Menningar-Bakki * Viðhalda og efla þjóðlega menningararfleið til sjávar og sveita*
-------- Alþýðuhúsið á Eyrarbakka - Vinir alþýðunnar - Á undan sinni framtíð --- "Stærra í hugum okkar en við sjálfir gerum okkur grein fyrir" ---

04.03.2019 06:46

Eyjan Vigur til sölu

 

 

Eyjan Vigur í Ísafjarðardjúpi. Ljósm.: Mats Wibe Lund.

 

 

Eyjan Vigur til sölu

 

 

Bæjarstjórn Ísafjarðarbæjar hefur samþykkt áskorun til umhverfisráðherra og ríkisstjórn Íslands um að kaupa eyjuna Vigur í Ísafjarðardjúpi.

 

Óttast bæjarstjórnin að nýir eigendur loki fyrir aðgang almennings að eyjunni.

 

Salvar Baldursson, bóndi í Vigur segir að nokkuð hafi verið um fyrirspurnir um kaup á eyjunni og meiri áhugi hafi verið erlendis frá, en jörðin er enn óseld.Sklráð af Menningar-Staður

03.03.2019 06:50

Merkir Íslendingar - Jón Þorláksson

 

 

Jón Þorláksson (1877 - 1935).

 

 

Merkir Íslendingar - Jón Þorláksson

 

 

Jón Þorláksson forsætisráðherra fæddist í Vesturhópshólum 3. mars 1877.

Foreldrar hans voru Þorlákur Þorláksson, hreppstjóri þar, og k.h., Margrét Jónsdóttir húsfreyja.
 

Föðurbróðir Jóns var Þórarinn Þorláksson listmálari, en systir Jóns var dr. Björg Þorláksson, fyrsti íslenski kvendoktorinn.

Kona Jóns var Ingibjörg, dóttir Jean Valgard vann Deurs Claessen, landsféhirðis, og Kristín Eggertsdóttur Briem. Þau Jón og Ingibjörg áttu tvær kjördætur.
 

Jón lauk stúdentsprófi frá Lærða skólanum 1897, með hæstu einkunn í sögu skólans, og prófi í byggingaverkfræði frá DTH í Kaupmannahöfn 1903, þriðji Íslendingurinn sem lauk verkfræðiprófi.
 

Jón rannsakaði byggingarefni og brúargerð hér á landi 1903-1905, var skólastjóri Iðnskólans í Reykjavík frá stofnun 1904-1911, landsverkfræðingur 1905-1917, rak sjálfstæða verkfræðistofu og byggingavöruverslun í Reykjavík 1917-1923 og síðan verslunina í samvinnu við Óskar Norðmann til æviloka, var bæjarfulltrúi í Reykjavík 1906-1908 og 1910-22, alþingismaður 1921-33, fjármálaráðherra 1924-27, forsætisráðherra 1926-27 og borgarstjóri í Reykjavík frá 1933 og til dauðadags. Hann var formaður Verkfræðingafélags Íslands, einn helsti stofnandi og seinni formaður Íhaldsflokksins 1926-29 og fyrsti formaður Sjálfstæðisflokksins.
 

Jón var einn merkasti framfarasinni Íslandssögunnar. Hann hafði mikil áhrif á upphaf steinsteyptra húsa hér á landi, skipulagði og vann að brúa- og vegagerð, stofnaði pípugerð fyrir holræsi, stóð fyrir stofnun almenningsbaðhúss í Reykjavík 1907, rannsakaði og vann að fyrstu almenningshitaveitu í heiminum og skrifaði rit um vatnsorku landsins.
 

Jón var hægur í framgöngu, yfirvegaður og um fram allt rökfastur.
 

Ævisaga Jóns, eftir Hannes Hólmstein Gissurarson, kom út 1992.
 

Jón lést 20. mars 1935.

 

Morgunblaðið.


Skráð af Menningar-Staður.

02.03.2019 15:39

Ný útgáfa: Hjálparorð fangans - orð til íhugunar

 

 

 

Ný útgáfa:

Hjálparorð fangans – orð til íhugunar

 

 

Árið 1993 kom út bókin Hjálparorð fangans – orð til íhugunar og bænir, eftir Hrein S. Hákonarson, fangaprest þjóðkirkjunnar.

