Menningar-Bakki * Viðhalda og efla þjóðlega menningararfleið til sjávar og sveita*
-------- Alþýðuhúsið á Eyrarbakka - Vinir alþýðunnar - Á undan sinni framtíð --- "Stærra í hugum okkar en við sjálfir gerum okkur grein fyrir" ---

08.07.2019 19:59

Af málefnum Árborgar

 

 

 

 

Af málefnum Árborgar

 

 

Nú þegar rúmt ár er liðið frá síðustu sveitarstjórnarkosningum finnst okkur rétt að staldra við og fara í nokkrum orðum yfir þau verkefni sem bæjarstjórn hefur verið að fást við.  Svf. Árborg hefur verið í miklum vexti að undanförnu og ekkert sem bendir til annars enn að sú þróun haldi áfram. Fjölgun íbúa er umtalsvert yfir landsmeðaltali og er það ánægjuefni og um leið áskorun á bæjaryfirvöld að taka vel á móti nýjum íbúum og huga vel að þeim sem fyrir eru .Fljótlega eftir kosningar síðasta vor var ákveðið að fá hagfræðinginn Harald Líndal Haraldsson til að gera úttekt á stjórnsýslu, rekstri og fjármálum sveitarfélagsins. Lokaskýrsla Haraldar var  kynnt bæjarfulltrúum og starfsmönnum sveitarfélagsins um áramót.  Í framhaldi af því var farið í að innleiða nýtt skipurit fyrir sveitarfélagið og starfsmönnum falið að hefja vinnu í samræmi við þær ábendingar sem komu fram í skýrslunni.  Við innleiðingu nýja skipuritsins urðu ákveðnar breytingar á starfsmannamálum,  tilfærslur á störfum og ný störf urðu til. Einstaka stjórnendur ákváðu á þeim tímapunkti, að segja störfum sínum lausum og hverfa til annarra starfa og þökkum við þeim  góð og óeigingjörn störf fyrir sveitarfélagið undanfarin ár um leið og við bjóðum nýtt starfsfólk velkomið til starfa.

 

Umhverfismál

Við þessar breytingar á skipuritinu var m.a bætt við nýrri fagnefnd hjá sveitarfélaginu, sem er Umhverfisnefnd. Umhverfismálin eru sífellt að verða stærri  þáttur í lífi okkar og daglegum störfum.  Á þessu ári var byrjað á að safna lífrænu sorpi í sveitarfélaginu og  þriðja tunnan innleidd. Það þarf ekki að efast um það, hvað það skiptir miklu máli að allir taki með jákvæðum hætti þátt í aukinni flokkun úrgangs. Ljóst er að urðunarkostnaður fer sífellt hækkandi og þar með sorphirðugjöldin okkar íbúana sem eiga að endurspegla kostnaðinn við sorphirðuna.  Einnig hefur áhugi aukist að undanförnu á að skoða  möguleika með að koma upp grenndarstöðvum,með það að markmiði að auðvelda íbúum að flokka enn meira og losa sig við ákveðna sorpflokka þegar þeim hentar best.  Opnunartími gámasvæðisins við Víkurheiði hefur verið lengdur  og reynslan af því, sem af er verið góð, og ánægja meðal íbúa og fyrirtækja með aukið þjónustustig. Hreinsunarátak um allt Suðurland er á fullri ferð  í samstarfi við Heilbrigðiseftirlit Suðurlands, tilgangurinn er að hreinsa til á lóðum og lendum þar sem mikil ruslasöfnun hefur átt sér stað m.a vegna númerslausra bíla,ónýtra kerra og öðru drasli, sem ekki er til annars en skemma fallega ásýnd og vellíðan íbúa sveitarfélagsins. Nú fer að styttast í endanlega niðurstöðu í hönnun miðbæjargarðsins á Selfossi og verður sú vinna kynnt fyrir íbúum á næstunni.

 

Framkvæmdir og skipulag

Af nógu er að taka þegar kemur að framkvæmdum og skipulagsmálum í sveitarfélaginu.  Nýlega var ákveðið að fara í að endurskoða aðalskipulag  sveitarfélagsins, sem væntanlega mun taka um tvö ár í vinnslu.  Það er mjög mikilvægt að það verði unnið í góðu samstarfi við íbúa og hagsmunaaðila. Svf.Árborg á heilmikið land í Flóahreppi sem þarf að taka afstöðu til hvernig verður skipulagt til framtíðar, einnig óbyggt land við ný gatnamót Biskupstungnabrautar, sem verður mun áhugaverðara þegar nýr vegur og brú kemur yfir Ölfusá.  Á því landsvæði verður sveitarfélagið að vera með sínar áherslur um uppbyggingu og framtíðarsýn ljósar sem fyrst, ekki síst  vegna þess að fjársterkir aðilar hafa sýnt áhuga á framkvæmdum á svæðinu. Byggingaland undir íbúðarhúsnæði fer minnkandi og er allt kapp lagt á að koma hinu svokallaða Björkurstykki af stað sem fyrst, en það hefur tafist vegna ákveðinna skipulagsmála. 

