![]() |
Finnur Magnússon (1781 - 1847). |
Finnur Magnússon fæddist 27. ágúst 1781 í Skálholti.
Faðir Finns var Magnús Ólafsson lögmaður úr Svefneyjum og föðurbróðir Finns var Eggert Ólafsson náttúrufræðingur og skáld. Móðir Finns var Ragnheiður dóttir Finns Jónssonar biskups.
Finnur var í fóstri hjá Hannesi biskupi Finnssyni móðurbróður sínum og nam hjá honum skólavísindi og fór síðan til náms í Kaupmannahöfn.
Finnur sneri til Íslands þegar faðir hans lést og árið 1806 var hann settur málafærslumaður við landsyfirréttinn í Reykjavík og var í því starfi þangað til Jörundur hundadagakonungur svipti hann embætti. Finnur fór þá til Kaupmannahafnar en þegar Jörundur var hrakinn frá völdum tók hann aftur við embætti sínu.
Árið 1812 fór hann aftur til Kaupmannahafnar.
Finnur varð prófessor og forstöðumaður leyndarskjalasafnsins í Kaupmannahöfn. Hann var etatsráð en það er tignarheiti án embættis. Finnur gegndi oft stöðu forseta eða varaforseta Kh. deildar Hins ísl. bókmenntafélags, hann var varaforseti Fornfræðafélagsins og fulltrúi Íslands á stéttaþingum. Hann var í miklu áliti meðal samtíðarmanna sinna og segir Benedikt Gröndal hann hafa verið frægan um öll lönd og hafa ekið með Alexander Humboldt og Jakob Grimm þegar þeir komu til Kaupmannahafnar.
Finnur rannsakaði það sem hann taldi rúnir í Runamo í Blekinge í Svíþjóð. Honum hugkvæmdist að lesa þær afturábak gegnum spegil og gat þannig lesið vísu. Hann skrifaði 750 blaðsíðna rit um rúnirnar í Runamo, en fékk mikla gagnrýni fyrir það verk og varð honum til aðhlátursefnis. Jarðvísindamenn telja að risturnar í Runamo séu jökulrákir.
Finnur kvæntist 6. nóvember 1821 Nikolínu Barböru Frydensberg, dóttur landfógeta en þau skildu 1836. Gröndal segir að Finni „létu betur vísindalegar rannsóknir og bókagrufl heldur en það praktíska líf“.
Finnur lést á aðfangadag 1847.
Morgunblaðið.
![]() |
Meðal mynda frá ferðum hans með Joseph Banks um Ísland. |
Skráð af Menningar-Staður.
![]() |
Hljómsveitin NilFisk í Samkomuhúsinu Gimli á Stokkseyri sumarið 2003.
Gimli er við hliðina á veitingahúsinu -Fjöruborðið- þar sem Foo Fighters
voru í mat og heyrðu tóna frá æfingu NilFisk í Gimli. Þeir fóru yfir til þeirra
og tóku lagið með þeim þar.
F.v.: Sigurjón Dan Vilhjálmsson, Jóhann Vignir Vilbergsson,
Sveinn Ásgeir Jónsson og Víðir Björnsson.
15 ár frá tónleikum Foo Fighters og NilFisk
Fimmtán ár voru nákvæmlega í gær, 25. ágúst 2018, síðan hin heimsþekkta bandaríska rokkhljómsveit Foo Fighters, með Dave Grohl í fararbroddi, hitti hljómsveitina NilFisk í Samkomuhúsinu Gimli á Stokkseyri og bauð þeim að spila með sér á tónleikum.
Félagar í Foo Fighters heilluðust af tónlist hinna ungu pilta í NilFisk, sem voru á grunnskólaaldri á þessum tíma, og buðu þeim að spila með sér á tónleikum daginn eftir. Þeir þáðu boðið og léku fyrir rúmlega sex þúsund manns í Laugardalshöll þann 26. ágúst árið 2003.
