Menningar-Staður
Félagsheimilið Staður á Eyrarbakka

09.07.2016 08:23

186 ÞÚSUND FERÐAMENN Í JÚNÍ 2016

 

 

 

186 ÞÚSUND FERÐAMENN Í JÚNÍ 2016

 

 

Ferðamenn í júní 2016

Um 186 þúsund erlendir ferðamenn fóru frá landinu í júní síðastliðnum samkvæmt talningum Ferðamálastofu í Flugstöð Leifs Eiríkssonar eða nærri 50 þúsund fleiri en í júní í fyrra. Þá hafa brottfarir Íslendinga aldrei mælst jafn margar í einum mánuði.

Erlendum ferðamönnum heldur því áfram að fjölga á milli ára. Aukningin nemur 36,8% á milli ára í júní og frá áramótum nemur hún 35,8%. Nú hafa tæplega 700 þúsund erlendir ferðamenn komið frá áramótum, 183 þúsund fleiri en á sama tíma í fyrra.

Fjölmennustu þjóðerninFjórar þjóðir áberandi

Rúmur helmingur ferðamanna í nýliðnum júní voru af fjórum þjóðernum. Bandaríkjamenn voru langfjölmennastir eða tæp 30% af heildarfjölda. Næstir komu Þjóðverjar (9,3%), þar á eftir fylgdu Bretar (8,7% og Kanadamenn (7,0%).

Af einstaka þjóðernum fjölgaði Bandaríkjamönnum, Kanadamönnum, Bretum, Þjóðverjum, Svíum og Frökkum mest á milli ára. Þessar sex þjóðir báru uppi aukninguna í júní að miklu leyti. Af þeim var hlutfallsleg fjölgun mest frá Kanada en ferðamannafjöldinn þaðan ríflega tvöfaldaðist í júní. 

 


Mikil fjölgun N-Ameríkana frá 2010

Ferðamenn eftir markaðssvæðum

Þegar litið er til fjölda ferðamanna í nýliðnum júní má sjá verulega fjölgun frá árinu 2010. Mest áberandi er fjölgun Bandaríkjamanna, úr 9 rúmlega í 69 þúsund. Þá hefur Mið- og Suður-Evrópubúum fjölgað úr um 17 þúsund í 40 þúsund á sama tíma. Fjöldi Breta hefur nærri þrefaldast. Heldur minni aukning hefur verið frá Norðurlöndunum en þó tæp 50%.

Hlutfall N-Ameríkana hækkar en Norðurlandabúa lækkar

Samsetning ferðamanan eftir markaðssvæðum

Samsetning ferðamanna eftir markaðssvæðum hefur breyst töluvert frá árinu 2010 eins og sjá má af myndinni hér til hliðar. Í júní síðastliðnum voru Norðurlandabúar um 10,5% ferðamanna en hlutfall þeirra af heild hefur lækkað verulega síðustu ár, hefur farið úr 24% ferðamanna árið 2010. Hlutdeild N-Ameríkana hefur hins vegar farið vaxandi, var 17,2% af heild árið 2010 en var komin í 36,8% í ár. Hlutdeild annarra markaðssvæða hefur verið á líku róli á tímabilinu 2010 til 2016.

Ferðir Íslendinga utan

Um 67 þúsund Íslendingar fóru utan í júní síðastliðnum eða 19.300 fleiri en árið 2015. Um er að ræða 40,4% fleiri brottfarir en í júní 2015. Hafa brottfarir Íslendinga aldrei mælst fleiri í einum mánuði frá því að talningar Ferðamálastofu hófust en fyrra met var 54.800 í júní árið 2007. Ekki er ólíklegt að Evrópumótið í knattspyrnu hafi hér talsverð áhrif en í því sambandi vert er að slá þann varnagla að hugsanlega er óvenju algengt að um fleiri en eina brottför hjá sama einstaklingi sé að ræða. Slíkt er þó ekki hægt að segja fyrir um með neinni vissu.

