Menningar-Staður
Félagsheimilið Staður á Eyrarbakka

14.01.2017 08:19

Eiríkur Guðmundsson - Fæddur 21. júní 1928 - Dáinn 1. jan. 2017 - Minning

 

 

Eiríkur Guðmundsson.

 

Eiríkur Guðmundsson - Fæddur 21. júní 1928

- Dáinn 1. jan. 2017 - Minning


Eiríkur fæddist í Ísakshúsi á Eyrarbakka 21. júní 1928. Hann lést 1. janúar 2017. Foreldrar Eiríks voru Guðmundur Eiríksson húsasmíðameistari frá Þórðarkoti, f. 13.2. 1899, d. 6.11. 1984, og Sigurlína Jónsdóttir húsmóðir frá Tröð á Álftanesi, f. 25.2. 1899, d. 11.4. 1966. Þau voru búsett í Merkigarði á Eyrarbakka. Systkini Eiríks eru: Bjarni Guðmundsson, f. 19.9. 1924, d. 21.8. 1948, og Ósk Guðmundsdóttir, f. 1.12. 1930.

 

Eiríkur kvæntist 24.10. 1953 Vigdísi Ingibjörgu Árnadóttur húsmóður, f. 20.8. 1932, d. 20.7. 1990. Hún var dóttir hjónanna Árna Eyþórs Eiríkssonar, verslunarstjóra í Bjarnaborg á Stokkseyri, og Ingibjargar Kristinsdóttur, húsmóður frá Hömrum í Grímsnesi.

 

Börn Eiríks og Vigdísar eru: 

a) Ingibjörg Eiríksdóttir þjónustufulltrúi, f. 26.2. 1954, maður hennar Páll Halldórsson rekstrarstjóri, f. 22.10. 1953. Börn þeirra eru Eiríkur Vignir Pálsson byggingafræðingur, f. 1.9. 1975, kona hans er Líney Magnea Þorkelsdóttir viðskiptafræðingur, f. 4.9. 1975, eiga þau þrjú börn; Halldór Valur Pálsson forstöðumaður, f. 19.11. 1980, kona hans Ásta Þorsteinsdóttir mannauðssérfræðingur, f. 5.12. 1981, eiga þau tvö börn.

b) Sigurlína Eiríksdóttir bankastarfsmaður, f. 22.6. 1956, maður hennar Sigurður Steindórsson fangavörður, f. 13.12. 1955. Barn þeirra Vigdís Sigurðardóttir sjávarlíffræðingur, f. 24.3. 1984, hún á eitt barn.

c) Kristín Eiríksdóttir leikskólastjóri, f. 12.11. 1958, maður hennar Erlingur Þór Guðjónsson vélvirki, f. 1.1. 1958. Börn þeirra eru Helga Ýr Erlingsdóttir hjúkrunarfræðingur, f. 27.7. 1983, maður hennar Hlynur Bárðarson líffræðingur – phd, f. 20.12. 1982, eiga þau tvö börn; Erlingur Þór Erlingsson vélfræðingur, f. 15.10. 1989, og er sambýliskona hans Vilborg Kolbrún Vilmundardóttir háskólanemi, f. 27.2. 1990, hann á eitt barn.

d) Helga Eiríksdóttir, f. 26.2. 1960, d. 18.2. 1964.

e) Árni Eiríksson bóndi, f. 10.3. 1965, kona hans Guðrún Björk Leósdóttir bóndi, f. 3.12. 1965. Dóttir þeirra Vigdís Jóna Árnadóttir, f. 24.4. 2005.

 

Eiríkur ólst upp á Eyrarbakka og átti þar heima alla tíð. Sem barn fór hann í sveit á hverju sumri að bænum Klauf í Vestur-Landeyjum.

Að loknum barnaskóla nam Eiríkur húsasmíði hjá föður sinum og gekk í Iðnskólann á Eyrarbakka. Eiríkur starfaði alla tíð að iðn sinni og kom að mörgum framkvæmdum, s.s. byggingu einbýlishúsa á Eyrarbakka, byggingu fyrstu húsanna í Þorlákshöfn, byggingu núverandi ráðhúss Árborgar og fleira. Þá vann hann einnig við báta- og skipaviðgerðir í slippnum á Eyrarbakka, var eftirlitsmaður Skipaskoðunar ríkisins á Suðurlandi um árabil, var í slökkviliði, sat í hreppsnefnd og fleira.

Eiríkur starfaði lengi við Fangelsið Litla-Hrauni, fyrst við viðhald en síðar reisti hann þrjár nýbyggingar við fangelsið. Þá annaðist Eiríkur frístundaföndur í trésmíði fyrir fanga um árabil. Um 1980 var Eiríkur ráðinn útivarðstjóri og gegndi því starfi til starfsloka.

Eiríkur var virkur í félagsstarfi alla tíð, söng í kór og var í leikfélagi.

 

Útför Eiríks fer fram frá Eyrarbakkakirkju í dag, 14. janúar 2017, kl. 13.
_____________________________________________________________________________


Minningarorð Ingibjargar Eiríksdóttur

 

Fyrirmyndin mín er farin burt úr þessu lífi með fullt hús stiga, sterkur og traustur allt þar til yfir lauk.

 

Hann var ekki sá sem hæst heyrðist í en það var hlustað á hann, ekki bara við sem vorum börnin hans heldur einnig samferðamennirnir. Börn sáu strax hvaða mann hann hafði að geyma og þau hændust að honum. Hann var mikill fjölskyldumaður og höfðum við skemmtun af samvistum við hann og það var betra að svara sannleikanum samkvæmt þegar hann innti eftir hvort allt væri í lagi hjá öllum honum tengdum. Hann hafði trú á fólki og sá fljótlega það sem hver maður hafði í sér frá náttúrunnar hendi, dæmdi ekki en ætlaði öllum það besta. Ekki hafði hann langa skólagöngu að baki en eftir honum var tekið við útskrift úr skóla fyrir það sem hann hafði áorkað á þeim vettvangi.

