![]() |
Þór Vigfússon (1936 - 2013). |
Merkir Íslendingar -Þór Vigfússon
Þór fæddist 2. apríl 1936 á Þórshamri í Sandvíkurhreppi, Árn.
Foreldrar hans voru hjónin Vigfús Guðmundsson, f. 1903, d. 1990, bifreiðastjóri við Ölfusárbrú, á Selfossi, síðar sjómaður á Seltjarnarnesi, og Guðrún Jónsdóttir, f. 1904, d. 1950, húsfreyja.
Þór lauk stúdentsprófi frá Menntaskólanum á Laugarvatni 1955, nam hagfræði við Hochschule für Ökonomie og lauk Diplom Wirtschaftler 1961, með sérgrein í milliríkjaviðskiptum. Hann lauk prófi í uppeldis- og kennslufræðum frá Háskóla Íslands 1967, námi í húsasmíði við iðnbraut Fjölbrautaskólans á Selfossi 1982 og sveinsprófi 1989. Hann lauk einnig prófi í svæðisleiðsögn frá Farskóla Suðurlands 1993.
Við heimkomu frá Berlín vann Þór sem skrifstofustjóri hjá Sameiningarflokki alþýðu – Sósíalistaflokknum og sem starfsmaður verslunarsendinefndar Þýska alþýðulýðveldisins. Hann hóf kennslu við Héraðsskólann á Laugarvatni 1963 og kenndi við Menntaskólann á Laugarvatni 1964-70, við Menntaskólann við Tjörnina, síðar Sund, 1970-83 og var konrektor skólans 1975-78. Hann var skólameistari Fjölbrautaskóla Suðurlands á Selfossi 1983-1994 og kennari til ársins 1998.
Þór átti sæti í miðstjórn Alþýðubandalagsins 1970-80, sat á Alþingi sem varaþingmaður 1974, var borgarfulltrúi í Reykjavík 1978-80 og formaður umferðarnefndar. Hann átti þátt í stofnun Draugasetursins á Stokkseyri. Þór var aðalhöfundur Árbókar Ferðafélags Íslands, Í Árnesþingi vestanverðu, 2003.
Fyrri eiginkona Þórs var Helga María Novak rithöfundur frá Þýskalandi, f. 1935, d. 2013. Þau skildu 1968. Börn þeirra eru Ragnar Alexander, f. 1958 (kjörbarn), og Nína, f. 1962. Seinni eiginkona Þórs er Hildur Hákonardóttir, f. 28. apríl 1938, listakona. Börn hennar og stjúpbörn Þórs eru Kolbrún Þóra, f. 1956, og Hákon Már, f. 1958.
Þór Vigfússon lést 5. maí 2013.
Morgunblaðið.
Skráð af Menningar-Staður
![]() |
Tjaldurinn í Eyrarbakkafjöru á dögunum. Ljósm.: Elín Birna.
|
Lóan aðeins á eftir áætlun
Farfuglarnir farnir að sjást einn af öðrum
Fyrstu lóurnar sáust í Stokkseyrarfjöru hinn 28. mars, en jafnan er koma lóunnar talinn einn helsti vorboði hér á landi. Um 20 heiðlóur sáust svo í Fljótshlíð daginn eftir.
Það má segja að lóan sé aðeins á eftir áætlun í ár ef miðað er við meðalkomutíma fyrstu lóunnar á árunum 1996-2016, en það var 23. mars. Hún er þó á svipuðum tíma og í fyrra, en þá sást til fyrstu lóunnar í kringum 27. mars.
Farið er að sjást til fleiri farfugla ef miðað er við umfjöllun frá Fuglaathugunarstöð Suðausturlands. Fyrstu skógarþrestirnir sáust á Höfn hinn 28. mars. Þar hafa einnig fyrstu jaðrakanar ársins sést og eins í fjörunni á Eyrarbakka. Tveir fuglar á hvorum stað. Einnig hafa nokkrir hópar af álftum og grágæsum sést á flugi yfir Höfn. Um 100 blesgæsir og tugur heiðagæsa sáust í Flóanum, við Þjórsá. Tjaldar voru komnir á grasflatir á Stokkseyri fyrir helgi.
Einnig berast ábendingar að norðan, meðal annars um að svanirnir séu farnir að láta sjá sig í Fjallabyggð.
Skráð af Menningar-Staður
![]() |
Þorlákshöfn. Ljósmynd / Chris Lund
Níu umsækjendur eru um starf sviðsstjóra fjármála-, stjórnsýslu- og menningarsviðs Ölfuss.
Alls sóttu þrettán aðilar um stöðuna en fjórir þeirra drógu umsókn sína til baka áður en til birtingar kom.
Hagvangur annast ráðningarferlið og eru viðtöl fyrirhuguð í þessari viku. Vonir standa til þess að hægt verði að ganga frá ráðningu seinni hluta vikunnar.