 

Verið er að gera breytingar á deiliskipulagi á Stokkseyri og Eyrarbakka og skipuleggja nýjar byggingalóðir, en aukinn eftirspurn hefur verið eftir byggingarlóðum í þorpunum við ströndina. Einnig eiga einkaaðilar nokkuð af byggingalandi við Selfoss, sem þeir hafa lýst yfir áhuga á að koma af stað sem fyrst, sú uppbygging sem þeir aðilar stefna á verður að sjálfsögðu unnin í  samstarfi við bæjaryfirvöld og samfélaginu til góða.

 

Sl. haust var gengið frá kaupum Héraðsnefndar Árnesinga á svokölluðum Alpanhúsum á Eyrarbakka undir starfsemi Byggðarsafns Árnesinga, og ekki er vafi á því þessi kaup styrkja og styðja við öflugt menningarstarf í Svf. og Árnessýslu allri, til  framtíðar.

 

Langþráðar framkvæmdir við nýtt hjúkrunarheimili á Selfossi eru að fara í gang við HSU en er það samstarfsverkefni ríkisins og sveitarfélagsins.

 

Í sumar verður lokið við að malbika fjörustíginn, milli Eyrarbakka og Stokkseyrar og einnig byrjað að malbika stíginn, meðfram Eyrarbakkavegi frá Selfossi. Sá göngustígur mun í framtíðinni tengja saman Selfoss, Eyrarbakka og Stokkseyri, sem frábær göngu-og hjólastígur, milli þéttbýliskjarna sveitarfélagsins.

 

Ljósleiðaravæðing sveitarfélagsins er áberandi þessa dagana en verið er að leggja hann í öll hús á Selfoss, sem ekki voru þegar kominn með hann.  Einnig er að hefjast ljósleiðaravæðing í dreifbýli sveitarfélagsins.  Mikið hefur verið þrýst á fjarskiptafyrirtækin að hefja sömu vinnu á Eyrarbakka og Stokkseyri og vonir standa til það fari í gang sem allra fyrst.

 

 Skóla- og velferðarmál

Mikið að fjölskyldufólki flytur í sveitarfélagið og því hefur þörfin fyrir aukið skólahúsnæði vaxið hratt, hvort heldur er leikskóla eða grunnskóla.  Undirbúningur að byggingu grunnskóla í Björkurstykki hefur verið í gangi og heldur áfram af fullum þunga.  Þarfagreiningu og hönnunarvinnu er lokið og önnur undirbúningsvinna í gangi.  Á meðan skólinn er ekki komin í gagnið hefur þurft að þrengja að nemendum Sunnulækjar og Vallarskóla, en þar  hefur verið bætt við útistofum tímabundið. Ástæða er til þess að þakka starfsfólki og foreldrum þolinmæðina á meðan þetta ástand varir.  Til að mæta fjölgun í leikskólunum var á síðasta ári boðin út viðbygging við leikskólann Álfheima.  Mikil vonbrigði voru hve há tilboð í þá framkvæmd bárust, eða rúmar 500 milljónir, en  reikna má með að nýr fullbúinn sex deilda leikskóli kostar c.a 700 milljónir.  Var sú ákvörðun tekin að fara ekki í þessa framkvæmd að  sinni en ákveðið í framhaldinu að fara í aðstöðusköpun við leikskólann Álfheima. Vegna þessa var tekin ákvörðun um að hefja byggingu nýs sex deilda leikskóla við Engjaland á Selfossi.  Sú vinna er hafin og vonast til að hægt verði að taka hann í notkun haustið 2020.  Á meðan þarf að bregðast við auknum biðlistum, sem m.a lengdust verulega þegar Reykjavíkurborg tók þá ákvörðun að segja upp öllum vistunarsamningum við foreldra sem ekki eiga lögheimili í Rvk.  En nokkur börn með lögheimili í Svf. Árborg hafa sótt leikskóla til Rvk.  Til að leysa þennan vanda er verið að undirbúa að setja lausar stofur við leikskóla sveitarfélagsins næsta vetur þar til nýr leikskóli verður tilbúinn.  Allt er þetta gert til að leitast við að fjölskyldum líði vel í sveitarfélaginu og þurfi ekki að hafa áhyggjur af velferð barna sinna.

