Menningar-Bakki * Viðhalda og efla þjóðlega menningararfleið til sjávar og sveita*
-------- Alþýðuhúsið á Eyrarbakka - Vinir alþýðunnar - Á undan sinni framtíð --- "Stærra í hugum okkar en við sjálfir gerum okkur grein fyrir" ---

07.10.2019 20:04

Síra Gunnar Björnsson minnist 75 ára afmælis með þrennum ókeypis tónleikum

 


Síra Gunnar Björnsson spilaði í kapellunni

á Hrafnseyri við Arnarfjörð fyrir nokkrum árum.

 

 

Síra Gunnar Björnsson

minnist 75 ára afmælis

með þrennum ókeypis tónleikum

 

 

Í tilefni af 75 ára afmæli síra Gunnars Björnssonar 15. október 2019 heldur hann þrenna tónleika.  Afmælisbarnið leikur á celló, en meðleikarar á píanó verða þau Agnes Löve og Haukur Guðlaugsson.Hinir fyrstu verða Í Forsæti í Flóahreppi þriðjudaginn 15. okt. kl. 21,00.

 

Þeir verða svo endurteknir, ef Guð lofar, í Fríkirkjunni í Reykjavík sunnudaginn 20. október kl. 17,00 og á Grund við Hringbraut í Reykjavík þriðjudaginn 22. október kl. 16,30.Aðgangur er ókeypis og allir velkomnir.Skráð af Menningar-Bakki.

06.10.2019 09:45

Íslenskt sauðfé að fornu og nýju

 

 

 

 

Íslenskt sauðfé að fornu og nýju

 

 

Íslenska sauðkindin er harðger, úrræðagóð og ævintýragjörn, það vita allir sem hana þekkja. Í nýrri bók Guðjóns Ragnars Jónssonar og Aðalsteins Eyþórssonar sem kallast Kindasögur eru rifjaðar upp sögur af íslenskum kindum að fornu og nýju, afrekum þeirra, uppátækjum og viðureignum við óblíða náttúru og kappsfulla smala.

 

Í bókinni kynnumst við meðal annars Herdísarvíkur-Surtlu, Eyvindarmúla-Flekku, villifé í Tálkna, hrútnum Hösmaga í Drangey og forystusauðnum Eitli.

 

Útgefandi er Bókaútgáfan Sæmundur á Selfossi.

 

Í eftirfarandi texta grípum við niður í sögu af HerdísarvíkurSurtlu. 

 

Herdísarvíkur-Surtla

 

„Veturinn 1951 til 1952 var frekar snjóþungur. Hugðu menn þá gott til glóðarinnar að ná Surtlu því vel ætti að sjást til svartrar kindar á hvítri hjarnbreiðunni. Um veturinn var því farinn sérstakur leiðangur til að handsama hana. Ekki tókst það fremur en áður en þó náðist lambið í þessari ferð með hjálp hunda. Á útmánuðum var þess enn freistað að ná Surtlu. Í þann leiðangur fór Sæmundur Eyjólfsson, bóndi á Þurá í Ölfusi, við annan mann.

 

Um þá viðureign sagði hann í viðtali við Morgunblaðið: 

 

Við fundum hana og ég vildi setja hundinn strax á hana því ég var viss um að það væri eina leiðin til að ná henni. Sá sem var með mér vildi ekki fara þannig að henni strax. Ekki hafði Surtla lengi haft vitneskju um okkur þegar hún tók á sprett undan okkur og það get ég svarið að ég hef aldrei séð neina skepnu hlaupa eins og hana. Hún hreinlega kom tæpast við jörðina og víst er það þurfti fótfráan mann til að fylgja henni eftir. Við misstum Surtlu í þetta skiptið.

