Menningar-Bakki * Viðhalda og efla þjóðlega menningararfleið til sjávar og sveita*
-------- Alþýðuhúsið á Eyrarbakka - Vinir alþýðunnar - Á undan sinni framtíð --- "Stærra í hugum okkar en við sjálfir gerum okkur grein fyrir" ---

15.06.2019 09:48

Hún elti Guðmund í heilt ár

 

 

 

 

Hún elti Guðmund í heilt ár

 

 

Hún fékk hug­mynd­ina þegar hún þurfti að slást við hann um síðustu rjóma­drop­ana í búðinni. Vig­dís festi á filmu störf rófna­bónd­ans Guðmund­ar á Sandi sem nú læt­ur af störf­um eft­ir hálfa öld í rófna­bú­skap.

 

Ég vissi vel hver Guðmund­ur var áður en ég fór í þetta verk­efni, því all­ir þekkj­ast í litla sam­fé­lag­inu hér á Eyr­ar­bakka. Guðmund­ur er gam­all Eyr­bekk­ing­ur og ég er fædd og upp­al­in hér, en ég kynnt­ist hon­um óhjá­kvæmi­lega miklu bet­ur við að fylgj­ast með störf­um hans svona lengi. Það verður til ákveðinn vin­skap­ur við svona mik­inn sam­gang. Hann hringdi alltaf í mig þegar eitt­hvert verk lá fyr­ir og þá mætti ég á svæðið til að taka mynd­ir. Ég reyndi að mæta sem oft­ast og líka aft­ur og aft­ur í sama verkið, því veður var mis­jafnt og birt­an og annað í mynd­un­um þá ólíkt,“ seg­ir Vig­dís Sig­urðardótt­ir sem opn­ar ljós­mynda­sýn­ing­una Rófu­bónd­inn í dag í Hús­inu á Eyr­ar­bakka, en hún elti Guðmund Sæ­munds­son á Sandi í heilt ár og fylgd­ist með störf­um hans í rófna­rækt og tók mynd­ir.

 

„Allt hófst þetta á því að mig langaði til að vinna að ein­hverju ljós­mynda­tengdu verk­efni en ég hef haldið fjór­ar ljós­mynda­sýn­ing­ar áður sem all­ar voru með lands­lags­ljós­mynd­um. Mig bráðvantaði ein­hverja hug­mynd svo ég heim­sótti vina­fólk mitt Magnús Kar­el og Ingu Láru sem búa hér á Eyr­ar­bakka og spurði hvort þeim kæmi eitt­hvað í hug. Inga Lára dró mig upp á loft í Lauga­búð og sýndi mér gaml­ar ljós­mynda­bæk­ur og hún stakk upp á að ég inni að ein­hverju heim­ild­ar­verk­efni. Stuttu seinna átti ég er­indi út í sjoppu til að kaupa rjóma fyr­ir kaffi­sam­sæti sem kven­fé­lagið hér á Eyr­ar­bakka stend­ur fyr­ir á frí­degi verka­manna. Þá baka næst­um all­ir á Eyr­ar­bakka og ég þurfti nauðsyn­lega að fá rjóma, en það þurftu fleiri og ég lenti í því að slást um síðustu rjóma­drop­ana í búðinni við Guðmund rófu­bónda. Hann var mætt­ur á traktorn­um og í vinnugall­an­um og var aðeins á und­an mér, svo hann fékk það sem hann þurfti af rjóma en ég tók rest,“ seg­ir Vig­dís og hlær.

 

„Þarna laust niður hug­mynd og ég spurði hann á staðnum hvort ég mætti taka af hon­um mynd­ir við störf í rófna­rækt­inni. Hon­um fannst þetta svo­lítið skrýt­in hug­mynd og vildi fá að hugsa málið. Viku seinna samþykkti hann og ég gat haf­ist handa.“

 

Kannski verður barnið gult

 

Guðmund­ur er ein­yrki í rófna­rækt­inni sem hann hóf með föður sín­um fyr­ir fimm­tíu árum, en þeir feðgar ræktuðu einnig kart­öfl­ur. Guðmund­ur hætti kart­öflu­rækt fyr­ir ára­tug og hef­ur ein­beitt sér að rófna­rækt­inni síðan.

