Menningar-Bakki * Viðhalda og efla þjóðlega menningararfleið til sjávar og sveita*
-------- Alþýðuhúsið á Eyrarbakka - Vinir alþýðunnar - Á undan sinni framtíð --- "Stærra í hugum okkar en við sjálfir gerum okkur grein fyrir" ---

22.01.2021 20:34

Þorri hefst 22. janúar 2021 - Bóndadagur

 

 

 

 

 Þorri hefst 22. janúar 2021 - Bóndadagur

 

 

Mánuðurinn þorri hefst í 13. viku vetrar, nú 19. til 25. janúar, en 9. til 15. janúar í gamla stíl fyrir 1700. Mánaðarnafnið er kunnugt frá 12. öld en uppruni þess er óviss.Þorri er persónugerður sem vetrarvættur í sögnum frá miðöldum. Þar er einnig getið um þorrablót, en þeim ekki lýst. Vetraröldungurinn Þorri er algengt yrkisefni á 17. – 19. öld og um fagnað eða sérstaka siðvenju við upphaf þorra eru heimildir frá öndverðri 18. öld. Líklegt er að slíkar venjur séu allmiklu eldri.Upphaflega virðist húsfreyja hafa boðið þorra velkomin enda er ljóst að fyrsti dagur þorra hefur verið tileinkaður húsbóndanum. Er hvorttveggja til að honum hafi verið veitt sérstaklega í mat og að hann hafi þá átt að gera vel við sitt fólk. Bóndadagsheitið er þó ekki kunnugt fyrr en í þjóðsögum Jóns Árnasonar frá miðbiki 19. aldar. Þar er einnig minnst á hlaup bónda kringum bæ sinn, en óljóst er hversu almennur slíkur siður hefur verið og hver er uppruni hans. Vera kann að þar sé um að ræða leifar af eldra þorrafagnaði.Á síðarihluta 19. aldar fóru mennta- og embættismenn að tíðka samkomur sem þeir kölluðu “Þorrablót” að fornum hætti, matar- og drykkjarveislur þar sem sungin voru ný og gömul kvæði og drukkin minni Þorra og heiðinna goða. Einkum var Þór tengdur þorranum. Þessar veislur lögðust af eftir aldamótin 1900 í kaupstöðum en þá hafði þorrablótssiðurinn borist í sveitirnar, fyrst á Austurlandi og í Eyjafirði, og hélt þar áfram.Um miðja 20. öld hófu átthagasamtök á höfuðborgarsvæðinu síðan þorrablótin aftur til vegs og virðingar í þéttbýli, og buðu þá “íslenskan” mat sem nú var orðinn sjaldséður í kaupstöðum.Veitingamaður í Naustinu í Reykjavík (Halldór Gröndal sem á ættir til Hvilftar í Önundarfirði) hafði síðan sérstakan þorramat á boðstólum frá þorranum 1958. Síðan hafa þorrablót ýmissa samtaka með íslenskan mat verið fastur liður í skemmtanalífi um allt land.Um 1980 hófust blómagjafir eiginkvenna til eiginmanna undir áhrifum frá konudegi.

 

 

Heimild: Saga daganna eftir Árna Björnsson. 

 

Skráð af Menningar-Bakki.

22.01.2021 16:37

Merkir Íslendingar - Finnbogi Rútur Þorvaldsson

 

 

Finnbogi Rútur Þorvaldsson (1891 - 1973).

 

 

Merkir Íslendingar - Finnbogi Rútur Þorvaldsson

 

 

Finn­bogi Rút­ur Þor­valds­son fædd­ist 22. janú­ar 1891 í Haga á Barðaströnd.

For­eldr­ar hans voru hjón­in Þor­vald­ur Jak­obs­son, f. 1860, d. 1954, prest­ur í Sauðlauks­dal, síðar kenn­ari í Hafnar­f­irði, og Magda­lena Jón­as­dótt­ir, f. 1859, d. 1942, hús­freyja.

 

Finn­bogi varð stúd­ent frá Mennta­skól­an­um í Reykja­vík árið 1912. og lauk prófi í bygg­inga­verk­fræði árið 1923 frá Den polytekn­iske Lær­e­anstalt í Kaup­manna­höfn.

