Menningar-Staður
Félagsheimilið Staður á Eyrarbakka

07.02.2017 11:12

Jörg Sondermann er sextugur í dag - Safnar gömlum sálmabókum

 

 

Jörg Erich Sondermann.
Hann bjó á Eyrarbakka um árabil.

 

Jörg Sondermann er sextugur í dag

- Safnar gömlum sálmabókum

 

Jörg Erich Sondermann organisti á 60 ára afmæli í dag. Hann fæddist í Witten í Ruhr-héraðinu í Þýskalandi og stundaði kirkjutónlistarnám í Tónlistarháskólanum í Herford og Dortmund og þaðan fór hann til Hamborgar og lauk einleikaraprófi á orgel árið 1982.

 

Árin 1975-1997 starfaði hann sem organisti, sembalisti og kórstjóri í Bielefeld og Bönen og frá árinu 1985 stóð hann fyrir tónlistarhátíð er nefnist Westfalische Bach – Tage. Jörg hefur haldið tónleika víða um lönd, m.a. í Þýskalandi, Hollandi, Frakklandi, Sviss, Austurríki, Póllandi, Rússlandi, Slóveníu, Lettlandi og Finnlandi. Í efnisvali sínu hefur hann lagt mesta áherslu á verk Johanns Sebastians Bachs auk verka núlifandi tónskálda.

 

Jörg fluttist til Íslands haustið 1997. „Ég var orðinn fertugur og mig langaði að spreyta mig á einhverju nýju. Var að spá í að flytja til Noregs en Kristján Valur Ingólfsson, vígslubiskup í Skálholti, sem ég var búinn að kynnast þá, stakk upp á því að ég kæmi til Íslands. Ég ákvað að prófa að dvelja hér í tvö ár, en núna er ég búinn að vera hérna í 20 ár.“

 

Jörg gerðist organisti í Hveragerðis- og Kotstrandarkirkju og síðan starfaði hann sem organisti við Selfosskirkju 2006 og líka frá 2014 við Þorlákshafnarkirkju auk Strandarkirkju og Hjallakirkju í Ölfusi. Hann kenndi orgelleik við Tónskóla þjóðkirkjunnar 1999-2006 og var kennari frá 1998 í Tónlistarskólanum í Árnessýslu.

 

Hann leysti síðan af sem organisti á Húsavík í eitt ár, 2015-2016, en tók við organistastöðunni á Höfn í Hornafirði í október síðastliðnum. „Mér líður mjög vel á Höfn, þar er mjög gott fólk og allir mjög opnir.“ Jörg stjórnar einnig kirkjukórnum á Höfn og vinnur í tónlistarskólanum þar og er fyrst og fremst að kenna tónfræði.

 

Jörg liggur núna á spítala en hann er að jafna sig á aðgerð í baki. „Aðgerðin tókst vel en það þarf langan tíma til að jafna sig eftir svona aðgerð. Ég mun því ekkert spila neitt á afmælisdaginn.“

 

Þegar tónlistinni sleppir þá finnst Jörg gaman að lesa og hann safnar gömlum bókum, einkum sálmabókum. „Þær eru fyrst og fremst þýskar, en svo á ég einnig nokkrar íslenskar sálmabækur að sjálfsögðu.“

 

Sonur Jörgs er David, f. 1980, og er hann tölvunarfræðingur í Düsseldorf.

Morgunblaðið 7. febrúar 2017


Skráð af Menningar-Staður

07.02.2017 08:37

100 ár frá fæðingu Gylfa Þ. Gíslasonar

 

 

100 ár frá fæðingu Gylfa Þ. Gíslasonar

 

Í dag eru 100 ár liðin frá fæðingu Gylfa Þ. Gíslasonar, fyrrverandi formanns Alþýðuflokksins, alþingismanns, ráðherra mennta og viðskipta og prófessors við Háskóla Íslands. 

Hann var einn af mikilvirkustu og mætustu ráðherrum þjóðarinnar.