 

„Hann fær liðsstyrk á haust­in, þá koma til hans ung­ir peyj­ar til að hjálpa hon­um að taka róf­urn­ar upp, enda gríðarlegt magn sem þarf að taka upp. Upp­sker­an á hverju hausti er um 50 til 60 tonn af róf­um, svo þetta er gríðarlegt magn og mik­il vinna. Upp­sker­an hjá hon­um hef­ur farið upp í 130 tonn þegar mest var, en það fannst hon­um of mikið,“ seg­ir Vig­dís og bæt­ir við að Guðmund­ur sé með einn til tvo hekt­ara lands í einu und­ir rófna­rækt­ina, en hann hvíli svæðin á milli ára.

 

„Öll hans rækt­un er und­ir ber­um himni og hand­tök­in eru mörg. Það þarf að plægja á vor­in og sá, og gera garða. Á sumr­in þarf að eitra fyr­ir kálflug­una nokkr­um sinn­um og Guðmund­ur fer nán­ast dag­lega til að kíkja á og fylgj­ast með sprett­unni yfir sum­arið.“

 

Vig­dís seg­ist hafa fræðst heil­mikið við gerð verk­efn­is­ins, því hún vildi vita hvað verkið hverju sinni fæli í sér og til hvers það var.

 

„Núna veit ég ým­is­legt um rófna­rækt sem ég ekki vissi áður. Það kom mér á óvert hversu lík­am­lega erfið þessi vinna Guðmund­ar er. Hann þarf að bogra mjög mikið, en hann er kom­inn á átt­ræðis­ald­ur og hef­ur starfað við rófna­rækt í meira en fimm ára­tugi. Hann seg­ist aldrei hafa fengið í bakið.“

 

Vig­dís seg­ir að róf­urn­ar hans Guðmund­ar séu þær allra bestu sem hún hafi smakkað, enda fékk hún að bragða á þeim þegar þær voru ný­komn­ar upp úr mold­inni. „Þær eru ein­stak­lega sæt­ar og fersk­ar svona beint upp úr garðinum. Guðmund­ur er mik­ill öðling­ur og bauð mér æv­in­lega að taka með mér heim eins mikið af róf­um og ég gat borið, í hvert sinn sem ég kom að mynda hann. Ég borðaði því miklu meira af róf­um en ég er vön og ætli barnið sem ég ber und­ir belti verði ekki gult þegar það kem­ur í heim­inn,“ seg­ir Vig­dís, sem er kom­in níu mánuði á leið.

 

Vig­dís seg­ist hafa notið sam­vist­anna við Guðmund og að kynn­in við hann hafi leitt í ljós hversu lund­góður hann er.

 

„Hann er mjög létt­ur og skemmti­leg­ur maður, alltaf í góðu skapi og bros­andi, reyt­andi af sér brand­ara og stutt í hlát­ur­inn. Ég lærði líka að koma helst aldrei til hans tíðinda­laus, því hann spurði alltaf hvað væri að frétta. Ég lagði mig því fram um að vera alltaf með eitt­hvað nýtt til að segja hon­um af Bakk­an­um.“

 

Vig­dís seg­ir að nú hafi heim­ild­ar­mynda­taka henn­ar af störf­um Guðmund­ar öðlast meira gildi en hún eða Guðmund­ur hefðu gert sér grein fyr­ir þegar þau lögðu af stað í ljós­mynda­verk­efnið, því ný­lega kom í ljós að hann er hætt­ur í rófna­rækt­inni, vegna veik­inda.

