![]() |
Árið 1993 kom út bókin Hjálparorð fangans – orð til íhugunar og bænir, eftir Hrein S. Hákonarson, fangaprest þjóðkirkjunnar.
Nú er komin önnur útgáfa af þessari bók, stytt og endurskoðuð. Skálholtsútgáfan – útgáfufélag þjóðkirkjunnar gefur hana út eins og hina fyrri.
Í bókinni er að finna íhuganir sem eru sérstaklega ætlaðar föngum; hver íhugun byggir á ákveðnum ritningarstað. Þá er að finna nokkur kjarnaatriði kristinnar trúar í bókinni, eins og boðorðin tíu og postullegu trúarjátninguna auk nokkurra kunnra bæna.
Fyrsta útgáfan sem kom út fyrir rúmum 25 árum er löngu gengin til þurrðar. Bókinni er dreift endurgjaldslaust til fanga í fangelsum landsins en þeir kunnu að meta bókina á sínum tíma og ekki ástæða til að ætla en að þau sem eru nú í fangelsum landsins taki endurútgáfunni vel.
Bókin er gefin út með aðstoð kirkjunnar og nokkurra valinkunnra einstaklinga.
|
||||
![]() |
Menningar- og bæjarhátíðin „Vor í Árborg 2019″ verður haldin 25. – 28. apríl 2019.
Skipulagning er á undirbúningsstigi og hvers kyns tillögur að dagskráratriðum og/eða hugmyndum um menningarviðburði eru vel þegnar.
Hér með er óskað eftir þátttöku félaga og samtaka, einstaklinga og áhugahópa, fyrirtækja og stofnanna.
Fjölskylduleikurinn, „Gaman- saman sem fjölskylda”– verður áfram hluti af hátíðarhöldunum. Sértakt vegabréf verður gefið út með dagskrá hátíðarinnar sem stimplað verður í eftir þátttöku í atburðum og heimsóknum á viðburði. Vegabréfinu er síðan skilað inn eftir hátíðina og eiga þátttakendur möguleika á veglegum vinningum.
Áhugasamir hafi samband við Ólaf Rafnar Ólafsson, atvinnu- og viðburðafulltrúa, olafur.rafnar@arborg.is eða Braga Bjarnason, menningar- og frístundafulltrúa, bragi@arborg.is eða í síma 480-1900.
Með von um góðar undirtektir,
Íþrótta- og menningarnefnd Sveitarfélagsins Árborgar
Skráð af Menningar-Staður.
![]() |
Sigurður Eggerz (1875 - 1945). |
Sigurður Eggerz ráðherra fæddist á Borðeyri 1. mars 1875.
Foreldrar hans voru Pétur Friðriksson Eggerz, kaupstjóri þar, og Sigríður Guðmundsdóttir húsfreyja.
Í ættum Sigurðar og fjölskyldu eru óvenju margir alþingismenn og ráðherrar, s.s. bróðir hans, Guðmundur, alþingismaður og sýslumaður, og tveir mágar hans, Páll Ólafsson, ritstjóri og alþingismaður, og Ólafur Thorlacius alþingismaður, faðir Kristjáns Thorlacius sem var formanns BSRB og varaþingmaður.
Þá var Sigurður kvæntur Solveigu, dóttur Kristjáns Jónssonar ráðherra, bróður Péturs ráðherra og Steingríms, alþingismanns og bæjarfógeta á Akureyri, en þeir voru synir Jóns Sigurðssonar, alþingismanns og héraðshöfðingja á Gautlöndum, og eru því af Gautlandsætt og Reykjahlíðarætt, fjölmennustu ráðherraætt landsins.
Tengdamóðir Sigurðar var hins vegar Anna Þórarinsdóttir, dóttir Þórarins Böðvarssonar alþingismanns sem átti ræturnar að Holti í Önundarfirði.
