![]() |
Guðsþjónusta í Eyrarbakkakirkju
sunnudaginn 19. ágúst 2018 kl. 14
Guðsþjónusta í Eyrarbakkakirkju sunnudaginn
19. ágúst 2018 kl. 14:00.
Sr. Kristján Björnsson vígslubiskup prédikar en með honum þjónar sr. Arnaldur Bárðarson sem settur hefur verið til þjónustu í í prestakallinu.
Þetta er kveðjumessa sr. Kristjáns sem hefur nú tekið við embætti í Skálholti. Kórar prestakallsins leiða sönginn. Organisti er Haukur Arnarr Gíslason.
Kaffiveitingar í Rauða húsinu eftir messu.
Hvet söfnuðinn til að koma og eigan saman góða stund í kirkju og kaffispjalli á eftir þar sem við samfögnum og þökkum þeim vígslubiskups hjónum Guðrúnu Helgu og sr. Kristjáni og biðjum þeim blessunar í nýrri þjónustu í Skálholti.
Sr. Arnaldur Bárðarson
![]() |
Séra Kristján Björnsson og séra Arnaldur Bárðarson. |
Skráð af Menningar-Staður
![]() |
Marsellíus S. G. Bernharðsson (1897 - 1977).
Marsellíus S. G. Bernharðsson skipasmíðameistari á Ísafirði var fæddur 16. ágúst 1897 að Kirkjubóli í Valþjófsdal í Önundarfirði. Hann lést þann 2. febrúar 1977 á Ísafirði.
Hann flutti með fjölskyldu sinni að Hrauni á Ingjaldssandi, Önundarfirði þegar hann var 8 ára, en flutti á Ísafjörð innan við tvítugt og bjó þar upp frá því.
Hann kynntist þar Albertu Albertsdóttur, sem var ung ekkja með 3 börn. Þau gengu í hjónaband á Sjónarhæð þann 3. júní1927. Fyrstu 15 árin bjuggu þau að Aðalstræti 15, en reistu sér svo íbúðarhúsið að Austurvegi 7, sem þau fluttu í 16. september 1943. Þá höfðu þau eignast 10 börn, en missst tvö börn. Fjölskyldan sem flutti úr Miðkaupstað í Hæstakaupstað samanstóð þá af þeim hjónum og 11 börnum.
Hann hóf skipasmíðar sínar fyrir utan heimili þeirra í Miðkaupstað, en flutti stöðina sína niður í Neðstakaupstað í lok 4.áratugarins.
Á 7. áratugnum hóf M. Bernharðsson hf smíði stálskipa í Naustinu, neðar á Suðurtanganum, þar var einnig reist dráttarbraut og stálskemma sem hefur alltaf verið nefnd Hveragerði á meðal fjölskyldunnar. Það heiti tengist bróður hans Finni Guðna sem vann hjá bróður sínum, aðstoðaði við húsbygginguna á Austuveginum og bjó þar til dauðadags. Síðustu árin átti Finnur við veikindi að stríða og fór á Náttúrulækningastofnunina í Hveragerði, þar sem hann dvaldi um tíma. Honum líkaði dvölin vel og dásamaði staðinn.
Afi vann langa starfsævi, hann dó á 80. aldursári.
Af Facebook-siðu Áslaugar Helgudóttur
á Ísafirði.
![]() |
Skráð af Menningar-Staður.
![]() |
Matthías Bjarnason (1921 - 2014).
|
Merkir Íslendingar - Matthías Bjarnason
Matthías Bjarnason fæddist á Ísafirði 15. ágúst 1921.
Foreldrar hans voru Bjarni Bjarnason sjómaður, síðar vegaverkstjóri, og k.h. Auður Jóhannesdóttir húsfreyja.
Eiginkona Matthíasar var Kristín Ingimundardóttir húsfreyja sem lést 2003 og eru börn þeirra Auður félagsráðgjafi og Hinrik, ráðgjafi hjá Sjóvá-Almennum. Hin síðari ár átti Matthías góða samfylgd með Jónínu Margréti Pétursdóttur, skólasystur sinni úr VÍ, en hún lést 2012.