 

Nú er komin önnur útgáfa af þessari bók, stytt og endurskoðuð. Skálholtsútgáfan – útgáfufélag þjóðkirkjunnar gefur hana út eins og hina fyrri.

 

Í bókinni er að finna íhuganir sem eru sérstaklega ætlaðar föngum; hver íhugun byggir á ákveðnum ritningarstað. Þá er að finna nokkur kjarnaatriði kristinnar trúar í bókinni, eins og boðorðin tíu og postullegu trúarjátninguna auk nokkurra kunnra bæna.

 

Fyrsta útgáfan sem kom út fyrir rúmum 25 árum er löngu gengin til þurrðar. Bókinni er dreift endurgjaldslaust til fanga í fangelsum landsins en þeir kunnu að meta bókina á sínum tíma og ekki ástæða til að ætla en að þau sem eru nú í fangelsum landsins taki endurútgáfunni vel.

 

Bókin er gefin út með aðstoð kirkjunnar og nokkurra valinkunnra einstaklinga.

 

 

Séra Hreinn S. Hákonarson.

 
Skráð af Menningar-Staður.

 

02.03.2019 08:06

Vor í Árborg 25. - 28. apríl 2019

 

 

 

 

Vor í Árborg 25. – 28. apríl 2019

 

 

Menningar- og bæjarhátíðin „Vor í Árborg 2019″ verður haldin 25. – 28. apríl 2019. 

 

Skipulagning er á undirbúningsstigi og hvers kyns tillögur að dagskráratriðum og/eða hugmyndum um menningarviðburði eru vel þegnar.

 

Hér með er óskað eftir þátttöku félaga og samtaka, einstaklinga og áhugahópa, fyrirtækja og stofnanna.

 

Fjölskylduleikurinn, „Gaman- saman sem fjölskylda”– verður áfram hluti af hátíðarhöldunum. Sértakt vegabréf verður gefið út með dagskrá hátíðarinnar sem stimplað verður í eftir þátttöku í atburðum og heimsóknum á viðburði. Vegabréfinu er síðan skilað inn eftir hátíðina og eiga þátttakendur möguleika á veglegum vinningum.

 

Áhugasamir hafi samband við Ólaf Rafnar Ólafsson, atvinnu- og viðburðafulltrúa, olafur.rafnar@arborg.is eða Braga Bjarnason, menningar- og frístundafulltrúa, bragi@arborg.is eða í síma 480-1900.

 

Með von um góðar undirtektir,

 

Íþrótta- og menningarnefnd Sveitarfélagsins Árborgar
Skráð af Menningar-Staður.

01.03.2019 21:02

Merkir Íslendingar - Sigurður Eggerz

 

 

Sigurður Eggerz (1875 - 1945).

 

Merkir Íslendingar - Sigurður Eggerz

 

Sigurður Eggerz ráðherra fæddist á Borðeyri 1. mars 1875.

Foreldrar hans voru Pétur Friðriksson Eggerz, kaupstjóri þar, og Sigríður Guðmundsdóttir húsfreyja.
 

Í ættum Sigurðar og fjölskyldu eru óvenju margir alþingismenn og ráðherrar, s.s. bróðir hans, Guðmundur, alþingismaður og sýslumaður, og tveir mágar hans, Páll Ólafsson, ritstjóri og alþingismaður, og Ólafur Thorlacius alþingismaður, faðir Kristjáns Thorlacius sem var formanns BSRB og varaþingmaður.
 

Þá var Sigurður kvæntur Solveigu, dóttur Kristjáns Jónssonar ráðherra, bróður Péturs ráðherra og Steingríms, alþingismanns og bæjarfógeta á Akureyri, en þeir voru synir Jóns Sigurðssonar, alþingismanns og héraðshöfðingja á Gautlöndum, og eru því af Gautlandsætt og Reykjahlíðarætt, fjölmennustu ráðherraætt landsins.
 