Nánari upplýsingar

Talningar Ferðamálastofu ná yfir allar brottfarir frá landinu um Leifsstöð. Skiptingu milli landa má sjá í töflunni hér að neðan og nánari upplýsingar undir liðnum Tölur og útgáfur / Fjöldi ferðamanna hér á vefnum. Sá fyrirvari er á birtingu talanna nú að vegna sumarleyfa hefur ekki náðst að yfirfara þær með hliðsjón af farþegatölum Isavia, líkt og venja er.

 

 

Frá Ferðamálastofu.


Skráð af Menningar-Staður

 

08.07.2016 21:30

Höfðingjar og glæsimenn fylktu liði á Njáluslóð

 

Guðni Ágústsson á Þingvöllum í gærkveldi.             Ljósm.: Morgunblaðið/Eggert.Höfðingjar og glæsimenn fylktu liði á NjáluslóðÞjóðgarðurinn á Þingvöllum hefur undanfarin sumur haldið fimmtudagsgöngur um garðinn.

Gangan í gær var sú fjölmennasta frá upphafi og komu 350 manns saman.

Guðni Ágústsson, fyrrv. landbúnaðarráðherra, ávarpaði göngumenn og talaði eins og samtímamaður Skarphéðins og Njáls um atburði Brennu-Njáls sögu.
Með honum var Jörmundur Ingi Hansen, fyrrum allsherjargoði, ásamt skoskum, enskum og íslenskum víkingum. 


Morgunblaðið föstudagurinn 8. júlí 2016.

 

Skráð af Menningar-Staður

07.07.2016 21:33

Merkir Íslendingar - Benedikt Gröndal

 

 

Benedikt Gröndal.

 

Merkir Íslendingar - Benedikt Gröndal

Benedikt fæddist á Hvilft í Önundarfirði 7. júlí 1924. Foreldrar hans voru Sigurður Gröndal, rithöfundur, yfirkennari í Reykjavík og hótelsjóri að Valhöll á Þingvöllum og k.h., Mikkelína María Sveinsdóttir húsfreyja.

Sigurður var sonur Benedikts Gröndal, skálds og skólastjóra, af Presta-Högna ætt, og Sigurlaugar Guðmundsdóttur, en Mikkelína María var dóttir Sveins Árnasonar, bónda í Hvilft í Önundarfirði, og Rannveigar Hálfdánardóttur, systur Örnólfs í Skálavík, afa Haraldar J. Hamar ritstjóra.
 

Meðal sex systkina Benedikts má nefna Halldór Gröndal sóknarprest og Gylfa Gröndal rithöfund.
 

Kona Benedikts var Heidi Jaeger Gröndal húsfreyja sem lést 2012 og eignuðust þau þrjá syni, Jón, Tómas og Einar.

Benedikt lauk stúdentsprófi frá MR 1943, BA-prófi í sagnfræði frá Harvard-háskóla 1946 en með námi og að því loknu var hann blaðamaður á Alþýðublaðinu, síðan ritstjóri Samvinnunnar 1951-58 og ritstjóri Alþýðublaðsins 1959-69.
 

Benedikt var landskjörinn þingmaður Borgfirðinga fyrir Alþýðuflokkinn 1956-59, þingmaður Vesturlands 1959-78 og þingmaður Reykvíkinga 1978-82. Hann var formaður Alþýðuflokksins 1974-80 og forsætisráðherra minnhlutastjórnar Alþýðuflokksins 1979-80.
 

Benedikt var formaður Útvarpsráðs 1957-71, fulltrúi á allsherjarþingum og hafréttarráðstefnu SÞ, var formaður undirbúningsnefndar íslensks sjónvarps, sat í stjórn Seðlabanka Íslands, stjórn Framkvæmdastofnunar og Nýbýlastjórnar, í stjórn þingmannasambands NATO og sat í fjölda nefnda um endurskoðun hinna ýmsu laga. Þegar hann lét af þingmennsku 1982 var hann skipaður sendiherra í Svíþjóð og starfaði hjá utanríkisþjónustunni til 1991.
 

Benedikt sendi frá sér nokkrar bækur um stjórnmál, utanríkismál og sagnfræði.
 