 

Pabbi var aðdáandi Íslands, íslenskrar tungu, ljóðlistar, jarðsögu og veðurfars. Hann bar lotningu fyrir öllum gróðri og lagði gjörva hönd á ræktun. Dáði ferðalög, stutt og löng, innanlands og utan. Fór oft og vitjaði Landeyjanna þar sem hann hafði verið í sveit sem barn hjá mjög mætu fólki. Það var fólkið hans, fjölskyldan í Klauf. Hann elskaði íslenska sumarnótt á fjöllum í tjaldi með mömmu. Hvíld fékk hann við lestur bóka og pólitík var heillandi í hans huga. Skemmtilegur maður, fróður og áhugasamur um tilveruna og alltaf samkvæmur sjálfum sér.

 

Ég kveð hann með söknuði og þakka samfylgdina gegnum lífið.

 

Ingibjörg Eiríksdóttir.
________________________________________________________________________


Minningarorð Kristínar Eiríksdóttur

Mig langar til þess að minnast hans pabba og þakka honum fyrir allt sem hann gaf mér og fyrir það öryggi sem að hann veitti mér sem barn og sem fullorðinni manneskju og fyrir félagsskapinn. Pabbi var maður sem hægt var að treysta á. Hann er fyrirmynd mín og mentor minn um núvitund. Það var hægt að ræða allt við hann, ræða málin fram og til baka og velta upp ólíkum sjónarmiðum. Hann var stoltur af því þegar ég var ósammála honum, þá sagði hann þetta er ég búinn að kenna þér að hafa skoðanir og standa með þeim. Við erum þá ósammála en aðalatriðið er að þú veist hvað þú vilt og að þetta eru þínar skoðanir.

 

Pabbi studdi mig og hvatti í hverju því sem ég tók mér fyrir hendur og hafði áhuga á að heyra hvað ég var að gera og um fyrirætlanir mínar. Hann var alltaf tilbúinn að passa börnin mín, þegar ég þurfti þess með og þau komu fróðari heim úr pössuninni. Við ferðuðumst mikið saman og þá fræddi hann okkur um sögu og menningu þeirra staða sem við heimsóttum. Á ferðum okkar taldi hann mikilvægt að við gætum staðsett okkur og nefnt landslagið og staðina sem við heimsóttum.

 

Hann bauð okkur oft í mat og stuðlaði þannig að samvistum fjölskyldunnar, var stoltur afi og áhugasamur um það sem barnabörnin tóku sér fyrir hendur og hvatti þau áfram til þess að ná markmiðum sínum og hlúði þannig að fjölskyldunni. Hann var víðlesinn og áhugasamur um lífið og fróður maður sem unni náttúrunni og vildi auðga hana og vernda, fylgdist vel með sjónum, skýjafarinu og hvernig landið og heimurinn var að breytast. Hann var mikill húmoristi og tilsvör hans voru hnyttinn og djúphugsuð. Pabbi, minn, far þú í friði og þakka þér fyrir allt og allt.

 

Kristín Eiríksdóttir.
__________________________________________________________


Minningarorð Óskars Magnússonar

 

Segja má að kynni okkar Eiríks í Hátúni hafi byrjað þegar við tókum þátt í ferðalagi á vegum ungmennafélagsins á Stokkseyri austur að Kirkjubæjarklaustri sumarið 1952, en það var þó fyrst þegar við Þórunn konan mín fluttum ásamt börnum okkar til Eyrarbakka árið 1957 að kynnin jukust og samverustundunum fjölgaði. Þá var strax farið að huga að varanlegu húsnæði fyrir fjölskylduna og leitað var til húsasmíðameistarans Eiríks, sem brást strax vel við og teiknaði handa okkur hús og gerðist byggingastjóri þess. Í það hús, sem við gáfum nafnið Hjallatún, fluttum við svo haustið 1959.

 

Reyndar var þá ýmislegt ógert, til dæmis vantaði hurðir aðrar en fyrir útidyrum, en smátt og smátt, alltaf með aðstoð byggingameistarans, komst allt í þokkalegt stand. Þannig háttar til að Hjallatún og Hátún standa sitt hvors vegar við Túngötuna, svo við urðum nágrannar í hálfa öld, börnin okkar léku sér saman og hefur vinátta þeirra staðið til þessa dags.

 

Nágrennið við Eirík og konu hans, Vigdísi Árnadóttur, var alla tíð hið besta og meðan fjölskyldurnar áttu ekki sín eigin farartæki, fórum við í svokölluð hverfisferðalög á hverju sumri ásamt öðrum í nágrenninu. Gárungarnir kölluðu þessi gatnamót Sjálfstæðisvinkilinn, en það tók enginn nærri sér. Þessi ferðalög lifa enn í minningunni og treystu vináttubönd nágrennisins.

 

Eiríkur var traustur vinur, bóngóður og gaman var að spjalla við hann um gamlar minningar frá ýmsum tímum á Bakkanum.

Hann las mikið, safnaði gömlum munum og bjargaði frá glötun.

Hann lagði sig fram um að þekkja sögu munanna og sýndi þá gjarnan með stolti og sagði þá frá.

 

Það var mikið áfall fyrir Eirík og fjölskylduna alla, þegar Vigdís féll frá árið 1990. Vigdís var hlý kona og skynsöm, lifði fyrir sína nánustu og var mikil húsmóðir og manni sínum meira en hálft lífið.

 

Þau hjón ferðuðust mikið saman, ekki síst um óbyggðir Íslands. Eiríkur bjó í Hátúni allt þar til hann þurfti aðstoðar við og fór þá til dvalar á Dvalarheimilið Sólvelli á Eyrarbakka. Hann lést á nýjársdag síðastliðinn.