Matthías brautskráðist úr VÍ 1939. Hann var framkvæmdastjóri Vestfjarðabátsins hf. 1942-43, Djúpbátsins hf. 1943-68, framkvæmdastjóri Vélbátaábyrgðarfélags Ísfirðinga 1960-74, rak verslun á Ísafirði 1944-73, var framkvæmdastjóri útgerðarfélagsins Kögurs 1959-66, bæjarfulltrúi á Ísafirði 1946-70, sat í bæjarráði og var forseti bæjarstjórnar.
Matthías var landskjörinn alþingismaður Sjálfstæðisflokksins 1963-67 og á Vestfjörðum 1967-95, sjávarútvegs-, heilbrigðis- og tryggingaráðherra 1974-78, heilbrigðis- og tryggingaráðherra 1983-85, samgönguráðherra 1983-87 og viðskiptaráðherra 1985-87.
Matthías var formaður FUS á Ísafirði, Sjálfstæðisfélags Ísfirðinga, Fjórðungssambands sjálfstæðismanna á Vestfjörðum, fulltrúaráðs sjálfstæðisfélaganna á Ísafirði og sat í miðstjórn flokksins. Hann var formaður Útgerðarfélagsins Ísfirðings, sat í stjórn Vinnuveitendafélags Vestfjarða, Vélbátaábyrgðarfélags Ísfirðinga, Útvegsmannafélags Ísfirðinga, Útvegsmannafélags Vestfirðinga, LÍÚ, í stjórn Fiskimálasjóðs, Atvinnujöfnunarsjóðs, Framkvæmdastofnunar ríkisins, Hollustuverndar ríkisins, var formaður Byggðastofnunar og ritstjóri Vesturlands.
Æviminningar hans, Járnkarlinn, skráðar af Örnólfi Árnasyni, komu út 1993. Matthías gaf út ritið Ísland frjálst og fullvalda ríki, í tilefni 75 ára afmælis fullveldisins, 1993.
Matthías lést 28. febrúar 2014.
Morgunblaðið.
Skráð af Menningar-Staður.
![]() |
Guðrún Þórhallsdóttir og Björn Daði Björnsson. Ljósmynd/?Guðmundur Karl Sigurdórsson |
Rakarastofa Björns og Kjartans á Selfossi fagnar 70 ára afmæli í dag og verður boðið upp á kaffi og meðlæti í tilefni dagsins. Í haust verður svo afmælispartí. „Þá gerum við afa góð skil,“ segir Kjartan Björnsson hárskeri, einn fjögurra bræðra.
Gísli Sigurðsson hóf reksturinn 1948 eftir að hafa verið rakari í Eimskipafélagshúsinu í Reykjavík og víðar um árabil. Björn sonur hans tók við stofunni fyrir um 50 árum. „Það var hans heitasta ósk að ég yrði rakari og hann byrjaði að láta mig klippa sig þegar ég var 13 ára,“ segir Björn. Hann segist hafa viljað verða húsasmiður og hafi unnið við húsasmíði hjá Sigfúsi Kristinssyni en farið á samning á rakarastofunni og alltaf klippt með. „Þegar pabbi veiktist 1968 varð ég að stökkva út í djúpu laugina og taka við stofunni.“
Björn segir að reksturinn hafi verið erfiður fyrstu árin eftir að hann tók við. Þá hafi menn verið byrjaðir að safna hári og minna að gera á rakarastofum um allan heim. Norskur hárskeri hafi komið til landsins til þess að kenna hárskerum hvernig ætti að bregðast við vandanum. „Margir gamlir hárskerar hættu en yngri kynslóðin brást vel við og kom því á framfæri að hárið væri eins og grasið; ekki þyrfti að klippa það allt af heldur bara snyrta það. Þetta virkaði og við lifðum.“
