Menningar-Bakki * Viðhalda og efla þjóðlega menningararfleið til sjávar og sveita*
-------- Alþýðuhúsið á Eyrarbakka - Vinir alþýðunnar - Á undan sinni framtíð --- "Stærra í hugum okkar en við sjálfir gerum okkur grein fyrir" ---

12.07.2019 18:19

Sólvellir fá framkvæmdastyrk

 

 
 

Sólvellir á Eyrarbakka.  Ljósm.: Björn Ingi Bjarnason.

 

 

Sólvellir fá framkvæmdastyrk

 

 

Sólvellir, heimili aldraðra á Eyrarbakka fékk samtals rúmar 3,4 milljónir króna til tveggja verkefna þegar úthlutað var úr Framkvæmdasjóði aldraðra í vikunni.

 

Sólvellir fá rúmar þrjár milljónir til þess að breyta þremur rýmum í tvö rými með salerni og rúmar 400 þúsund krónur til þess að endurbæta neyðar- og leiðarlýsingu í húsinu.

 

Alls úthlutaði heilbrigðisráðherra 400 milljónum króna úr Framkvæmdasjóði aldraðra í þetta sinn og var úthlutunin í samræmi við tillögu stjórnar sjóðsins.

 

Rúmar 307,7 milljónir króna fara í verkefni á höfuðborgarsvæðinu og fer stærsta fjárhæðin, rúmar 179,9 milljónir króna, til viðbyggingar eldhúss Hrafnistu og endurnýjun búnaðar þar, en þar verður framleiddur matur fyrir íbúa allra Hrafnistuheimilanna. 

 

Tæpar 70 milljónir króna fara í framkvæmdir sem snúa að því að færa aðbúnað íbúa á hjúkrunarheimilum í nútímalegt horf með breytingu á fjölbýlum í einbýli með snyrtingu. Skráð af Menningar-Bakki.

11.07.2019 17:25

Þjónustusamningur um Samkomuhúsið Stað undirritaður

 F.v.: Elín Birna Bjarnfinnsdóttir, Gísli Halldór Halldórsson og  Ingólfur Hjálmarsson.

 

 

 Þjónustusamningur

 

um Samkomuhúsið Stað undirritaður

 

 

Í gær, miðvikudaginn 10. júlí 2019, var samstarf Sveitarfélagsins Árborgar og Elínar Birnu Bjarnfinnsdóttur og Ingólf Hjálmarsson um rekstur á íþrótta- og samkomuhúsinu Stað á Eyrarbakka formlega skjalfest við undirritun í Samkomuhúsinu Stað.

 

Bæjarstjóri Sveitarfélagsins Árborgar, Gísli Halldór Halldórsson, skrifaði undir þriggja ára þjónustusamning við þau Elínu Birnu og Ingólf um daglega umsjón húsnæðisins. Þjónustusamningurinn felur í sér þrif, minniháttar viðhald, upplýsingamiðstöð fyrir ferðamenn yfir sumarmánuðina og móttöku pantana vegna útleigu.

 

Í dag nýtist húsnæðið meðal annars undir íþróttakennslu, æfingar á vegum Ungmennafélags Eyrarbakka auk viðburða í tengslum við sveitarfélagið og annarra viðburða tengdum útleigu.

 

Sveitarfélagið óskar Elínu Birnu og Ingólfi alls hins besta og hefur það þegar sýnt sig að samstarfið verður farsælt.

 

Af heimasíðu Árborgar.
 Skráð af Menningar-Bakki

 

 

 

11.07.2019 06:36

SKÖTUMESSAN 2019 í Suðurnesjabæ.

 

 

 

 

SKÖTUMESSAN 2019 í Suðurnesjabæ

 

 

VERÐUR HALDIN Í MIÐGARÐI GERÐASKÓLA Í GARÐI

 

 


Miðvikudaginn 17. júlí 2019 verður Skötumessan enn og aftur haldinn í Garðinum. Borðhald hefst kl. 19.00 og að venju er boðið uppá glæsilegt hlaðborð af skötu, saltfiski, plokkfiski og meðlæti og rómuð skemmtidagskrá að venju flutt af fólki sem leggur okkur lið.

 


Skólamatur sér um matinn eins og áður og skemmidagskráin samanstendur af hefðbundnum atriðum. Dói og Baldvin sjá um harmonikkuleik á meðan fólkið er að koma sér fyrir og síðan rekur hver dagskrárliðurinn sig af öðrum. Geimsteinar Suðurnesja Davíð Már Guðmundsson og Óskar Ívarsson taka nokkur lög eins og Olsenbræðurnir Erlingur og Svavar Helgasynir áður en Sigríður Á Andersen fv. ráðherra frá Móakoti í Garði flytur ræðu kvöldsins. Það er von á góðu frá þeim kvenskörungi. Þá afhendum við styrkina sem við öll erum þátttakendur í og, að lokum verða stuttir tónleikar þar sem Halldór Gunnar Fjallabróðir og Sverrir Bergman stórsöngvari skemmta Skötumessugestum. Þeir félagar harðneituðu að fá greiðslu fyrir að koma fram og leggja þannig stuðning sinn við gott málefnið.

 

Vilt þú verða einn af þeim.