Benedikt lést 20. júlí 2010.Morgunblaðið 7. júlí 2016 - merkir Íslendingar


Skráð af Menningar-Staður

 

07.07.2016 12:49

Gengið í félagi við Skarphéðin

 

Mynd úr gagnasafni Morgunblaðsins

Guðni Ágústsson.

 

Gengið í félagi við Skarphéðin

 

• Kvöldganga á Þingvöllum öllum opin

Guðni Ágústsson, fyrrverandi landbúnaðarráðherra, mun tala um hetjuna Skarphéðin Njálsson í kvöldgöngu á Þingvöllum í kvöld, fimmtudaginn 7. júlí 2016.

Gangan hefst uppi á Hakinu klukkan 20.00 og henni lýkur við Þingvallakirkju.

 

„Skarphéðinn sat mörg þing á Þingvöllum með hinum vitra föður sínum Njáli,“ sagði Guðni. „Ég ætla að segja frá hetjunni Skarphéðni sem á alveg gríðarlegt fylgi hér á Suðurlandi. Menn nefndu stærstu æskulýðshreyfinguna hér, Héraðssambandið Skarphéðinn, í höfuðið á hetjunni. Nafn hans er uppi enn og margar sögur til af honum.“

Guðni kvaðst ætla að lýsa persónu Skarphéðins, einkennum hans og ýmsum atvikum sem áttu sér stað á Þingvöllum. Ekki síst þegar deilurnar stóru voru á milli þeirra Bergþórshvolsmanna og Flosa Þórðarsonar á Svínafelli út af Höskuldi Hvítanessgoða. Á endanum brenndi Flosi Bergþórshvolsmenn inni.

Karlakór Kjalnesinga mun syngja Öxar við ána við upphaf göngunnar, Álfu vorrar yngsta land á Lögbergi og Skarphéðinn í brennunni eftir Hannes Hafstein í göngulok við gafl Þingvallakirkju. Ásatrúarmenn í fullum skrúða og víkingar munu fara fyrir göngunni. „Hver veit nema einhver þeirra beri Rimmugýgi (öxi Skarphéðins),“ sagði Guðni.

Allir eru velkomnir í kvöldgönguna á Þingvöllum

Morgunblaðið.


Skráð af Menningar-Staður

06.07.2016 22:38

Trésmiðafélag Reykjavíkur í heimsókn á Eyrarbakka

 

 

 

Trésmiðafélag Reykjavíkur í heimsókn á Eyrarbakka

 

Stór hópur eldri félagar í Trésmiðafélagi Reykjavíkur komu á Eyrarbakka í morgun á ferð sinni um Suðurland.

Fararstjóri var Guðni Ágústsson og meðal þátttakenda voru Eyrbekkingarnir; Ingi Guðmundsson, Sigurður Emil Ólafsson og Bjarnfinnur Hjaltason.

Hópurinn kom fyrst í Félagsheimilið Stað þar sem tekið var á móti gestunum með kaffi og léttu spjalli.
Staðarins menn þar voru; Rúnar Eiríksson, Jóhann Jóhannsson, Haukur Jónsson og Björn Ingi Bjarnason.

Síðan var farið upp á útsýnispallinn við Stað og um Eyrarbakkaþorp. M.a. var komið við í Laugabúð hjá Magnúsi Karel Hannessyni.

Menningar-Staður færði til myndar.
Myndaalbúm er komið hér á Menningar-Stað.
Smella á þessa slóð: http://menningarstadur.123.is/photoalbums/279325/Nokkrar myndir:

 

.

.

.

.

.

.

.

.
Skráð af Menningar-Staður
 
 

06.07.2016 19:53

Jón Daði er "kominn heim"

 

image

Stór mynd af Jóni Daða prýðir norðurenda stúkunnar á JÁVERK-vellinum.

Ljósm.: sunnlenska.is/Jóhanna SH
 

 

Jón Daði er „kominn heim“

 

Selfyssingurinn Jón Daði Böðvarsson átti frábært mót í Frakklandi með íslenska landsliðinu í knattspyrnu. Landsliðið er komið heim, og það sem meira er, risastór mynd af Jóni Daða í landsliðsbúningnum prýðir nú stúkuna á JÁVERK-vellinum á Selfossi.