Hljómsveitina NilFisk skipuðu fimm drengir úr Barnaskólanum á Eyrarbakka og Stokkseyri:
Jóhann Vignir Vilbergsson, Víðir Björnsson, Sveinn Ásgeir Jónsson, Sigurjón Dan Vilhjálmsson og Karl Magnús Bjarnarson.
NilFisk starfaði nákæmlega í fimm ár; frá 10. mars 2003 til 10. mars 2008.
![]() |
Hljómsveitin NilFisk fyrir framan Laugardalshöllina þann 26. ágúst 2003.
F.v.: Sigurjón Dan Vilhjálmsson, Víðir Björnsson,
Jóhann Vignir Vilbergsson og Sveinn Ásgeir Jónsson
Skráð af Menningar-Staður.
![]() |
Þorsteinn Thorarensen(1927 - 2006). |
Þorsteinn Ó. Thorarensen fæddist á Móeiðarhvoli í Hvolhreppi 26. ágúst 1927.
Foreldrar hans voru hjónin Óskar Þorsteinsson Thorarensen hreppstjóri á Breiðabólsstað í Fljótshlíð, síðar forstjóri BSR, og Ingunn Eggertsdóttir Thorarensen húsfreyja. Foreldrar Óskars voru Þorsteinn Thorarensen, hreppstjóri á Móeiðarhvoli í Hvolhreppi og Solveig Guðmundsdóttir húsfreyja, en foreldrar Ingunnar voru Eggert Pálsson, prófastur og alþingismaður á Breiðabólsstað og Guðrún Hermannsdóttir húsfreyja.
Systkini Þorsteins eru:
Eggert, framkvæmdastjóri BSR; Guðrún aðalgjaldkeri; Oddur, sóknarprestur og síðar safnvörður; Skúli, lögfræðingur og fulltrúi; Solveig menntaskólakennari og Ásta Guðrún deildarstjóri.
Eftirlifandi eiginkona Þorsteins er Sigurlaug Bjarnadóttir frá Vigur, fyrrv. menntaskólakennari, borgarfulltrúi og alþingismaður.
Börn þeirra eru:
Ingunn, framhaldsskólakennari og síðar framkvæmdastjóri;
Björn, tölvunarfræðingur og tónlistarmaður;
Björg, prófessor við lagadeild HÍ. Þorsteinn lauk stúdentsprófi frá MR 1946 og embættisprófi í lögum frá 1952.
Þorsteinn var blaðamaður við Morgunblaðið 1947-61, fréttastjóri við dagblaðið Vísi 1961-66 og fréttaritari Reuters-fréttastofunnar 1951- 86.
Hann stofnaði bókaútgáfuna Fjölva árið 1966 og starfaði þar við umfangsmikla útgáfu og ritstörf allt þar til hann veiktist árið 2000.
Eftir það minnkaði starfsgeta hans þótt hann ynni við skriftir nánast til dauðadags. Þorstein var eljumaður. Eftir hann liggur fjöldi rita af margbreytilegum toga, m.a. bráðskemmtileg umfjöllun í nokkrum ritum um líf og viðhorf stjórnmálamanna um og eftir aldamótin 1900. Auk þess var hann afkastamikill þýðandi.
Þorsteinn lést 26.október 2006.
Morgunblaðið.
Skráð af Menningar-Staður
![]() |
|
Merkir Íslendingar - Jóhann S. Hlíðar
Jóhann Sigurðsson Hlíðar fæddist á Akureyri 25. ágúst 1918.
Hann var sonur Sigurðar Einarssonar Hlíðar, dýralæknis og alþingismanns á Akureyri, síðar yfirdýralæknis í Reykjavík, og k.h., Guðrúnar Louisu Guðbrandsdóttur húsfreyju.