Árlega mæta rúmlega 400 manns á Skötumessuna og borða til blessunar eins og dómkirkjupresturinn orðaði það svo skemmtilega við mig. Við leggjum öll saman í þetta verkefni og erum líka öll viðstödd þegar styrkirnir eru greiddir út í lok kvöldsins. Ég spyr því þig lesandi góður. Vilt þú ekki verða einn af þeim sem leggja fötluðum og þeim sem eru hjálpar þurfi lið. Vinnufélagar og kaffifélagar víða á Suðurnesjum, nú er tækifæri til þess og við erum öll í sama liðinu og finnum hvað þetta kvöld getur skiptir miklu máli fyrir þá sem við styðjum.


Verð aðgöngumiða er 5,000- kr. Það hjálpar til að greiða aðganginn inn á reikning Skötumessunnar fyrir fram eins og okkar fólk er vant en reiknisnúmerið er; 
0142-05-70506, kt. 580711-0650.


Nú er Skötumessan í fyrsta skipti haldinn í sameiginlegu sveitarfélagi og því sérstakt tækifæri fyrir íbúa að gera Skötumessuna að sinni árlegu bæjarskemmtun, mæta vel og styðja við verkefni í heimabyggð í Suðurnesjabæ. 


Hlökkum til að sjá ykkur sem flest í Gerðaskóla miðvikudaginn 17. júlí, mæta tímanlega og finna sér sæti og hlusta á harmonikkutóna frá Dóa og Baldvin fyrir kvöldverðinn.


Skötumessan er áhugafélag um velferð fatlaðra.

 

Helstu stuðningsaðilar Skötumessunnar eru;

Fiskmarkaður Suðurnesja, Skólamatur ehf, Icelandair Cargo, Suðurnesjabær og fl.

 Sklráð af Menningar-Bakki.

 

 

10.07.2019 17:28

10. júlí í sögu Þingvalla

 

 
Þingvellir. Ljósm.: Björn Ingi Bjarnason.

 

 

10. júlí í sögu Þingvalla

 

 

10. júlí 1718

Meistari Jón Vídalín biskup flutti þungorða ræðu yfir þingheimi í Þingvallakirkju. Hann sagði m.a.: „Hjá oss er orðið svoddan aflát vondra verka og lasta að menn varla straffa nema smáþjófa.“ 

 

 

10. júlí 1970

Ráðherrabústaðurinn á Þingvöllum brann. Bjarni Benediktsson forsætisráðherra, Sigríður Björnsdóttir kona hans og Benedikt Vilmundarson, dóttursonur þeirra, fórust í brunanum. Tæpu ári síðar var reistur minnisvarði á staðnum. 

 

 

10. júlí 2009

Hótel Valhöll á Þingvöllum eyðilagðist í eldsvoða. „Alveg hrikaleg sjón,“ sagði forsætisráðherra í samtali við Mbl.is. Húsið hafði verið byggt árið 1898 en flutt nær Þingvallavatni 1929 og byggt við það árið eftir.

 

 

Dagar Íslands | Jónas RagnarssonSkráð af Menningar-Bakki.

10.07.2019 06:33

Merkir Íslendingar - Jón Mýrdal

 


Jón Mýrdal ( 1825 - 1899).
 

 

 

Merkir Íslendingar - Jón Mýrdal

 

 

Jón Mýrdal, rithöfundur, fæddist 10. júlí 1825 að Hvammi í Mýrdal.

Foreldrar hans voru Steinunn Ólafsdóttir og Jón Helgason.

 

 Jón hugðist ganga til mennta en varð frá að hverfa vegna fátæktar. Hann fór til Reykjavíkur og nam trésmíði. Fljótlega fluttist hann norður í land og kynntist þar Guðrúnu Rannveigu Jónsdóttur. Þau slitu samvistum eftir eitt ár en eignuðust dótturina Kristínu Salóme.

 

Guðrún Jóhannsdóttir, barnabarn Jóns, segir í minningarorðum um afa sinn er birtust í Morgunblaðinu 27. september 1953 að þau hafi ekki átt skap saman, jafnframt hafi Jón „verið tilfinningaríkur, draumlyndur og nokkuð ölkær. Guðrún amma var stórbrotin kona, sem áleit staðreyndir tryggari fótfestu en hugmyndaflug.“

 

Jón Mýrdal dvaldi í Kaupmannahöfn um skeið, fluttist heim og ferðaðist víða um land og starfaði við smíðar, m.a kirkjubyggingar. Hann var völundur og handbragð hans bar vott um listhneigð og vandvirkni. Penninn var sjaldan langt undan og mörg verkin urðu til á hefilbekknum. Fjöldi verka liggur eftir hann, kvæði og skáldsögur auk nokkurra leikrita.

 


Mannamunur

 

Þekktasta verk hans er  -Mannamunur-  sem kom fyrst út 1872 og hefur verið endurútgefið reglulega síðan. Hann ritaði einnig tvær skáldsögur á dönsku þegar hann bjó í Kaupmannahöfn. Í dvöl sinni þar varð hann fyrir áhrifum ævintýrabókmennta eins og glögglega sést í Mannamuni. Aðalpersónurnar eru málaðar sterkum andstæðum litum og gegna því hlutverki að vera góðar eða vondar. Æskuvinirnir Ólafur og Vigfús keppa um hylli sömu stúlkunnar en bréfaskriftir hafa áhrif á gang mála. Heiti bókarinnar er lýsandi fyrir inntak verksins. Verkið tekur mið af rómönsuhefð, er formúlukennt og ber öll helstu einkenni vinsældabókmennta. Mannamunur hefur þó enn sinn sjarma sem líkja má við galdur sjónvarpsþáttanna Leiðarljóss.

