![]() |
Samankomin á Eyrarbakka í tilefni afmælis Eiríks, föður Kristínar, árið 2015. |
Kristín Eiríksdóttir – 60 ára
Kristín Eiríksdóttir fæddist 12. nóvember 1958 í heimafæðingu í Hátúni á Eyrarbakka, þá þriðja barn hjóna og er hún uppalin á sama stað. Æska hennar einkenndist af öryggi og var hún ávallt umkringd stórfjölskyldunni. Hún var skírð í kirkjunni á Stokkseyri, þar sem afi hennar var meðhjálpari.
„Ég fór gjarnan til ömmu minnar á Stokkseyri og aðstoðaði við kartöfluræktun og fleira. Afi minn á Stokkseyri var verslunarstjóri og amma mín bóndi og þóttu þau hjónin framúrstefnuleg.“
Eiríkur, faðir Kristínar, starfaði alla tíð að iðn sinni og kom að mörgum framkvæmdum, s.s. byggingu einbýlishúsa á Eyrarbakka, byggingu fyrstu húsanna í Þorlákshöfn, byggingu núverandi ráðhúss Árborgar og fleiru.
Kristín gekk í barnaskólann á Eyrarbakka og fór síðan í gagnfræðaskólann á Selfossi, þá fór hún í fósturskólann og síðar í öldungadeildina við Fjölbrautaskóla Suðurlands.
Þá lagði hún stund á viðbótarnám í uppeldis- og kennslufræðum við Háskóla Íslands og fór síðan í framhaldsnám í stjórnun með áherslu á stjórnun menntastofnana (M.ed.) við sömu menntastofnun. Loks bætti Kristín við sig diplómanámi í opinberri stjórnsýslu fyrir stjórnendur í opinberri stjórsýslu.
Fyrst eftir útskrift starfaði Kristín við leikskólann Kópahvol í Kópavogi. Síðan fór hún að kenna bæði sex og tíu ára bekk við tvo barnaskóla; barnaskólann á Stokkseyri annars vegar og barnaskólann á Eyrarbakka hins vegar, og deildu þá yfirmenn vinnuframlagi Kristínar. Frá 1985 hefur Kristín starfað að mestu við leikskólastjórnun og síðastliðin átta ár verið leikskólastjóri í heilsuleikskólanum Árbæ á Selfossi. „Ég hef fengið að starfa svo lengi með börnum að börnin sem ég passaði eru sjálf orðin foreldrar barna sem ég passa.“
Heilsuleikskólinn Árbær hefur fengið styrki vegna þróunarverkefna í umsjón Kristínar, í samstarfi við dr. Önnu Magneu Hreinsdóttur og að fenginni ráðgjöf frá Allyson McDonald, Örnu H. Jónsdóttur, Jóhönnu Einarsdóttur o.fl.
Kristín var í æskulýðsfélagi í ungmennafélagi Eyrarbakka. Þá sat hún í stjórn Slysavarnafélagsins Bjargar á Eyrarbakka og er nú formaður Kvenfélags Eyrarbakka. Á árunum 2011 til 2015 var Kristín formaður Samtaka heilsuleikskóla, samhliða formennskunni í kvenfélaginu.
Helstu áhugamál Kristínar eru fjölskyldan, tónlist, kvikmyndir og lestur bóka.
Eiginmaður Kristínar er Erlingur Þór Guðjónsson, f. 1.1. 1958, vélvirki og athafnamaður. Foreldrar Erlings voru hjónin Erna Brynhildur Jensdóttir, f. 1.2. 1928, d. 2013, bóndakona á Tjörn í Biskupstungum, og Guðjón Gunnarsson, f. 17.6. 1922, d. 2018 bóndi.
Börn Kristínar og Erlings eru:
1) Helga Ýr, f. 27.7. 1983, hjúkrunarfræðingur, maki Hlynur Bárðarson líffræðingur (PhD), bús. í Kópavogi. Börn þeirra eru Kristín Edda, f. 2010; Margrét Una, f. 2014; og drengur, f. 2018.
