Menningar-Bakki * Viðhalda og efla þjóðlega menningararfleið til sjávar og sveita*
-------- Alþýðuhúsið á Eyrarbakka - Vinir alþýðunnar - Á undan sinni framtíð --- "Stærra í hugum okkar en við sjálfir gerum okkur grein fyrir" ---

12.03.2019 19:29

Gullmoli mannlífs á mynd

 

 

 

 

 

   -Gullmoli mannlífs á mynd-

 

 

Í morgunfundi í Shell-Skálanum á Stokkseyri um miðjan september árið 2005.


Talið frá vinstri:


Þorvaldur Hafberg, Hinrik Ólafsson, Grétar Zóphoníasson, Gísli Rúnar Guðmundsson, Tómas Karlsson, Sveinbjörn Guðmundsson og Steingrímur Jónsson.
 


Ljósm.: Björn Ingi Bjarnason.
 



Skráð af Menningar-Staður.

12.03.2019 06:15

103 ár frá stofnun Alþýðusambands Íslands og Alþýðuflokksins

 

 

 

 

103 ár

 

frá stofnun Alþýðusambands Íslands og Alþýðuflokksins

 

 

12. mars 1916 komu tuttugu fulltrúar frá sjö verkalýðsfélögum í Reykjavík og Hafnarfirði saman í Bárubúð í Reykjavík til að stofna samband félaganna sem um leið var stjórnmálaflokkur jafnaðarmanna, Alþýðuflokkurinn. Félögin sem stóðu að stofnun sambandsins voru Verkamannafélagið Dagsbrún, Verkakvennafélagið Framsókn, Hásetafélag Reykjavíkur, Hið íslenska prentarafélag, Bókbindarafélag Íslands, Verkamannafélagð Hlíf og Hásetafélag Hafnarfjarðar. Meðlimir félaganna voru um 1500 á þessum tíma. Árið 1917 gekk Verkalýðsfélagið Baldur á Ísafirði í sambandið.



Árið 1940 var lögum ASÍ breytt og Alþýðuflokkurinn skilinn frá sambandinu til að mynda breiða samstöðu vinnandi manna hvar í flokki sem þeir stæðu. Öll alþýðuflokksfélög gengu úr ASÍ, sem eftir það varð eingöngu verkalýðssamband. Alþýðusamband Íslands er stærsta fjöldahreyfing launafólks á landinu. Alþýðusambandið berst fyrir bættum kjörum félagsmanna sinna og stendur vörð um réttindi þeirra. Félagsmenn í ASÍ eru um hundrað þúsund í 5 landssamböndum og 51 aðildarfélögum um land allt. Félagsmenn í aðildarfélögum ASÍ eru starfandi á flestum sviðum samfélagsins, á almennum vinnumarkaði og hjá ríki og sveitarfélögum. Alþýðusambandið berst fyrir bættum kjörum félagsmanna sinna og stendur vörð um hagsmuni þeirra og réttindi.



Fyrstu stjórn Alþýðusambandsins skipuðu Ottó N. Þorláksson forseti, Ólafur Friðriksson varaforseti og Jón Baldvinsson ritari. Haustið 1916 var Jón Baldvinsson prentari kosinn forseti ASÍ og um leið formaður Alþýðuflokksins. Gegndi hann því embætti allt til dauðadags árið 1938. Jón Baldvinsson var Vestirðingur, fæddur og uppalinn á Strandseljum í Ögurhreppi í Ísafjarðardjúpi. Hann komst ungur í prentnám við prentsmiðju Þjóðviljans unga sem Skúli Thoroddsen alþingismaður gaf út á Ísafirði. Þegar Skúli flutti búferlum til Bessastaða og síðar Reykjavíkur með fjölskyldu, blað og prentsmiðju fylgdi Jón Baldvinsson með. Jón var kosinn á Alþingi árið 1920 og var eini þingmaður Alþýðuflokksins á þeim tíma. Hann var framkvæmdastjóri Alþýðubrauðgerðarinnar í Reykjavík frá árinu 1918.