Myndin er hluti af styrktarsamningi knattspyrnudeildarinnar og Vífilfells en minnir um leið unga iðkendur á að leyfa sér að dreyma stóra drauma. Með miklum aga og aukaæfingum fór Jón Daði í gegnum yngri flokkana á Selfossi, upp í meistaraflokk og þaðan út í atvinnumennsku. Eftirleikinn þekkja nú allir en Jón Daði var ein af hetjum íslenska liðsins á Evrópumeistaramótinu í Frakklandi.

„Það var æðislegt. Þetta hefur verið þvílíkt ferðalag að spila fyrir framan svona marga Íslendinga sem syngja og tralla. Þetta var tilfinningaþrungið í lokin. Þegar maður horfir til baka þá er stutt síðan maður var að spila á Selfossi. Maður er núna að byrja sem framherji með íslenska landsliðinu á Evrópumótinu og búinn skora mark. Það er gaman að upplifa svona," sagði Jón Daði í viðtali við fjölmiðla eftir að þátttöku Íslands lauk.

Myndin á norðurenda stúkunnar hefur vakið mikla athygli, en gangandi og hjólandi vegfarendur hafa margir gert sér leið í gegnum vallarsvæðið til þess eins að skoða hana.

Af www.sunnlenska .is

 


Stór mynd af Jóni Daða prýðir norðurenda stúkunnar á JÁVERK-vellinum.
Ljósm.: sunnlenska.is/Jóhanna SHSkráð af Menningar-Staður

06.07.2016 08:04

6. júlí 2016 - Birna Gylfadóttir er 30 ára

 

 

Birna Gylfadóttir.

 

6. júlí 2016 - Birna Gylfadóttir er 30 ára

 

Birna ólst upp á Stokkseyri, býr á Eyrarbakka og starfar við dvalarheimilið Sólvelli á Eyrarbakka.

Maki: Ívar Björgvinsson, f. 1987, starfsmaður á Vélaverkstæði Þóris.

Synir: Hlynur Fannar, f. 2005; Daníel Örn, f. 2010, og Ívan Gauti, f. 2012.

Foreldrar: Dagbjört Gísladóttir frá Eyrarbakka, f. 1950, og Gylfi Jónsson frá Stokkseyri, f. 1950. Þau búa á Stokkseyri.


Morgunblaðið miðvikudagurinn 6. júlí 2016Skráð af Menningar-Staður

06.07.2016 07:39

Merkir Íslendingar - Jens Sigurðsson

 

 

Jens Sigurðsson frá Hrafnseyri við Arnarfjörð.

 

Merkir Íslendingar - Jens Sigurðsson
 

Jens fæddist á Hrafnseyri við Arnarfjörð 6. júlí  1813. Foreldrar hans voru Sigurður Jónsson, prestur á Hrafnseyri, og k.h., Þórdís Jónsdóttir húsfreyja.

Foreldrar Sigurðar voru Jón Sigurðsson, prestur á Hrafnseyri, og Ingibjörg Ólafsdóttir, lögsagnara á Eyri og ættföður Eyrarættar Jónssonar. Foreldrar Þórdísar voru Jón Ásgeirsson, prestur í Holti í Önundarfirði, og Þorkatla Magnúsdóttir.
 

Bróðir Jens var Jón Sigurðsson forseti, alþingismaður og skjalavörður. Systir Jens var Margrét, húsfreyja í Steinanesi, móðir Sigurðar Jónssonar, alþingismanns og sýslumanns.
 

Eiginkona Jens var Ólöf, dóttir Björns Gunnlaugssonar, stjörnufræðings og yfirkennara, og Ragnheiðar Bjarnadóttur og eignuðust þau níu börn. Meðal þeirra voru Sigurður Jensson, prestur og alþingismaður í Flatey; Jón Jensson, dómstjóri og alþingismaður, faðir Bergs Jónssonar alþingismanns, Björn Jensson, tengdafaðir Péturs Halldórssonar, borgarstjóra og alþingismanns, og Þórdís Jensdóttir, tengdamóðir Sigurjóns Jónssonar alþingismanns.
 

