Menningar-Bakki * Viðhalda og efla þjóðlega menningararfleið til sjávar og sveita*
-------- Alþýðuhúsið á Eyrarbakka - Vinir alþýðunnar - Á undan sinni framtíð --- "Stærra í hugum okkar en við sjálfir gerum okkur grein fyrir" ---

01.02.2018 21:45

1. febrúar - Dagur kvenfélagskonunnar

 

 

 

1. febrúar - Dagur kvenfélagskonunnar

 

Dagurinn í dag, 1. febrúar 2018, er Dagur kvenfélagskonunnar. 

1. febrúar 1930 var stofndagur Kvenfélagasambands Íslands og var formlega gerður að degi kvenfélagskonunnar árið 2010. Var það gert til að vekja athygli á miklu og óeigingjörnu starfi kvenfélagskvenna um árabil, enda löngu tímabært að kvenfélagskonur fengju sinn eigin dag á dagatalinu.

 

Fyrsta kenfélagið á Íslandi, sem var í Rípurhreppi, var stofnað 1869. 

Kvenfélag Eyrarbakka var stofnað 25. apríl 1888.


 

 

Kvenfélagskonur á Eyrarbakka taka lagið á afmælisfundi.  Ljósm.: BIB


 

Skráð af Menningar-Staður

Tengill á færslu

 

 

 

01.02.2018 20:49

Listasmíði á Litla-Hrauni

 


F.v.: Guðmundur Magnússon, yfirverkstjóri á Litla-Hrauni,

og séra Hreinn Hákonarson, fangaprestur Þjóðkirkjunnar,
kveikja á kertunum í fyrsta sinn.

Ljósm.: Björn Ingi Bjarnason. 
 

 

 

 

Listasmíði á Litla-Hrauni
 

 

Í starfi, námi og lífi er mikilvægast að finna það sem hæfir hverjum og einum. Flestir fangar geta vel unnið fái þeir heppileg verk og umhyggjusama leiðsögn.

 

Þetta verk er dæmi um það: -Bænaljósastandur búinn til á Litla-Hrauni. - Fyrirmyndin er sótt til bænaljósastands sem er að finna í Borgarkirkjunni í Wittenberg en sú borg var deigla siðbótarhreyfingar Marteins Lúthers.Hönnun var í höndun fanga, fangavarðar, Guðmundar Magnússonar, og fangaprests. Fangi vann stjakann af mikilli alúð og nákvæmni, sauð, pússaði og málaði. Fangaprestur lagði til kertaskálarnar, fangelsið annað efni og fangavörðurinn hafði yfirumsjón með verkinu. Nú er verkið komið í höfn og í dag, 1. Febrúar 2018, var kveikt á honum í tilraunaskyni í fyrsta sinn. Alls sjötíu kerti en sú tala er merkileg tala, sjö er heilög tala og tíu er tákn um fullkomnun (t.d. boðorðin tíu).

 

Bænaljósastandurinn verður vígður með formlegum hætti við guðsþjónustu innan tíðar. Þá geta fangar tendrað bænaljós – og ljós fyrir þá vini þeirra sem látist hafa síðustu mánuði. Óvenju margir fíklar létust á síðasta ári og nú sömuleiðis það sem af er þessu ári og margir þeirra dvöldust um lengri eða skemmri tíma í fangelsinu á Litla-Hrauni. Blessuð veri minning þeirra allra.Séra Hreinn  Hákonarson,

fangaprerstur Þjóðkirkjunnar.
 

 

Séra Hreinn Hákonarson, fangaprerstur Þjóðkirkjunnar.
Takið eftir fætinum á standinum. Hann er af skrifborðsstól

sem sá góði drengur Kristján Gíslason, fyrrum fangavörður, vermdi oft.

Sennilega er þetta einn af fáum ef ekki eini bænatandurinn í heiminum

sem er hannaður með þessum hætti.

Ljósm.: BIBSkráð af Menningar-Staður

 

01.02.2018 17:12

Föngum á Litla-Hrauni skipt upp vegna hótana

 


Litla-Hraun. Ljósm.: Víðir Björnsson.
 

