Menningar-Staður
Félagsheimilið Staður á Eyrarbakka

04.10.2016 07:34

Haustfagnaður í Hallskoti 1. október 2016

 

 

 

Haustfagnaður í Hallskoti 1. október 2016

 

Haustfagnaður var haldinn hjá Skógræktarfèlagi Eyrarbakka við Hallskot laugardaginn 1. október 2016.

 Tekið var vel á móti gestum og þeim boðið í grillmat með öllu tilheyrandi.

Við grillidð stóð Ingólfur Hjálmarsson.

Snilldar framtak hjá skógræktinni.
 


Takk fyrir okkur.

Halldór Páll Kjartansson.

 

.

.

 
 


Skráð af Menningar-Staður

04.10.2016 06:57

Bókin Forystufé er komin út

 

 

 

Bókin Forystufé er komin út

 

Bókin Forystufé eftir Ásgeir frá Gottorp er nú komin út í annarri útgáfu, með margskonar ítarefni og bókarauka. Bókin er í sama broti og frumútgáfan en 468 síður og prentuð í fjórlit. Bókaútgáfan Sæmundur á Selfossi gefur út.

 

Allmargir pöntuðu bókina á sérstöku tilboðsverði í forsölu og geta þeir vitjað um eintök sín í Bókakaffinu á Selfossi en þar er opið mán.-lau. kl. 12-18.

 

Bókin Forystufé eftir Ásgeir frá Gottorp er leiðarsteinn innan íslenskra búvísinda og þjóðfræði. Höfundur safnaði saman sögum af þessum merku skepnum alls staðar að af landinu. Elstu sögurnar eru yfir aldargamlar þegar þær eru skráðar en aðrar samtímafrásagnir höfundar. Hér er fylgt almennri reglu íslenskra sagnamenningar við skrásetningu og jafnan leitast við að leyfa sagnalistinni að njóta sín samhliða því að halda ætíð því fram sem sannast reynist. Sögur Ásgeirs eru hetjusögur af sauðfé og draga fram ótrúlega vitsmuni og náttúrugreind þessarar dularfullu skepnu.

 

Bókin er nú öll prentuð í lit og hana prýðir mikill fjöldi ljósmynda, þar á meðal heilsíðumyndir úr verkinu Forystufé eftir Ólöfu Nordal myndlistarmann. Þá hefur verið leitað í smiðju Ragnars Þorsteinssonar í Sýrnesi, Sigurðar heitins Sigmundssonar í Syðra-Langholti og fleiri valinkunnra ljósmyndara.

Af www.dfs.is


Skráð af Menningar-Staður

01.10.2016 06:59

Gunnar Ingi Olsen - Fæddur 4. nóvember 1930 Dáinn 23. september 2016 - Minning

 

 

Gunnar Ingi Olsen.

 

Gunnar Ingi Olsen - Fæddur  4. nóvember 1930

Dáinn  23. september 2016 - Minning

 

Gunnar Ingi Olsen fæddist í Reykjavík 4. nóvember 1930. Hann lést á heilbrigðisstofnun Suðurlands 23. september 2016.

 

Foreldrar hans voru Pétur Rögnvald Olsen, f. 1901, frá Vidnes í Noregi, d. 1977, og Ingibjörg Gunnarsdóttir, f. 1894, frá Eyrarbakka, d. 1957. Bræður Gunnars voru Tryggvi Endal, f. 1928, d. 1998, og Óli Karló, f. 1935.

 

Gunnar var á öðru ári er hann flutti með foreldrum sínum á Eyrarbakka. Ungur fór hann að vinna ýmis störf til sjós og lands, vann margar vertíðir á vertíðarbátum og togurum frá Hafnarfirði og Reykjavík.

