Menningar-Staður
Félagsheimilið Staður á Eyrarbakka

20.07.2016 10:28

Þórir Atli Guðmundsson - Fæddur 20. október 1933 - Dáinn 9. júlí 2016 - Minning

 

 
Þórir Atli Guðmundsson.

 

Þórir Atli Guðmundsson

- Fæddur 20. október 1933 - Dáinn 9. júlí 2016 - Minning

 

Þórir Atli Guðmundsson fæddist 20. október 1933 í Reykjavík. Hann lést 9. júlí 2016.

 

Foreldrar hans voru Guðmundur Pétursson símritari, f. 10. september 1904 á Eyrarbakka, d. 29. febrúar 1972, og Ingibjörg Jónasdóttir húsmóðir, f. 27. ágúst 1906 í Reykjavík, d. 14. júní 1980.

Systkini Atla voru:

1) Pétur, fyrrverandi flugvallarstjóri á Keflavíkurflugvelli, f. 2. september 1928, d. 23. september 2014.

2) Jónas, stýrimaður, rithöfundur og listmálari, f. 15. október 1930, d. 9. júní 1985.

3) Gústav Axel matreiðslumeistari, f. 15. september 1937, d. 12. nóvember 2007.

4) Sigríður Guðmundsdóttir McLean, f. 6. ágúst 1943,

og 5) Steindór verkfræðingur, f. 8. júní 1947, d. 15. febrúar 2000.

 

Atli kvæntist 26. apríl 1974 Ólafíu Sólveigu Jónatansdóttur, síðar meðal annars fulltrúi á Fræðsluskrifstofu Suðurlands, f. 29. mars 1940 á Bíldudal, d. 11. júlí 2013. Foreldrar hennar voru Jónatan Kr. Jóhannesson, húsasmíðameistari í Reykjavík, f. 27. mars 1897 í Sigluvík í Svalbarðsstrandarhr., S-Þing., d. 16. desember 1971, og Petrónella Bentsdóttir, húsfreyja í Reykjavík, f. 28. september 1903 á Geirseyri við Patreksfjörð, d. 11. júlí 1986.

Atli gekk fjórum börnum Ólafíu í föðurstað.

Þau eru:

1) Aðalsteinn Brynjólfsson, vélstjóri í Þorlákshöfn, f. 6. október 1958, kvæntur Ágústu Sigurðardóttur húsfreyju, f. 16. júní 1961, eiga þau þrjár dætur og sex barnabörn.

2) Anna Día Brynjólfsdóttir, hjúkrunarfræðingur í Reykjavík, f. 9. maí 1960, gift Gísla Sæmundssyni arkitekt, f. 29. júní 1956, eiga þau tvo syni.

3) Agnar Bent Brynjólfsson, verslunarmaður á Selfossi, f. 24. mars 1962, kvæntur Kolbrúnu Markúsdóttur blómaskreyti, f. 13. september 1966, þau eiga þrjú börn og eitt barnabarn.

4) Sævar Óli Helgason, f. 19. febrúar 1971.

 

Skömmu eftir að Atli og Olla hófu búskap fluttu þau að Úthaga 16 á Selfossi og bjuggu þar allt þar til þau keyptu Akur á Eyrarbakka sem þau gerðu upp og fluttu í árið 2000. Atli fór ungur til sjós og var á bátum, togurum og varðskipum sem háseti og netamaður, uns hann fór í Stýrimannaskólann og lauk þar fiskimannaprófi vorið 1961. Eftir það var hann stýrimaður og síðar skipstjóri á bátum og togurum fram til þess að hann kom í land um 1980. Þá starfaði hann um skeið sem flokksstjóri við byggingu Hrauneyjafossvirkjunar. Atli starfaði síðar fyrir Kaupfélag Árnesinga sem bifreiðarstjóri, verslunarstjóri og síðast sem stöðvarstjóri bensínstöðvar KÁ á Selfossi. Atli var mikill áhugamaður um laxveiði.
 

