Menningar-Bakki * Viðhalda og efla þjóðlega menningararfleið til sjávar og sveita*
-------- Alþýðuhúsið á Eyrarbakka - Vinir alþýðunnar - Á undan sinni framtíð --- "Stærra í hugum okkar en við sjálfir gerum okkur grein fyrir" ---

04.04.2020 13:13

Brynjúlfsmessa og Bændablaðið

 

 

 

 

 Brynjúlfsmessa og Bændablaðið

 

 

Brynjúlfsmessa var sunnudaginn 23. febrúar sl. í Stóra-Núpskirkju í Hrunaprestakalli. Þar var minnst skáldsins, heimspekingsins og fræðimannsins Brynjúlfs Jónssonar á Minna-Núpi sem fæddur var 26. september 1838 og dáinn 16. maí 1914 á Eyrarbakka og hvílir í kirkjugarðinum þar.


Séra Óskar Hafsteinn Óskarsson sóknarprestur minntist Brynjúlfs Jónssonar í stólræðu sinni að vönduðum og innihaldsríkum hætti. Þorbjörg Jóhannsdóttir organisti stjórnaði sameinuðum kirkjukór Ólafsvalla- og Stóra-Núpskirkna.


Sóknarnefndin bauð gestum í veglegt messukaffi á eftir í Félagsheimilinu Árnesi. Þar söng kirkjukórinn nokkur lög sem hæfðu vel tilefninu.


Kirkjuráð Hrútavinafélagsins Örvars á Suðurlandi var í Stóra-Núpskirkju og Árnesi. Félagsins alsjándi auga og alheyrarndi eyra fangaði þessar góðu stundir.

 

Sjá Bændablaðið 2. apríl 2020.

https://www.bbl.is/files/pdf/bbl_7.tbl.2020_web_iii.pdf

 

 

 Skráð af Menningar-Bakki.

03.04.2020 20:23

Úthlutun úr húsafriðunarsjóði 2020

 

 

Húsið á Eyrarbakka. Ljósm.: Björn Ingi Bjarnason.

 

Úthlutun úr Húsafriðunarsjóði 2020
 

 

Úthlutað hefur verið úr Húsafriðunarsjóði árið 2020.

 

Veittir eru 228 styrkir að þessu sinni að upphæð 304.000.000 kr. 

 

Alls bárust 283 umsóknir, þar sem sótt var um rétt rúmlega einn milljarð króna.

 

Lista yfir þau verkefni sem fengu styrk má finna hér .Úthlutun til Eyrarbakka er þessi:
 

 

 

 
 


Skráð af Menningar-Bakki.

30.03.2020 17:35

83 ár frá strandi Loch Morar

 


Togarinn Loch Morar.
 

 

83 ár frá strandi Loch Morar

 

Seint í kvöld, 30. mars 2020, eru 83 ár frá því skoski togarinn Loch Morar strandaði í brimgarðinum milli Eyrarbakka og Stokkseyrar, um það bil 500 faðma frá skerjagarðinum út undan Gamla Hrauni, á stað sem kallast Framnesrif eða Hraunstangar.

 

Á togaranum vor 12 menn og fórust allir. Lík 6 þeirra fundust í fjörum við Eyrarbakka næstu vikur og mánuði og voru jarðsett í Eyrarbakkakirkjugarði.

 

Loch Morar lagði úr höfn í Aberdeen 22. mars 1937 áleiðis til Íslandsmiða undir stjórn Walter Edward Barber sem var reyndur og dugandi skipstjóri. En hvað varð til þess að skipið strandaði í brimgarðinum á Eyrarbakka verður víst aldrei vitað.

 

Í hádeginu þann 29. mars 2017 þegar 80 ár voru frá strandi togarans, komu um 30 menn héðan úr Flóanum saman á Menningar-Stað á Eyrarbakka til minningar-máltíðar um skipverjana 12 á Loch Morar og var á borðum siginn fiskur sem veiddur var af Mána ÁR frá Eyrarbakka verkaður var við Félagsheimilið Stað á Eyrarbakka.