Umsækjendurnir eru:
Gísli Sigurgeirsson, verktaki
Hörður Orri Grettisson, forstöðurmaður hagdeildar
Hrannar Örn Hrannarsson, deildarstjóri
Jóhann Ásgrímur Pálsson, sérfræðingur
Jón Ólafur Gestsson, hagfræðingur
Magnús B. Baldursson, viðskiptastjóri
Sandra Dís Hafþórsdóttir, fjármálastjóri
Sigurður Steinar Ásgeirsson, deildarstjóri innheimtudeildar
Þórólfur Sigurðsson, framkvæmdastjóri
Skráð af Menningar-Staður
![]() |
Alþýðuhúsið á Eyrarbakka 28. mars 2019
-Vinir alþýðunnar-
Sérstakur færandi kleinugestur var Gunnar B. Guðmundsson,
Eyrbekkingur á Selfossi.
![]() |
.
.
![]() |
||||
. .
|
![]() |
-Gullmoli mannlífs á mynd-
Í Eyrarfiski á Stokkseyri í ágúst árið 2006.
Jón Karl Haraldsson og Guðleif Erna Steingrímsdóttir.
Ljósm.: Björn Ingi Bjarnason.
![]() |
Þorsteinn Bachmann í hlutverki sínu í Fangaverðir. |
Í tengslum við sýningarnar sem nú standa í Listasafni Árnesinga og Byggðasafni Árnesinga efna söfnin til tveggja sýninga í Bíóhúsinu á Selfossi á kvikmyndinni Fangaverðir eftir Ólaf Svein Gíslason, myndlistarmann.
Í Byggðasafni Árnesinga hefur verið sett upp sögusýning um fangelsið á Litla Hrauni í tilefni 90 ára afmæli þess. Þar er sögð saga fangelsisins og í forgrunni er þróun á starfsemi Litla-Hrauns sem stofnunnar, en einnig er litið inn í veröld fangavarða, fanga og samfélagsins í kring.
Í Listasafni Árnesinga er sýningunni Huglæg rými að ljúka, en hún er innsetning sem hverfist um Sigurð Guðmundsson á Sviðugörðum í Flóa. Höfundur hennar er Ólafur Sveinn Gíslason myndlistarmaður.
Bíómyndin Fangaverðir var kvikmynduð í Hegningarhúsinu við Skólavörðustíg vorið 2014, á meðan fangelsið var í fullri notkun. Í myndinni leika tveir fangaverðir sem störfuðu þá í Hegningarhúsinu, þeir Egill Kr. Björnsson og Magnús Páll Ragnarsson, en jafnframt fara Sigurður Skúlason og Þorsteinn Bachmann með hlutverk í kvikmyndinni.
Verkið fjallar um sýn fangavarðanna á starf sitt, daglega reynslu þeirra innan fangelsisins og hugrenningar um það viðmót sem þeim mætir utan fangelsis. Einnig eru samskipti á milli fangavarðanna sjálfra þeim hugleikin og staða þeirra innan íslensks samfélags.
Sýningarnar verða í Selfossbíói laugardaginn 30. og sunnudaginn 31. mars kl. 17:00.
Á fyrri sýningunni verður höfundurinn viðstaddur og boðið upp á stuttar umræður að henni lokinni. Ókeypis er á þessa frumsýningu á Selfossi og allir velkomnir á meðan húsrúm leyfir.
Aðgangseyrir á síðari sýninguna er 1.000 krónur og miðar seldir á vef Bíóhússins.
Skráð af Menningar-Staður
![]() |
Lárus H. Bjarnason (1866 - 1934). |
Merkir Íslendingar - Lárus H. Bjarnason
Lárus Kristján Ingvaldur Hákonarson Bjarnason fæddist 27. mars 1866 í Flatey á Breiðafirði.
Foreldrar hans voru Hákon Bjarnason, f. 5.9. 1828, d. 2.4. 1877, kaupmaður og útgerðarmaður á Bíldudal, V-Barð., og seinni kona hans, Jóhanna Kristín Þorleifsdóttir, f. 16.12. 1834, d. 11.1. 1896.
Lárus ólst upp hjá foreldrum sínum á Bíldudal, en faðir hans lést þegar hann kom með vöruskipi frá Kaupmannahöfn, en það strandaði á Mýrdalssandi í „páskaveðrinu mikla“. Móðir Lárusar rak útgerðina og verslunina nokkur ár eftir þetta.
Lárus tók stúdentspróf frá Lærða skólanum 1885 og lögfræðipróf frá Kaupmannahafnarháskóla 1891.