 

Eft­ir heim­kom­una varð Finn­bogi aðstoðar­verk­fræðing­ur á teikni­stofu Jóns Þor­láks­son­ar en var síðan verk­fræðing­ur hjá Vita- og hafna­mála­skrif­stof­unni 1925-42. Þar gerði hann áætlan­ir, upp­drætti og hafði um­sjón með hafn­ar­gerð á Akra­nesi, Borg­ar­nesi, Sigluf­irði, Ak­ur­eyri og víðar. Hann var enn frem­ur kenn­ari við Iðnskól­ann í Reykja­vík 1924-49. Síðan var Finn­bogi Rút­ur for­stöðumaður und­ir­bún­ings­kennslu í verk­fræði við Há­skóla Íslands 1940-44 og pró­fess­or við verk­fræðideild Há­skól­ans 1945-61.

 

Finn­bogi var mörg ár for­seti verk­fræðideild­ar og átti sæti í há­skólaráði og var um tíma vara­for­seti þess. Hann lét fé­lags­mál mikið til sín taka og átti sæti í fjöl­mörg­um nefnd­um. Hann var m.a. formaður Verk­fræðinga­fé­lags Íslands, sat í nefnd til und­ir­bún­ings tækni­skóla og var formaður Íslands­deild­ar alþjóðastúd­enta­skipta. Hann var formaður í stjórn sam­eigna Hvals hf. og Ol­íu­stöðvar­inn­ar hf. Finn­bogi Rút­ur var sæmd­ur Fálka­orðunni og gull­merki Verk­fræðinga­fé­lags ís­lands.

 

Eig­in­kona Finn­boga Rúts var Sig­ríður Ei­ríks­dótt­ir, f. 16.6. 1894, d. 23.3. 1986, hjúkr­un­ar­fræðing­ur og formaður Fé­lags ís­lenskra hjúkr­un­ar­kvenna í 36 ár.
Börn þeirra:

Vig­dís Finn­boga­dótt­ir, f. 1930, for­seti Íslands 1980-96, og Þor­vald­ur Finn­boga­son, f. 1931, d. 1952, verk­fræðistúd­ent.

 

Finn­bogi Rút­ur lést 6. janú­ar 1973.

Skráð af Menningar-Bakki.

20.01.2021 21:09

"Séð og jarmað" 10 ára

 

 

 

 

"Séð og jarmað" 10 ára

 

 

"Séð og jarmað" - skal það heita

 

Hrútavinafélagið Örvar gjörir kunnugt !

 

 

Öldungaráðið á Stokkseyri, í umboði Hrútavina, hefur ákveðið að ráðast í blaðaútgáfu.

Um er að ræða mánaðarrit sem fengið hefur nafnið “Séð og jarmað” Ný – Myndrit Hrútavinafélagsins Örvars á Suðurlandi.

 

Í ritinu verða gamlar og nýjar myndasyrpur af lífi og leikjum Hrútavina á líðandi stund og frá fyrri tíð í starfi Hrútavina um víðan völl.

 

Ritstjórar eru; Björn Ingi Bjarnason á Eyrarbakka og Kjartan Már Hjálmarsson á Selfossi

 

Í ritnefnd eru; Stokkseyringarnir Bjarkar Snorrason, Gísli Rúnar Guðmundsson, Grétar Zóphoníasson, Jón Jónsson og Þórður Guðmundsson.

Ljósmyndarar að þessu sinni eru; Björn Ingi Barnason, Guðmundur J. Sigurðsson, Kjartan Már Hjálmarsson og Tinna Jónsdóttir.

 

Fyrsta tölublaðið mun koma út nú á föstudaginn 21. janúar, fyrsta degi Þorra – bóndadeginum.

 

Myndritið er 12 síður að þessu sinni í stóru broti og þar má sjá Stokkseyringa og fleiri Hrútavini í hundraðavís.

 

Útgáfuteiti verður (var)í Shell-Skálanum á Stokkseyri 21. janúar (2011) kl. 09:00 þar sem útgáfan verður kynnt en upplagið er eitt eintak sem verður til lesturs og skoðunar í Shell-Skálanum á Stokkseyri alla daga.

 

Allir hjartanlega velkomnir.


(Frétt frá árinu 2011)

 

.
F.v.: Bjarkar Snorrason, Þórður Guðmundsson og Björn Ingi Bjarnason.
.
 

 

Skráð af Menningar-Bakki.

20.01.2021 06:46

Merkir Íslendingar - Jón úr Vör

 

 

Jón úr Vör (1917 - 2000).

 

Merkir Íslendingar - Jón úr Vör

 

 

Jón úr Vör Jónsson skáld fæddist á Vatneyri við Patreksfjörð þann 21. janúar 1917. 

Foreldrar hans voru Jón Indriðason skósmiður, f. 20.5. 1884, d. 17.2. 1974, og Jónína Guðrún Jónsdóttir húsmóðir, f. 3.10. 1885, d. 20.3. 1961. 