 

Það var mitt lán að eiga löng og hlý samskipti við Gylfa. Hann og faðir minn urðu vinir í menntaskóla og þess naut ég um langt árabil. Þegar faðir minn lést í flugslysi árið 1951 var ég 10 ára gamall. Gylfi reyndist móður minni hjálparhella og á unglingsárunum átti ég skjól hjá þeim Gylfa og hans mætu eiginkonu, Guðrúnu Vilmundardóttur. Þar eignaðist ég vináttu Þorsteins og Vilmundar sona þeirra.
 

Mikil gestafjöld kom á heimili þeirra á Aragötunni. Þar mátt sjá marga af þekktustu stjórnmálamönnum og menningarfrömuðum Norðurlanda og fleiri Evrópulanda. Þá var oft glatt á hjalla. Gylfi lék á píanó, og þá m.a. lög sín, og oft sungu gestir með. Þáttur Guðrúnar í lífi Gylfa var honum ómetanlegur. Heimilishaldið hvíldi á henni og hún var dæmalaust góður ráðgjafi, sem Gylfi leitaði ósjaldan til. Vinnudagur hans var oftast langur, enda með ólíkindum hve miklu hann kom í verk.
 

Ég dáði Gylfa, alla framgöngu hans og pólitískar áherslur. Í ráðherratíð hans urðu grundvallarbreytingar á skólakerfi landsins. Öll menning var honum mikils virði, ekki síst tónlist. – Í starfi sínu lagði hann mikilvægan grunn að tónlistarnámi með stofnun tónlistarskóla víða um land, sem án efa hafa átt umtalsverðan þátt í þeirri miklu grósku tónlistarlífs, sem við njótum öll í dag.
 

Barátta Gylfa fyrir því að fá handritin heim frá Danmörku er eitt helsta afrek hans á sviði menningarmála og kristallaðist við afhendingu handritanna í Háskólabíói 21. apríl 1971. Þar afhenti Helge Larsen, danskur starfsbróðir Gylfa og vinur, Flateyjarbók með fleygum orðum: „Vær saa god, Flatöbogen“. Þetta var hamingjudagur í lífi Gylfa og allrar þjóðarinnar.

Gylfi átti vinum að mæta og var í miklum metum stjórnmálamanna og fulltrúa menningarlífs í fjölmörgum þjóðlöndum, einkum í hinum norrænu löndunum. Enginn vafi er á því, að vinátta hans og forystumanna danskra jafnaðarmanna, greiddi mjög fyrir niðurstöðu handritamálsins.
 

Gylfi Þ. Gíslason var menntamálaráðherra í tæp 15 ár og lengstum viðskiptaráðherra þann tíma. Hann var víðsýnn stjórnmálamaður og breytti miklu í þeim afdankaða og þröngsýna viðskiptaheimi, sem áður réði flestu hér á landi. Hann barðist fyrir auknu alþjóðasamstarfi á sviði viðskipta og menningar og á heiðurinn af mikilvægum breytingum til opnara og virkara samfélags, þjóðinni til mikilla hagsbóta. Meðal annars barðist hann fyrir aðild Íslands að GATT og EFTA og þurfti þá að standa undir þunga harðrar gagnrýni og flóðs köpuryrða andstæðinga aðildarinnar.
 

Gylfi var formaður Alþýðuflokksins á árunum 1968 til 1974, en á starfstíma sínum var flokkurinn í meira en helmingi ríkisstjórna landsins. Mest fór þó fyrir samstarfi flokksins við Sjálfstæðisflokkinn í svonefndri Viðreisnarstjórn 1959 til 1971. Hið langa stjórnartímabil helgaðist af trausti og vináttu forystumanna flokkanna, en Viðreisn hefur verið talin með merkari ríkisstjórnum. Í lok Viðreisnar kom tímabil, sem var Alþýðuflokknum og Gylfa mjög erfitt. Flokkurinn naut ekki samstarfsins né verka sinna.
 