 

Þann 4. september 1957 kvæntist Gunnar eftirlifandi eiginkonu sinni, Ingu Kristínu Guðjónsdóttur frá Eyrarbakka, f. 19. apríl 1938. Þau eignuðust fimm börn: Ingibjörg, f. 1958, M. Heimir Hjaltason, f. 1955, þau eiga fimm börn og tíu barnabörn. Þuríður, f. 1960, M. Friðrik Sigurjónsson, f. 1958, þau eiga þrjú börn og fjögur barnabörn. Þórunn, f. 1962, M. Finnur Kristjánsson, f. 1960, þau eiga fimm syni og þrjú barnabörn. Guðjón, f. 1963, M. Kristjana Garðarsdóttir, f. 1967, þau eiga þrjár dætur og eitt barnabarn. Pétur Rögnvaldur, f. 1965, M. Rut Björnsdóttir, f. 1965, þau eiga þrjú börn og fimm barnabörn.

 

Gunnar og Inga hafa búið öll sín hjúskaparár á Eyrarbakka. Afkomendur þeirra eru 43 talsins. Á sjöunda áratugnum var Gunnar vörubílstjóri í sandflutningum til Reykjavíkur. Hann hóf störf hjá Vegagerð ríkisins á Selfossi árið 1969, starfaði þar sem verkstjóri og síðast sem rekstrarstjóri. Gunnar vann hjá Vegagerðinni í rúm 30 ár eða þar til starfsævi hans lauk. Gunnar var mikið fyrir dýr og hélt bæði kindur og hross meðan heilsan leyfði.

 

Útför Gunnars fer fram frá Eyrarbakkakirkju í dag, 1. október 2016, klukkan 14.

_________________________________________________________________


Minningarorð
 

„Ég kem og sæki þig milli klukkan fimm og sjö á mánudagsmorgun – þú verður tilbúinn!“ Þannig hófust samskipti okkar Gunnars Olsen vorið 1976, þegar hann hafði ráðið mig til að gegna starfi tippara í vegavinnuflokki sínum.

Sumrin fjögur sem ég naut þess að hafa Gunnar að yfirmanni eru eftirminnileg fyrir margra hluta sakir. Verkefnin voru um alla Árnessýslu frá fjöru til fjalla, bæði viðhald vega og nýframkvæmdir.

Gunnar var óþreytandi í því að hressa upp á landafræðiþekkinguna hjá vankunnandi tipparanum.

Hann kunni heiti á öllum fjöllum og helstu kennileitum sýslunnar. Hann þekkti líka flesta karla og kerlingar til sveita og stundum fékk maður að fara heim á bæi með honum.

Það komu margir að vegagerðinni og oft var þröngt setinn bekkurinn í matarskúrnum. Þá skipti máli að hafa gleðina í fyrirrúmi. Gunnar hafði gott geðslag og gæddi samfélagið í skúrunum með léttleika sínum. Hann ýtti heldur undir hvers konar sprell, sem fundið var upp á, og hló svo sínum dillandi hlátri á eldhúsbekknum þegar fjörið stóð sem hæst.

Gunnar hafði gott verksvit og gerði kröfur til sín og annarra um að skilað væri góðu verki. Hann var sanngjarn yfirmaður og ekki síður góður félagi.

Eftir að samstarfi okkar við vegagerð í Árnessýslu lauk hélst vinátta okkar alla tíð. Hann var traustur vinur og ómetanlegur er stuðningurinn sem hann veitti mér síðar, þegar ég var kominn til annarra starfa.

Það var ákveðin vinsemd og hlýleiki sem streymdi frá Gunnari þegar fundum okkar bar saman og spjallið við hann um landsins gagn og nauðsynjar var upplífgandi.

Nú þegar Gunnar Olsen hefur runnið æviskeið sitt á enda þakka ég fyrir gott samneyti við hann fyrr og síðar.

 

Magnús Karel Hannesson.Morgunblaðið laugardagurinn 1. október 2016

 

 
Skráð af Menningar-Staður

30.09.2016 07:16

50 ár frá upphafi Sjónvarpsins á Íslandi

 

 

 

50 ár frá upphafi Sjónvarpsins á Íslandi

 

Götur tæmdust á höfuðborgarsvæðinu fyrsta útsendingarkvöld íslenska sjónvarpsins þennan mánaðardag fyrir 50 árum, þann 30. september 1966. 