 

 

Jón Mýrdal lést 1899.

 

 


Skráð af Menningar-Bakki

09.07.2019 06:39

Sjónvarpið var mikill aflvaki

 

 

 

Sjónvarpið var mikill aflvaki

 

Hinrik Bjarnason,

fyrrverandi dagskrárstjóri á RÚV – 85 ára

 

 

Hinrik Bjarna­son fædd­ist 8. júlí 1934 í Rana­koti á Stokks­eyri.

„Ég er af­sprengi fólks sem vann sjálfsþurft­ar­bú­skap til lands og sjáv­ar, það voru ekki mikl­ir pen­ing­ar í um­ferð en það leið eng­inn skort. Þetta voru vinnu­sam­ir og ham­ingju­rík­ir dag­ar bæði í mýr­inni og fjör­unni. Ég ólst upp í Rana­koti fram yfir ferm­ingu og fór þá til borg­ar­inn­ar að borg­ar­væða mig og var í þeim upp­eld­is­mál­um sjálf­ur. Svo er annarra að meta hvernig til hef­ur tek­ist.“

 

Hinrik lauk kenn­ara­prófi frá KÍ 1954, var í leik­skóla Lárus­ar Páls­son­ar 1952-54, stundaði nám í fé­lags- og upp­eld­is­fræðum í Dan­mörku og Svíþjóð 1958-59 og var Ful­bright-styrkþegi í Banda­ríkj­un­um 1959-60, sótti nám­skeið í gerð og upp­töku­stjórn sjón­varpsþátta hjá sænska sjón­varp­inu 1968 og hef­ur sótt fjölda nám­skeiða í upp­eld­is- og kennslu­fræði, tóm­stunda- og æsku­lýðsstarfi, kvik­mynda­gerð og sjón­varps­störf­um.

 

Hinrik var starfsmaður á Kefla­vík­ur­flug­velli 1953-56, skóla­stjóri á Vistheim­il­inu í Breiðuvík 1956-58, kenn­ari við Breiðagerðis­skóla 1960-63 og Rétt­ar­holts­skóla 1963-71, fram­kvæmda­stjóri Æsku­lýðsráðs Reykja­vík­ur 1971-79, stundaði þátta­gerð við Sjón­varpið 1966-75, var frum­kvöðull að gerð barna­efn­is fyr­ir Sjón­varpið og fyrsti um­sjón­ar­maður Stund­ar­inn­ar okk­ar.

 

Hann starfaði hjá Nor­d­visi­on við gerð samn­or­rænna barna- og ung­lingaþátta 1969 og 1970, var deild­ar- og dag­skrár­stjóri lista- og skemmti­deild­ar Sjón­varps 1979-85 og markaðsdeild­ar Sjón­varps frá 1985-2000, er hann fór á eft­ir­laun. „Það vildi þannig til að þegar ég var kenn­ari þá var ég með börn í fram­sögn og leik­list og vegna þeirr­ar at­hygli sem það vakti var mér boðið að taka það að mér að sjá um barna­efni í sjón­varp­inu,“ seg­ir Hinrik aðspurður. „Það var mjög áhuga­vert og mik­ill aflvaki í mínu lífi. Ég vann frá haust­inu 1966 við að und­ir­búa opn­un sjón­varps­ins og fram á nýja öld, því þegar ég fór á eft­ir­laun 2000 var ég í eitt ár að vinna sér­verk­efni fyr­ir Markús Örn Ant­ons­son sjón­varps­stjóra.“

 

Hinrik sat í stjórn Banda­lags ís­lenskra lista­manna 1972-76, í fram­kvæmda­nefnd alþjóðaárs barns­ins 1979, í stjórn kvik­mynda­sjóðs í nokk­ur ár frá 1979, auk þess sem hann hef­ur gegnt ýms­um trúnaðar­störf­um í stétt­ar­fé­lög­um kenn­ara, borg­ar­starfs­manna og fyr­ir Fé­lag kvik­mynda­gerðarmanna. Þá hef­ur hann starfað öt­ul­lega inn­an Rot­aryhreyf­ing­ar­inn­ar á Íslandi, var m.a. ís­lensk­ur rit­stjóri Rot­ary Nor­d­en 2006-2009, og sat í stjórn Fé­lags eldri borg­ara í Reykja­vík og ná­grenni um ára­bil.

 

„Ég lít á mig sem frek­ar fé­lags­lynda per­sónu og átti mjög ánægju­legt starf sem stjórn­ar­maður í Fé­lagi eldri borg­ara og mjög ánægju­leg sam­skipti við menn og mál­efni inn­an Rot­aryhreyf­ing­ar­inn­ar bæði hér­lend­is og er­lend­is. Nú á ég fyr­ir­mynd­ar­sam­skipti við fólkið þar sem ég bý í ná­grenni Rík­is­út­varps­ins í Hvassa­leiti en þar er skemmti­leg­ur fé­lags­skap­ur. Svo fer ég í heim­sókn á RÚV öðru hverju, en dótt­ir mín vinn­ur þar og son­ur minn vann þar lengi. Ég fylg­ist enn með hvað er í sjón­varp­inu og er hald­inn af frétta­sýki. Sem bet­ur fer fer síðan tölu­verður tími í að fylgj­ast með fjöl­skyld­unni. Ég hef al­veg nóg að gera og eft­ir að hafa af­greitt erfið veik­indi fyr­ir 40 árum er ég við mjög góða heilsu og reyni að nýta mér það eins og ég get. Yf­ir­leitt eru dag­arn­ir frek­ar stutt­ir, ég bíð alla­jafna ekki eft­ir því að tím­inn líði.“