Oft er sagt að mál málanna séu leyst á rakarastofum. Björn segir að taka megi undir það. Oft hafi verið fjörugar umræður á stofunni. „Menn hafa rætt hlutina opinskátt,“ segir hann og bætir við að á 70 ára afmæli Meistarafélags hárskera hafi hann sagt í ræðu að hárskeri væri allt í senn sálfræðingur, félagsráðgjafi og góður hlustandi. „Auk þess er stjórnmálaumræðan oft heit og ekkert hefur skort á hana hjá okkur. Sumir hafa til dæmis unun af því að koma og setja inn sprengjur og ganga út þegar allt er komið á suðupunkt.“
Gísli sagði við Björn son sinn að það eina sem hann þyrfti að passa upp á væri að vera alls ekki í pólitík því það setti allt á hliðina. Kjartan, sonur Björns, segir að sennilega hafi þetta verið rétt. „Afi náði að tipla á tánum í miklu pólitísku umhverfi frá 1948 til 1970 og enginn vissi hvar hann stóð í pólitík,“ segir hann. „Pabbi fór hins vegar í framboð fyrir óháða 1971 og síðar í bæjarstjórn og ég fór sömu leið, hef verið í bæjarpólitíkinni í átta ár og var varaþingmaður.“ Hann segir að það hafi ekki haft áhrif á vinnuna. „Ég klippi bæði samherja og andstæðinga.“
Björn leggur áherslu á að vinnustaðurinn sé skemmtilegur. „Það er gaman að fást við þetta starf. Það er svo breytilegt; maður er alltaf með nýtt og nýtt verkefni í höndunum.“ Kjartan tekur í sama streng. „Starfið er fjölbreytt og skemmtilegt og maður hittir marga. Í því felst gæfan.“
Gísli var lengst af með stofuna í heimahúsi en Björn flutti hana í sérstakt húsnæði 1971 og hún hefur verið í Miðgarði frá 1997. „Ég hef verið með nokkra nema og það kom okkur hjónunum á óvart þegar Kjartan sonur okkar vildi verða rakari, en síðan bættist yngsti sonurinn Björn Daði í eigendahópinn.“ Barnabörnin eru 15. Björn segir að ekkert þeirra hafi lýst yfir áhuga á að feta í fótsporin en ekki sé öll von úti enn.
Kjartan segir að hann hafi ákveðið að koma foreldrum sínum á óvart með því að velja að fara í rakaranám í Iðnskólanum frekar en að fara í Verslunarskólann. „Tíminn í Iðnskólanum var yndislegur og ég hlakka til hvers vinnudags,“ segir hann. Hann segist þekkja marga rúmlega fimmtuga sem séu ekki eins spenntir fyrir starfi sínu nú og þegar þeir byrjuðu fyrir 20 til 30 árum. „Ég hef klippt í 34 ár og er svo heppinn að ég hlakka til hvers dags.“
![]() |
Rakari - Gísli Sigurðsson. |
Morgunblaðið miðvikudagaginn 15. ágúst 2018.
Skráð af Menningar-Staður.
![]() |
Alþýðuhúsið á Eyrarbakka 14. ágúst 2018
Vinir alþýðunnar.
Stefnumótun - mannlíf og menning -
![]() |
||||||||||||
. .
|
![]() |
|
Framvinda Dýrafjarðarganga í viku 32
Í síðustu viku, viku 32, lengdust Dýrafjarðargöngin Arnarfjarðarmegin um 84,4 m og lengd þeirra nú orðin 3.260,7 m sem er 61,5% af heildarlengd. Aðstæður til gangagraftrar hafa verið góðar og berggangur sem var að koma inn í göngin í lok vikunnar hafði ekki áhrif á framvindu en berggangurinn var kominn á miðjan stafn í lok vikunnar.
