Menningar-Staður
Félagsheimilið Staður á Eyrarbakka

01.09.2016 07:54

Hvað heita fossarnir á Dynjanda?

 

 

Elfar Guðni Þórðarson, listmálari á Stokkseyri,

heldur hér á fossinum Dynjanda sem hann málaði á steinvölu af Dynjandalendum.

 

 

Hvað heita fossarnir á Dynjanda?

 

Og er nú tímabært að rifja upp hvað fossarnir á Dynjanda heita. Sumir þeirra bera tvö og jafnvel þrjú nöfn:
 

Talið ofanfrá eru það:
 

Dynjandi (Fjallfoss), 
Hæstahjallafoss, 
Úðafoss (Strokkur eða Strompur), 
Göngumannafoss (Göngufoss),
Hríðsvaðsfoss, 
Hundafoss 
og Bæjarfoss (Sjóarfoss).

 

   Það er sannkölluð fossasimfónía sem náttúran leikur fyrir gesti sína á Dynjanda, misjafnlega hljómmikil eftir árstíðum. Sagt er að niður fossanna þar heyrist lengra en frá nokkrum öðrum fossum á Íslandi. 

  Af:   www.thingeyri.is

 

 

Björn Ingi Bjarnason og Elfar Guðni Þórðarson, listmálari á Stokkseyri,

sem málað hefur fleiri Vestfjarðamyndir en flestir enda dvaldi hann vikum saman

að Sólbakka í Önundarfirði, fór um og málaði.

 

 

Skráð af Menningar-Staður

 

01.09.2016 07:18

Merkir Íslendingar - Lárus E. Sveinbjörnsson

 

 

Lárus E. Sveinbjörnsson.

 

Merkir Íslendingar - Lárus E. SveinbjörnssonLárus Edvard Sveinbjörnsson fæddist 31. ágúst 1834 þó að hann sé sagður fæddur 30. ágúst í kirkjubók.

Lárus var sonur Kristínar Cathrine Lauritzdóttur Knudsen, f. 27.4. 1813, d. 8.1. 1874, og Hans Edvards Thomsen, f. 3.7. 1807, d. 27.4. 1881, verslunarstjóra í Reykjavík og síðar kaupmanns í Vestmannaeyjum, en hann var kvæntur Katrínu systur Kristínar og vakti fæðing drengsins mikið umtal og hneykslun meðal Reykvíkinga. En árið 1840 varð Kristín seinni kona Þórðar Sveinbjörnssonar háyfirdómara, sem var 27 árum eldri en hún, og eignuðust þau saman átta börn, þar á meðal Sveinbjörn Sveinbjörnsson tónskáld. Þórður gekk Lárusi í föðurstað og ættleiddi hann og var hann því jafnan skrifaður Sveinbjörnsson.

Lárus varð stúdent frá Lærða skólanum 1855 og lauk lögfræðiprófi frá Kaupmannahafnarháskóla 1863. Hann var fyrst kennari hjá Blixen-Finecke barón í Danmörku um hríð en var settur sýslumaður í Árnessýslu 1866 og bjó á Eyrarbakka. Árið 1868 var hann settur sýslumaður í Húnavatnssýslu og bjó þá á Húsavík en 1874 varð hann sýslumaður í Gullbringu- og Kjósarsýslu og bæjarfógeti í Reykjavík. Árið 1878 varð hann dómari og dómsmálaritari í Landsyfirrétti og 1889 varð hann háyfirdómari þar til hann lét af störfum 1908. Þegar Landsbankinn var stofnaður 1. júlí 1886 varð Lárus fyrsti bankastjóri hans og gegndi því starfi til 1893. Hann var bæjarfulltrúi í Reykjavík 1882-1888 og konungkjörinn þingmaður 1885-1899.

Kona Lárusar var Jörgine Margarethe Sigríður Thorgrimsen, f. 25.4. 1849, d. 6.12. 1915, dóttir Guðmundar Torfasonar Thorgrimsen kaupmanns á Eyrarbakka, og k.h. Sylvíu Thorgrimsen. Á meðal barna þeirra var Jón Hjaltalín Sveinbjörnsson konungsritari.

Lárus lést 7. janúar 1910.

