Menningar-Bakki * Viðhalda og efla þjóðlega menningararfleið til sjávar og sveita*
-------- Alþýðuhúsið á Eyrarbakka - Vinir alþýðunnar - Á undan sinni framtíð --- "Stærra í hugum okkar en við sjálfir gerum okkur grein fyrir" ---

22.07.2021 07:26

Merkir Íslendingar - Eiríkur J. Eiríksson

 


Eiríkur J. Eiríksson (1911 - 1987).
 

 

Merkir Íslendingar - Eiríkur J. Eiríksson

 

 

Eiríkur Júlíus Eiríksson, prestur, kennari og skólastjóri að Núpi í Dýrafirði og seinna þjóðgarðsvörður á Þingvöllum, fæddist  22. júlí 1911 að Ekru í Vestmannaeyjum en fluttist fárra vikna gamall á Eyrarbakka.

 

Faðir hans var Eiríkur Magnússon, trésmiður frá Ölfusi. Hann fluttist til Kaliforníu í Bandaríkjunum, um það leyti sem Eiríkur fæddist, og sneri aldrei aftur. Eiríkur ólst upp hjá einstæðri móður sinni, Hildi Guðmundsdóttur frá Iðu í Biskupstungum, og móðurforeldrum sínum, Guðmundi Guðmundssyni og Jónínu Jónsdóttur á Eyrarbakka.

 

Eiríkur var í barnaskóla á Eyrarbakka og fór svo í MR og varð stúdent þaðan 1932. Hann tók kennarapróf 1934 og guðfræðipróf frá HÍ 1935. Hann fór svo í framhaldsnám til Basel í Sviss.

 

Eiríkur varð kennari á Núpi í Dýrafirði 1935, tók sér árshlé meðan hann kynnti sér skólamál á Norðurlöndunum 1936-1937, fór svo aftur að kenna á Núpi og varð skólastjóri þar 1942 til ársins 1960. Á sama tíma var hann sóknarprestur á Núpi.

 

Árið 1960 varð hann prestur og þjóðgarðsvörður á Þingvöllum og gegndi þeim stöðum til ársins 1981. Hann hætti þó ekki að sinna skólamálum því hann hafði mikil afskipti af Ljósafossskóla og var m.a. prófdómari þar og sat í skólanefnd.

 

Eiríkur var einn af forustumönnum ungmennafélagshreyfingarinnar. Hann sat í stjórn UMFÍ frá 1936 og var formaður UMFÍ í um 30 ár. Landsmótin voru honum mikið hjartans mál og átti hann þátt í því að endurvekja þau með Landsmótinu í Haukadal 1940. Hann var ritstjóri Skinfaxa, málgagns UMFÍ, um árabil, skrifaði margar greinar í blöð og tímarit og var mikill ræðuskörungur.

 

Kona Eiríks var Dýrfirðingurinn Sigríður Kristín Jónsdóttir, f. 5. október 1917, d. 17. febrúar 1999. Foreldrar hennar voru Jón Ólafsson, bóndi á Gemlufalli í Dýrafirði og kona hans, Ágústa Guðmundsdóttir.

 

Kristín gekk í Núpsskóla þar sem hún kynntist arftaka sr. Sigtryggs Guðlaugssonar, sr. Eiríki Júlíusi Eiríkssyni frá Eyrarbakka, sem síðar varð einnig skólastjóri á Núpi um 18 ára skeið. Kristín og sr. Eiríkur giftust þann 6. nóv. 1938.

 

Húsmæðranám stundaði Kristín í Kvennaskólanum í Reykjavík en búskap sinn hófu þau í nýju prestshúsi á Núpi 1940 og þá fæddist fyrsti sonurinn, Aðalsteinn, sem skrifað hefur veglaga bók um sögu Núpsskóla og kom út árið 2017.  Átta börn til viðbótar eignuðust þau á Núpi, Guðmund, f. 1943, Jón, f. 1944, Hildur, f. 1947, Ágústa, f. 1948, Jónína, f. 1952, Magnús f. 1953, Guðmundur, f. 1954 og Ásmundur, f. 1959.

 

Á afmælisdegi Kristínar 1984 gáfu þau hjónin Héraðs- og bæjarbókasafninu á Selfossi bókasafn sitt, mikið að vöxtum, ákveðið tákn ævistarfs þeirra og hugsjóna.

