![]() |
Varðskipið Ægir við bryggju á Flateyri skömmu eftir þorskastríðin. Ljósm.: BIB
|
Varðskipið Ægir beitti togvíraklippum á breskan landhelgisbrjót í fyrsta sinn.
Þetta gerðist innan 50 sjómílna markanna norður af Horni, nokkrum dögum eftir útfærslu landhelginnar.
Á rúmu ári tókst í 82 skipti að klippa á víra togara.
Morgunblaðið.
Skráð af Menningar-Staður.
![]() |
Kristján Runólfsson. |
Ljóðasetur Hveragerðis og vinir Kristjáns Runólfssonar minjasafnara ætla að halda hagyrðingamót í Hveragerði í kvöld, miðvikudaginn 5. september 2018, til styrktar Kristjáni og fjölskyldu hans.
Hagyrðingamótið verður það þriðja sem ljóðasetrið heldur og fer fram í Skyrgerðinni í Hveragerði.
Kristján hefur átt í harðri baráttu við krabbamein og dvelur nú á spítala. Eiginkona hans, Ragnhildur Guðmundsdóttir, er með MS-sjúkdóminn.
Kristján, sem er ættaður úr Skagafirði, stofnaði minjasafn Kristjáns Runólfssonar á Sauðárkróki fyrir um 18 árum en flutti safnið til Hveragerðis nokkrum árum síðar þegar fjölskyldan flutti þangað.
Kristján er góður og mikill hagyrðingur að sögn þeirra sem þekkja til hans þó hann hafi aldrei gefið út ljóðabók. Hann hefur tekið þátt í báðum hagyrðingamótum ljóðasetursins hingað til en mun ekki koma fram annað kvöld vegna veikindanna.
„Það er dýrt að reka svona veikindi,“ segir Sigurður Blöndal vinur Kristjáns og einn þeirra sem koma að mótinu. Hann býst við miklu fjöri og gerir ráð fyrir að um eitt hundrað ferskeytlur verði samdar annað kvöld.
Hagyrðingamótið hefst klukkan 20 í Skyrgerðinni í Hveragerði.
Aðgangseyrir er 2.000 kr. og rennur hann óskiptur til fjölskyldu Kristjáns.
Hjartamál og hugardraumar
Vorið mun koma og verma að nýju,
vaknar þá lífið um dali og grund,
aknandi bíðum við sólgeislahlýju,
sumars við fögnum með gleði í lund,
því skal ei vera með trega né tár,
tíminn hann líður, það vissa er klár.
Ljóð Kristjáns Runólfssonar.
Skráð af Menningar-Staður
![]() |
Heldur uppá vefinn Menningar-Stað
Uppáhaldsvefur Guðmundar Magnússonar, yfir-verkstjóra á Litla-Hrauni, er vefur Hrútavinafélagsins Örvars á Suðurlandi og Alþýðuhússins á Eyrarbakka: www.menningarstadur.123.is
Ort var:
Guðmundur á góðan skjá
gleður oft hans anda.
Saga - menning sagt er frá
sveitir og til stranda.
![]() |
Skráð af Menningar-Staður. |
![]() |
að kveldi 4. september 2018.
|
Fánasetur Suðurlands flaggar fyrir forsetahjónum
Fánasetur Suðurlands að Ránrgrund á Eyrarbakka flaggaði íslenskum fána í dag, þriðjudaginn 4. september 2018.
Það var gjört í minningu forsetahjónanna Jóns Sigurðssonar (1811 – 1879) og Ingibjargar Einarsdóttur (1805 – 1879) en þau gengu í hjónband á þessum degi árið 1845 eða fyrir 173 árum.
Þau stofnuðu heimili í Kaupmannahöfn. Forsetahjónin bjuggu á þremur stöðum í Kaupmannahöfn, áður en þau fluttu í stóra og glæsilega íbúð við Øster Voldgade (Jónshús) árið 1852 en þar bjuggu þau síðan til æviloka og héldu uppi mikilli risnu.