 

Sumarið 1952 var allt gert til að ná Surtlu, lifandi eða dauðri, enda styttist nú óðum í að nýtt fé frá ósýktum landshlutum yrði flutt á svæðið. Gekk það svo langt að fengin var meistaraskytta frá varnarliðinu á Keflavíkurflugvelli til að reyna að skjóta ána. Lá skotmaðurinn við í tjaldi í fjalllendinu ofan við Herdísarvík og beið færis, en allt kom fyrir ekki. Sagan segir að hann hafi ekki hleypt af einu einasta skoti í hálfan mánuð því aldrei komst hann í færi við hina ljónstyggu og fótfráu Surtlu. Að hálfum mánuði liðnum á hann að hafa skotið á vörðu, svona til þess að sjá hvort vopnin virkuðu ekki, en í sömu mund skaust Surtla fram undan vörðunni og var óðara horfin sjónum. Þá gafst bandaríski byssumaðurinn upp og frábað sér frekari viðskipti við íslenskt sauðfé.“ Bændablaðið 26. september 2019.Skráð af Menningar-Bakki.

06.10.2019 08:15

Merkir Íslendingar - Sigvaldi Hjálmarsson

 

 

Sigvaldi Hjálmarsson (1922 - 1985).

 

 

Merkir Íslendingar - Sigvaldi Hjálmarsson

 

 

Sig­valdi Hjálm­ars­son fædd­ist á Skeggja­stöðum í Bólstaðar­hlíðar­hreppi í Aust­ur-Húna­vatns­sýslu 6. október 1922. For­eldr­ar hans voru Hjálm­ar Jóns­son, bóndi á Fjós­um, og k.h., Ólöf Sig­valda­dótt­ir.

 

Sig­valdi missti móður sína er hann var þriggja ára og ólst upp eft­ir það hjá afa sín­um, Sig­valda Björns­syni, bónda á Skeggs­stöðum.
 

 

Eig­in­kona Sig­valda sem lést 2007 var Bjarney Hall­dóra Al­ex­and­ers­dótt­ir hús­freyja, frá Dynj­anda í Leiruf­irði, og eignuðust þau eina dótt­ur, Ólöfu Elfu Sig­valda­dótt­ur.
 

 

Sig­valdi lauk prófi frá Reyk­holts­skóla 1940 og kenn­ara­prófi frá KÍ 1943. Hann sinnti kennslu og skóla­stjórn í Hvera­gerði næstu þrjú árin, kenndi einn vet­ur í Reykja­vík en varð þá blaðamaður við Alþýðublaðið, rit­stjórn­ar­full­trúi og frétta­stjóri þar með hlé­um á ár­un­um 1947-72. Þá var hann rit­stjóri Fálk­ans um skeið, rit­stýrði tíma­rit­inu Úrval, var eitt ár yf­ir­maður þýðing­ar­deild­ar Sjón­varps­ins, var blaðamaður við Vísi og frétta­rit­ari sænsku frétta­stof­unn­ar TT. Jafn­framt vann hann að fé­lags­mál­um blaðamanna og rit­höf­unda. Hann gegndi trúnaðar­störf­um fyr­ir Alþýðuflokk­inn og sat m.a. í nefnd­um á veg­um hans í borg­ar­stjórn Reykja­vík­ur.
 

 

Á bernsku­heim­ili sínu kynnt­ist Sig­valdi bók­um um guðspeki, hreifst snemma af stefnu Guðspeki­fé­lags­ins, gekk í fé­lagið í Reykja­vík, var for­seti þess um ára­bil, rit­stjóri Ganglera, tíma­rits Guðspeki­fé­lags­ins, og starfaði þar óslitið til æviloka. Hann átti sæti í alls­herj­ar­ráði Guðspeki­fé­lags­ins og í stjórn Evr­ópu­sam­bands Guðspeki­fé­lags­ins. Hann stofnaði Hug­rækt­ar­skóla 1978 sem starfaði nán­ast meðan hann lifði.
 

 

Sig­valdi sendi frá sér ljóðabæk­ur, ferðap­istla og rit um hug­rækt, ind­verska heim­speki og dul­fræði.
 