Það hófst klukkan 20 með ávarpi Vilhjálms Þ. Gíslasonar útvarpsstjóra. 

Næst á dagskrá var blaðamannafundur með Bjarna Benediktssyni forsætisráðherra, spyrjendur voru Ólafur Hannibalsson og Andrés Kristjánsson, ásamt Eiði Guðnasyni sem stýrði umræðum. 

Fleiri atriði fylgdu á eftir svo sem kvikmynd eftir Ósvald Knudsen, lestur Halldórs Laxness úr Paradísarheimt, skemmtiþáttur með Savannatríóinu og sakamálaþátturinn Dýrlingurinn.

 

Fréttablaðið 30. september 2016.

 

Image result for sjónvarp á eyrarbakka
Helga Káradóttir og Anna Þórðardóttir

við fyrsta sjónvarpstækið sem kom á Eyrarbakka í spríl 1964.

 


Skráð af Menningar-Staður

29.09.2016 16:27

Útför Gunnars Olsen laugardaginn 1. okt. 2016

 

 

 

Útför Gunnars Ólsen laugardaginn 1. okt. 2016


frá Eyrarbakkakirkju

 

 

 


Skráð af Menningar-Staður

29.09.2016 08:38

Nafnasamkeppni um göngu- og hjólreiðastíginn milli Eyrarbakka og Stokkseyrar

 

 

Til skýringar þá liggur stígurinn þar sem svarta línan liggur.

 

Nafnasamkeppni um göngu- og hjólreiðastíginn milli Eyrarbakka og Stokkseyrar

 


Sveitarfélagið Árborg hefur ákveðið að setja af stað nafnasamkeppni um nýja göngu- og hjólreiðastíginn milli Eyrarbakka og Stokkseyrar. Um er að ræða nýja stíginn sem liggur meðfram ströndinni og tengir þorpin saman. Vilji er til þess að finna í samvinnu við íbúa þjált og gott nafn fyrir stíginn.

 

Íþrótta- og menningarnefnd Árborgar mun fara yfir tillögur og í október verður nafnið kynnt við hátíðlega athöfn. Dagsetning verður auglýst síðar. Allir hafa rétt til þátttöku í nafnasamkeppni þessari.

 

Tillögur er hægt að senda á netfangið bragi@arborg.is eða koma með í í þjónustuver Ráðhúss Árborgar, Austurvegi 2, 800 Selfoss merkt: „Nafn á göngu- og hjólreiðastíginn milli Eyrarbakka og Stokkseyrar“.

 

Skilafrestur á tillögum er til fimmtudagsins 29. september 2016.

 

Íþrótta- og menningarnefnd Sveitarfélagsins Árborgar

Af www.arborg.is


Skráð af Menningar-Staður

28.09.2016 20:55

Margrét Símonardóttir Kjærnested - Fædd 3. september 1923 - Dáin 18. september 2016 - Minning

 

 

 

Margrét Símonardóttir Kjærnested.

 

Margrét Símonardóttir Kjærnested -

- Fædd 3. september 1923 - Dáin 18. september 2016 - Minning

Margrét Anna Símonardóttir Kjærnested fæddist á Eyrarbakka 3. september 1923. Hún andaðist á Hrafnistu 18. september 2016.

Foreldrar hennar voru Símon Símonarson, bifreiðarstjóri, f. 9. apríl 1890, d. 24. ágúst 1960, og Ingibjörg Gissurardóttir, f. 30. ágúst 1888, d. 20. nóvember 1977. Systkini Margrétar voru: Gissur, f. 1920, Ingunn, f. 1921, Kristín, f. 1926 og Símon Þóroddur, f. 1926. Þau eru öll látin.

Margrét giftist 11. október 1944 Guðmundi Kjærnested, skipherra, f. 29. júní 1923, d. 2. september 2005. Heimili þeirra var alla tíð á Þorfinnsgötu 8 í Reykjavík í húsi sem foreldrar hennar reistu.