Sigurður var sonur Einars Einarssonar, smiðs í Hafnarfirði, af Laxárdalsætt, og Urriðafossætt, og Sigríðar Jónsdóttur, af Hörgsholtsætt og listamannaættinni Jötuætt, en móðir Sigríðar var Guðrún, systir Guðlaugar, ömmu Ásgríms Jónssonar listmálara.
Guðrún Louisa var dóttir Guðbrands, verslunarstjóra í Reykjavík Teitssonar, dýralæknis þar Finnbogasonar, bróður Jakobs, langafa Vigdísar Finnbogadóttur, en móðir Guðrúnar Louisu var Louise Zimsen, systir Christians, föður Knuds Zimsen borgarstjóra. Föðursystir Jóhanns var Guðfinna, móðir Jóhanns Pálssonar garðyrkjustjóra.
Systkini Jóhanns:
Brynja Hlíðar, forstjóri Lyfjabúðar KEA, en hún lést í flugslysinu í Héðinsfirði 1947; Skjöldur, er lést í Kaupmannahöfn 1983; Gunnar, póst- og símstjóri í Borgarnesi en lést af slysförum 1957, og Guðbrandur, dýralæknir í Reykjavík, er lést árið 2000.
Jóhann lauk stúdentsprófum frá MA 1941, embættisprófi í guðfræði frá HÍ 1946, stundaði framhaldsnám í kennimannlegri guðfræði og sagnfræðilegri guðfræði við Menighedsfakultetet í Osló 1946-47 og kynnti sér starf MRA-hreyfingarinnar í Stokkhólmi 1953-54.
Jóhann vígðist prestur 1948, vann á vegum Sambands íslenskra kristniboðsfélaga 1947-53, var kennari við MA 1949-52 og við Gagnfræðaskólann í Vestmannaeyjum 1954-72. Hann var prestur í Vestmannaeyjum 1954-72, í Nessókn í Reykjavík 1972-75 og sendiráðsprestur í Kaupmannahöfn 1975-83.
Jóhann var varaþingmaður fyrir Sjálfstæðisflokkinn á Suðurlandi 1967-71 og sat á þingi 1970.
Jóhann lést 1. maí 1997.
Morgunblaðið.
Skráð af Menningar-Staður.
![]() |
|
Gio Ju frá Suður Kóreu er nútímadansari og gjörningalistamaður sem sérhæfir sig í butohdansi.
Hún mun fremja dansgjörning við Húsið á Eyrarbakka í dag, laugardaginn 25. ágúst 2018 kl. 16:00 á sama tíma og listasýningin Stakkaskipti opnar.
Hún heimsækir nú Ísland í fyrsta sinn en hún hefur tekið þátt í fjöldann allan af listaviðburðum víða um heim. Frá árinu 2011 hefur hún búið í Indlandi og setti á fót dansskóla þar sem hreyfilist og tjáning í dansi er kennd sem lífsstíll. Gio Ju hefur dansað með danshópum, stórum og smáum, en einnig unnið með listamönnum sem koma úr ólíkum listgreinum og dansar þá oft á tíðum ein.
Á Eyrarbakka vinnur hún með Ástu Guðmundsdóttur listakonu og hönnuði sumarsýningar safnsins. Dansverk Gio Ju eru ávallt einstök og tengd inní aðstæður hverju sinni. Það verður því afar áhugavert að sjá hvernig hún tvinnar sína list saman við andrúm byggðasafnsins.
Samhliða dansviðburðinum er opnun listasýningarinnar Stakkaskipti þar sem fjórar ólíkar listakonur sýna verk sín í fjárhúsi Hússins.
Þetta eru þær;
Halla Ásgeirsdóttir keramiker,
Halla Bogadóttir gullsmiður,
Helga Ragnhildur Mogensen skartgripahönnuður
og Margrét Birgisdóttir myndlistarmaður.
Allir eru velkomnir.
Skráð af Menningar-Staður.
![]() |
|
Listasýningin Stakkaskipti opnar með viðhöfn kl. 16.00 í dag, laugardaginn 25. ágúst 2018, í gamla fjárhúsinu norðan við Húsið.
