Menningar-Bakki * Viðhalda og efla þjóðlega menningararfleið til sjávar og sveita*
-------- Alþýðuhúsið á Eyrarbakka - Vinir alþýðunnar - Á undan sinni framtíð --- "Stærra í hugum okkar en við sjálfir gerum okkur grein fyrir" ---

18.04.2019 07:16

Sýning Elfars Guðna í Menningarverstöðinni Hólmaröst á Stokkseyri

 Elfar Guðni Þórðarson.

 

 

Sýning Elfars Guðna

 

 

í Menningarverstöðinni Hólmaröst á Stokkseyri

 

 

Þér og þínum er boðið á sýningu mína sem opnuð verður á skírdag, 18. apríl 2019, kl.14:00 í Gallery Svartakletti – Menningarverstöðinni, Hafnargötu 9 á Stokkseyri


Sýningin er opin alla páskadagana og þar fyrir utan verður sýningin opin föstudaga, laugardaga og sunnudaga frá kl. 14:00 til 18:00 í apríl og maí, en henni lýkur á sjómannadaginn 2. júní. 2019.


Verið velkomin.

 

 

Skráð af Menningar-Staður

17.04.2019 17:30

Sig­urður Ingi sló í gegn

 

 

 

Sig­urður Ingi sló í gegn

 

„Eft­ir­vænt­ing og gleði lá í loft­inu þegar langþráðum áfanga var náð í sam­göngu­bót­um með því að slá í gegn í Dýra­fjarðargöng­um,“ skrif­ar Sig­urður Ingi Jó­hanns­son sam­gönguráðherra, en í dag var síðasta haftið á milli Dýra­fjarðar og Arn­ar­fjarðar sprengt.

 

„Verkið geng­ur vel og þegar ein­um áfanga er náð þá eykst þrýst­ing­ur á að aðrar sam­göngu­bæt­ur haldi áfram. Veg­ur um Dynj­and­is­heiði er á áætl­un og veg­ur um Gufu­dals­sveit þolir ekki lengri bið,“ seg­ir Sig­urður Ingi enn­frem­ur.

 

Mik­il vinna er eft­ir í göng­un­um sjálf­um. Eft­ir að slegið verður í gegn þarf að ljúka styrk­ing­um og klæða þar sem vatn sæk­ir að. Leggja þarf raf­magn í göng­in og lagn­ir í gólf. Þá þarf að leggja burðarlag og mal­bik. Byrjað er á lagna­vinnu í gólf­inu Arn­ar­fjarðarmeg­in.

 

Áætlað er að göng­in verði opnuð til um­ferðar 1. sept­em­ber á næsta ári.


WWW.mbl.isSkráð af Menningar-Staður

16.04.2019 06:50

Gegnumbrot Dýrafjarðarganga - Viðhafnarsprenging 17. apríl 2019

 

 

 

Gegnumbrot Dýrafjarðarganga -

 

Viðhafnarsprenging 17. apríl 2019

 

Á morgun, hinn 17. apríl 2019,  verður hátíðleg stund í Dýrafjarðargöngunum en þá verður síðasta færan sprengd sem jafnframt verður viðhafnarsprenging. Vel hefur gengið við gangnagröft bæði Arnarfjarðarmegin fyrir áramót og nú eftir áramót Dýrafjarðarmegin. Á föstudaginn 12. apríl var gegnumbrot þar sem mátti sjá í gegn milli gangnahluta. Vegna viðhafnarsprengingarinnar miðvikudaginn 17. apríl býður verktakinn Suðurverk áhugasömum að taka þátt í hátíðarhöldum. Tvær rútur munu ferja fólk frá Ísafirði inn að göngum og aftur til baka eftir dagskrárlok. Hátíðardagskrá: 

12:45 Stór rúta ferjar fólk frá bílastæði við Kjaranstaði og inn á vinnusvæðið. Smárútur verktaka ferja fólk inn í útskot J sem er rúma 800 m inni í göngum. Þaðan mun fólk ganga inn í útskot I sem er um 500m innar. 

