Menningar-Staður
Félagsheimilið Staður á Eyrarbakka

16.06.2017 08:25

Glæsileg eldfjallamiðstöð opnuð á Hvolsvelli

 

 

Flateyringurinn Ásbjörn Björgvinsson markaðs- og sölustjóri Lava

eldfjallamiðstöðvarinnar við gagnvirkan margmiðlunarvegg.

Ljósmynd: Ragnar Th. Sigurðsson.

 

Glæsileg eldfjallamiðstöð opnuð á Hvolsvelli

 

Á síðustu helgi opnaði Lava eldfjallamiðstöð á Hvolsvelli. Að sögn Ásbjörns Björgvinssonar markaðs- og sölustjóra Lava ríkti mikil eftirvænting og spenna við opnuna eftir rúmlega þriggja og hálfs árs undirbúningstíma. Um er að ræða glæsileg mannvirki og stærstu og glæsilegustu eldfjallasýningu landsins.

„Þetta hefur verið unnið í mikilli sátt við samfélagið hér á Hvolsvelli. Við höfum átt mjög gott samstarf og fengið mikinn stuðning heimamanna við þetta verkefni, ekki síst frá sveitarstjórninni. Síðan hefur líka verið mjög ánægjulegt samstarf við bæði Jarðfræðistofnun Íslands og Veðurstofu Íslands og síðan alla þá sérfræðinga sem hafa unnið með okkur að þessari hugmynd. Þar má nefna arkitektana, margmiðlunarfyrirtækið Gagarín og fullt af öðrum flottum aðilum sem hafa komið að sýningunni. Ari Trausti Guðmundsson er okkar helsti jarðfræðingur í þessari sögu og Marcos Zotes hjá Basalt sýningarhönnuður,“ segir Ásbjörn.

 

Ásbjörn segir að þeir sem standi að Lava eldfjallamiðstöð vonist til þess að þeir geti stækkað kökuna fyrir Suðurland þannig að ferðamenn fái enn ríkari ástæðu en áður til að koma inn á svæðið og helst dvelja aðeins lengur. „Við erum að vonast til að við lengjum dvölina hjá þessum ferðamönnum sem koma til landsins, þeir dvelji lengri tíma út á landi og að það komi fram sem samlegðaráhrif til annarra aðila á svæðinu eins og gististaða, veitingastaða og verslana. Þegar upp er staðið er það von mín að þetta komi öllum til góða.“

 

„Svona sýning sem líklega er að leggja sig í hátt í tvo milljarða króna þarf auðvitað að skila eigendunum arði þegar til lengri tíma er litið. Það er mjög þolinmótt fjármagn sem er búið að standa á bak við þetta hingað til. Þeir vilja auðvitað fá sitt til baka smá saman og þá verðum við að varðveita þetta aðdráttarafl, þennan segul, sem fær fólk til að langa til að koma til okkar. Það gerum við með þessari mögnuðu sýningu sem við erum að opna. Við opnuðum fyrir gesti og gangandi um helgina sem ég er mjög glaður með. Síðan verður formleg opnun með pompi og prakt seinna í júní.“

 

Eldfjallasýningin á Hvolsvelli er alveg einstök sýning. Þar er spilað á öll skynfærin, mikið með hljóði og ljósi og birtu og öllu sem tengist skynfærunum. Fólk labbar í gegnum misturstrók og finnst eins og það sé tínt í myrkri eða reyk og jarðskjálfta sem er búinn til líka. Hljóðið er stóri parturinn af þessu þar sem fólk upplifir raunverulega hið gríðarlega afl sem er í eldgosum og jarðskorpunni hér á landi. „Fólk mun fá heilmikið fyrir peninginn í því að upplifa náttúruna á gjörsamlega nýjan og gangvirkan hátt. Fólk er þátttakandi í sýningunni. Það verður að gera eitthvað til að fá fram upplýsingarnar, hreyfa sig, stíga á punkta og fá fræðslu og í raun að vera með. Ég hef sagt að það eina sem sýningin geri sé að vekja fólk til umhugsunar um náttúruna okkar, um mikilfengleik hennar og hversu vel við þurfum að passa upp á hana. Þessi sýning er ætluð til að hreyfa við fólki og fá það til að sjá hlutina í nýju samhengi,“ segir Ásbjörn.

 

 

Hluti af sýningunni í Lava eldfjallamiðstöðinni.