Ekki er vitað um aðra staði á landinu sem heiðra minningu Jóns og Ingaibjargar með sama hætti og Fánasetur Suðurlands að Ránargund á Eyrarbakka gerir í dag 4. september.
Skráð af Menningar-Staður.
![]() |
Jón Sigurðsson (1811 - 1879) og Ingibjörg Einarsdóttir (1805 - 1879). |
Jón Sigurðsson frá Hrafnseyri við Arnarfjörð, 34 ára skjalavörður (síðar nefndur forseti), og Ingibjörg Einarsdóttir, 40 ára, voru gefin saman í hjónaband þann 4. september 1845, en þau höfðu verið í festum í tólf ár.
Þau stofnuðu heimili í Kaupmannahöfn. Hjónin bjuggu á þremur stöðum í Kaupmannahöfn, áður en þau fluttu í stóra og glæsilega íbúð við Øster Voldgade (Jónshús) árið 1852 en þar bjuggu þau síðan til æviloka og héldu uppi mikilli risnu.
Haustið 1859 tóku þau til sín fósturson, Sigurð Jónsson 8 ára, systurson Jóns vestan af fjörðum, og ólu hann upp sem sinn eigin son en sjálf voru þau barnlaus.
Jón og Ingibjörg létust bæði í desember 1879.
![]() |
Øster Voldgade (Jónshús) í Kaupmannahöfn. |
Morgunblaðið - Dagar Íslands - Jónas Ragnarsson.
Skráð af Menningar-Staður.
![]() |
Kjartan Sveinsson (1926 - 2014). |
Merkir Íslendingar - Kjartan Sveinsson
Kjartan Sveinsson fæddist á Búðareyri við Reyðarfjörð 4. september 1926.
Foreldrar hans voru hjónin Guðný Pálsdóttir húsfreyja, f. á Kleif í Fljótsdal, S- Múl. 1906, d. 1997, og Sveinn Jónsson verslunarmaður, f. í Prestbakkakoti á Síðu,. V-Skaft., 1896, d. 1989.
Fjölskyldan flutti til Akureyrar þegar Kjartan var fjögurra ára,. til Ólafsfjarðar þegar Kjartan var sjö ára og tólf ára þegar fjölskyldan flutti til Reykjavíkur.
Kjartan lauk gagnfræðaprófi 1945 og tók próf upp í 3. bekk Menntaskólans í Reykjavík og náði því. Vegna bágrar fjárhagsstöðu fjölskyldunnar varð ekkert úr því námi. Á árunum 1946-1950 lærði hann húsasmíði hjá Tómasi Vigfússyni, 1950 fór hann á lýðháskóla í Svíþjóð í boði Norræna félagsins og 1952-1955 var hann í námi í byggingartæknifræði við Katrineholms tekniske skole í Svíþjóð.
Að loknu námi hóf hann störf á teiknistofu Húsameistara Reykjavíkur og starfaði þar í sex ár. Hann hóf síðan rekstur eigin teiknistofu 1961 og rak hana í 43 ár. Eftir hann liggja teikningar af u.þ.b. 5.000 einbýlishúsum og raðhúsum og 10.000 íbúðum í fjölbýlishúsum. Þá teiknaði hann einnig Hótel Örk í Hveragerði ásamt fjölda af byggingum fyrir skrifstofur, iðnað, skóla og verslanir.
Hann rak bílaþvottastöð í Sóltúni 3 um 37 ára skeið ásamt Hrefnu eiginkonu sinni og stjórnaði hún rekstri stöðvarinnar alla tíð. Árið 2006 seldu þau fyrirtækið.
Hinn 22.12. 1961 kvæntist Kjartan eftirlifandi eiginkonu sinni, Hrefnu Kristjánsdóttur, f. 10. desember 1928.
Dætur Hrefnu og Kjartans eru;
Álfheiður, f. 1963, og Arndís, f. 1965.