Danslistakonan Gio Ju frá Suður Kóreu mun fremja gjörning við opnun og listamenn taka vel á móti gestum.
Fjórar ólíkar listakonur sýna saman á Stakkaskiptum.
Þetta eru þær;
Halla Ásgeirsdóttir keramiker,
Halla Bogadóttir gullsmiður,
Helga Ragnhildur Mogensen skartgripahönnuður
og Margrét Birgisdóttir myndlistarmaður.
Þær eiga það sameiginlegt að sækja innblástur úr náttúru eða vinna verk sín úr náttúrulegum efnum líkt og rekaviði eða steinum. Allar hafa þær sýnt margoft en sýna nú saman í fyrsta sinn. Hugmyndin að sýningunni fæddist fyrir nokkrum árum og röð tilviljana leiddi þær á slóðir Eyrarbakka. Þær heilluðust af þeirri hugmynd að umbreyta grófu umhverfi eins og gamla fjárhúsinu í sýningarsal og þannig er nafnið Stakkaskipti tilkomið því sannarlega mun fjárhúsið umbreytast.
Gio Ju er víðförul hreyfilistakona og butoh dansari sem heimsækir Ísland í fyrsta sinn. Dansverk hennar eru ávallt einstök og tengd inní aðstæður hverju sinni. Það verður því afar áhugavert að sjá hvernig hún tvinnar sína list saman við sýninguna.
Stakkaskipti er hluti af sumardagskrá safnsins í tengslum við sýningu Ástu Guðmundsdóttur Marþræðir sem hverfis um fullveldið og fjörunytjar. Sú sýning teygir sig yfir í eitt útihúsa safnsins og þannig verða nú listasýningar í tveimur útihúsum.
Sýningarnar í útihúsunum verða opnar kl. 11-18 fram í septemberlok eins og aðrar sýningar safnsins.
Við opnun verður frítt á Stakkaskipti og safnið allt og léttar veitingar í boði.
Verið velkomin.
Sýningin er styrkt af Uppbyggingasjóði Suðurlands.
Skráð af Menningar-Staður.
|
Merkir Íslendingar - Jenna Jensdóttir
Jenna Jensdóttir fæddist á Læk í Dýrafirði 24. ágúst 1918.
Foreldrar hennar voru Ásta Sóllilja Kristjánsdóttir og Jens Guðmundur Jónsson kennari, en þau bjuggu á Minna-Garði í Dýrafirði.
Tvíburasystir Jennu var Áslaug Sólbjört Jensdóttir fæddist á Læk í Dýrafirði 23. ágúst 1918 og í áratugi var húsmóðir að Núpi í Dýrafirði. Hún lést á Hjúkrunarheimilinu Eir 12. júní 2015.
Móðir Jens var Jensína, systir Guðfinnu, ömmu prestanna Björns Jónssonar á Akranesi og Jóns Bjarman. Ásta Sóllilja var dóttir Kristjáns Jónssonar, bónda í Breiðadal og Sólbjartar Jónsdóttur.
Eiginmaður Jennu var Hreiðar Stefánsson, kennari og rithöfundur. Hann lést fyrir rúmum tuttugu árum. Synir þeirra eru læknarnir Ástráður Benedikt og Stefán Jóhann.
Jenna stundaði nám við Kennaraskólann og nam við HÍ, auk leiklistarnáms hjá Lárusi Ingólfssyni. Hún stofnaði „Hreiðarsskóla“ á Akureyri, ásamt manni sínum, 1942, og starfaði við hann í 21 ár og síðan við Barnaskóla Akureyrar og Gagnfræðaskóla Akureyrar.
Eftir að Jenna og Hreiðar fluttu til Reykjavíkur, 1963, var Jenna kennari við Langholtsskóla í tvo áratugi, við Barnaskóla Garðabæjar og lengi við Námsflokka Reykjavíkur. Hún var bókmenntagagnrýnandi, þátta- og greinahöfundur við Morgunblaðið í áratugi.
