Menningar-Bakki * Viðhalda og efla þjóðlega menningararfleið til sjávar og sveita*
-------- Alþýðuhúsið á Eyrarbakka - Vinir alþýðunnar - Á undan sinni framtíð --- "Stærra í hugum okkar en við sjálfir gerum okkur grein fyrir" ---

18.06.2017 07:28

Ný félagsrit

 

 

Jón Sigurðsson (1811 - 1879).

 

Ný félagsrit

 

Vorið 1841 hófu Jón og nokkrir félagar hans útgáfu á Nýjum félagsritum og var það ársrit. Hafði Jón veg og vanda af ritinu alla tíð og var það höfuðmálgagn hans. Þar barðist hann fyrir stjórnfrelsi, kjörfrelsi, málfrelsi, verslunarfrelsi og atvinnufrelsi til handa Íslendingum. Hann birti í ritinu ótal hvatningagreinar til Íslendinga um hvaðeina sem verða mátti landinu til viðreisnar.

   Útgáfan var alltaf mjög erfið og mætti misjöfnum skilningi heima á Íslandi. Ný félagsrit komu út í 30 ár. Það er skemmtilegt að geta þess, að upplagið var geymt uppi á lofti konungshallarinnar, Amalíuborgar. 

Veist þú hvílíkt afrek það var að halda úti Nýjum félagsritum í öll þessi ár?

 


(Heimild: Lúðvík Kristjánsson)
 


Hallgrímur Sveinsson - Vestfirska forlagiðSkráð af Menningar-Staður

17.06.2017 22:29

Í tilefni dagsins: - Jón Sigurðsson í nauðum staddur

 Jón Sigurðsson.

 

Í tilefni dagsins: - Jón Sigurðsson í nauðum staddur

 

Árið 1855 var Jón Sigurðsson illa staddur fjárhagslega. Mátti rekja það beint til starfa hans í þágu Íslendinga.
 

Stuðningsmenn hans hér heima efndu þá til samskota honum til handa. Þá söfnuðust á öllu landinu 47 ríkisdalir og 76 skildingar.

Það ár skutu Íslendingar saman 1480 ríkisdölum til að reisa styttu af Marteini Lúther suður í Þýskalandi. Og eitt sinn er safna átti í heiðursgjöf til Jóns varð mönnum ekkert ágengt.

En í prófastsdæmi nokkru á landinu söfnuðust 602 ríkisdalir og 42 skildingar til kristniboðs í Kína. 

Vissir þú þetta?

 

 

Heimild: Lúðvík Kristjánsson, Á slóðum Jóns Sigurðssonar.


Hallgrímur Sveinsson - Vestfirska forlagið.Skráð af Menningar-Staður

17.06.2017 22:18

Jón Sigurðsson tók loks af skarið: - Ingibjörg sat í festum í 12 ár!

 

 

Jón Sigurðsson og Ingibjörg Einarsdóttir.

 

Jón Sigurðsson tók loks af skarið:

- Ingibjörg sat í festum í 12 ár!

 

Vorið 1845 hélt Jón Sigurðsson til Íslands til að sitja endurreist Alþingi fyrir Ísafjarðarsýslu og vitja heimhaganna fyrir vestan. Um haustið voru þau Ingibjörg Einarsdóttir gefin saman í hjónaband í Dómkirkjunni í Reykjavík. Hafði hún þá setið í festum, sem kallað var, í 12 ár. Þá var hún 41 árs en hann 34 ára. Þau voru bræðrabörn.
 

Meðfylgjandi ljósmynd, sem ekki er vitað hver tók, var smellt af skömmu eftir brúðkaupið. Er hún ein elsta ljósmynd sem til er af Íslendingum. Á myndinni er Jón dökkur á brún og brá, sem sjá má. Skömmu síðar varð hann hvíthærður og var það alla tíð síðan. Er það einkenni úr móðurætt hans að vestan.

Svo er annað. Þetta er eina ljósmyndin sem vitað er um af Jóni Sigurðssyni þar sem önnur persóna er á mynd með honum.


Hallgrímur Sveinsson - Vestfirska forlagiðSkráð af Menningar-Staður

 

 

17.06.2017 06:16

Hver var Jón forseti?

 

 

Jón Sigurðsson um fimmtugt, á tindi manndómsáranna.

Ljósmyndari ókunnur.

 

Hver var Jón forseti?