Morgunblaðið 31. ágúst 2016


Skráð af Menningar-Staður

31.08.2016 08:14

NÆRRI MILLJÓN FERÐAMENN FRÁ ÁRAMÓTUM

 

 

NÆRRI MILLJÓN FERÐAMENN FRÁ ÁRAMÓTUM

 

05.08.2016

Ferðamenn í júlí 2016

Um 236 þúsund erlendir ferðamenn fóru frá landinu í júlí síðastliðnum samkvæmt talningum Ferðamálastofu í Flugstöð Leifs Eiríkssonar eða 55 þúsund fleiri en í júlí á síðasta ári. Aukningin nemur 30,6% milli ára.

Heildarfjöldi ferðamanna frá áramótum er um 936 þúsund, eða 34,1% fleiri miðað við fjölda ferðamanna á tímabilinu janúar til júlí árið 2015.

Bandaríkjamenn og Þjóðverjar ríflega þriðjungur ferðamanna

10 fjölmennustu þjóðernin

Um 73% ferðamanna í nýliðnum júlí voru af tíu þjóðernum. Bandaríkjamenn voru fjölmennastir eða 25,7% af heildarfjölda en næstir komu Þjóðverjar, 10,7%. Þar á eftir fylgdu Bretar (7,7%), Frakkar (6,1%), Kanadamenn (5,2%), Svíar (3,8%), Danir (3,8%), Kínverjar (3,6%), Svisslendingar (3,1%) og Spánverjar (2,9%).

Sex þjóðernum fjölgaði mest í júlí. Þannig komu um 23.400 fleiri Bandaríkjamenn í júlí í ár en í júlí í fyrra, 5.200 fleiri Kanadamenn, 5.200 fleiri Þjóðverjar, 2.900 fleiri Svíar, 2.600 fleiri Bretar og 2.400 fleiri Frakkar. Þessar sex þjóðir báru uppi aukninguna í júlí að miklu leyti milli ára eða 75,2% af heildaraukningu.

Ferðamenn eftir markaðssvæðumSjöföldun N-Ameríkana frá 2010

Þegar litið er til fjölda ferðamanna í nýliðnum júlímánuði eftir markaðssvæðum má sjá nokkuð verulega fjölgun frá árinu 2010 frá sumum svæðum. Þannig hefur fjöldi ferðamanna frá N-Ameríku nærri sjöfaldast, fjöldi Breta þrefaldast og fjöldi Mið- og Suður Evrópubúa ríflega tvöfaldast. Fjöldi ferðamanna frá löndum sem lenda í hópnum ,,annað“ hafa nærri þrefaldast. Norðurlandabúum hefur hins vegar fjölgað minnst eða um 44,4% frá 2010.

Breytt samsetning eftir markaðssvæðum

Samsetning ferðamanan eftir markaðssvæðum

Samsetning ferðamanna eftir markaðssvæðum hefur breyst töluvert frá árinu 2010 eins og sjá má af myndinni hér til hliðar. Í júlí síðastliðnum voru Norður Ameríkanar 30,9% af heildarfjölda en hlutdeild þeirra var ekki nema 12,7% árið 2010. Hlutfall Mið- og Suður Evrópubúa og Norðurlandabúa hefur hins vegar lækkað verulega frá árinu 2010. Hlutdeild Breta og annarra markaðssvæða hefur hins vegar staðið í stað.

Ferðir Íslendinga utan

Um 55 þúsund Íslendingar fóru utan í júlí síðastliðnum eða 10.800 fleiri en árið 2015. Um er að ræða 24,3% fleiri brottfarir en í júlí 2015.

Nánari upplýsingar

Talningar Ferðamálastofu ná yfir allar brottfarir frá landinu um Leifsstöð. Skiptingu milli landa má sjá í töflunni hér að neðan og nánari upplýsingar undir liðnum Tölur og útgáfur / Fjöldi ferðamanna hér á vefnum.

Tafla yfir fjölda ferðamanna

 

Af www.ferdamalastofa.is


Skráð af Menningar-Staður

29.08.2016 06:48

Sameiginlegir framboðsfundir í Suðurkjördæmi

 

 

Alþingiskosningar munu fara fram laugardaginn 29. október 2016.

 

Sameiginlegir framboðsfundir í Suðurkjördæmi

 

Sjálfstæðismenn í Suðurkjördæmi munu í aðdraganda prófkjörsins, sem fer fram laugardaginn 10. september næstkomandi, standa fyrir sameiginlegum fundum með prófkjörsframbjóðendum.