Fjórir forsetar Alþýðusambands Íslands hafa verið Vestfirðingar. Auk Jóns Baldvinssonar eru það Helgi Hannesson frá Dynjanda í Jökulfjörðum, síðar kennari á Ísafirði og formaður Verkamannafélagsins Baldurs á Ísafirði. Hann var forseti ASÍ 1948-1954. Þá tók við Hannibal Valdimarsson kennari, formaður Baldurs og forseti Alþýðusambands Vestfjarða. Hann var forseti ASÍ lengst allra fyrir utan Jón Baldvinsson, frá 1954-1971. Loks má nefna að Benedikt Davíðsson trésmiður varð forseti ASÍ árið 1988, en hann var fæddur og uppalinn á Patreksfirði.



Skráð af Menningar-Staður.

11.03.2019 20:54

11. mars 1941 - Þýskur kafbátur gerði árás á línuveiðarann Fróða frá Þingeyri

 

 

Línuveiðarinn Fróði frá Þingeyri.

 

11. mars 1941 -

Þýskur kafbátur gerði árás á línuveiðarann Fróða frá Þingeyri,

djúpt suðaustur af Vestmannaeyjum. Fimm menn fórust.

 

 

Línuveiðarinn Fróði

 

Þýskur kafbátur ræðst á varnarlausa fiskimenn.

Línuveiðarinn Fróði frá Þingeyri var byggður árið 1922. Skipið kom hingað til lands 1924 og var þá í eigu  Þorsteins Eyfirðings. Í byrjun árs 1941 kom skipið úr klössun og hafði þá verið lengt töluvert.(123 smálestir brúttó en var áður 95 lestir) Línuveiðarinn Fróði var afar fengsæll og happadrjúgt skip á sinni tíð.

 

Fróði var staddur um 200 sjómílur suður af Vestmannaeyjum kl. 6 að morgni þann 11.mars 1941 á leið til Fleetwood á Englandi með fiskfarm þegar kafbáturinn U-74 réðst á skipið. Kafbáturinn skaut þremur skotum að skipinu og ákvað þá skipstjórinn á Fróða að láta stöðva vélarnar og skipaði áhöfninni að fara í bátanna þegar í stað. Á meðan áhöfnin var að bjástra við að sjósetja skipsbátinn hóf kafbáturinn nýja skothrinu og í millitíðinni hafði sprengikúla hæft brúna á Fróða  sem sundraðist að mestu leiti og féllu þeir menn sem þar voru staddir. Björgunarbáturinn varð fljótt sundurskotinn og einn af þeim mönnum sem staddur var á bátadekkinu fékk í sig skot og féll örendur og skömmu síðar særðist skipstjórinn á Fróða lífshættulega.

 

Stýrimaðurinn fallinn.
 

Sverrir Torfason matsveinn var vakinn skömmu fyrir kl.6 um morguninn og sagt að verið sé að gera árás á skipið og að áhöfnin væri að fara í bátana. Á meðan hann var að klæða sig kom sprengikúlan í brúna fyrir ofan hann með miklum hvelli og splundraði yfirbyggingunni. Stjórnborðsmeginn í brúnni féllu tveir hásetar, (Gísli Guðmundsson og Guðmundur Stefánsson) en í dyrunum bakborðsmeginn féll stýrimaðurinn. (Sigurður Jörundsson) Allt umturnaðist í Stýrishúsinu og ljósin slokknuðu og brúin fylltist af gufusvækju þegar ofnpípa fór í sundur. Tveir aðrir menn voru í brúnni þegar sprengikúlan sprakk, skipstjórinn og einn háseti sem komst lífs af en vankaður eftir að hafa fengið kompásinn í höfuðið.

 

Vélstjórinn særður.

Þegar skipstjórinn kemur út á bátadekkið kemur önnur skothrina frá kafbátnum og tætir skipsbátinn í tvennt, rétt eins og hann hefði verið sagaður sundur. Sveinbjörn 1.vélstjóri brá sér þá inn í herbergi sitt til að sækja sér jakka en fær þá skot í báða handleggi sem komu í gegnum þilfarið stjórnborðsmeginn. Skömmu síðar særðist skipstjórinn þar sem hann stóð á bátadekkinu og kallar hann á Sveinbjörn að hann sé særður. Þrátt fyrir að Sveinbjörn væri illa leikinn skrönglaðist hann upp í brú til að sækja sjúkrakassann og ber hann niður á bátadekkið svo hægt sé að huga að sárum skipstjórans.