 

 

Eiríkur lést í Félagsheimilinu Borg í Grímsnesi 11. janúar 1987 og hafði þá nýlokið afmælisræðu yfir vini sínum.


Hjónin sr. Eiríkur J. Eiríksson og Sigríður Kristín Jónsdóttir hvíla í kirkjugarðinum á Eyrarbakka.

 

 

 

Hjónin Eiríkur J. Eiríksson og Kristín Jónsdóttir.

.


Sr. Eiríkur J. Eríksson.
.


Að Núpi í Dýrafirði um 1950.
.


Núpur í Dýrafirði.

.

 

.


Skráð af Menningar-Bakki.

 

21.07.2021 21:27

Bornholmfáni á Bakkanum

 

 

 

 

-- Bornholmfáni á Bakkanum --


 

.

.

.

.

.

.

Skráð af Menningar-Bakki.

 

 

21.07.2021 09:18

Merkir Íslendingar - Sveinbjörn Finnsson

 


Sveinbjörn Finnsson (1911 - 1993).
 

 

Merkir Íslendingar - Sveinbjörn Finnsson

 

 

Svein­björn Finns­son fædd­ist þann 21. júlí 1911 á Hvilft í Önund­arf­irði.

For­eldr­ar hans voru Finn­ur Finns­son, bóndi þar, f. 1876, d. 1956, og k.h. Guðlaug Jakobína Sveins­dótt­ir, hús­freyja. For­eldr­ar Finns voru Finn­ur Magnús­son, bóndi á Hvilft, og k.h. Sig­ríður Þór­ar­ins­dótt­ir, og for­eldr­ar Guðlaug­ar voru Sveinn Rós­inkr­anz­son, út­vegs­bóndi og skip­stjóri á Hvilft, og k.h. Sig­ríður Svein­björns­dótt­ir, hús­freyja.

 

 

Svein­björn lauk stúd­ents­prófi frá Mennta­skól­an­um á Ak­ur­eyri árið 1933 og hag­fræðiprófí frá London School of Economics 1939.
 

Hann var verk­smiðju­stjóri Síld­ar­verk­smiðju rík­is­ins á Sól­bakka í Önund­arf­irði 1935-1937, full­trúi í Verðlags­nefnd og Tveggja­manna­nefnd 1939-1941, skrif­stofu­stjóri Viðskipta­nefnd­ar ut­an­rík­is­viðskipta 1941-1942 og fyrsti verðlags­stjóri á Íslandi 1943-1946.
 

 

Sveinbjörn Finnsson var frum­kvöðull humariðnaðar á Íslandi og byggði upp veiðar, frystiaðferðir og markaði 1950-1954.Hann var hvatamaður að stofn­un Styrkt­ar­fé­lags lamaðra og fatlaðra 1952 og var fram­kvæmda­stjóri þess 1957-1962. Hann átti sæti í fyrstu stjórn Öryrkja­banda­lags­ins.
 

Svein­björn kenndi við Voga­skóla í Reykja­vík 1963-1979 og var yfir­kenn­ari 1978-1979 og gerðist einn brautryðjenda í starfs­fræðslu í skól­um lands­ins.
 

Svein­björn var staðarráðsmaður við Skál­holt 1964-1990, en hann var einn af stofn­end­um Skál­holts­fé­lags­ins sem hef­ur unnið að því að end­ur­reisa Skál­holtsstað.
 

Svein­björn var sæmd­ur Skál­holtsorðunni, til minn­ing­ar um vígslu Skál­holts­kirkju árið 1963, og gullþjón­ustu­pen­ingi með kór­ónu af Dana­drottn­ingu árið 1973.


 

Eig­in­kona Svein­björns var Thyra Finns­son, fædd Fri­is Ol­sen 30.1. 1917, d. 8.8. 1995, frá Slag­el­se í Dan­mörku. Hún var hús­freyja og rit­ari.


Börn þeirra:


Gunn­ar, f. 1940, d. 2014, Arn­dís, f. 1943, Hilm­ar, f. 1949, og Ólaf­ur William, f. 1951.

 

 

Svein­björn Finns­son lést þann 1. apríl 1993.