 

Fundirnir fara fram á eftirfarandi stöðum:

Mánudaginn 29. ágúst kl. 12:00 á Hótel Dyrhólaey í Vík – súpufundur.
Mánudaginn 29. ágúst kl. 20:00 í Nýheimum á Höfn í Hornafirði.
Þriðjudaginn 30. ágúst kl. 20:00 í Safnaðarheiminu Dynskálum 8 á Hellu.
Miðvikudaginn 31. ágúst kl. 20:00 í Ásgarði í Vestmannaeyjum.
Fimmtudaginn 1. september kl. 20:00 í Tryggvaskála á Selfossi.
Mánudaginn 5. september kl. 20:00 á Nesvöllum í Reykjanesbæ.

Sjálfstæðisflokkurinn á Facebook

 

.

Tryggvaskáli á Selfossi.

.

 

.

 


Skráð af Menningar-Staður

28.08.2016 20:36

Danskur sunnudagur 28. ágúst 2016

 

 

 

Danskur sunnudagur 28. ágúst 2016

 

Danskur sunnudagur, 28. ágúst 2016, að Ránargrund á Eyrarbakka eins og verið hefur alla sunnudaga þessa öld.

 

Vitrustu menn telja að hvergi í veröldinni, utan Danaveldis, sé flaggað eins oft dönskum sem og að Ránargrund. 


Böðvar Gíslason, Flateyringur í Þorlákshöfn, er nafngjafi hússins Ránargrundar á Flötunum austast á Eyrarbakka. Þar tengir hann saman Ránargötu og Grundarstíg á Flateyri og þakka húsráðendur þessa frábæru nafngjöf enn og aftur.

 

.

Danskur að Ránargrund á Eyrarbakka.

.

 

 


Skráð af Menningar-Staður

28.08.2016 17:39

Bæjarins besta - 49. tölublað 12. desember 2009 -Upphaf Vestfirska forlagsins-

 

 

Hallgrímur Sveinsson bókaútgjefandi hjá Vestfirska forlaginu á Þingeyri.

 

Bæjarins besta - 49. tölublað 12. desember 2009  

-Upphaf Vestfirska forlagsins-

 

– Hallgrímur Sveinsson. Hvenær byrjaðirðu bókaútgáfu og hvað varð til þess?
 

„Þegar við vorum á Hrafnseyri var ég sífellt að kynna staðinn og segja fólki sögu Jóns Sigurðssonar. Því miður hefur það verið þannig gegnum tíðina, að fólk hefur séð Jón Sigurðsson sem standmynd steypta í eir á Austurvelli og nafnið Jón Sigurðsson forseti. Fæstir hafa hins vegar getað svarað því hvers vegna hann var kallaður forseti eða fyrir hvað hann stendur raunverulega í þjóðarsögunni.
 

Vegna hinnar almennu fáfræði um Jón forseta sem ég varð var við á Hrafnseyri sá ég þörfina á því að reyna að bæta þar úr með einhverjum hætti. Það hefur verið mjög algengur misskilningur allt til þessa dags, að Jón hafi verið fyrsti forseti Íslands. Jón var hins vegar forseti Kaupmannahafnardeildar Hins íslenska bókmenntafélags og þaðan fékk hann viðurnefnið forseti. Hann var kosinn til þess embættis að sjálfum honum forspurðum þegar hann var einu sinni sem oftar staddur á skipi úti á Atlantshafi á leið til Íslands. Raunar var hann líka löngum forseti Alþingis.
 

Árið 1994 var svo komið, að ég ákvað að setja saman alþýðlega bók um Jón forseta. Ekki kannski síst í minningu litlu fræðsluritanna sem hann sjálfur skrifaði fyrir íslenska sjómenn og bændur. Ég ákvað að skrifa bók sem væri ekki fræðirit heldur einfaldar staðreyndir um æviferil Jóns. Auðvitað voru til feiknarlegar bækur um hann sem fáir lásu, þar á meðal ævisaga hans eftir Pál Eggert Ólason prófessor í fimm hnausþykkum bindum, og síðan bækur eftir Lúðvík Kristjánsson og Einar Laxness og fleiri góða menn.
 

