. 1936, húsfreyja í Reykjavík.

Börn þeirra: Gerður, Jón, Bjarni, Þóra og Margrét.

Seinni kona hans var Sigríður Hjördís Einarsdóttir, f. 28.8. 1910, d. 18.7. 1979, húsfreyja í Reykjavík.

Börn þeirra: Einar, Bergur, Jónína Margrét og Elín.

 

Tveir sona Guðna, Jón og Bjarni, urðu einnig prófessorar við Háskóla Íslands.


 

Guðni Jónsson lést 4. mars 1974.Skráð af Menningar-Bakki.

21.07.2019 11:55

Danskur á Fánasetri Suðurlands

 

 

 

 

Danskur á Fánasetri Suðurlands

 

 - eins og alla sunnudaga.

 

 Skráð af Menninga-Bakki.

21.07.2019 06:34

Merkir Íslendingar - Sveinbjörn Finnsson

 

 

Sveinbjörn Finnsson (1911 - 1993).

 

 

Merkir Íslendingar - Sveinbjörn Finnsson

 

 

Svein­björn Finns­son fædd­ist 21. júlí 1911 á Hvilft í Önund­arf­irði. 

For­eldr­ar hans voru Finn­ur Finns­son, bóndi þar, f. 1876, d. 1956, og k.h. Guðlaug Jakobína Sveins­dótt­ir, hús­freyja. For­eldr­ar Finns voru Finn­ur Magnús­son, bóndi á Hvilft, og k.h. Sig­ríður Þór­ar­ins­dótt­ir, og for­eldr­ar Guðlaug­ar voru Sveinn Rós­inkr­anz­son, út­vegs­bóndi og skip­stjóri á Hvilft, og k.h. Sig­ríður Svein­björns­dótt­ir, hús­freyja.

 

Svein­björn lauk stúd­ents­prófi frá Mennta­skól­an­um á Ak­ur­eyri árið 1933 og hag­fræðiprófí frá London School of Economics 1939.
 

Hann var verk­smiðju­stjóri Síld­ar­verk­smiðju rík­is­ins á Sól­bakka í Önund­arf­irði 1935-1937,

full­trúi í Verðlags­nefnd og Tveggja­manna­nefnd 1939-1941,

skrif­stofu­stjóri Viðskipta­nefnd­ar ut­an­rík­is­viðskipta 1941-1942

og fyrsti verðlags­stjóri á Íslandi 1943-1946.


 

Hann var frum­kvöðull humariðnaðar á Íslandi og byggði upp veiðar, frystiaðferðir og markaði 1950-1954. Hann var hvatamaður að stofn­un Styrkt­ar­fé­lags lamaðra og fatlaðra 1952 og var fram­kvæmda­stjóri þess 1957-1962. Hann átti sæti í fyrstu stjórn Öryrkja­banda­lags­ins.
 

Svein­björn kenndi við Voga­skóla í Reykja­vík 1963-1979 og var yfir­kenn­ari 1978-1979 og gerðist einn brautryðjenda í starfs­fræðslu í skól­um lands­ins.
 

Svein­björn var staðarráðsmaður við Skál­holt 1964-1990, en hann var einn af stofn­end­um Skál­holts­fé­lags­ins sem hef­ur unnið að því að end­ur­reisa Skál­holtsstað.
 

Svein­björn var sæmd­ur Skál­holtsorðunni, til minn­ing­ar um vígslu Skál­holts­kirkju árið 1963, og gullþjón­ustu­pen­ingi með kór­ónu af Dana­drottn­ingu árið 1973.
 

Eig­in­kona Svein­björns var Thyra Finns­son, fædd Fri­is Ol­sen 30.1. 1917, d. 8.8. 1995, frá Slag­el­se í Dan­mörku. Hún var hús­freyja og rit­ari.


Börn þeirra: 


Gunn­ar, f. 1940, d. 2014, Arn­dís, f. 1943, Hilm­ar, f. 1949, og Ólaf­ur William, f. 1951.