Lítillega hefur bæst við fyllingar í Arnarfirði en megnið af efninu úr göngum hefur farið í, auk fyllinga, fláafleyga og á haugsvæði. Þá var syðri stöpull nýrrar Mjólkárbrúar tilbúinn fyrir uppsteypu í lok vikunnar og verður hann steyptur í dag.
Í Dýrafirði vann verktaki að aðstöðusköpun og er plan fyrir svefnaðstöðu verktaka nú klárt og þá hóf verktaki vinnu í vegagerð á skeringarsvæði, sjá ljósmyndir.
Einnig var unnið við styrkingar í forskeringu sem eru nú nánast lokið en eftir er að grafa burt síðasta hlutann úr forskeringunni og verður gangastafn væntanlega tilbúinn í næstu viku fyrir lokastyrkingar á munnsvæði áður en gangagröftur getur farið af stað í Dýrafirði.
Nokkrar myndir frá framkvæmdun Dýrafjarðarmegin.
Texti og ljósm.: Steinar Ríkarður Jónasson í Mjólkárvirkjun.
![]() |
||||
. .
|
![]() |
Einar Olgeirsson (1902 - 1993).
Merkir Íslendingar - Einar Olgeirsson
Einar Olgeirsson fæddist á Akureyri 14. ágúst 1902.
Foreldrar hans voru Olgeir Júlíusson, bakari á Akureyri, og k.h., Sólveig Gísladóttir húsfreyja.
Eiginkona Einars var Sigríður Þorvarðsdóttir, f. 1903, d. 1994, húsfreyja og eignuðust þau tvö börn, Sólveigu Kristínu og Ólaf Rafn.
Einar lauk stúdentsprófi frá MR 1921, stundaði nám í bókmenntum og tungumálum við Hafnarháskóla 1921 og við Friedrich-Wilhelm Universität í Berlín 1921-24.
Einar kom frá námi í Þýskalandi sama ár og Brynjólfur Bjarnason en þeir urðu helstu leiðtogar íslenskra kommúnista. Auk þess vann Einar að stofnun Sameiningarflokks alþýðu – Sósíalistaflokksins, er kommúnistar og vinstri armur Alþýðuflokksins sameinuðust 1938. Hann var síðan eini formaður Sósíalistaflokksins 1938-69.
Einar vandaði ekki breska setuliðinu kveðjurnar er hann var ritstjóri Þjóðviljans á stríðsárunum. Fyrir vikið voru hann, Sigfús Sigurhjartarson og Sigurður Guðmundsson handteknir af Bretum og hafðir í haldi í Brixton-fangelsinu í Bretlandi í nokkra mánuði.
Einar og Ólafur Thors lögðu á ráðin um Nýsköpunarstjórnina 1944 og voru miklir mátar síðan. Hann var vel að sér í sagnfræði og bókmenntum, ljóðelskur og flugmælskur, beittur áróðurspenni, enda ritstjóri ýmissa málgagna kommúnista og sósíalista, s.s. Verkamannsins á Akureyri, Verkalýðsblaðsins, Þjóðviljans 1936-41, Nýs dagblaðs og Réttar um árabil.
Einar var kennari á Akureyri 1924-28, forstjóri Síldareinkasölu Íslands á Akureyri 1928-31, forstjóri Íslensk-rússneska verslunarfélagsins hf. í Reykjavík 1931-35, formaður Verkalýðssambands Norðurlands og alþm. Reykvíkinga 1937-67, lengst af fyrir Sósíalistaflokkinn.
Bókin Hugsjónaeldur – minningar um Einar Olgeirsson, skráð af Sólveigu dóttur hans, kom út 2005.
Einar lést 3. febrúar 1993.
Morgunblaðið 14. ágúst 2018.
Skráð af Menningar-Staður.
![]() |
Valdimar Ólafsson (1926 - 2008). |
Valdimar Ólafson, fyrrv. yfirflugumferðarstjóri, fæddist á Mosvöllum I í Önundarfirði 13. ágúst 1926.