14:00 Ávörp

14:15 Karlakórinn Ernir flytur 2-3 lög

14:30 Viðhafnarsprenging. Í kjölfarið gefst fólki kostur á að ganga inn að gegnumbroti.

15:00 Kaffiveitingar í útskoti I þar sem fólki gefst kostur á að næla sér í skrautsteina úr göngunum.

15:30 Smárútur ferja fólk út úr göngum og í stærri rútur

17:00 Síðasti útmokstur verktaka Athugið að mikilvægt er að allir fari eftir merkingum og sýni mikla aðgát því enn er þetta hættulegt vinnusvæði en starfsmenn verktaka munu leiðbeina fólki á svæðinu. Þar sem um er að ræða gegnumbrot þá er æskilegt að minna á að tekið sé mið af aðstæðum við val á skóbúnaði og fatnaði. Einnig skal skýrt tekið fram að því miður er ekki stætt á því að hleypa undir 18 ára inn á vinnusvæðið eins og gefur að skilja. Skráð af Menningar-Staður

15.04.2019 20:10

15. apríl 2019- afmælisdagur Vigdísar Finnbogadóttur

 


Fyrsta embættisverk Vigdísar Finnbogadóttur sem forseta Íslands

var á Hrafnseyri þann 3. ágúst 1980

 

 

15. apríl 2019 -

 

afmælisdagur Vigdísar Finnbogadóttur

 

 

Fjórði forseti lýðveldisins, Vigdís Finnbogadóttir, er fædd 15. apríl 1930.

 

Vigdís var kjörin forseti 29. júní 1980, endurkjörin án atkvæðagreiðslu 1984, endurkjörin í kosningum 1988, aftur án atkvæðagreiðslu 1992 og lét af embætti 1996.

 

Vigdís varð stúdent árið 1949, stundaði nám í frönsku og frönskum bókmenntum í Grenoble og við Sorbonne-háskóla í París 1949-1953. Hún nam leiklistarsögu við Kaupmannahafnarháskóla 1957-1958, tók BA-próf í frönsku frá Háskóla Íslands og próf í uppeldis- og kennslufræðum 1968. Vigdís er heiðursdoktor og heiðursprófessor við marga háskóla og stofnanir víðs vegar um heiminn.

Hún hefur verið sæmd heiðursdoktorsnafnbót við eftirfarandi háskóla: Háskólinn í Grenoble, Frakklandi (1985), Háskólinn í Bordeaux, Frakklandi (1987), Smith College, Bandaríkjunum (1988), Luther College, Bandaríkjunum (1989), Háskólinn í Manitoba, Kanada (1989), Háskólinn í Nottingham, Bretlandi (1990), Háskólinn í Tampere, Finnlandi (1990), Háskólinn í Gautaborg, Svíþjóð (1990), Gashuin háskólinn í Tokyo, Japan (1991), Háskólinn í Miami, Bandaríkjunum (1993), St. Mary´s háskólinn í Halifax, Kanada (1996), Háskólinn í Leeds, Bretlandi (1996), Memorial University, St John, Nýfundnalandi, Kanada (1997) Háskólinn í Guelph, Kanada (1998) og Háskóli Íslands, 2000. 

Hún var blaðafulltrúi Þjóðleikhússins 1954-1957 og aftur 1961-1964, leiðsögumaður á sumrin um árabil, kennari við Menntaskólann í Reykjavík 1962-1967 og við Menntaskólann við Hamrahlíð 1967-1972. Hún kenndi um skeið við Háskóla Íslands og var leikhússtjóri Leikfélags Reykjavíkur 1972-1980. Vigdís Finnbogadóttir var fyrsta konan í heiminum sem kjörin var forseti í þjóðaratkvæðagreiðslu. 
Skráð af Menningar-Staður

 

 

13.04.2019 20:22

Pípuorgel Björgvins í Bolungarvíkurkirkju

 

 

F.v.:  Margrét Erlingsdóttir, rafvirki, Björgvin Tómasson, orgelsmiður,

Jóhann Hallur Jónsson, húsgagnasmiður, Einar Jónatansson, sóknarnefndarformaður,

og Guðrún B. Magnúsdóttir, organisti. Mynd Helgi Hjálmtýsson.