Einhvern veginn fann ég fyrir þessari þörf og skrifaði því þessa bók og gekk auðvitað í smiðju til allra þessara manna sem ég var að nefna. Ég minnist þess að Einar Laxness sagði við mig eitthvað á þá leið, að mér bæri skylda til þess að halda nafni Jóns á lofti sem staðarins manns. Ég er ekki frá því að þau orð hans hafi haft nokkur áhrif á mig. Ég fór svo í prentsmiðjuna Ísprent á Ísafirði og hitti þar góða menn og þeir prentuðu þessa bók fyrir mig. Ég lærði heilmikið af þeim mönnum enda vissi ég á þeim tíma varla hvað prentsmiðja var.
 

Bókin hefur verið endurprentuð og hefur verið í gangi allar götur síðan. Þessi frumraun mín í útgáfu lukkaðist bara nokkuð vel þó að á henni séu gallar eins og öðrum mannanna verkum. Henni hefur verið vel tekið. Hún var fyrst og fremst hugsuð fyrir almenning og ekki síst skólabörn.
 

Síðan þetta var eru nú bara liðin fimmtán ár (BIB innskot 22 ár. 1994 – 2016). Það eru núna fimmtán ár (BIB innskot, 22ár) frá því að Vestfirska forlaginu var formlega hleypt af stokkunum.
 

Næsta skrefið var að þýða bókina um Jón forseta á ensku. Það gerði sá góði maður og mikli enskumaður og ritstjóri, Hersteinn Pálsson. Alveg óaðfinnanleg þýðing.
 

Fyrir nokkru hitti ég Björn Davíðsson í Snerpu á Ísafirði og við vorum að rifja það upp að eitt af fyrstu verkunum hjá Snerpu var umbrotið á þessari bók og frágangur hennar til prentunar. Þessi fyrirtæki bæði, Vestfirska forlagið og Snerpa, eru alveg á sömu járnum hvað aldur varðar.“

Hluti viðtals Hlyns Þórs Magnússonar í Bæjarins besta við Hallgrím Sveinsson -  49. tölublað 12. desember 2009.

 


1/2 síðu auglýsing í Helgarpóstinum 19. desember 1994.
Skráð af Menningar-Staður

28.08.2016 08:28

Fundi fólksins er ætlað að efla lýðræðið í landinu

 

 

Við Norræna húsið í Reykjavík.

 

Fundi fólksins er ætlað að efla lýðræðið í landinu

 

Það má búast við líflegum umræðum þann 2. og 3. september næstkomandi þegar stjórnmálamenn hitta þjóðina á FUNDI FÓLKSINS við Norræna húsið. Slegið verður upp tjaldbúðum þar sem hin ýmsu félagasamtök, stjórnmálaflokkar, stofnanir og fyrirtæki verða með starfsemi og þjóðþekktir einstaklingar stjórna sjóðheitum umræðum. 

Um Fund fólksins má finna upplýsingar á Facebook.

 

Hátíðin er vettvangur til að virkja lýðræðið og brúa bilið milli stjórnmálamanna og fólksins í landinu. Í bland við líflegar umræður verða síðan tónlistaratriði og ýmsar uppákomur.
 

„Þetta er búin að vera afar ánægjuleg meðganga“, segir Ingibjörg Gréta Gísladóttir, verkefnastjóri hátíðarinnar. „tvöfalt fleiri þátttakendur taka þátt í hátíðinni í ár miðað við í fyrra en tæplega 80 þátttakendur eru skráðir til leiks með um 100 viðburði og fjölbreytt málefni“.

Fundur Fólksins er að norrænni fyrirmynd en slíkar hátíðir hafa verið haldnar í áratugi á hinum Norðurlöndunum. Upphaf þeirra má rekja til Olofs Palme, fyrrverandi forsætisráðherra Svíþjóðar sem þrátt fyrir að hafa lofað konunni sinni að ræða ekki pólitík í sumarfríinu árið 1967, gat ekki á sér staðið og var kominn uppá vörubílspall áður en hún gat snúið sér við að ræða málin. Í dag eru slíkar hátíðir haldnar árlega á öllum Norðurlöndum og er stærsti vettvangur umræðna um samfélagsmál.

„Hátíðin er einstaklega vel tímasett í ár, upptaktur kosninga og því má búast við fjörlegum umræðum“, útskýrir Ingibjörg Gréta, „við erum búin að vera í nánu samtali við alla stjórnmálaflokka, alþingismenn og forseta þingsins til að vinna að því að dagskrá þingsins skarist ekki á við FUND FÓLKSINS. Það er afar áríðandi að lýðræðis- og stjórnmálahátíð sem þessi sé vel sótt af stjórnmálamönnum og því allt kapp lagt á að slíkt verði“.

