Menningar-Staður
Félagsheimilið Staður á Eyrarbakka

04.11.2016 08:27

Uppbygging LAVA á Hvolsvelli gengur vel

 

.

 

Uppbygging LAVA á Hvolsvelli gengur vel

 

Uppbygging á LAVA, eld­fjalla- og jarðskjálftamið­stöð Íslands, á Hvolsvelli gengur vel. Í síðustu viku var lokið við að steypa 600 m² af plötu hússins og er stefnt á að ljúka steypuvinnu í næstu viku. Húsið sjálft verður byggt úr timbureiningum sem komn­ar eru á hafnarbakkann og verða fluttar austur á Hvolsvöll í næstu viku. Uppsetning á húsinu hefst svo eftir um tvær vikur. Gert er ráð fyrir að það taki aðeins 5–6 vikur að reisa húsið. Stefnt er á að opna LAVA sýn­ing­una í maí eða júní á næsta ári.

 

Í húsinu verður stór veit­inga­staður og verslun Ramma­gerðar­innar auk ýmis konar fræðslu um eldgos, jarðskjálfta og jarðfræði Íslands. Þá er gert ráð fyrir að vera með sérstaka kynningu á viðbragðsáætlunum Almanna­varna vegna náttúru­hamfara á Suðurlandi og fræðslu til ferða­manna um allt það sem snýr að öryggi þeirra í gegnum Safe Travel upplýsinganetið. LAVA verð­ur einnig með sérstaka kynn­ingu á Kötlu jarðvangi og fræðslu um ferðalög og afþreyingu á svæðinu öllu í samvinnu við ferða­þjónustufyrirtæki á Suðurlandi.Framkvæmdastjóri LAVA er Flateyringurinn Ásbjörn Þ. Björgvinsson sem á langan og farsælan feril í ferðamálum. Þá er Ásbjörn bassaleikari Hljómsveitarinnar ÆFINGAR frá Flateyri sem er Sunnlendingum að góðu kunn.
 

Image result for ásbjörn björgvinsson

Ásbjörn Björgvinsson.

 

Image result for ásbjörn björgvinsson

ÆFING. F.v.: Halldór Gunnar Pálsson, Siggi Björns, Önundur Pálsson,

Árni Benediktsson,  Ásbjörn Björgvinsson og Jón Ingiberg Guðmundsson.

.Af www.dfs.is

 

 

 

 

03.11.2016 07:00

Merkir Íslendingar - Hörður Bjarnason

 

 

Hörður Bjarnason.

 

Merkir Íslendingar - Hörður Bjarnason

 

Hörður Bjarnason, húsameistari ríkisins, fæddist í Reykjavík 3. nóvember 1910 og ólst þar upp. Foreldrar hans voru Bjarni Jónsson, forstjóri Nýja Bíós í Reykjavík, og s.k.h., Sesselja Ingibjörg Guðmundsdóttir húsfreyja.
 

Hörður var í föðurætt af miklum listamannaættum. Föðursystkini Harðar voru Einar myndhöggvari; Guðný, amma Sveins Björnssonar sendiherra, og Valgerður, amma Nínu Tryggvadóttur listmálara.
 

Bjarni var sonur Jóns, b. á Galtarfelli, bróður Helga, langafa Alfreðs Flóka, teiknarans frábæra. Jón var sonur Bjarna, bónda í Bolafæti Jónssonar og Helgu Halldórsdóttur, systur Guðfinnu, langömmu Gests Þorgrímssonar myndlistarmanns. Sesselja var dóttir Guðmundar Guðmundssonar, bónda í Deild á Akranesi.
 

Eiginkona Harðar var Katla Pálsdóttir húsfreyja og eignuðust þau tvö börn, Áslaugu Guðrúnu og Hörð.

Hörður lauk stúdentsprófi í MA 1931, fyrrihlutaprófi í byggingarlist frá tækniháskólanum Darmstadt í

Þýskalandi 1934 og fullnaðarprófi (Diplom Ingeniör-Hochbau) frá háskólanum í Dresden 1937. Hann var skrifstofustjóri skipulagsnefndar ríkisins 1939-44, skipulagsstjóri ríkisins við stofnun þess embættis 1944-54 og húsameistari ríkisins 1954-79.
 