Synir Kjartans frá fyrri hjónaböndum:
Þórarinn, f. 1956, móðir Vilborg Ásgeirsdóttir, f. 1926, og Sveinn, f. 1957, d. 2000, móðir Kristín Árnadóttir, f. 1939. Fósturdóttir Kjartans, dóttir Hrefnu og Þóris Jónssonar, er Sigfríð Þórisdóttir, f. 1953.
Kjartan lést 27. september 2014.
![]() |
Hótel Örk í Hveragerði. |
Morgunblaðið.
Skráð af Menningar-Staður.
![]() |
Óseyrarbrú skal hún heita.
Mikill mannfjöldi fylgdist með opnun brúarinnar yfir Ölfusárósa.
"Til hamingju Árnesingar með Óseyrarbrú, Óseyrarbrú skal hún heita," sagði Þorsteinn Pálsson forsætisráðherra og fyrsti þingmaður Sunnlendinga í upphafi máls síns þegar hann opnaði brúna yfir Ölfusárósa formlega fyrir umferð á laugardag, 3. september. Mikill mannfjöldi var saman kominn við eystri brúarsporðinn til að fylgjast með opnun brúarinnar og fagna tilkomu hennar.
Snæbjörn Jónsson vegamálastjóri lýsti mannvirkinu og afhenti það formlega til Matthíasar Á. Mathiesens samgöngumálaráðherra. Matthías flutti ávarp, lýsti mikilvægi brúar gerðarinnar fyrir Árborgarsvæðið, rifjaði upp brúargerðina yfir Ölfusá við Selfoss og lagði áherslu á mikilvægi samgöngumála við mótun byggðastefnu í landinu.
Þorsteinn Pálsson forsætisráðherra minnti á það meðalannars í ávarpi sínu að mikilvægt væri að byggðarlögin næðu að hagnýta sér brúna sem best. Þannig næði framkvæmdin markmiði sínu.
Með tilkomu Óseyrarbrúar hefst umferð um Ölfusárósa eftir að hafa legið niðri í hartnær hundrað ár. Við Óseyrarnes var ferjustaður sem lagðist af með tilkomu Ölfusárbrúar við Selfoss.
Margir baráttumenn fyrir brúargerðinni höfðu á orði á opnunardaginn að lokið væri fjörutíu ára baráttu og þetta væri því mikill hátíðisdagur. Reyndar er mun lengra síðan fyrst var haft á orði að brúar væri þörf yfir ósinn. Opnuð var sýning í Stað á Eyrarbakka þarsem saga baráttunnar fyrir brúnni var rakin. Þar var einnig borið fram hátíðakaffi í tilefni dagsins.
Sjómenn á Eyrarbakka og Stokkseyri hafa lagt áherslu áað brúin geri þeim auðveldara um vik að sækja sjóinn frá Þorlákshöfn. Áhersla þeirra undirstrikar þýðingu brúarinnar fyrir Árborgarsvæðið sem atvinnulegrar heildar.
Að lokinni opnun brúarinnar bauð samgönguráðherra til hófs í Hótel Selfossi. Þar voru gestir ríflega þrjú hundruð. Flutt voru ávörp þar sem þýðing brúarinnar var undirstrikuð og tilkoma hennar lofuð. Brúarverktakarn ir þökkuðu fyrir sig með því að afhenda vegamálastjóra litmynd af brúnni og einnig oddvita Eyrarbakkahrepps. Í hófinu var tveggja baráttumanna sérstaklega getið, þeirra Sigurðar Óla Ólafssonar fyrrum alþingismanns og Vigfúsar Jónssonar fyrrum oddvita á Eyrarbakka.
