Menningar-Bakki * Viðhalda og efla þjóðlega menningararfleið til sjávar og sveita*
-------- Alþýðuhúsið á Eyrarbakka - Vinir alþýðunnar - Á undan sinni framtíð --- "Stærra í hugum okkar en við sjálfir gerum okkur grein fyrir" ---

21.06.2017 10:58

FIMMTA HJÓLABÓK ÓMARS SMÁRA

 

 

 

FIMMTA HJÓLABÓK ÓMARS SMÁRA

 

Hjá Vestfirska forlaginu er komin út fimmta Hjólabókin eftir Ómar Smára Kristinsson og fjallar hún um Rangárvallasýslu. 

Viltu ferðast á frábæra staði?

Viltu samt losna við fjölmenni?

Þá er reiðhjólið rétti ferðamátinn og Rangárvallasýsla rétti staðurinn. Svo segir höfundur hjólabókanna, en hann er fæddur í Rangárvallasýslu.
 

Í bókinni er lýst ellefu hjólreiðaleiðum, auðveldum og erfiðum, sem eiga það sameiginlegt að þær liggja í hring og að hægt er að loka hringnum á einum degi. Hverri leiðarlýsingu fylgja tillögur að fleiri ferðum. Þar að auki er nokkurra léttra hringleiða, sem ekki teljast til dagleiða, getið í bókinni. Einnig er í henni að finna kort af almenningssamgöngum og umferðarþunga.
 

Um eitt og hálft hundrað ljósmynda gefa innsýn í sýsluna, hvernig þar er umhorfs og hverskonar vegir og stígar bíða lesenda. 
 


Textinn er margbreytilegur, fjölhæfur og skemmtilegur líkt og í fyrri Hjólabókum Ómars Smára.

 

 

Ómar Smári Kristinsson.

 

 

 Skráð af Menningar-Staður

21.06.2017 09:17

21. júní 2017 - Sumarsólstöður

 

 

Flaggað grænlenskum fána við Fánasetur Suðurlands á Eyrarbakka.

 

21. júní 2017 - Sumarsólstöður

 

Í dag, miðvikudaginn 21. Júní 2017, eru sólstöður að sumri, en þá er dagurinn lengstur hjá okkur.  Á því augnabliki snýr norðurpóll jarðar næst sólu.
 

Upp úr þessu fara dagarnir að styttast en þrátt fyrir það mun þó líklega hlýna enn um sinn því að meðaltali er hvað hlýjast í lok júlí.

21. júní 2017 – Þjóðhátíðardagur Grænlendinga
Skráð af Menningar-Staður

21.06.2017 07:38

Eyrarbakka Ingimar lét til sín taka

 

 

Eyrbekkingurinn Ingimar Helgi Finnsson skoraði eitt

og lagði upp tvö á átta mínútna kafla.

Ljósm.: sunnlenska.is/Guðmundur Karl

 

Eyrarbakka Ingimar lét til sín taka

 

Knattspyrnufélag Árborgar vann öruggan sigur á Úlfunum á útivelli í 4. deild karla í knattspyrnu í gærkvöldi. Eyrbekkingurinn Ingimar Helgi Finnsson var maður kvöldsins hjá þeim bláu.

 

Árni Páll Hafþórsson skoraði eina mark fyrri hálfleiks um miðjan hálfleikinn og staðan var 0-1 í leikhléi, þrátt fyrir margar góðar sóknir Árborgar.

 

Árborg stýrði leiknum í seinni hálfleiknum og fengu nokkur prýðileg færi sem öll fóru í súginn. 

 

Þegar fjórtán mínútur voru til leiksloka kom Eyrbekkingurinn Ingimar Helgi Finnsson inná hjá Árborg, í sínum 50. leik fyrir félagið. Hann hélt upp á það með því að leggja upp tvö mörk og skora eitt á átta mínútna kafla í kjölfarið.