Jafnaðarstefnan var hinn pólitíski grundvöllur í lífsstarfi Gylfa. Árið 1977 gaf Almenna bókafélagið út bókina Jafnaðarstefnan eftir Gylfa. Sú bók hefur verið minn leiðarvísir í stjórnmálavafstri. Í aðfaraorðum segir Gylfi m.a.:

„Kjarni jafnaðarstefnu er frelsi og jafnrétti, skilyrði og skylda ríkisvaldsins til að tryggja öllu vinnufæru fólki rétt til vinnu, sem og þeim, sem af einhverjum ástæðum geta ekki aflað sér nægilegra tekna, öruggrar afkomu, jafnframt því, að samfélagið eigi að efla heilbrigði og hjálpa sjúkum, tryggja menntunarskilyrði og aðstöðu til farsæls lífs... Skilningur á því, að þjóðmálastefnur, og þar á meðal félagshyggja og jafnaðarstefna, eru ekki vísindi, heldur grundvallast á hugsjónum, sem tengdar eru siðgæðismati, er undirstaða skynsamlegrar skoðanamyndunar í þjóðfélagsmálum.“ – Þessi orð hans eiga mikið erindi við nútímann.
 

Minning mín um Gylfa er sveipuð aðdáun og kærleika til manns, sem reyndist mér vel, var yfirburðamaður sakir menntunar og þekkingar, siðfágaður fulltrúi menningar, og hafði það að markmiði að bæta kjör þjóðarinnar á grundvelli frelsis og jafnréttis. – Fáum jafningjum hans hefi ég kynnst. Megi minning hans lengi lifa.

 

Árni Gunnarsson

Höfundur er fyrrverandi alþingismaður.

Morgunblaðið 7. febrúar 2017.


Skráð af Menningar-Staður

07.02.2017 08:32

Merkir Íslendingar - Sverrir Kristjánsson

 

 

Sverrir Kristjánsson (1908 - 1976).

 

Merkir Íslendingar - Sverrir Kristjánsson

 

Sverrir Kristjánsson fæddist í Reykjavík 7. febrúar 1908 og ólst þar upp.

Foreldrar hans voru Kristján Guðmundsson, bóndi í Þverdal og Kjaransvík í Sléttuhreppi og síðar í Reykjavík, og k.h., Guðrún Vigdís Guðmundsdóttir húsfreyja.

 

Móðurafi Sverris, Guðmundur Gíslason í Ánanaustum, var bróðir Péturs Ó. Gíslasonar, bæjarfulltrúa og útgerðarmanns í Ánanaustum, langafi Páls Bergþórssonar, fyrrv. veðurstofustjóra, föður Bergþórs óperusöngvara.
 

Sonur Sverris og Bjargar Sigur jónsdóttur er Sigurjón Sverrisson flugmaður. 

Fyrsta kona Sverris var Erna Einarsdóttir en þau skildu og eignuðust þau tvö börn, Einar Ragnar sem lést tæplega 19 ára, og Guðrúnu Vigdísi sem er hjúkrunarfræðingur á Seltjarnarnesi. 

Önnur kona Sverris var Jakobína Tulinius kennari sem lést 1970.

Þriðja kona Sverris var Guðmunda Elíasdóttir, söngkona og kennari í Reykjavík. Í Lífsjátningu, frægri endurminningabók Guðmundu sem skráð var af Ingólfi Margeirssyni, er m.a. lýst tilhugalífi og samvistum hennar og Sverris sem þá var kominn á efri ár.
 

Sverrir lauk stúdentsprófi frá MR 1928 og stundaði sagnfræðinám við Kaupmannahafnarháskóla 1929-39 og hálft ár í Berlín 1937. Hann var kennari við Gagnfræðaskóla Vesturbæjar frá 1941.

Vann við rannsóknir og skáningu bréfa og skjala frá og til íslenskra manna í Ríkisskjalasafni Dana, Bókhlöðu konungs og í National Museum í Kaupmannahöfn 1956-58 og vann að útgáfu á blaðagreinum Jóns Sigurðssonar 1959-61.

 

Þekktustu ritverk Sverris eru án efa ritröðin Íslenskir örlagaþættir sem hann samdi og gaf út ásamt Tómasi Guðmundssyni skáldi. Hann var með ritfærari mönnum og hafsjór af fróðleik, skrifaði blaðagreinar og hélt fjölda útvarpsfyrirlestra um sagnfræðileg efni, menn og málefni.
 

Sverrir lést 26. febrúar 1976.