 

Íþrótta- og æskulýðsmál

Íþrótta- og æskulýðsstarf er hverju samfélagi nauðsynlegt og hægt að fullyrða að það er með miklum blóma í okkar sveitarfélagi. Stór hluti barna-og unglinga stundar einhverskonar íþrótta-og æskulýðsstarf og  með því að bjóða uppá frístundastyrki fyrir 5-17 ára, fyrir skipulagt íþrótta-og tómstundastarf, reynir sveitarfélagið að styðja við þessa þátttöku en styrkurinn er á árinu 2019, kr. 35.000,- á hvert barn.  Mjög öflugt starf er í þessum málaflokkum í sveitarfélaginu og ánægjuefni  að allir eiga að geta fundið eitthvað við sitt hæfi.  Íþróttir skipa stóran sess í sveitarfélaginu okkar og má vel sjá það með því að við eigum afreksfólk hvert sem litið er í fjölmörgum íþróttagreinum. Aðkoma sveitarfélagsins að uppbyggingu íþróttamannvirkja er með margvíslegum hætti. Metnaðarfullar hugmyndir um framtíðaruppbyggingu íþróttamannvirkja við Engjaveg hefur verið lögð fram og kynnt og ákveðið að byrja á byggingu fjölnota húss, þar sem fyrsti áfangi verður hálft hús með aðstöðu fyrir knattspyrnu og frjálsar íþróttir. Kraftmikil uppbygging hefur átt sér stað hjá GOS og stefna kylfingar  á 18 holu golfvöll við Svarfhól og vegna væntanlegrar brúar er vinna hafin við færslu vallarins og stefnt á að halda  áfram með hann upp með Ölfusá. Hestamannafélagið Sleipnir hefur unnið þrekvirki við uppbyggingu á Brávöllum, reiðhöll og keppnisaðstaða með því besta sem gerist á landinu og hefur gjörbreytt aðstöðu og tækifærum barna-og unglinga til að stunda hestamennsku.  Verið er að undirbúa vinnu við þarfagreiningu og hönnun á betri íþróttaaðstöðu á Stokkseyri, þar sem mikið uppbyggingarstarf hefur verið unnið á undanförnum árum.

 

Á dögunum var skrifað undir samning við landlæknisembættið um heilsueflandi samfélag, en helstu markmið Heilsueflandi samfélags, er að styðja samfélög í að skapa umhverfi og aðstæður sem stuðla að heilbrigðari lifnaðarháttum, heilsu og vellíðan allra íbúa. Verður spennandi að sjá hvernig það þróast hjá þeim hópi sem tekið hefur að sér að stýra verkefninu.

 

Íbúarnir eru sveitarfélagið

Sveitarfélagið Árborg er eitt af þeim sveitarfélögum á Íslandi sem í dag er í hvað mestum vexti og fólksfjölgun langt yfir landsmeðaltal ár eftir ár. Að reka sveitarfélag við þessar aðstæður er mikil áskorun og skemmtileg.  Þrátt fyrir auknar tekjur með mikilli fólksfjölgun duga þær tekjur ekki fyrir þeim framkvæmdum sem nauðsynlega þarf að ráðast í til þess að halda uppi öflugu þjónustustigi.  Því er mjög mikilvægt að horfa vel í fjármálin og forgangsraða með tilliti til þjónustu við íbúana og grunnþarfir þeirra.  Tekjur sveitarfélagsins koma að stærstum hluta frá íbúunum í formi útsvars og fasteignagjalda.  Með hækkandi fasteignamati er hægt að auka tekjur sveitarfélagsins verulega með því að leggja ár eftir ár áfram á sömu prósentu fasteignaskatts, vatnsgjalds, fráveitu ofl. Meirihluti bæjarstjórnar tók þá ákvörðun sl. haust að gera það ekki fyrir árið 2019, og milda þessa hækkun með því að lækka álagningarprósentu fasteignagjalda. Mikil vinna er framundan við að greina kostnað sveitarfélagsins til að ná fram enn frekari hagræðingu til að bæta reksturinn svo hægt verði að lækka álögur á íbúa og fyrirtæki.

 

Sveitarfélag er ekkert annað en íbúar þess, samkv. lögum og stjórnendur sem kosnir eru til að gæta hagsmuna þeirra og reka sveitarfélagið af skynsemi og með ábyrgð að leiðarljósi.

 

Helgi Sigurður Haraldsson,

forseti bæjarstjórnar Svf. Árborgar.

Eggert Valur Guðmundsson,

formaður bæjarráðs Svf. Árborgar.

 

 Dagskráin - héraðsfréttablað á Suðurlandi - 3. júlí 2019


 


Skráð af Menningar-Bakki.


 

08.07.2019 06:39

Merkir Íslendingar - Jakobína Sigurðardóttir

 

 

Jakobína Sigurðardóttir (1918 - 1994).

 

 

Merkir Íslendingar - Jakobína Sigurðardóttir

 

 

Jakobína Sig­urðardótt­ir fædd­ist í Hæla­vík á Horn­strönd­um 8. júlí 1918. 

For­eldr­ar henn­ar voru Sig­urður Sig­urðsson, bóndi í Hæla­vík, og Hall­dóra Guðna­dótt­ir hús­freyja.

 

Jakobína átti alls 12 systkini en meðal þeirra var Fríða Á. Sig­urðardótt­ir rit­höf­und­ur.


 

Jakobína flutti að Garði í Mý­vatns­sveit 1949 og bjó þar til æviloka, ásamt manni sín­um, Þorgrími Starra Björg­vins­syni, og börn­um þeirra, þeim Stef­an­íu, Sigrúnu Huld, Sig­ríði Krist­ínu og Kára. Hún stundaði nám við Ingimars­skól­ann í Reykja­vík og nám ut­an­skóla við KHÍ, en þess utan var hún sjálf­menntuð.
 

