Menningar-Staður
Félagsheimilið Staður á Eyrarbakka

06.07.2016 19:53

Jón Daði er "kominn heim"

 

image

Stór mynd af Jóni Daða prýðir norðurenda stúkunnar á JÁVERK-vellinum.

Ljósm.: sunnlenska.is/Jóhanna SH
 

 

Jón Daði er „kominn heim“

 

Selfyssingurinn Jón Daði Böðvarsson átti frábært mót í Frakklandi með íslenska landsliðinu í knattspyrnu. Landsliðið er komið heim, og það sem meira er, risastór mynd af Jóni Daða í landsliðsbúningnum prýðir nú stúkuna á JÁVERK-vellinum á Selfossi.

Myndin er hluti af styrktarsamningi knattspyrnudeildarinnar og Vífilfells en minnir um leið unga iðkendur á að leyfa sér að dreyma stóra drauma. Með miklum aga og aukaæfingum fór Jón Daði í gegnum yngri flokkana á Selfossi, upp í meistaraflokk og þaðan út í atvinnumennsku. Eftirleikinn þekkja nú allir en Jón Daði var ein af hetjum íslenska liðsins á Evrópumeistaramótinu í Frakklandi.

„Það var æðislegt. Þetta hefur verið þvílíkt ferðalag að spila fyrir framan svona marga Íslendinga sem syngja og tralla. Þetta var tilfinningaþrungið í lokin. Þegar maður horfir til baka þá er stutt síðan maður var að spila á Selfossi. Maður er núna að byrja sem framherji með íslenska landsliðinu á Evrópumótinu og búinn skora mark. Það er gaman að upplifa svona," sagði Jón Daði í viðtali við fjölmiðla eftir að þátttöku Íslands lauk.

Myndin á norðurenda stúkunnar hefur vakið mikla athygli, en gangandi og hjólandi vegfarendur hafa margir gert sér leið í gegnum vallarsvæðið til þess eins að skoða hana.

Af www.sunnlenska .is

 


Stór mynd af Jóni Daða prýðir norðurenda stúkunnar á JÁVERK-vellinum.
Ljósm.: sunnlenska.is/Jóhanna SHSkráð af Menningar-Staður

06.07.2016 08:04

6. júlí 2016 - Birna Gylfadóttir er 30 ára

 

 

Birna Gylfadóttir.

 

6. júlí 2016 - Birna Gylfadóttir er 30 ára

 

Birna ólst upp á Stokkseyri, býr á Eyrarbakka og starfar við dvalarheimilið Sólvelli á Eyrarbakka.

Maki: Ívar Björgvinsson, f. 1987, starfsmaður á Vélaverkstæði Þóris.

Synir: Hlynur Fannar, f. 2005; Daníel Örn, f. 2010, og Ívan Gauti, f. 2012.

Foreldrar: Dagbjört Gísladóttir frá Eyrarbakka, f. 1950, og Gylfi Jónsson frá Stokkseyri, f. 1950. Þau búa á Stokkseyri.


Morgunblaðið miðvikudagurinn 6. júlí 2016Skráð af Menningar-Staður

06.07.2016 07:39

Merkir Íslendingar - Jens Sigurðsson

 

 

Jens Sigurðsson frá Hrafnseyri við Arnarfjörð.

 

Merkir Íslendingar - Jens Sigurðsson
 

Jens fæddist á Hrafnseyri við Arnarfjörð 6. júlí  1813. Foreldrar hans voru Sigurður Jónsson, prestur á Hrafnseyri, og k.h., Þórdís Jónsdóttir húsfreyja.

Foreldrar Sigurðar voru Jón Sigurðsson, prestur á Hrafnseyri, og Ingibjörg Ólafsdóttir, lögsagnara á Eyri og ættföður Eyrarættar Jónssonar. Foreldrar Þórdísar voru Jón Ásgeirsson, prestur í Holti í Önundarfirði, og Þorkatla Magnúsdóttir.
 