 

„Þetta var því síðasta árið hans í ævi­starf­inu, svo það var eins gott að ég lét vaða og spurði hann þarna við mjólk­ur­kæl­inn í fyrra­vor hvort ég mætti mynda hann.“

 

 

 

Ljós­mynda­sýn­ing­in Rófu­bónd­inn verður opnuð í dag,

laug­ar­dag 15. júní 2019, kl. 17 í borðstofu Húss­ins á Eyr­ar­bakka.

Sýn­ing­in gef­ur fróðlega og lit­ríka sýn á rækt­un

þess­ar­ar ein­stöku jurt­ar sem hef­ur fylgt þjóðinni í 200 ár.

 

All­ir eru vel­komn­ir.

 Morgunblaðið - laugardagurinn 15. júní 2019
Krist­ín Heiða Krist­ins­dótt­ir 
khk@mbl.is


Skráð af Menningar-Bakki

15.06.2019 08:38

Merkir Íslendingar - Sigurður Jensson

 

 

Sigurður Jensson (1853 - 1924).

 

 

Merkir Íslendingar - Sigurður Jensson

 

 

Sigurður Jensson fæddist í Reykjavík 15. júní 1853. 

Foreldrar hans voru Jens Sigurðsson, f. 6.7. 1813, d. 2.11. 1872, alþingismaður og rektor Lærða skólans í Reykjavík en hann byrjaði sinn kennaraferil á Íslandi sem barnakennari á Eyrarbakka, og k. h. Ólöf Björnsdóttir, f. 22.2. 1830, d. 7.12. 1874 húsmóðir.

Jens var sonur Sigurðar Jónssonar prófasts á Hrafnseyri og Þórdísar Jónsdóttur konu hans sem var frá Holti í Önundarfirði og bróðir Jóns forseta. Ólöf var dóttir Björns Gunnlaugssonar stærðfræðings og yfirkennara við Lærða skólann.


 

Meðal systkina Sigurðar var Jón Jensson yfirdómari og alþingismaður.


 

Sigurður tók stúdentspróf frá Lærða skólanum 1873 og guðfræðipróf frá Prestaskólanum 1876. Hann fór síðan í framhaldsnám í guðfræði við Hafnarháskóla 1877-1878.


 

Sigurður var kennari við barnaskólann í Reykjavík 1873-1876 og 1878-1880. Hann var síðan prestur í Flatey á Breiðafirði 1880-1921 og prófastur í Barðastrandarprófastsdæmi 1881-1902. Hann var póstafgreiðslumaður í Flatey 1914-1921. Hann var oddviti Flateyjarhrepps í mörg ár, amtsráðsmaður 1901-1907 og yfirskoðunarmaður landsreikninganna 1895-1902. Sigurður fékkst því við mörg opinber störf og var prýðilega vel látinn og vandaður maður, segir í andlátsfregn.

 

Sigurður var alþingismaður Barðstrendinga 1886-1908 fyrir Framfaraflokkinn, Landvarnarflokkinn, Sjálfstæðisflokkinn eldri. Hann var varaforseti efri deildar 1899.


 

Sigurður fékk lausn frá prestsembætti vegna heilablóðfalls 1921 og fluttist þá til Reykjavíkur og var þar til æviloka.

 

Eiginkona Sigurðar var Guðrún Sigurðardóttir, f. 20.2. 1862, d. 19.3. 1941, húsmóðir. Foreldrar: Sigurður Jónsson kaupmaður í Flatey og k.h. Sigríður Brynjólfsdóttir.
 

 

Börn Sigurðar og Guðrúnar sem upp komust voru Haraldur vélstjóri á Gullfossi, Jón raffræðingur og framkvæmdastjórii í Reykjavík, Jens gasstöðvarstjóri í Tönsberg í Noregi, Jón Sigurður bóndi og póstafgreiðslumaður í Flatey, Brynjólfur gasstöðvarstjóri í Rvík og Ólöf húsfreyja í Reykjavík.