 

Jakobína sendi m.a. frá sér end­ur­minn­inga­bók, skáld­sög­ur, smá­sög­ur og ljóð en verk henn­ar komu út á ár­un­um 1959-2004. Formtilraun­ir og næm stíl­vit­und ein­kenna verk henn­ar. Hún réri ávallt á ný mið með hverju verki og fiskaði ríku­lega. Hún var form­bylt­ing­ar­höf­und­ur.


 

Fyrsta verk Jakobínu, æv­in­týrið Sag­an af Snæ­björtu Elds­dótt­ur og Ketilríði Kot­ungs­dótt­ur kom út 1959 og vakti strax at­hygli. Í kjöl­farið fylgdi kvæðasafn og síðar smá­sagna­safnið Púnkt­ur á skökk­um stað, 1964. Fyrsta skáld­saga Jakobínu, Dæg­ur­vísa, 1965, sló í gegn og var fram­lag Íslands til Bók­mennta­verðlauna Norður­landaráðs árið 1966. Auk þess var Lif­andi vatnið og Snar­an fram­lag Íslend­inga til þeirra verðlauna nokkru seinna.


 

Dæg­ur­vísa er hóp­saga, ein fárra slíkra í ís­lensk­um bók­mennt­um. Frá­sagn­ar­hátt­ur­inn í Snör­unni, 1968, er ágeng­ur; annarr­ar per­sónu frá­sögn sem er bein ræða sögu­manns frá upp­hafi til enda. Sterk þjóðfé­lags­ádeila end­ur­spegl­ast í verk­inu Lif­andi vatnið, 1974. Bók­in Í barn­dómi er ein­stök í sinni í röð; átak­an­leg og lýrísk lýs­ing á upp­vexti Jakobínu á Horn­strönd­um, undra­vert að hún skyldi ná að ljúka verk­inu fyr­ir dauða sinn.


 

Jakobína lést 29. janúar 1994.
 Skráð af Menningar-Bakki.

07.07.2019 08:21

Merkir Íslendingar - Þröst­ur Sig­tryggs­son

 

 

Þröstur Sigtryggsson (1929 - 2017).

 

 

Merkir Íslendingar - Þröst­ur Sig­tryggs­son

 

 

Þröst­ur Sig­tryggs­son skip­herra fædd­ist að Núpi í Dýrafirði 7. júlí 1929. Hann lést 9. des­em­ber 2017.


 

For­eldr­ar hans voru hjón­in Hjaltlína Mar­grét Guðjóns­dótt­ir, kenn­ari og hús­freyja, frá Brekku á Ingj­aldssandi, f. 4.7. 1890, d. 30.1. 1981, og séra Sig­trygg­ur Guðlaugs­son, prest­ur og skóla­stjóri á Núpi, frá Þröm í Garðsár­dal, f. 27.9. 1862, d. 3.8. 1959. Bróðir Þrast­ar var Hlyn­ur veður­stofu­stjóri, f. 5.11. 1921, d. 14.7. 2005.


 

Hinn 22.5. 1954 kvænt­ist Þröst­ur Guðrúnu Páls­dótt­ur sjúkra­liða, f. 23.9. 1933, d. 25.8. 2013. For­eldr­ar henn­ar voru Bjarn­heiður Jóna Guðmunds­dótt­ir hús­móðir, f. 7.9. 1910, d. 10.8. 1976, og Páll Þor­bjarn­ar­son, skip­stjóri og alþing­ismaður, f. 7.10. 1906, d. 20.2. 1975.Börn Þrast­ar og Guðrún­ar eru:
1) Mar­grét Hrönn, maki Sig­urður Hauks­son. Son­ur Mar­grét­ar er Þröst­ur Rún­ar Jó­hanns­son. 
2) Bjarn­heiður Dröfn, maki Sig­ur­jón Þór Árna­son. Börn þeirra eru Sig­trygg­ur Örn Sig­urðsson, Rúna Björg, Ell­en Dögg og Árni. 
3) Sig­trygg­ur Hjalti, maki Guðríður Hall­björg Guðjóns­dótt­ir, hún lést 1995. Syn­ir Sig­tryggs eru Þröst­ur, Guðjón Örn og Hlyn­ur. 
Fyr­ir átti Þröst­ur Kol­brúnu Sig­ríði, maki Magnús Pét­urs­son. Þeirra syn­ir eru Sig­urður Hann­es, Pét­ur Örn, Davíð Þór og Friðjón. Langafa­börn Þrast­ar eru 24.

 

 

Eft­ir lát eig­in­konu sinn­ar eignaðist Þröst­ur góðan fé­laga og vin, Hall­fríði Skúla­dótt­ur.