 

Börnum og öðrum aðstandendum Eiríks vil ég færa innilegar samúðarkveðjur frá fjölskyldunni frá Hjallatúni.

 

Óskar Magnússon.
_________________________________________________________________________


Minningarorð Vigdísar Sigurðardóttur

 

Við afi vorum vinir og hann kenndi mér margt enda fróður maður um margt og vel lesinn. Þær eru fjölmargar ferðirnar sem við fórum í og fræddi hann mig allan tímann um örnefni, jarðfræði, veðurfræði, náttúrufræði, sögu og hvað annað sem á vegi okkar varð. Afi kenndi mér að horfa á náttúruna, hlusta, taka eftir og fylgjast með breytingum.

 

Góðar þóttu mér stundir okkar afa þegar við sátum yfir kaffibolla í Hátúni og ræddum saman um heima og geima. Afi var mikill leikari og þegar hann sagði mér frá mönnum og atvikum lagði hann sig fram um að herma eftir. Hann gerði það svo listavel að margir merkir menn á Eyrarbakka eru mér ljóslifandi þó að þeir hafi farið löngu fyrir mína tíð.

 

Þá eyddum við oft drjúgum tíma saman við lestur, enda bókaúrvalið gott hjá afa. Stundum var afi að smíða í kjallaranum og ég að framkalla ljósmyndir í aðstöðu sem hann útbjó fyrir mig þar. Eitt vorið héldum við afi sýningu saman í kjallaranum, hann var í smíðaverkstæði sínu að smíða strokka og ég með ljósmyndir í næsta herbergi. Það litu margir inn hjá okkur og þótti uppátækið skemmtilegt. Afi var alltaf tilbúinn þegar ég bað hann að koma eitthvað með mér. Sem dæmi þá var stofnaður hér ljósmyndaklúbbur og tók ég afa með á alla fundi, ávallt mætti hann fullur áhuga.

 

Við afi fórum víða, m.a. í Klauf þar sem hann var í sveit og lýsti hann fyrir mér lífinu þar. T.d. fyrstu ferðinni þangað, hvernig hundurinn var tryggur sínum húsbónda, slættinum í mýrinni og grjótleysinu á svæðinu. Hann kynnti mér hvernig torf var skorið á mismunandi vegu og lagt á torfbæi. Við fórum einnig í heimsókn til uppeldissystur afa úr Klauf og mannsins hennar, og fékk ég að heyra sögur af afa frá því hann var lítill.

 

Eitt sumarið fórum við afi í gott ferðalag upp á hálendið. Ég skaffaði nesti og hann bílinn, nema ég bað afa um að baka pönnukökur fyrir ferðina. Afi bakaði bestu pönnukökur í heimi. Þá fórum við í Eyvindarkofaver og skoðuðum vel, gistum í Nýjadal og keyrðum Fjallabaksleið nyrðri heim. Þessi ferð er ógleymanleg því við afi gátum gleymt okkur yfir því að skoða bæði stórt og smátt, velt fyrir okkur sögu, jarðfræði og líffræði. Okkur lá ekkert á.

 

Afi hafði mikinn áhuga á sjónum og kenndi mér margt tengt honum, t.d. að tína söl, taka miðin á hafi, lesa í ósana, fylgjast með öldunum, örnefni skerja, róa bát, leita að kröbbum og láta þá berjast o.m.fl. Við fórum oft niður í fjöru saman að skoða og fylgjast með náttúrunni. Þegar ég var orðin sjávarlíffræðingur skildi hann mig manna best er ég sagði honum frá mínum rannsóknum á átu og hann gat oft á tíðum dýpkað þekkingu mína með frásögnum af átu frá sinni tíð. Ég hef á tilfinningunni að afi hefði helst viljað koma með mér í námið.

 

Þegar sólmyrkvinn var árið 2015 fórum við Sigurlína mín til afa á Sólvelli þar sem við sátum saman á bekk utandyra og fylgdumst með, auðvitað með sólmyrkvagleraugum. Þetta var hátíðarstund hjá okkur og höfðum við gaman af að fylgjast með þessu stórmerkilega náttúrufyrirbrigði.

 

Ég er rík að hafa átt þennan afa.

 

Vigdís Sigurðardóttir.Morgunblaðið 14. janúar 2017.

 
Skráð af Menningar-Staður


 

14.01.2017 08:02

Ingibjörg Magnúsdóttir - Fædd 20. júlí 1923 - Dáin 1. jan. 2017 - Minning

 

 

Ingibjörg Magnúsdóttir.

 

Ingibjörg Magnúsdóttir - Fædd 20. júlí 1923

- Dáin 1. jan. 2017 - Minning
 


Ingibjörg Magnúsdóttir fæddist 20. júlí 1923. Hún lést 1. janúar 2017.

 

Foreldrar: Ragnheiður Jónsdóttir, f. 22.12. 1901, d. 12.8. 1971, og Magnús Þorvarðarson, f. 6.7. 1895, d. 27.2. 1926.

Systkini: Björgvin Magnússon, f. 1921, d. 1990, Vigdís, f. 1924, d. 1925, Magndís Ragna Pálsdóttir, f. 1931, og Ester Arilíusardóttir, f. 1941.

 

Maki: Ástmundur Sæmundsson, f. 23.10. 1910, d. 28.7. 1985.

Börn þeirra eru:

1) Ástríður, f. 1938, d. 2013. Maki Ársæll Guðmundsson, börn þeirra eru a. Guðmundur, f. 1962, hans börn eru Rúnar, f. 1985, Ársæll, f. 1987, og Ásta Björk, f. 1991. b. Ingibjörg, f. 1964, hún á Örvar, f. 1987, og Nikulás, f. 2000, Örvar á Harald Aron, f. 2011, og Brynju Sif, f. 2013. c. Jón Ásti , f. 1971. d. Magnús, f. 1975, dætur hans eru Veronika, f. 2000, Hanna Karitas, f. 2003, og Ragnheiður, f. 2009.