 

Sigurður lést 5. janúar 1924.Skráð af Menningar-Bakki.

12.06.2019 20:10

Rófubóndinn - sýningaropnun í Húsinu 15. júní 2019

 

 


Rófubóndinn 

 

- sýningaropnun í Húsinu 15. júní 2019

 

 

Þér og þínum er boðið að vera við opnun ljósmyndasýningarinnar Rófubóndinn laugardaginn 15. júní 2019 kl. 17.00 í borðstofu Hússins á Eyrarbakka.Vigdís Sigurðardóttir ljósmyndari á Eyrarbakka sýnir eitt ár í lífi rófubóndans Guðmundar Sæmundssonar á Sandi sem hefur ræktað gulrófur á Eyrarbakka í yfir 50 ár.

 

Sýningin gefur fróðlega og litríka sýn á ræktun þessarar einstöku jurtar sem hefur fylgt þjóðinni í 200 ár.Léttar veitingar í boði.Skráð af Menningar-Bakki

12.06.2019 19:47

17. júní 2019 hátíðarhöld á Selfossi og Eyrarbakka

 

 

 

 

17. júní 2019

 

hátíðarhöld á Eyrarbakka 

 

og Selfossi

 

 

Lýðveldisdagurinn 17. júni 2019 verður haldin hátíðlegur í Sveitarfélaginu Árborg nk. mánudag með hátíðardagskrá á Eyrarbakka og Selfossi.

 

Dagskrá dagsins má sjá hér að neðan en til viðbótar við hefðbundna dagskrá mun Forsætisráðuneytið í samvinnu við Landsamband bakarameistara bjóða upp á svokallaða „Lýðveldisköku“ í tilefni af 75 ára afmæli lýðveldisins. Kakan verður í boði í hátíðartjaldinu á Selfossi frá kl. 13:30.

 

Íbúar er hvattir til að taka þátt í hátíðardagskrá og mæta með íslenska fánann á lofti.

 

Dagskrá á Selfossi 17. júní 

 

Dagskrá á Eyrarbakka 17. júní fer fram í félagsheimilinu Stað á Eyrarbakka

kl. 14:00 Hátíðardagskrá

 • Ávarp fjallkonunnar
 • Hátíðarræða - Linda Ásdísardóttir
 • Söngur leikskólabarna
 • Blöðrulist, skemmtiatriði  
 • Afhending verðlauna fyrir Hópshlaupið
 • Sirkus Íslands
 • Töfrasýning Einar Mikael, töframaður
 • Kaffiveitingar
 •    Skráð af Menningar-Bakki

11.06.2019 17:09

Jónsmessuhátíð Eyrarbakka 2019

 

 
 

 

Jónsmessuhátíð Eyrarbakka 2019
 Björgunarsveitin Björg býður ungum og öldnum

að veiða frítt í Ölfusárósi fyrir landi Eyrarbakka

dagana 22. til 24. júní 2019.

Sráð af Menningar-Bakki

10.06.2019 07:03

10. júní 1856 fæðingardagur Hans Ellefsen

 

 
 
 

10. júní 1856

 

fæðingardagur Hans Ellefsen  (1856 - 1918)

 

 

Hans Ellefsen, født i Stokke - Vestfold, 10. júní 1856,  norsk hvalfangstreder. Drev først hvalfangst på Øst-Finnmark.  Flyttet 1889 til Island. Inntil 1901 hadde han stasjon på Solbakka i Önundarfjörður på den vestlige del av Island, de første årene sammen med broren Andreas Ellefsen (1848–1927). Hans stasjon på Asknes i Mjóifjörður, 1901–11, ble kalt verdens største, med mer enn 400 mann. Hans villa på Solbakka ble etter hans død flyttet til Reykjavík som statsminister- og representasjonsbolig.

