Menningar-Staður
Félagsheimilið Staður á Eyrarbakka

06.04.2016 07:00

Uppbyggingarsjóður Suðurlands auglýsir eftir umsóknum

 

 

 

Uppbyggingarsjóður Suðurlands auglýsir eftir umsóknum

 

Sjóðurinn hefur það hlutverk að veita verkefnastyrki á sviði nýsköpunar og menningar á Suðurlandi

Umsóknarfrestur er til og með 19. apríl nk.

 

Markmið Uppbyggingarsjóðs Suðurlands:

  • Að styðja við verkefni sem efla fjölbreytileika atvinnulífs og jákvæða samfélagsþróun á Suðurlandi
  • Að efla menningarstarfsemi og listsköpun á Suðurlandi
  • Að styðja við atvinnuskapandi- og/eða framleiðniaukandi verkefni á Suðurlandi
  •  

Umsækjendur eru hvattir til að hafa samband við ráðgjafa á vegum SASS og fá aðstoð og leiðbeiningar við gerð umsókna. Hægt er að hafa samband í síma 480-8200 eða með því að senda fyrirspurn á netfangið styrkir@sudurland.is. Allar umsóknir þurfa að berast rafrænt í gegnum vefinn sudurland.is.

Upplýsingar um úthlutunarreglur, leiðbeiningar við gerð umsókna og viðmið við mat á umsóknum er að finna hér

Af www.sass.is


Skráð af Menningar-Staður 

04.04.2016 19:26

Hjallastefnan komin á hausinn

 

 

Siggeir Ingólfsson er yfir-deildarstjóri Hjallastefnunnar á Eyrarbakka.

 

 

 

Hjallastefnan komin á hausinn

 

Hjallastefnunni, hinni nýju í og við Alþýðuhúsið á Eyrarbakka, hefur vaxið fiskur um hrygg á síðustu mánuðum og misserum.

Þessi stefna byggir í grunninn á þjóðlegum verkunaraðerðum við fiskverkun þar sem hjallþurrkun er í hávegum höfð. Einnig er tekið á fleiri þáttum svo sem söltun og sölvatekju með öllu sem því fylgir.

Síðan er lokaþáttur þessa alls að koma saman og borða afurðir Hjallastenunnar og því innihaldsríka og skemmtilega mannlífi sem slíku er samfara.

Hjallastefnan toppaði í dag þegar toppstykki þorsksins, að er hausinn, var hengdur til þurrkunar í dag við Alþýðuhúsið á Eyrarbakka. Er verkað bæði til neyslu með hefum Íslendinga sem og framandi þjóða.

Þá var haft á orði að „Hjallastenan væri komin á hausinn“  eins og segir í fyrirsögn.

Að þessu gerðu  báðu viðstaddir Guð að blessa Ísland.

 

Menningar-Staður færði til myndar.

Myndaalbúm á þessari slóð: http://menningarstadur.123.is/photoalbums/277952/Nokkrar myndir hér:

.

.

 

 

Skráð af Menningar-Staður
 

04.04.2016 07:17

Fangar á litla-Hrauni setja saman íslenska hönnun

 

 
 

Fangar á litla-Hrauni setja saman íslenska hönnun

 

Bekkurinn Fang er unninn úr íslenskum skógarviði og settur saman á Litla-Hrauni.

Dagný Bjarnadóttir arkitekt hannar bekkina og segir gefandi að koma að uppbyggilegu starfi innan fangelsismúranna.

 

„Verkefnið spratt upp úr samtali milli mín og Hildar Gunnarsdóttur, arkitekts. Hún vann að samkeppni um nýja fangelsið á Hólmsheiði og sagði mér hvað það væri lítið við að vera í fangelsunum. Ég var þá nýbúin á námskeiði í að smíða bekki úr íslenskum skógarviði og datt strax í hug að bekkina væri hægt að vinna inni á Litla-Hrauni,“ útskýrir Dagný Bjarnadóttir, arkitekt og höfundur garðbekkjarins Fang.

 

„Nafnið Fang vísar í það hvar þeir eru framleiddir, en einnig í skammstöfunina: „Framleiðsla afurða úr nytjaskógi í grennd,“ bætir hún við.

 

Bekkina sýndi Dagný í Nesstofu á liðnum HönnunarMars. Þeir eru framleiddir úr alaskaösp og greni, sem fellur til úr görðum og skógum í nágrenninu. Viðurinn er ómeð- höndlaður en Dagný segist vilja að hann geti brotnað niður í nátttúrunni þegar að vitjunartíma hans kemur. Með því að hafa viðinn upp á rönd leki væta vel af honum en búast megi við að endurnýja þurfi viðinn bekknum eftir um það bil 50 ár.