Tengdamóðir Sigurðar var hins vegar Anna Þórarinsdóttir, dóttir Þórarins Böðvarssonar alþingismanns sem átti ræturnar að Holti í Önundarfirði.
 

Sigurður lauk stúdentsprófi frá Lærða skólanum 1895 og lögfræðiprófi frá Hafnarháskóla 1903. Hann var sýslumaður á nokkrum stöðum, lengst af i Vík í Mýrdal, var alþingismaður 1911-1915, 1916-1926 og 1927-1931. Hann varð ráðherra Íslands 1915 en sagði af sér ári síðar er konungur vildi ekki fallast á fyrirvarann um uppburð íslenskra mála í Ríkisráði Dana. Þá var Sigurður fjármálaráðherra 1917-20 og forsætisráðherra 1922-24.
 

Sigurður var síðan bankastjóri Íslandsbanka frá 1924 þar til bankinn var lagður niður 1930. Hann sinnti lögmannsstörfum í Reykjavík, var bæjarfógeti á Ísafirði 1932-34 og á Akureyri 1934-1945.
 

Sigurður var fyrirmannlegur og höfðinglegur á velli, þótti flekklaus, ljúfur og alþýðlegur, og umtalsverður áhugamaður um skáldskap eins og fleiri stjórnmálamenn þá.  
 

Sigurður lést 16. nóvember 1945.

Morgunblaðið.Skráð af Menningar-Staður.

28.02.2019 06:50

Geitur eru skemmtilegar en þrjóskar

 

 

 

 

 

Geitur eru skemmtilegar en þrjóskar

 

Þau láta sér ekki leiðast þó hætt séu að vinna.

Björg og Emil halda nokkr­ar geit­ur og kind­ur þar sem þau búa á Eyr­ar­bakka og auk þess safn­ar Emil kaffikrús­um.

Þau segja geit­ur vera sér­lega mann­elsk­ar skepn­ur.

 

Þessi bolla­söfn­un á upp­haf sitt í því að fyr­ir um þrjá­tíu árum átti ég er­indi í fyr­ir­tæki í Reykja­vík og á leið minni þaðan út sá ég í glugga á stiga­gang­in­um drullu­skít­uga krús sem merkt var fyr­ir­tæk­inu og ég greip hana og stakk henni í vas­ann. All­ar göt­ur síðan hef ég safnað fyr­ir­tækja­boll­um, ís­lensk­um og er­lend­um, og nú eru krús­irn­ar orðnar um 120. Ég setti mér ákveðið mark­mið þegar ég byrjaði að safna þess­um krús­um, þær áttu að vera merkt­ar fyr­ir­tækj­um og þeim átti að vera stolið. En ég hef farið mikið út af því spori í gegn­um tíðina, því fólk hef­ur gefið mér marg­ar krús­ir til að bæta í safnið. Ég er orðinn latur við að kíkja sjálf­ur eft­ir krús­um, krakk­arn­ir koma mest með þetta til mín núorðið,“ seg­ir Emil Ragn­ars­son þar sem hann sýn­ir blaðamanni bolla­safnið sitt á heim­ili sínu og eig­in­kon­unn­ar Ingi­bjarg­ar Guðmunds­dótt­ur á Eyr­ar­bakka.

Þegar boll­arn­ir eru skoðaðir kem­ur í ljós að marg­ir þeirra eru minn­is­varðar horf­inna fyr­ir­tækja. „Sum­ir þess­ir boll­ar hafa sann­ar­lega náð að end­ast bet­ur en fyr­ir­tæk­in sjálf, en svo eru líka marg­ir þeirra með eldri lógó­um sem ekki eru leng­ur í notk­un þó fyr­ir­tæk­in lifi, til dæm­is er hér gam­all bolli frá Lands­bank­an­um með lógói sem aðeins eldra fólk man eft­ir. Bank­arn­ir hafa sum­ir lagt upp laupa og lifnað við aft­ur með nýj­um lógó­um,“ seg­ir Emil og dreg­ur fram bolla frá Pósti og síma með löngu gleymdu lógói. At­hygli vek­ur að þrír boll­ar í safni Em­ils eru merkt­ir Morg­un­blaðinu og hafði sá nýj­asti bæst í hóp­inn aðeins fyr­ir viku , en allt eru það gaml­ir Mogga­boll­ar sem ekki sjást leng­ur á borðum í því fyr­ir­tæki.