Ljósmynd: Ragnar Th. Sigurðsson.


Af www.dfs.is


Skráð af Menningar-Staður


 

15.06.2017 07:09

Merkir Íslendingar - Sigurður Jensson

 

 

Sigurður Jensson (1853 - 1924).
Faðir hans var fyrsti kennarinn

við Barnaskólann á Eyrarbakka.

 

Merkir Íslendingar - Sigurður Jensson

 

Sigurður Jensson fæddist í Reykjavík 15. júní 1853. 

Foreldrar hans voru Jens Sigurðsson, f. 6.7. 1813, d. 2.11. 1872, alþingismaður og rektor Lærða skólans í Reykjavík, og k. h. Ólöf Björnsdóttir, f. 22.2. 1830, d. 7.12. 1874 húsmóðir. Jens var sonur Sigurðar Jónssonar prófasts á Hrafnseyri og bróðir Jóns forseta. Ólöf var dóttir Björns Gunnlaugssonar stærðfræðings og yfirkennara við Lærða skólann.

 

Meðal systkina Sigurðar var Jón Jensson yfirdómari og alþingismaður.
 

Sigurður tók stúdentspróf frá Lærða skólanum 1873 og guðfræðipróf frá Prestaskólanum 1876. Hann fór síðan í framhaldsnám í guðfræði við Hafnarháskóla 1877-1878.
 

Sigurður var kennari við barnaskólann í Reykjavík 1873-1876 og 1878-1880. Hann var síðan prestur í Flatey á Breiðafirði 1880-1921 og prófastur í Barðastrandarprófastsdæmi 1881-1902. Hann var póstafgreiðslumaður í Flatey 1914-1921. Hann var oddviti Flateyjarhrepps í mörg ár, amtsráðsmaður 1901-1907 og yfirskoðunarmaður landsreikninganna 1895-1902. Sigurður fékkst því við mörg opinber störf og var prýðilega vel látinn og vandaður maður, segir í andlátsfregn.

Sigurður var alþingismaður Barðstrendinga 1886-1908 fyrir Framfaraflokkinn, Landvarnarflokkinn, Sjálfstæðisflokkinn eldri. Hann var varaforseti efri deildar 1899.
 

Sigurður fékk lausn frá prestsembætti vegna heilablóðfalls 1921 og fluttist þá til Reykjavíkur og var þar til æviloka.

Eiginkona Sigurðar var Guðrún Sigurðardóttir, f. 20.2. 1862, d. 19.3. 1941, húsmóðir. Foreldrar: Sigurður Jónsson kaupmaður í Flatey og k.h. Sigríður Brynjólfsdóttir.
 

Börn Sigurðar og Guðrúnar sem upp komust voru Haraldur vélstjóri á Gullfossi, Jón raffræðingur og framkvæmdastjórii í Reykjavík, Jens gasstöðvarstjóri í Tönsberg í Noregi, Jón Sigurður bóndi og póstafgreiðslumaður í Flatey, Brynjólfur gasstöðvarstjóri í Rvík og Ólöf húsfreyja í Reykjavík.
 

Sigurður lést 5. janúar 1924.
 


Morgunblaðið.

 Hrafnseyri við Arnarfjörð.


Skráð af Menningar-Staður.

14.06.2017 07:06

17. júní 2017 - Hátíðarhöld á Eyrarbakka

 

 

 

17. júní 2017  - Hátíðarhöld á Eyrarbakka
 

 

Dagskráin verður á Stað og hefst kl. 14:30.

 

D  A  G  S  K  R  Á

 

1.  Ávarp fjallkonunnar.

2.  Hátíðarræða: Kjartan Björnsson, bæjarfulltrúi og formaður íþrótta- og tómstundarnefndar flytur.

3.  Skólakór Barnaskólans á Eyrarbakka og Stokkseyri syngur.

4.  Leikskólabörn syngja.

5.  Karítas Harpa Davíðsdóttir flytur nokkur lög.

6.  Sirkus Íslands stígur á stokk.

 

Kaffiveitingar og hressing fyrir börnin.


Kvenfélag Eyrarbakka
 


Hátíðarhöldin eru styrkt af Sveitarfélaginu Árborg

 

 
Skráð af Menningar-Staður

13.06.2017 17:23

Óánægja í Árborg vegna breytinga á póstdreifingu

 

 

Ari Björn Thor­ar­en­sen, vara­formaður bæj­ar­ráðs Árborg­ar.