Sigurður lauk stúdentsprófi frá Lærða skólanum 1895 og lögfræðiprófi frá Hafnarháskóla 1903. Hann var sýslumaður á nokkrum stöðum, lengst af i Vík í Mýrdal, var alþingismaður 1911-1915, 1916-1926 og 1927-1931. Hann varð ráðherra Íslands 1915 en sagði af sér ári síðar er konungur vildi ekki fallast á fyrirvarann um uppburð íslenskra mála í Ríkisráði Dana. Þá var Sigurður fjármálaráðherra 1917-20 og forsætisráðherra 1922-24.
Sigurður var síðan bankastjóri Íslandsbanka frá 1924 þar til bankinn var lagður niður 1930. Hann sinnti lögmannsstörfum í Reykjavík, var bæjarfógeti á Ísafirði 1932-34 og á Akureyri 1934-1945.
Sigurður var fyrirmannlegur og höfðinglegur á velli, þótti flekklaus, ljúfur og alþýðlegur, og umtalsverður áhugamaður um skáldskap eins og fleiri stjórnmálamenn þá.
Sigurður lést 16. nóvember 1945.
Morgunblaðið.
Skráð af Menningar-Staður.
![]() |
Þau láta sér ekki leiðast þó hætt séu að vinna.
Björg og Emil halda nokkrar geitur og kindur þar sem þau búa á Eyrarbakka og auk þess safnar Emil kaffikrúsum.
Þau segja geitur vera sérlega mannelskar skepnur.
Þessi bollasöfnun á upphaf sitt í því að fyrir um þrjátíu árum átti ég erindi í fyrirtæki í Reykjavík og á leið minni þaðan út sá ég í glugga á stigaganginum drulluskítuga krús sem merkt var fyrirtækinu og ég greip hana og stakk henni í vasann. Allar götur síðan hef ég safnað fyrirtækjabollum, íslenskum og erlendum, og nú eru krúsirnar orðnar um 120. Ég setti mér ákveðið markmið þegar ég byrjaði að safna þessum krúsum, þær áttu að vera merktar fyrirtækjum og þeim átti að vera stolið. En ég hef farið mikið út af því spori í gegnum tíðina, því fólk hefur gefið mér margar krúsir til að bæta í safnið. Ég er orðinn latur við að kíkja sjálfur eftir krúsum, krakkarnir koma mest með þetta til mín núorðið,“ segir Emil Ragnarsson þar sem hann sýnir blaðamanni bollasafnið sitt á heimili sínu og eiginkonunnar Ingibjargar Guðmundsdóttur á Eyrarbakka.
Þegar bollarnir eru skoðaðir kemur í ljós að margir þeirra eru minnisvarðar horfinna fyrirtækja. „Sumir þessir bollar hafa sannarlega náð að endast betur en fyrirtækin sjálf, en svo eru líka margir þeirra með eldri lógóum sem ekki eru lengur í notkun þó fyrirtækin lifi, til dæmis er hér gamall bolli frá Landsbankanum með lógói sem aðeins eldra fólk man eftir. Bankarnir hafa sumir lagt upp laupa og lifnað við aftur með nýjum lógóum,“ segir Emil og dregur fram bolla frá Pósti og síma með löngu gleymdu lógói. Athygli vekur að þrír bollar í safni Emils eru merktir Morgunblaðinu og hafði sá nýjasti bæst í hópinn aðeins fyrir viku , en allt eru það gamlir Moggabollar sem ekki sjást lengur á borðum í því fyrirtæki.
„Ég á líka þrjá bolla úr Kántrýbæ á Skagaströnd og engir tveir eru eins. Einn er meira að segja með vísu: „Sendu burtu sorg og kvíða, söngurinn til hjartans nær, á sér framtíð örugglega, útvarpsstöðin Kántrýbær.“
Þegar gramsað er í bollasafni Emils kennir ýmissa grasa, þar er meðal annars Herjólfur, Vísindakaffið, Kveðja úr Dýrafirði og Skátar Úlfljótsvatni. Og sumir bollarnir tengjast góðum minningum, á einum þeirra stendur
„Til hamingju með Gilsfjarðarbrúna“. „Fyrir meira en tveimur áratugum vann ég í þrjú ár við að brúa Gilsfjörðinn. Kaupmaður í sveitinni lét gera bolla með þessari áletrun og þegar brúin var tilbúin þá gaf hann okkur bollana sem vorum að vinna við verkið.“
Í stofu þeirra hjóna, Emils og Bjargar, eins og Ingibjörg er oftast kölluð, vekur athygli fallegt uppstoppað höfuð mórauðrar geitar sem prýðir einn vegginn.