Þekktustu verk Harðar eru án efa Austurbæjarbíó (ásamt Gunnlaugi Pálssyni og Ágústi Steingrímssyni) Skálholtskirkja, Kópavogskirkja og Árnagarður við Suðurgötu.
 

Hörður sat í skipulagsnefnd ríkisins og skipulagsstjórn, í bygginganefnd Reykjavíkur, var framkvæmdastjóri Þingvallanefndar 1944-79, hafði umsjón með byggingaframkvæmdum á Keflavíkurflugvelli, átti sæti í varnarmálanefnd 1954-56, var formaður byggingarnefndar Þjóðleikhússins, lögreglustöðvar í Reykjavík, Ríkisútvarpsins, tollstöðvarhúss í Reykjavík og Þjóðarbókhlöðunnar.
 

Hörður lést 2. september1990.

Morgunblaðið 3. nóvember 2016

 

 

Skálholtskirkja.

 Skráð af Menningar-Staður

02.11.2016 21:41

Safnahelgi á Suðurlandi ekki haldin 2016

 

 

Safnahelgi á Suðurlandi ekki haldin 2016

 

Samtök safna, setra og sýninga á Suðurlandi hafa sent frá sér yfirlýsingu þar sem fram kemur að Safnahelgi á Suðurlandi verði ekki haldin að þessu sinni. Yfirlýsingin er eftirfarandi:

 

Samtök safna, setra og sýninga á Suðurlandi telja um 40 aðila á öllu Suðurlandi, sem eru flest öll söfn (bóka-, byggða-, lista- og skjalasöfn) setur og sýningar á Suðurlandi sem og menningar- og ferðamálafulltrúar svæðisins. Helsta viðfangsefni samtakanna hefur verið að halda Safnahelgi á Suðurlandi fyrstu helgina í nóvember ár hvert.

 

Safnahelgi á Suðurlandi fór af stað árið 2008 vegna áhuga á að kynna það starf sem fram fer á söfnum og setrum á Suðurlandi. Verkefnið var líka hvatning til þess að gera enn betur og efna jafnvel til fleiri viðburða. Nú er svo komið að safnahelgi er eiginlega orðin of umfangsmikil og svæðið of stórt í markaðslegu tilliti. Einnig vantar að vissu leyti samnefnarann sem var menningarfulltrúi Suðurlands, en það starf hefur verið lagt niður. Endurhugsa þarf því hvernig því gróskumikla starfi safna og setra á Suðurlandi verður komið á framfæri. 

 

Safnahelgi í þeirri mynd sem verið hefur verður því ekki haldin þetta árið, en sumir liðir hennar verða samt sem áður haldnir fyrstu helgina í nóvember, svo sem Safnahelgi í Vestmannaeyjum og Uppskeru- og þakkarhátíð Skaftárhrepps. Við hvetjum líka áhugasama að heimsækja söfn í sínu nágrenni og fylgjast með þeirri dagskrá sem þar er í gangi árið um kring.

 

Stjórn Samtaka safna, setra og sýninga á Suðurlandi.
Inga Jónsdóttir Listasafni Árnesinga, Hveragerði
Bryndís Hólmarsdóttir Menningarmiðstöð Hornafjarðar, Höfn
Eiríkur V. Sigurðsson Rangárþingi Ytra, Hellu
Kristín Jóhannesdóttir Eldheimum, Vestmannaeyjum
Lýður Pálsson Byggðasafni Árnesinga, Eyrarbakka


Af www.dfs.is


Skráð af Menningar-Staður

02.11.2016 06:32

Gísli á Uppsölum á Selfossi 9. des. 2016

 

 

Elfar Logi Hannesson sem Gísliu á Uppsölum.

 

Gísli á Uppsölum á Selfossi 9. des. 2016

 

 

Gísli á Uppsölum í Fischersetrinu Selfossi í Gamla-bankanum að Austurvegi 21 (inngangur norðan við hús)

föstudaginn 9. desember kl.20.00

Miðasala 894 1275 milli klukkan 20.00 og 22.00
Einnig hægt að panta með því að senda tölvupóst á komedia@komedia.is 

Miðaverð 3.500.- kr 

AÐEINS 50 SÆTI – AÐEINS ÞESSI EINA SÝNING

Gísli á Uppsölum er einstakt leikverk um einstakan mann. Einn stærsti viðburður íslenskrar sjónvarpssögu er Stiklu þáttur Ómars Ragnarssonar um einbúann Gísla Oktavíus Gíslason. Enn er Gísli landanum kær og hugleikinn. Hér er á ferðinni áhrifamikil sýning sem hefur hrifið áhorfendur líkt og saga söguhetjunnar. 