Eftir opnun brúarinnar var strax mikil umferð um hana og stöðugur straumur bifreiða var með ströndinni fram eftir degi. Þýðing brúarinnar í hugum manna er mikil og möguleikarnir margir sem hún er talin opna íbúum svæðisins í félagslegu og atvinnulegu tilliti. Hringvegurinn um Árborgarsvæðið er 3 kílómetrar og nú er jafn langt til Reykjavíkur frá Eyrarbakkaog frá Selfossi.
![]() |
- Sig. Jóns.
Morgunblaðið mánudagurinn 6. september 1988 - Sigurður Jónsson á Selfossi.
Skráð af Menningar-Staður.
![]() |
Ljóðasetur Hveragerðis heldur hagyrðingakveld miðvikudaginn 5. september nk. kl. 20:00 í Skyrgerðinni (gamla hótelið í bænum). Þetta er í þriðja sinn sem Ljóðasetur Hveragerðis stendur fyrir hagyrðingakveldi.
Sex bráðsmellnir hagyrðingar munu kasta á milli sín vísum, ferskeyttum og yrkja um hin ýmsu mál, sem efst eru á baugi í samfélaginu ásamt ýmsu öðru, svo sem að yrkja vísur um stuttar gamansögur sem sagðar verða. Og allt þetta verður gert á gamansömum og fyndnum forsendum.
Hagyrðingarnir sem fram koma eru;
sr. Hjálmar Jónsson, fyrrv. dómkirkjuprestur,
Sigurjón Jónsson kenndur við Skollagróf,
Sigrún Haraldsdóttir,
Jón Ingvar Jónsson
og svo Hvergerðingarnir;
Kristján Runólfsson
og Hjörtur Benediktsson.
Ljóðasetur Hveragerðis er nú á sínu þriðja ári og markmið þess er að stuðla að aukinni ljóðlist, iðkun hennar og auknum áhuga fyrir henni í Hveragerði.
Forsala aðgöngumiða er í Shellskálanum og bókasafni Hveragerðis í Sunnumörk. Miðar verða svo seldir við innganginn meðan húsrúm leyfir. Takmarkað miðaframboð er svo vissara er að tryggja sér miða í tíma. Miðaverð er 2.000 kr. (athugið ekki posi).
Einnig er hægt að forpanta miða á netfanginu: sblond@hveragerdi.is. Vinsamlegast skráið nafn og símanúmer. Hagyrðingakveldið er styrktarverkefni og verður styrþeginn tilnefndur þessa kveldstund.
Skráð af Menningar-Staður
![]() |
Á Þingvöllum. Harald og Stefanía stödd við Flosagjá sem Kjarval málaði mynd af og nefndi Fjallamjólk. |
Hóf listaferilinn fyrir rúmum sextíu árum
Harald G. Haralds fæddist 1. september 1943 í Reykjavík og ólst þar upp.
Hann var í Miðbæjarskólanum, Hlíðardalsskóla, lauk landsprófi frá Gagnfræðaskólanum í Vonarstræti, stundaði nám við Leiklistarskóla Leikfélags Reykjavíkur og lauk þaðan prófum 1969.
Harald söng með ýmsum danshljómsveitum frá 1958-64 og byrjaði ferilinn á því að syngja opinberlega á tónleikum aðeins fjórtán ára gamall. „Það var hálfgert áfall fyrir mig þegar ég stóð allt í einu frammi fyrir fullu húsi af fólki og átti að fara að syngja, en það bráði af mér og mér skilst að ég hafi komist vel frá þessu. Haukur Morthens hafði heyrt af mér því ég hafði komið fram á skólaskemmtun og fékk mig til að syngja á þessum tónleikum í Austurbæjarbíói. Við spiluðum alvöru rokk eins og Elvis Presley og Little Richard gerðu og ég hreifst af.“ Meðal hljómsveita sem Harald söng með voru unglingahljómsveitin Diskó-Sextett, KK-Sextettinn, Hljómsveit Andrésar Ingólfssonar, Hljómsveit Finns Eydals og loks Hljómsveit Guðmundar Ingólfssonar píanósnillings.