„Hún var fædd og uppalin hjá okkur þessi geit, en dóttursonur okkar laumaðist til að taka hausinn þegar við vorum að slátra og lét stoppa hann upp og gaf mér í afmælisgjöf,“ segir Emil, en þau hjón hafa haldið geitur undanfarin tuttugu ár.
„Geitastandið okkar hófst með hrekk. Maður sem bjó á Stokkseyri sótti geitur á Vorsabæ á Skeiðum og fór með þær, einn hafur og eina huðnu, og laumaði í fjárhúsið hjá nágranna sínum. Til að hrekkja hann. En nágranninn kippti sér ekkert upp við þetta og leyfði geitunum að vera hjá sér. Seinna gaf hann dóttursyni okkar geiturnar sem höfðu þá fjölgað sér um eitt kið. Við hýstum geiturnar þrjár fyrir strákinn í fjárhúsinu okkar, en við höfum alltaf verið með nokkrar kindur. Seinna gaf svo strákurinn okkur geiturnar og allar götur síðan höfum við haldið geitur. Þeim fjölgaði smátt og smátt, enda líkar okkur vel við geitur, þó þrjóskar séu í skapi. Þær eru ekkert voðalega vinsælar hjá öðrum hér í kring, en þær eru ekkert að abbast upp á neinn. Við setjum þær á mýrina á vorin og þar halda þær hópinn allt sumarið. Við fylgjumst með þeim í kíki og það er skemmtilegt að sjá að þær ganga alltaf í röð,“ segir Björg og bætir við að þau hafi grisjað duglega í geitastofninum síðast liðið haust. „Þær voru orðnar of margar og of skyldleikaræktaðar. Þær voru orðnar átján en nú eru aðeins fimm eftir, hafurinn Bæring og fjórar huðnur.“
Þau segjast fyrst og fremst halda geiturnar sér til gamans og nytji ekki neitt af þeim nú orðið. „En hér áður fyrr létum við súta heilmikið af geitaskinni og það var vinsælt til gjafa,“ segir Björg og bætir við að kjötið af geitunum sé ósköp magurt. „En við höfum prófað að grilla það og reynst gott. Nágranni okkar hefur fengið geitalæri hjá okkur á haustin og látið tvíreykja og það er sælgæti.“
Björg segir að ekki gangi að hafa geiturnar saman við kindurnar í fjárhúsinu, þær verði að vera alveg sér. „Þær voru yfirgangssamar og ruddu kindunum frá garðanum, vildu sitja einar að heyinu. Það er ekki heldur hægt að hafa þær saman úti í haga, en þær halda sig alveg sér úti og vilja ekkert með kindurnar hafa þar. Hafurinn hefur forystuna og sér alveg um að halda sínum huðnum hjá sér,“ segir Björg og bætir við að geiturnar séu sérlega mannelskar. „Ég þarf að passa mig að gera kiðin ekki of háð mér, halda þeim í hæfilegri fjarlægð, því annars verða þau eins og hundar. Kiðin eru miklu fyrri til að spekjast en lömb. Aftur á móti kemur geitum frekar illa saman sín á milli, þær eru svolítið argar hver út í aðra. Hjá þeim er goggunarröð, ein er frekust og ein þeirra heldur sig til hlés, felur sig. Þetta eru sérstakar skepnur.“ Emil segir að það sé gaman að sjá geiturnar stökkva yfir hindranir.
„Þær eru liðugar og með gott jafnvægi, þær hreinlega svífa. Og þær geta gert gagn. Mér skilst að geitur séu duglegar að éta skógarkerfil, það ætti kannski að beita þeim á hann, er hann ekki að vaxa yfir allt hér á landi?“
Emil og Björg eru bæði hætt að vinna en segja gott að hafa eitthvað fyrir stafni, það þarf jú að gefa kindunum og geitunum daglega yfir veturinn og sinna ýmsum verkum þeim tengdum.