 

   Jón Sigurðsson forseti, sem var eftirminnilegasti tímamótamaður íslenskrar sögu, fæddist á Hrafnseyri í Arnarfirði 17. júní 1811 og ólst þar upp til 18 ára aldurs. Foreldrar hans voru prestshjónin Þórdís Jónsdóttir og séra Sigurður Jónsson. Systkini Jóns voru Margrét, húsfreyja og bóndi á Steinanesi í Arnarfirði og Jens, kennari og rektor Lærða skólans í Reykjavík. Þau voru alin upp við iðjusemi, nákvæmni og hirðusemi í heimahúsum og kennt að bjarga sér sjálf.
 

   Samtímamaður þeirra hjóna, séra Oddur Sveinsson, sem tók við Hrafnseyrarstað þegar þau fluttust að Steinanesi með Margréti dóttur sinni 1851, lýsir þeim svo:

   "Þórdís var í meðallagi há, vel vaxin, andlitið frítt og gáfulegt, augun móleit og fjörmikil, kona var hún hæglát og geðgóð, en stjórnsöm á heimili. Góðhjörtuð var frú Þórdís talin og örlát við fátæka."

   "Þú vilt gefa allt, Þórdís", er mælt að séra Sigurður hafi eitt sinn sagt við konu sína er hún var að gefa fátækum.

   "Séra Sigurður var hár maður vexti, þrekinn vel og að öllu hinn karlmannlegasti, iðjumaður mikill. Hann var að vísu ekki sérlega fljótgáfaður eða bráðskarpur, sem menn kalla, en hafði einkar gott minni og greindargáfu og kunni yfir höfuð vel að nota gáfur sínar."
 

   Lengi framan af starfsárum sínum stundaði séra Sigurður sjóróðra á vorin. Fór hann þá heim um helgar til embættisgjörða. Var hann talinn ágætur sjómaður og aflasæll.
 

   Faðir Jóns kenndi honum allan skólalærdóm sem numinn skyldi í Bessastaðaskóla. Stúdentspróf tók hann svo í Reykjavík 1829 með afburðalofi. Verslunarstörf stundaði hann um skeið í höfuðstaðnum hjá Einari föðurbróður sínum. Þar kynntist hann frænku sinni, Ingibjörgu, dóttur Einars og felldu þau hugi saman.
 

   Hann gerðist svo skrifari hjá Steingrími biskupi Jónssyni í Laugarnesi í þrjú ár. Dvöl hans hjá honum hafði mikil áhrif á lífsstarf hans síðar. Jón sigldi svo til Kaupmannahafnar til náms við háskólann þar í málfræði, sögu, hagfræði og stjórnfræði, en lauk aldrei embættisprófi. Fljótlega eftir að hann kom til náms hlóðust á hann alls konar aukastörf, enda þurfti hann að sjá fyrir sér sjálfur fjárhagslega og íslensk þjóðmál tóku fljótlega hug hans allan.
 

   Í tólf ár kom hann ekki til Íslands og hafði konuefnið setið í festum allan þennan tíma. 1845 fór Jón heim til að sitja á hinu fyrsta endurreista Alþingi og þá gengu þau Ingibjörg í hjónaband í Dómkirkjunni í Reykjavík 4. september. Þá var hún 41 árs en hann 34 ára.
 

   Þau Ingibjörg bjuggu í Kaupmannahöfn allan sinn búskap og þaðan stjórnaði hann sjálfstæðisbaráttunni við Dani hátt í 40 ár. Á þeim tíma hafði enginn Íslendingur samband við jafn fjölmennan hóp landsmanna og má nefna að á söfnum landsins eru til yfir 6000 sendibréf til Jóns, sem hann varðveitti, frá um 870 bréfriturum.
 

   Lifibrauð sitt hafði hann af ýmsum vísindastörfum og vinnu við Árnasafn, þar sem hin fornu íslensku handrit voru varðveitt. Fræðistörf hans ein mega heita fullkomið ævistarf, enda kunni hann að skipuleggja störf sín.
 

   Jón var forseti Kaupmannahafnardeildar Bókmenntafélagsins og hlaut af því viðurnefnið forseti. Forseti íslenska lýðveldisins var hann aldrei af skiljanlegum ástæðum.
 

    Þá var hann potturinn og pannan í öllum störfum Alþingis allt frá endurreisn þess og til æviloka. Forseti Alþingis var hann alls á 10 þingum, eða lengur en nokkur annar fyrr og síðar. Það voru skoðanir Jóns Sigurðssonar sem mest mótuðu störf þingsins fyrstu áratugina og má segja að andi hans hafi svifið þar yfir vötnum allt til þessa dags.
 

