Menningar-Bakki * Viðhalda og efla þjóðlega menningararfleið til sjávar og sveita*
-------- Alþýðuhúsið á Eyrarbakka - Vinir alþýðunnar - Á undan sinni framtíð --- "Stærra í hugum okkar en við sjálfir gerum okkur grein fyrir" ---

24.07.2021 07:52

Guðrún Steinþórsdóttir - Fædd 1. mars 1938 - Dáin 14. júlí 2021 - Minning

 


Guðrún Steinþórsdóttir (1938 - 2021).

 

 

Guðrún Steinþórsdóttir - Fædd 1. mars 1938 -

 

 

Dáin 14. júlí 2021 - Minning

 

 

Guðrún Sigríður Steinþórsdóttir fædd­ist á Brekku í Þing­eyr­ar­hreppi í Dýraf­irði þann 1. mars 1938. Hún lést á Tjörn, dval­ar­heim­ili aldraðra á Þing­eyri, 14. júlí 2021.

 

Guðrún var dótt­ir hjón­anna Steinþórs Árna­son­ar frá Brekku, bónda og sjó­manns, f. 22. ág­úst 1902, en hann féll í skotárás á línu­veiðarann Fróða 10. mars 1941, og Ragn­heiðar Stef­áns­dótt­ur hús­freyju, f. 27. októ­ber 1911, d. 28. nóv­em­ber 1985. Systkini Guðrún­ar eru Steinþór Sverr­ir, vél­stjóri á Ísaf­irði, sem lést af slys­för­um 16. októ­ber 2008, f. 9. júlí 1939, Gunn­ar Steinþór, raf­virkja­meist­ari á Ísaf­irði, nú bú­sett­ur í Mos­fells­bæ, f. 25. ág­úst 1941, og Sig­ríður Krist­ín Lýðsdótt­ir, banka­starfsmaður í Reykja­vík, f. 28. nóv­em­ber 1951.

 

Guðrún gift­ist 28. júní 1964 Hall­grími Sveins­syni, f. 28. júní 1940, d. 16. fe­brú­ar 2020, fyrr­ver­andi skóla­stjóra á Þing­eyri, staðar­hald­ara á Hrafns­eyri og bóka­út­gef­anda Vest­firska for­lags­ins. For­eldr­ar hans voru Hanna Krist­ín Guðlaugs­dótt­ir hús­freyja, f. 25. sept­em­ber 1911 á Snældu­beins­stöðum í Reyk­holts­dal, Borg­ar­f­irði, d. 1997, og Sveinn Jóns­son húsa­smiður, f. 24. apríl 1885 frá Sauðtúni í Fljóts­hlíð, d. 1957. Guðrún og Hall­grím­ur voru barn­laus.

 

Guðrún út­skrifaðist úr Hús­mæðraskóla Reykja­vík­ur 1957 og starfaði sem matráðskona m.a. á for­seta­setr­inu á Bessa­stöðum og Héraðsskól­an­um á Núpi.

 

Guðrún og Hall­grím­ur voru bænd­ur og staðar­hald­ar­ar á Hrafns­eyri við Arn­ar­fjörð, fæðing­arstað Jóns Sig­urðsson­ar for­seta, í rúm 40 ár frá 1964 til 2005, og sáu um vörslu og um­hirðu staðar­ins fyr­ir hönd Hrafns­eyr­ar­nefnd­ar. Guðrún var í sókn­ar­nefnd Hrafns­eyr­ar­kirkju. Einnig var hún með fjár­bú­skap á Brekku í Dýraf­irði í mörg ár eft­ir bú­skap­ar­lok á Hrafns­eyri.

 

Útför Guðrún­ar verður gerð frá Þing­eyr­ar­kirkju í dag, 24. júlí 2021, og hefst at­höfn­in klukk­an 14.


_____________________________________________________________________________________________________


 

Minningargreinar í Morgunblaðinu 24. júlí 2021

 

 

Elsku Gulla mín,

 

Minn­ing­arn­ar eru svo ótalmarg­ar. Öll árin á Hrafns­eyri og svo á Brekku, vor­in í sauðburðinum og æðar­varp­inu, heyskap og smala­mennsku, þar sem við deild­um bæði sorg og gleði.

 

Fyr­ir rúmu ári hrundi til­vera þín er þú misst­ir klett­inn í lífi þínu er Hall­grím­ur okk­ar lést mjög skyndi­lega og reynd­ist það þér of­raun en þú varst þá fyr­ir orðin heilsu­veil.

 

Ég er þakk­lát fyr­ir að hafa fengið tæki­færi til að vera með þér og tekið þátt í umönn­un þinni síðastliðna tvo mánuði á hjúkr­un­ar­heim­il­inu Tjörn á Þing­eyri en þar eydd­ir þú síðasta ævikvöld­inu.

 

Þú ferð var­lega yfir vaðið á leiðinni heim og guð fylgi þér Gunna mín, sagðir þú gjarn­an er ég kvaddi þig við vaktlok.

 

Ég bið guð að fylgja þér hjartað mitt og þakka þér fyr­ir allt sem þú hef­ur kennt mér og deilt með mér og fjöl­skyldu minni gegn­um lífið.