 

Óánægja í Árborg vegna breytinga á póstdreifingu

 

Bæj­ar­ráð Árborg­ar hef­ur gert at­huga­semd við breyt­ing­ar sem Póst­ur­inn hyggst gera á fyr­ir­komu­lagi póstþjón­ustu í sveit­ar­fé­lag­inu. Að sögn Brynj­ars Smára Rún­ars­son­ar, fjöl­miðlafull­trúa Pósts­ins, er ekki verið að draga úr þjón­ustu við íbúa Árborg­ar, aðeins sé verið að gera breyt­ing­ar á dreif­ingu fjöl­pósts í sveit­ar­fé­lag­inu. Í stað dreif­ing­ar á fimmtu­dög­um, yrði henni nú skipt niður á fimmtu­dag og föstu­dag. Við það er bæj­ar­ráðið ósátt.

 

Ari B. Thor­ar­en­sen, vara­formaður bæj­ar­ráðs Árborg­ar, sagði í sam­tali við Morg­un­blaðið, að málið snér­ist meðal ann­ars um héraðsblöðin. Þau væru notuð und­ir hvers kyns aug­lýs­ing­ar auk annarra frétta og til­kynn­inga inn­an sveit­ar­inn­ar. „Það er mjög óhag­stætt að helm­ing­ur­inn af íbú­um sveit­ar­fé­lags­ins fái Dag­skrána sína á fimmtu­degi og hinn helm­ing­ur­inn á föstu­degi“ seg­ir Ari.

 

Þá hef­ur fyr­ir­komu­lagi á dreif­ingu og mót­töku dreifi­bréfa einnig verið breytt.

 

Í til­kynn­ingu frá bæj­ar­ráði Árborg­ar seg­ir að það sé til hins verra þar sem sveit­ar­fé­lagið nýti sér þá þjón­ustu Pósts­ins til að koma til­kynn­ing­um áleiðis.

 

Bæj­ar­ráð hef­ur sent Póst­in­um fyr­ir­spurn vegna þessa en ekki fengið svar.


Morgunblaðið 13. júní 2017.Skráð af Menningar-Staður

12.06.2017 17:36

Alþýðuhúsið á Eyrarbakka 12. júní 2017

 

 

 

Alþýðuhúsið á Eyrarbakka 12. júní 2017

Vinir alþýðunnar.

 

Myndaalbúm á þessari slóð:
http://menningarstadur.123.is/photoalbums/283101/

Nokkrar myndir:

 

.

.

 

.

.

Skráð af Menningar-Staður
 

 

12.06.2017 17:07

Orðsending til lesenda Þingeyrarvefsins

 

 

F.v.: Hallgrímur Sveinsson og Björn Ingi Bjarnason á ársfundi -Vestfirska forlagsins-

sem haldinn var þann 6. júní sl. í Simbahöllinni á Þingeyri.

 

 

Orðsending til lesenda Þingeyrarvefsins

 

   Kæru vinir.

Eins og margir ykkar vita, höfum við undirritaðir séð um að halda Þingeyrarvefnum gangandi nú um nokkurt skeið. Hefur það verið á vegum Vestfirska forlagsins og Íþróttafélagsins Höfrungs. Þetta er endalaus vinna sem hefur gefið okkur mikið í aðra hönd. Ekki er það nú í peningum talið eins og þið vitið, heldur er það fyrst og fremst ánægjan sem þar hefur verið aflvakinn. Og láta eitthvað gott af sér leiða fyrir samferðamennina og framtíðina.
 

   Mörgum þykir vænt um Þingeyrarvefinn. Hefur svo verið frá því strákarnir í Mjólká byrjuðu með hann 2003. Þar birtist oft efni sem hvergi er að finna annarsstaðar. 

Það geta allir séð með því að skoða frétta- og greinamagasínið á vefnum sjálfum. Þar kennir ótrúlega margra grasa úr samfélagi okkar. Vonandi hefur það bæði verið til gagns og gleði. Og sannleikurinn er sá, að það eru ekki margir frétta- og samfélagsvefir hér vestra sem hafa verið eins kraftmiklir og fjölbreyttir að efni og Þingeyrarvefurinn á liðnum árum.  