 

________________________________________________

 

Í afmælisgrein um Sveinbjörn Finnsson sjötugan þann 21. júlí 1981 skrifaði Ólafur Haukur Árnason m.a. í Morgunblaðinu:

 

Ekki er á almanna vitorði þáttur Sveinbjörns Finnssonar í sigri okkar í landhelgisdeilunni við Breta þegar fært var út í 12 mílur. Þar munaði heldur betur um verk hans og mun sú saga væntanlega skráð síðar.

 

Þann dag var einnig í Morgunblaðinu:

 

Sveinbjörn Finnsson, sæll minn kæri 
senda skal þér kveðju hlýja.
Óskandi þér auðnan færi
ennþá marga daga nýja.

Enn þú heldur austurleiðir,
— ekki bregður vana þínum.
Fagurt Skálholt faðminn breiðir, 
— fagnar einkavini sínum.

 


Auðunn Bragi Sveinsson.


 


Hvilft í Önundarfirði.

Íbúðarhúsið er elsta steinhús í Önundarfirði og byggt árið 1911.
.

 

,

 

Skráð af Menningar-Bakki.
 

 

21.07.2021 07:59

Skötumessan í Garði 21. júlí 2021

 


Myndir frá Skötuveislu í Garðinum árið 2010 þar sem Hrútavinir voru áberandi.

 

 

   --- Skötumessan í Garði 21. júlí 2021---

 

 

Árleg skötumessa í Garði í Suðurnesjabæ verður í dag,  miðvikudag, 21. júní 2021, en hefð er fyrir því að veislan sé á þeim degi vikunnar næst Þorláksmessu á sumri sem er jafnan 20. júlí.

 

Samkoman verður í Gerðaskóla og hefst kl. 19. Að venju er boðið upp á skötu, saltfisk og plokkfisk með tilheyrandi tólg, kartöflum, rófum og rúgbrauði.

 

Dagskrá kvöldsins er fjölbreytt og góð. Þórólfur Þorsteinsson og Baldvin Arason leika á harmóníkur, Páll Rúnar Pálsson frá Heiði í Mýrdal syngur og félagarnir Davíð Guðmundsson og Óskar Ívarsson taka lagið.

 

Ræðumaður kvöldsins verður Óttar Guðmundsson geðlæknir. Þá tekur ung söngkona frá Hellu, Karen Guðmarsdóttir, nokkur lög en hún stundar nú söngnám í London. Jarl Sigurgeirsson tónlistarmaður stjórnar fjöldasöng. Í lokin flytja Rúnar Þór og hljómsveit hans nokkur þekkt lög.

 

„Styrkur Skötumessunnar birtist í því að það eru allir sem koma og leggja okkur lið sem eru þátttakendur í því að leggja okkar veikari bræðrum og systrum lið og góðum samfélagslegum málum,“ segir í fréttatilkynningu um verkefni þetta, þar sem Ásmundur Friðriksson alþingismaður er í forystu.

 

Árlega hafa um 450 manns mætt á Skötumessuna, sem er orðin föst í sessi.

 

Messan er nú í þriðja skipti haldin í sameinuðum Suðurnesjabæ og er því tækifæri fyrir íbúa að gera þetta að sinni árlegu bæjarskemmtun, mæta vel og styðja við góð málefni.

 

Styrkir kvöldsins, sem eru veglegir, fara meðal annars til þeirra sem standa höllum fæti eftir kórónuveirufaraldurinn. Þá eru greiddar skólamáltíðir fyrir ungt fólk og aðstoð veitt á ýmsan hátt.

 

Aðgöngumiði á hátíðina kostar 5.000 kr. og best þykir að greiða fyrirfram á reikningsnúmerið 0142-05- 70506 með kennitölunni 580711- 0650.

 

Helstu bakhjarlar Skötumessu eru Fiskmarkaður Suðurnesja, Icelandair Cargo, Suðurnesjabær og Algalíf.

 

 

.

.

 

.

.

.

.

.

.

.

.

,

,

.

 Skráð af Menningar-Bakki

 

 

20.07.2021 15:53

Merkir Íslendingar - Hagalín Guðmundsson

 


Hagalín Guðmundsson (1921 - 2019).
 

 

Merkir Íslendingar – Hagalín Guðmundsson

 

Hagalín Guðmundsson fæddist þann  20. júlí 1921 í Innri-Hjarðardal, Önundarfirði.