2) Magnea Ragnheiður, f. 1945. Maki Ingimar Þorbjörnsson. Börn þeirra eru a. Ingigerður, f. 1965, börn hennar eru Ingunn, f. 1987. Ægir, f. 1991, Guðmundur Ingi, f. 1997, og Ingimar, f. 2000. Ingunn á Arnar Magna, f. 2016, og Ægir á Hjálmar Guðjón, f. 2012. b. Bjarni, synir hans eru Heiðar Snær, f. 2004. Bjarni Valur, f. 2006, og Brynjar Ingi, f. 2011.

3) Sæmundur, f.1949.

4) Sigríður, f. 1954, maki Sigmar Eiríksson, þeirra börn eru a. Ástmundur, f. 1975, hans börn eru Adam Sebastian, f. 1998. Sigríður, f. 2004, og Guðmunda, f. 2011. b. Arnar, f. 1976, hans börn eru Silvía Dís, f. 2005. Emilíana Lárey, f. 2008. Einar Örn, f. 2011, og Eiríkur Hrafn, f. 2014. c. Eiríkur, hans dóttir er Linda Bíehl, f. 2016. d. Bylgja, f. 1991.

4) Sævar, f. 1961. Hans börn eru Hafþór Ari, f. 1985. Ástþór Ingi, f. 1993. Gunnþór Tumi, f. 1996, og Arndís Ósk, f. 2007.

 

Ingibjörg fæddist í Mið-Meðalholtum í Gaulverjabæjarhreppi. Hún missti pabba sinn þriggja ára og fór Ragnheiður móðir hennar í kaupamennsku að Sandvík í Sandvíkurhreppi og þar ílengdist Ingibjörg þegar Ragnheiður fór til annarra starfa.

 

Ingibjörg ólst þar upp og gekk í skóla á Selfossi. Ingibjörg og Ástmundur giftu sig 4. janúar 1942. Þau hófu búskap á Stokkseyri og fluttu síðan að Eystri-Grund í Stokkseyrarhreppi. Árið 1985 fluttu þau hjónin í Íragerði 11. Þegar þau höfðu búið þar í eina viku varð Ástmundur bráðkvaddur heima. Þaðan flutti Ingibjörg á Sólvelli á Eyrarbakka þá 83 ára og bjó þar til dauðadags.

 

Þegar barnauppeldinu lauk fór hún út að vinna og vann í Hraðfrystihúsi Stokkseyrar og þegar fyrirtækið flutti til Þorlákshafnar og varð Árnes fór hún þangað og vann þar til rúmlega sjötugs.

 

Ingibjörg lærði á bíl rúmlega fimmtug og sumarið 2015 rétti hún tengdasyni sínum bíllyklana og sagðist vera hætt að keyra, þá 92 ára. Ingibjörg prjónaði mikið alla tíð, hún var virk í starfi aldraðra á Stokkseyri og félagi í Kvenfélagi Stokkseyrar um langt árabil.

 

Útför Ingibjargar fer fram frá Stokkseyrarkirkju í dag, 14. janúar 2017, og hefst kl. 15.

_______________________________________________________________________________________


Minningarorð Ingibjargar Ársælsdóttur

 

Ein af fyrstu minningum mínum um ömmu er þegar ég er lítil á Eystri-Grund og mamma og pabbi víðs fjarri, líklega að eiga annan hvorn yngri bræðra minna. Amma kemur út á hlað og kallar „matur“, ég fer af stað heim, beina leið út að hliði, því mér þótti maturinn hjá ömmu vondur – og reyndar maturinn hjá öllum, því ég var mikill gikkur. Svo var ég bara sótt þegar allir voru búnir að borða og amma gaf mér eitthvað mikið betra en það sem var í matinn. Ég minnist þess samt ekki að hafa athugað hvað var í matinn áður en ég fór. Svona var amma, vildi aldrei hafa nokkurn mann svangan.

 

Amma hét líka Arndís að fyrra nafni en notaði það aldrei. Eitt sinn þegar ég kom til hennar í Íragerðið sagði hún að það hefði hringt til sín maður og spurt hvort Arndís væri heima, hann væri að vinna eitthvað með ættfræði. Amma sagði nei, hér býr engin Arndís en fattaði um leið og hún hafði lagt símtólið á að það var hún sjálf sem spurt var um og þegar Arndís Ósk frænka var skírð var ekki laust við að hún yrði stolt í hjartanu yfir nöfnu sinni.

 

Eftir að ég flutti á Stokkseyri var ég að bera út póstinn um árabil og kom þá alltaf við hjá ömmu. Þá varð amma ekki lengur bara amma mín heldur líka vinkona og við gátum talað um allt milli himins og jarðar. Þarna sat ég og þáði kaffi og með því sem yfirleitt var jólakaka og eitthvert bakkelsi. Einu sinni man ég eftir að Jón Ásti bróðir kom í heimsókn þegar ég var að borða jólakökuna góðu. Amma verður himinlifandi og segir: „Ertu kominn, elsku hjartað,“ stormar inn í herbergi og sækir konfekt handa honum. Við hlógum lengi að þessari mismunun en mér þótti vænt um að amma leit ekki lengur á mig sem gest heldur daglega rútínu.

 

Mér er það minnisstætt að þegar amma gaf okkur systkinunum gjafir, hvort sem það voru afmælisgjafir eða jólagjafir, stórar eða smáar, þá sagði hún alltaf: „Fyrirgefðu nú þetta smáræði“ þegar hún afhenti þær. Svo sagði hún aldrei umslag heldur konfilukt. Sumt bara skilur maður ekki.

