Menningar-Bakki * Viðhalda og efla þjóðlega menningararfleið til sjávar og sveita*
-------- Alþýðuhúsið á Eyrarbakka - Vinir alþýðunnar - Á undan sinni framtíð --- "Stærra í hugum okkar en við sjálfir gerum okkur grein fyrir" ---

20.04.2018 06:25

Miðflokkurinn kynnir sex efstu á listanum í Árborg

 

 

 

Nokkrir frambjóðenda Miðflokksins í Árborg ásamt

Sigmundi Davíð Gunnlaugssyni, formanni.

 

Miðflokkurinn kynnir sex efstu á listanum í Árborg

 

M-listi Miðflokksins í Árborg opnaði kosningaskrifstofu sína við Eyraveg 5 á Selfossi í dag og kynnti um leið hverjir skipa sex efstu sætin á framboðslistanum fyrir sveitarstjórnarkosningarnar í vor.

 

Flokkurinn hafði áður tilkynnt að Tómas Ellert Tómasson, byggingarverkfræðingur, yrði oddviti listans.

 

Í dag var einnig tilkynnt hver mun skipa heiðurssæti listans en það er Guðmundur Kr. Jónsson, nýkjörinn heiðursformaður Héraðssambandsins Skarphéðins og fyrrverandi bæjarfulltrúi Framsóknarflokksins.

 

Sex efstu sæti listans skipa:


1. Tómas Ellert Tómasson, oddviti og byggingarverkfræðingur
2. Guðrún Jóhannsdóttir, viðskiptafræðingur
3. Sólveig Pálmadóttir, viðskiptalögfræðingur og hársnyrtimeistari
4. Ari Már Ólafsson, húsasmíðameistari
5. Erling Magnússon, lögfræðingur
6. Sverrir Ágústsson, félagsliði á réttargeðdeild LSH

 Skráð af Menningar-Staður.

19.04.2018 13:37

M-listinn í Árborg

 

 

 

 

  M-listinn í Árborg


 

19.04.2018 11:06

Gleðilegt sumar

 

 

 

 

Gleðilegt sumarSumardagurinn fyrsti


19. apríl 2018

 

 

 

 

Skráð af Menningar-Staður

17.04.2018 20:50

Aðalfundur Kvenfélags Eyrarbakka 130 ára

 

 

 

Aðalfundur Kvenfélags Eyrarbakka 130 ára

 

 

Kvenfélag Eyrarbakka var stofnað þann 25. apríl 1888 af 16 konum og er eitt hinna sjö kvenfélaga á Íslandi sem stofnuð voru fyrir aldarmótin 1900.Aðalfundur Kvenfélags Eyrarbakka á 130 ára afmælisárinu fór fram í kvöld, þriðjudaginn 17. apríl 2018, í Félagsheimilinu Stað á Eyrarbakka og var fjölsóttur.Menningar-Staður var við upphaf fundar og færði til myndar:

Sjá: http://menningarstadur.123.is/photoalbums/285898/

 

.

 

.

.

.

.

 

.
Skráð af Menningar-Staður

 

 

 
 
 

17.04.2018 15:13

Ljósmyndasýning: Miðbærinn - söguleg byggð

 

 

 

Ljósmyndasýning:

 

Miðbærinn – söguleg byggð

 

Magnús Karel Hannesson

sýnir ljósmyndirí Listagjánni í Bókasafni Árborgar á Selfossi 

19. apríl til 27. maí 2018

 

Á Eyrarbakka er best varðveitta eldri götumynd á öllu Suðurlandi og þó víðar væri leitað. Þar er ekta, söguleg, heildstæð byggð með húsum, sem flest eru byggð á árabilinu frá 1890 til 1915, þó þar séu hús sem eru bæði eldri og yngri en frá þeim tíma. Þetta eru að langmestu leyti alþýðuhús þar sem bjuggu verkamenn og sjómenn, ásamt fjölskyldum sínum.