 

Svein­björn Finns­son lést 1. apríl 1993.

___________________________________

 

Í afmælisgrein um Sveinbjörn Finnsson sjötugan þann 21. júlí 1981 skrifaði Ólafur Haukur Árnason m.a. í Morgunblaðinu:

 

Ekki er á almanna vitorði þáttur Sveinbjörns Finnssonar í sigri okkar í landhelgisdeilunni við Breta þegar fært var út í 12 mílur. Þar munaði heldur betur um verk hans og mun sú saga væntanlega skráð síðar.

 

Þann dag var einnig í Morgunblaðinu:

 

Sveinbjörn Finnsson, sæll minn kæri 
senda skal þér kveðju hlýja. 
Óskandi þér auðnan færi
ennþá marga daga nýja. 

Enn þú heldur austurleiðir, 
— ekki bregður vana þínum. 
Fagurt Skálholt faðminn breiðir, 
— fagnar einkavini sínum. 

 


Auðunn Bragi Sveinsson.

 

 

Morgunblaðið.

 

 
 

Hvilft í Önundarfirði. Ljósm.: BIB
Skráð af Menningar-Bakki.

20.07.2019 10:18

Hálf öld liðin frá fyrstu tunglgöngunni

 

 

Fánasetur Suðurlands á Eyrarbakka flaggaði fána Bandaríkjanna í tilefni dagsins.

Ljósm.: Björn Ingi Bjarnason.

 

 

Hálf öld liðin frá fyrstu tunglgöngunni

 

 

Fyrir fimmtíu árum steig Neil Armstrong á tunglið og mælti þessi ódauðlegu orð:

„Þetta er eitt lítið skref fyrir mann, eitt risastökk fyrir mannkynið.“

 

Íslenskar fjölskyldur hlustuðu á Hjálmar Sveinsson og Pál Theódórsson lýsa tungllendingunni í Ríkisútvarpinu. 

 

 Í dag, 20. júlí 2019, er hálf öld liðin frá því að Neil Armstrong steig eitt lítið skref á tunglið.

Hátt í 530 milljónir manna um allan heim sátu við imbakassann og fylgdust með í beinni þegar mannkynið tók risastökk inn í framtíðina. Íslenskar fjölskyldur hjúfruðu sig saman og hlustuðu á Ríkisútvarpið. Það var björt sumarnótt. Hjálmar Sveinsson verkfræðingur og Páll Theódórsson eðlisfræðingur lýstu og þýddu beina útsendingu frá því þegar ferjan Örninn með Armstrong og Aldrin innanborðs nálgaðist tunglið og lenti á Friðarhafinu. Tunglferðin var draumur Kennedys Bandaríkjaforseta. Árið 1962 hélt hann ræðu frammi fyrir áhorfendum á Rice-leikvangnum í Texas þar sem hann mælti þau orð sem mörkuðu upphaf tunglferðanna: „Við veljum að fara til tunglsins á þessum áratug. Ekki vegna þess að það sé auðvelt, heldur vegna þess að það er erfitt.“

 

Kennedy fékk aldrei að sjá mann ganga á tunglinu. Nixon fékk þann heiður að hringja út í geim og ræða við Neil og Buzz símleiðis.

 

„Vegna verka ykkar eru himnarnir nú hluti af heimi manna,“ sagði hann og þakkaði þeim fyrir afrekið. Michael Collins fékk þó ekki símtal frá forsetanum en hann er þriðji maðurinn sem gleymist oft. Hann var um borð í geimferjunni Kólumbíu þegar Neil og Buzz lentu Erninum. Hann var maðurinn sem hvarf bak við tunglið og missti talstöðvarsamband við félaga sína og umheiminn allan í 48 mínútur rétt áður en Neil og Buzz áttu að lenda á tunglinu. Hann ritaði niður hugsanir sínar í minnisbók sína sem hann tók með sér út í geim: „Nú er ég sannarlega einsamall og algjörlega fjarri öllu þekktu lífi,“ skrifaði hann þegar samband rofnaði.