 

Pabbi sagði mér um daginn að þegar hann hitti ömmu fyrst hefði hann komið heim að Grund og verið að sækja mömmu sem ungur maður. Amma var úti á hlaði og pabbi segist vera kominn að hitta hana Ástu. „Hana Ástu mína,“ segir amma. „Átt þú hana?“ segir pabbi því hann hélt hún væri dóttir Ástu á vestari bænum. „Já, það hefði ég nú haldið,“ segir amma og snýr heldur betur upp á sig, í því kemur mamma út og þau fara. Mikið er ég fegin ömmu að hafa ekki rekið strákinn burtu, en þeim var alltaf vel til vina, ömmu og pabba, og hann var duglegur að rúnta með hana eftir að hún hætti að keyra sjálf enda sagðist hún sjá svo vel umhverfið þegar hún væri ekki sjálf að keyra.

 

Ég kom stundum til hennar á Sólvelli og við gátum eytt miklum tíma í að ræða prjónaskap og handavinnu því þar áttum við sameiginlegt áhugamál. Á Sólvöllum fannst ömmu mikið gott að vera og á starfsfólkið á Sólvöllum miklar þakkir skilið fyrir góða umönnun og gott viðmót. Elsku amma, takk fyrir allt og knúsaðu mömmu þegar þið hittist.

 

Ingibjörg Ársælsdóttir.
 


Morgunblaðið 14. janúar 2017

 


Stokkseyrarkirkja.


Skráð af Menningar-Staður
 


 

13.01.2017 20:26

Merkir Íslendingar - Sigvaldi Kaldalóns

 


Sigvaldi Kaldalóns (1881 - 1946)
 

 

Merkir Íslendingar - Sigvaldi Kaldalóns

 

Sigvaldi Kaldalóns fæddist í Vaktarabænum í Grjótaþorpinu 13. janúar 1881, sonur Stefáns Egilssonar múrara og k.h., Sesselju Sigvaldadóttur, ljósmóður Reykjavíkur um árabil.
 

Stefán var hálfbróðir Jóns í Litlabæ, föður Guðmundar Kamban rithöfundar og Gísla Jónssonar alþingismanns. Í móðurætt var Sigvaldi þremenningur við séra Bjarna Þorsteinsson á Siglufirði. Bróðir Sigvalda var Eggert söngvari.
 

Sigvaldi lauk stúdentsprófum frá Lærða skólanum 1902, embættisprófi í læknisfræði frá Læknaskólanum í Reykjavík 1908 og stundaði framhaldsnám í Kaupmannahöfn. Þar kynntist hann danskri og evrópskri tónlist og einnig eiginkonu sinni, Karen Margrethe Mengel Thomsen hjúkrunarkonu.
 

Sigvaldi varð héraðslæknir í Nauteyrarhéraði 1910, sem náði yfir innri hluta Ísafjarðardjúps. Hann bjó í Ármúla, örskammt sunnan við hið ægifagra Kaldalón þar sem skriðjökull úr Drangajökli skríður niður í lónið. Svo hugfanginn varð hann af þessu svæði að hann tók síðar upp ættarnafnið Kaldalóns.
 

Sigvaldi veiktist alvarlega af taugaveiki 1917 og náði sér aldrei að fullu. Hann dvaldist á Vífilsstöðum og á heilsuhæli í Kaupmannahöfn, var síðan héraðslæknir í Flateyjarhéraði 1926-29 og í Keflavíkurhéraði með aðsetur í Grindavík 1929-41. Hann var læknir í Grindavík til 1945 en flutti þá til Reykjavíkur.
 

Sigvaldi var sannkallað söngvatónskáld og er eitt vinsælasta tónskáld þjóðarinnar, fyrr og síðar.
 

Hann lærði nótur og fékk aðra tónlistartilsögn hjá dómorganistunum Jónasi Helgasyni og Brynjólfi Þorlákssyni og varð fyrir áhrifum af vini sínum Sigfúsi Einarssyni tónskáldi frá Eyrarbakka.

Meðal þekktustu laga Sigvalda eru t.d. Ísland ögrum skorið; Á Sprengisandi; Suðurnesjamenn; Svanasöngur á heiði; Erla, góða Erla; Ave María; Draumur hjarðsveinsins og Ég lít í anda liðna tíð.
 

Sigvaldi lést 28. júlí 1946.

 


Ármúli á Snæfjallaströnd í Nauteyrarhreppi þar sem Sigvaldi Kaldalóns læknir

sat árin 1910-1922. Gustav Rasmussen apótekari tók myndina síðsumars 1916.

 

Morgunblaðið.Skráð af Menningar-Staður

13.01.2017 10:22

Alþýðuhúsið á Eyrarbakka 13. jan. 2017

 


F.v.: Siggi Kristins, Rúnar Eiríksson, Sigurður Egilsson, Guðmundur Sæmundsson,

Siggeir Ingólfsson, Reynir Jóhannsson, Jón Friðrik Matthíasson og Eiríkur Runólfsson.

Ljósm.: Björn Ingi Bjarnason.

 

Alþýðuhúsið á Eyrarbakka 13. jan. 2017
 

Vinir alþýðunnar

 

.

 

 


Skráð af Menningar-Staður

 

12.01.2017 21:54

Þegar Hrútavinir heiðra þá er heiðrað

 

 

Þau 10 sem heiðruð voru af Hrútavinafélaginu Örvari á Bryggjuhátðiðinni sumarið 2009.

Ljósm.: Magnús Hlynur Hreiðarsson.


„Þegar Hrútavinir heiðra þá er heiðrað“

 

Hrútavinafélagið Örvar á Suðurlandi hefur heiðrað mann og annan frá því félagið var stofnað að Tóftum í Stokkseyrarhreppi hinum forna á Hrútasýningu haustið 1999.

 

Hrútavinafélagið  heiðraði tíu Stokkseyringa á tíu ár afmæli félagsins árið 2009 og  var heiðrunin á Bryggjuhátíðinni  um sumarið. Heiðrað var fyrir ýmis góð störf í Stokkseyrarsamfélaginu síðustu ár og áratug.