 

Ingimar byrjaði á því að vinna boltann og senda frábæra sendingu innfyrir á Magnús Helga Sigurðsson sem lék á markmanninn og skoraði í autt markið. Fjórum mínútum síðar fengu Árborgarar hornspyrnu, boltinn barst á Ingimar á fjærstönginni sem skoraði af öryggi.

 

Aftur liðu fjórar mínútur þangað til Ingimar sendi boltann á Ingva Rafn Óskarsson sem skoraði með góðu skoti. Lokatölur 4-0.

 

Sigurinn fleytti Árborg upp í 3. sæti C-riðilsins en liðið hefur 10 stig og er þremur stigum á eftir toppliði Léttis.

 

Í A-riðlinum tapaði Hamar sínum fyrsta leik í sumar þegar liðið heimsótti Hvíta riddarann. Lokatölur urðu 1-0 en Riddararnir skoruðu sigurmarkið á 35. mínútu. Hamar gaf því eftir toppsætið í þessari umferð, en hefur 12 stig í 2. sætinu.

Af www.sunnlenska.is


Skráð af Menningar-Staður

20.06.2017 21:37

Kiriyama Family - Útgáfutónleikar 23. júní 2017

 

 


Kiriyama Family - Útgáfutónleikar 23. júní 2017

 

Hljómsveitin Kiriyama Family ætlar að fagna útgáfu annarar breiðskífu sinnar Waiting For… með veglegum útgáfutónleikum í Tjarnarbíói föstudagskvöldið 23.júní 2017.

 

Kiriyama Family hefur verið þekkt fyrir líflega og vandaða tónleika. Hljómsveitin hefur verið áberandi í íslensku tónlistarlífi allt frá útgáfu fyrstu breiðskífu sinnar sem kom út árið 2012.

 

Fjöldi gestahljóðfæraleikara munu koma fram ásamt hljómsveitinni til að flytja nýja verkið ásamt eldri lögum. Upphitun mun vera í höndum nýkrýndra sigurvegara Músiktilrauna 2017, Between Mountains.

 

Tónleikarnir hefjast stundvíslega kl 20:30


 

 
  •  Tjarnarbíó
  •  Tjarnargötu 12
  •  101 Reykjavíkmidi.isSkráð af Menningar-Staður

20.06.2017 21:12

Jónsmessuhátíð á Eyrarbakka 24. júní 2017

 

 

Jónsmessuhátíð á Eyrarbakka 24. júní 2017

 

09:00               Fánar dregnir að húni við upphaf 19. Jónsmessuhátíðarinnar

Eyrbekkingar flagga íslenska fánanum eða Bakkafánanum og ganga frá skreytingum í hverfalitum og bjóða gesti velkomna. Björgunarsv. Björg býður upp á ókeypis veiði í Ölfusá fyrir landi Eyrarbakka.

 

09:00-21:00   Verslunin Bakki við Eyrargötu

Verslunin opin allan daginn og fram á kvöld. Börnin fá ís um miðbik dagsins. Óvænt uppákoma um miðjan dag.

 

09:30-11:00    Morgunstund í Hallskoti

Skógræktarfélag Eyrarbakka tekur á móti gestum og býður upp á hressingu í skóginum.

 

10:00-11:30    Kjólakaffi með Aubý í Húsinu

Gestir mæta í kjólum eða kjólfötum og þiggja frúarkaffi í stássstofu með fyrrum húsfreyju Hússins, Auðbjörgu Guðmundsdóttur.

 

10:30-17:00   Laugabúð við Eyrargötu

Einstakur bókamarkaður í kjallaranum – mikið úrval nýrra og gamalla bóka á frábæru tilboðsverði. Spjall í búðinni allan daginn.

 

11:00-22:00   Rauða húsið á Eyrarbakka

Rauða húsið er opið allan daginn og þar er boðið upp á ókeypis eftirrétt með öllum aðalréttum á matseðli.

 

11:00-18:00   Söfnin á Eyrarbakka

Opið í Byggðasafni Árnesinga í Húsinu, Sjóminjasafninu og Kirkjubæ. Í borðstofu Hússins er sýningin KjólarÓkeypis aðgangur.