Höfundar leiksins eru Bílddælingarnir Elfar Logi Hannesson og Þröstur Leó Gunnarsson. Elfar leikur og Þröstur leikstýrir. Höfundur tónlistar er Svavar Knútur.

Áhorfendur segja:

,,Mæli svo með þessari sýningu, látið ekki Gísla á Uppsölum hlaupa frá ykkur."

,,Stórkostlegt einu orði sagt!"

,,Þessi sýning kom við allan tilfinningaskalann."

,,Mæli hiklaust með sýningunni sem er allt frá því að vera afar sorgleg upp í bráðskemmtileg."

,,Gísli á Uppsölum. Dásamleg sýning. Þið skuluð alls ekki missa af henni ef hann kemur nærri."

,,Fór á alveg brilliant leiksýningu áðan! Það var einleikurinn Gísli á Uppsölum sem um ræðir og mæli ég eindregið með henni! Það var bara allur tilfinningaskalinn á ferð held ég! Frábær leikari hann Elfar Logi......"

Uppbyggingasjóður Vestfjarða, Vesturbyggð, Arion banki - styrkja uppfærsluna á Gísla á Uppsölum


 

 
Skráð af Menningar-Staður

 

01.11.2016 21:58

1. nóvember 2016 - ALLRAHEILAGRAMESSA--HREKKJAVAKA

 

 
 

 

1. nóvember 2016 - ALLRAHEILAGRAMESSA--HREKKJAVAKA

 

Sannheilögum mönnum og píslarvottum voru helgaðir messudagar en þeim göfugmennum fjölgaði óðum þegar tímar liðu eins og vænta mátti og þar kom að ekki var lengur pláss handa öllum í almanakinu. Þá var brugðið á það snjallræði að helga afganginum eina sameiginlega messu á ári.

Þá varð til Allraheilagramessa ( festum omnium sanctorum)

Á Íslandi var Allraheilagramessa sannheilög hátíð, sá dagur var til dæmis einn þriggja daga á ári sem ferjumaður á Ölfusá fékk frí frá skyldum sínum. ( hinir voru páskadagur og vígsludagur kirkju hans).

Þá voru það lög að bændur áttu að láta af hendi rakna til fátækra sem svaraði einni máltið fyrir hvert hjúa sinna. Útdeilt á hreppsfundi.

Á Allraheilagramessu var sláturtíð lokið og nóg til af nýmeti. Gerði fólk sér glaðan dag með átveizlum eins og segir í vísu Jóns Thoroddsen:

Etum bræður ákaft svið
oss svo hrokafyllum
höfum góðan sveitasið
sveltum þá á millum

eða:

Höfum tófu og hundasið
hungrum þá á millum

 

Erlendis fór þessi hátíð smám saman að hafa á sér veraldlegt yfirbragð með glensi og óhófi í mat og drykk.
Á gamalli ensku heitir hátíðin Allhallow Even---sem varð Halloween árleg ærslahátíð sem er innflutt undir nafninu Hrekkjavaka til að hleypa lífi í verzlun þessa dagana.


 

Emil R. Hjartarson.

Af Facebook-síðu Emils R. Hjartarsonar.


Skráð af Menningar-Staður

01.11.2016 21:28

Styrkir til verkefna lausir til umsóknar

 

 

 


Fossinn Dynjandi í Arnarfirði og Hafliði Magnússon. Ljósm.: Björn Ingi Bjarnason.
 

Styrkir til verkefna lausir til umsóknar

 

Opnað hefur verið fyrir umsóknir um styrki til verkefna á sviði umhverfis- og auðlindamála og er umsóknarfrestur til kl. 16:00 1. desember 2016. Skila skal inn umsóknum á rafrænu formi á eyðublaðavef Stjórnarráðsins.
 