 

Gamla götumyndin á Eyrarbakka er helsta sérkenni þorpsins, ásamt víðfeðmri náttúru, sem myndar góða umgjörð um hina sögulegu byggð. Minna má á fjöruna vestan við þorpið og fuglafriðlandið í Flóa norður af þéttbýlinu – hvort tveggja vinsæl útivistarsvæði – og svo skemmir fjallahringurinn ekki fyrir.

 

Ljósmyndasýningin Miðbærinn – söguleg byggð er sett saman til þess að vekja fólk til umhugsunar um verðmætin, sem eru fólgin í hinni sögulegu byggð á Eyrarbakka fyrir Sveitarfélagið Árborg í heild sinni. Í aðalskipulagi Árborgar segir m.a. um þessi sérkenni: „Mikilvægt er, ekki aðeins fyrir sveitarfélagið heldur einnig landið allt, að glata ekki þessum einkennum heldur styrkja þau og vernda […].“ Frá því að sveitarfélögin fjögur í vestanverðum Flóa voru sameinuð fyrir 20 árum hefur það verið meginmarkmið sveitarfélagsins að draga fram sérkenni hvers hluta þess, heildinni til hagsbóta en jafnframt hverju svæði fyrir sig.

 

Fyrir nokkru sagði ágæt kona, íbúi í Hrísey, í blaðaviðtali, að sér fyndist miðbærinn í Akureyrarkaupstað vera í Hrísey. Með sama hætti má halda því fram að miðbærinn í Sveitarfélaginu Árborg sé á Eyrarbakka.

 

Magnús Karel Hannesson er fæddur 1952 á Eyrarbakka og hefur alið þar nánast allan sinn aldur. Snemma fór hann að hafa áhuga á ljósmyndun og hefur tekið mikið magn ljósmynda á Eyrarbakka, bæði af fólki og umhverfi. Á síðasta ári gaf Laugabúð ehf. út ljósmyndabókina FRYSTIHÚSIÐ með ljósmyndum úr frystihúsinu á Eyrarbakka, sem flestar voru teknar á árunum 1976 til 1978. Þá voru margar myndir Magnúsar birtar í bókinni VÖRUBÍLSTJÓRAR Á VEGUM ÚTI, sem Vörubílstjórafélagið Mjölnir gaf út árið 2015, en hann starfaði hjá Vegagerð ríkisins á árunum 1976 til 1983.

 

Myndirnar á sýningunni Miðbærinn – söguleg byggð eru teknar á síðustu árum á Eyrarbakka á mismunandi árstímum.

 

MKH


Skráð af Menningar-Staður

17.04.2018 12:05

Lýðháskólinn á Flateyri opnar dyr sínar í haust

 

 

 

 

Lýðháskólinn á Flateyri

 

opnar dyr sínar í haust

 

 

Kennsla hefst í Lýðháskólanum á Flateyri í september. Markmiðið með skólanum er að hjálpa ungu fólki að finna sína hillu í lífinu með því bjóða upp á fjölbreytt nám með víða skírskotun.

 

Opnað var fyrir umsóknir til náms í Lýðháskólanum á Flateyri í fyrradag en kennsla hefst þar í haust.

 

Kennt verður á tveimur námsbrautum, en hvor um sig tekur við að hámarki 20 nemendum. Annars vegar er um að ræða námsleið sem byggir á að nýta þær auðlindir sem til eru á svæðinu, í náttúrunni, menningunni og samfélaginu á Flateyri og í nærsveitum. Í náminu er lögð áhersla á færni, þekkingu og verkefni sem miða að því að nemendur verði færari í að ferðast um náttúruna, njóta hennar og nýta sér auðlindir hennar á öruggan og umhverfisvænan máta. Hin námsleiðin byggir á sköpun, hugmyndavinnu og útfærslu í hvers kyns formum. Áhersla er lögð á að nemendur þroskist sem skapandi einstaklingar og að námi loknu hafi að þeir safnað sér færni, verkfærum og tækni til að takast á við krefjandi verkefni í framtíðinni.

 

Helena Jónsdóttir er framkvæmdastjóri Lýðháskólans á Flateyri. Hún segir viðtökurnar hafa verið frábærar.