 

Hinrik og kona hans voru lengi áhuga­sam­ir safn­ar­ar gam­alla gripa; 31. maí 2006 færðu þau Sjó­minja­safn­inu í Reykja­vík safn sitt að gjöf, alls rúm­lega 700 muni. „Þetta eru mun­ir sem við söfnuðum frá okk­ar upp­hafs­stöðum en kon­an mín er úr Blöndu­dal. Við vild­um koma mun­un­um á góðan stað og erum mjög ánægð með þetta ráðslag.“

 

Fjöl­skylda

Hinrik kvænt­ist 23.3. 1963 Kolfinnu Bjarna­dótt­ur kenn­ara, f. 30.5. 1937, d. 18.7. 2016. Hún var dótt­ir hjón­anna Bjarna Jónas­son­ar, bónda og fræðimanns í Blöndu­dals­hól­um, og Önnu Sig­ur­jóns­dótt­ur, bónda og hús­freyju.

 

Börn Hinriks og Kolfinnu eru:

1) Bjarni, f. 6.9. 1963, mynda­sögu­höf­und­ur og þýðandi, sam­býl­is­kona hans er Sus­an Diol leik­kona, en son­ur hans og Dönu Fisarova Jóns­son er Breki vinnusál­fræðing­ur, f. 12.1. 1994; 2) Anna, f. 9.6. 1965, fjöl­miðla­fræðing­ur og yfirþýðandi við RÚV, son­ur henn­ar er Hinrik Kol­m­ar Önnu­son, f. 23.7. 2011.

 

Systkini Hinriks:

Val­gerður, f. 7.8. 1936, hús­móðir í Reykja­vík; Krist­ín Sigrún, f. 26.5. 1938, hús­móðir í Reykja­vík; Sig­urður, f. 10.11. 1940, fyrrv. tann­lækn­ir í Reykja­vík; Guðjón, f. 10.11. 1940, d. 12.9. 2011, hús­vörður í Reykja­vík.

 

For­eldr­ar Hinriks voru hjón­in Bjarni Sig­urðsson, f. 6.8. 1893, d. 16.11. 1954, bóndi og formaður í Rana­koti, og Þuríður Guðjóns­dótt­ir, f. 19.4. 1900, d. 10.4. 1963, hús­freyja.


 Morgunblaðið - mánudagurinn 8. júlí 2019.Skráð af Menningar-Bakki.
 

 

08.07.2019 19:59

Af málefnum Árborgar

 

 

 

 

Af málefnum Árborgar

 

 

Nú þegar rúmt ár er liðið frá síðustu sveitarstjórnarkosningum finnst okkur rétt að staldra við og fara í nokkrum orðum yfir þau verkefni sem bæjarstjórn hefur verið að fást við.  Svf. Árborg hefur verið í miklum vexti að undanförnu og ekkert sem bendir til annars enn að sú þróun haldi áfram. Fjölgun íbúa er umtalsvert yfir landsmeðaltali og er það ánægjuefni og um leið áskorun á bæjaryfirvöld að taka vel á móti nýjum íbúum og huga vel að þeim sem fyrir eru .Fljótlega eftir kosningar síðasta vor var ákveðið að fá hagfræðinginn Harald Líndal Haraldsson til að gera úttekt á stjórnsýslu, rekstri og fjármálum sveitarfélagsins. Lokaskýrsla Haraldar var  kynnt bæjarfulltrúum og starfsmönnum sveitarfélagsins um áramót.  Í framhaldi af því var farið í að innleiða nýtt skipurit fyrir sveitarfélagið og starfsmönnum falið að hefja vinnu í samræmi við þær ábendingar sem komu fram í skýrslunni.  Við innleiðingu nýja skipuritsins urðu ákveðnar breytingar á starfsmannamálum,  tilfærslur á störfum og ný störf urðu til. Einstaka stjórnendur ákváðu á þeim tímapunkti, að segja störfum sínum lausum og hverfa til annarra starfa og þökkum við þeim  góð og óeigingjörn störf fyrir sveitarfélagið undanfarin ár um leið og við bjóðum nýtt starfsfólk velkomið til starfa.

 

Umhverfismál

Við þessar breytingar á skipuritinu var m.a bætt við nýrri fagnefnd hjá sveitarfélaginu, sem er Umhverfisnefnd. Umhverfismálin eru sífellt að verða stærri  þáttur í lífi okkar og daglegum störfum.  Á þessu ári var byrjað á að safna lífrænu sorpi í sveitarfélaginu og  þriðja tunnan innleidd. Það þarf ekki að efast um það, hvað það skiptir miklu máli að allir taki með jákvæðum hætti þátt í aukinni flokkun úrgangs. Ljóst er að urðunarkostnaður fer sífellt hækkandi og þar með sorphirðugjöldin okkar íbúana sem eiga að endurspegla kostnaðinn við sorphirðuna.  Einnig hefur áhugi aukist að undanförnu á að skoða  möguleika með að koma upp grenndarstöðvum,með það að markmiði að auðvelda íbúum að flokka enn meira og losa sig við ákveðna sorpflokka þegar þeim hentar best.  Opnunartími gámasvæðisins við Víkurheiði hefur verið lengdur  og reynslan af því, sem af er verið góð, og ánægja meðal íbúa og fyrirtækja með aukið þjónustustig. Hreinsunarátak um allt Suðurland er á fullri ferð  í samstarfi við Heilbrigðiseftirlit Suðurlands, tilgangurinn er að hreinsa til á lóðum og lendum þar sem mikil ruslasöfnun hefur átt sér stað m.a vegna númerslausra bíla,ónýtra kerra og öðru drasli, sem ekki er til annars en skemma fallega ásýnd og vellíðan íbúa sveitarfélagsins. Nú fer að styttast í endanlega niðurstöðu í hönnun miðbæjargarðsins á Selfossi og verður sú vinna kynnt fyrir íbúum á næstunni.