2) Erlingur Þór, f. 15.10. 1989, vélfræðingur, maki Vilborg Kolbrún Vilmundardóttir, næringarfræðingur (MSc) og doktorsnemi, bús. í Reykjavík. Börn þeirra eru Guðgeir Þór, f. 2008; og drengur, f. 2018.
Systkini Kristínar eru Ingibjörg, f. 26.2. 1954, þjónustufulltrúi, bús. á Selfossi; Sigurlína, f. 22.6. 1956, bankastarfsmaður, bús. á Eyrarbakka; Helga, f. 26.2. 1960, d. 18.2. 1964; Árni, f. 10.3. 1965, bóndi á Ljónsstöðum við Selfoss.
Foreldrar Kristínar voru hjónin Vigdís Ingibjörg Árnadóttir, f. 29.8. 1932, d. 20.7. 1990, húsmóðir, og Eiríkur Guðmundsson, f. 21.6. 1928, d. 1.1. 2017, húsasmíðameistari. Þau voru bús. í Hátúni á Eyrarbakka.
![]() |
||
.
|
![]() |
Fánasetur Suðurlands að Ránargrund á Eyrarbakka flaggar pólskum í dag. |
11. nóvember - þjóðhátíðardagur Póllands
Þann 11. nóvember 1918 lauk einhverju skelfilegasta stríði sem sagan kann frá að greina. Að loknum hildarleik sammæltust menn um að réttur þjóða til sjálfsákvörðunar skyldi verða grunnur þeirrar Evrópu sem risi úr öskustó.
Um það voru flestir sammála. Reyndin varð sú að þjóðir reyndust vera misréttháar þegar að því kom að kjósa sér örlög, – en allt um það uxu ný ríki upp af sviðinni jörð.
Pólland, þetta fiðrildi Evrópu, sem eitt sinn var stærst ríkja álfunnar, hafði horfið í gin þriggja nágrannaríkja árið 1795.
Þann 11. nóvember 1918 voru stórveldin þrjú fortíð og af rústum þeirra risu nokkur frjáls og fullvalda ríki. Eitt þeirra var Pólland. Pólland varð sjálfstætt á sjálfan friðardaginn 11. nóvember 1918, fyrir réttum 100 árum. Uppá það halda Pólverjar þennan dag og við getum samfagnað.
Að þrem vikum liðnum getum við fagnað 100 ára afmælis íslensks fullveldis. Endurheimt fullveldi beggja ríkja óx með öðrum orðum af sviðinni jörð evrópskra vígvalla 1918 og draumnum um nýja Evrópu.
![]() |
||
. .
|
![]() |
Kótelettukvöld í Þingborg
Hið árlega Kótelettukvöld Flóamanna og vina þeirra var haldið með glæsibrag og fjölmenni í Þingborg laugardagskvöldið 27. október s.l., fyrsta vetrardag.
Um er að ræða uppskeruhátíð Flóamanna og á borðum voru kótelettur í raspi ásamt öllu tilheyrandi meðlæti og ostaterta frá MS í eftirrétt. Jafnframt er þetta styrktarhátíð Flóamannabókar sem sagnfræðingurinn Jón M. Ívarsson er að skrifa.