 

Bekkirnir fengu frábærar viðtökur á HönnunarMarsinum.

 

„Ég sýndi fjóra bogadregna bekki saman og lét lá liðast um rýmið og fyrir utan það líka. Það kom mjög skemmtilega út,“ segir Dagný. „Bekkirnir sem ég sýndi í Nesstofu fara í Grasagarðinn og þá eru komnir bekkir í Hellisgerði í Hafnarfirði, á Klambratún og í Vatnsmýrina. Hver bekkur er framleiddur eftir pöntun og í gegnum mig. Það eru engir tveir bekkir eins og þannig verða þeir pers- ónulegri fyrir vikið. Þetta verður heldur aldrei fjöldaframleiðsla þar sem verkstæðið á Litla-Hrauni annar bara ákveðnu magni og eins þarf að útvega efni,“ segir Dagný. Hún segir gefandi að geta komið að uppbyggilegu starfi innan fangelsismúranna og lætur vel af samstarfinu við fangana.

 

„Þar er verkstjóri yfir verkinu en ég fór og hitti fangana til að fara yfir verklag og annað. Það var virkilega gaman hvað þeir tóku verkefninu fagnandi og eru orðnir miklir sérfræðingar í þessu. Smíðin er einföld og því hentaði þetta vel þarna inn, það geta margir stokkið í verkefnið.“

 

Er frekara samstarf við LitlaHraun á döfinni? „Ég er með hugmyndir í kollinum sem ég á alveg eftir að útfæra. Mig dreymir til dæmis um að útfæra bekkina í borð og bekk saman, eins og á nestisáningarstöðum.“

 


Fréttablaðið mánudagurinn 4. apríl 2016


Skráð af Menningar-Staður

03.04.2016 06:57

| Undirbúningur fyrir Vor í Árborg í fullum gangi

 

Undirbúningur fyrir Vor í Árborg í fullum gangi

 

 

Undirbúningur fyrir Vor í Árborg í fullum gangi

 

 

Nú stendur yfir undirbúningur fyrir bæjarhátíðina Vor í Árborg sem fram fer 21. – 24. apríl  2016 

Hátíðin verður með hefðbundnu sniði en í boði verða fjölmargir tónleikar, sýningar og viðburðir fyrir allan aldur.

Fjölskylduleikurinn „Gaman Saman“ verður á sínum stað og getur yngri kynslóðin safnað stimplum í vegabréfið á ákveðnum viðburðum.

Sveitarfélagið hefur fengið góðan liðstyrk við undirbúninginn þetta árið en Finnur Hafliðason, nemi í viðburðastjórnun, vinnur að hátíðinni sem hluta af náminu og geta þeir sem hafa áhuga á að taka þátt með viðburðum eða öðrum hætti haft samband við Finn í síma 480-1900 eða í tölvupósti á finnurh@arborg.

 

 

Af www.arborg.is


Skráð af Menningar-Staður

 

02.04.2016 06:24

Fimm sækja um Eyrarbakkaprestakall

 

Í Eyrarbakkakirkju.

 

Fimm sækja um Eyrarbakkaprestakall

 

Fimm umsækjendur eru um embætti sóknarprests í Eyrarbakkaprestakalli sem veitt verður frá 1. júlí næstkomandi.

 

Umsækjendurnir eru:

mag. theol. Anna Þóra Paulsdóttir,

mag. theol. Arnór Bjarki Blomsterberg,

séra Kristján Björnsson,

séra Úrsúla Árnadóttir

og mag. theol. Viðar Stefánsson.

 

Einn dró umsókn sína til baka.

 

Frestur til að sækja um embættið rann út 22. mars sl. Biskup Íslands skipar í embættið að fenginni umsögn valnefndar. Valnefnd skipa níu manns úr prestakallinu auk prófasts.


Skráð af Menningar-Staður

01.04.2016 06:24

Tæpum 238 milljónum úthlutað úr Framkvæmdasjóði ferðamála til Suðurlands

 

Hveragerði.

 

Tæpum 238 milljónum úthlutað

úr Framkvæmdasjóði ferðamála til Suðurlands

 

Nýlega voru veittir styrkir úr Framkvæmdasjóði ferðamannastaða vorið 2016. Alls eru veittir styrkir til 66 verkefna hringinn í kringum landið en að þessu sinni var sérstaklega horft til öryggismála og miða 37 verkefnanna að því að bæta öryggi á ferðamannastöðum.