 

   En nú fer þessu bráðum að ljúka frá okkar hálfu af ýmsum ástæðum. (Sumir eru nú orðnir rugluð gamalmenni!). Samt ætlum við að láta sjá í sumar. Hvað svo verður í haust verður bara að koma í ljós.
 

   Með baráttukveðjum.
 

     Upp með Vestfirði!
 

      Hallgrímur Sveinsson

      Björn Ingi Bjarnason
 Skráð af Menningar-Staður

11.06.2017 09:06

Fuglaskoðun í Friðlandinu í Flóa - ofan Eyrarbakka

 

 

Í dag, sunnudaginn 11. júní, mun Alex Máni Guðríðarson leiða hópinn

en hann er mikill áhugamaður um fugla og fuglaljósmyndari. 

 

 

 -Fuglaskoðun í Friðlandinu í Flóa-
rétt ofan Eyrarbakka

 

Fuglaskoðun í júní - sunnudaga kl. 17, brottför frá bílastæðinu

 

Fuglaskoðun er afþreying sem hentar fyrir alla fjölskylduna, börn og barnabörn njóta þess að eiga samverustundir með fullorðnum úti í náttúrunni.

 

Innlendir sem og erlendir gestir hafa líka gaman af. Allt sem þarf eru stígvél því það getur verið blautt á. Sjónauki og fuglabækur koma sér líka vel. Í júní verður boð- ið upp á fuglaskoðun með leiðsögn í Friðlandinu í Flóa. Eru það dyggir félagsmenn okkar sem hafa tekið að sér, í sjálfboðavinnu, að leiða hópa um svæðið og kunnum við þeim bestu þakkir fyrir óeigingjarn starf í þágu félagsins.

Sunnudaginn 4. júní sl. reið á vaðið Hlynur Óskarsson forstöðumaður Votlendisseturs Landbúnaðarháskóla Íslands.

 

Í dag, sunnudaginn 11. júní,  mun Alex Máni Guðríðarson leiða hópinn en hann er mikill áhugamaður um fugla og fuglaljósmyndari.

 

Þriðja sunnudaginn, þann 18. júní, mun Jóhann Óli Hilmarssson, formaður Fuglaverndar vera til leiðsagnar í Friðlandinu. Sem fyrr segir hefst leiðsögn við bílastæðið kl. 17:00 þessa sunnudaga og gera má ráð fyrir um klukkustund til að njóta náttúrunnar og leiðsagnarinnar.

 

Friðlandið í Flóa - Endurheimt votlendi sem iðar af fjölskrúðugu fuglalífi. Fuglavernd hefur tekið þátt í umsjá Friðlandsins í Flóa í tvo áratugi, allt frá árinu 1997, í samstarfi við ýmsa aðila á sviði náttúruverndar og sveitarfélagið Árborg. Friðlandið í Flóa er svæði þar sem áður framræst votlendi hefur verið endurheimt í áföngum.

 

Fuglaskoðunarhús með aðgengi fyrir hjólastóla var tekið í notkun árið 2010. Meira um jarðsögu, gróðurfar og dýralíf í Friðlandinu í Flóa má lesa á vef Fuglaverndar. Um Fuglavernd Fuglavernd eru frjáls félagasamtök um verndun fugla og búsvæði þeirra. Fuglavernd telur um 1300 félagsmenn. Fuglavernd er aðili að samtökunum BirdLife International sem vinna að verndun fugla og náttúrusvæða í 120 löndum.

 

Allir velkomnir og ókeypis aðgangur.


Fuglavernd.


 

 

 

Skráð af Menningar-Staður

10.06.2017 21:07

Sjómannahelgin í Eyrarbakkaprestakalli

 

 

 

Sjómannahelgin í Eyrarbakkaprestakalli

 

Sjómannahelgin er mikil messuhelgi á Stokkseyri og Eyrarbakka.

 

Sjómannadagurinn byrjar í Stokkseyrarkirkju sunnudaginn 11. júní kl. 11. Í þessari guðsþjónustu eru skírð tvö börn og beðið fyrir sæfarendum. Þá er lagður blómsveigur að minnisvarða um drukknaða og sungið þar við kirkjuna.

Dagskrá sjómannadagsins á Stokkseyri er auglýst vel í Dagskránni og víða í blöðum og heilmikil dagskrá eftir hádegi, kaffi og allt.