 

 

Pípuorgel Björgvins í Bolungarvíkurkirkju

 

 

Björgvin Tómasson orgelsmiður vann á dögunum ásamt aðstoðarfólki sínu að uppsetningunni í Bolungarvík en orgelið sem Björgvin hefur smíðað fyrir kirkjuna er níu radda pípuorgel og er það fertugasta í röðinni sem hann smíðar.

 

Björgvin rekur Orgelsmiðju Björgvins Tómassonar í Menningarverstöðinni Hólmaröst á Stokkseyri og honum til aðstoðar eru Margrét Erlingsdóttir rafvirki og Jóhann Hallur Jónsson húsgagnasmiður.

 

Í tilefni af aldarafmæli kirkjunnar árið 2008 var stofnaður orgelsjóður með það að markmiði að safna fyrir nýju pípuorgeli. Kristný Pálmadóttir stofnaði orgelsjóðinn 5. desember 2008 en kirkjan var vígð 7. desember 1908. Kristný söng í kirkjukórnum í áratugi en hún lést árið 2012.

 

„Sjóðnum hafa borist ótal gjafir frá einstaklingum, fyrirtækjum og félagasamtökum. Bolvíkingafélagið í Reykjavík og brottfluttir Bolvíkingar hafa einnig sýnt söfnuninni mikinn velvilja og gefið háar fjárhæðir, það má því segja að Bolvíkingar hafi með samstilltu átaki fjármagnað að fullu og gefið Hólskirkju nýtt pípuorgel“, segir Einar Jónatansson sóknarnefndarformaður.

 

Árið 2017 var söfnuninni fyrir orgelinu lokið og í október var undirritaður smíðasamningur við Björgvin. Í samningnum var gert ráð fyrir að orgelið yrði vígt nú á aðventunni á 110 ára afmæli kirkjunnar en af óviðráðanlegum orsökum seinkaði afhendingu um nokkra mánuði.

 

Gamla orgelið í Hólskirkju í Bolungarvík sem var fyrir í kirkjunni gáfu Bolvíkingar í tilefni af 50 ára vígsluafmæli hennar en það var vígt við hátíðarmessu 17. júní árið 1960 og var því notað samfellt í 58 ár. Nokkur samskonar orgel frá Kemper & Sohn voru í kirkjum á Íslandi og var orgelið í Hólskirkju það síðasta af þeim sem var í notkun.
 Sjá nánar í Landanum á RUV sunnudagskvöldið 14. apríl 2019 
 Skráð af Menningar-Staður

13.04.2019 17:25

Eggjaverkstæði við Húsið

 

 

 

 

Eggjaverkstæði við Húsið

 

 

Eggjaverkstæði opið í gamla fjárhúsinu 13. - 22. apríl 2019.

 

 Öllum frjálst að koma og skreyta hænuegg.

 

Opið 14 -17 alla dagana.
 

 

 Skráð af Menningar-Staður

 

 

13.04.2019 10:06

Jón Helgason - Fæddur 4. okt. 1931- Dáinn 2. apríl 2019 - Minning

 Jón Helgason (1931 - 2019).

 

 

Jón Helgason

 

 

- Fæddur 4. okt. 1931- Dáinn 2. apríl 2019 - Minning

 

 

Jón Helga­son fædd­ist í Segl­búðum 4. októ­ber 1931. Hann lést á hjúkr­un­ar­heim­il­inu Klaust­ur­hól­um á Kirkju­bæj­arklaustri 2. apríl 2019.

 

For­eldr­ar hans voru Helgi Jóns­son, f. 1894, d. 1949, og Gyðríður Páls­dótt­ir, f. 1897, d. 1994.