Morgunblaðið 7. febrúar 2017.


Skráð af Menningar-Staður

06.02.2017 06:50

Forseti Íslands heimsótti Jónshús í Kaupmannahöfn

 

 

Halla Benediktsdóttir umsjónarmaður Jónshúss og Karl M. Kristjánsson

formaður stjórnar Jónshúss tóku að móti gestunum.

 

Forseti Íslands heimsótti Jónshús í Kaupmannahöfn

 

Það var hátíðleg stund í Jónshúsi í Kaupmannahöfn þann 24. janúar s.l. þegar forseti Íslands Guðni Th og forsetafrú Eliza Reid komu í heimsókn ásamt fylgdarliði. Lögregluvernd, blá ljós, umferðin stöðvuð og margir stórir svartir bílar.

Halla Benediktsdóttir umsjónarmaður Jónshúss og Karl M. Kristjánsson formaður stjórnar Jónshúss tóku að móti gestunum. Gestirnir skoðuðu sýningu um Jón Sigurðsson og eiginkonu hans Ingibjörgu Einarsdóttur sem er á þriðju hæð hússins. Karl sagði frá Jónshúsi og Halla sagði frá fyrirhugðum breytingum á safninu.

Að því loknu var farið í salinn á fyrstu hæð. Þar tóku fulltrúar notenda Jónshúss á móti gestunum.  Halla sagði frá starfseminni sem fram fer í húsinu. Starfseminn er töluverð og sem dæmi var nefnt að í nóvember síðast liðnum komu um 1400 gestir í húsið.

 

Því næst fengu fulltrúar notenda hússins orðið, kynntu sig og sögðu frá sinni starfsemi. Svo tók forseti Íslands til máls og færði Jónshúsi bók að gjöf, Fyrstu forsetarnir, eftir núverandi foreta Guðna Th. Að lokum gafst smá til að spjalla áður en forsetinn og fylgdarlið hans yfirgaf húsið.

Myndir frá heimsókninni er að finna hér.  


Jónshús í Kaupmannahöfn.


 


Skráð af Menningar-Staður

05.02.2017 06:58

Þorrablót á Stokkseyri 11. febrúar 2017

 

 

 

Þorrablót á Stokkseyri 11. febrúar 2017

 


Þorrablót Ungmennafélags Stokkseyrar verður haldið í íþróttahúsinu á Stokkseyri laugardaginn 11. febrúar 2017.

 

Maturinn kemur frá Veisluþjónustu Suðurlands. Nefndin mun leika og sprella. Og hljómsveitin Bækon mun sjá um ballið en hljómsveitin samanstendur af blönduðu liði Karma og Í svörtum fötum.

 

Aðgangur litlar 7000 kr.

og fer forsala miða fram í Íþróttahúsinu í dag, sunnudaginn 5. febrúar kl 20:00.Nokkrar mynbdir frá þorrablótinu á Stokkseyri árið 2007 en Hrútavianfélagið Örvar

og Stokkseyringafélagið í Reykjavík stóðu að blótinu það árið.
 

.

.

.

.

.

 

.

.


Skráð af Menningar-Staður


 

05.02.2017 06:47

Tryggvaskáli í endurnýjun lífdaga

 


Tryggvaskáli á Selfossi.

 

Tryggvaskáli í endurnýjun lífdaga

 

Tuttugu ár eru síðan undirbúningur að varðveislu og endurgerð Tryggvaskála hófst. Margir hafa komið að því verki, iðnaðarmenn, hönnuðir, áhugamenn og fleiri. Farið var að nýta húsið eftir því sem kostur var meðan á endurbótunum stóð og því erfitt að tímasetja einhvers konar upphaf að endurgerð lokinni. Ákveðin tímamót urðu þó þegar allt húsið var leigt út til veitingastarfsemi um mitt ár 2013. Einu verki var þó ólokið en það var koma veitingasalnum í það horf sem hann var lengst af með uppsetningu stórra málverka eftir Matthías Sigfússon sem prýddu salinn frá árinu 1947.

 

Nú hafa eigendur málverkanna afhent Skálafélaginu málverkin til varðveislu og munu þau nú prýða veggi salarins að nýju og má segja að með táknrænum hætti hafi lokahönd verið lögð á verkið.