 

 

Kristján Runólfsson orti:

 

Aldrei hef ég auðan disk,
ýmsar krásir fæ að smakka,
senn ég fer í siginn fisk,
hjá Siggeiri á Eyrarbakka.

 

Jafnframt heiðruðum viðstaddir minningu þeirra Gunnars Olsen og Jóns Hákons Magnússonar sem báðir hafa látist nú á síðustu misserum.

 

Siggeir Ingólfsson og Reynir Jóhannsson lýstu því yfir að þeir mundu taka við merki þeirra Gunnars Olsen og Jóns Hákons Magnússonar og sjá um viðhald krossana á leiðum skipverjanna af Loch Morar í Eyrarbakkakirkjugarði.

 

Vestfirska forlagið á Þingeyri lagði til bækur í bókalottó eins og það gerir gjarnan á samkomum Vina alþýðunnar sem stóðu fyrir þessari minningarstund árið 2017.

 

Menningar-Staður færði til myndar.

 

Myndaalbúm með 37 myndum er á Menningar-Stað.

 

Smella á þessa slóð: http://menningarstadur.123.is/photoalbums/282426/

 


Skráð af Menningar-Bakki.

 

29.03.2020 09:10

Ein kind á dag kemur skapi í lag

 

 

 

 

Ein kind á dag kemur skapi í lag

 

 

Hann vill gleðja fólk á tímum samkomubanns þegar honum er meinað að messa í Hruna, og setur inn dag hvern færslu á fésbók með mynd af einni kind og sögu með. Séra Óskar segir kindur hafa sterka persónuleika.

 

"Daginn sem samkomubannið var sett á og mér meinað að messa í bili, þá datt mér í hug að ég gæti dundað mér við það þegar ég fer til daglegra gegninga að horfa yfir kindahópinn minn og velja eina kind hvern dag til að taka mynd af og segja frá á Fésbókarsíðu minni. Sauðkindin hélt jú lífi í þjóðinni og gerir enn, þær hafa bjargað ófáum dögum hjá mér kindurnar mínar. Það kitlar hégómagirndina þegar maður sér að það eru einhverjir sem hafa gaman af þessu og þá færist maður í aukana,“ segir Óskar Hafsteinn Óskarsson, prestur í Hruna í Hrunamannahreppi, en færslur hans á fésbók um kindur hafa vakið mikla lukku á tímum samkomubanns. 

 

„Mér finnst þetta mjög skemmtilegt og ég ætla að halda þetta út í þrjátíu daga. Í þessum færslum segi ég meðal annars frá skapgerðareinkennum kindanna og samskiptum mínum við þær. Til dæmis frá glímu sem varð til þess að við lentum bæði úti í skurði, ég og hún Kelda mín. Ótal sögur eru í raun til í kringum hverja kind, í gær sagði ég frá því hvernig slysaskot varð kind til lífs. Hún heitir Sniðug og var sett á sem smálamb og átti að fara í sláturhús næsta haust, en hún sá við mér og var búin að komast í hrút án þess að ég yrði þess var. Þetta hefur reynst hin ágætasta kind og slysaskotið með hrútnum varð hennar gæfa. Náttúran fer sínar eigin leiðir og sýnir að við mannfólkið stjórnum ekki öllu,“ segir Óskar og bætir við að hann eigi töluvert inni af sögum sem tengist samskiptum hans við nágranna hans í tengslum við kindur.

 

„Ég hef til dæmis átt feiknalega skemmtileg samskipti við Eirík nágranna minn og vin hér í Ási um fé. Hann hefur kennt mér margt.“

 

Oft má sjá svip af fólki

 

Óskar tók við 40 kindum af Eiríki forvera sínum í Hruna þegar hann flutti þangað fyrir rúmum fimm árum ásamt Unu konu sinni og þremur börnum.