Þórir Atli verður jarðsunginn frá Eyrarbakkakirkju í dag, 20. júlí 2016, klukkan 14.

___________________________________________________________________________________

Minningarorð Gísla Sæmundssonar

 

Tryggur, hjálpfús, réttsýnn eru nokkur þeirra hugtaka sem koma upp þegar ég hugsa til Atla eins og hann jafnan var kallaður. Ekki var langur tími liðinn frá því að ég hafði kynnst Önnu Díu, konu minni í Noregi og fósturdóttur hans, þar til ég fór með pakka frá henni til Atla og Ollu móður hennar sem þá voru til húsa á Laugarvatni þar sem þau ráku verslun. Þarna kom til dyra hlýlegur en stór og mikill maður sem ég átti eftir að kynnast betur og það af öllu góðu. Þessi stóri maður hafði hlýtt hjarta, samkennd og góða nærveru. Hann mátti ekkert aumt sjá, en þá var hann boðinn og búinn til að hjálpa. Ávallt var stutt í glettni hjá Atla og oftar en ekki kvaddi hann með sínum milda glettnislega hlátri.

Það var gaman að veiða með þeim gamla en lax- og silungsveiði var hans uppáhaldstómstund og fórum við synir mínir ekki varhluta af tilsögn hans á því sviði. Hann kastaði „flugunni“ af mikilli list og sást það best þar sem við veiddum saman á bændadögum í Haukadalsá í Dölum. Barnabörnin fengu sinn skerf óskertan frá Atla afa sem fylgdist vel með þeim og kenndi mörgum þeirra grunnatriði í silungsveiðinni. Hann studdi þau eftir fremsta megni og þannig að allir fengu jafnt.

Áhugi hans á „boltanum“ var ósvikinn, ekki minnst á enska boltanum og oftar en ekki hringdi hann til okkar í hálfleik þar sem hann tjáði sig óspart um gang leiksins, dómarann og leikmenn. Hann fylgdist vel með þjóðmálum og lá þar ekki á skoðunum sínum. Ég dáðist að hversu góð tök hann hafði á nútímamiðlum og tækni en þetta virtist leika í höndunum á honum.

Kæri Atli; þú fékkst að kveðja þennan heim á þann hátt sem þú væntanlega helst kaust sjálfur, við laxveiðar í Ölfusá og nánast með veiðistöng í hendi.

Fráfall þitt markar djúpt skarð í fjölskyldu okkar og verður þín sárt saknað.

Þakka þér samveruna.

Kveðja,

Gísli Sæmundsson.

Morgunblaðið miðvikudagurinn 20. júlí 2016.

 Atli Guðmundsson
er/var einna af  -Vinum alþýðunnar-  sem hittast reglulega að Stað á Eyrarbakka.

.

.

.

 

 

Skráð af Menningar-Staður

 

 

20.07.2016 09:51

20. júlí - Þorláksmessa að sumri

 

 

 

 

 

20. júlí - Þorláksmessa að sumri

 

Þorláksmessa á sumri er 20. júlí.  Verndardýrlingur Íslendinga er Þorlákur helgi. 

Sumarið 1198 var helgi Þorláks Þórhallssonar samþykkt á Alþingi og bein hans tekin upp og skrínlögð 20. júlí. 

Þorláksmessa á vetur er 23. desember, á dánardegi hans. 

Þorláksmessa á sumar var til siðaskipta einn helsti hátíðisdagur sunnanlands  og þá var haldin mikil samkoma í Skálholti.


Síðustu ár eru einnig til dæmi um skötuveislur þennan dag.