 

Föngum á Litla-Hrauni skipt upp vegna hótana

 

Tveir fangar, sem hafa haft sig hvað mest frammi í svokölluðu verkfalli á Litla-Hrauni, hafa verið fluttir á Hólmsheiði, meðal annars vegna hótana og ógnana í garð starfsmanna fangelsisins og samfanga. Hótanirnar hafa til að mynda beinst gegn Halldóri Vali Pálssyni, forstöðumanni Litla-Hrauns, og verið tilkynntar lögreglu, samkvæmt heimildum Fréttablaðsins.Fangarnir ákváðu í upphafi viku að mæta hvorki til skóla né starfa eftir að íþróttasal Litla-Hrauns var lokað, en það var gert í kjölfar árásar á átján ára hælisleitanda í salnum. Segja fangarnir að um sé að ræða hóprefsingu og fara fram á að slíkum refsingum verði hætt tafarlaust. Þá eru þeir ósáttir við umfjöllun um árásina þar sem fram hafi komið að ráðist hafi verið á piltinn sökum kynþáttafordóma, en þeir segja þær ásakanir úr lausu lofti gripnar.Guðmundur Ingi Þóroddsson, formaður Afstöðu, félags fanga, segir að útlit sé fyrir að ró sé að færast yfir hópinn og að einhverjir séu farnir að mæta til skóla og vinnu. Hann tekur á sama tíma fram að félagið standi ekki að baki mótmælunum, en að verið sé að miðla málum í samvinnu við fangelsismálayfirvöld. Aðspurður segist hann ekki kannast við meintar hótanir en segir það miður ef rétt reynist.Páll Winkel fangelsismálastjóri segir að verið sé að vinna í málinu. „Það er mikilvægt að fangar geti sótt vinnu og stundað nám í fangelsinu og það er okkar verkefni að tryggja það. Við höfum átt samskipti við Afstöðu og það er sameiginlegur vilji til að láta þessa hluti ganga upp,“ segir Páll, sem vildi að öðru leyti ekki tjá sig um málið.Heimildir blaðsins herma að um tiltekinn hóp fanga sé að ræða og aðrir fangar hafi ekki átt annars úrkosta en að taka þátt í aðgerðum hópsins, þrátt fyrir að hafa viljað mæta í skóla eða vinnu. Þeir vilji síður setja sig upp á móti umræddum föngum, sem eru þekktir og margdæmdir ofbeldismenn.Halldór Valur, forstöðumaður Litla-Hrauns, vildi ekki svara fyrirspurnum fjölmiðla þegar eftir því var leitað.

 


Litla-Hraun. Ljósm.: Björn Ingi Bjarnason.
 Fréttablaðið fimmtudaginn 1. febrúar 2018


Skráð af Menningar-Staðu
r

31.01.2018 18:33

Fangar á Litla-Hrauni í verkfalli

 

 

 

Verkfallsaðgerðir fanganna á Litla-Hrauni eru sagðar helst koma niður á þeim sjálfum.
Ljósm.: VÍSIR/VILHELM

 

Fangar á Litla-Hrauni í verkfalli

 

Mikils óróa gætir á Litla-Hrauni eftir árás á 18 ára hælisleitanda í íþróttasal fangelsisins í síðustu viku. Fangar hafa lagt niður störf og hafa hvorki mætt til náms né starfa þessa viku.

 