 

Börn Margrétar og Guðmundar eru fjögur: 

1. Símon Ingi, f. 1945, kvæntur Elínborgu Stefánsdóttur Kjærnested, f. 1945.

Börn þeirra eru: a) Guðmundur, f. 1967, kvæntur Margaret Elizabeth Kjærnested, f. 1969, eiga þau þrjú börn. b) Stefán, f. 1971, kvæntur Ásgerði Ósk Jakobsdóttur, f. 1976, eiga þau fjögur börn. c) Brynjar, f. 1977, kvæntur Hjördísi Jónsdóttur, f. 1980, eiga þau þrjú börn, en fyrir á Brynjar eitt barn með fyrri eiginkonu sinni, Paola Cardenas, f. 1977.

2) Örn, f. 1948, kvæntur Hildi Einarsdóttur, f. 1949. Börn þeirra eru: a) Guðlaug Ágústa, f. 1968, gift Kolbeini Sigurjónssyni, f. 1972, eiga þau tvö börn, en fyrir á Guðlaug tvö börn og eitt barnabarn með fyrri eiginmanni sínum, Þóri Erni Grétarssyni, f. 1964. b) Einar Páll, f. 1972, kvæntur Hildi Ólafsdóttur, f. 1975, eiga þau tvö börn. c) Guðmundur Örn, f. 1985, kvæntur Elínu Maríu Jónsdóttur, f. 1984, eiga þau þrjú börn.

3. Helgi Stefnir, f. 1954. Sonur Helga og Höllu Elínar Baldursdóttur, f. 1955, Baldur Már, f. 1976, kvæntur Svanhildi Sigurðardóttur, f. 1976, eiga þau þrjú börn. Dóttir Helga og Soffíu Lárusdóttur, f. 1960, Margrét Rán, f. 1986, gift Jan Prikryl, f. 1987, eiga þau 1 barn.

4. Margrét Halldóra, f. 1960, gift Pétri E. Oddssyni, f. 1957, dóttir þeirra er Ásta, f. 1988.

 

Margrét stundaði nám í Austurbæjarskóla og Ingimarsskóla. Hún vann sem ung kona í mjólkurbúð, en eftir að börnin fæddust var hún heimavinnandi að mestu og passaði barnabörnin.

Margrét vann ásamt Vigdísi Kristjánsdóttur veflistakonu að listaverkinu „Ingólfur varpar öndvegissúlu fyrir borð“ sem hangir uppi í Ráðhúsi Reykjavíkur. Verkið unnu þær fyrir Reykjavíkurborg í tilefni 1100 ára afmælis landnáms. Einnig vann hún í versluninni Handíð og Hattabúð Reykjavíkur. Margrét var í Kvenfélaginu Hrönn og Heimilisiðnarfélagi Íslands.

 

Margrét bjó á Þorfinnsgötu 8 í 81 ár. Síðustu mánuði var hún á Hrafnistu við Brúnaveg.

 

Útför Margrétar var gerð frá Bústaðakirkju mánudaginn, 26. september 2016.

------------------------------------------------------------------------------------------

Minningarorð:

 

Mamma er dáin. Mikið rosalega er það skrítið. Okkar líf saman hefur staðið yfir í rúm 56 ár sem hafa einkennst af mikilli samveru. Mamma var alltaf til staðar á gleði- og sorgarstundum. Bræður mínir voru allir fluttir að heiman á unglingsárum mínum og pabbi mikið úti á sjó. Því eyddum við mörgum kvöldum, helgum og hátíðisdögum bara tvær einar og fyrir það vil ég þakka þér.

Einnig vil ég þakka þér fyrir allar utanlandsferðir sem ég fór í með ykkur pabba þegar ég var lítil og eins í seinni tíð þegar við fórum til Kanarí á hverjum vetri.

Við áttum handavinnu sem sameiginlegt áhugamál. Þú passaðir alltaf upp á að allt sem ég gerði væri 100%. Áttir jafnvel til að rekja upp það sem ég var búin að sauma eða prjóna ef þér fannst það ekki nógu vel gert.

Þú varst mjög fróð um ættir og oft gott að hringja í þig til að fletta upp í öllum ættartölunum sem þú áttir, eiginlega varst þú undanfari Íslendingabókar.