Veislustjórar voru Bjarni Stefánsson og Guðni Ágústsson og voru mörg skemmtiatriði svo sem; Farfuglarnir sem eru þær systur Unnur Birna og Dagný Halla Bassadætur frá Glóru ásamt leikkonunni Ágústu Evu Erlendsdóttur sem sungu og léku á hljóðfæri lög sem þær hafa útsett fyrir þrjár raddir. Fram fór Útsvarskeppni milli gömlu hreppanna; Hraungerðis- Villingaholts- og Gaulverjabæjarhreppa sem Sigmundur Stefánsson stjórnaði með aðstoð Jóns M. Ívarssonar. Sigurliðið var Gaulverjabæjarhreppur og fengu titilinn „Flóafíflið 2018.“
Þá var einnig happdrætti að venju með fjölda góðra vinninga. Vinningshafar voru m.a. Gísli Grétar Magnússon sem fékk forystugimbur frá Ytra-Álandi í Þistilfirði og Guðmundur Magnússon sem fékk ferð fyrir tvo með -STRÆTÓ – til Akureyrar fram og til baka með gistingu á KEA-hóteli í tvær nætur.
Björn Ingi Bjarnason færði Kótelettukvöldið til myndar.
1. hluti mynda á þessari slóð:
http://menningarstadur.123.is/photoalbums/288758/
.
![]() |
||||||||||||||||||||||||||||||||||||||
. .
|
![]() |
Matthías Jochumsson (1835 - 1920).
Matthías Jochumsson fæddist 11. nóvember 1835 að Skógum í Þorskafirði,
sonur Jochums Magnússonar og Þóru Einarsdóttur. Þóra var systir Guðmundar, pr. á Kvennabrekku, föður Ásthildar, móður Muggs, og föður Theodóru Thoroddsen skáldkonu, ömmu Dags Sigurðarsonar skálds.
Foreldrar Matthíasar bjuggu við barnaómegð og gestanauð á harðæristímum og fór því Matthías til vandalausra 11 ára. Hann var til sjós og í vinnumennsku og sinnti verslunarstörfum í Flatey þar sem hann kynntist fólki sem kom honum til mennta. Hann útskrifaðist frá Prestaskólanum þrítugur að aldri.
Matthías var prestur á Kjalarnesi en þar missti hann fyrstu og aðra eiginkonu sína með stuttu millibili. Hann sagði þá af sér prestsskap, fór utan og varð síðan ritstjóri Þjóðólfs. Eftir að Matthías giftist þriðju konu sinni var hann prestur að Odda á Rangárvöllum í nokkur ár en síðan á Akureyri.
Matthías og Steingrímur Thorsteinsson voru helstu skáldmæringar síðrómantísku stefnunnar. Vinátta þeirra var einlæg þótt oft hvessti á milli þeirra. Matthías var skáld mannlífs, örlaga og tilfinninga en Steingrímur skáld hinnar ósnortnu náttúru. Matthías var mælskur, andríkur og tilfinninganæmur en Steingrímur vitsmunalegra og líklega vandvirkara skáld. Matthías var auk þess eitt mesta trúarskáld þjóðarinnar. Hann orti lofsönginn sem síðar varð þjóðsöngur Íslands. Þá samdi hann leikritið Skugga-Svein, sem var klassískt leikhúsverk hér á landi á fyrstu áratugum íslenskrar leiklistar.
Að Skógum er minnismerki um Matthías, lágmynd eftir Helga Gíslason og bautasteinn úr Vaðalfjöllum.
Að Sigurhæðum á Akureyri er safn helgað minningu hans.
Ævisaga hans, eftir Þórunni Valdimarsdóttur, Upp á Sigurhæðir, kom út haustið 2006.
Matthías lést 18. nóvember 1920.
Skráð af Menningar-Staður.
![]() |
Guitar Islancia í Íþróttasalnum á Litla-Hrauni. F.v.: Björn Thoroddsen, Jón Rafnsson og Gunnar Þórðarson. Ljósm.: Björn Ingi Bjarnason. |
Góðir gestir á Litla-Hrauni
Það voru tónlistarsnillingarnir í tríóinu Guitar Islancia sem voru með magnaða tónleika í Íþróttasalnum á Litla-Hrauni í dag, miðvikudaginn 7. móvember 2018. Fangar fjölmenntu á tónleikana og voru sérlega ánægðir með tónlistarflutning þeirra þremenninga en tríóið skipa: Gunnar Þórðarson, gítar, Björn Thoroddsen, gítar og Jón Rafnsson,bassa.