Þau eru talið frá vinstri á mynd:

Kristrún Ósk Kalmannsdóttir, húsmóðir, hagleikskona og umboðsmaður Morgunblaðsins, nú látin,

Margrét S. Frímannsdóttir f.v.  forstöðumaður á Litla-Hrauni, f.v. oddviti og alþingismaður,

Guðrún Kristmannsdóttir, húsmóðir og fiskverkakona í rúma hálfa öld,

Ragnhildur Jónsdóttir, húsmóðir og meðhjálpari í Stokkseyrarkirkju,

Grétar Zópaníasson, f.v. starfsmaður Árborgar og síðasti sveitarstjóri á Stokkseyri,

Kristján Friðbergsson f.v. forstöðumaður á Kumbaravogi, nú látinn,

Sigríður Kolbrún Guðjónsdóttir, f.v. hjúkrunarforstjóri á Kumbaravogi,

Helga Jónasdóttir, húsmóðir og starfskona við barnaskólann á Stokkseyri í rúm 30 ár,

Theódór Guðjónsson f.v. skólastjóri barnaskólans á Stokkseyri um árabil,

og séra Úlfar Guðmundsson f.v. sóknarprestur á Stokkseyri og Eyrarbakka í áratugi.Á þessari heiðrun sést berlega hversu yfirsýn Orðunefndar Hrútavinafélagsins er margþætt á hið samfélagslega mikilvægi starfa.

 

Ljósm.: Magnús Hlynur Hreiðarsson.


Skráð af Menningar-Staður

11.01.2017 21:33

Páll studdi ekki ráðherraskipanina

 

 

Páll Magnússon.

 

Páll studdi ekki ráðherraskipanina
 

Páll Magnússon, oddviti Sjálfstæðisflokksins í Suðurkjördæmi, studdi ekki þá ráðherraskipan sem Bjarni Benediktsson, formaður flokksins, gerði tillögu um og samþykkt var í gærkvöldi.

 

"Á þingflokksfundi í gærkvöldi sagðist ég því miður ekki geta stutt þá ráðherraskipan sem formaður flokksins gerði tillögu um. Fyrir því væru tvær ástæður: Í fyrsta lagi gengi þessi skipan í veigamiklum atriðum gegn því lýðræðislega umboði sem þingmenn Sjálfstæðisflokksins hefðu áunnið sér í prófkjörum og síðan kosningum í haust. Í öðru lagi fæli hún í sér lítilsvirðingu gagnvart Suðurkjördæmi þar sem Sjálfstæðisflokkurinn vann sinn stærsta sigur í kosningunum," segir Páll á Facebooksíðu sinni.

 

Páll bætir því við að þetta hafi auðvitað ekkert með þá einstaklinga að gera sem völdust til ráðherraembætta. Þau séu öll hið vænsta fólk og hann hafi óskað þeim hjartanlega til hamingju.

 

"Vegna fjölda fyrirspurna og athugasemda sem hafa dunið á mér síðasta hálfa sólarhringinn finnst mér skylda mín að upplýsa stuðningsmenn Sjálfstæðisflokksins í Suðurkjördæmi um [þetta]," segir Páll ennfremur.

 

 Af www.sunnlenska.is


Slráð af Menningar-Staður

 

11.01.2017 06:20

Ráðherrarnir í nýrri ríkisstjórn Íslands

 

 

 

Ráðherrarnir í nýrri ríkisstjórn Íslands
 

Morgunblaðið og Fréttablaðið

 Skráð af Menningar-Staður

 

 

10.01.2017 21:24

Vestur-ísfirskur meirihluti í stjórnarforystu

 

 

Formennirnir í Gerðarsafni í Kópavogi.

F.v.: Óttarr Proppe, Bjarni Benediktsson og Benedikt Jóhannesson.
Ljósm.: Mbl.

 

Vestur-ísfirskur meirihluti í stjórnarforystu

 

Ný ríkisstjórn er að verða til á Íslandi en það er stjórn Sjálfstæðisflokks, Viðreisnar og Bjartrar framtíðar.

Hinir ýmsu vitringar í stjórnmálum og greiningardeildir keppast nú við að dásama eða rífa niður hinn nýja stjórnarsáttmála allt eftir því í hvaða sporum menn standa.

Ein er sú greining sem farið hefur fram hjá  -Vestfirska forlaginu-  er sú að tveir af þremur flokksformönnunum eru með sterkar vestur-ísfirskar tengingar sem trúlega munu reynast þeim farsælar í ráðherrastörfum.


Óttarr Proppe, formaður Bjartrar framtíðar, á sterkar rætur ættar sinnar á Þingeyri og Benedikt Jóhannesson, formaður Viðreisnar, er tengdasonur Önundarfjarðar.
Skráð af Menningar-Staður

10.01.2017 08:33

Bakkablótið 2017

 

 

 

     Bakkablótið 2017

 

Miðasala 11. jan. á Stað kl. 20:00
 

 Skráð af Menningar-Staður

 

 

09.01.2017 16:01

Eyrbekkingurinn Jón á Hofi

 

 

Jón Björgvin Stefánsson - Fæddur 10. febrúar 1889 - Dáinn 19. apríl 1960

 

Eyrbekkingurinn Jón á Hofi

 

Aflahæsti humarbátur landsins á árinu 2016 er Jón á Hofi ÁR 42 frá Þorlákshöfn eins og fram hefur komið hér á Menningar-Stað.

Margir Sunnlendingar vita þá ber skipið nafn Jóns á Hofi á Eyrarbakka.

 

Hér koma tvær minningargreinar samferðamanna Jóns á Hofi og voru birtar í Tímanum  28. apríl 1960 á útfarardegi Jóns á Hofi – Jóns Björgvins Stefánssonar.