 

„Okkur hefur þótt þetta svo skemmtilegt að við höfum fjölgað kindunum með hverju árinu og nú eru þær orðnar 110. Una er alin upp við lítils háttar fjárbúskap en ég hafði aldrei komið nálægt þessu fyrr. Ég hef alltaf haft gaman af skepnum og var í sveit sem strákur í Mýrdalnum en þar voru aðeins kýr. Þetta var alveg ný upplifun fyrir mig og ég kann afskaplega vel við kindurnar. Þegar maður er með svona fátt fé er þetta allt fyrir ánægjuna og ég get leyft mér alls konar sérvisku og skemmtilegheit. Á hverju hausti förum við feðgarnir ýmist á Snæfellsnes eða í Öræfin að kaupa hrúta,“ segir Óskar og bætir við að kindur hafi sterka persónuleika og ólíka skapgerð.

 

„Rétt eins og við mannfólkið geta sumar tuðrur aldrei verið til friðs og fara sínar eigin leiðir, en svo eru hinar sem eru ekkert nema tryggðin og gæðin við mann. Oft má líka sjá svipi af mannfólki í kindum, sumar eru nauðalíkar ákveðnum einstaklingum.“ 

 

Spenntur með nýja hrúta

 

Óskar segir að kollegar hans, aðrir prestar, undrist stundum hvað hann sé að vesenast í þessum búskap, og spyrji hvort það sé ekki fullt starf að vera prestur.

 

„Þá svara ég því til að þetta sé sannarlega hluti af því að vera prestur í sveit. Ég hefði ekki kynnst nágrönnum mínum nándar eins vel ef ég hefði ekki verið með fé. Það eru svo margvísleg samskipti sem maður á við fólk í gegnum sauðfé. Ég held ég væri í allt annars konar tengslum við mjög margt fólk hér í sveitinni ef ég væri aðeins í því að messa.“

 

Nú hallar í sauðburð og Óskar segist eiga von á fyrsta lambi í lok apríl.

 

„Ég var með nokkra nýja lambhrúta í fengitíðinni og var spenntur að fara af stað. Lambhrútar geta verið seinir í gang ef maður hefur fóðrað þá of vel. Ég bjargaði einni jólapredikun með því að segja frá hrútnum sem gagnaðist ekki kindunum þegar ég sleppti honum í þær. Ég hafði hlakkað mikið til, keypti hann á Snæfellsnesi. Ég setti hann í svelti í þrjá daga og hleypti honum til að því loknu og þá virkaði allt. Ég gerði það sama við mitt jólaguðspjall, ég svelti mig frá því í nokkra daga, því mér fannst ég alltaf vera að segja það sama öll jól. Þetta svelti mitt virkaði,“ segir Óskar, sem ætlar að halda ótrauður áfram með daglegar kindafærslur á fésbók. „Maður verður líka að passa sig að þetta vatnist ekki út. Þetta er á meðan það er, við þurfum að gleðja okkur á þessum erfiðu tímum.“ 

 

Kristín Heiða Kristinsdóttir

khk@mbl.is

Morgunblaðið fimmtudagurinn 26. mars 2020

 

------------------------------------------------------------------Kirkjuráð Hrútavinafélagsins Örvars á Suðurlandi var við fjölmenna Brynjúlfsmessu hjá séra Óskari Hafsteini Óskarssyni í Stóra-Núpskirkju sunnudaginn 23. febrúar 2020.Nokkrar myndir en fleiri koma síðar:

 

.

.

.

.

.

.

.

.

.

.

.

.

.

.

 

Embættisfólk Stóra-Núpskirkju eftir Brynjúlfsmessu 23. febrúar 2020.