Gunnar Þórðarson sagði skemmtilega frá því í dag þegar hann var á tónleikaferð í Bandaríkjunum á árinu 1979 með Ríó-tríóinu og spiluðu m.a. víða í háskólum. Einnig voru einir tónleikar þeirra í gríðarstóru fangelsi og mættu rúmlega 700 fangar á tónleikana í samkomusal fangelsisins. Ríó-tríóð lék sem fyrsta lag hið fallega lag -Á Sprengisandi- eftrir Sigvalda Kaldaláns. Skipti það engum togum að eftir flutning lagsins gengu allir fangarnir úr salnum nema 40 fangar. Er þetta í eina skiptið á löngum tónlistarferli Gunnars sem tónleikagestir hafa yfirgefið salinn.
Það náðist á mynd í Íþróttasalnum á Litla-Hrauni þegar Gunnar sagði frá þessu fórnandi höndum með tilþrifum.
![]() |
F.v.: Björn Thoroddsen, Gunnar Þórðarson og Jón Rafnsson.
.
![]() |
||||||||||||
. Björn Thoroddsen. .
|
![]() |
Við í Kiriyama Family spilum á morgun, miðvikudaginn 7. nóvember, á Iceland Airwaves í Gamla Bíó kl 19:50. Væri gaman að sjá sem flesta: Þeir sem ekki komast geta horft á tónleikana í beinni á RÚV - TV 2 |
Kiriyama Family á Iceland Airwaves 2018
ON venue
Gamla Bíó - Wednesday 7. nóv. - 19:50
Can see the event live at RÚV
http://www.ruv.is/sjonvarp/beint?channel=ruv2
OFF venue
Slippbarinn At Marina Hotel - Saturday10. nóv. - 17:30
See you all there!
Skráð af Menningar-Staður
![]() |
Ólafur Hannibalsson (1935 - 2015).
|
Merkir Íslendingar - Ólafur Hannibalsson
Ólafur Hannibalsson fæddist á Ísafirði 6. nóvember 1935.
Foreldrar hans voru Sólveig Sigríður Ólafsdóttir húsfreyja, f. 1904 á Strandseljum í Ögursveit, d. 1997, og Hannibal Gísli Valdimarsson, alþingismaður og ráðherra, f. 1903 í Fremri-Arnardal við Skutulsfjörð, d. 1991.
Ólafur lauk stúdentsprófi frá Menntaskólanum á Laugarvatni árið 1956 og stundaði nám við háskólann í Delaware í Bandaríkjunum og við hagfræðiháskólann í Prag í Tékklandi á árunum 1957 til 1962. Hann starfaði hjá Loftleiðum í New York, var ritstjóri Frjálsrar þjóðar 1964-1970, með árshléi 1968 þegar hann vann að hafrannsóknum. Hann var skrifstofustjóri ASÍ 1971-1977. Ólafur var varaþingmaður Sjálfstæðisflokksins í Vestfjarðakjördæmi 1995-1999.
Um tíu ára skeið til ársins 1987 var Ólafur bóndi í Selárdal og síðan blaðamaður, rithöfundur og ritstjóri. Ásamt Jóni Hjaltasyni og Hjalta Einarssyni skrifaði hann 50 ára sögu Sölumiðstöðvar hraðfrystihúsanna, sem út kom 1997. Hann þýddi Sögu þorsksins eftir Mark Kurlansky og skráði ásamt konu sinni Sólarmegin, endurminningar Herdísar Egilsdóttur kennara. Síðustu árin vann Ólafur að Djúpmannatali, skrá ábúenda við Ísafjarðardjúp frá 1801 til 2011, og kom ritið út í fyrra.
Ólafur lét sig þjóðmál miklu varða, tók virkan þátt í ýmsum aðgerðum, ritaði ótal greinar og hélt útvarpserindi um innlend og erlend málefni.