   Jón sigldi 29 sinnum yfir Íslandsála á misjöfnum farkostum, m. a. til að stjórna fundum Alþingis. Oftast var eiginkonan með í för.
 

   Þekking Jóns Sigurðssonar á sögu og bókmenntum Íslendinga og ást hans á íslensku fólki, máli þess og menningu, auðveldaði honum að verða sá foringi sem hann varð. Hann var bardagamaður, einarður og ósérhlífinn, fylginn sér og harðsnúinn. En hann barðist hvorki með byssu né sverði heldur var orðsins brandur og söguleg rök helstu vopn hans.

   Ný félagsrit voru málgagn hans. Þar barðist hann fyrir stjórnfrelsi, kjörfrelsi, málfrelsi, verslunarfrelsi og atvinnufrelsi til handa Íslendingum og birti ótal hvatningargreinar til Íslendinga um hvaðeina sem verða mátti landinu til viðreisnar.
 

   Fullt löggjafarvald, aðskilinn fjárhagur, jafnrétti og innlend stjórn. Þetta var stefnuskrá Jóns Sigurðssonar og samherja hans í sjálfstæðisbaráttunni við Dani, sem hann birti í ritgerðinni Hugvekju til Íslendinga 1848.
 

   Á þjóðfundi 1851 ætluðu Danir að setja Íslendingum nýja stjórnskipun, þar sem lítið tillit var tekið til óska Íslendinga. Fundinum lauk með því að flestir fundarmenn risu úr sætum og sögðu: "Vér mótmælum allir."

   Á þjóðfundinum urðu tímamót á stjórnmálaferli Jóns Sigurðssonar. Eftir fundinn var enginn vafi á því hver var óumdeildur fyrirliði þjóðarinnar.
 

   Jón Sigurðsson taldi, að ætti líf og fjör að færast í Íslendinga, þyrftu þeir að vera fjár síns ráðandi og fá að versla við þá sem þeir vildu sjálfir. Öflug forysta hans hafði úrslitaáhrif á að verslun við Ísland var gefin öllum þjóðum frjáls 1. apríl 1855.

   Jón forseti var mjög vinsæll maður heima á Íslandi og má ætla að alls konar erindrekstur og endalaus fyrirgreiðsla fyrir landa hans í höfuðborginni, Kaupmannahöfn, hafi átt mikinn þátt í þeim vinsældum.
 

   Jón Guðmundsson, ritstjóri, var nánasti fylgismaður Jón Sigurðssonar í þjóðmálabaráttunni og sá sem mest mæddi á hér heima. Hann var kallaður "skuggi" Jóns Sigurðssonar. En fjöldi manna um allt land voru óhvikulir stuðningsmenn hans, bæði leynt og ljóst. Þetta voru menn úr öllum stéttum þjóðfélagsins: Bændur, prestar, vinnumenn, vinnukonur, verkamenn, búðarþjónar, embættismenn, húsfreyjur og námsmenn.


 

   Jón Sigurðsson taldi að frelsi án banda, án takmörkunar, væri ekki frelsi, heldur agaleysi og óstjórn.

 

   Hann var höfðingi í sjón og reynd, glæsilegur gáfumaður sem varð oft að sætta sig við þá reynslu brautryðjandans að falla en halda þó velli.
 

   Jón andaðist í Kaupmannahöfn 7. desember 1879 og Ingibjörg níu dögum síðar. Þau eru jarðsett í kirkjugarðinum við Suðurgötu í Reykjavík. Þau voru barnlaus, en Sigurður, sonur Margrétar á Steinanesi, ólst upp hjá þeim. Einn samtímamaður Jóns og Ingibjargar sagði um þau:

"Allir Íslendingar voru börn þeirra."

 

   "Það getur enginn gert sér grein fyrir því, hvernig nú væri ástatt um hag þjóðar vorrar, ef hún hefði ekki eignast Jón Sigurðsson, þegar mest lá við. Það verður ekki stungið svo skóflu i jarðveg og sögu íslenskrar viðreisnar að ekki komi niður á æfistörf Jóns Sigurðssonar. Jón Sigurðsson er ímynd Íslendingsins eins og hann getur verið mestur og bestur."

