Menningar-Staður
Félagsheimilið Staður á Eyrarbakka

23.02.2017 20:52

Ingólfur Arnarson RE 201 - 94 þúsund lestir á 27 ára ferli skipsins

 


Þrettán manna áhöfn var á skipinu á heimleiðinni og létu skipverjar hjátrú sem tölunni er tengd engin áhrif hafa á sig.

Skipstjóri var Hannes Pálsson. Aðrir skipverjar voru: 1. vélstjóri: Þorkell Sigurðsson; 1. stýrimaður: Loftur Júlíusson; 2. vélstjóri Baldur Snæland; 2. stýrimaður: Gunnar Auðunsson; bátsmaður: Ólafur Sigurðsson; matsveinn: Guðmundur Maríasson; loftskeytamaður: Ingólfur Friðbjarnarson og hásetar voru Jónatan Kristleifsson, Kári Gíslason og Leó Kristleifsson. Kyndarar: Ármann Brynjólfsson og Einar M. Karlsson.

Hannes var skipstjóri til 1951, en eftir það lengst af Sigurjón Stefánsson sem fæddist á Hólum í Dýrafirði 15. ágúst 1920. Dáinn 17. nóv. 2005.

 

Ingólfur Arnarson RE 201

- 94 þúsund lestir á 27 ára ferli skipsins

 

Sjötíu ár liðin frá því að fyrsti nýsköpunartogarinn, Ingólfur Arnarson, kom til Reykjavíkur * Var fullkomnasta fiskiskip þjóðarinnar * Fólk þyrptist niður á höfn * Bræddur í stál 1974

„Í dag hefur mikill viðburður gerst í sögu Reykjavíkur og landsins alls. Fullkomnasta fiskiskip þjóðarinnar hefur lagst við landfestar á Íslandi. Það er fyrsta skip hins fyrirheitna lands nýsköpunar atvinnulífsins og munu mörg eftir fara. Reykjavík verður heimili þessa fyrsta landnema nýsköpunarinnar, Ingólfs Arnarsonar, eins og það var Reykjavík sem var heimili og aðsetur fyrsta landnámsmannsins, Ingólfs Arnarsonar.“

 

Það er Gunnar Thororoddsen, þáverandi borgarstjóri, sem mælir þessi orð af brúarvæng skipsins fyrir réttum 70 árum, 17. febrúar 1947. Mikill mannfjöldi hefur þá safnast saman á hafnarbakkanum til að fagna nýja togaranum og hlýða á ræður nokkurra fyrirmanna. Lúðrasveit leikur „Íslands Hrafnistumenn“. Aðrir landsmenn geta fylgst með móttökuhátíðinni í beinni útsendingu Útvarpsins. Þegar athöfninni lýkur leysir togarinn landfestar og siglir með boðsgesti um sundin blá og geta þeir þá kynnt sér skipið um leið og þeir njóta góðra veitinga. Skipið var svo almenningi til sýnis daginn eftir.

Nýsköpunartogararnir 

En hvað var svona merkilegt við togarann Ingólf Arnarson? Hvernig gat eitt fiskiskip vakið svona mikla hrifningaröldu? Og hvaða nýsköpunartal var þetta í borgarstjóranum? Ingólfur Arnarson RE 201 eins og togarinn hét fullu nafni var hinn fyrsti af rúmlega 40 togurum sem sérsmíðaðir voru fyrir Íslendinga í Bretlandi eftir seinni heimsstyrjöldina. Það var þáverandi ríkisstjórn Alþýðuflokksins, Sjálfstæðisflokksins og Sósíalistaflokksins, svokölluð nýsköpunarstjórn, sem beitti sér fyrir þessari miklu endurnýjun fiskiskipaflotans og útvegaði til hennar hagstæð lán. Þaðan er nafnið nýsköpunartogari upprunnið. Reykjavíkurbær keypti átta slíka togara og gerði Bæjarútgerðin, sem þá var ný- stofnuð, út fimm þeirra. Fiskveiðar og fiskvinnsla voru á þessum tíma undirstaða alls atvinnulífs í höfuðborginni. Miklar vonir voru bundnar við hinn nýja fiskiskipaflota, enda voru togararnir hinir stærstu, hraðskreiðustu og best búnu sem Íslendingar höfðu eignast. Hrifningin á þessu framtaki skýrist m.a. af stemningunni í þjóðfélaginu í kjölfar lýðveldisstofnunar 1944 og víðtæks stuðnings sem hin nýja þverpólitíska ríkisstjórn undir forsæti Ólafs Thors naut.