Foreldrar hans voru Ólafur B. Hjálmarsson, sjómaður, bóndi á Mosvöllum I, verkstjóri, efnisvörður BP í Rvk., f. 26.8. 1903, d. 30.8. 1986, og Ragnheiður Guðmundsdóttir húsmóðir, f. 25.10. 1902, d. 7.4. 1991.
Valdimar kvæntist 22.12. 1948 Erlu Þórdísi Jónsdóttur síðar kennara, f. 9.2. 1929, d. 28.2. 1987, dóttur Þórunnar Jónsdóttur kennara og Jóns Alexanderssonar, forstjóra hlustendaþjónustu ríkisútvarpsins. Þau skildu 1965.
Börn Valdimars og Erlu eru sjö.
Seinni kona Valdimars er Helga Árnadóttir hjúkrunarkona, f. 16.9. 1937, dóttir Árna Björns Árnasonar, héraðslæknis í Grenivík, og Kristínar Þórdísar Loftsdóttur húsmóður. Þau hafa búið í Lundahólum 3 yfir 30 ár.
Börn Valdimars og Helgu eru fimm.
Valdimar hóf störf í Flugmálastjórn sem loftskeytamaður 1946 og sem flugumferðarstjóri 1947-51, var vaktstjóri til 1962, aðstoðarflugumferðarstjóri til 1971 og yfirflugumferðarstjóri til 1991. Kenndi lengi flugnemum bókleg fræði á kvöldnámskeiðum og í Flugskóla Íslands í dagskóla 1991-99. Hann var ritari Flugráðs í sjö ár og leiðsögumaður á sumrin í 15 ár.
Hann var meðhjálpari í Fella- og Hólakirkju í 11 ár og yfir 20 ár í sóknarnefnd Fella- og Hólakirkju. Hann hafði ánægju af að syngja og var í Gerðubergskórnum og karlakórnum Kátum körlum. Var áður fáein ár með Pólýfónkórnum og eitt ár með kirkjukór. Félags- og trúnaðarstörf voru honum hugleikin. Var fyrsti formaður Félags íslenskra flugumferðarstjóra (FÍF) 1955-66 og í stjórn BSRB í 10 ár. Formaður Félags flugmálastarfsmanna ríkisins í fjögur ár.
Hann ferðaðist mikið og tók þátt í alþjóðlegu samstarfi, sat meðal annars undirbúnings-, stofnfund og ársþing alþjóðasamtaka flugumferðarstjóra IFATCA. Starfaði í áratugi í Oddfellow og Rotary Breiðholt og gegndi þar ritara- og forsetastörfum. Starfaði í fimm ár við gerð Flugorðasafnsins sem kom úr 1993. Samdi kennslubók í flugreglum 1992.
Hann ritaði margar greinar í tímarit, dagblöð og sérrit. Einnig tók Valdimar þátt í störfum Almannavarna ríkisins í um 25 ár og í hjálparstarfi kirkjunnar. Var kjörinn heiðursfélagi FÍF 1985 á 30 ára afmæli þess og hlaut gullmerki sem einn af formönnum þess og Paul Harris-orðu Rotary-félagsskaparins.
Valdimar Ólafsson lést 2. apríl 2008.
Skráð af Menningar-Staður.
![]() |
Ottó Wathne (1843 - 1898). |
Merkir Íslendingar - Ottó Wathne
Ottó Wathne fæddist í Mandal í Noregi 13. ágúst 1843.
Hann stundaði síldveiðar í Noregi en fram yfir miðja nítjándu öldina var um langt árabil mikil síldargengd innan skerja við vesturströnd Noregs. Þessi síld var einkum veidd í landnætur og söltuð. Er síldin hvarf skyndilega við Noreg fréttist af miklum síldargöngum í íslenska firði, einkum austan- og norðanlands. Nokkrir norskir síldarsaltendur tóku sig þá upp, fluttu hingað til lands með nætur sínar, skip og báta og hófu hér síldveiðar og söltun. Flestir þeirra settust að á Austfjörðum en langþekktastur þeirra var afhafnamaðurinn Ottó Wathne.