(Ásgeir Ásgeirsson forseti á Hrafnseyrarhátíð 17. júní 1961)
 

 

Jón Sigurðsson (1811 - 1879).Hallgrímur Sveinsson,Vestfirska forlagið


Skráð af Menningar-Staður

16.06.2017 08:25

Glæsileg eldfjallamiðstöð opnuð á Hvolsvelli

 

 

Flateyringurinn Ásbjörn Björgvinsson markaðs- og sölustjóri Lava

eldfjallamiðstöðvarinnar við gagnvirkan margmiðlunarvegg.

Ljósmynd: Ragnar Th. Sigurðsson.

 

Glæsileg eldfjallamiðstöð opnuð á Hvolsvelli

 

Á síðustu helgi opnaði Lava eldfjallamiðstöð á Hvolsvelli. Að sögn Ásbjörns Björgvinssonar markaðs- og sölustjóra Lava ríkti mikil eftirvænting og spenna við opnuna eftir rúmlega þriggja og hálfs árs undirbúningstíma. Um er að ræða glæsileg mannvirki og stærstu og glæsilegustu eldfjallasýningu landsins.

„Þetta hefur verið unnið í mikilli sátt við samfélagið hér á Hvolsvelli. Við höfum átt mjög gott samstarf og fengið mikinn stuðning heimamanna við þetta verkefni, ekki síst frá sveitarstjórninni. Síðan hefur líka verið mjög ánægjulegt samstarf við bæði Jarðfræðistofnun Íslands og Veðurstofu Íslands og síðan alla þá sérfræðinga sem hafa unnið með okkur að þessari hugmynd. Þar má nefna arkitektana, margmiðlunarfyrirtækið Gagarín og fullt af öðrum flottum aðilum sem hafa komið að sýningunni. Ari Trausti Guðmundsson er okkar helsti jarðfræðingur í þessari sögu og Marcos Zotes hjá Basalt sýningarhönnuður,“ segir Ásbjörn.

 

Ásbjörn segir að þeir sem standi að Lava eldfjallamiðstöð vonist til þess að þeir geti stækkað kökuna fyrir Suðurland þannig að ferðamenn fái enn ríkari ástæðu en áður til að koma inn á svæðið og helst dvelja aðeins lengur. „Við erum að vonast til að við lengjum dvölina hjá þessum ferðamönnum sem koma til landsins, þeir dvelji lengri tíma út á landi og að það komi fram sem samlegðaráhrif til annarra aðila á svæðinu eins og gististaða, veitingastaða og verslana. Þegar upp er staðið er það von mín að þetta komi öllum til góða.“

 

„Svona sýning sem líklega er að leggja sig í hátt í tvo milljarða króna þarf auðvitað að skila eigendunum arði þegar til lengri tíma er litið. Það er mjög þolinmótt fjármagn sem er búið að standa á bak við þetta hingað til. Þeir vilja auðvitað fá sitt til baka smá saman og þá verðum við að varðveita þetta aðdráttarafl, þennan segul, sem fær fólk til að langa til að koma til okkar. Það gerum við með þessari mögnuðu sýningu sem við erum að opna. Við opnuðum fyrir gesti og gangandi um helgina sem ég er mjög glaður með. Síðan verður formleg opnun með pompi og prakt seinna í júní.“

 

Eldfjallasýningin á Hvolsvelli er alveg einstök sýning. Þar er spilað á öll skynfærin, mikið með hljóði og ljósi og birtu og öllu sem tengist skynfærunum. Fólk labbar í gegnum misturstrók og finnst eins og það sé tínt í myrkri eða reyk og jarðskjálfta sem er búinn til líka. Hljóðið er stóri parturinn af þessu þar sem fólk upplifir raunverulega hið gríðarlega afl sem er í eldgosum og jarðskorpunni hér á landi. „Fólk mun fá heilmikið fyrir peninginn í því að upplifa náttúruna á gjörsamlega nýjan og gangvirkan hátt. Fólk er þátttakandi í sýningunni. Það verður að gera eitthvað til að fá fram upplýsingarnar, hreyfa sig, stíga á punkta og fá fræðslu og í raun að vera með. Ég hef sagt að það eina sem sýningin geri sé að vekja fólk til umhugsunar um náttúruna okkar, um mikilfengleik hennar og hversu vel við þurfum að passa upp á hana. Þessi sýning er ætluð til að hreyfa við fólki og fá það til að sjá hlutina í nýju samhengi,“ segir Ásbjörn.

 

 

Hluti af sýningunni í Lava eldfjallamiðstöðinni.

Ljósmynd: Ragnar Th. Sigurðsson.