 

Af þessu tilefni  verður opið hús í Tryggvaskála í dag, sunnudaginn 5. febrúar 2017 kl. 16.00–18.00.

 

Þar gefst fólki kostur á að sjá og endurnýja kynni sín við málverkin sem hengd hafa verið upp hvert á „sínum“ stað. Jafnframt gefst gestum kostur á að skoða húsið.

Félagar í Skálafélaginu verða á staðnum og veita upplýsingar ef óskað er eftir.


 


Málverk eftir Matthías Sigfússon.


Af www.dfs.is


Skráð af Menningar-Staður.

 


 

04.02.2017 07:06

Iðnaðarmannafélagið í Reykjavík í 150 ár

 

 

 

Iðnaðarmannafélagið í Reykjavík í 150 ár

-Stiklað á stóru í sögu félagsins frá stofnfundinum 3. febrúar 1867

 

Til þess að efla hag íslenskra iðnaðarmanna um miðja nítjándu öldina þurfti samtök, menntun og áræði og framkvæmdir. 

Það varð hlutverk reykvískra iðnaðarmanna að stuðla að þessari þróun með stofnun Iðnaðarmannafélagsins í Reykjavík þann 3. febrúar árið 1867. 

Stofnendur voru 31 reykvískur iðnaðarmaður og fór stofnfundurinn fram í húsi Landsprentsmiðjunnar. Um sex árum síðar var félagið nefnt Iðnaðarmannafélagið í Reykjavík.

Iðnaðarmannafélagið í Reykjavík er hið þriðja elsta sem nú hefur starfað óslitið á Íslandi. 

Samofin sögu Reykjavíkur 

Það er táknrænt að stofnfundur Iðnaðarmannafélagsins skuli hafa verið haldinn í fyrsta húsi innréttinganna en Skúli Magnússon reisti það fyrir forstjóra þeirra. 

Í þessu húsi bjó þá Einar Þórðarson prentari og rak þar einnig prentsmiðju, Landsprentsmiðjuna. 

Saga Iðnaðarmannafélagsins er þannig samofin sögu Reykjavíkur með vöggu sína í hlaðvarpa Ingólfs Arnarsonar. 

Árið 1869 stofnaði Iðnaðarmannafélagið í Reykjavík kvöldskóla. Kennari við hann var Árni Gíslason leturgrafari en hann var lengi ritari félagsins. 

Seinna var skólinn rekinn sem sunnudagaskóli og voru kennslugreinar: réttritun, uppdráttarlist, reikningur, danska, enska og söngur.

Rekstur skólans reyndist félaginu fjárhagslega erfiður og lagðist kennsla niður þann 1. febrúar árið 1890.

Á fundi í Iðnaðarmannafélaginu þann 31. mars árið 1901 kynnti stjórn félagsins áform um að koma á fót kvöldskóla með ákveðinni námsskrá fyrir iðnaðarmenn. 

Á fundi þann 7. október árið 2003 gekk Jón Þorláksson verkfræðingur í félagið og á þessum sama fundi hafði hann framsögu um málefni skólans. 

Hann upplýsti fundarmenn um sambærilegt skólahald erlendis og vildi hefja skólastarf samkvæmt nýjum reglum strax um næstu áramót.

Iðnskólinn settur á stofn 

Skólahald með nýju fyrirkomulagi hófst við Iðnskólann í Reykjavík 1. október árið 1904. 

Skólastjóri var skipaður Jón Þorláksson og fastur kennari Þórarinn B. Þorláksson, bókbindari og listamaður. Hann varð síðar skólastjóri við skólann. Kennslugreinar voru flatarteikning, rúmteikning, iðnteikning, íslenska, reikningur og danska. 

En Iðnaðarmannafélagið í Reykjavík lét ekki staðar numið. Mánuði eftir fyrstu setningu skólans lagði formaður félagsins, Knud Zimsen, fram teikningar af nýju skólahúsi. Samþykkt var að kaupa lóð Búnað- arfélagsins á mótum Vonarstrætis og Lækjargötu undir skólabyggingu.