„Við erum með 30 ær núna, en mest vorum við með 49 kindur. Fyrsta lambið sem ég eignaðist kom þannig til að fyrir rúmum fjörutíu árum þá hjálpaði ég gömlum manni að rýja upp á gamla móðinn að vori til, með fjárklippum, og hann vildi endilega gefa mér lamb um haustið fyrir viðvikið,“ segir Björg sem ólst upp við blandaðan búskap á sínu æskuheimili, Uxahrygg í Rangárþingi, svo engan skal undra að hún sé mikið fyrir skepnur.
„Þar var heyjað upp á gamla mátann á mínum bernskuárum. Ég kynntist því sem krakki að binda í bagga og setja upp á hesta. Ég var 8 ára að halda við á móti bróður mínum sem var 18 ára, sem var erfitt. Ætli það þætti ekki barnaþrælkun núna,“ segir hún og hlær.
Þau hjón hafa lengi búið á Eyrarbakka, Emil frá því hann var fjögurra ára, eða árið 1948, en Björg kom þangað þegar þau tvö fóru að rugla saman reytum árið 1967.
„Afi minn var með kindur austur á Fáskrúðsfirði og svo var ég öll sumur í sveit sem strákur, mest í Landeyjunum, svo ég var líka vanur sveitastörfum,“ segir Emil.
![]() |
Morgunbaðið miðvikudaginn 27. febrúar 2019.
Kristín Heiða Kristinsdóttir
khk@mbl.is
Skráð af Menningar-Staður.
![]() |
||
Hallgrímskirkja á Skólavörðuholtinu í Reykjavík. Ljósm.: Víðir Björnsson.
|
Hallgrímskirkja á Skólavörðuholtinu í Reykjavík. Ljósm.: Víðir Björnsson.
Kirkjuráð Hrútavina í Hallgrímskirkju
Kirkjuráð Hrútavinafélagsins Örvars á Suðurlandi var í síðustu viku á Skólavörðuholtinu í Reykjavík. Kynnti sér og tók þátt í hinu fjölbreytta og vandaða kirkjustarfi í Hallgrímskirkju alla vikuna.
Kirkjuráðið vildi jafnframt með nærveru sinni heiðra minningu Skagfirðingsins séra Hallgríms Péturssonar, sálmaskálds, og Eyrbekkingsins Guðjóns Samúelssonar, arkitekts sem teiknaði Hallgrímskirkju hvað er hin mesta höfuðborgarprýði.
Fyrsti sunnudagur í níuviknaföstu var sunnudagurinn fyrir viku – 17. febrúar 2019. Þá var messa og barnastarf í Hallgrímskirkju kl. 11:00
Sr. Irma Sjöfn Óskarsdóttir prédikaði og þjónaði fyrir altari ásamt sr. Birgi Ásgeirssyni.
Messuþjónar aðstoðuðu og félagar úr Mótettukór Hallgrímskirkju sungu. Organsti var Hörður Áskelsson.
Umsjón með barnastarfi höfðu Ragnheiður Bjarnadóttir og Rósa Árnadóttir.
Fastir liðir alla vikuna eru þessir:
![]() |
Kirkjuráðið kom í Hallgrímskirkju daglega þessa vikuna.
Færði Árdegismessuna miðvikudaginn 20. febrúar kl. 8:00 til myndar.
Séra Ása Björk Ólafsdóttir þjónaði ásamt messuþjónum.
Messan var í rýminu aftan við altarið eins og sjá má á myndunum.
![]() |
.
Við Árdegismessuna í Hallgrímskirkju. Ljósm.: Björn Ingi Bjarnason.
.
![]() |
||
. .
|
Skráð af Menningar-Staður.
![]() |
Frá Önundarfirði og handan fjarðar er fjallið Þorfinnur. Ljósm.: Víðir Björnsson.
|
24. febrúar “konudagur” góa byrjar
Mánuðurinn góa hefst nú sunnudag frá 18. til 24. febrúar, en 8. til 14. febrúar í gamla stíl fyrir 1700.