Fullkomnasta fiskiskipið 

Tæknilega var Ingólfur á allan hátt fullkomnari en eldri fiskiskip og meira í skipið lagt en áður hafði þekkst. Lestir skipsins voru svo rúmar að sagt var að bresku skipasmiðirnir hefðu haft á orði að þessar lestir yrðu aldrei fylltar. En það átti eftir að afsannast því margoft kom togarinn drekkhlað- inn til hafnar. Mun hann hafa flutt í land 94 þúsund lestir af fiski á 27 ára ferli sínum. Það þætti ekki mikið núna, en var hrein bylting á sinni tíð og áttu fiskvinnslur í landi fullt í fangi með að ráða við allan þennan afla. Um borð í Ingólfi gátu verið 38 skipverjar. Aðbúnaður áhafnar var betri og rýmri en áður hafði þekkst í íslenskum fiskiskipum. Var mjög til þess hugsað að allt væri eins þægilegt og þrifalegt og hugsanlegt væri. Svefnsalur var rýmri og vistlegri en áður hafði verið í boði. Sama er að segja um kaffistofur og aðstöðu til hreinlætis. Var mikil keppni um að fá pláss um borð. Happafleyta Ingólfur Arnarson var happafleyta og fórst aldrei neinn skipverji. En eftir 27 ára þjónustu var svo komið árið 1974 að rýma þurfti fyrir nýtískulegri togara. Hafði skipið þá heitið Hjörleifur um skeið. Ákvað stjórn Bæjar- útgerðar Reykjavíkur að selja skipið til niðurrifs í stálbræðslu á Spáni. Hugmyndir um að varðveita skipið og hafa til sýnis á sjóminjasafni fengu ekki hljómgrunn, líklega vegna kostnaðar. En einhverjir munir úr togaranum urðu þó eftir, þar á meðal skipsstýrið sem talað var um að afhenda Þjóð- minjasafninu. 

 

Morgunblaðið 23. febrúar 2017

 

 
Skráð af Menningar-Staður

 

22.02.2017 21:16

Merkir Íslendingar - Jóhann G. Jóhannsson

 

 

Jóhann G. Jóhannsson (1947 - 2013).

 

Merkir Íslendingar - Jóhann G. Jóhannsson

 

Jóhann fæddist í Keflavík 22. febrúar 1947. Foreldrar hans voru Jóhann Georg Runólfsson, bóndi og síðar bifreiðarstjóri í Keflavík, og Lovísa Aðalheiður Guðmundsdóttir, en seinni maður Lovísu og fósturfaðir Jóhanns var Reynir Ólafsson, sjómaður og verkstjóri.
 

Börn Jóhanns eru Alma Dögg, Ívar Jóhann og Halldóra. Sambýliskona Jóhanns í 27 ár er Halldóra Jónsdóttir en dætur hennar eru Fríða og Jóhanna Methúsalemsdætur.
 

Jóhann stundaði nám við Samvinnuskólann að Bifröst 1963-65 og naut leiðsagnar Hrings Jóhannessonar í myndlist.
 

Jóhann var rytmagítar- og bassaleikari, söngvari, laga- og textasmiður og upptökustjóri, lék m.a. með Óðmönnum I, Musica Prima, Óðmönnum II, Töturum, Náttúru og Póker, en hóf sólóferil 1972.
 

Jóhann sinnti einkum lagasmíðum, myndlist og vann ötullega að réttindum tónlistarfólks. Hann hélt fjölda myndlistarsýninga, gaf út ljóðabókina Flæði, samdi rúmlega 200 lög og texta sem komu út á plötum, þ.ám. til stuðnings ýmsum málefnum, s.s. lagið Hjálpum þeim. 