 

Foreldrar hans voru Sigríður Hagalínsdóttir, f. 1885, d. 1947, og Guðmundur Gilsson, f. 1887, d. 1978.

 

Systkini Hagalíns eru níu:

Gils (1914-2006), Ingibjörg (1916-2014), Helga (1918-1940), Þórunn (1920-2011), Kristján (1923-2013), Magnús (1924-2006), Ragnheiður (1925-2014), Páll (1927-2016) og Bjarni, f. 1930.

 

Árið 1950 kvæntist Hagalín Þórdísi Guðmundsdóttur (1924-1992) frá Ytra-Vatni, Skagafirði.

 

Börn þeirra eru:

1) Yngvi, f. 1950, kvæntur Guðbjörgu Halldórsdóttur. Fyrri kona hans var Sólveig Victorsdóttir. Þau eiga einn son,

2) Sigríður, f. 1952, gift Skafta Þ. Halldórssyni. Þau eiga þrjú börn,

3) Guðrún, f. 1953, gift Arne B. Vaag. Þau eiga þrjá syni,

 4) Guðmundur, f. 1956, kvæntur Ágústu Halldórsdóttur. Þau eiga þrjú börn.

 

Hagalín stundaði nám við Núpsskóla 1939-40 og síðar við Bændaskólann á Hvanneyri 1943-1945. Þau Þórdís tóku alfarið við búinu í Innri-Hjarðardal 1950 og bjuggu þar til ársins 1988 er þau fluttust í Kópavog þar sem Hagalín bjó þar til hann fór á Hjúkrunarheimilið Grund 2016.

 

Hagalín sinnti ýmsum störfum meðfram búskapnum. Hann var mjólkurbílstjóri og sláturhússtjóri á Flateyri, var í hreppstjórn Mosvallahrepps, formaður Búnaðarfélags Mosvallahrepps, Ræktunarfélags V-Ísafjarðarsýslu, og sat í skólanefnd Holtsskóla.

 

Hagalín kom á fót sjóminjasafni við Hjarðardalsnaust. Á seinni árum fékkst hann við ýmiskonar handverk, svo sem bókband en þó einkum glerlist.

 

Hagalín Guðmundsson lést þann 11. september 2019 á Hjúkrunarheimilinu Grund í Reykjavík.

 

 

Séð yfir Vöðin í Önundarfirði, Holtsodda og í Hjarðardal.Skráð af Menningar-Bakki.

 

20.07.2021 07:53

20. júlí - Þorláksmessa að sumri

 

 

 

20. júlí - Þorláksmessa að sumri

 

 

Þorláksmessa á sumri er 20. júlí. Verndardýrlingur Íslendinga er Þorlákur helgi. Sumarið 1198 var helgi Þorláks Þórhallssonar samþykkt á Alþingi og bein hans tekin upp og skrínlögð 20. júlí. Þorláksmessa á vetur er 23. desember, á dánardegi hans. Þorláksmessa á sumar var til siðaskipta einn helsti hátíðisdagur sunnanlands  og þá var haldin mikil samkoma í Skálholti.

 


Síðustu ár eru einnig til dæmi um skötuveislur þennan dag.

 

 

Skráð af Menningar-Bakki

 

19.07.2021 07:08

Morgunstund

 

 

 

 

      --- Morgunstund ---

 

 

Morgunstund í Menningar-Sellunni að Ránargrund á

 

Eyrarbakka-Flötum og árið er 2014. 

Skráð af Menningar-Bakki.

 

18.07.2021 08:39

Merkir Íslendingar - Brynjólfur Árnason

 

 

 

Brynjólfur Árnason (1921 – 2018)

 

 

Merkir Íslendingar - Brynjólfur Árnason

 

 

Brynjólfur Sigurður Árnason fæddist í Minna-Garði í Dýrafirði þann 12. júlí 1921.

 

Foreldrar hans voru Árni Kristján Brynjólfsson, bóndi á Kotnúpi í Dýrafirði, f. 10. september 1887, d. 1977, og Hansína Guðrún Guðjónsdóttir, ljósmóðir í Dýrafirði, f. 3. nóvember 1887, d. 1966. Bróðir Brynjólfs var Guðjón Arnór, f. 13. júní 1916, d. 8. maí 2012.