Ottó var nítján ára er hann kom fyrst til Íslands og stundaði þá timburkaupmennsku frá skipi víða um landið. Hann kom síðar til Seyðisfjarðar 1869, reisti sér þar lítið hús og hóf þar síldveiðar sem mislukkuðust. Þá hvarf hann af landi brott til Englands þar sem hann lauk stýrimannsprófi.
Í þriðja sinn er Ottó kom til landsins, 1880, var hann kominn til að vera, settist þá að á Seyðisfirði, reisti sér þar glæsilegt íbúðarhús og starfrækti þar um nær tveggja áratuga skeið blómlega verslun og umfangsmikla síldar- og þorskútgerð. Síðustu tveir áratugir nítjándu aldar voru miklir uppgangstímar á Seyðisfirði sem fékk kaupstaðarréttindi 1895.
Þetta var ekki síst Ottó að þakka sem innleiddi þar ýmsar nýjungar í atvinnulífi og menningu og stórbætti samgöngur með lagningu vega og gufuskipaferðum. Hann byggði m.a. fyrir eigið fé fyrsta vitann á Dalatanga í því skyni að auðvelda siglingar til Seyðisfjarðar. Vitinn var reistur 1895 en síðan starfræktur fyrir fé úr Landssjóði.
Ottó lést 1898. Hans var sárt saknað af Austfirðingum og tveimur árum eftir andlát hans reistu Seyðfirðingar honum minnisvarða sem stendur við Fjarðarárbrú.
Morgunblaðið 13. ágúst 2018.
Skráð af Menningar-Staður.
![]() |
Hljómsveitin Kiriyama Family. Ljósm.: Hanna Siv Bjarnardóttir. |
Sunnlenska rafpopp hljómsveitin Kiriyama Family
mun hita upp fyrir kanadísku indie hljómsveitina Arcade Fire
í Laugardagshöll 21. ágúst næstkomandi.
„Það var víst þannig að meðlimir Arcade Fire fengu lista yfir íslenskar hljómsveitir og þau völdu okkur. Við erum að sjálfsögðu mjög glöð með það. Þau eru greinilega mikið smekkfólk á tónlist,“ segir Bassi Ólafsson, trommuleikari Kiriyama Family, hlæjandi í samtali við sunnlenska.is
Bassi og félagar hans í hljómsveitinni voru að vonum glöð með tíðindin. „Við vorum bara eins og litlir krakkar þegar við fréttum þetta, með áfast bros allan daginn í sitthvoru horninu. Þetta er mjög sætt fyrir suma í bandinu því Arcade Fire er búið að vera í miklu uppáhaldi og áhrifavaldur alveg frá unglingsárum.“
Aðspurður segir Bassi að þau geti ekki vitað það fyrirfram hvaða áhrif það hafi fyrir Kiriyama Family að hita upp fyrir hljómsveit eins og Arcade Fire.
„Það er eiginlega sama hvaða gigg það er, stórt gigg eins og þetta eða lítill pöbb út í bæ. Það þarf alltaf að vera „rétta“ fólkið á gigginu og þá getur ýmislegt gerst. Við förum alltaf með sama hugarfari að spila, við höfum engar væntingar nema við elskum að spila tónlistina okkar, bæði fyrir okkur sjálf og aðra. Allt annað er bara bónus,“ segir Bassi.
„En þetta gigg gefur okkur vissulega auka spark til að klára þriðju plötuna okkar sem er komin vel á veg og við erum mjög spennt að kynna nýtt efni fyrir fólki. Hver veit nema við tökum nokkur ný lög fyrir Arcade Fire,“ segir Bassi að lokum.
Af www.sunnlenska.is
Sjá: http://www.sunnlenska.is/eftir-8/22544.html
![]() |
||||
.
|
© 2021 123.is | Nýskrá 123.is síðu | Stjórnkerfi 123.is