Af www.dfs.is


Skráð af Menningar-Staður


 

15.06.2017 07:09

Merkir Íslendingar - Sigurður Jensson

 

 

Sigurður Jensson (1853 - 1924).
Faðir hans var fyrsti kennarinn

við Barnaskólann á Eyrarbakka.

 

Merkir Íslendingar - Sigurður Jensson

 

Sigurður Jensson fæddist í Reykjavík 15. júní 1853. 

Foreldrar hans voru Jens Sigurðsson, f. 6.7. 1813, d. 2.11. 1872, alþingismaður og rektor Lærða skólans í Reykjavík, og k. h. Ólöf Björnsdóttir, f. 22.2. 1830, d. 7.12. 1874 húsmóðir. Jens var sonur Sigurðar Jónssonar prófasts á Hrafnseyri og bróðir Jóns forseta. Ólöf var dóttir Björns Gunnlaugssonar stærðfræðings og yfirkennara við Lærða skólann.

 

Meðal systkina Sigurðar var Jón Jensson yfirdómari og alþingismaður.
 

Sigurður tók stúdentspróf frá Lærða skólanum 1873 og guðfræðipróf frá Prestaskólanum 1876. Hann fór síðan í framhaldsnám í guðfræði við Hafnarháskóla 1877-1878.
 

Sigurður var kennari við barnaskólann í Reykjavík 1873-1876 og 1878-1880. Hann var síðan prestur í Flatey á Breiðafirði 1880-1921 og prófastur í Barðastrandarprófastsdæmi 1881-1902. Hann var póstafgreiðslumaður í Flatey 1914-1921. Hann var oddviti Flateyjarhrepps í mörg ár, amtsráðsmaður 1901-1907 og yfirskoðunarmaður landsreikninganna 1895-1902. Sigurður fékkst því við mörg opinber störf og var prýðilega vel látinn og vandaður maður, segir í andlátsfregn.

Sigurður var alþingismaður Barðstrendinga 1886-1908 fyrir Framfaraflokkinn, Landvarnarflokkinn, Sjálfstæðisflokkinn eldri. Hann var varaforseti efri deildar 1899.
 

Sigurður fékk lausn frá prestsembætti vegna heilablóðfalls 1921 og fluttist þá til Reykjavíkur og var þar til æviloka.

Eiginkona Sigurðar var Guðrún Sigurðardóttir, f. 20.2. 1862, d. 19.3. 1941, húsmóðir. Foreldrar: Sigurður Jónsson kaupmaður í Flatey og k.h. Sigríður Brynjólfsdóttir.
 

Börn Sigurðar og Guðrúnar sem upp komust voru Haraldur vélstjóri á Gullfossi, Jón raffræðingur og framkvæmdastjórii í Reykjavík, Jens gasstöðvarstjóri í Tönsberg í Noregi, Jón Sigurður bóndi og póstafgreiðslumaður í Flatey, Brynjólfur gasstöðvarstjóri í Rvík og Ólöf húsfreyja í Reykjavík.
 

Sigurður lést 5. janúar 1924.
 


Morgunblaðið.

 Hrafnseyri við Arnarfjörð.


Skráð af Menningar-Staður.

14.06.2017 07:06

17. júní 2017 - Hátíðarhöld á Eyrarbakka

 

 

 

17. júní 2017  - Hátíðarhöld á Eyrarbakka
 

 

Dagskráin verður á Stað og hefst kl. 14:30.

 

D  A  G  S  K  R  Á

 

1.  Ávarp fjallkonunnar.

2.  Hátíðarræða: Kjartan Björnsson, bæjarfulltrúi og formaður íþrótta- og tómstundarnefndar flytur.

3.  Skólakór Barnaskólans á Eyrarbakka og Stokkseyri syngur.

4.  Leikskólabörn syngja.

5.  Karítas Harpa Davíðsdóttir flytur nokkur lög.

6.  Sirkus Íslands stígur á stokk.

 

Kaffiveitingar og hressing fyrir börnin.


Kvenfélag Eyrarbakka
 


Hátíðarhöldin eru styrkt af Sveitarfélaginu Árborg

 

 
Skráð af Menningar-Staður

13.06.2017 17:23

Óánægja í Árborg vegna breytinga á póstdreifingu

 

 

Ari Björn Thor­ar­en­sen, vara­formaður bæj­ar­ráðs Árborg­ar.