 

Framkvæmdir og skipulag

Af nógu er að taka þegar kemur að framkvæmdum og skipulagsmálum í sveitarfélaginu.  Nýlega var ákveðið að fara í að endurskoða aðalskipulag  sveitarfélagsins, sem væntanlega mun taka um tvö ár í vinnslu.  Það er mjög mikilvægt að það verði unnið í góðu samstarfi við íbúa og hagsmunaaðila. Svf.Árborg á heilmikið land í Flóahreppi sem þarf að taka afstöðu til hvernig verður skipulagt til framtíðar, einnig óbyggt land við ný gatnamót Biskupstungnabrautar, sem verður mun áhugaverðara þegar nýr vegur og brú kemur yfir Ölfusá.  Á því landsvæði verður sveitarfélagið að vera með sínar áherslur um uppbyggingu og framtíðarsýn ljósar sem fyrst, ekki síst  vegna þess að fjársterkir aðilar hafa sýnt áhuga á framkvæmdum á svæðinu. Byggingaland undir íbúðarhúsnæði fer minnkandi og er allt kapp lagt á að koma hinu svokallaða Björkurstykki af stað sem fyrst, en það hefur tafist vegna ákveðinna skipulagsmála. 

 

Verið er að gera breytingar á deiliskipulagi á Stokkseyri og Eyrarbakka og skipuleggja nýjar byggingalóðir, en aukinn eftirspurn hefur verið eftir byggingarlóðum í þorpunum við ströndina. Einnig eiga einkaaðilar nokkuð af byggingalandi við Selfoss, sem þeir hafa lýst yfir áhuga á að koma af stað sem fyrst, sú uppbygging sem þeir aðilar stefna á verður að sjálfsögðu unnin í  samstarfi við bæjaryfirvöld og samfélaginu til góða.

 

Sl. haust var gengið frá kaupum Héraðsnefndar Árnesinga á svokölluðum Alpanhúsum á Eyrarbakka undir starfsemi Byggðarsafns Árnesinga, og ekki er vafi á því þessi kaup styrkja og styðja við öflugt menningarstarf í Svf. og Árnessýslu allri, til  framtíðar.

 

Langþráðar framkvæmdir við nýtt hjúkrunarheimili á Selfossi eru að fara í gang við HSU en er það samstarfsverkefni ríkisins og sveitarfélagsins.

 

Í sumar verður lokið við að malbika fjörustíginn, milli Eyrarbakka og Stokkseyrar og einnig byrjað að malbika stíginn, meðfram Eyrarbakkavegi frá Selfossi. Sá göngustígur mun í framtíðinni tengja saman Selfoss, Eyrarbakka og Stokkseyri, sem frábær göngu-og hjólastígur, milli þéttbýliskjarna sveitarfélagsins.

 

Ljósleiðaravæðing sveitarfélagsins er áberandi þessa dagana en verið er að leggja hann í öll hús á Selfoss, sem ekki voru þegar kominn með hann.  Einnig er að hefjast ljósleiðaravæðing í dreifbýli sveitarfélagsins.  Mikið hefur verið þrýst á fjarskiptafyrirtækin að hefja sömu vinnu á Eyrarbakka og Stokkseyri og vonir standa til það fari í gang sem allra fyrst.

 

 Skóla- og velferðarmál

Mikið að fjölskyldufólki flytur í sveitarfélagið og því hefur þörfin fyrir aukið skólahúsnæði vaxið hratt, hvort heldur er leikskóla eða grunnskóla.  Undirbúningur að byggingu grunnskóla í Björkurstykki hefur verið í gangi og heldur áfram af fullum þunga.  Þarfagreiningu og hönnunarvinnu er lokið og önnur undirbúningsvinna í gangi.  Á meðan skólinn er ekki komin í gagnið hefur þurft að þrengja að nemendum Sunnulækjar og Vallarskóla, en þar  hefur verið bætt við útistofum tímabundið. Ástæða er til þess að þakka starfsfólki og foreldrum þolinmæðina á meðan þetta ástand varir.  Til að mæta fjölgun í leikskólunum var á síðasta ári boðin út viðbygging við leikskólann Álfheima.  Mikil vonbrigði voru hve há tilboð í þá framkvæmd bárust, eða rúmar 500 milljónir, en  reikna má með að nýr fullbúinn sex deilda leikskóli kostar c.a 700 milljónir.  Var sú ákvörðun tekin að fara ekki í þessa framkvæmd að  sinni en ákveðið í framhaldinu að fara í aðstöðusköpun við leikskólann Álfheima. Vegna þessa var tekin ákvörðun um að hefja byggingu nýs sex deilda leikskóla við Engjaland á Selfossi.  Sú vinna er hafin og vonast til að hægt verði að taka hann í notkun haustið 2020.  Á meðan þarf að bregðast við auknum biðlistum, sem m.a lengdust verulega þegar Reykjavíkurborg tók þá ákvörðun að segja upp öllum vistunarsamningum við foreldra sem ekki eiga lögheimili í Rvk.  En nokkur börn með lögheimili í Svf. Árborg hafa sótt leikskóla til Rvk.  Til að leysa þennan vanda er verið að undirbúa að setja lausar stofur við leikskóla sveitarfélagsins næsta vetur þar til nýr leikskóli verður tilbúinn.  Allt er þetta gert til að leitast við að fjölskyldum líði vel í sveitarfélaginu og þurfi ekki að hafa áhyggjur af velferð barna sinna.