 

„Síðastliðna sex mánuði hef ég verið hræddur við að þurfa hugsanlega að skilja þá eftir á tunglinu og snúa aftur til jarðar aleinn. Eftir nokkrar mínútur kemst ég að því hvort svo verður.“ „Örninn er lentur,“ var það fyrsta sem heyrðist þegar talstöðvarsambandið náðist á ný.

 

Starfsmenn geimvísindastöðvarinnar í Houston lásu fréttir á hverjum morgni fyrir geimfarana á leið til tunglsins. Flestar fyrirsagnir snerust um þremenningana um borð í geimfarinu Apollo 11. Ef marka má eftirrit af öllum fjarskiptasamskiptum geimfaranna fannst þeim skemmtilegast að heyra íþróttafréttir. Fréttalesturinn fékk viðurnefnið The Bruce & Fred Show eftir starfsmönnunum sem lásu upp fréttirnar.

 

Það er eitthvað rómantískt við tungllendinguna. Ákveðin fortíðarþrá í ljósi mánaskinsins. Geimfarafjölskyldurnar voru hinar fullkomnu birtingarmyndir Ameríska draumsins með hvítum rimlagirðingum og allt.

 

Tungllendingin sameinaði allt mannkynið og var stórsigur fyrir Bandaríkjamenn sem áður höfðu beðið lægri hlut í geimkapphlaupinu við Rússa. Vísindamenn horfðu út á við á himinhvolfið en litu í þetta sinn til baka og sáu litlu bláu plánetuna.

 

En stríð braust út milli Hondúras og El Salvador á landi og í lofti sama dag og Bandaríkjamenn lögðu af stað til tunglsins. Víetnamstríðið var í algleymingi og Judy Garland var nýdáin eftir að hún tók of stóran skammt af svefnlyfjum. Meirihluti hjónabanda geimfaranna leystist upp á árunum sem liðu og geimfarar þjáðust af þunglyndi og alkóhólisma eftir að hafa skotist út í geim og til baka. Er hægt að snúa aftur til borgaralegs lífs eftir að hafa staðið á tunglinu?

 

Almenningur missti áhugann á tungllendingum og maðurinn hefur ekki farið aftur síðan 1972. Þegar leið á síðustu tunglferðina vildu sjónvarpsstöðvar frekar sýna íþróttaviðburði á besta dagskrártímanum.

 

En NASA stefnir á að senda fyrstu konuna til tunglsins árið 2024 og byggja þar geimstöð. Það er ódýrara og auðveldara að skjóta flaug frá tunglinu ef mannkynið vill hefja mannaðan leiðangur til Mars. Ég vona að af því verði áður en almenningur missir áhugann enn á ný.

 

ingunnlara@frettabladid.is

Fréttablaðið laugardagurinn 20. júlí 2019.

_____________________________________________

 

Fáni - fugl og fuglaský í hátíðarbúningi

 

við Fánasetur Suðurlands á Eyrarbakka

 

að morgni 20. júlí 2019.

 

.

.

.

.

Skráð af Menningar-Bakki. 

20.07.2019 08:05

20. júlí - Þorláksmessa að sumri

 

 

 

20. júlí - Þorláksmessa að sumri

 

 

Þorláksmessa á sumri er 20. júlí. Verndardýrlingur Íslendinga er Þorlákur helgi. Sumarið 1198 var helgi Þorláks Þórhallssonar samþykkt á Alþingi og bein hans tekin upp og skrínlögð 20. júlí. Þorláksmessa á vetur er 23. desember, á dánardegi hans. Þorláksmessa á sumar var til siðaskipta einn helsti hátíðisdagur sunnanlands  og þá var haldin mikil samkoma í Skálholti.

 


Síðustu ár eru einnig til dæmi um skötuveislur þennan dag og á Hrútavinafélagið Örvar stóran þátt í því.

 Skráð af Menningar-Bakki.