 

Þröst­ur ákvað nokkuð snemma að hans ævi­starf yrði á sjó. Hann tók inn­töku­próf upp í ann­an bekk far­manna í Stýri­manna­skól­an­um haustið 1952 og út­skrifaðist frá Stýri­manna­skól­an­um 1954 og lauk prófi í varðskipa­deild í sama skóla 1954. Hann réðst þá sem stýri­maður hjá Land­helg­is­gæsl­unni og varð fa­stráðinn skip­herra 1960 og starfaði þar til hann lét af störf­um árið 1990.

 

Þröst­ur kenndi tvo vet­ur við grunn­skól­ann á Þing­eyri. Reri einnig frá Þing­eyri á eig­in trillu, Palla krata, sumr­in 1993 og 1994.Hann var skóla­stjóri barna­skól­ans á Núpi 1981 til 1983 og kenndi einnig við Héraðsskól­ann á Núpi.


 

Þröst­ur var mik­ill áhugamaður um golf á þess­um árum og stofnaði golf­fé­lagið Glámu á Þing­eyri, ásamt því að teikna merki fé­lags­ins. Hann falaðist eft­ir jörð og fékk þar sem hann hannaði og gerði níu holu golf­völl. Æsku­slóðir voru hon­um hug­leikn­ar og gerði hann æsku­heim­ili sitt, Hlíð í Dýraf­irði, að menn­ing­ar­minja­safni. Átti hann hug­mynd að rit­un sögu Núps­skóla. Sú hug­mynd varð að veru­leika og kom bók­in, sem Aðal­steinn Ei­ríks­son ritaði, út í sum­ar, á 110 ára af­mæli stofn­un­ar skól­ans.

 

Minn­inga­brot Þrast­ar, bók­in „Spaug­sami spör­fugl­inn“, komu út 1987. Í til­efni gull­brúðkaups og 75 ára af­mæl­is Þrast­ar gaf hann út disk­inn „Haf­blik“ með eig­in lög­um.


 

Þröst­ur var sæmd­ur ridd­ara­krossi hinn­ar ís­lensku fálka­orðu 17. júní 1976. Hin síðari ár var hann virk­ur í starfi eldri borg­ara í Grafar­vogi og var í stjórn menn­ing­ar­deild­ar í Borg­um þegar hann lést.


 

Útför Þrast­ar fór fram frá Grafar­vogs­kirkju 19. des­em­ber 2017.
 Morgunblaðið.

 Skráð af Menningar-Bakki.

07.07.2019 07:48

Merkir Íslendingar - Benedikt Gröndal

 

 

Benedikt Gröndal (1924 - 2010). 

 

 

Merkir Íslendingar - Benedikt Gröndal

 

 

Benedikt fæddist á Hvilft í Önundarfirði 7. júlí 1924.  Foreldrar hans voru Sigurður Gröndal, rithöfundur, yfirkennari í Reykjavík og hótelsjóri að Valhöll á Þingvöllum og k.h., Mikkelína María Sveinsdóttir húsfreyja.


 

Sigurður var sonur Benedikts Gröndal, skálds og skólastjóra, af Presta-Högna ætt, og Sigurlaugar Guðmundsdóttur, en Mikkelína María var dóttir Sveins Árnasonar, bónda í Hvilft í Önundarfirði, og Rannveigar Hálfdánardóttur, systur Örnólfs í Skálavík, afa Haraldar J. Hamar ritstjóra.


 

Meðal sex systkina Benedikts má nefna Halldór Gröndal sóknarprest og Gylfa Gröndal rithöfund.


 

Kona Benedikts var Heidi Jaeger Gröndal húsfreyja sem lést 2012 og eignuðust þau þrjá syni, Jón, Tómas og Einar.

 

Benedikt lauk stúdentsprófi frá MR 1943, BA-prófi í sagnfræði frá Harvard-háskóla 1946 en með námi og að því loknu var hann blaðamaður á Alþýðublaðinu, síðan ritstjóri Samvinnunnar 1951-58 og ritstjóri Alþýðublaðsins 1959-69.


 

Benedikt var landskjörinn þingmaður Borgfirðinga fyrir Alþýðuflokkinn 1956-59, þingmaður Vesturlands 1959-78 og þingmaður Reykvíkinga 1978-82. Hann var formaður Alþýðuflokksins 1974-80 og forsætisráðherra minnhlutastjórnar Alþýðuflokksins 1979-80.


 

Benedikt var formaður Útvarpsráðs 1957-71, fulltrúi á allsherjarþingum og hafréttarráðstefnu SÞ, var formaður undirbúningsnefndar íslensks sjónvarps, sat í stjórn Seðlabanka Íslands, stjórn Framkvæmdastofnunar og Nýbýlastjórnar, í stjórn þingmannasambands NATO og sat í fjölda nefnda um endurskoðun hinna ýmsu laga. Þegar hann lét af þingmennsku 1982 var hann skipaður sendiherra í Svíþjóð og starfaði hjá utanríkisþjónustunni til 1991.


 

Benedikt sendi frá sér nokkrar bækur um stjórnmál, utanríkismál og sagnfræði.
 

 

Benedikt lést 20. júlí 2010.
Skráð af Menningar-Bakki.