 

Stefnan tekin heim.
 

Sverrir skýst nú upp þegar skothríðinni linnti ásamt Guðmundi háseta. Þeir bera nú helsærðan skipstjórann niður í káetu og reyna að hjúkra honum þar. Þá er kallað til þeirra að það liggi særður maður á dekkinu. það var Steinþór Árnason og var hann illa sár. Sverrir og Guðmundur báru hann einnig niður í káetuna og reyndu að gera sitt besta til að hjúkra þessum mönnum. Eftir að hafa bundið um sár mannanna hófu þeir félaga að gera ráðstafanir til að sigla skipinu heim eftir leiðbeiningum skipstjórans og var stefnan tekin Norðvestur.

 

Það var orðið albjart þegar hér var komið og kafbáturinn horfinn af yfirborðinu. Kyndararnir tóku til höndunum við að koma vélinni á hreyfingu. Þeir sem voru uppistandandi könnuðu skemmdirnar á skipinu hágt og lágt. Það kom í ljós að kafbáturinn hafði skotið á skipið allt um hring. Um þetta leiti er verulega dregið af Steinþóri og andast hann skömmu síðar.

 

Skaftfellingur kemur til hjálpar.
 

Daginn eftir er Fróði staddur 90 sjómílur suður af Vestmannaeyjum og verða þeir þá varir við skip og gera vart við sig með því að skjóta upp flugeldum, (Talstöð þeirra hafði eyðilagst í skotárásinni). Þetta skip var Skaftfellingur og sendi skipstjórinn á honum skeyti til lands og bað um að skip yrði sent til aðstoðar Fróða.


Aðstoðarskipið fór á mis við þá um nóttina og kl 9 næsta morgun deyr skipstjórinn af sárum sínum. þá er Fróði kominn nærri landi og klukkan 16 þennan dag leggst fróði að Bryggju í Vestmannaeyjum. Af 11 manna áhöfn lifðu 6 skipverjar. 

Þeir sem létust í árásinni voru:  Gunnar Árnason skipstjóri, Sigurður V Jörundssonstýrimaður, Steinþór Árnason háseti (bróðir skipstjórans) Gísli Guðmundssonháseti og Guðmundur Stefánsson háseti.

 

Af vefsíðunni - Sagnabrunnur.



Skráð af Menningar-Staður

11.03.2019 20:47

Merkir Íslendingar - Valtýr Guðmundsson

 

 
 

Valtýr Guðmundsson (1860 - 1928).

 

 

Merkir Íslendingar - Valtýr Guðmundsson

 

 

Valtýr fæddist á Árbakka á Skagaströnd 11. mars 1860.

Foreldrar hans voru Guðmundur Einarsson, sýsluskrifari á Ytri-Ey og Geitaskarði, og Valdís Guðmundsdóttir húsfreyja.

Eiginkona Valtýs var Anna Jóhannesdóttir húsfreyja, dóttir Jóhannesar Guðmundssonar og k.h., Marenar Lárusdóttur Thorarensen.


 

Valtýr var tæplega fimm ára er faðir hans lést. Móðir hans giftist aftur og flutti móðurfjölskyldan til Vesturheims er Valtýr var 16 ára. Hann fór ekki með og sá móður sína aðeins einu sinni eftir það er hann var sjálfur á ferð í Vesturheimi.

 

Valtýr var í Lærða skólanum í Reykjavík og varð fyrsti forseti Framtíðarinnar, elsta skólafélags landsins, lauk stúdentsprófi 1883, mag. art.-prófi frá Hafnarháskóla 1887 og varði doktorsritgerð um norræna menningarsögu við Kaupmannahafnarháskóla 1889. Hann varð dósent við Kaupmannahafnarháskóla 1890 í sögu Íslands og bókmenntum og síðan prófessor þar frá 1920 til æviloka.