Alls nema styrkir til einstakra verkefna tæplega 596 m.kr. en 51. m.kr. verður úthlutað sérstaklega af ráðherra ferðamála til brýnna verkefna vegna öryggis á ferðamannastöðum að tillögu Stjórnstöðvar ferðamála.

Tuttugu og eitt verkefni á Suðurlandi fengu styrk samtals að upphæð um 238 m kr. Af þeim voru fimm verkefni sem tengjast Vatnajökulsþjóðgarði, samtals að upp hæð 61 m.kr.
Í byrjun árs 2016 gaf ráðherra út nýja reglugerð um starfsreglur Framkvæmdasjóðs ferðamannastaða og er þetta í fyrsta skipti sem úthlutun fer fram á grundvelli nýju reglugerðarinnar. Í reglugerðinni er mótframlag til svæða í eigu og umsjón ríkisins fellt niður og mótframlag til svæða í eigu eða umsjón sveitarfélaga og einkaaðila er lækkað úr 50% í 20%.

S u ð u r l a n d:

Hveragerðisbær
- Kraftur og hverir - Mögnuð náttúra í nýju ljósi 
Kr. 2.900.000, styrkur til að byggja upp fræðslu og áningarstað í Hveragarðinum, sem einnig getur nýst yfir vetrarmánuðina. 


Katla jarðvangur (Geopark)
- Heildstætt útlit og merkingar 
Kr. 10.000.000, styrkur til merkinga við áningarstaði og meðfram stígum á völdum stöðum innan Kötlu jarðvangs. 


Kerlingarfjallavinir 
- Viðhald, lagfæringar og viðbætur á brúm í Hveradölum
Kr. 3.165.600, styrkur til að endurbyggja tvær göngubrýr sem skemmdust undan snjófargi og bæta við þeirri þriðju vegna nýrrar gönguleiðar. Hönnun brúa taki mið af óvenjulegum snjóalögum á svæðinu. 


Mýrdalshreppur
- Dyrhóley, Háey - Stígar, öryggi og náttúruvernd
Kr. 13.000.000, styrkur til hönnunar og framkvæmda við stíga, tröppur og öryggishandrið á hærri hluta Dyrhóleyjar, sem nefnist Háey. 


Rangárþing ytra
- Landmannalaugar -Deiliskipulag
Kr. 8.500.000, styrkur vegna deiliskipulags Landmannalauga. 


Skaftárhreppur
- Bætt aðgengi og öryggi í Fjaðrárgljúfri
Kr. 28.436.000, styrkur til hönnunar og uppsetningar á útsýnispalli við norðurenda Fjaðrárgljúfurs, ásamt lagfæringa á göngustígum.


Skógrækt ríkisins
- Afmörkun og viðhald gönguleiða og styrking gróðurs ofan við Systrafoss
Kr. 1.300.000, styrkur til að afmarka gönguleiðir og útsýnisstaði ferðamanna ofan við Systrafoss á Kirkjubæjarklaustri til að vernda gróður og bæta öryggi ferðafólks.


Skógrækt ríkisins
- Endurbygging bálskýlis og áningarstaðar í Haukadalsskógi
Kr. 1.150.000, styrkur til endurbyggingar þaks á bálskýli í Haukadalsskógi, sem brotnaði undan miklu snjófargi í ársbyrjun 2015.


Skógrækt ríkisins
- Hjálparfoss - salernisaðstaða
Kr. 9.100.000, styrkur til uppbyggingar á heilsárssalernisaðstöðu við Hjálparfoss. Sótt er um styrk til að koma fyrir rotþró og leggja rafmagns- og  vatnsleiðslu að svæðinu.


Skógrækt ríkisins
- Viðhald gönguleiða á Þórsmerkursvæðinu
Kr. 4.725.000, styrkur til áframhaldandi viðhalds gönguleiða og merkinga á Þórsmerkursvæðinu. Verkefnið er unnið í samstarfi við Vini Þórsmerkur. 


Sveitarfélagið Ölfus
- Reykjadalur, 5. áfangi
Kr. 10.000.000, styrkur til áframhaldandi uppbyggingar göngustíga í Reykjadal ásamt smíði göngubrúar við nýjan hver sem opnast hefur rétt við göngustíg og veldur töluverðri hættu. Einnig rennur styrkur til frumhönnunar á nýrri salernisaðstöðu.