 

F.v.: Ámundi Kristjánsson, Minna-Núpi, gjaldkeri sóknarnefndar, 

Árdís Jónsdóttir Eystra-Geldingaholti, ritari sóknarnefndar,

Kristjana Heyden Gestsdóttir, Hraunteigi, formaður sóknarnefndar,

Þorbjörg Jóhannsdóttir, Stóra-Núpi, kórstjóri og orgelleikari,  

séra  Óskar Hafsteinn Óskarsson, sóknarprestur í  Hrunaprestakalli, 

Oddur Guðni Bjarnason, Stöðulfelli, hringjari

og Hannes Sigurðsson, Hrauni í Ölfusi og félagi í Kirkjuráði

Hrútavinafélagsins Örvars.
 

Ljósm.: Björn Ingi Bjarnason.Skráð af Menningar-Bakki.

 

29.03.2020 08:17

Merkir Íslendingar - Þórhallur Vilmundarson

 

 

Þórhallur Vilmundarson (1924 - 2013)

 

Merkir Íslendingar - Þórhallur Vilmundarson

 

Þórhallur Vilmundarson fæddist á Ísafirði 29. mars 1924. Foreldrar hans voru hjónin Kristín Ólafsdóttir læknir, f. 1889, d. 1971, og Vilmundur Jónsson landlæknir, f. 1889, d. 1972.
 

Þórhallur lauk stúdentsprófi frá Menntaskólanum í Reykjavík árið 1941 og cand. mag.-prófi í íslenzkum fræðum frá Háskóla Íslands árið 1950 og stundaði nám við háskólana í Ósló og Kaupmannahöfn 1950-1951.
 

Þórhallur var kennari við Menntaskólann í Reykjavík árin 1951-1960. Hann kenndi íslenzka bókmenntasögu við heimspekideild Háskóla Íslands 1960-1961, var skipaður prófessor í sögu Íslands árið 1961 og var forseti heimspekideildar árin 1969-1971. Þórhallur var forstöðumaður Örnefnastofnunar frá stofnun hennar árið 1969 til 1998 og formaður örnefnanefndar. Hann átti sæti í nýyrðanefnd 1961-1964 og Íslenzkri málnefnd 1964-2001.
 

Eftir Þórhall liggja ýmis sagnfræðileg ritverk og útgáfur. Hann fékkst þó einkum við nafnfræði síðustu áratugina, gaf út Grímni, rit um nafnfræði, 1980-1996 og birti margar greinar um íslenzk örnefni í íslenzkum og erlendum fræðiritum. Þá vöktu fyrirlestrar Þórhalls um náttúrunöfn, dýrlingaörnefni og önnur kirkjuleg örnefni, sem hann hélt við HÍ á árabilinu 1966-1995, mikla athygli. Náttúrunafnakenningin svonefnda snýst um að mannanöfn séu lesin út úr örnefnum en ekki öfugt; örnefnin séu ekki endilega tengd mannanöfnum eins og Landnáma og aðrar heimildir gefa í skyn. Með tilkomu kenningarinnar vaknaði nýstárleg og gagnleg umræða um uppruna fjölda örnefna.
 

Þórhallur var kvæntur Ragnheiði Torfadóttur, f. 1.5. 1937, fyrrverandi rektor MR. Foreldrar hennar voru Anna Jónsdóttir, f. 1912, d. 1992, og Torfi Hjartarson, tollstjóri og ríkissáttasemjari, f. 1902, d. 1996. Börn Þórhalls og Ragnheiðar: Guðrún, Torfi og Helga.
 

Þórhallur lést 27. nóvember 2013.
 Skráð af Menningar-Bakki.

28.03.2020 08:55

Kona forsetans - Ingibjörg Einarsdóttir

 


Úr jólablaði Ísfirðings í desember 1992.

Ingibjörg Einarsdóttir var fædd 9. október 1804,

dáin 16. desember 1879 í Kaupmannahöfn.

 

 

Kona forsetans - Ingibjörg Einarsdóttir

 

 

Guðmundur Ingi Kristjánsson skáld á Kirkjubóli í Bjarnardal í Önundarfirði:
 

 

Kona forsetans - Ingibjörg Einarsdóttir


 

Kvæði þetta var ort í júní 1992 fyrir áeggjan eða tilmæli Matthíasar Guðmundssonar vélsmíðameistara á Þingeyri. Það var síðan flutt á Hrafnseyrarhátíð 17. júní s.l. (1992).