 

Þín nafna

 

Guðrún Steinþórs­dótt­ir (yngri).

 

---------------------------------------------

 

Þegar komið er norður yfir Hrafns­eyr­ar­heiði ligg­ur þjóðleiðin ofan við túnið á hinu forna býli Brekku í Brekku­dal í Þing­eyr­ar­hreppi. Þar bjuggu búi á önd­verðri öld­inni sem leið hjón­in Árni Guðmunds­son, stýri­maður frá Ánanaust­um í Reykja­vík, og Guðrún Mar­grét Júlía Steinþórs­dótt­ir, klæðskeri frá Brekku. Þarna var tví­býlt og bjuggu á móti þeim Árna og Guðrúnu hjón­in Soffía Ásgeirs­dótt­ir frá Bol­ung­ar­vík og Andrés Guðmunds­son frá Brekku og voru þau Guðrún og Andrés hálf­systkina­börn.

 

Börn Árna og Guðrún­ar voru fimm: Guðmunda Ágústa, hús­freyja á Þing­eyri, faðir henn­ar var Jón Jó­hanns­son sjó­maður þar; Steinþór, bóndi á Brekku, faðir Guðrún­ar, sem hér er minnst; Gunn­ar skip­stjóri á Brekku; Gyða Ólafía, kjóla­meist­ari og ann­ar eig­andi Par­ís­ar­tísk­unn­ar í Reykja­vík; og yngst var Áslaug hús­freyja í Þor­bergs­húsi á Þing­eyri.

 

11. mars 1941 varð sá hörm­ung­arat­b­urður að þýsk­ur kaf­bát­ur réðst á línu­veiðarann Fróða ÍS 454 frá Þing­eyri um 200 sjó­míl­ur suðaust­ur af Vest­manna­eyj­um. Í skot­hríðinni sem stóð með hlé­um í fulla klukku­stund féllu fimm skip­verj­ar: Steinþór, faðir Guðrún­ar, Gunn­ar skip­stjóri, föður­bróðir henn­ar, Guðmund­ur móður­bróðir henn­ar frá Hól­um í Þing­eyr­ar­hreppi, Gísli, bróðir Andrés­ar á Brekku og Sig­urður V. Jör­unds­son stýri­maður frá Hrís­ey.

 

Dótt­ur­dótt­ir Árna og Guðrún­ar, þá á fjórða ár­inu, minn­ist þess er síra Sig­urður Z. Gísla­son á Þing­eyri gekk heim túnið á Brekku að flytja fólk­inu þessa sorg­ar­fregn.

 

Og árin líða. Guðrún gekk að eiga góðan dreng, Hall­grím, kenn­ara og skóla­stjóra á Þing­eyri, Sveins­son, bónda á Hrafns­eyri og Brekku. Þau hjón voru staðar­hald­ar­ar á Hrafns­eyri í rúm 40 ár og buðu æv­in­lega upp á mynd­ar­legt kirkjukaffi eft­ir embætti hjá hinum ógleym­an­lega síra Stefáni sæla Eggerts­syni, sókn­ar­presti á Þing­eyri. Mat prest­ur Guðrúnu enda mik­ils, en þótti að vísu sá ljóður á ráði henn­ar, að hún skyldi ein­lægt þurfa að bar­dúsa í kokk­hús­inu rétt á meðan hann væri að syngja mess­una.

 

Þótt Guðrún væri viðbrigðagest­ris­in og ynni góðan beina hverj­um sem að garði bar, hafði enda starfað fyr­ir inn­an stokk hjá Ásgeiri for­seta á Bessa­stöðum, frænda sín­um af Vigurætt, hélt hún samt þeim sið fyrri hús­freyja í land­inu að setj­ast ekki sjálf til borðs, held­ur stóð hún og horfði þögul og al­var­leg í bragði á það sem fram fór.

 

Svo seg­ir í Land­náma­bók, að Gré­löðu hinni írsku, konu Ánar rauðfelds, þess er bú gerði á Eyri við Arn­ar­fjörð, hafi þótt þar hun­angsilm­ur úr grasi. Und­ir það mun Guðrún Steinþórs­dótt­ir hafa tekið heils hug­ar. Hún var fædd­ur bóndi, sem kallað er; þekkti hverja kind og hafði þessa var­færnu hönd sem gríp­ur mjúk­lega um hornið á ánni neðst svo að brotni ekki; natin vöku­kona æðar­varps; verksígjörn með af­brigðum að hverju sem gekk og stór­gjöf­ul.

 

Í mik­illi þökk og bæn er Guðrún Steinþórs­dótt­ir kært kvödd. Guð gefi frið yfir legstað henn­ar og bless­un yfir end­ur­fundi henn­ar við þau, sem á und­an henni eru far­in af þess­um heimi. Guð blessi minn­ingu henn­ar og ást­vin­ina alla.

 

Gunn­ar Björns­son,

pastor emer­it­us.

____________________________________________________________________________Minningarorð Dýrfirðingsins Bjarna Guðmundssonar, 

 

Hvanneyri - á Facebooksíðu hans í dag.


 

.
.

.


Hrafnseyri við Arrnarfjörð.

.

Skráð af Menningar-Bakki.