Bróðir Jens var Jón Sigurðsson forseti, alþingismaður og skjalavörður. Systir Jens var Margrét, húsfreyja í Steinanesi, móðir Sigurðar Jónssonar, alþingismanns og sýslumanns.
 

Eiginkona Jens var Ólöf, dóttir Björns Gunnlaugssonar, stjörnufræðings og yfirkennara, og Ragnheiðar Bjarnadóttur og eignuðust þau níu börn. Meðal þeirra voru Sigurður Jensson, prestur og alþingismaður í Flatey; Jón Jensson, dómstjóri og alþingismaður, faðir Bergs Jónssonar alþingismanns, Björn Jensson, tengdafaðir Péturs Halldórssonar, borgarstjóra og alþingismanns, og Þórdís Jensdóttir, tengdamóðir Sigurjóns Jónssonar alþingismanns.
 

Jens lauk stúdentsprófi á Bessastöðum 1837 og embættisprófi í guðfræði frá Hafnarháskóla 1845.
 

Jens var barnakennari á Eyrarbakka veturinn 1845-46, kennari við Lærða skólann í Reykjavík 1846-69 og rektor Lærða skólans frá 1869 og til æviloka. Hann var auk þess ritstjóri „Tíðinda frá þjóðfundi Íslendinga“ sem haldinn var á Alþingi, í Lærða skólanum (á sal MR) árið 1851.
 

Jens var reyndar sjálfur þjóðfundarmaður fyrir Gullbringu- og Kjósarsýslu á þessum fræga þjóðfundi, árið 1851, þegar Jón, bróðir hans, mælti hin frægu orð er Trampe greifi sleit fundinum: „Og ég mótmæli í nafni konungs og þjóðarinnar þessari aðferð, og ég áskil þinginu rétt til þess að klaga til konungs vors yfir lögleysu þeirri, sem hér er höfð í frammi.“
 

Jens lést 2. nóvember 1872.

 

Morgunblaðið 6. júlí 2016 - Merkir Íslendingar

 

.
Hrafnseyri við Arnarfjörð.                                                            Ljósm.: Björn Ingi Bjarnason.
,

 

Hrafnseyri við Arnarfjörð.                                                              Ljósm.: Björn Ingi Bjarnason.


Skráð af Menningar-Staður

 

05.07.2016 06:44

Bryggjuhátíðinni aflýst - söfnunarreikningur stofnaður

 

Stokkseyri. Ljósmynd / Mats Wibe Lund

 

Bryggjuhátíðinni aflýst - söfnunarreikningur stofnaður

 

Af virðingu við aðstandendur og minningu Hjalta Jakobs Ingasonar, sem lést í bruna á Stokkseyri síðastliðinn föstudag, hefur verið tekin ákvörðun um að aflýsa Bryggjuhátíð 2016, sem stóð til að halda á Stokkseyri um næstu helgi.

 

„Orð eru máttvana og fá ekki lýst þeirri sorg og þeim söknuði sem hvílir á foreldrum, systkinum og aðstandendum Hjalta Jakobs. Við vottum foreldrum, systkinum og aðstandendum Hjalta Jakobs okkar dýpstu samúð og hluttekningu. Megi allt hið góða styrkja ykkur í sorginni og megi hlý minningin um ungan, fallegan, ljóshærðan dreng vaka í huga ykkar og hjörtum um ókomna framtíð,“ segir í tilkynningu frá hátíðarhöldurum.

 

Stofnaður hefur verið reikningur til styrktar fjölskyldu Hjalta Jakobs, en hann lætur eftir sig foreldra og tvær yngri systur. Reikningurinn er í nafni móður Hjalta Jakobs, Gunnhildar Ránar Hjaltadóttur. Reikningsnr. 0586-14-400054, kt. 210686-4449. Margt smátt gerir eitt stórt.

 

Bænastund verður haldin í Stokkseyrarkirkju í kvöld, þriðjudagskvöld 5. júlí,  kl. 20:00 vegna andláts Hjalta Jakobs.