Sveitarfélagið Hornafjörður
- Göngubrú yfir Kolgrafardalsá - Jöklastígur
Kr. 28.640.000, styrkur til að ljúka gerð göngubrúar yfir Kolgrafardalsá, hanna og setja upp göngubrú yfir á sem nýlega myndaðist á milli Jökulfells og Miðfells. Sú brú kallast „Brúin á milli fella“ og verður um 60 m löng. 


Umhverfisstofnun
- Geysir framkvæmd á stígum 
Kr. 30.000.000, styrkur til stígagerðar frá tjaldsvæði upp Laugarfell og þaðan með tröppum niður á Geysissvæðið sjálft. Útsýnispallur verður á Laugarfelli.


Umhverfisstofnun
- Skógaheiði, Skógafoss - Hönnun, skipulag og framkvæmdir. 1. áfangi
Kr. 12.000.000, styrkur til lagfæringar og endurbóta á 4–5 km löngum göngustíg meðfram fossaröð Skógár ofan Skógafoss. Prílur yfir fjárhelda girðingu verða fjarlægðar og sjálflokandi hlið sett í staðinn.


Umhverfisstofnun
- Göngustígur í Skaftárhreppi, Dverghamrar og Kirkjugólf 
Kr. 4.744.300, styrkur til lagfæringa og breytinga á göngustígum, ásamt uppsetningu á nýjum skiltum við Dverghamra og Kirkjugólf í Skaftárhreppi, sem hafa látið á sjá vegna fjölgunar ferðamanna. 


Vatnajökulsþjóðgarður

- Skaftafell: Svartifoss – gönguleið
Kr. 7.500.000, styrkur til hönnunar og uppsetningar á nýjum stálgrindarþrepum og tilfærslu á stíg, sem liggur frá útsýnisstað á leiðinni upp að Svartafpssi.


Vatnajökulsþjóðgarður
- Hundafoss  – útsýnispallur 
Kr. 15.700.000, styrkur til smíði og uppsetningar útsýnispalls og girðingar við Hundafoss í Skaftafelli. 


Vatnajökulsþjóðgarður
- Skaftafelli - bílastæði
Kr. 30.000.000, styrkur til hönnunar og framkvæmda vegna 2. áfanga bílastæða í Skaftafelli. 


Vatnajökulsþjóðgarður
- Skaftafell: Svartifoss -gönguleið
Kr. 4.300.000, styrkur til lokaframkvæmda við göngustíg frá bílastæði Skaftafells að Svartafossi.

 
Vatnajökulsþjóðgarður
- Skaftafell: Svartifoss - tilfærsla göngustígs og uppsetning stálþrepa
Kr. 7.500.000, styrkur til hönnunar og uppsetningar á nýjum stálgrindarþrepum og tilfærslu á stíg, sem liggur frá útsýnisstað á leiðinni upp að Svartafossi.


Vatnajökulsþjóðgarður
- Tjarnargígur
Kr. 3.500.000, styrkur til hönnunar, undirbúnings og mælinga fyrir nýjum og stærri útsýnispalli er koma skal í stað núverandi palls.


Vinir Þórsmerkur
- Viðhald gönguleiða og merkingar á Þórsmerkursvæðinu 
Kr. 8.610.000, styrkur til áframhaldandi viðhalds gönguleiða og merkinga á Þórsmerkursvæðinu í samstarfi við Skógrækt ríkisins.

Af www.dfs.is


Skráð af Menningar-Staður

 

31.03.2016 12:01

Nýr miðbær á Selfossi

 

.

 

Sjá má öll húsin á þessari slóð:

http://www.midbaerselfoss.is/myndir/

 

Nýr miðbær á Selfossi

 

Tillaga að nýju deiliskipulagi miðbæjar á Selfossi er nú í lögformlegri kynningu. Gert er ráð fyrir að byggð verði um 30 hús. Með þessu er ætlunin að styrkja miðbæ Selfoss, með tilliti til þess þegar hringvegurinn færist út fyrir bæinn. Nýju húsin eiga að verða endurgerð gamalkunnra húsa sem horfið hafa af sjónarsviðinu með ýmsum hætti víða um land.
 