 

Valtýr settist fyrst á Alþingi 1894 og tók fljótlega að semja við danska ráðamenn um sjálfstjórnarkröfur Íslendinga. Hugmynd hans var að fá íslenskan ráðherra í danska ríkisstjórn. Viðbrögð Dana bentu til þess að Valtýr yrði sjálfur Íslandsráðherra í danskri stjórn. En um aldamótin var komin fram skýr, íslensk krafa um íslenskan ráðherra í Reykjavík. Andstæðingar valtýskunnar nefndu sig heimastjórnarmenn. Stjórnarskipti í Danmörku urðu til þess að þeir fengu kröfu sinni framfylgt og Hannes Hafstein „stal“ ráðherraembættinu af Valtý með glæsimennsku sinni og góðum samböndum í Kaupmannahöfn.

 

Valtýr var alþm. Vestmanneyinga 1894-1901, Gullbringu- og Kjósarsýslu 1903-1908, og Seyðfirðinga 1911-13. Hann var stofnandi Eimreiðarinnar, frægs tímarits um þjóðmál, og ritstjóri hennar til 1918. Eftir hann liggja rit um íslenska sögu, málfræði og bókmenntir, ljóð og ógrynni greina um stjórnmál.

 

Valtýr lést 23. júlí 1928.



Morgunblaðið.


Skráð af Menningar-Staður.

11.03.2019 06:44

Merkir Íslendingar - Ísólfur Pálsson

 

 

 

 

Ísólfur Pálsson (1871 - 1941).

 

 

Merkir Íslendingar - Ísólfur Pálsson

 

 

Ísólfur Pálsson fæddist á Syðra-Seli í Stokkseyrarhreppi 11. mars 1871.

Foreldrar hans voru Páll Jónsson, f. 1832, drukknaði 1887, bóndi og hreppstjóri á Syðra-Seli, og k.h. Margrét Gísladóttir, f. 1830, d. 1914, húsfreyja, en þau voru bæði komin af Bergsætt.

 

Foreldrar Páls voru hjónin Ólöf Magnúsdóttir og Jón Sturlaugsson, bóndi á Syðsta-Kekki í Stokkseyrarhr..Faðir Jóns var Sturlaugur Jónsson bóndi og forsöngvari í Grjótlæk, sonur Jóns Bergssonar b. í Grjótlæk. Annar sonur Jóns Bergssonar var Grímur, langafi Sigfúsar Einarssonar tónskálds. Jón var sonur Bergs Sturlaugssonar sem Bergsætt er komin af en Bergur var fyrsti nafnkenndi forsöngvari Stokkseyrarkirkju.

 

Foreldrar Margrétar voru hjónin Sesselja Grímsdóttir og Gísli Þorgilsson, bóndi og formaður á Kaðlastöðum í Stokkseyrarhr., einnig nefndir Kalastaðir. Gísli var lengi forsöngvari á Stokkseyri.

 

Meðal systkina Ísólfs var Bjarni, organisti í Götu, faðir Friðriks tónskálds.

 

Ísólfur kvæntist Þuríði Bjarnadóttur, f. 4.7. 1872, d. 22.3. 1957. Þau eignuðust tólf börn, þar á meðal Pál, tónskáld og organista, Sigurð úrsmið og organista, og Pálmar hljóðfærasmið.

 

Ísólfur og Þuríður bjuggu í 20 ár á Stokkseyri og síðan í Reykjavík. Stundaði Ísólfur fyrst formennsku og var hann organisti við Stokkseyrarkirkju og stjórnaði kór og söngkvartett. Var orgelleikur hans annálaður, en hann virðist hafa verið sjálfmenntaður að flestu leyti.

 

Ísólfur fékkst nokkuð við hljóðfæraviðgerðir og svo fór að hann fór utan 1912 og lærði hljóðfærasmíði og -stillingar í Danmörku og Þýskalandi, og starfaði við það eftir að heim kom. Hann gerði m.a. upp orgelin í Fríkirkjunni og Dómkirkjunni og smíðaði orgel fyrir kapellu Háskóla Íslands.

 

Ísólfur samdi fjölda sönglaga og er þekktast þeirra Í birkilaut (Draumur hjarðsveinsins).

 

Ísólfur Pálsson lést 17. febrúar 1941.


Morgunblaðið.



Skráð af Menningar-Syaður.

10.03.2019 21:02

Stjórnvöld endurnýja samstarfssamning um dönskukennslu

 

 

Lilja Alfreðsdóttir og Merete Riisager.    

MENNTA- OG MENNINGAMÁLARÁÐUNEYTIÐ.