Jón úr Vör var á þriðja ári sendur í fóstur hjá Þórði Guðbjartssyni verkamanni á Patreksfirði og konu hans Ólínu Jónsdóttur og ólst upp hjá þeim ásamt fóstursystkinunum Einari, Sigurði, Guðbjarti, Halldóru og Andrési. 

Systkini Jóns úr Vör voru 13:

Sigurður, f. 1905, dó innan árs, Sigurður Kristinn, f. 3.8. 1906, d. 17.11. 1968, Rannveig, f. 28.11. 1908, dó innan árs, Rannveig Lilja, f. 17.1. 1910, d. 17.12. 1950, Marta, f. 14.6. 1911, d. 4.2. 1999, Þorgerður, f. 5.11. 1913, d. 16.6. 1962, Indriði, f. 9.7. 1915, d. 30.4. 1998, Sigrún, f. 8.9. 1918, d. 24.4. 1988, Sólveig, f. 28.11. 1919, Gunnar, f. 9.8. 1922, d. 20.12. 1992, Hafliði, f. 20.10. 1923, Fjóla, f. 8.7. 1925, d. 18.5. 1996, Björgvin, f. 26.8. 1929.
 

Hinn 7. september 1945 kvæntist Jón Bryndísi Kristjánsdóttur frá Nesi í Fnjóskadal, f. 17. 8. 1922. Foreldrar hennar voru Kristján Jónsson bóndi og búfræðingur, f. 22.3. 1880 Nesi, d. 27.5. 1962, og kona hans Guðrún Stefánsdóttir rjómabústýra frá Selalæk á Rangárvöllum, f. 18.4. 1885, d. 26.11. 1983. 

Synir Jóns og Bryndísar eru: 
1) Karl, f. 9.12. 1948, kvæntur Katrínu Valgerði Karlsdóttur, þeirra börn eru Sigrún Erla, Jón Egill og Fanney Magna, 
2) Indriði, f. 5.11. 1950, kvæntur Valgerði Önnu Þórisdóttur, þeirra börn eru Stefán Örn og Bryndís Ylfa, átti áður synina Orra Frey og Þóri Valdimar, sonur Þóris og Maríu Hrundar Guðmundsdóttur sambýliskonu hans er Hafþór Örn, 
3) Þórólfur, f. 3.10. 1954, kvæntist Kerstin Almqvist, þeirra dætur eru Helga Guðrún Gerða og Anna Sólveig, skilin, sambýliskona Þórólfs er Lilja Markúsdóttir.

 

Jón úr Vör stundaði nám við Unglingaskóla Patreksfjarðar, Héraðsskólann á Núpi, Brunnsviks folkhögskola í Svíþjóð og Nordiska folkhögskolan í Genf. Hann var ritstj. Útvarpstíðinda 1941-45 og 52. Hann var starfsmaður Bókaútgáfu Pálma H. Jónssonar 1947-51, sá um útgáfu tímaritsins Stjörnur, ritstj. þess o.fl. Jón var fornbókasali í Rvík 1952-62. Jafnframt bókavörður í Kópavogi frá 1952 og hafði það að aðalstarfi frá 1. okt 1962. Hann átti þátt í stofnun Rithöfundasambands Íslands og var í stjórn þess fyrstu árin. 

Ljóðabækur: 

Ég ber að dyrum 1. og 2. útg. 1937 3. útg. 1966, Stund milli stríða 1942, Þorpið 1946, endurskoðuð útg. 1956, 3. útg. 1979, 4. útg. 1999, sænsk þýðing, Isländsk kust 1957, Með hljóðstaf 1951, Með örvalausum boga 1951, Vetrarmávar 1960, Maurildaskógur 1965, 100 kvæði, úrval 1967, Mjallhvítarkistan 1968, Stilt vaker ljoset , ljóðaúrval á norsku 1972, Vinarhús 1972, Blåa natten över havet, ljóðaúrval á sænsku útg. í Finnlandi 1976, Altarisbergið 1978, Regnbogastígur 1981, Gott er að lifa 1984.

 

Jón var heiðursfélagi Rithöfundasambands Íslands, hann var sæmdur riddarakrossi hinnar íslensku fálkaorðu og hlaut heiðurslaun listamanna frá 1986.


Jón úr Vör lést á Landspítalanum þann 4. mars 2000. 


Skráð af Menningar-Bakki.

19.01.2021 17:47

---Úr myndasafninu---

 

 

 

 

 
---Úr myndasafninu---             Stefnumótun Hrútavina á Stokkseyrartorgi.