 

„Á Vestfjörðum hafa sveitarfélög, stofnanir, ráðherrar og samfélagið allt tekið höndum saman og stutt verkefnið með ráðum og dáð,“ segir Helena. „Svo er áhuginn sem verkefnið sjálft hefur hlotið með ólíkindum. Við sjáum það á Facebook-síðunni okkar að fólk er að deila þessu út um allt. Það er verið að ræða þetta í fermingarveislum og hvaðeina.

 

Þetta er búið að vera í undirbúningi lengi, en í raun og veru fórum við af stað með þetta af alvöru í lok desember og byrjun janúar.“

 

Kennsla á Flateyri hefst 19. september og verða námskeiðin kennd í tveggja vikna lotum. Allir sem orðnir eru 18 ára við upphaf námsannar geta sótt um.

 

Helena segir markmið skólans vera að bjóða upp á aðra nálgun í námi en þá hefðbundnu. Áherslan er ekki á próf, heldur að auðga reynslu ungs fólks svo það eigi auðveldara með að finna sína hillu í lífinu.

 

„Fegurðin í lýðháskólanum er að sjálfsögðu falin í víðum skírskotunum ólíkra námsgreina,“ segir Helena. „En það er líka mikil fegurð í því að fólk kemur þarna saman á stað sem er oftast nokkuð afskekktur. Flateyri er 160 manna sjávarþorp. Það er ekki ball á hverju kvöldi þarna, og þú hleypur ekki út til að ná þér í caffè latte þegar þér hentar.

 

Þarna neyðist fólk til að vera saman og eitthvað töfrandi á sér stað. Það er ekki síður lærdómur að læra að vera í kringum fólk á ólíkum aldri, af ólíkum uppruna og með ólík áhugasvið og auðvitað ólíka færni í mannlegum samskiptum.“ 
 


Skráð af Menningar-Staður
 
 
 

17.04.2018 07:24

FRAMVINDA DÝRAFJARÐARGANGA Í VIKU 15

 

 

 

FRAMVINDA DÝRAFJARÐARGANGA Í VIKU 15

 

Í viku 15 voru grafnir 64,2 m í göngunum.

 

Heildarlengd ganganna í lok viku 15 var 1.901,5 m sem er 35,9 % af heildarlengd ganganna.

 

Í vikunni var grafið stærra snið vegna útskots E sem útskýrir minni framvindu samanborið við síðustu vikur. Í framhaldinu verður farið í að grafa út þau þrjú rými sem eru í útskoti E, þ.e. tæknirými, neyðarrými og snúningsútskot.

 

Göngin hafa verið alveg þurr undanfarið og eru tvö nokkuð þunn setlög í berginu búin að fylgja okkur alla vikuna. Allt efni úr göngunum hefur farið beint í fyllingar í vegagerð. Fyllt hefur verið í veg milli gangamunnans og Hófsár ásamt því að byrjað var að fylla í nýjan veg sem mun liggja til Hrafnseyrar.

 

 

 

 

Skráð af Menningar-Staður

16.04.2018 19:45

Merkir Íslendingar - Guðjón Samúelsson

 Guðjón Samúelsson (1887 - 1950).

 

 

Merkir Íslendingar - Guðjón Samúelsson

 

Guðjón Samúelsson, arkitekt og húsameistari ríkisins, fæddist á Hunkubökkum í Kirkjubæjarhreppi í Vestur-Skaftafellssýslu 16. apríl 1887.

Hann ólst síðar upp á Eyrarbakka og í Reykjavík, sonur Samúels Jónssonar, trésmíðameistara á Eyrarbakka og í Reykjavík, og Margrétar Jónsdóttur húsfreyju. Foreldrar hans byggðu hús að Skólavörðustíg 35 og þar var hann síðar lengst af búsettur.