 

Sig­valdi var lip­ur penni, bráðskemmti­leg­ur fyr­ir­les­ari, hressi­leg­ur og ljúf­ur í viðkynn­ingu og um­tals­fróm­ur.

 

 

Sig­valdi lést 17. apríl 1985.

 

Sigvaldi skrifað bækur um austurlensk fræði auk ferðaþátta frá Indlandi.

Eftir hann liggja alls níu bækur:

1. Eins og opinn gluggi, erindi um mystískt líf 1968, 

2. Eins konar þögn, ábendingar í hugrækt, 1973

3. Að horfa og hugsa, blaðagreinar, 1973

4. Tunglskin í trjánum, ferðaþættir frá Indland, 1974

5. Haf í dropa, þættir um yoga og austræna hugsun, 1976

6. Vatnaskil, ljóð, 1976

7. Að sjá örðuvísi, esseiar um mannlegt líf, 1979

8. Stefnumót við alheiminn, leiðbeiningar um esóteríska iðkun, 1982

9. Víðáttur, ljóð, 1984 


Skráð af Menningar-Bakki

04.10.2019 18:16

"Undirtektirnar framar öllum væntingum"

 

 
 
 

 

„Undirtektirnar framar öllum væntingum“

 

 

Á morgun, laugardaginn 5. október 2019 verður haldinn svokallaður barnavörumarkaður í samkomuhúsinu Stað á Eyrarbakka.

 

„Ég var búin að vera með þessa hugmynd svolítið lengi að hafa markað á Stað. Þá kom fyrirspurn frá henni Ágústu Sverrisdóttur að hafa barnavörumarkað á Stað og eftir það samtal fór bara allt á fullt hjá okkur,“ segir Elín Birna Bjarnfinnsdóttir, ein af skipuleggjendum markaðarins og rekstraraðili að Stað, í samtali við sunnlenska.is.

 

Elín segir að þær Ágústa eigi báðar mikið af vel með förnum barnavörum sem þær vildu gefa framhaldslíf en auk þeirra tveggja sér Ingólfur Hjálmarsson einnig um að skipuleggja markaðinn.

 

Að sögn Elínar hefur ekki verið áður haldinn barnavörumarkaður sem þessi á Eyrarbakka en þó voru haldnir markaðir á Stað fyrir einhverjum árum.

 

„Við  auglýstum eftir fólki á þennan markað og ég verð að segja að undirtektirnar voru eiginlega framar öllum væntingum. Uppselt nánast á þremur dögum frá auglýsingu og það eru nokkrir á biðlista,“ segir Elín.

 

„Á barnavörumarkaðinum verður allt sem við kemur börnum til  sölu, bæði notað og nýtt en þó verður meira af notuðum vörum til sölu. Einnig verður kaffi, vöfflur og fleira til sölu þannig að allir geta kíkt við,“ segir Elín en markaðurinn verður opinn frá klukkan 13-17.

 

„Stefnan er svo að hafa flóamarkað seinna. Við ætlum að sjá hvernig þetta gengur en miðað við eftirspurn á þennan markað held ég að flóamarkaður gangi alveg,“ segir Elín að lokum.


Af. www.sunnlenska.is 

 

Skráð af Menningar-Bakki.

03.10.2019 17:22

Mikilvæg gjöf Guðjóns Samúelssonar

 


Háskóli Íslands er eitt af glæsihúsunum sem Guðjón Samúelsson teiknaði.
 

 

 

Mikilvæg gjöf Guðjóns Samúelssonar

 

 

Arki­tekta­fé­lagi Íslands barst ný­verið 1,5 millj­óna króna höf­und­ar­rétt­ar­greiðsla frá Mynd­stefi fyr­ir verk Eyrbekkingsins Guðjóns Samú­els­son­ar, húsa­meist­ara rík­is­ins.