Eiginkona Ólafs er Guðrún Pétursdóttir lífeðlisfræðingur, f. 1950. Foreldrar hennar voru Pétur Benediktsson, alþingismaður og bankastjóri, og Marta Thors. Dætur Ólafs og Guðrúnar eru Ásdís og Marta. Börn Ólafs með fyrri eiginkonu sinni, Önnu G. Kristjánsdóttur kennara, f. 1935, eru Hugi, Sólveig og Kristín.
Ólafur lést á heimili sínu í Þykkvabæ í Reykjavík 30. júní 2015.
Skráð af Menningar-Staður.
![]() |
Hlynur Sigtryggsson (1921 - 2005). |
Hlynur fæddist að Núpi í Dýrafirði 5. nóvember 1921.
Foreldrar hans voru hjónin Hjaltlína Margrét Guðjónsdóttir, kennari og húsfreyja, frá Brekku á Ingjaldssandi, og séra Sigtryggur Guðlaugsson, prestur, og skólastjóri á Núpi, frá Þröm.
Systir Sigtryggs var Friðdóra, móðir Finns Sigmundssonar landsbókavarðar, afa Hallgríms Geirssonar, lögmanns og fyrrv. stjórnarformanns Árvakurs.
Bróðir Hlyns er Þröstur, fyrrverandi skipherra hjá Landhelgisgæslunni og einn þeirra fræknu skipherra sem stóðu í ströngu í Þorskastríðunum á áttunda áratugnum.
Eiginkona Hlyns var Jakobína Guðríður Bjarnadóttir sem lést haustið 1970 en dóttir þeirra er Ragnheiður Ingibjörg sálfræðingur, f. 1952.
Hlynur lauk stúdentsprófi frá Menntaskólanum á Akureyri 1942. Hann stundaði síðan nám í veðurfræði við Kaliforníuháskóla (UCLA) og lauk þaðan MA-prófi 1946. Á árunum 1954-55 var hann við nám og rannsóknarstörf við Stokkhólmsháskóla.
Hlynur var veðurfræðingur á Veðurstofu Íslands í Reykjavík á árunum 1946-52, en var þá ráðinn deildarstjóri Veðurstofu Íslands á Keflavíkurflugvelli. Hann var skipaður veðurstofustjóri sumarið 1963 og gegndi því til hausts 1989.
Um Hlyn sagði tengdasonur hans, Georg A. Bjarnason m.a. í minningargrein: „Hlynur bjó yfir mikilli hugarró og þolinmæði. Hann gat setið tímunum saman og gluggað í bækur og blöð um sín mörgu áhugamál; veðurfræði, eðlisfræði, stærðfræði, stjörnufræði, sögu, tónlist, ljósmyndun, stangveiði og fluguhnýtingar. Hann mundi flest sem hann las og virtist skilja samhengi í veröld vísinda og lista. Hann las stærðfræðisannanir af sama áhuga og aðrir lesa reyfara. Eins og oft er um afburðagáfað fólk hafði hann enga þörf fyrir að upphefja sjálfan sig, og var auðmjúkur og ljúfur í daglegum samskiptum.“
Hlynur lést 14. júlí 2005.
![]() |
Hlíð að Núpi í Dýrafirði, æskuheimili Hlyns sem nú er safn.
|
![]() |
Sveitarfélagið Árborg er fjölmennasta sveitarfélagið á Suðurlandi. Það varð til við sameiningu Eyrarbakkahrepps, Sandvíkurhrepps, Selfossbæjar og Stokkseyrarhrepps árið 1998 og er því 20 ára á þessu ári. Gríðarleg íbúafjölgun hefur orðið á skömmum tíma í sveitarfélaginu og eru íbúar nú orðnir rúmlega 9000. Einn af helstu kostum sveitarfélagsins eru fjölbreyttir búsetukostir í dreifbýli, búgarðabyggð, sjávarþorpum við ströndina og stóru þéttbýli. Í Svf. Árborg er gott mannlíf. Þar er miðstöð þjónustu á Suðurlandi, góðir skólar ásamt öflugu íþrótta-, félags- og menningarlífi. Mikil uppbygging hefur átt sér stað í sveitarfélaginu á undanförnum misserum sem hefur ýmis spennandi tækifæri og áskoranir í för með sér.