Skráð af Menningar-Staður

18.07.2016 06:48

Atli Guðmundsson látinn

 Atli Guðmundsson látinn


Verður jarðsunginn frá Eyrarbakkakirkju miðvikudaginn 20. júlí kl. 14
 

 

 

Skráð af Menningar-Staður

16.07.2016 07:07

Merkir Íslendingar - Hafliði Magnússon


 

 

Hafliði Magnússon á Hrafnseyri við Arnarfjörð árið 2009. Ljósm.: BIB

 

 


Merkir Íslendingar - Hafliði Magnússon

 

Hafliði Þórður Magnússon, listamaður frá Bíldudal, var fæddur þann 16. júlí 1935 og í dag eru því 81 ár frá fæðingun hans. Hafliði lést þann 25. júní 2011  á heimili sínu á Selfossi.
 

Hafliði var fæddur í Hergilsey á Breiðafirði. Hann fluttist þaðan 6 ára í Arnarfjörð þar sem fjölskyldan bjó á ýmsum stöðum en lengst af bjó hann á Bíldudal. Hann bjó einnig um tíma í Reykjavík.
 

Hafliði starfaði m.a. sem sjómaður og þá mest á síðutogurum, við fiskvinnslu og einnig kenndi hann sjóvinnu. Þá vann hann við uppbyggingu Mjólkárvirkjunar og endurgerð fæðingarbæjar Jóns Sigurðssonar á Hrafnseyri við Arnarfjörð.
 

Frá árinu 1998 bjó Hafliði síðan á Selfossi ásamt sambýliskonu sinni Evu Þórarinsdóttur frá Suðureyri við Súgandafjörð. Á Selfossi vann hann ýmis störf, síðast hjá SG við trésmíðar þar sem hann lauk hefðbundinni starfsævi árið 2002.
 

En Hafliði Magnússon var fyrst og fremst rithöfundur, ljóðskáld, söngleikjahöfundur og málari. Þá lagði hann mikla rækt við sagnaþætti af ýmsum toga og flest í því tengdist Bíldudal og Arnarfirði. Hann var svo sannarlega margþættur listamaður og þeim störfum helgaði hann sig alfarið eftir að hann hætti störfum hjá SG. 

 

 

Hafliði Magnússon við Dynjanda. Ljósm.: BIB
Skráð af Menningar-Staður

 

15.07.2016 07:10

Enn bætast við öflugir bakhjarlar við Safetravel verkefnið

 


Á myndinni má sjá þá Þóri Garðarson og Sigurdór Sigurðsson

handsala samninginn við Jón Svanberg Hjartarson frá Slysavarnafélaginu Landsbjörg

 

Enn bætast við öflugir bakhjarlar við Safetravel verkefnið

 

Ferðaþjónustufyrirtækið Gray Line Iceland hefur samið við Slysavarnafélagið Landsbjörgu um að styrkja Safetravel verkefnið um samtals 5 milljónir króna á næstu fimm árum.

Markmið Safetravel er að halda úti öflugum slysavörnum fyrir innlenda sem erlenda ferðamenn. Safetravel er samvinnuverkefni Slysavarnafélagsins Landsbjargar, ferðaþjónustunnar, ýmissa fyrirtækja og stofnana og hins opinbera. Með stuðningi sínum er Gray Line orðið einn af helstu stuðningsaðilum verkefnisins.

Meðal aðgerða til að auka öryggi ferðamanna heldur Safetravel úti vefnum hálendisvakt björgunarsveita, www.safetravel.is. Ennfremur eru upplýsingar fyrir ferðamenn um færð og veður að finna á  um 70 skjám víða um land.
Stuðningur aðila á borð við Gray Line skiptir sköpum við að halda út verkefni eins og Safetravel.

 

Á myndinni má sjá þá Þóri Garðarson og Sigurdór Sigurðsson handsala samninginn við Jón Svanberg Hjartarson frá Slysavarnafélaginu Landsbjörg.