„Ég á líka þrjá bolla úr Kántrýbæ á Skaga­strönd og eng­ir tveir eru eins. Einn er meira að segja með vísu: „Sendu burtu sorg og kvíða, söng­ur­inn til hjart­ans nær, á sér framtíð ör­ugg­lega, út­varps­stöðin Kántrý­bær.“

Þegar gramsað er í bolla­safni Em­ils kenn­ir ým­issa grasa, þar er meðal ann­ars Herjólf­ur, Vís­indakaffið, Kveðja úr Dýraf­irði og Skát­ar Úlfljóts­vatni. Og sum­ir boll­arn­ir tengj­ast góðum minn­ing­um, á ein­um þeirra stend­ur

„Til ham­ingju með Gils­fjarðar­brúna“. „Fyr­ir meira en tveim­ur ára­tug­um vann ég í þrjú ár við að brúa Gils­fjörðinn. Kaupmaður í sveit­inni lét gera bolla með þess­ari áletr­un og þegar brú­in var til­bú­in þá gaf hann okk­ur boll­ana sem vor­um að vinna við verkið.“

 

Geit­astandið hófst með hrekk

 

Í stofu þeirra hjóna, Em­ils og Bjarg­ar, eins og Ingi­björg er oft­ast kölluð, vek­ur at­hygli fal­legt upp­stoppað höfuð mó­rauðrar geit­ar sem prýðir einn vegg­inn.

„Hún var fædd og upp­al­in hjá okk­ur þessi geit, en dótt­ur­son­ur okk­ar laumaðist til að taka haus­inn þegar við vor­um að slátra og lét stoppa hann upp og gaf mér í af­mæl­is­gjöf,“ seg­ir Emil, en þau hjón hafa haldið geit­ur und­an­far­in tutt­ugu ár.

„Geit­astandið okk­ar hófst með hrekk. Maður sem bjó á Stokks­eyri sótti geit­ur á Vorsa­bæ á Skeiðum og fór með þær, einn haf­ur og eina huðnu, og laumaði í fjár­húsið hjá ná­granna sín­um. Til að hrekkja hann. En ná­grann­inn kippti sér ekk­ert upp við þetta og leyfði geit­un­um að vera hjá sér. Seinna gaf hann dótt­ur­syni okk­ar geiturn­ar sem höfðu þá fjölgað sér um eitt kið. Við hýst­um geiturn­ar þrjár fyr­ir strák­inn í fjár­hús­inu okk­ar, en við höf­um alltaf verið með nokkr­ar kind­ur. Seinna gaf svo strák­ur­inn okk­ur geiturn­ar og all­ar göt­ur síðan höf­um við haldið geit­ur. Þeim fjölgaði smátt og smátt, enda lík­ar okk­ur vel við geit­ur, þó þrjósk­ar séu í skapi. Þær eru ekk­ert voðal­ega vin­sæl­ar hjá öðrum hér í kring, en þær eru ekk­ert að abbast upp á neinn. Við setj­um þær á mýr­ina á vor­in og þar halda þær hóp­inn allt sum­arið. Við fylgj­umst með þeim í kíki og það er skemmti­legt að sjá að þær ganga alltaf í röð,“ seg­ir Björg og bæt­ir við að þau hafi grisjað dug­lega í geita­stofn­in­um síðast liðið haust. „Þær voru orðnar of marg­ar og of skyld­leika­ræktaðar. Þær voru orðnar átján en nú eru aðeins fimm eft­ir, haf­ur­inn Bær­ing og fjór­ar huðnur.“

 

Liðugar, með gott jafn­vægi og svífa

 