„Já, það er rétt, það hefur verið töluverður órói á Litla-Hrauni og fangar hafa leitað til félagsins, ósáttir við hóprefsingar sem hafa verið látnar ganga yfir alla fanga undanfarna viku vegna þess sem í fjölmiðlum hefur verið lýst sem hópárás,“ segir Guðmundur Ingi Þóroddsson, formaður Afstöðu, félags fanga.Guðmundur segir tvennum sögum fara af atvikinu og að einnig sé nokkur kurr í föngum vegna umfjöllunar fjölmiðla af málinu en henni hefur verið lýst sem hópárás sem fjöldi fanga tók þátt í og að kynþáttafordómar hafi verið kveikjan að árásinni. Málið er til rannsóknar hjá lögreglu.Aðspurður segir Guðmundur félagið sjálft ekki standa fyrir skipulögðum mótmælaaðgerðum eða verkföllum í fangelsum. Hins vegar reyni það að miðla málum þegar eftir því er leitað og hefur hann verið í sambandi við tengiliði félagsins á Litla-Hrauni vegna málsins. Guðmundur segir fangana bæði hafa kvartað undan lokun íþróttasalarins og takmörkunum á heimsóknum barna þeirra með ómálefnalegum hætti í kjölfar agabrota. „Svo tína menn náttúrulega ýmislegt fleira til, enda víða pottur brotinn í fangelsismálum,“ segir Guðmundur.Heimildir blaðsins herma að um tiltekinn hóp fanga sé að ræða og aðrir fangar sem afplána á Litla-Hrauni eigi ekki annars úrkosti en að taka þátt í aðgerðum hópsins, jafnvel þótt þeir vildu helst mæta í skólann eða til sinna starfa, enda sé um að ræða hóp manna sem aðrir fangar vilji síður setja sig upp á móti. Flestir þeirra fanga sem standa fyrir aðgerðunum eru þekktir og margdæmdir ofbeldismenn.Verkfallsaðgerðir fanganna eru sagðar helst koma niður á þeim sjálfum enda felast störf þeirra meðal annars í þrifum í sameiginlegum vistarverum fanga, þvotti á fatnaði þeirra og öðrum störfum sem tengjast daglegu lífi í fangelsinu. Heimildir Fréttablaðsins herma engu að síður að aðgerðum fanganna verði mætt af fullri hörku af hálfu fangelsisyfirvalda og ekki standi til að semja við fanga um fyrirkomulag afplánunar eða önnur réttindi þeirra í kjölfar þessara verkfallsaðgerða.

 

Páll Winkel, forstjóri Fangelsismálastofnunar, vildi ekki tjá sig um málið þegar eftir því var leitað. Af www.visir.is og Fréttablaðið 31. janúar 2018.


Skráð af Menningar-Staður


 

30.01.2018 20:24

Kyndilmessustund í Húsinu föstudaginn 2. febrúar kl. 20

 

 

 

Kyndilmessustund í Húsinu föstudaginn 2. febrúar kl. 20

 

Ásdís Jóelsdóttir lektor við HÍ og Hildur Hákonardóttir listakona verða fyrirlesarar kvöldsins á Kyndilmessu í Húsinu á Eyrarbakka föstudaginn 2. febrúar 2018 kl. 20:00.

 

 

Ásdís Jóelsdóttir

kynnir bók sína Íslenska lopapeysan í máli og myndum. Uppruna lopapeysunnar má helst rekja til gróf- og fljótprjónaðra lopapeysa á bændur og sjómenn og  vinsælla útvistarpeysa á bæði kynin með einkennandi útprjónuðum hringlaga munsturbekkjum. Á sama tíma var hún orðin að minja- og lúxusvöru og síðar á sjötta og sjöunda áratugnum að eftirsóttri útflutningsvöru. Hversu góð söluvara lopapeysan hefur orðið má þakka því hve einföld hún er í framleiðslu og fljótunnin og er það þekking og reynsla íslenskra prjónakvenna ásamt ánægju þeirra af því að prjóna sem lagt hefur grunninn að hönnun og tilvist peysunnar.  Innihald bókarinnar byggir á víðtækri rannsókn á rituðum heimildum og ljósmyndum auk þess sem tekin voru viðtöl við fjölda aðila sem á einhvern hátt höfðu komið að gerð og mótun peysunnar. Niðurstöður sýna að íslenska lopapeysan er séríslensk frumhönnun sem mótast hefur í samvinnu margra aðila og saga hennar og þróun er samofin samfélags-, iðnaðar-, útflutnings-, hönnunar– og handverkssögu þjóðarinnar.