|
Mannauðsstjóri í Árborg
Sveitarfélagið Árborg óskar eftir að ráða mannauðsstjóra. Mannauðsstjóri leiðir þróun mannauðsmála og heyrir beint undir bæjarstjóra.
Um nýtt starf er að ræða og verður því í verkahring nýs starfsmanns að móta starfið í samráði við bæjarstjóra.
Um er að ræða fullt starf og ráðið verður í starfið frá og með áramótum.
Helstu verkefni:
• Ábyrgð á þróun og eftirfylgni með mannauðsstefnu Árborgar
• Ábyrgð á þróun og innleiðingu á mannauðsferlum
• Ráðgjöf og stuðningur við stjórnendur varðandi ráðningar, þjálfun, fræðslu og þróun starfsmanna
• Aðkoma að launasetningu og starfsmati
• Þátttaka í stefnumótun fyrir sveitarfélagið í heild
Menntunar- og hæfniskröfur:
• Háskólapróf á sviði mannauðsmála, vinnusálfræði eða sambærileg menntun sem nýtist í starfi
• Yfirgripsmikil reynsla af mannauðsmálum
• Þekking og reynsla á sviði opinberrar stjórnsýslu æskileg
• Þekking á kjarasamningum og reynsla af túlkun þeirra
• Framúrskarandi samskiptahæfni
• Frumkvæði og metnaður til að ná árangri í starfi
• Skipulagshæfni og færni til að vinna í hóp
Umsóknarfrestur er til og með 14. nóvember nk.
Umsóknir óskast fylltar út á www.hagvangur.is
Umsóknum skal fylgja ítarleg ferilskrá og kynningarbréf.
Öllum umsóknum verður svarað þegar ákvörðun um ráðningu liggur fyrir.
Skráð af Menningar-Staður
![]() |
Agnes M. Sigurðardóttir biskup ásamt Drífu Hjartardóttur. Ljósmynd/?Aðsend
|
Sunnlendingurinn og Önfirðingurinn Drífa Hjartardóttir á Keldum tók við stöðu forseta kirkjuþings við upphaf þingsins í gær. Með því varð hún fyrst kvenna til að gegna þeirri stöðu, en kirkjuþing er nú haldið í 57. sinn.
Hún tekur við af Magnúsi E. Kristjánssyni sem gaf ekki kost á sér aftur, eftir fjögur og hálft ár sem sitjandi forseti, að því er segir í tilkynningu frá kirkjunni.
Á kirkjuþingi sitja 29 fulltrúar, 12 prestar sem valdir eru af preststéttinni og 17 leikmenn kosnir af sóknarnefndum. Við lok þingsins í næstu viku fer fram kosning um nýtt kirkjuráð sem mun sitja næstu fjögur árin.
Drífa segist vera spennt fyrir hlutverkinu og að það séu tímamót að kona skuli vera kosin forseti kirkjuþings. „Ég tel þetta vera til marks um breytta tíma,“ segir Drífa í tilkynningunni.
Meðal þess sem er til umræðu á þinginu er sameining prestakalla og endurskoðun á sambandi ríkis og kirkju.
Drífa segir að helsta áskorunin séu samningar ríkis og kirkju. Hún telur að töluverðar breytingar muni verða á þeim og mikilvægt sé að unnið verði vel úr þeim málum.
Skráð af Menningar-Staður.
© 2021 123.is | Nýskrá 123.is síðu | Stjórnkerfi 123.is