Þú passaðir Ástu dóttur mína þegar ég þurfti að fara að vinna og hún ekki komin á leikskóla. Átti hún alltaf vísan stað hjá ömmu og afa á Þorfinns í öllum skólafríum.

Ég veit þú saknaðir pabba mikið, sem dó fyrir 11 árum. Þið höfðuð ferðast út um allan heim og örugglega ekki margir á þínum aldri sem fóru í yfir 80 utanlandsferðir sem allar eru skráðar samviskusamlega í stílabók. Í seinni tíð hafðir þú mjög gaman af að rifja þær upp og í leiðinni að skoða myndir úr ferðunum. Nú hafið þið sameinast í sumarlandinu og gangið hönd í hönd á ströndinni kaffibrún.

Hvíl í friði.

Þín dóttir,

Margrét.

 

Fyrstu minningar mínar um mömmu eru frá Þorfinnsgötu 8, húsinu sem afi byggði og þar bjó mamma í 81 ár. Fyrir minn tíma bjuggu í húsinu yfir fjörutíu manns en öllu færri undir síðustu aldamót. Á ungdómsárum mínum bjuggu þar margar konur sem stjórnuðu heimilum sínum og húshaldinu í heild, þar á meðal mamma mín og amma. Mamma var alltaf til staðar þegar maður kom heim og vakti yfir velferð okkar til hinstu stundar. Hún var kvik í hreyfingum, létt í spori og hljóp á milli hæða í húsinu. Hún var alltaf að, ef ekki inni að sýsla eitthvað, þá úti í garði að hlúa að blómum, reyta arfa, hugsa um matjurtagarðinn eða hreinsa stéttina í kringum garðinn. Þingholtin og miðbærinn voru hennar staðir og það var gaman að fara í göngutúr með henni um gamla bæinn. Hún þekkti til flestra húsanna, hver hafði byggt þau og búið þar fyrstu árin. Líf mömmu og pabba var gæfuríkt. Fyrstu fjörutíu árin komu þau upp börnum og búi, þar sem mamma var kletturinn í lífi pabba, síðan tóku við tuttugu góð ár þar sem þau nutu þess að eldast og vera saman. Mamma var trú sínum nánustu og varði tíma sínum til að hlúa að þeim. Þetta ár var henni erfitt þar sem heilsa og kraftur þrutu og sjúkdómurinn náði yfirhöndinni, en hún kvaddi þennan heim á sinn hátt, sátt og í hljóði umkringd sínum nánustu. Núna er hún farin inn í sumarlandið til ástvina sem á undan gengu. Ég sakna mömmu og þakka henni samfylgdina og lífið, en hennar vegna er ég jafnframt þakklátur því nú hefur hún fengið hvíld.

Minning hennar lifir.

Helgi Kjærnested.Morgunblaðið 26., september 2016.
 


Skráð af Menningar-Staður

 

28.09.2016 08:56

UM 242 ÞÚSUND ERLENDIR FERÐAMENN Í ÁGÚST

 

 

 

UM 242 ÞÚSUND ERLENDIR FERÐAMENN Í ÁGÚST

 

Ferðamenn í ágúst 2016

Um 242 þúsund erlendir ferðamenn fóru frá landinu í ágúst síðastliðnum samkvæmt talningum Ferðamálastofu í Flugstöð Leifs Eiríkssonar eða rúmlega 52 þúsund fleiri en í ágúst á síðasta ári. Aukningin nemur 27,5% milli ára.

Heildarfjöldi ferðamanna frá áramótum er um 1,2 milljónir tæpar eða 32,7% fleiri miðað við fjölda ferðamanna á tímabilinu janúar til ágúst árið 2015.

Fjórar þjóðir helmingur ferðamanna

10 fjölmennustu þjóðernin

Fjórar þjóðir voru áberandi fjölmennastar þegar skoðað er hvernig ferðamannahópurinn var samsettur. Þetta voru Bandaríkjamenn, Þjóðverjar, Frakkar og Bretar. Samtals voru ferðamenn frá þessum löndum 122.200 í ágúst, eða ríflega helmingur allra ferðamanna. Sé Ítölum, Kanadamönnum og Spánverjum bætt við þá voru sjö þjóðir með tvo þriðju af heildinni.