 Elfar Guðni Þórðarson, Siggeir Ingólfsson og Jón Jónsson.

 

 

 


Skráð af Menningar-Bakki 

 

17.01.2021 08:56

---Úr myndasafninu---

 

 

 

 

 
---Úr myndasafninu---
 
                       Tónleikar á Stokkseyrarbryggju

 

                                       og árið er 2010

 
Skráð af Menningar-Bakki.
 

16.01.2021 09:15

---Úr myndasafninu---

 

 

 

 
---Úr myndasafninu---
             Sönghópur Hrútavinafélagsins Örvars 

                    á sviði í Skötuveislu í Keflavík

                                og árið er 2010 


Skráð af Menningar-Bakki.

16.01.2021 07:59

Merkir Íslendingar - Erling Edwald

 


Erling Edwald (1921 - 2011).
 

 

Merkir Íslendingar - Erling Edwald

 

 

Erl­ing Edwald fædd­ist 16. janú­ar 1921 á Ísaf­irði. For­eldr­ar hans voru Jón Samú­els­son Edwald, kaupmaður og vararæðismaður, og Sigrún Edwald (f. Asp­e­lund).

 

Erl­ing varð stúd­ent frá MA 1940 og lauk lyfja­fræðinámi, cand.pharm., í Kaup­manna­höfn 1947.

 

Að loknu prófi starfaði Erl­ing sem lyfja­fræðing­ur í Lyfja­versl­un rík­is­ins 1947-1967, en varð Lyf­sölu­stjóri rík­is­ins 1967 og gegndi því starfi til 1986. Hann var fyrsti lyfja­fræðing­ur lyfja­búrs Land­spít­al­ans í hluta­starfi, 1954-58.

 

Erl­ing var próf­dóm­ari í lyfja­fræði lyfsala við Há­skóla Íslands 1957-1970. Hann sat í lyfja­verðlags­nefnd 1968-1983, og eit­ur­efna­nefnd 1969-1987. Hann gegndi stjórn­ar­störf­um í Lyfja­fræðinga­fé­lagi Íslands 1944-1945 og Lyfja­fræðisafni frá 1991 til dauðadags.

 

Erl­ing var sæmd­ur gull­merki Lyfja­fræðinga­fé­lags Íslands 1992. Eft­ir starfs­lok tók Erl­ing próf frá Stýri­manna­skól­an­um í Reykja­vík, með 30 rúm­lesta rétt­indi, 1987.

 

Erling kvæntist 31. desember 1958 Jóhönnu Hjálmfríði Jónsdóttur Edwald f. 1935. Foreldrar hennar voru Helga Sigurðardóttir og Jón St. Guðjónsson, þá loftskeytamaður á Hesteyri.

Börn þeirra eru;

1) Tryggvi, f. 1959, 

2) Sigrún, f. 1962,

3) Ari, f. 1964,

4) Þórdís, f. 1966

 

Erl­ing lést 13. maí 2011.

 

Morgunblaðið.Skráð af Menningar-Bakki

 

15.01.2021 06:57

Merkir Íslendingar - Hjálmar Finnsson

 

 

Hjálmar Finnsson (1915 - 2004).
 

 

Merkir Íslendingar - Hjálmar Finnsson

 

 

Hjálmar fæddist á Hvilft í Önundarfirði 15. janúar 1915.

Foreldrar hans voru Finnur Finnsson, bóndi á Hvilft, og Guðlaug J. Sveinsdóttir.


Finnur var sonur Finns, bónda þar Magnússonar, b. þar Einarssonar (og helsta stuðningsmanns Jóns Sigurðssonar við kosningarnar til hins endurreista Alþingis 1845), bróður Ásgeirs, alþm. á Þingeyrum, og Torfa, alþm. á Kleifum, en systir Magnúsar var Ragnheiður, amma Torfa tollstjóra og Snorra skálds Hjartarsona.

 

Guðlaug Jakobína var dóttir Sveins Rósinkranzsonar, skipstjóra á Hvilft, bróður Rósinkranz, föður Guðlaugs þjóðleikhússstjóra, en systir Sveins var Kristín, amma Kristjáns Ragnarssonar, fyrrv. framkvæmdastjóra LÍÚ.

 

Meðal systkina Hjálmars voru Ragnheiður skólastjóri; Sveinn, framkvæmdastjóri Fiskimálasjóðs; og Gunnlaugur, alþm. á Hvilft.

 

Eiginkona Hjálmars var Doris Finnsson, f. Walker, sem lést 1992, hjúkrunarfræðingur, og eignuðust þau þrjú börn.