 

11:00                Unga kynslóðin skemmtir sér

Brúðubíllinn kemur í heimsókn að Sjóminjasafninu og Lilli litli heilsar upp á alla gömlu góðu vinina sína á Eyrarbakka. Boðið upp á hressingu.

Hestar teymdir undir börnum á Garðstúninu í boði Bakkahesta.

 

12:00               BMX BRÓS

BMX BRÓS sýna listir sínar á BMX hjólum við Sjóminjasafnið.

 

12:00-14:00  Bubbluboltar

Björgunarsveitin Björg verður með bubblubolta á Garðstúninu.

 

12:00-14:00   Heimboð í Garðshorn

Árleg Jónsmessusúpa og rabarbaragrautur í Garðshorni í boði húsráðenda Elínbjargar og Vigfúsar.

Allir velkomnir.

 

13:00-14:30   Diskótek fyrir yngri kynslóðina

DJ Sveppz sér um diskótek við Sjóminjasafnið og allir dansa með.

 

14:00-16:00  Tekið á móti gestum

Guðlaug Einarsdóttir og Jón Matthíasson á Túngötu 41 bjóða gestum heim til sín í spjall.

Esther Helga Guðmundsdóttir í Einarshöfn 4 – Jakobsbænum opnar hús sitt fyrir gestum og gangandi.

 

16:00-18:00  Marþari

Ásta Villa Guðmundsdóttir á Kaldbak fremur gjörning á Vesturbryggjunni.

 

16:00-17:00  Fuglasöngur og annað kvak

Valgeir Guðjónsson skemmtir ungum og öldnum með fuglasöng og öðru kvaki í Eyrarbakkakirkju.

 

20:15-21:30  Blandaði Bakkakórinn

Heimir Guðmundsson leikur undir almennan söng í stássstofu Hússins. Húsið opnað kl. 20 – þeir sem fyrstir koma fá sæti!

 

22:00             Jónsmessubrenna

Jónsmessubrenna í fjörunni vestan við Eyrarbakkaþorp. Eiríkur Már Rúnarsson ávarpar gesti og hið frábæra Bakkaband heldur svo uppi fjörinu fram eftir kvöldi.

 

23:00             Rauða húsið

Kjallarinn opinn og Grétar í Sólvangi ætlar að spila og syngja.

 

Tjaldsvæðið vestan þorpsins er opið – öll þægindi og nóg pláss.

 

Jónsmessuhátíðin er styrkt af Sveitarfélaginu Árborg, Versluninni Bakka, MS, Guðnabakaríi, Krás, Árhúsum Hellu, Bakkahestum, Ungmennafélagi Eyrarbakka og Björgunarsveitinni Björg.

 

Af www.eyrarbakki.isSkráð af Menningar-Staður

 

19.06.2017 20:40

19. júní 1915 - kon­ungs­úrsk­urður um gerð ís­lenska fán­ans

 Flaggað íslenskum fána við Fánsetur Suðurlands á Eyrarbakka.
 

 

19. júní 1915

- kon­ungs­úrsk­urður um gerð ís­lenska fán­ans

 

Þann 19. júní árið 1915 var gef­inn út kon­ungs­úrsk­urður um gerð ís­lenska fán­ans.

 

Hann átti að vera þrílit­ur:

„Heiðblár (ultram­ar­in­eblár) með hvít­um krossi og hárauðum krossi inn­an í hvíta kross­in­um.“

 

Litirnir áttu að tákna fjallablámann, ísinn og eldinn. 

 

Morgunblaðið - Dag­ar Íslands-| Jón­as Ragn­ars­sonSkráð af Menningar-Staður

19.06.2017 20:36

19. júní 1915 - Kvenréttindadagurinn

 

 

 

19. júní 1915 - Kvenréttindadagurinn

 

Kristján konungur X staðfesti breytingar á stjórnarskránni þann 19. júní árið 1915. 

Konur fengu þá kosningarétt og kjörgengi til Alþingis, en fyrst í stað var miðað við 40 ára og eldri. 

Réttindunum var fagnað á Austurvelli 7. júlí, við setningu Alþingis.