Af ww.sunnlenska.is

 


Skráð af Menningar-Staður

 

30.06.2016 10:52

Skógræktarfélagi Eyrarbakka gefið sláttuorf

 

 

F.v.: Haukur Jónsson og Siggeir Ingólfsson. Ljósm.: Rúnar Eiríksson.

 

Skógræktarfélagi Eyrarbakka gefið sláttuorf


Haukur Jónsson, útgerðamaður Mána ÁR 70 á Eyrarbakka, kom færandi hendi uppí Hallskot í gærkveldi og færði Skógræktarfélagi Eyrarbakka slátturorf of bestu gerð.

Siggeir Ingólfsson veitti gjöfinni viðtöku og hófst fljótlega sláttur með góðum árangri.

Rúnar Eiríksson færði til myndar.


Skráð af Menningar-Staður

30.06.2016 07:03

Tveir dýrbítar aflífaðir - þriggja annarra leitað

 

Eyrarbakki.                                                                                         Ljósm.: Mats Wibe Lund.

 

Tveir dýrbítar aflífaðir - þriggja annarra leitað
 

Hundar hafa drepið að minnsta kosti tíu lömb í mýrinni norðan við Eyrarbakka að undanförnu. Í fyrradag voru tveir hundanna aflífaðir en þriggja er ennþá leitað.

Greint var frá þessu í hádegisfréttum Bylgjunnar. Hundunum var lógað á dýraspítala að fengnu samþykki eigenda þeirra. 

Ekki hafa verið borin kennsl á hundana þrjá sem enn ganga lausir og er óttast að þeir muni halda uppteknum hætti. Einn þeirra er gulur labradorhundur.

Starfsmenn Sveitarfélagsins Árborgar hafa litið eftir svæðinu að undanfarna daga, en ekki orðið ágengt. 

Hundarnir hafa einnig verið að hrella fugla á hreiðrum en ekki liggur fyrir hvort þeir hafi drepið einhverja fugla.

Af www.sunnlenska.is


Skráð af Menningar-Staður

29.06.2016 10:19

Einn kafli og annar -- með Emil skólastjóra

 

 

Emil, Björn og bókin.
Björn Ingi Bjarnason t.v. afhendir heiðursmanni heiðursbók úr Sóleyjarferð.

Bókin er um 150 ára skólastarf á Eyrarbakka og Stokkseyri hvar var fyrsti barnaskóli landsins.

Líkt og fólk veit þá helgaði Emil Ragnar Hjartarson líf sitt kennslu utan jafnt sem innan

skólaveggja, hann er fræðari að upplagi.
F.v.: Björn Ingi Bjarnason og Emil Ragnar Hjartarson.

 

Einn kafli og annar -- með Emil skólastjóra

 

Guðmundur Sigurðsson skrifar:
 

Í gær 28. júní, á 111 afmælisdegi Hjartar Hjálmarssonar, var haldinn fundur til að loka einum þætti og hefja annan.

Aðgerðarhópur um afmæli Sóleyjar ÍS 225 (síðar Sóley ÁR 50 frá Stokkseyri og Þuríður Halldórsdóttir GK 94 frá Vogum)) kom saman og með hópnum Emil Ragnar Hjartarson sem var heiðursfélagi í ferðinni um Boðaföll Sóleyjar á Suðurlandi. Að vísu komst Emil ekki með í ferðina en það breytir auðvitað engu um stöðu hans og heiður.
 

Gudmundur Einar Jonsson átti ekki möguleika á að mæta í dag og var þar skarð fyrir skildi. En úr nefndinni mættu Björn Ingi Bjarnason og Guðmundur Sigurðsson
 

Hjörtur Hjálmarsson var stjórnarformaður Hjallaness, dótturfélags Kaupfélags Önfirðinga þegar Sóley var smíðuð fyrir Flateyringa. Hjörtur var mikill aðdáandi Einars Benediktssonar skálds og mun hafa átt hugmynd og heiður af nafni skipsins.