Gunnar Vigfússon skrifar:

Á síðari hluta nítjándu aldar og fyrri hluta  hinnar tuttugustu, bjuggu í Merkigarði á Eyrarbakka merkishjónin Steán Ögmundsson verzlunarmaður hjá Eyrarbakkaverzlun og kona hans Kristín Jónsdóttir.

 

— Stefán var fæddur í Oddgeirshólum 13. maí 1851, og var yngstur barna Ögmundar bónda! þar, Þorkelssonar er síðast var á Litlu-Reykjum í Flóa (d. 1828), Loftssonar í Heiðarbæ, Þorvaldssonar þar (d. 1770), Eirikssonar í Kringlu, Loftssonar. Kristín kona Stefáns í Merkigarði var fædd 17. des. 1858, dóttir Jóns bónda í Arnarbæli í Grímsnesi (f. 13.3. 1835) Sigurðssonar smiðs í Arnarbæli, Gíslasonar á Stóru-Borg, Ólafssonar. Kona Sigurðar smiðs var Vilborg, dóttir Jóns, er var prestur í Klausturhólum 1807—1832, Jónssonar prests í Hruna, Finnssonar biskups í Skálbolti, Jónssonar. En kona Jóns í Arnarbæli og móðir Kristínar var Sigríður Stefánsdóttir prests á Felli í Mýrdal Stefánssonar prests á Stóra-Núpi, Þorsteinssonar prests á Krossi, Stefánssonar spítalahaldara á Hörgslandi, Björnssonar.

 

Hjónin í Merkigarði áttu þrjá sonu, er komust upp. Elztur iþeirra var Stefán, f. 5. febrúar 1895, drukknaði 3. maí 1905, en yngstur var Sigmundur trésmiður á Eyrarbakka, f. 11. ágúst 1891, d. 25. júlí 1957.

 

Þriðji sonur þeirra Merkigarðshjóna — og sá, setin hér verður lítilega minnzt — var Jón B. Stefánsson, sem í dag verður lagður, til hinztu hvfldar í Eyrarbakkakirkjugarði.

 

Hann hét fullu nafni Jón Björgvin og var fæddur í Merkigarði 10. febrúar 1889. Ólst hann upp hjá foreldruim sínum og vandist snemma hvers konar vinnu til sjós og lands. Á yngri árum stundaði hann sjó á vetrum, bæði á skútum og vélbátum, eins og fleiri Eyrbekkingar, en ýmsa landvinnu á sumrum, t. d. símavinnu o. fl. 

 

Um 1920 réðist hann verzlunarmaður til Kaupfél. Heku á Eyrarbakka og vann hjá því félagi meðan það starfaði.

 

En lengstan starfsferl átti Jón hjá Kaupfélagi Árnesinga. Var hann einn af fyrstu starfsmönnum þess, réðist  17. febrúar 1931 og var þar fastur starfsmaður til dánardags. Vann hann fyrst við vörugeymslu félagsins á Eyrarbakka, hafði umsjón og verkstjórn með uppskipun þar og afgreiðslu allri. En á þeim árum var öll þungavara, svo sem matvörur, timbur og annað byggingarefni flutt með skipum til Eyrarbakka, sem varð þannig nokkurs konar birgðastöð félagsins.

 

Eftir að flutningar lögðust niður til Eyrarbakka, sjóleiðis, flutti Jón að Selfossi og varð deildarst. í vörugeymslu félagsins.

 

Árið 1919 kvæntist Jón Hansínu dóttur Jóhanns Gíslasonar vigtar manns á Eyrarbakka og síðar fiskimatsimanns í Beykjavík og konu hans Ingibjargar Rögnvaldsdóttur frá Ásum í Gnúpverjahreppi.

 

Byrjuðu þau búskap í Merkigarði á Eyrarbakka og munu hafa búið þar í 1 eða 2 ár, en fluttu þá að Hofi á Eyrarbakka og bjuggu þar unz þau fluttu að Selfossi árið 1947, en þar höfðu þau byggt íbúðarhús og fluttu í það í desember það ár. — En eftir 3 mánuði varð Jón fyrir þeirri sorg að missa konu sína. Hún dó á þessu nýja heimili þeirra hinn 13. marz 1948, tæplega 46 ára að aldri.

 

Þeim hjónum varð sex barna auðið— og verða þau talin hér eftir aldri:

1. Ingibjörg kona Hjalta Þórðarsonar, frá Reykjum, oárnsmíðameistara á Selfossi.

2. Kristin kona Guðm. Ólafssonar bílstjóra í Reykjavík.

3. Björgvin kaupfélagsstióri á Seyðisfirði, kvæntur Ólínu Þorleifsdóttur.

4. Margrét kona Ólafs Þorvaldssonar frá Arnarbæli, rafvirki á Selfossi.

5. Stefán járnsmiður á Selfossi, kvæntur Unni Sigursteinsdóttur.

6. Jóhann bifreiðastjóri á Selfossi, kvæntur Sigríði Ólínu Marinósdóttur.

 

Hér hefur í stórum dráttum verið rakin starfssaga Jóns Stefánssonar, —; og er þó aðeins stiklað á því helzta.

Ekki veit ég um vinnubrögð hans á fyrri árum, en síðustu 23 árin unnum við hjá sama fyrirtækinu, að vísu við óík störf, en það þori ég að fullyrða, að fáir hafi verið heiili í starfi en hann.

Öll vinna hans einkenndist af árvekni og trúmennsku. Hann var ágætur starfsfélagi og virtur af samstarfsmönnum sínum, bæði yfirmönnum hans, og þeim, sem hann var yfir settur.

 

Gunnar Vigfússon

______________________________


Egill Gr. Thorarensen skrifar:Gæfumaður genginn
 

 

Andiátsfregn Jóns B- Stefánssonar vinar míns, barst mér fiingað á Landsspítalann í gær. Leiðir okkar lágu saman í nánu samstarfi í 34 ár. Margs væri að minnast, en aðstæður leyfa mér aðeins fáein kveðjuorð.