 

Íþrótta- og æskulýðsmál

Íþrótta- og æskulýðsstarf er hverju samfélagi nauðsynlegt og hægt að fullyrða að það er með miklum blóma í okkar sveitarfélagi. Stór hluti barna-og unglinga stundar einhverskonar íþrótta-og æskulýðsstarf og  með því að bjóða uppá frístundastyrki fyrir 5-17 ára, fyrir skipulagt íþrótta-og tómstundastarf, reynir sveitarfélagið að styðja við þessa þátttöku en styrkurinn er á árinu 2019, kr. 35.000,- á hvert barn.  Mjög öflugt starf er í þessum málaflokkum í sveitarfélaginu og ánægjuefni  að allir eiga að geta fundið eitthvað við sitt hæfi.  Íþróttir skipa stóran sess í sveitarfélaginu okkar og má vel sjá það með því að við eigum afreksfólk hvert sem litið er í fjölmörgum íþróttagreinum. Aðkoma sveitarfélagsins að uppbyggingu íþróttamannvirkja er með margvíslegum hætti. Metnaðarfullar hugmyndir um framtíðaruppbyggingu íþróttamannvirkja við Engjaveg hefur verið lögð fram og kynnt og ákveðið að byrja á byggingu fjölnota húss, þar sem fyrsti áfangi verður hálft hús með aðstöðu fyrir knattspyrnu og frjálsar íþróttir. Kraftmikil uppbygging hefur átt sér stað hjá GOS og stefna kylfingar  á 18 holu golfvöll við Svarfhól og vegna væntanlegrar brúar er vinna hafin við færslu vallarins og stefnt á að halda  áfram með hann upp með Ölfusá. Hestamannafélagið Sleipnir hefur unnið þrekvirki við uppbyggingu á Brávöllum, reiðhöll og keppnisaðstaða með því besta sem gerist á landinu og hefur gjörbreytt aðstöðu og tækifærum barna-og unglinga til að stunda hestamennsku.  Verið er að undirbúa vinnu við þarfagreiningu og hönnun á betri íþróttaaðstöðu á Stokkseyri, þar sem mikið uppbyggingarstarf hefur verið unnið á undanförnum árum.

 

Á dögunum var skrifað undir samning við landlæknisembættið um heilsueflandi samfélag, en helstu markmið Heilsueflandi samfélags, er að styðja samfélög í að skapa umhverfi og aðstæður sem stuðla að heilbrigðari lifnaðarháttum, heilsu og vellíðan allra íbúa. Verður spennandi að sjá hvernig það þróast hjá þeim hópi sem tekið hefur að sér að stýra verkefninu.

 

Íbúarnir eru sveitarfélagið

Sveitarfélagið Árborg er eitt af þeim sveitarfélögum á Íslandi sem í dag er í hvað mestum vexti og fólksfjölgun langt yfir landsmeðaltal ár eftir ár. Að reka sveitarfélag við þessar aðstæður er mikil áskorun og skemmtileg.  Þrátt fyrir auknar tekjur með mikilli fólksfjölgun duga þær tekjur ekki fyrir þeim framkvæmdum sem nauðsynlega þarf að ráðast í til þess að halda uppi öflugu þjónustustigi.  Því er mjög mikilvægt að horfa vel í fjármálin og forgangsraða með tilliti til þjónustu við íbúana og grunnþarfir þeirra.  Tekjur sveitarfélagsins koma að stærstum hluta frá íbúunum í formi útsvars og fasteignagjalda.  Með hækkandi fasteignamati er hægt að auka tekjur sveitarfélagsins verulega með því að leggja ár eftir ár áfram á sömu prósentu fasteignaskatts, vatnsgjalds, fráveitu ofl. Meirihluti bæjarstjórnar tók þá ákvörðun sl. haust að gera það ekki fyrir árið 2019, og milda þessa hækkun með því að lækka álagningarprósentu fasteignagjalda. Mikil vinna er framundan við að greina kostnað sveitarfélagsins til að ná fram enn frekari hagræðingu til að bæta reksturinn svo hægt verði að lækka álögur á íbúa og fyrirtæki.

 

Sveitarfélag er ekkert annað en íbúar þess, samkv. lögum og stjórnendur sem kosnir eru til að gæta hagsmuna þeirra og reka sveitarfélagið af skynsemi og með ábyrgð að leiðarljósi.

 

Helgi Sigurður Haraldsson,

forseti bæjarstjórnar Svf. Árborgar.

Eggert Valur Guðmundsson,

formaður bæjarráðs Svf. Árborgar.

 

 Dagskráin - héraðsfréttablað á Suðurlandi - 3. júlí 2019


 


Skráð af Menningar-Bakki.


 

08.07.2019 06:39

Merkir Íslendingar - Jakobína Sigurðardóttir

 

 

Jakobína Sigurðardóttir (1918 - 1994).