 

Hildur Hákonardóttir

ætlar að lesa pistil úr bókinni Walden og lífið í skóginum – sem hún er meðþýðandi að og hefur bókin vakið verðskuldaða athygli og fengið tilnefningu til þýðingarverðlauna. Höfundurinn H. D. Thoreau átti 200 ára fæðingarafmæli í heimalandi sínu Bandaríkjunum á síðasta ári. Hann var heimspekingur, barðist fyrir afnámi þrælahalds, og var mikill náttúruunnandi. Enginn hefur lýst náttúrunni  á eins nákvæman hátt og með athyglisgáfu sinni lagði hann grundvöll að náttúruvísindum framtíðarinnar. Bókina skrifaði hann meðan hann hélt til í kofa sem hann sjálfur hjó timbrið í og klambraði saman. Hann bjó þar í tvö ár meðan hann var að samsama sig dýralífinu og hljóðunum í skóginum og þróa einfaldan lífsstíl.  Bæði Gandhi og Martein Luther King sem stóðu í frelsisbaráttu, danska neðanjarðarandspyrnuhreyfingin og aðrir sem hafa barist fyrir réttlæti hafa sótt styrk til skrifa og hugsjóna Thoreaus. Hildur sem hefur sjálf skrifað og gefið út bækur um gróður og einfaldan lífsstíl og baráttu kvenna til jafnréttis segir Thoreau alla tíð hafa verið henni fyrirmynd og förunautur.
 

Í upphafi dagskrár verður í stuttu máli sagt frá Kyndilmessunni. 

Kyndilmessa, hreinsunarhátíð Maríu meyjar, er 40 dögum eftir fæðingu Krists sem ber upp á 2. febrúar ár hvert. Þá er mikil ljósadýrð við kaþólska guðþjónustu og dagurinn því kenndur við kerti eða kyndla og íslenska nafnið  Kyndilmessa þaðan upprunnið segir í Sögu Daganna eftir Árna Björnsson.

 

Stundin hefst kl. 20:00 -  kaffiveitingar verða í hléi og aðgangur ókeypis.

 

Allir velkomnir.Byggðasafn Árnesinga - Húsið EyrarbakkaSkráð af Menningar-Staður

 

 

30.01.2018 19:02

Stokkseyrarþorrablót 2018

 

  Stokkseyrarþorrablót 2018

 

 

 

  Stokkseyrarþorrablót 2018


Skráð af Menningar-Staður.

30.01.2018 06:38

Ljósmyndabókin Fornar hafnir komin út

 

 

 

Ljósmyndabókin Fornar hafnir komin út

 

Út er komin bókin Fornar hafnir – útver í aldanna rás eftir Karl Jeppesen. Í bókinni er að finna ljósmyndir og frásagnir af 160 verstöðvum á Íslandi. Ferðalagið hefst á Horni og fer síðan hringferð allt í kringum landið. Áningarstaðirnir eiga það allir sameiginlegt að héðan réru forfeður okkar í landinu til fiskjar.

 

Allvíða má greina búðir sem hafa að hluta sokkið í landið, horfið í gras eða sand. Annars staðar hefur nútíminn ruðst yfir hinar fornu minjar með landfyllingum og mannvirkjum. En jafnt er landslag staðanna og útsýn þaðan til menja um hina hörðu lífsbaráttu og mannlíf liðinna alda.

 

Bókin er liðlega 300 síður í stóru broti og hefur að geyma 550 litmyndir. Höfundurinn Karl Jeppesen á að baki farsælan feril sem kennari, dagskrárgerðarmaður, ljósmyndari og kvikmyndagerðarmaður.

 

 

Skráð af Menningar-Staður

29.01.2018 20:51

Samband sunnlenskra kvenna 90 ára á þessu ári

 

 

 

Samband sunnlenskra kvenna 90 ára á þessu ári

 

Samband sunnlenskra kvenna var stofnað í Þjórsártúni 30. september árið 1928 og fagnar því 90 ára afmælisári sínu á þessu ári.

 

Á formannafundi SSK í nóvember sl. kom fram tillaga frá Margréti Tryggvadóttur formanni Kvenfélagsins Einingar á Hvolsvelli um að kvenfélögin í SSK skrifuðu á afmælisárinu, stutta pistla í Dagskrána [og á dfs.is] um það fjölbreytta starf sem fram fer í félögunum. Kvenfélögin í SSK eru 25 með rúmlega 900 félaga og nær sambandssvæðið yfir Árnes- og Rangárvallasýslu.