Syst­ur Jóns voru:

Mar­grét, f. 1922, d. 2010, gift Er­lendi Ein­ars­syni, f. 1921, d. 2002, Ólöf, f. 1924, d. 1990, gift Birni Berg­steini Björns­syni, f. 1918, d. 1986, og Ásdís, f. 1929, d. 2015, gift Ein­ari Hauki Ásgríms­syni, f. 1929, d. 1989. Hinn 25. nóv­em­ber 1961 kvænt­ist hann Guðrúnu Þor­kels­dótt­ur, f. 21. apríl 1929. For­eldr­ar henn­ar voru Sig­urður Þorkell Sig­urðsson, f. 1897, d. 1965, og Bjarney Bjarna­dótt­ir, f. 1901, d. 1981, bú­sett í Reykja­vík. Bróðir Guðrún­ar var Sig­urður, f. 1930, d. 2015.

Börn Jóns og Guðrún­ar eru:

Helga, f. 1968, maki Þór­ar­inn Bjarna­son, f. 1953, dótt­ir þeirra er Bjarney, f. 1997, börn Helgu og stjúp­börn Þór­ar­ins eru: Jón Rún­ar Helga­son, f. 1986, maki hans er Sophia Nell Wass­er­mann, f. 1991, Sig­ur­björg Helga­dótt­ir, f. 1988, en hún á son­inn Ró­bert Jack Brynj­ars­son, f. 2015, og Guðmund­ur Helga­son, f. 1990, maki hans er Yrsa Stellu­dótt­ir, f. 1990. Bjarni Þorkell, f. 1973, kvænt­ur Grétu Rún Árna­dótt­ur, f. 1977, börn þeirra eru: Odd­ur Ingi, f. 2000, og Dúna Björg, f. 2010. Björn Sæv­ar Ein­ars­son, f. 1962, kvænt­ur Guðrúnu Mörtu Torfa­dótt­ur, f. 1949, börn henn­ar og stjúp­börn Björns eru: Ástríður Hösk­ulds­dótt­ir, f. 1970, Torfi Hösk­ulds­son, f. 1973, og Nína Hösk­ulds­dótt­ir, f. 1978.

 

Jón ólst upp í Segl­búðum í Land­broti og stundaði síðan nám við Mennta­skól­ann í Reykja­vík, þaðan sem hann út­skrifaðist sem stúd­ent 1950. Hann stóð fyr­ir búi móður sinn­ar í Segl­búðum að námi loknu og var bóndi þar frá 1959 til árs­ins 1980. Stunda­kenn­ari við ung­linga­skól­ann á Kirkju­bæj­arklaustri 1966-1970. Í hrepps­nefnd 1966-1986, þar af odd­viti í 10 ár. Starfaði mikið að fé­lags- og hags­muna­mál­um bænda og var m.a. formaður Búnaðarfé­lags Íslands 1991-1995. Var kos­inn á þing 1974 fyr­ir Fram­sókn­ar­flokk­inn í Suður­lands­kjör­dæmi og sat á þingi óslitið til árs­ins 1995. Land­búnaðar-, dóms- og kirkju­málaráðherra 1983-1987 og land­búnaðarráðherra 1987-1988 og for­seti sam­einaðs Alþing­is 1979-1983.

 

Sem þingmaður beitti Jón sér mest í land­búnaðar­mál­um og hags­muna­mál­um lands­byggðar­inn­ar. Bind­ind­is­mál voru hon­um mjög hug­leik­in og lét hann að sér kveða í þeim efn­um bæði á Alþingi og utan þess. Hann sinnti líka nokkuð alþjóðastarfi á veg­um þings­ins. Var for­seti kirkjuþings frá ár­inu 1997 til árs­ins 2006. Einnig var Jón formaður Land­vernd­ar frá 1997-2001.

 

Hér hef­ur verið stiklað á stóru af þeim fjöl­mörg­um trúnaðar­störf­um sem Jón tók að sér bæði fyr­ir heima­hérað sitt og á landsvísu, hvort sem var á op­in­ber­um vett­vangi, í stjórn­um fyr­ir­tækja sem og frjáls­um fé­laga­sam­tök­um.