 

 

Merkir Íslendingar - Jakobína Sigurðardóttir

 

 

Jakobína Sig­urðardótt­ir fædd­ist í Hæla­vík á Horn­strönd­um 8. júlí 1918. 

For­eldr­ar henn­ar voru Sig­urður Sig­urðsson, bóndi í Hæla­vík, og Hall­dóra Guðna­dótt­ir hús­freyja.

 

Jakobína átti alls 12 systkini en meðal þeirra var Fríða Á. Sig­urðardótt­ir rit­höf­und­ur.


 

Jakobína flutti að Garði í Mý­vatns­sveit 1949 og bjó þar til æviloka, ásamt manni sín­um, Þorgrími Starra Björg­vins­syni, og börn­um þeirra, þeim Stef­an­íu, Sigrúnu Huld, Sig­ríði Krist­ínu og Kára. Hún stundaði nám við Ingimars­skól­ann í Reykja­vík og nám ut­an­skóla við KHÍ, en þess utan var hún sjálf­menntuð.
 

 

Jakobína sendi m.a. frá sér end­ur­minn­inga­bók, skáld­sög­ur, smá­sög­ur og ljóð en verk henn­ar komu út á ár­un­um 1959-2004. Formtilraun­ir og næm stíl­vit­und ein­kenna verk henn­ar. Hún réri ávallt á ný mið með hverju verki og fiskaði ríku­lega. Hún var form­bylt­ing­ar­höf­und­ur.


 

Fyrsta verk Jakobínu, æv­in­týrið Sag­an af Snæ­björtu Elds­dótt­ur og Ketilríði Kot­ungs­dótt­ur kom út 1959 og vakti strax at­hygli. Í kjöl­farið fylgdi kvæðasafn og síðar smá­sagna­safnið Púnkt­ur á skökk­um stað, 1964. Fyrsta skáld­saga Jakobínu, Dæg­ur­vísa, 1965, sló í gegn og var fram­lag Íslands til Bók­mennta­verðlauna Norður­landaráðs árið 1966. Auk þess var Lif­andi vatnið og Snar­an fram­lag Íslend­inga til þeirra verðlauna nokkru seinna.


 

Dæg­ur­vísa er hóp­saga, ein fárra slíkra í ís­lensk­um bók­mennt­um. Frá­sagn­ar­hátt­ur­inn í Snör­unni, 1968, er ágeng­ur; annarr­ar per­sónu frá­sögn sem er bein ræða sögu­manns frá upp­hafi til enda. Sterk þjóðfé­lags­ádeila end­ur­spegl­ast í verk­inu Lif­andi vatnið, 1974. Bók­in Í barn­dómi er ein­stök í sinni í röð; átak­an­leg og lýrísk lýs­ing á upp­vexti Jakobínu á Horn­strönd­um, undra­vert að hún skyldi ná að ljúka verk­inu fyr­ir dauða sinn.


 

Jakobína lést 29. janúar 1994.
 Skráð af Menningar-Bakki.

07.07.2019 08:21

Merkir Íslendingar - Þröst­ur Sig­tryggs­son

 

 

Þröstur Sigtryggsson (1929 - 2017).

 

 

Merkir Íslendingar - Þröst­ur Sig­tryggs­son

 

 

Þröst­ur Sig­tryggs­son skip­herra fædd­ist að Núpi í Dýrafirði 7. júlí 1929. Hann lést 9. des­em­ber 2017.


 

For­eldr­ar hans voru hjón­in Hjaltlína Mar­grét Guðjóns­dótt­ir, kenn­ari og hús­freyja, frá Brekku á Ingj­aldssandi, f. 4.7. 1890, d. 30.1. 1981, og séra Sig­trygg­ur Guðlaugs­son, prest­ur og skóla­stjóri á Núpi, frá Þröm í Garðsár­dal, f. 27.9. 1862, d. 3.8. 1959. Bróðir Þrast­ar var Hlyn­ur veður­stofu­stjóri, f. 5.11. 1921, d. 14.7. 2005.


 

Hinn 22.5. 1954 kvænt­ist Þröst­ur Guðrúnu Páls­dótt­ur sjúkra­liða, f. 23.9. 1933, d. 25.8. 2013. For­eldr­ar henn­ar voru Bjarn­heiður Jóna Guðmunds­dótt­ir hús­móðir, f. 7.9. 1910, d. 10.8. 1976, og Páll Þor­bjarn­ar­son, skip­stjóri og alþing­ismaður, f. 7.10. 1906, d. 20.2. 1975.Börn Þrast­ar og Guðrún­ar eru:
1) Mar­grét Hrönn, maki Sig­urður Hauks­son. Son­ur Mar­grét­ar er Þröst­ur Rún­ar Jó­hanns­son. 
2) Bjarn­heiður Dröfn, maki Sig­ur­jón Þór Árna­son. Börn þeirra eru Sig­trygg­ur Örn Sig­urðsson, Rúna Björg, Ell­en Dögg og Árni. 
3) Sig­trygg­ur Hjalti, maki Guðríður Hall­björg Guðjóns­dótt­ir, hún lést 1995. Syn­ir Sig­tryggs eru Þröst­ur, Guðjón Örn og Hlyn­ur. 
Fyr­ir átti Þröst­ur Kol­brúnu Sig­ríði, maki Magnús Pét­urs­son. Þeirra syn­ir eru Sig­urður Hann­es, Pét­ur Örn, Davíð Þór og Friðjón. Langafa­börn Þrast­ar eru 24.