Hann var málaflutningsmaður við landsyfirréttinn 1891-1892, settur sýslumaður í Ísafjarðarsýslu og bæjarfógeti á Ísafirði 1892, sýslumaður í Snæfellsnes- og Hnappadalssýslu 1894-1908 og sat í Stykkishólmi. Hann var forseti amtsráðs vesturamtsins frá 1904 til ársloka 1907, er amtsráðin voru lögð niður. Skipaður forstöðumaður Lagaskólans í Reykjavík 1908, prófessor í lögfræði við Háskóla Íslands 1911-1919 og rektor 1913-1914. Síðast var hann hæstaréttardómari eða 1919-1931. Í spænsku veikinni 1918 var stofnsett neyðarnefnd, sem skipulagði hjálparstörf í Reykjavík og var Lárus formaður hennar.
Lárus sat á Alþingi fyrir Snæfellinga 1900-1908, var konungkjörinn þingmaður 1908-1911 og þingmaður Reykvíkinga 1911-1913. Lárus var heimastjórnarmaður.
Eiginkona Lárusar var Elín Pétursdóttir Bjarnason, fædd Havstein 2.2. 1869, d. 26.8. 1900, húsmóðir, systir Hannesar Hafstein. Börn Lárusar og Elínar voru Jóhanna Kristín, f. 1896, d. 1954, kennari, og Pétur Hafstein, f. 1897, d. 1957, búfræðingur og síðar skókaupmaður á Akureyri.
Lárus lést 30. desember 1934.
Skráð af Menningar-Staður.
![]() |
Selfosskirkja að kveldi þess 25. mars 2016. Ljósm.: Björn Ingi Bjarnason. |
63 ár frá vígslu Selfosskirkju
Selfosskirkja var byggð á árunum 1952 til 1956 og vígð á pálmasunnudag, þann 25. dag marsmánaðar árið 1956.
Hún var teiknuð af Bjarna Pálssyni skólastjóra Iðnskólans á Selfossi (d. 1987). Yfirsmiður við kirkjubygginguna var Guðmundur Sveinsson byggingameistari. Múrverk vann Friðrik Sæmundsson.
Á árunum 1978 – 1984 var aukið við hana forkirkju og turni og síðan safnaðarheimili með eldhúsi og nokkurri aðstöðu fyrir félagsstarf.
Kirkjan er haganlega máluð og skreytt af þeim hjónum Jóni og Gretu Björnsson. Frú Greta er höfundur mynda og flúrs en í því er leitast við að fylgja kirkjuárinu.
Gluggar í kirkju sem gerðir eru af glerlistarfólkinu Höllu Haraldsdóttur og Dr. H. Oidtmann í Linnich i Þýskalandi komu í kórinn 1987 en í kirkjuskipið 1993.
Þó saga Selfosskirkju sé ekki löng í árum talið, á hún sér nokkra sérstöðu meðal kirkna landsins á 20. öld
Fyrsti sóknarprestur hennar var sr. Sigurður Pálsson frá Haukatungu á Snæfellsnesi (d. 1987). Hann var sóknarprestur í Hraungerði í Flóa en flutti aðsetur sitt á Selfoss upp úr 1950 þegar fólkinu var tekið að fjölga á SElfossi.
Skráð af Menningar-Staður.
![]() |
Lýður Pálsson flytur ávarp við opnun sýningarinnar. |
Fyrir um 25 árum, á árunum sem undirrituð var forstöðmaður Námsráðgjafar HÍ, fékk hún fyrirspurn um hvort hún gæti haldið námskeið fyrir fangaverði.
Spurningin kom nokkuð flatt upp á mig en ég spurði strax hvert markmiðið væri. Jú sjálfsþekking, sjálfstyrking, viðtalstækni og leiðsögn um uppbyggilegar aðferðir í boðskiptum. Svar mitt var þá umsvifalust „Já“.
Í kjölfarið komu þrír 12–14 manna hópar til okkar í Háskólann á daglöng námskeið. Fordómar og fyrirfram gefnar hugmyndir um fangaverði sem tilfinningalaus hörkutól urðu fljótt að engu. Satt að segja var innsýn þeirra og samkennd hjá þeim á við marga þá sem lagt hafa fyrir langskólanám í félagsvísindum. Samspil þeirra innbyrðis var litað af trausti og virðingu snerti mig djúpt. Þá kom líka fram þörf þeirra til að lýsa sársaukafullri lífsreynslu með skjólstæðingum og létta á tilfinningum sínum í aðstöðu þar sem 100% trúnaður ríkti og ríkir hjá þeim alla.
Á opnum sýningarinnar í tilefni 90 ára afmælis þessarar merku stofnunar þar sem fangaverðir fjölmenntu, var ljóst þessir góðu eiginleikar voru enn á sínum stað. Það er mikil gæfa fyrir okkar litla samfélag að þessi viðkvæmi starfsvettvangur skuli vera skipaður af svo góðri og velþenkjandi liðsheild. Vitandi það ættuð þið að nýta tækifærið og skella ykkur í helgarbíltúr á sýninguna í Húsinu á Eyrarbakka.
Ásta Kristrún í Bakkastofu
|
||
Skráð af Menningar-Staður
© 2021 123.is | Nýskrá 123.is síðu | Stjórnkerfi 123.is