 

 

 

Stjórnvöld endurnýja samstarfssamning um dönskukennslu

 

 

Samstarfssamningur íslenskra og danskra stjórnvalda um dönskukennslu hér á landi var endurnýjaður í gær á fundi Lilju Alfreðsdóttur mennta- og menningarmálaráðherra og Merete Riisager menntamálaráðherra Danmerkur í Kaupmannahöfn. Þetta kemur fram í tilkynningu frá mennta- og menningarmálaráðuneytinu. 



Í tilkynningunni segir að meginmarkmið samningsins sé að styðja við dönskukennslu hér á landi með sérstakri áherslu á munnlega færni, miðla danskri menningu í íslensku menntakerfi og auka áhuga á dönsku tungumáli og vitund um mikilvægi dansks málskilnings fyrir Íslendinga.



„Samstarf þetta hefur verið einkar farsælt fyrir okkur Íslendinga og til þess fallið að styrkja mjög tengsl milli landanna. Tungumálafærni er okkur mikilvæg, dönskunámið veitir líka grunn fyrir önnur norræn tungumál og er í raun mikilvægur liður í því að við getum tekið virkan þátt í norrænu samstarfi. Danmörk er meðal okkar mikilvægustu viðskiptalanda og margar stofnarnir hér eru í nánum tengslum við danskar systurstofnanir sínar. Ég er þakklát því hugsjónafólki sem kom þessu faglega samstarfi á legg fyrir rúmum 20 árum, það var mikið heillaspor og það er komið góð reynsla á útfærslu þess,“ sagði Lilja Alfreðsdóttir mennta- og menningarmálaráðherra.  



Framlag Dana stendur meðal annars straum af starfi dansks lektors við Menntavísindasvið HÍ, laun tveggja sendikennara sem starfa við íslenska grunnskóla, endurmenntunarnámskeiðum fyrir dönskukennara í grunn- og framhaldsskólum og námsferðir íslenskra dönskunema til Danmerkur auk annarrar starfsemi tengda verkefninu. Framlag Íslendinga fjármagnar umsjón og skipulagningu með dvöl sendikennara og húsnæði lektors ásamt stuðningi við sveitarfélög vegna verkefnisins.




MENNTA- OG MENNINGAMÁLARÁÐUNEYTIÐ.


www.visir.is

 

 



Skráð af Menningar-Staður.

10.03.2019 06:44

Karlakórinn Heimir um Suðurland

 

 
 

 

 

Karlakórinn Heimir um Suðurland

 

 

 

Laugardaginn 16. mars 2019 skeiðum við austur fyrir fjall og syngjum í Skálholti og Selfossi.

 

Við eigum marga vini á Suðurlandi sem gaman verður að hitta.


Skálholtsdómkirkja kl. 13:00

Selfosskirkja kl. 17:00



Karlakórinn Heimir

Skagafirði

 



Skráð af Menningar-Staður

10.03.2019 06:26

Ný stjórn Miðflokks­ins í Suður-kjör­dæmi

 

 

Ný­kjör­in aðal­stjórn Miðflokks­fé­lags Suður­kjör­dæm­is Frá vinstri: Sigrún Bates,

Tóm­as Ell­ert Tóm­as­son, Hall­fríður (Didda) Hólm­geirs­dótt­ir; Óskar H. Þór­munds­son,

Ein­ar G. Harðar­son formaður og G. Svana Sig­ur­jóns­dótt­ir.

Á mynd­ina vant­ar Sverri Ómar Victors­son.

 

 

Ný stjórn Miðflokks­ins í Suður-kjör­dæmi

 

 

Aðal­fund­ur Miðflokks­fé­lags Suður­kjör­dæm­is fór fram í gær í Grinda­vík, laugardaginn 9. mars 2019.

Þing­menn og bæj­ar­full­trú­ar Suður­kjör­dæm­is fóru yfir störf sín og stjórn­málaviðhorfið. 