 

Guðjón lauk gagnfræðaprófi frá Menntaskólanum í Reykjavík, fullnaðarprófi í trésmíði 1908, stundaði nám við Iðnfræðaskólann í Kaupmannahöfn og lauk fullnaðarprófi í byggingarlist frá Kunstakademiets Arkitektskole 1919. Hann var fyrsti Íslendingurinn sem lauk sérstöku háskólaprófi í arkitektúr enda var hann settur húsameistari ríkisins strax að námi loknu, 1919, skipaður í embættið ári síðar og gegndi því til dauðadags.

 

Guðjón var ekki einnar stefnu maður. Hann teiknaði hús í nýklassískum stíl, fúnkisstíl og rómantískum stíl og þróaði í framhaldi af því með sér form sem hann sótti í íslenska byggingarsögu, sbr. Héraðsskólann á Laugarvatni, en ekki síður í íslenska náttúru sem kemur hvað skýrast fram í stuðlabergsformi Hallgrímskirkju.

 

Hann var auk þess áhugamaður um skipulagsmál, sat í fyrstu skipulagsnefnd ríkisins frá 1921, kom mjög að fyrsta aðalskipulagi Akureyrarbæjar 1927 og hélt fram hugmyndum um aðgreiningu atvinnusvæða og íbúðasvæða sem þá þótti nýlunda.

 

Af helstu verkum Guðjóns má nefna;

hús Eimskipafélags Íslands, Kristskirkju í Landakoti, Landspítalann, Þjóðleikhúsið, Háskóla Íslands, aðalbyggingu; Akureyrarkirkju, Hótel Borg og Sundhöllina.

 

Mörg stórhýsa hans hafa veðrast illa vegna steypuskemmda, ekki síst á stórum, láréttum flötum þessarra húsa. Ýmis þeirra hafa þó verið gerð upp svo sómi er af og því verður vart á móti mælt að margar byggingar Guðjóns eru með svipmestu stórhýsum sem reist hafa verið á Íslandi.

 

Guðjón lést 25. apríl 1950.


Skráð af Menningar-Staður

16.04.2018 06:49

Hvaða Klara

 

 

Klara Öfjörð Sigfúsdóttir.

 

 

Hvaða Klara

 

Ég hef ákveðið að bjóða mig fram til setu í bæjarstjórn Sveitarfélagsins Árborgar í komandi sveitastjórnarkosningum og sit í 3. sæti á lista Samfylkingarinnar. Ég ákvað að slá til og bjóða fram krafta mína þar sem ég tel að bakgrunnur minn og reynsla muni nýtist vel ásamt brennandi áhuga mínum á samfélagsmálum.

 

Ég er grunnskólakennari að mennt með myndmennt sem sérgrein. Eftir námið kenndi ég á Siglufirði og á höfuðborgarsvæðinu áður en tekin var ákvörðun um að flytja sig um set.

 

Og leiðin lá á Selfoss


Sumarið 2003 var ég ráðin til starfa hjá Vinnumálastofnun Suðurlands sem náms- og starfsráðgjafi og flutti ég þá á Selfoss. Ég er ákaflega ánægð með þá ákvörðun því ég fann mjög fljótt að mér leið vel á Selfossi.

 

Eftir fimm ára starf á Vinnumálastofnun vann ég sem deildarstjóri á leikskólanum Æskukoti á Stokkseyri í rúm tvö ár. Í 9 ár hef ég síðan starfað við Sunnulækjarskóla á Selfossi bæði sem umsjónarkennari og list- og verkgreinakennari ásamt því að sjá um útinám skólans. Í ár hef ég einnig starfað við Barnaskólann á Eyrarbakka og Stokkseyri sem náms- og starfsráðgjafi í hálfu starfi.

 

Forréttindi að vinna með ungu fólki


Ég er forvitin að eðlisfari og er óhrædd við að takast á við nýjar áskoranir. Ég hef fjölbreytta reynslu úr atvinnlífinu og hef m.a. starfað við fararstjórn á hálendi Íslands og erlendis, matseld, sölumennsku og garðyrkju.