 

Útför Jóns verður gerð frá Prests­bakka­kirkju á Síðu í dag, 13. apríl 2019, klukk­an 13.

______________________________________________________________________________________

Minningarorð Guðna Ágústssonar


Jón Helga­son var eft­ir­minni­leg­ur maður, hann var hóg­vær, vinnu­sam­ur og í raun­inni laus við alla þá at­hygl­is­sýki sem ein­kenn­ir marga stjórn­mála­menn um heim all­an.

 

Jón var Skaft­fell­ing­ur í húð og hár. Þessi ungi pilt­ur þótti óvenju­skýr og var send­ur mennta­veg­inn í MR. Námið sótt­ist vel og hann varð stúd­ent 1950 en faðir hans lést um þær mund­ir á besta aldri lífs­ins þannig að Jón hvarf heim og stóð fyr­ir bú­inu í Segl­búðum með móður sinni næstu tíu árin og tók svo við bú­inu með Guðrúnu sinni. Eng­inn veit hvert for­sjón­in hefði leitt hinn gáfaða pilt frá Segl­búðum hefðu ör­laganorn­irn­ar ekki gripið svo grimmi­lega inní líf fjöl­skyld­unn­ar. En skyld­an kallaði hann heim að hinu glæsi­lega búi og hann tók upp merki föður síns og yrkti jörðina og ræktaði fal­legt sauðfé. Jón hefði átt gott með að sækja lang­skóla­nám, sterk­ust þótti mér stærðfræðin og glögg­ur skiln­ing­ur að setja sig inn í flók­in mál.

 

Skaft­fell­ing­ar eru gömlu vatna­menn­irn­ir sem þekktu vaðið á fljót­inu. Jón vald­ist til allra for­yst­u­starfa í sveit sinni og héraði. Nafn hans kom upp 1974 eft­ir að nokkr­ar deil­ur urðu um hver skyldi skipa annað þing­sæti flokks­ins í kjör­dæm­inu. Jón tók þing­mennsk­una al­var­lega og þótti strax glögg­skyggn og þótt ræðan væri hvorki há­vær eða lituð sterk­um lit­um þá hl­ustuðu menn. Ef vanda bar að hönd­um í flokkn­um eða þing­inu þótti strax gott að fela Jóni að leita lausna. Og þegar mesta upp­nám í póli­tík síðustu ára­tuga brast á, rík­is­stjórn­ir sprungu og flokk­ar klofnuðu og Alþingi var nokkuð illa statt þess vegna, þá urðu þing­menn sam­mála um að skipa Jón for­seta Sam­einaðs þings. Þetta verk­efni leysti hann með þeim hætti að all­ir veg­ir voru hon­um opn­ir til frama inn­an flokks­ins.

 

Jón varð land­búnaðar-, dóms- og kirkju­málaráðherra í beinu fram­haldi. Þá steðjaði mik­ill vandi að bænd­um, gríðarleg of­fram­leiðsla á bæði kjöti og mjólk. Jón leit á það sem sitt verk­efni að finna vaðið yfir hið straumþunga fljót og ég er sann­færður um að fáir hefðu haft þor til að gera það sem Jón varð að gera, til að bjarga land­búnaðinum út úr mikl­um ógöng­um og of­fram­leiðslu. Segja má að Jón hafi fundið leiðina sem síðar reynd­ist bænd­um drjúg til sókn­ar og nýrra tíma. Enda virtu bænd­ur Jón það mik­ils að þeir báðu hann um að taka að sér for­mennsku í Búnaðarfé­lagi Íslands.

 

Grunn­skól­inn og hjúkr­un­ar­heim­ilið vitna um for­ystu Jóns heima fyr­ir og hann tók svo við kefl­inu á hót­el­inu á Kirkju­bæj­arklaustri og stækk­un þess. En Gyðríður Páls-dótt­ir móðir hans var for­ystu­kon­an sem stóð fyr­ir bygg­ingu Minn­ing­arkap­ellu séra Jóns Stein­gríms­son­ar. Ég sat við hliðina á Jóni í græna­her­bergi þing­flokks­ins, ég tók strax eft­ir því að Jón réð stöðugt kross­gát­ur og þeim mun hraðar sem ræðurn­ar urðu lengri og harðari. En stund­um kallaði Stein­grím­ur Her­manns­son „Jón, reiknaðu nú,“ þá stóð ekki á svar­inu eða inn­leggi Jóns í umræðuna.