Sjómannamessan í Eyrarbakkakirkju er kl. 14 og er þar einnig lagður blómsveigur að minnisvarða um drukknaða sem stendur vestan við Stað. Þaðan er farið í veglegt kaffi í Félagsheimilinu Stað sem er til styrktar björgunarsveitinni.

 

Kórar Stokkseyrarkirkju og Eyrarbakkakirkju syngja og er organisti Haukur Arnarr Gíslason.

 

Sr. Kristján Björnsson er kominn heim frá Wittenberg í Þýskalandi þar sem hann var á prestastefnu og fyrirlestrum um þýðingu siðbótarinnar í samfélagi okkar og lífi mannseskjunnar en í Wittenberg hófst siðbót Lúthers fyrir réttum 500 árum árið 1517.


Eyrarbakkaprestakall
 

 
Skráð af Menningar-Staður

10.06.2017 21:00

Sjómannadagurinn 11. júní 2017 á Eyrarbakka

 

 

 

 

Sjómannadagurinn 11. júní 2017

 

á Eyrarbakka

 

 

Dagskrá Sjómannadagsins á Eyrarbakka 2017

 

 

Dorgveiði kl. 10:00 við bryggjuna

 

Skemmtisigling fyrir alla aldurshópa frá kl.11:00-13:00

 

Sjómannadagsmessa kl 14:00

 

Kaffisala Slysavarnadeildarinnar Bjargar kl.15:00-17:00
 Björgunarsveitin Björg á Eyrarbakka

 

 

 

 

 

Skráð af Menningar-Staður

 

 

10.06.2017 20:48

Aldarminning - Einar Sturluson

 

 

Einar Sturluson (1917 - 2003).

 

 

Aldarminning - Einar Sturluson 

 

 

Tengdafaðir minn, Ein­ar Sturlu­son, söngv­ari og söng­kenn­ari, fædd­ist 10. júní árið 1917.

 

For­eldr­ar hans voru Sturla Ein­ars­son frá Jarls­stöðum í Bárðar­dal og bóndi á Fljóts­hól­um í Gaul­verja­bæj­ar­hreppi og Sig­ríður Ein­ars­dótt­ir frá Hæli í Gnúp­verja­hreppi. Sturla vann það af­rek í upp­hafi síðustu ald­ar að ganga ein­sam­all úr Bárðar­dal þvert yfir há­lendið til að fastna sér stúlku á Suður­landi.

 

Ein­ar var elst­ur sjö systkina og ólst upp á Fljóts­hól­um. Þar á bæ var tónlist í há­veg­um höfð, hljóðfæri fyr­ir hendi og mikið sungið og var það án efa kveikj­an að tón­list­ar­ferli Ein­ars. Sturla faðir hans lék á org­el og amma hans, Jó­hanna Sig­urst­urlu­dótt­ir, lék á fiðlu. Ein­ar fór sex­tán ára í Íþrótta­skól­ann í Hauka­dal og var þar í tvö ár. Að því námi loknu flutti hann til Reykja­vík­ur, fór í gagn­fræðaskóla og gekk í Iðnaðarmannakór­inn. Þá sótti hann söng­tíma hjá Sig­urði Birk­is og Pétri Jóns­syni. Ein­ar fékk í vöggu­gjöf ein­stak­lega ómþýða og fal­lega ten­órrödd sem lék sér að háa c-inu allt fram á níræðis­ald­ur.

 

Hann fór ung­ur utan til að nema söng við Kon­ung­legu tón­list­araka­demí­una í Stokk­hólmi og komst í söngnám til eins virt­asta söng­kenn­ara og söngv­ara tón­list­araka­demí­unn­ar, Josephs Hislop. Þar var hann m.a. sam­skóla Birgit Nils­son og Nicolai Gedda, sem síðar lögðu óperu­heim­inn að fót­um sér.

 

Hislop bauð hon­um að syngja í óperu­kórn­um í Stokk­hólmi og sömdu þeir um að greiðslan færi upp í náms­kostnaðinn sem var hent­ugt fyr­ir báða. Þá var verið að færa upp Ca­valler­ia Rusticana og I Pagliacci. Ten­ór­inn sem söng í Ca­valler­ia var Ein­ar And­er­sen, en hann tók við hlut­verk­inu af Jussi Björling. Ein­ar bjó hjá And­er­son um tíma og átti eft­ir að kynn­ast fleiri stjörn­um í óper­unni í gegn­um vel­gjörðarmann sinn, Ein­ar And­er­son. Þeirra á meðal var Jussi Björling sem var tal­inn einn besti ten­ór heims á þeim tíma.