 

Ég hef líka kynnst góðu fólki í gegnum félagsstörf hér í Árborg en ég hef m.a. setið í framkvæmdastjórn Ungmennafélags Selfoss. Þrátt fyrir að hafa starfað við ýmislegt í gegnum tíðina leita ég alltaf aftur í kennsluna því það heillar mig alltaf mest að vinna með ungu fólki.

 

Atvinnutengt nám og skapandi skólastarf


Lokaritgerðin mín til meistarprófs fjallaði um atvinnutengt nám. Ég hef mikinn áhuga á að tengja atvinnulífið meira inn í skólana þannig að nemendur eigi auðveldara með að tengja námið við raunveruleg störf og sjái þannig tilgang með því. Ég vil sjá aukna áherslu á skapandi skólastarf þar sem skólastofan er færð út og nærumhverfið er rannsakað. Með því erum við að nálgast alla nemendur á jákvæðan og uppbyggilegan hátt þar sem hvert og eitt barn fær að njóta sín og finna styrkleika sína.

 

Ég vil að börnin okkar séu hamingjusöm og fái það besta sem samfélagið hefur upp á að bjóða. Öflugt íþrótta- og tómstundastarf og gott tengslanet milli fólks hefur jákvætt forvarnargildi fyrir börn og ungmenni. Saman getum við stuðlað að bættri velferð allra barna í okkar góða samfélagi.

 

Klara Öfjörð Sigfúsdóttir

15.04.2018 14:46

15. apríl 2018- afmælisdagur Vigdísar Finnbogadóttur

 


Fyrsta embættisverk Vigdísar Finnbogadóttur sem forseta Íslands

var á Hrafnseyri þann 3. ágúst 1980. Ljósm.: BIB

 

15. apríl 2018- afmælisdagur Vigdísar Finnbogadóttur

 

Fjórði forseti lýðveldisins, Vigdís Finnbogadóttir, er fædd 15. apríl 1930.

 

Vigdís var kjörin forseti 29. júní 1980, endurkjörin án atkvæðagreiðslu 1984, endurkjörin í kosningum 1988, aftur án atkvæðagreiðslu 1992 og lét af embætti 1996.

 

Vigdís varð stúdent árið 1949, stundaði nám í frönsku og frönskum bókmenntum í Grenoble og við Sorbonne-háskóla í París 1949-1953. Hún nam leiklistarsögu við Kaupmannahafnarháskóla 1957-1958, tók BA-próf í frönsku frá Háskóla Íslands og próf í uppeldis- og kennslufræðum 1968. Vigdís er heiðursdoktor og heiðursprófessor við marga háskóla og stofnanir víðs vegar um heiminn.

Hún hefur verið sæmd heiðursdoktorsnafnbót við eftirfarandi háskóla: Háskólinn í Grenoble, Frakklandi (1985), Háskólinn í Bordeaux, Frakklandi (1987), Smith College, Bandaríkjunum (1988), Luther College, Bandaríkjunum (1989), Háskólinn í Manitoba, Kanada (1989), Háskólinn í Nottingham, Bretlandi (1990), Háskólinn í Tampere, Finnlandi (1990), Háskólinn í Gautaborg, Svíþjóð (1990), Gashuin háskólinn í Tokyo, Japan (1991), Háskólinn í Miami, Bandaríkjunum (1993), St. Mary´s háskólinn í Halifax, Kanada (1996), Háskólinn í Leeds, Bretlandi (1996), Memorial University, St John, Nýfundnalandi, Kanada (1997) Háskólinn í Guelph, Kanada (1998) og Háskóli Íslands, 2000. 

Hún var blaðafulltrúi Þjóðleikhússins 1954-1957 og aftur 1961-1964, leiðsögumaður á sumrin um árabil, kennari við Menntaskólann í Reykjavík 1962-1967 og við Menntaskólann við Hamrahlíð 1967-1972. Hún kenndi um skeið við Háskóla Íslands og var leikhússtjóri Leikfélags Reykjavíkur 1972-1980. Vigdís Finnbogadóttir var fyrsta konan í heiminum sem kjörin var forseti í þjóðaratkvæðagreiðslu. 

 

 

.

 

.

 
Skráð af Menningar-Staður