Þegar komið er yfir Ölfusárbrú á leið austur blasir við autt svæði þar sem áður stóðu byggingar Kaupfélagsins Hafnar. Sveitarfélagið Árborg keypti þetta land árið 2011 fyrir 175 milljónir króna. Bæjarstjórnin rökstuddi kaupin meðal annars með því að þannig gæti sveitarfélagið haft fulla stjórn á því hvernig miðbæjarsvæðið byggðist upp. Sigtún Þróunarfélag hefur nú vilyrði fyrir lóðum á svæðinu og leggur fram tillögu að deiliskipulagi, sem unnin er af VSÓ-ráðgjöf og Batteríinu, arkitektum. Hún felur í sér byggingu húsa í eldri stíl sem eru mest 3 hæðir.

Söguhús rísa á ný

Öll eru þessi hús endurgerð eldri húsa, sem horfið hafa af sjónarsviðinu af ýmsum ástæðum. Um fimmtungur þessara húsa stóð á Selfossi, en hin í Reykjavík, Hafnarfirði‚ á Akureyri, Ísafirði, Eyrarbakka og víðar. Í forgrunni verður gamla Mjólkurbúið á Selfossi sem Sigtún Þróunarfélag og Mjólkursamsalan hafa sammælst um að endurbyggja. Talsmenn Batterísins arkitekta segja að með þessu sé ætlunin að gera þessum byggingum hátt undir höfði, stuðst verði við teikningar þar sem þær séu til, annars ljósmyndir og teikningar. Að innan verði svo húsin önnur en þau voru, í samræmi við nútíma kröfur um athafnarými, aðgengi, öryggi, eldvarnir og fleira.

Skjólgóður miðbær

Miðað er við að götur verði ekki breiðari en 10 metrar. Þannig verði til skjólgóður miðbær sem minni á miðbæi til dæmis í Reykjavík, Hafnarfirði, Akureyri, Ísafirði og Seyðisfirði. Miðað er við bílastæði að húsabaki og að nokkru í götunum, en umferð verður takmörkuð að nokkru með einstefnuakstri. Í kynningu nú gefst öllum tækifæri til athugasemda við deiliskipulagið. Meirihluti bæjarstjórnar Árborgar er hlynntur tillögunum, en bíður þess hverjar viðtökur íbúa verða og hvort fjármögnun tekst. Minnihlutinn lagði fram bókun á síðasta sveitarstjórnarfundi, þar sem ýmsir fyrirvarar voru settir við málið. Meðal annars var þar spurt um hvernig sveitarfélagið næði aftur því fé sem lagt hefði verið í uppkaup landsins.

Lykilatriði í nýrri framtíð

Forystu sveitarfélagsins þykir hugmyndirnar falla vel að þeim breytingum sem framundan eru á næstu árum. Þá færist hringvegurinn norður fyrir Selfoss með nýrri brú yfir Ölfusá.  Ásta Stefánsdóttir framkvæmdastjóri sveitarfélagsins Árborgar staðfestir þetta. „Jájá, við verðum auðvitað áfram með veg í gegnum bæinn. Við teljum að þetta og ýmislegt annað sem við höfum gert, geri það að verkum að fólk sjái áfram ástæðu til þess að koma við hjá okkur. Við fórum í miklar endurbætur á sundlauginni og sundlaugarsvæðinu og það er að skila mikilli traffík þar. Við horfum bara bjartsýn fram til sumarsins og bara framtíðarinnar“.


Af www.ruv.is

 


Skráð af Menningar-Staður

 

30.03.2016 12:54

Menningar-Staður í -morgunandakt- upp við Ölfusá

 

F.v.: Siggeir Ingólfsson og Ingvar Jónsson við Ráðhús Árborgar á Selfossi. Ljósm.: BIB

 

Menningar-Staður í  -morgunandakt- upp  við Ölfusá

 

Vinir alþýðunnar hittust samkvæmt venju í Alþýðuhúsinu á Eyrarbakka í morgun, miðvikudaginn 30. mars 2016.

Meðal gesta var Ingvar Jónsson frá Selfossi.

Í lok fundar á Eyrarbakka bauð hann Siggeiri Ingólfssyni og Birni Inga Bjarnasyni upp að Ölfusá í „morgunadakt“ en það er samkoma virðulegra eldri karla í lesstofu Bókasafnsins í Ráðhúsi Árborgar við Austurveg. Þessar samkomur eru fastur liður í mannlífinu þar efra  og hefjsast kl. 10.

Gestum Strandarinnar var mjög vel tekið og í hópinn þaðan bættist Þórður Guðmundsson frá Stokkseyri.