Þau segj­ast fyrst og fremst halda geiturn­ar sér til gam­ans og nytji ekki neitt af þeim nú orðið. „En hér áður fyrr lét­um við súta heil­mikið af geita­skinni og það var vin­sælt til gjafa,“ seg­ir Björg og bæt­ir við að kjötið af geit­un­um sé ósköp mag­urt. „En við höf­um prófað að grilla það og reynst gott. Ná­granni okk­ar hef­ur fengið geita­læri hjá okk­ur á haust­in og látið tví­reykja og það er sæl­gæti.“

Björg seg­ir að ekki gangi að hafa geiturn­ar sam­an við kind­urn­ar í fjár­hús­inu, þær verði að vera al­veg sér. „Þær voru yf­ir­gangs­sam­ar og ruddu kind­un­um frá garðanum, vildu sitja ein­ar að hey­inu. Það er ekki held­ur hægt að hafa þær sam­an úti í haga, en þær halda sig al­veg sér úti og vilja ekk­ert með kind­urn­ar hafa þar. Haf­ur­inn hef­ur for­yst­una og sér al­veg um að halda sín­um huðnum hjá sér,“ seg­ir Björg og bæt­ir við að geiturn­ar séu sér­lega mann­elsk­ar. „Ég þarf að passa mig að gera kiðin ekki of háð mér, halda þeim í hæfi­legri fjar­lægð, því ann­ars verða þau eins og hund­ar. Kiðin eru miklu fyrri til að spekj­ast en lömb. Aft­ur á móti kem­ur geit­um frek­ar illa sam­an sín á milli, þær eru svo­lítið arg­ar hver út í aðra. Hjá þeim er gogg­un­ar­röð, ein er frek­ust og ein þeirra held­ur sig til hlés, fel­ur sig. Þetta eru sér­stak­ar skepn­ur.“ Emil seg­ir að það sé gam­an að sjá geiturn­ar stökkva yfir hindr­an­ir.

„Þær eru liðugar og með gott jafn­vægi, þær hrein­lega svífa. Og þær geta gert gagn. Mér skilst að geit­ur séu dug­leg­ar að éta skóg­ar­kerf­il, það ætti kannski að beita þeim á hann, er hann ekki að vaxa yfir allt hér á landi?“

 

Þætti ef­laust barnaþrælk­un núna

 

Emil og Björg eru bæði hætt að vinna en segja gott að hafa eitt­hvað fyr­ir stafni, það þarf jú að gefa kind­un­um og geit­un­um dag­lega yfir vet­ur­inn og sinna ýms­um verk­um þeim tengd­um.

„Við erum með 30 ær núna, en mest vor­um við með 49 kind­ur. Fyrsta lambið sem ég eignaðist kom þannig til að fyr­ir rúm­um fjöru­tíu árum þá hjálpaði ég göml­um manni að rýja upp á gamla móðinn að vori til, með fjár­klipp­um, og hann vildi endi­lega gefa mér lamb um haustið fyr­ir viðvikið,“ seg­ir Björg sem ólst upp við blandaðan bú­skap á sínu æsku­heim­ili, Uxa­hrygg í Rangárþingi, svo eng­an skal undra að hún sé mikið fyr­ir skepn­ur.

„Þar var heyjað upp á gamla mát­ann á mín­um bernsku­ár­um. Ég kynnt­ist því sem krakki að binda í bagga og setja upp á hesta. Ég var 8 ára að halda við á móti bróður mín­um sem var 18 ára, sem var erfitt. Ætli það þætti ekki barnaþrælk­un núna,“ seg­ir hún og hlær.

Þau hjón hafa lengi búið á Eyr­ar­bakka, Emil frá því hann var fjög­urra ára, eða árið 1948, en Björg kom þangað þegar þau tvö fóru að rugla sam­an reyt­um árið 1967.

„Afi minn var með kind­ur aust­ur á Fá­skrúðsfirði og svo var ég öll sum­ur í sveit sem strák­ur, mest í Land­eyj­un­um, svo ég var líka van­ur sveita­störf­um,“ seg­ir Emil.

 

 Morgunbaðið miðvikudaginn 27. febrúar 2019.
Krist­ín Heiða Krist­ins­dótt­ir 
khk@mbl.is

 Skráð af Menningar-Staður.