 

 

Eft­ir lát eig­in­konu sinn­ar eignaðist Þröst­ur góðan fé­laga og vin, Hall­fríði Skúla­dótt­ur.


 

Þröst­ur ákvað nokkuð snemma að hans ævi­starf yrði á sjó. Hann tók inn­töku­próf upp í ann­an bekk far­manna í Stýri­manna­skól­an­um haustið 1952 og út­skrifaðist frá Stýri­manna­skól­an­um 1954 og lauk prófi í varðskipa­deild í sama skóla 1954. Hann réðst þá sem stýri­maður hjá Land­helg­is­gæsl­unni og varð fa­stráðinn skip­herra 1960 og starfaði þar til hann lét af störf­um árið 1990.

 

Þröst­ur kenndi tvo vet­ur við grunn­skól­ann á Þing­eyri. Reri einnig frá Þing­eyri á eig­in trillu, Palla krata, sumr­in 1993 og 1994.Hann var skóla­stjóri barna­skól­ans á Núpi 1981 til 1983 og kenndi einnig við Héraðsskól­ann á Núpi.


 

Þröst­ur var mik­ill áhugamaður um golf á þess­um árum og stofnaði golf­fé­lagið Glámu á Þing­eyri, ásamt því að teikna merki fé­lags­ins. Hann falaðist eft­ir jörð og fékk þar sem hann hannaði og gerði níu holu golf­völl. Æsku­slóðir voru hon­um hug­leikn­ar og gerði hann æsku­heim­ili sitt, Hlíð í Dýraf­irði, að menn­ing­ar­minja­safni. Átti hann hug­mynd að rit­un sögu Núps­skóla. Sú hug­mynd varð að veru­leika og kom bók­in, sem Aðal­steinn Ei­ríks­son ritaði, út í sum­ar, á 110 ára af­mæli stofn­un­ar skól­ans.

 

Minn­inga­brot Þrast­ar, bók­in „Spaug­sami spör­fugl­inn“, komu út 1987. Í til­efni gull­brúðkaups og 75 ára af­mæl­is Þrast­ar gaf hann út disk­inn „Haf­blik“ með eig­in lög­um.


 

Þröst­ur var sæmd­ur ridd­ara­krossi hinn­ar ís­lensku fálka­orðu 17. júní 1976. Hin síðari ár var hann virk­ur í starfi eldri borg­ara í Grafar­vogi og var í stjórn menn­ing­ar­deild­ar í Borg­um þegar hann lést.


 

Útför Þrast­ar fór fram frá Grafar­vogs­kirkju 19. des­em­ber 2017.
 Morgunblaðið.

 Skráð af Menningar-Bakki.

07.07.2019 07:48

Merkir Íslendingar - Benedikt Gröndal

 

 

Benedikt Gröndal (1924 - 2010). 

 

 

Merkir Íslendingar - Benedikt Gröndal

 

 

Benedikt fæddist á Hvilft í Önundarfirði 7. júlí 1924.  Foreldrar hans voru Sigurður Gröndal, rithöfundur, yfirkennari í Reykjavík og hótelsjóri að Valhöll á Þingvöllum og k.h., Mikkelína María Sveinsdóttir húsfreyja.


 

Sigurður var sonur Benedikts Gröndal, skálds og skólastjóra, af Presta-Högna ætt, og Sigurlaugar Guðmundsdóttur, en Mikkelína María var dóttir Sveins Árnasonar, bónda í Hvilft í Önundarfirði, og Rannveigar Hálfdánardóttur, systur Örnólfs í Skálavík, afa Haraldar J. Hamar ritstjóra.


 

Meðal sex systkina Benedikts má nefna Halldór Gröndal sóknarprest og Gylfa Gröndal rithöfund.


 

Kona Benedikts var Heidi Jaeger Gröndal húsfreyja sem lést 2012 og eignuðust þau þrjá syni, Jón, Tómas og Einar.

 

Benedikt lauk stúdentsprófi frá MR 1943, BA-prófi í sagnfræði frá Harvard-háskóla 1946 en með námi og að því loknu var hann blaðamaður á Alþýðublaðinu, síðan ritstjóri Samvinnunnar 1951-58 og ritstjóri Alþýðublaðsins 1959-69.


 

Benedikt var landskjörinn þingmaður Borgfirðinga fyrir Alþýðuflokkinn 1956-59, þingmaður Vesturlands 1959-78 og þingmaður Reykvíkinga 1978-82. Hann var formaður Alþýðuflokksins 1974-80 og forsætisráðherra minnhlutastjórnar Alþýðuflokksins 1979-80.


 

Benedikt var formaður Útvarpsráðs 1957-71, fulltrúi á allsherjarþingum og hafréttarráðstefnu SÞ, var formaður undirbúningsnefndar íslensks sjónvarps, sat í stjórn Seðlabanka Íslands, stjórn Framkvæmdastofnunar og Nýbýlastjórnar, í stjórn þingmannasambands NATO og sat í fjölda nefnda um endurskoðun hinna ýmsu laga. Þegar hann lét af þingmennsku 1982 var hann skipaður sendiherra í Svíþjóð og starfaði hjá utanríkisþjónustunni til 1991.


 

Benedikt sendi frá sér nokkrar bækur um stjórnmál, utanríkismál og sagnfræði.
 

 

Benedikt lést 20. júlí 2010.
Skráð af Menningar-Bakki.