 

Morgunblaðið- Dagar Íslands - Jónas Ragnarsson.
 Skráð af Menningar-Staður

19.06.2017 07:03

Herðubreið - drottning íslenskra fjalla í þjóðhátíðarbúningi

 

 

Fjallið Herðubreið þann 17. júní 2017. Ljósm.: Júlía B. Björnsdóttir.

 


Herðubreið 

– drottning íslenskra fjalla í þjóðhátíðarbúningi

 

HERÐUBREIÐ er þjóðarfjallið í huga flestra Íslendinga ef marka má niðurstöður könnunar sem gerð var á árinu 2002.
 

Vel á þriðja þúsund manns þátt í könnuninni sem fór fram á Netinu. Flestir eða 48% töldu Herðubreið vera þjóðarfjallið, 16% nefndu Heklu og 13% Snæfellsjökul en alls voru nefnd 75 fjöll.
 

Herðubreið er 1682 metra hátt móbergsfjall norðan Vatnajökuls. Hún er í Ódáðahrauni og er oft nefnd „Drottning íslenskra fjalla“ vegna þess hve mörgum finnst hún formfögur.
 

Fjallið myndaðist við eldgos undir jökli. Á toppi þess eru hraunlög og hefur gosið því náð upp úr jöklinum. Slík fjöll, þ.e.a.s. móbergsfjöll með hraunlögum að ofan, kallast stapar.

Herðubreið, drottning íslenskra fjalla, skartaði sínu fegursta á þjóðhátíðardeginum, 17. júní sl. og heiðraði þannig minningu Jóns Sigurðssonar frá Hrafnseyri við Arnarfjörð.

 

Á myndum Júlíu B. Björnsdóttur má sjá  að sá sem öllum skreytingum í nátturunni ræður hefur fært Herðubreið í umgjörð skautbúnings og þannig jafnað fjallkonur á samkomum í byggðum Íslands.

 

 

Fjallið Herðubreið þann 17. júní 2017. Ljósm.: Júlía B. Björnsdóttir.
Skráð af Menningar-Staður
 

18.06.2017 09:33

Þóra Ósk Guðjónsdóttir fjallkonan á Eyrarbakka

 


Þóra Ósk Guðjónsdóttir.
Ljósm.: Sædís Ósk Harðardóttir.

 

 

Þóra Ósk Guðjónsdóttir fjallkonan á Eyrarbakka

 

17. júní á Eyrarbakka í gær.

 

Fjallkonan var Þóra Ósk Guðjónsdóttir og bar það hlutverk einstaklega vel, duglegri og glaðlyndari kona er vandfundin.

Með henni voru fánaberar Birgitta Hlöðversdóttir og Valgerður Gunnarsdóttir  sem voru afar flottar og stóðu sig vel.


Sædís Ósk Harðardóttir skrifar.

 

.
Skráð af Menningar-Staður.


 

18.06.2017 08:42

Landsmót UMFÍ 50+ fer fram 23. - 25. júní 2017 í Hveragerði

 

 

Frá Héraðsmóti að Núpi í Dýrafirði um eða rétt fyrir 1980.

Ljósm.: BIB

 

Landsmót UMFÍ 50+

fer fram 23. - 25. júní 2017 í Hveragerði

 

Mótið er blanda af íþróttakeppni og annarri keppni, hreyfingu og því að fá fólk á besta aldri til að hafa gaman saman.  Mótið er öllum opið sem verða 50 ára á árinu og eldri. Mótið hefst föstudaginn 23. júní og lýkur eftir hádegi, sunnudaginn 25. júní.

 

Landsmót UMFÍ 50+ var fyrst haldið árið 2011 og því verðu þetta í 7. sinn sem þetta skemmtilega mót er haldið. UMFÍ hefur úthlutað mótinu til HSK sem er mótshaldari að þessu sinni. Hveragerðisbær er bakhjarl mótsins og kemur að undirbúningi og framkvæmd mótsins á margan hátt.

UMFÍ


Skráð af Menningar-Staður