Slysavarnafélagið Landsbjörg greinir frá.Skráð af Menningar-Staður

14.07.2016 09:37

Alþýðuhúsið á Eyrarbakka 14. júlí 2016

 

 

 

Alþýðuhúsið á Eyrarbakka 14. júlí 2016

 
Skráð af Menningar-Staður

14.07.2016 07:33

Forstöðumenn ríkisstofnana fá allt að 48 % hækkun launa

 


Hækkanirnar nú koma til eftir að forstöðumennirnir sjálfir

eða ráðuneyti óskuðu eftir að launin yrðu hækkuð.

 

Forstöðumenn ríkisstofnana fá allt að 48 % hækkun launa

 

Laun forstöðumanna nokkurra ríkisstofnana hækka um tugi prósenta eftir nýja úrskurði kjararáðs. Hækkanirnar ná allt aftur til 1. desember 2014 og koma ofan á 7,15 prósenta almenna launahækkun sem tók gildi 1. júní.

Mest hækka laun Hjartar Braga Sverrissonar, formanns kærunefndar útlendingamála eða um 48 prósent að meðtalinni hinni  almennu launahækkun. Laun Hjartar hækka einnig afturvirkt frá 1. desember 2014, þegar nefndin tók til starfa. 

Aðrar launahækkanir eru einnig afturvirkar, ýmist frá árinu 2015 eða ársbyrjun 2016.

Laun Kristínar Völundardóttur, forstjóra Útlendingastofnunar, hækka um 29 prósent. Fara úr 1.042 þúsund krónum á mánuði í 1.340 þúsund krónur frá 1. júlí.

Í úrskurði kjararáðs er vitnað í bréf Kristínar til kjararáðs. Þar segir að álag á Útlendingastofnun hafi vaxið gífurlega samhliða fjölgun hælisleitenda og nýjum verkefnum. Áreiti fjölmiðla sé mikið, bæði á kvöldin og um helgar. Starf forstjóra sé því erfitt og mjög íþyngjandi. Fór Kristín því fram á að fá hærri laun.

Hækkanirnar nú koma til eftir að forstöðumennirnir sjálfir eða ráðuneyti óskuðu eftir að launin yrðu hækkuð.

Laun Birgis Jakobsson landlæknis hækka í 1,6 milljónir á mánuði. Mánaðarlaun Haraldar Johannessen ríkislögreglustjóra verða sömuleiðis 1,6 milljón.

Laun Páls Winkel, forstjóra Fangelsismálastofnunar, hækkuðu um 35 prósent, úr 989 þúsund krónum í 1.340 þúsund krónur á mánuði.

Laun Braga Guðbrandssonar, forstjóra Barnaverndarstofu verða jöfn launum Páls, 1,3 milljónir á mánuði. 

 

Fréttablaðið 13. júlí 2016Skráð af Menningar-Staður

12.07.2016 09:56

Alþýðuhúsið á Eyrarbakka 12. júlí 2016

 

 

 

Alþýðuhúsið á Eyrarbakka 12. júlí 2016

 

 


Skráð af Menningar-Staður

10.07.2016 14:34

SKÖTUMESSAN 2006-2016 - 10 ára afmælisfagnaður

 

 

 

SKÖTUMESSAN 2006-2016 - 10 ára afmælisfagnaður

VERÐUR HALDIN Í MIÐGARÐI GERÐASKÓLA Í GARÐI
miðvikudaginn 20. júlí 2016, borðhald hefst kl. 19.00


Skemmtidagskrá hefst kl. 19.30, að henni lokinni verða styrkir afhentir.


Glæsilegt hlaðborð; skata, saltfiskur, plokkfiskur og meðlæti.


Að venju er fjölbreytt skemmtidagskrá; 


• Dói og Baldvin, harmonikkuleikur. 
• Páll Rúnar Pálsson
• Davíð Már Guðmundsson
• Andri Páll Guðmundsson
• Björn Ingi Bjarnason forseti Hrútavina, ræðumaður kvöldsins.
• Styrkir afhentir
• Hljómsveit Rúnars Þórs.