Á fasbóksíðu Emils má finna eftirfarandi skýringu á nafninu: „Einhverjum kann að finnast undarlegt að skíra skip blómnafni,jafnvel þótt blómið sé fagurt. 
Í kvæðinu "Móðir mín" notar Einar Benediktsson orðið Sóley um Ísland. -- þangað sem leiðin liggur að lokum. Þaðan mun hugmyndin að nafninu hafa komið.“

 

Það var ótal margt sem Emil sagði okkur í framhaldinu, skemmtilegar sögur sagðar með blikandi leiftri en þó hæversku og yfirvegun kennimannsins. Það var mikill hlátur og gleði á þessum litla fundi okkar.
 

Hallgrímur Sveinsson hjá Vestfirska forlaginu hefur skipað hópinn sem var á fundinum til að koma vegargerðasögum Emils í bókarform hið allra fyrsta, - bæði verða teknar sögur sem hann hefur skrifað á fasbók síðu sína og svo líka sögur sem hann á í minni sínu og aldrei hafa verið skráðar en sagðar þegar við hefur átt.
 

Emil byrjaði í vegavinnu upp úr 1950 og starfaði við það flest sumur fram yfir malbik. Hann sagði slitlagið hafa verið afar magnað, það hafi verið skrítið að sjá aldrei aftur gömlu holurnar sem höfðu fylgt veginum af dyggð alla tíð, samviskusamlega hafi þær mætt eftir hverja heflun hver á sínum stað og glatt vegfarendur sem tóku þeim að vísu misfagnandi.
 

Það má telja fullvíst að þessi bók eigi eftir að vekja gleði þeirra sem muna vegina og ekki síður þeirra sem unna góðum frásögnum og svo eru auðvitað fjölmargir sem hafa lagt hönd á plóg við að gera vegi á vestfjörðum að veruleika.

Í fundarlok var Emil afhent að gjöf bók sem fylgdi því að hafa verið heiðursgestur í Sóleyjarferðinni en það var saga barnaskólans á Eyrarbakka og Stokkseyri, elsta barnaskóla á Íslandi, þar hafa Önfirðingar einmitt átt drjúgan þátt í skólastarfinu allt frá stofnun skólans um miðja nítjándu öldina.

Til gamans má geta þess að fjölskylda Emils fór með skólastjórn á Flateyri í um sex áratugi, afi hans, faðir og hann sjálfur. Þetta er líklega einstakt og sérlega skemmtilegt að spá í.

 

Þá fékk Emil afhent heiðursborgaraskjal föður síns sem var heiðursborgari Flateyrarhrepps. Skjalið hafði verið á menningarbjálka á efsta lofti forsetasetursins á Eyrarbakka í fullan áratug eða frá því að hið mikla rit Önfirðingafélagsins um Hjört Hjálmarsson kom út.
 


Guðmundur Jón Sigurðsson.
 

 

Sagnalynd í stuði.

Húmorinn og næm geislandi frásögn Emils getur verið allt að því hættuleg. Er ekki viss hvað

er óhætt að hlægja lengi en tók smá prufu á því á fundinum með meistaranum.

F.v.: Emil Ragnar Hjartarson og Guðmundur Sigurðsson.

.

 

Ljós & ljón með Emil á milli.
Hér er fræðarinn með tvo gamla nemendur hjá sér. Annar þeirra var ljós en hinn meira ljón

í skólanum í gamla daga. En það man ekki nokkur maður eftir því. Það eru forréttindi að fá

að starfa með Emil að þessari bók um vegavinnumenn og aðra menn og kvenmenn. Auðvitað

er hitinn og þunginn hjá meistaranum en við munum eiga fleiri skemmtilega fundi, þess vegna

er ég hamingjusamur með tilnefningu Hallgríms.
F.v.: Björn Ingi Bjarnason, Emil Ragnar Hjartarson og Guðmundur Sigurðsson.

.


Skólastjórinn & nemandinn.  