 

Þegar fundum okkar bar fyrst saman, var Jón starfsmaður hjá Kf. Heklu á Eyrarbakka. Ég rak þau árin kaupmannsverzlun — en Jón var mikill samvinnumaður. Skömmu seinna hætti Hekla störf um, og vegna þess að Jón hafði þá ekki annað starf sem hentaði honum betur, réðist hann til mín, og voru aðalstörf hans næstu árin — skipaafgreiðsla á Eyrarbakka, upp skipun og umsjón með vörubirgð- um ásamt afgreiðslu og sölu á byggingarefni. Jón var frábær starfsmaður, afkastamikill, hárviss og aðlaðandi í umgengni. Það var nóg að starfa, þegar skip komu, voru þau afgreidd jafnt nótt sem dag, en Jón vantaði aldrei, hann var alltaf á sínum stað, traustur, athugull, glaðvær og vingjarnlegur. Hans rúm var vel skipað.

 

Eftir fá ár var Kf. Árnesinga stofnað, en verzlun mín lagðist þá niður. Við Jón fylgdumst báðir til K.Á. og höfum verið þar samstarfs menn siðan. Nú var eins og Jón væri kominn heim, enginn gladdist meir við stofnun hins unga samvinnufélags en hann, ekki af því að vel færi ekki á með okkur í fyrri samvinnu heldur vegna þess að Jón var samvinnumaður í húð og fiar og hafði tileinkað sér hugsjónir samvinnumanna í viðskiptum.

 

Jón var greindur vel, og flj6tur að sjá aðalatriði hvers máls. Hann talaði oft um það, hve ánægjulegt væri að starfa við samvinnufélag, fyrst og fremst vegna þess að hvers þess starfs, sem unnið væri í dag, nyti framtíðin. Hver steinn, sem lagður væri í vegginn yrði eign héraðsins gegnum félagsskapinn, sem aldnir og óbornir ættu eftir að byggja ofauá um ókomna tíma.

 

Eftir að Kf. Árnesinga tók tii starfa, jókst enn starf Jóns. Árin 1931—39 komu flest árin 8 skip tii Eyrarbakka frá vori til hausts, með nokkur þúsund tonn af vörum, og allt sá Jón um, afgreiðsiu skipa, uppskipun, vörugeymslu og afhendingu. Það var mikið starf og vei af hendi leyst, slíku starfi anna aðeins úrvalsmenn.

 

Þegar mér var sagt lát Jóns B. Stefánssonar greip mig söknuður, söknuður að eiga ekki eftir að njóta trausta handtaksins eða sjá glaða brosið og góðmannlega svipinn. Þessu hafði dauðinn svift okkur vini hans. En það sem elding flaug í huga mér við andiátsfréttina, var hversu mikill gæfumaður kvaddi hér samferðamennina. Eg efast um að eg hafi kynnzt öðrum eins gæfumanni og Jóni. Eg kynntist heimili Jóns all náið á Eyrarbakkaárum okkar. Það var fagurt heimili í öllum sikiliniiigi, J6n var svo gæfusamur að eiga sér ssanhenta konu, sem hann unni mjög og mat mikils, enda bjó hún honum fagurt og gott heimili með rausn og glæsibrag, sem Jóni var vel að skapi, því hann var rausnarmaður mikill. Hjónaband hans var því mjög gæfuríkt.

 Önnur gæfa Jóns var það að hann átti barnaláni að fagna, börnin voru falleg og gjörfuleg, og hafa reynzt hið ágætasta fólk. Var Jóni þetta mikil gæfa, því hann bar fjölskyldu sína mjög fyrir brjósti og var hinn umhyggjusamasti heimiiisfaðir. Heimilishamingja Jóns var ærin til þess að gera hann að gæfumanni, en ótalið er þá eitt og ekki veigaiítið, allit starf varð honum gæfa. Svo verður hjá öllum þeim, sem störf sín rækja af trúmennsku. Vitundin um vel unnið starf verður býsna drjúgt á metaskálum gæfunnar.

 

Allt þetta átti Jón Stefánsson í rfkum mæli, mikla gæfu í störfum og samskiptum við samferðamenn sína, því einnig var hann mjbg vinsæll. Jón hafði. nú náð þeim aldri, að hann hafði ákveðið að hætta störfum í sumar, en eg hygg að þessum mikla vinnumanni hefði orðið iðju leysið þungbært, til þess kemur nú ekki, því

 

„Enginn hugsi að annað líf

sé iðjuleysi tómt,

þótt ei þar finnist agg né kíf,

en ástarþelið frómt.

í aldingarðinum ærið starf

ætlað er lýðum þó

erfiði mannsins andi þarf

innanum frið og ró."

 

Svo kvað Grímur Thomsen.

 

Jón missti konu sína fyrir nokkr um árum. Ást hans til hennar var mikil, og ætli ástin sé ekki nokkuð ratvís hinum megin einnig.

 

Okkar mikli spámaður Matthías segir:
 

„Fáum við að finnast,

finnast, allt er heima,

óttumst ei ef unumst,

endalausa geima."

 

Já Jón vinur okkar var mikill gæfumaður fram í andlátið. Eg votta börnum hans hluttekningu mina við fráfall hans. Við öll1,sem þekktum hann nánast, vorum samferðamenn hans, samstarfsmenn og vinir, munum sakna hans, en sá söknuður mun jafnan verða blandinn gleði minninganna um góðan dreng.
 

Egill Gr. Thorarensen.

______________________________________________________________________________________________________________________
 


Hof á Eyrarbakka til hægri.
 

Hof á Eyrarbakka til vinstri.
 


Merkigarður á Eyrarbakka.  Myndirnar eru teknar 9. janúar 2017.  Ljósm.: BIB
 

Skráð af Menningar-Staður