Nafnið, góa eða gói, er þekkt úr elstu heimildum og afbrigði þess í öðrum norrænum tungum. Gói er persónugerð sem vetrarvættur í gömlum sögnum, dóttir Þorra.
Orðið góiblót bendir til mannfagnaðar seint að vetri að fornu en um hann er ekkert vitað með vissu. Ljóst er hinsvegar af heimildum frá öndverðri 18. öld að fagna átti góu á svipaðan hátt og þorra. Skyldi það fremur vera húsbóndinn en húsfreyjan, en víst er að dagurinn var eignaður húsfreyjunni. Heimildir geta um tilhald í mat á síðari öldum en hvergi á við þorrakomu. Kann þar að ráða nokkru að góukoma lendir oftast á langaföstu.
Nokkuð var ort um Góu á 17. – 19. öld sem dóttur Þorra eða eiginkonu. Var þá stundum reynt í gamni að skjalla hana til að bæta veður. Svipaður kann að vera tilgangur þess góukomusiðar á norðaustanverðu landinu að Góu var færður rauður ullarlagður.
Heitið konudagur er kunnugt frá miðri 19. öld og er nú útbreitt. Sá siður að eiginmenn gefi konum sínum blóm á konudaginn hófst á sjötta áratug 20. aldar.
Í almennri þjóðtrú skipti góuveðrið máli. Átti sumarið að verða gott ef góa væri stormasöm og veður vont fyrstu góudaga.
Þessi vísa var húsgangur í Önundarfirði fram á 20. öld.
Góa kemur með gæðin sín
gefst þá nógur hitinn.
Fáir sakna þorri þín
þú hefur verið skitinn.
23. febrúar “þorraþræll” síðasti dagur þorra
Mánuðurinn þorri hófst föstudaginn 25. janúar s.l. og er sá dagur kallaður “bóndadagur” og þá var miður vetur.
Í Orkneyingasögu og Flateyjarbók segir af Fornjóti konungi í Finnlandi og Kvenlandi. Fornjótur átti þrjá syni, Ægi, Loga og Kára. Kári var faðir Frosta (Jökull) er var faðir Snæs hins gamla. Hans sonur hét “Þorri” og dæturnar Fönn, Drífa og Mjöll. Þorri átti tvo syni og hét annar Nór en hinn Gór og dóttir hans hét “Góa.”
Þorri var blótmaður mikill og hafði blót á miðjum vetri er kölluð voru “Þorrablót.” Síðasti dagur þorra er kallaður “þorraþræll” og er á sumun stöðum tileinkaður piparsveinum, mönnum í óvígðri sambúð, fráskildum mönnum, ellegar þeim sem átt höfðu barn í lausaleik eða tekið framhjá konu sinni.
Þorrablót eru haldin af miklum krafti um allt land og borðaður svokallaður “þorramatur” og frá slíkum samkomum er þessi bæn.
“Guð gefi, að ég væri kominn í rúmið, háttaður, sofnaður, vaknaður aftur og farinn að éta.”
Heimild: Saga daganna eftir Árna Björnsson.
Skráð af Menningar-Staður.
![]() |
Jón Gíslason (1909 - 1980). |
Merkir Íslendingar - Jón Gíslason
Jón Gíslason fæddist 23. febrúar 1909 í Gaulverjabæ í Flóa.
Foreldrar hans voru hjónin Gísli Hannesson, f. 1875, d. 1913, bóndi þar og síðar í Dalbæ, og Margrét Jónsdóttir, f. 1885, d. 1930, húsfreyja.
Jón varð stúdent frá Menntaskólanum í Reykjavík 1929, lærði síðan latínu og grísku, og ensku og frönsku sem aukagreinar, í Berlín 1929-31, fór þaðan í nám til Münster og lauk þaðan doktorsprófi 1934. Hann var í námsdvöl í París 1931 og fór til Danmerkur, Þýskalands og Frakklands 1955 til að kynna sér verslunarskóla.