Flest vandamál alheimsins, sem og staðbundin, voru rædd þarna og gerðar tillögur til betri vegar í mörgum þeirra.

Menningar-Staður færði til myndar:
Myndalbúm komið á Menningar-Stað.
Smella á þessa slóð: http://menningarstadur.123.is/photoalbums/277890/Nokkrar myndir hér:

.

.

.

.

.

F.v.: Tómas Jónsson, Hilmar Þór Björnsson, Hörður Hansson, Ingvar Jónsson, Siggeir Ingólfsson,

Þórður Guðmundsson, Garðar Einarsson, Gunnar Einarsson og Ólafur Hákon Guðmundsson.

Ljósm.: Björn Ingi Bjarnason.


Skráð af Menningar-Staður

 

29.03.2016 16:14

Alþýðutónlistarhátíðin Bakkinn aftur haldin á Eyrarbakka!

 

 

 

Alþýðutónlistarhátíðin Bakkinn aftur haldin á Eyrarbakka

 

 

Síðustu tvö ár hefur alþýðutónlistarhátíðin Bakkinn verið haldin með trompi á Eyrarbakka. Nú er komið að því að halda hátíðina aftur í ár, og mun hún fara fram dagana 21.-24. apríl nk. eða sömu helgi og Vor í Árborg.

Frábærir listamenn og konur hafa boðað komu sína og má búast við algjörri tónlistarveislu á Eyrarbakka.

Meðal þeirra listamanna sem staðfest hafa komu sína eru Magnús Þór Sigmundsson, Valgeir Guðjónsson, Ellen Kristjáns og Eyþór Gunnarsson, Lay Low, Skúli Mennski, Íkorni, Erna Mist og Magnús og UniJon.

Tónleikar munu fara fram á Gónhól, í Rauða Húsinu, Húsinu, Eyrarbakkakirkju, Óðinshúsi og í Orgelsmiðju Björgvins í Menningarverstöðinni Hólmaröst á Stokkseyri.

af: www.bakkinn.org


Sklráð af Menningar-Staður

26.03.2016 20:00

Elfar Guðni og Valgerður Þóra opnuðu sýningar í Svartakletti á Stokkseyri

 

 

Elfar Guðni Þórðarson.

 

Elfar Guðni og Valgerður Þóra opnuðu sýningar

í Svartakletti á Stokkseyri - 26. mars 2016

 

Feðginin, Elfar Guðni Þórðarson og Valgerður Þóra Elfarsdóttir, opnuðu sýningar í  Svartaklett í Menningarverstöðinni Hólmaröst að Hafnargötu 9 á Stokkseyri, í dag laugardaginn 26. mars 2016.

 

Á sýningunni eru vatnslitamyndir frá Elfari af fjöllum, klettum við sjó, jöklum, þorpum og blómum. Flestar eru myndirnar málaðar árið 2004, nokkrar eru eldri, málaðar í kringum 1978. Einnig eru olíumyndir sem flestar eru nýlegar, brim, veður, bátar og hús í fjarska ræður þar ríkjum.

 

Valgerður Þóra sýnir mosaic og myndir á rekavið með blandaðri tækni.

 

Opið verður um helgar frá kl. 14 til 18 og í annan tíma eftir samkomulagi.

 

Sýningarlok eru óákveðin en þegar líður á sýningartímann og kemur fram í maí n.k. verður þess minnst með  viðeigandi samkomuhaldi að nú eru 15 ár frá listalegu landnámi Elfars Guðna í Menningarverstöðinni Hólmaröst á Stokkseyri með opnun  vinnustofu og sýningarsal hans í Svartakletti árið 2001.

Víst er að í Svartakletti er eitt mikilvægasta lista- og menningarsetur á Suðurlandi.

 

Menninga-Staður leit við í Svatakletti í Menningarvertöðinni Hólmaröst við lok fyrsta sýningardagsins og færði til myndar.

Myndaalbúm er komið á Menningar-Stað.
Smella á þessa slóð: http://menningarstadur.123.is/photoalbums/277836/Nokkrar myndir hér:

F.v.: Þórir Þórðarson. Elfar Guðni Þórðarson og Auðbjörg Guðmundsdóttir.

Ljósm.: Björn Ingi Bjarnason.

.

F.v.: Anna Rut Hilmarsdóttir, Elfar Guðni Þórðarson og Valgerður Þóra Elfarsdóttir.
.
 

.

 Fjölskyldustemmning í Svartakletti.
.

.

.

 

.

Skráð af Menningar-Staður