Harald var jafnframt verslunarmaður við reiðhjólaverslunina Örninn frá því á unglingsárunum og til 1960, starfaði við Innkaupastofnun Reykjavíkurborgar 1962-65, við Landsbanka Íslands 1965-69, var verslunarmaður í Erninum 1970-75, var framkvæmdastjóri í Erninum 1979-90, var innkaupastjóri fyrirtækisins 1990-2000 og hefur auk vinnu við ýmis leiklistarstörf stundað þýðingar og unnið við markaðssetningu. Harald hefur verið aðstoðarmaður Jóhanns Sigurðssonar útgefanda hjá Saga forlagi frá 2002 við útgáfu og dreifingu fimm binda heildarútgáfu Íslendingasagna og þátta á ensku, dönsku, norsku og sænsku og nú síðast fimm binda heildarútgáfu Íslendingasagna og þátta á íslensku í tilefni aldarafmælis fullveldis Íslands.
Harald var lengst af fastráðinn leikari hjá Leikfélagi Reykjavíkur 1969-84, leikari hjá LR, Þjóðleikhúsinu og ýmsum öðrum leikhúsum, s.s. Alþýðuleikhúsinu og Kaffileikhúsinu frá 1984, hefur leikið í fjölda útvarpsleikrita, í sjónvarpi og kvikmyndum, stundað talsetningu fyrir kvikmyndir og auglýsingar. Hann tók þátt í fjölda skemmtana á vegum Leikfélags Reykjavíkur, í tónlistaruppákomum og í revíum. Hann hefur leikið vel á sjöunda tug sviðshlutverka, m.a., Dátann, í Sögunni af dátanum, eftir Charles Ramuz og Igor Stravinsky; Hemma, í Hemma, eftir Véstein Lúðvíksson; Natan, í Skáld-Rósu, eftir Birgi Sigurðsson; Garry, í Garry Kvartmilljón, eftir Allan Edwald, Gvendó, í Dúfnaveislunni, eftir Halldór Laxness; Magnús í Bræðratungu, í Íslandsklukkunni, eftir Halldór Laxness; sögumanninn, í Blóðbræðrum, eftir Willy Russell; Jason, í Medeu, eftir Evripídes, og Macduff í Macbeth o.s.frv.
„Áhugamálin eru ansi mörg, þar á meðal leiklist, góðar bíómyndir og bækur, allt sem snertir góðar sögur og túlkun á þeim. Svo hlusta ég mikið á tónlist, fer oft á tónleika og er með frekar víðfeðman smekk, frá rokki yfir í klassík og allt þar á milli. Til að halda heilsu sæki ég sundstaði og reyni að njóta útiveru eins og ég get og nýt í leiðinni dýralífs og náttúru.“
Fjölskylda
Vinkona Haralds er Stefanía Erlingsdóttir, móttökuritari hjá Heilbrigðisstofnun Suðurlands, f. 28. júní 1953, og búa þau á Eyrarbakka.
Dóttir Haralds er Helga Kristín Haraldsdóttir, f. 24.3. 1968, verkefnastjóri hjá Jónsson og Le’Macks, búsett í Hafnarfirði, og sonur hennar er Óðinn, f. 1.11. 2008. Börn Haralds og fyrrv. eiginkonu hans, Guðnýjar Daníelsdóttur, eru Daníel Ágúst Haraldsson, f. 26.8. 1969, tónlistarmaður í Reykjavík, en dóttir hans og Gabrielu Friðriksdóttur listamanns er Daníela, f. 2.12. 1989. Dóttir Daníelu er Una Guðný, f. 13.7. 2007; Sara Haraldsdóttir, f. 17.4. 1971, leikskólakennari í Reykjavík. Dóttir Söru og Jóhanns Arnar Geirdal er Álfrún Freyja, f. 2.11. 2000, og sonur þeirra er Óðinn Örn, f. 9.3. 2006. Dóttir Söru er Margrjet, f. 30.7. 1996. Sonur Haralds er Georg Haraldsson, f. 8.12. 1976, forstöðumaður viðskiptastýringar hjá Iceland Travel, búsettur í Reykjavík, en kona hans er Hjördís Jónsdóttir, viðskiptafræðingur og dóttir þeirra er Elísa, f. 6.8. 2011 og synir Jón Sölvi, f. 17.6. 2013 og Ólíver, f. 19.10. 2016. Sonur Georgs og Hjördísar Bjarnþórsdóttur er Róbert Smári, f. 12.3. 2005.