Stóra breytingin er að nú lærir nemandinn möglunarlaust og hefur gaman af, rétt eins og

í frímínútunum í gamla daga. Þær voru oft hlaðnar lærdómi af frábærum frásögnum sagnameistara.
F.v.: Emil Ragnar Hjartarson og Guðmundur Sigurðsson.Skráð af Menningar-Staður

28.06.2016 16:42

Merkir Íslendingar - Hjörtur Hjálmarsson

 

 

 

Merkir Íslendingar - Hjörtur Hjálmarsson


28. júní 2016 - 111 ár frá fæðingu Hjartar Hjálmarssonar


Hundrað og ellefu ár eru í dag frá fæðingu Hjartar Hjálmarssonar fyrrum skólastjóra og sparisjóðsstjóra á Flateyri.
Hann fæddist á Þorljótsstöðum í Skagafirði 28. júní 1905. Hann lést á Dvalarheimilinu Barmahlíð á Reykhólum 17. nóvember 1993 á 89. aldursári. 


Árið 1931 fluttist Hjörtur til Flateyrar og gerðist kennari við barnaskólann, fyrst sem almennur kennari. Árið 1959 tók hann við skólastjórn og gegndi því starfi til ársins 1970. Hann kvæntist Aðalheiði Rögnu Sveinsdóttur, dóttur Sveins Gunnlaugssonar þáverandi skólastjóra á Flateyri og Sigríðar Benediktsdóttur. Hjörtur og Ragna eignuðust tvo syni, þá Emil Ragnar kennara og skólastjóra og Grétar Snæ starfsmannastjóra.

 

Ragna var lengi kirkjuorganisti og söngkennari á Flateyri. Hjörtur var oddviti Flateyrarhrepps á árunum 1938 til 1946, hreppstjóri var hann frá 1948 til 1972 og sat í sýslunefnd árin 1942 til 1972. Hann sat í stjórn og var stjórnarformaður Kaupfélags Önfirðinga frá 1944 til 1973. Hjörtur var síðasti heiðursborgari Flateyrarhrepps.


Auk þess var Hjörtur, samhliða kennslu og skólastjórn, forystumaður í vel flestum félögum og samtökum á Flateyri um áratuga skeið og hafði þannig mjög mótandi áhrif á allt mannlíf á staðnum um langt árabil.
 

 
Skráð af Menningar-Staður

 

 

27.06.2016 12:32

Reyndu að smygla miklu magni fíkniefna á Litla-Hraun

 

Litla-Hraun. sunnlenska.is/Guðmundur Karl

 

Reyndu að smygla miklu magni fíkniefna á Litla-Hraun
 

Rannsóknarsamvinna lögreglu á Suðurlandi og fangavarða á Litla Hrauni kom í veg fyrir að miklu magni meintra fíkniefna og lyfja væri smyglað inn á Litla-Hraun síðastliðinn föstudag.

Á Selfossi voru tveir karlmenn staðnir að því aðfaranótt föstudags að koma pakka fyrir í bifreið sem þeir vissu að ætti að fara inn á fangelsissvæðið um daginn. Pakkinn var haldlagður og innihaldið sent í efnagreiningu á rannsóknarstofu.

Á þessari stundu er ekki vitað hvaða efni er um að ræða.

Í dagbók lögreglunnar á Suðurlandi kemur fram að kona var handtekin á Litla-Hrauni á föstudag þegar hún kom að heimsækja fanga. Grunsemdir vöknuðu um hún væri með ólögleg efni sem hún hygðist smygla inn í fangelsið og við nánari rannsókn kom í ljós að hún var með töflur innvortis.

Ekki er vitað hvernig töflur það voru en úr því verður skorið á rannsóknarstofu. Málin tvö eru ótengd.

Af www.sunnlenska.is


 

Litla-Hraun. Ljósm.: BIB
 

 


Skráð af Menningar-Staður.

27.06.2016 10:34

Forsetakosningarnar 2016 - úrslit í öllum kjördæmum

 

 

 

Forsetakosningarnar 2016 - úrslit í öllum kjördæmum
 

.

 

Úr Morgunblaðinu 27. júní 2016.


Skráð af Menningar-Staður