 

 

STORE NORSKE LEKSIKON

 

 
Skráð af Menningar-Bakki
 

09.06.2019 07:12

9. júní 2019 - þjóðhátíðardagur Álandseyja

 

.
Fáni Álandseyja við Fánasetur Suðurlands á Eyrarbakka.

..

 

 

 

9. júní 2019 - þjóðhátíðardagur Álandseyja

 

 

Þjóðhátíðardagar Norðurlandanna:

 

Álandseyjar      

9. júní  

Fyrsta þing Álandseyinga kemur saman 1923.

 

Danmörk            

16. apríl eða 5. júní        

16. apríl er afmælisdagur Margrétar II. (f. 1940), en yfirleitt er litið á 5. júní sem þjóðhátíðardag, þá var stjórnarskráin staðfest árið 1849.

 

 Finnland            

6. desember     

Finnar lýsa yfir sjálfstæði 1917.

 

Færeyjar            

29. júlí  

Ólafsvaka.

 

Grænland          

21. júní

Lengsti dagur ársins.

 

Ísland   

17. júní

Fæðingardagur Jóns Sigurðssonar 1811 og lýðveldið stofnað 1944.

 

Noregur             

17. maí

Noregur fullvalda ríki í konungssambandi við Svía 1814, og stjórnarskráin frá Eiðsvelli gekk í gildi.

 

Svíþjóð

6. júní  

Gústaf I. kjörinn konungur og Svíþjóð lýst sjálfstætt þjóðríki 1523.

 

 
Skráð af Menningar-Staður

09.06.2019 07:00

Merkir Íslendingar - Tómas Sæmundsson

 


Tómas Sæmundsson (1807 - 1841)

 

 

Merkir Íslendingar - Tómas Sæmundsson

 

 

Tómas fæddist að Kúhól í Landeyjum 7. júní 1807, sonur Sæmundar Ögmundssonar, dbrm. í Eyvindarholti, og Guðrúnar Jónsdóttur.
 

Sæmundur var sonur séra Ögmundar, á Krossi, bróður séra Böðvars í Holtaþingum, föður séra Þorvaldar í Holti, forföður ýmissa menningarforkólfa, s.s. Vigdísar Finnbogadóttur, Matthíasar Johannessen og Gylfa Þ. Gíslasonar.
 

Kona Tómasar var Sigríður Þórðardóttir, sýslumanns í Garði Björnssonar og komust upp tvö börn þeirra, Þórhildur, kona Helga Hálfdánarsonar lektors, og Þórður, héraðslæknir á Akureyri.
 

Tómas lærði hjá Steingrími Jónssyni í Odda, síðar biskupi, lauk stúdentsprófi frá Bessastaðaskóla 1827, tók 2. lærdómspróf við Hafnarháskóla, lauk próf í hebresku 1831 og guðfræðiprófi 1832. Hann ferðaðist um Suður-Evrópu 1832-34 og stofnaði Fjölni, er hann kom til baka, ásamt Jónasi Hallgrímssyni, Brynjólfi Péturssyni og Konráð Gíslasyni.
 

Tómas fékk Breiðabólstað í Fljótshlíð 1834, varð prófastur Rangárþings 1836 og hélt Breiðabólstað til dánardags. Hann var líklega áhugasamastur og raunsæjastur um Fjölni, skrifaði mikið í ritið og gagnrýndi Konráð fyrir ofstæki í stafsetningarmálum og Jónas fyrir róttækni og harða gagnrýni á menn.
 

Tómas er, ásamt Baldvini Einarssyni, Jónasi og Jóni Sigurðssyni, helsta ættjarðar- og frelsishetja þjóðarinnar á 19. öld. Hans var sárt saknað er hann lést 17. mái 1841.
 

Jónas samdi æviágrip um Tómas og Steingrímur Thorsteinsson skrifaði um hann í bókaflokknum Merkir Íslendingar. Á legstað hans á Breiðabólstað er minnisvarði þar sem greypt er andlitsmynd hans úr marmara og þrjár myndir úr lífi hans.