24.02.2019 09:19

Kirkjráð Hrútavina í Hallgrímskirkju

 

 

Hallgrímskirkja á Skólavörðuholtinu í Reykjavík. Ljósm.: Víðir Björnsson.
 

 

Hallgrímskirkja á Skólavörðuholtinu í Reykjavík. Ljósm.: Víðir Björnsson.

 

 

   Kirkjuráð Hrútavina í Hallgrímskirkju

 

 

Kirkjuráð Hrútavinafélagsins Örvars á Suðurlandi var í síðustu viku á Skólavörðuholtinu í Reykjavík.  Kynnti sér og tók þátt í hinu fjölbreytta og vandaða kirkjustarfi í Hallgrímskirkju alla vikuna.Kirkjuráðið vildi jafnframt með nærveru sinni  heiðra minningu Skagfirðingsins séra Hallgríms Péturssonar, sálmaskálds, og Eyrbekkingsins Guðjóns Samúelssonar, arkitekts sem teiknaði Hallgrímskirkju hvað er hin mesta höfuðborgarprýði.

 

Fyrsti sunnudagur í níuviknaföstu var sunnudagurinn fyrir viku – 17. febrúar 2019.  Þá var messa og barnastarf í Hallgrímskirkju kl. 11:00

 

Sr. Irma Sjöfn Óskarsdóttir prédikaði og þjónaði fyrir altari ásamt sr. Birgi Ásgeirssyni.

Messuþjónar aðstoðuðu og  félagar úr Mótettukór Hallgrímskirkju sungu. Organsti var Hörður Áskelsson.

Umsjón með barnastarfi höfðu Ragnheiður Bjarnadóttir og Rósa Árnadóttir.Fastir liðir alla vikuna eru þessir:

 Kirkjuráðið kom í Hallgrímskirkju daglega þessa vikuna. 

Færði Árdegismessuna miðvikudaginn 20. febrúar kl. 8:00 til myndar.

Séra Ása Björk Ólafsdóttir þjónaði ásamt messuþjónum.

Messan var í rýminu aftan við altarið eins og sjá má á myndunum.
 

 

.

Við Árdegismessuna í Hallgrímskirkju. Ljósm.: Björn Ingi Bjarnason.

.

.

.

 Skráð af Menningar-Staður.

24.02.2019 07:30

24. febrúar "konudagur" góa byrjar

 

 

Frá Önundarfirði og handan fjarðar er fjallið Þorfinnur. Ljósm.: Víðir Björnsson.

 

 

24. febrúar “konudagur” góa byrjar

 

 

Mánuðurinn góa hefst nú sunnudag frá 18. til 24. febrúar, en 8. til 14. febrúar í gamla stíl fyrir 1700.

 

Nafnið, góa eða gói, er þekkt úr elstu heimildum og afbrigði þess í öðrum norrænum tungum. Gói er persónugerð sem vetrarvættur í gömlum sögnum, dóttir Þorra.

 

Orðið góiblót bendir til mannfagnaðar seint að vetri að fornu en um hann er ekkert vitað með vissu. Ljóst er hinsvegar af heimildum frá öndverðri 18. öld að fagna átti góu á svipaðan hátt og þorra. Skyldi það fremur vera húsbóndinn en húsfreyjan, en víst er að dagurinn var eignaður húsfreyjunni. Heimildir geta um tilhald í mat á síðari öldum en hvergi á við þorrakomu. Kann þar að ráða nokkru að góukoma lendir oftast á langaföstu.

 

Nokkuð var ort um Góu á 17. – 19. öld sem dóttur Þorra eða eiginkonu. Var þá stundum reynt í gamni að skjalla hana til að bæta veður. Svipaður kann að vera tilgangur þess góukomusiðar á norðaustanverðu landinu að Góu var færður rauður ullarlagður.

 

 Heitið konudagur er kunnugt frá miðri 19. öld og er nú útbreitt. Sá siður að eiginmenn gefi konum sínum blóm á konudaginn hófst á sjötta áratug 20. aldar.