 

„Þessi pen­ing­ur er veru­leg upp­hæð fyr­ir fé­lagið og mun það verja þessu fjár­magni á sem skyn­sam­leg­asta máta fé­lags­mönn­um og al­menn­ingi til góðs,“ seg­ir Gerður Jóns­dótt­ir, fram­kvæmda­stjóri fé­lags­ins, í til­kynn­ingu til fjöl­miðla.

 

Þar kem­ur fram að þegar Guðjón féll frá árið 1950 hafi hann verið ókvænt­ur og barn­laus. Hann lét eft­ir sig erfðaskrá þar sem fram kem­ur að „það sem verður af­gangs af eign­um hans skuli renna til Arki­tekta­fé­lags Íslands og skal pen­ing­um varið í að út­breiða þekk­ingu á húsa­gerðarlist sér­stak­lega í ís­lensk­um anda“.

 

Í til­kynn­ing­unni kem­ur jafn­framt fram að 25. apríl 2020 verði 70 ár liðin frá and­láti Guðjóns, en skv. 43. gr. höf­und­ar­lag­anna helst höf­und­ar­rétt­ur í 70 ár. „Það þýðir að ára­mót­in 2020-2021 fell­ur höf­und­ar­rétt­ur á verk­um Guðjóns niður.“Morgunblaðið 2. október 2019.Skráð af Menningar-Bakki.

02.10.2019 18:18

Merkir Íslendingar - HALLDÓR KRISTJÁNSSON

 

 

Halldór Kristjánsson (1910 - 2000).

 

 

Merkir Íslendingar - HALLDÓR KRISTJÁNSSON

 

 

Halldór Kristjánsson fæddist á Kirkjubóli í Bjarnardal í Önundarfirði þann 2. október 1910. Foreldrar hans voru Kristján Guðjón Guðmundsson bóndi og Bessabe Halldórsdóttir.


 

Halldór lauk héraðsskólaprófi árið 1930 frá unglingaskóla á Núpi í Dýrafirði. Hann ólst upp á Kirkjubóli og gerðist þar bóndi.

Halldór starfaði sem blaðamaður við Tímann á árunum 1945-1952 en bjó þó áfram á Kirkjubóli.


 

Á árunum 1938-1945 var Halldór formaður Félags ungra framsóknarmanna í Vestur-Ísafjarðarsýslu og sat hann í miðstjórn Framsóknarflokksins frá árinu 1956.


 

Halldór átti sæti í stjórnarskrárnefnd 1945-1951 og í úthlutunarnefnd listamannalauna árið 1961. Hann gerðist yfirskoðunarmaður ríkisreikninga árið 1971. Hann var skipaður í Hrafnseyrarnefnd árið 1973. Halldór var varaþingmaður Framsóknarflokksins á Vestfjörðum og tók nokkrum sinnum sæti á Alþingi á árunum 1964-1974.


 

Halldór var ötull talsmaður gegn áfengi og öðrum vímuefnum. Hann var félagi í Góðtemplarareglunni og gegndi ýmsum trúnaðarstörfum á hennar vegum.


 

Árið 1973 settist Halldór að í Reykjavík ásamt konu sinni, Rebekku Eiríksdóttur. Þau hjónin ólu upp þrjú fósturbörn, Ósk Elínu Jóhannesdóttur, Sigríði Eyrúnu Guðjónsdóttur og Sævar Björn Gunnarsson.

 

 

Halldór lést 26. ágúst árið 2000 og Rebekka lést 28. janúar 1995.

 

 
Kirkjuból í Bjarnardal, Önundarfirði. Ljósm.: Björn Ingi Bjarnason.
 Skráð af Menningar-Bakki.

 

02.10.2019 17:11

Sigurður Sigurðarson dýralæknir - 80 ára

 

 

Á dans­leik.

Ólöf Erla Hall­dórs­dótt­ir og Sig­urður Sig­urðar­son.