Helstu hljómplötur hans eru: 
Óðmenn 1970, Langspil 1974, Mannlíf 1976, Kysstu mig – Íslensk kjötsúpa 1978, Myndræn áhrif 1988, Gullkorn JGJ 2003, Á langri leið 2009 og Jóhann G – In English 2010. 

Jóhann var framkvæmdastjóri Gallerys Lækjartorgs, síðar Listamiðstöðvarinnar 1980-85, einn af stofnendum Samtaka alþýðutónskálda og textahöfunda 1979 og Félags tónskálda og textahöfunda 1983 og sat í stjórn FTT 1983-89. Hann var upphafsmaður Músíktilrauna 1982 ásamt Ólafi Jónssyni, forstöðumanni Tónabæjar, rak Tónlistarbarinn Púlsinn 1990-93 og sat í stjórn Samtaka um byggingu tónlistarhúss.

 

Jóhann var félagi í SÍM og var gerður að heiðursfélaga FTT árið 2003.
 

Jóhann lést 15. júlí 2013.

 

Morgunblaðið 22. febrúar 2017.

 

 
Skráð af Menningar-Staður

21.02.2017 11:18

Afmælissamkoma - Menningar-Staður í fjögur ár

 

 

 

Afmælissamkoma - Menningar-Staður í fjögur ár

 

Í fyrradag voru fjögur ár frá því vefurinn vinsæli  „Menningar-Staður"  fór í loftið.  Það var þann 19. febrúar 2013.

 

Í tilefni þessa var sérlaga vel heppnað  morgunboð hjá -Vinum alþýðunnar- að Sölvabakka á Eyrarbakka í morgun, þriðjudaginn  21. febrúar 2017.Létt var yfir -Vinum alþýðunnar- hvað sagðar voru sögur af manni og öðrum að þeirra hætti.
 


Verstfirska forlagið á Þingeyri heiðraði samkomuna og hið  góða starf –Vina alþýðunnar- með bókalottói.

Vinningashafar voru:
Þórður Grétar Árnason, Selfossi
Elfar Guðni Þórðarson, Stokkseyri
og Siggeir Ingólfsson, Eyrarbakka.

 


Menningar-Staður færði til myndar og er myndaalbúm komið á Menningar-Stað.
Smella á þessa slóð: http://menningarstadur.123.is/photoalbums/282043/

 

Nokkrar myndir:

 

 

.

 

.

.

.

.

 

.

.

.

.
Skráð af Menningar-Staður

 

 
 

20.02.2017 20:05

Embættisveiting fyrir vestan:- Sonur Önundarfjarðar skipaður menningarfulltrúi

 

 

Menningarfulltrúinn staddur í predikunarstól Hjarðarholtskirkju í Dölum

en þá kirkju teiknaði Dýrfirðingurinn Rögnvaldur Ólafsson.

Ljósm.: Guðmundur J. Sigurðsson.

 

Embættisveiting fyrir vestan:

- Sonur Önundarfjarðar skipaður menningarfulltrúi
 

Björn Ingi Bjarnason frá Flateyri, sonur Önundarfjarðar, nú búsettur á Eyrarbakka í Flóa,  hefur verið skipaður Menningarfulltrúi Vestfirska forlagsins í Evrópu og  Bandaríkjum Norður-Ameríku. 

Fylgja embættinu öll réttindi og hlunnindi sem þar til heyra.

 

   Gjört undir vorri hendi og innsigli 18. febrúar 2017, daginn fyrir konudaginn.
 

     Hallgrímur Sveinsson

léttadrengur og forstjóri Vestfirska forlagsins    

 

 

 

Skráð af Menningar-Staður

 

20.02.2017 14:50

Menningar-Staður í fjögur ár

 

 

 

Menningar-Staður í fjögur ár

 

Í gær voru fjögur ár frá því vefurinn vinsæli  „Menningar-Staður" fór í loftið.  Það var þann 19. febrúar 2013.