Hálfbróðir Haralds, samfeðra, er Grímur Örn Haraldsson, f. 18.12. 1938, vélsmiður í Garðabæ. Alsystkini Haralds eru Sólveig Haraldsdóttir Hart, f. 9.2. 1946, húsmóðir í Birmingham á Englandi; Sigríður Haraldsdóttir, f. 23.10. 1947, húsmóðir í Kópavogi. Foreldrar Haralds voru hjónin Haraldur S. Guðmundsson, f. 9.1. 1917, d. 20.9. 1979, stórkaupmaður í Reykjavík, og k.h., Sigurbjörg Bjarnadóttir, f. 20.10. 1924, d. 30.7. 2010, húsmóðir og verslunarmaður.
Morgunblaðið laugardagurinn 1. september 2018.
Skráð af Menningar-Staður.
![]() |
Þér hrútar
Hér skal skeytt kvæðinu -Þér hrútar- sem Guðmundur Ingi Kristjánsson bóndi og skáld á Kirkjubóli í Bjarnardal í Önundarfirði orti fyrir um nítíu árum.
Varla hefur nokkur maður kveðið betur eða meira um íslenskan landbúnað og lífið og starfið í sveitum.
Athygli einhverra kann að vekja, að skáldið þérar hrútana sína.
Þér hrútar
Þér hrútar, ég kveð yður kvæði.
Ég kannast við andlitin glöð,
er gangið þér allir á garðann
að gjöfinni, fimmtán í röð.
Í heyinu tennurnar hljóma
við hornanna leikandi spil.
Það bylur í jötunnar bandi
og brakar við stein eða þil.
Í hóp yðar stöðvast ég stundum
og stend yður dálítið hjá.
Ég hallast við bálkinn og horfi
í hrútsaugun skynug og blá.
Ég bökin og bringurnar spanna
og blíðlega strýk yfir kinn.
Þér heilsið með hornum og vörum.
Hver hrútur er félagi minn.
Ég veit yðar látbragð og leiki,
er losuð er fjárhúsavist.
Þá gangið þér greiðir í túnið
og gleðjist við atlögur fyrst.
og margur er merktur og særður,
en minnstur sá hrútur, er veik.
Og hugfanginn horfði ég löngum
á hornanna blóðuga leik.
Svo fylgi ég ferlinum lengra.
Þá fagnið þér vorlífsins hag,
er fetið þér snöggir til fjalla
einn farsælan góðviðrisdag.
Í háfjalla hlíðum og drögum
er hrútanna kjarnmikla beit.
Og sælt er að standa uppi á stalli
og stara yfir kyrrláta sveit.
Er sólríku sumrinu hallar,
þá sést yðar útigangsbragð.
Þér komið af öræfum allir
með aurugan, blaktandi lagð.
Þótt gott væri hnjúkinn að gista
við gróður og útsýni hans,
þá lutuð þér herskáum hundum
og hrópyrðum smölunarmanns.
Þar komið þér kátir og feitir.
Ég kannast við andlitin glöð,
er haldið þér allir sem hópur
að húsunum, fimmtán í röð.
Á veggjunum villist þér ekki,
en vitið um hurðir og þil.
Svo heilsið þér herbergjum yðar
með hornanna leikandi spil.
![]() |
Skráð af Menningar-Staður.
© 2021 123.is | Nýskrá 123.is síðu | Stjórnkerfi 123.is