06.07.2019 09:17

Fangelsisminjasafn Íslands var stofnað 8. maí 2019

 


Séra Hreinn S. Hákonarson talar á stofnfundi Fangelsisminjasafns Íslands.

 

 

Fangelsisminjasafn Íslands

 

  - stofnfundur 8. maí 2019

 

 

Miðvikudaginn 8. maí sl. var haldinn stofnfundur í Húsinu á Eyrarbakka um Fangelsisminjasafn Íslands.

 

Samþykkt voru lög fyrir félagið og stjórn kosin.

 

Það eru tímamót þegar Fangelsisminjasafni Íslands er stofnað með formlegum hætti. Vonandi tekst vel til með safnið og því auðnist með styrk góðra manna og síðar meir með fulltingi opinberra aðila að varðveita menningarverðmæti sem lítill gaumur hefur verið gefinn. Fangelsissaga er nefnilega hluti af sögu lands og lýðs.

 

Um nokkurt skeið hefur munum verið safnað í Fangelsisminjasafn Íslands. Fangaverðir hafa verið mjög áhugasamir um verkið og þó nokkurt magn muna komið í hús. Markmiðið er að Fangelsisminjasafn Íslands verði á Eyrarbakka.

 

Þeir gripir sem safnað hefur verið eru flestir litlir um sig en engu að síður merkir. Fangelsisminjasafnið kallar nú eftir gripum og öllu því sem tengist minjasögu fangelsa og ætti heima í safninu. Margt leynist víða, það vita allir. Fólk er hvatt til að leggja safninu lið í söfnun á munum og hafa samband. Hver gripur, smár sem stór, er kærkominn.

 

Stjórn Fangelsisminjasafns Íslands skipa:

Sr. Hreinn S. Hákonarson, formaður, Sigurður Steindórsson og Jón Sigurðsson.

 

Varastjórn:

Björn Ingi Bjarnason, Eiríkur Már Rúnarsson og Guðmundur G. Hagalín.
 Myndasafn frá stofnfundinum á þessari slóð:
http://menningarstadur.123.is/photoalbums/291459/

 

Nokkrar myndir:

 

 

Stjórn Fangelsisminjasafns Íslands.

F.v.: Sigurður Steindórsson,  séra Hreinn S. Hákonarson, formaður og Jón Sigurðsson.

 

.

.

Suðri - héraðsfréttablað á Suðurlandi - greinir frá.

 

 

 

Skráð af Menningar-Bakki.
 

 

06.07.2019 07:38

Merkir Íslendingar - Jens Sigurðsson

 

 

Jens Sigurðsson (1813 - 1872).

 

 

Merkir Íslendingar - Jens Sigurðsson

 

 

Jens fæddist á Hrafnseyri við Arnarfjörð 6. júlí  1813. Foreldrar hans voru Sigurður Jónsson, prestur á Hrafnseyri, og k.h., Þórdís Jónsdóttir húsfreyja.


 

Foreldrar Sigurðar voru Jón Sigurðsson, prestur á Hrafnseyri, og Ingibjörg Ólafsdóttir, lögsagnara á Eyri og ættföður Eyrarættar Jónssonar. Foreldrar Þórdísar voru Jón Ásgeirsson, prestur í Holti í Önundarfirði, og Þorkatla Magnúsdóttir.


 

Bróðir Jens var Jón Sigurðsson forseti, alþingismaður og skjalavörður. Systir Jens var Margrét, húsfreyja í Steinanesi, móðir Sigurðar Jónssonar, alþingismanns og sýslumanns.
 

 

Eiginkona Jens var Ólöf, dóttir Björns Gunnlaugssonar, stjörnufræðings og yfirkennara, og Ragnheiðar Bjarnadóttur og eignuðust þau níu börn. Meðal þeirra voru Sigurður Jensson, prestur og alþingismaður í Flatey; Jón Jensson, dómstjóri og alþingismaður, faðir Bergs Jónssonar alþingismanns, Björn Jensson, tengdafaðir Péturs Halldórssonar, borgarstjóra og alþingismanns, og Þórdís Jensdóttir, tengdamóðir Sigurjóns Jónssonar alþingismanns.


 

Jens lauk stúdentsprófi á Bessastöðum 1837 og embættisprófi í guðfræði frá Hafnarháskóla 1845.


 

Jens var barnakennari á Eyrarbakka veturinn 1845-46, kennari við Lærða skólann í Reykjavík 1846-69 og rektor Lærða skólans frá 1869 og til æviloka. Hann var auk þess ritstjóri „Tíðinda frá þjóðfundi Íslendinga“ sem haldinn var á Alþingi, í Lærða skólanum (á sal MR) árið 1851.


 

Jens var reyndar sjálfur þjóðfundarmaður fyrir Gullbringu- og Kjósarsýslu á þessum fræga þjóðfundi, árið 1851, þegar Jón, bróðir hans, mælti hin frægu orð er Trampe greifi sleit fundinum: „Og ég mótmæli í nafni konungs og þjóðarinnar þessari aðferð, og ég áskil þinginu rétt til þess að klaga til konungs vors yfir lögleysu þeirri, sem hér er höfð í frammi.“


 

Jens lést 2. nóvember 1872.