Jens lauk stúdentsprófi á Bessastöðum 1837 og embættisprófi í guðfræði frá Hafnarháskóla 1845.
 

Jens var barnakennari á Eyrarbakka veturinn 1845-46, kennari við Lærða skólann í Reykjavík 1846-69 og rektor Lærða skólans frá 1869 og til æviloka. Hann var auk þess ritstjóri „Tíðinda frá þjóðfundi Íslendinga“ sem haldinn var á Alþingi, í Lærða skólanum (á sal MR) árið 1851.
 

Jens var reyndar sjálfur þjóðfundarmaður fyrir Gullbringu- og Kjósarsýslu á þessum fræga þjóðfundi, árið 1851, þegar Jón, bróðir hans, mælti hin frægu orð er Trampe greifi sleit fundinum: „Og ég mótmæli í nafni konungs og þjóðarinnar þessari aðferð, og ég áskil þinginu rétt til þess að klaga til konungs vors yfir lögleysu þeirri, sem hér er höfð í frammi.“
 

Jens lést 2. nóvember 1872.

 

Morgunblaðið 6. júlí 2016 - Merkir Íslendingar

 

.
Hrafnseyri við Arnarfjörð.                                                            Ljósm.: Björn Ingi Bjarnason.
,

 

Hrafnseyri við Arnarfjörð.                                                              Ljósm.: Björn Ingi Bjarnason.


Skráð af Menningar-Staður

 

05.07.2016 06:44

Bryggjuhátíðinni aflýst - söfnunarreikningur stofnaður

 

Stokkseyri. Ljósmynd / Mats Wibe Lund

 

Bryggjuhátíðinni aflýst - söfnunarreikningur stofnaður

 

Af virðingu við aðstandendur og minningu Hjalta Jakobs Ingasonar, sem lést í bruna á Stokkseyri síðastliðinn föstudag, hefur verið tekin ákvörðun um að aflýsa Bryggjuhátíð 2016, sem stóð til að halda á Stokkseyri um næstu helgi.

 

„Orð eru máttvana og fá ekki lýst þeirri sorg og þeim söknuði sem hvílir á foreldrum, systkinum og aðstandendum Hjalta Jakobs. Við vottum foreldrum, systkinum og aðstandendum Hjalta Jakobs okkar dýpstu samúð og hluttekningu. Megi allt hið góða styrkja ykkur í sorginni og megi hlý minningin um ungan, fallegan, ljóshærðan dreng vaka í huga ykkar og hjörtum um ókomna framtíð,“ segir í tilkynningu frá hátíðarhöldurum.

 

Stofnaður hefur verið reikningur til styrktar fjölskyldu Hjalta Jakobs, en hann lætur eftir sig foreldra og tvær yngri systur. Reikningurinn er í nafni móður Hjalta Jakobs, Gunnhildar Ránar Hjaltadóttur. Reikningsnr. 0586-14-400054, kt. 210686-4449. Margt smátt gerir eitt stórt.

 

Bænastund verður haldin í Stokkseyrarkirkju í kvöld, þriðjudagskvöld 5. júlí,  kl. 20:00 vegna andláts Hjalta Jakobs.

Af ww.sunnlenska.is

 


Skráð af Menningar-Staður

 

30.06.2016 10:52

Skógræktarfélagi Eyrarbakka gefið sláttuorf

 

 

F.v.: Haukur Jónsson og Siggeir Ingólfsson. Ljósm.: Rúnar Eiríksson.

 

Skógræktarfélagi Eyrarbakka gefið sláttuorf


Haukur Jónsson, útgerðamaður Mána ÁR 70 á Eyrarbakka, kom færandi hendi uppí Hallskot í gærkveldi og færði Skógræktarfélagi Eyrarbakka slátturorf of bestu gerð.

Siggeir Ingólfsson veitti gjöfinni viðtöku og hófst fljótlega sláttur með góðum árangri.

Rúnar Eiríksson færði til myndar.


Skráð af Menningar-Staður