 

Hann fór til Hafnar að finna sér frama og mennt.

Til frægðar og íslenskra stórræða var honum bent.

Hún sat í festum og unnustans elskandi beið,

einlæg og sterk meðan tólf ára biðtími leið.

 

Þá kom hann aftur og loksins var giftingin gerð.

Gafst henni sambúð og ævilöng Danmerkurferð.

Henni var falið að varðveita hamingju hans,

heimilisfegurð og rausn þessa vinsæla manns.

 

Hann sat í ljóma og hélt þar sín umræðuþing.

Hún stóð á bak við og verk hennar þögul í kring.

Samræmi hússins bar uppi sinn íslenska þátt,

örugga framsókn og hvatning í sjálfstæðisátt.

 

Ellin kom til hans og heilsunni hrakaði þá.

Hjúkrun og umsjá í verkahring konunnar lá.

Eftir hann látinn var auðveld hin síðasta ró.

Erindum lokið. Þá gekk hún til hvíldar og dó.

 

 

 


Blaðið Ísfirðingur í mars 1993

 Skráð af Menningar-Bakki.

26.03.2020 17:55

Áhugamálin eru félagsmálin

 

 

 

Áhugamálin eru félagsmálin
 


Þórður Grétar Árnason byggingameistari – 70 ára

 

Þórður Grétar Árnason er fæddur 26. mars 1950 í Reykjavík og ólst upp í Reykjavík, Gnúpverjahreppi og á Stokkseyri. Hann var í sveit í tvö sumur, 1963 og 1964, í Miðfirði á bænum Fosskoti. „Þar var húsakosturinn torfbær og voru allir búskaparhætti fornir, allt slegið með orf og ljá. Þá var farið einu sinni á ári í kaupstað til að gera innkaup fyrir árið.“

 

Þórður gekk í grunnskóla Stokkseyrar en var síðan á sjó frá Stokkseyri þegar hann var 15 og 16 ára. Hann hóf nám í húsasmíði hjá Kaupfélagi Árnesinga (KÁ) haustið 1967 og var í Iðnskólanum á Selfossi. Hann fékk sveinsbréf 1970 og meistarabréf 1973.

 

Þórður og Vigdís kona hans hófu búskap á Selfossi 1970 og vann Þórður hjá KÁ þar til hann hóf eigin atvinnurekstur 1975. Hann rak einnig bílasölu og söluturn á árunum 1986 og 1987. Þórður hefur sinnt viðhaldsvinnu fyrir Selfosskaupstað sem síðar varð Sveitarfélagið Árborg í yfir 40 ár ásamt annarri vinnu fyrir fyrirtæki og einstaklinga. „Ég hef byggt nokkur hús á Selfossi og flutti hús sem var byggt 1934 frá Austurvegi í Hrísholt og gerði það síðan upp. Ég byggði einnig þrjú einbýlishús í Ólafsvík og skipti um þak á kirkjunni þar, en mestöll vinnan hefur verið viðhaldsvinna fyrir sveitarfélögin hér á Selfossi.“

 

Þórður var í Leikfélagi Selfoss á árunum 1982 til 1990, gjaldkeri og jafnframt starfandi formaður fyrir Knattspyrnudeild UMF Selfoss 1984 til 1986. Hann var í aðalstjórn UMF Selfoss frá 1986 til 1998, þar af formaður 1996 til 1998. Hann sat í stjórn Héraðssambands Skarphéðins frá 1986 til 1991 og var um tíma framkvæmdastjóri. Hann var í Lionsklúbbi Selfoss um tíma og gekk í Oddfellow-stúkuna Hástein nr. 17 árið 2010 og hefur gegnt ýmsum trúnaðarstörfum þar. Hann hefur setið í sóknarnefnd Selfosskirkju frá 2014.