Jenna er höfundur á þriðja tug bóka fyrir börn og unglinga, ásamt Hreiðari. Þekktastar þeirra urðu Öddu-bækurnar sem urðu fádæma vinsælar á sínum tíma.
Jenna gaf einnig út eina ljóðabók og tvö rit með smásögum.
Jenna starfaði m.a. í barnaverndarnefnd og Kvenfélaginu Framtíðinni á Akureyri og var í stjórn og um tíma formaður Félags íslenskra rithöfunda. Hún var einn stofnenda Delta Kappa Gamma á Íslandi og var í skólasafnanefnd Reykjavíkur. Hún hlaut ýmsar viðurkenningar fyrir störf að fræðslumálum og ritstörf. Síðast var hún heiðruð á Menningarhátíð Seltjarnarness, árið 2015 en hún bjó á Seltjarnarnesi í mörg ár.
Jenna lést 6. mars 2016.
Morgunblaðið föstudagurinn 24. ágúst 2018.
Skráð af Menningar-Staður
![]() |
Þórhildur og Hannes ásamt Ragnari M. Sigurðssyni, íþrótta- og æskulýðsfulltrúa Ölfuss.
|
Hannes Sigurðsson og Þórhildur Ólafsdóttir komu færandi hendi fyrir verslunarmannahelgi og gáfu íþróttamiðstöðinni í Þorlákshöfn tvær vogir fyrir hönd Hafnarnes/Ver og SB skilta.
Vogirnar munu án efa koma að góðum notum og verða staðsettar í búningsklefum íþróttamiðstöðvarinnar.
Dagskráin greinir frá.
Skráð af Menningar-Staður.
![]() |
||
. Arcade Fire í Laugardalshöll. Ljósm.I Morgunblaðið/Hari. .
|
Arcade Fire og Kiriyama Family í Laugardalshöll
Arcade Fire lauk löngu tónleikaferðalagi sínu á Íslandi
Margmenni var í Laugardalshöll í gærkvöldi, þriðjudaginn 21. ágúst 2018, þegar kanadíska indírokksveitin Arcade Fire hélt þar tónleika.
Íslenska hljómsveitin Kiriyama Family hitaði upp.
Frá því að Arcade Fire gaf út plötuna Funeral árið 2004 hefur hún notið mikillar hylli tónlistarunnenda og árið 2011 fékk hún Grammy-verðlaun fyrir plötuna The Suburbs.
Tónleikarnir hér á landi eru þeir síðustu í tónleikaferðalagi Arcade Fire sem ber sama heiti og nýjasta plata sveitarinnar, Everything Now.
Hyggjast meðlimir sveitarinnar ferðast um landið að loknum tónleikunum.
Morgunblaðið miðvikudagurinn 22. ágúst 2018.
![]() |
||||
. Kiriyama Family í Laugardalshöll. Ljósm.: Menningar-Staður. .
|
![]() |
Margir ráku upp stór augu þegar þeir keyrðu í gegn um aðalgötuna á Eyrarbakka þann 16. ágúst 2018.
Jólaskraut og snjór mættu vegfarendum sem áttu leið hjá í blíðviðrinu, en glampandi sól var í allan gærdag. Það var þó ekki svo að íbúar á Bakkanum væru farnir að þjófstarta jólunum.
Gjörningurinn var runninn undan rifjum starfsmanna framleiðslufyrirtækis í auglýsingagerð. Starfsmennirnir voru sposkir á svip þegar þeir voru spurðir um hvað stæði til.
Ekkert fékkst þó gefið upp um hvað stæði til. Jólaskreytingarnar og snjórinn settu þó skemmtilegan blæ á bæinn í blíðunni.
![]() |
Skráð af Menningar-Staður.
© 2021 123.is | Nýskrá 123.is síðu | Stjórnkerfi 123.is