 

SSK mun minnast 90 ára afmælisins á ýmsan hátt m.a. verður farin ferð til Hollands í byrjun maí til fundar við hollenskar kvenfélagskonur sem hafa komið í tvígang hingað í heimsókn, einnig verður samkoma í haust, á afmælisdaginn.

 

Fyrsti pistillinn leit dagsins ljós í Dagskránni sem kom út í þessari viku og er hann frá fjölmennasta kvenfélaginu á svæðinu Kvenfélagi Selfoss.

 

Elinborg Sigurðardóttir formaður SSK

 

 

Skráð af Menningar-Staður

29.01.2018 16:23

90 ár frá stofnun Slysavarnafélags Íslands

 

 

 

90 ár frá stofnun Slysavarnafélags Íslands

 

90 ár eru í dag, mánudaginn 29. janúar 2018,  frá stofnun Slysavarnafélags Íslands en stofnun þess markaði upphaf skipulagðs björgunar- og slysavarnarstarfs á Íslandi.

 

Í tilefni af þeim áfanga verður haldin veisla hjá öllum einingum félagsins á afmælisdaginn 29. janúar.

 

Við hjá Björgunarsveitinni Björg Eyrarbakka munum að sjálfsögðu taka þátt í hátíðarhöldunum og bjóðum ykkur í opið hús til okkar á Búðarstíg 21 mánudaginn 29. janúar.

 

Húsið opnar kl. 20 og verður boðið uppá kaffi og kökur í boði Slysavarnarfélagsins Landsbjargar.

 

Kl. 21 munum við skjóta á loft hvítu svifblysi ásamt öllum einingum landsins.

 


Vonumst til að sjá sem flesta!

 

 
Skráð af Menningar-Staður.

28.01.2018 16:20

Hófu nýtt líf á Eyrarbakka

 

Mæðgurnar Drífa og Unnur voru orðnar langþreyttar

á himinhárri húsaleigu á höfuðborgarsvæðinu en leika nú við hvern sinn fingur

á Eyrarbakka þar sem þær keyptu sér íbúð saman.

 

Hófu nýtt líf á Eyrarbakka
 

Ánægðar með lífið á Eyrarbakka

Þrjár kynslóðir kvenna, amma, mamma og dóttir, voru orðnar þreyttar á himinhárri leigu á höfuðborgarsvæðinu og ákváðu að flytja út á land, þrátt fyrir að sumum hafi þótt sú hugmynd afleit í fyrstu. Mæðgurnar Drífa og Unnur rækta nú kartöflur og jarðarber á sumrin, fæða fugla bæjarins á veturna og skipta milli sín verkum á heimilinu. Unnur Ósk Kristjónsdóttir, Drífa Pálín Geirs og Svanhildur Pálín eru glaðar í bragði enda í öruggu húsaskjóli á vinalegum stað eftir barning á leigumarkaði á höfuðborgarsvæðinu.

 

Í litlu húsi á Eyrarbakka hafa þrjár kynslóðir kvenna, ásamt smáhundinum Tinu Turner, hreiðrað um sig. Amma, mamma og dóttir rækta þar kartöflur og jarðarber á sumrin og fæða fugla bæjarins yfir vetrarmánuðina. Mæðgurnar Drífa og Unnur voru orðnar langþreyttar á himinhárri leigu á höfuðborgarsvæðinu og fóru einn vetrardaginn fyrir rúmu ári að skoða möguleikann á því að fjárfesta í fasteign saman. Fyrir röð tilviljana fóru þær að skoða fasteignir á Suðurlandi sem Drífu fannst í fyrstu fáránleg hugmynd en hún er nú alsæl í litla bænum sem hefur tekið þeim opnum örmum.