 

 

Sigurður Sigurðarson dýralæknir – 80 ára

 

Leitar að miltisbruna um allt land

 

 

Sig­urður Sig­urðar­son fædd­ist 2. októ­ber 1939 á Sig­urðar­stöðum í Bárðar­dal og ólst þar upp til þriggja ára ald­urs. Hann átti heima að Keld­um á Rangár­völl­um til sjö ára ald­urs, síðan á Sela­læk í sömu sveit en flutti þaðan á tí­unda ári að Hemlu í Vest­ur-Land­eyj­um og átti þar heima fram yfir tví­tugt.

 

Sig­urður gekk í Skóga­skóla, lauk stúd­ents­prófi frá MA 1961, dýra­lækn­is­prófi frá Nor­ges Veter­inær­högskole í Ósló 1967, M.Sc.-prófi í meina­fræði búfjár við Dýra­lækna­skól­ann í London 1970, og sér­fræðiprófi í sjúk­dóm­um sauðfjár og naut­gripa í Ósló 1995. Þá var hann við fram­halds­nám og fór í náms- og fyr­ir­lestra­ferðir í dýra­lækn­is­fræðum á Suður-Græn­landi og í ýms­um fleiri lönd­um.

 

Sig­urður var rann­sókn­ar­maður hjá Sauðfjár­veiki­vörn­um sumr­in 1963-67, gegndi embætti héraðsdýra­lækn­is hér á landi og í Drammen í Nor­egi meðfram námi, kenndi við Bænda­skól­ann á Hvann­eyri 1968 og 1975-2000, sinnti rann­sókn­um við Til­rauna­stöðina á Keld­um 1968, var sér­fræðing­ur sauðfjár­sjúk­dóm­a­nefnd­ar 1969-73 og fram­kvæmda­stjóri henn­ar 1976-78, sér­fræðing­ur hjá embætti yf­ir­dýra­lækn­is frá 1973, var sett­ur yf­ir­dýra­lækn­ir 1987, var for­stöðumaður rann­sókn­ar­deild­ar Sauðfjár­veiki­varna á Keld­um 1969 og 1970-93 og síðan hjá yf­ir­dýra­lækni, sér­fræðing­ur í sauðfjár- og naut­gripa­sjúk­dóm­um á Keld­um frá 1995 og var feng­inn út að til vinna bar­áttu gegn gin- og klaufa­veiki í Englandi og Wales 2001. „Það vantaði dýra­lækna með reynslu af sjúk­dóm­um í jórt­ur­dýr­um.“ Sig­urður var einnig í Finn­mörku í Nor­egi til að kynna sér sjúk­dóma í hrein­dýr­um 2003-2004. „Mig grunaði að riðuveiki gæti fund­ist í hrein­dýr­um og það reynd­ist vera rétt síðar.“ Sig­urður hef­ur verið sér­fræðing­ur við Mat­væla­stofn­un­ina á Sel­fossi frá 2006.

 

Sig­urður sat í dýra­vernd­ar­nefnd, í Til­raun­aráði land­búnaðar­ins, í fóður­nefnd, í stjórn fé­lags til vernd­ar ís­lenska fínull­ar­fénu frá Skriðuk­laustri, hef­ur beitt sér gegn inn­flutn­ingi fóst­ur­vísa úr norsk­um kúm og fyr­ir varðveislu ís­lenska kúa­kyns­ins. Hann er virk­ur fé­lagi í Kvæðamanna­fé­lag­inu Iðunni og Kvæðamanna­fé­lag­inu Árgala á Sel­fossi og kom að stofn­un Kvæðamanna­fé­lags­ins Snorra í Reyk­holti.

 

„Ég hef aldrei hætt að vinna. Ég hef verið að leita að og staðsetja milt­is­bruna um allt land í 14 ár ásamt Ólöfu Erlu konu minni og fljót­lega er von á skýrslu frá okk­ur.