Í tilefni þessa verður morgunboð hjá -Vinum alþýðunnar- að Sölvabakka á Eyrarbakka kl. 9 – 10 í fyrramálið, 21. febrúar 2017.Allir velkomnir

Siggeir Ingólfsson

og Vinir alþýðunnar
 

 

 

Skráð af Menningar-Staður

20.02.2017 08:00

Kosið í ný hverfisráð á Árborg

 

 

Siggeir Ingólfsson er formaður Hverfisráðs Eyrarbakka. Ljósm.: Björn Ingi Bjarnason.

 

Kosið í ný hverfisráð á Árborg

 

Á síðasta fundi bæjarstjórnar Árborgar var kosið í ný hverfisráð fyrir Eyrarbakka, Stokkseyri, Sandvíkurhrepp og Selfoss.

 

Hverfisráð hafa verið við lýði í Sveitarfélaginu Árborg í nokkur ár og eru fulltrúar kosnir til setu í þeim til eins árs í senn. Ráðin eiga að stuðla að hvers konar samstarfi innan hvers svæðis, móta stefnu og gera tillögur til bæjarráðs Árborgar. Þannig eru hverfisráðin ráðgefandi fyrir stjórnsýslu sveitarfélagsins.

 

Í Herfisráð Eyrarbakka voru kosin Siggeir Ingólfsson, formaður, Guðbjört Einarsdóttir, Rúnar Eiríksson og Gísli Gíslason.

 

Í Hverfisráð Stokkseyrar voru kosnar Guðný Ósk Vilmundardóttir, formaður og Svala Norðdal.

 

Í Hverfisráð Sandvíkurhrepps voru kosin Margrét Katrín Erlingsdóttir, formaður, Anna Valgerður Sigurðardóttir, Páll Sigurðsson og Aldís Pálsdóttir.

 

Í Hverfisráð Selfoss voru kosin Sveinn Ægir Birgisson, formaður, Valur Stefánsson, María Marko, Lilja Kristjánsdóttir og Kristján Eldjárn Þorgeirsson. Varamaður Böðvar Jens Ragnarsson.

 

Til þess að efla hverfisráðin hefur bæjarráð Árborgar samþykkt að tveir bæjarfulltrúar verði tengiliðir við hvert hverfisráð, og mun bæjarráð skipa þá í framhaldinu.


Af www.sunnlenska.is


Skráð af Menningar-Staður

19.02.2017 07:02

19. febrúar 2017 - "konudagur"- góa byrjar

 

 

Í Eyrarbakkafjöru. Ljósm.: Víðir Björnsson.

 

19. febrúar 2017 - “konudagur”- góa byrjar

 

Mánuðurinn góa hefst nú sunnudag frá 18. til 24. febrúar, en 8. til 14. febrúar í gamla stíl fyrir 1700.

 

Nafnið, góa eða gói, er þekkt úr elstu heimildum og afbrigði þess í öðrum norrænum tungum. Gói er persónugerð sem vetrarvættur í gömlum sögnum, dóttir Þorra.

 

Orðið góiblót bendir til mannfagnaðar seint að vetri að fornu en um hann er ekkert vitað með vissu. Ljóst er hinsvegar af heimildum frá öndverðri 18. öld að fagna átti góu á svipaðan hátt og þorra. Skyldi það fremur vera húsbóndinn en húsfreyjan, en víst er að dagurinn var eignaður húsfreyjunni. Heimildir geta um tilhald í mat á síðari öldum en hvergi á við þorrakomu. Kann þar að ráða nokkru að góukoma lendir oftast á langaföstu.

 

Nokkuð var ort um Góu á 17. – 19. öld sem dóttur Þorra eða eiginkonu. Var þá stundum reynt í gamni að skjalla hana til að bæta veður. Svipaður kann að vera tilgangur þess góukomusiðar á norðaustanverðu landinu að Góu var færður rauður ullarlagður.

 

 Heitið konudagur er kunnugt frá miðri 19. öld og er nú útbreitt. Sá siður að eiginmenn gefi konum sínum blóm á konudaginn hófst á sjötta áratug 20. aldar.