„Ég segi örugglega tvisvar eða þrisvar í viku: Mamma trúir þú því að við búum hérna? Ég er alveg enn þá hérna,“ tjáir gagnasérfræðingurinn Drífa Pálín Geirs blaðamanni. Fyrir rúmu ári voru Drífa og sex ára dóttir hennar Svanhildur Pálín við það að missa tveggja herbergja leiguíbúðina sem þær bjuggu í en hún átti að fara á sölu. Greiðslubyrði Drífu var þar hátt í 200 þúsund á mánuði en leigan var 170 þúsund. Á sama tíma var móðir Drífu, Unnur Ósk Kristjónsdóttir, nýlega fráskilin og bjó í stofunni hjá þeim mæðgum. „Svo það stóð ljósast við að við myndum leita að einhverju saman, en þá hefðum við þurft að fara upp í leigu upp á 300 þúsund á mánuði sem er algjör sturlun,“ segir Drífa. „Svo fór Drífa í Twitter-saumaklúbb,“segir Unnur móðir hennar meðan hún grandskoðar rabarbaraböku sem Drífa bakaði eftir uppskrift móður sinnar með rabarbara úr garðinum.

Varð að flýja streituna í borginni

Drífa er í saumaklúbbi með konum sem kynntust á samfélagsmiðlinum Twitter. Í einum saumaklúbbnum stakk vinkona hennar upp á því að þær mæðgur myndu skoða hús á Eyrarbakka. „Ég var alveg: Hver býr á Eyrarbakka?“ segir Drífa og skellihlær. „Alveg þessi hroki. Svo kom ég heim og fannst þetta alveg fáránleg hugmynd og sagði þetta við Mömmu.“ Unni fannst þetta hins vegar ekki jafn fráleit hugmynd og dótturinni og náði að sannfæra Drífu um að kíkja í það minnsta á fasteignavefinn með sér. Nú er komið ár síðan þær mæðgur flúðu leigumarkaðinn í höfuðborginni yfir í kyrrð og öryggi smábæjarins og þær eru yfir sig ánægðar með ákvörðunina. Greiðslumatið flækti þó málin töluvert vegna veikinda sem Drífa hefur þurft að takast á við.

„Þetta var svolítið maus og vesen. Ég er með sjaldgæfan sjúkdóm í heiladingli svo ég þjáist oft af ofnæmi og veikindum og verð lengi veik. Ég þarf þá að passa mikið upp á streitu því ég framleiði ekki hormón sem vinna á móti streitunni. Ég var í stöðugu streituumhverfi og þar af leiðandi voru tekjurnar mínar ekki stöðugar og það var erfitt að fá greiðslumat,“ segir Drífa alvarleg en bætir svo við kát: „En það hafðist.“

 

Einangrun í margmenninu

Eftir flutningana gerðust þær mægður svo meðlimir í nær öllum mögulegum hópum á Eyrarbakka.Í öllu frá skógræktarfélagi þorpsins til kvenfélagsins hafa þær Drífa og Unnur látið til sín taka. Unnur fer líka á prjónakvöld einu sinni í viku með eldri borgurum bæjarins. „Það er ofsalega góður andi hérna og okkur hefur verið tekið svo vel. Ég hef aldrei átt öflugra félagslíf en síðan ég flutti hingað,“ segir Drífa. Það sé frekar að fólk einangrist á höfuðborgarsvæðinu.

„Þar er svo mikið af fólki og svo auðvelt að vera einn; að fara inn í sína íbúð og vera bara við sitt, hérna þarftu á nágrönnunum að halda varðandi vissa hluti og færð þessi tengsl, ef þú kærir þig um.“ Drífa verði sér lítið fyrir síðasta sumar og stóð fyrir kvennahlaupinu í þorpinu, þá nýflutt þangað.

„Þá vantaði einhvern og Drífa er náttúrulega svona „ég skal, já, ég er til“ og svo er hún komin með allt of mikið af verkefnum,“ segir Unnur sem þekkir greinilega sína konu vel. En er ekki erfitt fyrir fullorðnar mæðgur að eiga og reka heimili saman? „Þetta bara gengur upp, fólki sem þekkir okkur finnst þetta ekkert skrítið, við höfum alltaf náð vel saman og verið miklar vinkonur. Það kom fólki í rauninni ekkert á óvart að við skyldum enda í svona nábúð.“