 

Ein­ar söng heilt pró­gramm af ís­lensk­um lög­um í sænska út­varpið og und­ir­leik­ar­inn var Páll Kr. Páls­son sem einnig var við nám í Stokk­hólmi.

 

Björt framtíð virt­ist blasa við Ein­ari þegar hann að námi loknu hóf fer­il sinn sem ein­söngv­ari. Það var því mik­ill miss­ir fyr­ir bæði hann sjálf­an og okk­ur hin þegar Ein­ar veikt­ist af ast­ma, sem að miklu leyti batt enda á söng­fer­il hans áður en hann hófst í raun og veru. Áður hafði Ein­ar þó náð að syngja við óperu­húsið í Ósló og í óper­unni Ri­goletto í Þjóðleik­hús­inu 1951, auk þess sem hann kom fram á ein­söngs­tón­leik­um og með kór­um á næstu árum þegar heils­an leyfði. Þegar Ein­ar var kom­inn á þroskaðan ald­ur hvarf ast­minn og þá beið hans rödd­in með sín­um gamla tær­leika og krafti og háa c-ið flaug hon­um létti­lega úr hálsi.

 

Ein­ar starfaði við umönn­un aldraðra á heila­bil­un­ar­deild á elli­heim­il­inu Grund í næst­um hálfa öld. Á slíkri deild virðist vist­in oft vera held­ur dauf og dap­ur­leg. En á vakt­inni hjá Ein­ari var sungið og sög­ur sagðar með slík­um þrótti og sann­fær­ingu að ým­ist virt­ist vel heppnuð kóræf­ing standa yfir eða þá að snarkalkaðir karl­arn­ir væru að koma heim eft­ir vel heppnaðan róður með Ein­ari for­manni sín­um. Starfaði hann þar til dauðadags en tveim­ur dög­um fyr­ir and­lát sitt söng hann við messu á Grund og við messu á dval­ar­heim­il­inu Ási í Hvera­gerði.

 

Nokkru fyr­ir and­lát Ein­ars kom út tvö­fald­ur geisladisk­ur með söng hans. Á geisladisk­un­um er að finna úr­val af upp­tök­um Rík­is­út­varps­ins með söng Ein­ars á tíma­bil­inu 1948 - 1964, en að auki eru þar tvö lög tek­in upp árið 1997 á átt­ræðisaf­mæli söngv­ar­ans.

 

Þar gef­ur að heyra ís­lensk söng­lög, en einnig sálma­lög og tvö sænsk söng­lög. Mörg ís­lensku lag­anna eru sjald­heyrð, svo sem söng­lög eft­ir Hall­grím Helga­son og Ólaf Þorgríms­son.

 

Upp­tök­urn­ar eru til vitn­is um það nátt­úru­fyr­ir­brigði sem rödd Ein­ars var, björt og kraft­mik­il sem létt nær háa c-inu og smit­ar af sannri sönggleði.

 

Ein­ar kenndi söng í mörg ár við Söng­skól­ann í Reykja­vík ásamt því að raddþjálfa ýmsa kóra.

 

Ein­ar var létt­ur í lund og gam­an­sam­ur. Hann átti það til að lok­inni lækn­is­heim­sókn að borga fyr­ir sig með því að taka eina aríu með háa c-inu á biðstof­unni sem vana­lega var full af niður­dregnu fólki sem lifnaði snar­lega við óvænta uppá­komu.

 

Ein­ar kvænt­ist Unni D. Har­alds­dótt­ur og eignuðust þau þrjú börn. Ein­ar og Unn­ur slitu sam­vist­ir. Síðar kvænt­ist hann Lísalotte Bensch og ætt­leiddu þau eina dótt­ur. Ein­ar og Lísalotte slitu einnig sam­vist­ir. Eft­ir­lif­andi kona Ein­ars var Arn­hild­ur Reyn­is. Ein­ar eignaðist þrett­án barna­börn og nítj­án barna­barna­börn.

 

Ein­ar lést 15. júlí 2003.

 

Guðmund­ur Ragn­ars­son.


Morgunblaðið laugardagurinn 10. júní 2017.

 


Skráð af Menningar-Staður