Þórður er stjórnarmaður í Kirkjuráði Hrútavinafélagsins Örvars en það hefur m.a. það verkefni að heimsækja allar kirkjur á Suðurlandi. „Áhugamál mín eru félagsstörfin fyrst og fremst, ég er ekki í golfi eða neinu slíku.“

 

Fjölskylda

 

Eiginkona Þórðar er Vigdís Hjartardóttir, f. 2.3. 1951, húsmóðir og starfsmaður á leikskóla. Foreldrar hennar: Hjónin Hjörtur Leó Jónsson, f. 26.5. 1918, d. 24.4. 2007, hreppstjóri og garðyrkjubóndi á Eyrarbakka, og Sesselja Ásta Erlendsdóttir, f. 28.9. 1921, d. 2.4. 2017, húsfrú og verkakona á Eyrarbakka.

 

Börn Þórðar og Vigdísar eru:

 

1) Þórdís Erla Þórðardóttir, f. 15.10. 1970, snyrtifræðingur, búsett á Selfossi. Eiginmaður hennar var Guðjón Ægir Sigurjónsson, f. 4.1. 1971, d. 5.1. 2009. Sambýlismaður Þórdísar er Sigurlaugur Birgir Ólafsson, f. 14.10. 1968, prentsmiður og á hann tvær dætur. Börn Þórdísar og Guðjóns eru a) Hjörtur Leó Guðjónsson, f. 9.10. 1994, nemi í HÍ, en sambýliskona hans er Inga Þórs Yngvadóttir, f. 10.11. 1994, nemi í HÍ; og b) Harpa Hlíf Guðjónsdóttir, f. 4.7. 1997, nemi í HÍ;

2) Árni Leó Þórðarson, f. 7.11. 1973, smiður, búsettur í Reykjavík. Dóttir hans er Vigdís Halla Árnadóttir, f. 17.8. 2003, nemi í Tækniskólanum.

 

Systkini Þórðar eru:

Hinrik Ingi Árnason, f. 11.11. 1951, smiður, búsettur í Reykjavík;

Sigurður Þórarinn Árnason, f. 8.11. 1952, búsettur í Hveragerði.

 

Hálfsystkini Þórðar sammæðra eru:

Þórir Steindórsson, f. 10.6. 1955, búsettur í Svíþjóð;

Anna Brynhildur Steindórsdóttir, f. 27.2. 1959, búsett í Reykjavík,

og Steingerður Steindórsdóttir, f. 11.9. 1962, búsett í Reykjavík.

 

Foreldrar Þórðar:
Ágústa Anna Valdimarsdóttir, f. 19.12. 1931, fyrrverandi verkakona, búsett í Reykjavík, og Árni Theodórsson, f. 19.6. 1927, d. 29.7. 2014, verslunarmaður í Reykjavík, þau skildu. Stjúpfaðir Þórðar: Steindór Guðmundsson, f. 29.9. 1921, d. 10.11. 1993, fangavörður.

 

 Morgunblaðið fimmtudagurinn 26. mars 2020

 

Skráð af Menningar-Bakki.

25.03.2020 18:21

Krían

 

 

 

 

    ----Krían----

 

 

 
 


Skráð af Menningar-Bakki.

 

25.03.2020 07:09

- BIBarinn grúskar í myndasafninu

 

 

F.v.: Kristján Runólfsson (látinn), Björn Ingi Bjarnason og Jóhann Páll Helgason.

 

 

- BIBarinn grúskar í myndasafninu

 

 

 BIBarinn grúskar í myndasafninu sem telur í tugþúsundum.


Menningarkakó í Bókakaffinu á Selfossi hver dagurinn er 17. janúar 2014.


Menningarráð Hrútavinafélagsins Örvars. F.v.: Kristján Runólfsson (látinn), Björn Ingi Bjarnason og Jóhann Páll Helgason.
 Skráð af Menningar-Bakki.