 

Vert er að minn­ast á þátt Guðrún­ar í lífi Jóns, þar stóð hún eins og klett­ur í um­róti stjórn­mál­anna og þannig var líf þeirra samofið ást og friði svo að ein­stakt var.

 

Ég tel Jón Helga­son til allra vönduðustu og merk­ustu manna sem ég hef starfað með. Blessuð sé minn­ing hans. Við Mar­grét þökk­um hon­um tryggð og vináttu.

 

Guðni Ágústs­son.Morgunblaðið laugardagurinn 13. apríl 2019.Skráð af Menningar-Staður

13.04.2019 07:44

13. apríl 1844 - Jón Sigurðsson kosinn á Alþingi

 Jón Sigurðsson (1811 - 1879).

 

 

13. apríl 1844 -

 

Jón Sigurðsson kosinn á Alþingi

 

 

Jón Sigurðsson var kosinn á þing í fyrsta sinn, á kjörfundi sem haldinn var í kirkjunni á Ísafirði. 
Hann hlaut 50 atkvæði af 52 sem er 96.2%.

Alþingi kom saman 1. júlí 1845 og var Jón yngstur þingmanna, 34 ára. Hann sat á þingi til 1879 og var oft þingforseti.


Varaþingmaður Jón Sigurðssonar í kosningunum 1844 var kosinn Magnús Einarsson á Hvilft í Önundarfirði. Hann var helsti stuðningsmaður Jóns vestra og í raun fyrsti önfirski kosningasmalinn sem sögur fara af og sýndi með kjöri Jóns mikilvægi kosningasmalanna. Jón  Sigurðsson hafði búið í Kaupmannahöfn í rúman áratug þegar hann bauð sig fram til Alþingis og hafði ekki tök á kosningavinnu á vettvangi í Vestur-Ísafjarðarsýslu. 

Önfirðingar hafa margir fetað í fótspor Magnúsar Einarssonar sem dugmiklir kosningasmalar allt til þessa dags.


Foreldrar Jón Sigirðssonar voru Þórdís Jónsdóttir, prestsdóttir frá Holti í Önundarfirði og séra Sigurður Jónsson á Hrafnseyri. Jón var fæddur 17. júní árið 1811 og var 200 ára afmælis hans minnst með ýmsum hætti á Hrafnseyri árið 2011.


 

 

Hrafnseyri við Arnarfjörð. Ljósm.: Björn Ingi Bjarnason.

 
Skráð af Menningar-Staður

11.04.2019 20:14

Merkir Íslendingar - Vilhjálmur H. Vilhjálmsson

 

 

Vilhjálmur Vilhjálmsson

(1945 -1978).

 

 

Merkir Íslendingar - Vilhjálmur H. Vilhjálmsson

 

 

Vilhjálmur fæddist í Merkinesi í Höfnum 11. apríl 1945, sonur Vilhjálms Hinriks Ívarssonar, harmonikkuleikara, söngmanns, bónda, og smiðs í Merkinesi, og Hólmfríðar Oddsdóttur húsfreyju. Meðal fjögurra systkina hans var Ellý Vilhjálms, ein dáðasta dægurlagasöngkona þjóðarinnar fyrr og síðar.
 

Vilhjálmur var þríkvæntur, eignaðist soninn Jóhann, sem er söngvari, og dótturina Vilhelmínu, sem er flugstjóri, en auk þess tvo stjúpsyni.
 