 

 Í almennri þjóðtrú skipti góuveðrið máli. Átti sumarið að verða gott ef góa væri stormasöm og veður vont fyrstu góudaga.

 

 Þessi vísa var húsgangur í Önundarfirði fram á 20. öld.

 

 Góa kemur með gæðin sín

 gefst þá nógur hitinn.

 Fáir sakna þorri þín

 þú hefur verið skitinn.

 


23. febrúar “þorraþræll” síðasti dagur þorra

 

Mánuðurinn þorri hófst föstudaginn 25. janúar s.l. og er sá dagur kallaður “bóndadagur” og þá var miður vetur.

Í Orkneyingasögu og Flateyjarbók segir af Fornjóti konungi í Finnlandi og Kvenlandi. Fornjótur átti þrjá syni, Ægi, Loga og Kára. Kári var faðir Frosta (Jökull) er var faðir Snæs hins gamla. Hans sonur hét “Þorri” og dæturnar Fönn, Drífa og Mjöll. Þorri átti tvo syni og hét annar Nór en hinn Gór og dóttir hans hét “Góa.”

Þorri var blótmaður mikill og hafði blót á miðjum vetri er kölluð voru “Þorrablót.” Síðasti dagur þorra er kallaður “þorraþræll” og er á sumun stöðum tileinkaður piparsveinum, mönnum í óvígðri sambúð, fráskildum mönnum, ellegar þeim sem átt höfðu barn í lausaleik eða tekið framhjá konu sinni.

Þorrablót eru haldin af miklum krafti um allt land og borðaður svokallaður “þorramatur” og frá slíkum samkomum er þessi bæn.

“Guð gefi, að ég væri kominn í rúmið, háttaður, sofnaður, vaknaður aftur og farinn að éta.”


 

 Heimild: Saga daganna eftir Árna Björnsson.
 Skráð af Menningar-Staður.

23.02.2019 21:36

Merkir Íslendingar - Jón Gíslason

 


Jón Gíslason (1909 - 1980).
 

 

Merkir Íslendingar - Jón Gíslason

 

 

Jón Gísla­son fædd­ist 23. fe­brú­ar 1909 í Gaul­verja­bæ í Flóa.

For­eldr­ar hans voru hjón­in Gísli Hann­es­son, f. 1875, d. 1913, bóndi þar og síðar í Dal­bæ, og Mar­grét Jóns­dótt­ir, f. 1885, d. 1930, hús­freyja.

 

Jón varð stúd­ent frá Mennta­skól­an­um í Reykja­vík 1929, lærði síðan lat­ínu og grísku, og ensku og frönsku sem auka­grein­ar, í Berlín 1929-31, fór þaðan í nám til Mün­ster og lauk þaðan doktors­prófi 1934. Hann var í náms­dvöl í Par­ís 1931 og fór til Dan­merk­ur, Þýska­lands og Frakk­lands 1955 til að kynna sér versl­un­ar­skóla.

 

Jón var kenn­ari við Verzl­un­ar­skóla Íslands frá 1935, varð yfir­kenn­ari 1942 og skóla­stjóri 1952-1979. Hann var far­sæll skóla­stjórn­andi og naut mik­ill­ar virðing­ar bæði nem­enda og starfs­fólks skól­ans. Í minn­ing­ar­grein seg­ir: „Jón aug­lýsti ekki ævi­starf sitt, held­ur rækti það af hóg­værð og lít­il­læti eins og ein­kenn­ir marga mik­il­hæfa menn.“

 

Jón var einnig mik­ilsvirt­ur þýðandi. Hann þýddi t.d. nokkra af grísku harm­leikj­un­um svo sem Sjö gegn Þebu og Refs­inorn­ir eft­ir Æský­los, Ödí­pús kon­ung, Ödí­pús í Kólonos og An­tígónu eft­ir Sófók­les og Medeu, Hippo­lýtos og Al­kest­is eft­ir Evripídes. Hann skrifaði einnig bók um gríska goðafræði sem nefnd­ist Goðafræði Grikkja og Róm­verja: for­söguald­ir, trú­ar­bragðaþróun, guðir og hetj­ur og kom fyrst út árið 1944 auk fjöl­margra náms­rita. Hann flutti einnig fjöl­mörg er­indi í Rík­is­út­varpið, einkum um forn­menn­ing­ar­leg efni.