Jón var kennari við Verzlunarskóla Íslands frá 1935, varð yfirkennari 1942 og skólastjóri 1952-1979. Hann var farsæll skólastjórnandi og naut mikillar virðingar bæði nemenda og starfsfólks skólans. Í minningargrein segir: „Jón auglýsti ekki ævistarf sitt, heldur rækti það af hógværð og lítillæti eins og einkennir marga mikilhæfa menn.“
Jón var einnig mikilsvirtur þýðandi. Hann þýddi t.d. nokkra af grísku harmleikjunum svo sem Sjö gegn Þebu og Refsinornir eftir Æskýlos, Ödípús konung, Ödípús í Kólonos og Antígónu eftir Sófókles og Medeu, Hippolýtos og Alkestis eftir Evripídes. Hann skrifaði einnig bók um gríska goðafræði sem nefndist Goðafræði Grikkja og Rómverja: forsögualdir, trúarbragðaþróun, guðir og hetjur og kom fyrst út árið 1944 auk fjölmargra námsrita. Hann flutti einnig fjölmörg erindi í Ríkisútvarpið, einkum um fornmenningarleg efni.
Jón hafði forgöngu um stofnun Félags framhaldsskólakennara og var formaður þess og sat í stjórn Alliance Francaise.
Eiginkona Jóns var Lea Eggertsdóttir, f. 10.5. 1910, d. 26.11. 1994, kennari. Foreldrar hennar voru hjónin Eggert Reginbaldsson, bóndi á Eiríksstöðum í Ögursveit, og Halldóra Júlíana Haraldsdóttir.
Synir Jóns og Leu:
Eggert, f. 1941, d. 2016, borgarhagfræðingur, og Gísli, f. 1949. viðskiptafræðingur.
Jón Gíslason lést 16. janúar 1980.
Morgunblaðið.
Skráð af Menningar-Staður.
![]() |
Dóra Þórhallsdóttir og Ásgeir Ásgeirsson. |
Frú Dóra Þórhallsdóttir forsetafrú fæddist í Reykjavík 23.febrúar 1893.
Foreldrar hennar voru Þórhallur Bjarnarson, prófastur í Reykholti, forstöðumaður Prestaskólans, alþm. og biskup Íslands, og k.h., Valgerður Jónsdóttir húsfreyja.
Þórhallur var sonur Björns Halldórssonar, prófasts í Laufási, og k.h., Sigríðar Einarsdóttur, en Valgerður var dóttir Jóns Halldórssonar, hreppstjóra á Bjarnastöðum, og Hólmfríðar Hansdóttur.
Systkini Dóru:
Tryggvi forsætisráðherra, kvæntur Önnu Klemenzdóttur, Svava húsfreyja, gift Halldóri Vilhjálmssyni, skólastjóra Bændaskólans á Hvanneyri og Björn, sem lézt árið 1916.
Dóra giftist 3.10. 1917 Ásgeiri Ásgeirssyni, guðfræðingi, alþm., forsætisráðherra og öðrum forsta íslenska lýðveldisins 1952-68. Hann var sonur Ásgeirs Eyþórssonar, kaupmanns og bókhaldara, og Jensínu Bjargar Matthíasdóttur.
Börn Dóru og Ásgeirs:
Þórhallur ráðuneytisstjóri, Vala forsætisráðherrafrú og Björg sendiherrafrú.
Frú Dóra ólst upp í Reykjavík, lengst af í Laufási við Laufásveg, á gestkvæmu menningarheimili. Hún var tvítug er hún missti móður sína og tók þá við stjórn heimilisins og stýrði því í fjögur ár. Hún og Ásgeir hófu sinn búskap í Laufási og bjuggu þar til 1932, er hann varð forsætisráðherra. Þá fluttu þau í Ráðherrabústaðinn við Tjarnargötu.
Dóra sótti fundi ungmennafélaga á uppvaxtarárum sinum, sat í stjórn Lestrarfélags kvenna, í skólanefnd Kvennaskóla Reykjavíkur og sóknarnefnd Dómkirkjusafnaðarins. Henni var umhugað um kirkjusókn og málefni Þjóðkirkjunnar og lagði gjarnan áherslu á að rækt yrði lögð við söngkennslu í skólum. Hún var auk þess mikil hannyrðakona og lætur eftir sig fjölda fallegra muna.