 

 

Hrafnseyri við Arnarfjörð. Ljósm.: Björn Ingi Bjarnason.

 

 Skráð af Menningar-Bakki.

05.07.2019 06:32

Merkir Íslendingar - Kristján Þór Línberg Runólfsson

 

 

Kristján Runólfsson (1956 - 2018).

 

 

Merkir Íslendingar -  

 

Kristján Þór Línberg Runólfsson

 

 

 

Kristján Þór Lín­berg Run­ólfs­son fædd­ist 5. júlí 1956 á Sauðár­króki. Hann lést á Heil­brigðis­stofn­un Suður­lands 17. októ­ber 2018.

 

For­eldr­ar hans voru Run­ólf­ur Marteins Jóns­son, f. 15. des­em­ber 1919, d. 4. nóv­em­ber 2007, og Halla Kol­brún Lín­berg Kristjáns­dótt­ir, f. 31. mars 1935, d. 29. októ­ber 2014.

 

Systkini Kristjáns eru:

1) Hólm­fríður, f. 12. ág­úst 1953, maki Steinn, f. 7. mars 1948, þau eiga tvo syni og fjög­ur barna­börn.

2) Inga, f. 5. ág­úst 1954, maki Ein­ar, f. 12. sept­em­ber 1956, hún á fjór­ar dæt­ur og sjö barna­börn.

3) Guðrún María, f. 10. apríl 1958, hún á tvö börn og tvö barna­börn.

4) Ásgeir, f. 30. ág­úst 1960, maki Belinda, f. 22. fe­brú­ar 1969, hann á átta börn og fimm barna­börn.

5) Sig­ríður, f. 31. des­em­ber 1962, maki Hall­dór, f. 4. júlí 1966, þau eiga tvo syni.

6) Birna, f. 16. fe­brú­ar 1964, hún á tvö börn.

7) Björg, f. 25. fe­brú­ar 1967, hún á eina dótt­ur.

8) Ró­bert, f. 6. janú­ar 1975, maki Frey­dís, f. 10. maí 1979, þau eiga þrjár dæt­ur.

 

Fyrri eig­in­kona Kristjáns er Jó­hanna Sig­urðardótt­ir, þau eiga sam­an þrjá syni:

a) Jó­hann Þór, f. 1. nóv­em­ber 1974, maki Olga Lín­dal, f. 10. nóv­em­ber 1975. Hann á þrjú börn: Kára, f. 30. júlí 2000, Freyju, f. 16. janú­ar 2002, og Ólaf Örn, f. 21. apríl 2009.

b) Gunn­ar Páll, f. 27. sept­em­ber 1979, maki Lauf­ey, f. 16. janú­ar 1984. Hann á þrjú börn: Amel­íu Nótt, f. 7. janú­ar 2004, Tinnu Katrínu, f. 16. júlí 2007, og Adam Val, f. 31. októ­ber 2010.

c) Sig­urður Örn, f. 9. mars 1981.

 

Þann 15. júlí 2000 kvænt­ist Kristján Ragn­hildi Guðmunds­dótt­ur, f. 30. júlí 1953. For­eldr­ar Ragn­hild­ar eru Guðmund­ur Ein­ars­son, f. 19. fe­brú­ar 1929, d. 17. des­em­ber 2004, og Sig­fríð Valdi­mars­dótt­ir, f. 27. sept­em­ber 1933.

Systkini Ragn­hild­ar eru:

Lilja, f. 13. ág­úst 1951, Ásdís, f. 30. sept­em­ber 1951,

Hulda, f. 7. nóv­em­ber 1954, d. 16. mars 1999,

Ein­ar, f. 12. sept­em­ber 1956,

Ingi, f. 18. apríl 1960,

Hrefna, f. 9. fe­brú­ar 1965,

og Ásta María, f. 17. sept­em­ber 1969.

Börn Ragn­hild­ar eru:

1) Guðmund­ur Óli, f. 20. októ­ber 1973, maki Hrefna, f, 23. júlí 1974. Hann á þrjú börn; Gest Egil, f. 3. júní 1994, Grím Egil, f. 13. maí 2001, og Ragn­hildi Jó­hönnu, f. 23. maí 2005.

2) Hug­rún, f. 18. mars 1976, maki Sig­fús, f. 21. sept­em­ber 1976. Hún á þrjú börn; Elís Aron, f. 22. októ­ber 2003, Leon Mána, f. 22. júní 2013, og Noel Evan, f. 9. maí 2015.

3) Ei­rík­ur Ein­ar, f. 28. júní 1987, maki Guðrún Vil­borg, f. 3. sept­em­ber 1987. Hann á tvö börn; Elm­ar Elí, f. 6. októ­ber 2010, og Vict­oríu Köru, f. 4. des­em­ber 2012.