 

 Í almennri þjóðtrú skipti góuveðrið máli. Átti sumarið að verða gott ef góa væri stormasöm og veður vont fyrstu góudaga.

 

 Þessi vísa var húsgangur í Önundarfirði fram á 20. öld.

 

 Góa kemur með gæðin sín

 gefst þá nógur hitinn.

 Fáir sakna þorri þín

 þú hefur verið skitinn.

 

 Heimild: Saga daganna eftir Árna Björnsson.

 

 

Við Hjallastefnuna á Eyrarbakka. Ljósm.: Víðir Björnsson.
 Skráð af Menningar-Staður

 

 

 

18.02.2017 22:14

Þorrablótið á Stokkseyri árið 2007

 

 

 

Þorrablótið á Stokkseyri árið 2007

 

Síðasti dagur „þorra“ er í dag, laugardaginn 18. febrúar 2017, og nefnist sá dagur „þorraþræll.“ Þá verða haldin síðustu þorrablótin á Suðurlandi á þessum vetri  sem hefur verið sérlaga hagstæður til ferðalaga og samkomuhalds.


Í tilefni þessa er hér myndasafn Björns Inga Bjarnasonar frá Þorrablótinu á Stokkseyri árið 2007 sem haldið var í Menningarsalnum í Menningarvertöðinni Hólmaröst og var gríðarlega vel sótt eða rétt tæplega 250 gestir.

 

Það var Stokkseyringafélagið í Reykjavík og Hrútavinafélagið Örvar á Suðurlandi sem stóðu fyrir blótinu og var Bjarni Harðarson á Selfossi veislustjóri.

 

Þeir sem fram komu voru;

Siggeir Ingólfsson, formaður Stokkseyringafélagsins,

Björn Ingi Bjarnason, forseti Hrútavinafélagsins ,

Árni Johnsen, alþingismaður og tónlistarmaður 

og Jóhannes Kristjánsson, eftirherma og skemmtikraftur sem fór á kostum og vakti jafnvel upp drauga af Draugasetrinu í Menningarverstöðinni.

 

 Hljómsveitirnar NilFisk og Vítamín sáu um tónlist á borðhaldi og dansleik.  Glæsilegt þorrahlaðborð var frá Rauða húsinu á Eyrarbakka.Myndaalbúm með 62 myndum er komið há Menningar-Stað:


Smella á þessa slóð: http://menningarstadur.123.is/photoalbums/282012/

 

Nokkrar myndir:
 

.

.

 

.

.

 

.

 

.

.

 

 

Skráð af Menningar-Staður

18.02.2017 20:55

18. febrúar 2017 - "þorraþræll" - síðasti dagur þorra

 

 

Núpur í Dýrafirði á þorra. Ljósm.: Björn Ingi Bjarnason.

 

18. febrúar 2017 - “þorraþræll” - síðasti dagur þorra

 

Mánuðurinn þorri hófst föstudaginn 20. janúar s.l. og er sá dagur kallaður “bóndadagur” og þá var miður vetur.

Í Orkneyingasögu og Flateyjarbók segir af Fornjóti konungi í Finnlandi og Kvenlandi. Fornjótur átti þrjá syni, Ægi, Loga og Kára. Kári var faðir Frosta (Jökull) er var faðir Snæs hins gamla. Hans sonur hét “Þorri” og dæturnar Fönn, Drífa og Mjöll. Þorri átti tvo syni og hét annar Nór en hinn Gór og dóttir hans hét “Góa.”

Þorri var blótmaður mikill og hafði blót á miðjum vetri er kölluð voru “Þorrablót.” Síðasti dagur þorra er kallaður “þorraþræll” og er á sumun stöðum tileinkaður piparsveinum, mönnum í óvígðri sambúð, fráskildum mönnum, ellegar þeim sem átt höfðu barn í lausaleik eða tekið framhjá konu sinni.

Þorrablót eru haldin af miklum krafti um allt land og borðaður svokallaður “þorramatur” og frá slíkum samkomum er þessi bæn.