 

 Eiginkona Brynjólfs var Brynhildur Kristinsdóttir, f. 25. júlí 1935, frá Vífilsmýrum í Önundarfirði. Þau gengu í hjónaband 25. apríl 1957 og stunduðu búskap á Vöðlum í Önundarfirði til 2011 er þau fluttu í þjónustuíbúð á Hlíf á Ísafirði og síðar á dvalarheimilið Tjörn á Þingeyri. Brynhildur lést þann 8. apríl 2020

Börn þeirra eru:

1) Gunnhildur Jóna, Flateyri, f. 1957. Maki Þorsteinn Jóhannsson, f. 1952.

Börn þeirra: a) Arnór Brynjar, f. 1982, maki Isak Gustavson, b) Jón Ágúst, f. 1986, maki Hrefna Erlinda Valdemarsdóttir. c) Jóhann Ingi, f. 1989, maki Gerður Ágústa Sigmundsdóttir.

2) Árni Guðmundur, Vöðlum, f. 1963. Maki Erna Rún Thorlacíus, f. 1961.

Börn þeirra: a) Jakob Einar, f. 1983 (faðir Jakobs er Jakob Jakobsson) maki Sólveig Margrét Karlsdótti , b) Brynjólfur Óli, f. 1989. c) Benjamín Bent, f. 1995,  maki hans er Rakel Ósk Rögnudóttir.

3) Guðrún Rakel, Þingeyri, f. 1970. Maki er Jón Sigurðsson, f. 1973.

Börn þeirra: a) Hildur f. 1991, maki Emil Ólafur Ragnarsson, b) Agnes, f. 1997, maki Andri Marinó Karlsson (faðir Hildar og Agnesar er Sólmundur Friðriksson), c) Hanna Gerður, f. 2003.

 

Brynjólfur flutti með foreldrum sínum og bróður að Kotnúpi í Dýrafirði á fyrsta ári og ólst þar upp. Hann lærði á orgel, nótnalestur og tónfræði fyrir fermingu hjá sr. Sigtryggi á Núpi og Hjaltlínu konu hans, en hún var móðursystir Brynjólfs.

Brynjólfur varð búfræðingur frá Hvanneyri 1945 og árið eftir keyptu bræðurnir Vaðla í Önundarfirði, sem höfðu verið í eyði í eitt ár. Árið 1947 flutti öll fjölskyldan, ásamt Rakel móður Hansínu, að Vöðlum þar sem þeir bræður byggðu upp öll hús og ræktuðu tún. Einnig byggðu þeir heimarafstöð árið 1952 sem dugði fyrir heimilið og búið og gengur enn fyrir gömlu húsin.

Meðfram búskap gegndi Brynjólfur ýmsum trúnaðar- og félagsstörfum, s.s. í sóknarnefnd, búnaðarfélagi og hreppsnefnd Mosvallahrepps, en þar var hann oddviti 1982-1986.

Brynjólfur var organisti í Holtskirkju í um 40 ár, allt til ársins 2000. Hann spilaði jafnframt í afleysingum í sex kirkjum á svæðinu þegar mest var. Tíu árum seinna, 2010, gaf hann út nótnabók með eigin sönglögum við ljóð Guðmundar Inga Kristjánssonar frá Kirkjubóli í Bjarnardal, Önundarfirði.

Brynjólfur spilaði einnig á harmonikku og spilaði á böllum og samkomum til margra ára. Það var hans helsta dægrastytting að spila á nikkuna síðustu ár meðan kraftar hans leyfðu.

 

Brynjólfur Árnason lést á Hjúkrunarheimilinu Bergi í Bolungarvík þann 8. október 2018.  

 

Útför hans fór fram frá Holtskirkju í Önundarfirði  20. október 2018.

 

 

Fjölskyldan á Vöðlum í Önundarfirði fyrir 50 árum.

F.v.: Brynjólfur Árnason, Rakel Brynjólfsdóttir, Gunnhildur J. Brynjólfsdóttir,

Árni Brynjólfsson og Brynhildur Kristinsdóttir.Skráð af Menningar-Bakki.

 

17.07.2021 14:28

Bera mikla virðingu fyrir náttúrunni

 

 

Filip Polách, Lukas Polách og Víðir Björnsson.

Ljósm.:  Haraldur Jónasson

 

 

Bera mikla virðingu fyrir náttúrunni

 

Wildness þróa útivistarfatnað úr endurunnu plasti,

fiskinetum úr sjónum og lífrænum efnum.