Dagskrána segir hún afar fjölbreytta, þannig verði á 30 mínútna fresti samtal við stjórnmálamann í stjórnmálabúðum hátíðarinnar. Í hinum tjöldum hátíðarinnar verði pallborðsumræður, kynningar, speed-date stjórnmálanna, pub-quiz, matreiðsla, sýnikennsla og spurningakeppni í bland við tónlistaratriði og aðrar uppákomur.
 

„Þetta er hátíð fyrst og fremst, sem stuðlar að því að efla lýðræðið í landinu með heiðarlegum umræðum um þau samfélagsmál sem brenna á þátttakendum og þá um leið þjóðinni“, útskýrir Ingibjörg Gréta. „Í hvernig samfélagi viljum við búa? Hvar viljum við forgangsraða? Hvernig viljum við leysa málin? Hvaða leiðir eru færar til velsældar og hvernig vinnum við að þeim? Þessum spurningum og fleirum verður svarað á hátíðinni og ég get lofað að það finna allir áhugaverð málefni og það besta er að allir geta haft áhrif á umræðuna“, segir Ingibjörg að lokum.

Sú nýlunda er í ár að ágrip af öllum umræðum verða gefin út eftir hátíðina svo þingmenn, fjölmiðlar og aðrir áhugasamir um samfélagsmál geti áttað sig á hvaða málefni vor rædd á hátíðinni. Einnig verður prentuðum útgáfum skilað inn á Þjóðarbókhlöðu til varðveislu svo sagnfræðingar framtíðarinnar og aðrir áhugasemir geti skoðað hvaða samfélagsmál brunnu á þjóðinni haustið 2016.

Engin hagsmunasamtök innlend eða erlend standa að hátíðinni. Norræna húsið stóð að baki fyrstu hátíðinni í fyrra, 2015 en í ár er það Almannaheill – samtök þriðja geirans sem er framkvæmdaaðili hátíðarinnar með stuðningi Velferðarráðuneytisins, Reykjavíkurborgar og Norræna hússins.


Af www.kvennabladid.isSkráð af Menningar-Staður

27.08.2016 19:22

Merkir Íslendingar- Finnur Magnússon

 

 


Finnur Magnússon (1781 - 1847)

 

Merkir Íslendingar- Finnur Magnússon

 

Finnur Magnússon fæddist 27. ágúst 1781 í Skálholti. Faðir Finns var Magnús Ólafsson lögmaður úr Svefneyjum og föðurbróðir Finns var Eggert Ólafsson náttúrufræðingur og skáld. Móðir Finns var Ragnheiður dóttir Finns Jónssonar biskups.

Finnur var í fóstri hjá Hannesi biskupi Finnssyni móðurbróður sínum og nam hjá honum skólavísindi og fór síðan til náms í Kaupmannahöfn. 

Finnur sneri til Íslands þegar faðir hans lést og árið 1806 var hann settur málafærslumaður við landsyfirréttinn í Reykjavík og var í því starfi þangað til Jörundur hundadagakonungur svipti hann embætti. Finnur fór þá til Kaupmannahafnar en þegar Jörundur var hrakinn frá völdum tók hann aftur við embætti sínu.

Árið 1812 fór hann aftur til Kaupmannahafnar.

 

Finnur varð prófessor og forstöðumaður leyndarskjalasafnsins í Kaupmannahöfn. Hann var etatsráð en það er tignarheiti án embættis. Finnur gegndi oft stöðu forseta eða varaforseta Kh. deildar Hins ísl. bókmenntafélags, hann var varaforseti Fornfræðafélagsins og fulltrúi Íslands á stéttaþingum. Hann var í miklu áliti meðal samtíðarmanna sinna og segir Benedikt Gröndal hann hafa verið frægan um öll lönd og hafa ekið með Alexander Humboldt og Jakob Grimm þegar þeir komu til Kaupmannahafnar.
 

Finnur rannsakaði það sem hann taldi rúnir í Runamo í Blekinge í Svíþjóð. Honum hugkvæmdist að lesa þær afturábak gegnum spegil og gat þannig lesið vísu. Hann skrifaði 750 blaðsíðna rit um rúnirnar í Runamo, en fékk mikla gagnrýni fyrir það verk og varð honum til aðhlátursefnis. Jarðvísindamenn telja að risturnar í Runamo séu jökulrákir.
 