Frú Dóra þótti glæsilegur fulltrúi þjóðar sinnar, virðuleg í fasi og klæddist gjarnan íslenska þjóðbúningnum við hátíðlegar athafnir.
Dóra lést 10. september 1964.
Morgunblaðið.
Skráð af Menningar-Staður.
![]() |
Jóhann G. Jóhannsson (1947 - 2013). |
Jóhann fæddist í Keflavík 22. febrúar 1947.
Foreldrar hans voru Jóhann Georg Runólfsson, bóndi og síðar bifreiðarstjóri í Keflavík, og Lovísa Aðalheiður Guðmundsdóttir, en seinni maður Lovísu og fósturfaðir Jóhanns var Reynir Ólafsson, sjómaður og verkstjóri.
Börn Jóhanns eru Alma Dögg, Ívar Jóhann og Halldóra. Sambýliskona Jóhanns í 27 ár er Halldóra Jónsdóttir en dætur hennar eru Fríða og Jóhanna Methúsalemsdætur.
Jóhann stundaði nám við Samvinnuskólann að Bifröst 1963-65 og naut leiðsagnar Hrings Jóhannessonar í myndlist.
Jóhann var rytmagítar- og bassaleikari, söngvari, laga- og textasmiður og upptökustjóri, lék m.a. með Óðmönnum I, Musica Prima, Óðmönnum II, Töturum, Náttúru og Póker, en hóf sólóferil 1972.
Jóhann sinnti einkum lagasmíðum, myndlist og vann ötullega að réttindum tónlistarfólks. Hann hélt fjölda myndlistarsýninga, gaf út ljóðabókina Flæði, samdi rúmlega 200 lög og texta sem komu út á plötum, þ.ám. til stuðnings ýmsum málefnum, s.s. lagið Hjálpum þeim.
Helstu hljómplötur hans eru:
Óðmenn 1970, Langspil 1974, Mannlíf 1976, Kysstu mig – Íslensk kjötsúpa 1978, Myndræn áhrif 1988, Gullkorn JGJ 2003, Á langri leið 2009 og Jóhann G – In English 2010.
Jóhann var framkvæmdastjóri Gallerys Lækjartorgs, síðar Listamiðstöðvarinnar 1980-85, einn af stofnendum Samtaka alþýðutónskálda og textahöfunda 1979 og Félags tónskálda og textahöfunda 1983 og sat í stjórn FTT 1983-89. Hann var upphafsmaður Músíktilrauna 1982 ásamt Ólafi Jónssyni, forstöðumanni Tónabæjar, rak Tónlistarbarinn Púlsinn 1990-93 og sat í stjórn Samtaka um byggingu tónlistarhúss.
Jóhann var félagi í SÍM og var gerður að heiðursfélaga FTT árið 2003.
Jóhann lést 15. júlí 2013.
Morgunblaðið.
Skráð af Menningar-Staður.
![]() |
Ólafur Óskarsson skipstjóri. |
Eyrbekkingur á Íslandsmet
Góð aflabrögð eru engin nýmæli fyrir Eyrbekkinginn Ólafi Óskarssyni, sem hefur verið til sjós í áratugi. Í október 2016 var hann skipstjóri á Jóhönnu Gísladóttur GK og fiskaði þá 710 tonn. Enginn línubátur á Íslandi hefur nokkru sinni komið með meiri afla að landi í einu mánuði. Ein löndunin var 153,9 tonn, segir á mbl.is
„Þarna gátum við beitt okkur eins og við vildum, því sjómannaverkfall var yfirvofandi og skall á rétt síðar. Við vorum á þessum tíma fyrir norðan, þar sem allt var vaðandi í þorski. Og ef ekki væri kvótinn væri sjálfsagt hægt að nálgast þetta met aftur núna. Þar kemur til að hér við sunnan- og vestanvert landið er mikið af fiski núna og við á nýjum bát sem er bæði lipur og öflugur,“ segir Ólafur Óskarsson.
Morgunblaðið 14. febrúar 2019.
Skráð af Menningar-Staður
© 2021 123.is | Nýskrá 123.is síðu | Stjórnkerfi 123.is