 

 

Wildness er sjálfbært útivistarfatamerki sem notar efni framleitt úr endurunnu plasti, fiskinetum úr sjónum og lífrænum efnum. Merkið er einn þeirra níu sprota sem valdir voru til þátttöku í Startup Supernova-viðskiptahraðlinum sem Icelandic Startups sér um.

„Það er fyrirtæki sem heitir Healthy Seas sem tekur fiskinetin og plastið úr sjónum, sem fer frá þeim til annars fyrirtækis sem sérhæfir sig í að endurvinna plast og framleiðir efnið sem við erum að vinna með í fatnaðinn okkar. Fatnaðurinn er svo saumaður af litlu fjölskyldufyrirtæki í heimabæ Filips og Lukasar, sem er pínkulítill fjallabær í Tékklandi. Við viljum að öll framleiðslan, allt frá því að fiskinetið er dregið úr sjónum, sé 100% umhverfisvæn og þessi fyrirtæki sem við vinnum með eru með alþjóðlegar umhverfisvottanir. Við vitum alltaf alveg nákvæmlega hvaðan efnið sem við notum kemur," segir Víðir Björnsson, einn þriggja eigenda Wildness.

Hann segir Wildness leggja áherslu á að hönnun fatnaðarins sé hversdagsleg.

„Við leggjum áherslu á að fólk geti mætt í skyrtu frá okkur í vinnuna og brunað svo beint upp í fjall án þess að þurfa að skipta um föt. Mikið af útivistarfatnaði er rosalega litríkt og stíllinn þannig að maður færi kannski ekki í honum í matarboð. Okkar hönnun er ætlað að vera hversdagsleg og stílhrein, í okkar huga getur fólk alveg verið pínu smart þótt það sé að fara upp í fjall."

 

Vilja leggja hönd á plóg

 

Hugmyndin að Wildness kviknaði fyrst hjá tékknesku tvíburunum Filip og Lukas Polách, sem eiga Wildness ásamt Víði.

„Þeir voru atvinnuskíðamenn í Tékklandi og fundu fyrir því að snjórinn minnkaði stöðugt milli ára og hugsuðu með sér að það væri líklega vegna hlýnunar jarðar. Vegna snjóleysisins í Tékklandi ákváðu þeir að flytja hingað til Íslands til þess að geta haldið áfram að skíða. Þeir veltu þessu mikið fyrir sér og fóru að hugsa um hvort þeir gætu ekki gert eitthvað í þessu, lagt hönd á plóg til að draga úr hlýnun jarðar," segir Víðir.

Hann segir tvíburana hafa verið með hugmyndina í kollinum í um fjögur ár en sjálfur hafi hann komið inn í hópinn fyrir rúmlega hálfu ári.

„Við erum allir brimbrettastrákar og ég kynntist þeim bara úti í sjó hérna á Íslandi, þar sem ég var alltaf að rekast á þá. Við fórum svo að hanga meira saman og fara í alls konar leiðangra, en við spjölluðum mikið um hvað við bærum mikla virðingu fyrir náttúrunni og hvort við gætum ekki gert eitthvað til þess að leggja okkar af mörkum í umhverfismálum. Þeir voru þá búnir að vera að hanna stöku flíkur og láta sauma og þar sem við erum allir svo miklir útivistarfíklar ákváðum við að kýla á það að hanna okkar eigin útivistarfatnað með því að nýta plast úr sjónum."

 

Hraðallinn hraðar ferlinu

 

Hann segir að eftir að hann slóst í lið með þeim hafi þeir farið að einbeita sér að hugmyndinni af alvöru.

„Við ákváðum að sækja um í Startup Supernova og núna erum við fyrst að ná að vera allir 100% í þessu og hlutirnir farnir að gerast. Við erum að klára að framleiða flíkurnar sem eru gerðar úr fiskinetum þannig að þær eru á leiðinni, þannig að ég myndi segja að við værum bara rétt að byrja núna."

Viðskiptahraðallin hafi þannig verið lyftistöng fyrir sprotann. „Það má segja að þetta hafi verið almennilegt spark í rassinn. Við höfum svo mikinn tíma til þess að vinna í þessu og svo erum við að mynda alveg rosalega öflugt tengslanet hér með því að hitta allt þetta fólk og alla þessa frábæru mentora. Hraðallinn er að flýta mikið fyrir öllu og er bara algjör snilld."