Verð 4,000- kr.


Greiðið inn á reikning Skötumessunnar; 0142-05-70506, kt. 580711-0650
Vinsamlegast prentið út innleggsnótuna og sýnið við innganginn. 

 

Helstu stuðningsaðilar Skötumessunnar eru;
Fiskmarkaður Suðurnesja, Skólamatur ehf, H.Pétursson ehf, Kristjánsbakarí, Sv. Garður og fl.
Skötumessan er áhugafélag um velferð fatlaðra.


Skötumessustjóri er Ásmundur Friðriksson, alþingismaður.


Skráð af Menningar-Staður

09.07.2016 08:30

Fjölbreytt dagskrá á Hvanneyrarhátíð í dag - 9. júlí 2016

 

 

 

Fjölbreytt dagskrá á Hvanneyrarhátíð í dag - 9. júlí 2016

 

Hvanneyrarhátíðin 2016 fer fram í dag, 9.  júlí 2016  frá kl 13 til 17. 

Þennan dag taka heimamenn vel á móti gestum og gangandi með fjölbreyttri dagskrá fyrir alla fjölskylduna. Upphaf hátíðarinnar má rekja til Safnadagsins sem Landbúnaðarsafn Íslands tók þátt í, og bauð þá velunnurum sem og gömlum nemendum að koma á Hvanneyri og kíkja á safnið, sér að kostnaðarlausu og hitta gamla félaga og vini. Nú hefur Safnadagurinn verði færður fram í maí og Hvanneyrarhátíðin stendur nú sem sér viðburður sem hefur vaxið fiskur um hrygg undan farin ár og fjöldi gesta margfaldast á milli ára.

 

Meðal dagskráliða í ár eru heyvagnaakstur, opið fjós, pönnukökubaksturskeppni, leiðsögn verður um Yndisgarða á Hvanneyri, markaður í íþróttahúsinu, danshópurinn Sporið tekur sporið, húsdýr með ungviði verða á staðnum og andlitsmálun og ýmsir leikir verða í boði fyrir börnin.
 

Tenging fyrrum nemenda Bændaskólans við Hvanneyri er sterk og hjá mörgum er það orðinn fastur liður að sækja Hvanneyrarhátíðina heim þar sem gamlir og góðir tímar eru rifjaðir upp. Sett verður upp sýning á gömlu skólaspjöldum Bændaskólans í skólastofum Gamla skóla ásamt myndum frá skólasögu Hvanneyrar sem á sér nærri 130 ára sögu.
 

Frír aðgangur verður að Landbúnaðarsafni Íslands og ætla konurnar sem standa að Ullarselinu að sýna listir sínar á tröppum safnsins.

Einn af vinsælustu viðburðunum er innkoma Fornbílafjelags Borgarfjarðar sem stilla bifeiðum sínum upp ungnum sem öldnum til gamans. Þá verður gamli Andakílsskóli opinn ef fólk vill kynna sér starfsemina sem þar fer fram.

 

Erfðalindasetur Íslands verður með upplýsingar um íslensku húsdýrin og leggur til geitamjólk frá Háafelli sem notuð verður í sérlagað geitalatté sem selt verður í kaffihúsinu Skemmunni. 

Þá mun Bjarni Guðmundsson, forstöðumaður Landbúnaðarsafnsins, lesa upp úr nýrri bók sinni,  Konur breyttu búháttum – saga Mjólkurskólans á Hvanneyri og á Hvítárvöllum, og ætlar Rjómabúið á Erpsstöðum að taka þátt í hátíðinni í ár með kynningu og sölu á vörum sínum.

 

Formleg dagskrá hefst kl 13:00 og lýkur henni kl 17:00. 

Allar nánari upplýsingar um hátíðina og dagskrá má finna á Facebook síðu hátíðarinnar. 


 

 
Skráð af Menningar-Staður