“Guð gefi, að ég væri kominn í rúmið, háttaður, sofnaður, vaknaður aftur og farinn að éta.”

 


Heimild: Saga daganna eftir Árna Björnsson.Skráð af Menningar-Staður

18.02.2017 20:36

Stefanía Magnúsdóttir - Fædd 27. apríl 1921 - Dáin 8. febrúar 2017 - Minning

 


Stefanía Magnúsdóttir (1921 - 2017)

 

Stefanía Magnúsdóttir - Fædd 27. apríl 1921

- Dáin 8. febrúar 2017 - Minning

 

Stefanía Magnúsdóttir fæddist í Flögu í Villingaholtshreppi 29. apríl 1921. Hún lést á dvalarheimilinu Sólvöllum á Eyrarbakka 8. febrúar 2017.

 

Foreldrar hennar voru hjónin í Flögu, þau Magnús Árnason, hreppstjóri, frá Hurðarbaki í Villingaholtshreppi, f. 18. október 1887, d. 23. desember 1973, og Vigdís Stefánsdóttir frá Selalæk á Rangárvöllum, f. 13. október 1891, d. 14. mars 1977.

 

Stefanía var þriðja í röð tíu systkina en Magnús og Vigdís misstu sitt fyrsta barn.

Systkini Stefaníu eru:

1) Árni, f. 1917, d. 2010,

2) Guðrún, f. 1919,

4) Brynjólfur, f. 1922, d. 1983,

5) Sigríður, f. 1924, d. 1987,

6) Guðríður, f. 1926, d. 2014,

7) Grímur, f. 1927, d. 2009,

8) Anna, f. 1929, d. 2005,

9) Unnur, f. 1930, d.2012.

Uppeldisbróðir þeirra var Stefán Gunnar Jónsson, f. 1934, d. 2011.

Guðrún er ein eftirlifandi þeirra systkina.

 

Stefanía giftist 1. janúar 1942 Jóni Guðmanni Valdimarssyni húsasmið, 5. október 1918, d. 28. september 1997.

Foreldrar hans voru Valdimar Þorvarðarson frá Klasbarða í V-Landeyjum, f. 14. maí 1893, og Elín Jónsdóttir frá Laug í Biskupstungum, f. 10. október 1886.

Þau eignuðust einkasoninn Árna Guðmannsson, húsasmið í Kópavogi, f. 30. maí 1942, d. 18. maí 2014.

Árni kvæntist 1. janúar 1969 Hrafnhildi Sveinsdóttur, f. 22. mars 1943, d. 1. febrúar 1997.

Dætur þeirra:

1) Ragnhildur Hafdís Guðmundsdóttir, f. 28. desember 1966, d. 13. júní 1998, gift Páli Þórarinssyni, f. 10. nóvember 1957, d. 12. desember 2014. Þau eignuðust synina Inga Hrafn, f. 1990, Þórarin Árna, f. 1992, og Jón Guðmann, f. 1995, maki Bergey Flosadóttir, f. 1997.

2) Sóley Huld, f. 1. desember 1973, maki Sveinbjörn Hjálmarsson, f. 28. mars 1973, börn þeirra eru Hjálmar Forni, f. 1994, Andri Fannar, f. 1999, Sindri Freyr, f. 2002, og Hrafnhildur Sara, f. 2012.

3) Dagný Hrund, f. 3. október 1977, hennar börn eru Birta Ögn, f. 1999, Emma Dögg, f. 2001, og Hrafnkell Orri, f. 2003.

4) Signý Hlíf, f. 21. maí 1980, maki Valborg Ösp Á. Warén, f. 17. júní 1982, þeirra börn eru Árni Vilhelm, f. 2010, og Hildur Bigitta, f. 2015. Eftirlifandi eiginkona Árna er Bergljót I. Þórarinsdóttir, f. 16. ágúst 1942.

 

Útför hennar fór fram frá Eyrarbakkakirkju í dag, laugardaginn 18. febrúar 2017

_________________________________________________________________________________


Minningarorð

Þormar Ingimarsson.