Viðskiptablaðið greinir frá

 Skráð af Menningar-Bakki.

 

 

12.07.2021 07:02

Merkir Íslendingar - Karvel Pálmason

 

 

Karvel Pálmason (1936 - 2011). 

 

 

Merkir Íslendingar - Karvel Pálmason

 

 

Karvel Pálmason (Karvel Steindór Ingimar) fæddist í Bolungarvík  þann 13. júlí 1936. Foreldrar hans voru Pálmi Árni Karvelsson sjómaður þar í bæ og Jónína Eggertína Jóelsdóttir ráðskona.

 

Karvel stundaði fjölbreytt störf í Bolungarvík á árunum 1950-1971. Sjómaður 1950–1958 og síðan verkamaður til 1962. Lögregluþjónn 1962–1971 og jafnframt kennari við barna- og unglingaskólann þar.

 

Hann var kjörinn á Alþingi árið 1971 fyrir Frjálslynda vinstrimenn. Hann sat á þingi til ársins 1991. Hann var formaður þingflokks Samtaka frjálslyndra og vinstri manna á árunum 1974-1978.

 

Karvel var formaður Verkalýðs- og sjómannafélags Bolungarvíkur um árabil, varaforseti Alþýðusambands Vestfjarða, sat í miðstjórn Alþýðusambands Íslands og var um tíma varaformaður Verkamannasambands Íslands.

 

Karvel sat í hreppsnefnd Hólshrepps á árunum 1962-1970, í Rannsóknaráði ríkisins árin 1971-1978 og í stjórn Fiskimálasjóðs frá 1972- 1989. Hann átti sæti í stjórn Byggðastofnunar á árunum 1991-1995 og sat í flugráði um tíma.

 

Eftirlifandi eiginkona Karvels er Martha Kristín Sveinbjörnsdóttir f. 27. ágúst 1935. Foreldrar hennar Sveinbjörn Rögnvaldsson og kona hans Kristín Hálfdánardóttir.


Karvel og Martha eignuðust fjögur börn:


Pálmi Árni (1952), Kristín Hálfdánar (1953), Steindór (1958), Jónína (1960).

 

Karvel Pálmason var vaskur maður, jafnan glaður og reifur, og gamansamur í samskiptum við samstarfsfólk. Hann reyndist dugmikill þingmaður og ræktaði gott samband við kjósendur sína. Mest beitti hann sér í sjávarútvegsmálum, samgöngumálum og byggðamálum, og öðrum þeim málum sem vörðuðu hag þess kjördæmis þar sem hann var kosinn. Hann gekk þegar í upphafi þingmennsku sinnar ódeigur til starfa þótt hann hafi ekki stefnt þangað sem ungur maður eða átt sér á þeim tíma drauma um frama í stjórnmálum. Það varð hans hlutskipti eigi að síður og undir því reis hann með sóma.

 

Er Karvel var um fimmtugt veiktist hann og gekkst undir mikla skurðaðgerð en náði aldrei fullri heilsu á ný. Er hann lét af þingmennsku 1991 hvarf hann á ný á heimaslóðir sínar í Bolungarvík. Hann sinnti áfram opinberum málum, var m.a. í stjórn Byggðastofnunar í fjögur ár og enn fremur um alllangt skeið í flugráði. Að öðru leyti fékkst hann við smíðar, enda hagleiksmaður í þeim efnum. Naut hann þess að hafa hjá sér í „Kallastofu“ vini sína og samferðarmenn til að ræða um landsins gagn og nauðsynjar og glettast við þá.

 

 

Karvel Pálmason lést þann 23. febrúar 2011.

 

 

 

Karvel Pálmason í pontu á frægum framboðsfundi á Þingeyri.
 

 

Vestfirskir jafnaðarmenn funda framan við Kallastofu í Bolungarvík fyrir 30 árum.
F.v.: Fríða Jónsdóttir, Hendrik Óli Tausen, Daði Guðmundsson, Björn Ingi Bjarnason,

Karvel Pálmason (1936 - 2011) og Martha Kristín Sveinbjörnsdóttir.
Ljósm.: Jóna Guðrún Haraldsdóttir.Skráð af Menningar-Bakki.