Langmest fjölgun í ágúst var meðal Bandaríkjamanna eða 20.500 manns miðað við ágúst 2015. Í prósentum var þetta 56,3% fjölgun á milli ára. Veruleg fjölgun var einnig frá Kanada, ríflega 5 þúsund manns eða 72,1%. Frökkum fjölgaði um 4.651 (28,7%), Þjóðverjum um 3.636 (15,6%), Bretum um 2.495 (16,6%), Ítölum um 2.361 (26,1%) og Spánverjum um 2.003 (22,2%).

Ferðamenn eftir markaðssvæðumSexföldun N-Ameríkana frá 2010

Þegar litið er til fjölda ferðamanna í nýliðnum ágústmánuði eftir markaðssvæðum má sjá nokkuð verulega fjölgun frá árinu 2010 frá flestum svæðum. Mest áberandi er breytingin hjá Norður-Ameríkönum en fjöldi þeirra hefur nærri sjöfaldast, að miklu leyti síðustu þrjú ár. Fjöldi Breta hefur nærri þrefaldast og fjöldi Mið- og Suður Evrópubúa ríflega tvöfaldast. Fjöldi ferðamanna frá löndum sem lenda í hópnum ,,annað“ hafa nærri þrefaldast. Norðurlandabúum hefur hins vegar fjölgað minnst eða um 25.5% frá 2010.

Breytt samsetning eftir markaðssvæðum

Samsetning ferðamanan eftir markaðssvæðum

Samsetning ferðamanna eftir markaðssvæðum hefur breyst töluvert frá árinu 2010 eins og sjá má af myndinni hér til hliðar. Í ágúst síðastliðnum voru Norður Ameríkanar 28,5% af heildarfjölda en hlutdeild þeirra var ekki nema 12,5% árið 2010. Hlutfall Mið- og Suður Evrópubúa og Norðurlandabúa hefur hins vegar lækkað verulega frá árinu 2010. Hlutdeild Breta og annarra markaðssvæða hefur hins vegar staðið í stað.

Ferðir Íslendinga utan

Um 44 þúsund Íslendingar fóru utan í ágúst síðastliðnum eða 4.337 fleiri en árið 2015. Um er að ræða 10,9% fleiri brottfarir en í ágúst 2015 en talsvert færri en í júlí síðastliðnum þegar um 55 þúsund Íslendingar fóru til útlanda um Keflavíkurflugvöll.

Nánari upplýsingar

Talningar Ferðamálastofu ná yfir allar brottfarir frá landinu um Leifsstöð. Skiptingu milli landa má sjá í töflunni hér að neðan og nánari upplýsingar undir liðnum Tölur og útgáfur / Fjöldi ferðamanna hér á vefnum.

Ferðamenn í ágúst 2016

Af www.ferdamalastofa.is


Skráð af Menningar-Staður

23.09.2016 11:53

Oddný í efsta sæti Samfylkingarinnar í Suðurkjördæmi

 

 

Oddný G. Harðardóttir.  Ljósm.: Björn Ingi Bjarnason.

 

Oddný í efsta sæti Samfylkingarinnar í Suðurkjördæmi

 

Framboðslisti Samfylkingarinnar – Jafnaðarmannaflokks Íslands – í Suðurkjördæmi í alþingiskosningunum 29. október 2016 var samþykktur með lófaklappi á fundi kjördæmráðs Samfylkingarinnar í Suðurkjördæmi sem haldinn var í Reykjanesbæ í gærkvöldi.