 

Á næst­unni eru að koma út tveir hljómdisk­ar með 60 söng­lög­um eft­ir mig og þar af eru 40 með textum eft­ir mig. Elsta lagið á diskn­um er 58 ára og yngsta lagið er samið á þessu ári. Ég er svo hepp­inn að vera með 28 úr­vals ein­söngv­ara á plöt­unni og þrjá kóra sem flytja lög­in. Betri er eng­inn hef­ur verið Guðmund­ur Ei­ríks­son, söng­stjóri Hörpu­kórs­ins, sem hef­ur aðstoðað marg­háttað við út­gáf­una, og Karl Þór Þor­valds­son sá um upp­töku flestra lag­anna og marg­ir þeirra komu að því líka.

 

Ég hef verið heilsu­hraust­ur en fékk gátta­flökt sem læknaðist ekki með vél­um svo ég ákvað að reyna að gleðja a.m.k. einn á dag með gam­an­sög­um, og þá læknaðist þetta, en starf mitt hef­ur orðið til þess að ég þekki fólk um allt land.“ Hól­ar hafa gefið út bæk­urn­ar Sig­urður dýra­lækn­ir I og II og Sig­urðar sög­ur dýra­lækn­is. Sig­urður fagn­ar af­mæl­inu á bökk­um Dónár.Sigurður er mjög virkur félagi í Hrútavinafélaginu Örvari á Suðurlandi og þegar hann varð 75 ára var hann á hringferð um Ísland með Hrútavinafélaginu. 

 

Fjöl­skylda

Sam­býl­is­kona Sig­urðar er Ólöf Erla Hall­dórs­dótt­ir, f. 11.10. 1940, frá Búr­felli í Gríms­nesi, fyrr­ver­andi banka­starfsmaður. Eig­in­kona Sig­urðar var Hall­dóra Ein­ars­dótt­ir, f. 21.3. 1942, d. 26.9. 2000, handíðakona og hönnuður. „Lífs­ham­ingja mín hef­ur fal­ist í því að ég hef verið ein­stak­lega kven­hepp­inn.“

 

Börn Sig­urðar og Hall­dóru eru:
1) Sig­urður Sig­urðar­son f. 1.6. 1969, tamn­ingamaður, reiðkenn­ari og hross­a­rækt­ar­bóndi á Foss­hól­um í Holt­um, gift­ur Sig­ríði Arn­dísi Þórðardótt­ur tal­meina­fræðingi, f. 3.12. 1977, börn þeirra eru Vil­borg María, f. 1999, Sig­urður Matth­ías, f. 2004, og Dag­ur, f. 2008. Börn Sig­urðar með fv. sam­býl­is­konu, Anítu Páls­dótt­ur, eru Ró­bert, f. 1992, og Rakel Dóra, f. 1998;

2) Ragn­hild­ur Sig­urðardótt­ir, f. 21.6. 1970, grunn­skóla­kenn­ari og golf­kenn­ari á Íslandi og Spáni, bú­sett í Mos­fells­bæ ásamt sam­býl­is­manni sín­um, Jóni Andra Finns­syni smið, f. 11.3. 1973, börn henn­ar með fv. sam­býl­is­manni, Þor­varði Friðbjörns­syni, eru Hild­ur Krist­ín, f. 1992 og Lilja, f. 1994. Dæt­ur Jóns Andra eru Al­ex­andra, f. 1995, og Sara Sif, f. 2001;

3) Ein­ar Sverr­ir Sig­urðar­son, f. 3.9. 1973, bif­véla­virkja­meist­ari og rek­ur Bif­reiðaverk­stæði Reykja­vík­ur, gift­ur Stein­gerði Ingvars­dótt­ur, líf­fræðingi og fjár­mála­stjóra, f. 15.1. 1974. Börn þeirra eru Daní­el Freyr, f. 1994, Elísa­bet Líf, f. 1999, Ingvar Sverr­ir, f. 2005, og Hall­dór Sverr­ir, f. 2013;

4) Sölvi Sig­urðar­son, f. 12.1. 1978, reiðkenn­ari og tamn­ingamaður, ný­flutt­ur heim frá Dan­mörku. Sam­býl­is­kona Sölva var Álf­hild­ur Leifs­dótt­ir og börn þeirra eru Hall­dóra, f. 2006, Sindri, f. 2007, og Katla, f. 2013.