Umhverfis- og auðlindaráðuneytið veitir árlega styrki til verkefna sem falla undir málefnasvið þess, sbr. forsetaúrskurð nr. 71/2013 um skiptingu stjórnarmálefna milli ráðuneyta í Stjórnarráði Íslands. Styrkirnir eru ætlaðir til verkefna á vegum aðila utan ríkisstofnana og er heildarfjárhæð styrkja samkvæmt heimild í fjárlögum hverju sinni.
 

Ráðuneytið veitir eingöngu styrki til verkefna sem sannarlega falla undir verkefnasvið þess og áskilur sér rétt til að áframsenda umsóknir til annarra ráðuneyta, í samræmi við leiðbeiningaskyldu stjórnsýslulaga, falli verkefni betur að málaflokkum þeirra.
 

Hafi umsækjandi áður fengið styrk til verkefnis þarf að liggja fyrir greinargerð um framkvæmd fyrra verkefnis og ráðstöfun styrkfjárins til að ný umsókn komi til greina.
 

Upplýsingar um mat á umsóknum er að finna í 6. gr. úthlutunarreglna umhverfis- og auðlindaráðuneytisins.

Vakin er sérstök athygli á að umsækjendum er gert að sækja um á rafrænu formi áeyðublaðavef Stjórnarráðsins.

Aðgangur er veittur á kennitölu umsækjenda auk þess sem hægt er að skrá sig inn með rafrænum skilríkjum eða Íslykli frá Þjóðskrá.
 

Umsækjendur skrá sig inn og velja umhverfis- og auðlindaráðuneyti undir flipanum Eyðublöð.

Úthlutað er einu sinni á ári og eigi síðar en 31. janúar ár hvert.
 

Reglur um úthlutun.
 

Nánari upplýsingar veitir Sóley Dögg Grétarsdóttir í síma 545 8600 eða í tölvupósti á netfangið soley.gretarsdottir@uar.is

Ráðuneytið mun auglýsa síðar eftir umsóknum um rekstrarstyrki til félagasamtaka sem starfa á sviði umhverfis- og auðlindamála.


Af. www.stjornarradid.is


Skráð af Menningar-Staður

31.10.2016 21:55

Kiriyama Family safnar fyrir plötuútgáfunni

 

 

Guðmundur Geir og félagar vill að þið leggið ykkar af mörkum.

 

Kiriyama Family safnar fyrir plötuútgáfunni

 

Hljómsveitin Kiriyama Family hyggst gefa út sína aðra breiðskífu í haust og með hjálp aðdáanda sinna vonast sveitin eftir því að ná að safna fyrir útgáfunni á Karolina Fund.

 

Hljómsveitin hefur unnið sleitulaust að smíði annarar breiðskífu sinnar sem ber nafnið Waiting For…

Nú þegar hafa lögin ApartInnocence og Chemestry fengið að hljóma í eyrum landsmanna við góðar undirtektir sem einmitt má finna á þessari plötu.

 

Guðmundur Geir Jónsson, gítarleikarinn góðkunni, útskýrir söfnunarferlið frekar í myndbandinu hér að neðan, en hljómsveitarmeðlimir lofa að nýja platan verði algjör bomba!

 

Smellið hér: Kiriyama Family á Karolina Fund


Af www.sunnlenska.is


Skráð af Menningar-Staður


 

 

 

30.10.2016 20:46

Lokatölur í alþingiskosningunum 2016

 

Heildarúrslitin yfir landið.

 

Lokatölur í alþingiskosningunum 2016

 

Lokatölu bárust úr Norðvesturkjördæmi rétt fyrir kl 9 í morgun og því liggja úrslit fyrir í alþingiskosningunum. 
 

Sjálfstæðisflokkurinn fékk 29,1% og 21 þingmann kjörinn. Vinstri hreyfingin grænt framboð er með 15,8% og 10 þingmenn kjörna, bæta við sig þremur, Píratar eru með 14,4 prósent og 10 þingmenn, bæta við sig sex, Framsóknarflokkur er með 11,5 Prósent og 8 þingmenn, tapa 11 þingsætum, Viðreisn fær 10,4 prósent atkvæða og þingmenn - nýr flokkur á þing. Björt framtíð fær 7,2% og 4 þingmenn , tapa tveimur og Samfylking fær 5,8 prósent og 3 þingmenn, tapa 6. 

Sjálfstæðisflokkurinn, Píratar, Vinstri græn og Viðreisn geta vel við unað og eftir atvikum Björt framtíð, en bæði Framsókn og Samfylking gjalda afhroð.