 

Það var aldrei nein lognmolla eða andvaraleysi í kringum hana Stebbu á Bakkanum. Hún var þriðja elst í níu systkina hópi sem ólst upp í Flögu. Fyrir tveimur árum fór ég ásamt Stebbu og Hönnu, mágkonu hennar og móðursystur minni, í bílferð austur að Flögu. Stebba naut sín vel við að segja okkur frá æskuárunum á þessum fallega stað. Hún færði okkur aftur í tímann og setti okkur inn í þær aðstæður sem hún bjó við.

 

Hún talaði um m.a. myrkrið og hvað þau krakkarnir voru myrkfælin. Það var barnmargt þarna í hverfinu og krakkarnir frá Flögu, Hróarsholti og Kambi hittust á kvöldin til leikja og var kærleikur þeirra á milli. Á Flögu rís landið hátt og tilkomumiklir klettar setja sterkan svip í landslagið.

Stebba erfði frásagnarhæfileika og kímnigáfu móður sinnar, Vigdísar. Því var það svo, að þar sem Stebba var – þar var fjörið. Smitandi hlátur hennar gerði hversdagslega hluti skemmtilega og lifandi.

 

Rétt rúmlega tvítug fór hún til Þorlákshafnar þar sem hún gerðist ráðskona og þar hitti hún mannsefnið sitt, hann Manna, sem var þá sjómaður á bát. Þau áttu vel saman og fóru fljótlega að búa í Kirkjuhúsi á Eyrarbakka hjá Valdimari og Elínu, foreldrum Manna, sem eru afi minn og amma.

 

Þarna hófust kynni mín af Stebbu. Hún tók fagnandi á móti fólki og lét öllum líða vel. Kirkjuhús var lifandi staður, því margir komu og litu inn til Stebbu og Manna. Eyrarbakki á þessum tíma var í blóma – mikið atvinnulíf með bátaslipp, verkstæðum og höfn, þar sem bátar lögðu upp. Flest hús höfðu sín nöfn og fólkið kennt við húsin. Margir voru með skepnur í bakgarðinum og því var þetta draumur fyrir strák úr Reykjavík að njóta tímans í þessu umhverfi.

 

En lífið gaf og lífið tók. Manni var ekki alltaf heilsuhraustur, fyrst fékk hann berkla og seinna á lífsleiðinni veikindi sem tóku af honum mál og þrótt. Manna var lagið að bjarga sér og notaði sínar leiðir til að tjá sig. Hann hafði símaskrá við höndina og fletti henni upp til að sýna nöfn á þeim sem hann vildi tala um eða segja frá.

 

Þeir sem þekktu hann vel náðu því ágætum samskiptum við hann. Stebba stundaði ýmis störf á Bakkanum. Lengst af starfaði hún í frystihúsinu, vinnuhælinu og kvenfélaginu lagði hún traust lið.

 

Þau eignuðust einkasoninn Árna, sem var þeim kær, ekki ólíkur móður sinni, málsterkur með smitandi hlátur, vel ættaður Flögu-piltur enda var hann þar mörg sumur í sveit og mótaðist ættareinkennunum.

 

Árni eignaðist þrjár dætur og eina stjúpdóttur, sem hafa verið ljós í lífi Stebbu og stutt vel við hana, ásamt tveimur tengdadætrum, fyrst Hrefnu, barnsmóður og fyrri eiginkonu Árna, en hún lést 1997, og eftirlifandi eiginkonu Árna, Bergljótu.

 

Við Hanna tókum okkur ferð seinni part janúar sl. til að heimsækja Stebbu.

Hún var hress og lék á als oddi með 96 ár að baki. Ég átti svo að sækja hana þegar voraði og fara með í heimsókn til mín.

Hún bætti síðan við þegar við vorum að kveðjast, „Þormar, eigum við svo ekki að fara í réttirnar í haust?“ Já, sæll.

 

Hvíl í friði, vinkona.

Þinn vinur,

 

Þormar Ingimarsson.Morgunblaðið laugardagurinn 18. febrúar 2017

 

 

 

Skráð af Menningar-Staður