Bróðir Sig­urðar er Skúli Jón Sig­urðar­son, f. 20.2. 1938, fyrrv. fram­kvæmda­stjóri hjá Flug­mála­stjórn og fyrrv. formaður Rann­sókn­ar­nefnd­ar flug­slysa, kvænt­ur Sjöfn Friðriks­dótt­ur kenn­ara.

For­eldr­ar Sig­urðar voru hjón­in Sig­urður Jóns­son, f. 8.1. 1909, d. 24.10. 1939, bóndi og smiður á Sig­urðar­stöðum i Bárðar­dal, og Krist­ín Skúla­dótt­ir, f. 30.3. 1905, d. 13.6. 1995, far­kenn­ari í Land­eyj­um og Flóa og síðast í Hemlu. Síðari maður Krist­ín­ar var Ágúst Andrés­son, bóndi í Hemlu.

 

 
Morgunblaðið miðvikudagurinn 2. október 2019.


Skráð af Menningar-Bakki.

 

30.09.2019 07:02

Lokið við hjólastíg á Eyrum

 

 

 

 

Lokið við hjólastíg á Eyrum 

 

Langþráðum áfanga náð fyrir hjólreiða- og göngufólk 

 

 

Hjólastígur með fjörunni milli Stokkseyrar og Eyrarbakka hefur verið á dagskrá bæjaryfirvalda frá því um aldamótin, eða fljótlega eftir sameiningu sveitarfélaga í vestanverðum Flóa. En góðir hlutir gerast hægt.

 

Fyrsta skóflustungan að stígnum var tekin 7. september árið 2012 af Ástu Stefánsdóttur, þáverandi bæjarstjóra. Og nú sjö árum síðar er stígurinn tilbúinn, lokið var við að malbika hann í lok ágúst.

 

Nokkur heilabrot voru um staðsetningu stígsins. Hann liggur meðfram sjóvarnargarðinum frá Stokkseyri og að brú á Hraunsá, sem var smíðuð fyrir stíginn. Síðan beygir hann inn í land og sneiðir framhjá landi Gamla-Hrauns.

 

Liggur hann um skemmtilegt votlendi þar sem skiptast á mýrar, dælir og flóð, svo og tún. Stígurinn endar á Litla-Hraunsflötum sunnan við Litla-Hraun og tengist þar gatnakerfi Eyrarbakka.

 

Efnt var til samkeppni um nafn á stíginn og varð Fjörustígur hlutskarpastur. Stígurinn hefur talsvert verið notaður, þó að hann væri ekki tilbúinn. Nú sjá hjólreiðamenn og göngufólk á Eyrum sæng sína upp reidda.

 

Unnið er að gerð stígs milli Selfoss og Eyra og verða þá allir þéttbýlisstaðir Sveitarfélagsins Árborgar tengdir með malbikuðum stígum. Enda er flatneskjan í Flóanum kjörin til hjólreiða.


Morgunblaðið - Jóhann Óli HIlmarsson.

 Skráð af Mernningar-Bakki

29.09.2019 09:11

10 hlutir sem breytast í líkamanum ef þú ferð daglega út að ganga

 


Fjörustígurinn  -StokksEyrarbakkastígurinn-  Ljósm.: Ingvar Magnússon.

 

 

10 hlutir sem breytast í líkamanum

 

  - ef þú ferð daglega út að ganga  -

 

 

Það gæti komið mörgum á óvart hvaða breytingar líkaminn gengur í gegnum ef þú ferð út og gengur á hverjum degi. Stóra spurningin er samt þessi, áttu auka korter eða hálftíma á dag til að fara út að ganga?