 

 

Ný stjórn var kos­in en hana skipa:

Ein­ar G. Harðar­son, formaður
Sigrún Gísla­dótt­ir Bates
Óskar H. Þór­munds­son
Sverr­ir Ómar Victors­son
G. Svana Sig­ur­jóns­dótt­ir
Didda Hólm­gríms­dótt­ir
Tóm­as Ell­ert Tóm­as­son

 

Vara­menn voru kosn­ir:

Eg­ill Sig­urðsson
Guðmund­ur Ómar Helga­son
Bald­vin Örn Arn­ar­son


 



Skráð af Menningar-Staður

09.03.2019 18:07

8. mars 1843 - Tilskipun konungs um endurreisn Alþingis

 

 

 

8. mars 1843 -

Tilskipun konungs um endurreisn Alþingis

 

 

Alþingi Íslendinga var endurreist með tilskipun konungs Danmerkur og Íslands 8. mars 1843. 
Starfsemi þess hafði legið niðri í rúma fjóra áratugi. 
Þingið kom aftur saman 1. júlí 1845.



Alþingi Íslendinga er elsta og æðsta stofnun þjóðarinnar. Það var stofnað á Þingvöllum árið 930 og markar það upphaf þjóðríkis á Íslandi. Alþingi var allsherjar­ þing landsmanna. Þar voru samin lög og kveðnir upp dómar. Samkomudagur Alþingis var um eða upp úr miðjum júní og þinghaldið stóð um tveggja vikna skeið. Þingið sóttu goðar sem voru ráðandi í samfélaginu. Öllum frjálsum mönnum og ósekum var heimilt að koma á þingið. Þeir sem sóttu Alþingi dvöldust í búðum á Þingvöllum um þingtímann. 

Á þingstaðnum áttu allir að njóta griða og frelsis til að hlýða á það sem fram fór. Oft var fjölmennt á Alþingi til forna enda var þar miðstöð valda og samskipta. Lögrétta var miðstöð þinghaldsins. Hún skar úr lagaþrætum, setti ný lög og veitti undanþágur frá lögum. Í lögréttu sátu goðar og síðar einnig biskupar ásamt aðstoðarmönnum sem ekki höfðu atkvæðisrétt og réð meiri hluti úrslitum mála. Eftir skiptingu landsins í fjórðunga um 965 voru settir fjórir fjórðungsdómar á Alþingi, einn fyrir hvern fjórðung, skipaðir 36 dómendum hver og þurfti 31 samhljóða atkvæði til að kveða upp gildan dóm. Síðar var stofnaður fimmtardómur á Alþingi í upphafi 11. aldar sem var nokkurs konar áfrýjunardómstóll. Hann var skipaður 48 dómendum, tilnefndum af goðum í Lögréttu, og réð einfaldur meiri hluti dómi. Lögsögumaður var æðsti maður þingsins en hlutverk hans var meðal annars að segja upp gildandi lög Íslendinga, áður en þau voru skráð. Hann sagði upp lögin um þinghaldið, þingsköpin og stjórnaði fundum Lögréttu og skar úr þrætumálum ef ekki náðist samkomulag með öðrum hætti. Talið er að lögsögumaðurinn hafi flutt mál sitt á Lögbergi og þar hafi verið kveðnir upp dómar, fluttar ræður í mikilvægum málum og þingsetning og þinglausnir farið fram. 

Ýmislegt er þó óljóst um þinghaldið og hlutverk lögsögumanns enda voru miklir umbrotatímar í íslensku samfélagi á fyrstu öldum byggðar, og átök um trú og völd settu svip sinn á þjóðfélagið sem og störf Alþingis. Íslendingabók, sem rituð var á tímabilinu 1122–1133, er ein helsta heimildin um stofnun Alþingis á Þingvöllum.

8. mars 1843 - Tilskipun konungs um endurreisn Alþingis

Tilskipun konungs um endurreisn Alþingis var gefin út 8. mars 1843 og fóru fyrstu kosningar fram 1844, en þingið kom fyrst saman 1. júlí 1845. Alþingi var skipað 26 alþingismönnum, 20 þjóðkjörnum þingmönnum, einum kjörnum úr hverju kjördæmi (sýslu), en konungur skipaði auk þess sex þingmenn. Um kosningarrétt og kjörgengi giltu ákvæði um lágmarkseign að danskri fyrirmynd og munu tæp 5% landsmanna hafa notið kosningarréttar í upphafi.