 

Hjálmar lauk stúdentsprófi frá MA 1938, viðskiptafræðiprófi frá HÍ 1941 og stundaði framhaldsnám í fyrirtækjastjórnun við University of Southern California 1941-42.

 

Hjálmar stofnaði viðskiptafyrirtæki í New York 1942, var umboðsmaður íslenskra verslunar- og iðnfyrirtækja við innkaup í Bandaríkjunum 1942-48, var framkvæmdastjóri fyrirtækis í New York 1945-48 og umboðsmaður Loftleiða hf. í Bandaríkjunum, m.a. við öflun varanlegs lendingarleyfis 1947-48.

 

Hjálmar var framkvæmdastjóri Loftleiða hf. í Reykjavík 1949-52. Þá kom mjög til álita að sameina Loftleiðir og Flugfélag Íslands og að Hjálmar yrði forstjóri hins nýja flugfélags. Hann var forstjóri Áburðarverksmiðjunnar í Gufunesi 1952-85, sat í Flugráði, í samninganefnd um flugleyfi til Evrópulanda og var m.a. formaður Félags viðskiptafræðinga.

 

Hjálmar var fróður maður, hressilegur í viðmóti og skemmtilegur viðmælandi. Hann var sæmdur riddarakrossi hinnar íslensku fálkaorðu.

 

Hjálmar lést 10. júlí 2004.

 

 
 


Skráð af Menningar-Bakki.

15.01.2021 06:52

Merkir Íslendingar - Guðmundur Ingi Kristjánsson

 

 

Guðmundur Ingi Kristjánsson (1907 - 2002).

 

Merkir Íslendingar - Guðmundur Ingi Kristjánsson

 

Guðmundur Ingi fæddist á Kirkjubóli í Bjarnardal í Önundarfirði 15. janúar 1907.

Foreldrar hans voru Kristján Guðjón Guðmundsson, bóndi á Kirkjubóli, og k.h., Bessabe Halldórsdóttir.

Systir Kristjáns var Guðrún, amma Gests Ólafssonar skipulagsfræðings og langamma Þórunnar Valdimarsdóttur, rithöfundar og sagnfræðings. Kristján var sonur Guðmundar Pálssonar, bónda á Kirkjubóli, bróður Hákonar, langafa Sigurjóns Péturssonar heitins, sem var forseti borgarstjórnar.
 

Systir Bessabe var Friðrikka, amma Einars Odds Kristjánssonar alþm. f. 1942 - d. 2007.
 

Systkini Guðmundar Inga voru Ólafur, skólastjóri í Hafnarfirði, faðir Kristjáns Bersa skólameistara og afi Ólafs Harðarsonar stjórnmálafræðings, Jóhanna á Kirkjubóli, og Halldór, rithöfundur og alþm.
 

Eiginkona Guðmundar Inga var Þuríður Gísladóttir frá Mýrum í Dýrafirði og stjúpsonur hans Sigurleifur Ágústsson. Þuríður var fædd þann 6. júlí 1925 og hún lést  þann 30. október 2016.


Guðmundur Ingi ólst upp á Kirkjubóli, var þar heimilisfastur alla tíð og bóndi þar frá 1944. Hann stundaði nám við eldri deild Alþýðuskólans á Laugum og eldri deild Samvinnuskólans í Reykjavík. Guðmundur Ingi var kennari í Mosvallahreppi af og til um langt árabil og auk þess skólastjóri heimavistarskólans í Holti 1955-74.
 

Guðmundur Ingi sat í stjórn ungmennafélagsins Bifröst, Héraðssambands ungmennafélaga Vestfjarða, stjórn Kaupfélags Önfirðinga, Búnaðarfélags Mosvallahrepps, var formaður Búnaðarsambands Vestfjarða, oddviti Mosvallahrepps um langt árabil og sýslunefndarmaður, sat í skólanefnd hreppsins og Héraðsskólans á Núpi og var þrisvar í framboði til Alþingis fyrir Framsóknarflokkinn.
 

Ljóðabækur Guðmundar Inga eru:

Sólstafir 1938, 
Sólbráð 1945, 
Sóldögg 1958, 
Sólborgir 1963 
og Sólfar 1981. 

Síðan heildarljóðasafn Sóldagar 1993 og 2007 með viðauka.


Hann var sæmdur riddarakrossi 1984 og var heiðursborgari Mosvallahrepps og Ísafjarðarbæjar.

 

Guðmundur Ingi lést 30. ágúst 2002.
 Skráð af Menningar-Bakki