 

Já, ég er viss um það. Það þarf að setja sjálfa/n sig í fyrsta sæti og hreyfa sig daglega. Að fara út að ganga er ofsalega gott fyrir líkamann og mælt er með allavega hálftíma góðri göngu – kraftganga er best. Þetta er ódýrasta hreyfing sem í boði er og þú andar að þér fersku lofti og getur notið þess að vera ein/n.

 

Gott fyrir heilann

Gerðar hafa verið rannsóknir á því hvað ganga gerir fyrir heilann. Samkvæmt þessum rannsóknum þá eykur ganga endofínið í líkamanum og dregur þannig úr stressi. Að fara út að ganga gerir heilanum það gott að það getur dregið úr áhættunni á Alzheimer til muna.

 

Sjónin

Það hljómar kannski einkennilega, en að fara og ganga daglega er mjög gott fyrir sjónina. Að ganga eykur þrýsting á augu og getur þannig dregið úr gláku.

 

Hjartað

Að ganga eða hlaupa er gott fyrir hjartað. Þú getur dregið úr áhættu á hjartaáfalli og öðrum sjúkdómum tengdum hjartanu. Að ganga dregur einnig úr kólesterólinu og eykur blóðstreymi í líkamanum.

 

Lungun

Að ganga er afar gott fyrir lungun. Þau fyllast af súrefni sem nýtist líkamanum afar vel og eykur á virkni lungnanna.

 

Brisið

Komið hefur fram í rannsóknum að fólk sem gengur sér til heilsubótar er með betra jafnvægi á glúkósa í líkamanum. Þetta þýðir að þú getur hreinlega gengið og komið þannig í veg fyrir sykursýki.

 

Meltingin

Það þarf að passa upp á magaheilsuna. Gerir þú það þá ert að sporna við ristilkrabba og öðrum vandamálum eins og hægðatregðu.

 

Vöðvarnir

Þegar manneskja grennist þá rýrna vöðvarnir. Hér er verið að tala um hin frægu 10 þúsund skref á dag. Ef þú ert að grenna þig þá skaltu vinna þig upp í þennan skrefafjölda á dag. Gott er að ganga upp í móti til að auka á vöðvamassa.

 

Liðamót og bein

Ertu stirð/ur og með verki? Hálftíma ganga á dag getur dregið úr þessum verkjum í liðamótum. Einnig dregur gangan úr hættu á meiðslum og beinþynningu. The Arthritis Foundation mælir með því að ganga daglega.

 

Bakverkir

Æfingar sem reyna mikið á líkamann geta slitið bakið illa. En hins vegar að fara út að ganga getur dregið úr bakverkjum vegna þess að blóðflæði í kringum mænu og hrygg eykst töluvert.

 

Hugurinn

Að ganga ein/n frekar en með öðrum eykur góða skapið, lækkar stress og kvíða. Það hefur einnig verið talað um að það dragi úr þunglyndi.

 

Endilega deilið þessari grein fyrir okkur – allir hafa gott af því að lesa hana.

 

Þessi grein er birt í samstarfi við Heilsutorg.is - Sjá fleiri fréttir hér.

 

 

Af www.hringbraut .isSkráð af Menningar-Bakki.

29.09.2019 08:22

29. september 1833 - Jón Sigurðsson hélt til Kaupmannahafnar

 

 

Jón Sigurðsson (1811 - 1879) frá Hrafnseyri við Arnarfjörð.

 

 

29. september 1833 - 

 

Jón Sigurðsson hélt til Kaupmannahafnar

 

 

Jón Sigurðsson, 22 ára stúdent, hélt með skipi frá Hafnarfirði til Kaupmannahafnar þann 29. september 1833, þar sem hann bjó síðan. Skipið hreppti slæmt veður en kom að landi við vestanvert Jótland. Jón komst til Hafnar fyrir jól en fór ekki aftur til Íslands fyrr en tólf árum síðar, þegar endurreist Alþingi tók til starfa.

 

 

          Jón Sigurðsson (1811 - 1879).

 Skráð af Menningar-Bakki.