 

Kristján ólst upp í Skagaf­irði á Brú­ar­landi í Deild­ar­dal og eyddi unglings­ár­um á Eyr­ar­bakka. Meg­in­hluta æv­inn­ar bjó hann á Sauðár­króki en flutt­ist í Hvera­gerði árið 2004. Kristján var mik­ill grúsk­ari, safnaði m.a. ljós­mynd­um, skjöl­um og göml­um mun­um. Hann stofnaði Minja­safn Kristjáns Run­ólfs­son­ar á Sauðár­króki og rak í fjölda ára. Kristján hafði einnig mik­inn áhuga á ætt­fræði en fyrst og fremst var hann mik­ill hagyrðing­ur.

 

Útför Kristjáns fór fram frá Hvera­gerðis­kirkju, 31. októ­ber 2018.

_____________________________________________________________________________________

 


Minningarorð - Ólöf Erla og Sig­urður dýra­lækn­ir Sel­fossi.

 

Kristján Run­ólfs­son, hagyrðing­ur­inn snjalli og safn­ar­inn iðni, er dá­inn eft­ir stutt­an en harðvítug­an loka­slag við ofjarl lækna­vís­ind­anna.

 

Það er þungt áfall fyr­ir fjöl­marga vini hans að missa hann svo ung­an. Þeirra á meðal vor­um við í litla Kvæðamanna­fé­lag­inu Árgala á Sel­fossi. Við sökn­um hans sárt.

 

Hann sótti vel fundi okk­ar og var lengst í stjórn fé­lags­ins. Hann var gleðivaki og áhuga­sam­ur um að kynna kvæðamennsk­una fyr­ir öðrum.

 

Hann kom með gesti á okk­ar fundi. Elís barna­barn hans drakk í sig áhuga afa síns og hafði fengið brenn­andi áhuga á kveðskap, en við veru hans í Svíþjóð var sam­bandið erfiðara. Hann spurði afa sinn fyrst af öllu þegar hann kom í heim­sókn­ir til Íslands: „Er ekki bráðum fund­ur í Árgala?“ Elís er vel­kom­inn á okk­ar fund þegar hann vill og get­ur og fund­irn­ir eru eins og áður á öðrum mánu­degi hvers mánaðar að vetr­in­um.

All­ir eru vel­komn­ir á okk­ar fundi.

 

Kristján var iðinn við að setja ljóðin sín á leir­inn og vís­ur hans og ljóð voru oft­ast þrung­in hlýju, gam­an­semi og speki­orðum.

Þess­ar vís­ur komu á netið fyr­ir nokkru:

 

Leik­um okk­ur var­lega á lífs­ins hálu braut,

því létt er gang­an oft­ast breiða veg­inn.

Synd­in leyn­ist víða og send­ir okk­ur þraut

og sum­ir fara út af báðum meg­in.

 

En þeim sem fara mjóa veg­inn gat­an sæk­ist seint

og sig­ur­laun­in oft í fjarska bíða.

Upp á tind­inn háa menn varla geta greint

göt­una, sem dyggðugt líf skal prýða.

 

Við bless­um minn­ingu Kristjáns og þökk­um hon­um fyr­ir skemmti­leg­ar sam­veru­stund­ir og ynd­is­leg kynni. Ragn­hildi konu hans, ætt­fólki hans og vin­um send­um við hlýj­ar samúðarkveðjur.

 

Ólöf Erla og Sig­urður

dýra­lækn­ir Sel­fossi.


Morgunblaðið miðvikudagurinn 31. október 2018.Skráð af Menningar-Bakki.

05.07.2019 06:23

5. júlí 1851 - Þjóðfundurinn var settur í Lærða skólanum í Reykjavík

 

 

Menntaskólinn í Reykjavík - áður Lærði skólinn.

 

 

5. júlí 1851 -

 

Þjóðfundurinn var settur

í Lærða skólanum í Reykjavík

 

 

Þjóðfundurinn var settur í Lærða skólanum í Reykjavík þann 5. júlí 1851. Fundurinn stóð í rúman mánuð og var rætt um frumvarp dönsku stjórnarinnar um réttarstöðu Íslands.

 

 


Skráð af Menningar-Bakki.

02.07.2019 21:17

Lögheimili lognsins

 

 

      Séð úr vefmyndavél á Flateyri og inn Önundarfjörð kl. 19:52 í kvöld- 2. júlí 2019.

 

 

    Lögheimili lognsins

 

 

 - Lögheimili - logni hjá
leggur vind í dvala.
Ögn af blæstri endrum fá
aðeins til að svala.

 Lögheimili lognsins er í Önundarfirði eins og sjá má hér berlega á þessari mynd.

 


Skráð af Menningar-Bakki.

02.07.2019 17:08

Bryggjuhátíð á Stokkseyri 5. - 7. júlí 2019

 

 

 

  Bryggjuhátíð á Stokkseyri

 

      5. - 7. júlí 2019

 

 

 

 

 


Frá Bryggjuhátíð á Stokkseyri árið 2010.
 


Skráð af Menningar-Bakki.