Vilhjálmur var einn vetur í Gagnfræðaskóla Keflavíkur þar sem hann kynntist tónlistarmönnunum Einari Júlíussyni og Baldri Þórissyni. Hann var í Héraðsskólanum á Laugarvatni, lauk landsprófi á Ísafirði, stúdentsprófi frá MA 1964, bankaði uppá hjá Ingimar Eydal sama daginn með stúdentshúfuna og var munstraður sem bassaleikari í hljómsveit hans, en áður hafði hann leikið með Bassabandinu í þrjú ár.
 

Haustið 1965 kom Vilhjálmur aftur suður, söng inn á tvær tveggja laga plötur, lék með Hljómsveit Magnúsar Ingimarssonar á Röðli 1966-68 og síðan með Haukum og Hljómsveit Ólafs Gauks um skeið.
 

Vilhjálmur las lögfræði og síðan læknisfræði við HÍ skamma hríð, en hóf síðan flugnám og lauk því í Lúxenborg 1970. Hann var síðan flugmaður hjá Arnarflugi og flugkennari hjá Flugskóla Helga Jónssonar.
 

Vilhjálmur söng inn á fjórar plötur með Ellý, systur sinni, m.a. lög eftir Sigfús Halldórsson og Tólfta september, sendi frá sér sólóplötur og söng þrjú lög inn á plötu með Mannakorni. Síðasta plata hans, Með sínu nefi, kom út 1976.
 

Vilhjálmur lést í umferðarslysi í Lúxemborg fyrir aldur fram 28. mars 1978. Hann var þá einn dáðasti söngvari þjóðarinnar. Minningartónleikar voru haldnir um hann 2008 og í kjölfarið stofnaður sjóður til styrktar efnilegum söngvurum.
 

Jón Ólafsson ritaði ævisögu Vilhjálms, Söknuður, sem kom út 2008.

 

Morgunblaðið.

 


Skráð af Menningar-Staður.

10.04.2019 08:44

Lilja í Vöfflukaffinu

 

 

 

 

 

Lilja í Vöfflukaffinu

 

 

 

21. „Vöfflukaffi“ þessa vetrar hjá Framsóknarfólki í Sveitarfélaginu Árborg var haldið föstudaginn 5. apríl sl. í Framsóknarsalnum við Eyravegi á Selfossi.  

 

Sérlegur gestur þessa Vöfflukaffis var  Lilja Alfreðsdóttir,  mennta- og menningarmálaráðherra og varaformaður Framsóknarflokksins. Lilja hafði frá mörgu að segja í viðburðaríku starf ríkistjórnarinnar  þessar vikurnar og þá tók hún sérstaklega fyrir sinn málaflokk í mennta- og menningarmálum.

 

Húsfyllir var á Vöfflukaffinu eins og oftast á þessum frábæru mannlífsaukandi samkomum sem aldrei verða ofþakkaðar.

 

Meðal gesta var Flateyringurinn Björn Ingi Bjarnason sem búið hefur á Eyrarbakka í tuttugu ár. Hann ávarpaði ráðherrann og þakkaði skilning og mikilvægan stuðning hennar og fjárveitingavaldsins við Lýðháskólann á Flateyri sem gjörbreytt hefur samfélaginu þar til hins betra. Orðum sínum fylgdi Björn Ingi efir með gjöfum til Lilju sem voru tveir önfirskir menningarmolar. Bókin „Nú brosir nóttin“ sem bókaútgáfn Sæmundur á Selfossi gaf út fyrir síðustu jól. Bókin er ævisaga Guðmundar Einarssonar bónda og refaskyttu að Brekku á Ingjaldssandi í Önundarfirði. Einnig diskur með „Hljómsveitinni ÆFINGU“ frá Flateyri sem er nú að fagna 50 ára afmæli hljómsveitarinnar. Hann gat þess að hljómsveitarstjórinn, Árni Benediktsson, hefur búið á Selfossi í tuttugu ár og hljómsveitarstarfinu stýrt héðan úr Flóanum með góðum mannlífs- og menningarlegum árangri. 

 

 

.

.

.

.

.

.

.

.

.

.

.

.

.

.

.

.

.

.

.

.

.

.

.

.

.

.

.

.

.

.

.

.

.

.

.

.

.

.
Skráð af Menningar-Staður.