Sérherbergi ef þolinmæðin þrýtur

Áður en þær mæðgur fjárfestu í íbúðinni höfðu þær búið saman í tvo mánuði þar sem Unnur svaf í stofunni. „Við hugsuðum eiginlega að ef við gætum það gætum við allt. Þolinmæðin var reyndar á þrotum þá en þetta hefur gengið alveg rosalega vel hérna, hér erum við líka með okkar eigin herbergi,“ segir Drífa kímin. Þær mæðgur eru með verkaskiptingu á heimilinu sem gengur bara ágætlega. Þar sér Unnur helst um þvottinn en garðurinn er að sögn Drífu hennar yfirráðasvæði.„Mamma sagði strax að hún ætlaði ekki nálægt þessum garði, en svo þegar hún er byrjuð þá er erfitt að ná henni inn. Hér tökum við þessu samt ekki svo alvarlega, við erum ekkert að stressa okkur á þessum hlutum.“ Drífa segir sambúðina þó ekki heldur vera svo ólíka því þegar þær ráku sitt heimilið hvor á höfuðborgarsvæðinu. En vegna veikinda Drífu hefur hún þurft töluverða aðstoð. Þetta sé í rauninni ekki svo ólíkt því.

Svanhildur litla græðir líka á því að búa með móður sinni og ömmu.Mæðgurnar eiga líka ýmis sameiginleg áhugamál.„Við erum handavinnuóðar, mæðgurnar, varstu búin að segja henni það?“ spyr Unnur dóttur sína og hlær. Í bjartri stofu heimilisins má því finna ótal heimaprjónuð teppi og hekluð sjöl ásamt aragrúa pottaplantna. „Við prjónum, heklum og saumum, ég á líka mynd sem hangir inni á Alþingi – svona andspyrnuútsaum,“segir Drífa sem gaf Andrési Inga, þingmanni Vinstri grænna, útsaumaða mynd þegar hann komst á þing fyrir rúmu ári.

 

Skólabíll og bréfaskriftir í bæinn

„Dóttir mín var búin að flytja fjórum sinnum,“ segir Drífa en dóttir hennar Svanhildur Pálín verður sjö ára síðar á þessu ári. Hún byrjaði í fyrsta bekk síðasta haust og er í litlum bekk með fjórtán börnum. Að sögn Drífu byrjuðu í fyrsta skipti í lengri tíma fleiri börn í skólanum í haust en hættu.

„Hún hefur aldrei átt sitt eigið herbergi og aldrei búið við þetta öryggi,“ segir Drífa sem telur Svanhildi hafa skynjað þá stöðugu streitu sem fylgir því að vera í ótryggu húsnæði á leigumarkaði. „Krakkar finna alltaf fyrir streitu og nú veit hún að við erum ekki að fara neitt. Þetta er alltaf punkturinn sem er heim. Það er gott fyrir krakka að fá þessa jarð-tengingu.“

Lífið á Eyrarbakka er að vissu leyti frábrugðið því sem gengur og gerist á höfuðborgarsvæðinu. Svanhildur tekur til að mynda skólabíl í skólann flesta daga vikunnar. Að sögn Drífu voru þetta svolítil viðbrigði fyrir erfingjann að flytja en þá skipti mestu
 

„Mér fannst smæðin á skólanum líka mjög heillandi,“ segir Drífa sem var farin að hafa töluverðar áhyggjur af þessum stöðugu flutningum þeirra mæðgna. „Þú vilt vera í skólahverfinu þínu og eignast vini en hvernig átt þú að geta gert það ef þú ert alltaf að flytja?“ Rétt fyrir klukkan tvö fer Unnur amma út á horn að sækja Svanhildi litlu sem kemur þá heim með skólabílnum. Inn kemur sú stutta eins og Stormsveipur. „Ég gleymdi húfunni og vettlingunum í rútunni,“ tjáir hún móður sinni áköf. Svanhildur heldur þó enn sambandi við vinina í Hafnarfirði og fer þangað aðra hverja helgi til pabba síns. Hún skrifar líka vinunum í borginni reglulega sendibréf og heldur þannig í vinahópinn.
 


Unnur Ósk Kristjónsdóttir, Drífa Pálín Geirs og Svanhildur Pálín eru glaðar

í bragði enda í öruggu húsaskjóli á vinalegum stað eftir barning á leigumarkaði

á höfuðborgarsvæðinu.

 

Fréttablaðið laugardaginn 27. janúar 2018.


Skráð af Menningar-Staður