 

Listann skipa eftirtaldir:

 

  1.    Oddný G. Harðardóttir, alþingismaður, Garði

  2.    Ólafur Þór Ólafsson, stjórnsýslufræðingur og forseti bæjarstjórnar, Sandgerði

  3.    Arna Ír Gunnarsdóttir, félagsráðgjafi og bæjarfulltrúi, Selfossi

  4.    Magnús Sigurjón Guðmundsson, aðgerðastjóri, Selfossi

  5.    Guðný Birna Guðmundsdótti,r hjúkrunarfræðingur og bæjarfulltrúi, Reykjanesbæ

  6.    Miralem Hazeta, húsvörður, Höfn í Hornafirði

  7.    Arna Huld Sigurðardóttir, hjúkrunarfræðingur, Vestmannaeyjum

  8.    Guðmundur Oddgeirsson, framkvæmdastjóri og bæjarfulltrúi, Þorlákshöfn

  9.    Borghildur Kristinsdóttir, bóndi, Landsveit 

10.    Marta Sigurðardóttir, viðskiptastjóri og bæjarfulltrúi, Grindavík

11.    Andri Þór Ólafsson, vaktstjóri, Sandgerði

12.    Kristbjörg Erla Hreinsdóttir, öryrki, Hveragerði

13.    Guðbjörg Anna Bergsdóttir, lögfræðingur og bóndi, Höfn í Hornafirði

14.    Magnús Kjartansson, hljómlistarmaður, Grímsnesi

15.    Guðbjörg Rut Þórisdóttir, deildarstjóri, Reykjanesbæ

16.    Ingimundur Bergmann, formaður Félags kjúklingabænda, Flóahreppi

17.    Kristján Gunnarsson, formaður Verkalýðs- og sjómannafélags Keflavíkur og nágrennis, Reykjanesbæ

18.    Kristín Á. Guðmundsdóttir, formaður Sjúkraliðafélag Íslands, Árborg

19.    Karl Steinar Guðnason, fyrrverandi alþingismaður, Reykjanesbæ

20.    Margrét Frímannsdóttir, fyrrverandi alþingismaður, Kópavogi

 


Oddný G. Harðardóttir Ljósm.: Björn Ingi Bjarnason.
Af www.dfs.is


Skráð af Menningar-Staður

22.09.2016 15:54

Opinn fundur Bókabæjanna austanfjalls á Eyrarbakka

 

 

 

Opinn fundur Bókabæjanna austanfjalls á Eyrarbakka

 

Í dag, fimmtudagskvöldið 22. september 2016, boða Bókabæirnir austanfjalls til opins fundar í Rauða húsinu á Eyrarbakka (kjallara).

 

Á dagskrá fundarins er kynning á tveimur stærstu verkefnum haustsins sem eru barnabókahátíð í Hveragerði í október og krimmakvöld í Flóanum í nóvember ásamt frásögn Dorothee Lubecki í máli og myndum af ferð sinni til Sviss á þing IOB (alþjóðlegra samtaka bókabæja) sem fulltrúi Bókabæjanna austanfjalls.

 

Skipulagning barnabókahátíðar og krimmakvölds er komin í fullan gang í höndum Hrannar Sigurðardóttur. Hafi einhver sem þetta les áhuga á að vera með í skipulagningu eða framkvæmd verkefnanna er upplagt fyrir viðkomandi að mæta á fundinn – eða hafa samband við Hrönn ( hronnsig@arborg.is).

 

Bókabæirnir eru Árborg (Selfoss, Eyrarbakki og Stokkseyri), Hveragerði, Þorlákshöfn og Flóahreppur og styrkja sveitarfélögin starfsemi félagsins. Markmið Bókabæjanna austanfjalls er að gera bókum hátt undir höfði á ýmsan hátt, m.a. með því að vekja athygli á bókum og bóklestri og finna gömlum, notuðum bókum nýjan farveg. Upplýsingar um félagið má finna á www.bokabaeir.is og á Facebook.

 

Fundurinn hefst kl. 20 og er reiknað með að hann taki um eina klukkustund.

 

Allir eru hjartanlega velkomnir til að forvitnast, fylgjast með eða taka þátt í þessum skemmtilegu verkefnum.

Af. wwwdfs.is

Image result for siggeir ingólfsson og valgeir guðjónsson við eyrarbakkakirkju

Fundurinn verður í Rauða-húsinu á Eyrarbakka.

Skráð af Menningar-Staður