 

Um Tómas orti Jónas frægt saknaðarljóð, en síðari hluti síðasta erindisins er á þessa leið:

 

„Flýt þér, vinur, í fegra heim;

krjúptu að fótum friðarboðans

og fljúgðu á vængjum morgunroðans

meira að starfa guðs um geim.“Skráð af Menningar-Staður

08.06.2019 08:45

Merkir Íslendingar - Hjálmar R. Bárðarson

 

 

Hjálmar R. Bárðarson (1918 - 2009).

 

 

Merkir Íslendingar - Hjálmar R. Bárðarson

 

 

Hjálmar fæddist á Ísafirði 8. júní 1918. Foreldrar hans voru Bárður Guðmundur Tómasson, fyrsti skipaverkfræðingur Íslendinga, og k.h., Filippía Hjálmarsdóttir húsfreyja.
 

Eiginkona Hjálmars var Else Sørensen húsfreyja.
 

Hjálmar lauk stúdentsprófi frá MR 1939, stundaði nám í tréskipasmíði við skipasmíðastöð BGT á Ísafirði 1940, nám í flugvélasmíði við Marinens Flyvevåben í Kaupmannahöfn 1940, stundaði verklegt nám í stálskipasmíði, rafsuðu, járnsteypu og rennismíði við Ørlogsværftet á námstíma í verkfræði í Kaupmannahöfn, lauk prófum í skipaverkfræði frá DTH 1947, lærði jafnframt flugvélaverkfræði sem aukagrein og sótti námskeið í tæknilegri ljósmyndun.
 

Hjálmar var skipaverkfræðingur hjá Helsingör Skibsværft og Maskinbyggeri A/S í Danmörku, hjá Cook, Welton & Gemmel Ltd og hjá Stálsmiðjunni hf. í Reykjavík 1948-54. Hann var skipaskoðunarstjóri og skipaskráningarstjóri 1954-70, siglingamálastjóri 1970-85 og forseti Alþjóðasiglingamálastofnunar SÞ í Lundúnum 1969-71.
 

Hjálmar sinnti viðamiklum rannsóknarstörfum vegna endurbóta á togurum og öðrum fiskiskipum er varða ísingu og stöðugleika þeirra. Auk þess vann hann að endurbótum gúmmíbjörgunarbáta og búnaði þeirra. Hann kom upp búnaði Stálsmiðjunnar við smíði stálskipa og hannaði og stjórnaði smíði Magna, fyrsta stálskipsins sem smíðað var hér á landi, og hannaði fjölda annarra skipa. Hann olli byltingu í gerð mastra með þrífótamastri í stað víravanta og hannaði fyrsta íslenska hringnótafiskiskipið með lokað milliþilfar frá bakka að brú.
 

Hjálmar gegndi fjölda trúnaðarstarfa fyrir íslenska ríkið og IMO, Alþjóðasiglingamálastofnun SÞ og fór oft fyrir þeim samtökum í öryggismálefnum skipa og baráttu gegn mengun sjávar vegna skipaumferðar. Hann var auk þess einn dáðasti landslags- og náttúruljósmyndari þjóðarinnar.
 

Hjálmar lést 7. apríl 2009Skráð af Menningar-Staður

08.06.2019 07:55

Ársskýrsla Byggðasafns Árnesinga 2018

 

 

 

 

Ársskýrsla Byggðasafns Árnesinga 2018

 

 

Ársskýrsla Byggðasafns Árnesinga fyrir árið 2018 er komin út og sjáanleg á vefnum.

 

Sjá: 

http://www.byggdasafn.is/wp-content/uploads/2019/04/%C3%81rssk%C3%BDrsla-Bygg%C3%B0asafns-%C3%81rnesinga-2018.pdf

 Skráð af Menningar-Staður