Trésmiðjan Völundur tók að sér byggingu hússins samkvæmt tilboði sem hljóðaði upp á kr. 20.850,00. Kennsla hófst í nýju skólahúsi haustið 1906. 

Gáfu styttuna af Ingólfi

Iðnaðarmannafélagið í Reykjavík beitti sér fyrir því að reist yrði minnismerki um Ingólf Arnarson. 

Knud Zimsen, borgarstjóri og fyrrverandi formaður félagsins, hélt ræðu en formaður félagsins, Jón Halldórsson, afhjúpaði styttuna. 

Hann sagði m.a.: „Háttvirta ríkisstjórn! Ég afhendi yður nú þessa mynd frá Iðnaðarmannafélaginu í Reykjavík, þessu landi og þessari þjóð til eignar og umráða; gerið svo vel og takið á móti henni og verndið hana frá árásum eyðileggingar að svo miklu leyti sem í ykkar valdi stendur.“ 

Á aldarafmæli sínu, árið 1967, gaf Iðnaðarmannafélagið í Reykjavík borgarstjóraembættinu „há- tíðartákn“, keðju sem borgarstjóri ber við hátíðleg tækifæri. Keðjan er úr silfri, smíðuð af listamanninum Leifi Kaldal gullsmið. 

Heimild: Imfr.is

Fréttatíminn 3. febrúar 2017 - Morgunblaðið 4. febrúar 2017.


Skráð af Menningar-Staður

03.02.2017 22:45

3. febrúar 1867 - Iðnaðarmannafélagið í Reykjavík var stofnað

 


Arnarhóll í Reykjavík og Ingólfur Arnarson.
 

 

3. febrúar 1867 - Iðnaðarmannafélagið í Reykjavík var stofnað

 

Iðnaðarmannafélagið í Reykjavík var stofnað þann 3. febrúar 1867 og er því 150 ára í dag. 

Félagið byggði Iðnó og Iðnskólann við Lækjargötu. 

Iðnaðramannafélagið beitti sér fyrir því að styttan af Ingólfi Arnarsyni var reist á Arnarhóli í Reykjavík og gefin íslensku þjóðinni árið 1924. Það var í formannstíð Önfirðingsins Jóns Halldórssonar frá Vöðlum en hann var formaðmur Iðnaðramannafélagsins árin 1921 - 1925.

 

Morgunblaðið og fleira. 

 

 

Ingólfur Arnarson.


Skráð af Menningar-Staður

 

03.02.2017 07:10

Eldgos á Hallgrímskirkju

 

Hallgrímskirkja sem Eyrbekkingurinn Guðjón Samúelsson teiknaði.

 


Eldgos á Hallgrímskirkju
 

Vetrarhátíð var sett í gærkvöldi með afhjúpun ljóslistaverksins Sköpun lands eftir Ingvar Björn á Hallgrímskirkju.

Hátíðin stendur í fjóra daga og taka öll sveitarfélög á höfuðborgarsvæðinu þátt í henni.

Meginstoðirnar eru Safnanótt, Sundlauganótt, Snjófögnuður og Ljósalist.


Morgunblaðið 3. febrúar 2017Skráð af Menningar-Staður

03.02.2017 06:42

Biggi á skólarútunni að hætta akstri

 


Birgir Sigurfinnsson.
 

 

Birgir á skólarútunni að hætta akstri
 

 

Sæl veri þið öll.

 

Þar sem ég hef hætt akstri skólabíls hérna á ströndinni langar mig að þakka fyrir frábæra samvinnu og traust nemenda og foreldra í gegnum tíðina.

Ég hef ekið meira og minna síðan í mars 2008, og það sem mest er um vert að allt gekk þetta slysalaust hjá okkur, og held ég öll börnin sem hafa verið farþegar mínir gegnum tíðina eru vinir og félagar mínir í dag og verða vonandi áfram, það er mikilsvert.
 

Takk fyrir mig.

Birgir Sigurfinnsson.

 

 

Birgir Sigurfinnsson og Siggeir Ingólfsson í Alþýðuhúsinu á Eyrarbakka.
Skráð af Menningar-Staður