Ríkisstjórn Framsóknar og Sjálfstæðisflokks er fallin.

 


Úrslitin í Suðurkjördæmi.Af www.ruv.is og www. mbl.is


Skráð af Menningar-Staður

 
 

29.10.2016 20:43

Frá kjörfundi á Eyrarbakka 29. október 2016

 


Kjörstjórn og dyravörður í Kjördeild V á Eyrarbakka.
F.v.: Lýður Pálsson, Siggeir Ingólfsson, Birgir Edwald og María Gestsdóttir.
Ljósm.: Björn Ingi Bjarnason.

 

Frá kjörfundi á Eyrarbakka 29. október 2016

 

Kjörfundur vegna alþingiskosninga í Sveitarfélaginu Árborg er haldinn laugardaginn 29. október 2016

 

Kjörfundur hófst kl. 9:00 og lýkur kl. 22:00.

Kosið er í fimm kjördeildum í sveitarfélaginu Árborg.

Skipt er í kjördeildir eftir búsetu kjósenda.
 

Staður Eyrarbakka

Kjördeild V

Fyrir kjósendur búsetta á Eyrarbakka og í dreifbýli við Eyrarbakka.


Fréttaritari af Menningar-Staður var á kjörstað á Eyrarbakka rétt upp úr kl. 20 og færði til myndar.


 


Hér má sjá -FlatEyrarbakkafólk- á leiðnni að kjósa.
 

Siggeir Ingólfsson dyravörður á kjörstað í Félagsheimilinu að Stað.
 Skráð af Menningar-Staður
  

29.10.2016 06:52

Auglýsing um kjörfund vegna alþingiskosninga í Sveitarfélaginu Árborg

 

 

Á Eyrarbakka er kosið í Félagsheimilinu Stað.

 

Auglýsing um kjörfund vegna alþingiskosninga í Sveitarfélaginu Árborg

 

Kjörfundur vegna alþingiskosninga í Sveitarfélaginu Árborg verður haldinn laugardaginn 29. október 2016

 

Kjörfundur hefst kl. 9:00 og lýkur kl. 22:00.

Kosið er í fimm kjördeildum í sveitarfélaginu.

Skipt er í kjördeildir eftir búsetu kjósenda.

 

Vallaskóli, Sólvöllum 2, Selfossi

Kjördeild I

Fyrir kjósendur við götur á Selfossi með götuheitum sem byrja á bókstöfunum A-F.

Íslendingar búsettir erlendis.

Óstaðsettir í hús í Sveitarfélaginu Árborg.

 

Vallaskóli, Sólvöllum 2, Selfossi

Kjördeild II

Fyrir kjósendur við götur á Selfossi með götuheitum sem byrja á bókstöfunum G-P.

 

Vallaskóli, Sólvöllum 2, Selfossi

Kjördeild III

Fyrir kjósendur við götur á Selfossi með götuheitum sem byrja á bókstöfunum R-Þ.

Fyrir kjósendur búsetta í Tjarnabyggð, í húsum sem ekki hafa götuheiti á Selfossi og í dreifbýli við Selfoss.

 

Grunnskólinn á Stokkseyri

Kjördeild IV

Fyrir kjósendur búsetta á Stokkseyri og í dreifbýli við Stokkseyri.

 

Staður Eyrarbakka

Kjördeild V

Fyrir kjósendur búsetta á Eyrarbakka og í dreifbýli við Eyrarbakka.

 

Kjósendur geta kannað á vefslóðinni www.kosning.is  hvort og þá hvar þeir eru á kjörskrá í Sveitarfélaginu Árborg.

 

Sérstök athygli er vakin á því að kjósendum er skylt að gera kjörstjórn grein fyrir sér með því að framvísa persónuskilríkjum með mynd.

 

Aðsetur yfirkjörstjórnar Sveitarfélagsins Árborgar á kjördegi verður í Vallaskóla, Sólvöllum 2, Selfossi. Sími: 480 5806.

 

Selfossi, 18. október 2016

 

Yfirkjörstjórn Sveitarfélagsins Árborgar

Ingimundur Sigurmundsson

Bogi Karlsson

Steinunn Fjóla Sigurðardóttir

 
Skráð af Menningar-Staður