 

Jón hafði for­göngu um stofn­un Fé­lags fram­halds­skóla­kenn­ara og var formaður þess og sat í stjórn Alli­ance Francaise.

 

Eig­in­kona Jóns var Lea Eggerts­dótt­ir, f. 10.5. 1910, d. 26.11. 1994, kenn­ari. For­eldr­ar henn­ar voru hjón­in Eggert Reg­in­balds­son, bóndi á Ei­ríks­stöðum í Ögur­sveit, og Hall­dóra Júlí­ana Har­alds­dótt­ir.

 

Syn­ir Jóns og Leu:

Eggert, f. 1941, d. 2016, borg­ar­hag­fræðing­ur, og Gísli, f. 1949. viðskipta­fræðing­ur.

 

Jón Gísla­son lést 16. janú­ar 1980.


Morgunblaðið.

 


Skráð af Menningar-Staður.

23.02.2019 08:23

Merkir Íslendingar - Dóra Þórhallsdóttir

 

 

 

Dóra Þórhallsdóttir og Ásgeir Ásgeirsson.

 

 

Merkir Íslendingar - Dóra Þórhallsdóttir

 

 

Frú Dóra Þórhallsdóttir forsetafrú fæddist í Reykjavík 23.febrúar 1893.

Foreldrar hennar voru Þórhallur Bjarnarson, prófastur í Reykholti, forstöðumaður Prestaskólans, alþm. og biskup Íslands, og k.h., Valgerður Jónsdóttir húsfreyja.

 

Þórhallur var sonur Björns Halldórssonar, prófasts í Laufási, og k.h., Sigríðar Einarsdóttur, en Valgerður var dóttir Jóns Halldórssonar, hreppstjóra á Bjarnastöðum, og Hólmfríðar Hansdóttur.

 

Systkini Dóru:

Tryggvi forsætisráðherra, kvæntur Önnu Klemenzdóttur, Svava húsfreyja, gift Halldóri Vilhjálmssyni, skólastjóra Bændaskólans á Hvanneyri og Björn, sem lézt árið 1916.

 

Dóra giftist 3.10. 1917 Ásgeiri Ásgeirssyni, guðfræðingi, alþm., forsætisráðherra og öðrum forsta íslenska lýðveldisins 1952-68. Hann var sonur Ásgeirs Eyþórssonar, kaupmanns og bókhaldara, og Jensínu Bjargar Matthíasdóttur.

 

Börn Dóru og Ásgeirs:

Þórhallur ráðuneytisstjóri, Vala forsætisráðherrafrú og Björg sendiherrafrú.

 

Frú Dóra ólst upp í Reykjavík, lengst af í Laufási við Laufásveg, á gestkvæmu menningarheimili. Hún var tvítug er hún missti móður sína og tók þá við stjórn heimilisins og stýrði því í fjögur ár. Hún og Ásgeir hófu sinn búskap í Laufási og bjuggu þar til 1932, er hann varð forsætisráðherra. Þá fluttu þau í Ráðherrabústaðinn við Tjarnargötu.

 

Dóra sótti fundi ungmennafélaga á uppvaxtarárum sinum, sat í stjórn Lestrarfélags kvenna, í skólanefnd Kvennaskóla Reykjavíkur og sóknarnefnd Dómkirkjusafnaðarins. Henni var umhugað um kirkjusókn og málefni Þjóðkirkjunnar og lagði gjarnan áherslu á að rækt yrði lögð við söngkennslu í skólum. Hún var auk þess mikil hannyrðakona og lætur eftir sig fjölda fallegra muna.

 

Frú Dóra þótti glæsilegur fulltrúi þjóðar sinnar, virðuleg í fasi og klæddist gjarnan íslenska þjóðbúningnum við hátíðlegar athafnir.

 

Dóra lést 10. september 1964.Morgunblaðið.

 


Skráð af Menningar-Staður.