 

Óánægja í Árborg vegna breytinga á póstdreifingu

 

Bæj­ar­ráð Árborg­ar hef­ur gert at­huga­semd við breyt­ing­ar sem Póst­ur­inn hyggst gera á fyr­ir­komu­lagi póstþjón­ustu í sveit­ar­fé­lag­inu. Að sögn Brynj­ars Smára Rún­ars­son­ar, fjöl­miðlafull­trúa Pósts­ins, er ekki verið að draga úr þjón­ustu við íbúa Árborg­ar, aðeins sé verið að gera breyt­ing­ar á dreif­ingu fjöl­pósts í sveit­ar­fé­lag­inu. Í stað dreif­ing­ar á fimmtu­dög­um, yrði henni nú skipt niður á fimmtu­dag og föstu­dag. Við það er bæj­ar­ráðið ósátt.

 

Ari B. Thor­ar­en­sen, vara­formaður bæj­ar­ráðs Árborg­ar, sagði í sam­tali við Morg­un­blaðið, að málið snér­ist meðal ann­ars um héraðsblöðin. Þau væru notuð und­ir hvers kyns aug­lýs­ing­ar auk annarra frétta og til­kynn­inga inn­an sveit­ar­inn­ar. „Það er mjög óhag­stætt að helm­ing­ur­inn af íbú­um sveit­ar­fé­lags­ins fái Dag­skrána sína á fimmtu­degi og hinn helm­ing­ur­inn á föstu­degi“ seg­ir Ari.

 

Þá hef­ur fyr­ir­komu­lagi á dreif­ingu og mót­töku dreifi­bréfa einnig verið breytt.

 

Í til­kynn­ingu frá bæj­ar­ráði Árborg­ar seg­ir að það sé til hins verra þar sem sveit­ar­fé­lagið nýti sér þá þjón­ustu Pósts­ins til að koma til­kynn­ing­um áleiðis.

 

Bæj­ar­ráð hef­ur sent Póst­in­um fyr­ir­spurn vegna þessa en ekki fengið svar.


Morgunblaðið 13. júní 2017.Skráð af Menningar-Staður

12.06.2017 17:36

Alþýðuhúsið á Eyrarbakka 12. júní 2017

 

 

 

Alþýðuhúsið á Eyrarbakka 12. júní 2017

Vinir alþýðunnar.

 

Myndaalbúm á þessari slóð:
http://menningarstadur.123.is/photoalbums/283101/

Nokkrar myndir:

 

.

.

 

.

.

Skráð af Menningar-Staður
 

 

12.06.2017 17:07

Orðsending til lesenda Þingeyrarvefsins

 

 

F.v.: Hallgrímur Sveinsson og Björn Ingi Bjarnason á ársfundi -Vestfirska forlagsins-

sem haldinn var þann 6. júní sl. í Simbahöllinni á Þingeyri.

 

 

Orðsending til lesenda Þingeyrarvefsins

 

   Kæru vinir.

Eins og margir ykkar vita, höfum við undirritaðir séð um að halda Þingeyrarvefnum gangandi nú um nokkurt skeið. Hefur það verið á vegum Vestfirska forlagsins og Íþróttafélagsins Höfrungs. Þetta er endalaus vinna sem hefur gefið okkur mikið í aðra hönd. Ekki er það nú í peningum talið eins og þið vitið, heldur er það fyrst og fremst ánægjan sem þar hefur verið aflvakinn. Og láta eitthvað gott af sér leiða fyrir samferðamennina og framtíðina.
 

   Mörgum þykir vænt um Þingeyrarvefinn. Hefur svo verið frá því strákarnir í Mjólká byrjuðu með hann 2003. Þar birtist oft efni sem hvergi er að finna annarsstaðar. 

Það geta allir séð með því að skoða frétta- og greinamagasínið á vefnum sjálfum. Þar kennir ótrúlega margra grasa úr samfélagi okkar. Vonandi hefur það bæði verið til gagns og gleði. Og sannleikurinn er sá, að það eru ekki margir frétta- og samfélagsvefir hér vestra sem hafa verið eins kraftmiklir og fjölbreyttir að efni og Þingeyrarvefurinn á liðnum árum.  

 

   En nú fer þessu bráðum að ljúka frá okkar hálfu af ýmsum ástæðum. (Sumir eru nú orðnir rugluð gamalmenni!). Samt ætlum við að láta sjá í sumar. Hvað svo verður í haust verður bara að koma í ljós.
 

   Með baráttukveðjum.
 

     Upp með Vestfirði!
 

      Hallgrímur Sveinsson

      Björn Ingi Bjarnason
 Skráð af Menningar-Staður