Finnur kvæntist 6. nóvember 1821 Nikolínu Barböru Frydensberg, dóttur landfógeta en þau skildu 1836. Gröndal segir að Finni „létu betur vísindalegar rannsóknir og bókagrufl heldur en það praktíska líf“.
 

Finnur lést á aðfangadag 1847.

 

Morgunblaðið 27. ágúst 2016.

 

 

 

Skálholt, vatnslitamynd John Cleveley yngri frá 1772.

Meðal mynda frá ferðum hans með Joseph Banks um Ísland.

 Skráð af Menningar-Staður

27.08.2016 11:06

Sumarlokin í Laugabúð á Eyrarbakka

 

 

 

Sumarlokin í Laugabúð á Eyrarbakka

 


Jæja, gott fólk.


Þá fer nú að styttast í þessu sumrinu og þá förum við að huga að verslunarvertíðarlokum þetta sumarið. Þessi helgin, sem gengin er í garð, er síðasta opnunarhelgin í Laugabúð í sumar. Við verðum með eitthvað opið í haust þegar þannig liggur á okkur, en það verður allt óvænt.


Við vorum að fá þetta líka fína nafnspjald Laugabúðar beint úr prentsmiðjunni. Efri myndin er af Guðlaugi Pálssyni kaupmanni fyrir framan verslunina. Myndina tók Haraldur Blöndal ljósmyndari upp úr 1920. Neðri myndina tók Sigurður Bogi Sævarsson, blaðamaður og ljósmyndari, fyrir nokkrum árum af núverandi kaupmanni fyrir framan Laugabúð. Þökkum ljósmyndurunum fyrir lánið.


Hlökkum til að sjá ykkur og rétt að geta þess að við erum að taka upp nýjar vörur í dag.


Kveðja,


kaupmaðurinn og lagerstjórinn.


Af Facebook-siðu Laugabúðar.Skráða f Menningar-Staður

27.08.2016 10:43

100 ára afmæli ASÍ - Árbæjarsafn

 

 

 

100 ára afmæli ASÍ - Árbæjarsafn

Afmælisboð ASÍ á Árbæjarsafni

laugardaginn 28. ágúst 2016 kl. 13 -16 – frítt inn

 

Alþýðusamband Íslands fagnar 100 ára afmæli í ár og einn liður í að minnast þeirra tímamóta er afmælisboð ASÍ í Árbæjarsafni þann 28. ágúst nk. Alþýðusambandið býður upp á fjölbreytta dagskrá í safninu sem bregður birtu á aðstæður og aðbúnað íslensks verkafólks á síðustu öld. Boðið verður upp á leiðsagnir, ratleik, þvottaburð, kassabílaakstur auk þess sem börnin fá stutta ferð á hestbaki. Þorskur verður þurrkaður á túni, Lummur bakaðar í Hábæ, prentari, skósmiður og gullsmiður taka á móti gestum á verkstæðum sínum og Lúðrasveit verkalýðsins gleður gesti með spilamennsku sinni.

 

Leiðsagnir:

 

Kl. 13 – Baráttan um brauðið

Henný Hinz, hagfræðingur ASÍ og fimm barna móðir
Skoðuð verða áhrif þeirrar lífskjarabyltingar sem barátta verkalýðshreyfingarinnar hefur skilað undanfarna öld á neysluhætti almennings. Hagstærðir fortíðar settar í samhengi við nútímann.

 

Kl. 14 – Hjáverk kvenna

Maríanna Traustadóttir, mannfræðingur og jafnréttisfulltrúi ASÍ: 
Varpað verður ljósi á frumkvæði og hugmyndarauðgi kvenna við atvinnusköpun á síðustu öld. Með tekjuöflun sinni náðu þær að skapa betri aðstæður fyrir sig og sína.

 

Kl. 15 - Húsnæðismál

Halldór Grönvold, vinnumarkaðsfræðingur og áhugamaður um verkalýðssögu:
Varpað verður ljósi á húsnæðisvanda verkafólks síðustu hundrað ár. Birtingarmyndir, þróunina og baráttu verkalýðshreyfingarinnar fyrir mannsæmandi húsnæði á viðráðanlegu verði.


Aðgangur er ókeypis.

Af www.asi.is


Skráð af Menningar-Staður