Alþingi kom saman til fundar í Lærða skólanum í Reykjavík (nú Menntaskólanum í Reykjavík) 1. júlí annað hvert ár og var að störfum í um það bil fjórar vikur. Þingið var einungis konungi til ráðgjafar og hafði ekki formlegt löggjafarvald. Það ræddi stjórnarfrumvörp og voru tvær umræður, undirbúningsumræða og ályktunarumræða, og einstakir þingmenn báru fram mál til umræðu. Tillögur sem samþykktar voru á þinginu nefndust bænarskrár.

 

Á tímabilinu 1845–1874 kom Alþingi 14 sinnum saman og það var mikilvægur vettvangur þjóðmálaumræðu. Frá upphafi var Jón Sigurðsson, alþingismaður Ísfirðinga, forustumaður þingsins og lengstum forseti þess.


Úr sögu Alþingis Íslendinga.



 

 

Jón Sigurðsson, forseti (1811 - 1879).



Skráð af Menningar-Staður.

09.03.2019 17:59

Merkir Íslendingar - Steinunn Finnbogadóttir

 

 

Steinunn Finnbogadóttir (1924 - 2016)

 

 

Merkir Íslendingar - Steinunn Finnbogadóttir

 

 

Stein­unn Finn­boga­dótt­ir fædd­ist í Bol­ung­ar­vík 9. mars árið 1924.

For­eldr­ar henn­ar voru Finn­bogi Guðmunds­son, f. 1884, d. 1948, sjó­maður og verka­lýðsfor­ingi í Bol­ung­ar­vík, og Stein­unn Magnús­dótt­ir, f. 1883, d. 1938, hús­freyja. Faðir henn­ar var Magnús Magnús­son, hrepp­stjóri á Hróf­bergi í Staðarsveit á Strönd­um, en hann var ljós­faðir og tók á móti fjölda barna.

 

Stein­unn lauk námi frá Ljós­mæðraskól­an­um 1943 og átti far­sæl­an fer­il sem ljós­móðir, meðal ann­ars á fæðing­ar­deild Land­spít­al­ans, Fæðing­ar­heim­ili Reykja­vík­ur og Sólvangi í Hafnar­f­irði og var formaður Ljós­mæðrafé­lags Íslands um ára­bil. Hún var frum­kvöðull og út­gáfu­stjóri tveggja binda stétt­artals og sögu­legs efn­is í til­efni af 60 ára sögu Ljós­mæðrafé­lags Íslands.

 

Stein­unn var í for­ystu­sveit kvenna sem létu til sín taka í fé­lags- og stjórn­mál­um upp úr miðri síðustu öld. Hún var einn stofn­enda og sat í stjórn Sam­taka frjáls­lyndra og vinstrimanna og var borg­ar­full­trúi flokks­ins í Reykja­vík 1970-1974 og vara­borg­ar­full­trúi 1974-1978. Árið 1971 varð Stein­unn fyrsta kon­an á Íslandi til að gegna starfi aðstoðarráðherra, en hún var aðstoðarmaður Hanni­bals Valdi­mars­son­ar, sam­göngu- og fé­lags­málaráðherra, til árs­ins 1973. Hún var formaður Or­lofs­nefnd­ar hús­mæðra í Reykja­vík og síðar formaður Lands­nefnd­ar or­lofs hús­mæðra. Hún var hvatamaður að Land­spít­ala­söfn­un kvenna árið 1969 sem öll kvenna­sam­tök á land­inu stóðu að.

 

Hún tók við stöðu for­stöðumanns dag­vist­ar Sjálfs­bjarg­ar árið 1979 og starfaði þar til starfs­loka 1993.

 

Stein­unn var sæmd ridd­ara­krossi hinn­ar ís­lensku fálka­orðu 1982.

 

Stein­unn gift­ist Herði Ein­ars­syni stýri­manni, en þau skildu. Börn þeirra eru Stein­unn, f. 1950, Ein­ar, f. 1951, og Guðrún Alda, f. 1955. Sam­býl­ismaður Stein­unn­ar var Þor­steinn Vig­fús­son, f. 7.2. 1935, frá Húsatóft­um á Skeiðum.

 

Stein­unn lést 9. des­em­ber 2016.


Morgunblaðið 9. mars 2019.

 



Skráð af Menningar-Staður.